Hæstiréttur íslands

Mál nr. 457/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Þriðjudaginn 8

 

Þriðjudaginn 8. nóvember 2005.

Nr. 457/2005.

Ákæruvaldið

(Jón Eysteinsson sýslumaður)

gegn

X

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Talið var að með útgáfu ákæru í opinberu máli á hendur X hefði ákæruvaldið tekið afstöðu til sakarefnisins samkvæmt mati sínu á fyrirliggjandi sönnunargögnum. Fælist því í ákærunni fullyrðing um málsatvik og yrði málinu því hvorki vísað frá dómi vegna óskýrleika í máltilbúnaði ákæruvalds né af öðrum þeim ástæðum sem héraðsdómari tilgreindi. Var hinn kærði frávísunarúrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2005, þar sem máli ákæruvaldsins á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðili kveðst ekki gera athugasemd við að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en hefur ekki uppi kröfu þar að lútandi. Hann gerir á hinn bóginn kröfu um að sér verði dæmdur kærumálskostnaður.

Ákæra í málinu er rakin orðrétt í hinum kærða úrskurði. Ákærða er í málinu gefið að sök að hafa sem fyrirsvarsmaður tveggja íslenskra einkahlutafélaga brotið gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga með því að hafa á nánar tilteknu tímabili ráðið að minnsta kosti sex útlendinga til starfa í byggingavinnu hér á landi, á vegum nafngreinds félags, án þess að þeir væru með atvinnuleyfi á Íslandi. Samkvæmt framangreindu er ætlaðri háttsemi ákærða lýst með þeim hætti að ekki getur farið á milli mála hvað honum er gefið að sök. Ákærði hefur gefið þær skýringar á veru umræddra manna hér á landi að þeir hafi starfað hér á vegum dansks félags, sem ákærði sé í fyrirsvari fyrir, og hafi tilgangur dvalar þeirra hér á landi verið að sinna tilteknu verkefni fyrir félagið. Mennirnir hafi hins vegar unnið við önnur störf þegar hlé hafi orðið á verkefninu. Þessar skýringar ákærða lágu fyrir strax í upphafi rannsóknar ákæruvalds á ætluðum brotum hans. Þrátt fyrir þetta gaf ákæruvaldið út ákæru á hendur honum þar sem horft var framhjá þessum skýringum og er af hálfu ákæruvaldsins augljóslega á því byggt að ákærði hafi, hvað sem líður starfsemi áðurnefnds dansks félags, ráðið umrædda útlendinga til vinnu í þágu þeirra tveggja félaga sem áður er minnst á og að þeir hafi starfað allan tímann við byggingarvinnu á vegum nafngreinds félags. Verður ekki annað séð en að með þessu hafi ákæruvaldið tekið afstöðu til sakarefnisins samkvæmt mati sínu á fyrirliggjandi sönnunargögnum. Felst því í ákærunni fullyrðing um málsatvik og verður málinu því hvorki vísað frá dómi vegna óskýrleika í málatilbúnaði ákæruvalds, né af öðrum ástæðum sem héraðsdómari tilgreinir. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðarHinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2005.

                Mál þetta, sem dómtekið var 5. október sl., er höfðað með ákæru sýslumannsins í Keflavík 6. desember 2004 gegn X, [kt. og heimilisfang], „fyrir brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga með því að hafa á tímabilinu frá því í september 2002, sem fyrirsvarsmaður A ehf., [kt.] og B ehf., [kt.], ráðið í vinnu til sín a.m.k. 6 útlendinga þá:

C, fæddur 11. apríl 1957,

D, fæddur 22. júní 1973,

E, fæddur 4. júní 1971,

F, fæddur 7. október 1966,

G, fæddur 15. maí 1977 og

H, fæddur 29. ágúst 1962,

alla með ríkisfang í Litháen, til starfa við byggingavinnu hér á landi á vegum I ehf., en þeir störfuðu með stuttum hléum yfir jól og hluta júlí og ágústmánaðar, til september 2003, þrátt fyrir að enginn þeirra væri með atvinnuleyfi á Íslandi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 4. gr., sbr. 15. gr. laga nr. 133/1994 um atvinnuleyfi útlendinga og frá 1. janúar 2003 við 2. mgr. 6. gr. sbr. 17. gr nýrra laga um atvinnuréttindi útlendinga laga nr. 97/2002 sbr. ákvæði til bráðabirgða.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

                Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa.  Málsvarnarlauna er krafist.

I.

                Ákærði stofnaði ásamt öðrum félagið J I/S í Danmörku þann 15. júlí 2002.  Félagið keypti dekkjaverksmiðju í [...] og stóð til að taka hana niður og flytja til Danmerkur og setja hana þar upp.  Í því skyni fékk J I/S atvinnuleyfi í Danmörku fyrir þá sex Litháa sem getið er um í ákæru.  Ákærði fylgdi þeim til Íslands og kvaðst hafa framvísað vegabréfum þeirra og öðrum gögnum hjá landamæravörðum sem hafi tekið ljósrit af gögnunum, meðal annars atvinnuleyfi þeirra í Danmörku.  Í atvinnuleyfi Litaháana kemur fram að þeir hafi allir atvinnuleyfi í Danmörku frá 18. september 2002 til 18. mars 2003 nema G en hans leyfi er frá 25. september 2002 til 25. mars 2003.

                Fram hefur komið í málinu að leyfið gilti til þess dags er nýrri umsókn var hafnað í Danmörku en það var 13. nóvember 2003.

                Ákærði taldi að hann hefði leyfi til þess að láta mennina starfa hérlendis á grundvelli EES-samningsins.  Hafi hann meðal annars grennslast fyrir um það hjá Vinnumálastofnun sem hafi sent honum svar í tölvupósti.  Það svar hafi hann skilið svo að þeir sem væru með gilt atvinnuleyfi á Schengensvæðinu hjá fyrirtæki með starfsstöð innan þess mættu starfa hvar sem er á svæðinu.

                Litháarnir hafi byrjað að vinna við niðurrif verksmiðjunnar í [...] skömmu eftir að þeir hafi komið til landsins.  Hafi þeir unnið við það verk fram að áramótum en farið heim til sín um jólin.  Eftir áramót hafi verkið tafist af ýmsum ástæðum og þeir orðið verklausir.  Ákærði var á þessum tíma undirverktaki hjá I ehf. sem er byggingarfyrirtæki.  Ákærði er rafvirkjameistari en segist einnig taka að sér ýmis verk varðandi byggingar, eins og til dæmis járnabindingar.  Þá starfi hann jafnan sem undirverktaki.

                Þegar Litháarnir hafi verið orðnir verklausir vegna tafa á framkvæmdum í [...] kvaðst ákærði hafa fengið þá til þess að vinna í almennri byggingarvinnu við framkvæmdir á vegum I ehf.  Hafi hann gert það til þess að minnka skaðann hjá sér. Í framhaldinu hafi mál æxlast þannig að verkefnið í [...] hafi ekki haldið áfram og Litháarnir þá unnið í framangreindri byggingarvinnu fram í september 2003.  

                Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóm auk ákærða fyrirsvarsmenn I ehf., þeir K, L og M.

II.

                Í ákæru segir að ákærði hafi sem fyrirsvarsmaður A ehf. og B ehf. ráðið í vinnu til sín sex útlendinga.  Í gögnum málsins kemur hins vegar fram að J I/S gerði ráðningarsamning við sexmenningana.  Í ákæru er sagt að þeir hafi verið ráðnir til starfa við byggingarvinnu á vegum I ehf. frá því í september 2002 með hléum fram í september 2003 en hið rétta er að þeir unnu fyrir áramót við niðurrif verksmiðju í [...] en það verk var ekki á vegum I ehf.  Þetta atriði gæti skipt máli við túlkun á því hvort lög nr. 54/2001 eigi við í málinu en þau fjalla um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja.  Þá er nokkuð á reiki í málinu á hvaða tíma hver og einn þeirra vann við framkvæmdir á vegum I ehf. en forsvarsmenn félagsins treystu sér ekki í skýrslum sínum fyrir dómi að slá neinu föstu um það.

                Samkvæmt framansögðu verður talið að slíkir annmarkar séu á ákærunni að vísa beri málinu frá héraðsdómi, sbr. 1. málslið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

                Kostnaður sakarinnar er enginn fyrir utan málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Jóns Einar Jakobssonar hdl., sem ákveðast 350.000 krónur og er þá meðtalinn virðisaukaskattur. 

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Ákæru í máli þessu er vísað frá dómi.

                Málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Jóns Einars Jakobssonar hdl., 350.000 krónur greiðast úr ríkissjóði.