Hæstiréttur íslands

Mál nr. 666/2006


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 31

 

Fimmtudaginn 31. maí 2007.

Nr. 666/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Ingólfi Elíeserssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Miskabætur.

I var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa tvisvar sinnum haft samræði við Z þroskaheftan starfsmann á hæfingarstöð fyrir fatlaða einstaklinga, en I starfaði þar sem stuðningsfulltrúi, og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegra annmarka. Af geðrannsókn og gögnum málsins var talið ótvírætt að ákvæði 15. gr. almennra hegningarlaga ættu ekki við um hagi I og var brot hans, með vísan til 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga, talið varða við 2. mgr. 194. gr. og 197. gr. þeirra. Refsing I var talin hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og var honum einnig gert að greiða Z 800.000 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 13. desember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst refsiþyngingar.

Ákærði krefst þess að refsing verði felld niður eða hún skilorðsbundin. Þá krefst hann þess aðallega að kröfu Z verði vísað frá dómi, en til vara að krafan verði lækkuð.

Í yfirlýsingu ákærða um áfrýjun 11. desember 2006 er ekki tekið fram að áfrýjað sé í því skyni fá hnekkt niðurstöðu héraðsdóms um kröfu Z. Kemur krafan því ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 151. gr. og 1. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum.

I.

Ákærði er sakaður um kynferðisbrot með því að hafa mánudaginn 5. september 2005 á þáverandi dvalarstað sínum í Reykjavík tvisvar sinnum haft samræði við þroskaheftan starfsmann á [...], sem er hæfingarstöð fyrir fatlaða einstaklinga, en ákærði starfaði þar sem stuðningsfulltrúi, og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegra annmarka.

Í ákæru eru ætluð brot ákærða heimfærð undir 196. gr. og 197. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. og 5. gr. laga nr. 40/1992. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms var þessum ákvæðum breytt með lögum nr. 61/2007. Fer því um dóm vegna ætlaðra brota eftir 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

Nokkur ný skjöl um andlega hagi ákærða hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Í gögnum frá geðdeild barnaspítala Hringsins frá júlí 1976 kemur fram að héraðslæknir í heimabyggð ákærða hafi vísað honum, þá 15 ára gömlum, til geðdeildarinnar vegna hræðslukasta, námserfiðleika og félagslegrar einangrunar. Við sálfræðileg próf mældist greindarvístala hans um 65 stig, sem taldist við efri mörk vangefni. Var þá talið að hann væri í brýnni þörf fyrir meðferð. Í geðrannsókn Tómasar Zoëga geðlæknis 11. maí 2007, en hann var dómkvaddur 23. mars sama ár til að meta andlega hagi ákærða að beiðni hans, kemur fram að greind ákærða hafi í klínísku viðtali verið metin í löku meðallagi. Í athugun Eiríks Líndal sálfræðings, sem geðlæknirinn kvaddi sér til aðstoðar, kemur fram að allmikið ósamræmi hafi verið milli getu hans á munnlegum og verklegum þáttum í greindarprófum. Helstu vandamálin hafi verið skortur á stærðfræðikunnáttu og almennri þekkingu, en ákærði lesi ekkert og skrifi ekki heldur, svo og erfiðleikar við að skilja orsök og afleiðingu athafna. Mældist munnleg geta hans 75 stig en verkleg 100 stig og greindarvísitala í heild 85 stig, sem sé slök meðalgreind. Taldi sálfræðingurinn þetta í fullu samræmi við útkomuna 1976 að teknu tilliti til áhrifa skólagöngu, atvinnureynslu og aukins þroska ákærða síðan. Í niðurstöðu matsmannsins segir að hann telji ákærða ekki haldinn geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnun, rænuskerðingu eða öðru samsvarandi ástandi sem orðið hafi til þess að hann sé ófær um að stjórna gerðum sínum. Þá hafi greind hans ekki áhrif á getu hans til að stjórna gerðum sínum. Engar læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því að refsing geti borið árangur verði ákærði sakfelldur.

II.

Af framangreindri niðurstöðu geðrannsóknar á ákærða og gögnum málsins að öðru leyti er ótvírætt að ákvæði 15. gr. almennra hegningarlaga eiga ekki við um hagi hans. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Verður brot hans, með vísan til 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga, talið varða við 2. mgr. 194. gr. og 197. gr. þeirra, sbr. 3. gr. og 6. gr. laga nr. 61/2007.

Ákærði hefur ekki áður verið sakfelldur fyrir refsiverða háttsemi. Brot hans var alvarlegt og er sérstök þörf á að einstaklingar sem brotaþoli lifi í vernduðu umhverfi. Af héraðsdómi verður ráðið að dómendur hafa við úrlausn sína miðað við að ákærði væri nálægt meðallagi í færni. Af gögnum þeim sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt og að framan eru rakin verður þó ráðið að nokkuð skorti þar á og að félagsleg hæfni hans sé slæm. Við ákvörðun refsingar verður engu að síður að taka tillit til þess að hann starfaði við að leiðbeina brotaþola og misnotaði það traust sem hún bar til hans vegna starfa hans. Þegar alls þessa er gætt er refsing ákærða hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi. Vegna alvarleika brots ákærða eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Ákvæði héraðsdóms um miskabætur til handa brotaþola og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ingólfur Elíesersson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 600.750 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2006.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 1. september sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 30. mars 2006 á hendur Ingólfi Elíeserssyni, ... Reykjavík ,,fyrir kynferðisbrot með því að hafa mánudaginn 5. september 2005 á þáverandi dvalarstað sínum á gistiheimili Hjálpræðishersins að Kirkjustræti 2, Reykjavík, tvisvar sinnum haft samræði við Z, kennitala [...], þroskaheftan ... einstakling, en ákærði starfaði þar sem stuðningsfulltrúi, og notfærði ákærði sér það að Z gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegra annmarka sinna “.

Telur ákæruvaldið þessa háttsemi varða við 196. gr. og 197. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4 gr. og 5. gr. laga nr. 40/1992. Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verið dæmdur til refsingar.

Af hálfu A f.h. Z, er krafist miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 9. september 2005 til 28. nóvember 2005 en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags auk greiðslu þóknunar vegna lögmannsaðstoðar.

Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvaldsins og að bótakröfu verði vísað frá dómi.

Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málsatvik.

    Faðir Z, A, lagði fram kæru á hendur ákærða, föstudaginn 9. september 2005, fyrir meint kynferðisbrot gegn dóttur hans, sem er þroskaheft. Í kæru hans kemur fram að hann hafi fyrst heyrt af málinu 5. september 2005 en þann dag hafi C, sambýlismaður Z, hringt í móður Z, B, og sagt henni að Z væri ekki komin heim. Hafi B reynt að ná í Z en hún hafi ekki svarað í símann. Z hafi svo hringt um klukkan 21:00 til þess að láta vita að hún væri komin heim. Z hafi sagt að hún hefði verið niðri í bæ að skoða sig um en móðir hennar ekki trúað því og síðar hefði K sagt móður Z það sem Z sagði C að gerst hefði þetta kvöld. Í framhaldinu hafi kærandi rætt við V, staðgengil forstöðumanns ..., og ákveðið hefði verið að María Jónsdóttir, félagsráðgjafi hjá Styrktarfélagi vangefinna, ræddi við hana um meinta háttsemi ákærða. Í framhaldinu hafi verið tekin ákvörðun um að kæra ákærða fyrir refsiverðan verknað. 

Á meðal gagna málsins er greinargerð Maríu Jónsdóttur félagráðgjafa. Þar kemur fram að ásökun Z hafi komið ákærða mjög á óvart er rætt var við hann. Kvaðst hann hafa verið við störf á verkstæði fram eftir kvöldi.

Í samtali við Z greindi hún Maríu svo frá að ákærði hafi komið til hennar í gróðurhúsinu og hvíslað að henni hvort hún vildi koma með honum heim. Hún hafi sagt ,,stórt nei”. Hann hafi spurt hvort hann mætti sækja hana á æfingu en hún hafi svarað því sama. Hann hafi þá spurt hvenær hún væri búin og hafi hún þá tjáð honum að hún væri í Hagaskóla og búin kl. 18:00. Hún hafi farið á æfingu og þegar henni lauk hafi hún séð ákærða á bíl sínum fyrir utan og hafi hún þá sagt ,,ertu kominn?” Hann hafi spurt hana hvort hún vildi koma með sér heim og hún hafi fyrst svarað því neitandi en síðan sagt já. Hún kvaðst ekki vera hrifin af ákærða en kvað forvitni hafa rekið hana áfram og einnig hafi verið gott að fá far heim. Hún hafi líka verið hrædd. Heima hjá ákærða hafi hann boðið henni nudd og síðan byrjað að kyssa hana á munninn. Hún hafi sagt ,,stopp, hættu þetta er búið”. Ákærði hafi verið allsber og vildi að hún klæddi sig úr líka. Hann hafi rennt niður rennilásnum á buxunum hennar og reynt að setja hendurnar inn fyrir. Kvaðst Z hafa öskrað hátt að hún vildi þetta ekki. Ákærði hafi beðið hana um að snerta á sér bakið. Hann hafi viljað hafa við hana samfarir en hún hafi ekki viljað vera með honum. Hún hafi verið hrædd og sagt honum að hætta. Hann hafi svo hætt og boðist til að keyra hana heim. Hann hafi þó ekki ekið henni alla leið heim svo að S kærastinn hennar sæi ekki bílinn út um gluggann þegar þau kæmu.

Í lögregluskýrslu, sem tekin var af Z 14. október 2005, lýsti hún því að ákærði hefði beðið hana um að koma með sér heim, er þau voru stödd í gróðurhúsinu í ..., 5. september 2005. Hún sagði að hún hefði átt að segja nei við hann, en það hefði ekkert þýtt. Hún hefði svo farið á fótboltaæfingu í Hagaskóla milli kl. 17 og 18 og er henni lauk, hafi hún séð að ákærði beið eftir henni fyrir utan. Hann hafi spurt hvort hún vildi koma heim til hans og hún farið upp í bíl til ákærða. Hann hafi ekið henni að Hjálpræðishernum, þar sem hann hafi búið. Er þau voru komin inn í herbergi ákærða, hafi hann beðið hana um að fara úr öllum fötunum, en hún hafi sagt nei í fyrstu, en síðan klætt sig úr fötunum. Hann hafi þá byrjað að káfa á brjóstum hennar og kynfærum og hún hafi lagst í rúmið. Hann hafi þá sett typpið í leggöng hennar og hafi henni fundist það vont og beðið hann að hætta og reynt að ýta honum af sér. Ákærði hafi haldið henni fastri og fengið sáðlát í leggöng hennar. Síðan hafi ákærði ekið henni heim, en látið hana fara úr bílnum töluverðan spöl frá heimili hennar. Z kvað ákærða ekki hafa notað smokk og hann hafi ,,látið allt sæðið inn í píkuna”. Kvað hún sæði hafa komið úr píkunni á sér þegar ákærði var búinn. Kvað hún sér hafa liðið ,,dálítið illa í hjartanu” eftir þetta.  Ákærði hafi ekki beðið hana að þegja yfir því sem gerðist.

Lögregluskýrsla var tekin af ákærða 19. október 2005. Hann sagði það rétt að þau Z hefðu haft kynmök, en þau hefðu verið með hennar vilja. Hún hafi sýnt honum kynferðislegan áhuga í vinnunni og ítrekað sagst elska hann. Umræddan dag hafi ákærði verið staddur fyrir utan hús Hjálpræðishersins og hitt hana þar. Hún hafi sagt að einhverjir rónar væru á eftir henni og hefðu verið að meiða hana. Hafi þá ákærði boðið henni upp á herbergið sitt. Þar hefði Z sýnt ákærða kynferðislegan áhuga og byrjað að klæða sig úr. Þau hafi svo haft samfarir í rúminu og ákærði fengið sáðlát í leggöng hennar. Þegar þau hafi farið að klæða sig hafi ákærði séð hvernig hegðun hennar breyttist og hafi hún viljað vera lengur með ákærða. Hann hafi hins vegar ekið henni heim á bílnum sínum. Spurður um það hvort rétt væri að ákærði hefði náð í Z á íþróttaæfingu í Hagaskóla þennan dag, kvað ákærði það ekki rétt.

Í lögregluskýrslu, sem tekin var af ákærða 28. október 2005, kvaðst ákærði vilja breyta fyrri framburði sínum varðandi það hvar hann hitti Z umræddan dag. Hann  kvað Z hafa beðið hann um að ná í sig í íþróttahúsið við Hagaskóla og hafi hann samþykkt það. Hann hafi náð í hana þangað um kl. 18.00 og þau hafi farið heim til ákærða á herbergi hans á Hjálpræðishernum. Ákærði ítrekaði hins vegar að samfarirnar hefðu verið með fullu samþykki Z, en að hún hefði orðið fúl þegar ákærði fór að ræða um hvort ekki væri skynsamlegt að hann keyrði hana heim.

Í læknisvottorði Ólafs Mixa heimilislæknis, dagsettu 3. apríl 2001, er lagt mat á starfshæfni Z. Í því er sjúkrasaga hennar rakin svo: ,,Z hefur verið með örorku frá TR allt frá því að hún varð stálpuð. Um er að ræða misþroska sem hefur gert henni ókleift að afla sér þjálfunar eða menntunar og seinna að sjá sér farborða sjálf. Hún býr með öryrkja sem svipað er ástatt um. Þau starfa hjá Öryrkjabandalaginu. Þau fá aðstoð við aðdrætti og heimilishald. Hún er ákaflega barnsleg, hefur verið mjög háð móður sinni, létt í viðmóti en mjög grunnt er í kvíða og öryggisleysi. Ég hef lítið haft af henni að segja undanfarin ár. Ástandið hefur verið óbreytt með þessum hætti og ekki líkindi að hún geti aflað sér frekari hæfni til að sjá um sig sjálf.” Í vottorðinu kemur jafnframt fram það mat læknisins að hin skerta almenna vitsmunalega færni valdi óvinnufærni Z. Hún sé reikul í hugsun og framkomu og mjög í mun að vera sæt og hlýðin. Er í niðurlagi vottorðsins lagt til að örorka hennar verði metin varanleg.

Í málinu hefur verið lögð fram athugun dr. Tryggva Sigurðssonar sálfræðings á vitsmunaþroska Z, dagsett 18. febrúar 2006. Þar kemur fram að niðurstöður greindarprófunar hafi leitt í ljós alvarlega erfiðleika á prófþáttum sem meta almenna þekkingu, skilning, myndun yfirhugtaka, færni í hugarreikningi og heyrnrænt skammtímaminni. Kvað hann hana aðeins hafa vald á einföldustu samlagningu og frádrætti og eiga afar erfitt með að útskýra merkingu orða og hugtaka. Útkoma á mállegum prófþáttum greindarprófs Wechslers fyrir börn og unglinga sýna frammistöðu að mestu á 5-7 ára getustigi. Þetta eigi til dæmis við um þekkingu (6,6 ár), skilning og orðskilning (‹6 ára viðmiðunargetu) og færni í hugarreikningi (6,10 ár). Mjög alvarlegir erfiðleikar hafi komið fram hjá Z á öllum verklegum prófþáttum, þ.e. verkefnum sem reyndu á sjónúrvinnslu, óyrta rökhugsun og fínhreyfingar handa. Viðmiðunargeta hafi verið alls staðar vel undir 6 ára meðalgetu. Málleg greindartala hafi verið skert. Niðurstöður matslista yfir aðlögunarhæfni hafi sýnt styrkleika á mörgum sviðum aðlögunar. Hún sýni til dæmis meiri ábyrgðarkennd en gengur og gerist hjá fólki með þroskahömlun, sé sjálfstæð og sýni góða virkni og úthald. Hún sé einnig félagslynd og sýni ekki erfiða hegðun í meira mæli en gengur og gerist hjá fólki með þroskahömlun.

Í samantekt og áliti segir eftirfarandi: ,,Almennur vitsmunaþroski á stigi miðlungs alvarlegrar þroskahömlunar (Moderate mental retardation) en jafnframt mun betri útkoma á mállegum hluta greindarprófs en verklegum. Fötlun Z er alvarleg og augljós. Alvarlegir erfiðleikar koma fram hjá Z í rökhugsun og ályktunarhæfni. Hugsun hennar er hlutbundin, hún á erfitt með að draga ályktanir út frá öðru en einföldum forsendum og að setja sig inn í ímyndaðar aðstæður. Auðvelt er því að hafa áhrif á viðhorf og skoðanir Z og hún er mjög leiðitöm. Auðvelt er að misnota það traust sem hún ber til fólks, ekki síst þegar í hlut eiga aðilar sem hún hefur kynnst og ber virðingu fyrir. Viðbrögð Z við meintu kynferðisbroti verður að skoða í þessu ljósi. Ekki er hins vegar ástæða til að draga vitnisburð hennar vegna þess atburðar, sem kært er fyrir, í efa“.

Í yfirlýsingu frá Styrktarfélagi vangefinna, sem lögð hefur verið fram, kemur fram að ..., þar sem ákærði starfaði, er hæfingarstöð, sem rekin er af Styrktarfélagi vangefinna og sinnir starfs- og félagslegri þjálfun. Er þar leitast við að veita einstaklingsmiðaða þjónustu sem miðar að þörfum hvers og eins. Einnig var lögð fram starfslýsing stuðningsfulltrúa í gróðurhúsi en þar kemur m.a. fram að hann veiti fötluðum starfsmönnum aðstoð og leiðbeiningar eftir þörfum varðandi vinnuna, félagslega þætti, sjálfshjálp og boðskipti. Honum beri að hafa hagsmuni fatlaðra starfsmanna í fyrirrúmi og vera vakandi fyrir líðan fatlaðra starfsmanna í vinnu.

Meintur brotaþoli fór á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi 20. október 2005. Það sem haft var eftir Z þar er svohljóðandi: ,,Á mánudegi eftir æfingu í fótbolta í Hagaskóla plataði maður mig til að koma heim til sín á Hjálpræðishernum. Spurði viltu koma heim með mér eftir vinnu. Ég gerði það hann hefur unnið hjá okkur í eitt ár. Hann spjallaði við mig lengi áður. Þar bað hann mig að fara úr fötunum. Ég sagði stórt nei, bara nei. Þá hélt hann áfram að biðja en ég gafst upp og háttaði. Þá háttaði hann líka og þá setti hann tippið í píkuna. Þetta gerðist upp í rúmi. Hann káfaði á brjóstunum á mér. Hann kyssti mig líka. Þegar þetta var allt búið fórum við í fötin. Hann keyrði mig heim og setti mig úr svolítið frá heimilinu svo ég þurfti að labba heim. Stjáni var órólegur vegna þessa. Hann notaði ekki ,,hitt“ smokk og nú er ég með blöðrubólgu.“

Í samantekt og niðurstöðum læknis segir að um sé að ræða 32 ára þroskahefta stúlku. Skoðun sýni enga áverka, en tekin voru sýni fyrir smitsjúkdómum og lyf vegna hugsanlegs smits.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði kvaðst hafa haft samræði við Z tvisvar sinnum umrætt sinn. Hann hafi kynnst henni á ... þar sem hann starfaði sem leiðbeinandi þroskaheftra. Kvaðst hann aldrei áður hafa starfað með þroskaheftum og hafi honum verið sagt að umgangast þá eins og ,,venjulegt fólk“. Hann kvað sér hafa fundist sem þetta fólk hafi staðið jafnfætis honum að öllu leyti. Hann hefði í starfi sínu aðstoðað þau við hluti sem þau ekki réðu við. Spurður um samskipti sín við Z kvað hann þau hafa verið dagleg og þau hafi talað saman á hverjum degi. Hann hafi leiðbeint henni í gróðurhúsinu við að taka upp kartöflur. Hafi hann skynjað að hún væri þroskaheft þegar hann átti samskipti við hana. Hann sagði að ekkert hefði verið rætt um það hvernig honum bæri að haga samskiptum sínum við þroskahefta starfsmenn. Honum hafi því á þessum tíma ekki fundist neitt athugavert við að eiga við Z persónuleg samskipti. Þá hafi yfirmenn hans ekki lagt bann við samskiptum sem þessum.

Daginn sem þau höfðu samræði hafi þau verið að vinna saman og hafi Z þá spurt ákærða hvort hún mætti koma með honum heim eftir vinnu. Hafi hann játað því og hafi hún þá beðið hann um að sækja sig eftir fótboltaæfingu. Hann hafi beðið eftir henni en hún hafi þekkt bílinn hans og sest inn. Þau hafi ekið heim til hans og spjallað þar saman. Hann hafi spurt hana hvort þau ættu að elskast og hún hafi játað því og háttað sig. Hann kvaðst ekki hafa átt frumkvæðið, þar sem hún hefði byrjað að strjúka honum. Þá kvað ákærði Z oft, allt frá því að hann hóf störf á ..., hafa sagt að hún vildi elskast, m.a. fyrr þennan dag og þegar hann sótti hana á æfingu. Hann kvað hana ekki hafa látið í ljós að samfarirnar væru andstæðar vilja hennar. Þegar hann hafi viljað að hún færi heim til mannsins síns hafi hún neitað og orðið ,,brjáluð“ og viljað vera áfram. Hann hafi ekið henni heim en næsta dag hafi hún sagt frá þessu og í framhaldinu hafi hann verið kærður.

Vitnið, Z, kvaðst hafa kynnst ákærða í vinnunni og þau hafi haft mikil samskipti. Þau hafi þó aldrei talað um það í vinnunni að þau ættu að sofa saman enda væru þau ekki kærustupar. Hún hafi aldrei sagt við hann að hún væri skotin í honum. Ákærði hafi ákveðið að hitta hana og hafi viljað sækja hana í Hagaskóla á fótboltaæfingu en hún hafi sagt ,,nei, hingað og ekki lengra“ en hann hafi sagt já. Hann hafi svo komið og sótt hana. Hún hafi séð hann strax og hún kom út. Hún kvaðst hafa orðið svolítið hissa því að þetta hafi ekki mátt gerast. Kvaðst Z hafa vitað að hún ætti alltaf að fara heim með strætó eftir æfingar en hún hafi farið beint inn í bílinn til ákærða. Ákærði hafi sagt hvert hann ætlaði að fara með hana en hún hafi sagt ,,nei, hingað og ekki lengra“ og einnig hafi hún vitað að allir yrðu áhyggjufullir ef þeir vissu ekki hvar hún væri, t.d. pabbi hennar og mamma og C kærasti hennar. Heima hjá honum hafi hann ,,farið upp á hana“ og hún hafi sagt við hann að hún vildi þetta ekki, sagt nei og stopp en hann hafi bara haldið áfram og ekkert hlustað. Nánar spurð kvað hún ákærða hafa farið að kela við hana og hafi hann beðið hana að fara úr fötunum. Það hafi hún gert þótt hún hefði ekki átt að gera það. Ákærði hafi farið úr fötunum líka. Þau hafi haft samfarir tvisvar sinnum. Hún hafi reynt að ýta í hann en það hafi ekki þýtt. Hann hafi þó ekki haldið henni. Klukkan hafi verið um 21:00 þegar þessu lauk og þá hafi ákærði keyrt hana heim til sín að hennar beiðni. Ákærði hafi ekki beðið hana að þegja yfir þessu en hún hafi sagt frá því sem gerðist. Eftir þetta hafi hún orðið veik og það hafi verið vont að pissa. Z kvaðst hafa liðið illa og grátið eftir að þetta gerðist og verið mjög óánægð. Í dag líði henni nokkuð vel.

Vitnið, B, móðir meints brotaþola,  kvaðst ekki hafa orðið vör við það í samskiptum við Z að auðvelt væri að fá hana til að gera hluti gegn vilja sínum. Hún treysti þó því fólki sem hún umgangist og viti muninn á réttu og röngu. Hún geri greinarmun á fólki sem hún þekkir ekki og því sem hún þekkir. Kvað vitnið Z ekki hafa rætt um ákærða við hana fyrr en eftir atburðinn. Þessi atburður hafi tekið á hana og hún orðið óörugg. Hún hafi spurt mikið um það hvenær henni bæri að koma heim þegar hún færi út. Hún hafi sagt að hún hafi gert vitleysu, og hafi þá átt við að hún hafi ekki átt að fara með ákærða heim. Taldi vitnið Z ekki hafa gert sér grein fyrir því hver fyrirætlun ákærða hafi verið þegar hann bað hana um að koma með sér.

Vitnið, María Jónsdóttir, félagsráðgjafi hjá Styrktarfélagi vangefinna, kvaðst hafa þekkt Z þau tíu ár sem hún hafi starfað hjá félaginu. Það hafi komið í hennar hlut að koma á verndaða vinnustaði og taka á ýmsum samskiptamálum sem kæmu upp. Hún hafi ekki þurft að hafa afskipti af Z í þessu sambandi og engin samskiptavandamál hafi komið upp. Allt hafi verið mjög ,,klippt og skorið“ í kringum hana. Hún hafi verið í sambúð með sínum manni og hafi það gengið vel. Varðandi þetta atvik kvað hún forstöðumann ... hafa hringt í sig daginn eftir. Kvað hún föður Z hafa kannað málið eftir að Z hafði komið seint heim kvöldið áður. Vitnið hafi rætt við Z og fundist frásögn hennar mjög trúverðug. Z hafi  m.a. sagt að hún hafi verið forvitin að sjá hvernig væri heima hjá ákærða. Hafi það freistað hennar, þótt hún hafi vitað að það væri rangt. Hún hafi sagt sér að hún hafi verið hissa að sjá ákærða fyrir utan skólann en hún hafði svarað því neitandi þegar hann bað hana um að hitta sig. Hann hafi boðið henni far en hún hafi neitað því eins og henni hefði verið kennt en hún hafi látið til leiðast. Hún hafi verið tilbúin til að fara til hans en ekki að taka þátt í því sem síðar gerðist. Vitnið kvaðst ekki telja að Z hafi strax áttað sig á því sem hafi vakað fyrir ákærða. Hún hafi treyst honum enda hafi hann verið hennar næsti yfirmaður, að öðrum kosti hefði hún ekki farið með honum.

Spurð um leiðbeiningar til starfsmanna um samskipti við þroskahefta einstaklinga, kvað vitnið þá fara í nýliðaþjálfun, sem væri ávallt haldin tvisvar sinnum á ári. Ákærði hafði ekki lokið þeirri þjálfun, en vitnið kvaðst ekki vita hvers vegna ákærði hefði ekki gert það. Þá eigi forstöðumaður að afhenda nýjum starfsmönnum handbók með leiðbeiningum og starfsreglum. Það væri rétt að starfsmönnum bæri að koma fram við hina þroskaheftu einstaklinga eins og jafningja inni á vinnustaðnum. Það væri þó brýnt fyrir starfsmönnum að skil væru  milli einkalífs og starfs. Hún geti ekki sagt til um hvort forstöðumaður hafi rætt við ákærða um þetta.

Vitnið, A, faðir meints brotaþola, kvaðst ekki telja auðvelt að fá Z til þess að gera hluti gegn vilja sínum. Hins vegar væri utan um hana ákveðið öryggisnet og Z treysti þeim sem væru innan þess. Hún stundi íþróttir og félagslíf með félögum sínum sem eru á sama þroskastigi. Hún hafi lítið farið út fyrir þann hóp nema til ættingja. Hann kvað þetta mál hafa vakið upp óöryggi hjá Z og hafi leitt til þess að frjálsræði hennar hafi verið skert, t.d. væri hún sótt eftir æfingar. Hún hafi ekki sagt að hún óttaðist ákærða.

Vitnið, D, yfirþroskaþjálfi, kvaðst starfa á [...] og þekkja bæði ákærða og Z. Ákærði hafi starfað sem leiðbeinandi eða stuðningsfulltrúi en í því starfi fælist að aðstoða þroskahefta einstaklinga við þau störf sem þau ynnu. Spurð um þær upplýsingar sem starfsmenn fengju þegar þeir hæfu störf kvað vitnið þá fá starfslýsingu, handbók og munnlegar upplýsingar. Þá væru starfsmannafundir haldnir einu sinni í viku en á þeim væri rætt það sem glímt væri við hverju sinni, m.a. um aðstöðumun starfsmanna og hinna þroskaheftu. Einnig væru haldnir stærri fundir þar sem farið væri í gegnum þá þjónustu sem veitt væri á vinnustaðnum. Kvaðst vitnið muna eftir ákærða á þessum fundum. Vitnið sagði að sér væri þó ekki kunnugt um þær upplýsingar sem ákærði hefði fengið. Brýnt sé fyrir starfsmönnum að sýna þroskaheftum einstaklingum virðingu og að allir séu jafnir. Sem leiðbeinendum bæri þeim að styrkja og styðja þá eftir bestu getu. Ekki hafi verið lögð mikil áhersla á að útskýra fyrir starfsmönnum að samskipti utan vinnustaðar væru óæskileg en það væri alveg skýrt í hennar huga að svo væri. Hins vegar væru þessi mörk útskýrð fyrir hinum þroskaheftu. Um samskipti ákærða og Z kvað vitnið þau hafa starfað saman í gróðurhúsi allan daginn ásamt öðru fólki. Spurð um hvort Z væri líkleg til þess að gera eitthvað gegn hennar vilja kvað vitnið það einkenna þroskaheft fólk að það legði mikið traust á fólk sem aðstoði það.

Vitnið, Tryggvi Sigurðsson, sálfræðingur, var spurður út í athugun sína á Z sem leitt hafi í ljós að hún væri á mörkum vægrar og miðlungsalvarlegrar þroskahömlunar. Um heilmikla fötlun væri að ræða þótt hún væri meira sjálfbjarga í hinu daglega lífi en flestir þroskaheftir einstaklingar sem með henni störfuðu. Athugunin miðaðist ekki eingöngu við greindarvísitölu heldur erfiðleika í félagslegum samskiptum, hegðun og annað sem viðbótarerfiðleikar Z fælust í. Spurður um það hvort þeim sem umgengjust Z væri ljóst að hún væri þroskaheft kvað vitnið  fötlun hennar afar augljósa. Ekki væri annað hægt fyrir mann, sem væri nálægt meðallagi í getu og færni, að átta sig á því. Vitnið kvað erfitt fyrir einstaklinga eins og Z að standast þrýsting um kynmök og að erfitt væri fyrir hana að gefa vilja sinn sterkt til kynna. Vitnið kvað Z hafa sagt sér frá meintri háttsemi ákærða og tjáð honum að þetta hefði verið henni mjög á móti skapi. Henni hafi liðið mjög illa þegar hún tjáði sig um þetta. Hann kvað að forvitni hefði haft mikil áhrif á það að hún lét   tilleiðast og fór með ákærða heim, enda væri vitsmunaþroski hennar eins og hjá 5-7 ára gömlu barni. Öll rökhugsun og ályktunarhæfni væri á því stigi. Hún væri því mjög leiðitöm. Vitnið kvað Z gera sér far um að geðjast fólki og mynda jákvæð tengsl. Hún væri hins vegar það mikið fötluð og sérkennileg ung kona á margan hátt, í hegðun, tilfinningum og líðan, að alltaf væri grunsamlegt ef ófatlaður maður myndaði tengsl við hana.

 

Niðurstaða

Ákærði hefur viðurkennt að hafa tvívegis átt samfarir við Z á þáverandi dvalarstað sínum, eins og í ákæru greinir, en kvað það hafa verið með fullu samþykki hennar. Á þeim tíma sem meint brot átti sér stað var ákærði stuðningsfulltrúi Z á [...] þar sem hún hafði starfað um árabil. Ákærði hafði hins vegar verið þar starfsmaður í um eitt ár og kom í hans hlut að leiðbeina Z í [...]

[...] er hæfingarstöð sem rekin er af Styrktarfélagi vangefinna á grundvelli laga um málefni fatlaðra, og sinnir starfs- og félagslegri þjálfun. Í 9. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra segir að starfrækja skuli þjónustustofnanir fyrir fatlaða í því skyni að koma til móts við sértækar þarfir þeirra svo að þeir geti lifað sjálfstæðu lífi. Eru stofnanir eins og hæfingarstöð [...] þar á meðal.

Brot ákærða er í ákæru heimfært til 196. og 197. gr. almennra hegningarlaga. Kemur þá til skoðunar hvort hæfingarstöðin [...] sé stofnun í skilningi 197. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 40/1992. Þegar litið er til eðlisraka að baki þessu lagaákvæði og þeirrar réttarverndar sem því er ætlað tryggja einstaklingum sem standa höllum fæti gagnvart þeim er starfa á stofnunum eins og [...], er það mat dómsins að [...] sé stofnun í skilningi 197. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hafði og þeim trúnaðarskyldum að gegna á hæfingarstöðinni, sem eru grundvöllur þessa refsiákvæðis. Samkvæmt ákvæðinu er um fortakslaust bann við kynmökum að ræða og getur ákærði með engu móti borið fyrir sig að samfarirnar hafi verið með vilja Z eða að honum hafi ekki verið gert ljóst að kynmök sem þessi væru refsiverð.

Eins og áður greinir hefur ákærði játað að hafa haft samfarir við Z umrætt kvöld en kveður samfarirnar hafa verið með fullum vilja hennar og að hann hafi ekki notfært sér þroskahömlun hennar.

Z var 33 ára gömul þegar atburðir þessir áttu sér stað og í sambúð með þroskaheftum einstaklingi en bæði starfa þau á vernduðum vinnustað og fá aðstoð við aðdrætti og heimilishald. Z er því sjálfbjarga um daglegar þarfir en samkvæmt því sem fram kemur í athugun Tryggva Sigurðssonar sálfræðings á hún í alvarlegum erfiðleikum þegar kemur að einföldustu hlutum eins og rakið hefur verið. Þar að auki bendir málnotkun hennar strax til verulegrar þroskahömlunar og mátti sjá þess glögg merki þegar hún kom fyrir dóm. Í framkomu var hún glaðleg og brosmild, einlæg í frásögn sinni og talaði ákveðið, hátt og skýrt.

Z greindi í meginatriðum frá atburðum umrædds kvölds á sama veg hjá félagsráðgjafa, lögreglu, lækni og fyrir dómi. Hún kvað ákærða hafa gengið á eftir sér að koma heim með honum þrátt fyrir að hún hefði í fyrstu neitað. Hún hefði sagt ,,stórt nei“ við hann en það hefði ekkert þýtt og hún látið til leiðast að hátta sig er heim til hans var komið og að ákærði hefði síðan haft við hana samfarir. Er það mat dómsins að framburður Z sé trúverðugur og borinn fram af mikilli einlægni.

Fram kom hjá foreldrum Z fyrir dómi að hún legði traust á þá sem hún þekkti og sagði vitnið V það einkenna þroskahefta einstaklinga að þeir legðu mikið traust á fólk sem aðstoðaði það. Þá kom fram í athugun og framburði vitnisins Tryggva Sigurðssonar að hugsun Z væri hlutbundin og hún ætti erfitt með að draga ályktanir út frá öðru en einföldum forsendum og að setja sig inn í ímyndaðar aðstæður. Hún legði sig fram við að þóknast fólki og væri mjög leiðitöm. Samræmist þetta því sem fram kemur í læknisvottorði Ólafs Mixa um það að Z vilji vera ,,sæt og hlýðin”. Rennir þetta allt saman stoðum undir að auðvelt sé að notfæra sér andlega annmarka Z, einkum þegar í hlut eiga einstaklingar sem hún þekkir og treystir.

Við mat á sönnunargildi framburðar ákærða verður að líta til þess að það rýrir nokkuð trúverðugleika framburðar hans, að hann breytti framburði þeim er hann gaf við fyrstu yfirheyrslu lögreglu, að hann hefði hitt Z í bænum og boðið henni inn til sín. Við síðari yfirheyrslu hjá lögreglu og fyrir dómi kvað hann Z oft hafa sýnt sér kynferðislegan áhuga og hefði svo verið í það sinn er þau höfðu samfarir og hefðu samfarirnar verið að hennar frumkvæði. Því hefur Z alveg neitað og bar mjög ákveðið fyrir dómi að hún hefði ekki sýnt honum kynferðislegan áhuga enda ,,væru þau ekki kærustupar.“ Ekkert er fram komið í málinu sem rennir stoðum undir staðhæfingar ákærða um að Z hafi átt frumkvæði að kynmökum þeirra.

Í málinu er fram komið að ákærði þekkti Z og hafði unnið daglega með henni í [...] í nokkurn tíma, en [...] er eins og áður er fram komið hæfingarstöð fyrir fatlaða einstaklinga. Samkvæmt athugun Tryggva Sigurðssonar sálfræðings á andlegum og félagslegum þroska Z, er fötlun Z alvarleg og augljós. Í framburði hans fyrir dómi kom fram að ekki væri annað hægt fyrir mann, sem væri nálægt meðallagi í getu og færni, að átta sig á alvarlegri andlegri fötlun hennar. Þá kvað vitnið vitsmunaþroska hennar eins og hjá 5-7 ára gömlu barni. Öll rökhugsun og ályktunarhæfni væri á því stigi og hún væri mjög leiðitöm.

Samkvæmt ofangreindu gat ákærða ekki dulist að Z er þroskaheftur einstaklingur og hlaut honum að vera ljóst að hún hafði ekki yfir að ráða andlegum styrk til að standast þrýsting um kynmök af hálfu manns sem hún treysti og var leiðbeinandi hennar, eins og ákærði var.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft kynmök við Z og er hann samkvæmt framangreindu sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Ákvörðun viðurlaga.

Ákærði er fæddur árið 1960 og hefur aldrei áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir er alvarlegt brot og beindist gegn mikilvægum hagsmunum. Ákærða hafði verið falið að annast og leiðbeina brotaþola, sem er andlega fötluð og bar traust til ákærða. Með broti sínu brást ákærði trúnaðartrausti hennar og misnotaði sér þroskahömlun hennar á grófan hátt. Ákærði á sér engar málsbætur og er refsing hans ákveðin fangelsi í 2 ár. Vegna alvarleika brots ákærða eru ekki efni til að skilorðsbinda refsingu ákærða.

Skaðabótakrafa.

Af hálfu A hefur verið sett fram skaðabótakrafa fyrir hönd brotaþola. Krafan er að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. september 2005 til 28. nóvember 2005 en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar vegna réttargæslu að mati dómsins.

Bótakrafan er studd þeim rökum að brotaþoli hafi átt í töluverðum andlegum örðugleikum, bæði meðan á háttsemi ákærða stóð og allt til þessa dags. Í kröfunni segir og að atferli ákærða sé til þess fallið að hafa skaðleg áhrif á andlega heilsu brotaþola sem sé þroskaheft og megi við litlum röskunum. Brotaþoli hafi bundið traust við ákærða, enda hafi hann verið stuðningsfulltrúi fyrir fatlaða á vinnustað brotaþola.

Bætur fyrir miska skuli ávarðaðar eftir því sem sanngjarnt þyki. Við mat á fjárhæð beri að líta til þess hversu alvarlegt brotið sé, hvert sakarstig brotamanns sé, hve huglæg upplifun brotaþola sé og loks til umfangs tjónsins. Í máli þessu hagi svo til að ákærði hafi brotið gróflega allar skyldur sínar gagnvart brotaþola og misnotað sér veikleika hennar. Ásetningur hans hafi verið mikill og brot hans stórfellt gagnvart varnarlausri konu sem var honum háð um stuðning og eftirlit.

Kröfu sína styður brotaþoli við 170. gr. laga nr. 19/1991 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Með hliðsjón af sakfellingu ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart brotaþola á hún skýlausan rétt til bóta úr hendi hans á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ljóst er að brot það sem ákærði hefur verið fundinn sekur um, er almennt til þess fallið að valda þeim sem fyrir verður, sálrænum erfiðleikum. Í málinu nýtur takmarkaðra gagna um andlega líðan brotaþola í kjölfar brots ákærða, en þó kemur fram í sálfræðilegri athugun Tryggva Sigurðssonar að hún sýni einkenni um vanlíðan þgar talið berist að þessu máli og hefði henni létt þegar hún hefði áttað sig á því að markmið með athugun var ekki að ræða þau mál. Þá kom fram hjá sálfræðingnum fyrir dómi að henni hefði liðið mjög illa þegar hún tjáði sig um brot ákærða gagnvart henni. Einnig báru foreldrar hennar fyrir dómi að gætt hefði óöryggis hjá henni í kjölfar brotsins. Þegar allt framangreint er virt þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákveðnar 800.000 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði allan sakarkostnað málsins, 471.875 krónur, þar með talin umkrafin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 210.903 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og réttargæsluþóknun skipaðs réttargæslumanns, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 131.472 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Héraðsdómararnir Ingveldur Einarsdóttir, sem dómsformaður, Allan Vagn Magnússon og Páll Þorsteinsson kváðu upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Ingólfur Elíesersson, sæti fangelsi í 2 ár.

Ákærði greiði Z 800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. september 2005 til 28. nóvember 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði greiði sakarkostnað málsins, 471.875 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 210.903 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 131.472 krónur.