Hæstiréttur íslands

Mál nr. 384/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti


Mánudaginn 8

 

Mánudaginn 8. september 2008.

Nr. 384/2008.

Margfeldi ehf.

(Sigurður Magnússon framkvæmdastjóri)

gegn

HK sandblæstri ehf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti.

HK ehf. krafðist þess að bú M ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Var krafa HK ehf. reist á árangurslausu fjárnámi sem gert var að kröfu HK ehf. hjá M ehf. samkvæmt skuldabréfi sem hafði verið gjaldfellt. Ekki var talið að M ehf. hefði tekist að sýna fram á að gerðin hefði gefið ranga mynd af fjárhag hans, né að hann væri fær um að standa skil á skuldbindingum sínum, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Var úrskurður héraðsdóms um að bú M ehf. væri tekið til gjaldþrotaskipta staðfestur. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2008, þar sem kveðið var á um að bú sóknaraðila væri tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti verði hafnað. Þá krefst hann „málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt mati Hæstaréttar.“ Litið verður svo á að í kröfunni felist krafa um málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Varnaraðili krefst staðfestingar héraðsdóms og kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila og umboðsmanns hans. Kemur fram í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti að þar sé átt við Sigurð Magnússon, framkvæmdarstjóra sóknaraðila, sem hefur flutt mál hans sjálfur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Ekki verður fallist á með varnaraðila að efni séu til að dæma fyrirsvarsmann sóknaraðila til greiðslu kærumálskostnaðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Margfeldi ehf., greiði varnaraðila, HK sandblæstri ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2008.

I.

Mál þetta var tekið til úrskurðar þann 9. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi. 

Sóknaraðili er HK sandblástur ehf., Helluhrauni 3, Hafnarfirði, en varnaraðili er Margfeldi ehf., Helguvík, Álftanesi.

Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta og krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi varnaraðila og umboðsmanns hans að mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að synjað verði um kröfu sóknaraðila og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað. 

 

II.

Helstu málsatvik eru þau að þann 8. febrúar 2006 tók varnaraðili á sig þá skuldbindingu að greiða sóknaraðila 7.000.000 króna með skuldabréfi dagsettu sama dag. Skuldin var tryggð með veði í fasteigninni að Helluhrauni 6, Hafnarfirði. Skuldina skyldi greiða með 96 afborgunum og skyldi gjalddagi fyrstu afborgunar vera 10. apríl 2006 og síðan á eins mánaðar fresti. Skuldabréfið var gjaldfellt þann 10. desember 2006, en ekki var greitt af skuldabréfinu frá og með þeim degi. Eftir að varnaraðila hafði verið sent innheimtubréf og greiðsluáskorun án þess að nokkuð greiddist inn á skuldina var krafist nauðungarsölu á veðtryggingu skuldabréfsins, fasteigninni Helluhrauni 6 í Hafnarfirði, sem seld var nauðungarsölu þann 4. júlí 2007.

 

Þann 23. janúar 2008 var með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989 gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila að kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði. Við gerðina lýsti Sigurður Magnússon, fyrirsvarsmaður varnaraðila, yfir eignaleysi varnaraðila. Með bréfi, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 18. mars 2008, var þess krafist að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Við þingfestingu gjaldþrotaskiptabeiðninnar 8. maí 2008 var mætt af hálfu varnaraðila og kröfu sóknaraðila mótmælt með þeim rökum að framangreint fjárnám gæfi ekki rétta mynd af fjárhag varnaraðila, sbr. 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Vegna þessa ágreinings var ákveðinn rekstur þessa máls. 

 

III.

Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila er byggð á 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 með vísan til þess að árangurslaust fjárnám var gert hjá varnaraðila þann 23. janúar 2008. Skilyrði þess að krafa sóknaraðila verði tekin til greina teljist því uppfyllt, þ.e. gjaldfelld skuld og árangurslaust fjárnám hjá skuldara.

 

Sóknaraðili kveður rök varnaraðila fyrir mótmælum sínum gegn gjaldþrotaskiptabeiðni sóknaraðila einkum byggjast á eftirgreindu:

  1. Að skilyrði 65. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við um varnaraðila, þar sem eki liggi fyrir að varnaraðili geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.
  2. Að sóknaraðili hafi ekki reynt að lágmarka tjón sitt vegna vanskila á skuldabréfi.
  3. Að fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi stundum komið fram fyrir hönd gerðarþola og stundum í eigin nafni.

 

Sóknaraðili mótmælir því að rök varnaraðila samkvæmt liðum 2 og 3 hafi áhrif á mál þetta. Sóknaraðila beri engin skylda til að lágmarka tjón sitt og ekki sé ljóst hvernig félagið ætti að geta gert það. Hefði varnaraðili talið að framangreind fasteign væri verðmætari en söluverð við nauðungarsölu gæfi til kynna, hefði varnaraðili sjálfur átt að takmarka tjón sitt með því að kaupa eignina. Sú staðreynd að annar af tveimur eigendum sóknaraðila keypti eignina við nauðungarsöluna hafi ekki áhrif á mál þetta. 

 

Krafa sóknaraðila byggist á skuldabréfi og með vísan til XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála mótmælir sóknaraðili því að nokkrar aðrar efnislegar varnir vegna skuldabréfsins en þar koma fram, komist að í máli þessu.

 

Ekki verði séð hvaða rök standi til þess að álykta að skilyrði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við um varnaraðila. Fyrirsvarsmaður varnaraðila hafi lýst því yfir hjá sýslumanninum í Hafnarfirði þann 23. janúar 2008 að varnaraðili ætti engar eignir og gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Ekkert sé komið fram sem sýni að breytingar hafi átt sér stað hjá varnaraðila síðan þá.

 

Þessu til frekari staðfestingar hefði varnaraðili lagt fram fundargerð hluthafafundar þar sem bókað er að félagið sjálft hafi ekki átt það fé er notað var til að greiða skuld við Hjálmtý Sigurðsson sem árangurslausa fjárnámið var byggt á. Sú skuld hafi verið greidd með lánsfé frá fyrirsvarsmanni félagsins. Ljóst sé einnig af fundargerðinni að bókhald hafi ekki verið fært vegna ársins 2007, engin starfsemi hafi þá verið, en ljóst sé að halli sé á rekstri ársins vegna mikils kostnaðar af málaferlum. Sýni fundargerðin ekki fram á bættan hag félagsins frá því 23. janúar 2008 nema síður sé.

 

Það sé það varnaraðila að sýna fram á að ekki eigi að leggja árangurslausa fjárnámsgerð hjá varnaraðila þann 23. janúar 2008 til grundvallar úrskurði um gjaldþrotaskipti á búi hans. Varnaraðila beri, telji hann svo vera, að sýna fram á að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans og að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum sbr. 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Það hafi hann ekki gert.

 

Um lagarök vísast til laga nr. 21/1991, þar á meðal 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laganna. Einnig vísast til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar á meðal XVII. kafla laganna. Krafa um málskostnað er byggð á 1. og 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, samanber 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili telur að varnaraðili megi vita að staðhæfingar og mótbárur hans séu bæði rangar og haldlausar. Með vísan til 4. mgr. 131. gr. laganna fer sóknaraðili fram á það, að umboðsmanni varnaraðila verði gert að greiða málskostnað in solidum með varnaraðila.

 

IV.

Af hálfu varnaraðila er krafa um að dómurinn synji kröfu sóknaraðila um töku bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta byggð á því að krafa sóknaraðila fullnægi ekki skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

 

Í greinargerð varnaraðila er kröfu mótmælt með vísan til þess að sóknaraðili byggi kröfu sína á fjárnámi sem gert var hjá varnaraðila þann 23. janúar s.l. en fyrir liggi að varnaraðili hafi greitt upp þá kröfu sem fjárnámið beindist að. Það sé því ljóst að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag varnaraðila. Grundvöllur fyrir kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta sé brostin og beri því að synja kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti.

 

Í bréfi dagsettu 8. maí sl., sem varnaraðili lagði fram við þingfestingu máls þessa, koma fram frekari mótmæli varnaraðila. Er framangreindri málsástæðu til viðbótar vísað til þess að sóknaraðili hafi ekki reynt að lágmarka tjón sitt vegna vanskila á umræddu skuldabréfi og til framkomu fyrirsvarsmanns sóknaraðila, sem ýmist hafi komið fram fyrir hönd félagsins eða í eigin nafni, eftir því sem betur hentaði persónulegum hagsmunum hans þótt þeir hagsmunir stönguðust á við hagsmuni sóknaraðila.

 

Um lagarök vísar varnaraðili til ákvæða laga nr. 21/1991.

 

V.

Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að fullnægðum skilyrðum sem fram koma í einhverjum þeirra fjögurra töluliða sem ákvæðið hefur að geyma, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Í máli þessu byggir sóknaraðili á því að hjá varnaraðila hafi verið gert fjárnám án árangurs á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag og ekki sé ástæða til að ætla að greðin gefi ranga mynd af fjárhag hans, sbr. ákvæði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laganna. Sönnunarbyrðin hvílir á skuldara.

 

Fyrir liggur í málinu að árangurslaust fjárnám var gert að kröfu sóknaraðila hjá varnaraðila samkvæmt skuldabréfi sem gjaldfellt var 10. desember 2006. Varnaraðili byggir á því að fjárnámið gefi ekki rétta mynd af fjárhag hans þar sem hann hafi greitt þá kröfu sem fjárnámsbeiðnin byggðist á. Í gögnum málsins er að finna kvittun fyrir innborgun fyrirsvarsmanns varnaraðila að fjárhæð 2.743.525 krónur þann 5. mars sl. og er þar nafn og kennitala varnaraðila tilgreint til skýringar á greiðslunni. Engin frekari gögn hafa hins vegar verið lögð fram um að gjaldfelld skuld varnaraðila við sóknaraðila, sem liggur að baki gjaldþrotaskiptakröfunni og nemur samkvæmt henni að höfuðstól 6.862.660 krónum, hafi verið greidd.

 

Fjárnámi verður ekki lokið án árangurs nema gerðarþoli eða réttur fyrirsvarsmaður hans mæti sjálfur til gerðarinnar sem og að viðkomandi lýsi réttilega yfir eignaleysi gerðarþola, sbr. 62. og 63. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Í málinu liggur fyrir endurrit úr gerðarbók sýslumannsins í Hafnarfirði frá 23. janúar sl. þar sem fram kemur að við fyrirtöku fjárnámsbeiðni Hjálmtýs Sigurðssonar á hendur varnaraðila mætti fyrirsvarsmaður varnaraðila af hálfu þess síðarnefnda og lýsti yfir eignaleysi varnaraðila og hefur þessu ekki verið mótmælt. Lauk gerðinni án árangurs sama dag.

 

Eins og áður er komið fram, byggir varnaraðili kröfur sínar á því að fjárnámsgerðin gefi ekki rétta mynd af fjárhag hans og hefur því til stuðnings lagt fram fundargerðir tveggja hluthafafunda og þrjár yfirlýsingar viðskiptavina. Fyrri hluthafafundargerðin er frá 6. mars sl. og kemur þar fram að bókhald félagsins hafi ekki verið fært árið 2007 en það sé ekki mikið umfangs enda hafi engin starfsemi verið hjá félaginu á því ári. Mikill kostnaður hafi lagst til vegna kostnaðar við málaferli og sé halli á rekstri ársins. Er síðan bókað að Sigurður Magnússon, sem er eigandi 100% hlutafjár í varnaraðila, hafi lánað félaginu fé og að félagið hafi deginum áður greitt skuld samkvæmt fjárnámi. Í síðari fundargerðinni frá 5. júní sl. er bókuð yfirlýsing hluthafa um að hann muni láta hluta einnar milljóna króna láns hans til varnaraðila renna inn í sjóði félagsins sem nýtt hlutafé. Þá segir jafnframt að aðrar innistæður hluthafans hjá félaginu verði víkjandi lán sem ekki verði innheimt fyrr en fjárhagur fyrirtækisins komist í lag og skuldir til annarra greiddar upp. Þá hefur varnaraðili lagt fram yfirlýsingar ánægðra viðskiptavina sem mæla með þjónustu félagsins. Þessi gögn taka ekki af tvímæli um gjaldfærni varnaraðila.

 

Ekki verður séð að mótmæli varnaraðila, sem lúta að því að sóknaraðili hafi ekki reynt að lágmarka tjón sitt vegna vanskila á umræddu skuldabréfi og vegna þeirrar framkomu fyrirsvarsmanns sóknaraðila að hafa ýmist komið fram fyrir hönd félagsins eða í eigin nafni, hafi sérstaka þýðingu við úrlausn máls þessa.

 

Samkvæmt framangreindu verður að telja að varnaraðila hafi hvorki tekist að sýna fram á að gerðin hafi gefið ranga mynd af fjárhag hans né að hann sé fær um að standa skil á skuldbindingum sínum, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Eru skilyrði ákvæðisins því uppfyllt til að taka megi kröfu varnaraðila til greina. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila og bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta.

 

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti í málskostnað. Ekki þykja efni til að gera umboðsmanni varnaraðila að greiða málskostnað in solidum með varnaraðila samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og er þeirri kröfu sóknaraðila því hafnað.

 

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Bú varnaraðila, Margfeldis ehf., kt. 600803-2040, er tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, HK sandblæstri ehf., 150.000 krónur í málskostnað.