Hæstiréttur íslands

Mál nr. 214/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


                                            

Miðvikudaginn 25. mars 2015.

Nr. 214/2015.

Valitor hf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Datacell ehf. og

Sunshine Press Productions ehf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu V hf. um að D ehf. og S ehf. yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli þeirra á hendur V hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að V hf. hefði lagt fyrir réttinn endurrit úr gerðabók sýslumanns, þar sem fram kom að teknar hefðu verið fyrir beiðnir V hf. um fjárnám hjá D ehf. og S ehf. fyrir kröfu V hf. Til gerðanna hefði ekki verið mætt af hálfu D ehf. og S ehf. og hefði þeim báðum lokið án árangurs. Taldi Hæstiréttur að skilyrðum væri fullnægt til að V hf. gæti borið fyrir sig þessi atvik. D ehf. og S ehf. byggðu á hinn bóginn á því að gerðirnar gæfu ekki rétta mynd af stöðu þeirra, því þeir hefðu ekki verið boðaðir til fjárnáms. Því til stuðnings vísuðu þeir til yfirlýsingar frá fulltrúa sýslumanns þar sem fram kom að fjárnámsboðanir hefðu mistekist gagnvart D ehf. og S ehf. og hefðu fjárnámin því aldrei átt að fara fram. Taldi rétturinn að yfirlýsingin ein og sér breytti engu um gildi fjárnámanna. D ehf. og S ehf. hefðu ekki hnekkt þeim líkum, sem þau leiddu að því að þeir væru ófærir um að greiða málskostnað, yrði sá kostnaður felldur á þá í máli þeirra gegn V hf. Með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 var D ehf. og S ehf. því gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðilum yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur honum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilum verði gert að setja sameiginlega tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 10.000.000 krónur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt endurrit úr gerðabók sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, þar sem kemur fram að 9. mars 2015 hafi verið teknar fyrir beiðnir sóknaraðila um fjárnám hjá hvorum varnaraðila um sig fyrir kröfu hans á hendur þeim óskipt að fjárhæð 600.000 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar. Til þessara gerða var ekki mætt af hálfu varnaraðila og var þeim báðum lokið án árangurs. Fullnægt er skilyrðum 2. mgr. 163. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. og 2. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 til að sóknaraðili geti borið þessi atvik fyrir sig hér fyrir dómi. Varnaraðilar hafa á hinn bóginn byggt á því að gerðir þessar gefi ekki rétta mynd af stöðu þeirra, því þeir hafi ekki verið boðaðir til fjárnáms. Þessu til stuðnings vísa þeir til yfirlýsingar 24. mars 2015 frá fulltrúa sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, þar sem segir meðal annars eftirfarandi af þessu tilefni: „Fjárnámsboðanir mistókust hins vegar gagnvart báðum ofangreindum gerðarþolum og framangreind árangurslaus fjárnám hefðu því aldrei átt að fara fram.“ Yfirlýsing þessi ein út af fyrir sig breytir engu um gildi fjárnámanna, sem voru gerð 9. mars 2015. Varnaraðilar hafa ekki hnekkt líkum, sem þau leiða að því að þeir séu ófærir um að greiða málskostnað, verði sá kostnaður felldur á þá í máli þeirra gegn sóknaraðila. Með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 verður varnaraðilum því gert að setja innan tveggja vikna frá uppsögu þessa dóms tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 2.500.000 krónur í því formi, sem í dómsorði greinir.

Með því að framangreind úrslit málsins ráðast af gögnum, sem sóknaraðili hefur fyrst lagt fram fyrir Hæstarétti, eru ekki efni til annars en að aðilarnir beri hver sinn kærumálskostnað.

Dómsorð:

Varnaraðilum, Datacell ehf. og Sunshine Press Productions ehf., er gert að setja innan tveggja vikna frá uppsögu þessa dóms sameiginlega eða hvor fyrir sitt leyti tryggingu í formi peningagreiðslu, bankareiknings eða bankaábyrgðar að fjárhæð 2.500.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn sóknaraðila, Valitor hf.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2015.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 16. febrúar sl., er höfðað af Datacell ehf., Síðumúla 28, Reykjavík, og Sunshine Press Productions ehf., Klapparhlíð 30, Reykjavík.

                Í málinu gera stefnendur aðallega þær dómkröfur að stefnda verði gert að greiða þeim óskipt 8.104.139.728 krónur, til vara að hann verði dæmdur til greiðslu lægri fjárhæðar samkvæmt niðurstöðu matsgerðar matsmanns eða -manna, til þrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum óskipt 1.332.553.527 krónur en til þrautþrautavara að stefndi verði dæmdur til greiðslu bóta er ákveðnar verða að álitum. Í öllum tilvikum er gerð krafa um vexti og dráttarvexti og málskostnað úr hendi stefnda.

                Við þingfestingu málsins, 22. janúar sl., krafðist stefndi málskostn­aðar­trygg­ingar úr hendi stefnenda að mati dómsins með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna líkinda fyrir ógjaldfærni stefnenda.             

Stefnendur mótmæla kröfunni.

                Til stuðnings þeirri kröfu að stefnendum verði gert að setja málskostnaðar­trygg­ingu vísar stefndi til þess að samkvæmt framlögðum ársreikningum stefnenda sé fjárhagsstaða þeirra slæm. Hvað varðar Datacell ehf. þá bendir stefndi á að tap hafi orðið á rekstri félagsins á árinu 2014 að fjárhæð 37,9 milljónir króna. Eigið fé hafi verið neikvætt sem nemi um 161 milljón króna samkvæmt ársreikningi án tillits til víkjandi láns frá hluthafa að fjárhæð 191 milljón króna. Þá bendi ársreikningar vegna áranna 2009 til 2013 til þess að stefnandinn standi höllum fæti fjárhagslega. Hvað varðar Sunshine Press Productions ehf. þá bendir stefndi á að samkvæmt ársreikningum vegna áranna 2010 og 2011 sé tap af starfsemi félagsins og eigið fé neikvætt. Enn fremur vísar stefndi til þess að stefnendur hafi ekki greitt málskostnað sem þeim hafi verið gert að greiða stefnda skv. dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12.  nóvember sl. og dómi Hæstaréttar frá 2. desember sl., samtals að fjárhæð 600.000 krónur. Hafi stefndi nú lagt fram aðfararbeiðni hjá sýslumanni þar sem þess sé krafist að gert verði fjárnám í eignum stefnenda til tryggingar kröfunni.

                Stefnendur byggja á því að ákvæði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 beri að túlka þröngt. Árangurslaust fjárnám hafi ekki verið gert hjá stefnendum. Þá sé fjárhagsstaða þeirra ekki slík að leiða megi líkur að því að þeir verði ófærir um greiðslu málskostnaðar, sem þeir kunni að verða dæmdir til að greiða í þessu máli. Samkvæmt framlögðum ársreikningi Datacell ehf. fyrir árið 2014 nemi eignir hans samtals 60.862.862 krónum, þar af séu fastafjármunir að andvirði 39.613.516 krónur. Enn fremur benda stefnendur á að þeir höfði málið á grundvelli samlagsaðildar og beri því óskipta ábyrgð á málskostnaði. Skipti því ekki máli þótt Shunshine Press Production ehf. kunni að vera ógjaldfært.

Niðurstaða:

                Samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur stefndi krafist þess, við þingfestingu máls, að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar megi leiða líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu máls­kostnaðar sem á hann kunni að falla í málinu.

                Dómurinn getur fallist á það með stefnda að ársreikningar Datacell ehf. gefi til kynna að fjárhagsstaða félagsins sé slæm. Af þeim verða þó ekki dregnar viðhlítandi ályktanir um hvort félagið sé ófært nú um að greiða málskostnað sem kynni að verða felldur á það í máli þessu. Hvað varðar Sunshine Press Production ehf. þá liggja einungis fyrir ársreikningar félagsins fyrir árin 2010 og 2011. Ekki liggja fyrir ársreikningar félagsins fyrir árin 2012, 2013 og 2014. Hafa stefnendur ekki mótmælt þeirri fullyrðingu stefnda að félagið hafi ekki lagt fram umrædda ársreikninga hjá ársreikningaskrá eins og lögskylt er. Verða stefnendur að bera hallann af upplýsingaskorti um fjárhagsstöðu þess félags. Hins vegar er til þess að líta að komi til þess að stefnendur verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað ber að jafnaði að gera það í einu lagi þannig að þeir ábyrgist greiðslu einn fyrir alla og allir fyrir einn, sbr. 1. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991. Skiptir því ekki máli þótt það félag kunni að vera ófært um að greiða málskostnað.

Með vísan til framangreinds verður því að hafna kröfu stefnda. Vegna vísunar stefnda til þess að stefnendur hafi ekki greitt honum tildæmdan málskostnað og að stefndi hafi því lagt fram aðfararbeiðni hjá sýslumanni vegna hans, er til þess að líta að ákvæði 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 hefur ekki verið talið girða fyrir að hafa megi síðar en við þingfestingu uppi kröfu um málskostnaðartryggingu ef sérstakt tilefni gefst þá fyrst til þess, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 372/2012 og 528/2012.

                Ekki var krafist málskostnaðar í þessum þætti málsins.

                Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Hafnað er kröfu stefnda, Valitor hf., um að stefnendum, Datacell ehf. og Sunshine Press Procuction ehf., verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í þessu máli.