Hæstiréttur íslands

Mál nr. 75/2008


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Áfrýjunarstefna
  • Kröfugerð


                                     

Fimmtudaginn 30. október 2008.

Nr. 75/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari)

gegn

Ingólfi Abraham Shahin

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorð. Áfrýjunarstefna. Kröfugerð.

I var sakfelldur fyrir líkamsárás, sem varðaði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa slegið B í höfuðið með gleríláti, sem brotnaði við höggið og hlaut B meðal annars áverka á andliti. Ekki var talið að ákvörðun héraðsdómara um að sitja einn í dómi hefði átt að leiða til ómerkingar og heimvísunar máls. Þá var með vísan til 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 ekki hróflað við þeirri niðurstöðu héraðsdómara, að I hefði framið þá háttsemi, sem lýst var í ákæru, en niðurstaðan var reist á mati á munnlegum framburði E og vitna. Var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu I en refsing skilorðsbundin að fullu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson prófessor.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21 janúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds. Í áfrýjunarstefnu er tekið fram að ákærði hafi óskað áfrýjunar til sýknu en til vara til refsilækkunar. Er það í samræmi við bréf ákærða til ríkissaksóknara 16. janúar 2008. Í áfrýjunarstefnu segir einnig að málinu sé jafnframt áfrýjað af hálfu ákæruvalds til staðfestingar á sakfellingu samkvæmt ákæru og á refsingu samkvæmt dómsorði.

Í greinargerð ákæruvalds til Hæstaréttar er gerð sama krafa og í áfrýjunarstefnu og því bætt við að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

Í greinargerð ákærða fyrir Hæstarétti er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en ella að ákærði verði sýknaður og bótakröfu vísað frá dómi. Til vara er krafist mildunar refsingar og að hún verði skilorðsbundin. Þá er krafist sakarkostnaðar, sem greiðist úr ríkissjóði.

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti jók ákæruvald við kröfur sínar kröfu um staðfestingu héraðsdóms um skaðabætur til handa B. Þessi krafa kom ekki fram í áfrýjunarstefnu svo sem nauðsynlegt var samkvæmt c. lið 2. mgr. 153. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 1. mgr. 173. gr. sömu laga. Verður henni því vísað frá Hæstarétti.

Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms styður ákærði annars vegar við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 þar sem hann telur að neyta hefði átt heimildar í ákvæðinu um að skipa þrjá dómara til meðferðar málsins í héraði. Þetta lagaákvæði felur í sér heimild en ekki skyldu fyrir héraðsdómara til að kveðja tvo aðra héraðsdómara til setu í dómi með sér og ræðst nauðsyn þess af aðstæðum hverju sinni. Eins og hér háttar til, verður ekki talið að ákvörðun héraðsdómara um að sitja einn í dómi eigi að leiða til ómerkingar og heimvísunar málsins. Hins vegar styður ákærði þessa kröfu við sjónarmið um að ekki hafi með fullnægjandi hætti verið gætt ákvæða 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 við samningu héraðsdóms. Í forsendum dómsins sé komist svo að orði að framburður nafngreindra vitna, sem gefið hafi framburð ákærða í hag, sé ýmist þvælukenndur, losaralegur, tortryggilegur eða með talsverðum ósennileikablæ án þess að skýrt sé í hverju þetta eigi að hafa verið fólgið. Samkvæmt 46. gr. laga nr. 19/1991 metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun sé komin fram um sekt ákærða, meðal annars með því að meta sönnunargildi skýrslu ákærða og vitna. Telja verður að í forsendum héraðsdóms sé nægileg grein gerð fyrir meðferð þessa mats í málinu og verður þessi ástæða fyrir ómerkingarkröfu ákærða því ekki heldur tekin til greina.

Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu þar fyrir dómi. Í 5. mgr. sömu greinar er gert ráð fyrir að Hæstiréttur geti fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð máls í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný. Skilyrði þess að heimildar þessarar sé neytt er að Hæstiréttur telji líkur fyrir að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit málsins. Ekki verður talið að slíkar líkur séu fyrir hendi í málinu og verður því niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða staðfest með vísan til forsendna hans.

Fallist er á ákvörðun héraðsdóms um fangelsisrefsingu ákærða. Fyrir liggur að líkamsárás ákærða átti sér stað í framhaldi af samskiptum hans við kunningja brotaþola sem bar fyrir dómi að hafa haft uppi orð við ákærða sem hann kunni að hafa misskilið. Ákærði telur að þessi maður hafi ögrað sér og megi rekja átök hans við brotaþola til þess. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki fyrr gerst sekur um ofbeldisbrot. Með hliðsjón af þessu þykir mega fallast á kröfu hans um að refsingin verði skilorðsbundin á þann hátt sem í dómsorði greinir. Einn dómara, Ólafur Börkur Þorvaldsson, gerir þá athugasemd að hann telji, einkum með tilliti til eðlis brots ákærða, að ekki séu efni til að skilorðsbinda refsingu hans nema að helmingi.

Samkvæmt því sem að framan greinir er ákvæði héraðsdóms um skaðabótagreiðslu ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og stendur það því óraskað.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærði dæmdur til að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Ingólfur Abraham Shahin, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem nemur í heild 328.300 krónum að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónum.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2007.

                Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri  20. ágúst sl. á hendur ákærða, Ingólfi Abraham Shahin, kennitala 010381-4799, Stórateigi 24, Mosfellsbæ, “fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 5. nóvember 2006, á veitingahúsinu Barnum, Laugavegi 22, Reykjavík, slegið B í höfuðið með gleríláti svo það brotnaði, með þeim afleiðingum að hann hlaut sár undir hárlínu, skurð framan við vinstra eyra, tvær rispur á vinstri kinn og skurð á vinstri augabrún nær nefi.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakrafa:

Af hálfu B, kennitala XXXXXX-XXXX, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða skaða- og miskabætur samtals að fjárhæð kr. 741.805 með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 5. nóvember 2006, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga.”

Málavextir

                Samkvæmt staðfestri skýrslu P, lögreglukonu, sem dagsett er 28. nóvember 2006, voru lögreglumenn sendir um hálffimmleytið aðfaranótt sunnudagsins 5. nóvember á veitingastofuna Barinn við Laugaveg þar sem maður var sagður hafa meiðst á höfði.  Þegar þangað kom var þar fyrir sjúkrabíll og hinn slasaði, B, lá á sjúkrabörum þar innan dyra.  Er haft eftir honum í skýrslunni að hann hefði lent í orðaskaki við krúnurakaðan mann í dökkum jakka sem hefði svo orðið til þess að maðurinn hefði brotið glas á höfðinu á honum.  Dyraverðir vísuðu á mann þennan, ákærða í málinu sem neitaði því að hafa brotið glas þarna inni en kannaðist við að hafa lent í stimpingum.  Þá er dyravörður staðarins sagður hafa skilið þá ákærða og B og sagst vera viss um að “sá krúnurakaði” hefði brotið flösku eða glas á höfði B.  Þá er sagt í skýrslunni að á vettvangi hafi verið vinur B, V að nafni, sem hefði sagst hafa séð þegar ákærði braut glas eða flösku á höfði B.  Í skýrslunni er þess getið að ekki hafi sést áverkar á ákærða.

                B leitaði til slysadeildar Landspítalans í Fossvogi með meiðsli sín.  Í óstaðfestu vottorði spítalans segir um þau að hann hafi verið með nokkur sár vinstra megin á höfði; 4 sm skurð upp undir hárlínu, 3 ½ cm skurð framan við vinstra eyra og annað sár  þar framan og rétt neðan við.  Loks hafi verið tvær rispur á vinstri kinn og skurður á vinstri augabrún nær nefi.  Var gert að meiðslum þessum á spítalanum.

                Mánudagsmorguninn 6. nóvember 2006 kom B til lögreglu og kærði yfir þessari líkamsárás.  Hann segist hafa verið á umræddum skemmtistað ásamt V og M.  Hann kvaðst hafa neytt áfengis en þó ekki verið ofurölvi.  Hann hafi séð hvar kunningi, G, var á tali við mann, sem B ekki þekkti, og gengið til G.  Hafi þetta verið við salernin nálægt útganginum af staðnum á neðri hæð. Hafi G þá sagt að maður þessi væri með kjaft við sig og B þá hafa snúið sér að manninum og spurt hvað gengi á.  Maðurinn hafi þá sagt honum að halda kjafti en B kveðst þá hafa svarað í sömu mynt.  Hefði maðurinn þá gripið í jakkaboðunga hans en B kvaðst þá hafa gripið í manninn á móti en maðurinn þá slegið hann með bjórglasi sem hann hélt á í hægri hendi.  Hafi höggið komið vinstra megin í andlitið og glasið mölbrotnað við það.  Dyravörður hafi þegar komið að og farið að stumra yfir honum en hann kvaðst hafa skorist í andliti svo að sauma varð skurðina 15 sporum alls.

                V gaf skýrslu hjá lögreglu 23. janúar sl. og sagði að þeir B og M hefðu séð einn félaga þeirra, G, ölvaðan, í útistöðum við mann fyrir utan salernið á veitingastaðnum Barnum.  Hefðu þeir staðið þétt saman, G og maðurinn.  Skyndilega hefði maðurinn slegið B í andlitið með glasi eða flösku eða einhverju úr gleri.  Hafi svo orðið lítils háttar ryskingar með mönnum í framhaldi af þessu en hann ekki séð þær nánar fyrir þvögunni sem þarna varð.  Dyraverðir hefðu svo komið fljótlega að og farið með B og árásarmanninn.  Kvaðst V hafa farið með B í sjúkrabíl á slysadeild.  Þá sagðist V hafa farið með B á lögreglustöðina daginn eftir að kæra árásina og þeir þá mætt árásarmanninum í afgreiðslunni þar.  Hefðu þeir spurt lögreglumanninn í afgreiðslunni þar í hvaða erindum maðurinn hefði verið og þá verið sagt að hann hefði verið að spyrjast fyrir um það hvernig manninum liði sem hann hefði lamið í bænum.  Kvaðst V treysta sér til þess að bera kennsl á manninn af mynd.  Væri hann krúnurakaður og með útlit eins og úr Mið-Austurlöndum.

                G gaf skýrslu hjá lögreglu 24. janúar sl. og kvaðst þá hafa farið að tala við mann sem hann hafði aldrei áður séð.   Kvaðst hann hafa sagt einhvern brandara sem maðurinn hafði ekki smekk fyrir svo að úr varð rifrildi og hefði maðurinn verið ógnandi.  B hefði þá komið á milli þeirra og maðurinn þá tekið í axlir honum og B gert það sama við manninn.  Hefði maðurinn tekið glas sem stóð á háu borði sem þarna var og slegið glasinu í andlitið á B.  Hefði B þá ýtt manninum frá sér en meira kvaðst hann ekki hafa séð til þeirra þar eð hann hefði farið  inn á snyrtinguna til þess að skola blóð af höndum sér.  Hann kvaðst ekki myndu geta þekkt árásarmanninn aftur.

                M gaf skýrslu í málinu hjá lögreglu 26. janúar sl.  Sagðist hann hafa verið með B og V á Barnum og hefði B hitt þar mann sem  hann þekkti fyrir utan salernin.  Sá maður hefði verið á tali við annan mann, snoðklipptan og dökkan á hörund.  Skyndilega hafi þessi maður tekið glas og slegið því í andlitið á B með töluverðum þunga.  Dyraverðir hefðu komið og tekið árásarmanninn og aðrir dyraverðir komið til þess að sinna B.  Hann kvaðst ekki telja líklegt að hann gæti þekkt árásarmanninn aftur. 

                Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 29. janúar sl. og sagði svo frá að hann hefði verið staddur á Barnum umrædda nótt og ekki mjög ölvaður.  Hann hafi ætlað sér á salerni en orðið að bíða á gangi þar fyrir framan.  Hefði þá smávaxinn piltur komið og rekist í sígarettuna sem ákærði var með.  Hefði hann kvartað yfir þessu og þeir lent í orðahnippingum út af þessu og kvaðst hann þá hafa stjakað laust við piltinum.  Þrír vinir piltsins hefðu komið að í þessu, einn þeirra inn á ganginn en hinir beðið þar fyrir utan.  Hafi þeim litla þá virst vaxa sjálfstraust og hann farið að hoppa um og storka ákærða.  Þessi vinur ákærða hefði þá tekið um úlnliðina á ákærða og haldið þeim að síðum hans og kveðst ákærði þá hafa verið með bakið upp að vegg.  Sá litli hafi haldið áfram að hoppa um en ákærði kveðst hafa sagt þeim þrisvar sinnum að láta sig í friði.  Sá litli hafi þá komið upp að honum og rekið honum kinnhest.  Hefði hann þá brotist um til þess að losa sig og farið út af ganginum en þá fengið högg frá einhverjum á nefið.  Þegar hann var kominn út af ganginum hafi dyraverðir komið og skakkað leikinn.  Hefði hann farið með þeim fram í eldhús og beðið þar eftir lögreglunni, sem búið hafi verið að hringja á.  Hann hefði þurft að þurrka blóð framan úr sér og héldi hann að hann hefði örugglega nefbrotnað.  Hann kveðst svo hafa tekið myndir af sér eftir þetta en ekki farið á slysadeildina, enda ekki ætlað sér að kæra yfir þessu.  Hann kvaðst saklaus af þessu og ekki vita hvaðan þessi flaska kom og hann hafi að minnsta kosti ekki kastað henni.  Um það að hann hefði komið á lögreglustöðina sagði hann að hann hefði komið þangað til þess að fregna af líðan piltsins sem hann hafði frétt að hefði fengið flösku í andlitið.  Þá hefði hann viljað vita hvert ætti að verða næsta skref hjá sér.  Sagði hann að B og vinir hans væru með þessari kæru að gera sig að handrukkara og skrýmsli, sem hann ekki væri.   

                Meðal gagna málsins er skýrsla Þ lögreglumanns, 23. janúar sl., þar sem segir að lögreglumaðurinn hafi hringt í K, dyravörð á Barnum.  Er þar haft eftir K að  hann hafi ekki séð nákvæmlega hvað gerðist.  Hefði hann séð þegar glasinu var slegið í andlit B en ekki hver þá hélt á glasinu.  Tveir menn hefðu verið að slást og í kring um þá hefðu verið nokkrir menn sem K áleit vera félaga B, enda hefði B verið þarna í fylgd nokkurra félaga sinna.  Ingólfur, sem væri fastagestur á staðnum hefði verið einn.  Hefðu aldrei áður verið nein læti í sambandi við hann.

                Þá er í málinu önnur skýrsla Þ lögreglumanns, 29. janúar sl. þar sem segir að lögreglumaðurinn hafi hringt í mann að nafni S, kt. XXXXXX-XXXX, vegna ábendingar ákærða um að S gæti hafa séð eitthvað af því sem gerðist.  Er  haft eftir S í skýrslunni að hann hefði verið á Barnum í umrætt sinn og staðið við barinn, sem sé nokkrum þrepum fyrir ofan salernin.  Hefði hann allt í einu tekið eftir því að ryskingar voru við salernin og hann þá farið þangað að athuga hvað gengi á.  Þar hefði hann séð fjóra menn kljást við mann með arabískt útlit eða eitthvað líkt því.  Hefðu mennirnir verið að lemja á manni þessum og haft hann undir.  Hefðu þeir hrópað einhver kynþáttahatursorð að manninum, sem hefði verið með áverka í andliti.  Dyraverðir hefðu svo komið að og skakkað leikinn.   

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í meðferð málsins fyrir dómi.

Ákærði neitar sök.  Hann kveðst hafa ætlað sér á salernið á Barnum og þar inni hafi verið ölvaður strákur sem hafi rekist í hann og einhver pirringur orðið með þeim úr því.  Kveðst ákærði hafa stjakað við pilti þessum, ekki með neinu ofbeldi, til þess að gefa honum til kynna að þeir skyldu hætta þessu skaki.  Hafi þeir enda hætt því en um mínútu seinna hafi einhverjir vinir stráksins komið þarna inn en þá hafi strákurinn fyrrnefndi farið að hoppa um og manað ákærða.  Hafi strákurinn svo ætlað að stjaka við sér eins og ákærði hafði gert við hann en þá “springur allt” og það eina sem hann hafi hugsað þá hafi verið að koma sér út úr þeim þrengslum sem hann var staddur í.  Nánar aðspurður segir hann B hafa þrengt sér upp að vegg en tveir strákar hafi staðið við dyrnar “og ég kasta mér út”.  Allt hafi þetta gerst mjög snögglega, á 10 – 15 sekúndum.  Kveðst hann svo næst hafa rankað við sér þarna frammi og þá verið kominn með blóðnasir.  Ekki viti hann hvernig hann fékk blóðnasirnar nema að hann hafi fengið högg á nefið.  Hafi hann farið inn í eldhúsið og þurrkað blóð framan úr sér.  Lögreglan hafi komið og hann farið út í lögreglubílinn.  Kveðst hann sérstaklega hafa sýnt þeim hendur sínar þegar þeir sögðu honum að pilturinn hefði verið sleginn með gleri.  Hafi honum svo verið sleppt.  Ákærði neitar því að hafa verið með gler í hendinni þegar þetta gerðist.  Þá tekur hann fram, vegna þess sem komið er fram í málinu, að ekkert borð hafi verið þarna sem glas gæti hafa staðið á.  Þá sé það rangt sem haldið hafi verið fram að hann hafi verið í haldi eða tökum dyravarða eftir atvikið. 

B hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi verið staddur á Barnum með tveimur fyrrnefndum kunningjum sínum.  Hann hafi séð til kunningja síns, G, hjá salerninu á jarðhæð hússins nálægt innganginum.  Kveðst hann þegar hafa gengið til G og þá séð að hann stóð í orðaskaki við ókunnan mann.  Hafi G sagt manninn vera að rífa kjaft.  Kveðst B þá hafa blandað sér í þetta og farið að munnhöggvast við manninn.  Hafi maðurinn þá gripið í kragann á honum en hann gripið í manninn á móti.  Í því hafi maðurinn slegið hann með glasi í andlitið vinstra megin og notað til þess hægri höndina.  Kveðst hann hafa riðað við þetta og gripið í hettu mannsins en í því hafi dyraverðir komið og farið með vitnið afsíðis þar sem hann svo beið eftir sjúkrabíl og lögreglu.  Kveðst hann hafa verið útataður í blóði eftir þetta og hafi þurft að sauma sár hans á slysadeildinni með 15 sporum eða svo.  Hann kveðst hafa verið búinn að drekka eitthvað af áfengi þegar þetta gerðist en hann hafi þó ekki verið ofurölvi.  Muni hann vel eftir atvikum og sé viss um að það hafi verið ákærði sem sló hann með glasinu.  Hann segist hafa hitt ákærða eftir atvikið.  Hafi ákærði hringt í vitnið og sagst vilja ganga frá málinu utan réttar og viljað hitta vitnið.  Kveðst hann hafa farið að hitta ákærða á skemmtistaðnum Prikinu en hann kveðst hafa hafnað því að semja við ákærða um málið.  Vitnið segir að þarna sé ekki borð, eins og komið hafi fram, heldur hafi hann séð ákærða með glas í hendi.  Hann segist hafa farið með V á lögreglustöðina daginn eftir til þess að kæra yfir þessari árás og þá hafi hann rekist á ákærða þar.  Hafi ákærði, sem ekki virtist kannast við vitnið, spurt hvort hann hefði verið laminn í bænum.  Kveðst B hafa þekkt þar árásarmanninn og orðið furðu lostinn yfir þessu.  Hann segist hafa sest niður og svo heyrt ákærða spyrja lögreglukonu þarna um vitnið en hún sagt að hún gæti ekki sagt honum annað en að viðkomandi væri á lífi.  Ákærði hafi farið út við svo búið en þeir V tekið niður bílnúmer hans.  Hann segist bera ör eftir þetta, sem hann sýnir í réttinum, og einnig klæi hann í eitt örið.  Hann segist einnig hafa orðið fyrir andlegu áfalli við þetta, fundið til ótta eftir þetta og þegar hann sjái örin í spegli rifjist þessi atburður upp.   

G hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi verið staddur á Barnum í umrætt sinn.  Hann kveðst hafa verið búinn að drekka áfengi en muna mjög vel eftir atvikum.  Hafi hann lent á tali við mann og sagt við hann brandara sem maðurinn virtist ekki kunna að meta og hafi hann reiðst.  Hafi hlotist af þessu orðahnippingar og maðurinn orðið ógnandi í framkomu.  Í því hafi B vinur hans komið þar að og gengið á milli þeirra mannsins.  Hafi maðurinn tekið í axlirnar á B og B gert það sama við manninn.  Næst hafi hann séð að ákærði sló B í andlitið með bjórglasi sem hann var með í hægri hendi.  Kveðst hann aðspurður ekki vera viss hvort ákærði tók glasið af  borði eða hillu sem þarna var til hliðar eða hvort hann hélt á glasinu áður.  Hafi B skorist í andlitinu og hafi fossblætt úr andlitinu út um allt.  Einhverjar ryskingar hafi orðið en dyravörður komið og stíað þeim sundur.  Sjálfur hafi hann farið að þvo af sér blóð og viti hann ekki hvað varð um þá hina.  Hann segist ekki hafa treyst sér til þess hjá lögreglunni að þekkja árásarmanninn af mynd.  Honum hafi svo verið sýnd mynd í tímaritinu Mannlífi og hann þá strax þekkt þar árásarmanninn.  Hann sér ákærða í réttinum og kveður það vera manninn sem um ræðir.  Hann kveður það verið rangt hjá ákærða að hann hafi löðrungað hann.  Geti hann ekki hafa fengið blóð á hendur sínar af ákærða en líklega úr B.    Hann kveðst ekki hafa séð áverka á ákærða.

M hefur skýrt frá því fyrir dómi að þegar þeir þrír voru nýkomnir inn á Barinn hafi B séð þar G, kunningja sinn.  Hafi þeir tekið tal saman en þeir V staðið álengdar.  Einhver læti hafi orðið þarna og hann séð snoðklipptan mann, dökkleitan, sem vitnið ekki þekkti, halda í B og B halda í manninn á móti.  Hafi hann svo séð manninn slá glasi vinstra megin í andlitið á B.  Kveðst M hafa verið stutt frá þegar þetta gerðist og hafi blóð og glerbrot gengið yfir þá V.  Dyraverðir hafi strax komið og dregið í burtu B og hinn manninn.  M kveðst hafa verið undir áhrifum áfengis þegar þetta gerðist.  Um það atriði í skýrslu vitnisins að árásarmaðurinn hefði tekið glas, segir M að hann viti ekki hvaðan hann tók glasið en hann kveðst hafa séð manninn vera með glas í hendinni og slá B með því.  Þá kveðst hann ekki muna eftir því að borð væri þarna.  Þá segir hann, vegna þess þar sem hann sagði í skýrslunni, að líklega myndi hann ekki þekkja árásarmanninn af mynd, að hann hafi séð mynd af ákærða á netsíðu nokkurri eftir það og þá þekkt ákærða af þeirri mynd.  Hann kveðst ekki hafa séð áverka á árásarmanninum eftir þetta.   

P, lögreglukona, hefur skýrt frá því að hún muni lauslega eftir atvikinu.  Þegar þau komu á Barinn hafi sjúkrabíll verið þar fyrir og í honum maður sem sagðist hafa verið sleginn með flösku.  Hafi hann gefið lýsingu á árásarmanninum og þau fundið mann þarna sem lýsingin svaraði til.  Þá muni hún að þarna hafi einnig verið dyraverðir.  Hún staðfestir skýrslu sína og skýrir það, að skýrslan er dagsett 13 dögum eftir atburðinn, með því að miklar annir hafi verið.  Vegna þess að nafn ákærða er í skýrslunni lagt í munn hins slasaða segist hún aðspurð ekki muna hvort hann hafi sagt nafn hans eða hvort það sé komið inn í skýrsluna vegna þess að ákærði hafði þá verið kærður í málinu.   Hún segist rita skýrslur sínar eftir vasabók sem hún skrifi í upplýsingar.  Hún kveðst ekki muna nánar hvar þau töluðu við ákærða eða hvort hann var með áverka.  Þá segist hún muna að þau hafi kannað hvort glas eða flaska fyndist þarna og hefðu dyraverðirnir sagt að þeir hefðu hvorki fundið glas né flösku. 

S hefur komið fyrir dóm vegna skýrslu Þ lögreglumanns um símtal við hann.  Kveðst hann ekki hafa verið á Barnum í umrætt sinn og sé það rangt sem skráð er eftir honum í skýrslunni en frásögnin í henni sé rétt höfð eftir honum.  Hafi hann skýrt svona frá til þess að eitthvað hljómaði vel.  Hann kveðst kannast við Ingólf úr menntaskóla.  Hafi Ingólfur hringt í hann áður en hann kom til þess að bera vitni í málinu. 

                Kristinn A, dyravörður á Barnum í umrætt sinn, hefur skýrt frá því fyrir dómi að hann hafi verið að gæta dyranna og orðið var við að “tveir gaurar” hafi verið í slagsmálum þar fyrir innan.  Hafi einnig verið “aðrir gaurar sem hafi verið vinir gaursins”.  Kveðst hann hafa hraðað sér þangað og þá séð bjórglas koma fram hjá sér og þá allt í einu “kemur blóð í mig”.  “Það er eiginlega gaurinn sem skarst og ég auðvitað tek hann frá hinum” og fór með hann afsíðis.  Glasið hafi þó ekki endilega verið frá þeim sem voru að rífast.  Hafi það greinilega verið úr “vinahópi hins hópsins” sem hafi látið bjórglasið fara “í eigin vin”.  Kveðst hann ekki hafa séð hvaðan glasið kom en geta fullyrt að það hafi verið frá hvorugum þeirra sem í átökunum voru því hann hafi verið hjá þeim þegar hann hafi séð bjórglasið koma.  Hann segir mennina hafa verið tekna þar sem þeir hafi báðir verið alblóðugir.  Undir hann er borið það sem eftir honum er haft í skýrslu Þ lögreglumanns og segir hann þá skýrslu vera “nákvæmlega það sama” sem hann hafi nú borið.  Hann kveðst ekki þekkja ákærða, nema þá í sjón, enda sé hann fastagestur þarna.  Hina þekki hann ekki.  Nánar aðspurt út í atvikið segist vitnið hafa komið að mönnunum og geti hann alveg fullyrt um það að bjórglasið fór fram hjá því og alveg geta lent á því en það hafi farið “beint í andlitið á gauknum”.  Þannig hafi blóðið komið á vitnið.  Aðspurt hvort útilokað sé að bjórglasið hafi komið frá þeim tveimur sem í átökunum voru segir vitnið já.  Hvort glasinu hafi verið kastað eða slegið með því segir hann að nota hafi átt glasið “til að brjóta upp...”  Aftur var vitnið spurt hvort hönd hélt á glasinu þegar það skall í manninum eða því kastað segir vitnið: “Ég myndi frekar segja kastað.”  Glasið hafi brotnað og segir vitnið fjölda manns hafa verið þarna, þarna hafi verið koldimmt og “allir hafi stigið á þetta” og “það hvarf bara.”  Sé hreinsað til eftir lokun staðarins.  Sá sem fyrir glasinu varð hafi verið allur blóðugur en hinn með eitthvað á nefinu.  Hann segir fastagesti staðarins ekki þurfa að bíða í biðröð.        

                Vitnið H, starfsmaður á Barnum, hefur komið fyrir dóm.  Hún segir frá því að hún hafi orðið vör við einhvern æsing fyrir framan salernin um það leyti sem verið var að loka.  Hún kveður ákærða, sem hafi verið þar, vera kunningja fyrrverandi kærasta síns og hafi hún fylgt honum inn í eldhús staðarins.  Hafi ákærði haldið um andlitið á sér og verið með blóðkám á höfðinu.  Hafi hann haldið um nef sér og á því verið skráma eða skurður.  Hafi hún látið hann fá bréfþurrku.  Hún segist halda að ekki hafi verið sár á höfðinu á honum þótt þar hafi verið blóðkám.

                Á hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi verið staddur á Barnum í umrætt sinn.  Hafi hann staðið við súlu sem sé í miðjum staðnum og til hliðar við salernin.  Hafi hann séð að stimpingar byrjuðu þarna inni og séð Ingólfi, sem hann kannist við, bregða fyrir þegar hann kom út úr þvögunni, sem þar var inni og fram.  Hann kveðst ekki hafa séð áverka á honum. Dyraverðir hafi svo komið að og orðið fjaðrafok.   

                V hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi verið staddur á Barnum í umrætt sinn og einnig B og M.  Hafi þeir komið inn á barinn og fljótlega séð hvar Guðmundur Ingvarsson, sem vitnið þekkir, var að tala við ókunnan mann í anddyri að salernunum.  Hafi þeir greinilega verið að rífast G og maðurinn.  Hafi maðurinn haldið á glasi og greinilega verið reiður við G.  Hafi B gengið á milli þeirra og farið að skipta sér af þessu.  Mjög skjótt eftir það kveðst hann hafa séð manninn berja B með glasi vinstra megin í andlitið.  Hafi B reynt að halda í manninn og dyraverðir komið að.  Hafi hann séð eftir á að mikið blæddi úr andliti B.  Hann kveðst hafa farið með B daginn eftir á lögreglustöðina og þeir rekist þar á mann sem honum fannst líkjast árásarmanninum en B hafi þar þekkt hann með vissu sem árásarmanninn.  Hafi hann verið með plástur á nefinu.  Seinna, eftir að B hafði haft upp á nafni mannsins, hafi þeir slegið það inn á leitarvél og þá hafi komið upp grein með mynd af manninum.  Sé hann viss um að það er sami maður og ákærði.  Um það sem segir í skýrslu hans hjá lögreglu, að um hafi verið að ræða, glas, flösku eða gler, segir V að hann muni ekki eftir því að hafa hagað orðum með þessum hætti, en hann sé viss um það að B hafi verið sleginn með glasi.  Hann kveðst hafa reynt að halda í árásarmanninn örskamma stund en dyravörður hafi komið þarna að og blandað sér í þetta.  Hann kveðst ekki hafa séð áverka á ákærða en daginn eftir hafi hann séð á lögreglustöðinni að hann var með plástur.     

                U hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi verið á Barnum og setið við plötuspilaraborðið.  Hafi hann heyrt “ristingar” skammt frá, þar sem salernið er.  Hafi hann heyrt ákærða Ingólf ryðjast út með látum og svo heyrt brothljóð fyrir aftan hann.  Þarna hafi verið 5 eða 6 manns og þrengsli og hafi ákærði verið að berja sig út úr þvögu sem þarna var.  Segist hann hafa verið um 2 metra frá þessu. Hafi eitthvað komið, flaska eða glas, úr básnum sem hafi verið fyrir aftan hann.  Ekki viti hann hvort einhver hafi haldið ákærða en hann hafi verið að reyna að komast út og verið mjög brugðið þegar vitnið hljóp út og einnig hafi aðeins séð á ákærða.  Kveðst hann ekki vita hvort það hafi verið blóðnasir eða einhverjir smááverkar.  U kveðst hafa verið með ákærða í grunnskóla fyrir 10 árum.  Kveðst hann hafa hitt ákærða í Smáralind fyrir um mánuði síðan og kveðst hann hafa farið að rifja það upp við ákærða að síðast þegar þeir hittust hefði hann verið að flýja einhver áflog á barnum.  Hafi ákærði sagt honum hvernig það mál stæði og spurt hvort hann væri til í að bera vitni um það sem hann hefði séð.  Hann kveðst hafa verið með Á á Barnum þegar þetta gerðist.  Nánar aðspurður segir vitnið að ákærði hafi verið að ryðjast út af klósettinu þegar vitnið sá hann en segir svo, frekar aðspurður, út af básnum sem sé fyrir framan klósettið.  Hafi hann þá heyrt brothljóðið fyrir aftan hann.  Hann er spurður hvort ryskingarnar hafi verið inni á klósetti en segist ekki vita nákvæmlega hvar þær voru.  En það hafi verið hljóð og þegar þeir hafi horft inn á klósettið hafi Ingólfur verið að reyna að brjótast út, það er að segja út af básnum fyrir framan klósettið.  Kveðst hann ekki vita hvað gerðist inni á klósettinu en séð þegar ákærði var kominn út af því og var að reyna að brjótast út.  Hafi þá einhverju verið hent “af klósettinu fram fyrir aftan hann.”  Vitnið segist ekki hafa séð áverka á öðrum manni þarna. 

                Ó hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi verið staddur á Barnum með nokkrum félögum sínum á efri hæð staðarins.  Muni þetta hafa verið um fyrstu helgina í nóvember.  Hafi þeir verið að tygja sig heim og hann skroppið niður á neðri barinn og farið á klósettið.  Meðan hann var þar hafi hann heyrt einhver læti og þegar hann hafi verið á leiðinni út um dyrnar hafi hann orðið var við áflog fyrir framan þær.  Kveðst hann hafa fengið einhvern yfir sig þar sem hann gekk út og verið við það að falla.  Hafi hann haldið á bjórglasi og, eins og fyrir ósjálfráð viðbrögð og til þess að lenda ekki á glasinu, hent því frá sér.  Hafi hann enga grein gert sér fyrir því að hann væri að kasta glasinu neitt, því fyrir honum hafi það eitt vakað að koma sér út.  Hafi hann svo ekki hugsað frekar um þetta og ekki vita hvar glasið lenti.  Hafi hann farið upp á efri hæðina og náð í vini sína og farið út af staðnum.  Hann segist hafa séð ákærða þarna.  Þá segir hann þá eiga sameiginlegan vin.  Hann segist hafa “séð hann einu sinni eða tvisvar áður en ekkert eitthvað til þess að gera eitthvað veður út af.”  Tilefni þess að hann sé kominn til þess að gefa skýrslu í málinu sé það að hann hafi talað við sameiginlegan vin þeirra ákærða.  Hafi nafn ákærða borið á góma og vinurinn þá farið að tala um þetta mál og sagt að ákærði væri talinn hafa kastað glasi.  Kveðst vitnið þá hafa sagt vini þeirra að hann hefði verið þarna staddur og séð áflogin.  Kveðst hann hafa sagt honum söguna og hann þá sett þá ákærða í samband.  Hann kveðst ekki hafa séð glerílát í höndum ákærða, svo hann best viti, en þetta hafi gerst svo fljótt og hann ekki getað séð það.  

Ákærði hefur í lok aðalmeðferðarinnar í málinu verið spurður út í fundinn á kaffihúsinu með B.  Segir hann að hann hafi viljað hitta B eftir að honum var birt ákæra í þessu máli til þess að B áttaði sig á því að hann væri ekki sá sem hefði meitt hann.  Hann segist hafa fengið símtal fyrir þennan fund þar sem hann hafi verið varaður við því að B ætlaði að koma á fundinn með tveimur “handrukkurum” og að hann skyldi vara sig.  Þeir hafi svo hist á kaffihúsinu og tveir aðrir menn verið með B.  Hafi þeir hótað honum líkamsmeiðingum og jafnframt rukkað hann um 500 þúsund krónur.  Segist hann hafa tvö vitni, strák og stelpu, sem þarna hafi verið og séu reiðubúin að koma fyrir dóm, verði það tryggt að þessir strákar komist ekki að því hvað þau heiti.  Segist ákærði ekki hafa þorað að segja frá þessum fundi áður.  

Niðurstaða

                Mikið ber á milli ákærða og þeirra B, G, M og V.  Þessum vitnum ber saman í öllum atriðum sem máli skipta og frásögn þeirra eru í sjálfu sér trúverðug, rétt eins og framganga þeirra í málinu og framkoma fyrir dómi.  Bera þeir allir að maður, sem svarar til útlits ákærða, hafi slegið B með glasi í andlitið svo að hann skarst eins og nánar hefur verið lýst.  Þessi vitni hafa með fullri vissu borið kennsl á ákærða eftir atvikið á Barnum, eins og rakið hefur verið.  Ákærði fékk hins vegar kunningja sinn einn til þess að bera rangt í málinu við lögreglurannsóknina, en sá hefur nú horfið frá fyrri skýrslu sinni.  Þá er að geta vættis U, sem rakið var en hann segist þannig vera að málinu kominn að þeir ákærði hafi verið skólafélagar í grunnskóla fyrir tíu árum og hann auk þess verið staddur á Barnum þegar atburðurinn varð þar.  Hittust þeir svo af tilviljun í Smáralind fyrir um mánuði síðan og kom mál þetta þá til tals með þeim.  Um efni skýrslunnar er það að segja að hún er losaraleg.  Vitnið Ó segist vera þannig að málinu kominn að þeir ákærði eigi sameiginlegan vin, málið hafi borið á góma á milli þeirra og vinurinn sett þá ákærða í samband.  Dóminum þykir vitni þetta tortryggilegt og efni skýrslunnar er auk þess með talsverðum ósennileikablæ.  Þá er að geta skýrslu K dyravarðar, sem borið hefur með ákærða í málinu.  Er helst að skilja hana svo að glasið sem lenti í B hafi komið utan úr sal, en annars er skýrsla þessi þvælukennd og ósamkvæm.  Loks verður ekki sagt að framganga ákærða sjálfs í málinu sé traustvekjandi þá er nokkur losarabragur á skýrslum hans, sem auk þess eru ekki lausar við ýkjur og dylgjur.  Þá eru þær sumpart með nokkrum ólíkindum. 

                Dómurinn álítur sannað með skýrslum vitnanna fjögurra, sem eru í samræmi við skjalleg gögn í málinu og sjáanleg ör í andliti B, að ákærði hafi slegið hann í andlitið með glasi svo að hann skarst eins og lýst er í ákærunni.  Árás ákærða var stórhættuleg og hefði hæglega getað leitt til örkumla fyrir B.  Varðar þetta athæfi ákærða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

                Sakaferill ákærða hefur ekki þýðingu fyrir mál þetta.  Ákærði réðst af litlu tilefni á B og árásin var bæði fólskuleg og hættuleg.  Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.  Ekki er ástæða til þess að skilorðsbinda refsinguna.

                Af hálfu B hefur þess verið krafist að ákærði verði dæmdur til þess að greiða honum 714.805 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 5. nóvember 2006 en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laganna.  Sundurliðast krafan sem hér segir:

þjáningabætur      skv. 3. gr. skaðabótalaga

  33.630 krónur

miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga

500.000 kr.

lögfræðikostnaður

143.175 kr.

munatjón; frakki, skyrta, bindi, myndavél       

65.000 kr.

samtals  

741.805 kr.

 

                Dæma ber ákærða til þess að greiða 300.000 krónur í þjáninga- og miskabætur og 70.000 krónur í bætur fyrir kostnað við að halda kröfunni fram.  Krafa um bætur fyrir munatjón er órökstudd og ber að vísa þeim lið frá dómi.  Ber samkvæmt þessu að dæma ákærða til þess að greiða B 370.000 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá tjónsdegi, 5. nóvember 2006, til 28. febrúar 2007 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

                Dæma ber ákærða til þess að greiða Hilmari Ingimundarsyni hrl. 300.000 krónur í málsvarnarlaun og Grími Sigurðarsyni hdl. 150.000 krónur í réttargæslulaun.  Laun lögmannanna dæmast með virðisaukaskatti.  Þá ber að dæma ákærða til þess að greiða 23.200 krónur í annan sakarkostnað.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

                Ákærði, Ingólfur Abraham Shahin, sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákærði greiði B 370.000 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 5. nóvember 2006 til 28. febrúar 2007 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

                Ákærði greiði Hilmari Ingimundarsyni hrl. 300.000 krónur í málsvarnarlaun og Grími Sigurðarsyni hdl. 150.000 krónur í réttargæslulaun.  Þá greiði ákærði 23.200 krónur í annan sakarkostnað.