Hæstiréttur íslands
Mál nr. 227/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Miðvikudaginn 25. mars 2015 |
|
Nr. 227/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Helga Vala Helgadóttir hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun L um að X skyldi sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Féllst Hæstiréttur á með L að skilyrðum 4. og 5. gr. laganna væri fullnægt og að friðhelgi brotaþola yrði ekki vernduð með öðrum og vægari hætti. Var því ákvörðun L staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að staðfest yrði ákvörðun hans 10. sama mánaðar um að varnaraðila yrði gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur gagnvart A og B. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði framangreind ákvörðun, þannig að lagt verði bann við því að varnaraðili komi á eða í námunda við heimili A og B að [...] í [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið. Jafnframt að lagt verði bann við því að varnaraðili veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur lögregla ítrekað þurft að hafa afskipti af varnaraðila og eiginkonu hans, A, vegna heimilisófriðar. Nágrannar hjónanna hafa allt frá 2. maí 2014 kvatt til lögreglu nokkrum sinnum vegna hávaða og láta í íbúð þeirra og hafa tjáð lögreglu að eiginkona varnaraðila hafi oft þurft að flýja fram á gang vegna hræðslu við hann. Af gögnum málsins verður ráðið að þegar lögreglan kom á heimili þeirra 9. nóvember 2014 hafi varnaraðili verið með hníf í hendi og beint honum að eiginkonunni og syni hennar, B, sem býr hjá þeim. Sögðu þau að varnaraðili hafi otað hnífnum að þeim og verið með hótanir. Konan kærði þetta tilvik ekki sökum ótta við að hún missti dvalarleyfi sitt hér á landi í kjölfarið. Eiginkonan sagði að varnaraðili hafi oft lagt hendur á sig en að mestu hefði þetta verið andlegt ofbeldi. Að mati sóknaraðila er varnaraðili undir „sterkum“ grun um að hafa aðfaranótt 7. mars 2015 sparkað í bak konunnar með þeim afleiðingum að hún hlaut af því áverka. Samkvæmt bráðabirgðavottorði frá slysadeild hlaut A mar á 5x5 cm svæði, sem samsvarar lýsingu hennar á því hvar varnaraðili sparkaði í hana. Hinn 9. sama mánaðar tilkynnti nágranni enn um heimilisófrið í íbúð hjónanna og væri varnaraðili búinn að henda konunni og föggum hennar út á gang. Degi síðar krafðist eiginkonan nálgunarbanns á hendur varnaraðila.
Að virtum gögnum málsins, sem rakin eru í hinum kærða úrskurði, verður fallist á með sóknaraðila að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 til nálgunarbanns og brottvísunar af heimili séu uppfyllt, enda verður ekki talið að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 10. mars 2015 um að varnaraðili, X, skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili hans og A og B að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.
Þóknun verjanda varnaraðila, Helgu Völu Helgadóttur héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 10. mars 2015 þess efnis að X skuli sæta brottvísun og nálgunarbanni, skv. a og b lið 1. mgr. 4. gr. og a. og b. lið 1. mgr. 5. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 4 vikur þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A og B að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins nr. [...] og [...] við [...]. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti, s.s. með tölvupósti, skilaboðum á facebook eða í síma.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að samkvæmt upplýsingum lögreglu liggi X undir sterkum grun um að hafa aðfaranótt 7. mars s.l. sparkað í bak A með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli í baki og látið A í kjölfarið fara fram á gang fyrir utan íbúðina. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi X verið áberandi ölvaður, á nærfötum einum saman og haldið á töng, sem hann hafi reynt að nota til að ná af sér giftingarhring. A hafi verið á vettvangi, óttaslegin og með tárin í augunum. Synir A, B og C hafi einnig verið á vettvangi og sögðust óttast X talsvert og sögðu þeir X hafa ráðist á móður þeirra, þ.e. sparkað í hana. A hafi verið flutt á slysadeild í kjölfarið til skoðunar.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi X játað að hafa ýtt í A. Samkvæmt bráðabirgðavottorð frá slysadeild hafi A hlotið mar á 5x5 cm svæði, vinstra megin við vinstra herðablað, sem samræmist lýsingu hennar á því hvar X hafi sparkað í hana.
Þann 9. mars s.l. hafi nágranni tilkynnt um heimilisófrið í gangi í íbúð X og A, þar sé maður búinn að henda konu og föggum hennar fram á gang. Samkvæmt bókun lögreglu muni X hafa verið búinn að ýta og hrinda A til og hún klórað hann til blóðs á hálsi.
Við skýrslutök hafi A sagt að hún og X væru búin að vera gift frá 2008 en þau ekki hafið sambúð fyrr en 2012. Sagði hún X hafa drukkið áfengi nánast daglega undanfarið ár og við það sé hann annar maður og beiti hana andlegu og líkamlegu ofbeldi. Sagðist hún vera hrædd og ekki þora að gera neitt, m.a. vegna hræðslu við að vera send úr landi. Sagði hún X oft hafa lagt hendur á sig, en þetta væri þó mest stjórnun af hans hálfu og andlegt ofbeldi. Hún sagði að þetta kvöld hafi X verið að ýta í hana og hún rekið nöglina í hann og því væri hann klóraður.
Með málinu fylgi upplýsingaskýrsla lögreglumanns. Þar segi að A hafi komið þann 10. mars á lögreglustöð við [...] í skýrslutöku vegna brotsins kvöldinu áður. Hafi hún verið hrædd þar sem X hafi elt hana á lögreglustöðina. Hafi lögreglumaðurinn farið út að ræða við X og sagðist hann hafa elt hana þar sem hann grunaði hana um að halda framhjá sér. Lýsi þetta því hvernig X stjórni A og miklu áreiti hans í garð hennar.
Þann 9. nóvember s.l. hafi nágranni tilkynnt um heimilisófrið, þar sem heimilisfaðirinn hafi verið ölvaður og kona hans flýi reglulega fram á gang vegna hræðslu við hann og einnig berist öskur frá henni innan og utan íbúðarinnar. Þegar lögregla hafi komið á vettvang og verið staddir fyrir utan útidyr íbúðar X og A hafi lögreglumenn heyrt mann segja „stingdu þig í hausinn með þessu“, í því hafi dyrnar opnaðar og þar hafi X verið fyrir innan með hníf í hendi og hafi hnífnum verið beint að A og B. Hafi maðurinn verið áberandi ölvaður. Samkvæmt A hafi X tekið víðsvegar í hægri handlegg og úlnlið hennar og hafi hún skv. lögreglu verið með sjáanlega áverka á hægri hendi, rauð og marin og fundið til sársauka við snertingu á hægri handlegg. Hafi hún og A sagt að X hafi otað hnífi að þeim og verið með hótanir.
Þá hafi verið tilkynnt um ófrið í íbúð X og A en þann 26. september s.l. þar sem X hafi verið ölvaður og læst A og B fram á gangi.
Þann 2. ágúst s.l. hafi verið tilkynnt um heimilisófrið í íbúðinni, þá hafi X og A verið að rífast.
Þann 2. maí s.l. hafi nágranni tilkynnt að A hafi komið til hennar og beðið hana um að hringja á neyðarlínu. Þar hafi A orðið ósátt við X, þar sem hann hafi verið búinn að drekka of mikið og verið að angra hana og son hennar B með óþarfa spurningum.
Þá hafi A greint frá því að hún sé einangruð félagslega og hafi ekki þekkingu á hvernig hún eigi að afla sér aðstoðar, vegna tungumálaerfiðleika. Hún segist sjá fyrir henni og X og sjá um allt á heimilinu og þori ekki annað en að standa sig af ótta við að X bregðist illa við. Samkvæmt skrá um launatengd gjöld hafi X ekki verið í vinnu a.m.k. frá því A hafi komið til landsins. Hann sé því atvinnulaus og því ljóst að hún sé fyrirvinnan á heimilinu.
Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en kærði liggi undir sterkum grun um að hafa beitt A líkamlegu og andlegu ofbeldi og þá sé talin hætta á að hann muni gera slíkt aftur og með því að raska friði A og B sonar hennar njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Samkvæmt gögnum málsins kom lögregla fyrst á heimili kærða 2. maí 2014. Þá hafði nágrannakona hringt á lögreglu að beiðni eiginkonu kærða. Nágrannakonan skildi að vísu ekki vel það sem eignkonan sagði en lögreglan bókar að eiginkonan teldi kærða hafa verið búinn að drekka of mikið og væri hann að angra hana og son hennar með óþarfa spurningum. Kærði var alveg rólegur að mati lögreglu og kvaðst hafa verið að ræða skattaskýrslu við eiginkonuna og taldi hana ekki segja sér satt. Hann kvaðst ekki ætla að spyrja hana meir og fara að leggja sig.
Næst kom lögreglan á heimilið 2. ágúst 2014. Þá er bókað eftir eiginkonunni að henni fyndist kærði tala of hátt símann. Hann mun hafa verið að tala við dóttur sína sem búsett er í Vestmannaeyjum. Eiginkonunni var sagt að þessi kvörtun væri ekki lögreglumál.
Aftur var lögreglan kvödd á heimilið 26. september 2014. Þá hafði kærði fengið sér í glas og eiginkonan ekki verið ánægð með það. Þessu hefði lyktað með að kærði hefði sett hana og son hennar fram á gang. Einnig sagði eiginkonan að kærði leyfði sér ekki að fara að sofa. Eftir kærða var höfð sama saga nema hvað skipt hafi verið um hlutverk og að hún leyfði honum ekki að fara að sofa.
Þá var lögreglan kvödd að íbúðinni 9. nóvember 2014. Það var nágranni sem hringdi og tilkynnti heimilisófrið. Kærði væri ölvaður og eiginkona hafi flúið reglulega út á gang. Öskur bærust frá henni, bæði af ganginum og eins úr íbúðinni. Þegar lögreglumenn komu á vettvang heyrðu þeir mann segja inni í íbúðinni „stingdu þig í hausinn með þessu“ og sáu þeir kærða standandi með hníf í hendi sem hann beindi að eiginkonunni og syni hennar. Kærði vildi ekki tjá sig en hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Eiginkonan kvað hann hafa tekið víðsvegar í sig í hægri handlegg og úlnlið. Hún vildi hvorki fara til læknis né leggja fram kæru.
Samkvæmt dagbók lögreglu hringdi kærði í lögregluna 7. mars síðastliðinn og kvaðst eiga í vandræðum með óvelkomna konu. Hann lagði síðan á. Hringt var í hann og þá sagði hann að konan væri eiginkona sín og að hún væri frammi á gangi. Nágrannar kærða hringdu einnig þessa sömu nótt í lögreglu til að tilkynna um heimilisófrið. Lögreglumenn höfðu tal af eiginkonunni og sonum hennar. Hjá þeim kom fram að kærði yrði ógnandi þegar hann væri undir áhrifum áfengis. Eiginkonan kvað hann hafa sparkað sér fram úr rúminu og væri hún aum í baki. Kærði var handtekinn og fluttur á lögreglustöð en starfsmaður Félagsþjónustunnar kom á vettvang og fór hún með eiginkonuna á slysadeild. Í vottorði þaðan segir að hún sé með mar 5x5 cm vinstra megin við vinstra herðablað. Kærði var yfirheyrður og kvaðst hafa drukkið 4 bjóra kvöldið áður. Hann kvaðst hafa verið að fara að sofa og þá hefði hann ýtt við eiginkonunni sem hefði orðið „brjáluð“ við það eins og haft er eftir honum. Hún hefði síðan farið fram á gang. Þá kvað hann hana hafa lamið sig.
Loks var lögreglan kvödd á heimilið 9. mars síðastliðinn. Lögreglumenn hittu eiginkonuna frammi á gangi og var hún í miklu uppnámi og ekki hægt að ræða við hana. Þá var ekki að sjá áverka á henni. Haft var tal af nágrönnum sem töluðu um hávaða frá íbúð kærða. Haft var tal af kærða sem var mjög rólegur og segir í skýrslunni að hann hafi verið hissa á málinu. Síðar í skýrslunni segir að eiginkonan muni hafa hent fötum hans fram á gang og hann hent hennar fötum ásamt því að reka hana á dyr. Þá sýndi hann áverka á hálsi og kvað eiginkonuna hafa klórað sig. Hún viðurkenndi að hafa klórað hann með nöglunum. Kærði viðurkenndi að hafa drukkið nokkra bjóra. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð.
Í 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 er tilgreint hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til að manni verði vísað á brott af heimili sínu. Enn fremur hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að hann sé beittur nálgunarbanni. Þá segir í 6. gr. að framangreindum úrræðum verði þá aðeins beitt þegar ekki þyki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir því að kærði og eiginkona hans hafa ekki verið sátt og hefur lögreglan nokkrum sinnum verið kvödd á vettvang. Í þessi skipti hefur ákærði verið undir áhrifum áfengis en þó vel viðráðanlegur að því er ráðið verður af gögnum málsins. Aðeins í eitt skipti virðist hafa verið um alvarlegt tilvik að ræða í samskiptum kærða og eiginkonunnar. Það var 9. nóvember er hann ógnaði henni með hníf eins og rakið var. Hún vildi þó hvorki leita læknis né kæra hann og ekki verður séð að lögreglan hafi talið ástæðu til að hefja frekari rannsókn á þessu tilviki að eigin frumkvæði. Í hin skiptin verður ekki betur séð en um hjónaerjur sé að ræða og í eitt skipti hafi eiginkonan borið áverka eftir kærða og í annað skipti hafi hann borið áverka eftir hana. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ágreiningur kærða og eiginkonu hans sé ekki þess eðlis að lagaskilyrði séu til að vísa honum á brott af heimilinu og banna honum að nálgast hana og son hennar. Kröfu lögreglustjóra er því hafnað.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila og skipaðs réttargæslumanns brotaþola að meðtöldum virðisaukaskatti skal greidd úr ríkissjóði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Nálgunarbann sem lögreglustjórinn í Reykjavík lagði á kærða, X, 10. mars 2015 er fellt úr gildi.
Þóknun verjanda varnaraðila, Helgu Völu Helgadóttir hdl., 245.520 krónur og réttargæslumanns brotaþola, Sigríðar Dagmarar Jóhannsdóttur hdl., 122.760.krónur skal greidd úr ríkissjóði.