Hæstiréttur íslands
Mál nr. 432/2016
Lykilorð
- Samningur
- Kaup
- Stjórnsýsla
- Skaðabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2016. Hann krefst þess að gagnáfrýjendum verði sameiginlega gert að greiða sér aðallega 1.939.410.045 krónur, en til vara 1.810.146.562 krónur, í báðum tilvikum með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. apríl 2014 til 26. júlí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi gagnáfrýjenda.
Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 17. ágúst 2016. Þeir krefjast hvor fyrir sig aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, til vara að málinu verði vísað frá héraðsdómi en að því frágengnu að fjárhæð kröfu aðaláfrýjanda verði lækkuð. Í öllum tilvikum krefjast gagnáfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjendum hvorum fyrir sig málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjandi, Ursus ehf., greiði gagnáfrýjendum, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. og Seðlabanka Íslands, hvorum fyrir sig samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. mars sl., er höfðað með stefnu 18. desember 2014 af Ursus ehf., Lækjargötu 2, Reykjavík gegn Seðlabanka Íslands, Kalkofnsvegi 1, Reykjavík og Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., Kalkofnsvegi 1, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 1.939.410.045 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. apríl 2014 til 26. júlí 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er gerð sú krafa að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 1.810.146.562 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. apríl 2014 til 26. júlí 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndu krefjast aðallega sýknu en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Þá krefjast stefndu greiðslu málskostnaðar.
I.
Atvik málsins, sem að hluta til eru umdeild, eru þau að 18. janúar 2010 hófst opið söluferli á hlutum SAT eignarhaldsfélags ehf. og Íslandsbanka hf. á hlutum sínum í Sjóvá. Umsjónaraðili með ferlinu var fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. Stefnandi tók þátt í söluferlinu og leiddi hóp fjárfesta sem átti hæsta boð í félagið. Í mars 2010 hófust viðræður milli fjárfestahópsins og eigenda félagsins um kaup á grundvelli tilboðsins. Í miðjum viðræðum tók stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands, ehf. yfir 73,03% hlutafjár í Sjóvá af SAT eignarhaldsfélagi ehf. á grundvelli veðheimilda sinna og gerðist aðili að söluferlinu. Eftir eigendaskiptin átti SAT eignarhaldsfélag ehf. 17,67% hlutafjár í Sjóvá og Íslandsbanki 9,3%.
Hinn 10. júlí 2010 undirrituðu stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., Íslandsbanki hf. og fjárfestahópurinn samkomulag um kaup og sölu á hlutum í Sjóvá og kauprétt að auki til handa fjárfestahópnum á hlutum í félaginu með nánar tilgreindum skilyrðum og fyrirvörum. Samhliða undirrituðu framangreindir aðilar yfirlýsingu um kaupin, sem fól m.a. í sér að stefndu, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. og Íslandsbanki hf., skyldu gera samning um sölu á hlutum sínum í félaginu til fjárfestahópsins, jafnvel þótt SAT eignarhaldsfélag ehf. kysi að vera ekki aðili að viðskiptunum. SAT eignarhaldsfélag ehf. undirritaði samkomulagið með fyrirvara 28. júlí 2010, en ákvað að lokum að eiga ekki aðild að viðskiptunum. Eftir að niðurstöður áreiðanleikakönnunar fjárfestahópsins lágu fyrir og í kjölfar frekari samningaviðræðna um kaupin kveður stefnandi samkomulag hafa náðst. Því eru stefndu ósammála.
Samkvæmt samkomulaginu frá 10. júlí voru skuldbindingar fjárfestahópsins háðar eftirtöldum skilyrðum og fyrirvörum: Í grein 5.1.1: Að fyrsta áfanga áreiðanleikakönnunar hefði verið lokið þannig að ásættanlegt væri að mati fjárfestahópsins. Stefnandi kveður þessu skilyrði hafa verið fullnægt í byrjun september 2010. Í grein 5.1.2: Að áreiðanleikakönnun hefði verið lokið þannig að ásættanlegt væri að mati fjárfestahópsins fyrir 1. ágúst 2010. Fjárfestahópurinn féll frá skilyrðinu um tímamörk, en áreiðanleikakönnun var lokið í byrjun september 2010. Niðurstöður könnunarinnar gáfu fjárfestahópnum tilefni til athugasemda um tiltekin atriði. Náðist samkomulag um þau með samþykkt ákvæða í greinum 7, 8 og 11 í endanlegum kaupsamningi. Stefnandi kveður skilyrði samningsins frá 10. júlí því hafa verið uppfyllt. Í greinum 5.1.3 og 5.1.4: Að öll viðeigandi stjórnvöld hefðu samþykkt viðskiptin, þ.m.t. Fjármálaeftirlitið, eða ekki gert athugasemdir innan lögboðinna fresta, allt fyrir 15. september 2010. Stefnandi kveður að í endanlegum kaupsamningi hafi fjárfestahópurinn fallið frá þessu skilyrði að því er varðar tímamörk og ný verið ákveðin. Því eru stefndu ósammála. Hið rétta sé að skilyrði og fyrirvarar sem talin hafi verið upp í greinum 5.2.1 til 5.2.6 í samkomulaginu hafi ekki verið uppfyllt. Ennfremur hafi stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., ekki veitt stefnanda eða fjárfestahópnum skriflega tilkynningu um að fallið hefði verið frá þeim skilyrðum sem þar komu fram né veitt framlengingu tímafresta, enda augljóst öllum aðilum söluferlisins að semja þyrfti sérstaklega um öll atriði kaupanna ef áreiðanleikakönnun fjárfestanna leiddi til þess að aðilar ætluðu sér að gera endanlegan bindandi samning um hugsanleg kaup. Í grein 5.1.5: Að lokaútgáfa kaupsamnings lægi fyrir, þannig að ásættanlegt væri fyrir fjárfestahópinn, eigi síðar en 1. ágúst 2010. Stefnandi kveður fjárfestahópinn hafa fallið frá skilyrði um tímamörk og unnið að gerð lokaútgáfu kaupsamnings sem lá svo fyrir á formi sem var ásættanlegt fyrir fjárfestahópinn í lok september 2010. Í grein 5.1.6: Að gerð hluthafasamnings hefði verið lokið þannig að ásættanlegt væri fyrir fjárfestahópinn eigi síðar en 1. ágúst 2010. Fjárfestahópurinn féll frá þessu skilyrði og samþykkti að gerast aðili að hluthafasamkomulagi hluthafa Sjóvá frá 28. júlí 2010, sbr. sérstaka yfirlýsingu þess efnis sem aðilar höfðu komið sér saman um í lok september 2010.
Samkvæmt samkomulaginu frá 10. júlí voru skuldbindingar seljenda háðar eftirtöldum skilyrðum og fyrirvörum: Í grein 5.2.1: Að öll viðeigandi stjórnvöld hefðu samþykkt viðskiptin, eða ekki gert athugasemdir innan lögboðinna fresta, allt fyrir 15. september 2010. Í endanlegum kaupsamningi féll stefnda Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. frá framangreindu skilyrði að því er varðar tímamörk og voru ný ákveðin. Í grein 5.2.2: Að aðilar fjárfestahópsins hefðu sent inn umsókn til Fjármálaeftirlitsins eigi síðar en 15. júlí 2010 og óskað heimildar til að fara með virkan eignarhlut. Í endanlegum kaupsamningi féll stefnda Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. frá þessu skilyrði að því er snertir tímamörk en í grein 6.1.3 og 7.1.16 í endanlegum kaupsamningi var staðfest að slíkar umsóknir hefðu verið sendar Fjármálaeftirlitinu 4. ágúst 2010 og seljendum um það kunnugt. Í grein 5.2.3: Að gerð lokaútgáfu kaupsamnings lægi fyrir þannig að ásættanlegt væri fyrir stefnda Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. eigi síðar en 1. ágúst 2010. Stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., féll frá þessu skilyrði að því er snerti tímamörk og vann að gerð lokaútgáfu kaupsamnings þar til hann var í ásættanlegu formi fyrir stefnda Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. í lok september 2010. Í grein 5.2.4: Að tilteknar eignir (e. „replacement assets“) hefðu verið keyptar út úr Sjóvá eins og þær voru skilgreindar í samkomulaginu og afhentar seljendum án kvaða. Gert var ráð fyrir því í yfirlýsingu aðila frá 10. júlí 2010 að þetta skilyrði breyttist ef SAT eignarhaldsfélag ehf. yrði ekki aðili að viðskiptunum. Í samræmi við það féll stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., frá skilyrðinu og samþykktu aðilar í endanlegum kaupsamningi að í stað þess að eignirnar yrðu keyptar, yrði fjárfestahópnum haldið skaðlausum af verðrýrnun eignanna, sbr. ákvæði 7, 8 og 11 í endanlegum kaupsamningi. Í grein 5.2.5: Að kaupverð væri greitt. Var þessum fyrirvara aflétt með nýju slíku ákvæði í endanlegum kaupsamningi. Í grein 5.2.6: Að gerð hluthafasamnings hefði verið lokið þannig að ásættanlegt væri fyrir seljendur eigi síðar en 1. ágúst 2010. Seljendur féllu frá þessu skilyrði þar sem fjárfestahópurinn samþykkti að gerast aðili að hluthafasamkomulagi hluthafa Sjóvár frá 28. júlí 2010, sbr. sérstaka yfirlýsingu þess efnis sem aðilar höfðu komið sér saman um í lok september 2010 samhliða gerð endanlegs kaupsamnings.
Stefnandi kveður stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., Íslandsbanka hf. og fjárfestahópinn sameiginlega hafa lýst yfir, með undirritaðri yfirlýsingu 7. júlí 2010, vilja til að undirrita framangreint samkomulag frá 10. júlí sama ár, en jafnframt skuldbinda sig til að gera kaupsamning jafnvel þótt SAT eignarhaldsfélag ehf. gengi úr skaftinu. Sagði í 1. gr. yfirlýsingarinnar, að skuldbinding aðila samkvæmt samkomulaginu 10. júlí, væri háð þeim fyrirvara að SAT eignarhaldsfélag ehf. staðfesti samninginn með undirritun sinni. Það gerði SAT eignarhaldsfélag ehf. svo 28. júlí 2010 með fyrirvara. Í 4. gr. yfirlýsingarinnar sagði að aðilar skyldu vinna að kaupsamningi sem taka myndi gildi ef skuldbinding samkvæmt 1. gr. hennar félli niður vegna þess að fyrirvarinn um aðkomu SAT eignarhaldsfélags ehf. næði ekki fram að ganga. Sagði svo í 4. gr. að hinn nýi samningur myndi byggja á samningnum frá því 10. júlí með eftirfarandi undantekningum: Í grein 4 a: Að Íslandsbanki hf. og stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., myndu selja hluti sína en ekki SAT eignarhaldsfélag ehf. Í grein 4 b: Að lægra hlutfall útistandandi hlutafjár yrði selt, svo sem nánar yrði útfært í samningi. Í grein 4 c: Að krafa á Avant hf. yrði ekki keypt út úr Sjóvá heldur myndu seljendur ábyrgjast skaðleysi fjárfestahópsins vegna hugsanlegra affalla af kröfunni. Í grein 4 d: Að sérstakt samkomulag yrði gert um eignastýringarstarfsemi. Í grein 4 e: Um önnur atriði sem aðilar yfirlýsingarinnar kynnu að verða sammála um. Stefnandi kveður framangreint hafa gengið eftir, þ.e. SAT eignarhaldsfélag ehf. hafi ekki orðið aðili að viðskiptunum, en stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., og Íslandsbanki hf. hafi gert samning við fjárfestahópinn, sem byggði á samkomulaginu frá 10. júlí 2010, með þeim breytingum sem sérstaklega voru tilgreindar í greinum 4 a-d í yfirlýsingunni, auk annarra atriða sem aðilar urðu ásáttir um sbr. ákvæði 4 e í yfirlýsingunni. Nánar tiltekið fólu hin umsömdu viðskipti í sér að stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., og Íslandsbanki hf. seldu fjárfestahópnum samtals 498.978.467 hluti, að nafnvirði ein króna hver hlutur, þ.e. 31,33% hlutafjár í félaginu. Þar af skyldi Íslandsbanki hf. selja alla sína hluti í félaginu, eða 148.171.863, þ.e. 9,3% hlutafjár í félaginu og stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., selja 350.806.604 hluti, þ.e. 22,03% hlutafjár í félaginu. Kaupverð hlutanna skyldi vera samtals krónur 2.958.933.167, þ.e. á genginu 5,93 á hvern seldan hlut. Auk þessa veitti stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., fjárfestahópnum rétt til að kaupa 812.185.707 hluti eða sem nam 51% hlutafjár í félaginu á tímabilinu 21. júní 2012 til 15. júlí 2012. Samkvæmt samningnum skyldi innlausnarverð kaupréttarins á innlausnartímabilinu vera samtals 6.029.235.198 krónur eða rúmlega 7,42 kr. á hvern hlut. Um það var samið að stefnandi keypti 139.713.971 hlut, eða samtals 8,77% af heildarhlutafé félagsins á samtals 828.501.288 krónur. Þá átti stefnandi rétt til að kaupa þar til viðbótar að lágmarki 227.411.998 hluti á 1.688.185.858 krónur á innlausnartímabili kaupréttarins. Stefnandi kveður ekkert hafa staðið því í vegi að gengið yrði frá viðskiptunum á þessum skilmálum. Þannig hafi stefnandi m.a. gert ráðstafanir til að losa um fé til greiðslu kaupverðsins. Þá kveður stefnandi ekkert benda til annars en að Fjármálaeftirlitið hefði samþykkt viðskiptin fyrir sitt leyti. Kæmi þar m.a. tvennt til: Í fyrsta lagi að stefnandi hefði ekki einn og sér eignast virkan eignarhlut í Sjóvá, sbr. 3. tl. 1. gr. og 40. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og Fjármálaeftirlitinu hefði því verið óheimilt að að samþykkja ekki kaupin og í öðru lagi að stefnandi teldist vafalaust hæfur til eignarhaldsins, sbr. 42. gr. laga nr. 161/2002.
Stefndu kveðjast ósammála stefnanda um að stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., Íslandsbanki hf. og fjárfestahópurinn hafi gert samning sem byggði á samkomulaginu frá 10. júlí 2010 og yfirlýsingu aðila. Hið rétta sé að unnið hafi verið að endanlegum kaupsamningi á milli aðila um kaupin og hafi drög að slíkum samningi legið fyrir, en vinna við gerð draga að hugsanlegum samningi hafi aldrei falið í sér bindandi samning milli aðila, eins og aðilum hafi verið ljóst. Því hafi aldrei stofnast bindandi samningur á milli aðila á grundvelli draganna sem send hafi verið í tölvupósti frá Íslandsbanka hf. til fulltrúa stefnanda 30. september 2010. Beri orðalag tölvupóstsins það augljóslega með sér að svo hafi ekki verið. Ekki sé mótmælt að samningsdrög hafi verið komin á það form að hægt hafi verið að leggja þau fyrir stjórnir viðkomandi aðila. Allir hafi verið jafn meðvitaðir um það að stjórnir félaganna gætu annað hvort samþykkt drögin eða hafnað þeim.
Aðilar gerðu ráð fyrir að afhending hluta gegn greiðslum vegna viðskiptanna færi fram eigi síðar en 1. jan. 2011, sbr. ákvæði 4.4, 4.5 og 5.2 í hinum óundirritaða kaupsamningi. Þá gerðu aðilar ráð fyrir að afhendingardagur samkvæmt kaupréttarsamningnum væri á fimmta viðskiptadegi frá afhendingu innlausnartilkynningar á innlausnartímabilinu og skyldu greiðslur gegn afhendingu hluta samkvæmt honum fara fram samhliða eða í síðasta lagi 20. júlí 2012, sbr. ákvæði 3 og 4 í hinum óundirritaða kaupréttarsamningi.
Stefnandi kveður formann stjórnar stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. og bankastjóra stefnda Seðlabanka Íslands hafa upplýst í október 2010 að stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., gæti ekki staðfest viðskiptin. Ástæðan væri sögð rannsókn bankans á ætluðum brotum stefnanda á reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál nr. 370/2010 og lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992. Stefnandi kveður engan fyrirvari hafa verið í samkomulagi aðila frá 10. júlí 2010 um stöðu eftirlitsmála stefnanda hjá Seðlabanka Íslands. Þá taldi stefnandi enga ástæðu fyrir þeirri rannsókn sem sögð var eiga sér stað á hans málum. Hann mótmælti því afstöðu stjórnar stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. og stefnda Seðlabanka Íslands og krafðist þess að gengið yrði frá samningnum. Stefnandi kveður stefndu, 21. nóvember 2010, ekki hafa hvikað frá afstöðu sinni. Fjárfestahópurinn hafi því séð sig knúinn að tilkynna umsjónaraðila að hann hefði með endanlegum hætti sagt sig frá viðskiptunum um Sjóvá. Degi síðar kvartaði stefnandi til umboðsmanns Alþingis vegna málsmeðferðar stefndu.
Stefndu kveða að 19. ágúst 2010 hafi birst frétt í Viðskiptablaðinu í kjölfar þess að viðbætur hafi verið gerðar við leiðbeiningar Seðlabanka Íslands við reglur nr. 370/2010 um gjaldeyrismál. Í fréttinni hafi komið fram að grunur léki á um að farið hefði verið á svig við reglur um gjaldeyrishöft og aflandskrónum komið í umferð fram hjá höftunum í tengslum við skuldabréfaútgáfu nokkurra innlendra félaga, þ. á m. stefnanda. Fyrirsvarsmaður stefnanda hafi í kjölfarið sent tölvupóst til fyrirsvarsmanns stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., og jafnframt haft samband við hann símleiðis og óskað eftir að athugað yrði innan stefnda, Seðlabanka Íslands, hvort fréttin hefði áhrif á söluferlið. Komið hafi í ljós að gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands hafi frá því síðsumars 2010 haft til skoðunar umrædda skuldabréfaútgáfu vegna gruns um að útgáfan tengdist misnotkun á þágildandi reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál, sem settar höfðu verið á grundvelli 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I með lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Hafi skoðun gjaldeyriseftirlitsins lotið að því hvort ívilnun í reglum nr. 370/2010 hafi verið nýtt til að koma íslenskum krónum keyptum á aflandsmarkaði hingað til lands en slíkt gengur í berhögg við efni og markmið reglna um gjaldeyrismál. Þegar komið hafi að því í byrjun október 2010 að leggja fyrirliggjandi samningsdrög fyrir stjórn stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., hafi því komið til skoðunar hvort stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., gæti staðið að sölu eigna til aðila sem lægi undir grun um að hafa brotið reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál og þar með gegn markmiðum Seðlabanka Íslands. Ljóst hafi þótt að stjórn stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., gæti ekki tekið afstöðu til fyrirliggjandi samningsdraga fyrr en skoðun gjaldeyriseftirlitsins hefði farið fram. Hafi strax í kjölfarið verið óskað eftir upplýsingum frá stefnanda um skuldabréfaútgáfu þá sem til skoðunar var hjá gjaldeyriseftirlitinu. Í tölvupósti frá fyrirsvarsmanni stefnanda 8. október 2010 hafi verið upplýst að fyrirsvarsmaðurinn, eini eigandi stefnanda, hefði verið kaupandi skuldabréfaútgáfunnar, sem hefði verið liður í að styrkja fjárhag stefnanda vegna kaupa á Sjóvá og krafna Fjármálaeftirlitsins um fjárhagslegt bolmagn. Með tölvupósti sem sendur var Íslandsbanka hf. af hálfu lögmanns stefnanda 14. október 2010, hafi fjárfestahópurinn gefið seljendum frest til 22. október 2010 til að ljúka viðskiptum á grundvelli samkomulagsins ellegar myndi hópurinn ekki hafa frekari aðkomu að söluferlinu. Í kjölfarið hafi átt sér stað ýmis samskipti milli aðila þar sem fram hafi komið að málið væri allt í skoðun og stjórn stefnda Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. væri ekki búin að taka efnislega afstöðu til fyrirliggjandi draga að samningi. Áður en að til þess hafi komið að stjórn stefnda Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. tæki efnislega afstöðu til fyrirliggjandi draga að samningi hafi fjárfestahópurinn tilkynnt og ítrekað að hópurinn hefði sagt sig frá söluferlinu 22. október 2010, sbr. tölvupóst frá lögmanni stefnanda 21. nóvember 2010. Áður en ofangreindur tölvupóstur var sendur muni fjárfestahópurinn hafa óskað eftir því formlega við Fjármálaeftirlitið að frekari afgreiðslu umsóknar þeirra yrði frestað og staðfest þar með skýrum hætti ætlun sína að segja sig frá viðskiptunum.
Hinn 26. nóvember 2010, kærði stefndi, Seðlabanki Íslands, stefnanda til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra vegna meintra brota hans á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Stefndi, Seðlabanki Íslands, upplýsti stefnanda um þetta með bréfi 4. maí 2011. Hinn 27. febrúar 2012 ákvað sérstakur saksóknari, sem tekið hafði við meðferð málsins, að hætta rannsókn þess, sbr. 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008. Seðlabanki Íslands kærði ákvörðunina til Ríkissaksóknara, sem staðfesti hana 23. apríl 2012.
Hinn 19. janúar 2011 var tilkynnt að stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., hefði samið um að selja 834.481.001 hlut í Sjóvá, sem svaraði til 52,4% útistandandi hlutafjár í félaginu. Kaupandi var SF1 fagfjárfestasjóður, sem verið hafði hluti fjárfestahópsins. Kom fram í tilkynningu félagsins, umsjónaraðila og stefndu að kaupin væru niðurstaða þess söluferlis sem hófst 18. janúar 2010.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dóminum fyrirsvarsmaður stefnanda, fyrirsvarsmaður stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., fyrirsvarsmaður stefnda, Seðlabanka Íslands, aðallögfræðingur stefnda, Seðlabanka Íslands, lögmaður fjárfestahópsins og fyrrum fyrirsvarsmann stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf.
II.
Stefnandi kveður málsókn sína byggjast á því að stofnast hafi bindandi samningur um kaupin sem stefnda Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. hafi verið skylt að efna. Stefndu hafi hins vegar sammælst með saknæmum hætti um að ljúka ekki viðskiptunum sem samið var um. Sú ákvörðun hafi þess utan verið ómálefnaleg og ólögmæt, eins og viðræður aðila hafi þróast, óháð tilvist bindandi samnings. Hafi stefndu því bæði bakað sér bótaskyldu utan og innan samninga. Þá hafi stefndu brotið gegn reglum stjórnsýsluréttar. Stefnandi byggi á því að einfaldur gáleysismælikvarði verði lagður á athafnir stefndu. Auk þess byggi hann á því að allar aðgerðir stefndu og athafnaleysi hafi átt sér stað að vel athuguðu máli og vitandi vits. Skipti því engu þótt strangari saknæmismælikvarði verði lagður til grundvallar úrlausn málsins.
Stefnandi byggi aðalkröfu sína á því að stofnast hafi bindandi samningur um kaup stefnanda af stefnda Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. á 139.713.971 hlut í Sjóvá, eða samtals 8,77% af heildarhlutafé félagsins á samtals 828.501.288 krónum. Jafnframt hafi stofnast bindandi samningur um rétt stefnanda til að kaupa til viðbótar að lágmarki 227.411.998 hluti á 1.688.185.858 krónur. Stefnandi byggi annars vegar á undirrituðu samkomulagi aðila frá því í júlí 2010 og hins vegar á óundirritaðri lokaútgáfu kaupsamnings aðila frá því í september sama ár. Þegar síðarnefndi samningurinn lá fyrir hafi öllum fyrirvörum samkomulagsins frá því í júlí verið fullnægt. Stefnandi álíti að ekki sé ágreiningur milli aðila málsins um framangreint. Um það sé vísað til bréfs Más Guðmundssonar og Sigríðar Logadóttur frá 14. desember 2010, til lögmanns stefnanda, þar sem segi á bls. 4: „Varðandi síðan söluferli Sjóvár, þá var það sem kunnugt er komið á það stig að fyrir lá kaupsamningur.“ Ennfremur sé vísað til opinberrar yfirlýsingar Seðlabanka Íslands frá 4. febrúar 2011 þar sem segi: „Teknar voru upp viðræður við þann hóp sem hæst bauð og um haustið lá fyrir óundirritaður kaupsamningur.“ Stefnandi byggi á því að með ákvörðun sinni um að hætta við sölu til stefnanda sem samið hafi verið um hafi stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., brotið gegn samningnum og verði að greiða stefnanda efndabætur, sem geri stefnanda jafn settan og ef viðskiptin hefðu átt sér stað. Stefnandi byggi á því að stefndi, Seðlabanki Íslands, beri in solidum ábyrgð á þessu samningsbroti stefnda, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. Stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., sé rekið sem einkahlutafélag með takmarkaðri ábyrgð samkvæmt lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Sú takmörkun fyrirbyggi þó ekki kröfugerð gegn stefnda, Seðlabanka Íslands. Stefndi, Seðlabanki Íslands sé eini hluthafi stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., og félagið lúti yfirráðum hans. Fyrir liggi að bankastjóri og aðallögfræðingur stefnda, Seðlabanka Íslands, hafi lagt á ráðin um ákvörðun stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., að staðfesta ekki samninginn og fært Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., upplýsingar til að stuðla að þeirri ákvörðun, sem þau hafi svo sjálf tekið. Aðkoma bankastjórans og aðallögfræðingsins hafi ekki einvörðungu helgast af stöðu þeirra sem stjórnarmanna í stefnda Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. heldur hafi hún, líkt og viðurkennt sé, jafnframt ráðist af stöðu þeirra hjá stefnda, Seðlabanka Íslands, og vitneskju þeirra í krafti þeirrar stöðu. Af þeirri ástæðu beri stefndi, Seðlabanki Íslands, in solidum ábyrgð á ákvörðun stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., að synja samningum aðila staðfestingar.
Í öllu falli byggi stefnandi á því, teljist ekki hafa stofnast bindandi samningur, að samningsgerð hafi verið komin svo langt að stefndi, Seðlabanki Íslands, sem stjórnvaldshafi, og stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., sem félag undir yfirráðum og stjórn stefnda Seðlabanka Íslands, hafi verið óheimilt að hlaupa frá kaupunum nema á grundvelli ótvíræðra málefnalegra og lögmætra sjónarmiða. Engin sjónarmið hafi verið til staðar sem hafi getað réttlætt slíkt. Meirihluti stjórnar stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. og æðstu yfirmenn Seðlabanka Íslands hafi sagt að rannsókn gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands á ætluðum brotum stefnanda á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál hafi verið eina ástæða þess að stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., hafi hætt við kaupin. Stefnandi byggi á því að rannsóknin hafi ekki getað réttlætt ákvörðun stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. að staðfesta ekki samninginn. Í fyrsta lagi hafi stefnda Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., samkvæmt ákvæði um þagnarskyldu í 15. gr. laga nr. 87/1992, aldrei átt að hafa vitneskju um tilvist rannsóknarinnar. Í öðru lagi hafi viðskipti stefnanda sem til rannsóknar hafi verið, verið í samræmi við lög. Í þriðja lagi hafi enginn fyrirvari verið um stöðu eftirlitsmála hjá Seðlabanka Íslands í samningi aðila. Í fjórða lagi hafi rannsóknin verið tilhæfulaus.
Rétt sé að víkja nánar að síðast greinda atriðinu. Stefnandi byggi á því að rannsókn stefnda Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismálum hans hafi hvílt á ófullnægjandi lagagrundvelli og framkvæmd hennar brotið í verulegum atriðum gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttar. Þau atriði sem stefnandi byggi á um þetta séu helst þessi. Í fyrsta lagi byggi stefnandi á að þau viðskipti, sem rannsókn stefnda Seðlabanka Íslands hafi lotið að, hafi verið lögmæt og enginn skynsamlegur vafi leikið þar á. Vísi stefnandi því til frekari stuðnings til bréfs síns til stefnda Seðlabanka Íslands frá 27. janúar 2011 og kvörtunar hans til umboðsmanns Alþingis, 22. nóvember 2010. Í öðru lagi byggi stefnandi á að rannsóknin hafi farið fram í andstöðu við rétt hans til vitneskju um tilvist hennar, í andstöðu við rétt hans til andmæla og til upplýsinga, sbr. 13., 14. og 15. gr. laga nr. 37/1993. Nánari grein sé gerð fyrir þessu í bréfi stefnanda til Seðlabanka Íslands frá 27. janúar 2011 og í kvörtun hans til Umboðsmanns Alþingis, 22. nóvember 2010. Í þriðja lagi byggi stefnandi á því að við rannsóknina hafi verið brotið gegn þagnarskylduákvæði 15. gr. laga nr. 87/1992 með miðlun upplýsinga um hana til stjórnar stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. Stefnandi byggi á því að stefndi, Seðlabanki Íslands, beri sem stjórnvaldshafi sakarábyrgð á öllum þessum annmörkum. Stefnandi byggi á því að stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., beri auk þess sameiginlega ábyrgð á þessu. Stjórnarmönnum stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., hafi verið fullkunnugt um alla þá annmarka á rannsókninni sem lýst sé að framan og um þagnarskylduna sem á starfsmönnum stefnda, Seðlabanka Íslands, hafi hvílt samkvæmt 15. gr. laga nr. 87/1992. Þá hafi stjórnarmenn stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., sem æðstu yfirmenn gjaldeyriseftirlits stefnda, Seðlabanka Íslands, og vegna þess að þeir hafi búið yfir upplýsingum um rannsóknina, verið vanhæfir sem stjórnarmenn stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., til að taka ákvörðun um viðskiptin, skv. 4. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993. Stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., hafi kosið að gera tilvist rannsóknarinnar að grundvelli ákvörðunar sinnar þrátt fyrir allt þetta. Hafi þessi háttsemi , Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., verið saknæm og ólögmæt.
Stefnandi kjósi að beina kröfu sinni ekki að Íslandsbanka aðallega þar sem Íslandsbanki hafi ekki átt saknæma aðild að hinni umdeildu ákvörðun. Stefndu beri ein ábyrgð á henni. Til vara bendi stefnandi á að Íslandsbanki og stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., hljóti að hafa borið ábyrgð á efndum samningsins in solidum. Stefnandi geti því valið að hvorum þessara aðila hann beini kröfum sínum. Innbyrðis uppgjör þeirra komi honum ekki við. Til þrautavara bendi stefnandi loks á að Íslandsbanki hafi enga aðild átt að stjórnsýsluþætti málsins sem leiði til bótaskyldu óháð tilvist samnings. Því geti skortur á aðild Íslandsbanka í öllu falli aldrei komið í veg fyrir úrlausn þess þáttar málsins. Af þessum ástæðum öllum beri stefndu in solidum ábyrgð á fjártjóni stefnanda sem nemi þeim hagsmunum, sem hann hafi farið á mis við, vegna háttseminnar.
Stefnandi byggi kröfugerð sína á þeirri forsendu að hann eigi rétt til að vera gerður eins settur og ef samningar við hann hefðu verið efndir. Hefðu kaupin gengið eftir hefði stefnandi greitt 828.501.288 krónur hinn 1. janúar 2011. Við nýtingu kaupréttarins hefði stefnandi til viðbótar greitt 1.688.185.858 krónur, 20. júlí 2012. Gegn greiðslu kaupverðs og innlausnarverðs hefði stefnandi fengið afhenta samtals 367.125.969 hluti í félaginu. Kaupverðið hefði samtals verið 2.516.687.147 krónur og meðalkaupverð á hlut verið um 6,86 krónur. Við skráningu félagsins á markað hafi meðalútboðsgengi hluta numið 12,81 krónu; 23% hlutafjár Sjóvár hafi verið selt við skráninguna, þar af hafi 10% hlutafjár verið selt á 11,9 krónur á hlut en 13% hlutafjár á 13,51 krónu á hlut. Verðmæti hlutar stefnanda, miðað við meðalútboðsgengi, hefði því við skráninguna verið 4.702.883.667 krónur. Hagnaður sá sem stefnandi hafi farið á mis við vegna vanefnda, auk saknæmra og ólögmætra athafna stefndu, hafi því verið verulegur. Tjónið teljist hafa átt sér stað 11. apríl 2014 eða þann dag sem frjáls og óheft viðskipti hófust með hluti Sjóvár í kauphöll. Til að meta tjónið þann dag verði þó að draga frá þá vexti sem stefnandi hefði ella unnið sér inn af hinu greidda kaupverði fram til þess dags. Þyki eðlilegt að miða við vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001. Miðist aðalkrafa hans við þann vaxtafót. Komi þeir vextir því til frádráttar sem reiknist þannig af 828.501.288 krónum frá 1. janúar 2011 til 20. júlí 2012, en af 2.516.687.147 (828.501.288 plús 1.688.185.858) frá þeim degi til 11. apríl 2014. Fjárhæð þeirra nemur 246.786.472 krónum. Tjón stefnanda reiknist því þannig.

Í málinu geri stefnandi aðalkröfu um greiðslu sem nemur þessari fjárhæð. Stefnandi geri til vara kröfu sem miðist við að vextir fram til 11. apríl 2014 reiknist sem almennir vextir óverðtryggðra útlána samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Fjárhæð þeirra nemi 376.049.955 krónum. Tjón stefnanda samkvæmt því reiknist þannig.

Í málinu gerir stefnandi varakröfu um greiðslu sem nemur þessari fjárhæð. Kröfu sína um vexti styðji stefnandi við IV. kafla laga nr. 38/2001. Upphafsdagur dráttarvaxta, mánuði frá þingfestingu fyrra máls 26. júní 2014 um kröfuna, miðist við 9. gr. laga nr. 38/2001.
Stefnandi byggi mál þetta einkum á almennum reglum kröfu-, skaðabóta- og stjórnsýsluréttar. Þá byggi stefnandi málið á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Krafa um málskostnað styðjist við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um vexti styðst við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
III.
Stefndu byggja varnir sínar um sýknu á því að áður en aðilar að samningaferlinu hefðu stofnað til skuldbindandi samnings um viðskipti með hlutabréf í Sjóvá hafi stefnandi og meðfjárfestar hans sagt sig formlega frá söluferlinu. Með ákvörðun sinni hafi stefnandi og meðfjárfestar hans bundið hendur annarra aðila að samningsferlinu og komið í veg fyrir að af viðskiptum gæti orðið. Á þessari grundvallarstaðreynd byggja stefndu og eftirfarandi málsástæðum.
Málatilbúnaður stefnanda sé með þeim hætti að mjög torvelt sé fyrir stefndu að átta sig á því hvaða málsástæður eiga við hvorn. Að lögum sé enginn grundvöllur að slíkri samsömun stefndu sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á og krefjist stefndu sýknu á grundvelli aðildarskorts. Stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., sé einkahlutafélag í eigu stefnda, Seðlabanka Íslands, með afmarkaðan tilgang og hlutverk, stofnað til að fara með verkefni sem fallið hafi til Seðlabanka Íslands eftir fjármálahrunið árið 2008 en eðlilegt hafi verið talið að aðskilja frá hefðbundinni starfsemi stefnda Seðlabanka Íslands með því að stofna eignarhaldsfélag með sérstakri stjórn og starfsmönnum. Stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., hafi verið eigandi hluta í Sjóvá sem selja átti og þ.m. aðili að söluferli Sjóvár. Stefndi, Seðlabanki Íslands, hafi því hvorki verið eigandi hluta í Sjóvá né aðili að söluferlinu, hvorki beint né óbeint. Stefnandi virðist byggja málatilbúnað sinn á því að stofnast hafi bindandi samningur um kaup stefnanda á hlutum í Sjóvá af stefnda, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., og Íslandsbanka hf. sem stefnda, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., hafi borið að efna. Stefndi, Seðlabanki Íslands, hafi enga aðild átt að þeirri samningagerð. Samkvæmt þeirri meginreglu að móðurfélag beri ekki ábyrgð á skuldbindingum dótturfélaga sinna telji stefndi, Seðlabanki Íslands, að málinu sé ranglega beint að honum og beri því að sýkna stefnda, Seðlabanka Íslands, af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts. Seðlabanki Íslands geti ekki með neinum hætti borið in solidum ábyrgð gagnvart stefnanda á því að efna ætlaðan einkaréttarlegan samning, samning sem stefndi sé ekki aðili að og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda, Seðlabanka Íslands, af kröfum stefnanda. Að sama skapi eigi stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., ekki aðild að rannsókn gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands og geti hvorki svarað fyrir né borið samábyrgð á ætluðum annmörkum sem stefnandi telji hafa verið á rannsókn þessa stjórnvalds. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. af kröfum stefnanda.
Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því að stefndu, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. og Seðlabanki Íslands, hafi sammælst um það með ómálefnalegum og ólögmætum hætti að standa ekki við bindandi samning sem legið hafi fyrir um kaup stefnanda á hlutum í Sjóvá. Það liggi hins vegar fyrir í málinu að engin ákvörðun hafi verið tekin af hálfu stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., og hvað þá stefnda, Seðlabanka Íslands, varðandi hin hugsanlegu kaup heldur hafi það verið stefnandi sjálfur og meðfjárfestar hans sem tekið hafi ákvörðun um að ganga frá kaupunum. Beri því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda. Málatilbúnaður stefnanda sé rangur og villandi í grundvallaratriðum eins og að framan greini en formleg, einhliða og endanleg ákvörðun um að ekki yrði af kaupum fjárfestahópsins á hlutum stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., og Íslandsbanka hf. í Sjóvá hafi verið tekin af fjárfestahópnum sjálfum og tilkynnt seljendum með formlegum hætti í tölvupósti þar sem sagt hafi; „Ég vil hér með f.h. fjárfestahópsins koma því skýrt á framfæri, að hann lítur svo á að hann hafi slitið ferlinu 22. október sl. vegna þess dráttar sem orðið hafði í meðferð málsins af hálfu seljenda. Er því hér með formlega lýst yfir, til að taka af öll tvímæli, að fjárfestahópurinn hefur sagt sig frá söluferlinu sem hófst 18. janúar sl.“. Stefndu hafi því í rauninni ekki verið í neinni aðstöðu til að sammælast um eitt né neitt, eins og stefnandi haldi fram, eftir að fjárfestahópurinn og þar á meðal stefnandi sjálfur ákvað einhliða að draga sig út úr söluferlinu og tilkynnti þá ákvörðun sína með formlegum og endanlegum hætti. Af hálfu stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., hafi engin ákvörðun verið tekin um það hvort fyrirliggjandi samningsdrögum yrði hafnað eða ekki þegar fjárfestahópurinn, þar á meðal stefnandi, tilkynnti ákvörðun sína þess efnis að hætta við viðskiptin 22. október 2010. Þvert á móti hafi stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., óskað eftir því að fjárfestahópurinn framlengdi umræddan frest sinn þar til stjórn stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., hefði fjallað um málið og tekið afstöðu til fyrirliggjandi samningsdraga. Því hafi alfarið verið hafnað að hálfu lögmanns stefnanda með tölvupósti 21. nóvember 2010. Þegar af þeirri ástæðu að fjárfestahópurinn hafði tilkynnt um að ekki yrði af viðskiptunum hefðu stefndu ekkert forræði haft á því að hafa áhrif á hvort af viðskiptum yrði. Stefndu yrði því ekki gert að gera stefnanda eins settan og samningar hefðu verið efndir ef aðilum hafi verið ómögulegt að efna samning. Né yrðu stefndu látin bera einhverja mögulega bótaábyrgð á þessari ákvörðun fjárfestahópsins og þar á meðal stefnanda. Engu geti skipt varðandi hina ætluðu bótaábyrgð stefndu hvert framhald rannsóknar gjaldeyriseftirlits og niðurstaða þeirrar rannsóknar hafi orðið. Það hafi verið stefnandi sjálfur sem sagt hafi sig frá viðskiptunum og ákveðið að ljúka þeim ekki eins og honum og öðrum aðilum samkomulagsins var heimilt án frekari rökstuðnings eða eftirmála samkvæmt skýrum ákvæðum samkomulagsins. Í stefnu sé ekki að finna neinar upplýsingar um ástæður þess að fjárfestahópurinn tók ákvörðun um að hætta við viðskiptin og draga sig út úr söluferlinu á þessum tíma, hverjar forsendur þess hafi verið eða samskipti aðila innan hópsins í aðdraganda og kjölfar þeirrar ákvörðunar. Stefnandi verði að beina kröfum sínum, um bætur vegna samningsbrots eða annars, að þeim aðilum sem tekið hafi ákvörðun um að hætta við viðskiptin telji hann sig eiga kröfu til þess að verða gerður jafn settur og viðskiptin hefðu átt sér stað enda ekki á forræði stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., hvað þá heldur stefnda, Seðlabanka Íslands, að ljúka við viðskiptin eftir að stefnandi og viðskiptafélagar hans hafi sagt sig frá þeim með formlegum og endanlegum hætti.
Verði ekki fallist á það að sýkna beri stefndu af öllum kröfum stefnanda þegar af þeirri ástæðu að stefnandi sjálfur og meðfjárfestar hans hafi tekið ákvörðun um að segja sig frá og slíta söluferlinu, byggi stefndu á því að ekki hafi stofnast bindandi samningur um kaupin sem stefnda, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., hafi verið skylt að efna hvað þá heldur stefnda, Seðlabanka Íslands, sem ekki hafi verið aðili að þeim fyrirhuguðu einkaréttarlegu viðskiptum sem mál þetta snýst um. Málatilbúnaður stefnanda hvað þetta varði sé ekki studdur neinu nema fullyrðingum hans sjálfs í stefnu og sé hann auk þess í ósamræmi við afstöðu hans sjálfs sem birtist í framlögðum gögnum. Stefnandi geri enga tilraun til að sýna fram á að hann sjálfur og meðfjárfestar hans hafi samþykkt og staðfest fyrirliggjandi samningsdrög með bindandi hætti. Stefnandi vanræki jafnframt að sýna fram á að hinn seljandinn í söluferlinu, Íslandsbanki hf., hafi fyrir sitt leyti samþykkt og staðfest fyrirliggjandi samningsdrög með bindandi hætti. Auk þessa vanræki stefnandi að rökstyðja þann málatilbúnað að stefndu eigi að bera ábyrgð á því að Íslandsbanki hf. hafi ekki selt stefnanda hlut sinn í Sjóvá. Þeim málatilbúnaði stefnanda að samningsdrög, sem lágu fyrir að undangengnu samningsferli, hafi falið í sér bindandi samning, óháð því hvort þeir sem bærir voru til að skuldbinda samningsaðila hafi veitt samþykki sitt til viðskipanna, sé vísað á bug. Fari slíkt bæði í bága við lög og viðtekna venju um samningsgerð og stofnun samninga. Hafi öllum aðilum söluferlisins verið jafn ljóst að samkomulagið frá 10. júlí 2010 væri ekki endanlegur samningur um kaup fjárfestahópsins á Sjóvá, eins og ákvæði samkomulagsins beri enda með sér. Öllum aðilum hafi verið jafn ljóst að samningaviðræður milli einstakra starfsmanna aðila, ráðgjafa og annarra aðila væri alltaf háð endanlegu samþykki stjórna viðkomandi samningsaðila og að þeir aðilar sem komið hafi að gerð samningsdraganna fyrir hönd stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. og annarra, hefðu hvorki haft lögformlegt umboð né heimild til að skuldbinda aðila söluferlisins með nokkrum hætti.
Stefnandi haldi því fram að fyrirvörum samkomulagsins frá 10. júlí 2010 hafi verið fullnægt með þeim samningsdrögum sem fyrir lágu í lok september 2010. Svo sé hins vegar ekki eins og fyrr greini og sú staða hafi aldrei getað komið upp fyrr en aðilar að söluferlinu hefðu allir staðfest og undirritað fyrirliggjandi samningsdrög með lögformlegum hætti. Fyrr hefði ekki verið kominn á bindandi samningur um kaupin og hafi öllum aðilum í söluferlinu verið það ljóst alveg frá því að samkomulagið var undirritað 10. júlí 2010 og fram að því að stefnandi ásamt meðfjárfestum sínum hafi sagt sig frá samningsferlinu. Til frekari rökstuðnings megi t.a.m. vísa til orðalags í samkomulaginu sjálfu í grein 3.6 þar sem fram komi: ,,að fjárfestirinn geri áreiðanleikakönnun eingöngu til að ákveða hvort gera skuli endanlegan bindandi samning um kaup á hlutunum og kaupréttinum.“ Samkvæmt grein 5.3 í samkomulaginu skyldi það falla niður ef skilyrðum yrði ekki fullnægt fyrir tilsetta tíma og samningsaðilar skyldu engan frekari rétt hafa eða skuldbindingar samkvæmt samkomulaginu. Kveðið hafi verið á um að heimilt væri að framlengja téða tíma með skriflegri tilkynningu. Fyrir liggi í málinu að það hafi ekki verið gert. Hafi samkomulagið því fallið niður og aðilar að því ættu ekki frekari rétt samkvæmt því.
Þá byggi stefndu sýknukröfu sína á grein 8.1 í samkomulaginu þar sem fjárfestahópurinn, þ.m.t. stefnandi, staðfesti takmörkun ábyrgðar stefndu. Í greininni segi að hvorki seljendur, fulltrúar, stjórnarmenn eða stjórnendur séu ábyrgir gagnvart fjárfestahópnum vegna taps, tjóns, skaða eða útgjalda sem verði til eða séu í tengslum við framkvæmd samkomulagsins, nema sannist vera vegna stórfelldrar vanrækslu eða misferlis að yfirlögðu ráði. Ekkert liggi fyrir í málinu að um slíka háttsemi sé að ræða af hálfu stefndu né á því byggt af hálfu stefnanda í stefnu. Stefnandi sé að fullu bundinn við framangreint ákvæði sem hann ásamt meðfjárfestum sínum hafi ritað undir með bindandi hætti. Öll fyrirliggjandi gögn málsins beri enda með sér að öllum aðilum máls hafi verið ljós framangreind takmörkun.
Ljóst sé að viðræðum hafi verið haldið áfram eftir að frestir samkvæmt samkomulaginu voru útrunnir án þess að aðilar hafi leitast við að framlengja fresti samkvæmt samkomulaginu. Því sé hins vegar algjörlega hafnað að viðræður starfsmanna stefndu, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., við aðila í söluferlinu og fyrirliggjandi drög að endanlegum kaupsamningi geti með einhverjum hætti talist bindandi samningur eins og haldið sé fram í stefnu, eða að með fyrirliggjandi drögum að kaupsamningi hafi skilyrðum og fyrirvörum sem komu fram í samkomulaginu frá 10. júlí 2010 verið fullnægt eða aflétt af hálfu stefndu eins og stefnandi byggi málatilbúnað sinn á. Ekki hafi verið kominn á skuldbindandi samningur né hafi skapast skuldbinding gagnvart stefnanda af hálfu stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., hvað þá stefnda Seðlabanka Íslands, sem hvorki hafi verið aðili að samkomulaginu né drögum að samningi, um að samþykkja fyrirliggjandi drög að samningi. Samningur sé ekki skuldbindandi fyrr en hann hafi verið undirritaður eða staðfestur af hálfu samningsaðila með þeim hætti að hann bindi viðkomandi aðila að lögum. Svo hafi ekki verið í þessu tilfelli en meirihluti stjórnar stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., riti firmað skv. samþykktum félagsins. Stefnda, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. og stjórn þess, hafi því verið frjálst að hafna fyrirliggjandi samningsdrögum án þess að slík ákvörðun hefði í för með sér samningsréttarlegar afleiðingar vegna hugsanlegra vanefnda eða brota á samningsskuldbindingu samkvæmt skýrum ákvæðum samkomulagsins og sé ekkert í málatilbúnaði stefnanda sem breyti þeirri staðreynd. Málatilbúnaður stefnanda nú sé í hróplegu ósamræmi við gögn málsins og afstöðu allra aðila að söluferlinu, þar með talið stefnanda sjálfan á þessum tíma. Allir þessir aðilar hafi staðfest með verkum sínum að ekki hafi verið kominn á skuldbindandi samningur; SAT eignarhaldsfélag ehf. með því að hætta við aðkomu sína að sölunni, og fjárfestahópurinn með því að tilkynna um að hann segði sig frá söluferlinu án athugasemda frá öðrum aðilum að ferlinu. Stefnda, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. hefði því verið jafn heimilt og öðrum aðilum að samkomulaginu að ganga ekki til samninga við fjárfestahópinn án þess að slík ákvörðun hefði í för með sér samningsréttarlegar afleiðingar eða bótaskyldu utan samninga. Ekki hafi komið til þess að slík ákvörðun væri tekin af hálfu stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. eftir að ákvörðun hafi verið tekin af fjárfestahópnum og þar á meðal stefnanda um að draga sig út úr söluferlinu og þar af leiðandi gera ekki endanlegan bindandi samning um kaupin. Að endingu byggi stefndu á því að ekkert í máli þessu geti veitt stefnanda eða meðfjárfestum hans aukinn rétt til að setja tímamörk um hvenær ljúka skyldi samningum af hálfu seljanda umfram það sem fram hafi komið í samkomulaginu frá 10. júlí, hvað þá að stefnandi geti byggt á því að ákvörðun hans sjálfs um að segja sig frá frekari aðkomu að málinu geti með einhverjum hætti bakað stefndu bótaábyrgð.
Stefnandi haldi því fram að stefndu hafi sammælst um það með saknæmum hætti að ljúka ekki viðskiptum og að ákvörðun stefndu hafi verið ómálefnaleg og ólögmæt. Vísað sé til þess sem áður greini varðandi þá staðreynd að það hafi verið stefnandi sjálfur sem sagt hafi sig frá söluferlinu og fullyrðingum stefnanda hvað þetta varði sé mótmælt af hálfu stefndu. Stefnandi virðist hins vegar byggja á því að stefndu hafi borið að ljúka samningum við hann um kaup á hlutum í Sjóvá, jafnvel þó að ekki hafi verið kominn á bindandi samningur. Engin lög eða reglur standi til þess að stefndu hafi borið skylda til að sjá til þess að stefnandi keypti hluti í Sjóvá né takmarki samningsfrelsi aðila með slíkum hætti sem stefnandi byggi á.
Verði ekki fallist á þær málsástæður stefndu og talið að stefndu hafi með einhverjum hætti stuðlað að því að ljúka ekki viðskiptunum þrátt fyrir allt ofangreint sé byggt á því af hálfu stefndu að málefnaleg og lögmæt sjónarmið hafi ráðið öllum athöfnum og samskiptum stefndu við stefnanda á þessum tíma og enginn grundvöllur bótaábyrgðar stefndu in solidum sé til staðar. Stefndu byggi sýknukröfu sína að þessu leyti á því að gild ástæða hafi verið fyrir stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., að óska eftir frekari upplýsingum um viðskipti stefnanda sem til skoðunar hafi verið hjá gjaldeyriseftirlitinu og þannig hvort viðskiptin teldust brot á lögum um gjaldeyrismál og/eða kaupverð væri hugsanlega fjármagnað með ólögmætum hætti. Eins og ítrekað hafi komið fram hafi þó ekki komið til þess að ákvörðun væri tekin af hálfu stefndu þar sem fjárfestahópurinn hafi tekið ákvörðun um að hætta við viðskiptin áður en niðurstaða gjaldeyriseftirlitsins hafi legið fyrir í lok nóvember 2010. Samkvæmt lögum beri stjórnarmönnum skylda til að hafa fyrst og fremst hagsmuni félags að leiðarljósi í starfi sínu. Stjórn stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., sem hafi verið skipuð stjórnendum stefnda, Seðlabanka Íslands, hafi eðli máls samkvæmt borið að gæta varúðar ef fyrir hendi væru upplýsingar um að fjármögnun hugsanlegra kaupa gæti að einhverju leyti talist fara gegn reglum um gjaldeyrishöft og/eða að við hana hafi samningsaðili stefnda hugsanlega brotið gegn reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál. Fyrirsvarsmaður stefnanda hafi sjálfur vakið athygli stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., á málinu og veitt upplýsingar um fjármögnun sína. Í stefnu, á bls. 10-11, komi fram að rannsókn gjaldeyriseftirlitsins hafi að mati stefnanda verið tilhæfulaus. Fyrir liggi að kæra hafi verið send efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra vegna viðskipta stefnanda í júlí 2010. Hvorki stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., né stjórnarmenn félagsins, starfsmenn stefnda, Seðlabanka Íslands, hefðu haft nokkra aðkomu að þeirri ákvörðun gjaldeyriseftirlitsins að kæra viðskipti stefnanda til ríkislögreglustjóra. Eins og áður greini hafi það heldur ekki haft nein áhrif á mál það sem hér sé til umfjöllunar hver afdrif þeirrar kæru hafi orðið löngu eftir að stefnandi hafi sagt sig frá söluferlinu og tilkynnt stefnda, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., að ekki yrði af kaupunum. Samkvæmt ákvæðum laga um gjaldeyrismál varði brot gegn ákvæðum laganna og reglum settum á grundvelli þeirra sektum eða fangelsi. Brot sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru Seðlabanka Íslands til lögreglu. Ef brot séu meiri háttar beri Seðlabanka Íslands hins vegar að vísa þeim til lögreglu og teljist brot meiri háttar ef það lúti að verulegum fjárhæðum. Það liggi fyrir í málinu að gjaldeyriseftirlitið hafi talið ástæðu til að senda kæru til lögreglu vegna viðskipta stefnanda. Sú niðurstaða ríkissaksóknara að fella niður rannsókn málsins beri hins vegar ekki með sér að rannsókn gjaldeyriseftirlitsins hafi verið tilhæfulaus eins og stefnandi haldi fram, né að ekki hafi verið brotið gegn þeim reglum sem um hafi verið að ræða, heldur einungis að umrædd ákvæði þágildandi reglna Seðlabanka Íslands, nr. 370/2010 teldust ekki fullnægjandi refsiheimild samkvæmt mati ríkissaksóknara. Telji stefnandi að málsmeðferð gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands, rannsókn á umræddum viðskiptum hans og/eða kæra til lögreglu, hafi brotið í bága við lög og reglur sé honum í lófa lagið að höfða slíkt mál en það hafi hann hins vegar ekki gert og sé ljóst að stefndi, Seðlabanki Íslands, sé ekki að taka til varna í máli þessu sem rannsóknaraðili, enda útilokað að skilja málatilbúnað stefnanda með þeim hætti að slíkt komi til skoðunar af hálfu stefndu. Stefnandi, og aðrir aðilar að samningsferlinu, hafi samið um takmörkun ábyrgðar gagnaðila í tengslum við framkvæmd samkomulagsins frá 10. júlí, en í gr. 8.1. segi: „Fjárfestir staðfestir að hvorki seljendur né dótturfélög þeirra, fulltrúar, stjórnarmenn, stjórnendur, umboðshafar eða starfsmenn eru ábyrgir gagnvart fjárfestinum vegna taps, tjóns, skaða eða útgjalda sem verða til eða eru í tengslum við framkvæmd samnings þessa, nema téð tap, tjón, skaði eða útgjöld sannist að vera vegna stórfelldrar vanrækslu eða misferlis að yfirlögðu ráði“ Í öllu falli byggi stefndu á því að ef svo ólíklega verði talið að kominn hafi verið á bindandi samningur þá hafi verið réttlætanlegt að víkja þeim samningi til hliðar í heild eða að hluta vegna þeirra atvika sem stefnandi hafi upplýst um. Ekkert í málinu styðji með neinum hætti að stefndu hafi bakað sér bótaábyrgð in solidum vegna einhverrar meintrar saknæmrar háttsemi eða að einhver slík ætluð háttsemi fullægi ofangreindum skilyrðum né almennum skilyrðum skaðabótareglunnar utan samninga, hvorki varðandi saknæmi, ólögmæti né sönnun tjóns.
Þá byggi stefndu sýknukröfu sína jafnframt á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrðum samnings fyrir uppgjöri og afhendingu hafi öllum verið fullnægt. Ekki hafi verið nægjanlegt að allir aðilar gengjust undir samninga því að til að afhending og uppgjör færi fram hafi þurft að fullnægja skilyrðum sem sett hafi verið fram í grein 5 í samningsdrögum. Það eigi við um samþykki Fjármálaeftirlitsins, sbr. gr. 5.1.1., ákvörðun SAT um að falla frá forkaupsrétti, sbr. gr. 5.1.2., heimild Samkeppniseftirlitsins sbr. gr. 5.1.3. og yfirlýsingu stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., um greiðsluhæfi sbr. gr. 5.1.4. Frumskilyrði fyrir því að af viðskiptum með hluti í Sjóvá yrði hafi verið það að Fjármálaeftirlitið veitti samþykki sitt fyrir því að kaupendur færu með virkan eignarhlut í Sjóvá, sbr. t.d. gr. 5.1.1. í samningsdrögunum. Samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi nr. 56/2010 þurfi virkir eigendur að uppfylla ýmis skilyrði, til að vera metnir hæfir til að eiga og fara með virkan eignarhlut í vátryggingafélagi. Þau skilyrði lúti m.a. að því að eigendur hafi yfir að ráða fjárhagslegum styrk með tilliti til þess reksturs sem vátryggingafélagið hefur með höndum og að orðspor þeirra sé ekki með þeim hætti að það rýri traust félagsins. Stefnandi hafi í málatilbúnaði sínum alfarið vanrækt að upplýsa um samskipti sín við Fjármálaeftirlitið eða sýna fram á að hann hafi eða hefði fullnægt þessu grundvallarskilyrði heldur láti við það sitja að fullyrða að hann hefði vafalaust verið metinn hæfur. Á dskj. nr. 28 sé að finna yfirlýsingu Fjármálaeftirlitsins frá 22. nóvember. Þar komi fram að Fjármálaeftirlitið hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort fjárfestahópnum yrði veitt heimild til að fara með virkan eignarhlut í vátryggingafélaginu en hafi hins vegar átt ítarleg samskipti við fjárfestahópinn og aflað frekari gagna og skýringa. Þann 19. nóvember hafi Fjármálaeftirlitinu hins vegar borist beiðni frá umsækjandanum um að frestað yrði frekari afgreiðslu umsóknarinnar þar sem óvissa ríkti um sölu félagsins. Ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi fullnægt skilyrðum til að fara með virkan eignarhlut í Sjóvá og þar með að af fyrirhuguðum kaupum hans yrði. Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á að hann hefði hlotið þann hagnað í kjölfar skráningar Sjóvár sem hann telji sig hafa farið á mis við og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu.
Stefndu byggi sýknukröfu sína einnig á því að augljóst sé af gögnum málsins að stefnandi hafi ekki talið að bindandi samningur á milli hans og stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., hafi komist á. Stefnandi hafi hvorki haft í frammi kröfur um slíkan samning gagnvart stefndu fyrr en með stefnu í máli þessu né hafi hann með athöfunum sínum, frá því að hann sagði sig frá söluferlinu, sýnt fram á að hann telji að stofnast hafi slíkur/gildandi samningur á milli aðila. Stefnandi geti ekki byggt á því að ósamþykkt samningsdrög teljist gildandi samningur og þar valið um hvaða ákvæði skuli gilda án þess að stefnandi sjálfur hafi fullnægt skuldbindingum kaupanda samkvæmt þeim ætlaða gildandi samningi sem hann byggi málatilbúnað sinn á. Ekkert liggi fyrir í málinu um að stefnandi hafi ætlað að standa við skuldbindingar kaupanda samkvæmt samningsdrögunum. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á greiðsluvilja né greiðslugetu vegna kaupverðs hlutanna eða kaupréttarins né tilkynnt eða sýnt vilja sinn með neinum hætti til að fullnægja öðrum þeim skuldbindingum sem fram komi í samningsdrögunum. Sé því algjörlega ósannað að hálfu stefnanda að hann hafi með nokkrum hætti haft þá fjármuni tiltæka til að fullnægja skilyrðum um greiðslur kaupverðs og hvað þá þess kaupréttar sem hann byggi málatilbúnað sinn á. Geti stefnandi nú tæplega fjórum árum síðar ekki byggt á því að stefndu hafi borið skylda til að efna ætlaðan samning, og það in solidum, á meðan stefnandi sjálfur hafi ekki sýnt fram á skuldbindingargildi samningsdraganna með því að fullnægja sínum skuldbindingum. Megi benda á gr. 5.2. í samningsdrögunum þar sem segi að hafi skilyrði gr. 5.1. ekki verið uppfyllt 1. janúar 2011 sé aðilum heimlit að rifta samningum án fyrirvara og skuli samningsaðilar enga kröfu eiga á hendur hinum á grundvelli hans. Enda sé augljóst af gögnum málsins að stefnandi hafi ekki litið svo á að samkomulagið frá 10. júlí 2010 eða samningsdrögin fælu í sér skuldbindandi samning, hvorki þegar hann ásamt meðfjárfestum sínum hafi sagt sig frá söluferlinu né síðar, ekki fyrr en með útgáfu stefnu í málinu. Þegar af þeim ástæðum sem raktar séu hér að ofan og með vísan til athafnaleysis stefnanda beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Verði svo ólíklega komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi kunni að hafa átt kröfu á hendur stefndu vegna söluferlis Sjóvár, byggi stefndu á því að slík krafa sé í öllu falli niður fallin vegna tómlætis stefnanda. Telji stefnandi sig eiga einhverja kröfu á hendur stefndu vegna söluferlisins, hafi honum verið í lófa lagið að gera þá kröfu þegar í stað þegar hann hafi sagt sig frá söluferlinu eða í það minnsta í kjölfar þess að stefnda, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., hafi gengið til endanlegra samninga um kaupin á Sjóvá. Stefnandi geti ekki fyrst nú, tæpum fjórum árum eftir að hann hafi sagt sig frá söluferlinu, byggt á því að hann eigi kröfu á stefndu um að vera gerður eins settur og að salan hefði farið fram og kaupréttur nýttur. Verði talið að um slíka kröfu sé að ræða verði að telja að stefnandi hafi tapað ætluðum rétti sínum vegna verulegs tómlætis.
Verði ekki fallist á framangreindar sýknukröfur stefndu sé þess krafist að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Ekkert liggi fyrir í málinu varðandi greiðsluvilja eða greiðslugetu stefnanda eins og áður sé vikið að. Eins og að framan greini sé ekkert sem liggi fyrir í málinu um að stefnandi hafi getað keypt hluti í Sjóvá eða nýtt sér kauprétt og með því hagnast um þær fjárhæðir sem hann reikni sér til. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á orsakasamband sé milli ætlaðrar háttsemi stefndu og ætlaðs missis hagnaðar né að ætlaður missir hagnaðar sé sennileg afleiðing af ætlaðri háttsemi stefndu.
Til þrautavara krefjist stefndu verulegrar lækkunar á kröfu stefnanda og byggi, auk þess sem að ofan greini, á því að stefnandi hafi hvorki sýnt fram á tjón sitt né fjárhæð þess. Stefndu byggi einkum á því að verði talið að stefnandi hafi með einhverjum hætti orðið fyrir tjóni þar sem stefndu beri bótaábyrgð þá hafi ætlað tjón ekki numið stefnukröfu stefnanda og sé að öllu leyti ósannað. Þessu til viðbótar geti stefndu ekki borið ábyrgð á efndum annarra aðila að söluferlinu. Stefnanda beri auk þess skylda til að takmarka tjón sitt og ekkert liggi fyrir um að þessir fjármunir hafi verið til staðar á reikningi stefnanda til að standa skil á greiðslu kaupverðs né hvort stefnandi hafi, ef svo hafi verið, takmarkað tjón sitt með öðrum hætti og þá hugsanlega með hærri ávöxtun en hann byggi kröfugerð sína í þessu máli á. Sé kröfugerð og útreikningi stefnanda á ætluðu tjóni sínu í stefnu mótmælt í heild sem órökstuddu, röngu og ósönnuðu. Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt í heild sinni.
Krafa stefndu um sýknu vegna aðildarskorts er byggð á 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Sýknukrafa er byggð á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um stofnun kröfu, skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga. Þá byggja stefndu á meginreglum félagaréttar og ákvæðum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, m.a. um heimildir til að skuldbinda félag, og réttindi og skyldu stjórnar. Þá byggja stefndu á ákvæðum 10. tl., 2. mgr., 41. gr. og 43. gr. laga um vátrygginga-starfsemi, nr. 56/2010 og ákvæðum laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992. Stefndu byggja auk þess á almennum reglum skaðabótaréttar og meginreglum stjórnsýsluréttar. Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggir á lögum nr. 50/1998 um virðisaukaskatt.
IV.
Stefnandi reisir mál sitt á því að samkomulag hafi tekist 10. júlí 2010 milli stefnanda og stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. um kaupa stefnanda á tilteknum fjölda hluta í félaginu Sjóvá Almennum tryggingum hf. á fyrirfram ákveðnu gengi, auk þess sem hann ætti rétt til að kaupa fleiri hluti í félaginu á fyrirfram ákveðnu gengi. Þegar öllum fyrirvörum í samkomulagi aðila hafi verið fullnægt og þeir náð samkomulagi um nánari útfærslu viðskiptanna, í lok september 2010, hafi stefndu sammælst um að standa ekki við samkomulagið. Byggir stefnandi á því að stofnast hafi bindandi samningur um kaupin sem stefnda Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. hafi verið skylt að efna. Stefndu hafi hins vegar sammælst með saknæmum hætti um að ljúka ekki viðskiptunum sem samið var um. Sú ákvörðun hafi þess utan verið ómálefnaleg og ólögmæt, eins og viðræður aðila hafi þróast, óháð tilvist bindandi samnings. Hafi stefndu bakað sér bótaskyldu utan og innan samninga. Þá hafi stefndu brotið gegn reglum stjórnsýsluréttar. Byggir stefnandi á því að stefndu verði að gera stefnanda jafn settan og að viðskiptin hefðu átt sér stað. Þar sem virði hluta Sjóvár hafi aukist verulega hafi stefnandi farið á mis við verulegan hagnað, sem hann krefst bóta fyrir.
Stefndu mótmæla málatilbúnaði stefnanda. Hið rétta sé að sú ákvörðun um að ganga ekki til þeirra viðskipta sem um ræði hafi alfarið og einhliða verið tekin af stefnanda sjálfum og viðskiptafélögum hans. Hafi sú ákvörðun verið tekin af hálfu stefnanda áður en til þess kom að þar til bærir aðilar, þ.m.t. stjórn stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. tæki efnislega afstöðu til viðskiptanna og þeirra samningsdraga sem fyrir hafi legið, til samþykktar eða synjunar. Á þessari ákvörðun stefnanda geti hvorki stefndu né aðrir borið bótaábyrgð, hvorki innan né utan samninga. Þá hafi skilyrðum og fyrirvörum í samningi aðila fyrir því að uppgjör og afhending gæti farið fram ekki verið fullnægt.
Fyrirsvarsmenn stefndu gáfu skýrslu fyrir dóminum. Var framburður þeirra á þann veg að frá því samkomulag aðila frá 10. júlí 2010 var undirritað hafi verið unnið eftir því samkomulagi með það fyrir augum að gengið yrði frá kaupum fjárfestingahópsins á umræddum hlutum í Sjóvá. Ýmis skilyrði og fyrirvarar hafi verið í samkomulaginu, sem unnið hafi verið með. Hafi þessi vinna verið í gangi og ætlun allra að miða við að samkomulagið yrði efnt er frétt hafi birst í Viðskiptablaðinu 19. ágúst 2010 um að stefnandi væri til skoðunar hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands vegna gruns um að félagið hafi farið á svig við reglur um gjaldeyrishöft. Hafi fyrirsvarsmaður stefnanda sjálfur vakið athygli stefndu á fréttinni og stefndu þótt ástæða til að kanna málið nánar áður en lengra yrði gengið í þá átt að ljúka kaupum fjárfestahópsins á hlutunum í Sjóvá. Hafi málið verið í því horfi er fjárfestahópurinn hafi tilkynnt stefndu að hópurinn væri hættur við kaupin. Þá lýstu fyrirsvarsmennirnir því að endanlegan samning um sölu þessara hluta hafi orðið að bera upp í stjórn stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., til samþykktar eða synjunar, áður en kaupin hefðu gengið í gegn. Þeir er unnið hafi að samkomulaginu fyrir hönd stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. hafi ekki haft umboð til að rita undir endanlegan samning.
Svo sem hér var rakið hafa fyrirsvarsmenn stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. mótmælt því að þeir er komið hafi að samningum við fjárfestahópinn um kaup hlutabréfanna, fyrir hönd stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., hafi haft umboð til að rita undir endanlegan samning um sölu. Liggur ekkert slíkt umboð frammi í málinu. Ákvörðun um sölu þeirra hlutabréfa í Sjóvá er um ræðir var meiriháttar ráðstöfun. Stefndi Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. er einkahlutafélag með venjubundinni stjórn. Gegn mótmælum stefndu hefur stefnanda ekki tekist sönnun þess að þeir er komið hafi að samningum við fjarfestahópinn fyrir hönd stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. og unnu eftir samkomulaginu frá 10. júlí 2010 hafi haft umboð til þess að rita undir endanlegan kaupsamning um sölu þessara hluta fyrir hönd stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf.
Á meðal gagna málsins er tölvupóstur stefnanda frá 14. október 2010 til Íslandsbanka hf. þar sem fjárfestahópurinn gaf seljendum frest til 22. október 2010 til að ljúka viðskiptum á grundvelli samkomulagsins frá 10. júlí 2010. Með tölvupósti 21. nóvember 2010 sagði fjárfestahópurinn sig frá kaupum á þessum hlutum með þeim rökstuðningi að dráttur hafi orðið á meðferð málsins af hálfu seljenda. Sá tölvupóstur er einnig á meðal gagna málsins.
Þegar litið er til þess er er hér að framan greinir er ekki unnt að líta öðruvísi á en stefnandi hafi af fúsum og frjálsum vilja tekið ákvörðun um að segja sig frá söluferlinu áður en bindandi samningur var gerður um kaupin. Hafi einungis verið um hlé á viðræðum að ræða er fjárfestahópurinn sleit viðræðunum. Hefur stefnanda þar með ekki tekist að sanna þá staðhæfingu sína að stefndu hafi sammælst að standa ekki við samkomulag aðila frá 10. júlí 2010. Sú ákvörðun stefnda Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. að taka til athugunar hvort stefnandi hefði hugsanlega brotið gegn reglum um gjaldeyrishöft var málefnaleg, en félagið er í eigu stefnda Seðlabanka Íslands, sem meðal annars hefur eftirlit með því að gjaldeyrishöft séu virt. Því síður gat sú ákvörðun talist ólögmæt, eins og á stóð er hlé var gert á viðræðum, á meðan uppi var rökstuddur grunur um saknæmar athafnir stefnanda. Var kæru síðar beint til lögreglu vegna gruns um refsiverða háttsemi stefnanda í tengslum við skuldabréfaútgáfu stefnanda. Breytir engu í því efni þó svo ríkissaksóknari hafi síðar tekið ákvörðun um að hætta rannsókn málsins gagnvart stefnanda.
Málsástæður stefnanda um að stefndu hafi brotið gegn reglum stjórnsýsluréttar með athöfnum sínum eru bundnar við að stefndu hafi með ólögmætum hætti gengið frá kaupum. Í ljósi niðurstöðunnar hér að framan um að fjárfestahópurinn hafi að eigin frumkvæði hætt við kaupin reynir ekki á úrlausn dómsins um þetta atriði. Af sömu ástæðu reynir ekki á hvort ágreining um samninginn hafi samkvæmt samningi aðila átt að leggja í gerðardóm, svo sem stefndu halda fram. Mál þetta er öðrum þræði skaðabótamál utan samninga. Að því marki var aðild Íslandsbanka hf. óþörf í málinu.
Með hliðsjón af öllu framangreindu verða stefndu sýknuð af öllum kröfum stefnanda.
Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.
Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Reimar Snæfells Pétursson hæstaréttarlögmaður, af hálfu stefnda, Seðlabanka Íslands, Steinar Þór Guðgeirsson hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., Ástríður Gísladóttir hæstaréttarlögmaður.
Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndu, Seðlabanki Íslands og Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., eru sýkn af kröfum stefnanda, Ursusar ehf.
Málskostnaður fellur niður.