Hæstiréttur íslands
Mál nr. 282/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Félagsslit
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 30. ágúst 2000. |
|
Nr. 282/2000. |
Stétt ehf. (Kristán Þorbergsson hrl.) gegn Gangstétt ehf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Félagsslit. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Einkahlutafélagið S höfðaði mál á hendur einkahlutafélaginu G og krafðist viðurkenningar á lýstri kröfu félagsins við félagsslit G. Talið var að kröfur S væru svo vanreifaðar að ekki yrði komist hjá því að vísa málinu frá dómi og var frávísunarúrskurður héraðsdómara því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2000, þar sem vísað var frá dómi máli um viðurkenningu á lýstri kröfu sóknaraðila við félagsslit varnaraðila. Kæruheimild er í 2. mgr. 90. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar á úrskurði héraðsdómara um annað en málskostnað, sem verði ákveðinn í einu lagi vegna rekstrar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður að fallast á með héraðsdómara að kröfur sóknaraðila séu svo vanreifaðar að ekki verði komist hjá að vísa málinu frá dómi. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Stétt ehf., greiði varnaraðila, Gangstétt ehf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2000.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 4. febrúar sl.
Sóknaraðili er Stétt ehf., kt. 541197-2309, Hyrjarhöfða 8, Reykjavík.
Varnaraðili er skilanefnd Gangstéttar ehf., kt. 490490-1329, Hamraborg 1, Kópavogi.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að afstöðu skilanefndar Gangstéttar ehf. til lýstrar kröfu sóknaraðila, sbr. kröfulýsingu dags. 30. mars 1999, verði hnekkt og að viðurkennd verði með dómi skylda Gangstéttar ehf., að greiða sóknaraðila 24.375.372 kr. að viðbættum vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. nóvember 1997 til 31. mars 1999, en dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Sóknaraðili krefst einnig málkostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila, þ.m.t. alls kostnaðar vegna starfa dómkvaddra matsmanna.
Til vara gerir sóknaraðili þær dómkröfur að afstöðu skilanefndar Gangstéttar ehf. til lýstrar kröfu sóknaraðila, sbr. kröfulýsingu dags. 30. mars 1999, verði hnekkt og að viðurkennd verði með dómi skylda Gangstéttar ehf. til að greiða sóknaraðila aðra lægri fjárhæð skv. mati dómsins að viðbættum vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. nóvember 1997 til 31. mars 1999 en dráttarvöxtum skv. III kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila, þ.m.t. alls kostnaðar vegna starfa dómkvaddra matsmanna.
Dómkröfur varnaraðila eru þær aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi.
Til vara er þess krafist að varnaraðili verði algjörlega sýknaður af dómkröfum sóknaraðila.
Jafnframt er gerð sú krafa að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað að mati réttarins.
Sóknaraðili krefst þess að synjað verði frávísunarkröfu varnaraðila og gerir kröfu til málskostnaðar í þeim þætti málsins.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu varnaraðila hinn 3. maí sl. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, áður en úrskurður var kveðinn upp.
I
Málsatvik
Málavextir eru þeir að 15. október 1997 gerði Guðmundur Guðbjartsson f.h. óstofnaðs hlutafélags tilboð í “STÉTT Hellusteypu ásamt húseign að Hyrjarhöfða 8 ásamt öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber Ennfremur nafn fyrirtækisins og öll tæki sem tilheyra rekstrinum.” Tilboðsverð var 34.000.000 kr. Samkomulag varð með aðilum um heildarverð, 33.000.000 kr. Í kjölfarið voru gerðir þrír kaupsamningar við sóknaraðila um kaupin, allir dags. 25. nóvember 1997, sem hér segir: Í fyrsta lagi var gerður kaupsamningur um húseignina Hyrjarhöfða 8, Reykjavík, seljendur Stefán Jónasson og Gerður Hulda Lárusdóttir. Kaupverð var 19.000.000 kr. Í öðru lagi var gerður kaupsamningur um allar vélar, tæki og áhöld á starfsstöð seljanda að Hyrjarhöfða 8, Reykjavík. Seljandi Stétt sf. Kaupverð var 9.000.000 kr. Tekið var fram í þeim samningi að framangreindir hlutir væru upptaldir í tækjalista, sem væri hluti af kaupsamningnum. Í þriðja lagi var gerður kaupsamningur um rekstur seljanda, þ.e. allar vélar, tæki, áhöld, steypumót, sementsturn og skrifstofubúnað ásamt innréttingum á starfsstöð seljanda að Hyrjarhöfða 8, Reykjavík. Seljandi Gangstétt ehf. Kaupverð var 5.000.000 kr. Einnig var tekið fram í þeim samningi að framangreindir hlutir væru upptaldir í tækjalista, sem væri hluti af þeim kaupsamningi. Þá keypti sóknaraðili af varnaraðila vörubirgðir, þ.e. hellur og efni fyrir 5.350.000 kr. samkvæmt kaupsamningi aðila dags. 9. desember 1997.
Innköllun varnaraðila vegna slita félagsins Gangstéttar ehf. var birt í fyrra skipti í Lögbirtingablaðinu 10. febrúar 1999. Kröfulýsing sóknaraðila á hendur félaginu að fjárhæð 26.444.477 kr. er dags. 30. mars 1999. Sú kröfufjárhæð hefur verið lækkuð í 24.375.372 kr.
Kröfu sóknaraðila var hafnað af varnaraðila og var málinu vísað til úrlausnar héraðsdómara samkvæmt 3. mgr. 88. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveður framlagt viðskipta- og rekstrarmat hafa verið lagt til grundvallar við ákvörðun hans um kaup á hellusteypugerðinni Stétt. Ekki hafi annað komið fram en að vélum hefði verið vel við haldið og hið selda væri í góðu ásigkomulagi. Guðmundur Sveinsson, löggiltur endurskoðandi, hafi verðlagt fyrirtækið fyrir varnaraðila og aðstoðað sóknaraðila við tilboðsgerð. Tilboðið sé gert í einu lagi enda verið að bjóða í eina einingu. Gengið hafi verið frá samningum í þrennu lagi þannig að skattalegt hagræði yrði sem mest fyrir seljendur. Af hálfu sóknaraðila hafi verið litið svo á að hann hafi keypt verksmiðju í einu lagi, enda hafi hann gert tilboð sitt með þeim hætti og verksmiðjan hafi þannig verið kynnt honum. Sóknaraðili kveðst hafa orðið fyrir tjóni eftir að hann tók við rekstri fyrirtækisins vegna bilana í vélum og tækjum og vegna erfiðleika með steypublöndun.
Matsgerð vegna véla og tækja liggur fyrir í málinu og er kröfugerð sóknaraðila sem sundurliðast svo, að hluta til byggð á henni:
|
1. Gallar á vélum skv. mati |
kr. 5.509.344 |
|
2. Gallar á vörulager |
kr. 2.500.000 |
|
3. Gallar á viðskiptavild |
kr. 2.000.000 |
|
4. Rekstrarst. í 26 daga |
kr. 3.658.798 |
|
5. Rekstrarst. í 10 daga |
kr. 1.407.230 |
|
6. Ónýt framleiðsla |
kr. 4.500.000 |
|
7. Steypuformúlur |
kr. 800.000 |
|
8. Annað tjón |
kr. 4.000.000 |
|
Samtals |
kr. 24.375.372 |
Um aðild vísar sóknaraðili til þess sem fram kemur í rekstrar- og viðskiptamati að selt hafi verið eitt fyrirtæki, sem samsett hafi verið úr fyrirtækjunum Stétt ehf. og Stétt sf. Að sölunni hafi staðið óskipt Gangstétt ehf. og Stétt sf. Þrátt fyrir að gerðir hafi verið tveir kaupsamningar hafi það á engan hátt verið skýrt afmarkað hvað hvor aðili um sig hafi verið að selja. Lítur sóknaraðili svo á að varnaraðili beri óskipta ábyrgð gagnvart sóknaraðila á öllum vanefndum og afleiðingum þeirra sem fram hafa komið. Áréttað er að seld hafi verið ein eining þó varnaraðili hafi formlega staðið að þeirri sölu með öðrum lögaðila. Þessar einingar verði ekki skildar að og geti ekki lifað sjálfstæðu lífi eins og staðið hafi verið að sölu þeirra til sóknaraðila. Sé það gert séu þær mun verðminni einar og sér. Viðskiptavild án framleiðslutækja sé lítils virði og öfugt. Annar aðili kunni að vera ábyrgur vegna þessa með varnaraðila in solidum. Endurkröfuréttur þeirra innbyrðis hafi ekki áhrif á réttarstöðu sóknaraðila gagnvart varnaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að hann hafi komið kvörtunum réttilega og tímanlega á framfæri við Guðmund Sveinsson, löggiltan endurskoðanda, sem hafi verið trúnaðarmaður og umboðsmaður seljanda. Á því er byggt að tilkynningu um vanefndir hafi verið réttilega beint til hans.
Byggt er á því að hinn seldi rekstur hafi verið haldinn fjölmörgum leyndum göllum. Byggt er á því að seljanda hafi verið eða mátt vera kunnugt um þá flesta. Það liggi fyrir að seljendur hafi í sínum höndum haft gögn sem hafi sýnt að framleiðslan uppfyllti ekki almennar kröfur. Varnaraðili hafi ekki getað verið dulinn um eigin vanrækslu á viðhaldi vélanna. Sóknaraðila hafi verið sagt að tækin væru í góðu lagi.Verðlagning fyrirtækisins og umfang allrar fjárfestingarinnar styðji einnig fullyrðingu sóknaraðila þess efnis að honum hafi verið talin trú um að fyrirtækið væri ekki haldið alvarlegum leyndum göllum. Verðmæti atvinnutækja ráðist að verulegu leyti af arðsemi þeirra. Greiðslugeta sóknaraðila vegna skuldsetningar við kaupin hafi verið reiknuð út frá þeim forsendum sem komið hafi fram í fyrrgreindu viðskipta- og rekstrarmati. Verðlagningin hafi einnig tekið mið af þeim tölum sem þar komi fram. Hið háa verð sem greitt hafi verið fyrir fyrirtækið hafi ekki verið í samræmi við gríðarlegt tjón sóknaraðila af kaupunum.
Byggt er á því að varnaraðili hafi gefið rangar og villandi upplýsingar um gæði hins selda. Þannig hafi varnaraðili fullyrt að tækjum hefði verið vel við haldið. Byggt er á því að hið selda hafi skort áskilda kosti. Byggt er á því að lýsingar seljanda og framkoma hans við viðskiptin felli á hann bótaskyldu og að hann hafi lofað beint og óbeint að hið selda væri í ágætu ásigkomulagi. Byggt er á því að framlögð gögn og upplýsingar sem gefnar hafi verið við kaupin styðji þessar málsástæður sóknaraðila. Byggt er á því að varnaraðili og fulltrúi hans hafi nálgast sóknaraðila að fyrra bragði og boðið honum hið selda sem vænlegan fjárfestingarkost. Byggt er á því að varnaraðili hafi við kaupin gróflega vanrækt upplýsingaskyldu sína gagnvart sóknaraðila og að varnaraðili hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi gagnvart sóknaraðila við kaupin.
Aðallega er á því byggt að sóknaraðili eigi rétt skaðabóta úr hendi varnaraðila vegna vanefnda hans. Bótagrundvöllurinn sé skýr svo sem reifað hafi verið hér að ofan. Sérstaklega er byggt á því að framkoma fyrirsvarsmanns varnaraðila við kaupin hafi styrkt þá trú sóknaraðila að hið selda væri í góðu ásigkomulagi og væri vænlegur fjárfestingarkostur.
Til vara er á því byggt að sóknaraðili eigi rétt til afsláttar að tiltölu innan ramma aðalkröfufjárhæðarinnar. Byggt er á því að hið selda hafi reynst vera haldið svo miklum göllum að það hafi valdið verulegri verðrýrnun á hinu selda. Á því er byggt að sóknaraðili eigi rétt til að fá afslátt sem svari til þeirrar verðrýrnunar. Það sé mat sóknaraðila að verksmiðjan hafi verið verðlaus sem rekstrareining, þegar hún var seld, eins og ástand hennar hafi reynst vera við afhendingu. Hún hafi einungis getað orðið kaupanda til tjóns. Staðreyndin sé einnig sú að sóknaraðili hafi tapað stórfellt á þessum viðskiptum. Sá sem keypt hafi af honum hafi einnig orðið fyrir tjóni af kaupunum.
Varðandi málskostnað sé sérstaklega á því byggt að áfallinn matskostnaður 420.000 kr. teljist til málskostnaðar eftir reglu 129. gr. einkamálalaga.
Krafist er dráttarvaxta frá móttökudegi endanlegrar kröfulýsingar 31. mars 1999.
Sóknaraðili vísar til 2. mgr. 42. gr. kaupalaga vegna kröfu um efndabætur. Hann vísar einnig til reglna kröfuréttar um rétt til efndabóta og um upplýsingaskyldu seljanda, um sjónarmið í kröfurétti um áskilda kosti, bein og óbein gæðaloforð og sjónarmið um væntingar kaupanda af framkomu seljanda við kaup. Varðandi afsláttarkröfu er byggt á 1. mgr. 42. gr. kaupalaga og reglum kröfuréttar um afslátt. Vísað er til reglna kröfuréttar um skuldbindingagildi loforða og efndir fjárskuldbindinga. Vísað er til ákvæða vaxtalaga nr. 25/1987 og reglna einkamálalaga.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila vegna frávísunarkröfu
Varnaraðili krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi, með vísan til 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðili krefji í máli þessu varnaraðila um skaðabætur og/eða afslátt vegna kaupa á fasteign, lausafé og vörubirgðum hellusteypunnar Stéttar sem hafi verið eign þriggja nánar tilgreindra aðila, þrátt fyrir að sóknaraðili hafi gert þrjá sjálfstæða kaupsamninga: a) við Gerði Huldu Lárusdóttur og Stefán Jónasson um fasteignina Hyrjarhöfða 8, Reykavík, b) við Stétt sf. um stærstan hluta lausafjár sem tengst hafi helluframleiðslunni, og að lokum c) við Stétt ehf. um það lausafé sem hafi verið í eigu félagsins. Aðallega umstöflunarbúnaði frá árinu 1991. Samanlagt kaupverð framangreinds hafi verið 33.000.000 kr. þar af hafi söluverð lausafjár í eigu varnaraðila verið 5.000.000 kr. Engu að síður kjósi sóknaraðili að krefja varnaraðila einan um greiðslu skaðabóta og/eða afsláttar sem losi 24 milljónir króna, auk vaxta og málskostnaðar, sem aðallega virðast tilkomnar vegna meintra galla á lausafé úr eigu Stéttar sf. Ekki verði séð að meint kröfugerð sóknaraðila snúi að varnaraðila, nema hugsanlega vegna meints gallaðs vörulagers. Samkvæmt framangreindum lagagreinum, skuli sækja saman í einu máli alla þá aðila sem eigi og beri saman réttindi og skyldur. Varnaraðili verði ekki sóttur til saka vegna meintra vanefnda db. Gerðar Huldu Lárusdóttur, Stefáns Jónassonar, eða sömu aðila sem fyrrverandi eigenda Stéttar sf., auk barnanna Lárusar Óla Þorvaldssonar, Guðrúnar og Gerðar Stefánsdætra, en sameignarfélaginu hafi verið slitið. Sóknaraðili hafi kosið að sækja varnaraðila einan í máli þessu, með þeirri skýringu að hann telji varnaraðila einan bera ábyrgð á viðskiptunum, án þess að gera grein fyrir hvers vegna aðrir aðilar að kaupsamningum hans frá 25. nóvember 1997 séu ekki sóttir til saka ásamt varnaraðila.
IV
Niðurstaða
Hinn 15. október 1997 gerði Guðmundur Guðbjartsson f.h. óstofnaðs hlutafélags tilboð í “STÉTT Hellusteypu ásamt húseign að Hyrjarhöfða 8 ásamt öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber Ennfremur nafn fyrirtækisins og öll tæki sem tilheyra rekstrinum.” Tilboðsverð var 34.000.000 kr. Samkomulag varð með aðilum um heildarverð, 33.000.000 kr. Gerðir voru þrír kaupsamningar við sóknaraðila um kaupin, allir dags. 25. nóvember 1997, sem hér segir: Kaupsamningur um húseignina Hyrjarhöfða 8, Reykjavík, seljendur Stefán Jónasson og Gerður Hulda Lárusdóttir. Kaupverð var 19.000.000 kr. Kaupsamningur um allar vélar, tæki og áhöld á starfsstöð seljanda að Hyrjarhöfða 8, Reykjavík. Seljandi Stétt sf. Kaupverð var 9.000.000 kr. Kaupsamningur um rekstur seljanda, þ.e. allar vélar, tæki, áhöld, steypumót, sementsturn og skrifstofubúnað ásamt innréttingum á starfsstöð seljanda að Hyrjarhöfða 8, Reykjavík. Seljandi Gangstétt ehf. Kaupverð var 5.000.000 kr. Í báðum síðargreindum kaupsamningum er tekið fram að seldir hlutir séu upptaldir í tækjalista, sem séu hluti af kaupsamningunum. Þeir tækjalistar liggja ekki fyrir í málinu. Með kaupsamningi aðila dags. 9. 12. 1997 keypti sóknaraðili af varnaraðila vörubirgðir, þ.e. hellur og efni fyrir 5.350.000 kr.
Innköllun varnaraðila vegna slita félagsins var birt í fyrra skipti í Lögbirtingablaðinu 10. febrúar 1999. Kröfulýsing sóknaraðila, dags. 30. mars 1999, var því innan kröfulýsingarfrests samkvæmt 87. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Samkvæmt kröfulýsingarskrá var kröfunni hafnað.
Eins og frá kaupunum var gengið samkvæmt framansögðu getur sóknaraðili einungis átt kröfur á varnaraðila vegna kaupsamnings um rekstur, vélar og áhöld, dags. 25. nóvember 1997, svo og vegna kaupsamnings um vörubirgðir, dags. 9. desember 1997. Enginn listi liggur fyrir í málinu um þær vélar, tæki og áhöld, sem sóknaraðili keypti af varnaraðila samkvæmt fyrrgreindum kaupsamningi. Ekki liggur heldur fyrir neinn tækjalisti varðandi kaup sóknaraðila á vélum, tækjum og áhöldum af Stétt sf. samkvæmt kaupsamningi, dags. 25. nóvember 1997. Kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna galla á vélum og afleiddu tjóni af þeim sökum eru því svo vanreifaðar og óskýrar að vísa ber máli þessu frá dómi með vísan til d-, e- og g- liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Sóknaraðili skal greiða varnaraðila 30.000 kr. í málskostnað.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sóknaraðili, Stétt ehf., greiði varnaraðila, skilanefnd Gangstéttar ehf., 30.000 kr. í málskostnað.