Hæstiréttur íslands

Mál nr. 154/2004


Lykilorð

  • Fiskveiðistjórn
  • Ólögmætur sjávarafli
  • Málsástæða
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. desember 2004.

Nr. 154/2004.

Hvalur hf.

(Kristján Þorbergsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Fiskveiðistjórn. Ólögmætur sjávarafli. Málsástæður. Frávísun máls frá héraðsdómi.

H krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður nefndar samkvæmt lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, þar sem staðfest var ákvörðun Fiskistofu um álagningu gjalds á H vegna umframafla. Allur málatilbúnaður H fyrir Hæstarétti hafði breyst mjög frá því sem var í héraði. Var ekki einungis um það að ræða að hann tefldi fram nýjum málsástæðum, svo sem Í hafði haldið fram, heldur hafði allur grundvöllur málsins gjörbreyst. Var óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. apríl 2004. Hann krefst þess að úrskurður nefndar samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992 um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla frá 29. júní 2001 í máli áfrýjanda gegn Fiskistofu verði felldur úr gildi og stefnda gert að greiða áfrýjanda 4.455.706 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 2001 til 1. júlí sama árs, en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I.

Áfrýjandi hefur um árabil gert út fiskiskip sitt, Venus HF 519, til veiða á úthafskarfa suðvestur af Íslandi, en fram er komið að þessar veiðar hefjist almennt í marsmánuði og standi til hausts. Veiðislóðin er bæði utan og innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Frá árinu 1995 hefur Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin (NEAFC) ákveðið árlegan heildarafla, sem veiða má úr þessum stofni, og hvernig hann skiptist milli nokkurra ríkja og Evrópusambandsins. Samkomulag tókst ekki um hlut Íslendinga í þessum veiðum fyrir árið 2000 og ákváðu því stjórnvöld einhliða heildarafla íslenskra skipa á grundvelli heimildar í samningi um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi, sbr. lög nr. 68/1981 um aðild Íslands að honum. Var heildarafli íslenskra skipa þannig ákveðinn 45.000 lestir á árinu 2000. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda fyrir Hæstarétti komu við skiptingu þessa aflamagns 2.412.240 kg í hlut áðurnefnds skips hans, en við lok ársins reyndist afli þess hafa farið 61.856 kg fram úr heimild. Að undangengnum nokkrum bréfaskiptum lagði Fiskistofa 5. mars 2001 sérstakt gjald á áfrýjanda vegna umframaflans, sem hún taldi vera ólögmætan sjávarafla. Var gjaldið ákveðið 4.455.706 krónur í samræmi við andvirði aflans. Áfrýjandi greiddi þessa fjárhæð 6. apríl 2001 með fyrirvara um endurgreiðslu, en skaut ákvörðun Fiskistofu jafnframt til úrskurðarnefndar samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992 og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Staðfesti nefndin ákvörðunina 29. júní 2001. Málavextir eru nánar raktir í hinum áfrýjaða dómi.

II.

Við rekstur málsins fyrir héraðsdómi reyndi auk annarra ákvæða á 4. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, en þar segir meðal annars að heimilt sé að veiða 5% umfram aflamark hverrar botnfisktegundar, enda dragist sá umframafli frá við úthlutun aflamarks næsta fiskveiðiárs á eftir. Er á því byggt af hálfu áfrýjanda að heimildin sé nauðsynleg svo stjórnandi fiskiskips hafi eðlilegt svigrúm til að ljúka veiðum þegar úthlutuðu aflamarki sé því sem næst náð. Að því er varðar úthafskarfaveiðar Venusar á árinu 2000 hefur í því sambandi verið vísað til þess að erfitt hafi verið að geta sér til um hve mikill afli kæmi upp í síðasta togi skipsins auk þess sem misjafnlega mikill hluti úthafskarfa, sem fáist í hverju togi, sé sýktur og nýtist ekki. Sé slíkur fiskur talinn vera að meðaltali um 16% af öllum afla. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var þessum veiðum, sem stundaðar voru með flotvörpu, lýst nánar og þar á meðal mikilli stærð þessa veiðafæris. Kom meðal annars fram að meðalafli í hverju togi við þessar veiðar hafi verið 40 til 80 lestir. Ekki hafa verið lögð fram gögn um hve mikill afli fékkst í síðasta togi skipsins, en afli umfram úthlutað aflamark nam eins og áður var getið rúmlega 61 lest.

III.

Í málatilbúnaði áfrýjanda kemur fram að um 70% af úthafskarfaafla Venusar árið 2000 hafi fengist innan íslensku lögsögunnar, en um 30% utan hennar. Vísar hann til þess að skýr skil séu milli gildissviðs laga nr. 38/1990 annars vegar og laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands hins vegar. Komi þetta fram í 2. gr. fyrrnefndu laganna og 1. gr. þeirra síðarnefndu. Gildi lög nr. 115/1996 einungis um veiðar utan lögsögunnar, en um veiðar innan hennar fari eftir lögum nr. 38/1990. Eigi það við um alla veiði innan lögsögunnar og þá einnig úr fiskistofnum, sem veiðist bæði innan og utan hennar, svo sem skýrlega sé kveðið á um í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 115/1996. Geti ákvæði þeirra laga, önnur en 5. gr. þeirra, því aldrei átt við um veiðar innan lögsögu Íslands og taki þau aðeins til veiða úr stofnum, sem haldi sig að öllu leyti utan hennar. Með þessu móti sé tryggt samræmi í reglum um veiðar, hvort sem veitt er úr tilteknum stofni utan eða innan lögsögunnar. Samkvæmt þessu sé ljóst að fyrst og fremst gildi lög nr. 38/1990 um veiðar áfrýjanda á úthafskarfa. Taki því meðal annars regla áðurnefndrar 4. mgr. 10. gr. laganna til veiðanna og hafi áfrýjanda því verið heimilt að veiða 5% umfram úthlutað aflamark á árinu 2000, enda kæmi umframaflinn til frádráttar aflamarki næsta árs. Leiði af þessu að álagning gjalds samkvæmt lögum nr. 37/1992, sem áfrýjandi þurfti að sæta, hafi verið ólögmæt. Hafi sjávarútvegsráðherra brostið heimild til að ákveða með 4. gr. reglugerðar nr. 175/2000 um veiðar úr úthafskarfastofninum 2000 að ákvæði 10. gr. laga nr. 38/1990 skyldi ekki gilda um úthlutað aflamark og víkja þannig til hliðar hinni mikilvægu reglu 4. mgr. 10. gr. laganna um skynsamlegt svigrúm til að ljúka veiðum. Í 8. gr. reglugerðarinnar komi fram að hún sé sett með stoð í lögum nr. 151/1996 og lögum nr. 38/1990, en hvorug lögin hafi að geyma heimild handa ráðherra til að afnema ákvæði þeirra, enda stangist slíkt á við stjórnskipunarreglur. Loks er málatilbúnaður áfrýjanda á því reistur að ef litið yrði svo á að 5% svigrúm til að veiða umfram aflamark nái aðeins til veiða innan lögsögunnar fái það engu breytt um niðurstöðuna, enda hafi umframaflinn verið innan við nefnd mörk þess hluta aflans, sem fékkst innan íslensku lögsögunnar.

Stefndi heldur fram að áfrýjandi tefli fram nýjum málsástæðum fyrir Hæstarétti með því að bera fyrir sig að 4. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1990 eigi beint við um veiðar hans á úthafskarfa og að ráðherra hafi skort lagaheimild til að ákveða með reglugerð að 10. gr. laganna tæki ekki til þeirra. Mótmælir stefndi að þær komist að í málinu. Við meðferð málsins í héraði var ekki á þeim byggt og koma nýjar málsástæður áfrýjanda ekki til neinna álita við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og þeim var breytt með 17. gr. laga nr. 38/1994.

IV.

Í héraðsdómsstefnu reisti áfrýjandi málatilbúnað sinn í fyrsta lagi á því að lög nr. 37/1992 ættu ekki við um veiðar hans á úthafskarfa þar sem um væri að ræða veiðar undir alþjóðlegri stjórn. Ríki, sem eigi aðild að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni, eigi að ná samkomulagi um veiðar á úthafskarfa, en verulega skorti á að nægilega hafi verið upplýst um slíkt samkomulag eða hvernig veiðunum var háttað árið 2000. Er nánar rakið í héraðsdómi í einstökum atriðum hvað áfrýjandi taldi hafa brugðist af hálfu stefnda að þessu leyti. Í öðru lagi hélt áfrýjandi fram að í því fælist brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár að þeir, sem veiði úthafskarfa, fái ekki að flytja umframafla milli veiðiára eins og gera megi samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/1990. Verði samkvæmt því að telja stjórnvöld bundin við stjórn veiðanna af ívilnandi ákvæðum þeirra laga. Hér sé um verulegt misræmi að ræða, sem komi þungt niður á þeim, sem stundi veiðar á úthafskarfa. Sú ákvörðun að heimila ekki flutning á aflaheimildum milli ára hafi verið ómálefnaleg og í ósamræmi við aðra stjórn fiskveiða. Í því sambandi skipti einnig máli hvort heildarveiði á úthafskarfa hafi verið meiri eða minni en fiskveiðinefndin gerði ráð fyrir og samið var um. Beri þá einnig að hafa í huga að árið 1999 veiddu Íslendingar ekki allan þann úthafskarfa, sem þeim var heimilað að veiða. Fáein skip hafi þá veitt örlítið umfram aflamark sitt, en útgerðir þeirra ekki verið beittar viðurlögum fyrir það. Hafi áfrýjandi mátt ætla að hið sama yrði einnig látið gilda árið 2000. Þá skipti máli hvar veiðarnar voru stundaðar, en áfrýjandi hafi að minnsta kosti mátt flytja á milli ára þann afla, sem fékkst innan íslensku lögsögunnar. Loks var við rekstur málsins fyrir stjórnvöldum einnig byggt á því að formlegir hnökrar hafi orðið á málsmeðferð Fiskistofu, sem ásamt öðru ættu að leiða til þess að krafa áfrýjanda yrði tekin til greina.

Ljóst er af því, sem að framan var rakið, að allur málatilbúnaður áfrýjanda hefur fyrir Hæstarétti breyst mjög frá því sem var í héraði. Þar var fyrst og fremst byggt á því að með því að heimila áfrýjanda ekki að flytja afla milli ára hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, frávik frá aflamarki hafi verið óverulegt og ókleift sé að veiða af þeirri nákvæmni að ekki sé farið út fyrir úthlutað aflamark. Þannig var málatilbúnaðurinn í héraði að mestu í samræmi við það, sem áður var haldið fram fyrir stjórnvöldum. Fyrir Hæstarétti er hins vegar byggt á því að lög mæli beinlínis fyrir um það að regla 4. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1990 skuli gilda við veiðar á úthafskarfa og að ráðherra hafi ekki haft lagaheimild til að ákveða annað með reglugerð. Er þannig ekki einungis um það að ræða að áfrýjandi tefli fram nýjum málsástæðum til stuðnings kröfu sinni, heldur hefur allur grundvöllur málsins gjörbreyst. Þær ástæður, sem krafa áfrýjanda er nú reist á, eru í slíkri mótsögn við þann grundvöll, sem lagður var með málsókn hans í héraði og að framan var gerð grein fyrir, að í raun verður að líta svo á að með þeim hafi hann fallið frá öllum fyrri málsástæðum. Með því að nýjar málsástæður áfrýjanda fá samkvæmt áðursögðu ekki komist að fyrir Hæstarétti er af þessum sökum óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Með því að stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi verður ekki raskað ákvæði hans um málskostnað. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Áfrýjandi, Hvalur hf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2004.

I

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 22. janúar 2004, var höfðað fyrir dómþinginu af Hvali hf., kt. 650169-6549, Reykjavíkurvegi 46-48, Hafnarfirði, á hendur íslenska ríkinu.

Endanlegar dómkröfur stefnanda voru þær aðallega, að úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992, hinn 29. júní 2001, í málinu Hvalur hf. gegn Fiskistofu, skuli felldur úr gildi, og stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 4.455.706 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 2001 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara er þess krafist, að álagt gjald verði úrskurðað mun lægra.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda voru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Til vara krefst stefndi þess, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Til þrautavara krefst stefndi þess, að fjárkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Hinn 29. janúar var málinu vísað frá dómi, en með dómi Hæstaréttar hinn 6. mars 2003 var sá úrskurður felldur úr gildi og málinu vísað aftur til Héraðsdóms til efnismeðferðar.  Málið var síðan flutt hinn 13. október og endurupptekið og flutt að nýju hinn 12. janúar sl.  Málið var dómtekið í framhaldi af því.

II

Málavextir eru þeir, að stefnandi gerði út skuttogarann Venus HF 519.  Á árinu 2000 hafði stefnandi leyfi til þess að veiða 2.411.995 kg af úthafskarfa fiskveiðiárið 1. janúar 2000 til 31. desember 2000 samkvæmt útgefnu veiðileyfi Fiskistofu, dagsettu 23. mars 2000. 

Með bréfi, dagsettu 11. janúar 2001, tilkynnti Fiskistofa stefnanda, að veiði á úthafskarfa fyrir þetta tímabil hefði verið 61.856 kg umfram heimildir.  Fiskistofa taldi, að þessi umframafli sætti álagningu gjalds samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992.  Var umframafli tilgreindur 61.865 kg og andvirði hans væri 4.455.706 krónur.  Stefnanda var veittur frestur til þess að tjá sig um málið og boðaða álagningu til 19. janúar 2001.  Í framhaldi af því urðu nokkur bréfaskipti milli stefnanda og Fiskistofu.

Með bréfi, dagsettu 5. mars 2001, tilkynnti Fiskistofa stefnanda, að lagt hefði verið á hann sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, samtals 4.455.706 krónur.  Byggði niðurstaða Fiskistofu á því, að 61.856 kg teldist vera ólögmætur sjávarafli, sbr. III. kafla laga nr. 151/1996, IV. kafla laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og 7. gr. reglugerðar nr. 175/2000, um veiðar úr úthafskarfastofninum árið 2000, sbr. einnig V. kafla í leyfisbréfi til veiða á úthafskarfa árið 2000.  Gjald skyldi lagt á þann sem gert hefði út skip, sem veitt hefði gjaldskyldan afla, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. laga nr. 37/1992, og að gjaldið skyldi nema andvirði aflans með vísan til 1. mgr. 3. gr. sömu laga.  Hinn 18. mars 2001 kærði stefnandi þessa álagningu til Fiskistofu.  Með úrskurði, dagsettum 29. mars 2001, hafnaði Fiskistofa kæru stefnanda og í kjölfarið greiddi stefnandi álagt gjald með fyrirvara um réttmæti þess.

Hinn 11. apríl 2001 kærði stefnandi úrskurð Fiskistofu til úrskurðarnefndar samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992.  Kvað nefndin upp úrskurð í því máli hinn 29. júní 2001.

Samkvæmt gögnum málsins var umræddur úrskurður sendur til stefnanda og lögmanns hans með ábyrgðarbréfi og voru bréfin móttekin af stefnanda hinn 3. júlí 2001 og af lögmanni hans hinn 18. júlí s.á.

Hinn 5. júní 2002 var stefna í máli þessu birt lögmanni stefnda, þar sem hann lýsti yfir að fallið væri frá stefnufresti.  Málið var þingfest hinn 6. júní sl.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar, um að ógilda beri áðurnefndan úrskurð Fiskistofu, á því, að álagningin styðjist ekki við lög.  Heldur stefnandi því fram, að lög nr. 37/1992 eigi ekki við um veiðar stefnanda, þar sem verið sé að stunda veiðar, sem séu undir alþjóðlegri stjórn.  Samkvæmt samningi NEFAFS eigi aðildarríki að ræða saman og ná samkomulagi um veiðar á úthafskarfa.  Ekkert liggi fyrir í málinu, hvort og hvernig það samkomulag sé, sem verið hafi um úthafskarfaveiðar árið 2000, og hvort Íslendingar hafi veitt meira eða minna en þeim hafi verið ætlað.  Þá liggi heldur ekkert fyrir um, hvort aðrar þjóðir hafi nýtt sér karfann, en allt séu þetta atriði, sem geti skipt máli í þessu sambandi.  Þá liggi ekkert fyrir um það hvar þessi meinti umframafli m/s Venusar HF 515 /1308) hafi verið veiddur, hvort það hafi verið innan eða utan lögsögu Íslands, sem geti einnig skipt máli.  Hafi það verið Fiskistofu að afla gagna eða krefjast gagna um þessi atriði.  Stefnandi heldur því og fram, að hæstaréttardómur í málinu nr. 73/2000 eigi ekki við um þetta atriði sérstaklega, þar sem þar hafi verið fjallað um brot á sérstökum lögum um veiðar úr norsk- íslenska síldarstofninum.  Fiskistofa hafi ekki lagt fram nein gögn í málinu um að úthafsveiðar hafi verið stundaðar í samræmi við alþjóðlega sáttmála og hvort Íslendingar hafi veitt meira eða minna, en þeim hafi verið heimilt.  Eigi þetta að valda ógildingu úrskurðarins.

Stefnandi heldur því fram, að það sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár lýðveldisins, að þeir, sem veiði úthafskarfa fái ekki að flytja umframafla milli veiðiára, eins og gera megi samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.  Vísað sé um viðurlög í þessi lög, og verði því að telja, að stjórnvöld séu með sama hætti bundin af öðrum greinum laganna, ekki síst þeim sem séu ívilnandi.  Þetta misræmi komi þungt niður á þeim , sem stundi úthafskarfaveiðar.  Ákvörðun um að heimila ekki flutning á aflaheimildum úthafskarfa milli ára sé ómálefnaleg og í ósamræmi við aðra stjórnun fiskveiða á Íslandi.  Þá skipti einnig máli hvort heildarveiðar í úthafskarfa hafi verið meiri eða minni en NEAFC geri ráð fyrir og samkomulag hafi verið um.  Í þessu sambandi beri einnig að hafa í huga, að árið 1999 hafi Íslendingar ekki veitt allan þann úthafskarfa, sem heimild hafi verið veitt til að veiða.  Skip einstakra útgerða, m.a. stefnanda, hafi veitt örlítið umfram veiðiheimildir, en útgerðirnar hafi ekki verið beittar viðurlögum.  Hafi stefnandi því mátt vænta þess, að sama gilti um veiðar hans á því fiskveiðiári, sem hér um ræði.  Þá skipti einnig máli hvar veiðarnar hafi verið stundaðar, en stefnandi heldur því fram, að hann hafi a.m.k. mátt flytja á milli þann afla, sem veiddur hafi verið innan íslenskrar lögsögu.

Verði ekki fallist á, að fella beri gjaldið niður, beri að lækka það.  Fiskistofa miði álagningu gjalds við afurðaverð.  Landaðar afurðir úr m/s Venusi HF-519 umreiknaðar til afla, en aflaverðmæti látið vera afurðaverðið.  Þetta leiði til of hás aflaverðs.  Í lögum nr. 27/1992, 3. gr. segi, að álagt gjald samkvæmt 1. gr. skuli nema andvirði gjaldskylds afla.  Hins vegar eigi að miða við samsvarandi afla á þeim stað og á því tímabili, sem landað hafi verið, ef ekki sé hægt að sannreyna aflaverðmætið.  Augljóst sé af þessu, að hér sé verið að taka á því, þegar afli sé fullunninn um borð.  Aðstaða kæranda sé að þessu leyti sú sama og væri hann með eigin fiskvinnslu í landi og myndi þá vera lagt til grundvallar verð milli skyldra aðila.  Fiskistofa segist leggja til grundvallar verðið 72,0335 kr.  Ekki komi fram, hvaðan Fiskistofu komi sú heimild, að reikna krónuna með fjórum aukastöfum og sé því mótmælt.  Samkvæmt upplýsingum frá Fiskifélagi Íslands hafi verð á karfa, sem seldur hafi verið beint til fiskverkanda verið 41,60 kr. á kg í júní 2000, en 40,36 kr. á kg í júlí 2000.  Verð á karfa, sem seldur hafi verið á fiskmörkuðum í júní 2000 hafi verið 32,99 kr. á kg, en engin sala hafi farið fram í júlí.  Heldur stefnandi því fram, að ekki megi reikna verðið hærra en 40,36 kr. á kg.  Telur stefnandi, að álagt gjald geti aldrei orðið hærra en 2.423.983 krónur, miðaða við unnið kílóaverð.

Aflaheimild m/s Venusar HF-519 hafi verið alls 2.411.995 kg.  Umframafli hafi verið 61,856 kg eða 2,564 % af heildarafla.  Verði það ekki talið mikið frávik og útilokað að ná aflaheimildum án þess að eiga á hættu, að í síðasta hali komi ekki nákvæmlega sá afli, sem veiða megi.  Í því sambandi verði enn fremur að hafa í huga, að mismunandi mikið sé af sýktum karfa í einstöku hali, og geti sú samsetning afla ráðið miklu um hversu mikill afli sé nýtanlegur.  Ef ná eigi að veiða úthlutaðan kvóta verði að veiða fram yfir úthlutunina og megi segja, að þetta sé innbyggt í NEAFC-reglurnar.  Af þessum sökum sé því haldið fram, að ekki eigi að leggja á sektargjald eins og Fiskistofa gerði.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að það alvarlegur annmarki hafi verið á úrskurði úrskurðarnefndarinnar þótt ekki hafi verið leiðbeint um málshöfðunarfrest, enda hafi 31. gr. stjórnsýslulaga gilt um form og efni úrskurðarins.  Verði á það fallist að geta hafi átt um málshöfðunarfrest í úrskurðinum sé það ekki verulegur annmarki á úrskurðinum, að það hafi ekki verið gert.  Ef 4. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992 standi því ekki í vegi að efnisdómur verði lagður á málið, leiði þessi annmarki aðeins til þess að málinu verði ekki vísað frá dómi. 

Stefndi byggir á því, að málsmeðferð fyrir nefndinni hafi verið í samræmi við lög nr. 37/1992.  Nefndin hafi borið kæru stefnanda frá 11. apríl 2001 undir Fiskistofu með bréfi dagsettu 23. apríl 2001.  Fiskistofa hafi tjáð sig um framkomna kæru með bréfi dagsettu 27. apríl 2001 og hafi sent gögn málsins í þríriti.  Andsvör Fiskistofu hafi verið send lögmanni stefnanda með bréfi nefndarinnar dagsettu 30. apríl 2001, ásamt öllum gögnum.  Lögmaður stefnanda hafi sent úrskurðarnefndinni bréf, dagsett 17. maí 2001, með frekari rökstuðningi stefnanda, auk fylgiskjals um meðalverð karfa.  Fiskistofu hafi síðan verið gefinn kostur á að tjá sig um þann rökstuðning með bréfi nefndarinnar, dagsettu 22. maí 2001.  Fiskistofa hafi sent nefndinni bréf, dagsett 6. júní 2001, þar sem fram hafi komið krafa stofnunarinnar og athugasemdir við andsvör stefnanda.  Hvergi komi fram að nefndin hafi ráðgert að málið yrði flutt munnlega, en nefndin hafi átt það mat, sbr. 8. gr. laga nr. 37/1992.

Eftir að athugasemdum hafi verið skilað af hálfu stefnanda með bréfi til nefndarinnar, dagsettu 17. maí 2001, hafi stefnandi mátt gera ráð fyrir, að þær yrðu bornar undir Fiskistofu og að því búnu yrði málið tekið til úrskurðar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 37/1992.  Af hálfu stefnanda hafi ekki verið tilkynnt sérstaklega um að lögmaður stefnanda væri á leið til útlanda, en stefnanda hefði verið rétt að gera sérstakar ráðstafanir teldi hann þörf á að koma að frekari gögnum eða rökstuðningi.  Hafi nefndin hlotið að líta svo á, að málið væri tækt til úrskurðar að fengnum athugasemdum Fiskistofu frá 6. júní 2001.

Í 5. gr. laga nr. 151/1996 sé fjallað um stjórn veiða á stofnum sem veiðast innan og utan lögsögunnar.  Á grundvelli þeirrar greinar hafi hverju skipi verið úthlutað aflahlutdeild á grundvelli aflareynslu sinnar, í upphafi árs 1997.  Í 5. mgr. 4. gr. laganna sé fjallað um þær reglur sem ráðherra geti sett í þeim tilvikum sem Ísland hafi nýtt sér rétt sinn til að mótmæla samþykktum um fiskveiðistjórn, sem gerðar hafi verið á grundvelli samnings sem Ísland sé aðili að.  Í lokamálslið þeirrar greinar segi, að ákvæði 5. gr. gildi í þeim tilvikum eftir því sem við getur átt.  Með vísan til þessara greina sé ljóst að úthlutun aflahlutdeildar í úthafskarfastofnum sé byggð á lögmætum forsendum.  Þá segi í 2. mgr. 12. gr. laganna, að beita skuli ákvæðum laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla við brot á þeim lögum eftir því sem við eigi.  Með þessu sé sérstaklega áréttað að umframveiði skuli sæta gjaldtöku.  Lög nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, eigi ótvírætt við um úthafskarfaveiðar og hafi því gilt um veiðar stefnanda, sem orðið hafi til þess að gjald hafi verið lagt á samkvæmt lögunum.  Í leyfisbréfi stefnanda til veiðanna komi skýrt fram að þær lúti ákvæðum laga nr. 37/1992.  Þar sé vísað til laga nr. 151/1996, laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og reglugerða nr. 175/2000 og nr. 447/1999.  Byggir stefndi á því, að álagning gjaldsins styðjist við fullnægjandi lagaheimildir.  Samkvæmt því hafi það enga þýðingu hvort Fiskistofa hafi lagt fram gögn um veiðar Íslendinga almennt, veiðar annarra þjóða eða hvort afli Venusar HF-519, þ.e. úthafskarfi, hafi verið veiddur innan eða utan lögsögunnar.  Stefnandi ætti hins vegar að hafa nákvæmar upplýsingar um það síðastnefnda í afladagbókum.

Stefndi byggir á því, að í 3. og 4. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1990, með síðari breytingum séu ákvæði um heimild til flutnings aflamarks milli ára.  Í 3. mgr. 10. gr. segi að flytja megi allt að 20% af aflamarki hverrar botnfisktegundar frá einu ári til þess næsta á eftir.  Í 4. mgr. sömu greinar segi að heimilt sé að veiða 3% af aflamarki hverrar botnfisktegundar, enda dragist umframafli frá við úthlutun næsta árs á eftir.  Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 segi að um veiðar utan lögsögu Íslands úr stofnum sem veiðast bæði innan og utan hennar, íslenskum deilistofnum, skuli gilda ákvæði laga um stjórn fiskveiða eftir því sem við geti átt, sbr. þó ákvæði þessarar greinar.  Í 5. gr. laga nr. 151/1996 sé fjallað um úthlutun aflaheimildar milli skipa og gildi um það nokkuð aðrar reglur en gildi um úthlutun aflahlutdeildar úr stofnum sem veiðist innan lögsögunnar.  Í árlegum reglugerðum um veiðar á úthafskarfastofnum hafi verið kveðið á um það að ákvæði 10. gr. laga nr. 38/1990 gildi ekki um aflamark sem úthlutað sé í úthafskarfa, sbr. lokamálslið 4. gr. reglugerðar nr. 175/2000.  Ástæður þess að ekki sé talið unnt að láta ákvæði 10. gr. laga nr. 38/1990 um flutning aflamarks milli ára taka til veiða á úthafskarfa séu fyrst og fremst eftirfarandi, svo sem fram komi í bréfi ráðuneytisins frá 3. september 2002:

Í fyrsta lagi ákveði Ísland einhliða eða semji við önnur aðildarríki NEAFC um leyfilegt veiðimagn á hverju ári.  Íslensk stjórnvöld séu bundin af þeirri ákvörðun og geti ekki veitt neina tilhliðrun í leyfilegu veiðimagni hvers árs eins og óhjákvæmilega myndi gerast ef flutningur milli ára væri leyfður.  Í öðru lagi sé ákvörðun um stjórnun veiða úr úthafskarfastofninum á hverju ári ekki tekin fyrr en að loknum aðalfundi NEAFC í nóvember næsta ár á undan.  Veiðar í úthafskarfa hefjist að jafnaði í marsmánuði ár hvert og ljúki síðla sumars eða snemma hausts.  Þegar veiðum ljúki á einu ári sé ekki ljóst hvort sambærilegar reglur gildi um hvernig veiðum verði stjórnað á næsta ári.  Sem dæmi megi nefna þá breytingu sem orðið hafi á stjórnun veiðanna milli áranna 2000 og 2001.  Á fyrra árinu miðaðist skiptingin við úthafskarfastofn við ákveðna dýptarlínu en á árinu 2001 miðaðist skiptingin við svæði.  Af þessu verði ráðið að um ólíka aðstöðu sé að ræða og á engan hátt sambærileg tilvik.  Málefnalegar ástæður séu því fyrir því að mismunandi reglur gildi og sæti stefnandi á engan hátt mismunun miðað við aðra sem séu í sömu aðstöðu.  Um sé að ræða ólíkan grundvöll veiðistjórnunar og ólíkar tegundir stofna.  Sé því eindregið mótmælt að um brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár sé að ræða.  Veiðar stefnanda á úthafskarfa falli undir ákvæði sérlaga og reglugerða og sérreglna sem fjalli sérstaklega um þær veiðar og geti jafnræðisregla ekki helgað stefnanda réttindi sem ekki eigi stoð í réttarreglum.  Í þessu sambandi megi nefna að við stjórnun veiða úr kolmunnastofninum, norsk-íslenska síldarstofninum og loðnustofninum, sem allir veiðist bæði innan og utan lögsögu, hafi ekki verið heimilt að flytja árlegt aflamark milli ára.  Sama gildi um veiðar á rækju á Flæmingjagrunni, sem eingöngu veiðist utan lögsögu, en aðstæður þar séu að því leyti líkar að Ísland ákveði sér einhliða kvóta á því svæði.  Sé þannig í engu brotið gegn jafnræðisreglu þótt mismunandi reglur gildi á mismunandi hafsvæðum og mismunandi fiskistofnum.  Eigi löggjafinn og ráðherra mat um það hvernig talið sé málefnalegt að ná markmiði um stjórn fiskveiða og hvaða aðferðum verði beitt.

Málsástæða stefnanda byggð á jafnræðisreglu geti á engan hátt stutt dómkröfur hans, þar sem stefnandi hafi ekki rökstutt á hvaða grundvelli fallast ætti á kröfur hans vegna málsástæðna um flutning aflaheimilda milli ára, þ.e. hvort hann eigi þar við afgang frá árinu áður eða að hann hafi ætlað að veiða afla sem til frádráttar kæmi á næsta ári.  Byggir stefndi einnig á því, að ef farið hefði verið eftir ákvæðum laga nr. 38/1990, um flutning milli ára, hefði stefnandi sætt skerðingu samsvarandi þeim umframafla, sem hann hafi veitt.  Samkvæmt reglum um veiðar úthafskarfa, sem fyrr sé lýst, leiði umframaflinn ekki til skerðingar.  Málatilbúnaður stefnanda, að þessu leyti, myndi því leiða til óhagkvæmrar niðurstöðu fyrir stefnanda.

Stefndi byggir og á því, að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1992 skuli gjald nema andvirði gjaldskylds afla.  Aðferð og viðmiðun samkvæmt 2. og 3. gr. laganna verði ekki beitt nema andvirði gjaldskylds afla liggi ekki fyrir.  Það sé staðreynd að umframafla þeim, sem málið varði, hafi verið landað í Hafnarfirði hinn 5. júlí 2000.  Magn þess afla hafi verið umreiknað samkvæmt lögbundnum stuðli, sbr. reglugerð nr. 175/2000, til afla úr sjó sem aflamark er miðað við.  Eins og fram komi í tilkynningu Fiskistofu, dags. 24. janúar 2001, hafi verið vísað til meðfylgjandi lista yfir landanir og vigtarskýrslna, sem stafi frá stefnanda.  Komi þar fram að unnin afurð af úthafskarfa, veiddum á yfir 500 metra dýpi, reyndist vigta 303,566 kg.  Til að finna samsvarandi aflamagn í kílóum upp úr sjó sé afurðin margfölduð með umreikningastuðlinum 1,81818 og jafngildi þannig 551.938 kg af afla.  Afurðaverð pr. kg sé í vigtarskýrslum tilgreint 130,9682 kr.  (130,97), en samtals sé verðmæti afurðanna þá 39.758.039,02 krónur.  Þegar deilt sé í þá tölu með 551.938 kg fáist raunvirði afla upp úr sjó, sem nemi 72,03352 krónum pr. kg.  Andvirði ólögmæts sjávarafla upp úr sjó, þ.e. 61.856 kg, nemi því 4.455.706 krónum.  Sé á engan hátt ólögmætt að reikna raunvirði afla upp úr sjó fyrir hvert kg með fullri nákvæmni, enda aðeins um forsendu í útreikningi að ræða.  Hafi álagningin verið í fullu samræmi við 3. gr. laganna nr. 37/1992.

Andvirði þessa afla hafi þannig verið reiknað út frá staðfestum upplýsingum stefnanda, sem honum hafi, lögum samkvæmt, borið að veita Fiskistofu.  Byggir stefndi á því, að boðað og álagt gjald hafi réttilega verið miðað við andvirði gjaldskylds afla eins og kveðið sé á um í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1992.  Byggi álagningin á fullnægjandi upplýsingum, sem stefnandi hafi ekki hnekkt, hvorki með gögnum úr bókhaldi sínu eða öðrum hætti.  Hafi þannig verið miðað við raunverulegt verðmæti miðað við afla upp úr sjó svo sem átt hafi að gera, samkvæmt nefndu ákvæði, þar sem það hafi verið þekkt.  Stefndi telur að ekki beri að túlka 2. mgr. 3. gr. þannig, að þar sé sérstaklega átt við þegar afli sé fullunninn um borð.  Sé ákvæði 3. gr. byggt á því að miða skuli við raunverð sé það þekkt, hvort sem afli sé unninn um borð eða ekki, en ella verði byggt á viðmiðunarreglu 2. mgr. og að þeim möguleika frágengnum kunni að koma til áætlunar á grundvelli 3. mgr.  Upplýsingar frá Fiskifélagi Íslands um verð á karfa séu því þýðingarlausar, einnig sökum þess, að þar sé ekki um að ræða úthafskarfa og geti þær því ekki átt við.  Stefnandi mótmælir vangaveltum stefnanda um hlutfall sýkts karfa almennt.  Hvergi eigi það sér stoð, hvorki í lögum né samningum, að veiða eigi umfram aflaheimildir.

Stefndi mótmælir því og, að umframafli stefnanda, 62 tonn af úthafskarfa, hafi verið óverulegur.  Enginn greinarmunur sé gerður á því í lögum nr. 37/1992 hvort umframafli fari verulega eða aðeins lítillega fram úr heimildum.  Skylda samkvæmt lögunum, um að leggja gjald á umframafla, sé ótvíræð, burtséð frá magni hans.  Verði skipstjóri að gæta þess að veiða ekki umfram heimildir, sérstaklega þegar stutt sé í að aflaheimildir fullnýtist.  Gera megi ráð fyrir að veiðarfæri skipsins séu búin aflanemum og hæglega megi komast hjá umframveiði.

Varakröfu stefnanda um lækkun á álagningu er mótmælt með vísan til framangreinds og upphafstíma dráttarvaxtakröfu mótmælt sérstaklega.

Stefndi kveðst setja fram þrautavarakröfu, telji rétturinn skilyrði til að fallast á kröfur stefnanda að einhverju leyti og endurskoða álagningu gjaldsins.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Eins og áður greinir var frávísunarúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettur 29. janúar sl., felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar hinn 6. mars sl., og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.  Í dómi Hæstaréttar var ekki talið að málssókn stefnanda væri háð fresti samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992, að því leyti, sem hún varðaði ekki ágreining um magn eða andvirði umframaflans.

Fiskistofa gaf út leyfi til handa stefnanda til veiða á úthafskarfa árið 2000.  Var leyfið gefið út á grundvelli laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, reglugerðar nr. 175/2000, um veiðar úr úthafskarfastofninum árið 2000, með síðari breytingum, og reglugerðar nr. 447/1999, um veiðieftirlit á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiði-nefndarinnar (NEAFC).  Samkvæmt leyfinu voru veiðar umfram aflamark skips í úthafskarfa óheimilar og tekið fram að sérstakt gjald vegna slíks afla yrði lagt á, samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992.  Samkvæmt  úrskurði Fiskistofu, sem staðfestur var af úrskurðarnefnd samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992, var slíkt gjald lagt á stefnanda.  Með málssókn þessari hyggst stefnandi fá þann úrskurð felldan úr gildi.  Ágreiningur máls þessa lýtur að skyldu stefnanda til greiðslu gjalds samkvæmt 1. gr. laga nr. 37/1992.  

Stefnandi í máli þessu byggir kröfu sína um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar á því, að lög nr. 37/1992 eigi ekki við um veiðar á úthafskarfa.  Brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu, með því að stefnanda hafi ekki verið heimilt að flytja afla milli veiðiára, álagningin væri ekki miðuð við réttar forsendur og frávik frá veiðum hafi verið óverulegt, en ógerlegt væri að veiða af þeirri nákvæmni, að ekki væri farið út fyrir úthlutað aflamark.  Stefnandi byggði kæru sína til úrskurðarnefndarinnar á sömu málsástæðum, en, eins og áður greinir, hafnaði úrskurðarnefndin öllum þessum málsástæðum stefnanda og staðfesti úrskurð Fiskistofu um álagningu gjaldsins og fjárhæð þess.  Tók úrskurðarnefndin afstöðu til allra þeirra málsástæðna stefnanda í úrskurði sínum.

Um veiðar íslenskra skipa úr nytjastofnum utan lögsögu Íslands gilda ákvæði laga nr. 151/1996.

Á árinu 2000 ákváðu íslensk stjórnvöld einhliða heildarkvóta úthafskarfa fyrir íslensk skip á því ári.  Ákvörðunin byggðist á 5. mgr. 4. gr. laga nr. 151/1996, um veiðar utan lögsögu Íslands.  Samkvæmt því ákvæði laganna, er ráðherra veitt heimild til þess að setja sérstakar reglur um stjórn veiða íslenskra skipa í þeim tilvikum sem Ísland hefur nýtt rétt sinn til að mótmæla samþykktum um fiskveiðistjórn, sem gerðar hafa verið á grundvelli samnings, sem Ísland er aðili að.  En samkvæmt framlögðu bréfi sjávarútvegsráðuneytisins, varð ekki samkomulag í Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni um hlut Íslands í heildarmagni í úthafskarfa fyrir árið 2000 og mótmælti Ísland samþykkt nefndarinnar og ákvað einhliða heildarkvóta sinn í veiðunum.

Íslensk stjórnvöld ákváðu að stjórna veiðum íslenskra skipa á úthafskarfa með því að úthluta varanlegri aflahlutdeild í karfa á grundvelli veiðireynslu skips á tilgreindu árabili, með reglugerð um úthlutun veiðiheimilda á úthafskarfa á Reykjaneshrygg, með stoð í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.  Í 5. gr. fyrrgreindra laga er kveðið á um veiðar utan lögsögu Íslands úr stofnum, sem veiðast bæði innan og utan lögsögunnar, íslenskum deilistofnum, og að ákvæði laga um stjórn fiskveiða skuli gilda eftir því sem við getur átt, sbr. þó ákvæði greinarinnar.  Í 2. mgr. 5. gr. laganna segir svo: „Sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr slíkum stofni, sem samfelld veiðireynsla er á skal aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum.  Veiðireynsla telst samfelld samkvæmt lögum þessum hafi ársafli íslenskra skipa úr viðkomandi stofni a.m.k. þrisvar sinnum á undangengnum sex árum svarað til a.m.k. þriðjungs þess heildarafla sem er til ráðstöfunar af hálfu íslenskra stjórnvalda.” 

Samkvæmt framansögðu var því leyfi stefnanda til umdeildra veiða veitt á grundvelli laga nr. 151/1996, eins og tekið var fram í leyfisbréfi.  Stefnandi hefur ekki mótmælt því að veiðar hans fóru fram úr því aflamarki, sem honum var úthlutað.  Eins og áður greinir var stefnanda gert að greiða ákveðið gjald vegna ólögmæts sjávarafla á grundvelli laga nr. 37/1992.  Í III. kafla laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, er kveðið á um viðurlög vegna brota á ákvæðum laganna, og segir þar í 2. mgr. 12. gr.: „Beita skal ákvæðum laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla við brot á lögum þessum eftir því sem við á.”  Liggur og fyrir að í leyfisbréfi stefnanda til veiðanna kemur skýrt fram að þær lúti ákvæðum laga nr. 37/1992.  Samkvæmt þessu verður því að telja að að álagningin styðjist við fullnægjandi lagaheimildir.  Með því að aflahlutdeild stefnanda var bundin leyfi, þar sem stefnanda var veitt heimild til veiða á ákveðnu aflamarki, er allur afli sem veiddur er umfram það, sem leyfisbréfið kveður á um, umframafli, og óleyfilegur, þó svo önnur skip hafi ekki veitt upp í leyfilegt aflamark sitt.  Þá verður ekki séð, að áhrif geti haft á ákvörðun um það hvort stefnandi hafi veitt umfram heimild, hvort umframaflinn var veiddur innan íslenskrar fiskveiðilögsögu eða utan hennar, enda var umrætt leyfi veitt til veiða á úthafskarfa, sem stefnandi veiddi umfram heimild, sem honum hafði verið veitt af íslenskum stjórnvöldum á grundvelli áðurnefndra laga.

Stefnandi byggir og á því að jafnræðis hafi ekki verið gætt, þar sem í 3. og 4. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, séu ákvæði um heimild til flutnings aflamarks milli ára.  Í reglugerð um veiðar á úthafskarfastofninum hefur verið kveðið á um, að aflamark, sem úthlutað er í úthafskarfa, sé ekki hægt að flytja milli ára, eins og heimilt er um umframafla milli veiðiára, samkvæmt lögum nr. 38/1990.  Mismunandi reglur um flutning á aflamarki milli ára eftir aflategundum er ekki brot á jafnræðisreglu.  Stefnandi hefur á engan hátt sýnt fram á það í máli þessu, að jafnræðis hafi ekki verið gætt milli þeirra sem heimild höfðu til veiða á úthafskarfa árið 2000.

Er allt framanritað er virt ber að hafna aðalkröfu stefnanda.

Stefnandi byggir varakröfu sína m.a. á því, að afli skips hans umfram heimild hafi verið svo óverulegur að ekki geti átt við að leggja á hann gjald af þeim sökum, enda sé útilokað að nýta aflaheimildina án þess að eiga á hættu lítilsháttar umframafla.  Samkvæmt lögum nr. 37/1992, sem komist hefur verið að, samkvæmt framansögðu, að eigi við um umdeildar veiðar stefnanda, er lögskylt að leggja sérstakt gjald á umframafla og er þar enginn greinarmunur gerður á því hvort um lítið eða mikið magn af heildarafla skips er að ræða.  Þegar af þeirri ástæðu, að lögskylt er að leggja umrætt gjald á umframafla, ber að hafna kröfu stefnanda, byggðri á þessari málsástæðu, enda gjaldið miðað við hagnað af veiðum.

Varakröfu sína byggir stefnandi og á því, að álagningin hafi tekið mið af afurðaverði, en ekki verðmæti þess afla, sem hann veiddi umfram heimildir.  Hafi landaðar afurðir verið umreiknaðar til afla og aflaverðmætið látið vera afurðaverð.  Hafi borið að beita 2. mgr. 3. gr. laga nr. 3/1992, við álagningu gjaldsins.  Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1992, skal álagt gjald vegna umframafla miðast við andvirði gjaldskylds afla.  Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna skal beita þeirri málsgrein um ákvörðun gjaldsins, einungis ef ekki verður staðreynt hver sú fjárhæð hefur verið.  Samkvæmt því bar, við ákvörðun umdeilds gjalds, að beita 1. mgr. 3. gr. laganna, þar sem fyrir lá hvert andvirði aflans var.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var magn þess afla, sem stefnandi veiddi umfram heimildir umreiknaður samkvæmt lögbundnum stuðli til afla úr sjó, sbr. reglugerð nr. 175/2000.  Liggur því ekki annað fyrir, en að álagningin hafi verið fyllilega lögmæt.

Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Hvals hf.

Málskostnaður fellur niður.