Hæstiréttur íslands

Mál nr. 638/2013


Lykilorð

  • Fjármögnunarleiga
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 13. mars 2014.

Nr. 638/2013.

 

Suðurverk hf.

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

 

Fjármögnunarleiga. Lánssamningur. Gengistrygging.

S hf. krafðist þess að viðurkennt yrði að þrír fjármögnunarleigusamningar sem hann hafði gert við L hf. væru að efni til lánssamningar og að ákvæði þeirra um tengingu greiðslna við gengi nánar tiltekinna erlendra gjaldmiðla væru ólögmæt og óskuldbindandi fyrir sig. Í niðurstöðu Hæstaréttar var að efni til fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að hafna fimm af sex málsástæðum S hf. Að því er varðaði þá málsástæðu S hf. að um hefði verið samið í upphafi viðskipta að félagið eignaðist vélar og tæki gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu í lok samningstíma vísaði Hæstiréttur til þess að kynningarefni L hf. um fjármögnunarleigusamninga yrði ekki skýrt svo að það hefði veitt viðskiptamanni fyrirvaralausan kauprétt að leigutíma loknum, án þess að til kæmi sérstakt samþykki L hf. Þá réði það ekki úrslitum þótt óumdeilt væri að S hf. hefði alltaf keypt þær vélar eða tæki sem hann hafði gert fjármögnunarleigusamninga um á tilteknu tímabili. Þótti S hf. ekki hafa sannað að samið hefði verið um í upphafi viðskipta að hann yrði að loknum grunnleigutíma samninganna þriggja og gegn greiðslu lokagjalds eigandi þeirra véla og tækja sem samningarnir tóku til. Var því niðurstaða héraðsdóms um sýknu L hf. staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. september 2013. Hann krefst þess að viðurkennt verði að fjármögnunarleigusamningar aðila nr. 135776 frá 11. ágúst 2006, nr. 140007 frá 20. mars 2007 og nr. 145687 frá 1. febrúar 2008, séu að efni til lánssamningar og að ákvæði þeirra um tengingu greiðslna við gengi nánar tiltekinna erlendra gjaldmiðla séu ólögmæt og óskuldbindandi fyrir áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samningar þeir, sem áfrýjandi krefst viðurkenningar á að séu lánssamningar en ekki leigusamningar, bera allir heitið ,,fjármögnunarleigusamningur“. Sá fyrsti, sem gerður var 11. ágúst 2006 og tók til Cat 365C beltagröfu, mælti fyrir um að grunnleigutími væri 36 mánuðir, næsti frá 20. mars 2007 tók til ,,Cat 323D m/hraðtengi og skóflu“ með 45 mánaða grunnleigutíma og hinn þriðji frá 1. febrúar 2008 var um Cat D9T jarðýtu og hafði 59 mánaða grunnleigutíma. Áfrýjandi reisir mál sitt á því að þar sem um hafi verið að ræða lánssamninga séu ákvæði þeirra um tengingu greiðslu við gengi tilgreindra erlendra gjaldmiðla ,,ólögmæt og óskuldbindandi.“

Efni hvers af samningunum þremur skiptist í tvo hluta. Hinn fyrri hafði að geyma sérstaka skilmála sem lutu að þeirri vél eða tæki sem var andlag samningsins meðal annars leigugrunni, grunnleigutíma og tilhögun leigugreiðslna en í hinum síðari voru almennir skilmálar. Samningarnir voru að uppbyggingu og efni samhljóða með frávikum sem vörðuðu þá vél eða tæki sem hver samningur tók til svo sem um leigugreiðslur og leigutíma. Efni samninganna er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur jafnframt fram var það hið sama og þess samnings sem var grundvöllur ágreinings sem skorið var úr í dómi Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011.

Áfrýjandi teflir einkum fram sex málsástæðum til stuðnings kröfu sinni og eru þær tíundaðar í héraðsdómi. Þar er fimm þeirra hafnað og er að efni til fallist á niðurstöðu dómsins um það.

Áfrýjandi telur að mál þetta sé ekki sambærilegt því sem áðurnefndur dómur Hæstaréttar tekur til að því leyti að í öllum þeim þremur tilvikum, sem hér um ræðir, hafi verið um það samið í upphafi viðskipta að áfrýjandi ,,eignaðist vélar og tæki gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu í lok samningstíma.“ Því til stuðnings bendir hann á að í öllum tilvikunum hafi hann keypt vélarnar eða tækin við lok grunnleigutíma gegn greiðslu lokagjalds. Sú hafi líka alltaf verið raunin í þeim 77 fjármögnunarleigusamningum sem áfrýjandi hafi gert við stefnda og lokið hafi verið á árunum 2004 til 2012. Þá bendir áfrýjandi á að í yfirlitum stefnda um áramótastöðu fjármögnunarleigusamninga hafi svonefnt lokagjald verið tilgreint en það sé sú fjárhæð sem áfrýjanda hafi borið að greiða fyrir vél eða tæki að loknum grunnleigutíma. Þetta sýni að um hafi verið samið að hann eignaðist tækin gegn greiðslu þessarar fjárhæðar við samningslok. Hann bendir einnig á að árum saman hafi stefndi kynnt fjármögnunarleigusamninga svo að viðsemjandi félagsins ætti kost á að kaupa vél eða tæki að grunnleigutíma loknum. Þannig hafi til dæmis kynning á fjármögnunarleigu á heimasíðu stefnda 15. nóvember 2006 um þetta atriði hljóðað svo: ,,Í lok grunnleigutíma tekur við ótímabundin framhaldsleiga, en jafnframt átt þú kost á að kaupa tækið af Lýsingu á umsömdu verði, sem er yfirleitt 3% af upphaflegum leigugrunni.“ Þá leiði af túlkunarreglum samningaréttar að skýra verði samningana, sem stefndi samdi einhliða, áfrýjanda í vil ef vafi leikur á um efni þeirra. Áfrýjandi kveður aðra viðskiptamenn stefnda hafa með sama hætti átt rétt á því að kaupa vél eða tæki við lok grunnleigutíma. Hefur hann lagt fram undirritaðar yfirlýsingar nokkurra þeirra þess efnis. Loks vísar áfrýjandi til framburðar vitnanna Sveins Hannessonar, Ólafs Helga Ólafssonar og Guðríðar Ólafsdóttur fyrir héraðsdómi en þau hafi öll um lengri tíma gegnt stjórnunarstörfum hjá stefnda. Rakið er úr framburði þeirra í héraðsdómi.

Í samningunum þremur var svofellt ákvæði í 12. grein: ,,Leigutími er tilgreindur í 4. og 6. gr. Leigutaki getur ekki sagt leigusamningi þessum upp á grunnleigutíma. Að loknum grunnleigutíma framlengist hann ótímabundið skv. 6. gr. Leigutaki getur sagt hinum framlengda leigusamningi upp skriflega með 1 mánaðar fyrirvara, enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða.“ Í 34. gr. samninganna var kveðið á um það að breytingar á þeim mætti einungis gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum. Óumdeilt er að þeim þremur samningum, sem málið varðar, var ekki breytt að því leyti sem hér skiptir máli, með þeim hætti sem þarna var mælt fyrir um. Kynningarefni stefnda um fjármögnunarleigusamninga verður ekki skýrt svo að það hafi veitt viðskiptamanni fyrirvaralausan rétt til að kaupa leigumun að grunnleigutíma loknum án þess að til þyrfti að koma sérstakt samþykki stefnda. Því síður gat það falið í sér skyldu viðskiptamanns til þess að kaupa tækið. Framburður vitnanna Halldórs Jörgenssonar, Péturs Bjarna Magnússonar og Arnars Snæs Kárasonar fyrir héraðsdómi, sem efnislega er gerð grein fyrir í dóminum, var á þann veg að samþykki stefnda hefði alltaf þurft að koma til svo viðskiptamaður fengi að kaupa vél eða tæki sem fjármögnunarleigusamningur tók til.

Þá ræður það ekki úrslitum um sönnun fyrir þessari málsástæðu áfrýjanda þótt óumdeilt sé að hann hafi alltaf keypt þær vélar eða tæki sem hann hafði gert fjármögnunarleigusamning um og lokið var á árunum 2004 til 2012.

Samkvæmt framansögðu, einnig að teknu tilliti til framburðar þeirra Sveins Hannessonar, Ólafs Helga Ólafssonar og Guðríðar Ólafsdóttur, hefur áfrýjandi ekki sannað að svo hafi verið um samið í upphafi viðskipta samkvæmt þeim þremur samningum, sem málið varðar, að hann yrði að loknum grunnleigutíma og gegn greiðslu lokagjalds eigandi þeirra véla og tækja sem þeir taka til. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Suðurverk hf., greiði stefnda, Lýsingu hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2013.

Mál þetta sem dómtekið var 3. september 2013 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 9. október 2012 af Suðurverki hf., Hlíðasmára 11, Kópavogi á hendur Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Kröfur aðila

Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að samningur málsaðila, sem ber heitið ,,fjármögnunarleigusamningur“ nr. 140007 frá 20. mars 2007, sé að efni til lánssamningur og að ákvæði hans um tengingu greiðslna við gengi japanskra jena og svissneskra franka sé ólögmætt og óskuldbindandi fyrir stefnanda. 

Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að samningur málsaðila, sem ber heitið ,,fjármögnunarleigusamningur“ nr. 145687 frá 1. febrúar 2008, sé að efni til lánssamningur og að ákvæði hans um tengingu greiðslna við gengi japanskra jena sé ólögmætt og óskuldbindandi fyrir stefnanda.

Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að samningur málsaðila, sem ber heitið ,,fjármögnunarleigusamningur“ nr. 135776 frá 11. ágúst 2006, sé að efni til lánssamningur og að ákvæði hans um tengingu greiðslna við gengi japanskra jena og svissneskra franka sé ólögmætt og óskuldbindandi fyrir stefnanda.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, eða mati dómsins.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, eða mati dómsins.

Atvik máls

Stefnandi máls þessa, Suðurverk hf., er fyrirtæki sem frá árinu 1986 hefur starfað aðallega við vega- og gatnagerð, við gerð stíflumannvirkja og veituskurða og við gerð hafnarmannvirkja og brimvarnargarða. Stefndi, Lýsing hf., er fjármálafyrirtæki, sem starfar á sviði eignaleigu. Stefnandi og stefndi hafa allt frá árinu 1996 átt í umfangsmiklum eignaleiguviðskiptum og gert með sér tugi eignaleigusamninga. Kröfur stefnanda í máli þessu varða þrjá þessara samninga þ.e. fjármögnunarleigusamninga nr. 140007, frá 20. mars 2007, nr. 145687 frá 1. febrúar 2008 og nr. 135776, frá 11. ágúst 2006. 

Á forsíðu framangreindra þriggja samninga er tilgreint að um fjármögnunarleigusamninga sé að ræða og séu þeir gengistryggðir. Þá er stefndi tilgreindur sem leigusali en stefnandi sem leigutaki. Samningsskilmálarnir eru tvíþættir. Annars vegar sérstakir skilmálar og hins vegar almennir skilmálar. Í sérstaka hlutanum er gerð grein fyrir samningsandlaginu, seljanda hins leigða, samningstíma, afborgunum, vöxtum, greiðslutilhögun og vátryggingum. Í hinum almenna hluta eru staðlaðir samningsskilmálar.

Samkvæmt 1. gr. samnings nr. 135776 er hið leigða Cat 365C beltagrafa. Í 2. gr.  kemur fram að leigugrunnur sé 40.600.000 krónur án virðisaukaskatts og 50.547.000 krónur með virðisaukaskatti og er sú fjárhæð umreiknuð í erlenda gjaldmiðla, japönsk jen og svissneska franka. Samkvæmt 4. gr. er grunnleigutíminn frá 10. ágúst 2006 til 9. ágúst 2009. Gjalddagi fyrstu leigugreiðslu er 10. ágúst 2006 en fjöldi greiðslna 21 og fjöldi mánaða 36. Í 5. gr. er greiðslutilhögun nánar lýst og í 6. gr. kemur fram að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist frá lokum grunnleigutíma. Í 7. gr. er kveðið á um hjá hvaða vátryggingafélagi vélin skuli tryggð og með hvaða tryggingum. Í 10. gr. samningsins kemur fram að leigutaki greiði hlutaleigu að fjárhæð 26.159 krónur og að gjalddagi hennar sé 10. ágúst 2006. Þá segir að gengi miðist við samningsdaginn 25. júlí 2006. Að lokum segir að LIBOR - vextir á samningsdegi séu 0,89% auk 2,50% álags.

Samkvæmt samningi nr. 140007 er hið leigða Cat 323D grafa með hraðtengi og skóflu. Í 2. gr. samningsins kemur fram að leigugrunnur sé 12.500.000 krónur án virðisaukaskatts og 15.562.500 krónur með virðisaukaskatti og er sú fjárhæð umreiknuð í erlenda gjaldmiðla, japönsk jen og svissneska franka. Samkvæmt 4. gr. er grunnleigutíminn frá 10. apríl 2007 til 9. janúar 2011. Fyrsta leigugreiðslan er 10. apríl 2007, fjöldi greiðslna 27 og fjöldi mánaða 45. Í 5. gr. er greiðslutilhögun nánar tilgreind. Í 6. gr. kemur fram að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist frá lokum grunnleigutíma. Í 7. gr. er kveðið á um hjá hvaða vátryggingafélagi vélin skuli tryggð og með hvaða tryggingum. Í 10. gr. samningsins kemur fram að leigutaki greiði hlutaleigu að fjárhæð 32.552 krónur og að gjalddagi sé 10. apríl 2007. Þá segir að gengi miðist við samningsdaginn 14. mars 2007. Að lokum segir að LIBOR - vextir á samningsdegi séu 1,47% auk 2,50% álags.

Í samningi nr. 145687 er í 1. gr. greint frá því að hið leigða sé Cat D9T jarðýta. Í 2. gr. samningsins kemur fram að leigugrunnur sé 48.677.000 krónur án virðisaukaskatts og 60.602.865 krónur með virðisaukaskatti og er sú fjárhæð umreiknuð í japönsk jen, sem fjárhæðir í samningnum eru tengdar við. Í 3. gr. er greint frá því að seljandi tækisins sé Hekla hf. Í 4. gr. kemur fram að grunnleigutíminn sé frá 10. febrúar 2008 til 9. janúar 2013. Fyrsta leigugreiðslan sé 10. maí 2008 og að fjöldi greiðslna sé 40 og fjöldi mánaða sé 59. Í 5. gr. er greiðslutilhögun nánar tilgreind. Í 6. gr. kemur fram að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist frá lokum grunnleigutíma. Í 7. gr. er kveðið á um hjá hvaða vátryggingafélagi vélin skuli tryggð og með hvaða tryggingum. Í 10. gr. samningsins kemur fram að leigutaki greiði hlutaleigu/vexti af útborguðu fé frá útborgunardegi. Þá segir að grunngengi/vísitala miðist við dagsetningu gjaldeyrismillifærslu. Að lokum segir að LIBOR vextir á samningsdegi séu 0,65% auk 2,15% álags.

Almennir skilmálar samninganna eru að nær öllu leyti samhljóða. Í 12. gr. þeirra  er tekið fram að leigutaki geti ekki sagt leigusamningi upp á grunnleigutíma og að þeim tíma loknum framlengist hann ótímabundið. Leigutaki geti sagt hinum framlengda leigusamningi upp skriflega með eins mánaðar fyrirvara enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í 14. gr. er fjallað um gengistryggingu og segir þar að leiga sem sé gengistryggð miðað við breytingar á gengi erlendra gjaldmiðla sé tilgreind í íslenskum krónum. Leigugjald sé innheimt í íslenskum krónum. Við útreikning leigu skuli hafa til viðmiðunar skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðlum samkvæmt ákvörðun Lýsingar hf. við útgáfudag reiknings. Í 15. gr. segir að Lýsing sé eitt eigandi hins leigða. Í 16. gr. kemur fram að leigutaki velji hið leigða og annist skoðun þess eins og kaupanda sé skylt samkvæmt lögum. Þá segir að Lýsing hf. taki enga ábyrgð á leigumun og að leigugreiðslur skuli greiddar enda þótt hið leigða hafi ekki þá eiginleika sem leigutaki hafi reiknað með. Í 17. gr. kemur fram að leigutaki beri áhættuna ef hið leigða ferst, skemmist eða rýrni eftir að seljandi hafi afhent hið leigða eða áhættan flust frá seljanda til kaupanda samkvæmt lögum. Þá segir í 18. gr. að kostnaður sem falli til við pökkun og flutning hins leigða frá seljanda til leigutaka sem og allur kostnaður við uppsetningu og frágang hins leigða á notkunarstað hjá leigutaka sé á ábyrgð og kostnað hans. Þá greiði leigutaki allan kostnað sem falli til vegna skráningar og eigendaskipta jafnt við upphaf sem lok samningsins. Í 19. gr. kemur fram að leigutaka beri að greiða leigu enda þótt seljandi hlutar vanefni samning sinn við Lýsingu hf. og/eða leigutaka. Þá segir í greininni að leigutaki geti átt rétt til afsláttar af kaupverði eða til skaðabóta eða endurgreiðslu ef vanefndir seljanda leiði til afsláttar á kaupverði eða til skaðabóta úr hans hendi. Þá skuli sú fjárhæð koma leigutaka að fullu til góða í formi lækkaðrar leigu. Samkvæmt 20. gr. skal leigutaki annast allt viðhald og viðgerðir á leigumun á sinn kostnað. Samkvæmt 26. gr. skal leigutaki greiða alla skatta og opinber gjöld sem kunna að vera lögð á hið leigða.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort umræddir samningar séu lánssamningar í skilningi laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eða leigusamningar. Stefnandi byggir á því að samningarnir séu lánssamningar og því hafi verið óheimilt að binda fjárhæð greiðslna samkvæmt þeim við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefndi telur að samningarnir séu leigusamningar og falli því utan gildissviðs laga nr. 38/2001.

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi byggir á því að fjármögnunarleigusamningar nr. 135776, 145687 og 140007 séu samkvæmt efni sínu lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Ákvæði samninganna verði að virða í heild sinni, í samræmi við samkomulag aðila og í samræmi við raunverulega tilhögun og viðskiptasögu aðila. Þá vísi stefnandi til forsendna dóma Hæstaréttar í málum nr. 282/2011 og 652/2011. Stefnandi byggir á því að hann hafi sjálfur haft frumkvæði að kaupum á vélum og tækjum samkvæmt tilvitnuðum samningum og komið fram gagnvart seljanda, Heklu hf., sem kaupandi þeirra. Stefnandi telji að eignarhald þriðja aðila á vélum og tækjum fyrir gerð samninganna sýni fram á að um lán hafi verið að ræða. Stefndi hafi keypt vélar og tæki samkvæmt samningum, að beiðni og frumkvæði stefnanda, gagngert í þeim tilgangi að fela stefnanda umráð þeirra. Stefnandi hafi valið tækin og leitað að því loknu til stefnda um fjármögnun. Stefndi hafi ekki komið að kaupum véla og tækja að öðru leyti en því að hann hafi verið skráður kaupandi þeirra á reikningum Heklu hf. Þetta sé ekki í samræmi við það sem almennt tíðkist í leigusamningnum. Helst megi líkja þessu við að stefndi hafi fengið eignarhald á vélum og tækjum, sem tryggingu fyrir efndum stefnanda á lánssamningum um kaupin. Stefnandi vísi til forsendna dóms Hæstaréttar í máli nr. 282/2011 þar sem segi:

Er óumdeilt að varnaraðili hafi haft frumkvæði að kaupum á vinnuvél þeirri sem samningurinn varðaði og verður ekki séð að sóknaraðili hafi komið að kaupunum að öðru leyti en að hann var skráður eigandi til tryggingar efndum samningsins.

Þá leggi stefnandi áherslu á að skv. 16. gr. skilmálanna beri stefnandi skyldu kaupanda samkvæmt lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sem ekki eigi við um leigusamninga. Þá segi í sama ákvæði að stefndi beri enga ábyrgð á leigumun, sbr. einnig 17. gr. skilmálanna. Þá beri stefnanda að greiða samningsfjárhæð enda þótt seljandi vanefni samning um sölu tækisins, sbr. 19. gr. Þá skuli stefnandi annast allt viðhald og viðgerðir á tæki og greiða vátryggingar og skatta og gjöld, sbr. 20. gr. 23. gr. og 26. gr. Ákvæði sem þessi tíðkist ekki í leigusamningum og styðji að um lánssamninga sé að ræða. Stefnandi byggi á því að leiguverð hafi eingöngu verið ákvarðað út frá kostnaði stefnda við fjármögnun kaupanna en ekki raunverulegu verðmæti þeirra véla og tækja sem samningar hafi verið um. Greiðslur stefnanda til stefnda hafi falið í sér endurgreiðslu á upphaflegum höfuðstól, þ.e. kaupverði véla og tækja, að viðbættum vöxtum og vaxtaálagi eða eftir atvikum hluta kaupverðs tækja. Fyrirkomulag þetta svari til endurgreiðslu á láni, en ekki leigu. Réttarstaða stefnanda gagnvart stefnda hafi verið og sé hin sama hvort sem samningur beri heitið fjármögnunarleigusamningur eða kaupleigusamningur. Vandséð sé hvaða hlutverki upplýsingar um leigugrunn, hafi að gegna í samningum aðila, annað en að tilgreina höfuðstól lána. Ekki sé venja að tilgreina leigugrunn eða höfuðstól í leigusamningum líkt og nauðsynlegt sé að gera í lánssamningum. Leigugrunnur í samningunum vísi til þess að fjármagn hafi verið leigt stefnanda, en leiga á fjármagni sé sannarlega lán. Stefnandi byggi á því að þar sem greiðslur samkvæmt samningum aðila beri vexti sé um lán að ræða en ekki leigugreiðslur, en alkunna sé að leigugreiðslur beri ekki vexti. Í 10. gr. samninganna séu tilgreindir LIBOR - vextir og álag á þá vexti. Þá segi í 13. gr. samninganna að stefnda sé heimilt að endurreikna gengistryggðar leigugreiðslur samkvæmt breytingum á LIBOR - vöxtum þeirra erlendu gjaldmiðla sem greiðslur séu tengdar við. Í greiðsluyfirlitum sem fylgt hafi samningum aðila hafi greiðslum verið skipt upp í vexti, afborgunarhluta og eftirstöðvar. Þessi tilgreining sýni að um lán hafi verið að ræða.  Þá leggi stefnandi áherslu á að í öllum tilvikum hafi verið greitt af samningum í íslenskum krónum. Stefnandi byggi á því að í samningum aðila hafi ekki verið samhengi milli greiðslna stefnanda annars vegar og afnota hans af vélum og tækjum samkvæmt samningunum hins vegar. Þegar um leigusamning sé að ræða sé gagnkvæmni milli skyldu leigusala til að láta í té afnot af samningsandlögum og skyldu leigutaka til að greiða leigugreiðslu fyrir þau afnot. Gert sé ráð fyrir því að stefnandi greiði leigu þó svo að seljandi vanefni samning sinn við stefnda, sbr. 19. gr. samninganna. Stefnanda sé gert að greiða leigu jafnvel þótt leigumunur uppfylli ekki kröfur stefnanda um tækið eða vegna galla og þá segi í skilmálum að Lýsing hf. taki enga ábyrgð á leigumun, sbr. 16. gr. samningsins. Þá sé stefnanda skylt að greiða leigu til loka samningstímans, þótt samningi sé rift eða honum slitið af öðrum ástæðum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 30. gr. samninganna. Frá uppgjöri skuli þó draga verðmæti „leigumunar“, sbr. 4. tl. 30. gr. samningsins, og sé það ákvæði mjög skýrt hvað varði raunverulegt eignarhald á leigumun. Ef um raunverulega leigu væri að ræða kæmi verðmæti leigumunar ekki til frádráttar kröfum stefnda og þá ætti stefndi ekki lögvarða kröfu til greiðslu ógjaldfallinnar leigu, eftir riftun samnings. Þá segi í 30. gr. skilmálanna að myndist hagnaður hjá Lýsingu hf. við uppgjör á leigusamningi, þ.e. ef verðmæti samningsandlags sé hærra en eftirstöðvar samningsins, þá skuli sá mismunur tilheyra stefnanda. Eignamyndun á samningstíma tilheyri því stefnanda en ekki stefnda og því sé augljóslega um lánssamninga að ræða en ekki leigusamninga. Stefnandi byggi á því að samkvæmt ársreikningum stefnda hafi verið gengið út frá því að formleg skráning eignarhalds hafi aðeins verið til tryggingar á efndum lánssamninga, en ekki raunverulegt eignarhald. Stefndi hafi í ársreikningum sínum fært til eignar útlán og kröfur samkvæmt fjármögnunarleigusamningum en ekki til eignar vélar og tæki samkvæmt fjármögnunarleigusamningum. Vísist um þetta m.a. til skýringa með ársreikningum stefnda, þar sem segi: „Útlán og kröfur fela í sér eignaleigusamninga félagsins við viðskiptavini um fasteignir, vélar og tæki og útlán í formi skuldabréfa.“ Stefnandi byggi á því að þrátt fyrir ákvæði 12. gr. skilmála samninganna, hafi verið um það samið í upphafi viðskipta aðila að stefnandi eignaðist vélar og tæki gegn fyrir fram ákveðinni greiðslu í lok samningstíma. Stefnandi hafi greitt umsamið lokagjald samkvæmt samning nr. 135776  í ágúst 2009, að fjárhæð 672.647 kr., og hafi Cat 365C beltagröfunni verið afsalað til stefnanda. Um lok samnings þessa og afsals beltavélar til stefnanda sé ekki ágreiningur. Stefnandi byggi á því að þau yfirlit sem stefndi hafi sent stefnanda um hver áramót sýni bersýnilega að um hafi verið samið að stefnandi eignaðist vélar og tæki samkvæmt fjármögnunarleigusamningum í lok samningstíma gegn greiðslu lokagjalds. Stefnandi vísi til yfirlits stefnda frá 31. desember 2007 en þar komi fram að eftirstöðvar samnings nr. 135776 hafi numið 8.786.357 kr. og að lokagjald hafi numið 602.648 kr. Í yfirlitinu komi fram að eftirstöðvar samnings nr. 140007 hafi numið 6.867.465 kr. og að lokagjald hafi numið 134.771 kr. Stefnandi skori á stefnda að leggja fram yfirlit yfir stöðu samnings nr. 145687 hinn 31. desember 2007. Þá vísi stefnandi til fyrrgreinds yfirlits en þar sé í öllum tilvikum lokagjalds óuppgerðra samninga getið. Stefnandi vísi enn fremur til yfirlits stefnda frá 31. desember 2010, en þar komi fram að eftirstöðvar samnings nr. 140007 hafi numið 7.915.151 krónu og að lokagjald hafi numið 322.580 krónum. Í yfirlitinu komi fram að eftirstöðvar samnings nr. 145687 hafi numið 83.901.426 krónum og að lokagjald hafi numið 2.043.577 krónum. Stefnandi skori á stefnda að leggja fram yfirlit yfir stöðu samnings nr. 135776 og lokagjald í lok árs 2010. Þá sé í fyrrgreindu yfirliti stefnda getið um lokagjald annarra óuppgerðra fjármögnunarleigusamninga stefnanda og stefnda. Stefnandi skori á stefnda að leggja fram áramótayfirlit yfir alla fjármögnunarleigusamninga milli aðila fyrir árin 2008, 2009 og 2010. Stefnandi vísi til þess að saga viðskipta stefnanda og stefnda liggi fyrir í málinu og sé afar skýr. Í öllum tilvikum hafi stefnandi eignast vélar og tæki samkvæmt fjármögnunarleigusamningum gegn greiðslu lokagjalds, að samningstíma loknum. Þá hafi stefnanda ætíð verið heimilt að greiða inn á höfuðstól samninga og að greiða upp samninga á skemmri tíma en samningur aðila hafi kveðið á um. Stefnandi hafi nýtt sér þessar heimildir í fjölda tilvika. Stefnandi hafi aldrei tekið vélar og/eða tæki á leigu af stefnda eftir lok svokallaðs grunnleigutíma. Slík framhaldsleiga hafi aldrei komið til greina, enda hafi um það verið samið frá upphafi að stefnandi yrði formlegur eigandi véla og tækja fyrir litla greiðslu í lok samninga. Skilmálar samninga séu skýrir um að eignamyndun á samningstíma tilheyrði stefnanda og hafi stefndi aldrei freistað þess að sölsa undir sig í lok samningstíma vélar og tæki, sem verið hafi miklu verðmeiri en numið hafi lokagjaldi þeirra. Í þessu samhengi vísi stefnandi m.a. til bréfs stefnda frá 30. júní 1997, þar sem stefndi hafi boðið stefnanda að kaupa tiltekin tæki á 2% af uppfærðu samningsverði, yrði samningur greiddur innan tveggja ára, en ella 3% af uppfærðu samningsverði. Þá vísi stefnandi m.a. til staðfestingar stefnda frá 19. mars 1998, þar sem segi:

Varðar samning nr. 107981.  Það staðfestist hér með að Suðurverk hf. er heimilt að greiða inn á samning hvenær sem er. Eins hefur Suðurverk hf. kauprétt að tækjum gegn greiðslu eftirstöðva auk 3% lokagjalds af leigugrunni.

Þá vísi stefnandi enn fremur til bréfa stefnda, dagsettra 21. nóvember 2000, 5. júlí 2005 og 8. desember 2005. Í bréfunum veki stefndi athygli stefnanda á því að grunnleigutíma tiltekinna tækja sé lokið og stefnanda því boðið að kaupa tækin á tilteknu verði, sem yfirleitt hafi numið 3% af uppfærðu samningsverði. Þá vísi stefnandi til staðfestingar stefnda, dagsettrar 12. nóvember 2002, um efni samninga nr. 108034, 8070 og 8071. Þá vísi stefnandi til samninga nr. 152846, 148495, 146795, 141546, 140182, 140180, 139873, 139020, 139018, 137032, 137012, 137018, 137023, 136683, 135774, 134904, 135425, 131312, 133330, 133337, 133703, 132480, 119921, 118963, 118282, 117190, 117151, 115080, 115717, 115691, 114524, 114897, 114881, 119918, 115014, 114948, 115018, 114877, 114878, 114880, 114882, 113727, 113761, 114185, 114189, 113742, 114043, 113738, 113739, 113540, 112689, 115471, 110872, 110404, 110650, 109740, 108034, 105345, 109873, 109716, 109694, 109632, 109626 og 109368 en allir umræddir samningar séu svokallaðir fjármögnunarleigusamningar sem aðilar hafi gert sín á milli. Þeir samningar hafi allir verið gerðir upp með þeim hætti að stefnandi hafi innt af hendi lokagjald og hafi í kjölfarið eignast tæki sem samningar hafi verið um. Stefnandi telji ekki vera ágreining um uppgjör þeirra samninga og þeirrar staðreyndar að stefnandi hafi eignast vélar og tæki samkvæmt þeim samningum, þegar þeir hafi runnið sitt skeið á enda. Stefnandi vísi í þessu sambandi til „Yfirlits um uppgerða samninga Lýsingar hf. og Suðurverks hf. á árunum 2004 – 2012“ en þar sé að finna samantekt yfir alla  uppgerða fjármögnunarleigusamninga aðila. Í umræddu yfirliti komi fram númer viðkomandi samnings, skráningarnúmer tækja og tegund, dagsetning samninga, verð tækja í upphafi samninga, greiðsluáætlun samkvæmt samningum, dagsetning samningsloka og kaupverð tækja. Stefnandi vísi til þess að við greiðslu lokagjalds hafi stefndi gefið út reikninga/afsöl fyrir tækjunum til handa stefnanda og vísist um það m.a. til fylgigagna með samningum nr. 137032, 136683, 134904, 135425, 133330, 133337, 133703, 132480, 118963, 117151, 115691, 115018, 114877, 114878, 114879, 114880, 114881, 114882, 113727, 113738, 110872 og 108034. Í fyrrgreindum reikningum/afsölum stefnda sé að finna staðlaðan texta stefnda, þar sem segi m.a.:

Með greiðslu á greiðsluseðli þessum ásamt eldri ógreiddum greiðsluseðlum, er ofangreindri bifreið/vinnuvél afsalað frá Lýsingu hf. til ofangreinds leigutaka. Þar sem bifreiðin/vinnuvél hefur ekki verið í umráðum Lýsingar hf. sem eiganda heldur leigutaka viðurkennir leigutaki jafnframt með greiðslu þessa greiðsluseðils að Lýsing hf. ber enga ábyrgð á göllum eða vanhirðu á bifreiðinni/vinnuvélinni eða hverju öðru sem eigandi getur orðið ábyrgur fyrir hvorki gagnvart leigutaka eða hverjum þeim öðrum sem kann að eignast bifreiðina/vinnuvélina síðar. Slík ábyrgð er leigutaka.

Þá vísi stefnandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 652/2011, en í því máli hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að samningur sá er málið varðaði væri fjármögnunarleigusamningur en ekki lánssamningur með eftirtöldum rökum:

Milli þessa tilvika skilur þó um það meginatriði að gagnstætt því, sem var í máli nr. 282/2011, er ósannað í máli þessu að samið hafi verið um að stefndi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og liggur því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulegra lægra gjaldi, sem stefnda er heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar er mælt fyrir um í samningi aðila.

Það sem greini á milli framangreinds dóms Hæstaréttar og þessa máls sé að í máli þessu liggi fyrir traust sönnun þess að um hafi verið samið í upphafi að eignarréttur véla og tækja samkvæmt samningum nr. 135776, 145687 og 140007 skyldi færast yfir til stefnanda að samningstíma loknum gegn greiðslu lokagjalds. Samningarnir séu því  lánssamningar líkt og var í dómi Hæstaréttar í máli nr. 282/2011. Þá vísi stefnandi til þess að samningar aðila hafi verið samdir einhliða af stefnda og að stór hluti þeirra séu staðlaðir samningsskilmálar stefnda. Af þeim sökum beri að beita andskýringarreglu við túlkun ákvæða samningsins, en samkvæmt reglunni skulu óljós samningsákvæði skýrð þeim aðila í óhag sem hafi samið þau einhliða eða sem ráðið hafi þeim atriðum til lykta sem ágreiningi geti valdið. Löggerninga skuli í samræmi við þetta túlka þeim aðila í óhag sem átt hafi að hlutast til um skýrara form samnings eða tjá sig skýrar um viðkomandi ágreiningsatriði. Stefndi beri því halla af óljósum ákvæðum samninganna, sem augljóslega hafi ekki verið í samhengi við raunverulega framkvæmd og tilhögun samningssambands aðila. Því verði að meta umrædda samninga sem lánssamninga í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefnandi muni leggja fram gögn um viðskipti stefnda við þriðja aðila til sönnunar því að frá öndverðu hafi verið um það samið að eignarréttur færðist frá stefnda til viðskiptamanna sinna með greiðslu lokagjalds. Í sumum tilvikum hafi verið gengið frá skriflegum samningum um eignarrétt á tækjum og vélum í lok samningstíma. Stefnandi byggi á því að yfirlýsingar stefnda hafi ótvírætt gefið til kynna að í tilvikum fjármögnunarleigu hafi ætíð verið gengið út frá því að leigutaki tækisins myndi eignast tækið að samningstíma loknum fyrir umsamið verð. Stefnandi vísi m.a. til ummæla á heimasíðu stefnda 15. nóvember 2006, þar sem inntak fjármögnunarleigu sé skýrt, en þar segi:

Fjármögnunarleiga. Lýsing kaupir og staðgreiðir tæki samkvæmt þinni ósk og þú leigir það af Lýsingu. Í lok grunnleigutíma, sem venjulega eru 36-60 mánuðir, átt þú kost á að kaupa tækið eða leigja það áfram.

Um kaupleigusamninga segi eftirfarandi á heimasíðu Lýsingar hf. 15. nóvember 2006:

„Lýsing kaupir tæki og þú leigir það af okkur. Í lok leigutíma greiðir þú lokagjald og eignast tækið.“ Þá segi jafnframt um fjármögnunarleigusamninga á heimasíðu stefnda í nóvember 2006: ,,Í lok grunnleigutíma tekur við ótímabundinn framhaldsleiga, en jafnframt átt þú kost á því að kaupa tækið af Lýsingu á umsömdu verði, sem er yfirleitt 3% af upphaflegum leigugrunni.“ Sömu skýringar á fjármögnunar-leigusamningum og kaupleigusamningum sé að finna á heimasíðu Lýsingar hf. á árunum 2008, 2009 og 2010. Þá vísi stefnandi til reiknivélar á heimasíðu Lýsingar hf. 1. mars 2005 þar sem fjallað sé um lánsupphæð í umsókn um fjármögnunarleigu og þar sé 3% lokagjald tilgreint. Þá vísi stefnandi til reiknivélar á heimasíðu Lýsingar hf. 14. nóvember 2008. Þá vísi stefnandi einnig til framlagðrar umsóknar á heimasíðu Lýsingar hf. um fjármögnun atvinnutækja. Þá vísi stefnandi enn fremur til blaðaviðtals við Svein Hannesson, þáverandi framkvæmdastjóra Lýsingar, sem hafi birst í viðskiptablaði Morgunblaðsins 5. mars 1987. Í viðtalinu segi m.a.:

Aðspurður segir Sveinn að viðskiptavinir Lýsingar geti bundið greiðslur við það hvenær viðkomandi tæki eða vél gefur af sér tekjur, þannig að mestur hluti leigunnar sé greiddur þegar tekjur koma inn. Eftir að leigutíma líkur (sic) getur leigutaki skilað tækinu, leigt það áfram fyrir 1/12 af upphaflegri leigu, eða nýtt forkaupsrétt og er þá almennt miðað við 3% hrakvirði.

Þá vísi stefnandi til blaðaviðtals við Börk Grímsson, ráðgjafa á fyrirtækjasviði stefnda, sem birst hafi í 9. tölublaði Frjálsrar verslunar árið 2006. Þar segi:

Fjármögnunarleigusamningar Lýsingar hf. er ótímabundinn leigusamningur þar sem hið leigða er ekki eignarfært hjá leigutaka og hann gjaldfærir greidda leigu að fullu. Í lok leigutíma gefst leigutaka síðan kostur á að kaupa húseignina á lokaverði.

Að lokum vísi stefnandi til viðtals við Pétur Gunnarsson, markaðsstjóra SP Fjármögnunar, í DV, 9. september 1998. Með vísan til forsendna Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010 og 282/2011, sé ótvírætt að samningar nr. 135776, 145687 og 140007, feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og falli því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001. Um sé að ræða lánssamninga í íslenskum krónum sem gengistryggðir séu eftir gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla á gjalddögum þeirra. Höfuðstóll skuldarinnar sé tiltekinn í íslenskum krónum, kaupverð tækisins hafi verið í íslenskum krónum og afborganir hafi verið inntar af hendi í íslenskum krónum. Á forsíðu samninganna sé auk þess tiltekið að samningarnir séu gengistryggðir. Þá sé í 14. gr. samninganna kveðið á um að við útreikning afborgana skuli hafa til viðmiðunar skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðli eða gjaldmiðlum samkvæmt ákvörðun stefnda við útgáfudag reiknings. Lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Verðtryggingarákvæði lánssamninganna við gengi erlendra gjaldmiðla séu því óskuldbindandi fyrir stefnanda. Um heimild til öflunar viðurkenningardóms vísi stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um kröfu hans. Stefnandi leggi fram útreikninga KPMG á samningum nr. 135776, 145687 og 140007 sem taki mið af því að gengistrygging samninganna sé ólögmæt. Um forsendur útreikninga KPMG vísist til skýrslu þeirra. Sá útreikningur sýni fram á lögvarða hagsmuni stefnanda af úrlausn málsins. Að teknu tilliti til þess að gengistrygging samninga sé ólögmæt og að óverðtryggðir vextir greiðist frá 18. desember 2010 sé niðurstaðan eftirfarandi. Stefnandi hafi ofgreitt 2.137.644 kr. skv. samningi nr. 140007 en skv. upplýsingum stefnda nemi krafa stefnda skv. þeim samningi 4.614.262 krónum. Hagsmunir stefnanda skv. þessu séu því 6.751.906 krónur. Samkvæmt útreikningum KPMG nemi skuld stefnanda við stefnda skv. samningi nr. 145687 14.524.205 krónum en krafa stefnda skv. þeim samningi nemi nú 71.903.131 krónu. Hagsmunir stefnanda skv. þessu séu því 57.378.926 krónur. KPMG hafi reiknað út ofgreiðslu stefnanda á samningi nr. 135776 miðað við ofangreindar forsendur og nemi hún 4.976.906 krónum. Þá hafi KPMG reiknað hagsmuni stefnanda miðað við að krafa stefnda beri óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands frá upphafi samninga og sé niðurstaða KPMG að hagsmunir stefnanda skv. fyrrgreindum þremur samningum nemi 53.794.574 krónum. Nánar vísist til skýrslu KPMG og forsendna hennar. Varðandi lagarök vísi stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laganna. Þá vísi stefnandi til reglna samninga- og kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggi á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

Stefndi byggir á því að skýrt fordæmi Hæstaréttar liggi fyrir um að fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar, sbr. dóm réttarins í máli nr.  652/2011 frá 24. maí 2012 (Smákranamál). Í dómi Hæstaréttar hafi verið komið inn á það að stöðluð ákvæði samningsins hafi verið skýr og hafi eingöngu átt við um fjármögnunarleigusamninga. Þá hafi komið fram að í samningi aðila hafi verið fjallað um leigu og hafi Lýsing hf. þar ítrekað verið nefnd leigusali. Stefndi telji nauðsynlegt að skilgreina hugtakið ,,fjármögnunarleigusamningur“. Fjármögnunarleiga sé ein tegund eignaleigusamninga en eignaleiga feli í sér leigustarfsemi á lausafé eða fasteignum þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum. Í 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki komi fram að með eignaleigu sé átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í fjármögnunarleigu felist að leigugjald og lágmarksleigutími sé ákvarðað með hliðsjón af því að í lok lágmarksleigutíma hafi leigusali fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð leigumunar, auk vaxta og kostnaðar, en eftir það tímamark hafi leigutaki rétt til áframhaldandi leigu munar gegn lækkuðu leigugjaldi. Í lögum um eignarleigustarfsemi nr. 19/1989, sem nú hafi verið afnumin, sé fjármögnunarleiga skilgreind sem sú starfsemi skv. eignarleigusamningi að leigusali hafi afsalað að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala en eignarréttur haldist þó hjá leigusala. Stefndi byggi á því að samningsform stefnda eigi eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga og sé mjög skýrt fjármögnunarleigusamningsform þar sem allt innihald samningsins bendi til þess að um leigusamning sé að ræða. Samningsformið hafi upphaflega verið samið eftir norskri fyrirmynd um fjármögnunarleigusamninga og byggi á alþjóðlegum viðmiðunum um fjármögnunarleigusamninga. Stefndi leggi fram sýnishorn af dönskum og sænskum fjármögnunarleigusamningum og haldi því fram að þau samningsform byggi á sömu grunnsjónarmiðum og form stefnda og að þau séu almennt notuð af eignaleigufyrirtækjum í þessum tveimur löndum. Umræddir fjármögnunarleigusamningar hafi öll einkenni fjármögnunarleigusamninga bæði hvað varði form, hugtakanotkun og efnislegt innihald. Stefndi byggi á því að lög nr. 3/2006 og alþjóðlegir reikningsskilastaðlar bendi til þess að fjármögnunarleigusamningsform stefnda sé leigusamningur. Samningsform hans uppfylli öll skilyrði fyrir því að teljast leigusamningur skv.  alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 17, sem hafi lagagildi hér á landi. Stefndi vísi til þess að í 88. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga komi fram að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, skuli hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum, þar sem bókunin sé lögfest. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar séu skilgreindir í 12. tl. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga sem: ,,reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002) sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002“. Reglugerð (EB) nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, sé prentuð sem fylgiskjal með lögunum. Í 7. tl. reglugerðarinnar sé fjallað um IAS alþjóðlegu reikningsskilastaðlana. IAS staðlarnir byggi á alþjóðlegum viðmiðunum. Í 7. gr. EES - samningsins, sem sé fylgiskjal I með lögum nr. 2/1993, komi fram að gerðir sem vísað sé til eða sé að finna í viðaukum við samninginn, eða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, bindi samningsaðila og séu þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segi: a) gerð sem samsvari reglugerð EBE skuli sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila. Í reglugerð (EB) nr. 1606/2002 komi fram markmiðið með reglugerðinni sem sé eftirfarandi:

Markmiðið með þessari reglugerð er að taka upp og beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í bandalaginu í því augnamiði að samræma fjárhagsupplýsingar, sem félög sem getið er í 4. gr. setja fram, til að tryggja mikið gagnsæi og samanburðarhæfi reikningsskila og þar með skilvirka starfsemi fjármagnsmarkaðar bandalagsins og innri markaðarins.

Í 1. mgr. 127. gr. laga nr. 3/2006 komi fram að ráðherra geti sett reglugerð um framkvæmd laganna, þar á meðal um alþjóðlega reikningsskilastaðla sem samþykktir hafi verið skv. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins (EB) nr. 1606/2002. Á grundvelli 1. mgr. 127. gr. laga nr. 3/2006 hafi ráðherra sett fjölda reglugerða um alþjóðlega reikningsskilastaðla, þ. á m. reglugerð nr. 1133/2007 að því er varði meðal annars alþjóðlegan reikningsskilastaðal IAS 17 um leigusamninga. Stefndi byggi á því að IAS 17 staðallinn fjalli um leigusamninga. Í 4. gr. staðalsins sé fjármögnunarleiga skilgreind á eftirfarandi hátt: ,,Fjármögnunarleiga er leigusamningur sem yfirfærir svo til alla áhættu og allan ávinning sem fylgir eignarhaldi á eign. Eignarréttur kann eða kann ekki að færast á milli aðila að lokum.“ Stefndi byggi á því að fjölmörg atriði staðalsins sýni fram á það ótvírætt að fjármögnunarleigusamningar Lýsingar hf. séu leigusamningar en ekki lánssamningar. Þessu til viðbótar megi nefna að túlkanir með reikningsskilastöðlum bendi einnig til þess að fjármögnunarleigusamningsform Lýsingar sé leigusamningur og megi í því sambandi nefna túlkun IFRIC- 4, ákvörðun um hvort samningur innihaldi leigusamning og túlkunina SIC – 27, mat á inntaki viðskipta þegar um leigusamning sé að ræða í lagalegum skilningi. Stefndi byggi á því að tilvísun laga nr. 3/2006 í reglugerð og alþjóðlega reikningsskilastaðla sé samhangandi heild sem hafi lagagildi á Íslandi. Í því sambandi vísi stefndi til 3. gr. laga 2/1993 þar sem fram komi að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Út frá þessu ákvæði verði ekki komist hjá því að túlka hugtökin leigusamningur og fjármögnunarleigusamningur í samræmi við ákvæði IAS 17 í íslenskum rétti. Það leiði síðan tvímælalaust til þess að fjármögnunarleigusamningur stefnda teljist vera leigusamningur. Í þessu sambandi vísi stefndi til reglunnar um einsleitni í EB rétti um að meginforsenda þess að framkvæmd samningsins takist vel sé sú að ekki skuli aðeins sömu reglur gilda, heldur skuli túlkun og beiting sameiginlegra reglna vera samræmd á EES- svæðinu öllu. Þetta hafi enn fremur í för með sér að ná þurfi fram lagaáhrifum EES- reglnanna í landsrétti EFTA-ríkjanna. Stefndi byggi á því að meginreglan um einsleitni og sjónarmið Evrópuréttarins um sjálfstæða skýringu hugtaka eigi að leiða til þess að á Íslandi verði notast við þá skilgreiningu á hugtakinu leigusamningi sem sé að finna í alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 17. Með þessu sé hugtakinu leigusamningur gefin merking sem rúmist innan EES- samningsins og þeim reglum sem á honum byggi. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 79/2010 sé komið inn á framangreind sjónarmið og tekið fram að slík lögskýring taki eðli máls skv. til þess að orðum í íslenskum lögum verði, svo sem framast sé unnt, gefin merking, sem rúmist innan þeirra og næst komist því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu. Lýsing hafi látið nokkrar af stærstu endurskoðunarstofum landsins vinna fyrir sig álit um það hvort fjármögnunarleigusamningsform stefnda geti talist vera fjármögnunarleigusamningur í samræmi við IAS 17 staðalinn. Álit þeirra hafi verið á þá leið að fjármögnunarleigusamningsform stefnda félli undir staðalinn um leigusamninga og væri þannig leigusamningur. Þegar erlendir bankar og fjárfestar eigi viðskipti hér á landi eigi þeir að geta treyst því að hér sé farið eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem Ísland hafi innleitt á grundvelli EES- samningsins og að þeir geti tekið viðskiptalegar ákvarðanir út frá því. Í þessu sambandi megi nefna að aðallánveitandi stefnda sé þýskur banki sem gangi út frá þessu. Stefndi byggi á því að fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur en ekki lánssamningur. Leigusamningur sé gagnkvæmur samningur, þar sem annar aðilinn, leigusali, heimili gagnaðilanum, leigutaka, tiltekin afnot af leigumun, gegn greiðslu endurgjalds sem kallist leiga eða leigugjald. Um sé að ræða gagnkvæman samning þar sem báðir samningsaðilar eigi rétt og beri skyldur. Lánssamningur sé það kallað þegar lánveitandi veiti eða lofi að veita lántaka lán í formi greiðslufrests eða svipaðrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu og lántaki lofi að greiða lánið til baka samkvæmt ákvæðum lánssamningsins. Þeir lánssamningar sem falli undir lög nr. 38/2001 séu lánssamningar um peninga eins og skýrt komi fram í 1. gr. laganna en þar komi fram að lögin gildi um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar. Af mismunandi skilgreiningum á leigusamningum og lánssamningum, megi ráða að umræddir fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar en ekki lánssamningar. Fjölmörg önnur atriði megi nefna því til stuðnings svo sem heiti samninganna, þ.e. fjármögnunarleigusamningar, í gegnum alla samningana sé talað um leigusala og leigutaka, fjallað sé um leigumun, leigugrunn, grunnleigutíma, greiðslutilhögun leigu og framhaldsleigu. Á bakhlið samninganna sé sama orðnotkun og á framhlið og þannig ávallt gengið út frá því að um leigusamninga sé að ræða. Skattyfirvöld geri skýran greinarmun á meðhöndlun virðisaukaskatts í kaupleigusamningum annars vegar og fjármögnunarleigusamningum hins vegar. Virðisaukaskattur leggist ofan á einstakar leigugreiðslur fjármögnunarleigusamninga en slíkt tíðkist aldrei í lánssamningum. Ákvarðandi bréf RSK gefi skýrt til kynna að skv. réttum skilningi laga um virðisaukaskatt skuli innheimta virðisaukaskatt af heildarfjárhæð reikninga í fjármögnunarleigusamningum en líta skuli á greiðslur skv. kaupleigusamningum á sama hátt og afborganir í almennum afborgunarviðskiptum. Stefndi hafi greitt virðisaukaskatt af kaupverðinu í upphafi til seljanda og hafi gengið út frá því að innheimta virðisaukaskattinn til baka í gegnum leigugreiðslur út grunnleigutímann. Gangi það ekki eftir sé það breyting á þeim forsendum sem gengið hafi verið út frá við samningsgerðina en aðilar hafi verið sammála um að þar sem um leigusamninga hafi verið að ræða skyldi greiða virðisaukaskatt af leigugreiðslum. Þá hafi stefnandi innskattað virðisaukaskatt af leigugreiðslum í bókhaldi sínu. Í Danmörku gildi sömu reglur og hér um það að virðisaukaskattur leggist ofan á leigugreiðslur af fjármögnunarleigusamningum. Í því sambandi megi vísa í 1. tl. 4. gr. í danska samningsforminu. Þegar um lánssamning sé að ræða eignist viðkomandi hið keypta gegn greiðslu kaupverðs. Grundvallarmunur sé á skattalegri meðferð kaupverðs og leigu. Kaupverð beri að eignfæra og gjaldfæra, á þeim árum sem eign sé notuð við öflun tekna, sem fyrningu, en leigu megi gjaldfæra um leið og notkunin eigi sér stað. Leigugjaldið sé frádráttarbært til skatts sem hver annar rekstrarkostnaður og skapi það leigutaka að jafnaði talsvert hærri skattfrádrátt en afskriftir af keyptum hlut, þ.e. þegar leigutíminn er styttri en afskriftartími hlutar. Hvað fjármögnunarleigusamninga varði haldist eignarréttur hjá leigusala og því teljist fjármögnunarleiga vera leiga. Stefnandi byggi á því að fjármögnunarleigusamningarnir séu lánssamningar gagnvart stefnda í þeirri von að það skapi honum rétt til endurreiknings og lækkunar á leigu, en hins vegar byggi hann á því gagnvart skattayfirvöldum að fjármögnunarleigusamningarnir séu leigusamningar til að fá hærri gjaldfærslu í ársreikningi sem leiði til þess að hann greiði lægri skatta. Í ársreikningum stefnanda vegna áranna 2007-2010 séu eignaleigusamningar stefnanda bókaðir í samræmi við þetta. Þannig megi sjá á bls. 11 í ársreikningi stefnanda vegna ársins 2007 eftirfarandi skýringu nr. 13:

Félagið hefur gert fjármögnunarleigusamninga um vélar og tæki til allt að fimm ára og námu eftirstöðvar þeirra 222,8 millj. kr. í árslok. Samningarnir eru ekki færðir í ársreikninginn en leigugreiðslur að fjárhæð 465,1 millj. kr. eru færðar til gjalda í ársreikningi“.

Sambærileg skýring sé nr. 13 í ársreikningi stefnanda vegna ársins 2008, þar sé gjaldfærsla vegna leigugreiðslna 354,3 milljónir króna. Í ársreikningi stefnanda vegna ársins 2009 sé gjaldfærslan vegna leigugreiðslna 456,7 milljónir króna. Í ársreikningi stefnanda vegna ársins 2010 sé um að ræða skýringu nr. 14 og þar sé gjaldfærslan vegna leigugreiðslnanna 191,9 milljónir króna. Eignarréttur haldist hjá leigusala fjármögnunarleigusamnings allan grunnleigutímann og á framhaldsleigutímabilinu. Auk þess hafi leigusali sem eigandi hins leigða þær heimildir sem teljist til grunneignarréttar eins og að geta selt eða veðsett eignarrétt sinn. Stefndi vísi til þess að löggjafinn líti á eignaleigu sem leigustarfsemi en ekki lánastarfsemi, sbr. tilvitnun í 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 en þar komi fram að með eignaleigu sé átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í 1. mgr. 20. gr. laganna sem fjalli um ýmsar tegundir af starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða komi skýrt fram að löggjafinn líti ekki á fjármögnunarleigu sem útlánastarfsemi. Í 2. tl. séu taldir upp þættir sem falli undir útlánastarfsemi og sé fjármögnunarleiga ekki talin þar á meðal. Í 3. tl. sé fjármögnunarleiga hins vegar tilgreind sérstaklega sem ein tegund af starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða, sem sýni að löggjafinn telji fjármögnunarleigustarfsemi ekki vera lánastarfsemi. Sama aðgreining sé gerð á útlánum og fjármögnunarleigu í viðauka I við Bankatilskipun Evrópusambandsins nr. 2006/48/EC (Directive 2006/48/EC of the European Parliament and of the Council of 14 June 2006 relating to the taking up and pursuit of the business of credit institution). Forsaga laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki styðji einnig að fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur en ekki lánssamningur. Andsvör stefnda við sjónarmiðum stefnanda um að tilgreindir samningar aðila séu lánssamningar en ekki leigusamningar séu eftirfarandi. Stefnandi leggi mikið upp úr því í stefnu að hann hafi haft frumkvæði að því að velja leiguandlagið hjá söluaðila og hafi komið fram gagnvart seljanda sem kaupandi. Stefndi telji að þetta atriði geti ekki skipt máli enda algengt að sá háttur sé hafður á varðandi fjármögnunarleigusamninga að leigutakinn velji leiguandlagið sem hann vilji taka á leigu hjá fjármögnunarleigufyrirtæki. Þannig hafi aðstaðan verið í dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 (Smákranamál). Það sé hins vegar röng fullyrðing í stefnu að stefnandi hafi komið fram sem kaupandi gagnvart seljanda því það hafi verið stefndi sem keypti tækin af seljanda þeirra og sé því óumdeilanlega kaupandi þeirra og sá sem hafi eignarrétt yfir þeim. Í 16. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila sé beinlínis gert ráð fyrir því að stefnandi velji leigumuninn. Einnig megi vísa til norrænna fjármögnunarleigusamninga, sbr. b - c -liði 2. gr. danska fjármögnunarleigusamningsformsins. Hvað varði tilvísun stefnanda til dóms Hæstaréttar í máli nr. 282/2011, þar sem um var að ræða fjármögnunarleigusamningsform Glitnis, þá hafi sá dómur ekki fordæmisgildi varðandi samninga Lýsingar hf. og mun eðlilegra sé að taka mið af dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011. Í síðarnefnda dómnum komi fram að samningur Lýsingar h.f. sé mun skýrari en samningur Glitnis og að stöðluð ákvæði fjármögnunarleigusamnings Lýsingar hf. eigi einungis við um fjármögnunarleigusamninga. Stefnandi vísi til 17. gr. skilmála fjármögnunarleigusamninganna en þar sé tekið fram að leigutaki beri áhættuna af því ef hið leigða ferst, skemmist eða rýrnar, eftir að seljandi hefur afhent hið leigða. Stefnandi telji að þetta bendi til þess að um lánssamning sé að ræða sökum þess að slíkt tíðkist ekki í leigusamningum. Stefndi mótmæli þessari túlkun og bendi á að frá framangreindri meginreglu sé að sjálfsögðu vikið með samkomulagi aðila eins og gert sé í þessu tilviki. Stefndi fullyrði að áhættureglur 17. gr. samnings aðila séu eðlilegar. Þetta komi skýrt fram í 1. gr. í skilgreiningu á fjármögnunarleigu í lögum nr. 19/1989 sem nú hafi verið niðurfelld. Í IAS 17 reikningsskilastaðlinum um leigusamninga sé fjármögnunarleiga skilgreind þannig í 3. gr. staðalsins að um sé að ræða leigusamning sem yfirfæri svo til alla áhættu og allan ávinning sem fylgi eignarhaldi á eign. Samkvæmt þessu sé ljóst að áhættureglan á milli aðila eins og hún sé sett fram í fjármögnunarleigusamningum þeirra sé í fullu samræmi við alþjóðlegt fyrirkomulag og IAS 17 reikningsskilastaðalinn. Þá vísi stefndi til þess að áhættureglurnar í samningunum séu sambærilegar við áhættureglur í norrænum fjármögnunarleigusamningum. Í því sambandi megi vísa í 9. og 10. gr. í danska samningsforminu og í 5. mgr. 12. gr. í norska samningsforminu. Hvað varði tilvísun stefnanda í 26. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila á þá leið að það sé óeðlilegt að stefnanda beri að greiða skatta og gjöld af leigumun, þá sé ekkert óeðlilegt við það ákvæði enda umsamið á milli aðila. Í ákvæðinu komi meðal annars fram að leigutaki eigi að greiða lögreglusektir en engan veginn sé hægt að réttlæta að leigusali eigi að greiða slíkar sektir. Stefnandi byggi á því að leiguverð hafi verið ákvarðað út frá fjármögnunarkostnaði en ekki verðmæti samningsandlagsins. Þetta telji stefnandi benda til þess að um sé að ræða endurgreiðslu á láni en ekki leigu. Stefndi fullyrði að þessi niðurstaða stefnanda sé alröng. Það sé alþekkt í fjármögnunarleigusamningum á alþjóðavísu að leigugjaldið taki mið af fjármögnunarkostnaði leigusala sem helst í hendur við upphaflegt kaupverð leiguandlagsins. Í þessu sambandi megi vísa til norrænna fjármögnunarleigusamninga, sbr. e-lið 2. gr. danska fjármögnunar-leigusamningsformsins. Stefnandi haldi því fram að réttarstaða hans gagnvart stefnda hafi verið og sé hin sama, hvort sem um sé að ræða fjármögnunarleigusamninga eða kaupleigusamninga. Þessari fullyrðingu stefnanda mótmæli stefndi enda sé um tvær ólíkar eignaleigusamningstegundir að ræða. Í þessu sambandi vísi stefndi m.a. til dómskjala nr. 13 og 14 þar sem skýrt komi fram að um ólík samningsform sé að ræða. Stefnandi komi inn á það að samningar aðila hafi verið útfærðir sem leigusamningar og viðurkenni þar með að um leigusamning sé að ræða. Stefnandi komi einnig inn á það að vandséð sé hvaða hlutverki upplýsingar um leigugrunn hafi að gegna í samningum aðila, öðru en að tilgreina höfuðstól lána. Hér sé um misskilning hjá stefnanda að ræða á hugtakinu leigugrunnur. Í dómi Hæstaréttar í  máli nr. 652/2011 (Smákranamál) sé komið inn á það í forsendum Hæstaréttar að leigugrunnur komi fram í 2. gr. samnings aðila og síðar í sama dómi komi fram að stöðluð ákvæði samningsins séu skýr og eigi eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Stefnandi byggi á því að þar sem í skilmálum samninga aðila séu ákvæði um vexti, bendi það til þess að um lánssamninga sé að ræða. Stefndi mótmæli þessu. Hinir umræddu fjármögnunarleigusamningar aðila beri alls ekki vexti og því sé um misskilning að ræða hjá stefnanda. Tilvísun til vaxta í fjármögnunarleigusamningunum sé einungis sett fram sem viðmiðun fyrir ákvörðun leigugreiðslna en breyti ekki skýru inntaki samninganna. Í 10. gr. fjármögnunarleigusamninganna komi fram hvaða vaxtaviðmið hafi verið notast við þegar leigugreiðslur hafi verið ákvarðaðar í upphafi og sé þetta sambærilegt við það þegar grunnvísitölu sé getið í hefðbundnum húsaleigusamningum. Í 2. mgr. 13. gr. samninganna sé síðan tekið fram að stefnda sé heimilt að endurreikna leigugreiðslur samkvæmt breytingum sem verði á LIBOR- vöxtum þess erlenda eða þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan sé tilgreind í. Hækki eða lækki LIBOR- vextir hafi það síðan áhrif á fjárhæð einstakra leigugreiðslna. Í fjármögnunarleigusamningunum sé byggt á ákveðnum leigugrunni sem taki mið af breytingum út frá gengi tiltekinna gjaldmiðla og LIBOR- vöxtum. Leigutaki greiði leigugreiðslur á grundvelli þess leigugrunns auk virðisaukaskatts á hverja greiðslu. Vaxtaviðmiðið sé einn þáttur í heildarleiguverðinu. Heildarleiguverðið eigi síðan að miðast við það að þegar tiltekinn lágmarksleigutími sé liðinn hafi leigusali fengið greitt til baka, því sem næst, kaupverðið ásamt kostnaði og þeirri ávöxtun sem leigusalinn telji sig þurfa, sbr. skilgreiningu á vöxtum í 4. gr. á bls. 3 og d-lið 10. gr. IAS 17 reikningsskilastaðalsins. Í fjármögnunarleigusamningum aðila komi þannig ekkert fram um að leigugreiðslur beri vexti, heldur sé byggt á ákveðnum leigugrunni, sem taki mið af því að við ákvörðun leigugjalds og lágmarksleigutíma hafi stefndi fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð leigumunar, auk vaxta og kostnaðar sem stefndi þurfi að greiða á leigutímanum vegna eigin fjármögnunar á leiguandlaginu hjá erlendum fjármögnunaraðilum sínum. Vaxtakostnaður stefnda sé því innbyggður í leigugjaldinu en ekki sé um það að ræða að vextir bætist við einstakar leigugreiðslur. Sambærilegar viðmiðunarheimildir séu algengar í íslenskum leigusamningum og megi í þessu sambandi m.a. vísa í 37. gr. laga nr. 36/1994 um húsaleigu. Í þessu sambandi sé einnig vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 98/1978. Þegar alþjóðlegir LIBOR- vextir hækki hafi það áhrif á fjármögnunarkostnað stefnda gagnvart erlendum fjármögnunaraðilum og þar með á leigugrunninn sem verði til þess að einstakar leigugreiðslur hækki. Það sé ekkert sem banni stefnda að áskilja sér breytingar á fjárhæð leigugreiðslna á þann hátt að hækkun á LIBOR- vöxtum á tilgreindum myntum hafi áhrif á leigugreiðslur til hækkunar. Megi í þessu sambandi vísa til síðustu mgr. 4. gr. IAS 17 reikningsskilastaðalsins um leigusamninga en þar sé gert ráð fyrir samskonar breytingum á leigufjárhæðum. Þar sé slíkt kallað skilyrt leiga og sé nánar skilgreint sem sá hluti leigunnar sem ekki sé föst fjárhæð, heldur miðist við aðra þætti en framrás tímans eingöngu (t.d. hundraðshluti af sölu, notkun verðvísitalna og markaðsvaxta). Einnig sé gert ráð fyrir þessu í 5. gr. IAS 17 reikningsskilastaðalsins. Sambærileg ákvæði um vaxta- og gengisviðmið og séu í samningi stefnda megi finna í leigusamningum um fjármögnunarleigu hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Í því sambandi megi vísa í 2. tl. e í 1. gr. og 2. – 3. tl. 4. gr. í danska samningsforminu og í 5. og 9. gr. í norska samningsforminu. Stefndi taki fram að ákvæði um vexti séu ekki tilgreind á greiðsluseðlum sem stefndi hafi sent stefnanda enda beri einstakar leigugreiðslur ekki vexti. Stefnandi komi inn á það að á greiðsluyfirlitum hafi greiðslum verið skipt upp í vexti, afborgunarhluta og eftirstöðvar og telji hann að slík tilgreining eigi við um lán en ekki leigu. Hér sé um að ræða samskonar málsástæðu og byggt hafi verið á í Smákranamálinu en hafi ekki fengið brautargengi í því máli. Það sé ekkert óeðlilegt að tilgreina afborgunarhlutann sem sé einn þáttur í heildarleiguverðinu. Eftirstöðvatalan sýni núvirði eftirstöðva af heildarleigugreiðslum á grunnleigutíma skv. fjármögnunarleigusamningum aðila, áður en framhaldsleiga hefjist og telji stefndi að slík upplýsingagjöf sé ekkert óeðlileg í tilviki leigusamninga og bendi í því sambandi á að í 20. gr. IAS 17 þar sem gengið sé út frá því að þessa fjárhæð þurfi að tilgreina í efnahagsreikningi í reikningsskilum leigutaka. Stefnandi byggi á því að samningsgreiðslur séu ekki tengdar afnotum og að það bendi til þess að ekki sé um leigusamning að ræða. Stefndi mótmæli þessu sem röngu. Það sé ekkert óeðlilegt við ákvæði 19. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila um að stefnandi þurfi að greiða leigu jafnvel þó að seljandi vanefni samning sinn við stefnda. Það sé heldur ekkert óeðlilegt við ákvæði 16. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila að leigusali taki ekki ábyrgð á hinu leigða, svo sem í þeim tilvikum sem leigutaki sé ekki ánægður með leigumuninn, enda sé það leigutaki sjálfur sem velji leigumuninn en ekki leigusali. Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á að 16. og 19. gr. séu í samræmi við skilgreiningu á fjármögnunarleiguhugtakinu í 4. og 8. gr. IAS 17 þar sem fram komi að fjármögnunarleiga sé leigusamningur þar sem svo til öll áhætta sem fylgi eignarhaldi á eign sé yfirfærð til leigutaka. Í þessu sambandi megi einnig vísa til norrænna fjármögnunarleigusamninga, sbr. 5. tl. 4. gr. og 7. gr. danska fjármögnunarleigusamningsformsins. Stefnandi bendi á að í skilmálum samninga aðila sé gengið út frá því að við vanefndir geti stefndi rift samningunum og allt að einu krafið stefnanda um fullar greiðslur til loka samningstímans. Stefnandi telji að þetta bendi til þess að um lánssamninga sé að ræða. Ákvæðið um að við riftun af hálfu leigusala geti hann krafið leigutaka um alla ógjaldfallna leigu sé að finna í 1. tl. 30. gr. samninganna. Jafnvel þó að slíkt ákvæði sé óhefðbundið í leigusamningum sé ekkert sem banni að hafa slíkt ákvæði í leigusamningi. Horfa þurfi á þetta ákvæði í tengslum við önnur ákvæði í 30. gr. samninganna og það að við riftun fari fram heildaruppgjör á milli aðila. Þannig sé kveðið á um það í 4. tl. 30. gr. samninganna að frá skuld leigutaka við stefnda skv. tl. 1-3 skuli draga verðmat hins leigða. Þessar uppgjörsreglur vegna vanskila séu þær sömu og uppgjörsreglur í kjölfar riftunar í norrænum fjármögnunarleigusamningum. Í því sambandi megi vísa í 15. gr. í danska samningsforminu og í 7. gr. í norska samningsforminu. Uppgjörsreglurnar byggi á því að í framhaldi af riftun fjármögnunarleigusamninga fari fram heildaruppgjör á milli aðila. Inn í þetta spili einnig að í mörgum tilvikum sé hið leigða í mjög slæmu ástandi við riftun og vörslusviptingu og leiga til þriðja aðila því ómöguleg. Hugsunin á bak við 1. tl. 30. gr. samningsskilmálanna hjá stefnda sé því að geta krafið um áframhaldandi leigu sem ígildi skaðabóta í formi efndabóta innan samninga vegna samningsrofa. Í efndabótakröfunni felist að gera stöðu leigusalans þá sömu og samningurinn hafi verið efndur að fullu á þann hátt að leigusalinn fái ígildi framtíðarleigugreiðslna að frádregnu verðmæti leiguandlagsins. Líta megi á heimildarákvæðið í 1. tl. 30. gr. samningsins og uppgjör samkvæmt henni sem mögulegar skaðabætur innan samninga vegna samningsrofa. Undir þá túlkun sé tekið í ákvarðandi bréfi Ríkisskattstjóra nr. 656/1994. Stefndi telji að með því að beita heildstæðu mati á 30. gr. samningsins, standist sú fullyrðing stefnanda ekki að 1. tl.  30. gr. bendi til þess að um lánssamninga sé að ræða. Stefnandi vísi til þess að stefndi hafi fært í ársreikningum sínum til eignar útlán og kröfur samkvæmt fjármögnunarleigusamningum en ekki til eignar vélar og tæki samkvæmt þeim og telji stefnandi að þetta bendi til þess að um sé að ræða lánssamninga en ekki leigusamninga. Þessu mótmæli stefndi. Stefnandi færi fjármögnunarleigusamninga í reikningsskilum sínum í samræmi við IAS 17 staðalinn. Í gr. 36-37 í staðlinum komi fram að í tilviki fjármögnunarleigusamninga, skuli leigusalar færa eignir, sem þeir hafi haft í útleigu samkvæmt fjármögnunarleigu, í efnahagsreikning sinn og tilgreina þær sem kröfur með fjárhæð sem sé jafnvirði hreinnar fjárfestingar í leigusamningnum. Í 37. gr. staðalsins komi fram að ástæðan fyrir þessu sé sú að samkvæmt fjármögnunarleigu afsali leigusali sér að verulegu leyti allri áhættu og ávinningi sem fylgi lagalegu eignarhaldi og þess vegna fari leigusali með leigukröfuna eins og endurgreiðslu á höfuðstól og fjármagnstekjur sem hann fái sem endurgreiðslu og ávinning fyrir fjárfestingu sína og þjónustu. Í álitsgerðum frá PWC og KPMG komi fram að stefndi hafi fært viðkomandi fjármögnunarleigusamning rétt í bókum sínum.

Stefnandi byggi á því að svo hafi um samist á milli stefnanda og stefnda að stefnandi eignaðist samningsandlagið gegn fyrir fram ákveðinni greiðslu í lok samningstímans, þrátt fyrir að í samningunum sjálfum sé ekki að finna ákvæði sem að þessu lúti. Stefndi hafni því sem röngu og ósönnuðu. Stefndi byggi á því að í 12. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila sé gengið út frá því að þegar grunnleigutíma sé lokið framlengist leigusamningarnir ótímabundið samkvæmt 6. gr. samninganna. Í lok 12. gr. komi síðan fram að leigutaki geti sagt hinum framlengda samningi upp skriflega enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í 12. gr. sé þannig skýrt tekið fram að framhaldsleiga hefjist að loknum grunnleigutíma og ekki sé gert ráð fyrir neinum undantekningum frá því nema leigutaki vilji skila leigumun. Leigugreiðslur á framhaldsleigutíma séu mun lægri en á grunnleigutíma. Þetta sé eitt af grunneinkennum fjármögnunarleigusamninga og eitt af því sem aðgreini þá frá kaupleigusamningum. Stefndi vísi einnig til c-liðar 11. gr. í IAS 17 reiknings-skilastaðalsins þar sem fram komi að það sé einkenni fjármögnunarleigusamninga að þá megi framlengja um annað tímabil gegn leigu sem sé töluvert lægri en markaðsleiga. Stefndi byggi á því að það sé viðurkennd regla í kröfurétti að sá sem haldi öðru fram en komi fram í samningi aðila hafi sönnunarbyrði fyrir því. Í stefnu sé að finna nokkur atriði sem stefnandi telji að sanni að samið hafið verið í upphafi um kauprétt stefnanda til handa við lok grunnleigutímans. Andsvör stefnda við þeim sjónarmiðum séu þessi. Stefnandi vísi til þess að hann hafi keypt leiguandlagið skv. samningi nr. 135776 í ágúst 2009. Stefndi byggi á því að það sé ekkert óeðlilegt við að hann hafi tekið ákvörðun í ágúst 2009 um að selja stefnanda þetta leiguandlag enda hafi verið komið að lokum grunnleigutímans og stefnandi hafi greitt söluverðið sérstaklega. Stefnandi byggi á því að yfirlit stefnda um stöðu samninga bendi til þess að stefnandi hafi getað keypt leigð tæki við lok grunnleigutíma gegn greiðslu lokagjalds og að í áramótayfirlitum sé vísað til lokagjalds sem tiltekinnar krónu fyrir hvern og einn samning. Hér sé um að ræða sömu málsástæðu og hafi verið fjallað um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 og var ekki talin benda til þess að samið hefði verið fyrir fram um kaup í lokin. Í fjármögnunarleigusamningum aðila sé ekkert minnst á lokagjald. Það sem þarna sé átt við sé að ef leigusali samþykki að selja leigutaka leigumuninn, með sérstökum samningi síðar meir, þá yrði uppreiknuð fjárhæð miðað við 3% af upphaflegum leigugrunni framreiknuðum, sú fjárhæð sem kemur fram á skjalinu. Í þessu felist engin skuldbinding um að stefnandi geti krafist þess að kaupa hið leigða í lok samningstímans miðað við 3% af upphaflegum uppreiknuðum leigugrunni. Sá möguleiki sé háður skoðun og mati stefnda í lok samningstímans. Stefnandi vísi til þess að viðskiptasaga stefnanda og stefnda bendi til þess að samið hafi verið um það í upphafi viðskipta að stefnandi myndi eignast vélar og tæki við lok grunnleigutíma samninga. Stefndi mótmæli þessari fullyrðingu stefnanda sem rangri og ósannaðri enda komi ekkert fram um þetta í þeim samningum sem lagðir hafi verið fram heldur sé þar þvert á móti að finna ákvæði í 6. gr. og 12. gr. sem gangi út á framhaldsleigu eða uppsögn. Þá haldi stefnandi því fram að skilmálar samninga séu skýrir að því leyti að eignamyndun á samningstíma tilheyri stefnanda. Stefndi mótmæli þessari fullyrðingu stefnda sem rangri enda sé enginn fótur fyrir þessu í fjármögnunarleigusamningum aðila, heldur þvert á móti. Stefnandi vísi til bréfa frá stefnda, dagsettra 30. júní 1997 og 19. mars 1998. Þessi bréf varði aðra samninga sem séu máli þessu óviðkomandi og hafi því ekkert sönnunargildi í þessu máli. Bréfin sýni einungis að það hafi eingöngu verið í örfá skipti sem samið hafi verið um það í upphafi að stefnandi skyldi hafa kauprétt að tækjum og þá með skriflegri yfirlýsingu.  Hvað varði tilvísun stefnanda til bréfa frá árunum 2000 og 2005 þar sem stefnanda sé boðið að kaupa tækin við lok grunnleigutímans sé ekkert óeðlilegt við þau bréf. Með þeim hafi stefndi tekið einhliða sjálfstæða ákvörðun við lok grunnleigutímans um að bjóða leigutaka að kaupa tækin. Það sé hins vegar rangt í stefnu að í bréfinu frá 21. nóv. 2000 komi fram að það sé samningsbundinn réttur stefnanda að eignast tækið. Stefnandi haldi því fram að óljós samningsákvæði eigi að túlka stefnda í óhag sökum þess að um sé að ræða staðlaðan samning frá honum. Ekki sé hægt að átta sig á því hvað stefnandi sé að fara með þessu og hvaða ákvæði samningsins hann telji óskýr. Stefndi vísi í dóm Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 (Smákranamál) þar sem fjallað sé um fjármögnunarleigusamningsform stefnda með þeim orðum að stöðluð ákvæði samningsins séu skýr. Stefnandi byggi á því að upplýsingar á heimasíðu stefnda hafi gefið til kynna að stefnandi eignaðist tækin í lok samningstíma fyrir umsamið verð og sé hér um að ræða sömu málsástæðu og fjallað hafi verið um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011. Þær upplýsingar á heimasíðunni sem stefnandi tilgreini, innihaldi ekkert annað en ábendingu um að í lok grunnleigutíma taki við ótímabundin framhaldsleiga en jafnframt eigi viðskiptamaður möguleika á því að kaupa tækið af stefnda á umsömdu verði, sem yfirleitt sé 3%. Þegar beiðnir berist til stefnda um að kaupa leigumun í lok leigutíma sé það skoðað í hverju tilviki. Ef tekin sé ákvörðun um sölu eftir lok grunnleigutímans, sé um sjálfstæðan samning að ræða sem breyti ekki eðli hins upphaflega fjármögnunarleigusamnings. Þessu til stuðnings megi vísa í skilgreiningu á fjármögnunarleigu í 4. gr. IAS 17 staðalsins, þar sem fram komi að ekki skipti máli hvort eignarréttur færist á milli samningsaðila í lokin því að í öllum tilvikum falli samningarnir undir staðalinn og teljist þar með leigusamningar. Í 6. gr. IAS 17 staðalsins komi skýrt fram að skilgreiningin á leigusamningi taki til samninga um leigu á eign sem feli í sér ákvæði sem gefi leigutaka kost á að öðlast eignarrétt á eigninni þegar umsamin skilyrði séu uppfyllt og að slíkir samningar séu stundum nefndir kaupleigusamningar.  Í gr. 10 a í IAS 17 staðlinum sé einnig gert ráð fyrir því að eignarhaldið samkvæmt fjármögnunarleigusamningi geti færst á milli aðila í lok samningstímans. Í gr. 10 b í staðlinum sé gert ráð fyrir því að í fjármögnunarleigusamningum geti verið ákvæði um kauprétt leigutaka á verði sem vænta megi að sé nægilega mikið undir gangvirði, daginn sem kauprétturinn verði nýtanlegur, þannig að nokkuð víst sé við upphaf samningstímans að kauprétturinn verði nýttur. Hvað varði tilvísun stefnanda til reiknivélar sem eigi að hafa verið á heimasíðu stefnda árið 2008, verði ekki séð að í þeirri tilvísun felist nein sönnun fyrir því að samið hafi verið um yfirfærslu eignarréttar í lok grunnleigutíma leigusamningsins og sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Enn langsóttari sé tilvísun stefnanda í viðtal við Svein Hannesson frá árinu 1987, þar sem vísað sé í forkaupsrétt en í þessu máli sé ekki byggt á því af hálfu stefnanda að um forkaupsrétt sé að ræða. Hvað varði tilvísun stefnanda í viðtal við Börk Grímsson þá sé þar gengið út frá því að um leigusamning sé að ræða og nefnt að leigutaka gefist kostur á að kaupa leigumun í lokin. Stefnandi byggi á því að hinir umræddu fjármögnunarleigusamningar séu lánssamningar en ekki leigusamningar og því hafi verið óheimilt að gengistryggja þá, sökum ákvæða 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi mótmæli þessu og bendi m.a. á að honum sé heimilt að láta leigugreiðslur af fjármögnunarleigusamningum taka mið af gengi erlendra mynta vegna þess að um sé að ræða leigusamninga en þeir falli ekki undir ákvæði laga nr. 38/2001. Stefnandi vísi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 153/2010 sem fjallað hafi um bílasamninga stefnda, sem Hæstiréttur hafi talið vera lánssamninga. Í því máli hafi verið um sjálfkrafa eignayfirfærslu að ræða án sérstakrar greiðslu eftir að leigutaki hafði innt af hendi síðustu leigugreiðsluna. Í fjármögnunarleigusamningum sé aldrei um slíkt að ræða og því hafi dómurinn ekki fordæmisgildi. Gildissvið laga nr. 38/2001 sé skilgreint með víðtækum hætti í 1. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu nái lögin yfir vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og á öðrum sviðum réttarins, eftir því sem við geti átt, svo og um annað endurgjald sem áskilið sé eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar. Samkvæmt 2. gr. gildi lögin einnig um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í VI. kafla laganna, sem fjalli um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sé gildissvið kaflans skilgreint með þrengri hætti en fram komi í 1. gr. laganna. Öfugt við önnur ákvæði laganna, sem taki til vaxta á peningakröfum á sviði fjármunaréttar, takmarkist verðtryggingarákvæði laganna við sparifé og lánsfé í íslenskum krónum. Ákvæði 13. og 14. gr., sem banni gengistrygginguna, taki því skv. orðalagi sínu einungis til sparifjár og lánsfjár í íslenskum krónum en ekki til annars konar samninga eins og leigusamninga. Stefndi byggi á því að til þess að samningsskuldbinding geti fallið undir 1. mgr. 13. gr. laga nr. 38/2001 þurfi að vera um hefðbundin peningalánaviðskipti að ræða. Hugtakið lánsfé sé ekki skilgreint í lögunum og ekki sé að finna neinar leiðbeiningar í greinargerð. Hefðbundin orðskýring vísi til ,,peninga sem fengnir séu að láni“ eða hefðbundinna peningalána. Skuldbindingin felist þá í afhendingu á lánsfé í gjaldgengri mynt, en ekki afhendingu annarra verðmæta eins og fasteignar eða lausafjár. Fjármögnunarleigusamningur feli í sér leigu á tækjum en ekki afhendingu á peningum og geti því ekki fallið undir ákvæði VI. kafla laganna. Stefndi byggi á því að honum hafi verið heimilt að gengistryggja samningana vegna þess að um sé að ræða leigusamninga en leigusamningar falli ekki undir ákvæði VI. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 þar sem gengistrygging lánssamninga sé bönnuð. Þá byggi stefndi á því að ákvæði 13. gr. laga nr. 38/2001, feli í sér undantekningu frá meginreglu samningaréttar um samningsfrelsi og verði því að beita þröngri lögskýringu á ákvæði greinarinnar. Stefndi byggi einnig á meginreglu laga um að gerða samninga eigi að efna að fullu samkvæmt efni þeirra. Af dómaframkvæmd megi ráða að við mat á lögmæti verðtryggingar verði að gera greinarmun á hreinum fjárskuldbindingum eða peningalánaviðskiptum annars vegar og gagnkvæmum samningum hins vegar, en hvað síðarnefnda atriðið varði eigi báðir samningsaðilar að inna af hendi framlög á tilteknu tímamarki eftir samningsgerð, t.d. húsaleigusamninga, verksamninga og kaupsamninga um fasteignir. Lagaákvæði um verðtryggingu fjárskuldbindinga hafi í dómum ekki verið talin ná til þeirra gagnkvæmu samninga, sem hér sé vitnað til.  Í þessu sambandi megi nefna dóm Hæstaréttar í máli nr. 98/1978 og dóm í máli nr. 652/2011 (Smákranamál). Stefndi byggi á meginreglunni um samningsfrelsi í viðskiptum. Í þeirri reglu felist að aðilar samnings eigi forræði á því, hvers efnis sá samningur sé, sem þeir geri, þ.e. hvernig þeir ráðstafi réttindum sínum með samningum og undir hvaða skuldbindingar þeir gangist. Af sama meiði sé meginregla leiguréttar um að aðilum samnings sé frjálst að semja um fjárhæð leigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Meginreglan um samningsfrelsi aðila í viðskiptum geri það að verkum að gengisviðmiðun sé heimil nema skýrt sé tekið fram í lögum að svo sé ekki. Ekkert lagaákvæði sé í íslenskum lögum sem banni slíka gengisviðmiðun í leigusamningum og því sé hún heimil. Stefndi telji að við túlkun á því hvort um leigusamninga eða lánssamninga sé að ræða verði að taka mið af forsendum samningsaðila við samningsgerðina. Forsenda stefnanda og vilji hafi verið að um yrði að ræða fjármögnunarleigusamninga sem hann gæti fært sem leigusamninga í bókhaldi sínu og notið skattalegs hagræðis af því, á sama hátt og hann hafði gert með þá fyrri fjármögnunarleigusamninga sem hann hafi áður gert við stefnda. Stefndi byggi á því að við gerð fjármögnunarleigusamninganna hafi báðum aðilum verið það ljóst að gengisáhætta fylgdi því að hafa samningana gengistryggða og hafi stefnandi tekið mið af því þegar hann hafi valið að gera gengistryggða fjármögnunarleigusamninga. Það hafi verið forsenda af hálfu stefnda að þar sem um gengistryggða leigusamninga hafi verið að ræða, þá skyldu endurgreiðslur bundnar gengi á hinum erlendu myntum sem stefnandi hafi valið og að við ákvörðun leigugreiðslna skyldi tekið mið af LIBOR- vöxtum með nánar tilgreindu álagi. Stefnanda hafi mátt vera þessi forsenda ljós. Um sé að ræða verulega forsendu sem hafi verið ákvörðunarástæða af hálfu stefnda fyrir því að ganga til samningsgerðarinnar. Stefndi byggi á því að stefnandi hafi þekkt forsenduna hvað varði gengistrygginguna og vitað að hún hafi verið ákvörðunarástæða fyrir vaxtaþætti samninganna. Stefndi byggi á því að það sé sanngjarnt og eðlilegt með hliðsjón af skiptingu áhættu að gengistrygging sé reiknuð á fjármögnunarleigusamninga aðila. Önnur niðurstaða leiði til þess að gæðum verði mjög misskipt á milli aðila samningssambandsins. Gengistryggingin  hafi verið forsenda þess að hægt hafi verið að hafa jafn lága vaxtaviðmiðun og raun hafi verið og verði niðurstaðan sú að bannað verði að reikna gengistryggingu á samningana fái stefnandi leigukjör sem engum öðrum hafi boðist, á kostnað stefnda. Þá yrði um óeðlilegan hagnað stefnanda að ræða sem færi þvert gegn sanngirnissjónarmiðum. Stefndi byggi á því að fjármögnunarleigusamningar aðila séu í erlendum myntum og geti því ekki fallið undir ákvæði laga nr. 38/2001. Verði ekki fallist á það að hinir umræddu fjármögnunarleigusamningar séu leigusamningar og talið að um lánssamninga sé að ræða byggi stefndi á því að samningarnir séu ekki íslenskir lánssamningar með ólögmætum gengistryggingarákvæðum, sem fari gegn ákvæðum laga nr. 38/2001, heldur sé um lögmæta samninga í erlendum myntum að ræða. Lán í erlendri mynt falli ekki undir bannreglur VI. kafla laga nr. 38/2001 og því byggi stefndi á því að gengisviðmiðun fjármögnunarleigusamninganna séu lögmæt. Í 2. gr. fjármögnunar-leigusamninga aðila sé leigugrunnur tilgreindur nákvæmlega í erlendum myntum og tilgreining erlendra mynta komi einnig fram á greiðsluseðlum sem stefndi hafi sent stefnanda. Skýrt sé tekið fram í dómi Hæstaréttar í málum nr. 520/2011 og 551/2011 að samkvæmt forsendum dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 fari skuldbinding í erlendum gjaldmiðli ekki gegn nefndum ákvæðum laga nr. 38/2001. Telji dómurinn,  af einhverjum ástæðum, að fjármögnunarleigusamningar aðila séu lánssamningar en ekki leigusamningar og að þeir séu í íslenskum krónum og með ólögmætri gengistryggingu, sé einnig byggt á því að 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um bann við gengistryggingu stangist á við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið (hér eftir nefndur ,,EES samningurinn“), en sá samningur hafi verið lögleiddur með lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Þessi málsástæða hafi ekki verið höfð upp í málum er vörðuðu gengistryggingu bílasamninga og dómar gengu um í Hæstarétti 16. júní 2010. Fallist dómarinn á þessa málsástæðu stefnda telur stefndi að það eigi að leiða til þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Nánar tiltekið styðji stefndi kröfur sínar við 2. og 3. gr. laga nr. 2/1993. Með þeim hafi meginmál EES samningsins verið lögleitt og mælt hafi verið fyrir um að lög og reglur skyldu skýrðar, að svo miklu leyti sem við gæti átt, til samræmis við EES samninginn. Í þessu sambandi sé einnig rétt að vekja athygli á markmiði EES samningsins um myndun einsleits markaðssvæðis, sbr. og 1. gr. samningsins, og skyldur samningsaðila til að tryggja framgang markmiða samningsins, sbr. og 3. gr. hans. Þessar skyldur nái til allra eininga ríkisvaldsins, einnig dómstóla. Í þriðja hluta EES samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, sé fjallað um hin fjögur frelsi, það er: 1) frelsi til fólksflutninga, 2) frelsi til að veita þjónustu, 3) frelsi til fjármagnsflutninga og 4) staðfesturétt. Það sé frelsið til fjármagnsflutninga sem stefndi telji að eigi við í þessu sambandi. Vísað sé til 40. gr. EES samningsins sem kveði á um að engin höft skuli vera á milli samningsaðila á flutningi fjármagns í eigu þeirra sem búsettir séu í aðildarríkjum EB eða EFTA né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð sé notað til fjárfestingar. Með ákvæðinu sé verið að vernda markaðsaðgang einstaklinga og lögaðila á þessu sviði, sbr. t.d. dóm EFTA- dómstólsins í málum nr. E-10/04 Piazza, málsgrein 32 og E -1/04 Fokus Bank, málsgrein 25. Stefndi telji að ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um bann við gengistryggingu brjóti gegn framangreindu ákvæði um frelsi til fjármagnsflutninga. Við mat á því hvort bann við gengistryggingu í lögum nr. 38/2001 brjóti gegn reglunni um frelsi til fjármagnsflutninga beri að hafa í huga hvernig stefndi fjármagni sig þegar gerðir séu gengistryggðir fjármögnunarleigusamningar. Það sem efnislega eigi sér stað sé að stefndi fjármagni sig í erlendri mynt. Þessum myntum breyti stefndi svo í íslenskar krónur áður en hann greiði seljanda viðkomandi leiguandlags, í þeim tilvikum sem seljandinn sé á Íslandi. Í þeim tilvikum sem leigan hafi verið greidd í krónum hafi stefndi breytt þeim í erlenda mynt á gengi greiðsludaga og greitt til síns erlenda fjármögnunaraðila. Því hafi hér í raun verið um fjármögnun í erlendri mynt að ræða með því eina fráviki að stefndi hafi selt og keypt viðkomandi gjaldmiðla í stað leigutaka, honum til hagsbóta. Slík framkvæmd sé hefðbundin fjármálaþjónusta. Með því að túlka 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 á þann hátt að í þeim felist bann við gengistryggingu sé í raun komist að þeirri niðurstöðu að lánveitanda, sem vilji lána í erlendum myntum hér á landi, sé óheimilt að gengisbreyta láninu áður en það sé greitt út og innheimta það í íslenskri mynt. Þannig virðist sú krafa gerð að lántakinn fái hina erlendu mynt afhenta og þurfi jafnframt að greiða til baka í henni. Þetta geri það að verkum að umtalsverður kostnaður og fyrirhöfn lendi á lántaka. Þannig virðist hann í upphafi þurfa að hafa sjálfur fyrir því að gengisbreyta láninu, með þeim kostnaði sem því fylgi. Jafnframt þurfi hann mánaðarlega að gengisbreyta íslenskum krónum, yfir í viðkomandi erlenda greiðslumynt, til að geta greitt afborganir viðkomandi láns. Með því að leggja þennan kostnað og fyrirhöfn á lántaka, sé veiting erlendra lána hér á landi gerð erfiðari og minna aðlaðandi fyrir lánveitendur og lántaka. Þetta geri það líka að verkum að minni líkur séu á því að lánastofnanir innan EES svæðisins bjóði þjónustu hér á landi. Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um bann við gengistryggingu geri það líka að verkum að innlendar lánastofnanir sem hafi fjármagnað sig með erlendum lánum en greiði út lán í íslenskum krónum geti ekki tryggt raungildi lánsfjárhæðarinnar með sama hætti og þeir sem fjármagni sig í íslenskum krónum. Slíkum aðilum sé þar með gert erfiðara um vik en ella að bjóða upp á lán í íslenskum krónum sökum þess að þeir eigi erfiðara með að tryggja verðgildi útlánasafnsins. Þannig verði öll áhættustýring sem gangi út á jafnvægi milli erlendra og innlendra eigna erfiðari. Þetta sé líklega til þess fallið að draga úr áhuga aðila á að sækja sér fjármagn til annarra ríkja innan EES þar sem þeim sé gert erfiðara um vik að verja sig fyrir breytingum á ytri aðstæðum en aðilum sem fjármagni sig á innlendum markaði. Stefndi telji að þetta feli í sér hindrun á frjálsu flæði fjármagns sem fari gegn 40. gr. EES samningsins. Stefndi vilji einnig vísa til þeirrar skyldu samningsaðila EES samningsins að gera allt sem þeir geti til að standa við skuldbindingar sínar skv. 3. gr. samningsins. Til viðbótar við þetta megi nefna að samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Íslenskir dómstólar hafi hingað til seilst nokkuð langt í túlkun íslenskra laga til samræmis við ákvæði EES samningsins. Þannig hafi ákvæði hans verið túlkað sem sérregla sem gangi framar skýru ákvæði annarra laga, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 477/2002. Ákvæði 40. gr. EES samningsins hafi lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993, og því byggi stefndi á því að ákvæðið hafi forgang fram yfir ósamrýmanleg síðar til komin lagaákvæði eins og 13. – 14. gr. laga nr. 38/2001. Þessi forgangsáhrif komi einnig skýrt fram í athugasemdum við 3. gr. frumvarps til EES laganna en í 3. mgr. athugasemda við 3. gr. frumvarpsins komi eftirfarandi fram:

Í 3. gr. felst m.a. að innlend lög sem eiga stoð í EES-samningnum verði jafnan túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamræmanlegum yngri lögum, að því leyti að yngri lög víki þeim ekki ef þau stangast á, nema löggjafinn taki það sérstaklega fram. Þetta er nauðsynlegt til þess að tryggja samræmi í reglunum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í þessu sambandi sé rétt að geta þess að Eftirlitsstofnun EFTA hafi tekið undir framangreind sjónarmið í formlegu athugasemdabréfi (e. Letter of Formal Notice) sem sent hafi verið íslenskum stjórnvöldum 19. apríl 2012. Tekið skuli fram að framangreind málsástæða hafi ekki verið höfð uppi í málum er varðað hafi gengistryggingu bílasamninga og dómar hafi gengið um í Hæstarétti 16. júní 2010. Í ljósi tilvitnaðs bréfs frá Eftirlitsstofnun EFTA áskilji stefndi sér rétt til að leita eftir ráðgefandi áliti frá EFTA, í tengslum við mál þetta. Jafnvel þó að lánveitingar í erlendum myntum séu ekki bannaðar á Íslandi séu líkur á að bann laga nr. 38/2001 við gengistryggingu íslenskra lána feli í sér hindrun á flæði fjármagns milli Íslands og annarra EES ríkja. Þetta geti til dæmis takmarkað áhuga á lánveitingum frá aðilum, sem staðsettir séu í öðrum aðildarríkjum EES. Svipuð sjónarmið og hér hafi verið rakin megi finna í ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins í máli nr. E-1/00 Lánasýsla ríkisins gegn Íslandsbanka-FBA. Í álitinu komi fram að innlendar lagareglur sem letji einstaklinga og lögaðila til að eiga lánsviðskipti við erlenda aðila teljist hindrun á frjálsu flæði fjármagns og almennt þurfi ekki að sýna fram á að tiltekin hindrun hafi merkjanleg áhrif. Nægjanlegt sé að sýna fram á að hún geti hugsanlega haft slík áhrif. EES samningurinn geri ráð fyrir hlutleysi varðandi þá mynt sem notuð sé í lögmætum lánsviðskiptum, a.m.k. þegar um myntir aðildarríkja EES sé að ræða. Jafnframt falli undir fjármagnsflutninga þær aðferðir sem þurfi til útfærslu á framkvæmd þeirra, s.s. tryggingar fjárskuldbindinga, val á mynt láns eða viðmið varðandi endurgjald. Um þetta megi vísa í dóm EFTA dómstólsins í máli E-10/04 Piazza, dóms Evrópudómstólsins í máli nr. C-222/97 Trummer and Mayer og viðauka og orðskýringa við tilskipun 88/361/EEC (sem sé að finna í Viðauka XII við EES samninginn).  Verði að telja að hið sama eigi við innan EES, enda beri að túlka reglur ESB og EES til samræmis, meðal annars á sviði frjálsra fjármagnsflutninga, eins og fram hafi komið hjá EFTA dómstólnum t.a.m. í máli E-10/04 Piazza, málsgrein 33 og mál E-1/04 Fokus Bank, málsgrein 23. Stefndi geri athugasemdir við útreikninga á kröfum stefnanda. Stefnandi leggi fram endurútreikning KPMG á gengistryggðum samningum við stefnda. Þar sem í dómkröfum stefnanda sé ekkert komið inn á útreikninga, né heldur krafist viðurkenningar á réttmæti þeirra, telji stefndi óþarfa að fara í gegnum þá útreikninga sem þarna komi fram en geri fyrirvara um réttmæti þeirra. Hvað varði tilvísun stefnanda til útreikninga frá KPMG þá komi þar fram að matið byggi á þeirri gefnu forsendu að samningarnir séu ólögmætir í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 og að KPMG hafi ekki metið sjálfstætt hvort samningarnir féllu undir ofangreindan dóm. Í þessu sambandi vísi stefndi til álitsgerðar KPMG þar sem KPMG komist að því að samningsform stefnda um fjármögnunarleigusamninga sé leigusamningur skv. alþjóðlegum reikningsskila-stöðlum og því sé ljóst að forsenda fyrir endurútreikningum KPMG sé ekki til staðar.

Varðandi lagarök vísi stefndi til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 1. gr., 13. gr. og 14. gr. laganna. Stefndi vísi til þeirrar meginreglu í leigurétti að aðilum samnings sé frjálst að semja um fjárhæð leigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Stefndi byggi einnig á meginreglu laga um að gerða samninga eigi að efna að fullu skv. efni sínu. Stefndi vísi til 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 um samningsfrelsi í leigusamningum. Málskostnaðarkrafa stefnda byggi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi vísi til 3. tl. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 20. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Einnig vísi stefndi til viðauka I við Bankatilskipun Evrópusambandsins nr. 2006/48/EC (Directive 2006/48/EC of the European Parliament and of the Council of 14 June 2006 relating to the taking up and pursuit of the business of credit institution). Þá vísi stefndi til 2. - 3. gr. og 40. gr. laga nr. 2/1993. Stefndi vísi til 88. gr. laga nr. 3/2006, reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, bókunar I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Stefndi vísi einnig til 12. tl. 2. gr. og 127. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og reglugerðar nr. 1133/2007. 

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu greinir aðila á um það hvort fjármögnunarleigusamningar aðila nr. 135776, nr. 145687 og nr. 140007, dagsettir 11. ágúst 2006, 20. mars 2007 og 1. febrúar 2008, séu lánssamningar  eða leigusamningar.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að fyrrgreindir samningar séu samkvæmt efni sínu lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og  verðtryggingu. Um sé að ræða lánssamninga sem stefndi hafi kosið að klæða í búning leigusamninga. Byggir stefnandi  á því að ákvæði samninganna verði að virða í heild sinni, í samræmi við samkomulag aðila og í samræmi við raunverulega tilhögun og viðskiptasögu þeirra. Því til stuðnings að samningarnir séu lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 en ekki leigusamningar og gengistryggingarákvæði þeirra því ólögmæt, vísar stefnandi m.a. til forsendna dóma Hæstaréttar í málum nr. 282/2011 og nr. 652/2011, auk eftirtalinna raka:

1.            Stefnandi hafi sjálfur átt frumkvæði að kaupum á vélum og tækjum sem séu andlög samninganna og komið fram gagnvart seljanda þeirra, Heklu hf., sem kaupandi.

2.            Samningsverð hafi verið ákvarðað út frá fjármögnunarkostnaði stefnda, en ekki verðmæti umræddra véla og tækja.

3.             Greiðslur samkvæmt samningunum beri vexti.

4.            Greiðsluskylda stefnanda hafi ekki verið tengd afnotum véla og tækja skv. samningunum.

5.            Stefndi hafi ekki eignfært umræddar vélar og tæki í reikningum sínum.

6.            Stefnandi hafi eignast vélarnar og tækin samkvæmt samningum í lok þeirra.

Stefndi hafnar framangreindum málsástæðum stefnanda og byggir á því að umræddir samningar séu samkvæmt formi sínu og efni leigusamningar og ákvæði þeirra um gengistryggingu umsamins leigugjalds brjóti því ekki í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Í atvikalýsingu dóms þessa hefur nokkur grein verið gerð fyrir ákvæðum umræddra samninga. Samhengisins vegna þykir rétt að lýsa þeim nánar, þótt í því kunni að felast nokkur endurtekning. Samningum aðila má skipta annars vegar í sérstök ákvæði sem hafa auk tilgreiningar á leigusala og leigutaka að geyma 10 tölusett samningsákvæði, sem gert er ráð fyrir að séu nánar fyllt út við gerð einstakra samninga, og hins vegar almenn stöðluð ákvæði í greinum 11 til 35. Meginefni þeirra þriggja samninga sem um er deilt í máli þessu er eftirfarandi: Á forsíðu allra samninganna kemur fram að Lýsing hf. sé „leigusali“ en Suðurverk hf. „leigutaki“ og um sé að ræða gengistryggða fjármögnunarleigusamninga. Í 1. gr. er hið leigða tilgreint með tegundarheiti og tilvísun til reikninga seljanda. Í 2. gr., sem ber fyrirsögnina „leigugrunnur“, er fjárhæð hans tilgreind í krónum auk virðisaukaskatts af þeirri fjárhæð. Þá er gerð grein fyrir tengingu leigugreiðslunnar við erlendar myntir og gengi þeirra. Er leigufjárhæð samkvæmt samningum nr. 135776 og 140007 bundin gengi japansks jens og svissnesks franka að jöfnu en leigufjárhæð samkvæmt samningi nr. 145687 að fullu bundin gengi japansks jens. Í 3. gr. kemur fram að seljandi hins leigða sé í öllum tilvikum Hekla hf. Í 4. gr. er svonefndur „grunnleigutími“ tilgreindur. Er hann samkvæmt samningi nr. 135776  frá 10. ágúst 2006 til 9. ágúst 2009, samkvæmt samningi nr. 140007 frá 10. apríl 2007 til 9. janúar 2011 og samkvæmt samningi nr. 145687 frá 10. febrúar 2008 til 9. janúar 2013. Þá er í þessu ákvæði samninganna að finna ákvæði um gjalddaga fyrstu leigugreiðslu, fjölda leigugreiðslna og fjölda greiðslumánaða. Í 5. gr. eru ákvæði um greiðslu leigutaka við undirritun og nánari ákvæði um greiðslutilhögun. Í 6. gr. er staðlaður texti þess efnis að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist við lok grunnleigutíma, hvenær hún hefjist og hver fjárhæð leigugjaldsins sé á framhaldsleigutímanum. Í 7. gr. eru ákvæði um vátryggingu hins leigða og að iðgjald vegna vátrygginga skuli innheimt beint hjá leigutaka. Í 8. gr. er gert ráð fyrir þeim möguleika að ábyrgð verði tekin á skuldbindingum leigutaka en um slíkt var ekki að ræða í umræddum samningum. Í 9. gr. er gert ráð fyrir tilvísun til fylgiskjala með viðkomandi samningi. Í 10. gr. er gert ráð fyrir mögulegum sérstökum samningsskilmálum. Í þeim samningum sem mál þetta fjallar um er í ákvæðinu mælt fyrir um svonefnda hlutaleigu og LIBOR vexti á samningsdegi.

Eins og áður greinir eru hinir almennu skilmálar í ákvæðum 11-35 staðlaðir.

Í 12. gr. skilmálanna er mælt svo fyrir m.a. að leigutaki geti ekki sagt leigusamningi upp á grunnleigutíma og að þeim tíma loknum framlengist hann ótímabundið samkvæmt 6. gr. Þá er mælt svo fyrir að leigutaki geti sagt hinum framlengda leigusamningi upp skriflega með eins mánaðar fyrirvara, enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í 13. gr. eru ákvæði um gjalddaga leigugreiðslna. Þá er mælt svo fyrir að inni Lýsing hf. andvirði hins leigða af hendi, fyrir upphaf grunnleigutíma skv. 4. gr., skuli leigutaki, auk fyrstu leigugreiðslu skv. 5. gr., greiða vexti frá greiðsludegi til upphafsdags grunnleigutímans skv. 4. gr. Þá er í ákvæðinu mælt annars vegar fyrir um heimild Lýsingar hf. til að endurreikna umsamda leigu skv. breytingum á lánskjörum Lýsingar hf. og eða gjaldskrá félagins, ef samningurinn er í íslenskum krónum eða greiðslur gengistryggðar, en sé leigan tilgreind í erlendum gjaldmiðlum sé félaginu jafnframt heimilt að endurreikna leiguna samkvæmt breytingum er verði á LIBOR - vöxtum þess eða þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan sé tilgreind í. Í 14. gr. er annars vegar fjallað um vísitölutryggingu leigunnar en hins vegar gengistryggingu. Ákvæðið um gengistryggingu er svohljóðandi:

Leiga sú, sem er gengistryggð miðað við breytingar á gengi erlends og/eða erlendra gjaldmiðla er greind í ísl. kr. Leigugjald er innheimt í ísl. kr. Við útreikning leigu skal hafa til viðmiðunar skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðli eða gjaldmiðlum skv. ákvörðun Lýsingar hf. við útgáfudag reiknings.

Í 15. gr. er kveðið á um að Lýsing hf. sé eitt eigandi hins leigða. Þá er mælt svo fyrir að leigutaka sé óheimilt að stofna til hvers kyns löggerninga um hið leigða og það geti ekki orðið gilt andlag aðfarar skuldheimtumanna leigutaka. Þá er mælt svo fyrir að leigutaka sé óheimilt að veita öðrum aðila afnot af hinu leigða, eða afhenda það með öðrum hætti, nema með samþykki Lýsingar hf. Í 16. gr. kemur fram að leigutaki velji hið leigða og annist skoðun þess eins og kaupanda væri skylt samkvæmt lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000 og/eða öðrum réttarreglum. Þá segir í ákvæðinu að Lýsing hf. taki enga ábyrgð á leigumun og að leigugreiðslur skuli greiddar þótt leigutaki sé ekki ánægður með hið leigða eða það hafi ekki þá eiginleika sem leigutaki hafi reiknað með. Samkvæmt 17. gr. ber leigutaki áhættuna ef hið leigða ferst, skemmist eða rýrnar eftir að seljandi hefur afhent hið leigða eða áhættan flust frá seljanda til kaupanda samkvæmt lögum. Þá segir í ákvæðinu að leigutaki staðfesti að hið leigða hafi verið afhent honum og hann tekið við því án fyrirvara og sannreynt með nauðsynlegri skoðun og prófun að hið leigða væri gallalaust og hefði umsamda eiginleika. Þá segir í ákvæðinu að leigugrunnur skv. 2. gr. sé í samræmi við gerða samninga milli leigutaka og seljanda. Í 18. gr. er mælt svo fyrir að kostnaður sem falli til við pökkun og flutning hins leigða frá seljanda til leigutaka sem og allur kostnaður við uppsetningu og frágang hins leigða á notkunarstað hjá leigutaka sé á ábyrgð hans og kostnað. Þá greiði leigutaki allan kostnað sem til falli vegna skráningar og eigendaskipta jafnt við upphaf sem lok samningsins. Í 19. gr. er m.a. mælt svo fyrir að leigutaka beri að greiða leigu enda þótt seljandi hins leigða hafi vanefnt samning sinn við Lýsingu hf. og/eða leigutaka. Þá segir í ákvæðinu að leigutaki geti þó átt rétt til afsláttar af kaupverði eða til skaðabóta eða endurgreiðslu ef vanefndir seljanda leiði til afsláttar á kaupverði eða til skaðabóta úr hans hendi og skuli sú fjárhæð koma leigutaka að fullu til góða í formi lækkaðrar leigu en leigutaki ekki eiga frekari kröfur á hendur Lýsingu hf. af þessu tilefni og samningurinn að öðru leyti halda gildi sínu. Séu vanefndir seljanda hins vegar svo verulegar að rifta megi kaupunum skuli Lýsing hf. taka þá ákvörðun og tilkynna seljanda um hana. Sé kaupum rift og uppgjöri við seljanda sé ekki lokið innan 30 daga frá riftun geti Lýsing hf. krafið leigutaka um uppgjör skv. 30. gr. Leigutaki greiði kostnað við kröfugerð á hendur seljanda vegna vanefnda af hans hálfu, hvort sem sú kröfugerð sé í nafni Lýsingar hf. eða leigutaka, í umboði félagsins. Í 20. gr. er mælt svo fyrir að leigutaki annist allt viðhald og viðgerðir á leigumun á sinn kostnað og beri ábyrgð á því að meðferð og ástand hins leigða sé í samræmi við lög. Þá er mælt svo fyrir að leigutaka sé óheimilt að breyta hinu leigða, notkunarstaður hins leigða sé á starfsstöð leigutaka, nema um annað sé samið, og óheimilt sé að flytja hið leigða úr landi, nema með samþykki Lýsingar hf.

Samkvæmt 21. gr. ber leigutaki ábyrgð á og er skylt að bæta Lýsingu hf. allt það tjón sem verða kunni á hinu leigða og tryggja að viðgerð á hinu leigða skuli, ef til kemur, unnin með fullnægjandi hætti og án tafar. Þá er mælt svo fyrir að skylda leigutaka til greiðslu leigu falli ekki niður þó notkun hins leigða stöðvist vegna tjóns eða bilunar á hinu leigða. Ef um altjón sé að ræða fari fram uppgjör skv. 30. gr. Í 22. gr. er mælt svo fyrir að leigutaki beri, meðan leigutími varir, ábyrgð á því tjóni sem hið leigða kunni að valda með beinum eða óbeinum hætti og verði Lýsing hf. að greiða bætur fyrir slíkt tjón eigi félagið endurkröfu sem því nemi á hendur leigutaka. Í 23. gr. er m.a. kveðið á um að hið leigða skuli á kostnað leigutaka vera vátryggt á leigutímanum. Í 24. gr. er mælt fyrir um rétt starfsmanna Lýsingar hf. til að skoða hið leigða á leigutímanum og skyldu leigutaka til að veita starfsmönnun Lýsingar hf. aðgang að leigumunum og geymslustað þeirra. Þá er leigutaka skv. 25. gr. skylt að tilkynna Lýsingu hf. um búsetuskipti um leið og þau verða. Í 26. gr. kemur fram að leigutaki skuli m.a. greiða alla skatta og gjöld sem kunni að verða hækkuð eða lögð á leigumun, leigusamning eða leiguna sjálfa, þ.m.t. virðisaukaskatt, bifreiðagjöld og þungaskatt. Í 27 gr. eru m.a. ákvæði um skyldu leigutaka til greiðslu vanskilavaxta, ef til vanskila á leigugreiðslu eða öðrum greiðslum samkvæmt samningnum komi. Í 28. gr. eru ákvæði um heimild Lýsingar hf. til riftunar, vanefni eða brjóti leigutaki einhverja grein samningsins, eins og það er orðað. Í 29. gr. er mælt svo fyrir að sé samningnum sagt upp eða rift á grundvelli 19., 21. eða 28. gr. skuli leigutaki tafarlaust skila hinu leigða, óskemmdu og í eðlilegu ástandi miðað við notkun, á þann stað er Lýsing hf. tilgreini. Þá eru í ákvæðinu reglur um hvernig með skuli farið ef hið leigða verði metið til uppítökuverðs þ. á m. um viðbótarafföll og sölulaun. Í 30. gr. eru settar fram reglur um uppgjör milli Lýsingar hf. og leigutaka vegna loka samnings skv. 19., 21. eða 28. gr. Þar segir:

1. Leigutaki skal greiða alla ógjaldfallna leigu samkvæmt 5. gr. samningsins og skatta og gjöld skv. 26. gr., vátryggingar skv. 23. gr. og allan annan kostnað af hinu leigða ásamt dráttarvöxtum frá uppgjörsdegi.

2. Leigutaki skal greiða allar gjaldfallnar leigugreiðslur skv. 5. gr. og 6. gr. ásamt dráttarvöxtum og kostnaði skv. 27. gr.

3. Leigutaki skal greiða allan kostnað skv. samkvæmt 29. gr. vegna uppsagnar eða riftunar samnings og innheimtuaðgerða þ.m.t. innheimtu- og málskostnaður lögmanns skv. gjaldskrá. Leigutaki greiðir dráttarvexti vegna þessara atriða frá gjalddaga reikninga.

4. Frá skuld leigutaka til Lýsingar skv. tl. 1-3 hér að framan skal draga verðmat hins leigða. Verði ágreiningur um matið og/eða viðgerðarkostnað og aðilar ná ekki samkomulagi, má leigusali láta selja hið leigða á opinberu uppboði skv. 8. gr. laga nr. 90/1991, enda hafi leigutaki mótmælt matinu eða uppgjörinu skriflega innan 7 daga frá því að honum mátti vera það kunnugt. Að öðrum kosti telst hann við það bundinn. Á sama hátt skal draga frá skuld leigutaka til Lýsingar skv. tl. 1-3, endurgreiðslur eða skaðabætur frá seljanda hins leigða vegna galla eða vanefnda sbr. 19. gr.  og vátryggingabætur ef hið leigða ferst eða glatast sbr. 21. gr. Nú myndast hagnaður hjá Lýsingu við uppgjör á leigusamningi og getur Lýsing hf. þá einhliða greitt hann  inn á aðrar kröfur eða leigusamninga sem eru í gildi milli sömu aðila.“

Í 31. gr. er ákvæði um m.a. mögulegar kröfur á hendur leigutaka vegna leyndra galla á hinu leigða við skil hins leigða. Í 32. gr. er mælt svo fyrir að það hvernig leigu-greiðslur séu færðar í bókhaldi leigutaka sé alfarið á hans ábyrgð og endurskoðanda hans. Samkvæmt 33. gr. er Lýsingu hf. heimilt að framselja samninginn til banka eða annars eignarleigufyrirtækis enda skerði slíkt framsal ekki réttarstöðu leigutaka. Hins vegar sé framsal leigutaka á réttindum sínum samkvæmt samningnum ekki heimilt nema með samþykki Lýsingar hf. Í 34. gr. er mælt svo fyrir að breytingar á samningnum megi eingöngu gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum og í 35. gr. er mælt fyrir um varnarþing.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011, sem kveðinn var upp 24. maí 2012, komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að tiltekinn fjármögnunarleigusamningur stefnda, sem ritaður hafði verið á staðlað samningsform félagsins fyrir fjármögnunar-leigusamninga, væri samkvæmt efni sínu leigusamningur en ekki lánssamningur. Samningurinn  sem til skoðunar og umfjöllunar var í máli nr. 652/2011 liggur fyrir í máli þessu sem dómskjal nr. 108. Er sá samningur efnislega samhljóða þeim samningum, sem um er deilt í máli þessu, að undanskildum sérákvæðum um leigutaka, fjárhæðir, leigutíma og leiguandlag. Hin almennu ákvæði samninganna í gr. 11-35, sem lýst hefur verið hér að framan, eru hins vegar efnislega þau sömu. Verður að telja að tilgreindur dómur Hæstaréttar feli í sér ótvíræða leiðsögn við skýringu á þeim þremur fjármögnunarleigusamningum sem um er fjallað í máli þessu. 

Þeir samningar sem um er deilt í máli þessu hafa að geyma ákvæði sem almennt hafa verið talin einkenna þá tegund eignaleigusamninga sem nefndir hafa verið fjármögnunarleigusamningar. Þannig er, eins og rakið hefur verið, mælt svo fyrir í samningunum að þeir séu óuppsegjanlegir á svonefndum grunnleigutíma en eftir að honum ljúki framlengist samningurinn ótímabundið (gr. 12). Eignaréttur að hinu leigða hvílir á leigutímanum hjá leigusala en afnotaréttur hjá leigutaka (gr. 15). Öll ábyrgð á leiguandlaginu og áhætta hvað það varði hvílir meðan á leigu stendur hjá leigutaka (gr. 21) og komi til riftunar greiðir leigutaki alla gjaldfallna og ógjaldfallna leigu að frádregnu verðmæti hins leigða (gr. 30).

Hugtakið eigna(r)leiga og undirhugtökin fjármögnunarleiga og kaupleiga koma, eftir því sem næst verður komist, fyrst inn í íslensk lög með gildistöku laga nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi. Hugtakið eignarleiga er þar skilgreint sem leigustarfsemi á lausafé eða fasteignum þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotarétt að lágmarksleigutíma loknum. Fjármögnunarleiga merkir skv. lögunum þá samningsaðstöðu samkvæmt eignarleigusamningi að leigusali hafi afsalað sér að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala. Eignarréttur haldist þó hjá leigusala. Kaupleiga merkir samkvæmt lögunum þá samningsaðstöðu samkvæmt eignarleigusamningi að leigusali hafi afsalað sér að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala og jafnframt veitt leigutaka sjálfkrafa rétt til að eignast hið leigða í lok leigutíma, sbr. 1., 2. og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1989. Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi segir m.a. að eignarleiga sé oftast nær ákveðin tegund leigu, en mörg mikilvæg frávik sé þar að finna sem geri það að verkum að hún verði að teljast mjög sérstakt leiguform. Þar af leiðandi hafi eignarleiga sérstaka stöðu samningsréttarlega séð, m.a. vegna þeirra sérstöku skilmála sem í samningum þessum sé að finna. Með frumvarpinu sé lagt til að eignarleiga verði afmörkuð í löggjöfinni frá því sem venjulega sé nefnt leiga. Helstu atriðin sem skilgreiningin velti á sé að leigusali selji hlut á leigu gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma og samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- og afnotaréttinn. Þetta tvennt einkenni eignarleigu. Í eignarleigu séu alltaf sérstakir skilmálar sem greini þessa samninga glöggt frá venjulegum leigusamningum. Í hinum sérstöku skilmálum séu ákvæði sem flytji ýmsar eignarréttarlegar skyldur frá formlegum eiganda hlutarins til leigutakans þannig að staðan geti orðið slík að leigusali hafi í raun aðeins eignarrétt er svari til veðréttar í hinu leigða. Með sama hætti verði þá réttarstaða leigutakans svipuð og væri hann eigandi að hlut, utan þess að hinn formlegi eignarréttur og ráðstöfunarheimildin haldist hjá leigusala. Í svonefndri „hreinni fjármögnunarleigu“ sé um það að ræða að leigusali hafi það hlutverk að fjármagna kaup viðskiptavina á ýmsum hlutum eða tækjum er hann kunni að vanhaga um án þess að láta af hendi hinn formlega eignarrétt. Leigusamningurinn sé ævinlega bundinn í lágmarksleigutíma og sé miðað við að fjármagnseigandi fái á þeim tíma fjármuni sína endurgreidda auk arðs og kostnaðar vegna samningsgerðarinnar. Leigutaki taki á sig verulegar skyldur sem tengist eignarrétti eiganda og njóti jafnframt flestra réttinda er eigandi almennt njóti. Þá er í athugasemdunum sérstaklega tekið fram að þær skilgreiningar sem byggt sé á varðandi eignarleigu í frumvarpinu taki mið af IAS 17 (International Accounting Standard 17) sem sé alþjóðlegur staðall um bókhald. 

Hugatakið eignaleiga er nú skilgreint í 3. tl. 1. mgr. 3. gr. lag nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. áður 1. mgr. 9. gr. laga nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Hugtakið er skilgreint þannig að eignaleiga feli í sér leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða  [á leigu] gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í athugasemdum með frumvarpinu, sem varð að lögum nr. 161/2002, er tekið fram að úr skilgreiningu á eignaleigu sé fellt brott ákvæði um skilmála um eignar- og afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum þar sem í sumum formum eignaleigu skuli skila hinu leigða skilyrðislaust í lok leigutíma. Eignaleigu sé gjarnan skipt í þrennt: fjármögnunarleigu og kaupleigu auk rekstrarleigu. Í fjármögnunarleigu haldist eignarréttur hjá leigusala en í kaupleigu sé leigutaka veittur réttur til að eignast hið leigða í lok leigutíma. Rekstrarleiga sé hins vegar eignaleiga sem hvorki teljist til fjármögnunarleigu eða kaupleigu. Þá er tekið fram í athugasemdunum að höfundar frumvarpsins telji rétt að eftirleiðis verði framangreind leiguform nefnd eignaleiga í stað eignarleigu áður.

Ekki verður séð að með lögum nr. 161/2002 hafi verið stefnt að breytingum á þeim grunnskilgreiningum sem fram komu í lögum nr. 19/1989 um eignarleigu og athugsemdum með frumvarpi til laganna, hvað varðar  eðli og sérkenni fjármögnunar- og kaupleigu.

Það sem fyrst og fremst aðgreinir fjármögnunarleigu frá kaupleigu er að kaupleigusamningar fela í sér að eignarréttur að leiguandlaginu flyst til leigutaka í lok leigutíma gegn greiðslu sérstaks umsamins endurgjalds/kaupverðs og þá ýmist þannig að endurgjaldið sé í upphafi kaupleigusamningsins reiknað inn í leigugreiðslur eða komi sérstaklega til greiðslu í lok leigutímans. Í tilfelli kaupleigu er um að ræða bæði kauprétt og kaupskyldu leigutaka. Í samræmi við þetta megineinkenni kaupleigunnar er hið leigða samkvæmt kaupleigusamningum eignfært hjá leigutaka í uppphafi kaupleigusamningsins og afskrifað í bókhaldi hans samkvæmt þeim reglum er gilda um fyrningu rekstrarfjármuna. Leigusali tekjufærir hins vegar leigugreiðslur eins og um afborganir af skuld væri að ræða. Í tilefni fjármögnunarleigu  færir leigutaki leigugreiðslur, sem bera virðisaukaskatt, til gjalda í bókhaldi sínu en leigusali færir þær til tekna. Hin mismunandi bókhaldslega og skattalega meðferð samninganna undirstrikar það sem að framan greinir um ólíkt eðli þessara samninga hvað varðar kaupskyldu leigutaka.

Hæstiréttur hefur með dómi í máli nr. 282/2011, sem upp var kveðinn 20. október 2011, komist að þeirri niðurstöðu að samningur sem að formi til var fjármögnunarleigusamningur hafi í reynd verið lánssamningur, m.a. með vísan til þess að samið hafi verið um það í byrjun að „leigutaki“ eignaðist „hið leigða“ gegn fyrir fram ákveðinni greiðslu í lok samningstímans. Fleira kom þó til sem að mati réttarins þótti sýna að um lánssamning en ekki leigusamning væri að ræða. Liggur engan veginn fyrir að forsendur dómsins beri að skilja á þann veg að það eitt að leigutaka sé í upphafi gefinn kostur á að kaupa hið leigða í lok leigutíma feli í sér að samningurinn verði að efni til talinn lánssamningur en ekki leigusamningur, líkt og stefnandi byggir á. Myndi slík ályktun fara í bága við viðteknar skýringar á fjármögnunarleigu og þá framkvæmd sem viðgengist hefur bæði hér á landi sem víða erlendis, að leigutaka sé gefinn kostur á að kaupa hið leigða í lok umsamins frumleigutíma fjármögnunarleigusamnings auk þess sem honum gefist kostur á ótímabundinni framhaldsleigu eða að skila hinu leigða í hendur leigusala.

Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 er lögð á það áhersla, hvað  raunverulegt inntak þess samnings sem til skoðunar var í málinu varðaði, að ósannað væri að samið hefði verið um að stefndi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og hafi því ekki annað legið fyrir en að á því tímamarki stofnaðist til ótímabundins leigumála gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda væri heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar væri mælt fyrir um í samningi aðilanna. Að þessu athuguðu væri ekki annað leitt í ljós en að samningurinn væri um fjármögnunarleigu, eins og heiti hans benti til. Af þessum sökum girtu ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki fyrir að aðilunum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Rétt virðist, með hliðsjón af því er áður greinir, að skýra þessar forsendur dómsins á þann veg að þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að samið hafi verið um kaupskyldu leigutaka yrði að flokka samninginn sem fjármögnunarleigusamning, líkt og ákvæði hans bentu eindregið til. 

Við mat á því hvort fjármögnunarleigusamningar aðila nr. 135776, 145687 og 140007 séu leigusamningar eða lánssamningar er rétt að líta til eftirfarandi. Heiti samninganna, sbr. „Fjármögnunarleigusamningur“, bendir til þess að um leigusamninga sé að ræða og er öll orðnotkun í skilmálum þeirra í samræmi við það. Þannig er stefnandi í skilmálum samninganna nefndur „leigutaki“ og stefndi „leigusali“. Þá er í skilmálunum talað  um hið leigða, leigugrunn, grunnleigutíma og framhaldsleigu. Þá er ljóst að samningarnir bera skv. efni sínu öll megineinkenni fjármögnunarleigusamninga eins og það hugtak var skilgreint í lögum nr. 19/1989 um eignarleigu og athugasemdum í frumvarpi til laganna, líkt og áður hefur verið rakið, í samræmi við viðteknar skilgreiningar á þessari samningstegund. Er þá einkum vísað til ákvæða um að leigutaki velji hið leigða og semji um kaupverð þess við seljanda, að samningurinn sé óuppsegjanlegur á umsömdum grunnleigutíma, að leigusali endurheimti kaupverð hins leigða ásamt vöxtum, þóknun og kostnaði á grunnleigutímanum, að leigutaka gefist kostur á ótímabundinni framhaldsleigu í lok frumleigutíma gegn verulega lækkaðri leigu, að eignarréttur haldist hjá leigusala meðan á leigu stendur, að leigutaki beri áhættu af hinu leigða meðan á leigu stendur og komi til riftunar á leigusamningi greiði leigutaki leigusala alla gjaldfallna- og ógjaldfallna leigu að frádregnu verðmæti hins leigða.

Rök stefnanda fyrir því að umræddir fjármögnunarleigusamningar séu lánssamningar en ekki leigusamningar hafa verið rakin. Eru þau í stefnu sett fram í 6 töluliðum. Hæstiréttur hefur þegar, með dómi í  máli nr. 652/2011, tekið afstöðu til þeirra málsástæðna sem stefnandi færir fram undir töluliðum 1-5, þ.e. hvað varðar frumkvæði að kaupum á þeim vélum og tækjum sem eru andlög samninganna, að samningsverð hafi verið ákvarðað út frá fjármögnunarkostnaði stefnda en ekki verðmæti umræddra véla og tækja, að leigugreiðslur samkvæmt samningunum beri vexti, að greiðsluskylda stefnanda hafi ekki verið tengd afnotum véla og tækja skv. samningunum og stefndi hafi ekki eignfært umræddar vélar og tæki í reikningum sínum. Hefur Hæstiréttur með framangreindum dómi hafnað því að umræddar málsástæður stefnanda hafi í för með sér að fjármögnunarleigusamning, sem í öllum meginatriðum er sama efnis og þeir samningar sem um er deilt í máli þessu, beri að skýra sem lánssamning. Er þessum málsástæðum stefnanda þegar af þeirri ástæðu hafnað auk þess sem umrædd samningsákvæði og sú uppgjörsregla að færa hið leigða ekki til eignar í ársreikningi leigusala eru í samræmi við viðurkennd megineinkenni fjármögnunarleigu eins og áður hefur verið rakið og góða reikningsskilavenju.

Í máli þessu greinir aðila á um hvort samið hafi verið svo um við gerð umræddra fjármögnunarleigusamninga að stefnandi ætti rétt á að kaupa hið leigða í lok umsamins frumleigutíma eða jafnvel fyrr. Af hálfu stefnanda er á því byggt að um hafi samist á milli stefnanda og stefnda að stefnandi eignaðist hið leigða gegn fyrir fram ákveðinni lokagreiðslu, í lok frumleigutíma. Þessu til stuðnings bendir stefnandi á eftirfarandi. Í fyrsta lagi að þau yfirlit sem stefndi hafi sent stefnanda um hver áramót sýni berlega að samið hafi verið um að stefnandi eignaðist vélar og tæki samkvæmt ,,fjármögnunarleigusamningum“ í lok frumleigutímans. Þessu til stuðnings vísi stefnandi til yfirlits stefnda frá 31. desember 2007, en þar komi fram að eftirstöðvar samnings nr. 135776 nemi 8.786.357 krónum og að lokagjald sé 602.648 krónur. Yfirlitið feli í sér staðfestingu stefnda á samkomulagi aðila um að stefnandi eignaðist tæki samkvæmt samningnum í lok samningstíma gegn greiðslu lokagjalds. Sama sé að segja um árslokayfirlit stefnda frá 31. desember 2010. Af hálfu stefnda er á því byggt að um sé að ræða sömu málsástæðu og fjallað hafi verið um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 og ekki hafi verið talin benda til þess að samið hefði verið fyrir fram um kaup í lok frumleigutíma. Stefndi mótmæli því að tilgreining lokagjalds með umræddum hætti feli í sér sönnun fyrir því að samið hafi verið um að stefndi myndi eignast tækin í lok grunnleigutímans gegn ákveðinni greiðslu. Í fjármögnunarleigusamningum aðila sé ekkert minnst á ,,lokagjald“. Það sem átt sé við í árslokayfirlitum stefnda sé að ef leigusali samþykki að selja leigutaka hið leigða, með sérstökum samningi síðar meir, yrði uppreiknuð fjárhæð miðuð við 3% af upphaflegum leigugrunni framreiknuðum, sú fjárhæð sem fram komi í yfirlitunum. Í þessu felist engin skuldbinding um að stefnandi geti krafist þess að kaupa hið leigða í lok samningstímans miðað við 3% af upphaflegum uppreiknuðum leigugrunni. Sá möguleiki hafi verið háður vilja og mati stefnda í lok samningstímans. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að viðskiptasaga stefnanda og stefnda bendi ótvírætt til þess að samið hafi verið um það í upphafi viðskipta að stefnandi myndi eignast vélar og tæki við lok grunnleigutíma samninga. Saga viðskipta stefnanda og stefnda sé að þessu leyti afar skýr. Þannig liggi fyrir í málinu yfirlit sem sýni að stefnandi hafi í lok 77 fjármögnunarleigusamninga, þ.m.t. samnings nr. 135776, sem gerðir hafi verið á tímabilinu 7. mars 2000 til og með 7. apríl 2009, keypt hið leigða af stefnda í lok frumleigutíma gegn greiðslu umsamins lokagjalds. Þá hafi stefnanda ætíð verið heimilað að greiða inn á höfuðstól samninganna og eins hafi honum verið heimilt að greiða samningana upp á skemmri tíma en kveðið hafi verið á um í samningunum. Hafi stefndi nýtt sér það í fjölda tilvika. Stefnandi hafi hins vegar aldrei framhaldsleigt vélar og tæki samkvæmt fjármögnunarleigusamningum við stefnda, eftir að frumleigutíma hafi lokið. Það hafi verið hluti af samningum aðila að stefnandi eignaðist hið leigða í lok samningstíma og í raun alla tíð verið litið á stefnanda sem eiganda hins leigða. Eignamyndun í hinu leigða á samningstímanum hafi tilheyrt stefnanda og aldrei staðið til að stefndi hagnaðist, sem næmi verðmæti véla og tækja í lok samningstíma. Stefndi vísi í þessu samhengi m.a til bréfs stefnda, 30. júní 1997, þar sem stefndi bjóði stefnanda að kaupa tiltekin tæki á 2% af uppfærðu samningsverði, verði samningur greiddur innan tveggja ára, en ella á 3% af uppfærðu samningsverði. Þá vísi stefnandi m.a. til staðfestingar stefnda, 19. mars 1998, þar sem segi: 

Varðar samning nr. 107981. Það staðfestist hér með að Suðurverk hf. er heimilt að greiða inn á samning hvenær sem er. Eins hefur Suðurverk hf. kauprétt að tækjum gegn greiðslu eftirstöðva auk 3% lokagjalds af leigugrunni.

Þá vísi stefnandi enn fremur til bréfa stefnda, 21. nóvember 2000, 5. júlí 2005 og 8. desember 2005. Í umræddum bréfum veki stefndi athygli stefnanda á því að grunnleigutíma tiltekinna tækja sé lokið og sé stefnanda því boðið að kaupa tækin á tilteknu verði, sem yfirleitt hafi numið 3% af uppfærðu samningsverði. Stefndi mótmælir framangreindum rökum stefnanda enda komi ekkert fram um meintan kauprétt stefnanda í þeim fjármögnunarleigusamningum sem lagðir hafi verið fram í málinu heldur þvert á móti sé þar að finna ákvæði í 6. gr. og 12. gr. sem gangi út á framhaldsleigu eða uppsögn en ekki kaup. Þá byggir stefndi á því að skilmálar fjármögnunarleigusamninganna séu skýrir, að því leyti að eignamyndun á samningstíma tilheyri stefnda en ekki stefnanda. Hvað varði bréf stefnda frá 30. júní 1997 og 19. mars 1998 mótmæli stefndi þýðingu bréfanna fyrir niðurstöðu málsins. Þeir samningar sem að sé vikið í bréfunum séu málinu óviðkomandi og hafi því ekkert sönnunargildi. Um sé að ræða tilboð frá stefnda, sem verið hafi sérstakt fyrir tvo tiltekna samninga og fyrir liggi að slíkt tilboð hafi ekki verið gert hvað varði þá samninga sem um sé fjallað í máli þessu. Það hafi heyrt til undantekninga að samið hafi verið um það við stefnanda, við gerð samninga, að hann skyldi eiga kauprétt að tækjum og hafi þá verið um það samið með skriflegri yfirlýsingu í upphafi. Tilgreindir samningar hafi fyrir löngu runnið sitt skeið og séu málinu óviðkomandi. Hvað varði tilvísun stefnanda til bréfa stefnda frá árunum 2000 og 2005, þar sem stefnanda hafi verið boðið að kaupa hið leigða við lok grunnleigutímans, hafi verið um að ræða einhliða sjálfstæða ákvörðun stefnda við lok grunnleigutímans. Ekkert sé óeðlilegt við að fjölmörgum fjármögnunarleigusamningum aðila hafi lokið með því að stefnandi hafi keypt viðkomandi tæki af stefnda. Það sé hins vegar röng ályktun hjá stefnanda að það hafi verið gert á grundvelli loforðs um kauprétt við upphaf samnings aðila. Í þessum tilvikum hafi stefndi tekið einhliða ákvörðun um það við lok grunnleigutímans að bjóða leigutaka að kaupa tækin. Stefnandi hafi keypt tækin og gengið hafi verið frá sölunni með sölureikningi/afsali, samhliða greiðslu á kaupverðinu. Á stefnanda hvíli sönnunarbyrði fyrir því að aðilar hafi samið um að víkja ætti frá ákvæði 12. gr. samninga aðila hvað varði samninga nr. 135776, 145687 og 140007 og byggi stefndi á því að stefnanda hafi ekki tekist slík sönnun.

Stefnandi byggir á því í þriðja lagi að óljós samningsákvæði í fjármögnunarleigusamningum stefnda og stefnanda eigi að túlka stefnda í óhag sökum þess að um sé að ræða staðlaðan samning, saminn af stefnda. Af hálfu stefnda er, hvað þessa málsástæðu stefnanda varðar, á því byggt að engan veginn sé hægt að átta sig á því hvað stefnandi sé að fara með umræddri málsástæðu, þ.e. hvaða ákvæði umræddra samninga hann telji óskýr. Megi í þessu sambandi vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 652/2011, en í því máli hafi verið talið að stöðluð ákvæði í fjármögnunarleigu-samningsformi stefnda  hafi verið skýr.

Stefnandi byggir í fjórða lagi á því að yfirlýsingar stefnda gefi ótvírætt til kynna að í tilvikum „fjármögnunarleigu“ hafi ætíð verið gengið út frá því að „leigutaki“ eignaðist hið leigða að samningstíma loknum fyrir umsamið lokaverð. Í því samhengi vísi stefnandi m.a. til ummæla á heimasíðu stefnda, 15. nóvember 2006, þar sem inntak fjármögnunarleigu sé skýrt, en þar segi m.a. orðrétt:

Fjármögnunarleiga. Lýsing kaupir og staðgreiðir tæki samkvæmt þinni ósk og þú leigir það af Lýsingu. Í lok grunnleigutíma, sem venjulega eru 36-60 mánuðir, átt þú kost á að kaupa tækið eða leigja það áfram.

Um kaupleigusamninga segi eftirfarandi á heimasíðu stefnda, 15. nóvember 2006:

Lýsing kaupir tæki og þú leigir það af okkur. Í lok leigutíma greiðir þú lokagjald og eignast tækið.

Þá hafi eftirfarandi upplýsingar um fjármögnunarleigusamninga komið fram á heimasíðu stefnda í nóvember 2006:

Í lok grunnleigutíma tekur við ótímabundinn framhaldsleiga, en jafnframt átt þú kost á því að kaupa tækið af Lýsingu á umsömdu verði, sem er yfirleitt 3% af upphaflegum leigugrunni.

Sömu skýringar á fjármögnunarleigusamningum og kaupleigusamningum sé að finna á heimasíðu stefnda á árunum 2008, 2009 og 2010. Af þeirri umfjöllun sé ljóst að enginn munur sé þar gerður á kaupleigu- og fjármögnunarleigusamningum. Þá vísi stefnandi m.a. til reiknivélar á heimasíðu stefnda, 1. mars 2005, þar sem fjallað sé um lánsupphæð í umsókn um fjármögnunarleigu en þar sé 3% lokagjald sérstaklega tilgreint. Þá vísi stefnandi til reiknivélar á heimasíðu stefnda, 14. nóvember 2008, þar sem sama hafi verið uppi á teningnum og m.a. fjallað um lánshlutfall við umsókn um fjármögnunarleigu. Fyrrgreind umfjöllum stefnda á heimasíðu sinni sýni að um lán hafi verið að ræða en ekki leigu á tækjum. Þá vísi stefnandi enn fremur til blaðaviðtals við Svein Hannesson, þáverandi framkvæmdarstjóra stefnda, sem birst hafi í viðskiptablaði Morgunblaðsins, 5. mars 1987. Í viðtalinu segi m.a.:

Aðspurður segir Sveinn að viðskiptavinir Lýsingar geti bundið greiðslur við það hvenær viðkomandi tæki eða vél gefur af sér tekjur, þannig að mestur hluti leigunnar sé greiddur þegar tekjur koma inn. Eftir að leigutíma líkur (sic) getur leigutaki skilað tækinu, leigt það áfram fyrir 1/12 af upphaflegri leigu, eða nýtt forkaupsrétt og er þá almennt miðað við 3% hrakvirði.

Þá vísi stefnandi til blaðaviðtals við Börk Grímsson, ráðgjafa á fyrirtækjasviði stefnda, sem birst hafi í 9. tölublaði Frjálsrar verslunar árið 2006. Þar segi m.a.:

Fjármögnunarleigusamningar Lýsingar hf. er ótímabundinn leigusamningur þar sem hið leigða er ekki eignarfært hjá leigutaka og hann gjaldfærir greidda leigu að fullu. Í lok leigutíma gefst leigutaka síðan kostur á að kaupa húseignina á lokaverði.

Stefnandi byggir á því að með hliðsjón af framangreindu liggi fyrir að ,,leigutakar“ í fjármögnunarleigusamningum stefnda hafa alla tíð átt þess kost að kaupa tæki sem samið hafi verið um. Stefndi byggir á því að um framangreinda málsástæðu stefnanda hafi verið fjallað í dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011. Þær upplýsingar á heimasíðunni sem stefnandi tilgreini, innihaldi ekkert annað en ábendingu um að í lok grunnleigutíma taki við ótímabundin framhaldsleiga en jafnframt eigi viðskiptamaður möguleika eða kost á því að kaupa tækið af stefnda á umsömdu verði, sem yfirleitt sé 3%. Ekki sé hægt að lesa neina skuldbindingu úr þessum upplýsingum á heimasíðunni og verði þær ekki með nokkru móti túlkaðar á þann veg að leigutaki eigi kröfu á að kaupa leiguandlagið við lok leigutíma enda sé ekkert heimildarákvæði um slíkt í leigusamningi aðila. Þegar beiðnir berist til stefnda um að kaupa leigumun í lok leigutíma sé það skoðað í hverju tilviki og m.a. horft á það hvort viðkomandi leigutaki sé með aðra samninga í vanskilum. Sé tekin ákvörðun um sölu, eftir lok grunnleigutímans, sé um sjálfstæðan samning að ræða sem breyti ekki eðli hins upphaflega fjármögnunarleigusamnings og breyti honum þannig ekki úr fjármögnunarleigusamningi í kaupleigusamning og enn síður í lánssamning eða ígildi hans. Þessu til stuðnings megi vísa til skilgreiningar á fjármögnunarleigu í alþjóðlega reikningsskilastaðlinum IAS 17, sbr. 4. gr., þar sem fram komi að ekki skipti máli hvort eignarréttur færist á milli samningsaðila í lokin því að í öllum tilvikum falli samningarnir undir staðalinn og teljist þar með leigusamningar. Í 6. gr. staðalsins komi skýrt fram að skilgreiningin á leigusamningi taki til samninga um leigu á eign sem feli í sér ákvæði sem gefi leigutaka kost á að öðlast eignarrétt á eigninni, þegar umsamin skilyrði séu uppfyllt og að slíkir samningar séu stundum nefndir kaupleigusamningar. Þar sem samningarnir sem um sé deilt í máli þessu teljist leigusamningar falli þeir ekki undir að vera lánssamningar og þar af leiðandi eigi þessir samningar ekki undir ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í gr. 10 a í umræddum reikningsskilastaðli sé einnig gert ráð fyrir því að eignarhaldið skv. fjármögnunarleigusamningi geti færst á milli aðila í lok samningstímans. Í gr. 10 b í staðlinum sé gert ráð fyrir því að í fjármögnunarleigusamningum geti verið ákvæði um kauprétt leigutaka á verði, sem vænta megi að sé nægilega mikið undir gangvirði, daginn sem kauprétturinn verði nýtanlegur, þannig að nokkuð víst sé við upphaf samningstímans að kauprétturinn verði nýttur. Skv. þessu sé ljóst að viðkomandi reikningsskilastaðall, sem innleiddur hafi verið með reglugerð, sem hafi lagagildi hér á landi, gangi út frá því að engu máli skipti, hvort eignarréttur kunni eða kunni ekki að færast á milli aðila að lokum og hvort samið sé um kauprétt eða ekki við lok samningstímans. Viðkomandi samningur sé í öllum tilvikum leigusamningur. Hvað varði tilvísun stefnanda til reiknivélar, sem eigi að hafa verið á heimasíðu stefnda á árinu 2008, verði ekki séð að í þeirri tilvísun felist nein sönnun fyrir því að samið hafi verið um yfirfærslu eignarréttar í lok grunnleigutíma umræddra leigusamninga og sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Ekki sé óalgengt að á heimasíðum eignaleigufyrirtækja sé að finna reiknivélar til að aðstoða væntanlegan leigutaka við að bera saman mismunandi kosti við fjármögnun atvinnutækja. Enn langsóttari sé tilvísun stefnanda í viðtal við Svein Hannesson, fyrrv. framkvæmdastjóra stefnda, frá árinu 1987, eða fyrir 25 árum, þar sem vísað sé til forkaupsréttar en í málinu sé ekki byggt á því af hálfu stefnanda að um forkaupsrétt sé að ræða. Hvað varði tilvísun stefnanda í viðtal við Börk Grímsson þá sé þar gengið út frá því að um leigusamning sé að ræða og nefnt að leigutaka gefist kostur á að kaupa leigumun í lokin. Stefndi hafni því sem röngu og ósönnuðu að samið hafi verið um það í upphafi að stefnandi myndi eignast hið leigða samkvæmt þeim fjármögnunarleigusamningum sem um sé fjallað í málinu í lok grunnleigutímans gegn greiðslu fyrir fram ákveðins lokagjalds. Stefndi byggi á því að í 12. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila sé gengið út frá því að þegar grunnleigutíma sé lokið framlengist leigusamningarnir ótímabundið skv. 6. gr. samninganna. Í lok 12. gr. komi síðan fram að leigutaki geti sagt hinum framlengda samningi upp skriflega enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í 12. gr. sé þannig skýrt tekið fram að framhaldsleiga hefjist að loknum grunnleigutíma og ekki gert ráð fyrir neinum undantekningum frá því, nema leigutaki vilji skila leigumun. Leigugreiðslur á framhaldsleigutíma séu mun lægri en á grunnleigutíma. Þannig sé gert ráð fyrir því að stefnandi geti haft leigumuninn á framhaldsleigu allt þar til  leigumunurinn sé orðinn úr sér genginn eða ónothæfur. Þetta sé einmitt eitt af grunneinkennum fjármögnunarleigusamninga og eitt af því sem aðgreini þá frá kaupleigusamningum þar sem leigutaki verði að jafnaði eigandi hins leigða í lok leigutímans. Stefndi vísi hér einnig til c-liðar 11. gr. í IAS 17 reikningsskilastaðalsins þar sem fram komi að það sé einkenni fjármögnunarleigusamninga að þá megi framlengja um annað tímabil gegn leigu sem sé töluvert lægri en markaðsleiga. Þá byggi stefndi á því að það sé viðurkennd regla í kröfurétti að sá sem haldi öðru fram en fram komi í samningi aðila hafi sönnunarbyrði fyrir því. Stefndi bendi á að í málinu liggi ekki fyrir nein sönnun fyrir því að stefnandi hafi átt að eignast hið leigða við lok grunnleigutíma leigusamninganna.

Í margítrekuðum dómi Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 segir hvað varðar samanburð á þeim samningi sem um var fjallað í málinu og samningi sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar í máli nr. 282/2011:

Milli þessara tilvika skilur þó um það meginatriði að gagnstætt því, sem var í máli nr. 282/2011, er ósannað í máli þessu að samið hafi verið um að stefndi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og liggur því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda er heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar er mælt fyrir um í samningi aðilanna. Að þessu athuguðu er ekki annað leitt í ljós en að samningurinn sé um fjármögnunarleigu, eins og heiti hans bendir til. Af þessum sökum girða ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki fyrir að aðilunum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra taki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Áfrýjandi verður því sýknaður af kröfu stefnda.

Eins og ítarlega hefur verið rakið greinir aðila máls þessa á um hvort umsamið hafi verið milli stefnanda og stefnda, þegar fjármögnunarleigusamningar nr. 135776, 145687 og 140007 voru gerðir, að stefnandi ætti kauprétt að hinum leigðu vélum og tækjum í lok frumleigutíma eða ekki.

Nokkrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn stefnda gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Sveinn Hannesson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi en hann var framkvæmdastjóri stefnda frá stofnun félagsins á árinu 1986 þar til í febrúar 1992. Í skýrslu hans kom fram að stefndi hefði byrjað að gera fjármögnunarleigusamninga þegar á árinu 1986. Í reynd hafi ekki tíðkast að samningsaðilar framlengdu leigusamninga. Venjan hafi verið að leigutaki keypti og eignaðist leigumuni í lok frumleigutíma. Hafi það verið hluti af samningunum og myndi hann ekki eftir neinum undantekningum. Stefndi hafi aldrei valið leigumuni í upphafi leigutíma heldur leigutaki. Hann kvaðst aðspurður muna vel eftir að stefnandi hefði komið í viðskipti við stefnda og ekki minnast þess að samningar við stefnanda hafi verið öðruvísi en aðrir fjármögnunarleigusamningar, hvað varðaði kaup leigutaka í lok samninga. Munurinn á kaupleigusamningum og fjármögnunarleigusamningum hafi eingöngu verið sá að í kaupleigu hafi verið frágengið og umsamið í byrjun að leigutaki keypti hið leigða í lok samnings og skattaleg meðferð hafi verið önnur. Leigutakinn hafi eignfært tækin hjá sér og fært afskriftir og vexti til gjalda. Í fjármögnunarleigu sé tækið eign leigusala en leigan sé öll færð til gjalda hjá leigutaka. Þetta sé alls staðar með þessum hætti. Fjármögnunarleigusamningar hafi verið færðir til eignar hjá stefnda, sem selt hafi þá í lok leigutíma með tapi. Í bókhaldi sé þetta núna fært hjá leigusala eins og um lán væri að ræða. Framkvæmdin hafi verið með þessum hætti í áratugi. Eins og hann hafi skilið það hafi það verið skilyrði þess að fjármögnunarleigusamningar fengju þá skattalegu meðferð sem að hafi verið stefnt að samningarnir væru leigusamningar. Það sé hins vegar kristaltært og það viti allir sem gert hafa svona samninga um áratugi að þetta hafi verið framkvæmt með þeim hætti sem hann hafi lýst. Aðspurður svaraði hann því til að ekki hefði verið samið um umræddan rétt til að kaupa með skriflegum viðaukum. Ólafur Helgi Ólafsson, fyrrverandi fjármálastjóri stefnda og síðar framkvæmdastjóri, gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann hafa verið fjármálastjóri stefnda 1987 til 1992 en framkvæmdastjóri frá febrúar 1992 til ársloka 2007. Kvaðst hann aðspurður hafa komið að gerð stöðluðu fjármögnunarleigusamningsformanna. Fjármögnunarleigusamningarnir hafi verið ótímabundnir leigusamningar en að loknum grunnleigutíma hafi venjan verið sú að leigutaka gæfist kostur á að kaupa leigutæki en annars tæki við framhaldsleiga. Venjan hafi verið að leigutakar keyptu leigumuni í lok samninga. Stefnandi hafi verið með marga samninga við stefnda og hafi þeim öllum lokið með því að stefnandi hafi keypt hið leigða í lok grunnleigutíma eða fyrir þann tíma. Engum samningum hafi lokið með því að stefnandi skilaði tækjunum í hendur stefnda. Stefndi hafi aldrei komið að vali og kaupum hins leigða. Aðspurður sagði hann að venja hefði verið að senda viðskiptamönnum bréf í lok samningstíma þar sem þeim hefði verið gefinn kostur á að kaupa hið leigða. Kvaðst hann ekki geta fullyrt að öllum viðskiptamönnum hefðu verið send slíkt bréf en samkvæmt eðli samninga hefðu leigutakar átt þess kost að kaupa tækin eða leigusamningurinn héldi áfram. Þegar um kaupleigusamninga hefði verið að ræða hafi leigutaki fengið reikning með virðisaukaskatti fyrir tækið en greitt hann síðan með kaupleigusamningi. Í tilfelli fjármögnunarleigusamninga hafi stefndi keypt tækið og sent leigutaka leigureikninga reglulega. Samkvæmt kaupleigusamningum hafi leigutaki verið skuldbundinn til að greiða tiltekna fjárhæð í lokin til að fá afsal fyrir hinu leigða. Í lok fjármögnunarleigu hafi leigutaki hins vegar átt val um kaup eða áframhaldandi leigu. Með því að tilgreina lokagjald í árslokayfirlitum hafi verið bent á mögulegt kaupverð í lok leigutíma. Traustir aðilar hafi getað fengið að kaupa tækin til sín á hvaða tíma sem var. Aldrei hafi verið leyndarmál að leigutakar hafi átt þess kost að kaupa tæki í lok leigutímans. Guðríður Ólafsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og staðgengill forstjóra stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hún hafa starfað sem framkvæmdastjóri hjá stefnda frá mars 1987 til mars 2008 og haft m.a. yfirumsjón með samningum um fjármögnunarleigu. Leigutakar hafi yfirhöfðuð fengið að kaupa leigumuni í lok grunnleigutímans að uppfylltum skilyrðum. Kvaðst hún ekki vita hvers vegna þessi réttindi hafi ekki verið inni í samningsforminu en þetta væri eðli fjármögnunarleigusamninga. Um væri að ræða leigusamninga þar sem þrennt gæti gerst, framhaldsleiga, skil eða kostur á að kaupa. Stefnandi hafi alltaf valið leigutæki og samið um verð. Ekki hafi verið formlega samið um möguleika leigutaka á að kaupa hið leigða í lok leigutíma en þetta væri eðli samninganna. Stefnandi hafi í flestum tilvikum eignast tæki í lok samninga eða gert þá upp á leigutímanum. Kvaðst hún aðspurð ekki muna eftir því að stefnandi hefði nýtt sér rétt til að framhaldsleigja í lok frumleigutíma. Í tilfelli fjármögnunarleigu hafi viðskiptamönnum verið boðið ca. mánuði fyrir lok frumleigutíma að kaupa eða áframleigja. Stefnandi hafi átt um þrjár leiðir að velja, kaup, skil eða framhaldsleigu. Hann hafi í öllum tilvikum ákveðið að kaupa en ekki verið skyldur til þess. Rætt hafi verið við framkvæmdastjóra stefnanda um þessa þrjá möguleika, þegar hann hafi upphaflega komið í viðskipti við stefnda. Þá hafi verið farið yfir hvað myndi gerast í tilviki fjármögnunarleigu. Ekki hafi verið minnst á lokagjald í samningunum sjálfum. Um leið og viðskiptamaður hafi verið búinn að gera einn svona samning hafi hann vitað hvað í boði hafi verið. Eðli samningsins hafi þá legið fyrir og þar með að honum gæfist kostur á að kaupa, ef hann væri í skilum. Þetta hafi legið fyrir við stofnun samninga. Halldór Jörgenson, fyrrverandi forstjóri stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst hafa verið forstjóri stefnda frá ársbyrjun 2008 til júní 2011. Aðspurður kvað hann fjármögnunarleigusamningum stefnda hafa getað lokið með framhaldsleigu eða skilum á tæki. Aðspurður kannaðist hann ekki við kauprétt í því sambandi enda hefði leigutökum ekki verið lofað að þeir gætu keypt hið leigða í lok samnings. Aðspurður um upplýsingar sem fram hefðu komið á heimasíðu stefnda, í forstjóratíð hans, um rétt leigtaka til að kaupa hið leigða í lok leigutíma, svaraði hann því til að ekki hefði verið um rétt að ræða heldur kost. Þannig hefði það verið undir vilja stefnda komið, hvort stefnandi hafi fengið að kaupa hið leigða í lok leigutíma eða ekki. Aðspurður kvaðst hann ekki geta upplýst hvort venjulegt hefði verið að leigutakar samkvæmt fjármögnunarleigusamningum hefðu leigt eða keypt í lok frumleigutíma. Ákvörðun um slíkt hefði ekki komið inn á hans borð. Afstaða stefnda hefði alltaf verið skýr í þessum efnum og hefðu upplýsingar um lokagjald ekki falið í sér skuldbindingu stefnda um að selja. Aðspurður kvaðst hann gera ráð fyrir að einhverjir hefðu fengið að kaupa í lokin. Ef starfsmenn hefðu ákveðið að selja í lokin hafi það hins vegar ekki farið í gegnum sínar hendur. Pétur Bjarni Magnússon, fyrrverandi yfirlögfræðingur stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann hafa verið yfirlögfræðingur stefnda frá 1990 til 2010 og sem slíkur haft umsjón með samningagerð félagsins. Aðspurður svaraði hann því til að aldrei hefði verið samið um kauprétt, þegar þessir samningar hafi verið gerðir. Gert hafi verið ráð fyrir að samningunum lyki með framhaldsleigu. Hins vegar hafi leigutökum oft verið gefinn kostur á að kaupa tæki í lok samnings en stefnda ekki verið skylt að bjóða upp á slíkt. Staðan hafi oft verið sú að leigutakar hafi viljað kaupa hið leigða í lok leigutíma. Ef leigutakar hafi óskað eftir að kaupa hafi stefndi tekið afstöðu til þess. Þessi réttur hafi ekki verið til staðar nema stefndi byði leigutökum að kaupa. Stefndi hafi í flestum tilvikum boðið leigutökum að kaupa tækin í lok samnings. Það hafi hins vegar ekki verið gert, ef samningar hafi verið í vanskilum. Þannig hafi ekki verið um kaupskyldu að ræða heldur boð frá stefnda. Kaupverðið hafi yfirleitt verið 1-3%. Aðspurður kvaðst hann ekki muna hvort stefndi hefði setið uppi með tæki í lok leigutíma en væru menn í skilum og allt væri að öðru leyti í lagi hafi þeim yfirleitt verið boðið að kaupa í lokin. Meirihluta samninga hafi lokið með kaupum leigutaka á tækjum. Aðspurður um tilgreiningu lokagjalds í árslokayfirliti stefnda 2010 svaraði hann því til að leigutaki hafi viljað fá að vita stöðu sína. Fjárhæðin hafi falið í sér áætlun og verið sett fram í upplýsingaskyni. Arnar Snær Kárason, framkvæmdastjóri eignaleigusviðs stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi. Aðspurður kvaðst hann hafa starfað hjá stefnda frá nóvember 2002, fyrst sem viðskiptastjóri en framkvæmdastjóri eignaleigusviðs frá nóvember 2008. Aðspurður kvað hann leigutaka samkvæmt fjármögnunarleigusamningum ekki hafa átt rétt á að kaupa leigumun í lok leigutíma. Hvað varðaði upplýsingar á heimasíðu stefnda svaraði hann því til að um hefði verið að ræða kost, ef stefndi hefði ákveðið að selja. Sá möguleiki hefði alltaf verið undir vilja stefnda kominn. Samningar hafi endað á marga vegu og margir endað þannig að stefndi hafi ákveðið að selja. Algengt hafi verið að hið leigða væri selt, ef viðkomandi hefði staðið í skilum. Þá væri nokkuð um að leigutakar framhaldsleigðu, m.a. ef þeir væru í vanskilum. Aðspurður kvað hann stefnda að undanförnu hafa fallist á sölu til leigutaka, ef viðkomandi hefðu verið í skilum við stefnda enda væri stefndi ekki í eignaleigu til að safna leigutækjum.

Fyrir liggur að stefnandi og stefndi gerðu með sér  a.m.k. 79 fjármögnunar-leigusamninga á tímabilinu 7. mars 2000 til 7. apríl 2009. Óumdeilt er að í tilvikum 77 þessara samninga keypti stefnandi hið leigða af stefnda í lok frumleigutímans eða meðan á honum stóð.

Fyrir liggur, og hefur ekki verið hrundið af stefnda, að á heimasíðu hans á árunum 2006, 2008, 2009 og 2010 hafi komið fram að leigutakar samkvæmt fjármögnunarleigusamningum ættu þess kost í lok frumleigutíma að kaupa hið leigða fyrir fyrir fram umsamið lokagjald eða áframleigja hið leigða ótímabundið með eins mánaðar uppsagnarfresti.

Fyrir liggur og er óumdeilt að á yfirlitum, sem stefndi sendi stefnanda í árslok 2007 og 2010, vegna stöðu fjármögnunarleigusamninga, hafi svonefnt lokagjald verið sérstaklega tilgreint og fjárhæð þess.

Með hliðsjón af framangreindri viðskiptasögu stefnanda og stefnda, því sem rakið hefur verið um upplýsingar á heimasíðu stefnda og tilgreiningu lokagjalds á yfirlitum stefnda og skýrslum fyrrverandi starfsmanna stefnda þ. á m. þriggja fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnda, sem raktar hafa verið að hluta, verður að telja nægilega sannað að um hafi samist við gerð fjármögnunarleigusamninga nr. 135776, 145687 og 145687 að stefnandi ætti þess kost að kaupa hið leigða, meðan á samningunum stóð eða í lok umsamins grunnleigutíma, fyrir fyrir fram umsamið lokagjald, að því tilskildu að stefnandi hefði staðið í skilum við stefnda samkvæmt tilvitnuðum samningum eða öðrum fjármögnunarleigusamningum við stefnda.

Framangreindur umsaminn kaupréttur stefnanda felur ekki í sér kaupskyldu af hans hálfu. Í samræmi við það eignfærði stefnandi ekki hið leigða í bókhaldi sínu og ársreikningum, heldur gjaldfærði hann leigugreiðslur sem báru virðisaukaskatt. Þá styður það framangreinda niðurstöðu og er óumdeilt að stefnandi átti þess kost að framlengja fjármögnunarleigusamningana, eftir að frumleigutíma lauk, samkvæmt skýrum ákvæðum í samningunum, gegn verulega lækkuðu leigugjaldi eða skila hinu leigða í hendur stefnda. Ekki verður talið að framagreind skilyrt réttindi stefnanda til að kaupa hið leigða í lok leigutíma breyti eðli umræddra samninga sem, eins og áður greinir, hafa að geyma öll megineinkenni fjármögnunarleigu eins og þau hafa verið skilgreind í lögum hér á landi í samræmi við almennt viðurkennd sjónarmið á sviði eignaleigu. Verður að skýra forsendur dóms Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 í þessu ljósi.

Með vísan til framangreinds verður fallist á með stefnda að umræddir leigusamningar brjóti ekki í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og því hafi aðilum máls þessa verið heimilt að semja um að greiðslur samkvæmt samningunum tækju mið af breytingum á gengi þeirra erlendu gjaldmiðla sem tilgreindir eru í samningunum. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.

Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  

Dómsorð:

Stefndi, Lýsing hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Suðurverks hf., í máli þessu. Málskostnaður milli aðila fellur niður.