Hæstiréttur íslands

Mál nr. 637/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Fimmtudaginn 2. desember 2010.

Nr. 637/2010.

H.F.G. ehf.

(Eiríkur Gunnsteinsson hdl.)             

gegn

Skúla Magnússyni

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli H ehf. gegn S var vísað frá dómi án kröfu vegna vanreifunar og óskýrs málatilbúnaðar á grundvelli e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í málinu krafði H ehf. S um greiðslu samkvæmt reikningi vegna vinnu við hús S að frádreginni nánar tilgreindri innborgun. Á framlögðum reikningi kom fram nafn og heimilisfang H ehf. en einnig nafn G sem H ehf. taldi sig hafa samið við um verkið. S krafðist sýknu í héraði annars vegar á grundvelli aðildarskorts og hins vegar á grundvelli þess að verkið hafi verið haldið göllum. Í dómi Hæstaréttar var talið að glögglega mætti ráða af stefnu og fylgigögnum hennar þann grundvöll sem málssóknin byggðist á og málsástæður fyrir kröfu sóknaraðila. Þá yrði ekki séð að óskýrleiki í málatilbúnaði H ehf. hafi gert S óhægt um vik að taka til efnisvarna. Málsatvik hafi skýrst enn frekar við meðferð málsins í héraði með framlagningu gagna. Engin efni hafi því verið til vísa málinu frá dómi án kröfu vegna vanreifunar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

 Sóknaraðili höfðaði mál þetta 12. október 2009. Í stefnu krefst hann þess að varnaraðila verði gert að greiða sér 1.394.400 krónur auk dráttarvaxta allt að frádreginni nánar tilgreindri innborgun. Þar kemur fram að krafan sé samkvæmt reikningi 1. júlí 2009 að fjárhæð 1.394.400 krónur. Þá kemur einnig fram að stefnandi sé byggingaverktaki, sem taki að sér ýmis verkefni fyrir einstaklinga og fyrirtæki, og að reikningurinn sé vegna vinnu í júlí 2009 fyrir varnaraðila við Stigahlíð 70. Við þingfestingu málsins 22. október 2009 var umræddur reikningur lagður fram. Á honum kemur auk nafns og heimilisfangs sóknaraðila fram nafn Gylfa Sveinssonar. Einnig kemur þar fram að reikningurinn sé vegna Stigahlíðar 70 auk þess sem á hann er ritað: „efni, vinna, akstur skv. tilboði v/ s. a. svalir.“ Varnaraðili kafðist sýknu í héraði og reisti þá kröfu í greinargerð annars vegar á aðildarskorti þar sem hann hafi samið við Gylfa Sveinsson um verkið en ekki sóknaraðila og hins vegar á því að verkið hafi verið haldið göllum. Þá andmælti hann því að krafa sóknaraðila væri í samræmi við fyrirfram umsamið endurgjald fyrir verkið.

Af stefnu og gögnum sem lögð voru fram við þingfestingu málsins í héraði má ráða þann grundvöll sem málsóknin byggðist á og málsástæður fyrir kröfu sóknaraðila. Varnaraðili tók til efnisvarna og verður ekki séð að óskýrleiki í málatilbúnaði sóknaraðila hafi gert honum erfitt um vik í þeim efnum. Þá skýrðust málsatvik enn frekar við meðferð málsins í héraði með framlagningu gagna, einkum matsgerðar 7. apríl 2010. Voru því engin efni til að vísa því án kröfu frá dómi vegna vanreifunar. Hinn kærði úrskurður verður samkvæmt þessu felldur gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

 Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Skúli Magnússon, greiði sóknaraðila, H.F.G. ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2010.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 21. september sl., er höfðað með birtingu stefnu 12. október 2009.

Stefnandi er HFG ehf., Flatahrauni 29, Hafnarfirði.

Stefndi er Skúli Magnússon, Lækjarási 2, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.394.400 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.394.000 krónum frá 1. júlí 2009 til greiðsludags.

Inn á skuldina hefur verið greidd innborgun 27. júlí 2009, að fjárhæð 300.000 krónur, sem dregst frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.

Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001 er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, auk málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda vegna aðildarskorts.

Til vara krefst stefndi sýknu vegna galla á hinu selda verki.

Til þrautavara krefst stefndi þess að krafa stefnanda verði lækkuð verulega að mati dómsins.

Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðaryfirliti.

Málsatvik

Stefnandi er byggingaverktaki sem tekur að sér ýmis verkefni fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Reikningur sá sem lagður er fram, er vegna vinnu til handa stefnda sem unnin var í júlí 2009 við Stigahlíð 70, Reykjavík. Inn á reikninginn hafa verið greiddar 300.000 krónur. Á greiðslukvittun kemur fram að stefndi, Skúli Magnússon, hafi ,,greitt undirrituðum v/þakviðgerða (efni + vinna) að Stigahlíð 70, R þrjú hundruð þúsund, sem hér með kvittast fyrir“. Undir greiðslukvittun þessa er undirritað ,,Gylfi“. Á greiðslukvittun kemur og fram að heildarverð efnis og vinnu sé 1.000.000 króna.

Í bréfi, sem undirritað er af Gylfa Sveinssyni f.h. HFG ehf., kemur fram að umsamið verð hafi verið 1.120.000 krónur auk virðisaukaskatts að fjárhæð 274.000 krónur, samtals 1.394.000 krónur. Fyrir vangá hafi verið kvittað á innborgunarkvittun 1.000.000 króna, auk 245.000 króna virðisaukaskatts og leiðrétti Gylfi það verð til samræmis við innborgunarkvittun og kveður því kröfu sína nema 1.245.000 krónum að höfuðstól.

Í reikningi stefnanda, dagsettum í júlí 2009 á hendur stefnda, er krafist greiðslu að fjárhæð 1.120.000 krónur auk virðisaukaskatts að fjárhæð 274.000 krónur að frádreginni innborgun 27. júlí 2007 að fjárhæð 300.000 krónur.

Stefndi kveður að hann hafi fengið Gylfa Sveinsson, persónulega, en ekki stefnanda HFG ehf. til þess að skipta um dúk undir hellulagðri þakplötu, en stefndi telur að lagningu dúksins sé ábótavant. Ágreiningur málsins snýst um hvort stefndi hafi falið ofannefndum Gylfa, persónulega, að vinna verkið fyrir sig, eða hvort stefnanda, HFG ehf., var falið verkið. Þá er ágreiningur um hvort verkið hafi verið haldið svo miklum galla að stefnandi eigi enga kröfu á hendur stefnda, en stefndi fékk dómkvaddan matsmann til að meta verkið.

Í matsgerð dómkvadds matsmanns, Auðuns Elíssonar frá 7. apríl 2010 er eftirfarandi matsspurningum svarað:

1. Er verk það sem matsþoli vann fyrir matsbeiðanda haldið galla.

2. Ef verkið er haldið galla, má ætla að yfirfallið sem matsþoli bjó til muni hafa undan því vatni sem kann að safnast á svalirnar ef niðurfall stíflast.

3. Ef svarið við matsspurningu 2 er neikvætt, spyr matsbeiðandi hvort vatnsverndardúkurinn nái nægjanlega hátt upp á veggi/veggkanta, þannig að vatn komist upp fyrir vatnsverndardúkinn áður en það fellur fram af vatnsþröskuldinum (hinu upphaflega yfirfalli.)

4. Þá beinir matsbeiðandi þeirri spurningu til matsmanns hvort það sé galli á verkinu að fjarlægja vatnshitalögn sem þarna var og sjá má á matskjali 1.

5. Sé svar matsmanns við matsspurningu 4 jákvætt, spyr matsbeiðandi hvað það muni kosta að koma slíkri vatnshitalögn fyrir á nýjan leik, og hvort að sá dúkur sem nú er undir hellunum muni skemmast við að fjarlægja hellur og setja niður hitalögn.

6. Hver er áætlaður kostnaður við að láta lagfæra gallann/ana.

Þeir sem boðaðir voru til matsfundar voru lögmaður stefnda, sem og stefndi sjálfur, Gylfi Sveinsson vegna stefnanda, Hallgrímur Axelsson og lögmaður stefnanda.

Undir matslið 1 segir eftirfarandi í matsgerð:

Samkvæmt frásögn matsbeiðanda var dúkur á steyptri plötu, þar yfir var sandlag með hitalögn í og þar yfir hellur 20x40x5 cm. Þegar farið var í framkvæmd við að skipta um dúk hafi hitalögn verið aftengd, hellur rifnar upp og sandlag og hitalögn fjarlægð. Síðan hafi verið settur nýr dúkur á þakið og þar ofan á filtdúkur, hellur síðan lagðar á filtdúk án sandlags og hitalagnar.

Samkvæmt teikningum Hönnunar hf. dags. 18.05.1987 er hitalögn á þakplötum/svölum beggja vegna húss. Ekki kemur fram á framangreindri teikningu eða öðrum teikningum frá Hönnun hf. er varðar hitalagnir að hér sé um annað ræða en snjóbræðslulögn á steyptum þakflötum. Eins og fram kemur í bókun matsfundar er um að ræða Protan SE dúk en hann er framleiddur í Noregi og umboðsaðili hans á Íslandi er BM Vallá. Dúkur hefur verið lagður á steypta plötu og er lagður laus þannig að engar festingar eru við plötu. Dúkur er þó festur með áfellum þar sem hann nær yfir steyptan kant og upp að steyptum vegg á utanverðum þakfleti. Þar sem dúkur kemur upp að léttum útveggjum á innanverðum þakfleti liggur dúkur laus að veggjunum, en tvöföld blikkáfella er þar yfir.

Matsmaður gat ekki greint hvort að skemmdir væru á dúk þar sem taka hafi þurft allar hellur af þakfletinum. Ef skoðað er hversu langt dúkur nær upp á veggi þá er steyptur kantur að utanverðum þakfleti 280 mm yfir steyptri plötu. Dúkurinn liggur upp á kant og út fyrir hann. Aftur á móti er hæð upp á kant þar sem yfirfallsrenna er 160 mm. Þar nær dúkur einnig út fyrir steyptan kant. Dúkur nær 220-240 mm upp á létta útveggi á innanverðum þakfleti. Þar sem dúkur kemur upp að þaki nær hann 170 mm upp frá steyptri plötu. Þegar dúkur var lagður var borað 22 mm gat í steyptan kant á utanverðum þakkanti þar sem gert er ráð fyrir yfirfalli. Gat er staðsett 70 mm yfir plötu. Samkvæmt Gylfa Sveinssyni er þetta regla við slíka framkvæmd til öryggis ef niðurfall stíflast. Samkvæmt ofangreindu er ljóst að ekki hafi verið farið eftir samþykktum teikningum þegar hitalögn var fjarlægð af þakfleti og ekki hafi verið sett upp aftur að lokinni dúkalögn. Það að ekki sé til staðar snjóbræðslulögn á þakfletinum er hætta á að komi til krapamyndunar á vetrartíma og er þá um leið ekki nægileg þétting í og við léttan útvegg á innanverðum þakfletinum. Hætta er á að leki komi fram bæði við létta útveggi og þar sem þak kemur að þakfletinum. Þar sem þak kemur að þakfleti er hæð á dúk frá steyptri plötu 170 mm en við útrás 160 mm. Þessi litli hæðarmunur getur haft þau áhrif að vatn leki inn með dúk ef þakflötur fyllist af vatni. Það að bora 22 mm gat sem öryggisaffall er að öllu leyti ófullnægjandi. Fyrir það fyrsta annar það gat ekki vatnssöfnun á þakinu og einnig eru allar líkur á að gatið stíflist með laufblöðum eða öðru lauslegu á þakinu. Samkvæmt ofangreindu er það mat matsmanns að ekki sé gengið frá þakfleti með fullnægjandi og faglegum hætti.

Niðurstaða 2. matsliðar var sú að yfirfall það sem matsþoli hafi gert með því að bora 22 mm gat á steyptan kant sé að öllu leyti ófullnægjandi. Miklar líkur séu á því að yfirfallið stíflist þegar lauslegt efni fari á flot við vatnssöfnun á þakfletinum.

Niðurstaða 3. matsliðar var sú að hætta væri á, við vissar aðstæður, sérstaklega þar sem hitalögn væri ekki til staðar, að það læki með þakdúk þar sem hann kæmi að léttum útveggjum og þar sem þak kæmi að þakfleti. Að öðru leyti taldi matsmaður dúk ná nægilega hátt upp á veggi, enda væri yfirfall 160 mm frá steyptri plötu.

Niðurstaða 4. matsliðar var sú að þar sem um væri að ræða flatt þak, þar sem þakflötur væri markaður annað hvort með steyptum kanti eða léttum útveggjum, væri mjög varhugavert að hafa ekki snjóbræðslulögn á þakfletinum. Einnig sé það andstætt fyrirliggjandi teikningum að hitalögn væri ekki til staðar.

Sem svar við matslið 5 tilgreindi matsmaður kostnað við að setja upp hitalögn/snjóbræðslu á þakfleti í samræmi við samþykkta teikningu undir lið ,,Kostnaðarmat“ í lokakafla matsgerðar. Taldi matsmaður ekki miklar líkur á að dúkur skemmdist við að taka upp hellur á þakfleti, ef varlega væri farið. Ef notuð væri sama aðferð við hitalögn og hellulögn og verið hafi fyrir, ætti dúkur ekki að skemmast.

Kostnað við að taka upp hellur, setja og tengja snjóbræðslulögn á þaksvölum, undirbúning fyrir hellulögn, sem og hellulögn kvað matsmaður vera samtals 537.500 krónur.

Gylfi Sveinsson kom fyrir dóm og gaf skýrslu. Hann kvað aðkomu sína að málinu vera þá að hann hafi verið beðinn um að skoða umrætt verk um sumarið 2009. Hann hafi gefið ákveðið verð í verkið upp á 1.120.000 krónur auk virðisaukaskatts. Hann kvaðst vera stjórnarmaður í HFG ehf. og hafa fullar heimildir til að koma fram fyrir hönd félagsins. Hann var inntur eftir því hvort hann hefði samið við stefnda fyrir hönd einkahlutafélagsins HFG. Svaraði hann því á eftirfarandi hátt. ,,Það var ekki sérstaklega nefnt að ég væri að gera það.“

Þá komu fyrir dóminn og gáfu skýrslur, stefndi, Skúli Magnússon, auk Karls Jóhanns Samúelssonar, Auðuns Elíssonar og Hallgríms Axelssonar sem gaf símaskýrslu. Ekki þykir ástæða til að rekja framburð þeirra.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst vera byggingarverktaki sem taki að sér ýmis verkefni fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Reikningur sá sem liggi frammi í málinu, að fjárhæð 1.394.000 krónur, sé vegna vinnu stefnanda til handa stefnda í júlí 2009 við Stigahlíð 70, Reykjavík. Inn á skuldina hafi greiðst 300.000 krónur 27. júlí 2009, sem dragist frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Vísað er til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en reglan fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 54 gr. laga nr. 50/2000 og lögum nr. 42/2000.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að um aðildarskort sé að ræða. Stefndi hafi samið við Gylfa Sveinsson, en ekki stefnanda máls þessa, svo sem sjá megi á greiðslukvittun vegna innborgunar á verkið. Gylfi riti þar undir og sé kennitölu hans getið. Þá beri greiðslukvittun þess ekki merki að verið sé að taka við greiðslu fyrir hönd stefnanda.

Fari svo ólíklega að aðalkröfu stefnda verði hafnað, byggir stefndi á því að verkið sé haldið verulegum galla, sbr. 1. og 4. til 6. tl. 1. mgr. 9. gr. laga um þjónustukaup, þannig að honum hafi verið heimilt að halda eigin greiðslu, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000, sbr. einnig 4. og 5. gr. sömu laga.

Hvað varði fullyrðingar stefnanda í bréfi dags. 7. september 2009 er stílað hafi verið á Gjaldheimtuna, um að ákveðnir veggir væru lekastaðir, byggir stefndi á að þar sem stefnanda hafi verið þetta ljóst, hefði hann átt að láta stefnda vita af þessu á þeim tíma er verkið var unnið. Í umræddu bréfi viðurkenni stefnandi að veggkantar séu hugsanlega lekir, og laga þyrfti frágang á þaki, og mála timburveggi er liggi að svölum á tvo vegu.

Þá er því mótmælt að heildarverð fyrir efni og vinnu hafi átt að vera 1.120.000 krónur auk virðisaukaskatts, kr. 274.400 krónur, samtals 1.394.000 krónur. Byggir stefndi á því að stefnandi hafi hækkað reikning sinn, eftir að stefndi greiddi inn á verkið, 300.000 krónur, svo sem sjá megi af greiðslukvittun..

Byggir stefndi á því að heildarverð hafi átt að vera 1.000.000 króna og að inni í þeirri fjárhæð séu öll opinber gjöld, sbr. 32. gr. laga um þjónustukaup. Stefndi kveður að reikningur sá sem stefndi hafi lagt fram hafi verið gefinn út eftir að greitt hafi verið inn á kröfuna 27. júlí 2009, þar sem innáborgunar hafi verið getið á umræddum reikningi.

Stefnandi hafi því aldrei beint réttri kröfu að stefnanda og því sé hafnað að krafan geti borið dráttarvexti, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 7. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 þar sem reikningur sé ekki dagsettur og hljóði auk þess upp á umtalsvert hærri fjárhæð en ákveðið hafi verið í upphafi. Ósannað sé af hendi stefnanda, hvaða dag reikningur sé gefinn út, og gæti það allt eins verið síðasti dagur júlímánaðar 2009. Því geti stefnandi ekki byggt á því, eins og gert sé í stefnu, að gjalddagi sé 1. júlí 2009, en þá hafi stefndi fengið senda innheimtuviðvörun frá Gjaldheimtunni, en þar sé útgáfudagur reiknings sagður 1. ágúst 2009 og þá nefndur víxill. Séu kröfur stefnanda því um margt misvísandi um efni og tilurð kröfunnar, sem og um fjárhæð.

Niðurstaða

Mál þetta hefur HFG ehf. höfðað á hendur Skúla Magnússyni til greiðslu skuldar að fjárhæð 1.394.000 krónur. Samkvæmt stefnu er stefnandi, HFG ehf., sagður vera byggingarverktaki sem taki að sér ýmis verkefni fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Þá er greint frá því að inn á kröfuna hafi greiðst 300.000 krónur, en ekki er að öðru leyti greint frá málsatvikum.

Með stefnu var lagður fram reikningur dagsettur 1. júlí 2009, samtals að fjárhæð 1.394.000 krónur. Á reikningnum kemur fram nafn stefnanda og kennitala, en einnig nafn Gylfa Sveinssonar og símanúmer. Meðal gagna málsins er einnig að finna ódagsett bréf, undirritað af Gylfa Sveinssyni f.h. stefnanda, þar sem fram kemur að leiðrétta skuli kröfu til samræmis við innborgunarkvittun, þannig að krafan nemi einungis 1.245.000 krónum.

Þá er einnig að finna meðal gagna málsins innheimtuviðvörun frá Gjaldheimtunni, dagsett 27. ágúst 2009, þar sem útgáfudagur  heimildarskjals er sagður vera 1. ágúst 2009, en þar var heimildarskjal sagt vera víxill.

Við aðalmeðferð málsins gaf Gylfi Magnússon skýrslu. Hann kvaðst hafa verið beðinn að skoða umrætt verk um sumarið 2009. Hann hafi gefið ákveðið verð í verkið upp á 1.120.000 krónur auk virðisaukaskatts. Hann kvaðst vera stjórnarmaður í HFG ehf. og hafa fullar heimildir til að koma fram fyrir hönd félagsins. Hann var inntur eftir því fyrir dómi hvort hann hefði gert umræddan samning um vinnu við hús stefnda, fyrir hönd stefnanda, einkahlutafélagsins HFG. Svaraði þá Gylfi eftirfarandi: ,,Það var ekki sérstaklega nefnt að ég væri að gera það“. Meðal gagna málsins er að finna kvittun fyrir innborgun inn á verkið og undir þessa kvittun er ritað ,,Gylfi“.

Stefndi, Skúli Magnússon, bar fyrir dómi að ekki hefði komið fram, er samið var um verkið, að samningsaðili væri einkahlutafélagið HFG. 

Eins og að framan greinir er málsatvikalýsing í stefnu mjög fátækleg, en auk þess er misræmi í skjölum þeim er frá stefnanda stafa, m.a. um það hver kröfufjárhæð skuli vera. Í bréfi, undirrituðu af Gylfa Magnússyni kveður hann að kröfufjárhæð sé 1.245.000 krónur, en stefnufjárhæð er hins vegar önnur. Engin gögn hafa verið lögð fram til sönnunar því hvernig Gylfi Magnússon tengist stefnanda og hann hefur sjálfur borið fyrir dómi, að ekki hafi verið sérstaklega nefnt að hann væri að semja fyrir hönd stefnanda um verk það sem ágreiningur snýst um.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja svo óljóst hver samningsaðili stefnda var og málið svo vanreifað að öðru leyti, að vísa beri því sjálfkrafa frá dómi, sbr. e-liður 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk kostnaðar við matsgerð 250.373 krónur, samtals 600.373 krónur.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, HFG ehf. greiði stefnda, Skúla Magnússyni 600.373 krónur í málskostnað