Hæstiréttur íslands

Mál nr. 375/1998


Lykilorð

  • Innheimtukostnaður
  • Útivist í héraði
  • Aðild


                                                        

Fimmtudaginn 25. mars 1999.

Nr. 375/1998.

Esther Laxdal og

Haukur Laxdal

(Haraldur Blöndal hrl.)

gegn

Sveinbergi Laxdal

(Þorsteinn Hjaltason hdl.)

Innheimtumál. Útivist í héraði. Aðild.

Eigendur jarðanna T og Tb höfðu átt í málaferlum við sveitarfélag vegna heitavatnsréttinda og einnig vegna úrskurðar landskiptanefndar. Eigandi T greiddi einn allan kostnað, sem af máferlunum hlaust. Taldi hann eigendum Tb skylt að endurgreiða sér 2/3 af kostnaðinum af þessum  málum í réttu hlutfalli við stærðir býlanna. Þar sem Tb hafði skipt um eigendur á meðan á málarekstri þessum stóð, stefndi hann bæði fyrri og núverandi eigendum til greiðslu.

Stefndu höfðuðu gagnsök í málinu og gerðu kröfur, bæði til skuldajöfnuðar og sjáfstæðs dóms. Kom fram í gagnstefnu að viðurkennd væri skuld að ákveðinni fjárhæð. Gagnsökin var síðar felld niður vegna útivistar gagnstefnenda.

Við úrlausn málsins í héraði var litið til fyrrnefndrar yfirlýsingar í gagnstefnunni og  stefndu dæmdir til að greiða þá fjárhæð sem þar var viðurkennd. Hins vegar þóttu stefnendur ekki hafa sýnt fram á greiðsluskyldu eigenda Tb umfram það og var því frekari kröfum þeirra hafnað. Eigendur Tb kröfðust frávísunar fyrir Hæstarétti en þar sem þeir höfðu fallið frá frávísunarkröfu sinni í héraði var eingöngu litið til þeirra ástæðna sem vörðuðu frávísun ex officio. Kom því ekki til skoðunar sú frávísunarástæða að ekki væri með réttu samlagsaðild með þeim. Málatilbúnaður stefnanda þótti á hinn bóginn ekki svo óskýr að varðaði frávísun án kröfu og var héraðsdómu staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 4. september 1998. Þeir krefjast þess aðallega, að málsmeðferð í héraði verði ómerkt og málinu vísað frá héraðsdómi, en til vara krefjast þeir sýknu. Til þrautavara krefst áfrýjandinn Esther þess, að hún verði einungis dæmd til að greiða 60.000 krónur og áfrýjandinn Haukur, að hann verði einungis dæmdur til að greiða 275.683 krónur, hvorttveggja með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá uppkvaðningu dóms Hæstaréttar. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjendur reisa frávísunarkröfu sína á því, að málatilbúnaður stefnda sé óljós og í engu samræmi við ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, hvorki að því er varðar framsetningu, sbr. 80. gr., né aðild, sbr. 19. gr. laganna.

Í stefnu er gerð grein fyrir þeim reikningum, sem krafist er greiðslu á, og þar kemur fram, hver kostnaðarskipting aðila sé. Verður að telja, að framsetning krafna sé nægilega skýr og að stefnan fullnægi skilyrðum 80. gr. laga nr. 91/1991. Í þinghaldi 16. febrúar 1996 féllu áfrýjendur frá frávísunarkröfu sinni í héraði, en samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991 verður máli ekki vísað frá dómi nema að kröfu aðila á þeim forsendum, að ekki sé samlagsaðild með þeim. Verður frávísunarkrafa áfrýjenda ekki tekin til greina.

Eins og lýst er í héraðsdómi höfðuðu áfrýjendur gagnsök í héraði 20. apríl 1996. Útivist varð af þeirra hálfu 12. september 1997, og var endurupptöku gagnsakar endanlega synjað með dómi Hæstaréttar 7. maí 1998. Var málið lagt í dóm, án þess að stefndi legði fram skriflega sókn. Verður að skilja það svo, að málið hafi verið dæmt samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 eftir framkomnum kröfum og gögnum stefnda með tilliti til þess, sem fram hafði komið af hálfu áfrýjenda.

Gögn málsins bera með sér, að samkomulag var með aðilum um greiðsluskyldu og kostnaðarskiptingu krafna þeirra, sem hér um ræðir. Í greinargerð áfrýjenda í héraði var kröfum stefnda ekki mótmælt sem röngum eða því haldið fram, að áfrýjendur ættu ekki að greiða þann hluta kostnaðar, sem krafist var, utan tveggja liða, sem vísað var frá héraðsdómi. Þá var ábyrgð áfrýjenda ekki skilin að í greinargerð þeirra í héraði. Í gagnstefnu í héraði voru allar kröfurnar viðurkenndar utan framangreindra tveggja liða. Loks var kostnaðarskiptingu krafnanna ekki mótmælt í greinargerð áfrýjenda í héraði eða gagnstefnu.

Samkvæmt framansögðu ber að staðfesta héraðsdóm um þessa kröfuliði með vísan til forsendna hans, svo og málskostnaðarákvæði hans.

Áfrýjendur greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Esther Laxdal og Haukur Laxdal, greiði stefnda, Sveinbergi Laxdal, 501.535 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá   10. mars 1995 til greiðsludags.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Áfrýjendur greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 29.maí 1998.

Ár 1998, föstudaginn 29. maí, er dómþing Héraðsdóms Norðurlands eystra sett í dómsal embættisins að Hafnarstræti 107, Akureyri, og háð þar af Ásgeiri Pétri Ás­geirssyni, héraðsdómara.

Fyrir er tekið mál nr. E - 110/1995: Sveinberg Laxdal gegn Esther Laxdal og Hauki Laxdal.

Er nú kveðinn upp í málinu svofelldur dómur:

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 15. maí s.l., hefur Sveinberg Laxdal, kt. 030742-2579, Túnsbergi, Svalbarðsstrandarhreppi, höfðað hér fyrir dómi á hendur Esther Laxdal, kt. 251024-3829, Lindasíðu 4, Akureyri, og Hauki Laxdal, kt. 240248-4769, Tungu, Svalbarðsstrandarhreppi, með stefnu birtri báðum stefndu hinn 10. mars 1995.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd, in solidum, til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 557.882,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 39.680,- frá 29.12.1990 til 25.06.1991, en þá af kr. 56.347,- frá þ.d. til 28.06. s.á, en þá af kr. 359.495,- frá þ.d. til 17.02.1994, en þá af kr. 413.313,- frá þ.d. til 28.04. s.á., en þá af kr. 477.882,- frá þ.d. til 09.05. s.á., en þá af kr. 557.882,- frá þ.d. til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Almennu lögþjónustunnar h.f. og virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndu krefjast þess að verða sýknuð „að svo stöddu eða algjörlega af efnislegum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi.“

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hann hafi átt Túnsberg síðan árið 1970 og það ár hafi stefndi Haukur eignast Tungu. Sé fyrrnefnda jörðin byggð úr landi hinnar síðarnefndu og talin vera 1/3 af stærð hennar. Þeir hafi sem eigendur jarðanna höfðað mál gegn Svalbarðsstrandarhreppi og ráðið til þess Benedikt Ólafsson, héraðsdómslögmann. Lauk skiptum þeirra við hann með því að þeir voru dæmdir til að greiða honum í þóknun kr. 203.093,- með dráttarvöxtum frá 01.01.1989 og kr. 85.000,- í málskostnað. Kveðst stefnandi hafa greitt dómkröfuna með alls kr. 551.366,70.

 Stefnandi segir þá stefnda Hauk hafa ráðið Ásmund S. Jóhannsson, hdl., til að undirbúa áfrýjun héraðsdóms í máli þeirra gegn Svalbarðsstrandarhreppi og hafi stefnandi greitt honum kr. 59.521,-

Hinn 1. janúar 1989 hafi stefnda Esther, móðir meðstefnda, eignast Tungu og tekið við aðild málsins fyrir Hæstarétti, sem hafi dæmt þau stefnanda til að greiða Svalbarðsstrandarhreppi kr. 120.000,- í málskostnað og hafi stefnandi greitt þá kröfu.

Ágreiningur hafi verið um landskipti milli eigenda Tungu og Túnsbergs annars vegar og eiganda jarðarinnar Meðalheims hins vegar. Hafi yfirlandskiptanefnd Suður-Þingeyjarsýslu úrskurðað um landskipti þann 15. ágúst 1988. Úrskurðinum hafi verið þinglýst 4. nóvember 1993. Hafi stefnandi skotið þinglýsingunni til héraðsdóms og síðan Hæstaréttar og hafi stefnda Esther átt samaðild að málinu með honum. Fyrir vinnu að þessu máli hafi stefnandi greitt Ásmundi S. Jóhannssyni hdl. kr. 25.000,- og kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti hafi orðið kr. 80.728,-

Stefnandi kveðst telja að skipting kostnaðar hafi átt að vera í hlutfalli við stærðir býlanna, þannig að hann hafi átt að greiða 1/3, en stefndu 2/3. Hafi hann krafið stefndu jafnharðan um greiðslu þeirra hluta og áskilið sér vexti, en skuld þeirra ekki fengist greidd.

Stefnandi kveðst vísa til almennra reglna kröfuréttar um fjárskuldbindingar.

Stefndu höfðuðu stefndu gagnsök í máli þessu hinn 20. apríl 1996, þar sem þau gerðu gagnkröfur, bæði til skuldajafnaðar og sjálfstæðs dóms. Við fyrirtöku hinn 12. september 1997 féll þingsókn niður af þeirra hálfu. Var endurupptöku málsins synjað endanlega með dómi Hæstaréttar upp kveðnum 7. maí 1998 og ber, með vísan til dóma réttarins frá 25. mars s.á. og 9. október 1997, að fella niður gagnsök og fara með aðalsök frá og með þinghaldinu 12. september sl. samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Stefnandi hefur lagt málið í dóm án þess að neyta réttar síns til að leggja fram skriflega sókn.

Stefndu kröfðust upphaflega frávísunar málsins, en féllu frá þeirri kröfu í þing­haldi hinn 16. febrúar 1996. Sýknukrafa stefndu í greinargerð er þar sögð vera byggð „á aðildarskorti, aðild óljós og blendin að sýkna ber af öllum kröfuliðum málsins eins og málið er úr garði gert.“

Í gagnstefnu er því lýst yfir af hálfu stefndu að viðurkenndar séu kr. 501.535 af kröfum stefnanda. Verður ekki fram hjá þessari yfirlýsingu horft við úrlausn málsins og verður á grundvelli hennar að dæma stefndu til að greiða stefnanda þá fjárhæð. Með vísan til fyrrnefndra afdrifa gagnsakarinnar verður hins vegar ekki fjallað um gagn­kröfur til skuldajafnaðar, sem þar koma fram, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.

Þeir kröfuliðir stefnanda, sem ekki hafa verið viðurkenndir skv. ofansögðu, eru annars vegar kr. 39.680,- og hins vegar kr. 16.667,- Hinum fyrri til stuðnings er kvittun Ásmundar S. Jóhannssonar, hdl., dags. 29.12.1990, fyrir mótteknu geymslufé, kr. 50.000,- úr hendi stefnanda. Á þessa kvittun er að auki ritað: „18.12. greitt Ásm. J. með ávísun 5741328 kr. 9.521.“ Til stuðnings hinum síðari er kvittun sama lögmanns, dagsett 25. júní 1991, fyrir 25.000,- kr. greiðslu frá stefnanda, „vegna Túngumála“. Stefndu segja þessar greiðslur vera sér alls óviðkomandi.

Eins og áður er greint var stefndi Haukur eigandi Tungu frá árinu 1970 til 1. janúar 1989, er meðstefnda eignaðist jörðina. Krefur stefnandi þau óskipt um greiðslu tveggja þriðju hluta kostnaðar mála sem hann rak ásamt eiganda Tungu á hverjum tíma. Engin rök eru færð fyrir óskiptri ábyrgð síðari eiganda Tungu með hinum fyrri á kostnaði hins fyrra vegna málarekstrar með stefnanda, og öfugt, og ekki liggur í augum uppi hvernig slík ábyrgð verður leidd af „almennum reglum kröfuréttar um fjárskuldbindingar“. Þegar af þessari ástæðu verður að vísa þessum kröfuliðum sjálfkrafa frá dómi, sem vanreifuðum.

Staðhæfing stefnanda um að hann hafi krafið stefndu um endurgreiðslu jafnharðan og hann innti greiðslur sínar af hendi er engum gögnum studd. Með vísan til 2. og 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 4. gr. laga nr. 67/1989, verða dráttarvextir því dæmdir frá 10. mars 1995, er mál þetta var höfðað.

Málskostnaður þykir hæfilega ákveðinn kr. 100.000,-

Dóm þennan kveður upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndu, Esther Laxdal og Haukur Laxdal, greiði stefnanda, Sveinberg Laxdal, kr. 501.535,- ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 10. mars 1995 til greiðsludags og kr. 100.000,- í málskostnað.

Vísað er sjálfkrafa frá dómi kröfum stefnanda um að stefndu verði dæmd óskipt til að greiða honum kr. 56.347,- með dráttarvöxtum af kr. 39.680,- frá 29.12.1990 til 25.06.1991 en af allri fjárhæðinni frá þ.d. til greiðsludags.