Hæstiréttur íslands

Mál nr. 668/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Vitni
  • Frestur
  • Aðfinnslur


Þriðjudaginn 8

 

Þriðjudaginn 8. desember 2009.

Nr. 668/2009.

Steelers FinCo ehf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

tollstjóranum í Reykjavík

(Sigurður Gísli Gíslason hrl.)

 

Kærumál. Aðför. Vitni. Frestur. Aðfinnslur.

S ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að heimilt yrði að leiða vitni við munnlegan flutning um frávísunarkröfu T í máli hans gegn honum vegna aðfarargerðar. Talið var að þar sem héraðsdómari hygðist leysa sérstaklega úr frávísunarkröfu T áður en efnishlið málsins kæmi til meðferðar myndi S ehf. ekki gefast kostur á að afla umbeðinna skýrslna ef málinu yrði vísað frá, en skýrslurnar vörðuðu eingöngu frávísunarkröfuna. Var talið að ákvæði laga nr. 90/1989 og 91/1991 um skýrslutökur stæðu við þessar aðstæður ekki í vegi fyrir því að S ehf. yrði leyft að leiða vitnin. Var því fallist á kröfu S ehf. um að leiða vitnin fyrir dóm við munnlegan flutning um frávísunarkröfu T.            

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leiða vitni fyrir dóm við munnlegan flutning um frávísunarkröfu varnaraðila við meðferð máls sóknaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að honum verði heimilað að leiða vitnin Ólaf Kristinsson héraðsdómslögmann, Árna Sigurðsson sendil, Guðrúnu Jóhannesdóttur móttökustjóra og Helgu Valdísi Cosser starfsmann í fjármáladeild, báðar hjá Logos lögmannsþjónustu, fyrir dóm áður en málið verði munnlega flutt um frávísunarkröfu varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík sem sóknaraðili bar undir héraðsdóm fór fram 4. maí 2009. Varnaraðili reisir kröfu sína um frávísun málsins á því að kæra vegna gerðarinnar hafi borist héraðsdómi 30. júní 2009, en þann dag hafi verið liðnar meira en átta vikur frá því að gerðinni hafi verið lokið og því hafi kæran borist of seint, sbr. 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989. Sóknaraðili byggir á því að krafan hafi borist héraðsdómi 29. júní 2009 innan lögbundins frests. Stimpill héraðsdóms um móttöku kærunnar 30. júní 2009 sé rangur. Þurfi hann að leiða framangreind vitni til að bera um hvenær kæran hafi verið afhent. Verði ekki sýnt fram á að afhending hafi farið fram fyrir 30. júní 2009 muni verða sýnt fram á að töfin sé afsakanleg, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989.

Samkvæmt 1. mgr. 90. gr., sbr. 94. gr., laga nr. 90/1989 skulu vitnaleiðslur að jafnaði ekki fara fram í málum sem þessum. Er í lögunum að öðru leyti vísað til laga nr. 91/1991 um málsmeðferðina. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hyggst sóknaraðili með umræddum skýrslum leitast við að sanna að málskot hans til héraðsdóms hafi borist dóminum innan framangreinds frests. Af gögnum málsins verður ráðið að héraðsdómari hyggist, í samræmi við 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, leysa sérstaklega úr frávísunarkröfu varnaraðila áður en efnishlið málsins kemur til meðferðar. Verði sóknaraðila synjað um vitnaleiðsluna og fallist héraðsdómur á frávísunarkröfu varnaraðila mun sóknaraðila ekki gefast kostur á að afla umbeðinna skýrslna sem eingöngu varða frávísunarkröfuna. Verður ekki talið að fyrrgreind lagaákvæði standi við þessar aðstæður því í vegi að sóknaraðila verði leyft að leiða vitnin og er því fallist á kröfu hans.

Það athugast að óþarflega langur tími leið frá því að kæra barst héraðsdómi uns hún var send Hæstarétti.

Dómsorð:

Sóknaraðila, Steelers FinCo ehf., er heimilt að leiða fyrir dóm við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu varnaraðila, tollstjórans í Reykjavík, vitnin Ólaf Kristinsson, Árna Sigurðsson, Guðrúnu Jóhannesdóttur og Helgu Valdísi Cosser.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2009.

Mál þetta var þingfest 27. júlí 2009 og tekið til úrskurðar 19. október 2009.

Sóknaraðili er Steelers FinCo ehf., Suðurlandsbraut 12, Reykjavík. Hann krefst þess í kæru til héraðsdóms dags. 26. júní 2009, en móttekinni 30. júní 2009, að aðfarargerð nr. 011-2009-04744, er fór fram hjá Sýslumanninum í Reykjavík 4. maí 2009, verði felld úr gildi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili er Tollstjórinn í Reykjavík, Tryggvagötu 19, Reykjavík. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að varnaraðili verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila og ofangreind aðfarargerð verði staðfest. Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar.

Þegar fara átti fram munnlegur flutningur um frávísunarkröfu varnaraðila, kom fram krafa frá sóknaraðila um að leiða vitni áður en málflutningur hæfist. Varnaraðili mótmælti því að leidd yrðu vitni og var ágreiningurinn tekinn til úrskurðar og er einungis sá hluti málsins til meðferðar nú.

Ofangreint bréf til héraðsdóms er stimplað og áritað um móttöku þann 30. júní 2009. Mánudaginn 29. júní voru liðnar 8 vikur frá því að umrædd aðfarargerð fór fram og byggist frávísunarkrafa varnaraðila sem til stóð að fjalla um þann 19. október á því að erindi sóknaraðila þar sem beðið var um úrlausn héraðsdóms hafi komið of seint fram, miðað við tímaskilyrðið sem sett er í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Tilgangur vitnaleiðsla sóknaraðila mun vera að sýna fram á að nefnt erindi til héraðsdóms hafi verið afhent fyrr en áritun á það segir til um.

Sóknaraðili byggir á því að honum sé nauðsyn að leiða vitni fyrir dóminn, engin önnur leið sé honum fær til að verjast frávísunarkröfu varnaraðila. Hann kveður kröfu sóknaraðila hafa verið senda dóminum á réttum tíma og telur að undantekningar frá þeirri meginreglu að vitni séu leidd í upphafi aðalmeðferðar, eigi við hér.

Varnaraðili mótmælir því að vitnaleiðslur fari fram í málinu, bæði í frávísunarþætti þess og einnig í aðalmeðferð ef til hennar kemur og vísar því til stuðnings til 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989. Hann telur að undantekningar frá meginreglunni um að vitnaleiðslur skuli fara fram í upphafi aðalmeðferðar sem fram koma í 4. mgr. 102. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 séu tæmandi taldar og eigi ekki við hér. Þá byggir varnaraðili á því að vitni sem kynnu að verða leidd í málinu breyti ekki stöðunni, vitnin séu hlutdræg og að engir hagsmunir séu af því að leiða vitni í málinu.

Fjallað er um málsmeðferð í málum sem þessum í 94. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Er þar vísað til tiltekinna ákvæða í sömu lögum, m.a. 1. mgr. 90. gr. þar sem segir að vitnaleiðslur, mats- og skoðunargerðir skuli að jafnaði ekki fara fram í málum samkvæmt kaflanum. Þá segir í 94. gr. að reglur um meðferð einkamála í héraði gildi eftir því sem við geti átt.

Ekki er sérreglur í lögum 90/1989 um frávísun og verður því farið eftir lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála um málsmeðferðina. Ljóst er að ekki er gert ráð fyrir því að vitni séu leidd, nema í upphafi aðalmeðferðar og tíðkast ekki að skýrslur séu teknar í tengslum við afgreiðslu frávísunarkrafna í almennum einkamálum. Ekki verður séð að frekar séu skilyrði til að leiða vitni í tengslum við frávísunarkröfu í ágreiningsmáli sem þessu, nema síður væri, sbr. það sem áður sagði um reglu 1. mgr. 90. gr. laga 90/1989. Þá virðist ljóst að undantekningar frá meginreglunni um að vitnaleiðslur fari fram við upphaf aðalmeðferðar eiga ekki við um þær aðstæður sem hér eru uppi. Verður því að telja að lagaskilyrði skorti til að verða við kröfu sóknaraðila um að fá að leiða vitni áður en málflutningur um frávísunarkröfu fer fram og verður henni hafnað.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af þessum hluta málsins.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila um að leiða vitni í þessum hluta málsmeðferðarinnar.