Hæstiréttur íslands
Mál nr. 138/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 12. mars 2010. |
|
Nr. 138/2010. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Jón Höskuldsson hrl.) |
Kærumál. Framsal. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Úrskurður héraðsdóms, sem ógilti ákvörðun dómsmálaráðherra um að X skyldi framseldur til Póllands, var felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2010, sem stimpluð er um móttöku Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2010 og barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum þann dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2010, þar sem ógilt var ákvörðun dómsmálaráðherra 21. október 2009 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og staðfest verði ákvörðun dómsmálaráðherra 21. október 2009 um að framselja varnaraðila til Póllands.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Með bréfi pólskra yfirvalda 2. júlí 2009 barst dómsmálaráðherra krafa héraðsdóms í Pleszew, Póllandi um framsal varnaraðila til fullnustu refsidóms svo sem greinir í hinum kærða úrskurði. Var honum kynnt krafan 6. október 2009. Við skýrslutöku af því tilefni komu fram upplýsingar um persónulegar aðstæður hans. Í ákvörðun ráðherra 21. sama mánaðar kemur fram að skilyrðum laga til framsals sé fullnægt að því er varðar refsiramma brots þess sem varnaraðili hafi verið sakfelldur fyrir og að refsing sé ekki fyrnd. Einnig er í ákvörðuninni fjallað um undanþáguákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984 án þess að varnaraðili hefði gert sérstaka kröfu um það eða framvísað gögnum til stuðnings slíkri kröfu, en réttur hans til þess hafði réttilega verið kynntur honum við skýrslutöku lögreglu að viðstöddum réttargæslumanni. Var það mat ráðherra að aðstæður varnaraðila stæðu ekki í vegi fyrir framsali hans. Varnaraðili mótmælti framsali þegar honum var kynnt ákvörðun ráðherra 29. október 2009 og daginn eftir krafðist hann þess með vísan til 14. gr. laga nr. 13/1984 að borið yrði undir Héraðsdóm Reykjavíkur hvort skilyrði fyrir framsali samkvæmt lögunum væru fyrir hendi. Krafðist hann þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Ekki var skilað greinargerð af hálfu varnaraðila við meðferð málsins í héraði og í hinum kærða úrskurði eru málsástæður varnaraðila ekki raktar. Hins vegar kemur fram í úrskurðinum að hinn 8. febrúar 2010 hafi brotaþoli í sakamáli því sem er grundvöllur framsalskröfunnar móttekið bætur sem varnaraðili hafi verið dæmdur til að greiða henni. Var sú greiðsla meðal skilyrða fyrir frestun fullnustu refsingar hans í því máli. Í hinum kærða úrskurði er talið að greiðslan og aðstæður varnaraðila eigi að leiða til þess að ekki verði fallist á framsal.
Bótagreiðslan átti sér stað eftir að ákvörðun ráðuneytisins hafði verið tekin. Verður ekki séð að varnaraðili hafi óskað eftir endurupptöku málsins hjá ráðherra á þeim grundvelli. Ekki eru efni til að dómstólar hnekki mati dómsmálaráðherra 21. október 2009 og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2010.
Með bréfi 16. nóvember 2009, vísaði ríkissaksóknari til dómsins, kröfu varnaraðila X, kt. [...],[...], um að fá úrskurð um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi vegna ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins, 21. október 2009, um framsal hans til Póllands.
Sóknaraðili, krefst þess að staðfest verði ákvörðun dómsmálaráðuneytis frá 21. október 2009, um að framselja X til Póllands.
Varnaraðila krefst þess að fyrrgreind ákvörðun dómsmálaráðuneytis verði felld úr gildi. Þá er krafist málsvarnarlauna úr hendi ríkissjóðs.
Málið var þingfest 24. nóvember 2009 og tekið til úrskurðar 29. janúar 2010. Þann 3. mars 2010 var málið endurupptekið að ósk réttargæslumanns varnaraðila til framlagningar á viðurkenningu brotaþola í Póllandi á að hún hafi fengið greiddar skaðabætur vegna fjártjóns sem hún varð fyrir af fjármunabroti varnaraðila. Fulltrúi ríkissaksóknara upplýsti af því tilefni að pólska dómsmálaráðuneytið héldi fast við framsalskröfu sína. Málið var tekið til úrskurðar á ný sama dag.
I.
Í bréfi ríkissaksóknara kemur fram að embættinu hafi með bréfi 7. júlí 2009, borist beiðni pólskra dómsyfirvalda um framsal varnaraðila til Póllands til fullnustu 7 mánaða langs fangelsisdóms. Varnaraðili sé pólskur ríkisborgari með lögheimili að [...]. Samkvæmt gögnum sem hafi fylgt framsalsbeiðninni, dags. 23. desember 2008, sé hún til fullnustu refsidóms héraðsdómstóls í Pleszew frá 31. mars 2005. Með dóminum hafi varnaraðili verið sakfelldur fyrir fjársvik, en það sé brot gegn 1. mgr. 286. gr. pólskra hegningarlaga. Brot varnaraðila hafi falist í að hafa, þann 26. mars 2004, í Dobrzyca-fylki, í starfsemi eigin fyrirtækis, í þeim tilgangi að ná fjárhagslegum ávinningi, fengið nafngreinda konu til þess að greiða sér fyrirfram 4.500 PLN til kaupa á efni til uppsetningar á hitakerfi og hafa síðan hvorki keypt efnið né endurgreitt upphæðina. Hafi hann verið dæmdur í 7 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, sekt að fjárhæð 50 PLN og til þess að greiða brotaþola bætur að fjárhæð 4.500 PLN innan 6 mánaða. Með ákvörðun sama héraðsdómstóls frá 29. nóvember 2005 hafi, með vísan til 2. mgr. 75. gr. pólskra hegningarlaga, verið kveðið á um að varnaraðili skyldi afplána fangelsisrefsingu samkvæmt dóminum, þar sem hann hafði ekki greitt bæturnar til brotaþola innan hins 6 mánaða langa frests, yfirgefið heimili sitt og þannig komið sér undan skyldu sinni.
Varnaraðila hafi formlega verið kynnt framsalsbeiðnin þann 6. október 2009 hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Hafi hann kannast við að framsalsbeiðnin ætti við hann. Hann hafi þó mótmælt framsalsbeiðninni. Ríkissaksóknari hafi sent dómsmálaráðuneytinu umsögn, dags. 19. október 2009, þess efnis að skilyrði framsals teldust uppfyllt, sbr. einkum 3., 9. og 12. gr. laga nr. 13/1984. Þann 21. október hafi dómsmálaráðuneytið fallist á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sbr. 17. gr. laga nr. 13/1984. Í ákvörðuninni sé tekið fram að persónulegar aðstæður varnaraðila teljist ekki nægilegar til að synja um framsal til Póllands á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi kynnt varnaraðila ákvörðun dómsmálaráðuneytisins þann 29. október 2009. Með símbréfi, sem hafi borist ríkissaksóknara sama dag, hafi varnaraðili krafist úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi, sbr. 14. gr. laga nr. 13/1984.
Af hálfu varnaraðila var ekki lögð fram greinargerð. Við munnlegan málflutning gerði réttargæslumaður varnaraðila þá kröfu að ákvörðun dómsmálaráðuneytis um framsal hans verði felld úr gildi.
Niðurstaða:
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þær upplýsingar og gögn sem kveðið er á um í 12. gr. laganna að fylgja skuli framsalsbeiðni eru öll til staðar í máli þessu, þar á meðal endurrit dómsins sem fullnusta á, sbr. 4. mgr. 12. gr. laganna.
Endurrit dóms, ákvörðun héraðsdómstóls í Pleszew þess efnis að varnaraðili hafi brotið skilorð og skuli sitja af sér 7 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm, þýðing á hegningalagaákvæðum sem varnaraðili var dæmdur fyrir brot á og lýsing á varnaraðila, voru lögð fyrir dóminn í norskri þýðingu. Þar sem dómari taldi sér fært að skilja og þýða þessi skjöl gerði hann ekki athugasemdir við það, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 80/2008 um meðferð sakamála.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni því aðeins heimilt ef verknaður, eða sambærilegur verknaður, getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Brot þau sem varnaraðili hefur verið sakfelldur fyrir eru talin varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem refsing getur varðað allt að 6 ára fangelsi. Skilyrði 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal varnaraðila eru því uppfyllt. Fangelsisrefsing er ekki fallin niður, sbr. 83. gr. almennra hegningarlaga og eru því einnig uppfyllt skilyrði 1. og 3. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984 um framsal.
Í hinni kærðu ákvörðun dómsmálaráðuneytis, dags. 21. október 2009, þar sem fallist er á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila til Póllands, er fjallað um hvort mannúðarástæður mæli gegn framsali. Vísað er til 7. gr. laga nr. 13/1984 sem hljóðar svo: ,,Í sérstökum tilfellum má synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður.”
Þá er í ákvörðun dómsmálaráðherra vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 116/2009 varðandi þau sjónarmið sem vegast á við mat á því hvort hafna skuli kröfu um framsal á grundvelli 7. gr. framsalslaga nr. 13/1984. Sjónarmiðin séu, annars vegar, eðlilegir hagsmunir pólska ríkisins af því að fá varnaraðila framseldan og mikilvægi þess að ekki sé grafið undan framsalskerfinu sem sé hluti af alþjóðlegu samstarfi á sviði brotamála. Vísað er til athugasemda með ákvæðinu í frumvarpi því er síðar varð að lögum og sagt að við mat á því hve mikilvægir hagsmunir pólska ríkisins séu á því að krafa um framsal nái fram að ganga, ráði meðal annars grófleiki afbrotsins og hversu langt sé um liðið síðan það var framið. Hins vegar séu mannúðarástæður sem séu aldur, heilsufar og persónulegar aðstæður.
Í ákvörðuninni segir: ,,Af hálfu varnaraðila hafa ekki verið sérstaklega lögð fram gögn varðandi persónulegar aðstæður hans. Við skýrslutöku hjá lögreglu þann 7. október s.l. kom hinsvegar fram að varnaraðili hefur búið hér á landi í um það bil 5 ár, hann á hér unnustu og hefur fasta atvinnu. Í Póllandi á hann tvo syni á unglingsaldri.“ Þá segir í ákvörðuninni að ofangreindar aðstæður varnaraðila geti ekki, að mati ráðuneytisins, talist nægilegar til að synja um framsal til Póllands. Vísað er til þess að 7. gr. framsalslaga sé undantekningarákvæði sem eðli málsins samkvæmt beri, og hafi í framkvæmd verið túlkað þröngt. Varnaraðili sé pólskur ríkisborgari sem dæmdur hafi verið fyrir refsiverð brot í sínu upprunalandi án þess að afplána refsingu sína. Þá hafi pólsk yfirvöld metið það svo að þau hafi hagsmuni af því að fá varnaraðila framseldan.
Ekki verður annað séð en að þessi atriði hafi verið metin með réttum og málefnalegum hætti af hálfu dómsmálaráðherra þegar ákvörðun um framsal var tekin þann 21. október 2009. Á hitt ber hins vegar að líta að fyrir dómi hafa aðilar staðfest að hin einkaréttarlega krafa, skaðabætur til brotaþola að fjárhæð 4.500 PLN, hefur nú verið greidd af hálfu varnaraðila, eftir að ákvörðun dómsmálaráðherra um að framselja hann til upprunalands síns Póllands var tekin.
Ákvörðun um framsal er stjórnvaldsákvörðun sem varðar mikilsverð réttindi einstaklings er varðar frelsi hans og friðhelgi. Ein af grundvallarreglum stjórnsýslu-réttarins er meðalhófsreglan, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Felur hún í sér að stjórnvöld verða að gæta hófs í meðferð valds síns, eða eins og segir í athugasemdum með frumvarpi til stjórnsýslulaga: ,,Er stjórnvaldi því ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess stefnir að, heldur ber því einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga sem athafnir stjórnvaldsins og valdbeiting beinist að. Ber stjórnvaldi að fara ákveðinn milliveg á milli þeirra andstæðu sjónarmiða.“
Í máli þessu hafa pólsk dómsmálayfirvöld krafist framsals á 53 ára manni sem fyrir 6 árum gerðist sekur um fjármunabrot, til að hann afpláni 7 mánaða fangelsisvist vegna þess að hann hafði ekki greitt einkaréttarlega kröfu, skaðabætur, sem hann var dæmdur til. Fram hefur komið að varnaraðili hefur stofnað hér heimili og stundað atvinnu í sinni iðngrein, pípulögnum. Hann hefur hreinan sakarferil hér á landi og hefur aðlagast íslensku samfélagi. Í samræmi við meðalhófsreglu íslensks stjórnsýsluréttar ber að vega þessar persónulegu aðstæður á móti aldri og grófleika brotsins annars vegar og þyngd refsingar hins vegar. Refsing varnaraðila í Póllandi telst þung á íslenskan mælikvarða, einkum í ljósi þess að hann hefur innt greiðsluskyldu sína af hendi. Þessar aðstæður eru meðal þeirra sjónarmiða sem dómurinn vegur nú saman við sjónarmið um hagsmuni pólska ríkisins af því að fá varnaraðila framseldan og að ekki sé grafið undan framsalskerfinu. Að öllu framangreindu virtu, verður að telja ósamrýmanlegt meðalhófsreglu íslensks stjórnsýsluréttar að framselja varnaraðila til Póllands.
Ákvörðun dómsmálaráðherra 21. október 2009 um framsal X til Póllands er felld úr gildi.
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist allur sakarkostnaður málsins úr ríkissjóði. Þóknun verjanda varnaraðila, Jóns Höskuldssonar, hæstaréttarlögmanns, þykir hæfilega ákveðin 256.000 krónur með virðisaukaskatti.
Unnur Gunnarsdóttir, settur héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun dómsmálaráðherra frá 21. október 2009, um að framselja varnaraðila, X til Póllands er ógilt.
Þóknun verjanda varnaraðila Jóns Höskuldssonar, hæstaréttarlögmanns, 256.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.