Hæstiréttur íslands

Mál nr. 434/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Afhending gagna
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. nóvember 2004.

Nr. 434/2004.

A

(Hjördís E. Harðardóttir hdl.)

gegn

B

C

D og

E

(enginn)

 

Kærumál. Dánarbússkipti. Erfðaskrá. Afhending gagna. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

 

Deilt var um réttmæti tilkalls til arfs eftir X á grundvelli erfðaskrár hans. Var úrskurður héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar þar sem ekki höfðu verið lagðar fram greinargerðir þar sem fram kæmu til fullnaðar kröfur aðila um ágreiningsatriðið, sbr. 1. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. október 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að landlækni yrði gert að láta af hendi nánar tiltekin gögn varðandi andlegt heilsufar X. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins gerði X erfðaskrá 11. apríl 2000, þar sem kveðið var á um það eitt að varnaraðilar skyldu erfa allar eigur hans að jöfnu. Erfðaskráin var undirrituð í viðurvist lögbókanda í Reykjavík, sem færði á hana áritun um að X hafi komið á fund hans og greint frá ætlun sinni að gera erfðaskrá, sannað á sér deili, undirritað hana af fúsum og frjálsum vilja og kveðið hana hafa vilja sinn að geyma. X lést 30. desember 2002 og fengu varnaraðilar leyfi sýslumannsins í Reykjavík 21. janúar 2003 til einkaskipta á dánarbúinu. Var leyfi þetta veitt á grundvelli erfðaskrárinnar. Fram er komið í málinu að lögerfingjar eftir X séu 40 talsins og er ýmist um að ræða eftirlifandi systkin hans eða niðja látinna systkina. Hluti þessara lögerfingja, þar á meðal sóknaraðili, gerði kröfu 4. febrúar 2004 til Héraðsdóms Reykjavíkur um að dánarbúið yrði tekið til opinberra skipta, en áður höfðu þeir tilkynnt sýslumanni 2. apríl 2003 að þeir vefengdu erfðaskrána, sem varnaraðilar reistu á arfstilkall sitt. Krafan um opinber skipti var rökstudd með því að X hafi ekki verið svo heill heilsu andlega við gerð erfðaskrárinnar að hann hafi verið fær um að gera hana á skynsamlegan hátt. Þá var einnig vísað til þess að í vottorði lögbókanda á erfðaskránni hafi einskis verið getið um andlegt hæfi X til þessarar ráðstöfunar. Fallist var á kröfu þessa með úrskurði héraðsdóms 23. apríl 2004. Á skiptafundi, sem haldinn var í dánarbúinu 19. maí sama ár, ítrekuðu umræddir lögerfingjar að þeir vefengdu erfðaskrána, en varnaraðilar héldu arfstilkalli sínu til streitu. Vegna þessa beindi skiptastjóri framkomnu ágreiningsefni til héraðsdóms 26. maí 2004, en í tilkynningu hans um þetta var sóknaraðili einn nafngreindur sem lögerfingi, sem héldi uppi andmælum gegn bréferfðarétti varnaraðila. Var mál milli aðilanna þingfest af þessu tilefni í héraðsdómi 11. júní 2004. Sóknaraðili lagði fram greinargerð á dómþingi 25. sama mánaðar. Sagði þar að í málinu krefðist hann „úrskurðar um skyldu Landlæknisembættisins ... um að afhenda fyrir dómi öll heilsufarsgögn, þ.m.t. sjúkraskýrslur, læknisvottorð, hjúkrunarskýrslur, dagála, öldrunarmat svo og önnur gögn sem embættið hefur undir höndum, og/eða Grund, elli- og hjúkrunarheimili, ... og varða andlegt heilsufar X og hæfi hans til að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá á skynsamlegan hátt, en umrædd erfðaskrá var gerð þann 11. apríl árið 2000.“ Í greinargerð varnaraðila, sem lögð var fram 5. júlí 2004, var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að þessari kröfu yrði hafnað. Tók héraðsdómari varakröfu varnaraðila til greina með hinum kærða úrskurði.

Eins og áður greinir beindi skiptastjóri í dánarbúi X til héraðsdóms ágreiningi, sem komið hafði upp við opinber skipti á því, um réttmæti tilkalls varnaraðila til arfs eftir þann látna á grundvelli erfðaskrár hans. Var þetta réttilega gert á grundvelli 122. gr., sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 20/1991. Í máli, sem rekið yrði af þessu tilefni eftir ákvæðum XVII. kafla sömu laga, bar sóknaraðila og því næst varnaraðilum að skila greinargerðum, þar sem fram kæmu til fullnaðar kröfur þeirra um efni málsins, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 130. gr. laganna. Í stað þess að hlíta þessum reglum með því að leggja fram greinargerðir um ágreiningsatriðið, sem skiptastjóri vísaði til héraðsdóms til úrlausnar, tóku greinargerðir aðilanna til þess eins hvort vörslumanni gagna um heilsufar þess látna á þeim tíma, sem hann gerði umdeildu erfðaskrána, bæri að láta þau af hendi. Slíkt atriði hefði getað komið til úrlausnar undir rekstri máls um erfðaréttindi eftir þann látna, eftir atvikum í tengslum við kröfu málsaðila samkvæmt 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, en engan veginn í því horfi, sem það hefur hér verið gert. Af þessum sökum verður sjálfkrafa að ómerkja hinn kærða úrskurð og meðferð málsins fyrir héraðsdómi frá og með þinghaldi 25. júní 2004 og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og meðferð málsins frá og með þinghaldi 25. júní 2004. Er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2004.

             Með bréfi skiptastjóra dánarbús X, dagsettu 26. maí 2004, var skotið til dómsins ágreiningi milli lögerfingja hins látna og bréferfingja um gildi erfðaskrár er hinn látni hafði gert.  Í þessum þætti er til úrlausnar krafa sóknaraðila, sem er bróðursonur hins látna og einn lögerfingja, um aðgang að gögnum um heilsufar hins látna.  Málið var tekið til úrskurðar 15. september sl. 

             Sóknaraðili, A krefst úrskurðar um skyldu Landlæknis til að afhenda fyrir dómi öll heilsufarsgögn, þ.m.t. sjúkraskýrslur, læknisvottorð, hjúkrunarskýrslur, dagála, öldrunarmat, svo og önnur gögn sem embættið hefur undir höndum, og Grund, elli- og hjúkrunarheimili, og varða andlegt heilsufar X og hæfi hans til að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá á skynsamlegan hátt.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.

             Varnaraðilar eru erfingjar samkvæmt umræddri erfðaskrá.  Þau eru B, C, D, og E.  Í þessum þætti krefjast varnaraðilar þess að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi, til vara að kröfum hans verði hafnað.  Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

 

             Umrædd erfðaskrá var gerð 11. apríl 2000. X bjó þá á Grund, en hann lést þar [...] desember 2002.  Sóknaraðili kveðst telja að X hafi á þeim tíma verið ófær um að gera erfðaskrá.  Vísar hann til 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962 í því efni.  Þá vísar hann til þess að ekki sé getið um hæfi arfleifanda í vottorði lögbókanda.  Erindum sínum um aðgang að þessum gögnum hafi verið hafnað bæði af elli- og hjúkrunarheimilinu Grund og Landlækni.  

             Sóknaraðili segir að sjúkragögn um andlega heilsu arfleifanda séu nauðsynleg sönnunargögn í máli þessu, þar sem meta þurfi hæfi hans til ráðstöfunar með erfðaskrá.  Engin skrifleg gögn séu aðgengileg og því verði ekki fullyrt að gögn sem Landlæknir hafi undir höndum séu þýðingarlaus um úrlausn ágreinings aðila. 

             Sóknaraðili kveðst byggja á því að í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 74/1997 sé gert ráð fyrir því að aðrir en sjúklingur sjálfur hafi aðgang að sjúkraskrá.  Skylt sé að sýna sjúkraská sjúklingi eða umboðsmanni hans.  Ekki sé tekið fram að nánustu aðstandendur, t.d. lögerfingjar, njóti sama réttar og umboðsmaður, en sóknaraðili telur að margt mæli með því, t.d. 12. gr. sömu laga. 

             Sóknaraðili vísar einnig til 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.  Ákvæði þetta hafi verið skýrt svo af Úrskurðarnefnd um upplýsingamál að það taki ekki aðeins til þeirra tilvika að upplýsingar eru um viðkomandi, heldur einnig til þeirra tilvika að viðkomandi hafi einstaklingsbundna hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnum.  Sóknaraðili hafi ótvírætt hagsmuni af því í þessu tilviki að fá aðgang að gögnum um heilsufar hins látna. 

             Þá vísar sóknaraðili til 16. gr. læknalaga nr. 53/1988, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 74/1997.  Um heimild dómsins til að úrskurða um skyldu til afhendingar gagna vísar sóknaraðili til 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 131. gr. laga nr. 20/1991. 

 

             Varnaraðilar segja kröfugerð sóknaraðila mjög víðtæka og að hún sé langt umfram tilefni.  Ekki sé ljóst hvað átt sé við með öllum heilsufarsgögnum eða hvaða tímabil þau skuli ná til.  Ekki sé ástæða til að heimila frekari aðgang en til að upplýsa um heilsufar X heitins í apríl 2000.  Þar sem krafan sé mun víðtækari beri að vísa henni frá dómi. 

             Varnaraðilar benda á að ekki liggi neitt fyrir sem styðji það að X hafi ekki verið fullfær um að gera erfðaskrá.  Erfðaskráin hafi verið gerð hjá lögbókanda sem votti að X hafi gert hana af fúsum og frjálsum vilja.  Í þessari vottun liggi mat lögbókanda um hæfi X til að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá.  Þar sem ekki neitt sé til staðar sem bendi til andlegs vanhæfis sé engin ástæða til að heimila leit í sjúkraskrám. 

             Persónuvernd gildi einnig um látna menn og sjúkragögn megi ekki afhenda án skýrrar lagaheimildar. 

             Varnaraðilar mótmæla skilningi sóknaraðila á 2. mgr. 14. gr. laga nr. 74/1997.  Í því ákvæði sé ekki önnur undantekning en sú að maður með umboð frá sjúklingi geti haft aðgang að gögnum.  Sóknaraðilar séu ekki umboðsmenn X heitins.  Þá sé ekki unnt að geta sér til um vilja hans til að gera upplýsingar úr sjúkraskrá hans opinberar.  Þá telja varnaraðilar að upplýsingalög og læknalög veiti ekki heimild fyrir kröfum sóknaraðila. 

 

             Forsendur og niðurstaða. 

             Þó komist yrði að þeirri niðurstöðu að kröfugerð sóknaraðila sé óþarflega víðtæk, leiðir það ekki til þess að kröfu þeirra verði vísað frá dómi.  Leyst verður úr því hvort og þá nánar hversu víðtækan aðgang að sjúkragögnum beri að veita. 

             Það er meginregla í íslenskum rétti að öllum sem upplýst geta atvik sem máli skipta við úrlausn ágreiningsefna fyrir dómstólum er skylt að koma fyrir dóm og gefa skýrslu um vitneskju sína, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991.  Í 5. mgr. sömu greinar er mælt fyrir um skyldu til að sýna gögn. 

             Um þær upplýsingar sem sóknaraðilar leita eftir í þessu máli gilda sérstakar reglur í lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og læknalögum nr. 53/1988.  Þannig er í 12. gr. laga um réttindi sjúklinga lögð þagnarskylda á starfsmenn í heilbrigðisþjónustu um allt það er þeir komast að í starfi sínu um heilsufar sjúklings.  Þagnarskylda er lögð á lækna sérstaklega í 1. mgr. 15. gr. læknalaga og hvílir sú skylda einnig á öðrum heilbrigðisstéttum og þeim sem vinna með lækni, sbr. 6. mgr. 

             Í 14. gr. laga nr. 74/1997 er fjallað um aðgang að sjúkraskrá.  Samkvæmt því skal veita sjúklingi eða umboðsmanni hans aðgang að skránni.  Aðilar máls þessa eru ekki umboðsmenn X heitins þannig að heimildar til aðgangs að gögnum geta þau ekki leitað í þessu ákvæði.  Þá á hvorki undanþáguákvæði 13. gr. né lokamálsliður 12. gr. laganna við.  Ákvæði 15. gr. læknalaga verður að skýra á sama veg að því er efni þessa máls varðar.  Loks verður heimildar til að veita sóknaraðilum aðgang að sjúkraskýrslum um X heitinn ekki leitað í upplýsingalögum nr. 50/1996. 

             Sóknaraðili hefur fjárhagslega hagsmuni af því hvernig lyktar ágreiningi um arftöku úr dánarbúinu.  Þessir fjárhagslegu hagsmunir hans leiða þó ekki til þess að honum verði veittur aðgangur að upplýsingum úr sjúkraskrám, enda stendur ekki heimild í settum lögum til þess.  Verður  að hafna kröfum hans. 

             Málskostnaður verður ekki ákveðinn í þessum þætti málsins. 

             Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

             Kröfum sóknaraðila um afhendingu heilsufarsgagna er hafnað.

             Málskostnaður fellur niður.