Hæstiréttur íslands

Mál nr. 437/2009


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Matsgerð
  • Gjafsókn


                                                        

Miðvikudaginn 21. apríl 2010.

Nr. 437/2009.

Tryggingamiðstöðin hf.

Hópbílar hf. og

Lýsing hf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

gegn

Eiríki Mikkaelssyni

(Valgeir Kristinsson hrl.)

og gagnsök

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Matsgerð. Gjafsókn.

E krafðist skaðabóta úr hendi T, H og L vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi. Ágreiningur aðila laut að ákvörðun um fjárhæð skaðabóta fyrir varanlega örorku af völdum slyssins. E hafði fengið bætur fyrir varanlega örorku ákveðnar og greiddar á grundvelli 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem árslaun hans, samkvæmt skattframtölum síðustu þriggja ára fyrir slysdag, voru lægri en þau lágmarksviðmið er þar greinir. H taldi hins vegar að árstekjurnar, eins og þær væru tíundaðar í skattframtölum, gæfu ekki rétta mynd af þeim tekjum sem hann hefði „skapað á síðustu þremur árum fyrir slysið“. Hann hefði í fjölda mörg ár fyrir slysið unnið þýðingamikla og verðmæta hugvitsvinnu sem uppfinningamaður, en verðmæti þessarar vinnu kæmi ekki fram í skattframtölum. Taldi E að taka þyrfti mið af þessu og meta árslaun hans í skilningi 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sérstaklega með heimild í  2. mgr. sömu greinar. Að hans beiðni var dómkvaddur matsmaður í því skyni. Í málinu lá fyrir að E hafði ekki haft beinar tekjur af hugvitsvinnu eða framleiðslu, að öðru leyti en laun frá vélsmiðju sem framleitt hafði um langt skeið eina af uppfinningum hans. Hæstiréttur taldi að matsgerð dómkvadds matsmanns tæki ekki mið af raunverulegum tekjum E og ekki af því hvert hlutfall uppfinninga hans hefði farið í framleiðslu. Matsgerðin væri því ekki til sönnunar um að E hefði launatekjur af uppfinningum sínum. Samkvæmt þessu var ekki talið sannað að aðstæður E á umræddu tímabili hefðu verið svo óvenjulegar að árstekjur hans, eins og þær voru tilgreindar á skattframtölum, væru ekki líklegur mælikvarði á framtíðartekjur hans. Voru T, H og L því sýknuð af kröfu E.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 4. ágúst 2009. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þeir lækkunar kröfunnar, hún beri 4,5% ársvexti frá 31. desember 2003 til dómsuppsögudags í Hæstarétti og dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og að málskostnaður falli niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 28. ágúst 2009 og krefst þess nú aðallega að aðaláfrýjendur verði sameiginlega dæmdir til að greiða sér 38.642.694 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 1. júlí 2003 til 22. desember 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum 2.802.918 krónum, sem sé eingreiðsluverðmæti bóta úr almannatryggingum og frá lífeyrissjóði, og 4.636.256 krónum sem greiddar hafi verið 13. október 2008. Til vara krefst hann lægri fjárhæðar úr hendi aðaláfrýjenda. Þá krefst hann staðfestingar á málskostnaðarákvörðun héraðsdóms og að aðaláfrýjendum verði sameiginlega gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

I

Ágreiningslaust er að gagnáfrýjandi hefur fengið bætt tímabundið tjón sitt vegna líkamstjóns er hann varð fyrir í umferðarslysi 1. júlí 2002, svo og bætur fyrir varanlegan miska, sem metinn var til 35 stiga. Ekki er ágreiningur með málsaðilum um að varanleg örorka gagnáfrýjanda vegna líkamstjónsins sé 60%. Ágreiningur þeirra snýst um tvö atriði, sem bæði tengjast ákvörðun á fjárhæð skaðabóta fyrir hina metnu varanlegu örorku. Annars vegar deila þeir um, hvort leggja beri til grundvallar lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða hvort ákvarða beri árslaun sérstaklega samkvæmt heimild í 2. mgr. sömu greinar. Hins vegar, ef árslaun verða ákveðin sérstaklega að kröfu gagnáfrýjanda, er deilt um hvort hann þurfi að una því að árslaun takmarkist af fyrirmælum 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um hámarksárslaun.

II

Árslaun gagnáfrýjanda, svo sem þau koma fram á skattframtölum hans fyrir síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysið, eru undir þeim lágmarksárslaunum sem tilgreind eru í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Telja aðaláfrýjendur að miða beri árslaun hans við lágmarksárslaun og hefur gagnáfrýjandi fengið greiddar skaðabætur fyrir varanlega örorku sína vegna slyssins, sem ákveðnar voru á þeim grundvelli. Hefur hann lýst því yfir fyrir Hæstarétti að ekki sé ágreiningur um að bætur séu að fullu greiddar ef fallist verði á sjónarmið aðaláfrýjenda um árslaunaviðmiðun.

Eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi telur gagnáfrýjandi að árstekjur, eins og þær eru tíundaðar á skattframtölum hans, gefi ekki rétta mynd af raunverulegum árstekjum sem hann ,,hafði skapað á síðustu þremur árum fyrir slysið“. Gagnáfrýjandi kveðst í fjölda mörg ár fyrir slysið hafa unnið þýðingarmikla og verðmæta hugvitsvinnu sem uppfinningarmaður. Hann hafi aflað sér viðurkenninga og verðlauna á því sviði. Verðmæti þessarar vinnu komi ekki fram í skattframtölum. Í málinu liggja fyrir upplýsingar um fjölda tækja til nota í landbúnaði, sem gagnáfrýjandi kveðst hafa fundið upp og hannað og einnig liggja fyrir upplýsingar um að vélsmiðjan Vélaboði ehf., sem hann er meðeigandi að, hafi um langt skeið framleitt landbúnaðartæki, sem fundið hafi verið upp og hannað af gagnáfrýjanda. Gagnáfrýjandi telur að árslaun hans í skilningi 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi að meta sérstaklega samkvæmt 2. mgr. sömu greinar þannig að metið verði verðmæti þeirrar vinnu, sem hann hafi lagt fram til uppfinninga og hönnunar á síðustu þremur almanaksárum fyrir slysið. Að beiðni hans var dómkvaddur maður til þess að meta árslaunin sérstaklega og skyldi hann eftir athugun á skýrslum um hugvitsstörf gagnáfrýjanda leggja mat á ,,verðmæti sköpunarvinnu hans á síðustu þremur árunum fyrir slysið umreiknað til árslauna síðustu þrjú árin fyrir slysdag. Matsmaður meti verðmæti og upphæð árslauna miðað við ætlað vinnuframlag, verðmæti vinnunnar og viðskiptaverðmæti þeirra tækja sem matsbeiðandi skapaði.“

Í matsgerð hins dómkvadda manns er gerð grein fyrir því að einkum séu tveir kostir við mat á verðmæti vinnuframlags gagnáfrýjanda. Annars vegar að meta fjölda vinnustunda, sem til uppfinninga og hönnunar á þeim hefur farið, en hins vegar að meta markaðsverðmæti uppfinninga, miðað við að ákveðið hlutfall þeirra fari í framleiðslu og sölu á markaði. Telur matsmaðurinn að síðarnefnda leiðin sé sú sem fara beri í tilviki gagnáfrýjanda og kemst að þeirri niðurstöðu að árslaun væru 12.000.000 krónur ef þau yrðu ákveðin sérstaklega á þeim forsendum. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti lagði gagnáfrýjandi fram skjal, unnið af þeim manni sem dómkvaddur var, er fól í sér breytingu á tilteknum forsendum matsgerðarinnar og breytingar á útreikningum, sem af þessu leiddi. Skjalið er lagt fram að liðnum þeim fresti sem tilgreindur er til að ljúka gagnaöflun fyrir Hæstarétti í 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, án þess að skilyrði ákvæðisins til slíkrar skjalaframlagningar séu fyrir hendi. Verður því ekki litið til skjalsins við úrlausn málsins.

Gagnáfrýjandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðbótalaga um að fyrir hendi séu óvenjulegar aðstæður sem valdi því að lágmarksárslaun 3. mgr. sömu greinar séu ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans. Hann hefur freistað þess að færa sönnur á þetta með áðurnefndri matsgerð. Upplýst er að gagnáfrýjandi hefur til fjölda ára gefið sig að uppfinningum og hönnun á tækjum sem ætluð eru til nota við landbúnað. Hann hafi fyrst unnið til verðlauna fyrir slíka hugvitsvinnu á árinu 1989 og fengið fjölda viðurkenninga og jákvæðra umsagna síðan. Er fjölda uppfinninga og hönnunar á þeim lýst í málatilbúnaði gagnáfrýjanda.

Þótt ekki verði efast um að gagnáfrýjandi hafi lagt mikla vinnu og kunnáttu í uppfinningar og hönnun þeirra tækja sem um ræðir og frekari vinna við þessi hugverk hans gæti skapað tekjur til frambúðar, liggur fyrir að hann hefur ekki haft beinar tekjur af uppfinningum sínum, hönnun þeirra eða framleiðslu að öðru leyti en því að hann hefur haft laun frá Vélboða ehf. sem framleitt hefur meðal annars mykjudreifara sem gagnáfrýjandi hefur fundið upp. Matsgerð dómkvadds manns, sem áður greinir, er ekki að neinu leyti reist á slíkum upplýsingum og getur því ekki verið sönnun um áhrif hugverka gagnáfrýjanda og hönnunar á þeim á árstekjur hans. Gagnáfrýjandi hefur samkvæmt þessu ekki sannað að aðstæður hans síðustu þrjú almanaksár fyrir slys hafi verið svo óvenjulegar að árstekjur hans, eins og þær eru tilgreindar á skattframtölum, séu ekki líklegur mælikvarði á framtíðartekjur hans. Ber því að sýkna aðaláfrýjendur af kröfu gagnáfrýjanda.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda verður staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir. Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði. 

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Tryggingamiðstöðin hf., Hópbílar hf. og Lýsing hf., skulu vera sýknir af kröfu gagnáfrýjanda, Eiríks Mikkaelssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans á báðum dómstigum, samtals 1.500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.        

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. maí sl., er höfðað með stefnu birtri 27. desember 2007.

Stefnandi er Eiríkur Mikkaelsson, Foldasmára 11, Kópavogi.

Stefndu eru Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti, Reykjavík, Hópbílar hf. og Lýsing hf. Suðurlandsbraut 22, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða honum  54.425.740 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga númer 50/1993 af frá 1. júlí 2003 til 22. desember 2007 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6.gr. laga um vexti og verðtryggingu númer 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum kr. 2.802.918 (eingreiðsluverðmæti bóta úr almannatryggingum og lífeyrissjóði) og kr. 3.755.270 + vextir kr. 880.986 sem greitt var 13. 10. 2008.

Til vara er gerð krafa um lægri skaðabætur að mati dómsins.

Þá er gerð krafa um málskostnað in soldium úr hendi stefndu allt að frádregnum kr. 375.000 hinn 31. mars 2008 og kr.  299.920 hinn 13. október 2008 eða samtals 674.920 krónum sem stefndi Tryggingamiðstöðin hf. greiddi stefnanda. Stefnandi sem fékk gjafsóknarleyfi 29. júní 2007 til reksturs þessa máls gerir þá dómkröfu að málskostnaður verði tildæmdur gjafsóknarhafa eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefndu eru aðallega þær, að stefndu verði sýknaðir af kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

Til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og málskostnaður verði látinn niður falla. Ef bætur verði að einhverju leyti tildæmdar er þess krafist að þær beri 4,5% ársvexti frá 31. desember 2003 til endanlegs dómsuppsögudags, en frá þeim degi til greiðsludags er fallist á að tildæmd bótafjárhæð beri dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

MÁLAVEXTIR, MÁLSÁSTÆÐUR OG ÖNNUR ATVIK  

Stefnandi varð fyrir umferðarslysi hinn 1. júlí 2002 á gatnamótum Brekkutraðar og Eyrartraðar í Hafnarfirði er strætisvagni, skráð númer YO-237, var ekið inn í hlið bíls hans vinstra megin. Við áreksturinn hlaut stefnandi mar á brjóstkassa, hálstognun og mögulegan heilahristing að því er fram kemur í vottorði Leifs Jónssonar læknis á slysadeild Landspítalans. Segir síðan í vottorðinu að við endurkomu á göngudeild hafi komið fram að stefnandi var járnsmiður að atvinnu og vann í smiðju í Hafnarfirði. Hann kvaðst ekkert hafa unnið frá slysi enda illa haldinn. Hann hafði ýmis heilahristings einkenni svo og höfuðeinkenni frá vöðvafestum í hnakka, með dofatilfinningu fram í höfuð, einkum frá augum vöðvabólgu einkenni eru í hálsi og herðum og allur er hann meira og minna stirður enda fékk hann heilan strætisvagn inn í vinstri hlið bifreiðar sinnar. Vinstri öxl hefur eðlilega hreyfingu, bæði passivt og aktivt, en með miklum verkjum.

Bifreiðin YO-237 var vátryggð hjá Tryggingamiðstöðinni hf. og skráð eign Lýsingar hf. kt. 621101-2420 og meðeigandi skráður Hópbílar ehf. Bifreið stefnanda var vátryggð hjá Sjóvá-Almennum.

Ekki er deilt um bótaskyldu stefndu í máli þessu.

Í málinu hafa verið lögð fram vottorð læknanna Sveinbjörns Brandssonar, Björns Zoega Júlíusar Valssonar og Leifs N. Dungals. Þá liggur frammi matsgerð læknisins Atla Þórs Ólasonar sem dómkvaddur var til þess að leggja mat á afleiðingar slyss stefnanda.

Matsgerð Atla Þórs Ólasonar dr. med er dagsett 8. mars 2005 og er niðurstaða hans svofelld.

1.                Hvenær var heilsufar tjónþola stöðugt?

 Svar.         Stöðugleikatímapunktur 1. 7. 2003.

2.                Hver er tímabundin óvinnufærni tjónþola að hluta eða að öllu leyti á tímabilinu frá því tjón varð og þar til heilsufar var orðið stöðugt?

Svar.          Tímabundið atvinnutjón frá 1.7.2002 til 1.7.2003: 100%

3.                Hvort og þá hversu legni tjónþoli hefur verið veikur þannig að hann teljist eiga rétt til þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga númer 50/1993 allt frá slysdegi og þar til heilsufar var orðið stöðugt. Í þessu sambandi óskast einnig greint á milli þess tíma sem tjónþoli hefur annars vegar verið rúmfastur og hins vegar veikur án þess að vera rúmliggjandi.             

Svar.          Þjáningartími: Rúmfastur tveir dagar. Batnandi án þess aðvera rúmliggjandi, eitt ár, að frádregnum tveimur dögum sem hann var rúmfastur.

4.                Hver er varanlegur miski afvöldum slyssins samkvæmt 1. og 2. málslið 1. mgr. 4.gr. skaðabótalaga samanber töflur um miskastig útgefnum af örorkunefnd samanber 3. mgr. 10. gr. laganna

Svar.          Varanlegur miski 35%.

5.                Hver er varanleg örorka afvöldum slyssins, metin samkvæmt 1.-3. mgr.  5.gr. skaðabótalaganna.

Svar.          Varanleg örorka 60%.

6.                Reiknuð verði væntanleg útgjöld tjónþola vegna sjúkraþjálfunar, lyfja, og annars fyrirsjáanlegs kostnaðar vegna slyssins, reiknað til eingreiðslu.

Svar.          Ekki er gert ráð fyrir útgjöldum vegna sjúkraþjálfunar. Gera má ráð fyrir útgjöldum vegna bólgueyðandi lyfja í litlum mæli.

7.                Matsmaður skoði sjúkrasögu matsþola rækilega með tilliti til þess hvort greint verði milli afleiðinga afvöldum slyssim og hugsanlegra annarra orsaka sem teljist slysinu óviðkomandi.

Svar.          Ofangreindar afleiðingar slyssins blandast ekki saman við atriði úr fyrri sögu, nema sem varða mjóbaksóþægindi,. sem talin eru tengjast að hluta fyrri heilsufarssögu og aðhluta afleiðingum slyssins 1. 7. 2002.

 Þá leitaði stefnandi eftir taugasálfræðilegu áliti dr. Þuríðar J. Jónsdóttur sérfræðings í klíniskri sálfræði, og er matsgerð hennar frá 23. 9. 2003.

 Stefnandi leitaði þessa álita vegna þess að hann kveðst hafa talið minni sitt verulega skert, sjón og heyrn hafi minkað og þá hafi hann búið við sífellda þreytu og úthaldsleysi. Þá hafi skaphöfn breyst. Þess hafi verið óskað að skýrslan tæki á þeim persónuleikabreytingum sem orðið hefðu eða kynnu að hafa orðið og hvaða áhrif og afleiðingar slysið hefði fyrir getu hans til að starfa í framtíðinni og lifa eðlilegu lífi að öðru leyti, þar á meðal til að njóta frístunda. Í skýrsla Þuríðar segir m.a:

„Þegar dregnar eru saman upplýsingar úr ofangreindum heimildum, lýsing Eiríks Mikkaelssonar og eiginkonu hans á ástandi hans í dag og taugasálfræðilegar niðurstöður, hafa að mati undirritaðrar komið fram óyggjandi vísbendingar um að Eiríkur hafi hlotið vægan til meðalalvarlegan heilaskaða í því slysi sem hér hefur verið til umræðu. Lýsing á ástandi Eiríks á slysstað og eftir komu hans á slysadeild bendir til þess að hann hafi hlotið heilaskaða í slysinu við höfuðhöggið. Hann var reikull. vankaður, hafði hugsanlega misst meðvitund því að hann sagði undirritaðri að hann hefði "rotast" var óminnugur á tímann bæði fyrir og eftir slysið (post traumatisk amnesia) og mundi ekki almennustu persónuhagi svo sem eigin heimilisfang og símanúmer. Hann fékk strax mikinn höfuðverk og kastaði upp þegar á sjúkrahús var komið.

Taugasálfræðileg einkenni Eiríks eru þríþætt. Þau koma fram sem vitræn skerðing, breyting á skaphöfn og geðslagi og skynræn einkenni sem mörg eða felst gætu bent til truflana eða vefræns skaða í heila og miðtaugakerfi. Taugasálfræðileg einkenni Eiríks er erfitt að staðsetja anatomiskt í heila því um yfirgripsmiklar og dreifðar truflanir er um að ræða. Ég tel þó sterkar líkur á því að dreifður taugasímskaði hafi orðið við slysið og hugsanlega vefrænn skaði í vinstri temporal lobe.

Vitræn skerðing Eiríks birtist einkum í einbeitingarerfiðleikum, margþættri minnisskerðingu sem virðist bæði vera retrogade og anterograde (hefur tapað gamalli þekkingu og á erfitt með að læra nýtt) Tilhneigingu til að geta ekki fylgst með og "detta út" úr samræðum, minnkuðum hæfileika til að leysa flókin verkefni, klaufsku og lélegri samhæfingu. skorti á hugrænum og motoriskum hraða (honum líður eins og hann sé að verða rafmagnslaus) og lélegri ratvísi. Honum er lýst af eiginkonu sinni sem minnislausum, sljóum og utangátta.

Breytingar á skaphöfn og geðslagi koma fram sem kvíði, kjarkleysi, uppgjör honum finnst líf sitt vera búið, sér engan tilgang í því, finnst allt vera flatt framundan, er pirraður, æsti sig út af smámunum (að sögn eiginkonu) og hefur lélega stjórn á skapsmununum. Dofi og tilfinningaleysi vinstra megin í andliti/kinn (fann ekki þegar tár lak úr auga eða munnvatn úr vinstra munnviki) birtuóþol. viðkvæmni fyrir hávaða, hátíðnihljóð inni í höfði aukið næmi eða óþol fyrir kulda, eitthvert heyrnar- og eða sjóntap, klaufska mikil þreyta, drungi yfir höfði náladofi vinstra megin á höfði, brenglun í lyktar- og bragðskyni eru allt þekkt merki um skyntruflanir eða röskun á starfi miðtaugakerfis (og eða úttaugakerfis) af völdum heilaskaða.

Það hefur komi fram í þessari skýrslu að Eiríkur Mikkalesson hefur verið óvinnufær frá og með slysdegi. Þar er ekki á færi undirritaðrar að tjá sig um batahorfur Eiríks hvað líkamsmeiðsl hans varðar.

 Hvað snertir taugasálfræðilegan bata hefur Eiríkur sjálfur bent réttilega á að hann er ekki ungur maður lengur og hann virðist óttast að aldursbundin hrörnun taki við ef einhver bati á sér stað. Slíkt hugarfar ber að mati undirritaðrar merki um þunglyndi og uppgjöf þrátt fyrir að ákveðið raunsæi liggi að baki því.

Sem svar við spurningu lögmanns varðandi getu Eiríks til starfa í framtíðinni og til að lifa eðlilegu lífi og þar á meðal njóta frístunda vill undirrituð svara svo: Þar sem nú eru liðnir 15 mánuðir frá slysinu og eru líkur á ferkari taugasálfræðilegum bata litlar. Mestu framfari eiga sér sem kunnugt er á fyrstu þremur til sex mánuðum eftir slysið. Eiríkur hefur hins vegar margar sterkar hliðar hvað almenna vitræna getu og minni varðar. Stýring framheilans á æðra heilastarfi sem er afar mikilvæg öllum kerfum heilans virðist að mestu í góðu lagi hjá honum. sem og bæði málskilningur og tjáning (undir flestum kringumstæðum) Þetta er þó ekki sagt til að draga úr umfangi eða alvarleik hinna post-traumatisku einkenna (eftirslysaheilkennis) sem eins og fram hefur komið eru líklega orðin varanleg.

Undirrituð telur mikilvægt að Eiríkur fái faglega aðstoð til að ná betri tökum á andlegri og tilfinningalegri líðan sinni. Slíkt mætti reyna með lyfjum og/eða viðtalsmeðferð. Slík meðferð myndi hugsanlega auðvelda honum að aðlagast þeim breytingum og þeirri miklu skerðingu og missi sem hann hefur orðið fyrir. Líkamleg endurhæfing og verkjameðferð væri annar æskilegur valkostur tii að láta honum líða líkamlega betur. Undirrituð telur hins vega afar ólíklegt að Eiríkur eigi eftir að endurheimta starfsgetu sína vegna þeirra margþættu skerðinga sem hann hefur orðið fyrir og sem greint hefur verið frá í þessari skýrslu.“

Stefnandi kveðst hafa haft fremur lágar árstekjur síðustu þrjú árin fyrir slysið en hafi í fjölda mörg ár þar á undan unnið þýðingarmikla og verðmæta hugvitsvinnu sem uppfinningamaður. Hann hafði aflað sér viðurkenninga og verðlauna á því sviði en sú vinna og verðmæti sem hann hefur skapað komi ekki fram í skattframtali manna og þar með ekki hjá stefnanda.

Að óbreyttu hefðu því launatekjur á skattframtali stefnandi ekki gefið rétta mynd af ártekjum þeim sem stefnandi hafði skapað á síðustu þremur árum fyrir slysið en hann var launþegi hjá eigin fyrirtæki og gáfu framtölin því ekki rétta mynd af tekjum hans og því var óskað eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta þennan launaþátt vegna útreiknings á tjóni stefnanda af umferðarslysinu. Það verður að skoðast að skaðinn af slysinu leiðir til þess að stefnandi er vart fær um að vinna skapandi uppfinninga störf.

Þurfta hafi að skoða og meta hæfilegar árstekjur sem stefnandi hefði áunnið sér sem hugvits- og uppfinnningamaður á síðustu þremur almanaksárum fyrir slysið 1. júlí 2002.

Í fjölda ára hafi stefnandi unnið að uppfinningum og aflað sér viðurkenningar og verðlauna á þeim vettvangi og skapað með því grunn að mjög álitlegum og frambærilegum tækjum og búnaði með viðskiptaverðmæti, sem henti til framleiðslu og til sköpunar tekna honum til handa. Eiríkur hafi fyrst unnið til verðlauna árið 1989. Störf hans að þessu leyti hafi því skapað tekjur sem mikilvægt sé að umreikna til árslauna.

Því hafi þess verið beiðst að dómkvaddur yrði matsmaður sem færi yfir fram lagðar skýrslur um hugvitsstörf matsbeiðanda og legði mat á verðmæti sköpunarvinnu hans á síðustu þremur árunum fyrir slysið umreiknað til árslauna síðustu þrjú árin fyrir slysdag. Matsmaður mæti verðmæti og upphæð árslauna miðað við ætlað vinnuframlag, verðmæti vinnunnar og viðskipta verðmæti þeirra tækja sem matsbeiðandi skapaði.

Tilgangur matsbeiðanda með matsgerðinni hafi verið að fá reiknuð út árslaun samkvæmt 2. mgr. 7.gr. skaðabótalaga sem kveði á um að árslaun skulu metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola en laun sem launþegi í starfi hjá öðrum.

Matsgerð Kristjáns Jóhannssonar lektors sem kvaddur var til matsstarfa þessa er dagsett 20. desember 2007. Niðurstaða hans er svofelld: Að öllu framanrituðu virtu telur matsmaður að hæfilegar árstekjur sem matsbeiðandi hafi áunnið sem hugvits- og uppfínningamaður á síðustu þremur almanaksárum fyrir þann 1. júlí 2002, reiknað til árslauna, nemi 12.000.000.

 Krafa stefnanda um bætur vegna varanlegrar örorku byggi á 5-7 gr. skaðabótalaga og mati Atla Ólasonar dr. med. um 60% varanlega örorku. Árslaunaviðmiðun við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku sé meðaltal tekna stefnanda síðastliðinna þriggja almanaksára fyrir slysið að viðbættu 6% framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs og hækkunar launavísitölu til stöðugleikapunkts samanber 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Matsgerð Kristjáns Jóhannssonar gefi hærri niðurstöðu en lágmarks bætur samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eða 12 milljónir króna á ári síðustu þrjú árin fyrir slysið, auk þess hafi launatekjur stefnanda samkvæmt framlögðum skattframtölum numið 814.140 krónum árið 2001, 1.140.558 krónum árið 2002 og árið 2000 793.167 krónum eða samtals 2.747.865 króna eða árlega 915.955 krónur, við bætist 6% framlag í lífeyrissjóð 54.573 krónur eða árlega 970.912 krónur. Þessar fjárhæðir leiðréttar miðað launavísitölu breyti árslaunum 2000 í 1.028.069 krónur, árslaun 2001 verði 950.369 krónur og árslaun 2002 verði 1.278.443 krónur og meðallaun með 6% lífeyrissjósframlagi þessi þrjú ár 1.085.627 krónur. Því teljist meðal árslaun stefnanda þrjú ár fyrir slysið 13.085.627 krónur og örorkutjón 54.425.740 (13.085.626 x 6,932 x 60%). Gerð er krafa um 4,5% árs vexti samkvæmt  16. gr. skaðabótalaga númer 50/1993 af bótum vegna varanlegrar örorku frá upphafsegi metinnar örorku. Dráttarvaxta er krafist frá stefnubirtingardegi.

 Kröfugerð stefnanda sé byggð annars vegar á matsgerð dr. med Atla Þórs Ólasonar um örorku, miska o.fl og einnig á niðurstöðu Kristjáns Jóhannssonar lektors í Háskóla íslands.

Stefnanda telur að meta beri til árslauna hugvitsstörf hans síðustu þrjú árin fyrir slysið og vísast til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga númer 50/1993 sem kveður á um að árslaun skulu metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðatekjur tjónþola en laun sem launþegi í starfi hjá öðrum. Því er þörf á að meta verðmæti sköpunarvinnu stefnanda til árslauna samkvæmt þessari grein.

Hugvits og uppinningastörf stefnanda hafa verið stór þáttur í vinnu hans til margra ára. Hann hafi hlotið margvíslegar viðurkenningar vegna þeirra og matsmaðurinn Kristján Jóhannsson hafi metið skýrslur og verkefni sem stefnandi hafi leyst til árslauna og byggir stefnandi um þetta á rökstuðningi matsmannsins í matsgerð hans. Niðurstaðar hans um að reikna þessa vinnu til kr. 12 milljóna á ári sé síst of há, jafnvel afar lág ef grannt er skoðað.

Stefnandi telur mikilvægt við mat á stöðu Eiríks nú að taka verði tillit til aldurs tjónþola við raunverulegt mat á möguleikum hans til að fá vinnu við sitt hæfi og þá ekki síður afar þröng skilyrði sem starfsskyldur mega innihalda þannig að nánast er ekki til það starf sem hann gæti uppfyllt. Ef haft sé í huga andlegt atgervi tjónþola nú er það ekki raunhæft að ætla að nokkur einasta atvinna standi honum til boða.

Stefnandi hafi engan veginn náð sér eftir slysið og finni daglega til verkja sem versni við allt álag. Hann geti til dæmis ekki borið innkaupapoka úr verslun og út í bíl, hann geti ekki stundað íþróttir eða leiki og búi því við takmarkanir við hugsanleg áhugamál sem maður á hans aldri gæti sinnt.

Stefnandi byggir stefnukröfur á því að 4. mgr. 7.gr. skaðabótalaga um að ekki skuli reikna árslaun nema að hámarki 4.500.000 krónur stangist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og einnig á við mannréttindasáttmála Evrópu um virðingu fyrir eignum, réttindum og mannhelgi, einnig megi telja að brotið sé gegn ákvæðum um mismunun þegna. Því beri að miða skaðabætur vegna örorku til raunverulegra og sannanlegra tekna og verðmætasköpunar eins og fram lögð sönnunargögn bera með sér.

Mál þetta kveðst stefnandi höfða á grundvelli skaðabótalaga númer 50/1993 með síðari breytingum, almennra ólögfestra reglna íslensks réttar um skaðabætur, ákvæði umferðarlaga númer 50/1987, 97. gr. og 88. gr. Um vaxtakröfur vísar stefnandi sérstaklega til 16. gr. skaðabótalaga númer 50/1993 og um dráttarvaxatkröfuna til III. kafla laga um vexti og verðtryggingu númer 38/2001, einnig vísast til 1. mgr. 6. gr. sömu laga..

Kröfur um málskostnað styður stefnandi við l.mgr. 130.gr. sbr. 129 gr. einkum l.tl. e, laga 91/1991. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og gerir kröfu um greiðslu virðisaukaskatts á málflutningsþóknun af skaðleysisjónarmiðum.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNDU.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga gildi sú meginregla að árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. laganna skulu teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum hafi árslaun stefnanda numið 760.560 krónum árið 1999, 793.617 krónum árið 2000 og 814.140 krónum árið 2001. Leiðrétt samkvæmt launavísitölu hafi árslaunin í júlímánuði 2003, er heilsufar stefnanda var orðið stöðugt, numið 999.998 krónum vegna ársins 1999 (760.550 x 239,3/182,0), 978.426 krónum vegna ársins 2000 (793.617 x 239,3/194,1) og 922.024 krónum vegna ársins 2001 (814.140 x 239,3/211,3), eða að meðaltali 966.816 krónum ((999.998 + 978.426 + 922.024) /3). Að viðbættu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs nemi árslaunin samtals 1.024.825 krónum (966.816 x 1,06).

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna skuli ekki miða við lægri árslaun en 1.200.000 krónur þegar í hlut eigi tjónþolar 66 ára og yngri eins og við eigi um stefnanda í máli þessu. Árslaun þessi leiðrétt samkvæmt lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna til þess tímamarks er heilsufar stefnanda var orðið stöðugt, eða til júlí 2003, sbr. 15. gr., nemi 1.637.500 krónum (1.200.000 x 4478/3282). Þar sem árslaun samkvæmt lágmarki þessu séu hærri en meðaltal uppreiknaðra árslauna síðustu þrjú almanaksár fyrir slys, sbr. 1. mgr. 7. gr., beri að miða við þau við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku stefnanda.

Tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku reiknast út á því tímamarki sem upphaf örorkunnar miðast við, þ. e. 1. júlí 2003, þegar heilsufar hans var orðið stöðugt, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Þá var stefnandi 55 ára og 4 daga gamall. Samkvæmt töflugildum í 1. mgr. 6. gr. laganna sé margfeldisstuðull, sem nota skal við útreikning bótanna, 6,678 þegar í hlut eigi 55 ára gamall tjónþoli og þegar í hlut eigi 56 ára gamall tjónþoli sé stuðullinn 6,378. Samkvæmt 9. gr. laganna séu umrædd töflugildi miðuð við upphaf aldursárs. Við útreikning bóta skuli reiknað með að stuðullinn breytist jafnt milli töflugilda. Mismunur fyrrgreindra töflugilda er 0,300 (6,678 - 6,378) og í ljósi aldurs stefnanda við upphaf örorkunnar sé töflugildið við útreikning bóta fyrir varanlega örorku 6,675 (6,678 - (0,300 x 4/365)). Miðað við 60% varanlega örorku sé ekki grundvöllur fyrir hærri útreiknuðum bótum en 6.558.188 krónum (1.637.500 x 6,675 x 60%). Frá þeirri fjárhæð beri svo að draga, eins og áður getur, eingreiðsluverðmæti greiðslna sem stefnandi fái úr almannatryggingum auk eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum, sbr. 4. mgr. 5. gr. laganna.

Í málatilbúnaði stefnanda einkum matsgerð Kristjáns Jóhannssonar komi fram að stefnandi hafi um árabil unnið að uppfinningum og á árinu 1989 hafi hann fyrst unnið til verðlauna fyrir hugvitsstörf sín. Engin gögn liggi fyrir í málinu um tekjur sem stefnandi hafi haft af hugvitsstörfum sínum og uppfinningum áður en hann slasaðist í júlí 2002. Ekkert liggi heldur fyrir um það í málinu hversu langt stefnandi hafi verið kominn í þróun einstakra uppfinningaverkefna eða á hvaða stigi verkefni þessi hafi verið um það leyti sem hann slasaðist. Þá sé enn fremur ekkert um það í gögnum málsins hverjar hafi verið fyrirsjáanlegar framtíðartekjur hans í ljósi tekjureynslunnar af fyrri uppfinningaverkefnum og stöðu einstakra verkefna er hann slasaðist, bæði hvað varðar hugsanlega skerðingu á slíkum tekjum vegna afleiðinga slyssins og hverra tekna hann eigi að geta aflað í framtíðinn þrátt fyrir slysið. Þessara atriða sé í engu getið né tekið tillit til þeirra í fyrrgreindri matsgerð, en þau hafa öll mikla þýðingu við mat á því hvort sýnt sé fram á að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi í tilviki stefnanda þannig að ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en þær tekjur sem meginregla 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga mælir fyrir um.

 Matsgerð virðist einvörðungu vera byggð á upplýsingum sem fram komi í einhvers konar viðskiptaáætlunum eða skýrslum um hugvitsstörf. Sé matsgerðin haldin slíkum annmörkum að hún geti með engu móti talist viðhlítandi sönnunargagn um það að víkja beri frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. laganna um tekjuviðmið við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku, hvað þá að árstekjur vegna hugvits- og uppfinningastarfs nemi 12.000.000 króna. Er því alfarið hafnað að stuðst verði við niðurstöður matsgerðarinnar við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku stefnanda.

Hver sem niðurstaðan verði með mat á árslaunum stefnanda sé engu að síður ljóst að við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku verði ekki miðað við hærri árslaun en 4.500.000 krónur, sbr. 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Leiðrétt samkvæmt lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. laganna, hafi sú fjárhæð í júlí 2003 við upphaf varanlegrar örorku numið 6.140.000 krónum (4.500.000 x 4478/3282). Sé miðað við 60% varanlega örorku geti bætur til stefnanda vegna hennar að hámarki numið 24.590.700 krónum (6.140.000 x 6,675 x 60%) að frádregnu eingreiðsluverðmæti greiðslna frá almannatryggingum og örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum. Ákvæði 4. mgr. 7. gr. verði ekki vikið til hliðar á þeirri forsendu að það stangist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar eða mannréttindasáttmála Evrópu. Staðhæfingar stefnanda í þessum efnum séu algerlega órökstuddar. Í þessu sambandi vísist einnig m.a. til Hrd. 2001 bls. 1169 (mál nr. 395/2000).

Er dómsmál þetta var höfðað hinn 31. desember 2007 hafi  vextir eldri en fjögurra ára verið fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Upphafstími ófyrndra vaxta af kröfum stefnanda sé því 31. desember 2003.

Eins og mál þetta hafi verið lagt fyrir í upphafi, hafi skort verulega á að fullnægjandi gögn lægju fyrir þannig að unnt hefði verið að ákveða bætur til stefnanda umfram það sem þegar hafði verið greitt. Skilyrði til að krefjast dráttarvaxta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, séu því ekki fyrir hendi. Við svo búið sé enginn grundvöllur til að reikna dráttarvexti á bótafjárhæð, sem hugsanlega kunni að verða tildæmd, fyrr en í fyrsta lagi frá endanlegum dómsuppsögudegi.

Til þrautavara er þess krafist að upphafstími dráttarvaxta miðist við það tímamark er málið var höfðað, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

 Málskostnaður og krafa um virðisaukaskatt.

Málskostnaðarkröfur stefndu, bæði í aðalkröfu og varakröfu, eru reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

NIÐURSTAÐA

Aðalstefndi Tryggingamiðstöðin hf. greiddi stefnanda samtals 1.999.428 krónur hinn 31. mars 2008 í bætur vegna varanlegs miska og þjáningabætur auk vaxta og málskostnaðar. Stefnandi gerir nú ekki kröfur um greiðslu frekari bóta vegna þjáninga og varanlegs miska.

Ágreiningur aðila snýst nú um hverjar bætur skuli dæma stefnanda vegna varanlegrar örorku. Við munnlegan flutning málsins kom fram að aðilar deila ekki um að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins sé 60%.

Af hálfu stefndu er vísað til ákvæðis 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum en samkvæmt því gildir sú meginregla við ákvörðun bóta skv. 6. gr. laganna að árslaun skuli teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Hins vegar eigi hér við ákvæði 3. mgr. 7. gr. laganna þar sem í tilviki stefnanda séu árslaun hans lægri en nemi lágmarksviðmiðun samkvæmt ákvæðinu.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að í tilviki stefnanda eigi ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við en þar segir að árslaun skuli þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

Í matsgerð Kristjáns Jóhannssonar kemur fram það álit matsmannsins að hann telji viðskiptaáætlanir þær sem stefnandi hefur lagt fram og matsmaðurinn gerir grein fyrir í mati sínu og skýrði í skýrslu sinni fyrir dómi, trúverðugan grunn fyrir framleiðslu og sölu tækja þeirra sem þær lúta að. Rekur hann síðan aðferðafræði við mat á launum hugvitsmanns og kemur fram að í fyrsta lagi sé könnuð og metin sú beina vinna, sem liggi í hönnun, teikningum og vinnu við frumgerð tækjanna. Í öðru lagi sé lagt mat á viðskiptavirði hugmyndanna, þ.e. hvaða tekjur verkefnin hefði skapað höfundinum í formi höfundargreiðslna.

Fjallar matsmaður síðan um fyrra atriðið og rökstyður ítarlega. Kemur fram að hann telji að vinnuframleg við sköpun og hönnun tækjanna reiknað til árslauna nemi á bilinu fjórum til sjö milljónum króna. Matsmaður metur árslaunin 5.500.000 krónur og segir síðan að skoða megi þessa upphæð sem lágmarks reiknaðar árstekjur við sjálfa sköpunar og hönnunarvinnuna og þá án tillits til þess hvort tækin reynast markaðshæf. Megi því líkja þessu við að hönnuður starfaði sem launþegi hjá öðrum.

Um síðara atriðið þ.e. viðskiptaverðmæti, sem rökstutt er með jafn ítarlegum hætti og fyrra atriðið, segir matsmaður að það hugtak sé notað til þess að lýsa þeim tekjum í framtíðinni, sem verkefnin sjö í viðskiptaáætlunum höfundar geti skapað. Matsmaður gerir rækilega grein fyrir viðskiptaáætlunum stefnanda og metur þær með tilliti til verðs, stærð markaðar, áætlun um sölu, reglna um höfundarlaun, tekur mið af óvissu og áhættu og rekur þrennar forsendur fyrir markaðssetningu tækjanna. Niðurstaða hans um þetta er sú að höfundarlaun metin til árslauna næmu 12.033.439 krónum.

Segir matsmaður síðan í niðurstöðu sinni:

„Matsmaður hefur gengið út frá tveimur sjónarhornum í matsgerð þessari. Í fyrsta lagi að meta vinnuframlag við sköpun og hönnun að því gefnu að hönnuðurinn fái ekki hlutdeild í framtíðartekjum verkefnanna. Slík athugun leiddi í ljós að árslaun væru 5.500.000 krónur á síðustu þremur almanaksárunum fyrir 1. júlí 2002.

Seinna sjónarhornið tekur mið af viðskiptavirði verkefnanna, sem hönnuðurinn hefur sett fram í formi viðskiptaáætlana, með teikningum og tækjalýsingum. Hönnuðurinn hefur þegar komið tækjunum í framleiðslu og sölu. Af þeim sökum telur matsmaður þetta sjónarhorn, þ.e. að taka mið af viðskiptavirði, eiga betur við í þessari matsgerð.“

Að lokum segir:

„Að öllu framanrituðu virtu telur matsmaður að hæfilegar árstekjur sem matsbeiðandi hafði áunnið sem hugvits- og uppfinningamaður á síðustu þremur almanaksmánuðum fyrir þann 1. júlí 2002, reiknað til árslauna, nemi 12.000.000 króna.“

Samkvæmt þessu liggur fyrir það mat dómsvadds matsmanns sem ekki hefur verið hnekkt að við ákvörðun árslauna stefnanda vegna hugvits- og uppfinningastarfa beri að miða við 12 milljónir króna hvert þriggja ára fyrir slysið.

Svo sem nánar kemur fram í matsgerðinni og gögnum sem hún er byggð á hefur stefnandi auk launaðra starfa sinna við vélsmiðjuna Vélboða ehf. unnið að smíði og hönnun tækja til notkunar í landbúnaði. Verður fallist á það með stefnanda að ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi við hér þ.e. að árslaun stefnanda skuli metin sérstaklega þar sem hér eru óvenjulegar aðstæður fyrir hendi og ætla verður að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Þykir þannig sýnt fram á það hér að þegar litið er til hins sérstaka mats árslauna stefnanda sem fram kemur í mati Kristjáns Jóhannssonar beri stefnanda umtalsvert hærri bætur en stefndi hefur fallist á og greitt honum. Verður hér einnig að líta til þess að samkvæmt áliti taugasálfræðings er geta stefnanda til starfa á þessum vettvangi mjög verulega skert.

Til hins er að taka að samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga verður við ákvörðun bóta ekki miðað við hærri fjárhæð árslauna en 4.500.000 krónur leiðréttar samkvæmt lánskjaravísitölu og þegar miðað er við 60% varanlegrar örorku stefnanda geta bætur til hans að hámarki numið 24.590.700 krónum. Verður hér engan veginn fallist á það með stefnanda að ákvæði stjórnarskrár girði fyrir að reglu þessari verði beitt hér sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 395/2000 sem stefndu vitna til.

   Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. greiddi 6.558.188 krónur krónur upp í höfuðstól kröfu hans vegna varanlegrar örorku hinn 13. október sl. og dró frá þeirri fjárhæð 2.802.918 krónur sem er eingreiðsluverðmæti bóta úr almannatryggingum og lífeyrissjóði þannig að greiðsla þessa stefnda nam 3.755.270 krónum.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða málsins að stefnanda beri bætur sem miðast við ákvæði 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og þegar tekið hefur verið tillit til greiðslna stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. til stefnanda verða stefndu dæmdir til þess að greiða stefnanda in solidum 20.835.430 krónur.

Er mál þetta var höfðað hinn 31. desember 2007 voru vextir eldri en fjögurra ára fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. þágildandi laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og er upphafstími vaxta því 31. desember 2003.

Stefnandi hefur fengið gjafsókn í máli þessu og greiðist allur málskostnaður hans, þar með talin þóknun lögmanns hans 1.200.000 að viðbættum virðisaukaskatti 294.000 krónur, úr ríkissjóði, svo og útlagður kostnaður vegna matsmanna, sérfræðiálits og stefnuvotta 761.730 krónur eða samtals 2.255.730 krónur allt að frádregnum 674.920 krónum sem stefndi Tryggingamiðstöðin hefur áður greitt honum í málskostnað.

Stefndi, sem þegar hefur greitt stefnanda samtals 674.920 krónur í málskostnað, greiði 1.580.810 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndu, Tryggingamiðstöðin hf., Hópbílar hf. og Lýsing hf. greiði stefnanda, Eiríki Mikkaelssyni, 20.835.430 krónur með 4,5 % vöxtum frá 31. desember 2003 til dómsuppsögudags en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður stefnanda að fjárhæð 1.580.810 krónur greiðist úr ríkissjóði.

Stefndu greiði 1.580.810 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.

                                                                  .