Hæstiréttur íslands

Mál nr. 369/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skilnaður
  • Fjárslit milli hjóna
  • Lífeyrisréttindi
  • Gjafsókn


         

Mánudaginn 27. ágúst 2007.

Nr. 369/2007.

K

 (Valborg Þ. Snævarr hrl.)

gegn

M

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

 

 Kærumál. Hjónaskilnaður. Fjárslit. Lífeyrisréttindi. Gjafsókn.

Deilt var um hvort lífeyrisréttindum M skyldi haldið utan skipta við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar M og K. K krafðist þess að viðurkennd yrði krafa hennar um helmingshlut á tilteknum lífeyrisréttindum M fyrir það tímabil sem hjúskapur þeirra stóð. M krafðist þess á grundvelli 102. gr. hjúskaparlaga að lífeyrisréttindum hans yrði haldið utan skipta. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir að ekki verði framhjá því litið að sérstakar aðstæður verði að vera fyrir hendi eigi lífeyrisréttindi M að koma undir skiptin, sbr. 102. gr. hjúskaparlaga. Við mat á þessu sé rétt að horfa heildstætt á allar aðstæður beggja. Ekki var talið að sýnt hefði verið fram á að ósanngjarnt væri gagnvart K að halda lífeyrisréttindum M utan skipta. Var því ekki fallist á kröfu K. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. júní 2007, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um hvort lífeyrisréttindum varnaraðila skyldi haldið utan skipta við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar þeirra. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði krafa hennar um helmingshlut í lífeyrisréttindum varnaraðila fyrir það tímabil, sem hjúskapur þeirra stóð, og henni dæmdar 5.301.333 krónur vegna réttinda varnaraðila í Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga og 2.180 evrur vegna inneignar hans í séreignarsjóði hjá Allianz Íslandi hf. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að krafa sóknaraðila verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 150.000 krónur.

 

                                   Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. júní 2007.

Mál þetta sem þingfest var fyrir héraðsdómi Reykjaness 13. nóvember sl. var tekið til úrskurðar 4. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Sóknaraðili er M, [...], Reykjavík.

Varnaraðili er K, [...], Reykjanesbæ.

Sóknaraðili krefst þess að við skipti á félagsbúi aðilja vegna skilnaðar að við skiptin verði lífeyrisréttindum hvors um sig, hvort sem eru í sameignarsjóðum eða séreignarsjóðum, haldið utan skipta þannig að hvor aðili haldi óskert sínum réttindum.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðilja, sóknaraðilja að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Varnaraðili krefst þess að viðurkennd verði krafa hennar um helmingshlutdeild í lífeyrisréttindum sóknaraðilja, hvort sem er í sameignar- eða séreignarlífeyrissjóðum fyrir það tímabil er hjúskapur stóð og þess krafist að henni verði dæmdar 5.301.333 krónur vegna réttinda sóknaraðilja í A og V deild LSS og vegna séreignarsjóðs Allianz 2.180 evrur. Þá gerir varnaraðili kröfu um málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

I.

Málsatvik:

Aðiljar gengu í hjónaband 16. júní 1973  en slitu samvistum í ágúst 2004 og varnaraðili kom fyrir sýslumanninn í Keflavík 28. september 2004 og óskaði eftir skilnaði. Skilnaðarleyfi var ekki gefið út þar sem ágreiningur reis með aðiljum um fjárskipti á félagsbúi þeirra. Að endingu var sá einn kostur í stöðunni að óska eftir opinberum skiptum og var það gert af varnaraðilja með beiðni dags. 14. mars 2005 sem móttekin var í Héraðsdómi Reykjaness 16. s.m. Með úrskurði héraðsdóms 1. apríl 2005 var síðan bú aðilja tekið til opinberra skipta.

Eftir fjölmarga skiptafundi og þreifingar milli aðilja útbjó skiptastjóri frumvarp til úthlutunar dags. 13. júní 2006 sem skyldi fjallað um á skiptafundi 15. júní 2006 Var í 6. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir því að ágreiningi um hlutdeild varnaraðilja í lífeyrisréttindum sóknaraðilja yrði vísað til héraðsdóms þar sem ekki náðist undir skiptunum samkomulag um þau en sóknaraðili hefur alla tíð krafist þess á grundvelli 102. gr. laga nr. 31/1993 að þeim verði alfarið haldið utan skipta.

Með bréfi skiptastjóra dags. 19. júní 2006 var ágreiningi um þessi tvö atriði vísað á grundvelli 112. sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991 til héraðsdóms til úrlausnar.

II.

Í greinargerð sóknaraðilja segir að með kaupmála dags. 1. október 1991 sem skráður var í kaupmálabók 16. mars 1992 hafi þeirri skipan m.a. verið komið á í fjármálum aðilja að hjúskapareign varnaraðilja, fasteignin við [...], var gerð að séreign hennar og hafi sú skipan haldist allt þar til aðiljar skildu.  Hér hafi eingöngu verið um varúðarráðstöfun að ræða þar sem sóknaraðili stóð á þessum tíma í áhættusömum atvinnurekstri og hann vildi ógjarnan að skuldheimtumenn hans gætu leitað fullnustu fyrir skuldum fyrirtækisins með aðför að heimili aðilja.

Í árslok 1993 hafi varnaraðili sótt um lán til Húsnæðisstofnunar ríkisins beinlínis, samkvæmt umsókninni, til endurbóta á séreign sinni. Með umsókninni fylgdi eins og skylt var samantekt um fyrirhugaðar endurbætur og áætlaðan kostnað vegna þeirra. Samkvæmt framlagðri umsókn var áætlaður heildarkostnaður 4.095.000. Raunin varð reyndar sú að framkvæmt var fyrir meira fé og miklu meira gert í húsinu heldur en tíundað var í umsókninni. Þessi umsókn leiddi til þess að samþykkt var lán vegna endurbótanna og gefið út fasteignaveðbréf af varnaraðilja 28. febrúar 1994, skiptanlegt fyrir húsbréf eftir þeim reglum sem þá giltu á íbúðalánamarkaði, að fjárhæð 2.654.533 kr. Í prentuðum texta skjalsins voru báðir aðiljar sagðir skuldarar.

Aftur var tekið lán árið 2001 en sóknaraðili gaf út skuldabréf 5. júní 2001 til Eftirlaunasjóðs slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli að fjárhæð 1.740.000 kr. sem tryggt var við útgáfu með veði í 6. veðrétti fasteignarinnar við  [...]. Enn sem fyrr var um að ræða lán til endurbóta á séreign varnaraðilja.

Segir sóknaraðili að þegar aðiljar keyptu upphaflega eignina við [...] hafi húsið verið í talsverðri niðurníðslu, með einföldu gleri og þurfti mikilla lagfæringa við. Frá því að fasteignin varð séreign varnaraðilja var húsið nánast endurnýjað. Fyrst árið 1994 og síðan 2001. Var þannig allt í raun rifið innan úr húsinu og einungis útveggir stóðu eftir. Skipt var um þak, skipt um alla glugga og gler og húsið klætt allt að utan. Skipt um allar lagnir eins og þær lögðu sig, skipt um öll gólf og loft, skipt um innréttingar og settar nýjar innihurðar svo eitthvað sé nefnt. Árið 2001 var áherslan á ytra byrði hússins, garðinn og innkeyrsluna. Var þannig skipt algjörlega um stoðir og klæðningu á gemsa undir þaki auk þess sem kvistur á húsinu var tekinn algjörlega í gegn, skipt um einangrun og fleira og húsið allt málað. Þá var skipt um jarðveg í lóð, settar undirstöður og lagnir og búin til ný innkeyrsla og sólpallur við húsið. Sóknaraðili áætlar að flatarmál þessa sé um 150 til 200 fermetrar þar af sólpallur um 75 fm. Sóknaraðili stjórnaði sjálfur öllum þessum framkvæmdum og vann við þær baki brotnu þegar hann átti frí frá sinni launuðu vinnu.

Samkvæmt framangreindu megi því fullljóst vera að frá því að megineignin í eignasafni aðilja var gerð að séreign varnaraðilja jókst verðmæti hennar stórkostlega. Kom enda á daginn að eignin var seld í júní sl. fyrir 21.500.000 kr. sbr. framlagðan kaupsamning. Ef horft er til áhvílandi veðskulda samkvæmt kaupsamningnum nemur hrein eign varnaraðilja í húsinu tæpum 15.000.000 kr. sem hún fær óskipt í sinn hlut.

Sóknaraðili hefur starfað við margvísleg störf í gegnum tíðina m.a. sjómennsku auk þess að hann lærði vélvirkjun. Mestan hluta starfsævinnar hefur hann þó verið í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli og þar hefur hann einkum aflað þeirra lífeyrisréttinda sem varnaraðili telur eðlilegt að hún fái hlutdeild í. Að sögn sóknaraðilja var varnaraðili útivinnandi við ýmis störf mestan tíma þeirra hjúskapar þ.m.t þegar börn aðilja voru að alast upp en þau eru fædd 1971, 1976 og 1985. Hins vegar veiktist varnaraðili að því er sóknaraðili telur skömmu áður en hún lenti í bílslysi 1996 og telur sóknaraðili að hún hafi verið metin til varanlegrar örorku fyrir slysið og þegið eftir það bætur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Helstu málsástæður og lagarök sóknaraðilja.

Varðandi ágreiningsefni þessa máls er á því byggt af hálfu sóknaraðilja að umrædd réttindi eru persónubundin réttindi og meginreglan er tvímælalaust sú að lífeyrisréttindi koma ekki til skipta ef sá aðili sem réttindin á gerir kröfu um slíkt.

Er meginreglan undirstrikuð með því ákvæði 2. mgr. 102. gr. hjskl. að til þess að frá henni verði vikið þurfi hinn aðilinn að sýna fram á að það sé beinlínis ósanngjarnt að halda slíkum réttindum utan skipta.

Lögð er áhersla á það sjónarmið að líta verður við mat á því hvort skilyrðum 2. mgr. 102. gr. sé fullnægt heildstætt á allt málið og aðstæður aðilja. Allt í senn; stöðu aðilja í hjúskapnum, stöðu þeirra eftir hjúskapinn og það hvað hvort um sig fékk í sinn hlut við skiptin ásamt öðrum atriðum sem skipt geta máli. Þetta hefur verið staðfest í þeim dómum sem gengið hafa í Hæstarétti Íslands í sambærilegum málum. Bent er á það sjónarmið að mjög sérstakar aðstæður þurfa að vera uppi svo fallast megi á kröfu um að skipta upp jafn persónubundnum réttindum og lífeyrisréttindi eru. Athygli er vakin á því sem undirstrikar vægi meginreglunnar að mjög sjaldan hefur komið til þess að aðiljar hafi látið reyna á kröfu sem þessa fyrir dómstólum og ekki verður betur séð en að í flestum tilvikum, a.m.k. þar sem fallist hefur verið á hlutdeild, sé um að ræða mál þar sem atvinnuflugmenn hafa átt í hlut með gríðarlega mikil réttindi enda þar um að ræða að fjárhæð samsvarandi 20% launatekna hefur gengið til stofnunar lífeyrisréttinda þeirra í stað 10% hjá flestum öðrum launamönnum.

Ganga verði út frá því að þátttaka aðilja í heimilisstörfum og barnauppeldi hafi verið því sem næst jöfn á þeim árum er börn aðilja voru að alast upp enda þá báðir aðiljar úti á vinnumarkaði. Einnig er nauðsynlegt að undirstrika að möguleikar varnaraðilja til að afla sér tekna og þar með lífeyrisréttinda verður að telja nákvæmlega þá sömu eftir skilnaðinn og var síðustu árin í hjúskapnum. Það sem skiptir þó líkast til mestu máli við mat á því hvort sinna eigi kröfu varnaraðilja – fyrir utan meginregluna sjálfa - er sú staðreynd að þrátt fyrir að sóknaraðili hafi alla tíð haft mun hærri tekjur en varnaraðili og mikil fjárhagsleg samstaða hafi ríkt í hjúskapnum er staðreyndin sú að varnaraðili fær ein í sinn hlut fasteignina við [...] og tekur þannig tæpar tuttugu milljónir króna með sér úr hjúskapnum áður en farið er að huga að öðrum skiptum á vel að merkja, mjög litlum eignum öðrum. Sóknaraðili telur ótvírætt að horfa beri mjög til þessa við úrlausn málsins og hafna kröfu um hlutdeild varnaraðilja í lífeyrisréttindum hans.

Sóknaraðili vísar til meginreglna hjúskaparlaga. Sérstaklega er vísað til 54., 57., 75. og 102. gr. laganna. Vísað er og til meginreglna eignaréttar.

III.

Varnaraðili rökstyður kröfu sína um hlutdeild í lífeyrisréttindum sóknaraðilja á því að hjúskapur hafi staðið lengi, varnaraðili haft litlar tekjur utan heimilis en hún gert sóknaraðilja kleift að afla tekna og þar með lífeyrisréttinda með vinnu sinni á heimilinu og eigi því að njóta áunninna réttinda til jafns við sóknaraðilja. Annaðist varnaraðili að eigin sögn barnauppeldi og heimilisrekstur að öllu leyti meðan á hjúskap stóð.  Leiði því augljós sanngirnisrök til þess að lífeyrisréttindi sóknaraðilja, hverju nafni sem nefnast, skuli koma undir skiptin. 

Þeir fjármunir sem sóknaraðili eyddi til greiðslu í séreignalífeyrissjóð beri að líta á sem hvern annan sparnað við skiptin og telur varnaraðili þá fjármuni í reynd eins og hverja aðra bankainnistæðu eða sparnað.  Liggur það í eðli réttindanna sem að auki koma til erfða eins og hver önnur eign að sóknaraðilja látnum. Sóknaraðili geri kröfu um að lífeyrisréttindum sinum verði haldið utan skipta og beri honum því væntanlega að sanna að skilyrði séu til þessa en sönnunarbyrðin hvílir varla á varnaraðilja eins og ákvæðið er orðað.

Lagarök varnaraðilja.

Kröfur varnaraðilja byggjast á helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

IV.

Aðiljar máls þessa gengu í hjónaband 16. júní 1973 og höfðu því verið liðlega 31 ár í hjúskap er þau slitu samvistum í ágúst 2003 og sóttu um skilnað 28. september 2004 en samkomulag um skilnaðarkjör náðist ekki. Í hjúskapnum eignuðust málsaðiljar saman þrjú börn sem eru fædd 1971, 1976 og 1985.

Sóknaraðili krefst þess að við skipti á félagsbúi aðilja vegna skilnaðar, verði lífeyrisréttindum hans hvort sem eru í sameignarsjóðum eða séreignarsjóðum haldið utan skipta þannig að hann haldi þessum réttindum sínum óskertum.

Varnaraðili krefst þess að viðurkennd verði krafa hennar um helmingshlutdeild í lífeyrisréttindum sóknaraðilja, hvort sem er í sameignar- eða séreignarlífeyrissjóðum fyrir það tímabil er hjúskapur stóð og að henni verði dæmdar 5.301.333 krónur vegna réttinda sóknaraðilja  í A og V deild LSS og vegna séreignarsjóðs Allianz 2.180 evrur.

Varnaraðili rökstyður kröfu sína um hlutdeild í lífeyrisréttindum sóknaraðilja á því að hjúskapur hafi staðið lengi, hún hafi haft litlar tekjur utan heimilis en gert sóknaraðilja kleift að afla tekna og þar með lífeyrisréttinda með vinnu sinni á heimilinu og eigi því að njóta þeirra til jafns við sóknaraðilja.

Í upphafi ágreinings um skiptin var auk þess sem að ofan greinir deilt um ábyrgð á veðskuldum við Húsbréfadeild Húsnæðisstofnunar og Eftirlaunasjóð slökkviliðsmanna Keflavíkurflugvelli. Undir rekstri málsins varð sátt um að varnaraðili tæki ábyrgð á skuldum þessum sem hvíla á [...] gegn 800.000 króna greiðslu frá sóknaraðilja. Með kaupmála þann 1. október 1991 var hjúskapareign varnaraðilja, fasteignin [...] í Keflavík, gerð að séreign varnaraðilja og hélst sú skipun þar til aðiljar skildu. Ekki er um það deilt að á meðan aðiljar voru í hjúskap var fasteign þessi mikið endurbætt og verðmæti aukið verulega. Hvort hjónanna átti stærri þátt í þeim endurbótum er ekki unnt að leggja dóm á af þeim gögnum sem fyrir liggja. Samkvæmt yfirliti skiptastjóra og þegar litið er til söluverðs eignarinnar sem nam við sölu í júní 2006 21.500.000 króna og þeirra veðskulda sem samkomulag hefur náðst um er ljós að hrein eign varnaraðilja utan skipta er ekki undir 15.000.000 sem hún fær óskipt í sinn hlut.  Ekki fer á milli mála að fasteign þessi var megineign í eignasafni aðilja. Samkvæmt upplýsingum varnaraðilja sem ekki hefur verið mótmælt varð hún öryrki á hjúskapartímanum og er enn  og ófær um að stunda venjulega vinnu en býr í eigin íbúð. Ekki er unnt að fullyrða að þátttaka aðilja í heimilisstörfum og barnauppeldi hafi verið frábrugðin því sem venjulegt má teljast.

Eins og áður er fram komið byggir sóknaraðili kröfu sína um að lífeyrisréttindum hans verði haldið utan skipta á 102. gr. hjúskaparlaga. Er þessi meginregla áréttuð með ákvæði 2. mgr. 102. um að þyki það ósanngjarnt gagnvart hinum makanum að halda verðmætum eða réttindum samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga utan skipta sé heimilt að bæta honum það með fjárgreiðslum. Í athugasemdum, sem fylgdu í frumvarpi að lögum 31/1993 er tekið fram varðandi 2. mgr. 102. gr., að í einstaka tilviki kunni að reynast ósanngjarnt að halda persónubundnum réttindum utan skipta. Verður því ekki litið framhjá því, að sérstakar aðstæður verði að vera fyrir hendi eigi þau að koma undir skiptin. Við mat á þessu er rétt að horfa heildstætt á allar aðstæður beggja. Með vísan til þeirra aðstæðna sem lýst hefur verið telur dómari að ekki hafi verið sýnt fram á að ósanngjarnt sé gagnvart varnaraðilja að halda lífeyrisréttindum sóknaraðilja utan skipta. Um persónuleg réttindi varnaraðilja er ekki deilt.

Rétt þykir að málskostnaður milli aðilja falli niður.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðilja 522.433 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 517.453 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagðs kostnaðar 4.890 krónur.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Við opinber skipti vegna hjónaskilnaðar M og K skal  lífeyrisréttindum hvors um sig hvort sem er í sameignarsjóðum eða séreignarsjóðum haldið utan skipta þannig að hvor aðili haldi sínum réttindum óskertum.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðilja 522.433 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknum lögmanns hennar 517.453 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagðs kostnaðar 4.890 krónur,.