Hæstiréttur íslands

Mál nr. 292/2015


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Vextir
  • Viðbótarkrafa
  • Fullnaðarkvittun
  • Dráttarvextir


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 17. desember 2015.

Nr. 292/2015.

Lánasjóður sveitarfélaga ohf.

(Heiðar Örn Stefánsson hrl.)

gegn

Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs.

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Vextir. Viðbótarkrafa. Fullnaðarkvittun. Dráttarvextir.

S höfðaði mál á hendur L og krafðist viðurkenningar á því að lánssamningur milli þeirra frá árinu 2008 væri um lán í íslenskum krónum bundið með ólögmætum hætti gengi erlendra gjaldmiðla. Þá krafðist S þess að L yrði gert að endurgreiða sér það sem S taldi sig hafa ofgreitt af láninu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að texti lánssamningsins tæki ekki af skarið um hvers efnis hann væri. Yrði því að líta til þess hvernig hann hefði verið efndur í raun. Talið var að þar sem hluti lánsfjárhæðarinnar hefði verið greiddur út í íslenskum krónum inn á tékkareikning S hjá G hf. yrði að líta svo á að samningurinn hefði að því leyti verið um lán í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu. Á hinn bóginn hefði hluti lánsins verið greiddur út í erlendum myntum inn á gjaldeyrisreikninga hjá G hf. til uppgreiðslu láns S hjá bankanum og erlendir gjaldmiðlar því skipt um hendur. Var því talið að samningurinn hefði að því leyti verið um skuldbindandi lán í erlendum gjaldmiðlum. Var viðurkenningarkrafa S því tekin til greina að hluta. Hvað varðaði fjárhæð endurgreiðslukröfunnar kom fram að S hefði í október 2010 aflað lögfræðiálits um efni lánssamningsins. Í því hefði komið fram að hluti lánsins væri líklegast lán í íslenskum krónum en sá hluti sem greiddur hefði verið til uppgreiðslu eldra láns væri líklega lögmætt erlent lán. Samkvæmt því og að virtum atvikum málsins var talið að S gæti ekki hafa verið í góðri trú um greiðslu vaxta af láninu frá því að hann fékk framangreint álit í hendur. Hins vegar var fallist á með S að hann yrði ekki krafinn um viðbótargreiðslu vegna vaxta fyrir það tímamark. Þá var talið að S hefði krafið L sannanlega fyrst um greiðslu kröfunnar með birtingu stefnu og voru dráttarvextir því dæmdir frá þeim degi, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Var L því gert að greiða S nánar tilgreinda fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. apríl 2015. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, til vara að viðurkenningarkrafa stefnda verði aðeins tekin til greina að hluta og fjárkrafa hans lækkuð, en að því frágengnu að ákvæði héraðsdóms um upphafsdag dráttarvaxta verði breytt þannig að ekki verði miðað við fyrra tímamark en 27. október 2013. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Aðilar máls þessa gerðu 18. janúar 2008 með sér lánssamning, þar sem „lántaki lofar að taka að láni og lánveitandi lofar að lána jafnvirði allt að ISK 541.000.000 ... til 15 ára í erlendum myntum og/eða íslenskum krónum.“ Skyldi hver lánshluti koma til útborgunar eigi síðar en fimm bankadögum eftir að beiðni lántaka um útborgun bærist lánveitanda samkvæmt „fyrirmynd í Viðauka I.“ Tilgangur lánsins var samkvæmt grein 2.3 að endurfjármagna lán vegna framkvæmda við slökkvistöðvar að Skútuhrauni í Hafnarfirði og Skógarhlíð í Reykjavík og skuldbatt lántaki sig til að nota lánið til þess verkefnis. Samkvæmt grein 4.1 skyldi skuld í íslenskum krónum bera sex mánaða REIBOR vexti, eins og þeir væru skráðir af Seðlabanka Íslands samkvæmt 7. gr. reglna bankans nr. 177 frá 16. mars 2000, að viðbættu 0,30% álagi. Skuld í evrum skyldi bera sex mánaða EURIBOR vexti, eins og þeir væru ákvarðaðir fyrir evrur hverju sinni, að viðbættu 0,30% álagi. Skuld í öðrum erlendum myntum skyldi bera sex mánaða LIBOR vexti eins og þeir væru ákveðnir fyrir hverja mynt hverju sinni, að viðbættu 0,30% álagi. Vextir skyldu greiðast frá útborgunardegi hvers lánshluta. Stæði lántaki ekki skil á greiðslu á gjalddaga bæri honum eftir grein 6.3 að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvextir af fjárhæðum í erlendum myntum skyldu þó vera samningsvextir lánsins í hinni erlendu mynt að viðbættu 5,0% álagi.

Samkvæmt sex beiðnum um útborgun lánsins, sem allar eru dagsettar á samningsdegi, skyldi lánið greiðast á tiltekinn hátt í Bandaríkjadölum, evrum, kanadískum dollurum, japönskum jenum, sænskum krónum, svissneskum frönkum og sterlingspundum. Í einni þessara beiðna var þess óskað að lánið yrði greitt út í nánar tilgreindum lánshlutum í Bandaríkjadölum, sterlingspundum, kanadískum dollurum og evrum í íslenskum krónum inn á tiltekinn tékkareikning stefnda hjá Glitni banka hf. Beiðnin var síðan efnd með því að áfrýjandi lagði 262.340.977 krónur 21. janúar 2008 inn á áðurnefndan tékkareikning stefnda. Aðrar beiðnir um útborgun lánsins voru efndar á þann hátt að nánar tilgreindar myntir, að jafnvirði 172.476.311 króna, voru lagðar inn á gjaldeyrisreikninga hjá Glitni banka hf. til uppgreiðslu láns stefnda hjá bankanum.

 Stefndi greiddi lánið hjá áfrýjanda upp 31. desember 2012 með fyrirvara um að hann hefði ekki fyrirgert mögulegum betri rétti sínum „komist Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að skilmálar í ofangreindu láni, uppfylli ekki þau skilyrði er rétturinn setur fram fyrir því að lán geti talist erlend.“

Ágreiningur aðila snýst um hvort lánveiting áfrýjanda til stefnda hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, í heild eða að hluta, eða um sé að ræða lánveitingu í íslenskum krónum, verðtryggða með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla. Verði talið að um lán í íslenskum krónum sé að ræða deila aðilar um fjárhæð endurgreiðslukröfu stefnda. Að lokum er í því tilviki ágreiningur um upphafsdag dráttarvaxta af kröfunni.

II

Texti lánssamnings þess, sem mál þetta snýst um, tekur ekki af skarið um hvers efnis hann er. Verður því að líta til þess hvernig hann var efndur í raun. Svo sem rakið hefur verið var hluti lánsfjárhæðarinnar greiddur út í 262.340.977 í íslenskum krónum inn á tékkareikning stefnda hjá Glitni banka hf. Samkvæmt því verður að líta svo á að lánssamningurinn hafi að þessu leyti verið um lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla, en samkvæmt 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001 er slík verðtrygging ólögmæt.

Á hinn bóginn liggur fyrir að hluti lánsins, að jafnvirði 172.476.311 krónur, var greiddur út í erlendum myntum inn á gjaldeyrisreikninga hjá Glitni banka hf. til uppgreiðslu láns stefnda hjá bankanum. Skiptu hinir erlendu gjaldmiðlar því um hendur. Var því um að ræða skuldbindandi lán í erlendum gjaldmiðlum, sem fellur ekki undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001 um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum.

III

Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar er meginreglan sú að kröfuhafi, sem hefur fengið minna greitt en hann á rétt til, á kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Frá meginreglunni eru þó undantekningar, meðal annars að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu, en tilkalli hans um viðbótargreiðslu verður þó einungis hafnað af þeim sökum við sérstakar aðstæður. Að baki undantekningunum búa sjónarmið um öryggi í viðskiptum og að það geti haft í för með sér mikla röskun á fjárhagslegri stöðu skuldara að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð þvert á væntingar sínar.

Eins og rakið hefur verið var kveðið á um það í lánssamningi aðila að skuld í íslenskum krónum skyldi bera REIBOR vexti eins og þeir væru skráðir af Seðlabanka Íslands samkvæmt 7. gr. reglna bankans nr. 77 frá 16. mars 2000, að viðbættu 0,30% álagi. Verður því við útreikning á því hve mikið hafi verið ofgreitt af láninu að miða við hina umsömdu vexti af láninu að því leyti sem það var í íslenskum krónum.

Þegar skuldari er grandsamur um að greiðsla hans feli ekki í sér fullar efndir geta önnur atriði, sem til skoðunar koma um hvort krafa um viðbótargreiðslu verði tekin til greina, að öllu jöfnu ekki komið í veg fyrir að krafa um viðbótargreiðslu nái fram að ganga. Hefur grandsemi skuldara því meira vægi en annað þegar metið er hvort fallist verði á slíka kröfu. Stefndi aflaði í október 2010 lögfræðiálits um efni lánssamningsins. Í því kom fram að höfuðmáli skipti hvort raunverulega hafi verið lánað í erlendri mynt og lántaki fengið hana greidda inn á gjaldeyrisreikning eða lánið verið í íslenskum krónum og þar af leiðandi greitt inn á bankareikning í íslenskum krónum. Væri því líklegast að hluti lánsins væri lán í íslenskum krónum, sem bundið hafi verið við gengi erlendra gjaldmiðla, en sá hluti lánsins, sem greiddur hafi verið til uppgreiðslu eldra láns, væri líklegast lögmætt erlent lán þar sem erlendur gjaldmiðill hafi verið greiddur út. Samkvæmt þessu og að virtum atvikum málsins verður að telja að stefndi geti ekki hafa verið í góðri trú um greiðslu vaxta af láninu frá því hann fékk framangreint álit í hendur. Aftur á móti verður fallist á með stefnda að hann verði ekki krafinn um viðbótargreiðslu vegna vaxta fyrir það tímamark í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar við slík uppgjör.

Í málinu liggur fyrir yfirlit um útreikning eftirstöðva kröfu stefnda miðað við mismunandi forsendur, sem aðilar eru sammála um að leggja til grundvallar við úrlausn málsins. Samkvæmt því og þar sem komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi í október 2010 mátt vita að lánið hafi að hluta verið í íslenskum krónum, bundið með ólögmætum hætti gengi erlendra gjaldmiðla, nemur krafa hans á hendur áfrýjanda 190.055.114 krónum.

Stefndi krafði áfrýjanda sannanlega fyrst um greiðslu þá, er mál þetta tekur til, með birtingu stefnu 27. október 2013. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 verða dráttarvextir dæmdir frá þeim degi eins og í dómsorði greinir.

Eftir úrslitum málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Viðurkennt er að lánssamningur áfrýjanda, Lánasjóðs sveitarfélaga ohf., og stefnda, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., 18. janúar 2008 sé að hluta í íslenskum krónum, bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Áfrýjandi greiði stefnda 190.055.114 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. október 2013 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2015.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 4. mars 2015, að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Skógarhlíð 14, Reykjavík, á hendur Lánasjóði sveitarfélaga ohf., Borgartúni 30, Reykjavík með stefnu birtri hinn 27. október 2013.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur aðila nr. 1/2008, dagsettur 18. janúar 2008, sé um lán í íslenskum krónum og bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2008, um vexti og verðtryggingu. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 370.442.781 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. desember 2012 til greiðsludags. Enn fremur krefst stefnanda greiðslu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að viðurkenningarkrafa þess verði eingöngu tekin til greina hvað varðar þann hluta lánsins, sem greiddur var út í íslenskum krónum, og að fjárkrafa þess verði lækkuð verulega. Enn fremur krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

II

                Málavextir eru þeir að hinn 18. janúar 2008 gerðu stefnandi, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, og stefndi, Lánasjóður sveitarfélaga ohf., með sér lánssamning, nr. 1/2008, sem bar fyrirsögnina ,,Lánssamningur“.

                Stefnandi er byggðasamlag sem sinnir slökkvistarfi, sjúkraflutningum, almannavörnum og öðrum verkefnum sem stjórn stefnanda ákveður hverju sinni og varðar velferð íbúa. Stofnendur og eigendur stefnanda eru sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðarbær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær.

Stefndi er lánasjóður sem tók til starfa hinn 1. júlí 1966 á grundvelli laga nr. 35/1966, um Lánasjóð sveitarfélaga. Sjóðurinn hefur frá stofnun verið óskipt sameign allra sveitarfélaga hér á landi. Frá upphafi hefur megintilgangur sjóðsins verið að tryggja íslenskum sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum með veitingu lána eða ábyrgða. Lög nr. 35/1966, með síðari breytingum, voru felld úr gildi hinn 1. janúar 2005 við gildistöku laga nr. 136/2004, um Lánasjóð sveitarfélaga. Með setningu laga nr. 136/2004 var lagaumhverfi Lánasjóðs sveitarfélaga breytt til samræmis við almenn starfsskilyrði fjármálafyrirtækja á fjármálamarkaði eftir því sem fært var. Þá var Lánasjóði sveitarfélaga gert að starfa sem fjármálafyrirtæki á grundvelli starfsleyfis Fjármálaeftirlitsins og undir eftirliti þess. Slíkt leyfi fékk sjóðurinn í ágúst 2005. Með lögum nr. 150/2006, um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga, sem tóku gildi hinn 30. desember 2006, var kveðið á um í ákvæði I til bráðabirgða, að stofna skyldi Lánasjóð sveitarfélaga ohf. á stofnfundi sem haldinn skyldi eigi síðar en 31. mars 2007. Í lokamálslið nefnds lagaákvæðis kemur fram að Lánasjóður sveitarfélaga ohf. skuli frá útgáfu starfsleyfis yfirtaka allar eignir, skuldir og skuldbindingar Lánasjóðs sveitarfélaga og skuli stofnefnahagsreikningur miðast við 1. janúar 2007.

Samkvæmt grein 2.1 í samningnum lofaði stefndi að lána stefnanda ,,allt að ISK 541.000.000 – fimmhundruðfjörtíuogeinmilljón – til 15 ára í erlendum myntum og/eða íslenskum krónum“. Tilgangur lánsins, sbr. grein 2.3 í samningnum, var endurfjármögnun láns vegna framkvæmda við slökkvistöðvar að Skútuhrauni í Hafnarfirði og að Skógarhlíð og skuldbatt lántaki sig til að nota lánið í þessum tilgangi.

Samkvæmt samningnum, sbr. grein 2.2, skyldi hver lánshluti koma til útborgunar eigi síðar en fimm bankadögum eftir að beiðni lántaka um útborgun lánshluta bærist lánveitanda, samkvæmt fyrirmynd í viðauka I. Í 14. gr. samningsins kemur fram að lánssamningurinn sé alls 10 síður að viðauka meðtöldum. Í viðauka I eru myntir þær sem teknar eru að láni tilgreindar sérstaklega eftir tegund og fjárhæð þeirra. Voru allar ádráttarbeiðnir í viðaukum undirritaðar sama dag og lánssamningurinn var gerður hinn 18. janúar 2008 og því fjárhæðir hinna erlendu mynta þegar tilgreindar við undirritun lánssamnings.

Í vaxtakafla samningsins, sbr. 4. gr. hans, kemur fram að vextirnir ráðist af þeim myntum sem lántaki óskar eftir í ádráttarbeiðnum. Segir m.a. að skuld í íslenskum krónum beri REIBOR-vexti, skuldir í evrum EURIOBOR-vexti og skuldir í öðrum erlendum myntum LIBOR-vexti. Um greiðslu dráttarvaxta segir í grein 6.3 í samningnum að standi lántaki ekki skil á greiðslu á gjalddaga beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Beri þá að greiða dráttarvexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag. Þá segir að dráttarvextir af fjárhæðum í erlendum myntum skuli vera samningsvextir lánsins í hinni erlendu mynt að viðbættu 5,0% stiga álagi.

Í grein 4.3 í samningnum kemur fram að á vaxtagreiðsludögum sé lántaka heimilt að óska eftir breytingu á myntsamsetningu lánsins. Í tilefni af því að lántaki óski eftir breytingu skuli lánveitandi senda lántaka tilboð um nýtt vaxtaálag fyrir þær myntir sem ráðgert sé að skipta yfir í og gildistíma þess.

Fyrrgreindur lánssamningur hafi verið gerður upp þann 31. desember 2012 og af því tilefni hafi framkvæmdastjóri stefnda gefið út yfirlýsingu þess efni að ,,lántaki SHS hefur ekki fyrirgert mögulegum betri rétti sínum, komist Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að skilmálar (lánssamnings nr. 1/2008), uppfylli ekki þau skilyrði sem rétturinn setur fram fyrir því að lán geti talist erlend“. Stefnandi hafi greitt að fullu kröfu stefnda samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi með fyrirvara um lögmæti kröfunnar og áskilnaði um endurgreiðslu.

Stefndi kveður að forsaga samnings aðila sé sú að stefnandi hafi leitað til stefnda í þeim tilgangi að taka lán í erlendri mynt. Í fyrstu samskiptum aðila hafi stefnandi kveðið ákvörðun um þá tegund lánsfjár hafa verið tekna í ljósi sérfræðiráðgjafar sem stefnandi hafi aflað sér. Þá beri tölvupóstsamskipti stefnda og stefnanda með sér að aðilar hafi verið sammála um þessa tegund láns. Jafnframt komi skýrlega fram í grein 2.3 um tilgang lánssamningsins hvaða væntingar stefnandi hafi haft til samningssambands aðila. Í samræmi við þennan tilgang hafi stefnda verið gert, samkvæmt ádráttarbeiðnum, að leggja tilteknar fjárhæðir, í erlendum gjaldmiðlum, inn á gjaldeyrisreikninga hjá Glitni banka hf. til uppgreiðslu á skuld stefnanda við þann banka. Stefndi bendir á að stefnandi hafi óskað sérstaklega eftir því í tölvupósti til stefnda að lánssamningur yrði, með tilliti til mynta og fjárhæðar, ,,eins eða svipað“ og lánssamningur sá sem stefnandi hefði gert við Glitni banka og tilgangur lánsins hefði verið að endurfjármagna. Beri í þeim efnum að tiltaka að umræddur lánssamningur við Glitni banka sé óumdeilanlega lánssamningur í erlendri mynt.

Stefndi kveður að af framangreindu sé ljóst að forsendur stefnanda fyrir samningssambandinu hafi frá upphafi lotið að endurfjármögnun láns í erlendum gjaldmiðlum með nýju láni í erlendum gjaldmiðlum sem hafi átt að greiða út í þeim sömu gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikning Glitnis banka. Aðalskylda lánveitanda, eins og hún hafi verið ákveðin í lánssamningi þeirra, hafi því frá upphafi verið að afhenda lánsfé í erlendri mynt. Umræddur lánssamningur sé í eðli sínu samningur um fjölmyntalán, settur upp sem ádráttarlán og sé hann skýr að öllu leyti hvað það atriði varði. Ádráttarlán sem þetta feli í sér að lántaki fái lánsloforð sem hafi ákveðið hámark, sem tilgreina þurfi í einhverri mynt til takmörkunar á heildarlánsfjárhæð, sem eðlilegt verði að telja að sé í sameiginlegum gjaldmiðli samningsaðila. Þá skuli lántaki leggja fram beiðnir og draga á það lánsloforð í þeim myntum sem hann tiltaki í ádráttarbeiðnum sem verði þá hluti samnings aðila. Í þessu tilviki hafi allar ádráttarbeiðnir verið undirritaðar samhliða lánssamningi og meðfylgjandi í viðauka I sem óaðskiljanlegur hluti lánssamningsins allt frá upphafi. Í þeim hluta samningsins sé öll lánsfjárhæðin tilgreind nákvæmlega í erlendum myntum.

Stefndi sé opinbert hlutafélag í eigu allra sveitarfélaga í landinu sem starfi samkvæmt hlutafélagalögum og sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. 1. gr. laga nr. 150/2006. Stefndi sé ekki viðskiptabanki og starfi eingöngu á grundvelli lögbundins hlutverk síns. Stefndi hafi þannig ekki verið fjármálafyrirtæki á almennum lánamarkaði og hafi þar af leiðandi ekki boðið viðskiptavinum sínum ,,ýmis lánakjör, þar með talin lán með gengistryggingu, sem reynst hafi ólögmæt“.  Er lánið hafi verið veitt hafi stefndi verið bundinn af takmörkuðu starfsleyfi, lögbundnum tilgangi sínum og samþykktum. Stefndi sé fjármálafyrirtæki á þeim grundvelli einum að vera lögum samkvæmt lánafyrirtæki sem sé með starfsleyfisskylda starfsemi skv. b-lið 1. tl. og 1.-6. tl. 1. mgr. 3. gr., sbr. 4. gr. I um fjármálafyrirtæki. Skilyrði þau sem uppfylla þurfi til að stofnunin geti talist fjármálafyrirtæki snúi því aðeins að tilgangi stofnunarinnar en lúti ekki mati á umfangi starfseminnar sem slíkrar.

Fram komi í útlánareglum fyrir sjóðinn, sem í gildi hafi verið er lánssamningurinn hafi verið undirritaður, að megintilgangur lánasjóðsins með lánveitingum sínum sé ,,að gera íslensk sveitarfélög betur fær um að inna af hendi lögbundin verkefni sín og veita þjónustu í almannaþágu. Sjóðurinn veitir ekki lán til almenns atvinnurekstrar.“ Segi um það í lögum um sjóðinn, nánar tiltekið 3. gr., að tilgangurinn sé að tryggja sveitarfélögum ásamt fyrirtækjum og stofnunum í eigu sveitarfélaga og ríkissjóðs lánsfé á hagstæðum kjörum og takmarkist útlán hans við verkefni sem hafi almenna efnahagslega þýðingu. Stefndi hafi í samræmi við lögbundinn tilgang sinn leitast við að bjóða eigendum sínum lán á jafn góðum kjörum og unnt sé og hafi í þeim tilgangi tekið lán erlendis frá til að endurlána.

Í kafla 4.4 í útlánareglum stefnda sé heimild til að veita lán vegna ,,endurfjármögnunar óhagstæðra lána“ eins og raunin sé í máli þessu. Stefndi hafi fjármagnað lánveitingar sínar að langstærstum hluta með lánsfé en að hluta með eigin fé. Stefndi árétti því að lánastarfsemi sjóðsins felist fyrst og fremst í að endurlána lánsfé frá erlendum aðilum ef lántakendur óski þess en ella endurlána lán frá innlendum aðilum og síðan að ráðstafa eigin fé sem sé í raun sameign allra sveitarfélaga á landinu en þau séu eigendur stefnda. Markmið lánveitinganna sé síðan ekki að hagnast á þeim heldur sé það beinlínis lögboðin skylda stefnda að veita tilteknar tegundir lána til tiltekinna aðila, sem séu eigendur stefnda og dótturfélög þeirra, á sem hagstæðustum kjörum.

Stefndi kveður að af framansögðu athuguðu megi vera ljóst að starfsemi stefnda sé ekki lík starfsemi viðskiptabanka heldur hafi hún mun takmarkaðra umfang og ákvarðanataka um lánveitingar lúti allt öðrum lögmálum. Þá megi vera ljóst að stefndi sé fjármálafyrirtæki á grundvelli lagaboðs en ekki á grundvelli mats á starfsemi. Þessi lögákveðni titill stefnda geti því ekki komið í stað raunverulegs mats á starfseminni verði talið nauðsynlegt að bera saman stöðu aðilanna er þeir gengu til samninga.

Stefndi kveður að ekki verði annað séð en að lánssamningurinn beri með sér að vera fjölmyntalán og telji stefndi stefnanda hafa þurft að ganga langt í túlkunum sínum til að leiða annað af orðalagi hans og þeim rauða þræði sem liggi í gegnum allan texta hans. Hið sama leiði af vilja stefnanda til að taka fjölmyntalán í samræmi við sérfræðiráðgjöf sem hann hafi aflað sér.

Stefndi bendi sérstaklega á að í lánssamningi aðila sé samið um kjör á láni í íslenskum krónum. Vextir láns í íslenskum krónum séu tilgreindir í grein 4.2 og dráttarvextir í grein 6.2. Ekkert hafi staðið í vegi fyrir því að stefnandi óskaði í ádráttarbeiðnum sínum eftir láni í íslenskum krónum. Þá hafi stefnanda verið heimilt samkvæmt grein 4.4 að breyta láninu í lán í íslenskum krónum á hverjum vaxtargreiðsludegi þess. Stefnandi hafi óskað eftir því í ádráttarbeiðnum að lánið yrði í erlendum gjaldmiðlum og hafi stefnandi aldrei óskað eftir því á lánstímanum að breyta því í lán í íslenskum krónum. Það skjótti því skökku við að krefjast þess nú, að lánstímanum loknum, að litið verði svo á að lánið hafi alltaf verið í íslenskum krónum en eigi engu að síður að hafa borið þá vexti sem samið hafi verið um að gilda ætti um þá erlendu gjaldmiðla sem stefnandi hafi í upphafi óskað eftir.

Stefndi kveður að stefnandi hafi fengið lögmenn endurskoðunarstofu til að yfirfara efni lánssamningsins í október 2010. Niðurstaða endurskoðunarstofunnar hafi verið sú að lánssamningurinn hafi verið lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Stefnandi hafi fengið á ný minnisblað frá endurskoðunarstofunni í apríl 2012 og hafi þar fyrri niðurstaða verið ítrekuð. Þrátt fyrir það hafi stefnandi lýst þeirri skoðun fyrst fyrir stefnda með bréfi, dagsettu 25. júní 2013. Stefndi hafi svarað því bréfi 10. júlí 2013 og áréttað þá skoðun sína að lánaðir hefðu verið þeir erlendu gjaldmiðlar sem óskað hafi verið eftir.

III

                Stefnandi byggir á því að samningur aðila, dagsettur 31. desember 2012, sé gengistryggður og af þeim sökum hafi hann sent stefnda bréf, dagsett 25. júní 2013, þar sem þess hafi verið krafist að stefndi endurútreiknaði lánið í heild sinni að teknu tilliti til nýlegra dómafordæma. Þessu hafi stefndi hafnað með bréfi, dagsettu 10. júlí 2013, þar sem fram hafi komið að sjóðurinn hafi talið lánssamninginn vera um lán í erlendri mynt.

                Í ljósi afstöðu stefnda sé stefnanda nauðugur einn kostur að höfða mál á hendur stefnda þar sem krafist sé endurgreiðslu þeirra fjármuna sem stefnandi hafi ofgreitt stefnda. Kröfugerð stefnanda geri ráð fyrir því að lánssamningurinn sé ólögmætur gengistryggður samningur en útreikningurinn, sem framkvæmdur hafi verið af sérfræðingum PwC taki mið af að samningsvextir eigi að gilda fram að uppgreiðslu lánsins hinn 31. desember 2012, enda hafi stefnandi ætíð staðið skil á greiðslum á gjalddögum lánsins.

                Stefnandi byggi á því að lánsskuldbinding samkvæmt samningi aðila nr. 1/2008 sé í íslenskum krónum í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í því samhengi vísi stefnandi til þess að í samningnum komi einungis fram höfuðstólsfjárhæð lánsins í íslenskum krónum.

                Í samningnum sé hvergi minnst á erlenda gjaldmiðla og þaðan af síður sé lánsfjárhæðin tilgreind í erlendum gjaldmiðlum. Að mati stefnanda skipti þetta höfuðmáli enda hafi tilgreining gjaldmiðils og fjárhæðar hans haft úrslitaþýðingu við úrlausn dómstóla um hvort samningur teljist vera í erlendri mynt eða í íslenskum krónum.               Um þetta vísar stefnandi m.a. til dóma Hæstaréttar í málum nr. 603/2010, nr. 30/2011 og nr. 551/2011.

Í samningnum sé skuldbinding stefnanda aðeins tilgreind í íslenskum krónum og sé því ekki um að ræða lán í erlendri mynt. Um sé að ræða lán í íslenskum krónum sem bundið sé gengi erlendra gjaldmiðla. Hafi stefndi á annað borð ætlað að hafa samninginn í erlendri mynt hefði honum verið í lófa lagið að tilgreina hina erlendu mynt sem höfuðstólsfjárhæð í samningi aðila. Það hafi stefndi hins vegar ekki gert og því blasi við að um sé að ræða gengistryggðan lánssamning.

Stefnandi vísi til þess að heildarlánsfjárhæð á grundvelli umþrætts lánssamnings hafi numið 434.817.288 krónum. Hafi lánið verið tryggt við gengi sjö erlendra mynta, þ.e. evra, bandarískra dollara, breskra punda, japanskra jena, svissneskra franka, sænskra króna og kanadískra dollara. Lánið hafi því verið gengistryggt með eftirfarandi hætti:

Lánsleggur:

Mynt:

Lánsfjárhæð

878262

EUR

184.047.988 kr.

878263

USD

86.047.000 kr.

878264

GBP

21.941.900 kr.

878265

JPY

17.480.400 kr.

878266

CHF

40.173.200 kr.

878267

SEK

46.588.800 kr.

878268

CAD

38.538.000 kr.

                                                                                                Samtals:      434.817.288 kr.

                Stefnandi kveður að öll lánsfjárhæðin hafi verið innt af hendi í íslenskum krónum. Á hinn bóginn hafi það verið gert á tvenns konar hátt. Annars vegar hafi lánið verið lagt inn á íslenskan tékkareikning í eigu stefnanda, þ.e. reikning nr. 0515-26-002130. Hafi það verið gert á grundvelli útborgunarbeiðni, dagsettri 18. janúar 2008, þar sem fram hafi komið tilhögun gengistryggingarinnar. Nánar tiltekið hafi sá hluti lánsins verið gengistryggður með eftirfarandi hætti:

Lánshluti tengdur USD

770.864,21

Lánshluti tengdur GBP

170.000

Lánshluti tengdur CAD

600.000

Lánshluti tengdur EUR

1.592.515,94

               

Á grundvelli þessara útborgunarbeiðni hafi 262.340.977 krónur verið lagðar inn á framangreindan tékkareikning í eigu stefnanda. Hins vegar hafi stefnandi varið eftirstöðvum lánsins, þ.e. 172.476.311 krónum til uppgreiðslu á skuld við Glitni banka hf. í fimm beiðnum, dagsettum 18. janúar 2008 og sé gengistryggingin nánar tilgreind með eftirfarandi hætti.

Lánhluti tengdur EUR

327.050,06

Lánshluti tengdur JPY

28.000.000

Lánshluti tengdur SEK

4.600.000

Lánshluti tengdur USD

529.135,79

Lánshluti tengdur CHF

670.000

                Á grundvelli beiðnar stefnanda hafi fjármunirnir verið lagðir inn á reikning í eigu Glitnis banka hf. Enda þótt rúmum þriðjungi lánsfjárhæðarinnar, sem sannarlega hafi verið í íslenskum krónum, kunni að hafa verið varið til kaupa á erlendum gjaldeyri til að greiða lán stefnanda við Glitni banka, breyti það ekki þeirri staðreynd að samningsskuldbinding aðila hafi augljóslega verið í íslenskum krónum líkt og ákvæði samningsins beri með sér.

                Í þessu samhengi vísi stefnandi til dóms Hæstaréttar frá 7. janúar 2013 í máli nr. 386/2013, en í því máli hafi Hæstiréttur tekið af öll tvímæli um að útborgunarbeiðnir eða millifærsla lánsfjárhæðar breyti engu ef efni lánssamningsins er skýrt. Í málinu hafi verið deilt um samning þar sem hvergi hafi verið getið um fjárhæð erlendra gjaldmiðla eða hlutföll þeirra, heldur einungis í lánsumsókn lántakans. Íslandsbanki hf. hafi haldið því fram í málinu að slík umsókn teldist hluti af samningi aðila en Hæstiréttur hafi hafnað því og tekið fram að einungis bæri að líta til orðalags lánssamningsins sjálfs. Stefnandi telur að af þessum dómi megi ráða að ef fjárhæð skuldbindingar er einungis tilgreind í íslenskum krónum í lánssamningi, og erlendir gjaldmiðlar ekki tilgreindir í samningum, þá sé um gengistryggt lán að ræða hvað sem líður efni lánsumsókna, útborgunarbeiðna, gjaldeyrispantana eða kaupnóta og þá þurfi ekki að líta til efnda samningsins. Samkvæmt þessu skipti ekki máli hvernig aðilar hafi efnt skuldbindingar sínar í raun ef lánssamningur er þannig úr garði gerður. Stefnandi telur dóminn hafa skýrt og augljóst fordæmisgildi í máli þessu enda sé lánsfjárhæðin í samningi nr. 1/2008 frá 18. janúar 2008 einungis tilgreind í íslenskum krónum líkt og í framangreindum dómi.

                Hvað sem öllu öðru líði verði ekki framhjá því litið að langstærstur hluti lánsfjárhæðarinnar, 262.340.977 krónur, hafi verið lagður inn á íslenskan krónureikning stefnanda. Þá hafi allar innheimtur stefnda af láninu verið í íslenskum krónum og á grundvelli þeirra hafi stefnandi greitt allar afborganir af láninu í íslenskum krónum en um þetta vísar stefnandi til greiðsluseðla stefnda. Í þeim viðurkenni stefndi ítrekað að um sé að ræða gengistryggða skuldbindingu en í greiðsluseðlunum segi: ,,Verðtrygging/Mynt og ,,Gengi við stofnun láns“. Þetta sýni svo ekki verði um villst að stefndi hafi alla tíð verið þeirrar skoðunar, líkt og stefnandi, að samningur aðila hafi verið gengistryggður. Byggi stefnandi á því að í framangreindu felist viðurkenning stefnda á réttarstöðu stefnanda enda um að ræða mjög skýrt orðalag í greiðslukvittunum og beri sú viðurkenning jafnframt að skoðast í ljósi þess að um fjármálafyrirtæki sé að ræða, líkt og lög nr. 136/2004 hafi skilgreint sjóðinn, sem búi yfir allri þeirri sérfræðiþekkingu á sviði fjármála og lögfræði sem völ sé á. Aðili í þeirri stöðu þurfi að bera ábyrgð á yfirlýsingum sem þessum enda geti engum dulist hvað felist í orðalagi sem þessu. Beri að líta svo á að stefndi geti ekki nú haldið því fram gegn fyrri viðurkenningu sinni að samningur aðila sé ekki gengistryggður.

                Verði ekki fallist á að í framangreindu felist viðurkenning á réttarstöðu stefnanda beri í það minnsta að líta til þessa atriðis auk annarra við skýringu á því hvort samningur aðila teljist erlendur eða gengistryggður en augljóst sé að þetta styðji hið síðarnefnda.

                Þá geti kaupnóta/útborgunarbeiðni með lánasamningnum aldrei talist hluti af lánasamningi aðila, viðbót við hann eða breyting á honum. Það eina sem skipti máli í þessu sambandi sé sjálfur lánssamningurinn, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 386/2012.

                Í ljósi alls framangreinds sé ljóst að lánssamningur aðila sé samningur um lán í íslenskum krónum með gengistryggingu í erlendum gjaldeyri. Slík gengistrygging sé ólögmæt líkt og fjölmörg fordæmi Hæstaréttar beri með sér. Sé greiðsluskylda stefnda því skýr og ótvíræð.

                Fjárkrafa stefnanda sé byggð á ítarlegum útreikningum sérfræðinga PwC. Aðferð við útreikninginn taki mið af dómi Hæstaréttar í máli nr. 464/2012, en í þeim dómi hafi verið kveðið á um að afborgunarhluti hverrar raungreiðslu á greiðsludegi samkvæmt lánssamningi komi til lækkunar á ógengistryggðum höfuðstól hverju sinni. Við útreikninginn sé höfuðstóllinn færður yfir í íslenskar krónur miðað við gengi gjaldmiðla á útgreiðsludegi láns. Til frádráttar komi svo allar greiðslu samkvæmt fullnaðarkvittunum stefnanda sem flokkist sem afborgunarhluti og taki þær mið af gengi viðkomandi gjaldmiðla hverju sinni. Ekki sé horft til hvað lántaki hafi greitt lánveitanda í vexti. Útreikningar miðað við framangreindar forsendur nái fram að síðasta greidda gjalddaga af hverjum lánslegg. Um nákvæma útreikninga fjárkröfunnar vísar stefnandi til útreikninga PwC, en samandregnar niðurstöður séu eftirfarandi:

Leggur nr:

Mynt:

Upphafleg lánsfjárhæð:

Ofgreiðsla:

878262

EUR

184.047.988

-133.392.622

878263

USD

86.047.000

-75.114.576

878264

GBP

21.941.900

-12.286.711

878265

JPY

17.480.400

-23.624.532

878266

CHF

40.173.200

-49.817.532

878267

SEK

46.588.800

-40.047.708

878268

CAD

38.538.000

-36.159.100

Alls:                                                                                                       434.817.288                         -370.442.781

                Í útreikningum PwC séu afborganir og vextir sundurgreindir og tilgreindar greiðslur stefnanda inn á lánið. Fyrir liggi fullnaðarkvittanir um greiðslu stefnanda á vöxtum og þurfi því ekki að horfa til þeirra greiðslna. Til frádráttar komi allar greiðslur á afborgunarhlutum lánsins. Samkvæmt framangreindum útreikningi hafi stefnandi ofgreitt stefnda 370.442.781 krónu og sé sú fjárhæð stefnufjárhæð málsins. Þá krefjist stefnandi dráttarvaxta frá uppgreiðsludegi lánsins, þ.e. 31. desember 2012, til greiðsludags.

IV

                Stefndi byggi aðalkröfu sína um sýknu af öllum kröfum stefnanda á því að lánssamningur nr. 1/2008 feli í sér lögmæta lánaskuldbindingu í erlendum myntum sem stefnanda hafi borið að standa skil á sem slíkri og af þeirri ástæðu eigi viðurkenningarkrafa stefnanda, og þar með fjárkrafa hans, ekki við rök að styðjast. Í því sambandi sé aðallega byggt á skýrum texta lánssamnings aðila en einnig á því að stefnanda hafi verið fullkunnugt um að hann hafi verið að takast á hendur skuldbindingu í sérstakri samsetningu erlendra mynta sem hann hafi sjálfur ákveðið í samræmi við sérfræðiráðgjöf, sem hann hafi sjálfur aflað sér. Stefnandi hafi ekki á lánstímanum breytt láninu í íslenskar krónur þrátt fyrir að hafa haft tækifæri til þess.

                Varakrafa stefnda hvað viðurkenningarkröfu stefnanda varði byggi á því að sá hluti lánsins sem óumdeilt sé að greiddur hafi verið út í erlendum myntum geti ekki talist lán í íslenskum krónum.

                Fari svo að fallist verði á það með stefnanda að lánssamningur sá sem mál þetta fjallar um sé í íslenskum krónum, að öllu leyti eða að hluta, og viðurkenningarkrafa hans því tekin til greina, að öllu eða einhverju leyti, byggi stefndi á að útreikningur stefnanda á fjárkröfu sinni sé ekki réttur. Ef fallist verður á það með stefnanda að einhver hluti lánsins hafi verið veittur í íslenskum krónum væri réttast að miða við að reikna skuli ofgreiðslu stefnanda með þeim hætti að lán í íslenskum krónum beri þá vexti sem samið hafi verið um að lán í íslenskum krónum skyldi bera, REIBOR+0,3%, sbr. grein 4.1 í lánssamningnum, frá stofndegi kröfu stefnda til viðmiðunardags hinn 30. desember 2012.

                Í öllu falli telji stefndi að allar forsendur fyrir vöxtum, er samið hafi verið um að lán í erlendum gjaldmiðlum skyldi bera, hafi brostið að svo miklu leyti sem viðurkennt verði að lánið hafi verið í íslenskum krónum. Beri því að miða við vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. I laga nr. 38/2001 verði ekki fallist á framangreint. Þá beri að sjálfsögðu einungis að miða endurútreikning við þann hluta lánsins sem viðurkennt sé að feli í sér lán í íslenskum krónum, en það geti samkvæmt framansögðu einungis átt við um þann hluta lánsins sem hafi verið greiddur út í íslenskum krónum.

                Kröfu sína um sýknu byggir stefndi á því, að með dómum Hæstaréttar uppkveðnum 16. júní 2010 í málum nr. 163/2010 og 92/2010 hafi verið skorið úr um lögmæti þess að binda lán í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, þ.e. að gengistrygging íslenskra lána hafi verið ólögmæt að því er varði þær skuldbindingar sem falli undir VI. kafla laga nr. 38/2001. Í 1. mgr. 13. gr. laganna komi skýrlega fram að VI. kafli þeirra taki til skuldbindinga sem varði sparifé og lánsfé í íslenskum krónum en ekki til lána í erlendri mynt. Kaflinn gildi því ekki um lánssamninginn í þessu máli.

                Í dómafordæmi því sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á að hluta, nánar tiltekið í máli nr. 155/2011 hafi dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að lán samkvæmt umræddum lánssamningi hefði verið ákveðið í íslenskum krónum, bundið við erlenda gjaldmiðla og því hafi verið brotið gegn ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Helstu forsendur fyrir niðurstöðunni hafi verið þær að hvergi í lánssamningnum hafi verið að finna tilgreiningu á fjárhæð skuldarinnar í erlendum myntum og hafi fjárhæð lánsins því verið í grunninn tekin í íslenskum krónum. Í lánssamningi þeim sem hér um ræði hafi myntir sem teknar voru að láni verið tilgreindar sérstaklega að tegund og fjárhæð í viðauka I við lánssamninginn, en viðaukinn sé óaðskiljanlegur hluti samningsins og sé vísað til hans í ákvæði 2.2 og í ákvæði 10 í samningnum, þar sem segi: ,,Lánssamningur þess er alls 10 síður að viðauka meðtöldum.“ Enn fremur hafi ádráttarbeiðnir í viðauka I verið undirritaðar af stefnanda sama dag og lánasamningurinn var gerður og séu lánsfjárhæðir í þeim undantekningarlaust tilgreindar í erlendri mynt óháð fjárhæðum í íslenskum krónum og sé enginn hluti ádráttarbeiðna í þeim gjaldmiðli.

Þá hafi í forsendum Hæstaréttar í fyrrgreindu máli, einnig komið fram að í ákvæði samningsins um myntbreytingarheimild hafi glöggt komið fram að hinir erlendu gjaldmiðlar hafi verið til viðmiðunar, en þar hafi sagt að lántaki gæti óskað eftir því að ,,myntsamsetningu“ yrði breytt, þannig að ,,eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið“. Í samningi þeim sem í þessu máli sé um fjallað eigi hið gagnstæða við, þar sem í ákvæði samningsins segi: ,,Á vaxtagreiðsludögum er lántaka heimilt...að óskar eftir breytingu á myntsamsetningu láns. Skal lánveitandi þá senda lántaka tilboð um nýtt vaxtaálag og þær myntir sem ráðgert er að skipta yfir í og gildistíma þess.“ Óumdeilanlegur munur sé hér á milli þar sem í fyrrgreindu hæstaréttarmáli hafi verið um að ræða breytingu á erlendum myntum til viðmiðunar en í því máli sem hér um ræði hafi verið um að ræða eiginlega myntbreytingu, þar sem lánsfjárhæð sé sannanlega í erlendri mynt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 3/2012. Þá hafi einnig verið byggt á því í dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011 að báðir aðilar hafi átt að efna samningsskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með greiðslu í íslenskum krónum og það hafi þeir gert í raun. Efni aðalskyldu lánveitanda í því máli sem hér um ræðir komi skýrlega fram í ákvæði samningsins um tilgang lánsins og snúi að því að endurfjármagna lán lántaka við Glitni hf. sem óumdeilanlega hafi verið í erlendum gjaldmiðlum og hafi því falið í sér skuldbindingu um að leggja tilteknar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikning Glitnis. Í viðaukum biðji stefnandi þó um að lagt sé inn á umrædda gjaldeyrisreikninga að hluta og inn á eigin krónureikning að hluta. Til grundvallar þessari útborgun liggi beiðni stefnanda þess efni að hluti láns í USD, BBP, CAD og EUR verði borguð inn á íslenskan krónureikning félagsins. Komi jafnvirði fjárhæðarinnar ekki fram í íslenskum krónum í beiðninni en hafi verið 262.340.977 krónur, samkvæmt útprentuðu yfirliti. Stefndi þekki ekki ástæðu þess að í einni beiðni stefnanda hafi verið óskað eftir útgreiðslu íslenskra króna en ætla verði að það hafi verið gert til hægðarauka fyrir stefnanda. Hafi stefndi ekki séð ástæðu til annars en að verða við þeirri ósk en árétti að það hagræði verði í engu talið breyta eðli lánssamningsins sem fjölmyntaláns sem skýrlega megi lesa af texta hans. Stefndi kveður að greiðsla inn á krónureikning að hluta geti ekki orðið þess valdandi að lán í erlendum myntum verði talið lán í íslenskum krónum, þ.e. af þeirri einni ástæðu að lánveitandi hafi tekið að sér að skipta gjaldmiðlum í íslenskar krónur með þessum hætti. Aðalskylda stefnda sem lánveitanda hafi eftir sem áður lotið að því að lána erlenda gjaldmiðla til endurfjármögnunar láns í erlendum gjaldmiðlum.

Í íslenskum rétti verði samningsfrelsi manna ekki takmarkað nema með skýrum lagaákvæðum. Ekkert í lánssamningi aðila bendi til þess að um lán í íslenskum krónum með gengistryggingu hafi verið að ræða. Í þessu sambandi bendi stefndi á dóma Hæstaréttar í málum nr. 551/2011 og 552/2011.

                Stefndi vísar til dómafordæma Hæstaréttar í málum nr. 3/2012 og 66/2012, en í báðum málum hafi Hæstiréttur fallist á að um lán í erlendum myntum hafi verið um að ræða. Um skýr dómafordæmi sé að ræða þar sem ítarlega hafi verið farið yfir þau atriði sem greindu á milli þessara tegunda lánssamninga. Í báðum tilvikum hafi Hæstiréttur vísað til þess að niðurstaðan um lán í erlendum myntum væri einkum fengin með vísan til heitis lánssamnings, tilgreiningar lánsfjárhæðarinnar og vaxta auk tilhögunar lánsfjárhæðarinnar, þ.e. framkvæmd aðalskyldu og greiðslu afborgana og vaxta.

Fyrirsögn samningsins í máli nr. 3/2012 hafi verið lánssamningur í erlendum myntum en í þessu máli og í máli nr. 66/2012 hafi fyrirsögn samningsins einungis verið lánssamningur. Um þennan mun á fyrirsögnum hafi Hæstiréttur tekið fram í máli nr. 66/2012, að sá munur geti einn út af fyrir sig ekki ráðið niðurstöðu um skýringu þessara samninga heldur verði að gæta að því hvernig háttað hafi verið ákvæðum samningsins um efndir aðila og hvernig að þeim hafi verið staðið í raun. Stefndi byggir á því að þrátt fyrir að fyrirsögn samningsins beri ekki með sér efni hans, komi fram í upphafsköflum samningsins um lánsfjárhæð og útborgun að um sé að ræða lán í erlendum myntum að jafnvirði ákveðinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Samkvæmt beinni textaskýringu megi álykta að um sé að ræða ádráttarlán þar sem lántaki leggi fram beiðni um útborgun, sbr. viðauka I við samninginn. Séu myntir tilgreindar sérstaklega eftir tegund og fjárhæð í viðaukum sem séu órjúfanlegir þættir lánssamningsins. Þá sé hver ádráttarbeiðni, sem tiltaki tegund og fjárhæð erlendra gjaldmiðla, undirrituð af stefnanda sem lántaka um leið og lánssamningurinn hafi verið undirritaður og sé hluti lánssamningsins samkvæmt 14. gr. hans. Í þessu sambandi bendir stefndi á að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 386/2012 byggist niðurstaða um að haldlaust hafi verið fyrir lánveitanda að bera fyrir sig tilgreiningu lánsfjárhæðar í erlendum gjaldmiðlum í umsókn lántaka um lánið að hvergi hafi verið vísað til hennar í samningnum og hún hafi eingöngu tekið til hluta lánsins. Af forsendum Hæstaréttar megi sjá að tilgreining í erlendum gjaldmiðlum í öðrum skjölum en meginmáli lánssamnings hafi þýðingu ef beint eða óbeint er til hennar vísað í lánssamningnum.

                Í öðru lagi hafi stefnandi óskað sérstaklega eftir láni í erlendri mynt á grundvelli sérfræðiráðgjafar sem stefnandi hafi sótt óháð stefnda, og hafi samningsgerð, af þeirri ástæðu, verið háttað eins og raun ber vitni. Með vísan til tilgangs lánsins, sem snúi að endurfjármögnun framkvæmdarláns lántaka við Glitni hf., feli sú framkvæmd í sér að lánveitanda hafi verið gert að leggja tilteknar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikninga Glitnis. Eini tilgangur lánsins hafi því verið að endurfjármagna umrætt framkvæmdalán og hafi aðalskylda stefnda sem lánveitanda verið frá upphafi að greiða erlendan gjaldeyri inn á umrædda gjaldeyrisreikninga. Í einni ádráttarbeiðni hafi lántaki óskað eftir að hluti hins erlenda lánsfjár yrði útborgaður inn á íslenskan krónureikning. Hvergi í ádráttarbeiðnum sé þó óskað eftir lánsfé í íslenskum krónum. Fjárhæðir hinna erlendu mynta séu tilgreindar en ekki fjárhæð í íslenskum krónum. Geti það að lánveitandi hafi tekið að sér að skipta gjaldmiðlum í íslenskum krónum með þessum hætti í engu haft áhrif á framangreindan tilgang lánsins og tilgreiningu lánsfjárhæðar.

                Í þriðja lagi megi telja ljóst að vaxtaákvæði lánssamningsins séu til samræmis við að um fjölmyntalán sé að ræða þar sem vextirnir hafi ráðist af þeim myntum sem stefnandi hafi óskað eftir í ádráttarbeiðnum. Grunnur samningsvaxta sé EURIBOR og LIBOR þar sem enginn hluti lánsins hafi verið í íslenskum krónum, en þessir millibankavextir, að viðbættu umsömdu vaxtaálagi, séu miklum mun lægri en umsamdir vextir af láni í íslenskum krónum og enn fjær þeim vöxtum sem lántaka hefði boðist á almennum lánamarkaði af láni í íslenskum krónum. Ákvörðun vaxta sé til merkis um að lánssamningurinn hafi falið í sér veitingu láns í þeim gjaldmiðlum sem tilgreindir séu í þeim hluta samnings aðila sem nefndur sé ádráttarbeiðnir, þ.e. í erlendum gjaldmiðlum.

                     Í hæstaréttarmálum nr. 3/2012 og 66/2012 hafi verið litið til þess að erlendir gjaldmiðlar hefðu í raun skipt um hendur þegar lánveitendur hefðu efnt aðalskyldu sína samkvæmt viðkomandi lánssamningum. Hafi það falist í því að lánveitendur hefðu sannanlega lagt tilteknar fjárhæðir, sem hafi verið óskað eftir í ádráttarbeiðnum, inn á gjaldeyrisreikninga lántaka í þeim gjaldmiðlum. Í þessu tilviki hafi hluti lánsins verið lagður inn á gjaldeyrisreikning hjá Glitni banka hf. til uppgreiðslu á láni lántaka við þann banka. Um hafi verið að ræða 529.136 bandaríska dollara, 28.000.000 japönsk jen, 670.000 svissneska franka, 4.600.000 sænskar krónur og 327.050 evrur, samtals að jafnvirði 171.489.270 íslenskra króna. Stefndi kveður að það sé því óumdeilanlegt hvað þennan hluta lánsins varði að erlendir gjaldmiðlar hafi í raun skipt um hendur.

Annar hluti lánsins, samtals að jafnvirði 265.457.480 krónur, hafi verið lagður, að beiðni lántaka, inn á íslenskan krónureikning. Um hafi verið að ræða 770.864 bandaríska dollara, 170.000 bresk pund, 600.000 kanadíska dollara og 1.592.515 evrur. Hafi þetta verið gert að sérstakri ósk lántaka þrátt fyrir að um fjölmyntalán hafi verið um að ræða en hvorki í samningi né í viðaukum við hann sé fjárhæð í íslenskum krónum tilgreind. Stefndi vísar í þessu tilliti til dóms Hæstaréttar í máli nr. 524/2011, þar sem skilmálar lánssamnings í því máli hafi verið að nokkru leyti sambærilegir lánssamningi þeim sem um sé deilt í þessu máli. Þannig hafi höfuðstóll verið tilgreindur í hinum erlendum myntum, en skuldbindingar aðila hafi verið inntar af hendi í íslenskum krónum, og lánið hafi verið talið lögmætt erlent lán.

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi vitað vel að um fjölmyntalán hafi verið að ræða, þar sem hann hafi skuldbundið sig í lánssamningi, sbr. 2.3 gr. hans, til að ráðstafa láninu til endurfjármögnunar á láni í erlendri mynt. Aðilar hafi því í upphafi verið sammála um að lánssamningurinn hafi lotið að láni á erlendum gjaldmiðlum og erfitt sé að sjá hvað hafi breytt þeirri skoðun stefnanda. Þá sé ítrekað að stefnanda hafi allan lánstímann verið heimilt að breyta láninu í lán í íslenskum krónum teldi hann það henta sér betur.

Lánið virðist hafa verið endurgreitt af stefnanda með íslenskum krónum en ekki í þeim gjaldmiðlum sem það hafi samanstaðið af. Leiði sú framkvæmd endurgreiðslu í engu af heimildum lánssamningsins þar sem ekkert í samningnum sjálfum bendi til þess að endurgreiða hafi átt lánið í íslenskum krónum. Engar heimildir komi fram í lánssamningi til að greiða lánið með þeim hætti og sé endurgreiðslustaður ekki tilgreindur sem bankareikningur í íslenskum krónum.

        Stefndi kveður að af dómafordæmum Hæstaréttar megi draga þær ályktanir að efndir lánveitanda á aðalskyldu sinni vegi þyngra við matið en efndir lántaka, enda verði að telja þá niðurstöðu í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001. Megi þar nefna hæstaréttardóma í málum nr. 66/2012, 332/2012, 19/2012 og 467/2011. Af þeim megi ráða að líta verði til þess í hvaða mynt skuldbinding lántaka hafi stofnast, eftir ákvæðum lánssamningsins eða í raun. Efni lánveitandi aðalskyldu sína í erlendri mynt, og kveðið sé á um það í lánssamningi að endurgreiða skuli lánið í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af, hafi verið talið að skuldbindingin hafi stofnast í erlendri mynt, óháð því hvort lántaki hafi í raun efnt þær skuldbindingar í þeim myntum eða íslenskum krónum. Þetta megi ráða af því að í þeim tilvikum sem aðalskylda lánveitanda sé efnd í erlendum myntum, en aðalskylda lántaka í íslenskum krónum, hafi verið talið að um lögmætt erlent lán væri að ræða.

Þá komi fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 62/2012 að meira máli skipti hvernig ætlunin hafi verið að lán skyldi endurgreiðast eftir samningi aðila en hvernig endurgreiðslan hafi farið fram í raun og veru. Nánar tiltekið hafi í dómnum verið sagt að leggja skyldi til grundvallar að lánið sé í erlendum gjaldmiðli ef í samningi er gengið út frá því að fé í erlendum gjaldmiðli myndi einnig skipta um hendur þegar lántaki efndi aðalskyldu sína, óháð því hvernig efndir hafi orðið í raun.

V

                Ágreiningur aðila lýtur í fyrsta lagi að því hvort lán samkvæmt lánssamningi nr. 01/2008, sem dagsettur er 18. janúar 2008, sé lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla.

                Ákvæðum umdeilds samnings er lýst hér að framan. Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands, þar sem fjallað hefur verið um hvort samningur sé um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar, hefur fyrst og fremst verið byggt á skýringu texta viðkomandi lánssamnings þar sem lýst er skuldbindingu þeirri sem lántaki gengst undir. Í þeim tilvikum þegar textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis lánssamningurinn er, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti. 

                Samkvæmt því ber fyrst að líta til þess að umdeildur samningur er á forsíðu sinni sagður vera lánssamningur. Fjárhæð lánsins er í samningnum tilgreind með því einu að hún sé að andvirði 541.000.000 króna í erlendum myntum og/eða íslenskum krónum. Í viðauka 1 við samninginn eru undirritaðar sex beiðnir um útborgun láns, dagsettar sama dag og samningurinn er dagsettur. Í öllum þeim beiðnum kemur fram að stefnandi óski þess að lánið, samtals að fjárhæð allt að 541.000.000 króna, verði greitt út „með eftirfarandi hætti“. Síðan eru lánshlutar tilgreindir í ýmsum erlendum myntum og fjárhæð þeirra mynta, sem og hvert ráðstafa skyldi greiðslunni.

Óumdeilt er að útborgunarfjárhæð lánsins var að stærstum hluta greidd inn á reikning stefnanda í íslenskum krónum en að hluti lánsins var greiddur inn á gjaldeyrisreikning í eigu Glitnis banka hf. til að greiða upp lán stefnanda þar. Stefndi efndi því aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum í raun í íslenskum krónum, a.m.k. að stærstum hluta. Greiðsluseðlar vegna lánsins liggja frammi í málinu og er þar fjárhæð greiðslunnar tilgreind bæði í erlendum myntum og íslenskum krónum. Jafnframt kemur þar fram lánsfjárhæð í erlendum myntum og segir þar „Verðtrygging/Mynt“. Einnig er óumdeilt í málinu að stefnandi greiddi ávallt vexti og afborganir af láninu í íslenskum krónum, í samræmi við greiðsluseðla stefnda. 

Þegar það er virt að í umdeildum samningi, sem sagður er „lánssamningur“, er fjárhæð lánsins einungis tilgreind í íslenskum krónum og hvergi í honum sagt til um hvort lánið komi til með að verða í einhverjum erlendum gjaldmiðlum fremur en íslenskum krónum, hverjir þeir gjaldmiðlar þá yrðu, fjárhæð þeirra eða hlutfall af fjárhæðinni í íslenskum krónum, verður að líta svo á að lánssamningurinn hafi eingöngu tekið til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli, sem óheimilt var samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, að binda við gengi erlendra gjaldmiðla. Þarf þá ekki að líta til þess hvernig aðilar efndu skuldbindingar sínar í raun. Þá hreyfir það ekki framangreindri niðurstöðu að tilgreining lánsfjárhæðar, afborgana og vaxta, hafi verið í hinum erlendu gjaldmiðlum. Framlagðir greiðsluseðlar bera enda með sér að stefnandi hafi ávallt verið krafinn um greiðslu í íslenskum krónum, miðað við gengi hinna erlendu gjaldmiðla á umsömdum gjalddögum. Það að stefndi hafi fjármagnað lánveitinguna með erlendu lánsfé fær ekki hnekkt því að lánið var ákveðið í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla. 

Ágreiningur aðila lýtur í öðru lagi að því á hvaða forsendum endurreikna skuli skuldbindingar samkvæmt samningnum, í ljósi fyrrgreindrar niðurstöðu.

Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, eins og greininni var breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010, skal upphaflegur höfuðstóll skuldar ólögmæts gengisláns vaxtareiknaður þannig að miðað sé við að lán beri vexti samkvæmt 1. málsl. 4. gr. laganna, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Dómurinn kvað á um að órjúfanleg tengsl væru á milli gengisviðmiðunar og vaxtaákvörðunar við þær aðstæður að lán hefði verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Væri því óhjákvæmilegt að ógilding ákvæðis um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samnings um vaxtahæð. Væru ákvæði um gengistryggingu ógild skyldi miða við að lán hefði borið vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, í samræmi við fyrirmæli 5. mgr. 18. gr. laganna.

Aðalkrafa stefnanda byggir á þeim forsendum að hver og ein vaxtagreiðsla, sem stefndi hafi athugasemdalaust veitt viðtöku, hafi falið í sér fullnaðargreiðslu af hálfu stefnanda. Stefndi geti því ekki krafið stefnanda um viðbótargreiðslur vegna vaxtagjalddaga aftur í tímann. Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að stefnandi hafi greitt þá vexti sem tilgreindir voru á greiðsluseðlum stefnda í góðri trú um lögmæti lánsins og að greiðslurnar fælu í sér réttar og fullar efndir af hans hálfu. 

Eins og að framan greinir var lánið til 15 ára og bar að endurgreiða það með 30 afborgunum á 6 mánaða festi. Fyrsti gjalddagi þess var í apríl 2008. Þá liggur fyrir að stefnandi greiddi reglulega af láninu frá fyrsta gjalddaga þess fram til þess að hann greiddi lánið upp í desember 2012, eða alls 10 sinnum. Fyrstu dómar Hæstaréttar um ólögmæta gengistryggingu féllu árið 2010. Með fleiri dómum réttarins sem fjölluðu um ágreining um ólögmæta gengistryggingu, komst á skýrari mynd um það til hvers konar samninga dómafordæmi réttarins tækju. Stefnandi greiddi síðustu greiðslu af samningnum hinn 31. desember 2012, með því að greiða samninginn upp með fyrirvara um lögmæti hans og um að með greiðslunni væri hann ekki að fyrirgera mögulegum betri rétti sínum, yrði komist að þeirri niðurstöðu að lánið væri íslenskt lán bundið ólögmætri gengistryggingu. Hinn rangi lagaskilningur aðila, byggður á röngum lagaskilningi, verður því talinn stefnanda að öllu leyti afsakanlegur. 

Einnig ber að líta til þess að er lánið var greitt upp í desember 2012 hafði stefndi greitt u.þ.b. 1/3 hluta þess og að hann hafði ávallt verið í skilum með greiðslur. Þá skal jafnframt litið til þess að hlutfall viðbótarkröfu stefnda vegna vangreiddra vaxta miðað við höfuðstól er meira en 26%, og er umtalsvert. Þá er og rétt að líta til þess að stefndi er lánafyrirtæki sem starfar samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki en ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi búið yfir slíkri sérþekkingu um fjármálastarfsemi og peningamál að jafnað verði við þá sem fjármálafyrirtæki búa að öðru jöfnu yfir. Aðstöðumunur var því með aðilum í viðskiptum þeirra.

Þegar allt framangreint er virt þykir það standa stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu. Samkvæmt því verður fallist á þann útreikning sem liggur til grundvallar kröfu stefnanda og fallist á kröfu hans, eins og hún er fram sett.

                Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Viðurkennt er að lánssamningur aðila nr. 1/2008, dagsettur 18. janúar 2008, sé um lán í íslenskum krónum og bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2008, um vexti og verðtryggingu.

Stefndi, Lánasjóður sveitarfélaga ohf., greiði stefnanda, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs., 370.442.781 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. desember 2012 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.