Hæstiréttur íslands

Mál nr. 396/2011


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Endurgreiðslukrafa


                                     

Fimmtudaginn 19. janúar 2012.

Nr. 396/2011.

Ágústa Markúsdóttir

(Halldór Þ. Birgisson hrl.)

gegn

þrotabúi Ásbergs ehf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Endurgreiðslukrafa.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um riftun á tveimur greiðslum Á ehf. til ÁM á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Taldi Hæstiréttur að þegar litið væri til greiðslna af höfuðstól skuldar Á ehf. við ÁM, sem félagið hafði innt af hendi frá því til skuldarinnar var stofnað, yrði fallist á það að greiðslurnar hefðu verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt var. Í ljósi fjárhagsstöðu félagsins, bæði greiðslugetu þess og mikilla skulda umfram eignir, hefðu greiðslurnar ekki verið venjulegar eftir atvikum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 27. apríl 2011. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. júní 2011 og áfrýjaði hún öðru sinni 23. júní sama ár samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af kröfum stefnda, en til vara að endurgreiðslukrafa hans verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi veitti Ásberg ehf. lán að fjárhæð 6.000.000 krónur á árinu 2004. Hvorki var samið um vexti af láninu né um gjalddaga þess. Samkvæmt yfirliti úr bókhaldi hins gjaldþrota félags greiddi það af höfuðstól lánsins 1.872.000 krónur á árinu 2004, 250.000 krónur á árinu 2005, 960.000 krónur á árinu 2006, 350.000 krónur á árinu 2007, 450.000 krónur á árinu 2008, en 2.150.000 krónur á árinu 2009, þar af þær tvær greiðslur, sem riftunar er krafist á. Auk þess greiddi félagið að minnsta kosti tvisvar vexti af láninu. Fyrirsvarsmaður félagsins, sem er sonur áfrýjanda, upplýsti fyrir dómi að greiðslan 29. maí 2009 að fjárhæð 900.000 krónur hefði verið innt af hendi þegar félagið fékk lokagreiðslu 6.800.000 krónur vegna uppgjörs tilgreinds verks. Seinni greiðslan 20. júlí 2009 að fjárhæð 1.000.000 krónur hefði einnig verið innt af hendi þegar lokauppgjör barst vegna annars verks, en fjárhæð þeirrar greiðslu mun hafa verið um 3.000.000 krónur. Síðast nefndan dag var gert árangurslaust fjárnám hjá félaginu fyrir kröfu Tollstjórans í Reykjavík sem sögð var að höfuðstól 43.476.228 krónur. Óumdeilt er að félagið hafði yfirdregið verulega tvo af þremur bankareikningum, sem notaðir voru í rekstri þess þegar greiðslurnar tvær voru inntar af hendi og að engin innstæða var á hinum þriðja. Einnig er upplýst að félagið skuldaði ýmsum öðrum en áfrýjanda umtalsverðar fjárhæðir á sama tíma. Meðal annars skuldaði félagið svonefnda vörsluskatta og iðgjöld í lífeyrissjóð vegna starfsmanna sinna fyrir nokkra mánuði. Lýstar kröfur í búið námu tæplega 250.000.000 krónum, en ekki var tekin afstaða til almennra krafna. Félagið átti óverulegar eignir er bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta.

Ekki hafa verið lagðar fram upplýsingar úr bókhaldi hins gjaldþrota félags um tekjur þess í maí, júní og júlí 2009.

Þegar litið er til þeirra greiðslna af höfuðstól skuldar hins gjaldþrota félags við áfrýjanda, sem félagið hafði innt af hendi frá því að til skuldarinnar var stofnað, verður fallist á með héraðsdómi að greiðslur þær, sem krafist er riftunar á, hafi verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt var. Í því sambandi hefur sérstaka þýðingu að í janúar 2009 greiddi félagið 250.000 krónur inn á höfuðstól skuldarinnar. Í ljósi fjárhagsstöðu félagsins, bæði greiðslugetu þess og mikilla skulda umfram eignir, voru greiðslurnar ekki venjulegar eftir atvikum. Verður því fallist á kröfu stefnda um riftun greiðslnanna, sem fram fóru á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, sem var 28. ágúst 2009, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Um endurgreiðslu fer samkvæmt 1. mgr. 142. gr. sömu laga og verður áfrýjandi því dæmd til að greiða þá auðgun, sem hún hlaut vegna greiðslnanna umfram aðra kröfuhafa félagsins. Um var að ræða peningagreiðslur og liggur ekki annað fyrir en að auðgun hennar hafi numið höfuðstól krafnanna. Áfrýjandi hefur til vara krafist þess ,,að kröfur [stefnda] verði lækkaðar.“ Er sú krafa einungis reist á því að hvað sem öðru líði eigi að hafna riftun fyrri greiðslunnar. Samkvæmt því sem áður greinir verður ekki á varakröfu áfrýjanda fallist.

Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ágústa Markúsdóttir, greiði stefnda, þrotabúi Ásbergs ehf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. janúar síðastliðinn, var höfðað 4. maí 2010 af Þrotabúi Ásbergs ehf., Túngötu 5, Reykjavík, gegn Ágústu Markúsdóttur, Þórðarsveig 18, Reykjavík.

Af hálfu stefnanda eru gerðar eftirfarandi dómkröfur:

1.              Að rift verði með dómi greiðslu á 900.000 krónum, sem fram fór 29. maí 2009, og greiðslu á 1.000.000 króna, sem fram fór 20. júlí sama ár, með innborgun á reikning stefndu, Ágústu Markúsdóttur.

2.              Að stefndu verði gert að greiða stefnanda, þrotabúi Ásbergs ehf., 1.900.000 krónur með vöxtum af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum hjá bönkum og sparisjóðum af 900.000 krónum frá 29. maí 2009 til 20. júlí s.á. og af 1.900.000 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2010, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 1.900.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

3.              Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda máls­kostnað að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Af hálfu stefndu er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Krafist er málskostnaðar samkvæmt mati dómsins en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2009 var bú Ásbergs ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og var skiptastjóri skipaður sama dag. Með bréfi 15. mars 2010 lýsti skiptastjóri yfir riftun á greiðslum, sem félagið hafði greitt stefndu 29. maí 2009, að fjárhæð 900.000 krónur, og 20. júlí s.á., að fjárhæð 1.000.000 króna. Stefnda er móðir stjórnarmanns og framkvæmdastjóra félagsins. Greiðslurnar komu til af því að hún hafði lánað syni sínum 6.000.000 króna á árinu 2004 vegna opinberra gjalda sem félagið þurfti þá að greiða.

Skiptastjóri telur greiðslurnar riftanlegar á grundvelli lagaákvæða um gjaldþrota­skipti o.fl. Krafan um endurgreiðslu er einnig byggð á ákvæðum sömu laga. Af hálfu stefndu er öllum kröfum stefnanda mótmælt og einnig er því mótmælt að skilyrði riftunar séu fyrir hendi.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að 20. júlí 2009 hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá Ásbergi ehf. Beiðni um töku búsins til gjaldþrotaskipta hafi borist 28. ágúst 2009, en það sé frestdagur. Búið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 4. nóvember s.á. Við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar hafi þrotabúið tekið yfir öll fjárhagsleg réttindi Ásbergs ehf., sbr. 72. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrota­skipti o.fl. Innköllun til kröfuhafa hafi verið birt í Lögbirtingablaði 11. nóvember s.á.

Við könnun skiptastjóra á fjárreiðum þrotabúsins hafi komið í ljós greiðslur frá Ásbergi ehf. til stefndu, 29. maí s.á. upp á 900.000 krónur og 20. júlí s.á. upp á 1.000.000 króna. Stefnda sé móðir fyrrum eiganda, stjórnarmanns og framkvæmda­stjóra Ásbergs ehf. Með bréfi 15. mars 2010 hafi skiptastjóri rift greiðslunni, m.a. með vísan til 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991, og krafist endurgreiðslu, en stefnda hafi ekki orðið við þeirri beiðni.

Riftunarkrafan sé einkum byggð á 134. gr. framangreindra laga þar sem riftun sé heimiluð ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.

Samkvæmt yfirliti úr bókhaldi þrotabúsins sjáist að skuld að fjárhæð 6.000.000 króna hafi stofnast hjá Ásbergi ehf. við stefndu 8. mars 2004. Í bókhaldsgögnum komi fram að um sé að ræða lán stefndu til félagsins. Ekki sé tiltekinn sérstakur gjalddagi á láninu, en á næstu árum hafi verið greiddar inn á það fjárhæðir á bilinu 100.000 krónur til 250.000 krónur í senn, tvisvar til þrisvar á ári. Meðaltal greiðslna árin 2006, 2007 og 2008 hafi verið 586.667 krónur á ári. Skuld félagsins við stefndu 1. janúar 2009 hafi verið 2.117.108 krónur, en við gjaldþrot þess hafi það verið búið að ofgreiða stefndu um 32.892 krónur.  

Skuldin hafi verið greidd fyrr en eðlilegt geti talist. Um hafi verið að ræða greiðslu á kröfu, sem var orðin fimm ára gömul, og aldrei fyrr hefði verið greitt jafn mikið af láninu á einu ári. Engin gögn sýni fram á að lánið hafi verið fallið í gjalddaga, hvað þá að innheimtuaðgerðir hafi verið yfirvofandi vegna þess eða að greiðslan hafi verið nauð­synleg til að viðhalda rekstri félagsins. Þegar fyrri greiðslan átti sér stað í maí 2009 hefði Ásberg ehf. ekki skilað inn iðgjöldum í lífeyris­sjóði fyrir starfsmenn sína í tæpt hálft ár. Skuld félagsins vegna vangoldinnar stað­greiðslu, tryggingagjalds og virðisaukaskatts hafi verið komin upp í rúmar 80 milljónir króna, en 12. febrúar og 29. maí 2009, sama dag og fyrri greiðslan hafi átt sér stað, hafi verið lagðar inn aðfararbeiðnir frá Tollstjóranum vegna vangoldinna opinberra gjalda til Sýslu­mannsins í Reykjavík. Árangurslaust fjárnám hefði verið gert hjá félaginu 20. júlí 2009, en þann dag hafi einmitt síðari greiðslan til stefndu verið innt af hendi. Því sé ekki hægt að telja umræddar greiðslur eðlilegar á þessum tíma heldur hafi þær væntanlega farið fram vegna tengsla stefndu við félagið.  

Þá reisi stefnandi riftunarkröfu sína einnig á því að umræddar greiðslur hafi skert greiðslugetu þrotamanns verulega. Þegar greiðslurnar fóru fram hafi eignastaða félagsins verið með þeim hætti að skuldir þess hafi verið langt umfram eignir þess. Þegar fyrri greiðslan fór fram 29. maí 2009 hafi bankareikningur félagsins nr. xxx verið í mínus tæpri 21 milljón króna, bankareikningur nr. yyy, sem greitt hafi verið út af til stefndu, hafi verið í mínus 5.531.106 krónum fyrir greiðsluna og banka­reikningur nr. zzz hafi verið á núlli. Engir raunverulegir peningar hafi því verið til greiðslu kröfunnar til stefndu heldur hafi verið gengið á yfirdráttarheimildir félagsins sem hafi á þeim tíma verið nær fullnýttar. Viðskiptabankar félagsins, Arion­banki og Íslandsbanki, hafi gert kröfur í þrotabúið, samtals að fjárhæð 75.151.342 krónur. Ásberg ehf. hafi einnig á þessum tíma verið í vanskilum, bæði við lífeyrissjóði og skattayfirvöld. Þegar síðari greiðslan fór fram 20. júlí 2009 hafi bankareikningur félagsins nr. xxx verið í mínus 20,5 milljónum króna og reikningur nr. yyy í mínus 5.507.990 krónum fyrir greiðsluna til stefndu. Bankareikningur nr. zzz hafi verið á núlli. Sama dag og félagið hafi greitt stefndu hafi verið gert árangurs­laust fjárnám hjá félaginu. Með hliðsjón af öllu ofangreindu verði því að telja að umræddar greiðslur hafi skert greiðslugetu þrotamanns verulega.

Stefndi reisi kröfu sína um riftun einnig á því að umrædd greiðsla sé riftanleg á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þeirri lagagrein megi krefjast riftunar ráðstafana, sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjald­færni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Greiðslan hafi verið stefndu til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa, enda hefði þessi ráðstöfun leitt til skuldaaukningar þrotabúsins og hafi verið kröfu­höfum þess til tjóns.

Fjárhagsleg staða félagsins þegar greiðslurnar voru inntar af hendi hafi verið rakin hér að framan. Lýstar kröfur í þrotabúið nemi tæpum 250 milljónum króna, en litlar eignir hafi verið í þrotabúinu og því hafi ekki verið tekin afstaða til almennra krafna að sinni. Helstu eignir felist í viðskiptakröfum og hugsanlegum riftunar­kröfum þrota­búsins á hendur þriðja aðila. Stærstu kröfurnar beindust þó að félögum og einstak­lingum sem tengdust fyrrum forsvarsmanni Ásbergs ehf. en óljóst sé hvort þær fáist greiddar.

Stefndu hafi mátt vera fyllilega ljóst að fjárhagsleg staða Ásbergs ehf. væri orðin slæm. Félagið hafi alveg hætt rekstri í lok ágúst 2009, en þá hafði rekstur félagsins gengið illa um þó nokkurn tíma. Starfsfólki hafði verið fækkað um rúmlega helming frá haustinu 2008 og verkefnum sömuleiðis. Þá hafi stefnda sterk persónuleg tengsl við félagið, en sonur hennar sé stjórnarmaður, eigandi og framkvæmdastjóri félagsins. Tengdadóttir stefndu sé varamaður í stjórn og hafi starfað á skrifstofu félagsins og tveir sonarsynir stefndu hafi einnig unnið hjá félaginu. Þá hafi umræddar greiðslur ekki verið í samræmi við afborganir af láninu undanfarin ár og gefi hröð uppgreiðsla lánsins til kynna að stefndu hefði verið hyglað umfram aðra kröfuhafa.

Kröfu sína samkvæmt 1. tl. dómkrafna um riftun á greiðslum reisi stefnandi á ákvæðum XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., aðallega 134. gr., en einnig á 141. gr. laganna. Krafa um fjárgreiðslu samkvæmt 2. tl. dómkrafna sé reist á ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991, einkum 142. gr. Kröfur sínar um vexti styðji stefnandi við ákvæði II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 en upphafsdagur vaxta styðjist við 3. gr. laganna. Kröfuna um dráttarvexti styðji stefnandi við ákvæði III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, en upp­hafs­dagur dráttarvaxta styðjist við 3. mgr. 5. gr. laganna. Greiðslunni hafi verið rift með bréfi 15. mars 2010 og stefnda krafin um greiðslu. Dráttarvextir reiknist frá 15. apríl 2010 en þann dag hafi verið liðinn mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara um greiðslu. Varðandi kröfu um málskostnað vísi stefnandi til 129. gr. og 130. gr. og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um fyrirsvar skiptastjóra vísi stefnandi til XIX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Varnarþing í umdæmi Héraðsdóms Reykjavíkur styðjist við 32. gr. laga um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefndu

Af hálfu stefndu er því haldið fram að lýsing stefnanda á málavöxtum sé of knöpp og gefi ekki rétta mynd af málinu. Stefnandi sé gjaldþrota félag sem hafi að meginstefnu til verið í eigu sonar stefndu. Á árinu 2004 hafi stefnda lánað félaginu 6.000.000 króna sem á sínum tíma hafi verið nýttar til greiðslu opinberra gjalda. Lánið hafi verið greitt til baka í áföngum og í ársbyrjun 2008 hafi skuldin verið liðlega 2.300.000 krónur en í ársbyrjun 2009 hafi skuldin numið liðlega 1.800.000 krónum. Skuldin hafi síðan verið greidd upp með tveimur greiðslum, í maí og júlí á því ári. Ekki sé ágreiningur um að þær greiðslur sem krafist sé riftunar vegna hafi verið inntar af hendi til stefndu. Fyrir liggi að stefnda skuldi stefnanda ekki neitt en ófærðir á viðskiptayfirliti séu vextir á árinu 2009 sem væru umfram stöðu viðskiptareiknings.

Stefnda sé 76 ára gömul og hafi hvorki komið nálægt rekstri félagsins né verið honum kunn. Hún hefði lánað þá fjármuni sem hér um ræði á árinu 2004 og gefið syni sínum nokkuð svigrúm til endurgreiðslu en á móti hafi verið greiddir hóflegir vextir af láninu. Um fyrirkomulag á endurgreiðslum liggi frammi í málinu viðskiptayfirlit stefndu sem ekki sé ágreiningur um.

Greiðslur þær sem um ræði hafi verið greiddar þegar stefnandi fékk uppgjör verka sinna, sem unnin voru 2008 vegna Hafravatnsvegar annars vegar og Valsvallar hins vegar, en greitt hafi verið á árinu 2009. Þær greiðslur hefðu tafist í nokkurn tíma vegna ágreinings um verklok í málunum. Verkin hefðu hins vegar verið unnin á fyrra ári.

Aðaleigandi Ásbergs hafi á þessum tíma verið sannfærður um að félagið yrði ekki gjaldþrota þar sem hann hafi talið að til sértækra aðgerða kæmi þar sem verk yrðu sett af stað af opinberum aðilum eins og stjórnvöld hefðu lofað. Meðal annars af þeim sökum hafi hið gjaldþrota félag verið rekið svo lengi sem raun beri vitni og hafi haldið starfsmönnum á launum allt of lengi þegar horft sé til baka.

Aðalkrafa málins sé um sýknu og byggi hún á því að ekki séu lagaskilyrði fyrir riftunarkröfu í málinu eða kröfu um endurgreiðslu. Málið snúist um tvær fjárhæðir, 900.000 krónur, sem greiddar hafi verið 29. maí 2009, og 1.000.000 króna, sem greidd hafi verið 20. júlí 2009. Daginn sem seinni greiðslan var innt af hendi hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá félaginu en frestdagur væri rúmum mánuði síðar.

Heildarkröfur sem lýst hefði verið í búið væru um 250.000.000 króna þannig að þessar greiðslur sem hér um ræði séu óverulegar og jafnvel þótt litið sé til þess að kröfur væru væntanlega miklu lægri en þeim sé lýst en hluti krafna í búið væru ólögmæt gengislán eða áætlaðar skattakröfur.

Riftunarkrafan byggðist aðallega á 134. gr. gjaldþrotalaga en lagaskilyrði fyrir henni séu þau að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri, að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt væri eða að greiðsla hafi skert greiðslugetu þrotamanns verulega nema greiðsla hafi verið eðlileg eftir atvikum. Ekki sé um óvenjulegan greiðslueyri að ræða þar sem greitt hafi verið með peningum, þ.e.a.s millifærslu inn á reikning.

Meginmálsástæða stefnanda fyrir riftun sé að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt geti talist. Því sé mótmælt þar sem ekki hafi verið greitt fyrir umsaminn gjalddaga eða að krafan hafi verið ógjaldfallin. Greiðslur hafi sannanlega verið mismunandi en á árinu 2005 hafi verið greiddar tæpar 1,9 milljónir króna af láninu og árið 2006 tæp 1,2 milljónir króna en önnur ár minna. Ekki liggi fyrir að samið hafi verið um gjalddaga síðar en þá daga sem greitt var og að litið hafi verið fram hjá því. Greiðslan hafi tengst uppgjöri tveggja verka þar sem hluti hafi farið til uppgjörs við Ágústu. Stefnandi hafi fengið greiðslur frá Vegagerðinni vegna Hafravatnsvegar og frá Reykjavíkurborg vegna Valsvallar á árinu 2009 en greiðslurnar til stefndu tengdust þeim.

Vanskil á staðgreiðslu hafi ekkert með málið að gera, enda hefði félagið getað samið um þau á árinu 2010 ef það hefði fengið að lifa sem ekki hafi gengið eftir, m.a. vegna innheimtu ólögmætra lána. Engin tenging sé á milli hins árangurslausa fjárnáms og seinni greiðslunnar enda hafi hún verið innt af hendi af bókara og gjaldkera en ekki af framkvæmdastjóra. Tengsl stefndu skiptu engu sérstöku máli um greiðslu enda hafi reikningar og skuldir verið greiddar fram að gjaldþroti.

Seinni málsástæðan byggðist á að greiðslugeta félagsins hefði skerst verulega vegna þessara greiðslna. Því sé mótmælt þar sem um lágar fjárhæðir sé að ræða sem hafi haft óveruleg áhrif á fjármál félagsins. Á þessu tíma hafi stefnandi haft heimildir í bönkum til yfirdráttar og fyrir þeim yfirdrætti hafi verið settar ábyrgðir eigenda félagsins. Því sé mótmælt að greiðslurnar, hvor fyrir sig, hafi skert greiðslugetu félagsins verulega. Jafnframt sé á því byggt að greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum. Um lágar fjárhæðir sé að ræða sem tengdust greiðslu inn á gjaldfallna skuld til aðila sem hafi enga vitneskju haft um erfiðleika í rekstri félagsins.

Jafnframt byggi stefnandi á 141. gr. gjaldþrotalaga þar sem vísað sé til þess að um ótilhlýðilega greiðslu hafi verið að ræða stefndu til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og leiði til þess að eignir séu ekki til staðar eða skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns og stefnda hafi mátt vita að stefnandi var ógjaldfær og um ástæður þess að greiðslan væri ótilhlýðileg.

Um óverulegar fjárhæðir hafi verið að ræða, greiddar með peningum sem breyti kröfuhafa litlu. Ónýttur yfirdráttur við gjaldþrot hefði ekki komið til skipta í búinu. Þeir sem báru ábyrgð á yfirdrætti félagins hafi verið eigendur þess. Þessar greiðslur hafi ekki valdið kröfuhöfum tjóni og ekki hafi verið um skuldaaukningu að ræða þar sem í stað skuldarinnar, sem var greidd, hafi komið önnur jafn há og óveruleg sé litið til heildarskulda félagsins.

Þá sé því sérstaklega mótmælt að stefnda hafi mátt nokkuð vita um fjármál félagsins. Hún hafi ekki unnið hjá félaginu og engar upplýsingar haft um fjármál þess. Félagið hafi verið rekið á sömu starfsstöð og allar sýnilegar aðstæður eigenda þess verið hinar sömu og á árinu 2007. Þau hafi búið á sama stað og áður og engin breyting hefði orðið á einkaneyslu þeirra. Hún hafi þannig ekki haft ástæðu til að ætla að félagið vær í erfiðleikum nema sambærilegum við það sem almennt hefði verið í sam­félaginu. Stefnda hafi verið 74 ára gömul og ekki vitað betur en að um venjulegar innborganir væri að ræða.

Því sé sérstaklega hafnað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni þar sem um greiðslu hafi verið að ræða sem hafi verið hluti af umsömdum yfirdrætti félagsins en ekki ráðstöfun fjármuna sem hefðu komið til skipta í búinu.

Verði sýknukröfu hafnað að öllu leyti sé þess krafist að riftun fyrri greiðslunnar verði hafnað. Byggt sé á sömu sjónarmiðum og að ofan, enda augljóst að ekki komi til álita að rifta þeirri fyrri verði komist að gagnstæðri niðurstöðu um þá síðari.

Sjónarmiðum stefnanda um vexti sé sérstaklega mótmælt og því hafnað að dæma skuli vexti eða dráttarvexti í málinu fyrr en í fyrsta lagi við dómsuppsögu komi til áfalls í málinu að nokkru eða öllu leyti.

Varðandi málskostnað telji stefndi að nái kröfur hans fram að ganga í öllu verulegu eigi að dæma honum málskostnað í málinu.

Stefndi vísi til ákvæða gjaldþrotalaga 21/1991, aðallega 134. gr., 141. gr. og 142. gr. Varðandi vexti sé vísað til ákvæða laga nr. 38/2001. Varðandi kröfugerð, máls­kostnað og sönnun sé vísað til ákvæða laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Niðurstaða

Skilyrði þess að riftunarkrafa stefnanda, vegna greiðslu hins gjaldþrota félags á skuldinni við stefndu, nái fram að ganga samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga um gjald­þrota­skipti o.fl. er að greiðslan hafi farið fram á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, sem var 28. ágúst 2009, og að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins veru­lega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.

Eins og lýst er hér að framan voru skuldir félagsins samkvæmt því sem kemur fram í gögnum málsins verulegar við gjaldþrotið, yfirdráttur var á banka­reikningum félagsins þegar greiðslur fóru fram á skuld félagsins við stefndu og dregið hafði verulega úr starf­semi félagsins á árinu 2009. Eignir í þrotabúinu voru óverulegar samkvæmt því sem fram hefur komið.

Skuld félagsins við stefndu var frá árinu 2004 en tveir þriðju hlutar hennar höfðu þegar verið greiddir þegar félagið greiddi hinar um­deildu fjárhæðir í maí og júlí 2009. Af málsatvikum og gögnum málsins verður ekki ráðið að gjalddagi eftirstöðva skuldar­innar við stefndu, að fjárhæð 1.900.000 krónur, hafi verið kominn þegar greiðslur fóru fram. Af hálfu stefndu hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eðlilegt hafi verið á þessum tíma að greiða skuldina sem var gert á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag.

Telja verður með vísan til þess sem að framan greinir að fjárhagur félagsins hafi verið með þeim hætti þegar stefnda fékk umræddar greiðslur að á þeim tíma hafi ekki verið eðlilegt að greiða eftirstöðvar skuldarinnar. Verður því ekki fallist á, að teknu tillit til aðstæðna, að greiðslutíminn hafi verið eðlilegur, eins og haldið er fram af hálfu stefndu. Gildir hið sama um báðar greiðslurnar, 29. maí og 20. júlí 2009, en meta verður aðstæður þannig að hvorug greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum. Verður því að telja að skilyrðum laga­greinar­­innar til riftunar á umræddum greiðslum sé fullnægt. Ber með vísan til þess að taka riftunarkröfu stefnanda til greina.

Þar sem riftun fer fram samkvæmt framangreindu ber með vísan til 1. mgr. 142. gr. sömu laga að taka til greina kröfu stefnanda um að stefndu verði gert að greiða stefnanda þá fjárhæð sem stefnandi krefst en tjón þrotabúsins nemur sömu fjárhæð. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi rétt á vöxtum fyrr en að liðnum mánuði frá þeim degi er hann krafði stefndu um greiðslu. Ber með vísan til þess að taka til greina kröfu stefnanda um að stefndu verði gert að greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.900.000 krónum frá 15. apríl 2010 til greiðsludags.  

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Rift er greiðslu Ásbergs ehf. á 900.000 krónum, sem fram fór 29. maí 2009, og greiðslu á 1.000.000 króna, sem fram fór 20. júlí sama ár, með innborgun á reikning stefndu, Ágústu Markúsdóttur.

Stefnda, Ágústa Markúsdóttir, greiði stefnanda, þrotabúi Ásbergs ehf., 1.900.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. apríl 2010 til greiðsludags og 100.000 krónur í málskostnað.