Hæstiréttur íslands
Mál nr. 468/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 12. september 2007. |
|
Nr. 468/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til föstudagsins 5. október 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. október 2007 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að, kt. [...], [...], Reykjavík verði á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi, uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 5. október 2007, kl. 16:00.
Í greinargerð kemur fram að þann 6. september sl. hafi X verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavík í máli nr. s-1021/2007 til þess að sæta fangelsi óskilorðsbundið í 18 mánuði fyrir ýmis auðgunarbrot bæði einn og félagi við annan mann, frá þeim dómi kom 3. daga gæsluvarðhald til frádráttar. Þessi dómur hafi verið birtur honum í gær þann 7. september. Síðan þá sé hann grunaður um innbrot í arkitektastofu að [...], þjófnað á bifreið og stuldi á peningum úr hraðbanka svo sem hér greinir:
M. 007-2007-68724
Lögregla hafi verið kölluð á vettvang í gær að [...], en þar hafði verið brotist inn í húsnæði arkitektastofu þar sem spenntar höfðu verið upp aðaldyrnar að húsnæðinu. Þar hafi verið stolið tölvubúnaði, flatskjám, ferðatölvum og hugbúnaði sem fylgt hafi tölvunum. Einnig hafi 4 kreditkortum, bensínkorti tékkhefti og lyklum af bifreiðinni [...] verið stolið og ýmsum öðrum verðmætum. Heildarverðmæti sé áætlað um 5 milljónir. Í kjölfarið hafi kærði farið með þýfið í bifreiðina [...], og ekið af vettvangi. Kærði hafi farið svo í nokkra hraðbanka í Hafnarfirði og tekið þar út peninga. Í framhaldi af því hafi kortunum verið lokað og skoðaðar myndir úr eftirlitsmyndavélum sem leitt hafi til handtöku á X. Hafi hann játað þessi brot og hafi hann einnig bent á þýfið og hafi það fundist, allt nema ein tölva.
Með vísan til brotaferils kærða síðustu daga, og að kærði hafi hlotið 18 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm 6. sept. sl. fyrir ýmis auðgunarbrot þá sé það mat lögreglu að kærði muni halda áfram afbrotum gangi hann laus og því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi á meðan máli hans sé ólokið og þar til ákvörðun um saksókn liggi fyrir og mál sé til meðferðar fyrir Héraðsdómi. Um sé að ræða stórfellt auðgunarbrot þar sem miklum fjárverðmætum hafi verið stolið. Kærði hafi játað að hafa verið í fíkniefnaneyslu undanfarna viku og hann hafi ætlað selja ætlað þýfi upp í skuldir.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Kærði hefur viðurkennt bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að hafa framið innbrot 7. september sl. í húsnæði arkitektastofu að [...] og stolið þaðan ýmskonar tölvubúnaði, kreditkortum, lyklum af bifreið, sem hann notfærði sér, auk annarra verðmæta svo sem í rannsóknargögnum greinir. Hefur lögregla áætlað verðmæti þeirra muna sem stolið var um 5 milljónir króna. Þá liggur fyrir að kærði var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 6. september sl. dæmdur í 18 mánaða fangelsi óskilorðsbundið fyrir ýmis auðgunarbrot. Kærði hefur lýst því yfir að hann hafi tekið sér lögboðinn fjögurra vikna frest til að taka ákvörðun um hvort hann myndi áfrýja þeim dómi til Hæstaréttar. Kærði hefur lýst því yfir að innbrotið að [...], hafi hann framið undir áhrifum fíkniefna. Kærði framdi það innbrot í kjölfar refsidóms á hendur honum fyrir ýmiskonar auðgunarbrot og verður því að telja að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan málum hans er ólokið. Þá er til þess að líta að krafan um gæsluvarðhald er innan áfrýjunarfrests vegna fyrrnefnds dóms. Þykja því skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera uppfyllt. Að þessu virtu er fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi, uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 5. október 2007, kl. 16:00.