Hæstiréttur íslands

Mál nr. 261/2002


Lykilorð

  • Vátrygging
  • Samningur


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. desember 2002.

Nr. 261/2002.

Cox Försäkring A/S at Lloyd’s

(Baldvin Hafsteinsson hrl.)

gegn

Útgerðarfélaginu Lilju ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

 

Vátrygging. Samningur.

Ágreiningur málsaðila átti rætur að rekja til þess að fiskibátur Ú sökk við Snæfellsnes. Einn skipverji var um borð og var honum bjargað yfir í annan fiskibát. Skýrði skipverjinn svo frá að bráður leki hafi komið að bátnum. Í kjölfarið krafði Ú C um greiðslu vátryggingarbóta með stoð í samningi þeirra um húftryggingu bátsins en C neitaði greiðsluskyldu. C reisti sýknukröfu sína á því, að samkvæmt vátryggingarsamningi aðila nái vátryggingarverndin ekki til hvers kyns áhættu, sem leitt geti til tjóns á báti Ú. Í 9. gr. vátryggingarskilmála, sem voru hluti samnings málsaðila, voru taldar upp margs kyns tjónsorsakir sem vátryggingarvernd C skyldi ná til, þar á meðal var talin upp í d-lið sú orsök „að bátnum hvolfir eða sekkur“. Í 10. gr. skilmálanna var hins vegar tekið fram að vátryggingin nái ekki til þess ef bátur sekkur af ókunnum ástæðum. Talið var að ákvæði 10. gr. væri orðað með óvenjulegum og sérstökum hætti, en væri þó nægjanlega skýrt til að það geti gilt í lögskiptum aðilanna. Meðal þeirra ákvæða 9. gr. sem vátryggingin taki til sé ekki nefnd sú ástæða að leki komi að báti, sem leiði til þess að hann skemmist eða farist. Tekið sé fram í 10. gr. skilmálanna að það teljist ókunn ástæða ef tjón verður ekki rakið til ástæðna, sem taldar eru upp í vátryggingunni og að skilmálarnir nái ekki til þess ef bátur sekkur af ókunnum ástæðum. Samkvæmt því geti Ú ekki krafist vátryggingarfjárins með vísan til d-liðar 9. gr. Var C sýknaður af kröfu Ú.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

          Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. júní 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að krafan verði lækkuð og dráttarvextir greiðist ekki fyrr en frá þingfestingardegi í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

          Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til þess að fiskibátur stefnda, Lilja ÁR-10, sökk við Snæfellsnes aðfaranótt 16. maí 2000. Báturinn, sem var smíðaður árið 1988, var án þilfars og 2,91 brúttórúmlest að stærð. Einn skipverji var um borð og var honum bjargað yfir í annan fiskibát. Voru teknar lögregluskýrslur samdægurs af skipverjanum á Lilju og manninum, sem bjargaði honum, og jafnframt haldið sjópróf 3. júlí 2000. Skýrði skipverjinn á Lilju svo frá að bráður leki hafi komið að bátnum þannig að ekki varð við neitt ráðið. Hafi hann fyllst af sjó og sokkið á skömmum tíma. Gat skipverjinn enga skýringu gefið á því hvað gæti hafa valdið lekanum. Krafði stefndi áfrýjanda í kjölfarið um greiðslu vátryggingarbóta með stoð í samningi þeirra um húftryggingu bátsins. Því neitaði áfrýjandi og taldi greiðsluskyldu ekki vera fyrir hendi. Er málsatvikum nánar lýst í héraðsdómi.

Meðal málsskjala er bréf Landssambands smábátaeigenda til félagsmanna sinna 10. nóvember 1997. Var þar vakin athygli á því að landssambandið hafi í samvinnu við Alþjóðlega miðlun ehf. samið við Lloyd´s um mjög hagstæð iðgjöld fyrir húftryggingu smábáta. Séu þau mun lægri en iðgjöld, sem áður hafi boðist félagsmönnum landssambandsins, og sé mikilvægt að félagsmenn notfæri sér þennan hagstæða kost og festi þannig iðgjaldalækkun í sessi um ókomin ár. Þá liggur einnig fyrir í málinu beiðni stefnda 17. nóvember 1998 um vátryggingu fyrir áðurnefndan bát félagsins, sem er skráð á eyðublað Alþjóðlegrar miðlunar ehf., svo og staðfesting þess félags um vátryggingu. Er vátryggingarfjárhæð þar tilgreind 5.500.000 krónur í samræmi við beiðnina og tekið fram að áfrýjandi sé vátryggjandi. Ennfremur hafa verið lagðir fram vátryggingarskilmálar, sem bera fyrirsögnina „Skilmálar fyrir húftryggingu smábáta meðlima í Landssambandi smábátaeigenda“. Er óumdeilt að skilmálar þessir séu hluti samnings málsaðila.

Áfrýjandi reisir aðalkröfu sína um sýknu á því að samkvæmt samningnum nái vátryggingarverndin ekki til hvers kyns áhættu, sem leitt geti til tjóns á báti stefnda. Þetta einkenni á samningnum komi glöggt fram í 9. gr. vátryggingarskilmálanna þar sem taldar séu upp þær ástæður, sem geti leitt til þess að bátur farist eða skemmist, og áfrýjandi taki að sér að bæta tjón af. Áhætta af öðrum skaða sé á ábyrgð stefnda sjálfs. Í 10. gr. sé tekið fram að vátryggingin nái ekki til þess ef báti hvolfir eða hann sekkur af ókunnum ástæðum. Sú grein eigi hér við, enda sé ekki vitað af hvaða ástæðu báturinn fylltist af sjó og sökk. Þá verði að leggja til grundvallar að báturinn hafi verið óhaffær þegar hann lagði úr höfn í síðasta sinn, enda hefði hann að öðrum kosti ekki sokkið í blíðuveðri án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Varakröfu sína um lækkun bóta byggir áfrýjandi á því að tjón stefnda nemi ekki 5.500.000 krónum, heldur mun lægri fjárhæð. Hafi það verið sannað með mati dómkvaddra manna, en með því hafi verið leitt í ljós að markaðsverð bátsins án veiðarfæra og veiðiheimilda hafi numið 2.700.000 krónum og sé áfrýjanda hvað sem öðru líði ekki skylt að bæta tjón stefnda með hærri fjárhæð. Stefndi mótmælir því að áfrýjandi geti losnað undan ábyrgð með vísan til 10. gr. skilmálanna. Til þess sé greinin allt of óljós og í raun illskiljanleg. Ástæða þess að báturinn sökk hafi verið sú að leki komst að honum og hafi tjónið því ekki orðið af óþekktum ástæðum. Hafi báturinn sokkið við eðlilega og venjulega notkun opins fiskibáts í íslenskri fiskveiðilögsögu og eigi undanþáguákvæði 10. gr. skilmálanna ekki við í málinu. Er því einnig mótmælt að báturinn hafi verið óhaffær og hafi áfrýjandi enga sönnun fært fram fyrir þeirri staðhæfingu. Þá kveði samningur aðila á um að verðmæti hins vátryggða fiskibáts sé 5.500.000 krónur, sem svari nokkurn veginn til kaupverðs hans. Um sé að ræða verðsett skírteini, sbr. 2. mgr. 75. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, og sé áfrýjandi bundinn af því. Breyti mat hinna dómkvöddu manna engu í því efni. Málsástæður aðila eru nánar raktar í héraðsdómi.

II.

Fyrirsögn 9. gr. áðurnefndra vátryggingarskilmála hljóðar svo: „Báturinn ferst og/eða skemmist af ástæðum sem rekja má til:“ Eru síðan taldar upp í liðum, sem merktir eru a til k, margs kyns tjónsorsakir sem vátryggingarvernd áfrýjanda nær til, svo sem eldsvoði, strand, óveður, brotsjór, ásigling og fleira. Ein slík er í d-lið þar sem talin er upp sú orsök „að bátnum hvolfir eða sekkur“. Fyrirsögn 10. gr. skilmálanna er þannig: „Sérákvæði ef bát hvolfir eða hann sekkur“. Segir síðan í tveimur fyrstu málsliðum greinarinnar: „Skilmálar þessir ná ekki til þess, ef bát hvolfir eða hann sekkur af ókunnum ástæðum. Það teljast ókunnar ástæður, ef ekki er unnt að rekja tjónið til neinna af þeim áhættum, sem taldar eru upp í vátryggingu þessari.“ Af hálfu áfrýjanda er haldið fram að með orðalagi 10. gr. hafi gagngert verið stefnt að því að takmarka áhættu hans ef atvik eru með þeim hætti að skýring fáist ekki á því hvers vegna tjón varð.

Það er meginregla að aðilum vátryggingarsamnings er frjálst að semja um efni hans, sbr. 3. gr. laga nr. 20/1954. Er vátryggjanda í samræmi við það almennt heimilt með ákvæði í samningi að takmarka þá áhættu, sem hann tekur að sér með vátryggingu. Ákvæði 10. gr. vátryggingarskilmála húftryggingarinnar er orðað með óvenjulegum og sérstökum hætti. Engu að síður er það nægjanlega skýrt til þess að hafna verði þeirri viðbáru stefnda að greinin geti ekki gilt í lögskiptum aðilanna sökum þess að efni hennar verði ekki skilið með góðu móti. Við úrlausn um ágreiningsefnið verður litið til þess að meðal atriða, sem talin eru upp í 9. gr. og vátryggingin tekur til, er ekki nefnd sú ástæða að leki komi að báti, sem leiði til þess að hann farist eða skemmist. Er eins og fyrr segir tekið fram í 10. gr. skilmálanna að það teljist ókunn ástæða ef tjón verður ekki rakið til ástæðna, sem taldar eru upp í vátryggingunni og að skilmálarnir nái ekki til þess ef bátur sekkur af ókunnum ástæðum. Samkvæmt því getur stefndi ekki krafist vátryggingarfjárins með vísan til d-liðar 9. gr. þeirra. Hann hefur ekki byggt á því að 10. gr. skilmálanna sé andstæð ófrávíkjanlegum ákvæðum laga nr. 20/1954 og kemur það atriði því ekki til sérstakra álita í málinu. Tilvísun stefnda til 8. gr. skilmálanna og um leið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 20/1954 er haldlaus, en sú grein laganna á hér ekki við.

Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda. Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Cox Försäkring A/S at Lloyd’s, er sýkn af kröfu stefnda, Útgerðarfélagsins Lilju ehf.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. febrúar sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 18. apríl 2001.

Stefnandi er Útgerðarfélagið Lilja ehf., kt. 430596-2099, Sambyggð 6, Þorlákshöfn.

Stefndi er Tjónamat & Skoðun ehf., kt. 410300-3380, Tryggvagötu 8, Reykjavík, vegna vátryggjandans Cox Forsäkring at Lloyd´s.

Dómkröfur stefnanda:

Að stefndi verði fyrir hönd vátryggjandans, Cox Forsäkring at Lloyd´s, dæmdur til að greiða stefnanda 5.500.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 16. maí 2000 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 16. maí 2001, en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda:

Aðallega krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði verulega lækkaðar og að dráttarvextir verði ekki reiknaðir fyrr en frá þingfestingardegi.

Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Málavextir

Hinn 17. nóvember 1998 óskaði fyrirsvarsmaður stefnanda eftir að leitað yrði tryggingar fyrir bátinn LILJU ÁR-10, skipaskr. nr. 7182. Samkvæmt áritun á beiðnina kemur fram að báturinn hafi verið keyptur í mars 1998 og gerður út frá 10. maí til loka ágúst. Stefndi tók að sér vátryggingu á bátnum. Meðal skjala málsins er staðfesting á vátryggingu bátsins tímabilið 17. nóv. 1999 til 16. nóv. 2000. Vátryggingarupphæð var umsamin 5.500.000 kr.

Þann 16. maí 2000 fórst báturinn Lilja ÁR-10 út af Dagverðará, Snæfellsnesi. Sama dag voru teknar skýrslur hjá lögreglu af vitnum að slysinu, þ.e. þeim Þorvaldi Guðmundssyni, sem var einn í áhöfn Lilju ÁR-10, og Garðari Berg Guðjónssyni, sem bjargaði Þorvaldi á bát sínum Ríkey SH-405. Sjópróf vegna sjóslyssins voru haldin fyrir Héraðsdómi Vesturlands þann 3. júlí sama ár. Til sjóprófsins var umboðsmaður vátryggjanda bátsins boðaður. Hann mætti ekki.

Stefnandi leitaði til stefnda til þess að fá tjón sitt bætt úr húftryggingu bátsins. Með bréfi, dags. 15. des. 2000, hafnaði stefndi kröfum stefnanda með þeim rökum að engin haldbær skýring á tjóninu hefði komið fram.

Undir rekstri málsins voru að ósk stefnda dómkvaddir matsmenn til þess að meta ætlað verðmæti bátsins LILJU ÁR-10, skr. nr. 7182. Í matsbeiðni segir m.a.: "Matsbeiðandi telur vátryggingarverð ekki gefa rétta mynd af raunvirði bátsins við upphaf vátryggingar og fer því fram á að hinum dómkvöddu matsmönnum verði falið að meta og gera rökstutt álit um  hvað skuli vera talið rétt verð bátsins við gildistöku tryggingar þann 17. nóvember 1999, án veiðiheimilda eða veiðiréttar, en með þeim búnaði sem báturinn var búinn er hann fórst." Í matsbeiðni segir enn fremur: "Í því sambandi skulu matsmenn styðjast við framlagðar tæknilegar upplýsingar um bátinn sem fylgir beiðni þessari svo og með samanburði við sambærilega báta að stærð og gerð að öllu leiti."

Í matsgjörð segir m.a. að ekki virðist hafa verið gert húftryggingarmat á bátnum LILJU ÁR-10 með sama hætti og gert var við báta með þilfari. Engu að síður telja matsmenn rétt að beita aðferðum sambærilegum þeim sem fjárhæðanefnd notaði á sínum tíma (aðferðir sem enn eru notaðar af tryggingarfélögum, eins og segir í matsgjörð) til að finna líklegt endurstofnverð bátsins að teknu tilliti til fyrninga. Í matsgjörðinni kemur fram að skrokkur bátsins var smíðaður á Akureyri árið 1988/1989 en lokið hafi verið við smíðina á Húsavík. Grind bátsins var úr eik en hann var síðan skarsúðaður með furu. Matsmenn segja að hvað best sé vitað sé þetta síðasti trébátur svipaðrar stærðar sem smíðaður var hér á landi og því engir sambærilegir trébátar sem hægt sé að hafa til viðmiðunar. Með því að beita framangreindum reglum, þ.e. aðferðum sambærilegum þeim sem fjárhæðanefnd notaði á sínum tíma, um framreikning stofnverðs og afskriftir áætla matsmenn að verðmæti bátsins hafi numið 4.308.000 kr. í nóvember 1999.

Varðandi hugsanlegt sölumat bátsins segir í matsgjörð að matsþoli hafi keypt bátinn 20. mars 1998 á 5.600.000 kr. Í kaupsamningi segi um veiðiréttindi að bátnum fylgi krókaleyfi skv. leyfisbréfi frá Fiskistofu fiskveiðaárið 1997/1998 (sóknardagar með handfærum) og grásleppuleyfi. Um búnað segir að bátnum fylgi þau tæki sem í honum voru er kaupandi (hér matsþoli) skoðaði bátinn, þ.m.t. þrjár DNG færavindur, línuspil, netaspil, 100 grásleppunet og 12 balar af línu.

Bátar séu nú orðið almennt smíðaðir úr plasti en slík smíði sé væntanlega nokkuð kostnaðarminni en smíði trébáta. Matsmenn hafi eftir föngum reynt að afla sér upplýsinga um söluverð báta sem seldir voru án veiðiréttinda á haustmánuðum 1999 og líkastir séu mb. LILJU ÁR. Að virtum upplýsingum um söluverð nokkurra  báta og að teknu tilliti til mismunandi búnaðar þeirra og LILJU ÁR, telja matsmenn að líklegt söluverð bátsins í árslok 1999 gæti hafa orðið 2.700.000 kr. með búnaði en án veiðarfæra og veiðiréttinda.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að þegar tjónsatburðinn bar að höndum þann 16. maí 2000 var í gildi vátryggingarsamningur milli stefnanda og Cox Forsäkring at Lloyd´s. Samkvæmt vátryggingarsamningnum hafi vátryggjandinn húftryggt vélbát stefnanda, Lilju ÁR-10 á tímabilinu 17. nóv. 1999 til 16. nóv. 2000. Tjónsatburðinn hafi borið að höndum innan gildistíma vátryggingarsamningsins.

Skilmálar vátryggingarinnar hafi verið "Institute Fishing Vessel Clauses" 20/7/87 Cls. 346 og/eða skilmálar fyrir húftryggingu meðlima í Landssambandi smábátaeigenda, dags. 1. janúar 1997. Húftryggingarfjárhæð hafi verið 5.500.000, sem sé stefnufjárhæð málsins enda hafi ekki verið um neinn frádrátt vegna sjálfsáhættu að ræða, sbr. 14. gr. nefndra skilmála.

Samkvæmt 8. gr. vátryggingarskilmálanna sem bera yfirskriftina "Það sem vátryggingin bætir" hafi vátryggjanda borið að bæta algert tjón en með því  hafi m.a. verið átt við þau tilvik að hið vátryggða færist eða skemmdist svo mikið að ekki sé unnt að bjarga því eða gera við það eða viðgerðarkostnaður sé hærri en vátryggingarverð. Loks hafi samkvæmt ákvæði þessu borið að greiða bætur ef hið vátryggða týndist eða hyrfi með þeim tilvikum sem greind eru í 1. mgr. 71. gr. og 72. gr. laga nr. 20/1954.

Samkvæmt 27. gr. vátryggingarskilmálanna hafi gilt sú almenna regla að vátryggingartaki hafi sönnunarbyrði um að tjón hafi orðið og umfang þess.

Það sé óumdeilt að Lilja ÁR-10 hafi farist þann 16. maí 2000. Slysið hafi verið tilkynnt til lögreglu sem rannsakað hafi tjónsatburðinn auk þess að haldin hafi verið sjópróf. Stefnandi hafi því fært fulla sönnun fyrir tjónsatburðinum og umfangi tjónsins. Báturinn hafi farist og ekki reynst unnt að bjarga honum. Af því leiði að vátryggjanda beri að greiða stefnanda óskertar bætur á grundvelli vátryggingar-skilmálanna sem hann gaf út.

Stefnandi styður kröfur sínar við almennar reglur samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga og ákvæði laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 og laga um vátryggingarstarfsemi nr. 60/1994.

Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda

Stefndi byggir sýknukröfur sína m.a. á því að bátur stefnanda hafi verið skráður opinn bátur og því ekki háður lögboðinni tryggingu eins og hafi gilt um þilfarsskip. Vátryggingin sem stefnandi keypti hafi verið frjáls og háð samningsfrelsi aðila. Í vátryggingarskírteini séu í 9. gr. skilmála taldar upp þær áhættur sem tryggt er fyrir. Í d) lið 9. gr. skilmálanna sé tekið fram sem nefnd áhætta, það ef bát hvolfir eða hann sekkur. Í 10. gr. skilmálanna sé að finna sérákvæði sem takmarki gildi þessa ákveðna stafliðar þannig, að vátryggingin gildi ekki í þeim tilvikum að bátur sekkur af ókunnum ástæðum. Það teljist ókunnar ástæður samkvæmt skilmálunum ef ekki sé unnt að rekja tjón til neinna af þeim áhættum sem taldar eru upp í skilmálunum.

Þegar bátur stefnanda sökk hafi verið blíðuveður. Stefnandi hafi ekki getað gefið neina viðhlítandi skýringu á því hvers vegna báturinn sökk. Ástæða tjónsins sé því með öllu ókunn.

Samkvæmt skýru ákvæði í 27. gr. skilmálanna hafi stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að tjón falli undir vátryggingarsamninginn. Sú sönnun liggi ekki fyrir og því beri að sýkna stefnda.

Bátar sökkvi ekki með óútskýrðum hætti í blíðuveðri nema annað hvort að þeir hafi verið óhaffærir við upphaf ferðar eða um saknæman atburð sé að ræða. Það að sjór komst í Lilju ÁR-10 eins og lýst var  í sjóprófi og verði til þess að báturinn sökk bendi til þess að viðhaldi bátsins hafi verið stórkostlega ábótavant. Svo mjög að telja megi að sjósetning hans og útgerð jafnist á við stórfellt gáleysi. Samkvæmt vátryggingarsamningi aðila svo og skv. 18. og 62. gr. vátryggingasamningalaga beri vátryggjandi ekki ábyrgð á tjónum sem rakin verða til sakar eða vanhirðu báts eða þess að tjón megi rekja til elli, slits eða fúa.

Tilvísun stefnanda til 8. gr. skilmálanna virðist byggð á misskilningi. Nefnt ákvæði sé eingöngu leiðbeinandi ákvæði um það hvað telja beri altjón. Á sama hátt sé tilvísun stefnanda til ákvæðis 71. gr. laga nr. 20/1954 röng. Nefnd lagagrein taki til þeirra tilvika þegar bátur eða skip er yfirgefið í hafi og óvissa ríkir um hver hafi orðið afdrif þess. Þar sem engin óvissa ríki um afdrif bátsins, eins og nefnd lagagrein byggi á, eigi hún ekki við um deiluefni aðila. Stefnanda hafi því hvorki tekist að sanna né á annan hátt að sýna fram á að tjón hans eigi undir vátryggingarsamning aðila.

Fallist rétturinn ekki á framangreind rök og stefnda verði gert að greiða stefnanda bætur byggir stefndi varkröfu sína á því að vátryggingarverðmæti bátsins sé of hátt. Raunvirði bátsins sé mun lægra og því beri að lækka stefnukröfur til muna. Í þessu sambandi er bent á ákvæði í 1. gr. í vátryggingarskilmálum þeim sem giltu á milli aðila. Við munnlegan máflutning var um rökstuðning fyrir lækkun kröfu stefnanda vísað til niðurstöðu dómkvaddra matsmann um verðmæti bátsins.     

Varðandi upphaf dráttarvaxta gerir stefndi þá kröfu að þeir verði fyrst reiknaðir frá þingfestingardegi, sbr. 9. gr. 3. mgr. vaxtalaga nr. 25/1987 en vextir skv. 7. gr. sömu laga verði reiknaðir fram að þeim tíma.

Um kröfur sínar að öðru leyti vísar stefndi til ákvæða vátryggingar-samningalaga nr. 20/1954, einkum 3., 18., 22., 2. mgr. 39. gr., 62. og 1. og 2. mgr. 75. gr. laganna.

Þá vísar stefndi til 130. gr., sbr. 129. gr. sl. (svo í grg.) um málskostnað.

Niðurstaða

Grundvöllur réttarsambands aðila er staðfesting á vátryggingu bátsins LILJU ÁR-10 og vátryggingarskilmálar fyrir húftryggingu smábáta meðlima í Landssambandi smábátaeigenda. Í staðfestingu vátryggingar kemur m.a. fram að vátryggingarfjárhæðin er 5.500.000 kr. og að vátryggingin gildir innan fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. 68. gr. laga nr. 20/1954.

Þá er bátur stefnanda sökk 16. maí 2000 höfðu verið stundaðar handfæraveiðar á bátnum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.

Því er ómótmælt að báturinn hafi verið skoðaður í apríl 2000. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á sýknukröfu stefnda sem byggð er á því að bátur stefnanda hafi verið óhaffær við upphaf ferðar eða vanhirðu bátsins hafi verið um óhappið að kenna. Um leið verður ekki fallist á mótmæli stefnda sem byggð eru á því að tjónið verði rakið til sakar eða vanhirðu báts eða elli, slits eða fúa, sbr. 18. og 62. gr. vátryggingarsamningslaga nr. 20/1954.

Ekkert er fram komið um að um saknæman atburð hafi verið að ræða.

Samkvæmt d) lið 9. gr. vátryggingarskilmálanna bætir vátryggingin tjón ef báturinn sekkur. Þegar til þess er litið sem fram kemur í lögregluskýrslum og við sjópróf vegna óhappsins þykir báturinn hafa sokkið vegna skyndilegs leka sem kom að honum. Verður því ekki á það fallist með stefnda að báturinn hafi sokkið af ókunnum ástæðum, sbr. 10. gr. skilmálanna.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að stefnda sé skylt samkvæmt vátryggingarsamningi þeim sem í gildi var á milli aðila að greiða stefnanda bætur vegna þess að bátur stefnanda LILJA ÁR-10 fórst þann 16. maí 2000.

Í 5. gr. vátryggingarskilmála segir að samkomulag vátryggingartaka og vátryggjanda um vátryggingarupphæð sé bindandi nema leitt sé í ljós að vátryggingartaki hafi gefið villandi upplýsingar um atriði sem skipta máli við ákvörðun vátryggingarupphæðar. Meðal skjala málsins er afsal til stefnanda, dags. 20. mars 1998. Þar kemur fram að kaupverð bátsins var 5.600.000 kr., en eins og að framan greinir er umsamin vátryggingarupphæð 5.500.000. Verður því ekki talið að stefnandi hafi gefið stefnda villandi upplýsingar um verðmæti bátsins.

Í matsbeiðni var farið fram á að dómkvöddum matsmönnum verði falið að meta og gera rökstutt álit um hvað skuli vera talið rétt verð bátsins við gildistöku tryggingar þann 17. nóv. 1999, án veiðiheimilda eða veiðiréttar, en með þeim búnaði sem báturinn var búinn þegar hann fórst. Í matsgjörð hinna dómkvöddu matsmanna kemur fram að ekki séu neinir sambærilegir trébátar sem hægt sé að hafa til viðmiðunar. Með því að beita tilteknum reglum, þ.e. aðferðum sambærilegum þeim sem fjárhæðanefnd notaði á sínum tíma um framreikning stofnverðs og afskriftir áætluðu matsmenn að verðmæti bátsins hafi numið 4.308.000 kr. í nóvember 1999. Að virtum upplýsingum um söluverð nokkurra báta og að teknu tilliti til mismunandi búnaðar þeirra og Lilju Ár telja matsmenn líklegt söluverð bátsins í árslok 1999 gæti hafa orðið 2.700.000 kr. með búnaði en  án veiðarfæra og veiðiréttinda.

Í afsali segi að bátnum fylgi öll tæki sem í bátnum voru við skoðun, m.a. þrjár DNG færavindur, línuspil, netaspil, 100 grásleppunet og 12 balar af línu. Jafnframt fylgdi bátnum krókaleyfi skv. leyfisbréfi Fiskistofu fiskveiðiárið 1997/1998 (sóknardagar með handfærum). Grásleppuleyfi fylgir.

Umsamin vátryggingarfjárhæð var 100.000 kr. lægri en kaupverð bátsins.

Ekki hefur verið upplýst hvert sé verðmæti ofangreinds krókaleyfis og grásleppuleyfis og þá ekki heldur að það hafi verið meira en þær 100.000 kr. sem munar á kaupverði bátsins með fylgifé og vátryggingarfjárhæð.

Þegar til þess er litið í fyrsta lagi að matsmenn höfðu ekki sambærilega báta og bát stefnanda til skoðunar og í öðru lagi að með einni aðferð komast matsmenn að þeirri niðurstöðu að verðmæti bátsins hafi numið 4.308.000 kr. í nóvember 1999 og með annarri aðferð að líklegt söluverð bátsins í árslok 1999 gæti hafa orðið 2.700.000 kr. með búnaði en  án veiðarfæra og veiðiréttinda, þá þykir stefndi ekki hafa fært sönnur að því að tjón stefnanda nemi lægri fjárhæð en vátryggingarverði skipsins, sbr. 1. gr. vátryggingarskilmálanna og 2. mgr. 75. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingar-samninga. Ber því að taka kröfu stefnanda til greina með vöxtum eins og segir í dómsorði.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna anna dómarans sem er Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari.

Stefndi greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 550.000 kr.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Tjónamat & Skoðun ehf. vegna Cox Forsäkring at Lloyd´s, greiði stefnanda, Útgerðarfélaginu Lilju ehf., 5.500.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 16. maí 2000 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Heimilt er að leggja áfallna vexti við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 16. maí 2001.

Stefndi greiði stefnanda 550.000 kr. í málskostnað.