Print

Mál nr. 4/2005

Lykilorð
  • Tollalagabrot
  • Saknæmi

Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. september 2005.

Nr. 4/2005.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari)

gegn

X

(Ólafur Garðarsson hrl.)

 

Tollalagabrot. Saknæmi.

X var sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra tiltekins félags gefið að sök tollalagabrot með því að hafa veitt tollayfirvöldum rangar upplýsingar í aðflutningsskýrslum og meðfylgjandi gögnum við innflutning tveggja vörusendinga á vegum félagsins. Talið var ósannað að X hefði staðið ásetningur til verknaðarins né að X yrði metinn hann til sakar á grundvelli stórfellds gáleysis, sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55/1987. Var X því sýknaður. Þá var ekki efni til að fallast á kröfu ákæruvalds um upptöku.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. desember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu og staðfestingar á upptöku.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri [...] ehf. brotið gegn 1. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55/1987 með síðari breytingum með því að hafa tvisvar í febrúar 2002 veitt tollayfirvöldum rangar upplýsingar í aðflutningsskýrslum og meðfylgjandi gögnum við innflutning tveggja vörusendinga á vegum félagsins frá Þýskalandi, og þannig ætlað að komast hjá greiðslu aðflutningsgjalda að fjárhæð samtals 318.580 krónur.

Ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins staðfastlega sagt að hann hafi ekki vitað að í sendingunum væru vörur, sem ekki var getið í aðflutningsskýrslum. Heldur hann því fram að faðir hans hafi útbúið reikninga með vörusendingunum, pakkað vörunum og sent þær hingað til lands. Fyrir mistök föður hans hafi ekki fylgt reikningar fyrir öllum vörunum í umræddum sendingum þannig að ósamræmi hafi orðið milli þess varnings sem var í þeim og þeirra vara sem tilgreindar voru í aðflutningsskýrslum. Þessi framburður ákærða er í fullu samræmi við framburð föður hans bæði við rannsókn málsins og fyrir dómi. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu, sem hnekkja staðhæfingum ákærða í þessu efni. Verður því hvorki talið sannað að ákærða hafi staðið ásetningur til þess verknaðar sem honum er gefinn að sök í ákæru né að ákærða verði metinn hann til sakar á grundvelli stórfellds gáleysis, sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga. Ekki verður fallist á með ákæruvaldinu að ákvæði 2. mgr. 16. gr. laganna, um ábyrgð þess sem afhendir tollstjóra upplýsingar, breyti neinu þar um. Þar sem ósannað er að áskilnaður fyrrnefnds ákvæðis um saknæmi sé fyrir hendi verður ákærði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds.

Ekki eru efni til að fallast á kröfu ákæruvalds um upptöku.

Samkvæmt þessum úrslitum skal allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, greiðast úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 542.571 króna, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Ólafs Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 498.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2004.

             Mál þetta, sem dómtekið var 18. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgef­inni af lögreglustjóranum í Reykjavík 1. júní 2004, á hendur X fyrir tollalagabrot, með því að hafa, í febrúar 2002, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri [...] ehf., kt. [...] við inn­flutning tveggja vörusendinga á vegum félagsins til Íslands frá Þýskalandi, veitt tollyfirvöldum rangar upplýsingar í aðflutningsskýrslum og gögnum þeim með­fylgjandi, með því að tilgreina ekki allan þann varning sem í sendingunum var og ætlað þannig að komast hjá greiðslu aðflutningsgjalda samtals að fjárhæð 318.580 krónur, svo sem hér greinir:

1.

Vegna vörusendingar nr. [...] sem kom til landsins 4. febrúar, ekki tilgreint á aðflutningsskýrslu, dags. 4. febrúar 2002, og reikningum henni meðfylgjandi eftirgreindan varning: 6 samfestinga, 30 leðurtauma án krækju, 10 gúmmí­tauma með krækju, 2 sportjakka, kerrugjörð, 5 tamningargjarðir, tamningar­gjörð með púðum, 25 stoppgjarðir, 253 hófbotna, 80 kg af hóffylliefni, 2000 ml af herði, 263 pör af einföldum hófhlífum, 30 pör af tvöföldum hófhlífum og 80 skeifur.

2.

Vegna vörusendingar nr. [...] sem kom til landsins 10. febrúar, ekki tilgreint á aðflutningsskýrslu, dags. 12. febrúar 2002, og reikningum henni meðfylgjandi eftirgreindan varning: 35 pör af gúmmíhófhlífum með frönskum rennilás, 10 hökukeðjur á beisli, 36 lyklakippur, 2 gel hnakkdýnur, 10 pör af ístaðsólum úr leðri, 5 pör af hnéhlífum, 10 ennisólar, 15 hestaábreiður, 10 pör af slám undir handklæði, 20 beislishanka til að festa á vegg, 5 hnakkastatíf, 20 litlar hesta­styttur úr plasti, 10 litla plasthesta, 40 píska, 10 hringtaumssvipur og stóran hnakka­stand til uppstillingar í verslun.

Framangreind brot ákærða eru talin varða við 1. mgr. 126. gr. tollalaga, nr. 55/1987, sbr. 38. gr. laga nr. 69/1996.

Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum varningi, sem lagt var hald á, samkvæmt 1. mgr. 136. gr. tollalaga.

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara krefst hann þess, að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa.  Loks krefst hann málsvarnarlauna úr ríkissjóði. 

Lögreglustjórinn í Reykjavík gaf upprunalega út ákæru vegna þessa sakarefnis 5. ágúst 2003. Aðalmeðferð fór fram í málinu 8. desember 2003, en með úrskurði héraðsdóms 31. desember sama ár var málinu vísað frá dómi.

Samkvæmt skýrslu Tollgæslunnar í Reykjavík, sem rituð er 11. febrúar 2002, var 4. febrúar 2002 ákveðið að taka til skoðunar vörusendingu í nafni einka­hlutafélagsins [...] ehf., sem komið hafði til landsins þann sama dag á sendinga­númerinu [...]. Er greint frá því að sendingin hafi verið sett í biðstöðu í tollkerfi og að óskað hafi verið eftir frekari skjölum varðandi hana. Hafi þau borist með faxi næsta dag, frá starfsmanni Tollskjalaþjónustu Jóna Transport hf., sem hafi haft með höndum gerð tollskýrslunnar. Við samanburð á vörureikningum og því er hafi verið í sendingunni hafi komið í ljós varningur er ekki hafi verið á reikningum með sendingunni. Þess er getið í niðurlagi skýrslunnar, að tollgæslu hafi borist einn reikningur til viðbótar 11. febrúar, sem hafi átt að tilheyra sendingunni. Hafi reikningurinn borist frá starfsmanni Tollskjalaþjónustu Jóna Transport hf., en starfsmaðurinn hafi lýst yfir að reikninginn hafi hann fengið í hendur frá innflytjanda sendingarinnar 6. febrúar 2002. Lagt var hald á umframvarninginn og hann fluttur í geymslu tollgæslu. Í skýrslu tollgæslunnar frá 14. febrúar 2002 er gerð grein fyrir því, að í kjölfar vörusendingar einkahlutafélagsins [...] til landsins 4. febrúar, hafi verið ákveðið að taka aðra sendingu fyrirtækisins til skoðunar. Hafi sending með númerinu [...], sem komið hafi til landsins 10. febrúar, verið sett í biðstöðu 11. febrúar og hafi verið óskað eftir skjölum varðandi þá sendingu. Þau hafi borist næsta dag frá starfsmanni Jóna Transport, sem einnig hafi séð um gerð skýrslunnar í því tilviki. Við skoðun á þeirri vörusendingu hafi einnig komið í ljós varningur, sem ekki hafi komið fram á reikningum er hafi fylgt sendingunni. Hafi umframvarningurinn að mestu verið í stórum kassa sem hafi verið merktur DMS, en reikningar frá því fyrirtæki hafi ekki fylgt tollskýrslunni. Lagt hafi verið hald á umframvarninginn og hann fluttur í geymslu tollgæslunnar.  

Ákærði hefur við rannsókn og meðferð málsins viðurkennt, að fluttar hafi verið til landsins í febrúar 2002 frá Þýskalandi, tvær vörusendingar sem tilgreindar eru í ákæru, á vegum einkahlutafélagsins [...] ehf. Hafi hann verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins á þeim tíma. Sendingarnar hafi verið fluttar til landsins í tilefni þess að opna hafi átt verslun að [...] með varning fyrir hestamenn. Faðir ákærða, A hafi verið eigandi að og rekið verslun með slíkan varning í Þýskalandi undir nafni fyrirtækisins [...]. Ákærði, í félagi við starfsmenn sína, hafi haft með höndum rekstur verslunarinnar, en í því hafi m.a. falist að taka ákvörðun um hvaða varning skyldi flytja inn til að hafa á boðstólum í hinni nýju verslun. Í ljósi þekkingar á verslun með slíkan varning og vegna tengsla ytra við byrgja með varning hafi faðir ákærða að verulegu leyti ákveðið hvaða varningur færi í hverja sendingu fyrir sig. Eftir að varningur hafi verið sendur af stað hafi ákærði nálgast reikninga fyrir varninginn á Íslandi hjá Flugflutningum ehf. Þeim hafi í kjölfarið verið komið í hendur starfsmanni Tollskjalaþjónustu Jóna Transport hf., en félagið hafi haft með höndum að útbúa aðflutningsskýrslur fyrir [...] ehf. Starfsmaður ákærða, B, hafi haft með höndum að panta frá Þýskalandi vörur í vörusendingu nr. [...]. Hafi B upplýst ákærða um að reikninga frá Þýskalandi frá DMS hafi vantað vegna vörusendingarinnar nr. [...]. Hafi B farið með reikninga vegna þeirrar vörusendingar til Tollstjórans í Reykjavík. Vegna mistaka úti í Þýska­landi hafi varningur farið í þessar tvær vörusendingar, án þess að þeim hafi fylgt tilheyrandi reikningar. Þau mistök hafi legið hjá A ytra, en A hafi legið á að koma varningnum til Íslands og ekki gætt að því að tryggja að í sendingarnar færu einungis vörur í samræmi við reikninga. Mikið kapp hafi verið lagt á að opna verslunina með hraði, en allar vörusendingar vegna opnunarinnar hafi verið fluttar til landsins með flugi. Mistökin hafi átt sér stað vegna hins mikla álags tengt opnuninni, en fluttar hafi verið til landsins margar vörusendingar á 2-3 dögum í kringum opnunina. Hafi ákærði haft uppi frumkvæði að því að koma fram leiðréttingu vegna þessa innflutnings, en yfirvöld hafi ekki viljað gefa ákærða færi á því og ákveðið að fylgja málinu eftir, en það hafi leitt til útgáfu ákæru.  

             Vitnið D kvaðst hafa verið starfsmaður Tollskjala­þjónustu Jóna Transport hf. og hafa haft með höndum gerð aðflutningsskýrslu fyrir innflytjendur. Við gerð aðflutningsskýrslu vegna vörusendingar nr. [...], er hafi komið til landsins 4. febrúar 2002, hafi vitnið fengið í hendur reikninga frá eiginkonu ákærða, eftir að eiginkonan hafi sennilega nálgast þá hjá Flugflutningum ehf. Hafi vitnið síðan fregnað frá D tollverði, að vantað hafi reikninga vegna vörusendingarinnar. Vitnið hafi hringt í ákærða 5. febrúar 2002 og upplýst hann um að ósamræmi væri í vörusendingunni og reikningum henni samfara. Næsta dag hafi vitninu borist reikningur nr. 1486 á faxi frá [...] vegna þessa varnings. Næst er vitnið hafi komið að máli við D, sennilega 10. eða 11. febrúar, hafi vitnið látið hann fá í hendur umræddan reikning.    

             Vitnið B kvaðst hafa unnið fyrir ákærða í tengslum við verslun með varning fyrir hestamenn. Verslunin hafi verið rekin í skjóli einkahluta­félagsins [...]. Vitnið kvaðst m.a. hafa haft með höndum að panta hluta af þeim varningi er komið hafi til landsins 10. febrúar 2002. Hafi vitnið leitað eftir því við A, að A myndi panta tilteknar vörur fyrir verslunina úti í Þýskalandi og safna þeim saman ytra, til að unnt væri að senda þær í einu lagi til Íslands. Vörurnar hafi vitnið ýmist pantað með faxsendingum eða með tölvupósti. Kvaðst vitnið telja að mistök hafi átt sér stað hjá A úti í Þýskalandi við sendingu á vörum til landsins, sem leitt hafi til þess að vörur hafi komið án þess að þeim hafi fylgt reikningar. Kvaðst vitnið telja að reikningar hafi ávallt fylgt sendingum til landsins. Gat vitnið þess að er það hafi hitt C tollvörð í tengslum við innflutninginn hafi komið í ljós, að reikninga fyrir varning merktan DMS hafi vantað. Hafi vitnið í beinu framhaldi komið reikningi vegna vörunnar í hendur tollyfirvalda.  

             Vitnið A kvaðst vera eigandi verslunarinnar [...], sem hefði aðsetur í Þýskalandi. Hefði verslunin á boðstólum varning fyrir hestamenn. Ákærði hafi í upphafi árs 2002 tekið ákvörðun um að opna verslun fyrir hestamenn á Íslandi. Hafi ákærði leitað til vitnisins um að útvega varning fyrir hina nýju verslun. Hafi vitnið útvegað varning frá framleiðendum í Þýskalandi og safnað honum saman hverju sinni, áður en það hafi sent hann til Íslands. Starfsmaður á skrifstofu vitnisins í Þýskalandi hafi séð um allt reikningshald og haft með höndum að senda reikninga með varningi til Íslands. Hafi þeir verið merktir einkahlutafélaginu [...]. Fyrir mistök úti í Þýskalandi, er vitnið bæri ábyrgð á, hafi ekki allir reikningar farið með vörum í tvær vörusendingar til landsins. Hafi þau mistök orðið þar sem mikil pressa hafi verið um að koma vörum til Íslands vegna opnunar verslunarinnar.

             Vitnið C tollvörður, kvaðst hafa átt þátt í að tvær vörusendingar í nafni einkahlutafélagsins [...] hafi verið stöðvaðar við tollmeðferð á Íslandi. Eftir að sendingarnar hafi verið stöðvaðar hafi verið óskað eftir gögnum varðandi sendingarnar. Eftir að þau hafi borist hafi þau verið borin saman við innihald sendinganna. Þá hafi komið í ljós varningur umfram reikninga, sem Tollgæsla hafi lagt hald á. Kvaðst vitnið hafa gert starfsmanni Tollskjalaþjónustu Jóna Transport ehf. grein fyrir að reikninga hafi vantað vegna sendinganna. Í kjölfarið hafi reikningar borist tollyfirvöldum. Tók vitnið fram að ef innflytjandi vöru væri í einhverjum vafa um innihald vörusendinga gæti hann leitað til tollyfirvalda með að láta skoða send­ingar til að tryggja að aðflutningsskýrslur væru réttar. Eftir því hafi ekki verið leitað í þessu máli.

             Vitnið E tollvörður, kom fyrir dóminn og staðfesti rannsóknar­gögn sín í málinu.

 Niðurstaða:

             Í máli þessu er ekki ágreiningur um málsatvik eða varning er ákæra tilgreinir að fluttur hafi verið til landsins, án þess að reikningar hafi verið honum fylgjandi. Ákærði hefur þannig viðurkennt að fluttar hafi verið til landsins, á vegum einkahluta­félagsins [...], tvær vörusendingar samkvæmt ákæru og að sendingunum hafi ekki fylgt reikningar í samræmi við vörurnar, sem leitt hafi til þess að frekari varningur hafi verið fluttur til landsins en aðflutningsskýrslur hafi tilgreint. Á þessum tíma hafi ákærði verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri [...] ehf. Ákærði hefur fullyrt að mistök hjá A föður ákærða í Þýskalandi, hafi orsakað þessa stöðu, en talsvert af vörusendingum hafi borist til landsins um þetta leyti frá Þýska­landi, í tengslum við opnun nýrrar verslunar með varning fyrir hestamenn. Vitnið A hefur staðfest þessar fullyrðingar ákærða og lýst yfir að það beri ábyrgð á því að reikningar hafi ekki verið í samræmi við vörusendingarnar.  

             Háttsemi ákærða er lýst svo að hann hafi, sem stjórnarmaður og framkvæmda­stjóri [...] ehf., veitt tollyfirvöldum rangar upplýsingar í aðflutningsskýrslum og gögnum þeim meðfylgjandi, með því að tilgreina ekki allan varning í vörusending­unum og að hafa með því ætlað að komast hjá greiðslu aðflutningsgjalda. Brot ákærða eru talin varða við 1. mgr. 126. gr. tollalaga, nr. 55/1987. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skal hver sem af ásetningi, stórfelldu gáleysi eða ítrekað veitir rangar eða villandi upplýsingar um tegund, magn eða verðmæti farms eða vöru eða leggur ekki fram til tollmeðferðar gögn sem lögin taka til, sæta sektum. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 55/1987, ber innflytjandi, eigandi eða annar aðili, sem afhendir tollstjóra skriflega aðflutningsskýrslu eða veitir upplýsingar með öðrum hætti vegna tollaf­greiðslu vöru, ábyrgð á því að þær upplýsingar séu réttar. Sama gildir um hvern þann sem kemur fram gagnvart tollstjóra fyrir hönd aðila sem um ræðir í greininni. Ákærði var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri [...] ehf. á þeim tíma er vörusendingarnar voru fluttar inn til landsins og voru aðflutningsskýrslur afhentar tollyfirvöldum vegna einkahlutafélagsins sem innflytjanda vörunnar. Stöðu sinni samkvæmt bar ákærði því ábyrgð á því að réttar upplýsingar væru veittar tollyfirvöldum um þær vörusendingar er í ákæru greinir, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 55/1987. Ábyrgð í því efni verður ekki komið á seljanda eða sendanda vöru samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/1987, enda á innflutningurinn sér stað í þágu innflytjanda vörunnar. Ákærði hefur haldið fram að hann hafi leitað eftir því að koma til tollyfirvalda reikningi vegna vörusendingar nr. [...], eftir að ljóst hafi orðið að mistök hafi átt sér stað við framvísun reikninga vegna vörusendingarinnar. Sá framburður ákærða sækir stoð í framburði vitnanna D, B og C tollvarðar, sem öll hafa borið um að leitað hafi verið eftir því að framvísa reikningi eftir að tollyfirvöld höfðu tekið vörusendinguna til skoðunar. Á þeim tíma hafði aðflutningsskýrsla vegna sendingarinnar verið fyllt út og afhent tollyfirvöldum. Með því var brot gegn ákvæðum 1. mgr. 126. gr. laga nr. 55/1987 fullframið. Í ákæru er tilgreint, að með innflutningi á vörusendingunum hafi ákærði ætlað að komast hjá greiðslu aðflutningsgjalda að fjárhæð 318.580 krónur. Fjárhæð þessi byggir á útreikningi tollstjóra er fram kemur á dskj. nr. 4, skjali 32.2-3 og 32.3-3. Verður við hann miðað, en hann byggir á reglugerð um tollverðsákvörðun, nr. 374/1995, með síðari breytingum. Samkvæmt öllu framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi er í ákæru greinir og eru brot hans þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

             Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsinga í málinu. Í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 55/1987 er mælt fyrir um refsilágmark vegna brota á 126. gr. Skulu sektir nema að lágmarki tvöfaldri þeirri fjárhæð sem undan var dregin af aðflutningsgjöldum. Með vísan til þess greiði ákærði 640.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 60 daga.

Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs 6 samfestingar, 30 leðurtaumar án krækju, 10 gúmmítaumar með krækju, 2 sportjakkar, kerrugjörð, 5 tamningargjarðir, tamningargjörð með púðum, 25 stopp­gjarðir, 253 hófbotnar, 80 kg af hóffylliefni, 2000 ml af herði, 263 pör af einföldum hófhlífum, 30 pör af tvöföldum hófhlífum og 80 skeifur, 35 pör af gúmmíhófhlífum með frönskum rennilás, 10 hökukeðjur á beisli, 36 lyklakippur, 2 gel hnakkdýnur, 10 pör af ístaðsólum úr leðri, 5 pör af hnéhlífum, 10 ennisólar, 15 hestaábreiður, 10 pör af slám undir handklæði, 20 beislishanka til að festa á vegg, 5 hnakkastatíf, 20 litlar hestastyttur úr plasti, 10 litlir plasthestar, 40 pískar, 10 hringtaumssvipur og stór hnakkastandur til uppstillingar í verslun, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

             Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, svo sem í dómsorði greinir.

             Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Eyjólfur Eyjólfsson fulltrúi.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

                Ákærði, X, greiði 640.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 60 daga.

                Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 6 samfestingar, 30 leðurtaumar án krækju, 10 gúmmítaumar með krækju, 2 sportjakkar, kerrugjörð, 5 tamningargjarðir, tamningar­gjörð með púðum, 25 stoppgjarðir, 253 hófbotnar, 80 kg af hóffylliefni, 2000 ml af herði, 263 pör af einföldum hófhlífum, 30 pör af tvöföldum hófhlífum, 80 skeifur, 35 pör af gúmmíhófhlífum með frönskum rennilás, 10 hökukeðjur á beisli, 36 lykla­kippur, 2 gel hnakkdýnur, 10 pör af ístaðsólum úr leðri, 5 pör af hnéhlífum, 10 ennis­ólar, 15 hestaábreiður, 10 pör af slám undir handklæði, 20 beislishankar til að festa á vegg, 5 hnakkastatíf, 20 litlar hestastyttur úr plasti, 10 litlir plasthestar, 40 pískar, 10 hringtaumssvipur og stór hnakkastandur til uppstillingar í verslun, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur.