Hæstiréttur íslands

Mál nr. 596/2013

A (Stefán Geir Þórisson hrl.)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorkubætur
  • Uppgjör


Dómsatkvæði

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorkubætur. Uppgjör.

A varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi á árinu 2007. Ekki var ágreiningur um bótaskyldu og greiddi V hf. henni bætur í tvígang, annars vegar á árinu 2009 og hins vegar á árinu 2012 þar sem örorka A af völdum slyssins hefði orðið meiri en lagt hefði verið til grundvallar á árinu 2009. Í báðum tilvikunum var við útreikning bóta til handa A vegna varanlegrar örorku stuðst við undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og miðað við heildarlaun hennar á árinu 2007, en A hafði lokið arkitektanámi á árinu 2005 og gegnt starfi á þeim vettvangi frá árinu 2006. Var þetta í samræmi við kröfu A þegar fyrri greiðslan var innt af hendi. A krafðist þess að við útreikning bóta fyrir varanlega örorku yrði miðað við  meðaltekjur arkitekta og verkfræðinga á árinu 2007. Var ekki fallist á með A að hægt væri að túlka fyrirvara sem gerður hafði verið við uppgjör bóta á árinu 2009 svo að í honum fælist fyrirvari varðandi viðmiðunartekjur við útreikning bótanna. Yrði að líta svo á að A væri bundin við þessa forsendu bótauppgjörs, sem stuðst hefði við dómaframkvæmd varðandi aðstæður sem þessar. Var V hf. því sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. september 2013. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 13.967.755 krónur en til vara 12.592.904 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 1. nóvember 2007 til 6. febrúar 2012 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 1. september 2009 á 5.503.810 krónum og 19. mars 2012 á 3.062.176 krónum. Að þessu frágengnu krefst hún þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.655.918 krónur og til vara 4.197.635 krónur með sömu vöxtum og áður greinir að frádreginni fyrrnefndri innborgun 19. mars 2012. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi á málið rætur að rekja til þess að áfrýjandi varð fyrir líkamstjóni vegna umferðarslyss 22. maí 2007, en að fengnu örorkumati 8. ágúst 2009 gekk hún 1. september sama ár til uppgjörs á bótum úr hendi stefnda. Í því uppgjöri var lagt til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku að stuðst yrði við undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og miðað við heildarlaun áfrýjanda á árinu 2007 í stað meðaltals launa hennar síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið, en áfrýjandi hafði lokið arkitektanámi erlendis 2005 og gegnt starfi á þeim vettvangi hér á landi frá 2006. Að fengnu áliti örorkunefndar 28. desember 2011, þar sem talið var að örorka áfrýjanda af völdum slyssins hafi orðið meiri en áður var lagt til grundvallar, greiddi stefndi henni frekari bætur 19. mars 2012, en miðaði aftur sömu tekjur og áður greinir. Í þessum uppgjörum var beitt tekjuviðmiðun, sem studdist við dómaframkvæmd varðandi aðstæður sem þessar. Með þeirri athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður felldur niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2013.

Mál þetta, sem var dómtekið 23. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, […] á hendur Vátryggingafélagi Íslands, Ármúla 3 í Reykjavík, með stefnu birtri 13. nóvember 2012.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 13.967.755 kr. með 4,5% vöxtum frá 1. nóvember 2007 til 6. febrúar 2012 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Til frádráttar koma greiðslur stefnda til stefnanda þann 1. september 2009 að fjárhæð 5.503.810 kr. og þann 19. mars 2012 að fjárhæð 3.062.176 kr.

Stefnandi krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 12.592.904 kr. með 4,5% vöxtum frá 1. nóvember 2007 til 6. febrúar 2012 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Til frádráttar koma greiðslur stefnda til stefnanda þann 1. september 2009 að fjárhæð 5.503.810 kr. og þann 19. mars 2012 að fjárhæð 3.062.176 kr.

Stefnandi krefst þess til þrautavara að stefndi greiði stefnanda 4.655.918 kr. með 4,5% vöxtum frá 1. nóvember 2007 til 6. febrúar 2013 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Til frádráttar kemur greiðsla stefnda þann 19. mars 2012 að fjárhæð 3.062.176 kr..

Stefnandi krefst þess til þrautaþrautavara að stefndi greiði stefnanda 4.197.635 kr. með 4,5% vöxtum frá 1. nóvember 2007 til 6. febrúar 2013 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Til frádráttar kemur greiðsla stefnda þann 19. mars 2012 að fjárhæð 3.062.176 kr.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda ásamt virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og greiðslu málskostaðar úr hans hendi að mati dómsins en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málsatvik

Kröfur stefnanda eiga rætur að rekja til umferðarslyss sem hún varð fyrir þann 22. maí 2007. Málavextir voru nánar tiltekið þeir að stefnandi var ökumaður bifreiðarinnar […] sem var kyrrstæð við Borgartún er bifreiðin […] ók aftan á hana á um 40 km hraða. Tjón hennar er bótaskylt úr ábyrgðartryggingu ökutækisins sem er tryggt hjá stefnda, sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt skilmálum tryggingarinnar fer um bætur til hennar vegna slyssins samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga og ekki er ágreiningur um að stefnandi eigi rétt á fullum bótum úr hendi stefnda vegna slyssins.

Stefnandi starfaði sem arkitekt þegar hún varð fyrir slysinu. Hún lauk meistaraprófi í þeirri grein árið 2005 og hafði starfað sem arkitekt í um 9 mánuði þegar hún varð fyrir slysinu, eða frá því í ágúst 2006.

Stefnandi leitaði til Heilsugæslunnar í […] daginn eftir slysið og kvartaði undan versnandi verkjum og stirðleika í hálsi, baki og herðum eftir umferðarslysið daginn áður. Hún var síðan til meðferðar hjá læknum og sjúkraþjálfurum eftir slysið.

Aðilar málsins fengur þá B lækni og C hrl. til að meta afleiðingar slyssins. Niðurstöður þeirra, sem koma fram í matsgerð frá 8. ágúst 2009, eru þær að stefnandi hafi orðið fyrir 25% tímabundnu atvinnutjóni skv. 2. gr. laga nr. 50/1993 í fimm mánuði frá 22. maí 2007 og tímabil þjáningar án rúmlegu sé jafnlangt. Þá er varanlegur miski stefnanda skv. 4. gr. laganna talinn vera 8% og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. 10% og að stöðugleikapunkti hafi verið náð 22. október 2007.

Þann 18. ágúst 2009 sendi þáverandi lögmaður stefnanda stefnda sundurliðaða skaðabótakröfu fyrir hennar hönd. Samtals var krafist skaðabóta að fjárhæð 6.896.414 kr. með vöxtum frá tjónsdegi á grundvelli 16. gr. laga nr. 50/1993 ásamt greiðslu 622.500 kr. lögmannsþóknunar. Í kröfugerð lögmannsins eru launatekjur stefnanda fyrir árið 2007 lagðar til grundvallar útreikningi á bótum fyrir varanlega örorku. Segir í neðanmálsgrein í kröfubréfi hans að stefnandi hafi verið í námi síðustu þrjú árin fyrir slys, þ.e. árin 2004 til 2006 að báðum árum meðtöldum, og gefi þau því ranga mynd af framtíðartekjum stefnanda. Árið 2007 hafi stefnandi hins vegar starfað sem arkitekt og gefi tekjur hennar það ár því réttasta mynd af framtíðartekjum hennar.

Lögmaður stefnanda undirritaði fullnaðaruppgjör fyrir hennar hönd þann 1. september sama ár þar sem bætur að fjárhæð 6.869.808 kr. voru greiddar. Kvittað var fyrir móttöku greiðslunnar með fyrirvara um tímabundið atvinnutjón, varanlegan miska og varanlega örorku samkvæmt matsgerð.

Í nóvember 2011 óskaði lögmaður stefnanda eftir því að örorkunefnd myndi gefa álit sitt á afleiðingum slyssins með vísan til 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga. Örorkunefnd lauk álitsgerð sinni 28. desember 2011. Í niðurstöðu hennar segir að stöðugleikapunkti hafi verið náð 1. nóvember 2007 og tímabundin veikindi án rúmlegu séu frá slysdegi til sama dags og atvinnutjón hennar sé 25% á því tímabili. Varanlegur miski stefnanda vegna slyssins er álitinn 10% og varanleg örorka 15%.

Á grundvelli niðurstöðu örorkunefndar greiddi stefndi stefnanda til viðbótar við fyrri greiðslu, 3.558.056 kr. Sú greiðsla var móttekin af stefnanda sem innborgun eins og áritað er á fullnaðaruppgjörið frá stefnda.

Stefnandi krefst frekari bótagreiðslna úr hendi stefnda. Heildarbótakrafa hennar er að fjárhæð 20.734.560 kr. Stefndi hefur ekki fallist á að stefnandi eigi rétt til frekari bóta en þegar hafi verið greiddar og er mál þetta sprottið af þeim ágreiningi.

Ekki er ágreiningur í málinu um bótaskyldu eða metnar afleiðingar umferðarslyssins sem stefnandi lenti í þann 22. maí 2007. Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á því að víkja beri til hliðar meginreglu þeirri sem fram kemur í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, um að miða eigi fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku við tekjur tjónþola á sl. þremur árum fyrir slysdag. Þess í stað beri að beita undantekningarreglunni sem fram komi í 2. mgr. sömu greinar sem heimilar að notast við annan mælikvarða á líklegar framtíðartekjur. Stefnandi byggir á því að sá mælikvarði eigi að vera meðallaun arkitekta og verkfræðinga árið 2007 en ekki launatekjur stefnanda á því ári, svo sem útreikningar stefnda geri ráð fyrir. Markmið skaðabótalaga sé að tryggja þjónþola fullar bætur fyrir tekjumissi í framtíðinni. Á þeim tíma þegar slysið varð hafi hún unnið á lágmarkslaunum en ekkert hafi bent til annars en að hún myndi vinna sig upp í meðallaun sérfræðinga í hennar starfgrein ef slysið hefði ekki átt sér stað. Bótakrafa hennar byggist á tölum um meðallaun framangreindra starfsstétta sem birtar eru af Hagstofu Íslands. Vísar stefnandi til athugsemda við ákvæði 6. gr. laga nr. 37/1999 en með þeim lögum hafi skilyrði þess að beita mætti 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 verið rýmkuð verulega. Segi m.a. þar að launatekjur liðinna ára séu ekki góður mælikvarði ef breytingar hafa orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys varð eða þegar fullyrða megi að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Telur stefnandi, með hliðsjón af ákvæði laganna og lögskýringargögnum, einsýnt að umrætt launaviðmið sé það eina sem gefi rétta mynd af raunverulegu tekjutapi hennar til framtíðar.

Þegar bótakrafa hafi verið undirrituð af hálfu stefnanda 1. september 2009 hafi verið gerður fyrirvari um varanlegar afleiðingar slyssins. Eftir mat örorkunefndar 28. desember 2011, þar sem varanlegar afleiðingar hafi verið metnar meiri en áður hafði verið gert, sé ljóst að endurmeta þurfti launaviðmið og hafa til samræmis við menntun stefnanda og raunverulegan tekjumissi hennar í framtíðinni. Stefnandi hafi verið ung að aldri þegar slysið varð og nýhafið störf á vinnumarkaði. Við uppgjör eftir matsgerð örorkunefndar hafi stefnandi tekið við greiðslu bóta sem innborgun en ekki sem fullnaðargreiðslu þar sem hún hafi talið fyrra launamið óraunhæft með tilliti til raunverulegs tekjumissis af völdum slyssins.

Stefnandi sundurliðar dómkröfur sínar með eftirfarandi hætti:

Aðalkrafa stefnanda tekur mið af meðaltekjum arkitekta og verkfræðinga, meðaltal, á árinu 2007 samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands. Tekjur stefnanda eru uppreiknaðar fram að stöðugleikapunkti miðað við launavísitölu og framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð:

Bætur skv. 5. - 7. gr. laga nr. 50/1993. eru reiknaðar þannig:

 (641.000 x 12) x 1,08 x (325,9/319,8) = 8.465.818

8.465.818 x 12,391 x 15% =15.734.992

Þegar tekið er mið af 4. mgr. 7. gr. laganna er krafa skv. 5. – 7. gr. svohljóðandi

4.500.000 x(5491/3282) = 7.515.000

7.515.000 x 12,391 x 15 =                                                   kr.           13.967.755

Samtals                                                                                   kr.           13.967.755

Þá krefst stefnandi 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 af bótum fyrir varanlega örorku frá stöðugleikapunkti fram til 6. janúar 2012, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og fram til greiðsludags.

Varakrafa stefnanda tekur mið af meðaltekjum arkitekta, neðri fjórðungsmörkum, samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands á árinu 2007 en um er að ræða svokölluð byrjunarlaun arkitekta. Umrædd laun nema 513.000 kr. á mánuði. Við þá fjárhæð bætist framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð (8%) auk þess sem launin eru uppreiknuð í samræmi við launavísitölu upp að stöðugleikatímapunkti. Krafan er sundurliðuð þannig:

 (513.000 x 12) x 1,08 x (325,9/319,8) =                                                         6.775.296

↔ 6.775.296 x 12,391 x 15%                                                            kr.           12.592.904

Innborgun stefnda 1. sept. 2009 (varanleg örorka)                         kr.           -5.074.729

Innborgun stefnda 1. sept. 2009 (vextir)                                           kr.           -429.081

Innborgun stefnda 19. mars 2012 (varanleg örorka)                      kr.           -2.535.932

Innborgun stefnda 19. mars 2012 (vextir)                                         kr.           -526.244

Samtals                                                                                                   kr.          4.026.918

Krafist er 4,5% vaxta frá 1. nóvember 2007 (stöðugleikatímapunkti) til 6. febrúar 2012 (mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs), en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Til frádráttar koma greiðslur stefnanda þann 1. september 2009 að fjárhæð 5.503.810 kr. og 19. mars 2012 að fjárhæð 3.062.176 kr.

Verði talið að stefnandi sé bundin af því launaviðmiði sem lagt var til grundvallar uppgjöri þann 1. september 2009 er þess til þrautavara krafist að stuðst verði við meðaltekjur arkitekta og verkfræðinga, meðaltal, á árinu 2007, samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands, við útreikning á 5% varanlegri örorku stefnanda eða sem nemur hækkuninni sem leiddi af álitsgerð örorkunefndar. Krafan sundurliðast þannig:

7.515.000 x 12,391 x 5%                                                                    kr.           4.655.918

Innborgun stefnda (varanleg örorka)                                                kr.           -2.535.932

Innborgun stefnda (vextir)                                                                  kr.           -526.244

Samtals                                                                                                   kr.          1.593.742

Krafist er 4,5% vaxta frá 1. nóvember 2007 (stöðugleikatímapunkti) til 6. febrúar 2012 (mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs), en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og fram til greiðsludags. Til frádráttar kemur greiðsla stefnanda þann 19. mars 2012 að fjárhæð 3.062.176 kr.

Verði talið að stefnandi sé bundin af því launaviðmiði sem lagt var til grundvallar uppgjöri þann 1. september 2009 (dskj. 13) og ekki fallist á að nota beri meðaltekjur arkitekta á árinu 2007 (meðaltal) eins og gert er í þrautavarakröfu er til þrautaþrautavara krafist að stuðst verði við meðaltekjur arkitekta og verkfræðinga, neðri fjórðungsmörk, á árinu 2007 samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands, við útreikning á 5% varanlegri örorku stefnanda eða sem nemur hækkun álitsgerðar örorkunefndar. Krafan er sundurliðuð þannig:

 (513.000 x 12) x 1,08 x (325,9/319,8) =                                                         6.775.296

↔ 6.775.296 x 12,391 x 5%                                                               kr.           4.197.635

Innborgun stefnda 19. mars 2012 (varanleg örorka)                      kr.           -2.535.932

Innborgun stefnda 19. mars 2012 (vextir)                                         kr.           -526.244

Samtals                                                                                                  kr.          1.135.459

Krafist er 4,5% vaxta frá 1. nóvember 2007 (stöðugleikatímapunkti) til 6. febrúar 2012 (mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs), en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og fram til greiðsludags. Til frádráttar kemur greiðsla stefnanda þann 19. mars 2012 að fjárhæð 3.062.176 kr.

Varðandi bótaskyldu er vísað til 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 um slysatryggingu ökumanns. Kröfur stefnanda styðjast við skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum, einkum 1. gr. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Um vaxtakröfuna vísar stefnandi sérstaklega til 16. gr. laganna og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og ber því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að með þegar greiddum bótum hafi stefnandi fengið tjón sitt bætt að fullu og eigi ekki rétt á frekari greiðslum úr hendi stefnda. Aðilar hafi samið um það við bótauppgjör þann 1. september 2009 að miða við tekjur stefnanda á árinu 2007. Með því samkomulagi féllst stefndi á að beita undanþágureglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og meta tekjur stefnanda sérstaklega. Leiddi það til hærri bóta en ef miðað hefði verið við aðalregluna sem kemur fram í 1. mgr. 7. gr., þ.e. að miða við tekjur síðustu þriggja ára fyrir slys. Það hafi verið stefnandi sjálf sem setti fram kröfu um að miða við umrætt tekjuviðmið og stefndi fallist á þá kröfu.

Stefnandi hafi tekið við bótum sem reiknaðar voru út frá umsömdu tekjuviðmiði í september 2009. Við móttöku bótanna hafi verið gerður fyrirvari um tímabundið atvinnutjón, varanlegan miska og varanlega örorku. Hins vegar sé engan fyrirvara að finna hvað varði viðmiðunartekjur eða aðrar forsendur útreiknings bótafjárhæðar. Ekki komi til álita að túlka orðalag fyrirvarans með þeim hætti að í honum felist fyrirvari um tekjuviðmið. Stefnandi hafi notið lögmannsaðstoðar við samningsgerðina og því ekki um aðstöðumun aðila.

Árstekjur stefnanda árið 2007, þegar stefnandi var í fullu starfi sem arkitekt séu fyllilega raunhæfur mælikvarði á tekjumissi hennar til framtíðar. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að annar mælikvarði sé réttari. Hún hafi ekki leitast við að sýna fram á og sanna að hún hafi í raun og veru haft aðrar og hærri tekjur frá árinu 2007 að telja en þær sem miðað er við og er engum gögnum til að dreifa í málinu um tekjur hennar frá þeim tíma. Því sé ósannað með öllu að tekjuviðmið það sem samkomulag var um að nota, hafi á einhvern hátt verið ósanngjarnt í hennar garð eða óraunhæft.

Af framangreindu leiði að aðilar máls þessa hafi samið um að leggja tiltekið tekjuviðmið til grundvallar útreikningi bóta og engin tilefni séu til að víkja þeim samningi til hliðar. Af því leiði að sýkna ber stefnda af kröfum stefnanda.

Verði ekki fallist á sýknukröfu gerir stefndi til vara kröfu um lækkun bóta. Byggist varakrafan á því að sá mælikvarði á tekjur sem stefnukrafan grundvallast á sé of hár miðað við líklegar framtíðartekjur stefnanda. Í útreikningi stefnanda sé miðað við meðaltal heildarlauna fyrir sérfræðistörf tengd arkitektúr og verkfræði á árinu 2007, 641.000 kr. á mánuði og til stuðnings kröfunni lögð fram gögn frá Hagstofu Íslands. Í málatilbúnaði stefnanda sé hins vegar ekki gerð nánar grein fyrir hvað í þessu felst. Ekki séu heldur færð rök fyrir því að hvaða leyti þessar tekjur gefi réttari mynd af framtíðartekjum stefnanda heldur en það sem notað var í uppgjöri bóta, enda engin gögn í málinu um tekjur stefnanda eftir slysið.

Verði umsamið tekjuviðmið ekki lagt til grundvallar komi ekki annað til álita en beita annað hvort meginreglunni sem komi fram í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 og miða við meðallaunum hennar sl. þrjú árin fyrir slysið eða miða við lágmarkslaun eins og kveðið er á um í 3. mgr. sömu greinar.

Ef fallist verður á að miða beri við meðallaun í þeirri starfsgrein sem stefnandi gerir kröfu um þá beri að miða við meðallaun kvenna á grundvelli upplýsinga þar að lútandi frá Hagstofu Íslands. Þegar kynbundinn launamunur sé til staðar í starfgrein, eins og augljóslega sé tilvikið í starfsgrein stefnanda að minnsta kosti á árinu 2007, þá verði ekki hjá því komst að taka mið af því við útreikning bóta. Annað væri í andstöðu við meginreglu skaðabótaréttar, að tjónþolar eigi ekki að hagnast á tjóni sínu heldur skuli bætur miðast við raunverulegt tjón.

Í samræmi við ofangreint er varakrafa stefnda sú að lækka viðmið launa í kröfugerð stefnanda.

Stefndi hafnar kröfu stefnanda um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögu enda mun fyrr ekki liggja fyrir hvort stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda og hvort vanefndir verði á greiðslu.

Stefndi byggir kröfur sínar á almennum reglum skaðabótaréttar, skaðabótalögum nr. 50/1993 og lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og meginreglum samninga- og kröfuréttar.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um það hvaða viðmið eigi að leggja til grundvallar útreikningi á fjárhagslegu tjóni stefnanda vegna varanlegrar örorku. Aðilar deila ekki um þá niðurstöðu örorkunefndar að stefnandi hafi hlotið 15% varanlega örorku í umferðaslysi þann 22. maí 2007 og að hún eigi rétt á bótum úr hendi stefnda vegna þessa á grundvelli ábyrgðartryggingar bifreiðarinnar. Stefndi hefur í tvígang greitt stefnanda bætur. Í fyrra sinnið þann 1. september 2009 á grundvelli matsgerðar B dr. med. og C hrl. sem álitu varanlega örorku hennar vera 10%. Að beiðni lögmanns stefnanda mat örorkunefnd örorku stefnanda á ný árið 2011. Í álitsgerð nefndarinnar frá því 28. desember það ár er varanleg örorka hennar metin 15%. Á grundvelli álitgerðar örorkunefndar greiddi stefndi stefnanda viðbótagreiðslu vegna þessa breytta örorkuhlutfalls þann 19. mars 2012. Við útreikning bóta lagði stefndi í báðum tilvikum til grundvallar tekjur stefnanda á árinu 2007. Var það í samræmi við kröfugerð stefnanda frá því fyrri greiðslan var innt af hendi. Svo sem nánar er lýst í atvikalýsingu dómsins gerði lögmaður stefnanda grein fyrir kröfum hennar í bréfi til stefnda þann 18. ágúst 2009. Þar byggir hann bótakröfu hennar vegna varanlegrar örorku á raunverulegum tekjum hennar árið 2007 og rökstyður sérstaklega að hann telji þær gefa réttasta mynd af framtíðartekjum stefnanda. Stefndi féllst á þessar forsendur og reiknaði út bætur til hennar á grundvelli þeirra.

Í kröfum stefnanda felst að hún breytir kröfugerð sinni til hækkunar frá því sem hún gerði í upphafi þar sem hún miðar nú við annað og hærra tekjuviðmið. Ekki er í ljós leitt að neitt hafi staðið í vegi fyrir því að stefnandi hefði frá upphafi getað gert kröfu um að miða við það tekjuviðmið sem krafa hennar nú styðst við. Enga skýringu er heldur að finna í gögnum málsins á því af hverju ekki var byggt á því í upphafi málareksturs stefnanda gagnvart stefnda. Lögmaður stefnanda tók við greiðslu bóta fyrir hennar hönd en gerði eftirfarandi fyrirvara á fullnaðaruppgjörið: „ Móttekið með fyrirvara um tímabundið atvinnutjón, varanlegan miska og varanlega örorku samkvæmt matsgerð.“ Hvorki með orðskýringum né annars konar túlkun þessa texta er hægt að líta svo á að í honum felist fyrirvari sem lýtur að viðmiðunartekjum í útreikningi bóta.

Af framangreindu virtu verður að telja að stefnandi sé á grundvelli almennra reglna um skuldbindingargildi samninga bundin við þessa forsendu bótauppgjörs þar sem enginn fyrirvari var gerður um hið umdeilda tekjuviðmið. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða þann hluta bótafjárhæðarinnar sem var greidd út á grundvelli fyrra örorkumatsins eða viðbótargreiðsluna sem var greidd út á grundvelli mats örorkunefndar sem gert var með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1993 enda eiga sömu sjónarmið við um skuldbindingargildi samnings aðila og óbreyttar forsendur að því er varðar tekjuviðmiðið.

Allar kröfur stefnanda byggjast á því að hún geti með einhverju móti komið að breyttu tekjuviðmiði við útreikning bótanna. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu um skuldbindingargildi samnings hennar við stefnda verður þegar af þessari ástæðu öllum kröfum stefnanda hafnað og sýknukrafa stefnda tekin til greina.

Með hliðsjón af atvikum máls, og vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Vátryggingafélag Ísland hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A. Málskostnaður fellur niður.