Hæstiréttur íslands
Mál nr. 352/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2016 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 4. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en að því frágengnu að úrskurðinum verði hnekkt að því er varðar yngri dóttur varnaraðila.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Krafa varnaraðila um að málinu verði vísað frá héraðsdómi er reist á því að meira en sólarhringur hafi liðið frá því að beiðni um nálgunarbann barst lögreglu þar til ákvörðun var tekin um bannið. Af þeim sökum hafi málsmeðferðin farið í bága við 2. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2011. Þessi annmarki á málsmeðferð getur ekki valdið því að brotaþoli fari á mis við þá vernd sem hann nýtur eftir lögunum. Samkvæmt þessu og með vísan til dóms Hæstaréttar 28. ágúst 2015 í máli nr. 564/2015 verður kröfu um frávísun hafnað.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 verður nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Skal þess þá gætt að ekki verði farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Við mat á þessu er heimilt að líta til þess hvort sakborningur hafi áður þurft að sæta nálgunarbanni og þess hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig að hætta sé talin á að hann muni raska friði brotaþola, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðila þrívegis áður verið gert að sæta nálgunarbanni en með framgöngu sinni hefur hann einkum raskað friði barnungrar dóttur sinnar. Að virtri forsögu málsins eru engin efni til að binda nálgunarbannið við það barn þótt athafnir hans hafi síður bitnað á yngra barninu. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður með virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 196.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 4. maí 2016 um að X skuli sæta nálgunarbanni, skv. a og b lið 1. mgr. 4. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili dætra sinna A kt. [...] og B kt. [...], að [...] í [...] og [...]í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A og B eftirför, nálgist þær á almannafæri eða setji sig í samband við þær með öðrum hætti.
Í greinargerð sækjanda kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fari fram á skv. 2. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011 að X skuli sæta nálgunarbanni, skv. a og b lið 1. mgr. 4. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili dætra sinna A og B, að [...] í [...] og [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus. Jafnframt sé lagt bann við því að X veiti þeim A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.
Kærði hafi sætt nálgunarbanni gagnvart Cog dætrum þeirra í 6 mánuði frá 19. júlí 2013 skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]2013 sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli réttarins nr. [...]/2013.
Þann 27. október 2014 hafi X aftur verið gert að sæta nálgunarbanni, sem staðfest hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2014 í máli nr. R-[...]/2014 en þá hafði lögregla upplýsingar um það að kærði hefði valdið C og dætrum þeirra miklu ónæði. C fari með forsjá dætra þeirra og hafði á þeim tíma ekki náðst samkomulag um umgengni X við börnin hjá sýslumanni. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafði X þá setið í kringum heimili C og dætra þeirra og valdið miklu ónæði í skóla og frístundarheimili A þar sem hann hafi sótt mjög stíft að hitta hana fyrir. Skólayfirvöld og barnavernd [...] hafi rætt við kærða um að hegðun hans ylli A miklum vanlíðan. Kærði hafi hinsvegar ekki látið segjast og hafi haldið uppteknum hætti og sótt hart að því að hitta barnið fyrir á skóla og frístundartíma. Ræddi á þeim tíma barnaverndarstarfsmaður við A en í viðræðum barnaverndarstarfsmanns við barnið hafi komið fram að hún óttist pabba sinn og að hann hafi sagt við hana að hann ætli að taka hana með sér. Þá óttist barnið að kærði myndi gera móður hennar eitthvað illt.
Þann 30. apríl 2015 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur fellt úr gildi ákvörðun lögreglustjóra frá 27. apríl 2015 um staðfestingu á ákvörðun um nálgunarbann, sbr. R-[...]/2015.
Kærði hafi hlotið fangelsisdóm við héraðsdóm Reykjavíkur þann [...]. október 2014, sbr. [...]/2014, og hafi kærði m.a. verið sakfelldur fyrir líkamsárás á hendur leikskólakennara við leikskóla þar sem dóttir hans dvaldi. Kærði hafi verið ákærður fyrir brot á nálgunarbanni, en hafi verið sýknaður fyrir það brot.a
Kærði hafi svo sætt í þriðja sinn nálgunarbanni á tímabilinu 22. september 2015 – 22. mars 2016 skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli réttarins nr. [...]/2015.
Fyrir liggi dómur Héraðsdóms Reykjavíkur dagsettur 14. júlí 2015 um umgengni föður við börnin en kveðið hafi verið á um umgengni undir eftirliti annan hvern laugardag frá 11-17. Umgengni hófst 29. ágúst 2015 og hafi orðið í nokkur skipti undir eftirliti [...] eftirlitsaðila eða allt þar til ákvörðun um nálgunarbann hafi legið fyrir þann 22. september 2015.
Lögreglu hafi borist beiðni um nálgunarbann frá barnavernd [...] þar sem að farið hafi verið fram á að lögreglan tæki ákvörðun um nálgunarbann yfir X.
Í greinargerð barnaverndar [...] sé farið yfir forsögu málsins og þeim áhrifum sem framganga föður og samskipti hafi haft á dætur hans og þá sérstaklega A. Þar komi fram að fyrir liggi greining þroska- og hegðunarstöðvar þar sem niðurstaða greingar sé áfallastreituröskun, adhd auk annarra þátta sem marki daglegt líf A. Í greinargerðinni komi fram að á tímabili síðasta nálgunarbanns hafi líðan A verið marktækt betri og sé það í samræmi við reynslu fyrri nálgunarbanna. Frá því að nálgunarbann rann út hafi líðan A breyst til hins verra. Fram komi að á tímabili nálgunarbanns hafi verið meiri stöðugleiki í félagslegu umhverfi A og miklar framfarir á líðan hennar. Þá segi í greinargerðinni að hagsmunir A og systur hennar verði ekki tryggðir nema með beitingu nálgunarbanns en friðhelgi þeirra verði ekki tryggð með öðrum og vægari hætti. Álit sérfræðinga sé samhljóma; andleg líðan A sé marktækt betri þegar hún sé ekki í umgengni við föður. Í eldri gögnum komi fram að faðir hafi ekki virt vinsamleg tilmæli starfsmanna barnaverndar, skóla né annarra um að raska ekki ró A á skólatíma og ljóst að ekki sé unnt að höfða til almennrar skynsemi hvað það varði. Frá því að nálgunarbann rann út hafi líðan A breyst til hins verra og má þar nefna kvartanir um magaverk, auknir hefðunarerfiðleikar og ótti við að gera hluti sem hún hafi áður verið vön að gera.
Frá því að nálgunarbann rann út hafi eftirfarandi atvik verið skráð hjá lögreglu:
007-2016-[...] Þann 4. apríl sl. X mætir í[...] þar sem að A er að undirbúa að ganga til altaris. Hann hafi þar talað hátt við A og sagt svo að aðrir heyrðu að móðir hennar væri lygin og ómerkileg. Presturinn Presturinn bað X að róa sig og fara út en X hafi ekki orðið við því heldur sagst vera komin til að sjá dóttur sína. Lögregla hafi síðan komið á vettvang og þau farið út og rætt við lögregluna.
007-2016-[...] Þann 17. apríl er A aftur stödd í [...] ásamt móður sinni. X mætir aftur í kirkjuna og C móðir A kallar aftur eftir aðstoð lögreglu.
Auk þessara mála er beðið niðurstöðu Ríkissaksóknara í máli mál lögreglu nr. 007-2014-[...].
þar er kærði grunaður um að hafa brotið gegn dóttur sinni, með því að hafi uppi hótanir og ærumeiðandi móðganir við dóttur sína A, fædda [...], um móður barnsins. Telur barnavernd það ekki geti samræmst hagsmunum barnsins að vera í samskiptum eða umgengni við meintan brotamann meðan svo er.
Þá hafi eftirfarandi atvik einnig verið skráð hjá barnavernd [...]:
Þann 29. mars 2016 hafði deildarstjóri [...] samband þar sem eiginkona föður hafði sent tölvupóst með fyrirspurn um hvenær skóladegi A lýkur og hver væri hennar umsjónarkennari. Deildarstjóri óskaði eftir upplýsingum barnaverndar um hvernig bæri að svara erindinu.
Vikuna 4.-8. apríl 2016 reyndi eiginkona föður að koma gjöf til A í gegnum deildatsjóra [...]. Henni hafi verið vísað frá.
Föstudaginn 8. apríl 2016 hafi verið skráð hjá [...] að X hafi komið á frístundatíma og hitt A. Forstöðumaður frístundar hafi komið strax og beðið A að fara í tölvutíma. A hafi kvatt föður.
Í ljósi ofangreinds, niðurstöðu barnaverndarnefndar, telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt að því leyti að hætta sé á að X muni halda áfram að raska friði dætra sinna í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Af öllu framangreindu telji lögregla ljóst að A hafi orðið að þola áreiti af hálfu föður síns og ógnandi hegðan. Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði 4. gr. laga nr. 85, 2011 séu uppfyllt enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að X hafi brotið gegn fyrrum eiginkonu sinni og dætrum og að hætta sé á að hann haldi áfram með áreiti og að raska friði dætra sinna í skilningi 4. gr. laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Er ekki talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé það mat lögreglustjóra að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili séu uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Niðurstaða:
Í máli þessu er krafist staðfestingar á ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 4. maí 2016 um að X skuli sæta nálgunarbanni, skv. a og b lið 1. mgr. 4. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili dætra sinna A kt. [...] og B kt. [...], að [...] í [...] og [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A og B eftirför, nálgist þær á almannafæri eða setji sig í samband við þær með öðrum hætti.
Heimild er til að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að viðkomandi hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á því að viðkomandi brjóti þannig gegn brotaþola, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þessu úrræði verður þó aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 6. gr. laga nr. 85/2011, og skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.
Í kröfugerð lögreglustjóra kemur fram að varnaraðili hafi sætt nálgunarbanni gagnvart C og dætrum þeirra í 6 mánuði frá 19. júlí 2013 skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]2013 sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli réttarins nr. [...]/2013.
Þann 27. október 2014 hafi X aftur verið gert að sæta nálgunarbanni, sem staðfest hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2014 í máli nr. R-[...]/2014 en þá hafði lögregla upplýsingar um það að varnaraðili hefði valdið C og dætrum þeirra miklu ónæði. Varnaraðili hafi síðan í þriðja sinn sætt nálgunarbanni á tímabilinu 22. september 2015 – 22. mars 2016.
Tilefni ákvörðunar lögreglustjóra 4. maí sl. er að frá því nálgunarbann rann út hafi varnaraðili ítrekað raskað friðhelgi brotaþola og síðast þann 3. apríl sl. er A var stödd í [...] ásamt móður sinni og þá hafi þurft að kalla til lögreglu. Þá er vísað til greinargerðar barnaverndar [...] um afleiðingar röskunar varnaraðila á friðhelgi brotaþola. Í greinargerðinni komi fram að á tímabili síðasta nálgunarbanns hafi líðan A verið marktækt betri og sé það í samræmi við reynslu fyrri nálgunarbanna. Frá því að nálgunarbann rann út 22. mars sl. hafi líðan A breyst til hins verra. Fram komi að á tímabili nálgunarbanns hafi verið meiri stöðugleiki í félagslegu umhverfi A og miklar framfarir á líðan hennar. Þá segi í greinargerðinni að hagsmunir A og systur hennar verði ekki tryggðir nema með beitingu nálgunarbanns en friðhelgi þeirra verði ekki tryggð með öðrum og vægari hætti. Frá því að nálgunarbann rann út hafi líðan A breyst til hins verra og má þar nefna kvartanir um magaverk, auknir hegðunarerfiðleikar og ótti við að gera hluti sem hún hafi áður verið vön að gera. Beðið er niðurstöðu ríkissaksóknara í máli lögreglu þar sem varnaraðili er grunaður um að hafa brotið gegn dóttur sinni A með því að hafa upp hótanir og ærumeiðandi móðganir um móður hennar.
Með hliðsjón af því sem hér hefur komið fram þykir við svo búið ekki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti en með því að banna varnaraðila að nálgast brotaþola Að því leyti er skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 fullnægt. Telja verður með hliðsjón af sögu málsins að gætt hafi verið meðalhófs og að ekki hafi verið farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til þar sem nálgunarbanni er markaður tími í 6 mánuði. Því ber að fallast kröfu sóknaraðila um að staðfesta ákvörðun hans 4. maí 2016 um nálgunarbann eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er ákvörðun lögreglustjóra frá 4. maí 2016 um að X skuli sæta nálgunarbanni, skv. a- og b- lið 1. mgr. 4. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili dætra sinna A kt. [...] og B kt. [...], að [...] í [...] og [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A og B eftirför, nálgist þær á almannafæri eða setji sig í samband við þær með öðrum hætti.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Sveins Andra Sveinssonar hrl. kr. 150.000 greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl. 150.000 krónur.