Hæstiréttur íslands
Mál nr. 618/2014
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Skaðabætur
- Aðild
- Framsal kröfu
|
|
Fimmtudaginn 26. mars 2015. |
|
Nr. 618/2014.
|
Ásgeir Valdimarsson og Hulda Jeremíasdóttir (Gísli Guðni Hall hrl.) gegn Arion banka hf. (Karl Óttar Pétursson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Skaðabætur. Aðild. Framsal kröfu.
Hæstiréttur leysti úr kröfu Á og H um rétt þeirra til skaðabóta úr hendi L hf. vegna sölu á hlutafé Á og H í einkahlutafélagi þeirra SÆ til SH ehf. Á og H báru því við að L hf. hefði valdið þeim persónulega tjóni er L hf., sem lánveitandi ólögmætra gengistryggðra lána, hefði hafnað réttmætri beiðni þeirra um leiðréttingu lánanna og þvingað þau til sölu hluta sinna í SÆ ehf. til uppgjörs á skuldum þess og hefði L hf. með því bakað sér bótaskyldu gagnvart þeim. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að ágreiningur aðila snerist að þessu leyti um það hvort endurreikna hefði átt umrætt lán frá upphafi með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eins og L hf. hélt fram, eða hvort taka hefði átt tillit til þess í endurútreikningnum að SÆ ehf. hefði í höndum fullnaðarkvittanir frá L hf. vegna greiðslu vaxta fyrir liðna tíð. Hæstiréttur sýknaði L hf. af kröfum Á og H með því að ekki væri fram komið að Á og H hefðu eignast skaðabótakröfu fyrir framsal frá SÆ ehf. eða þrotabúi þess, enda gætu þeir einir krafist skaðabóta vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi tjónvalds sem bótaskyld háttsemi beindist gegn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 19. september 2014. Þau krefjast þess að stefnda verði gert að greiða þeim 43.389.790 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. febrúar 2011 til 14. júlí 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að krafa áfrýjenda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Krafa áfrýjenda var í öndverðu aðallega reist á því að þau ættu persónulegan rétt til endurgreiðslu úr hendi stefnda vegna ofgreiðslna af þeim lánum Sægarps ehf. sem um ræðir í málinu. Til vara var krafan á því reist að áfrýjendur ættu rétt til skaðabóta sömu fjárhæðar úr hendi stefnda vegna sölu á hlutafé áfrýjenda í einkahlutafélagi þeirra Sægarpi til Skiphóls ehf. Héraðsdómur sýknaði stefnda af kröfu áfrýjenda um endurheimtu ofgreidds fjár vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og leita þau ekki endurskoðunar á þeirri niðurstöðu. Kemur því einvörðungu til úrlausnar fyrir Hæstarétti hvort áfrýjendur eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda af ofangreindu tilefni.
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi gerðu stefndi og Sægarpur ehf. 3. febrúar 2011 með sér samkomulag um uppgjör skulda félagsins og átti Skiphóll ehf. einnig hlut að því. Áfrýjendur telja að stefndi hafi valdið þeim persónulega tjóni er hann, sem lánveitandi ólögmætra gengistryggðra lána til Sægarps ehf., hafnaði réttmætri beiðni áfrýjenda um leiðréttingu lánanna og þvingaði þau til að selja hluti sína í félaginu til uppgjörs á skuldum þess. Telja áfrýjendur að sú afstaða stefnda að hafna endurútreikningi lánanna á forsendum Sægarps ehf. hafi verið honum saknæm og ólögmæt og því bótaskyld. Snýst ágreiningur aðila að þessu leyti um það hvort endurreikna hafi átt umrædd lán frá upphafi með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 eins og stefndi heldur fram, eða hvort taka hafi átt tillit til þess í endurútreikningunum að Sægarpur ehf. hefði í höndum fullnaðarkvittanir frá stefnda vegna greiðslu vaxta fyrir liðna tíð. Í samkomulaginu 3. febrúar 2011 var við það miðað að endurreiknaðar skuldir Sægarps ehf. næmu 239.393.587 krónum samkvæmt útreikningum stefnda en áfrýjendur telja að skuldir félagsins hefðu samkvæmt forsendum útreikninga Sægarps ehf. átt að nema 115.410.210 krónum. Af hálfu áfrýjenda er á því byggt að munur þessara fjárhæða og þeirrar sem greidd var til uppgjörs lána Sægarps ehf. sé 43.389.790 krónur, og jafngildi sú fjárhæð tjóni þeirra. Í málinu er ekki deilt um fjárhæðir endurútreikninga heldur eingöngu forsendur þeirra.
Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 7. desember 2000 í máli nr. 153/2000 er það almenn regla kröfuréttar að aðilar samnings geta einir haft uppi kröfur í tilefni af ætlaðri vanefnd hans. Aðrir, svo sem ábyrgðarmenn á skuldum samningsaðila, eiga almennt ekki aðild að slíkum málum enda þótt þeir kunni að hafa hagsmuni af því hvernig samningur er skýrður eða framkvæmdur. Með sama hætti gildir sú regla um skaðabætur samkvæmt sakarreglunni að almennt geta þeir einir krafist skaðabóta vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi tjónvalds sem bótaskyld háttsemi beindist gegn. Ef sú afstaða stefnda, að fallast ekki á að endurreikna lán Sægarps ehf. með hliðsjón af því að félagið hefði í höndum fullnaðarkvittanir vegna greiðslu vaxta fyrir liðna tíð, var honum saknæm og ólögmæt, var það Sægarpur ehf. eða eftir atvikum þrotabú félagsins sem gat að öðrum bótaskilyrðum fullnægðum eignast á þeim grundvelli kröfu á hendur stefnda en ekki áfrýjendur sem hluthafar í félaginu. Er ekki fram komið að áfrýjendur hafi eignast slíka kröfu fyrir framsal frá félaginu eða þrotabúi þess. Ber þegar af þessari ástæðu að sýkna stefnda af kröfu áfrýjenda um greiðslu skaðabóta, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Eftir framangreindum úrslitum verða áfrýjendur dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Ásgeir Valdimarsson og Hulda Jeremíasdóttir, greiði sameiginlega stefnda, Arion banka hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2014.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 6. janúar 2014 og dómtekið 5. júní þess árs að lokinni aðalmeðferð. Stefnendur eru Ásgeir Valdimarsson og Hulda Jeremíasdóttir, Sæbóli 34, Grundarfirði. Stefndi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi „verði dæmdur til greiðslu skuldar“ að fjárhæð 43.389.790 krónur, að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. febrúar 2011 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi „verði dæmdur til greiðslu skaðabóta“ að sömu fjárhæð og með sömu vöxtum. Stefnendur krefjast einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnenda. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Málsatvik
Atvik málsins eru að meginstefnu óumdeild.
Stefnendur voru stofnendur og eigendur útgerðarfyrirtækisins Sægarps ehf. sem einkum sérhæfði sig í veiðum og verkun á beitukóngi. Heildarhlutafé félagsins nam 500.000 krónum. Viðskiptabanki Sægarps ehf. var Búnaðarbanki Íslands hf. sem var sameinaður Kaupþingi banka hf. undir nafninu KB banki hf. og varð síðar Kaupþing banki hf. Er ekki um það deilt að stefndi hefur tekið yfir réttindi og skyldur Kaupþings banka hf. vegna þeirra gerninga sem um ræðir í máli þessu.
Sægarpur ehf. gaf út fimm skuldabréf „í erlendum gjaldmiðlum eða reiknieiningu“ til viðskiptabanka síns á árunum 2004 til 2007, alls að jafnvirði 95.300.000 krónur, auk þess að taka svonefnt myntkörfulán að höfuðstól tuttugu milljónir króna. Í málinu er ágreiningslaust að þessi lán voru í reynd lán í íslenskum krónum bundin ólögmætri gengistryggingu.
Frá og með árinu 2008 hófust erfiðleikar í rekstri Sægarps ehf., meðal annars vegna umtalsverðrar hækkunar á höfuðstól fyrrgreindra gengislána félagsins og greiðslubyrði vegna þeirra. Rekstrarerfiðleikar munu þó einnig hafa komið til vegna neikvæðrar þróunar á mörkuðum. Gögn málsins bera með sér að á árinu 2009 hafi fyrirsvarsmenn Sægarps ehf. átt í ýmsum samskiptum við við viðskiptabanka sinn, sem þá var orðinn stefndi, vegna erfiðleika í rekstri félagsins, með það fyrir augum að samið yrði um skuldaaðlögun.
Í framhaldi af dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92 og 153 og 317/2010 lýsti lögmaður Sægarps ehf. því yfir, í rafskeyti til stefnda 17. sama mánaðar, að félagið teldi að lán félagsins væru í reynd í íslenskum krónum og bundin ólögmætri gengistryggingu. Var þess óskað að stefndi endurreiknaði lánin í samræmi við þetta. Með rafskeytum 6. júlí hafnaði stefndi erindi félagsins með vísan til þess að téðir dómar Hæstaréttar vörðuðu ekki lánasamninga stefnda. Hins vegar kom fram sú afstaða stefnda að áfram yrði unnið að því að meta rekstur félagsins. Afstöðu stefnda til lána félagsins var harðlega mótmælt í rafskeytum og á fundum með fulltrúum stefnda. Þá vann Ísak S. Hauksson, sem sinnti fjármálaráðgjöf fyrir Sægarp ehf., endurútreikning á lánum félagsins sem miðaður var við höfuðstól í íslenskum krónum en óbreytta samningsvexti, þ.e. svonefnda LIBOR- og EURIBOR-vexti að viðbættu ákveðnu álagi. Var sá endurútreikningur sendur stefnda með rafskeyti lögmanns Sægarps ehf. 26. júlí 2010. Hins vegar liggur fyrir að viðræður við stefndu um endurskiplagningu á rekstri Sægarps ehf. héldu áfram haustið 2010.
Ekki er um það deilt að af hálfu stefnda var talið nauðsynlegt að nýtt eigið fé kæmi til Sægarps hf. og skuldir hans yrðu lækkaðar svo rekstur yrði sjálfbær. Gögn málsins bera með sér að á þessum tíma hafi lán Sægarps ehf. verið í vanskilum en félagið innt af hendi greiðslur samkvæmt nánara samkomulagi við stefnda. Eins og nánar greinir við reifun á málsástæðum stefnenda telja þeir að stefndi hafi beitt stefnendur þrýstingi til að selja félagið og þeir sætt afarkostum. Kemur fram í stefnu að stefnendur hafi leitað til Skiphóls ehf. vegna kröfu stefnda um að nýtt eigið fé kæmi inn í félagið og loks samið við félagið um kaup á félaginu.
Samkvæmt rafskeyti Ísaks S. Haukssonar 1. október 2010 mátu eigendur Skiphóls ehf. virði Sægarps ehf. á 227 milljónir króna, en sú fjárhæð tók ekki tillit til skulda. Samningshugmyndir gerðu ráð fyrir því að hlutafé félagsins yrði aukið og hinir nýju aðilar yrðu hluthafar. Eftir að hluti skulda félagsins hefði verið afskrifaður áttu stefnendur að fá greiddan mismuninn, þ.e. muninn á virði félagsins samkvæmt framansögðu og þeim lánum sem yrðu eftir í félaginu. Hugmyndirnar gerðu þó einnig ráð fyrir því að stefnendur gætu áfram átt hluti í félaginu ef þeir svo kysu.
Í málinu liggur fyrir skjal sem auðkennt er „Útdráttur úr rekstraráætlun Sægarps des. 2010“. Kom fram í skýrslutökum að skjalið hafi verið nýtt af stefnda við gerð áætlunar um fjárhagslega endurskipulagningu Sægarps ehf. Í skjalinu segir að forsendur áætlunarinnar séu þær að nýr bátur, Blíða KE-17, komi inn í fyrirtækið og önnur verkefni verði fundin fyrir vinnslu og útgerð á tímabilinu mars til apríl þegar veiðar á beitukóngi séu litlar. Þá segir að forsenda áframhaldandi rekstrar sé lækkun skulda með leiðréttingu lána og nýtt hlutafé. Sé gert ráð fyrir að skuldir félagsins verði um 150 milljónir króna og nýtt eigið fé 40 milljónir króna. Hinn 10. janúar 2011 skrifaði Stefán Jónsson, starfsmaður stefnda, stefnanda Ásgeiri rafskeyti um samþykkt á fjárhagslegri endurskipulagningu Sægarps ehf. í kjölfar aðkomu nýs hluthafa. Samkvæmt skeytinu var gert ráð fyrir 153 milljón króna rekstrarláni og handveðsett innistæða skyldi koma til lækkunar á skuldum félagsins en aðrar skuldir afskrifaðar. Skilyrði var að 40 milljónir króna kæmu inni í félagið með sannanlegum hætti auk þess sem gert var ráð fyrir nánar tilteknum veðréttindum stefnda í eignum félagsins.
Hinn 31. janúar 2011 var hlutafé í Sægarpi ehf. hækkað um 10 milljónir króna og nam þá samtals 10.500.000 krónum án þess að eignarhald á félaginu breyttist. Hinn 3. febrúar 2011 var gengið frá þremur samningum auk vörslusamnings sem ekki er ástæða til að rekja. Í fyrsta lagi var um að ræða samkomulag Sægarps ehf. og stefnda um uppgjör skulda, en undir samkomulagið var einnig ritað af hálfu Skiphóls ehf. sem væntanlegs nýs hluthafa og eiganda veðsettra muna. Samkvæmt samkomulaginu eru skuldir Sægarps ehf. taldar nema 239.393.587 krónum og miðar samkomulagið að því að fella þessar skuldir niður gegn því að 158.800.000 krónum, þar af 153 milljónum króna í nýjum lánum hjá stefnda, sé ráðstafað til greiðslu skuldanna. Þá kemur fram að meðal skilyrða samkomulagsins sé að Skiphóll ehf. og stefnendur leggi Sægarpi ehf. hvor um sig til nýtt hlutafé að fjárhæð 10 milljónir króna. Þá segir í lok 5. gr. samkomulagsins að verði ekki af aðkomu Skiphóls ehf. sé stefnda heimilt að grípa til vanefndaúrræða gagnvart Sægarpi ehf.
Í annan stað var um að ræða áskriftarsamning um nýja hluti milli Sægarps ehf., stefnenda og Skiphóls ehf. Samkvæmt samningnum var hlutafé hækkað um 15 milljónir að nafnverði á genginu 2, eða samtals 30 milljónir, sem Skiphóll ehf. skráði sig fyrir og greiddi til félagsins. Með samningnum varð heildarhlutafé í Sægarpi ehf. 20 milljónir króna að nafnvirði, Skiphóll ehf. eigandi að 58,824% en stefnendur eigendur að 41,176% í jöfnum hlutföllum. Í samningnum var tilgreind sú forsenda að tekist hefðu samningar við stefnda um leiðréttingu skulda Sægarps ehf. þannig að höfuðstóll eftirstandandi skulda næmi 153 milljónum króna.
Í þriðja lagi var gerður kaupsamningar um kaup Skiphóls ehf. á eignarhlut stefnenda í Sægarpi ehf., þ.e. 41,176% hlut að nafnvirði 10.500.000 milljónir króna, fyrir 64.870.271 krónur sem greiða skyldi með nánar tilgreindum hætti. Samkvæmt samningnum skyldi stefnandi Ásgeir starfa áfram hjá Sægarpi ehf. sem framkvæmdastjóri samkvæmt ráðningarsamningi til þriggja ára. Samkvæmt því sem fram kom í skýrslutökum við aðalmeðferð málsins hætti Ásgeir hins vegar störfum á árinu 2012 að eigin ósk.
Af hálfu stefnenda er lögð áhersla á að kaup Skiphóls ehf. á Sægarpi ehf. hafi tekið mið af skuldastöðu Sægarps ehf. eins og hún var ákveðin af stefnda. Í skuldauppgjörinu hafi falist að stefndi fékk samtals greiddar 158.800.000 krónur frá Sægarpi ehf. en þá fjárhæð hafi stefndi talið vera upplausnarvirði félagsins. Stefndi hafi því afskrifað skuldir að fjárhæð 80.593.857 krónur.
Samkvæmt gögnum málsins framkvæmdi stefndi endurútreikning þeirra lána sem voru andlag samkomulagsins 3. febrúar 2011 í maí og september á árinu 2012, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt rafskeyti 3. maí 2012, sem vísað er til í bréfi Kjartans Páls Einarssonar til stefnanda Ásgeirs 23. júlí 2012, leiddi þessi endurútreikningur til þess að að Sægarpur ehf. ætti heildarkröfu til endurgreiðslu að fjárhæð 1.870.539 krónur.
Með tölvuskeyti 14. júní 2012 hafði stefnandi Ásgeir samband við stefnda, vísaði til þess að að lán Sægarps ehf. hefðu verið bundin ólögmætri gengistryggingu og innti hann eftir viðbrögðum. Í stefnu segir að þegar stefndi varð ekki við ítrekuðum kröfum stefnenda um að lánssamningarnir yrðu endurútreiknaðir í samræmi við samningsvexti hafi þeir á sinn eigin kostnað látið framkvæma endurútreikning á stöðu hinna gengistryggðu lánssamninga við stefnda. Sá endurútreikningur hafi leitt í ljós að skuldir Sægarps ehf. við stefnda við skuldauppgjörið hafi ekki numið 239.393.587 krónur, eins og skuldauppgjörið gerði ráð fyrir, heldur 115.410.210 krónum. Af hálfu stefnda er þeim útreikningi ekki mótmælt tölulega. Af hálfu stefnenda er vísað til þess að munurinn á þessari fjárhæð og þeirri fjárhæð sem greidd var til uppgjörs lána Sægarps ehf. sé 43.389.790 krónur, þ.e. sú fjárhæð sem fram komi í kröfugerð þeirra.
Þegar nýr endurútreikningur lá fyrir leituðu stefnendur á nýjan leik til stefnda og settu fram þá kröfu að stefndi gerði upp við stefnendur það sem stefnendur ættu inni hjá honum. Ekki er ástæða til þess að rekja nánar samskipti málsaðila í því sambandi.
Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 24. júlí 2013 var Sægarpur ehf. úrskurðað gjaldþrota. Skiptastjóri þrotabús félagsins lýsti því yfir með bréfi 5. september þess árs að hann teldi ágreining stefnenda og stefnda vera þrotabúinu óviðkomandi enda væri „óumdeilt að að kaupendur hlutanna árið 2011 tóku ekki yfir eldri skuldir félagsins heldur ráðstöfuðu seljendur kaupverðinu til uppgreiðslu eldri skulda og lána.“ Í málinu hafa ekki komið fram nánari skýringar á þessari afstöðu skiptastjórans til hugsanlegrar endurgreiðslukröfu þrotabúsins gegn stefnda.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi Ásgeir aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Ísak Sverrir Hauksson, sem sinnti fjármálaráðgjöf fyrir Sægarp ehf., Kristján Gunnar Valdimarsson hrl., sem sinnti um tíma lögfræðiráðgjöf fyrir Sægarp ehf. og Elísabet Árnadóttir starfsmaður stefnda. Ekki er ástæða til að rekja þessar skýrslur sérstaklega.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Aðalkrafa stefnenda byggir á því að stefndi skuldi stefnendum stefnufjárhæðina á þeim grundvelli að skuldir félagsins hafi verið ofáætlaðar. Vísað er til þess að stefndi hafi viðurkennt að þau lán sem Sægarpur ehf. tók hjá stefnda hafi verið íslensk lán bundin gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, en einnig er vísað til fordæma Hæstaréttar þar sem lögð hefur verið áhersla á það hvernig aðilar lánssamnings, þar sem texti tekur ekki af skarið um hvers efnis samningur er, efna aðalskyldur sínar. Er lögð á það áhersla að téðir samningar hafi verið framkvæmdir þannig að félagið fengi ætíð afhentar íslenskar krónur og innti af hendi afborganir í sama gjaldmiðli. Þá er á það bent að stefndi útbjó einhliða lánssamningana og lagði fyrir stefnendur til undirritunar. Stefnendur eða félagið hafi aldrei haft val um form lánssamninganna og standi það hinum sérfróða stefnda nær að bera hallann af tjóni stefnenda.
Endurútreikningum stefnda hafi verið mótmælt sem röngum, enda hafi þar eingöngu verið miðað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001. Er vísað til fordæma Hæstaréttar því til stuðnings að sú aðferð sé röng. Endurútreikningur á upprunalegum höfuðstól lánanna hafi átt að miðast við vexti samkvæmt lánssamningunum fram að endurútreikningsdegi og vexti sem Seðlabanki Íslands ákveddi, með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, eftir endurútreikningsdag. Lögð er á það áhersla að stefndi hafi mátt gera sér grein fyrir ólögmæti lánanna og stefnendur hafi ítrekað krafist þess að þau yrðu endurreiknuð í samræmi við dóma Hæstaréttar.
Stefnendur byggja aðalkröfu sína á því að stefndi greiði þeim stefnufjárhæðina með vísan til verðmats á félaginu, kaupverðs félagsins og rangrar skuldastöðu félagsins sem stefndi geti einn borið ábyrgð á. Ef raunveruleg skuldastaða félagsins við stefnda og þar með réttar forsendur hefðu verið lagðar til grundvallar við skuldauppgjörið hefði stefnendum borið að fá 43.389.790 krónur til viðbótar. Með vísan til meginreglna kröfuréttar sé þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum þá fjárhæð enda sé það sú fjárhæð sem stefndi oftók við skuldauppgjörið.
Ljóst megi vera að jafnræði hafi ekki verið með samningsaðilum enda hafi stefnendur mátt sín lítils í samningaviðræðum við stefnda sem hefði verið í lófa lagið, í ljósi skuldastöðu félagsins að grípa til vanefndaúrræða gagnvart félaginu sem hefði haft neikvæð áhrif á hagsmuni stefnenda sem hluthafa. Í ljósi veikrar samningsstöðu stefnenda hafi stefnendum verið sú eina leið fær að ganga að skilyrðum stefnda um að töluvert nýtt eigið fé yrði sett í félagið. Stefndi hafi þrýst mjög á sölu félagsins, til að fá greiðslur upp í skuldir félagsins á þeim tímapunkti sem salan átti sér stað og hafi hagnast með óeðlilegum hætti á grundvelli of hárrar stöðu á ólögmætum gengistryggðum lánum.
Sú röksemd stefnenda um að stefndi hafi beitt þau þrýstingi að selja félagið fái skýra stoð í ákvæðum skuldauppgjörsins. Í skuldauppgjörinu greini að eftirstöðvar skuldanna skuli felldar niður, sbr. ákvæði 4. gr. Þá greinir í 5. gr. skuldauppgjörsins að eitt af skilyrðum fyrir uppgjöri skuldanna sé að nýr hluthafi komi að félaginu, þ.e. að Skiphóll ehf. verði nýr hluthafi félagsins. Jafnframt sé tilgreint í samkomulaginu að verði Skiphóll ekki hluthafi í félaginu, sé bankanum heimilt að grípa til vanefndaúrræða. Samkvæmt því hafi ákvörðunarvaldið um skuldauppgjörið alfarið verið í höndum stefnda sem setti það skilyrði að ef nýr hluthafi kæmi ekki að félaginu gæti stefndi gripið til viðeigandi úrræða á borð við það að fara fram á gjaldþrotaskipti.
Stefndi sé starfsleyfisskyldur aðili samkvæmt 2. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Á stefnda hvíli því ríkar skyldur til að haga starfsemi sinni í samræmi við lög, reglur og góða viðskiptahætti. Í 19. gr. laga nr. 161/2002 séu gerðar ákveðnar kröfur til stefnda um að ástunda góða viðskiptahætti og venjur. Stefnendur byggja á því að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 161/2002 með því að þrýsta á stefnendur um að fjárhagsleg endurskipulagning félagsins færi fram með umræddum hætti. Stefndi sem fjármálafyrirtæki beri augljós skylda að viðhafa fagleg vinnubrögð og gæta ákveðinnar varkárni og meðalhófs í samskiptum sínum við viðskiptavini sína.
Stefnendur hafi ítrekað óskað eftir því að beðið yrði með skuldauppgjör þar til niðurstaða fengist um rétta stöðu á lánum félagsins. Þrátt fyrir þá staðreynd hafi stefndi ekki verið reiðubúinn að bíða með skuldauppgjör og virt að vettugi kröfur stefnenda um leiðréttingu lána í samræmi við fordæmi Hæstaréttar. Með vísan til þessa telja stefnendur það ósanngjarnt að stefndi beri skuldauppgjörið fyrir sig að því marki sem það geymi rangar forsendur. Telja stefnendur að stefnda sé ekki stætt á því að byggja á skuldauppgjörinu hvað varðar þá fjárhæð sem fór á milli aðila samkvæmt ákvæðum skuldauppgjörsins við sölu félagsins, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Stefnendur telja það ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi hafi staðið í vegi fyrir því að stefnendur fengju notið þess réttar sem þeir hefðu ella notið ef beðið hefði verið með skuldauppgjörið þar til frekari dómar um ólögmæti gengistryggðra lána hefðu verið kveðnir upp. Stefnendur byggja á því að stefndi hafi vitað eða mátt vera það ljóst að skuld stefnenda við stefnda á grundvelli lánssamninganna væri of há þar sem þeir höfðu ekki verið endurreiknaðir í samræmi við dóma um ólögmæti gengistryggðra lána þegar stefnendur voru knúnir til að selja hlut sinn í félaginu og í kjölfarið að ganga frá skuldauppgjöri við stefnda. Stefndi beri því ábyrgð á ofgreiddri fjárhæð sem stefndi tók til sín og stefnendur urðu þar af leiðandi af og gera stefnendur því kröfu um að stefndi standi stefnendum skil á greiðslunni. Í ljósi endurútreiknings á lánssamningum félagsins og kaupverðsins fyrir hlut í félaginu sé ljóst að stefndi hafi tekið ranglega til sín stefnufjárhæðina. Stefndi skuldi því stefnendum þessa fjárhæð, en ekki Sægarpi ehf., og því sé þess krafist að stefnendur fái stefnufjárhæðina greidda úr hendi stefnda.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnenda gera stefnendur þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum stefnufjárhæðina á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar. Stefnendur telja að lágmarkstjón sitt nemi þeirri fjárhæð sem stefnendur voru bersýnilega hlunnfarnir um við gerð skuldauppgjörsins sem sé stefnufjárhæð. Hafi þá ekki verið tekið tillit til þess tjóns sem stefnendur urðu fyrir með því að missa félagið sem stefnendur byggðu upp frá grunni og ráku með arðbærum hætti allt fram að hruni fjármálafyrirtækjanna, vegna rangra forsendna af hálfu stefnda sem leiddi til óbætanlegs tjóns stefnenda. Stefnendur byggja kröfu sína á því að verðmat á félaginu hafi legið ljóst fyrir auk þess sem kaupverð fyrir 100% hlut í félaginu hafi legið ljóst fyrir í upphafi. Þegar kaupsamningurinn og skuldauppgjörið hafi verið undirrituð, hafi það verið mat stefnda að skuldastaða félagsins hafi verið með þeim hætti að félagið væri ógjaldfært og hafi krafa stefnda lotið að því að nýr hluthafi kæmi að félaginu.
Í ljósi þess að skuldastaða félagsins hafi verið verulega ofmetin hafi stefnendur fengið lægri fjárhæð fyrir sinn hlut en ef skuldastaða félagsins hefði verið rétt reiknuð af stefnda. Stefndi ber beina ábyrgð á því fjárhagslega tjóni sem stefnendur hafi orðið fyrir þar sem rétt hefði verið af stefnda að bíða með fjárhagslega endurskipulagningu félagsins auk þess sem stefnda hafi verið það í lófa lagið. Stefnendur telja að stefndi hafi vitað að lán félagsins væru í reynd ólögmæt gengistryggð lán enda hafi stefndi farið fram á það við stefnendur að útbúin yrði yfirlýsing á milli stefnenda og félagsins um að stefnendur teldu sig ekki eiga frekari kröfur á hendur félaginu.
Vísað er til þess að stefnendur höfðu ítrekað farið þess á leit við stefnda að farið yrði eftir þeim dómum sem þegar höfðu fallið eða a.m.k. að beðið yrði með fjárhagslega endurskipulagningu félagsins þar til skýr dómaframkvæmd lægi fyrir að því er varðaði útreikning gengistryggðra lána. Ef stefndi hefði ekki sýnt þá óbilgirni sem raun ber vitni gagnvart stefnendum, væri eignarhald félagsins enn í höndum stefnenda enda hefði stefnendum ekki verið nauðugur sá kostur einn að selja allt hlutafé félagsins. Stefndi hafi atvinnu af lánveitingum og innan vébanda stefnda starfi fjöldi sérfræðinga. Stefndi hafi mátt vita um ólögmæti skilmála lánssamninga félagsins. Auk þess hafi á árinu 2010 gengið margir dómar um ólögmæti ýmissa samningsskilmála fjármálafyrirtækja. Sú staðreynd hafi gefið stefnda ríkt tilefni til að fara varlega í sakirnar við að ganga frá skuldauppgjöri við félagið á meðan beðið væri frekari dómaframkvæmdar Hæstaréttar. Með vísan til framangreinds telja stefnendur að stefndi beri ábyrgð á fjárhagslegu tjóni þeirra og krefjast því skaðabóta úr hendi stefnda sem nemur stefnufjárhæðinni.
Stefnendur vísa einkum til almennra reglna samningaréttar og kröfuréttar, meginreglna skaðabótaréttar, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Jafnframt vísa stefnendur til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálafyrirtækjum, laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Þá vísa stefnendur til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnendur geti ekki átt ætlaða endurgreiðslukröfu á hendur stefnda heldur sé það þrotabú Sægarps ehf. ef slíkri kröfu sé til að dreifa. Því eigi að sýkna stefnda vegna aðildarskorts stefnenda að málinu. Óumdeilt sé að Sægarpur ehf. hafi greitt upp lán félagsins, en engir fjármunir komið frá stefnendum. Því eigi stefnendur ekki rétt á endurgreiðslu, hvorki á grundvelli meginreglna kröfuréttar né fyrirmæla 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Verði ekki fallist á varnir byggðar á aðildarskorti mótmælir stefndi aðalkröfu stefnenda allt að einu. Stefndi mótmælir því sem órökstuddu að honum beri skylda til þess að greiða stefnendum greiðslu „með vísan til verðmats á félaginu, kaupverðs félagsins og rangrar skuldastöðu félagsins sem stefndi getur einn borið ábyrgð á“. Hluthafar geti ekki talið sér það til tekna ef skuldaþol félags er ofmetið. Stefndi telur einnig óskiljanlega þá málsástæðu að „meginreglur kröfuréttar“ eigi að leiða til að stefnda bæri að greiða stefnendum stefnufjárhæð. Staða lánanna hafi ekki skipt máli þar sem félagið var ógreiðslufært, sama hvort upphæð skuldanna var 153.000.000 krónur eða lægri upphæð. Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að ekki hafi verið jafnræði með aðilum og stefndi hafi beitt þessu ójafnvægi til að þvinga fram samning. Þá sé ekki ljóst ljóst hvernig þetta ætlaða ójafnræði geti leitt til endurgreiðsluskyldu stefnda. Stefndi hafnar því að hafa brotið lög nr. 161/2002 og hafnar því einnig að 36. gr. laga nr. 7/1936 geti átt við. Þá hafi stefnendur ekki leitast við að sýna fram á að skilyrðum þess að beita megi umræddum lögum sé fullnægt. Einnig sé á engan hátt sýnt fram á hvernig þessi málsástæða eigi að leiða til endurgreiðsluskyldu stefnda.
Stefndi hafnar því að stefnendur hafi borið skarðan hlut frá borði við skuldauppgjör Sægarps ehf. Stefndi hafi fallist á að taka þátt í endurskipulagningu félags í rekstrarvandræðum með því að eigendur þess lögðu fram áætlun sem fól í sér möguleika á að félagið gæti lifað af. Sú tilraun hafi ekki tekist og félagið hafi orðið gjaldþrota. Það sé skrítið að stefnendur telji að til staðar sé greiðsluskylda hjá stefnda vegna hlutafjáreignar þeirra í félagi sem var ógreiðslufært fyrir skuldaleiðréttingu. Þá mótmælir stefndi því sem röngu og órökstuddu að þetta sé ósanngjarnt og hafi farið gegn góðri viðskiptavenju. Stefndi hafi ekki beðið með skuldauppgjörið eða komið í veg fyrir að stefnendur fengju notið þess réttar sem þau hefðu annars notið. Fjárhagsstaða Sægarps ehf. hafi verið svo slæm að félagið hafi ekki getað staðið í skilum. Hafi því ekki hafi verið hægt að bíða með skuldauppgjör félagsins. Það sé því erfitt að sjá hvernig skuldauppgjörið hafi verið ósanngjarnt gagnvart stefnendum eða brotið gegn góðri viðskiptavenju.
Stefndi byggir einnig á því að skuldasambandi, Sægarps ehf., sem skuldara, og stefnda, sem kröfuhafa, sé lokið og ekki sé færi aðila þess að taka það upp aftur nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Enginn fyrirvari hafi verið gerður við uppgreiðslu lána og auk þess hafi verið um flókið lagaatriði að ræða, þ.e. hvort lánin hafi verið gengistryggð. Því sé enginn endurheimturéttur fyrir hendi. Að lokum telur stefndi vandséð hvernig hann gat fengið „of mikið“ greitt frá Sægarpi ehf. þegar verið var að stilla af skuldir órekstrarhæfs félags.
Stefndi mótmælir varakröfu stefnendur og telur að skilyrðum fyrir skaðabótum sé ekki fullnægt. Stefndi bendir raunar á að málatilbúnaður stefnenda sé verulega vanreifaður um skilyrði skaðabóta og því sé erfitt fyrir stefnda að taka til varna. Stefndi ítrekar hins vegar að stefnendur beri sönnunarbyrðina fyrir því að þessum skilyrðum sé fullnægt. Stefndi bendir í fyrsta lagi á að engri sök sé til að dreifa af hans hálfu. Stefndi mótmælir því að hann hafi mátt vita að umrædd lán voru ólögmæt. Það hafi ekki verið fyrr en mun síðar, eða með dómi Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 sem tekið hafi verið af skarið um lánssamning sem svipaði til samninga Sægarps ehf. Stefndi telur að hér hafi verið um flókinn og umfangsmikinn réttarágreining að ræða sem ekki hafi verið leystur á þeim tíma sem samkomulagið var gert. Stefndi mótmælir því jafnframt að afstaða stefnda til lögmætis lánasamninganna komi fram í gögnum málsins. Stefndi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að lán Sægarps ehf. væru í erlendum myntum en auk þess virðist lántaki, Sægarpur ehf., einnig hafa gefið upp framangreind lán í ársreikningi sínum í erlendum myntum. Stefndi hafnar því einnig að aðrar aðgerðir hans við skuldauppgjörið feli saknæma háttsemi þannig að hann beri fébótaábyrgð á meintu tjóni stefnenda. Vísar hann til þess að félagið hafi verið ógreiðslufært og fjárhagsleg endurskiplagning verið nauðsynleg.
Því er einnig mótmælt að fyrir liggi að félagið væri enn í höndum stefnenda ef miðað hefði verið við að lánin væru íslensk þegar uppgjör þeirra átti sér stað. Þessi fullyrðing sé algerlega ósönnuð og ekki studd neinum gögnum, enda sé félagið gjaldþrota þrátt fyrir lækkun á skuldsetningu og styrkingu á rekstrinum.
Þá byggir stefndi á því að ekki séu orsakatengsl milli meintrar saknæmrar háttsemi stefnda og ætlaðs tjóns og tjón sé í öllu falli ekki sennileg afleiðing af háttsemi starfsmanna stefnda. Varðandi þetta vísar stefndi sérstaklega til þess að við umrætt skuldauppgjör höfðu stefnendur sérfræðinga sér til aðstoðar og þekktu vel til rekstrar félagsins. Þá hafi stefnendur ekki verið knúnir til að selja hlut sinn í félaginu af stefnda. Það hafi verið ákvörðun stefnenda sjálfra. Stefndi hafi ekki haft áhrif á samninga stefnenda við Skiphól ehf. Krafa stefnda um sýknu er að lokum byggð á því að stefnendur hafi ekki orðið fyrir tjóni, eða tjón sé í öllu falli ósannað, svo og að sýkna beri að varakröfu stefnenda með vísan til eigin sakar stefnenda, m.a. þess að þeir hafi ekkert gert til þess að takmarka tjón sitt.
Niðurstaða
Skilja verður kröfugerð stefnenda á þá leið að þeir krefjist sameiginlega greiðslu stefnufjárhæðar, með þar tilgreindum dráttarvöxtum, aðallega á þeim grundvelli að þeir eigi rétt til endurgreiðslu vegna ofgreiðslu á tilteknum lánum Sægarps ehf., en til vara með vísan til þess að stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnendum. Af gögnum málsins verður ráðið að stefnendur hafi átt Sægarp ehf. í jöfnum hlutföllum en ekki að hluturinn í félaginu hafi verið í óskiptri sameign þeirra. Er því ekki fyllilega skýrt með hvaða hætti stefnendur telja sig eiga eina óskipta kröfu gegn stefnda í stað þess að hafa uppi sjálfstæðar kröfur og grundvalla sameiginlega sóknaraðild sína á 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eins og málið liggur fyrir þykir þetta þó ekki koma í veg fyrir efnislega úrlausn málsins.
Í málinu er óumdeilt að þau sex lán, sem greidd voru upp með áðurlýstu samkomulagi við stefnda 3. febrúar 2011 um greiðslu skulda, voru í reynd lán í íslenskum krónum bundin ólögmætri gengistryggingu. Hins vegar getur ekki farið á milli mála að skuldari þessara lána var Sægarpur ehf. en ekki stefnendur persónulega. Er jafnframt ekkert komið fram sem bendir til þess að stefnendur hafi greitt af lánunum eða verið aðilar að fyrrgreindu samkomulagi við stefnda með öðrum hætti en sem fyrirsvarsmenn Sægarps ehf. Að þessu virtu hafa stefndu ekki hafa sýnt fram á með hvaða hætti endurgreiðslukrafa kunni að hafa stofnast þeim persónulega til handa, hvorki með vísan til 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, né ólögfestra reglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Hvað sem líður hugsanlegri endurgreiðslukröfu Sægarps ehf. verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnenda með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Með þeirri niðurstöðu er hins vegar ekki tekin afstaða til málsástæðu stefnenda um skaðabótaskyldu stefnda vegna áðurlýstrar sölu stefnenda á Sægarpi ehf. til Skiphóls ehf. sem stefnendur hafa kosið að setja fram sem sérstaka varakröfu, líkt og áður greinir.
Þegar áðurlýstir löggerningar voru undirritaðir 3. febrúar 2011 höfðu gengið í gildi lög nr. 151/2010, sem fólu í sér breytingar á lögum nr. 38/2001, og kváðu á um hvernig haga ætti endurútreikningi lána sem bundin voru ólögmætri gengistryggingu. Leiddi af ákvæðum laganna sú meginregla að í stað samningsbundinna vaxta skyldi miðað við vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Var þessi regla laganna efnislega í samræmi við dóm Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ógildi gengistryggingar leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samnings um vaxtahæð og bæri þess í stað miða við umrædda vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001.
Samkvæmt þessu er ljóst að endurútreikningur stefnda á lánum Sægarps ehf., til samræmis við fyrirliggjandi reglur um endurútreikning gengistryggðra lána, hefði hvorki getað leitt til þeirrar stöðu lánanna sem útreikningur Ísaks S. Hauksson gerði ráð fyrir haustið 2010 né kröfugerð stefnenda í máli þessu felur í sér. Hins vegar er komið fram að endurútreikningur miðað við vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 leiddi til þess að Sægarpur ehf. átti kröfu til endurgreiðslu á 1.870.539 krónum vegna umræddra lána. Hafa stefnendur ekki rökstutt að sá útreikningur sé rangur.
Með dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 var því slegið föstu að kröfuhafi gæti, að vissum skilyrðum fullnægt, glatað rétti til fullra efnda kröfu þegar skuldari hefði undir höndum kvittun fyrir greiðslu sem gæfi honum réttmæta ástæðu til að ætla að hann væri búinn að gera að fullu upp greiðslu sína og gæti treyst því að ekki kæmi til frekari kröfu síðar. Meðal þeirra atriða sem litið var til við mat á því hvort þessi undantekningarregla ætti við, þannig að kröfuhafa væri óheimilt að krefja skuldara um vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 aftur í tímann, var lengd skuldbindingar, fjöldi greiðslna, fjárhæð viðbótarkröfu um vexti og hvort lán hefði verið í skilum.
Í málinu hafa ekki verið færð að því rök að fyrrgreindum skilyrðum hafi verið fullnægt um fyrrgreind lán Sægarps ehf., en fyrir liggur að afborganir lána voru í ýmsum tilvikum inntar af hendi eftir gjalddaga. Jafnvel þótt umræddum skilyrðum teldist fullnægt í ljósi þeirra fordæma sem gengið hafa eftir fyrrgreindan dóm Hæstaréttar 15. febrúar 2012 yrði starfsmönnum stefnda þó ekki metið það til sakar að hafa ekki fallist á þá útreikninga Sægarps ehf. sem gerðu ráð fyrir mun meiri lækkun lánanna en leitt gat af ákvæðum laga nr. 151/2010 eða almennum reglum eins og þær höfðu verið skýrðar af Hæstarétti í áðurnefndum dómi 16. september 2010.
Samkvæmt framangreindu bendir allt til þess að frekari lækkun á skuldastöðu Sægarps ehf. í ársbyrjun 2011 til samræmis við ákvæði laga nr. 151/2010, eða ólögfestar reglur, hefði orðið óveruleg þegar hafðar eru í huga heildarskuldir félagsins. Jafnvel þótt sú afstaða stefnda, að hafna alfarið endurútreikningi lánanna hafi, út af fyrir sig, verið saknæm og ólögmæt að mati dómsins, hefur því ekki verið sýnt fram á að verðmæti félagsins við sölu á eignarhlut stefnenda til Skiphóls ehf. hafi orðið minna svo nokkru nemur af þessum ástæðum. Því síður getur dómurinn fallist á það með stefnendum að greiðsluerfiðleika félagsins megi rekja til þessarar ólögmætu afstöðu stefnda þannig að endurskipulagningu félagsins verði jafnað til háttsemi sem stefndi beri ábyrgð á.
Verður stefndi því alfarið sýknaður af kröfu stefnenda og þarf þá hvorki að taka afstöðu til þess hvort stefnendur gættu nægilega að því að takmarka tjón sitt við söluna á Sægarpi ehf. til Skiphóls ehf. 3. febrúar 2011 eða hvort sala stefnenda á eignarhlut sínum í félaginu teljist sennileg afleiðing af háttsemi starfsmanna stefndu.
Eftir úrslitum málsins verða stefnendur dæmdir sameiginlega til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Áslaug Gunnlaugsdóttir hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Sigurður Guðmundsson hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Arion banki hf., er sýkn af kröfum stefnenda, Ásgeirs Valdimarssonar og Huldu Jeremíasdóttur.
Stefnendur greiði stefnda sameiginlega 500.000 krónur í málskostnað.