Hæstiréttur íslands

Mál nr. 515/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Mánudaginn 10. ágúst 2015.

Nr. 515/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Theodór Kjartansson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. ágúst 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. ágúst 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. ágúst 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að beitt verði vægari úrræðum, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með héraðsdómi að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Samkvæmt því en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. ágúst 2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að kærða, X, fd. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. ágúst 2015 kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir meðal annars að lögreglu hafi hinn 28. júlí sl. borist tilkynning frá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli um að kærði X, hefði verið stöðvaður við komu hans hingað til lands með flugi frá [...]. Í viðræðum við tollverði hafi komið fram hjá kærða að hann hefði bókað og greitt fyrir farmiða sinn með greiðslukorti sínu í gegnum vefsíðu A þegar hann var staddur í [...] í [...]. Við skoðun á bókun kærða hafi komið í ljós að farmiðinn hafði verið greiddur með greiðslukorti annars aðila, samtals að fjárhæð 1107,32 EUR, eða að jafnvirði 163.883 krónur miðað við viðmiðunargengi þann dag.

Við leit tollvarða hafi fundist mikið magn af munum sem lögregla telji að séu kærða óviðkomandi, þ.e. greiðslukort, sem tilheyri honum ekki, óútfyllt brottfararspjöld frá mismunandi flugfélögum, merkimiðar ætlaðir áhöfnum mismunandi flugfélaga, óútfylltir úttektarmiðar fyrir hótel o.fl.

Í kjölfar framangreinds hafi kærði verið handtekinn vegna gruns um fjársvik og verið færður á lögreglustöðina við Hringbraut þar sem hann hafi verið vistaður. Ákærði hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 28. júlí sl. Hyggist lögreglustjóri gefa út ákæru á hendur kærða hið allra fyrsta.

Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að bókun hafi verið gerð á nafni kærða hinn 26. júlí sl. á vef A og samkvæmt upplýsingum frá félaginu hafi kærði ekki greitt fyrir farmiðann á lögmætan hátt. Jafnframt hafi lögreglu borist upplýsingar frá A um að kærði hefði gert ítrekaðar tilraunir til að bóka flug hingað til lands í september og október 2014 með illa fengnum greiðslukortaupplýsingum. Þá hafi lögregla jafnframt til rannsóknar ætlaðar tilraunir kærða til fjársvika gagnvart B í september 2014.

Andlag þeirra ætluðu brota sem beinst hafi gegn A nemi í það minnsta 567.000 krónum miðað við söluverðmæti farmiða. Andlag þeirra ætluðu brota sem beinst hafi gegn B nemi í það minnsta 170 GBP eða um 20.000 krónum miðað við sömu forsendur. Sé þá ótalið annað hugsanlegt tjón sem félagið kunni að hafa orðið fyrir.

Kærði hafi alfarið neitað að hafa haft vitneskju um að greitt hefði verið fyrir farmiða hans á ólögmætan hátt og hafi að mati lögreglu gefið fjarstæðukenndar skýringar á atriðum er lúti að því broti sem hann sé sakaður um.

Lögregla hafi leitað eftir upplýsingum um brotaferil kærða víða um heim í gegnum alþjóðastofnanir og hafi þegar fengið upplýsingar um að kærði hafi komið við sögu í auðgunarbrotum sem þessum. Jafnframt liggi fyrir að kærði var dæmdur hér á landi fyrir áþekkt brot á árinu 2007.

Fyrir liggi nokkuð umfangsmiklar rannsóknaraðgerðir lögreglu til að upplýsa nánar um framangreind atriði. Hafi þegar verið haft samband við erlend löggæsluyfirvöld vegna málsins, auk þess sem beðið sé nánari gagna frá flugfélögum vegna þessa. Þá rannsaki lögregla nú þá muni sem kærði hafi haft meðferðis, þ.e. farsíma og tölvugögn.

Verið er að rannsaka fjársvik í tengslum við kaup á farmiðum sem hafi haft í för með sér umtalsvert fjártjón lögaðila hér á landi. Samkvæmt því sem að framan hafi verið rakið og með vísan til gagna málsins telji lögreglustjóri að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot á 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en við því broti liggi allt að sex ára fangelsi. Telji lögreglustjóri að brot kærða muni ekki hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna refsingu hljóti kærði dóm fyrir ætlað brot.

Þá kemur fram í kröfu lögreglustjóra að kærði, sem sé erlendur ríkisborgari, virðist ekki hafa nokkur tengsl við land og þjóð, en hann eigi hvorki fjölskyldu né vini hér á landi né stundi hér atvinnu. Af þessum sökum telji lögregla hættu á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér undan með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans er til meðferðar fyrir héraðsdómi. Af þessum sökum telji lögregla að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í málinu. Sé í þessu sambandi vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 595/2011.

Með vísan til alls framangreinds, b-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni (sic.), telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 26. ágúst 2015 kl. 16:00.

Af gögnum málsins verður ráðið að fyrir hendi er rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um fjársvik og tilraunir til slíks brots, en við broti gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 liggur allt að sex ára fangelsi. Þá liggur fyrir að kærði hefur áður sætt refsingu hér á landi vegna sams konar brots. Kærði er erlendur ríkisborgari, sem hvorki stundar atvinnu né á fjölskyldu hér á landi. Samkvæmt framansögðu verður að telja hættu á að hann muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn áður en mál hans verður til lykta leitt. Þar sem fyrir hendi eru öll skilyrði til að beita gæsluvarðhaldi samkvæmt b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 í því skyni að tryggja nærveru kærða verður fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. ágúst 2015 kl. 16.00.

                Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. ágúst 2015, kl. 16:00.