Hæstiréttur íslands
Mál nr. 147/2001
Lykilorð
- Áfrýjunarstefna
- Stefnufrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 14. september 2001. |
|
Nr. 147/2001. |
Stefanía M. Aradóttir(Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Stewart-Singlam Fabrics Ltd. (enginn) |
Áfrýjunarstefna. Stefnufrestur. Máli vísað frá Hæstarétti.
Áfrýjunarstefna var birt stefnda að liðnum stefnufresti. Vegna þessa og þar sem stefndi lét ekki málið til sín taka fyrir Hæstarétti var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. apríl 2001. Hún krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hún þess að fjárhæðin, sem henni var gert að greiða stefnda með héraðsdómi, verði lækkuð og málskostnaður látinn falla niður.
Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt 5. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 9. gr. laga nr. 38/1994, verður að birta áfrýjunarstefnu ekki síðar en viku áður en frestur stefnda til að tilkynna Hæstarétti að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum í málinu er á enda, sbr. e. lið 1. mgr. 155. gr. fyrrnefndu laganna. Við útgáfu áfrýjunarstefnu var ákveðið að síðasti dagur stefnda til að koma fram tilkynningu um þetta yrði 6. júní 2001. Lauk því stefnufresti 30. maí sama árs. Áfrýjunarstefna í málinu var birt erlendis á starfstöð stefnda 4. júní 2001. Vegna þessa og þar sem stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti verður málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Málskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá Hæstarétti.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2001.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 22. janúar sl., er höfðað með stefnu, birtri 11. ágúst sl.
Stefnandi er Stewart Singlam Fabrics Ltd., Treforest Ind. Est. Pontypridd, Wales.
Stefnda er Stefanía M. Aradóttir, kt. 290453-4889, Klyfjaseli 17, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til greiðslu skuldar að fjárhæð GBP 2.849,15 með dráttarvöxtum samkvæmt 11. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. júlí 1999 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefnda krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að upphafstími dráttarvaxta verði ákveðinn 11. ágúst sl.
II
Það eru óumdeildir málavextir að stefnda pantaði vörur hjá umboðsmanni stefnanda hér á landi í september 1998 og voru þær afhentar eins og samið var um í október sama ár. Í máli þessu krefur stefnandi stefndu um eftirstöðvar kaupverðsins. Ekki er ágreiningur um fjárhæð skuldarinnar heldur hver hafi verið viðsemjandi stefnanda en stefnda heldur því fram að í viðskiptunum hafi hún komið fram fyrir hönd einkahlutafélags. Þessu hafnar stefnandi og kveðst hafa samið við stefndu vegna óskráðs einkafirma hennar.
III
Stefnandi byggir á því að stefnda hafi keypt vörurnar af sér í nafni Artemis, sem sé óskráð einkafirma hennar. Beri henni þessa vegna að greiða þær samkvæmt almennum reglum samningaréttar og með vísan til ákvæða laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Stefnandi kveðst hafa lagt fram gögn, er sýni, að hann hafi átt viðskiptin við einkafirma stefndu en ekki einkahlutafélag.
IV
Stefnda byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Hún hafi keypt umræddar vörur í nafni Gaea ehf., enda sé ekkert einkafirma til sem heiti Artemis og ekki hafi hún keypt vörurnar sjálf. Artemis sé vörumerki, sem sé í eigu einkahlutafélagsins. Kveðst stefnda hafa lagt fram gögn, svo sem innflutningsskjöl og skjöl um innborganir Gaea ehf. inn á skuldina, er sanni að viðskiptin hafi verið við einkahlutafélagið og engan annan. Á þessum tíma hafi nefnt einkahlutafélag verið í viðskiptum við stefnanda og greitt reikninga hans en hvorki stefnda sjálf né eitthvert óskráð einkafirma hennar.
V
Um viðskipti aðila hafa verið lögð fram allmörg gögn sem nú verða reifuð. Í fyrsta lagi er það reikningur, sem stefnandi gerði um viðskiptin, en hann er stílaður á Artemis og við það tilgreint heimilisfang framangreinds einkahlutafélags. Þá hafa verið lögð fram ljósrit af gögnum varðandi flutning á vörunum og tollafgreiðslu þeirra. Á þeim öllum kemur fram að flytjandi og viðtakandi er fyrirtæki að nafni Artemis nema á þremur reikningum frá fyrirtæki sem annast hefur umsjón með hraðsendingu og viðskipti við tollstjóra. Á þessum skjölum er viðskiptavinurinn tilgreindur Gaea ehf. Artimis (svo). Þá hefur verið lögð fram yfirlýsing frá umboðsmanni stefnanda hér á landi þar sem fram kemur að stefnda hafi pantað umræddar vörur hjá honum fyrir fyrirtæki sitt, Artemis, en ekki minnst á annað fyrirtæki í tengslum við kaupin. Þessi yfirlýsing hefur ekki verið staðfest fyrir dómi. Loks er meðal gagnanna ljósrit af símbréfi umboðsmannsins til stefnanda þar sem farið er fram á að Artemis verði veittur 60 daga greiðslufrestur á vörunum. Á sumum framangreindra skjala er tilgreind kennitala og er það kennitala framangreinds einkahlutafélags. Enn fremur liggur fyrir að um það leyti sem viðskiptin urðu á milli aðila leitaði fyrirtæki á vegum stefnanda eftir upplýsingum um lánshæfi einkahlutafélagsins hjá fyrirtæki hér á landi, er veitir slíka þjónustu, en leitaði ekki á sama tíma sams konar upplýsinga um stefndu.
Þegar framangreind gögn eru virt er það niðurstaða dómsins að stefnda beri sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu sinni að hún hafi í viðskiptunum við stefnanda komið fram í nafni Gaea ehf. Ekki verður séð að hún hafi gert athugasemdir við að framangreind skjöl hafi verið stíluð á Artemis og ekki er að sjá að gerðar hafi verið athugasemdir við innheimtubréf lögmanns stefnanda, sem sent var Artemis b/t Stefanía, ári eftir viðskiptin. Þá er Artemis sagt vera heitið á fyrirtækinu á þeim skjölum þar sem kennitala er tilgreind en það er kennitala einkahlutafélagsins. Loks benda gögnin frá umboðsmanni stefnanda til þess að stefnda hafi ekki getið um einkahlutafélagið sem viðsemjanda stefnanda.
Samkvæmt framansögðu er ósannað að stefnandi hafi vitað annað en að hann ætti viðskipti við óskráð einkafirma stefndu að nafni Artemis og verða kröfur hans því teknar til greina og stefnda dæmd til að greiða honum GBP 2.849,15 auk dráttarvaxta samkvæmt 11. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. júlí 1999 til greiðsludags. Heimilt skal að höfuðstólsfæra vexti á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. vaxtalaga, í fyrsta sinn 5. júlí 2000. Loks skal stefnda greiða stefnanda 100.000 krónur í málskostnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefnda, Stefanía M. Aradóttir, greiði stefnanda, Stewart Singlam Fabrics Ltd., GBP 2.849,15 með dráttarvöxtum samkvæmt 11. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. júlí 1999 til greiðsludags. Höfuðstólsfæra má vextina á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 5. júlí 2000. Stefnda greiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað.