Hæstiréttur íslands
Mál nr. 852/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Óvígð sambúð
- Opinber skipti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2016, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita vegna slita á óvígðri sambúð málsaðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að ,,nettó-söluandvirði“ fasteignarinnar [...], fastanúmer [...], Reykjavík verði skipt þannig milli aðila að 45% komi í hlut sóknaraðila en 55% í hlut varnaraðila, en til vara að sér verði dæmd lægri hlutdeild í fasteigninni. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Fyrir Hæstarétti hafa báðir aðilar lagt fram frekari gögn um atvinnutekjur sínar á sambúðartímanum auk fleiri gagna. Fá þau ekki hnekkt niðurstöðu hins kærða úrskurðar sem staðfestur verður með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2016.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 10. nóvember 2016, barst dóminum 21. júní s.á. með bréfi skiptastjóra við opinber skipti vegna fjárskipta á milli málsaðila.
Sóknaraðili, M, [...], krefst þess aðallega að nettó-söluandvirði fasteignarinnar að [...], fastanr. [...], komi til skipta á milli aðila þannig að 45% komi í hlut sóknaraðila en 55% í hlut varnaraðila. Til vara er krafist lægri hlutdeildar að mati dómsins. Til þrautavara er þess krafist að dómurinn ákveði að varnaraðila beri að endurgreiða sóknaraðila fjárhæð að álitum vegna þeirrar auðgunar sem fjárframlög sóknaraðila hafa skapað henni. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili, K, [...], Reykjavík, krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Til vara krefst varnaraðili þess, verði fallist á kröfur sóknaraðila að einhverju leyti um eignarhlutdeild í fasteigninni [...], að varnaraðila verði dæmd samsvarandi hlutdeild í eignum sóknaraðila, þ.e. bifreiðinni [...] og tjaldvagninum [...], að sóknaraðili greiði varnaraðila samsvarandi hlutfallslegan kostnað og hlutdeild í eignum, vegna sölulauna fasteignasala (763.197 kr.) við sölu fasteignarinnar [...], og að sóknaraðili greiði varnaraðila 417.624 kr. vegna uppgreiðslu varnaraðila á láni með veði í fellihýsinu [...], 28. október 2014. Krefst varnaraðili að varakröfur hans verði teknar til greina við fjárslitin og dragist þannig frá hugsanlegum kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila. Þá er þess krafist að tekið verði tillit til dráttarvaxta af kröfunum frá og með gjalddaga þeirra. Varnaraðili krefst enn fremur málskostnaðar úr hendi sóknaraðila og að kostnaður við skiptameðferð bús (svo) aðila verði greiddur að óskiptu af sóknaraðila.
II
Málavextir
Málsaðilar hófu sambúð um áramótin 1998/1999. Þegar sambúðin hófst átti varnaraðili fasteignina [...], sem hún hafði fest kaup á í júní 1998. Kaupverð fasteignarinnar var 9.000.000 kr. sem varnaraðili greiddi svo til að jöfnu með peningum/húsbréfum og yfirtöku skulda. Óumdeilt er að varnaraðili var eignalaus við upphaf sambúðarinnar að öðru leyti en að framan getur og liggja ekki fyrir upplýsingar um eignir og skuldir aðila á því tímamarki. Er sambúðinni lauk, um áramótin 2013/2014, var varnaraðili enn ein þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Varnaraðili seldi fasteignina í september 2014, á 29.700.000 kr. Áhvílandi lán á eigninni námu um 11.000.000 kr. skv. framlögðum kaupsamningi. Sóknaraðili var við sambúðarslitin skráður fyrir fellihýsi og bifreið sem hann hafði fest kaup á á lokaárum sambúðarinnar.
Sóknaraðili telur að hann hafi á sambúðartímanum, með fjárframlögum sem runnið hafi bæði til afborgana af fasteigninni og reksturs heimilis, öðlast hlutdeild í eignarmyndun í fasteigninni við [...]. Því mótmælir varnaraðili. Verður nánar gerð grein fyrir atriðum er snerta eigna- og skuldastöðu aðila á sambúðartíma í niðurstöðukafla dóms þessa.
Með úrskurði dómsins uppkveðnum 16. apríl 2016 var fallist á kröfu sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita milli málsaðila, sbr. 100. gr. laga nr. 20/1991, um opinber skipti á dánarbúum o.fl. Hinn 21. júní s.á. var ágreiningi um hlutdeild sóknaraðila í fasteigninni vísað til dómsins, sbr. 112. gr. sömu laga.
III
Málsástæður sóknaraðila
Aðalkrafa sóknaraðila, um að honum verið dæmdur 45% eignarhlutur í fasteigninni við [...]er á því byggð að nettó-söluandvirði fasteignarinnar sé sameign hans og varnaraðila, þ.e. söluandvirðið að frádregnum áhvílandi veðskuldum. Íbúðin hafi verið keypt árið 1998 og afhent varnaraðila skömmu áður en sambúð málsaðila hófst en sambúðin hafi staðið í um 15 ár. Fljótlega eftir sambúðarslitin hafi varnaraðili selt íbúðina sína og hafi hrein eign varnaraðila numið 18.658.707 kr. Á meðan á sambúðinni stóð hafi sóknaraðili með fjárframlögum, sem runnið hafi bæði til afborgana af fasteigninni og reksturs heimilis, öðlast hlutdeild í þeirri eignamyndun sem hafi orðið á sambúðartímanum. Sú eignamyndun nemi allt að 45% eignarhluta að mati sóknaraðila.
Sóknaraðili vísar til þess að þegar við upphaf sambúðar hafi orðið með honum og varnaraðila fjárhagsleg samstaða. Sóknaraðili hafi haft tekjur á sambúðartímanum og lagt sitt af mörkum fjárhagslega til samreksturs og gott betur. Þær tekjur hafi annars vegar runnið til greiðslu afborgana af lánum af íbúðinni og hins vegar til reksturs heimilis og framfærslu barna konunnar. Sóknaraðili hafi þannig frá upphafi sambúðar lagt að meðaltali 100.000 til 150.000 kr. mánaðarlega til afborgana af íbúð varnaraðila beint og/eða óbeint og í annan kostnað vegna reksturs heimilisins. Vísar sóknaraðili í þessu samhengi til yfirlits bankareiknings sem sýni að hann hafi, á tímabilinu frá 1. mars 2011 til 20. janúar 2014, lagt samtals 2.775.000 kr. inn á reikning varnaraðila. Þar að auki hafi hann greitt tryggingar sem fjölskyldan hafði, samtals 438.571 kr., á sama tímabili. Afborganir vegna bifreiðakaupa, að fjárhæð 1.041.604 kr., komi til viðbótar ofangreindum fjárhæðum en þær megi sjá á bankayfirliti. Þá hafi sóknaraðili, skv. viðskiptakvittunum Landsbankans, greitt í þágu varnaraðila nokkur hundruð þúsund á árunum 2005-2008. Enn fremur vísar sóknaraðili til þess að hann hafi greitt samtals 7.302.642 kr. vegna sameiginlegs VISA korts. Sé þar um að ræða kort með takmarkaða heimild sem aðilar hafi nýtt sér vegna reksturs heimilisins og vegna sameiginlegra nota í heimilishaldi þeirra, s.s. uppihalds, daglegs reksturs, framfærslu barna o.s.frv. Hafi sóknaraðili alfarið séð um mánaðarlegar afborganir visa-kortsins. Þá sýni veltukort sóknaraðila að um sameiginlega notkun hafi verið að ræða í þágu heimilisins, t.d. við matarinnkaup, bensínkostnað, lyfjakostnað, og önnur útgjöld vegna framfærslu aðila og barnanna tveggja sem búið hafi á heimili þeirra. Þá vísar sóknaraðili til þess að hann hafi leyst út séreignarsparnað sinn árið 2009 að fjárhæð 3.095.799 kr., sem hafi verið greiddur út næstu árin. Séreignarsparnaðurinn hafi þannig komið varnaraðila til góða, enda hafi andvirði hans til viðbótar tekjum sóknaraðila að mestu leyti runnið til sameiginlegra þarfa heimilisins, þ. á m. greiðslu áhvílandi lána á þessu tímabili með beinum og/eða óbeinum hætti.
Sóknaraðili kveðst ávallt hafa staðið í þeirri trú að ofangreindar greiðslur væru inntar af hendi með það í huga að um sameign væri að ræða, enda sambúðartíminn langur. Hann eigi því réttilegt tilkall til hlutdeildar í þeirri eignamyndun sem hafi orðið á sambúðartíma aðila. Sanngirnisrök og dómvenja mæli gegn því að leggja beri til grundvallar þinglýsta eignarheimild varnaraðila.
Varakröfu sína, um að honum verði dæmd hlutdeild í fasteigninni að mati dómsins, styður sóknaraðili þeim rökum að framangreint, ekki síst fjárhagsleg samstaða sem hafi verið með aðilum, lengd sambúðartíma og atvik að öðru leyti, réttlæti hlutdeild hans að einhverju leyti í eignarmynduninni. Þá vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili hefði ekki getað staðið við fjárhagsskuldbindingar sínar, og framfærslu fjölskyldu sinnar, án fjárframlaga sóknaraðila og stuðnings. Meðfylgjandi bankayfirlit varnaraðila áranna 2011-2013 sýna m.a. tekjur varnaraðila á sambúðartíma aðila, sem séu frá 170.000 til 250.000 kr. á mánuði. Þrautavarakröfu sína, um að varnaraðili verði dæmd til að greiða honum fjárhæð að álitum, byggir sóknaraðili á því að ljóst sé að varnaraðili hafi auðgast að sambúðinni lokinni vegna hinnar fjárhagslegu samstöðu og þeirra umtalsverðu fjármuna sem sóknaraðili hafi lagt af mörkum. Það geti ekki talist sanngjarnt og eðlilegt, enda hafi umræddar greiðslur ávallt verið inntar af hendi á þeirri forsendu að um áframhaldandi sambandi yrði að ræða á milli hans og varnaraðila.
Sóknaraðili mótmælir því að hann hafi sýnt af sér tómlæti í málinu. Engir frestir séu settir í lögum til að setja fram kröfu um opinber skipti til fjárslita. Þá hafnar hann því að aðilar hafi skipt með sér eignum við sambúðarslitin svo skuldbindandi sé gagnvart sóknaraðila, eða hafi gert með sér einhvers konar drög að fjárskiptasamningi.
Málsástæður varnaraðila
Af hálfu varnaraðila er því hafnað að söluandvirði fasteignarinnar að [...] sé á einhvern hátt sameign hennar og sóknaraðila. Varnaraðili hafi átt fasteignina við upphaf sambúðar aðila og verið þinglýstur eigandi hennar allan sambúðartímann. Sóknaraðili hafi engar eignir átt við upphaf sambúðarinnar og hafi engar eignir lagt til á sambúðartímanum. Þá hafi hann átt við verulegan skuldavanda að stríða, sem fylgt hafi honum á sambúðartíma aðila.
Varnaraðili hafnar því að sóknaraðili hafi með beinum og/eða óbeinum framlögum öðlast hlutdeild í meintri eignamyndun sem kunni að hafa orðið á sambúðartíma aðila. Eignamyndun í fasteigninni sé óveruleg og þá hafi engum framlögum af hálfu sóknaraðila til eignamyndunar verið til að dreifa. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram fé til kaupa á fasteigninni, ekki tekið lán til kaupanna, ekki greitt niður áhvílandi lán, ekki tekið yfir skuldir, eða á annan hátt stuðlaði að eignamyndun í fasteigninni. Þá hafi hann ekki lagt út í talsverðar framkvæmdir við húsnæðið. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á fjárframlög, vinnu eða önnur framlög til viðhalds á fasteigninni. Dómaframkvæmd sýni að gerðar séu strangar kröfur um bein framlög til eignamyndunar, svo hægt sé að viðurkenna hlutdeild í eignamyndun. Einnig séu gerðar kröfur um verulega fjárhagslega samstöðu aðila. Þannig taki hvor aðili það sem hann hafi lagt til sambúðarinnar og sé skráður eigandi að, nema sönnun takist um myndun sameignar. Þinglýsing, sem sé opinber tilgreining eignarréttar, veiti líkindi fyrir eignarrétti og beri sá sem haldi öðru fram alfarið sönnunarbyrði fyrir því að sameign hafi stofnast í sambúð.
Varnaraðili hafnar því að sóknaraðili hafi lagt fram fjármuni til greiðslu afborgana af lánum, til fasteignagjalda og annarra lögboðinna gjalda vegna fasteignarinnar. Staðhæfingu sóknaraðila um að hann hafi frá upphafi sambúðar lagt fram að meðaltali 100.000 til 150.000 kr. mánaðarlega til afborgana af íbúð varnaraðila sé alfarið hafnað. Engin gögn séu lögð fram því til stuðnings. Einu gögnin sem sóknaraðili kjósi að taka saman yfir greiðslur til varnaraðila séu frá tímabilinu 1. mars 2011 til 20. janúar 2014, að fjárhæð 2.775.000 kr., sem sé tæplega þriggja ára tímabil en það sé á engan hátt lýsandi fyrir sambúðartíma aðila. Hafi greiðslur fram að því iðulega verið mun lægri af hálfu sóknaraðila. Á þessu sama tímabili hafi millifærslur varnaraðila til sóknaraðila numið 866.000 kr., sbr. fyrirliggjandi bankayfirlit. Nettógreiðslur sóknaraðila til varnaraðila á umræddu tímabili hafi því numið tæpum 2.000.000 kr., eða tæpum 60.000 kr. að meðaltali á mánuði í 32 mánuð. Fjárframlög sóknaraðila hafi, í besta falli, runnið til sameiginlegrar framfærslu aðila. Tekjur hans hafi að stórum hluta farið í eyðslu á öldurhúsum og í leigubíla eins og sjá megi á framlögðum gögnum. Þá sé því hafnað að sóknaraðili hafi greitt tryggingar vegna fasteignarinnar. Þær tryggingagreiðslur sem sóknaraðili hafi greitt hafi runnið til greiðslu trygginga bifreiðar sem sóknaraðili hafi verið skráður umráðamaður að frá 2012 og/eða vegna fellihýsis sem hann hafi verið skráður eigandi að frá árinu 2011. Þá vísar varnaraðili til greiðslukortayfirlits frá viðskiptabanka hennar vegna áranna 2011-2013, sem sýni m.a. greiðslu orkugjalda, síma, sjónvarps- og netáskriftar og fyrir almenna neyslu, matvörukaup o.fl. Þannig hafi engin fjárhagsleg samstaða verið með aðilum, þar sem varnaraðili hafi áfram séð um greiðslur vegna fasteignarinnar, eins og hún hafi gert frá upphafi kaupa á eigninni, en neysla hafi að einhverju leyti verið sameiginleg.
Varnaraðili byggir á því, komi til þess að það verði hugsanlega litið svo á að einhver eignamyndun hafi átt sér stað á sambúðartíma aðila, að þá hafi aðilar skipt með sér þeim eignum við sambúðarslit. Aðilar hafi verið búnir að gera drög að fjárskiptasamningi sem sé að öllu leyti í samræmi við það sem aðilar hafi í raun gert við sambúðarslit, þ.e. varnaraðili hafi tekið fasteign og skuldir tilheyrandi fasteigninni og greitt upp lán sóknaraðila vegna fellihýsis, en sóknaraðili hafi tekið bifreið, fellihýsi, bílalán og lausaskuldir.
Varnaraðili hafnar því að sú hugsanlega jákvæða eignarstaða sem hafi myndast í umræddri fasteign á sambúðartíma, eða að lokinni sambúð, og kom fram í hækkun söluverðs fasteignarinnar úr 9.000.000 kr. við kaup á árinu 1998 í 29.700.000 kr. við sölu á árinu 2014, hafi orðið til fyrir tilverknað sóknaraðila á einhvern hátt, umfram verðbólgu, hækkun áhvílandi lána og almenna hækkun á fasteignaverði. Á sambúðartíma aðila hafi áhvílandi veðlán einnig hækkað, eða úr 4.500.000 kr. í 10.500.000 kr. Nettóeign varnaraðila við kaup á fasteigninni hafi numið um 50% í eigninni. Nettóeign við sölu hafi numið um 60% í eigninni. Því megi segja að eignarstaða varnaraðila í fasteigninni hafi aukist einungis úr 50% eignarhlutfalli í 60% eignarhlutfall á sambúðartíma aðila.
Hvað varðar úttekt sóknaraðila á séreignarsparnaði, þá vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að sú úttekt hafi á einhvern hátt runnið til eignarmyndunar í fasteigninni. Varnaraðili hafi sömuleiðis tekið út séreignarsparnað á sama tímabili, að nettófjárhæð 1.079.540 kr. Nettóúttekt sóknaraðila hafi numið 1.882.993 kr.
Varnaraðili telur að um verulegt tómlæti sóknaraðila sé að ræða, allt frá upphafi sambúðar aðila. Sóknaraðili hafi ekkert gert til að tryggja sér eignarhlut í fasteign varnaraðila. Sambúð aðila hafi lokið um áramótin 2013/2014. Hafi sóknaraðili ekki gert neinar athugasemdir við sambúðarslitin eða síðar þegar varnaraðili hafi selt fasteignina í september 2014.
Það hafi fyrst verið í desember 2014 sem sóknaraðili hafi hreyft mótmælum, eða um ári eftir að sambúð aðila hafi lokið. Þá hafi liðið aftur eitt ár þangað til sóknaraðili hafi hafist handa við að fara fram á opinber skipti.
Varnaraðili hafnar sömuleiðis varakröfu sóknaraðila um lægri hlutdeild í söluandvirði fasteignarinnar [...], að mati dómsins, með vísan til fyrri rökstuðnings um höfnun aðalkröfu sóknaraðila.
Hvað varðar þrautavarakröfu sóknaraðila um endurgreiðslu fjárhæðar að álitum vegna þeirrar auðgunar sem fjárframlög hans leiddu tilþá vísar sóknaraðili til þess að krafan eigi ekki við rök að styðjast. Engin auðgun hafi átt sér stað, sbr. ofangreint um að eignarstaða varnaraðila hafi einungis batnað úr 50% eign í 60% eignarhlutfall. Þá sé um fjárkröfu sóknaraðila að ræða, sem heyri ekki undir skiptin, sbr. XVII. kafla laga nr. 20/1991, sbr. og til hliðsjónar t.d. H. 195/2016.
Varakröfu sína um samsvarandi hlutdeild í eignum sóknaraðila, þ.e. í bifreið og tjaldvagni, byggir varnaraðili á að með öllu sé óeðlilegt að sóknaraðili geti öðlast hlutdeild í eignum varnaraðila en haldi að fullu þeim eignum sem skráðar eru á hann.
Um varakröfu, þess efnis að sóknaraðili greiði varnaraðila samsvarandi hlutfallslegan kostnað og hlutdeild í eignum, vegna sölulauna fasteignasala, er vísað til þess að ef sóknaraðili á hlutdeild í fasteigninni beri honum að sjálfsögðu að greiða þann kostnað sem fylgi slíkri eignarhlutdeild, þ.m.t. sölulaun.
Um varakröfu, þess efnis að sóknaraðili greiði varnaraðila 417.624 kr. vegna uppgreiðslu varnaraðila á láni vegna kaupa fellihýsi, þá vísar varnaraðili til þess að lánið hafi verið áhvílandi á fasteign hennar og hafi hún greitt það upp þar sem hún hafi staðið í þeirri trú að aðilar hefðu skipt með sér eignum við samvistaslit og í því uppgjöri hefði falist að varnaraðili ætti að greiða upp lánið á fellihýsinu.
Varnaraðili krefst þess að framangreindar varakröfur hennar verði teknar til greina við fjárslitin og dragist þannig frá hugsanlegum kröfum sóknaraðila á hendur henni. Þá er þess krafist að tekið verði tillit til dráttarvaxta af kröfunum frá og með gjalddaga þeirra.
IV
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila og varnaraðila, vegna loka óvígðrar sambúðar þeirra. Við lok óvígðrar sambúðar ber við fjárslit að líta á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og gildir þá sú meginregla að hvor aðili taki þær eignir sem hann átti við upphaf sambúðar eða eignaðist meðan á sambúðinni stóð. Eftir almennum reglum fjármunaréttar gildir sú meginregla við fjárslit að þinglýst eignarheimild yfir fasteign veitir líkindi fyrir eignarrétti. Leiðir af þeirri reglu að sá sem heldur því fram að í slíkri skráningu felist ekki réttar upplýsingar um eignarrétt ber sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Í samræmi við það ber sóknaraðila sönnun fyrir staðhæfingum sínum í máli þessu.
Eins og rakið hefur verið voru málsaðilar í sambúð í 15 ár, eða frá áramótum 1998/1999 til áramóta 2013/2014. Sóknaraðili skráði lögheimili sitt á sama stað og varnaraðili, þ.e. að [...], 9. mars 1999 en þau voru aldrei skráð í sambúð. Bjuggu þau að [...]alla sína sambúð. Er samband þeirra hófst, í júlí 1998, hafði varnaraðili nýverið fest kaup á íbúð í fjölbýlishúsi á nefndum stað og bjuggu þau í henni allan sambúðartímann. Kaupverð íbúðarinnar, 9.000.000 kr., greiddi varnaraðili með peningum/húsbréfum og yfirtöku lána, svo til að jöfnu. Óumdeilt er að sóknaraðili kom ekki að kaupum á íbúðinni á neinn hátt en þá höfðu aðilar ekki hafið samband sitt. Ekki verður annað ráðið en að íbúðin hafi verið eina eign málsaðila við upphaf sambúðarinnar, en engin önnur gögn en kaupsamningur um hana hafa verið lögð fram um eigna- og skuldastöðu aðila við upphaf sambúðarinnar. Þannig er í málinu einungis að finna skattframtöl aðila vegna tekjuáranna 2011-2014 hvað varðar sóknaraðila en vegna tekjuáranna 2009-2013 hvað varðar varnaraðila. Aðilar töldu aldrei saman til skatts, enda ekki skráð í sambúð, þótt þau ættu sama lögheimili eins og áður er getið. Í framburði þeirra fyrir dóminum kom fram að þau ræddu aldrei hvort sóknaraðili ætti, ef upp úr sambúðinni slitnaði, rétt til eignarhluta í fasteign varnaraðila. Þá virðist ekki hafa komið til tals að sóknaraðili greiddi leigu fyrir veru sína í fasteigninni eða hvernig skipta skyldi reikningum vegna heimilishalds. Þó er óumdeilt að sóknaraðili sá um að greiða reikninga í heimabanka varnaraðila. Sóknaraðili kveðst hafa staðið í þeirri trú að hann ætti til hlutdeildar í eignarmyndun í fasteigninni á grundvelli fjárframlaga sem hann telur sig hafa lagt fram á sambúðartímanum
Málsaðilar eignuðust ekki saman börn en sambúð þeirra hófst þegar þau voru á fertugsaldri. Tvö börn varnaraðila munu þá hafa verið á heimilinu, átta og sautján ára gömul. Sóknaraðili átti barn, fætt 1984, sem ekki var í hans forsjá, og greiddi með því meðlag. Af framburði aðila mátti ráða að eldra barn varnaraðila hafi flutt að heiman fljótlega eftir að sambúð þeirra hófst þannig að mestan sambúðartímann var einungis yngsta barn varnaraðila á heimilinu. Liggur ekki fyrir að annar málsaðila hafi tekið sér ólaunað leyfi frá störfum til að sinna heimilinu vegna barnauppeldis. Þvert á móti voru þau bæði í fullu starfi og höfðu svipaðar tekjur en þau störfuðu bæði sem strætisvagnabílstjórar. Þau hófu að taka út séreignarsparnað sinn árið 2009 eins og þeim var tímabundið heimilt á grundvelli laga þar um. Greiðslur til sóknaraðila, að frádregnum sköttum, námu samtals 1.882.993 kr. en til varnaraðila 1.079.540 kr. Af framlögðum gögnum er ekki er unnt að rekja í hvað greiðslum þessum var ráðstafað.
Á sambúðartímanum mun varnaraðili hafa eignast bifreiðar en engin gögn liggja fyrir um það. Árið 2011 var keypt fellihýsi sem var skráð á nafn sóknaraðila. Samkvæmt framburði sóknaraðila, sem ekki hefur verið mótmælt af hálfu varnaraðila, mun kaupverðið, 2.350.000 kr., m.a. hafa verið greitt með einni milljón króna í peningum sem sóknaraðili fékk að gjöf frá fósturföður sínum og skuldabréfi að fjárhæð 1.100.000 krónur með veði í fasteign varnaraðila og peningum vegna sölu á tjaldvagni sem skráður var á varnaraðila. Sóknaraðili kveðst hafa selt fellihýsið eftir sambúðarslitin á 1.700.000 kr. Árið 2012 var keypt bifreið, sem sóknaraðili var skráður umráðamaður fyrir, og greidd var með bílaláni á nafni sóknaraðila. Bifreið sem varnaraðili átti mun, á sama tíma, hafa verið seld á 750.000 kr. Bifreiðina, sem keypt var 2011, á sóknaraðili enn þá en hann kveður hana verðlitla.
Varnaraðili var við sambúðarslitin skráð sem þinglýstur eigandi framangreindrar fasteignar við [...]. Íbúðin mun hafa verið svo til ný er varnaraðli festi kaup á henni 1998. Litlar endurbætur munu hafa verið gerðar á henni á sambúðartímanum en aðilar eru sammála um að sóknaraðili hafi flísalagt svalir íbúðarinnar og dyttað að því sem þurfti að laga. Verður því ekki séð að vinna sóknaraðila við viðhald eða endurbætur á fasteigninni hafi skapað honum rétt til eignarhlutdeildar í henni.
Óumdeilt er að varnaraðili greiddi afborganir af áhvílandi lánum á íbúðinni og gjöld henni tengd á sambúðartímanum. Varnaraðili seldi íbúðina í september 2014 á 29.700.000 kr. Samkvæmt fyrirliggjandi kaupsamningi var hún greidd með peningum. Áhvílandi veðlán, samtals að fjárhæð 11.041.293 kr., flutti varnaraðili yfir á aðra fasteign sem hún festi kaup á á 26.500.000 kr. í október 2014.
Af hálfu sóknaraðila hafa, eins og áður sagði, takmörkuð gögn verið lögð fram til stuðnings kröfum hans. Einungis eru lögð fram skattframtöl hans er varða síðustu fjögur sambúðarárin. Þannig er ekki unnt að sjá hvað hann kann að hafa lagt til sambúðarinnar fyrstu 11 ár hennar eða hver skuldastaða hans var á þeim tíma, en það stendur honum nær en varnaraðila að sanna þessi atriði. Í framburði varnaraðila kom fram að sóknaraðili hafi tjáð henni að hann hefði verið gjaldþrota áður en þau kynntust og mætti því ekki eiga neitt. Sóknaraðili kvaðst hins vegar um tíma hafa haldið að hann hafi verið gerður gjaldþrota en síðar komist að því að svo var ekki.
Af gögnum má ráða að aðilar voru ekki með sameiginlega bankareikninga eða kreditkort, eins og fullyrt er í málatilbúnaði sóknaraðila, heldur voru þau með bankaviðskipti sín hvort í sínum bankanum, þ.e. sóknaraðili hjá [...] en varnaraðili hjá [...]. Virðist sóknaraðili hafa að mestu notað bankareikninga sína fyrir dagleg útgjöld öfugt við varnaraðila sem notaði að mestu kreditkort sitt. Sóknaraðili hefur lagt fram yfirlit yfir þrjá bankareikninga sína í [...], þ.e. tékkareikning, sem nær yfir tímabilið 21. september 2009 til 22. febrúar 2016, vaxtareikning, sem nær yfir tímabilið 9. júní 2010 til 31. desember 2012, og einkareikning, sem nær yfir tímabilið 4. janúar 2005 til 26. júní 2014. Fáar hreyfingar er að finna á síðastgreinda reikningnum eftir haustið 2009 en þá virðist sem sóknaraðili hafi notað tékkareikninginn í staðinn, þ.e. laun voru greidd inn á hann og gjaldfært af honum vegna kreditkorts o.fl. Þá hefur sóknaraðili lagt fram yfirlit yfir mánaðarlega notkun kreditkorts hjá sama banka sem spanna frá júní 2010 til maí 2012 en tekið skal fram að yfirlit vantar vegna margra mánaða. Varnaraðili hefur lagt fram yfirlit yfir tékkareikning sinn hjá [...] tímabilið október 2011 til ársloka 2013. Þá hefur hún lagt fram yfirlit yfir greiðslukort sitt hjá sama banka vegna áranna 2011-2013.
Út frá framangreindum bankagögnum verður ekki komist að fullnægjandi niðurstöðu um það hvort sóknaraðili hafi lagt meira af mörkum til reksturs heimilisins en varnaraðili. Um þúsundir færslna er að ræða og hafa takmarkaðar tilraunir verið gerðar af hálfu aðila til að vinna frekari upplýsingar úr þeim, málstað sínum til staðfestu, þannig að dóminum sé fært að leggja þær til grundvallar niðurstöðu í málinu. Þá hefur sóknaraðili, með sömu takmörkuðu gögnum, ekki lagt nægilegan grunn að þeirri staðhæfingu sinni að varnaraðili hefði ekki getað staðið ein undir afborgunum af íbúðinni en ljóst má vera að lánveitandinn, [...], taldi hana geta það enda hefur hún þurft að standast greiðslumat bankans til að fá lánið. Enn fremur er óumdeilt að varnaraðili hafi, a.m.k. fyrstu tíu ár sambúðarinnar, til viðbótar launatekjum, fengið meðlög og barnabætur. Að mati dómsins hefur sóknaraðila ekki tekist að færa nægar stoðir undir þá staðhæfingu sína að hann hafi, á 15 ára sambúðartíma málsaðila, að meðaltali lagt 100-150 þúsund krónur til afborgana af lánum af títtnefndri fasteign varnaraðila eða til rekstur heimilis og framfærslu barna hennar. Verður því að hafna aðalkröfu hans um 45% hlutdeild í nettó-söluandvirði fasteignarinnar.
Hvað varðar varakröfu sóknaraðila, um að dómurinn dæmi honum lægri hlutdeild í nettó-söluandvirði fasteignarinnar, þá er til þess að líta að sóknaraðili hefur, eins og áður var rakið, einungis lagt fram gögn er varða síðustu ár sambúðar málsaðila. Af þessum takmörkuðu gögnum getur dómurinn með engu móti metið hvað kunni að vera sanngjörn hlutdeild sóknaraðila í umræddu söluandvirði. Verður því að hafna varakröfu hans.
Hvað varðar þrautavarakröfu sóknaraðila, um að varnaraðila verði gert að greiða honum fjárhæð að álitum vegna þeirrar auðgunar sem framlög sóknaraðila hafi skapað henni, þá er til þess að líta að við opinber skipti, sem fara eftir ákvæðum XIV. kafla laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., verður ekki höfð uppi krafa um skyldu annars aðilans til að inna af hendi greiðslu til hins nema þannig standi á, sem um ræðir í 2. mgr. 124. gr. sömu laga. Svo er ekki hér og verður, þegar af þessari ástæðu, því að vísa þessari kröfu sóknaraðila af sjálfsdáðum frá dómi.
Ekki eru efni til að fallast á kröfu varnaraðila þess efnis að dómurinn kveði á um að kostnaður vegna fjárslita milli málsaðila verði greiddur af sóknaraðila. Fyrir liggur að sá sem krafist hefur opinberra skipta ber að greiða kostnað sem til fellur vegna skiptanna, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 20/1991. Þá liggur ekkert fyrir um hver sá kostnaður kann að verða.
Með vísan til þessara málsúrslita og með hliðsjón af málatilbúnaði sóknaraðila, er óhjákvæmilegt að gera honum að greiða varnaraðila málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er aðal- og varakröfum sóknaraðila, um hlutdeild í nettó-söluandvirði fasteignarinnar að [...].
Þrautavarakröfu sóknaraðila, um endurgreiðslu vegna auðgunar, er vísað frá dómi.
Sóknaraðili, greiði varnaraðila, K, 600.000 krónur í málskostnað.