Hæstiréttur íslands

Mál nr. 660/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


Fimmtudaginn 20

Fimmtudaginn 20. desember 2007.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

Nr. 660/2007.

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Guðbjarni Eggertsson hdl.)

 

Kærumál. Nálgunarbann.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að X sætti nálgunarbanni gagnvart A og heimili hennar samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. desember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta nálgunarbanni í þrjá mánuði, þannig að lagt var bann við því að hann kæmi á eða í námunda við heimili A, [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Jafnframt var varnaraðila bannað að veita A eftirför, nálgast hana á almannafæri, hringja í heima-, vinnu- og farsíma hennar eða setja sig á annan hátt í beint samband við hana. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Skilja verður kröfu sóknaraðila svo að hann krefjist staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í 110. gr. a. laga nr. 19/1991 er heimilað að beita nálgunarbanni ef rökstudd ástæða er til að ætla að viðkomandi maður muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess sem í hlut á. Fallist verður á með sóknaraðila að þessi skilyrði séu uppfyllt í málinu og verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um sakarkostnað verður staðfest.

Með vísan til 3. mgr. 110. gr. c. laga nr. 19/1991 verður varnaraðili dæmdur til að greiða allan kostnað af kærumáli þessu þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns  sem nánar verður tilgreind að meðtöldum virðisaukaskatti í dómsorði.

Dómsorð:

       Varnaraðila, X, er til 17. mars 2008 bannað að koma á eða í námunda við heimili A að [...] í Hafnarfirði á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Jafnframt er honum bannað að veita henni eftirför, heimsækja hana eða setja sig með öðru móti í samband við hana, til dæmis með símhringingum í heima-, vinnu- eða farsíma hennar.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um sakarkostnað er staðfest.

Varnaraðili greiði allan kostnað af kærumáli þessu þar með talda þóknun verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hdl., 74.700 krónur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. desember 2007.

Í máli þessu, sem tekið var til úrskurðar fyrr í dag, krefst lögreglustjórinn á höfuðborgarvæðinu þess, að varnaraðila, X, kt. [...], [heimilisfang], Seltjarnarnesi, verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], [heimilisfang] í Hafnarfirði, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis Y, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er þess krafist að lagt verði bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- og farsíma hennar eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.

 

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að synjað verði um framgang kröfunnar. Hann telur hana tilhæfulausa og þá muni nálgunarbann hindra hann í að njóta umgengnisréttar við börn sín sem búi á heimili fyrrverandi konu hans.

 

I.

Í greinargerð sóknaraðila er því lýst að varnaraðili og fyrrverandi kona hans, A, hafi verið í sambúð en sambúðinni hafi lokið fyrir þremur árum. Þau eigi saman tvö börn, 10 og 5 ára, sem búa hjá konunni að Y í Hafnarfirði. Kemur fram að tvisvar á þessu ári hafi konan kært varnaraðila fyrir líkamsárás og nú síðast einnig fyrir líkamsárás á hendur dóttur þeirra. Þá liggi fyrir allnokkrar tilkynningar vegna ónæðis af hálfu varnaraðila, tilkynnt hafi verið um eignaspjöll og hótanir, sbr. eftirfarandi tilvik sem tilgreind eru í beiðni lögregustjóra og svo lýst:

 

007-2007-89833

Fimmtudaginn 22. nóvember barst lögreglu tilkynning um að fara að Y vegna heimilisófriðs. Óskað var eftir því að farið væri á staðinn á forgangi þar sem nokkrar tilkynningar hefðu borist um þetta og að um viðvarandi vandamál væri að ræða. Á vettvangi tók B, bróðir A, á móti lögreglu og sagði þeim að X hefði komið en væri farinn. Inni í íbúðinni tók A á móti lögreglumönnum og er hún í skýrslu lögreglu sögð í miklu uppnámi sem og þrjú börn sem voru á staðnum. Þann 27. nóvember kom A á lögreglustöð og lagði fram kæru vegna líkamsárásar sem hún og dóttir hennar, fædd árið 1997, urðu fyrir af hálfu X í umrætt sinn. Hún sagði þannig frá að hún hefði verið ein með börnum sínum og vinkonu þeirra þegar að X hafi bankað á hurðina og því næst ætt inn. Hann hafi farið að spyrja hana að því hvort hún væri enn að ásaka hann um að vera í neyslu og hún hafi svarað því játandi. Þá hafi hann sagt við ungan son þeirra að hann ætti að segja í leikskólanum að mamma þeirra væri sprautufíkill. A lýsir því svo að hún hafi fengið nóg og rifið í hann og sagt honum að fara út. Þá hafi hann ýtt henni frá og A þá slegið hann með flötum lófa í hnakkann. Við það hafi X tryllst og kýlt A í vinstra læri. Dóttir þeirra, 10 ára gömul, hafi þá öskrað á föður sinn að láta móðurina í friði. X hafi þá tekið um höfuð barnsins, með því að taka um vit hennar og hnakka og lyft henni frá gólfinu og sveiflað henni frá. A hafi þá náð í síma til að hringja eftir aðstoð en kærði þá rifið af henni símann með því að  snúa upp á hægri úlnlið hennar og hent símanum í gólfið. Hún hafi svo náð í gsm- síma og náð að hringja í bróður sinn. Nágrannar hafi svo hringt í lögregluna. Kærði hafi verið farinn af vettvangi þegar að lögregla kom á staðinn. Í frumskýrslu lögreglu er þess getið að lögregla hafi náð tali af kærða á heimili foreldra hans á [heimilisfang] á Seltjarnarnesi en þar hafi systir kærða einnig verið og sagst halda að kærði væri undir áhrifum einhverra efna eða lyfja.

 

007-2007-22146

Kærandi kom á lögreglustöð þann 2. apríl 2007 og lagði fram kæru fyrir líkamsárás af hálfu X þann 29. mars. Hún sagði sambandi þeirra hafa lokið fyrir um þremur árum en kærði hafi stöðugt haft samband við sig meðan að hann var í afplánun en eftir að hann losnaði úr fangelsi hafi farið að bera á ofsóknum. Kærandi lýsti því að kærði hafi komist inn á heimili hennar eftir að börnin hleyptu honum inn og þá reiður vegna þess að hún svaraði ekki símtölum hennar. Hann hafi veist að henni, m.a. sparkað í vinstri sköflung hennar, gripið um úlnlið hægri handar hennar og þumal og snúið upp á og þrykkt henni að eldhúsinnréttingu. Við kærugerð er A sögð í gifsi á hægri hendi og fram kemur að hún hafi farið á slysadeild LSH.

 

Að auki liggja fyrir dagbókarfærslur lögreglu vegna kærða sbr. eftirfarandi:

 

007-2007-2933

Þann 1. apríl óskaði A eftir aðstoð lögreglu vegna þess að X væri að ónáða hana. Í dagbókarfærslu lögreglu kemur fram að á meðan að lögreglumenn hafi verið á staðnum hafi síminn stöðugt hringt og hún einnig stöðugt fengið sms- skilaboð í gsm símann sinn frá X.

 

007-2007-23194

Þann 2. apríl hafði A samband og sagði að X væri að berja á dyr og glugga hjá henni. Þegar lögregla kom á staðin var X farinn en var þá að ónáða hana með símhringingum og sms- skilaboðum.

 

007-2007-27534

Þann 19. apríl 2007 hringdi A og tilkynnti um ofsóknir af hálfu X sem hún sagði vera fyrir utan heimili sitt og væri að reyna að komast inn í íbúðina. Lögregla ræddi við A sem sagðist vera orðin verulega hrædd við X því hann hefði ítrekað lagt á hana hendur og haft í hótunum við hana.

 

007-2007-28063

Þann 21. apríl hringdi A og sagði X vera fyrir utan hjá henni, berjandi á dyr og glugga. Hann hafi látið sig hverfa þegar hann sá hana hringja.

 

007-2007-28565

Þann 23. apríl hringdi A og sagði X enn einu sinni vera kominn og að hann væri að banka á glugga hjá henni. Að hennar sögn hafði hann m.a. hent bók og myndaramma inn um opnanlegt fag fyrir ofan eldhúsglugga í íbúðinni.

 

007-2007-29149

Þann 25. apríl hringdi A og tilkynnti að X hefði komið á heimili hennar og verið með hótanir og læti en að svo búnu farið í burtu.

 

007-2007-31035

Þann 3. maí 2007 hringdi A og tilkynnti um skemmdir unnar á bifreið hennar. Lögregla fór á staðinn og hitti fyrir A við heimili hennar að Y og mátti sjá að hemlavökva hafði verið hellt yfir bifreið hennar.

 

007-2007-32364

Enn á ný hringdi A og óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna hótana frá X sem hún sagði staddan fyrir utan íbúð hennar. Hann var farinn þegar að lögregla kom á vettvang en lögreglumenn stöðvuðu bifreið hans á Bústaðavegi og kvaðst X þá hafa farið til A en hún ekki viljað hleypa honum inn. Hann kannaðist ekki við hótanir í hennar garð.“

 

Lögreglustjóri telur, með hliðsjón af rannsóknargögnum framangreindra mála, að varnaraðili hafi raskað mjög friði A og valdið henni miklum ótta og ónæði. Um langvarandi og þrúgandi ástand hafi verið að ræða. Með hliðsjón af framangreindum atvikum verði ekki ráðið að líklegt sé eða sennilegt að varnaraðili láti af hegðun sinni ef ekkert verði að gert. A hafi verulega hagsmuni af því að fá frið fyrir varnaraðila en rökstudd ástæða sé til að ætla að hann muni fremja afbrot gegn konunni eða raska friði hennar á annan hátt. 

 

Kröfunni til stuðnings vísar sóknaraðili til framlagðra gagna og 110. gr. a, laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000.

 

II.

Við mat á því hvort uppfyllt séu skilyrði 110. gr. a, laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, verður að líta til fyrri hegðunar þess sem krafa beinist gegn og samskipta hans við þann sem vernda á með banninu. Hér koma til álita ýmis atriði sem geta veitt rökstudda vísbendingu um það sem koma skal eða kann að vera í vændum. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 94/2000, sem fela í sér breytingu á lögum nr. 19/1991, segir að þær athafnir sem séu tilefni nálgunarbanns, þurfi í sjálfu sér ekki að vera refsiverðar og að nálgunarbann verði lagt á þótt einungis megi gera ráð fyrir ónæði af hálfu þess sem bannið beinist að. Í ljósi áðurgreindrar atvikalýsingar, gagna málsins og röksemda sóknaraðila telur dómari að fram sé komin rökstudd ástæða til að ætla að varnaraðili muni áfram raska friði fyrrverandi konu sinnar, A, og að hvorki sé líklegt né sennilegt að varnaraðili láti af hegðun sinni ef ekkert verður að gert. Ekki verður á því byggt í máli um nálgunarbann að bannið muni hugsanlega raska umgengnisrétti barna við þann aðila sem banninu á að sæta. Er því fullnægt skilyrðum 110. gr. a, laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, fyrir því að verða megi við kröfu lögreglustjóra. Með vísan til framangreinds ber að fallast á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu en hæfilegt þykir að það gildi í 3 mánuði frá uppkvaðningu þessa úrskurðar.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, X, kt. [...], [heimilisfang], Seltjarnarnesi, skal sæta nálgunarbanni í 3 mánuði, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að Y í Hafnarfirði, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis Y, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er X bannað að veita A eftirför, nálgast hana á almannafæri, hringja í heima-, vinnu- og farsíma hennar eða setja sig á annan hátt í beint samband við hana.

Varnaraðili greiði þóknun verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hdl., 39.840 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.