Hæstiréttur íslands

Mál nr. 236/2016

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra (Eyþór Þorbergsson fulltrúi)
gegn
X (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Rannsókn

Reifun

Kærumál. Rannsókn. Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um heimild til að hefja myndbandsvöktun á grundvelli b. liðar 1. mgr. 82. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. mars 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. mars 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um heimild til að hefja myndbandsvöktun á [...] á [...] og halda henni áfram til 20. apríl 2016. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina.

Varnaraðili hefur ekki átt þess kost á að láta málið til sín taka, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008.

Í kæru sóknaraðila segir að lögregla sé að „hefja rannsókn á fíkniefnamisferli sakbornings sem á þessu stigi er ekki á nokkurn hátt hægt að átta sig á hvað er yfirgripsmikil, enda frumrannsókn ný hafin.“ Að þessu gættu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að ekki hafi verið sýnt fram á að fyrir hendi séu skilyrði samkvæmt 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 til þess að verða við kröfu sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. mars 2016.

Mál þetta barst dómnum fyrr í dag og var tekið til úrskurðar samdægurs.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra krefst þess að lögreglu verði heimilað ,,að hefja myndbandavöktun á [...] á [...] í þeim tilgangi að afla upplýsinga um mannaferðir þar.  Óskað er eftir heimild til að fylgjast með húsinu með myndbandsvöktun í fjórar vikur frá og með deginum í dag og til 20. apríl nk.“

Um lagaheimild er vísað til b liðar 1.mgr. 82. gr. sakamálalaga nr. 88, 2008. 

Í greinargerð með kröfunni kemur fram að lögreglu hafi borist upplýsingar frá aðila sem hún metur mjög áreiðanlegar um að sakborningur, X, kt. [...], hafi fest kaup á húsnæðinu að [...] á [...] fyrir nokkrum vikum.  Bent er á að samkvæmt nefndum aðila hafi eftir kaupin gluggar verið byrgðir en ennfremur hafi hann séð að „einhverjum blómapottum og plöntum“ hefði verið komið fyrir í húsnæðinu“. 

Í greinargerðinni er vísað til þess að nefndur sakborningur eigi lögheimili á [...], en hafi verið búsettur í [...] til margra ára.  Staðhæft er að sakborningur sé mjög þekktur hjá lögreglu vegna fíkniefnabrota en að auki hafi hann verið grunaður um ræktun á kannabisefnum auk annarskonar fíkniefnamisferlis.  Í þessu sambandi er staðhæft að á árinu [...] hafi verið stöðvaðar fjórar kannabisræktanir í íbúðarhúsnæði á [...] og ennfremur hafi á árinu [...] verið stöðvuð stór kannabisræktun á [...].  Staðhæft er að í öllum þessum málum hafi sakborningur að minnsta kosti verið einn af þeim grunuðu.  Þá hafi tollgæslan einnig stöðvað bréfasendingar til sakbornings, og er staðhæft að í þeim sendingum hafi verið „ætluð kannabisfræ“. 

Í greinargerðinni segir að lögreglan telji mjög mikilvægt, vegna rannsóknar málsins, að setja upp myndbandsvöktun á [...] á [...] og afla með þeim hætti gagna um mannaferðir.  Er til þess vísað að með þessum hætti muni lögregla væntanlega fá upplýsingar um þá aðila er standi að hinni ætluðu ræktun hér norðan heiða, en áréttað er að lögreglan telji að sakborningur dvelji á höfuðborgarsvæðinu. 

Í greinargerðinni er áréttað að tilgangurinn með lýstri rannsóknaraðferð sé að afla sönnunargagna um ætluð brot og stöðva hina ætluðu brotastarfsemi, en staðhæft er að miðað við aðstæður sé um að ræða hina einu aðferð sem lögreglan geti beitt til að fylgjast með umræddu húsnæði án þess að upp komist í svo litlu bæjarfélagi sem [...] er. 

Lögreglustjóri vísar til þess að verið sé að rannsaka brot á 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 64, 1974 og eftir atvikum 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Niðurstaða.

Í 1. mgr. 82. gr. sakamálalaga nr. 88, 2008 segir að með þeim skilyrðum sem greind eru í 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. sé heimilt í þágu rannsóknar, sbr. b lið, að taka myndir af fólki, hvort sem er ljósmyndir eða kvikmyndir án þess að þeir sem í hlut eiga viti af því. Í 1. mgr. 83. gr. laganna segir að skilyrði fyrir aðgerðum skv. 80.-82. gr. sé að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þeim hætti.  Þá segir í 2. mgr. 83. gr. laganna að auk þess sem segi í 1. mgr. verði þau skilyrði að vera fyrir hendi, svo að gripið verði til aðgerða skv. 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum 8 ára fangelsi ellegar að ríkir almannahagsmunir, eða einkahagsmunir krefjist þess. 

Það er þannig skilyrði þess að slíkar rannsóknaraðgerðir verði heimilaðar sem krafist er að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum 8 ára fangelsi ellegar að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess. 

Af greinargerð lögreglustjóra og rannsóknargögnum verður ráðið að lögregla hafi grunsemdir um að svokölluð kannabisræktun sé stunduð í fyrrnefndu húsnæði á [...] og að ekki sé unnt að afla upplýsinga með öðrum hætti en krafist sé. 

Rannsóknarúrræði 82. gr. laga nr. 88, 2008 fela að mati dómsins í sér verulega skerðingu á grundvallarrétti einstaklings til friðhelgi einkalífs.  Af þeim sökum er heimildum til að beita greindum rannsóknarúrræðum settar þröngar skorður með tilliti til friðhelgi einkalífs manna, sbr. og 71. gr. stjórnarskrárinnar. 

Samkvæmt 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88, 2008, er eins og að framan var rakið, auk þeirra skilyrða sem fram koma í 1. mgr. lagagreinarinnar, sett það skilyrði að rannsókn þurfi að beinast að broti þar sem refsiramminn er allt að 8 ára fangelsi en til slíkra brota teljast meðal annars meiriháttar fíkniefnabrot, sbr. 173. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, þar sem refsiramminn er allt að 12 árum.  Refsirammi laga nr. 65, 1974 sem lögreglustjórinn vísar m.a. til í kröfu sinni er sex ár. 

Að virtum framlögðum gögnum þykir ekki unnt að fallast á með lögreglustjóra að sýnt sé fram á ætlað brot sakbornings, sem til rannsóknar eru, varði við fyrrnefnda 173. gr. hegningarlaganna.  Þá er að mati dómsins ekki nægjanlega rökstutt af hálfu lögreglustjóra að mikilvægir almannahagsmunir séu fyrir hendi, eins og hér á stendur.

Með vísan til ofangreinds, sbr. og til hliðsjónar m.a. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 101/2014, er að mati dómsins ekki skilyrði fyrir hendi til að verða við kröfu lögreglustjóra og er henni hafnað.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Framangreindri kröfu Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra er hafnað.