Hæstiréttur íslands

Mál nr. 1/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Aðfinnslur


Þriðjudaginn 3. janúar 2012.

Nr. 1/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. a. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Aðfinnslur.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði var staðfestur. Fundið var að því að rúmur sólarhringur hefði liðið frá því X var handtekinn og þar til hann var leiddur fyrir dómara þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir honum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. janúar 2012. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. desember 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. janúar 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með sóknaraðila að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot sem fangelsisrefsing er lögð við og að rannsóknarhagsmunir leiði til þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á því stendur, sbr. a. lið 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Það athugast að samkvæmt gögnum málsins leið röskur sólarhringur frá því að varnaraðili var handtekinn og þar til hann var leiddur fyrir dómara þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir honum. Fór þetta í bága við 94. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. desember 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrr í dag, fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að X, kt. [...], [...], [...] en með dvalarstað að [...], [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 5. janúar 2011 kl. 16. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.   

Krafa er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 2. mgr. 218. gr., 231. gr. og 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Kærði mótmælir kröfunni. Til vara krefst hann að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá mótmælir hann því að honum verði gert að sæta einangrun eins og krafist er.

Í greinargerð með kröfunni kemur fram að lögregla hafi fengið tilkynningu um að fara að [...], [...], í [...] vegna slagsmála. Fram hafi komið í tilkynningunni að einn aðili væri meðvitundarlaus. Þegar lögregla kom inn í íbúðina hafi hún séð hvar A hafi legið meðvitundarlaus á gólfinu við sjónvarpsrýmið. Þegar lögregla athugaði lífsmörk hafi A komið til meðvitundar en ekki getað svarað munnlegu áreiti. Hafi hún verið flutt með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar. Töluvert af blóði hafi verið inn í íbúðinni ásamt hárlokkum úr A.

Þá segir að lögregla hafi rætt við vitnið B á vettvangi og kvaðst hann hafa verið í heimsókn hjá A þegar tveir menn og ein kona hafi ráðist inn í íbúðina. B kvað að honum hefði verið ýtt út úr íbúðinni og hann læstur úti. Kvaðst hann hafa verið fyrir utan í smá tíma þegar hann sér árásáraðilana yfirgefa íbúðina og læsa á eftir sér.  Kvaðst B svo hafa bankað á hurðina og A komið skríðandi alblóðug og opnað fyrir honum. Hafi hann í kjölfarið farið og fengið að hringja í neyðarlínuna hjá nágrönnum þar sem árásaraðilarnir höfðu tekið símann hans. B kvað annan karlmanninn hafa verið lítinn, hálf sköllóttan með rauðbirkið hár, hann sagt að konan væri með sítt dökkt hár og héti  Y. B hafi  ekki getað lýst þriðja aðilanum þar sem hann hafi verið með eitthvað fyrir andlitinu. Kvað hann fólkið hafði flúið af vettvangi á rauðri bifreið af gerðinni [...]. Lögregla hafi farið í kjölfarið að [...] í [...] þar sem kærða Y sé skráð með lögheimili. Þar hafi rauð [...] bifreið verið, sem kærði Z sé skráður fyrir. Hafi þau Y og Z verið handtekin þar.

Samkvæmt skýrslum sem teknar hafi verið af brotaþola þá kvaðst hún hafa verið í íbúð sinni ásamt B og C sem hún vissi ekki frekari deili á. Kvað hún C hafi farið í skyndi og virst stressaður. Stuttu síðar hafi þrír aðilar ruðst inn í íbúðina. Hafi það verið kærða Y og kærði Z, kærasti Y. Þá hafi verið með þeim annar karlmaður sem brotþoli viti ekki hver sé þar sem hann hafi verið með hulið andlit. Kvað hún fólkið hafa ýtt B út úr íbúðinni og síðan hafi þau öll þrjú ráðist á hana. Kvaðst hún hafa verið slegin nánast strax rot,  sparkað í hana liggjandi, bæði í höfuð og líkama og hún tekin kverkataki. Kvað hún þau hafa lamið sig með plastkylfu, reynt hafi verið að klippa af henni fingurinn með klippum auk þess sem hníf hafi verið beitt. Þá hafi hún verið beitt grófu kynferðisofbeldi. Samkvæmt brotaþola hafi það verið grímuklæddi maðurinn sem hafi beitt hana kynferðisofbeldinu og gengið einna harðast fram í árásinni.

Í læknisvottorði sem liggi fyrir kemur fram að brotaþoli sé lurkum lamin um allan líkamann, bæði á höfði, brjóstkassa, kvið og baki. Hún sé með sjáanlega áverka á andliti og höfði. Hún sé með einhverja skallabletti á þessu svæði. Aum alls staðar í andliti og upp á höfuðleður. Eymsli niður á hálsinn beggja vegna við þreifingu. Yfirborðsmar á hægra kjálkabarði og á hálsinum hægra megin. Eymsli víðs vegar um líkamann. Hægra megin á baki séu áverkar sem gætu samrýmst því að vera bitfar. 2 cm skurð á hægri vísifingri sem samrýmst því að vera eftir klippur.

Í vottorði neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota komi fram að áverkar á endaþarmi og leggöngum samrýmist því að brotaþoli hafi verið beitt því kynferðisofbeldi sem hún hafi lýst.

Þau Z og Y sitji nú í gæsluvarðhaldi vegna árásarinnar en lögregla hafi leitað þriðja árásaraðilans.

Kærði hafi nú játað í skýrslutöku hjá lögreglu að vera þriðji árásarmaðurinn. Hann hafi játað líkamsárás, þ.e. að hafa tuskað brotaþola eitthvað til en hann hafi neitað að hafa beitt brotaþola kynferðisofbeldi. Kvaðst hann hafa verið með skíðagrímu á sér.

Þá kemur fram að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa í félagi við kærðu Y og Z framið brot gegn 231. gr. , 2. mgr. 218. gr., og 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varði brot gegn 2. mgr. 218. gr., og 194. gr., allt að 16 ára fangelsi. Um sé að ræða mjög fólskulega atlögu þar sem ruðst hafi verið inn á heimili brotaþola og ráðist á hana með sérstaklega hættulegri aðferð en bareflum, garðklippum og hnífi hafi verið beitt og sparkað í hana liggjandi auk þess sem hún hafi verið beitt grófu kynferðisofbeldi. Rannsókn málsins sé nokkuð vel á veg komin. Lögregla þurfi næstu daga að rannsaka málið út frá játningu kærða. Fara þurfi í húsleit heima hjá honum í því skyni að leggja hald á möguleg sönnunargögn og taka skýrslu af brotaþola aftur og öðrum sakborningum.

Að mati lögreglu sé ljóst að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins. Mikilvægt sé að hann geti ekki rætt við brotaþola og önnur vitni og aðila sem tengist þessu máli og haft áhrif á framburð þeirra í væntanlegum skýrslutökum en það beri mikið í milli í framburðum sakborninga og þess sem vitni skýra frá. Mál þetta sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að kærði muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr.  laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt rannsóknargögnum  málsins er kærði  undir rökstuddum grun um brot gegn 231. gr. , 2. mgr. 218. gr., og 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geti allt að sextán ára fangelsi.  Með vísan til alvarleika brotsins,  og rannsóknargagna þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála vera uppfyllt í málinu. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Vegna rannsóknarhagsmuna og þess að rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og með vísan til gagna málsins, verður krafan um að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi tekin til greina þannig að takmarkanir verða á a-f liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. janúar  nk. kl. 16:00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.