Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-20
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lögbann
- Höfundarréttur
- Opinber innkaup
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 10. janúar 2019 leita THG Arkitektar ehf. og Halldór Guðmundsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. desember 2018 í málinu nr. 243/2018: THG Arkitektar ehf. og Halldór Guðmundsson gegn Framkvæmdasýslu ríkisins, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Framkvæmdasýsla ríkisins leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að lögbanni sem leyfisbeiðendur fengu lagt við því að gagnaðili léti fara fram opinbera samkeppni um hönnun hjúkrunaríbúða að Boðaþingi 11 og 13 í Kópavogi og við afhendingu á nánar tilgreindum gögnum til væntanlegra keppenda í tengslum við hönnunarsamkeppnina. Kveðast leyfisbeiðendur hafa annast hönnun á húsum að Boðaþingi 5, 7 og 9 sem fyrirhugað hafi verið að tengja við byggingar að Boðaþingi 11 og 13. Þannig hafi þegar verið orðið til heildstætt höfundarverk og myndi það fela í sér brot gegn höfundarrétti leyfisbeiðenda að heildarútliti bygginganna færi hönnunarsamkeppnin fram. Leyfisbeiðendur höfðuðu mál þetta til staðfestingar á lögbanninu, svo og til viðurkenningar á því að gagnaðila væri óheimilt að láta hönnunarsamkeppnina fara fram og afhenda umrædd gögn. Héraðsdómur hafnaði kröfum um staðfestingu á lögbanninu við því að hönnunarsamkeppnin færi fram og um að viðurkennt yrði að gagnaðila væri óheimilt að halda hana. Á hinn bóginn tók dómurinn til greina kröfur leyfisbeiðenda um viðurkenningu á að gagnaðila væri óheimilt að afhenda gögnin og staðfestingu á lögbanni við því. Fyrir Landsrétti voru einungis til úrlausnar kröfur leyfisbeiðenda vegna hönnunarsamkeppninnar og var niðurstaða héraðsdóms um þær staðfest.
Leyfisbeiðendur telja að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis. Þannig byggja leyfisbeiðendur á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda þekki þeir ekki dæmi þess að reynt hafi áður á álitaefni sem þessi fyrir dómstólum hér á landi. Telja leyfisbeiðendur að málið varði einnig sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína og vísa í þeim efnum til þeirra fjárhagslegu réttinda og sæmdarréttinda sem fylgi rétti höfunda yfir sköpunarverkum sínum. Þá telja leyfisbeiðendur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til enda hafi þar meðal annars verið lagt til grundvallar að leyfisbeiðendur hafi hvorki gert grein fyrir því hvenær heildstæð hönnun mannvirkja á umræddum lóðum hafi orðið til né í hverju hún felist.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið sömu greinar. Er beiðninni því hafnað.