Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-2

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Elínborgu Hörpu Önundardóttur (Jón Þór Ólason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Brot gegn lögreglulögum
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Tjáningarfrelsi
  • Fundafrelsi
  • Skilorð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 17. desember 2022 leitar Elínborg Harpa Önundardóttur leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 11. nóvember sama ár í máli nr. 357/2021: Ákæruvaldið gegn Elínborgu Hörpu Önundardóttur. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 21. nóvember 2022. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærð fyrir þrjú brot gegn 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Í fyrsta lagi fyrir að hafa 5. apríl 2019 óhlýðnast fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa anddyri dómsmálaráðuneytisins er lögregla vísaði fólki á brott þaðan. Í öðru lagi fyrir að hafa 19. mars sama ár óhlýðnast fyrirmælum lögreglu um að fara frá dyrum að aðalinngangi Alþingis er lögregla vísaði fólki á brott til að tryggja aðgengi. Loks í þriðja lagi fyrir að hafa 29. júlí sama ár óhlýðnast fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa vettvang og halda för sinni áfram er lögregla aðstoðaði almennan borgara. Þá var hún ákærð fyrir valdstjórnarbrot samkvæmt 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 11. mars 2019, á Austurvelli í Reykjavík, sparkað þrisvar sinnum í fætur lögreglumanns sem þar var við skyldustörf með þeim afleiðingum að hann fann fyrir eymslum.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir framangreind brot og um refsingu sem ákveðin var tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hvað varðar ákæruefni um brot leyfisbeiðanda gegn valdstjórninni taldi Landsréttur framburð lögreglumanna fá stuðning í myndskeiði af atvikum og taldi sannað að leyfisbeiðandi hefði af ásetningi viðhaft þá háttsemi sem greindi í ákæru. Þá gæti sú staðreynd að atvik gerðust í tengslum við mótmælaaðgerð á engan hátt réttlætt þá háttsemi að sparka í lögreglumann. Loks voru þrjú brot leyfisbeiðanda gegn 19. gr. lögreglulaga talin sönnuð og ekki fallist á að sakfelling fyrir þau færi í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar eða mannréttindasáttmála Evrópu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að beiðni um áfrýjunarleyfi lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu og af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um. Því til stuðnings vísar hún til þess að ágreiningur málsins varði mikilvæg réttindi sem tryggð séu í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, meðal annars að því er varðar heimildir stjórnvalda til afskipta af friðsamlegum mótmælum. Jafnframt sé mikilvægt að fá túlkun Hæstaréttar á 19. gr. lögreglulaga, meðal annars varðandi sjónarmið um mat á því hvort takmörkun mótamælaaðgerða teljist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Enn fremur vísar hún til þess að málið varði mikla og mikilvæga hagsmuni sína. Þá reisir hún beiðnina á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og vísar í þeim efnum meðal annars til þess að hann gangi gegn dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og viðurkenndum meginreglum refsiréttar.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.