Hæstiréttur íslands
Mál nr. 354/2004
Lykilorð
- Miskabætur
- Kynferðisbrot
- Gjafsókn
- Aðild
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 10. febrúar 2005. |
|
Nr. 354/2004. |
A(Sif Konráðsdóttir hrl.) gegn íslenska ríkinu og bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Miskabætur. Kynferðisbrot. Gjafsókn. Aðild. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.
A höfðu verið dæmdar miskabætur í opinberu máli þar sem ákærði hafði verið sakfelldur fyrir að hafa margoft framið kynferðisbrot gegn A á tilteknu tímabili. Þar sem bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota féllst ekki á að greiða henni nema hluta hámarksbóta samkvæmt lögunum höfðaði hún mál á hendur íslenska ríkinu og bótanefndinni til heimtu þeirrar fjárhæðar sem á vantaði til að ná hámarksfjárhæðinni samkvæmt lögunum jafnframt sem hún krafðist að úrskurður nefndarinnar yrði felldur úr gildi. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að íslenska ríkið, með dómsmálaráðherra í fyrirsvari, færi með aðild að þeim kröfum sem lúta að framkvæmd laga nr. 69/1995. Hefði því ekki verið þörf á að stefna bótanefndinni til sjálfstæðrar málsaðildar við hlið þess. Auk þess hefði A ekki sýnt fram á að hún hefði hagsmuni af því að lögum, að jafnframt úrlausn um greiðslukröfu hennar, yrði leyst sérstaklega úr kröfunni um að fella úrskurð nefndarinnar úr gildi. Var þessum kröfum því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi. Þá þótti verða að skýra 1. gr. laga nr. 69/1995 þannig að slík framhaldandi röð brota sem um hefði verið að ræða í umræddu sakamáli teldust eitt brot í skilningi laganna. Væri þá nægilegt að broti hefði lokið innan þeirra tímamarka sem lögin miðuðu við til þess að allt tjónið fengist bætt samkvæmt lögunum. Var krafa A því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. ágúst 2004. Hún krefst þess að ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota 4. júlí 2003 í máli nr. 7/2003, verði felld úr gildi og aðallega að stefndi greiði sér 600.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. júlí 2002 til 8. júní 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 160.391 krónu, en til vara að lagt verði fyrir bótanefndina að taka málið til úrlausnar að nýju. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti. Í kröfu áfrýjanda telst felast að ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verði staðfest.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður fyrir Hæstarétti látinn niður falla.
Íslenska ríkið, með dómsmálaráðherra í fyrirsvari, fer með aðild að þeim kröfum sem lúta að framkvæmd laga nr. 69/1995. Ekki var því þörf á að stefna bótanefnd samkvæmt lögunum til sjálfstæðrar málsaðildar við hlið íslenska ríkisins í máli þessu og gildir þá einu, þó að varakrafa áfrýjanda hljóði um að nefndin taki mál hennar til úrlausnar á ný. Aðfararkrafa áfrýjanda um peningagreiðslu úr hendi stefnda íslenska ríkisins er reist á þeirri grunnröksemd, að ákvörðun bótanefndarinnar 4. júlí 2003 sé ekki bindandi gagnvart henni. Verður ekki leyst úr greiðslukröfu áfrýjanda án þess að taka afstöðu til þessarar röksemdar. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að hún hafi hagsmuni af því að lögum, að jafnframt úrlausn um greiðslukröfu hennar, verði leyst sérstaklega úr kröfunni um að fella úrskurð nefndarinnar úr gildi. Verður því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi kröfum áfrýjanda á hendur bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 og einnig kröfu hennar um að fyrrgreind ákvörðun bótanefndarinnar verði felld úr gildi, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni réttarins 1997, bls. 350.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 greiðir ríkissjóður bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum. Í dómi Hæstaréttar 8. maí 2003 í máli nr. 4/2003 var ákærði sakfelldur fyrir að hafa frá árinu 1992 til september 1996 margoft framið kynferðisbrot gegn áfrýjanda án þess að leyst væri úr fjölda brotanna eða nánari tímasetningu þeirra. Var þessi háttur í samræmi við það sem talið hefur verið gilda um samfellda brotastarfsemi gegn sama fórnarlambi þegar um brot af þessu tagi ræðir. Þykir verða að skýra 1. gr. laga nr. 69/1995 þannig að slík framhaldandi röð brota teljist eitt brot í skilningi laganna. Er þá nægilegt að broti hafi lokið innan þeirra tímamarka sem lögin miða við, og greint er frá í hinum áfrýjaða dómi, til þess að allt tjónið fáist bætt samkvæmt lögunum. Það þykir styðja þessa niðurstöðu, að engin leið er að skipta miskabótum með málefnalegum hætti niður á einstök tímabil þess heildartíma sem brot hefur staðið yfir.
Áfrýjandi fékk sér tildæmdar miskabætur að fjárhæð 700.000 krónur í fyrrgreindu sakamáli. Hámarksbætur fyrir miska samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995, að vöxtum meðtöldum, nema 600.000 krónum. Þann 26. ágúst 2003 samþykkti stefndi að greiða 160.391 krónu inn á kröfu áfrýjanda. Krafa hennar verður því tekin til greina með þeirri fjárhæð sem á vantar til að ná hámarksfjárhæðinni samkvæmt lögunum, 439.609 krónum án vaxta.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.
Um málskostnað og gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti fer sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Kröfum áfrýjanda, A, á hendur bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 er vísað frá héraðsdómi.
Kröfum áfrýjanda um að felld verði úr gildi ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 í máli nr. 7/2003, sem tekin var 4. júlí 2003, og um að lagt verði fyrir nefndina að taka málið til úrlausnar að nýju, er vísað frá héraðsdómi.
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda 439.609 krónur.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2004.
Mál þetta var höfðað 5. nóvember 2003 og dómtekið 5. þ.m.
Stefnandi er A.
Stefndu eru íslenska ríkið og bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.
Stefnandi krefst þess aðallega að ákvörðun stefnda, bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995, í máli nr. 7/2003, sem tekin var 4. júlí 2003, verði felld úr gildi og að stefnda, íslenska ríkið, verði dæmt til að greiða sér 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 19. júlí 2002 til 8. júní 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt sömu lögum frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum 160.391 krónu.
Stefnandi krefst til vara að ákvörðun hinnar stefndu bótanefndar í máli nr. 7/2003, sem tekin var 4. júlí 2003, verði felld úr gildi og lagt fyrir nefndina að taka mál stefnanda til úrlausnar að nýju.
Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál en henni var veitt gjafsóknarleyfi 3. febrúar 2004.
Af hálfu stefndu er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar.
I
Stefnandi kom á skrifstofu rannsóknarlögreglunnar í [...] 28. nóvember 2001 til að leggja fram kæru vegna kynferðisbrots. Hún var í fylgd móður sinnar, B og viðstödd var Þórdís Bjarnadóttir hdl. sem var tilnefnd sem réttargæslumaður brotaþola. Stefnandi kærði til refsingar hálfbróður sinn, X, fyrir að hafa framið kynferðisbrot gagnvart sér, Hún kvað sig minna að X hafi byrjað að brjóta gegn sér þegar hún var 6 ára gömul og fram á 17. ár eða á tímabilinu frá 1988 til ágúst 1999. Þetta hafi átt sér stað í [...], á [...] og í [...]. Hún kvað systkinin vera fjögur samfeðra; X elstur, þá hún sjálf og síðan tvær yngri systur. X hafi að jafnaði búið hjá móður sinni og þær systur hjá móður þeirra. Fyrir nokkrum árum hafi X þó búið heima hjá þeim í [...]. Í lögregluskýrslu segir að faðir systkinanna og móðir stefnanda muni hafa skilið árið 1997. Stefnandi kvaðst hafa ákveðið að kæra X er hún hefði komist að því að hann hefði einnig brotið gegn yngri systur hennar.
Ákæra var gefin út á hendur X 16. september 2002, m.a. fyrir brot gegn stefnanda máls þessa: „1. Með því að hafa frá árinu 1992 til september 1996 á heimili stúlkunnar að [...], margoft káfað á kynfærum hennar og farið með fingur inn í þau. 2. Með því að hafa frá árinu 1997 til ágúst 1999 á heimili stúlkunnar að [...], margoft káfað á kynfærum hennar og sett fingur inn í þau. Telst brot skv. 1. tl. varð við fyrri málslið 1. mgr. 202 gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 með áorðnum breytingum og brot skv. 2. tl. við 209. gr. sömu laga.“
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 20. nóvember 2002 var ákærði fundinn sekur um brot samkvæmt framangreindum 1. tl. ákæru. Fram kemur í dóminum að af hálfu ákæruvalds hafi verið fallið frá 2. tl. ákærunnar við munnlegan málflutning og að það hafi verið vegna breytts framburðar stefnanda máls þessa fyrir dóminum frá því sem verið hafði hjá lögreglu. Dómurinn kvað m.a. á um að ákærði skyldi greiða stefnanda máls þessa 700.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. júlí 2002 til greiðsludags.
Með bréfi Þórdísar Bjarnadóttur hdl., dags. 21. nóvember 2002, til dómsmálaráðherra v/bótanefndar skv. l. 69/1995 var sú krafa gerð f.h. stefnanda að ríkissjóður greiddi henni 700.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta frá 19. júlí 2002 til greiðsludags og var krafan gerð á grundvelli framangreinds dóms, með vísun einkum til 11. gr. laga nr. 69/1995.
Framangreindur héraðsdómur sætti áfrýjun til Hæstaréttar sem staðfesti hann með dómi 8. maí 2003.
Ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 í máli nr. 7/2003: Umsókn A um greiðslu bóta úr ríkissjóði, var tekin 4. júlí 2003. Ákvörðunarorð: „Ríkissjóður greiði Þórdísi Bjarnadóttur hdl. f.h. A, kt. [...], kr. 150.000 í miskabætur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. júlí 2002 til greiðsludags.“ Vísað er til framangreindra dóma Héraðsdóms Reykjaness og Hæstaréttar og í forsendum ákvörðunarinnar segir að þegar litið sé til málsatvika og þeirra sjónarmiða, sem eigi að ráða því hvort efni séu til að beita undanþáguákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995, sbr. 1. gr. laga nr. 118/1999, þyki aðstæður í þessu máli vera með þeim hætti að heimild standi til þess að víkja frá skilyrði 2. mgr. 6. gr. laganna um að umsókn um bætur úr ríkissjóði á grundvelli þeirra skuli hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið. Síðan segir: „Í 20. gr. laga nr. 69/1995 segir að þau gildi um tjón sem leiðir af brotum sem framin voru 1. janúar 1993 og síðar.“ Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 69/1995 skulu umsóknir vegna tjóns er leiðir af brotum sem framin voru fyrir gildistöku laganna hafa borist bótanefnd innan árs frá gildistöku þeirra. Með 20. gr. laga nr. 144/1995 var gildistöku laga nr. 69/1995 frestað til 1. júlí 1996 og framangreindum ákvæðum um frest til að sækja um bætur vegna brota sem framin voru fyrir þann tíma breytt til samræmis við það. Stendur þetta ákvæði óhaggað þrátt fyrir þá breytingu sem gerð var á lögum nr. 69/1995 með 1. gr. laga nr. 118/1999. Af framangreindum sökum og þar sem umsókn sú sem hér er til umfjöllunar barst bótanefnd þegar þessi eins árs frestur var liðinn getur ekki komið til þess að greiddar verði bætur úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/1995 vegna atvika sem áttu sér stað fyrir 1. júlí 1996. Eins og sakargögnum er farið verður ekki afmarkað sérstaklega hve stór hluti brotanna var framinn eftir 1. júlí 1996. Verður að áætla það og meta miskabætur fyrir þann þátt að álitum. Ákvarðast þær bætur að virtum öllum atvikum kr. 150.000 með vöxtum eins og greinir í ákvörðunarorði.”
Með bréfi dómsmálaráðuneytisins 26. ágúst 2003 til Þórdísar Bjarnadóttur hdl. var framangreind ákvörðun kunngerð. Tilkynnt var að reiknaðir vextir til 1. september s.á. næmu 10.391 krónu og að vænta mætti greiðslu bótafjárhæðarinnar, 160.391 krónu, innan skamms. Þá var vísað til 16. gr. laga nr. 69/1995 um það að ákvörðun bótanefndar væri endanleg niðurstaða málsins á stjórnsýslustigi.
II
Krafa stefnanda byggist á því að samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands 8. maí 2003 í máli nr. 4/2003 hafi tjónvaldur verið dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 700.000 krónur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna tjóns er hann olli henni vegna framhaldsbrots samkvæmt almennum hegningarlögum sem stóð yfir til september 1996 eins og málið lá fyrir dóminum. Stefnandi eigi því greiðslukröfu á hendur ríkissjóði samkvæmt 11. gr. laga nr. 69/1995 um þá fjárhæð, 600.000 krónur, sem bótanefnd bar að ákveða, sbr. hámarksfjárhæð sem tiltekin er í c-lið 2. mgr. 7. gr. laganna.
Stefnandi byggir einnig á því að rannsóknarregla og andmælaregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotnar við meðferð málsins hjá bótanefnd þar sem engra upplýsinga hafi verið aflað eða skýrslur teknar, sem heimilt hafi verið samkvæmt 14. gr. laga nr. 69/1995, annars vegar til sönnunarfærslu um hugsanleg brot tjónvalds gegn stefnanda allt fram í ágúst 1999 (frá 1997-innskot dómara), sem fallið var frá af hálfu ákæruvaldsins, og hins vegar til að freista þess að aðgreina hegningarlagabrot tjónvalds.
Af hálfu stefndu er sjónarmiðum stefnanda andmælt í öllum atriðum. Helstu málsástæður eru þær að hin umdeilda ákvörðum bótanefndar hafi í einu og öllu verið að lögum og ekki fái staðist fullyrðing um að bótanefnd hafi vanrækt rannsókn samkvæmt 14. gr. laga nr. 69/1995. Að því er taki til hinna ætluðu brota á tímabilinu 1997 til 1999 beri að líta til þess að hinn sakfelldi hafi ekki verið ákærður eða sakfelldur af dómstólum vegna þeirra og verði því að telja varhugavert að ætla nefndinni að kveða á um hugsanlega sekt hans, sbr. m.a. 1. og 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 70. gr. stjórnarskrárinnar.
Varakrafa stefndu er reist á því að stefnandi hafi þegar fengið greiddar 150.000 krónur auk 10.391 krónu í vexti fyrir tímabilið frá 19. júlí 2002 til 1. september 2003. Krafa stefnanda um að dráttarvextir reiknist frá 8. júní 2003 fái því ekki staðist og er því mótmælt að dráttarvextir reiknist frá fyrri tíma en miðað við þingfestingu málsins.
III
Bótanefnd skorti lagaheimild til að ákveða greiðslu bóta úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota vegna tjóns sem leiddi af atvikum er gerðust fyrir 1. júlí 1996, sbr. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 69/1995 sbr. l. 144/1995, 20. gr. Þar sem um var að ræða framhaldsbrot, þ.e. „framhaldandi röð samkynja eða eðlislíkra refsiverðra athafna eða athafnaleysistilvika“, var einungis unnt að ákvarða bætur að álitum vegna tilvika á tímabilinu frá 1. júlí 1996 til september s.á. og verður ekki talið að við það mat hafi hlutur stefnanda verið fyrir borð borinn.
Skaðabótakrafa, sem stefnandi lýsti á hendur ríkissjóði samkvæmt lögum nr. 69/1995 og beindi til bótanefndar samkvæmt þeim lögum, var reist á framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjaness og ekki var óskað eftir því að nefndin beitti heimildum til rannsóknar á grundvelli 14. gr. nefndra laga. Þegar af þessari ástæðu var nefndinni ekki rétt að efna til slíkrar rannsóknar og er ekki fallist á að af hálfu hennar hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu og andmælareglu stjórnsýsluréttar.
Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefndu af kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsflutningslaun Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns 250.000 krónur en útlagður kostnaður nemur 3.500 krónum.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndu, íslenska ríkið og bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995, eru sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns 250.000 krónur.