Hæstiréttur íslands

Mál nr. 216/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Skýrslugjöf


Mánudaginn 23. mars 2015.

Nr. 216/2015.

Ákæruvaldið

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Kærumál. Vitni. Skýrslugjöf.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Á um að X yrði gert að víkja úr þinghaldi meðan tiltekið vitni gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að þótt vitnið hefði náð 15 ára aldri og væri þannig skylt samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem beint væri til þess um málsatvik bæri að líta til þess að það væri enn barn að aldri. Að virtum ungum aldri vitnisins og nánum fjölskyldutengslum þess við X þótti í ljós leitt að nærvera X við skýrslugjöf gæti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess, sbr. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008. Var því hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og X gert að víkja úr þinghaldi á meðan vitnið gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. mars 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan vitnið B gefur skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að framangreind krafa sín verði tekin til greina, en til vara að tekin verði skýrsla af vitninu „í sérútbúnu húsnæði á öðrum stað en í Héraðsdómi Reykjaness.“

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Sakarefni málsins lýtur að ofbeldi sem varnaraðili er sakaður um að hafa beitt dóttur sambýliskonu sinnar og hefur hann neitað sök. Er vitninu, B, sem er sonur varnaraðila, ætlað að gefa skýrslu í málinu, en sóknaraðili ber því við að hann hafi verið sá eini, auk varnaraðila og brotaþola sem borið geti um atburðarrásina. Í málinu liggur fyrir að brotaþoli hefur dregið kæru sína á hendur varnaraðila til baka og lýst því yfir að hún muni skorast undan því að gefa skýrslu fyrir héraðsdómi á grundvelli 117. gr. laga nr. 88/2008.

Þótt B hafi náð 15 ára aldri og sé þannig skylt samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem beint er til hans um málsatvik ber að líta til þess að hann er enn barn að aldri. Að virtum ungum aldri vitnisins og nánum fjölskyldutengslum við varnaraðila þykir í ljós leitt að nærvera varnaraðila við skýrslugjöf geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð hans, sbr. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og varnaraðila gert að víkja úr þinghaldi á meðan vitnið gefur skýrslu við aðalmeðferð málsins. Þess skal gætt að ákærði geti fylgst með skýrslutökunni í hljóði og mynd um leið og hún fer fram og að lagðar verði fyrir vitnið þær spurningar sem varnaraðili óskar, sbr. 3. mgr. áðurnefndrar lagagreinar.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal víkja úr þinghaldi þegar vitnið, B, gefur skýrslu fyrir dómi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. mars 2015.

Mál þetta, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurnesjum, útgefinni 15. október 2014, á hendur X, kt. [...], „fyrir líkamsárás og heimilisofbeldi, með því að hafa, mánudaginn 24. júní 2014, fyrir utan þáverandi heimili sitt að [...], [...], ráðist að A, kt. [...], dóttur sambýliskonu hans, fellt hana í jörðina, tekið hana hálstaki og læst fótum sínum utan um háls hennar svo hún missti andann, en afleiðingar háttsemi ákærða urðu þær að A hlaut yfirborðsáverka og eymsli í hálsi, marblett yfir hægra mjaðmakambi, á hægri ökkla og sköflungi og eymsli í brjósti.“ Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981 og þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði hefur neitað sök. Þann 2. febrúar 2015 gerði ákærandi þá kröfu að ákærða yrði með úrskurði vikið úr dómsal þegar vitnið B, kt. [...], gæfi vitnisburð sinn í málinu. Verjandi ákærða upplýsti að ákærði myndi ekki víkja í dómsal meðan vitnið gæfi skýrslu og krafðist þess að framkominni kröfu yrði hafnað. Fór fram munnlegur málflutningur um þann þátt málsins og málið tekið til úrskurðar 16. mars sl. eftir að málflytjendur höfðu tjáð sig um kröfuna.

I

Í málinu er ákærði sakaður um að hafa ráðist á stjúpdóttur sína við þáverandi heimili þeirra með þeim afleiðingum sem um getur í ákæru. Nokkur vitni munu hafa verið að þeirri meintu árás, meðal annars B sonur ákærða sem þá var 13 ára gamall.

II

Ákærandi vísaði til 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að vitninu yrði það afar þungbært að þurfa að gefa skýrslu að ákærða viðstöddum, og að það myndi hafa áhrif á framburð þess. Hafi krafa þess efnis að ákærði viki úr sal upphaflega komið frá C félagsráðgjafa hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur að beiðni móður B. Í framlögðum tölvupósti félagsráðgjafans til ákæruvaldsins kom fram, að leiða mætti að því líkum að það muni hafa sérstaklega íþyngjandi áhrif á drenginn að bera vitni gegn ákærða sökum ungs aldurs og skyldleika hans við ákærða. Erfitt geti verið fyrir börn að vitna gegn föður sínum í slíkum málum og því talið að það muni hafa áhrif á framburð B ef faðir hans sé viðstaddur. Að mati ákæranda væri staða þessa máls mjög sérstök og tengsl ákærða, brotaþola og vitnisins gerðu málið enn viðkvæmara en oftast væri í slíkum málum. Vitnið væri lykilvitni málsins, hann væri enn barn að lögum og nauðsynleg að hann fengi að gefa skýrslu án þess að nokkuð gæti haft áhrif á framburð hans. Ekki væri gengið á rétt ákærða þó orðið væri við kröfunni þar sem ákærði ætti rétt á því að fylgjast með skýrslutöku í samræmi við ákvæði 3. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í máli ákærða kom fram að öll frávik frá þeirri meginreglu að ákærði eigi rétt á því að vera viðstaddur skýrslutökur, verði að skýra mjög þröngt. Svo skilyrði ákvæða 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 geti átt við, þurfi í fyrsta lagi að liggja fyrir að skýrslutakan sé vitninu sérstaklega íþyngjandi og í öðru lagi að skýrslutakan kunni að hafa áhrif á framburð hans. Eðli málsins samkvæmt sé alltaf íþyngjandi að koma fyrir dóm og gefa skýrslu en það sé réttur sakbornings að vera viðstaddur, hlýða á framburð vitna og svara þeim ásökunum sem á hann eru bornar. Vitnið sé 15 ára gamall og lögum samkvæmt hvíli sú skylda á honum að koma fyrir dóm og gefa skýrslu. Ekki liggi ekki fyrir nein gögn um vilja vitnisins sjálfs. Ekki verði byggt á framkomnu gagni frá félagsráðgjafa, enda sé það ekki komið frá sálfræðingi, geðlækni eða öðrum sem hafi sérfræðimenntun á þessu sviði. Í tölvupóstinum sé vitnað til sögu án þess að sú saga sé nokkuð skýrð. Þá sé orðalag tölvupóstsins með þeim hætti að ekki verði á því byggt að nærvera ákærða við skýrslutökuna muni hafa sérstaklega íþyngjandi áhrif á vitnið eða að það muni hafa áhrif á framburð hans. Í póstinum komi fram getgátur svo sem með orðalaginu; „má leiða líkum að því“ sem staðfesti ekki neitt um hvaða áhrif skýrslutakan muni hafa á vitni þessa máls.

III

Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er hverjum manni sem er orðinn 15 ára, skylt að koma fyrir dóm, þó viðkomandi sé enn barn í skilningi laga. Í 166. gr. sömu laga segir að ákærði eigi rétt á því að vera við aðalmeðferð máls. Ákvæði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 eru frávik frá þeirri meginreglu um að ákærði eigi rétt á því að vera viðstaddur þinghöld í máli sínu. Skilyrði 123. gr. eru að nærvera ákærða þarf að vera vitninu sérstaklega íþyngjandi og að hafa áhrif á framburð þess. Vitnið B var 13 ára þegar atburðir þessa máls áttu sér stað en er nú á 16. aldursári. Þó fallast megi á það að vitnisburður ungra vitna og/eða vitnisburður í sakamáli gegn nánu skyldmenni geti verið íþyngjandi, verður að gera þá kröfu að nærvera ákærða sé vitninu sérstaklega til íþyngingar. Við mat á því verður ekki beitt almennum forsendum heldur verður að skoða forsendur hvers máls fyrir sig. Af gögnum málsins, svo sem lögregluskýrslu af vitninu verður alls ekki ráðið að vitnið óttist ákærða og engar upplýsingar liggja fyrir hvernig samskiptum þeirra er háttað nú. Í tölvupósti félagsráðgjafa barnaverndar Reykjavíkur til sækjanda virðist byggt á einhverri sögu sem engin grein er síðan gerð fyrir. Ekki liggur því fyrir að nærvera ákærða sé vitninu sérstaklega íþyngjandi. Í nefndum tölvupósti kemur ekkert fram um að félagsráðgjafinn hafi hitt vitnið og dragi ályktun sína um áhrif á framburð þess út frá því. Virðist mat ráðgjafans byggja á almennum forsendum. Ekki liggja fyrir önnur gögn svo sem frá sálfræðingi um að nærvera ákærða kunni að hafa áhrif á framburð vitnisins. Hefur að mati dómsins ekki verið sýnt fram á það með nægjanlegum hætti eins og máli þessu er háttað, að nærvera ákærða sé vitninu sérstaklega íþyngjandi eða kunni að hafa áhrif á framburð þess.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu ákæranda um að ákærða, X verði vikið úr þinghaldi á meðan vitnið B gefur skýrslu.