Hæstiréttur íslands
Mál nr. 161/1999
Lykilorð
- Fjársvik
- Merkjabrot
- Myndverk
- Bókhaldsbrot
- Vitni
- Aðfinnslur
- Sératkvæði
|
Fimmtudaginn 4. nóvember 1999. |
Nr. 161/1999. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Pétri Þór Gunnarssyni (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Fjársvik. Merkjabrot. Málverk. Bókhaldsbrot. Vitni. Aðfinnslur. Sératkvæði.
P var ákærður fyrir fjársvik og merkjabrot, sbr. 248. og 3. mgr. 159. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því hafa sem framkvæmdarstjóri fyrirtækisins G blekkt þrjá viðskiptavini til að kaupa málverk, sem P bauð til sölu með röngum upplýsingum um að þau væru eftir Jón Stefánsson og falsaðri höfundarmerkingu þar um. Einnig var P ákærður fyrir brot á lögum um bókhald og lögum um sölu notaðra lausafjármuna. Ekki var á það fallist að tafir á aðalmeðferð málsins í héraði eða dráttur á uppsögu héraðsdóms leiddu til ómerkingar héraðsdómsins. Þá var ekki á það fallist, að annmarkar á málsmeðferð við yfirheyrslu vitna í héraðsdómi leiddu til ómerkingar eða, að aðfinnslur, sem verjandi P gerði við lögreglurannsókn málsins og hæfi meðdómanda í héraði, leiddu til slíkrar niðurstöðu. Að virtum þeim rannsóknum sem fyrir lágu í málinu og framburði þeirra sem þær höfðu annast þótti ljóst að Jón Stefánsson hefði ekki merkt sér málverkin þrjú, heldur hefði einhver annar merkt þau honum eftir lát hans. Þótt fallist væri á þá niðurstöðu héraðsdóms, að ósannað væri að ákærði hefði sjálfur merkt málverkin þótti ákærða ekki geta hafa dulist, að verkin voru með rangri höfundarmerkingu og hann væri með sölu þeirra að notfæra sér villu kaupenda um endurmerkingu verkanna og hafa þannig fé af þeim með blekkingum. Var P því sakfelldur fyrir fjársvik og merkjabrot. Þá var P sakfelldur fyrir brot gegn lögum nr. 145/1994 um bókhald fyrir að hafa ekki fært eða látið færa í bókhald G kaup og móttöku málverkanna, hafa ekkert fært í bókhald um kaup og sölu listmuna á uppboði G 21. maí 1995, og hafa látið undir höfuð leggjast að halda tekjuskráningargögnum til haga árið 1996 og færa bókhald það rekstrarár, en þessi brot voru einnig talin varða við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 39/1995. Héraðsdómur hafði sýknað P af ákæru vegna brots á lögum um sölu notaðra lausafjármuna og kom sú úrlausn ekki til endurskoðunar Hæstaréttar. Við ákvörðun refsingar P var meðal annars til þess litið, að brotin voru framin í atvinnurekstri og voru skaðleg fyrir viðskiptaöryggi á listaverkamarkaði. Var P dæmdur til þess að sæta sex mánaða fangelsi og jafnframt dæmdur til þess að greiða 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason og Jónatan Þórmundsson prófessor.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. mars 1999 að ósk ákærða. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á sakfellingu og greiðslu skaðabóta en jafnframt þyngingar á refsingu. Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins, en til vara sýknu eða refsilækkunar og frávísunar skaðabótakröfu.
Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Verjandi ákærða gerði þá athugasemd í greinargerð fyrir Hæstarétti að í ágrip vantaði mörg skjöl. Úr þessu hefur verið bætt af hálfu ríkissaksóknara með framlagningu viðbótarágrips. Þá hélt verjandi því fram að ýmsu hefði verið sleppt við endurritun yfirheyrslna. Þessu hefur formaður héraðsdóms andmælt bréflega. Við munnlegan flutning málsins hélt verjandi fast við þessar athugasemdir sínar en taldi þó að þetta ætti ekki að koma að sök við úrlausn málsins.
I.
Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms að því er varðar I. kafla ákæru er í fyrsta lagi á því byggð að aðalmeðferð málsins hafi ekki verið haldin í samfellu og að uppkvaðning héraðsdóms hafi dregist úr hömlu. Aðalmeðferð málsins hófst 7. janúar 1999 og var fram haldið 8. og 11. sama mánaðar. Málinu var þá frestað þar sem ekki náðist í alla þá sem vitni áttu að bera fyrir dóminum. Var aðalmeðferð fram haldið 22. janúar og lauk með munnlegum flutningi 27. sama mánaðar. Samkvæmt 1. mgr. 129. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skulu skýrslutökur og munnlegur málflutningur að jafnaði fara fram í einni lotu í fyrirfram boðuðu þinghaldi. Hér stóð hins vegar svo á að ákærði hafði nefnt nýtt vitni til sögunnar með skömmum fyrirvara og varð því þessum hætti ekki við komið. Sætir þessi meðferð málsins ekki aðfinnslum. Fimm vikur og tveir dagar liðu frá dómtöku til dómsuppsögu. Er það í andstöðu við fyrirmæli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991. Við þessar aðstæður hefði héraðsdómurum verið rétt að gefa sakflytjendum kost á að flytja málið að nýju. Verður ekki hjá því komist að finna að þessari málsmeðferð. Héraðsdómarar hafa hins vegar gert grein fyrir þessum töfum sem stöfuðu frá umfangi málsins og veikindum dómsformanns. Þá gerðu málflytjendur, sem voru viðstaddir dómsuppsögu, engar athugasemdir. Mál þetta er umfangsmikið og dómur héraðsdóms er ítarlegur. Þar eru skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi vandlega raktar, en héraðsdómarar höfðu endurrit þeirra við samningu dómsins. Verður dómur héraðsdóms ekki ómerktur af þessum sökum.
Í öðru lagi telur ákærði að ómerkja beri héraðsdóm þar sem við skýrslutökur fyrir dómi hafi ekki verið gætt lögbundinna reglna. Vitnar verjandi ákærða til d-liðar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem mælt er fyrir um þau lágmarksréttindi að vitni, sem bera sakborningi í vil, komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd séu gegn honum. Heldur verjandinn því fram að ekki hafi verið eftir þessu farið þegar vitnið Patricia Toby Mikkelsen var yfirheyrð fyrir dómi. Ákærði nefndi vitnið seint til sögunnar þótt brýnt hefði verið að vitneskju um þetta vitni væri komið á framfæri við rannsókn málsins. Við boðun kvaðst vitnið ekki geta komið til skýrslugjafar frá Danmörku til Íslands með svo stuttum fyrirvara og varð það til þess að aðalmeðferð málsins tafðist. Verður ekki undan því kvartað að vitnið hafi verið nákvæmlega spurt um tilefni vitnisburðar síns. Verjandi málsins bendir hins vegar réttilega á það að við yfirheyrslu yfir vitninu Hans Jensen hóf saksóknari í héraði skýrslutökuna á því að lesa fyrir vitnið úr skýrslu þess fyrir lögreglu í stað þess að spyrja sjálfstætt um sakaratriði. Brýtur þessi yfirheyrsluaðferð gegn 3. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991. Bar dómara að koma í veg fyrir að yfirheyrslan færi þannig fram. Verður þetta að sæta aðfinnslum þótt það leiði ekki til ómerkingar málsins, en til þessa verður litið þegar sönnunargildi framburðarins verður metið.
Í þriðja lagi er því haldið fram að vitnið Ólafur Ingi Jónsson hafi hlustað á skýrslur annarra vitna áður en hann gaf skýrslu fyrir héraðsdómi. Ekki liggur fyrir að þannig hafi staðið á. Vitnið Ólafur Ingi stóð að kæru vegna eins af málverkunum sem til skoðunar eru í málinu. Af forsendum héraðsdóms verður ekki séð að vitnisburður hans sé hluti af röksemdum dómsins fyrir niðurstöðu.
Í fjórða lagi er því haldið fram að Viktor Smári Sæmundsson forvörður, sem lögregla fékk til að rannsaka málverkin, hafi verið til þess vanhæfur vegna fyrri afskipta sinna af málinu, en hann aðstoðaði Ólaf Inga við ljósmyndun undir útfjólubláu ljósi í tæki Listasafns Íslands áður en Ólafur Ingi kærði fölsun nokkurra málverka. Ekki liggur fyrir að grunsemdir hafi beinst að ákærða á þessum tíma og aðstoð Viktors Smára við þessa ljósmyndun á ekki að leiða til þess að miklu nákvæmari rannsókn hans síðar sé ómarktæk. Þessi aðfinnsla verjanda ákærða kemur þó til athugunar ásamt öðru við mat á sönnunargildi rannsókna vitnisins og framburðar þess fyrir dómi þegar fjallað verður um efnishlið málsins en leiðir hins vegar ekki til ómerkingar þess.
Í fimmta lagi gerir ákærði athugasemdir við að Þorgeir Ólafsson listfræðingur hafi verið kvaddur sem meðdómandi. Ekki verður séð að þær athugasemdir hafi við rök að styðjast.
Í sjötta lagi heldur ákærði því fram að rannsókn málsins sé ófullnægjandi og nefnir ýmis atriði sem hann telur því til styrktar. Rannsókn málsins í heild mun koma til athugunar þegar metið verður hvort gögn málsins nægi til sakfellingar, en athugasemdir ákærða eiga ekki að leiða til ómerkingar dómsins.
Þegar allt framanritað er virt þykir ekki ástæða til að ómerkja héraðsdóm að því er varðar I. kafla ákæru.
Ákærði styður frávísunarkröfu sína að því er varðar II. kafla ákæru við það að rannsókn sé ábótavant og gögn vanti til þess að unnt sé að halda uppi vörnum gegn þessum ákæruatriðum. Verður ekki á það fallist en athugasemdir verjanda koma til skoðunar þegar metið verður hvort gögn málsins nægi til áfellis.
II.
Í fyrri kafla ákæru er ákærði sakaður um fjársvik og skjalafals með því að hafa sem framkvæmdastjóri og eigandi Gallerís Borgar blekkt þrjá viðskiptavini fyrirtækisins til að kaupa hver eitt málverk, en tvö verkanna hafi verið boðin til sölu á uppboði 1. september 1994 í Reykjavík og eitt á uppboði á Akureyri 21. maí 1995, og í uppboðsskrám hafi þess verið ranglega getið að þau væru eftir Jón Stefánsson listmálara. Í raun hafi þau öll verið eftir danska listmálarann Wilhelm Wils. Hafi undirritun hans verið hulin og verkin ranglega merkt Jóni Stefánssyni. Dómarar Hæstaréttar hafa átt þess kost að skoða þessar merkingar verkanna undir útfjólubláu ljósi í VCS (Video Spectral Comparator) tæki lögreglunnar og virtust á þeim öllum merki um höfundarnafnið Wils. Ákæru og málavöxtum eru gerð ítarleg skil í héraðsdómi. Þar er gerð grein fyrir rannsóknum Haralds Árnasonar lögreglufulltrúa og Viktors Smára Sæmundssonar forvarðar á málverkunum þremur og framburði þeirra. Af þessum rannsóknum öllum og framburði þeirra sem þær önnuðust þykir fyllilega ljóst að Jón Stefánsson listmálari hefur ekki merkt sér myndirnar, heldur hefur einhver annar merkt þær honum eftir lát hans. Styðst þetta einnig við rannsóknir dr. Sigurðar Jakobssonar á litum þeim sem notaðir voru í merkinguna, en þeirri rannsókn er lýst í héraðsdómi. Þá styðst þessi niðurstaða við vitnisburð Ólafs Kvaran forstöðumanns Listasafns Íslands og Júlíönu Gottskálksdóttur listfræðings á sömu stofnun. Þau hafa bæði borið að verkin beri ekki með sér einkennandi þætti í list Jóns Stefánssonar.
Að því er varðar verkin í ákæruliðum 1 og 3 kemur framanritað allt heim og saman við gögn og vætti annarra vitna sem renna styrkum stoðum undir það að þessi verk hafi ákærði bæði keypt á uppboði Bruun Rasmussen nr. 33 í Vejle í ágúst 1994 og hafi þau þá verið merkt nafninu Wils, en svo mun Wilhelm Wils hafa auðkennt myndir sínar. Hafi þau þar verið merkt í uppboðsskrá og með krít á blindramma númerunum 1125 og 1126. Ber verkið í ákærulið 1 enn merkið á blindrammanum. Fyrri eigandi þessara verka tók ljósmynd af hinu síðarnefnda áður en hann setti það á uppboðið og má þar greina að það er merkt Wils. Ákærði hefur kannast við að hafa verið á þessu uppboði í Vejle og keypt m.a. myndir eftir þennan málara. Kveðst hann hafa skilið þær eftir í Kaupmannahöfn hjá vitninu Jónasi Freydal Þorsteinssyni en flutt rammana með sér heim og sett þá þar utan um önnur verk. Héraðsdómur mat þennan framburð ótrúverðugan. Fyrir Hæstarétti hefur ekkert fram komið sem hnekkir því mati.
Héraðsdómur taldi ósannað að ákærði hefði sjálfur merkt myndirnar Jóni Stefánssyni. Hefur ákæruvaldið fallist á það álit og er það ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Ákærði stóð hins vegar að sölu verkanna. Var annað selt á uppboði 1. september 1994, rétt eftir að hann keypti það á uppboðinu í Vejle, og fyrir verulega hærra verð en fengist hefði fyrir það væri það merkt danska málaranum. Hitt var selt vorið eftir fyrir nokkru hærra verð en líklegt er að fengist hefði fyrir það þannig merkt. Kaupendur verka þessara hafa báðir borið að það hafi verið ákvörðunarástæða þeirra fyrir kaupunum að þau voru merkt Jóni Stefánssyni. Ákærða gat ekki dulist að verkin voru með rangri höfundarmerkingu og að hann var með sölunni að notfæra sér villu kaupenda um endurmerkingu verkanna og hafa þannig fé af þeim með blekkingum.
Málverk samkvæmt ákærulið 2 er merkt á blindrammann um að það hafi verið selt á uppboði nr. 601 hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn 7. júní 1994 og merkt nr. 32. Tvö verk voru undir þessari merkingu í uppboðsskrá og er þess getið að þau séu merkt danska listmálaranum Wilhelm Wils með miða á blindrammann. Bæði voru keypt símleiðis af vitninu Jónasi Freydal Þorsteinssyni. Hann fékk síðar reikning vegna verkanna endurútgefinn á nafn ákærða. Hann sótti þau svo til uppboðsfyrirtækisins í ágúst 1994 skömmu fyrir uppboð Gallerís Borgar 1. september sama árs, þar sem verk samkvæmt þessum ákærulið var boðið upp nr. 89 á uppboðskrá merkt Jóni Stefánssyni og selt fyrir verulega hærri fjárhæð en fengist hefði fyrir það hefði það verið merkt Wils. Vitnið Claus Poulsen forstjóri danska uppboðsfyrirtækisins taldi sig þekkja verkið af ljósmynd, sem lögregla sýndi honum, sem annað af þessum tveimur verkum en hann kvaðst hafa verið á uppboðinu. Ákærði bendir á að hann hafi ekki keypt þetta verk og vitnið Jónas Freydal Þorsteinsson bar fyrir dómi að það væri enn hjá sér. Héraðsdómur taldi þennan framburð vitnisins ótrúverðugan. Ekkert hefur komið fram fyrir Hæstarétti sem hnekkir því mati, enda kemur lýsing verksins og merking á blindrammann heim og saman við uppboðsskrá danska fyrirtækisins. Verður að telja fram komið að hér sé um sama verkið að ræða. Héraðsdómur hefur talið ósannað að ákærði hafi merkt verkið Jóni Stefánssyni og er það ekki hér til endurskoðunar. Verkið er hins vegar selt á sama uppboði og verk samkvæmt ákærulið 1 sem einnig er ranglega merkt þessum listamanni og telja verður réttilega eftir danska listmálarann Wils. Verður að fallast á það með héraðsdómi að ákærða hafi ekki getað dulist hvernig atvikum var háttað. Hafi honum hlotið að vera ljóst að verið var að nota ranga höfundarmerkingu verksins í auðgunarskyni og hann hafi með sölu þess tekið fullan þátt í þeim verknaði.
Samkvæmt framansögðu ber að sakfella ákæra fyrir alla ákæruþætti fyrri hluta ákæru. Jafnframt ber að staðfesta heimfærslu héraðsdóms til ákvæða 3. mgr. 159. gr., sbr. nú 75. gr. laga nr. 82/1998, og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er staðfest úrlausn dómsins um að sök ákærða sé ófyrnd, sbr. 3. mgr. 81. gr. sömu laga.
III.
Í síðari hluta ákæru, liðum A og C, er ákærði sakaður um brot á bókhaldslögum. Í lið B var honum gefið að sök brot á lögum um sölu notaðra lausafjármuna. Héraðsdómur sýknaði hann af þeim ákærulið. Hefur ríkissaksóknari fallist á rök héraðsdóms fyrir þeirri úrlausn og er hún ekki til endurskoðunar.
Í A-lið þessa hluta ákæru er ákærði sakaður um að hafa ekki fært eða látið færa í bókhaldi Gallerís Borgar kaup og móttöku listaverka þeirra, sem getið er um í fyrri hluta ákæru. Þá er hann einnig sakaður um að hafa ekkert fært í bókhald um kaup og sölu á uppboði fyrirtækisins nr. 6, sem haldið var á Akureyri 21. maí 1995.
Fram er komið að viðskiptaferli fyrrnefndra verka verður ekki rakið í bókhaldi Gallerís Borgar. Helst má skilja ákærða svo að hann hafi sjálfur átt verkin samkvæmt ákæruliðum 1 og 3, en Jónas Freydal Þorsteinsson verkið samkvæmt ákærulið 2. Hafi þetta verið svo átti það að sjást af bókhaldi fyrirtækisins, og að öðrum kosti hvernig hagaði til um þessi verk í raun, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 51/1968 um bókhald, sem í gildi voru þegar þessar færslur áttu að eiga sér stað. Þá átti að skrá viðskipti jafnskjótt og þau fóru fram, sbr. 10. gr. sömu laga. Ber ákærði sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins ábyrgð á þessari vanrækslu. Með skírskotun til raka héraðsdóms þykir hann hafa gerst sekur um þau brot sem sem hann er ákærður fyrir í þessum lið. Samkvæmt 2. gr. hegningarlaga nr. 19/1940 verður honum dæmd refsing eftir 1. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. núgildandi laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. lög nr. 37/1995, en þó verður honum ekki dæmd þyngri refsing en heimiluð var samkvæmt eldri bókhaldslögum.
Samkvæmt C-lið síðari kafla ákæru er ákærða gefið að sök að hafa á rekstrarárunum 1995 og 1996 látið undir höfuð leggjast að skrá viðskipti fyrirtækisins þegar keyptir voru listmunir erlendis og halda til haga tekjuskráningargögnum árið 1996 og færa bókhald það rekstrarár. Héraðsdómur hefur sýknað ákærða af sök samkvæmt fyrri hluta þessa ákæruliðar vegna fyrningar. Hefur ríkissaksóknari fallist á þá úrlausn. Stendur því það eftir af þessum ákærulið sem varðar tekjuskráningargögn og bókhald ársins 1996. Fram er komið að áfrýjandi viðurkennir að reikninga hafi vantað í bókhald félagsins þetta ár og að færslu þess hafi ekki verið lokið þegar hald var á það lagt í október 1997. Svo stóð enn þegar ákæra var útgefin. Ber að staðfesta þá úrlausn dómsins að sú háttsemi ákærða að halda ekki til haga tekjuskráningargögnum varði við 2. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 og sú háttsemi að láta undir höfuð leggjast að færa bókhaldið varði við 1. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laganna, enda bar ákærða samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laganna að fullgera ársreikning eigi síðar en í lok júní 1997. Brot ákærða í A- og C-liðum varða einnig við 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 39/1995, sem gildi tóku 1. júlí 1995. Samkvæmt 2. gr. sömu laga verður þó að líta til þess við ákvörðun refsingar að brot samkvæmt A-lið voru framin fyrir gildistöku breytingarlaganna.
IV.
Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að brotin eru framin í atvinnurekstri og voru skaðleg fyrir viðskiptaöryggi á listaverkamarkaði. Brot hans á ákvæðum laga um bókhald eru stórfelld. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, sem hér skiptir máli. Refsingu hans ber að meta með vísan til þessa og ákvæða 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hún hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi. Samkvæmt 2. mgr. 49. gr. sömu laga er rétt að dæma ákærða til greiðslu 500.000 króna fésektar jafnframt refsivist.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem nánar er ákveðið í dómsorði, að 4/5 hlutum, en 1/5 hluti greiðist úr ríkisjóði þar sem upphaflegri gerð ágrips var ábótavant.
Dómsorð:
Ákærði, Pétur Þór Gunnarsson, sæti fangelsi í sex mánuði.
Ákærði greiði 500.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 60 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd að liðnum fjórum vikum frá uppkvaðningu dóms þessa.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 350.000 krónur, að 4/5 hlutum, en 1/5 hluti áfrýjunarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.
|
Sératkvæði |
|
Guðrúnar Erlendsdóttur hæstaréttardómara í hæstaréttarmálinu nr. 161/1999: Ákæruvaldið gegn Pétri Þór Gunnarssyni |
Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist, að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað til héraðsdóms til löglegrar meðferðar. Í I. kafla atkvæðis meiri hluta dómenda eru talin upp þau atriði, sem krafa þessi er reist á. Er tekið undir afgreiðslu meiri hluta dómenda á málsástæðum þessum um annað en það, sem að neðan greinir.
Vitnið Ólafur Ingi Jónsson forvörður kærði til rannsóknarlögreglu ríkisins 18. júní 1997 málverk það, sem ber rannsóknarnúmer 23. Ólafur Ingi fékk sér til aðstoðar við skoðun á verkinu Viktor Smára Sæmundsson forvörð hjá Listasafni Íslands. Í skýrslu Arnars Jenssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns 3. nóvember 1997 er eftirfarandi haft eftir Viktori Smára: „Viktor Smári sagði Ólaf Inga Jónsson hafa komið til sín þegar hann var að undirbúa kærur þeirra verka sem nú hafa verið kærð og borið undir sig grunsemdirnar. Hann hafi aðstoðað Ólaf Inga við ljósmyndun undir útfjólubláu ljósi en Listasafn Íslands eigi tæki til þess. Viktor Smári sagðist ekki hafa gert athugasemdir við þær grunsemdir um fölsun sem Ólafur Ingi hafi kynnt honum og hafa verið sammála Ólafi Inga í stórum dráttum“. Viktor Smári var síðan fenginn til að vinna að rannsókn málsins. Héraðsdómur byggir niðurstöðu sína um fölsun höfundarmerkingarinnar „Jón Stefánsson“ meðal annars á rannsóknum og niðurstöðum Viktors Smára. Með vísan til fyrri afskipta Viktors Smára af málinu verður ekki talið, að hann hafi verið hæfur til að vinna sem sérfræðingur að rannsókn verkanna.
Rannsókn málsins var að mörgu leyti ábótavant. Samkvæmt framburði Arnars Jenssonar fyrir dómi er ekki enn lokið rannsókn á litum, sem hald var lagt á í starfsstöð ákærða. Þá er heldur ekki lokið rannsókn á bankareikningum ákærða og eiginkonu hans og fyrirtækja þeirra. Jónas Freydal Þorsteinsson fullyrti fyrir dómi, að hann hefði í fórum sínum málverk það, sem hann hefði keypt á uppboði nr. 601 hjá Bruun Rasmussen og merkt var nr. 32. Bauðst hann til að afhenda málverkið, en því hefur ekki verið sinnt af hálfu lögreglu. Þá er upplýst, að kaupandi málverks, sem ber rannsóknarnúmer 27, á uppboðinu 1. september 1994 hafi tekið málverkið úr rammanum og látið í annan ramma. Engin könnun hefur farið fram á því hvort upphaflegur rammi sé enn fyrir hendi, þannig að unnt sé að rannsaka hann.
Með vísan til þess, sem að framan er rakið, tel ég það mikla vankanta á rannsókn málsins að ómerkja beri héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Þar sem þessi niðurstaða hefur ekki hlotið samþykki meiri hluta dómenda mun ég samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 163. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, greiða atkvæði um efni málsins og er samþykk dómsatkvæði þeirra.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 1999.
Ár 1999, föstudaginn 5. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara sem dómsformanni og meðdómurunum Helga I. Jónssyni héraðsdómara og Þorgeiri Ólafssyni listfræðingi, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 649/1998: Ákæruvaldið gegn Pétri Þór Gunnarssyni, sem tekið var til dóms 27. janúar sl.
Málið er höfðað með ákæru 1. júlí sl. gegn ákærða, Pétri Þór Gunnarssyni, kt. 120958-3139, Klausturhvammi 3, Hafnarfirði,
„I
fyrir fjársvik og skjalafals, með því að hafa sem framkvæmdastjóri og eigandi Gallerí Borgar blekkt þrjá viðskiptavini gallerísins til að kaupa hver eitt málverk sem hann bauð til sölu með röngum upplýsingum í uppboðsskrám um að þau væru eftir Jón Stefánsson og með falsaðri höfundarmerkingu þar um á málverkin, á tveimur listmunauppboðum á vegum Gallerís Borgar eins og hér segir:
1) Á uppboði nr. 12, fimmtudaginn 1. september 1994 í Reykjavík, selt málverk eftir danska málarann Wilhelm Wils, sem ákærði hafði sjálfur keypt á listmunauppboði Bruun Rasmussen númer 33, í Vejle á Jótlandi, í Danmörku 18. ágúst 1994 á danskar krónur 2.600, auk kostnaðar og virðisaukaskatts, eftir að hafa afmáð höfundarmerkingu danska listmálarans og blekkt X til að kaupa málverkið sem málverk eftir Jón Stefánsson á krónur 396.000.
2) Á uppboði nr. 12, fimmtudaginn 1. september 1994 í Reykjavík, selt málverk eftir danska málarann Wilhelm Wils, sem ákærði keypti sjálfur á listmunauppboði Bruun Rasmussen númer 601, í Kaupmannahöfn, Danmörku, 7. júní 1994 og greiddi fyrir það ásamt öðru verki á uppboðinu danskar krónur 4.500, auk kostnaðar og virðisaukaskatts, eftir að hafa afmáð höfundarmerkinguna og blekkt Y til að kaupa málverkið sem málverk eftir Jón Stefánsson á krónur 473.000.
3) Á uppboði fyrirtækisins nr. 6, sunnudaginn 21. maí 1995 á Akureyri, selt málverk eftir danska málarann Wilhelm Wils, sem ákærði keypti sjálfur á listmunauppboði Bruun Rasmussen númer 33, í Vejle á Jótlandi, í Danmörku 18. ágúst 1994 á danskar krónur 1.600, auk kostnaðar og virðisaukaskatts, eftir að hafa afmáð höfundarmerkinguna og blekkt Z til að kaupa málverkið sem málverk eftir Jón Stefánsson á krónur 50.000.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 3. mgr 159. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
Fyrir brot á lögum um bókhald og lögum um sölu notaðra lausafjármuna,
A.
með því að hafa vegna kaupa í júní og ágúst 1994 á listaverkum sem fjallað er um í I. kafla ákæru ekkert fært í bókhaldi fyrirtækisins um kaup þeirra eða móttöku og ekkert fært um kaup eða sölu þeirra listmuna sem seldir voru á uppboði á vegum fyrirtækisins nr. 6 sem haldið var á Akureyri sunnudaginn 21. maí 1995,
B.
með því að hafa rekstrarár fyrirtækisins 1994, 1995 og 1996 rekið sölu notaðra lausafjármuna án tilskilins leyfis og láta undir höfuð leggjast við móttöku og sölu listmuna að halda skipulagða skrá þeirra listmuna sem bárust fyrirtækinu og að færa uppgjör í samræmi við það,
C.
með því á rekstrarárunum 1995 og 1996, að láta undir höfuð leggjast að skrá viðskipti fyrirtækisins þegar keyptir voru listmunir erlendis og halda til haga tekjuskráningargögnum árið 1996 og að færa bókhald það rekstrarár.
Telst háttsemi ákærða samkvæmt a.og b. liðum varða við 9. sbr., 2.gr., og 3. ml. 5.gr. laga nr. 61. 1979 um sölu notaðra lausafjármuna og samkvæmt a.,b. og c. liðum ákæru við 36. gr. sbr. 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145, 1994 um bókhald, sbr. a- og b-liði 1. gr. laga nr. 37, 1995 um breytingu á þeim lögum, sbr. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 35, 1995 um breytingu á þeim lögum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.
Gunnar Snorri Gunnarsson, kt. 130753-2809, krefst að ákærði greiði skaðabætur að fjárhæð kr. 370.000.
Dómsformanni var falið mál þetta til meðferðar í nóvember sl. vegna leyfis fyrrum dómsformanns. Jafnframt tók þá sæti í hennar, stað sem meðdómari, Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
I.
Ákærði og eiginkona hans tóku við rekstri hlutafélagsins Gallerí Borgar 5. janúar 1993. Þau voru þá jafnframt einu hluthafar þess. Í stofnfundargerð félagsins frá þeim degi kemur fram að stjórn félagsins skipa eiginkona ákærða, stjórnarmaður, en ákærði er varamaður og jafnframt framkvæmdastjóri með prókúru. Á hluthafafundi félagsins 1. desember 1995 voru lagðar fram nýjar samþykktir fyrir félgið í samræmi við lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög og nafninu breytt í Gallerí Borg- Uppboðshús Reykjavíkur ehf. Samkvæmt nýjum samþykktum félagsins frá 1. desember 1995 og tilkynningu félagsins til hlutafélagaskrár er stjórn og framkvæmdastjórn félagsins óbreytt, hlutafé 400.000 krónur og tilgangur félagsins sem fyrr listmunauppboð, myndlistarsýningar, málverka-og listmunasala og skyld starfsemi. Félagið er enn starfandi. Starfsstöð félagsins var í Aðalstræti 6 hér í borg, en með bréfi 28. október 1997 til Hagstofu Íslands tilkynnti félagið flutning að Síðumúla 34, Reykjavík.
Þann 18. júní 1997 lagði Jóhannes Albert Sævarsson héraðsdómslögmaður fram kæru hjá rannsóknarlögreglu ríkisins vegna ætlaðrar fölsunar á málverki merktu Jóni Stefánssyni, sem selt var á uppboði Gallerí Borgar nr. 6 á Akureyri 21. maí 1995 á 50.000 krónur, sbr. 3. liður ákæru. Kaupandinn var Jón Ó. Ragnarsson. Fram kemur í kærunni að Ólafur Ingi Jónsson forvörður hafi leitað til lögmannsins vegna þess að grunur hefði vaknað með honum um að verkið væri falsað, en eigandinn hafði komið með verkið til Ólafs Inga til hreinsunar. Forvörðurinn hafi skoðað verkið undir útfjólubláu ljósi og við það hafi grunur hans um fölsun verksins styrkst. Þá hafi tölustafirnir 422 og 489 verið á upprunalegum ramma myndarinnar, og hafi þetta reynst vera verk-og uppboðsnúmer uppboðshaldarans Bruuns Rasmussen í Kaupmannahöfn sem haldið var 10. desember 1986. Við skoðun á uppboðsskránni hafi verk 422 reynst vera eftir danska listmálarann Vilh. Wils, fæddur 1880. Verkið hafi verið 57x45 cm og heitið á uppboðinu „Pelargonie på et bord“ með árituninni Wils 12. Matsverð verksins hafi verið Dkr. 3.000. Segir í kærunni að við hreinsun af yfirmálingu verksins, sem væri 78,5 x 57,5 cm, hafi komið í ljós 12, sem staðfesti það sem lesa megi í uppboðsskrá Rasmussen.
Þennan sama dag bárust rannsóknarlögreglu ríkisins sex aðrar kærur frá sama kæranda á hendur ákærða varðandi ætlaða föslun fjölda annarra málverka en hann hafði einnig lagt fram þrjár kærur 24. mars sama ár vegna gruns um falsanir þriggja málverka. Mál þessi eru enn í rannsókn. Þann 1. júlí 1997 var rannsóknarlögregla ríkisins lögð niður og færðist þá rannsókn málsins til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, sem tók til starfa sama dag.
Þess skal getið að í gögnum máls þessa er listmálarinn Wils ýmist nefndur skírnarnafninu Vilhelm eða Wilhelm. Í ritinu „Weilbachs kunstnerleksikon III“ útg. af Ashehoug dansk forlag, árið 1952, er sagt að skírnarnafn hans sé Wilhelm Julien. Í bókinni „Signaturbogen“ eftir Kai V. Timm, útg. af Nordisk kustarkiv, Kaupmannahöfn, 1962, kemur fram að hann hafi áritað myndir sínar „Wils“.
Rannsóknarlögreglumennirnir Arnar Jenson, Haraldur Árnason og Birgir Sigmundsson hafa komið fyrir dóminn og staðfest rannsóknargögn. Fram kom í yfirheyrslu Arnars Jensen fyrir dóminum að niðurstaða rannsóknar á litum þeim, sem hald var lagt á við rannsókn málsins og síðar verður vikið að, lægi ekki fyrir.
Rétt þykir að fjalla fyrst um 3. tl. I. kafla ákæru, sem kallað hefur verið rannsóknartilvik 23, þar sem sakarefni í 1. og 2. lið þessa kafla ákæru voru kærð í kjölfar tilviks 23. Þá verður fjallað um 1. tl. þessa kafla ákæru, rannsóknartilvik 26 og loks um 2. tl. ákæru, rannsóknartilvik 27.
A) 3. liður I. kafla.
Samkvæmt staðfestum upplýsingaskýrslum Arnars Jenssonar aðstoðar- yfirlögregluþjóns 17. mars 1998 og 16. júlí sama ár fór hann ásamt Birgi Sigmundssyni rannsóknarlögreglumanni á fund ákærða og eiginkonu hans 16. júlí 1997 í húsnæði Gallerí Borgar að Aðalstræti 6, og voru þeim kynntar framkomnar kærur og jafnframt afhent bréf rannsóknara til kærða síðargreindan dag. Í bréfinu segir meðal annars að fyrir liggi kærur um 22 málverk, sem öll séu talin hafa verið seld af Gallerí Borg á árunum 1991-1997, og kunni að vera fölsuð og er þess farið á leit að Galleri Borg veiti upplýsingar í þágu rannsóknar málsins. Meðal þessara verka er framangreint málverk sem merkt er Jóni Stefánssyni, rannsóknartilvik nr. 23. Sérstaklega var óskað upplýsinga um þessi atriði: 1. Hvar og hvenær málverkið var selt í Gallerí Borg. 2. Hver var kaupandi verksins. 3. Hver kom með verkið til sölumeðferðar hjá Gallerí Borg. 4. Hver var eigandi verksins er það var boðið til sölu. 5. Hvert rann söluandvirðið. 6. Hverjir voru fyrri eigendur verksins. 7. Aðrar upplýsingar sem að gagni mætti koma, þ.m.t. gögn til stuðnings eigendaferli umrædds verks. Í framangreindum upplýsingaskýrslum kemur fram að ákærða og eiginkonu hans hafi verið tjáð að þau væri ekki sökuð um brot heldur væri farið fram á upplýsingar af þeirra hálfu vegna framkominnar kæru og hafi þau lýst sig fús til samstarfs. Í skýrslunum kemur fram að fram hafi komið í samtalinu að almennt lægi hvorki fyrir hjá fyrirtækinu eigendasaga verka né athuganir á uppruna þeirra. Er haft eftir ákærða að þegar verk kæmu inn væri útbúið sérstakt skráningarspjald með ýmsum upplýsingum er vörðuðu seljanda, en þegar verkin seldust væru yfirleitt ekki færðar inn upplýsingar um kaupanda. Kvaðst ákærði mundu í samráði við lögmann sinn, Sigurmar Albertsson hæstaréttarlögmann, svara fyrirspurnum rannsóknara bréflega.
Ákærða var ítrekað gefinn frestur til að leggja fram umbeðnar upplýsingar, svo sem fram kemur í bréfi ríkislögreglustjóra 22. október 1997, en hann sinnti því ekki. Í svarbréfi ofangreinds lögmanns hans 29. október við fyrirspurnum ríkislögreglustjóra kemur fram að ekki hafi verið til sérstök skrá eða samfelldar upplýsingar um fyrri eigendur mynda, sem seldar voru á vegum gallerísins. Um rannsóknartilvik 23 segir í bréfinu, sem lögmaðurinn hefur staðfest fyrir dómi, að myndin hafi verið „keypt af Gallerí Borg í Kaupmannahöfn. Ekki frekari gögn. Málað er báðum megin á myndina og dóttir Jóns Stefánssonar mun hafa þekkt „módelið“.“ Í upphafi þessa bréfs segir að ákærði hafi falið lögmanninum að svara fyrirspurnum og byggist svörin á gögnum ákærða og upplýsingum er ákærði hafi aflað.
Með bréfi rannsóknarlögreglu 20. nóvember 1997 var Júlíönu Gísladóttur viðskiptafræðingi, sem fært hafði bókhald Gallerís Borgar fyrir árin 1994, 1995 og 1996 send beiðni þess efnis að hún kannaði meðal annars hvað fram kæmi í bókhaldi félagsins um ætluð viðskipti með framangreint málverk, rannsóknartilvik 23, og legði fram gögn því til staðfestingar. Var þess óskað í bréfinu að Júlíana kæmi á skrifstofu embættis ríkislögreglustjóra, þar sem bókhald félagsins væri í vörslu þess. Í svarbréfi hennar 26. sama mánaðar um þetta tilvik kemur fram að hún hafi ekki fundið reikning fyrir þetta verk og ekkert uppboð hafi verið bókað á Akureyri sumarið 1995. Í bókhaldinu sé uppboð nr. 5 haldið á Akureyri í febrúar 1995 og uppboð nr. 7 haldið þar í september 1995.
Fram kemur í ofangreindri upplýsingaskýrslu Arnars Jenssonar 17. mars 1998 að jafnframt því sem leitað var og beðið eftir upplýsingum frá ákærða og þáverandi lögmanni hans hafi ríkislögregla hafist handa við að afla upplýsinga um leiðir sem unnt væri að fara í rannsókn málsins og aðrar rannsóknaraðgerðir framkvæmdar. Í því sambandi hafi meðal annars verið leitað til samstarfsaðila á Norðurlöndum, svo og til Listasafns Íslands. Einnig hafi verið leitað samstarfs við efnahagsbrotadeild dönsku lögreglunnar, sem hafi útvegað fyrstu upplýsingar í tengslum við skýringar ákærða á uppruna tiltekinna verka. Þá hafi Arnar ásamt Jóni H. Snorrasyni saksóknara farið til Danmerkur til gagnaöflunar og hafi gögn er aflað var í þeirri ferð styrkt grun um að ákærði tengdist ætluðum fölsunum ákærða, meðal annars á rannsókartilvikum 23, 26 og 27, sbr. 1.-3. liður þessa kafla ákæru. Rannsóknin snerist meðal annars um það að kanna uppruna myndanna, ráðstöfun þeirra og feril og leitað var til sérfræðinga Listasafns Íslands um álit þeirra á því hvort myndirnar væru falsaðar.
Í uppboðsskrá af uppboði Gallerí Borgar á Akureyri 21. maí 1995 kemur fram að myndin „Uppstilling“, sem er númer 69, Olía, 77x57,er sögð vera eftir Jón Stefánsson og var hún slegin á uppoðinu á 50.000 krónur. Kaupandinn var Jón Ó. Ragnarsson, svo sem að ofan greinir og síðar verður nánar rakið.
Einnig var aflað ljósrits uppboðsskrár Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn af uppboði nr. 489, sem fram fór dagana 9. og 10. desember 1986. Við mynd nr. 422 í skránni stendur: Vilh. Wils, „Pelargonie på et bord“. Sign Wils 12. 78 x 59. 3.000, en fyrir aftan þá fjárhæð er handritað 2.700 og nafnið Helge Krex handritað fyrir neðan textann.
Þá var og aflað ljósrits úr uppboðsskrá Bruun Rasmussen í Vejle af uppboði nr. 33, sem fram fór dagana 16.-18. ágúst. Þessa uppboðsskrá afhenti vitnið Sven Juhl Jörgensen, starfsmaður fyrirtækisins einnig er hann kom fyrir dóm. Við mynd nr. 1125 í skránni stendur: Wilhelm Wils (1880-1960), Opstilling med potteplante samt liggende nøgen model. Dobbeltmaleri. Sign Wils 12, 79 x 58. Verð myndarinnar er skráð 2.500.
Með bréfi ríkislögreglustjóra 19. september 1997 til ríkislögreglustjórans í Kaupmannahöfn var þess farið á leit að kannað yrði hvenær og hvar málverkið, „Blomsteropsats“, sem merk er númerunum 422 og 489, hafi verið selt hjá uppboðshaldaranum Bruun Rasmussen, hver hefði keypt það, kaupverð verksins, hver hefði verið eigandi þess er verkið var boðið til sölu, hvert söluandvirðið rann, hver hefði verið fyrri eigandi. Jafnframt var óskað annarra upplýsinga er að gagni mætti, koma við rannsókn málsins. Í fyrirspurinni kemur fram að grunur leiki á að hér sé um að ræða verk sem selt hafi verið á uppboði hjá Bruun Rassmusen 10. desember 1986 og því sé haldið fram að málað hafi verið yfir nafnið Vil. Wils og nafn málarans Jóns Stefánssonar falsað á það.
Samkvæmt skýrslu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans í Kaupmannahöfn 9. október 1997 var haft samband við Claus Poulsen, forstjóra Bruuns Rasmussen í Kaupnmannahöfn, og upplýsti hann að samkvæmt upplýsingum sem hann hefði úr skjalasafni/skrám fyrirtækisins hafi myndin „Pelargonie på et bord“ verið seld á uppboði 10. desember 1986 og hafi myndin verið slegin Helge Krex á 2.700 krónur við hamarshögg. Kaupandinn hafi verið Hans Jensen, Kærsangervej 55, Holbæk. Jafnframt segir í skýrslunni að Claus Poulsen hafi upplýst að hann myndi ekki eftir verkinu. Í skýrslu sama rannsóknarlögreglumanns 22. sama mánaðar kemur fram að haft hafi verið símsamband við Hans Jensen, sem hafi sagt að hann myndi ekki eftir málverkinu, en samkvæmt skrám fyrirtækis síns hafi hann komist að því að umrætt verk hafi verið nr. 1125 samkvæmt uppboðsskrá Bruun Rasmussen og hafi verið selt á uppboði nr. 33 í Vejle fyrir 1600 krónur. Hann upplýsti enn fremur að á bakhlið myndarinnar hafi verið mynd af nakinni fyrirsætu. Einnig segir í skýrslunni að Svend Juul Jörgensen, starfsmaður Bruuns Rasmussen í Vejle hafi upplýst í símtali að verkið hafi verið selt ákærða 18. ágúst 1994.
Í framhaldi þessara upplýsinga hafði Arnars Jensson símsamband við ofangreindan Svend Juul 12. nóvember 1997, svo sem fram kemur í upplýsingaskýrslu hans dagsettri þann dag, varðandi kaup ákærða á myndinni „Pelargonie på et bord“. Kemur þar fram að Svend hafi staðfest að ákærði hafi keypt nokkrar myndir á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994. Engin mynd á uppboðinu hafi borið þetta nafn, en Svend hafi sagt að hann myndi eftir þeirri mynd sem hann var inntur eftir í símtali við rannsóknarlögreglumann í Kaupmannahöfn 22. október og lýst var fyrir honum í því símtali sem mynd af rauðri pelargóníu á rauðum undirfleti en gulum bakgrunni. Myndin hafi verið nr. 1125 á uppboðsskránni og borið heitið „Oppstilling på potteplante samt liggende nögen model“. Kvaðst Svend minnast þess að á bakhlið þessarar myndar hafi verið málverk af nakinni konu. Stærð myndarinnar hafi verið 79x58 og höfundurinn Wilhelm Wils, svo sem fram kæmi í uppboðsskránni, en þar kæmi einnig fram að verkið hafi verið undirritað „Wils 12“. Er haft eftir Svend að hann gæti borið kennsl á myndina.
Rannsóknari hafði einnig þennan dag símsamband við Peter Christian Möller framkvæmdastjóra Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn, sem aðspurður kvaðst fús að veita upplýsingar og láta í té gögn í þágu rannsóknar málsins.
Frekari gagna var aflað hjá Hans Jensen, seljanda myndarinnar. Fór Arnar Jensen á fund hans 5. desember 1997 ásamt dönskum lögreglufulltrúa efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans í Kaupmannahöfn. Sagði hann að fyrirtæki sitt, A.P. Hjortsø í Ballerup, fjárfesti nokkuð í málverkum. Málverkin keypti hann sjálfur og annaðist. Kvaðst hann í flestum tilvikum taka polaroid- ljósmyndir af keyptum verkum og halda þeim til haga, en það hefði hann ekki gert í þessu tilviki. Í viðtalinu staðfesti Hans að fyrirtæki hans hafi keypt myndina nr. 422 á uppboði nr. 489 hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn árið 1986. Hún væri efir Wilhelm Wils og hafi hann selt myndina aftur á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994. Sýndi hann lögreglumönnum sýningarskrá síðarnefnds uppboðs og kvað myndina þar skráða nr. 1125. Hans kvaðst muna lauslega eftir myndinni og lýsti henni svo að hún væri af blómi á borði á dökkrauðum grunni en á bakhlið hennar væri ófullgerð mynd af nakinni konu. Hann kvaðst hafa keypt talsvert magrar myndir eftir Wilhelm Wils og taldi sig þekkja nokkuð vel til verka hans. Þetta væri eina myndin sem hann hefði séð eftir Wils sem væri máluð á tréplötu eða masonitplötu. Platan hafi verið farin að verpast, orðin líttilega kúpt. Rannsóknari sýndi Hans ljósmynd af málverkinu, sem merkt er Jóni Stefánssyni, og staðfesti Hans að þetta væri umrætt málsverk. Einnig var honum sýnt ljósrit af handskrift á ramma málverksins og staðfesti hann einnig að áletrunin 422/489 passaði við uppboðstölurnar frá uppboðinu 1986, er hann keypti myndina. Hann hafi keypt myndina með þessari áletrun á rammanum.
Í þessari skýrslu er einnig frá því greint að Hans Jensen hafi afhent Arnari Jensen 5 polaroidmyndir af myndum í eigu fyrirtækis hans, allar eftir Wilhelm Wils. Myndirnar eru uppstillingar af ávöxtum, blómum o.þ.h. og tvær þeirra eru með græna könnu ámóta þeirri og sjá má á mynd þeirri sem fjallað er um í 1. lið ákæru, svo sem rakið verður síðar, þegar fjallað verður um það verk. Þessar myndir voru litljósritaðar og stækkaðar við rannsókn málsins. Haraldur Árnaon rannsóknarlögreglumaður lét litljósrita eina þeirra, eins og síðar verður greint frá í þessum lið, en fyrirtækið Myndhönnun- Nón ehf. hinar. Á þremur þeirra má sjá undirskrift í hægra horni að neðanverðu og var sá hluti skannaður inn í tölvu og síðan prentaður út í litmynd, 20x 40. Á þeim stækkunum má greinilega sjá áritunina „Wils“ með rauðum lit.
Í kjölfar þessa bárust ýmis gögn um listmunauppboðin 18. ágúst 1994 í Vejle og Kaupmannahöfn 10. desember 1986, meðal annars voru lagðar fram framangreindar uppboðsskrár og greiðslugögn varðandi mynd nr. 1125 á upboðsskránni.
Meðal gagnanna var einnig greiðslukvittun Bruun Rasmussen, dagsett 18. ágúst 1994, stíluð á Pétur Gunnarsson, en á henni má sjá skráða við númeradálk númerið 1125 og í texta kvittunar: „W. Wils“ svo og upphæðina 1600. Auk þess er greiddur uppboðskostnaður og skattur (moms). Fram kemur einnig í sömu kvittun, sbr. síðar, að önnur mynd var keypt eftir Wils á þessu uppboði. Á kvittuninni má sjá efst í hægra horni númerið 249.
Við meðferð málsins lagði vitnið Sven Juhl Jörgensen fram afrit handritaðra skilagreina vegna móttöku mynda og úr móttökubók vegna verka á uppboði nr. 33 í Vejle. Gögn þessi sýna að seljandi mynda nr. 1125 og 1126 er fyrirtækið A.P. Holding, fyrirtæki Hans Hinriks Jensen. Þar kemur einnig fram að myndirnar voru seldar, sú fyrri á 1.600 krónur, en sú síðari á 2.600 krónur.
Fram kemur í upplýsingaskýrslu lögreglu 27. mars 1998 að haft hafi verið símsamband við starfsmann Bruun Rasmussen í Vejle og hafi hann upplýst að ákærði hafi sjálfur verið á staðnum, boðið í verkið ásamt öðru verki (sjá síðar svokallað rannsóknartilvik 26, sbr. 1. liður ákæru) og keypt þau. Hann hafi sjálfur útfyllt eyðublað er hann kom inn á uppboðið og fengið um leið úthlutað boðsnúmeri nr. 249. Það númer kæmi síðar fram á reikningi sem gerður var vegna kaupa hans á þessum tveimur málvekum. Sendi starfsmaðurinn rannsóknara með símbréfi sama dag skráningarblað/ boðnúmer frá uppboðinu 18. ágúst í Vejle, sem er meðal gagna málsins, en þar er skráð nafnið Pétur Gunnarsson, með heimilisfang að Pósthússtræti 9, Reykjavík og tiltekinn sími skráður. Kemur þetta heim og saman við þáverandi heimilisfang og síma Gallerí Borgar ehf. Undir skráningarblaðið, en þar kemur fram að skráningarnúmer þessa viðskiptavinar hafi verið 249, er kvittað fyrir móttöku: „Peter G“.
Með beiðni efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra 13. nóvember 1997 til tæknirannsóknarstofu embættisins var þess farið á leit að rannsókn færi fram á undirskrift á málverkinu.
Í skýrslu Haraldar Árnasonar lögreglufulltrúa 18. sama mánaðar, en hann annaðist rannsóknina, segir svo um rannsóknina og niðurstöðu hennar:
„Rannsóknarefni
Til rannsóknar í tæknirannsóknastofu RLS er málverk sem nánar er lýst eftirfarandi:
Málverk í gylltum ramma stærð myndflatar um það bil 78,5x57,5 sm. Myndin er máluð á þykkpappír eða pappa og er af blómstrandi blómi í gulleitum blomapotti sem stendur á dökkrauðum fleti. Mynd þessi er höfundarmerkt Jóni Stefánssyni.
Á bakhlið málverksins er annað málverk af konu sem liggur í sófa og er sú mynd án höfundarmerkingar.
Rannsóknarþættir
Grunur mun leika á að málverkið sem höfundarmerkt er Jóni Stefánssyni sé ekki eftir hann, en lýsing þess mun koma heim við mynd eftir danska málarann Vilhelm Wils. Er óskað tæknirannsóknar á myndinni með það í huga að sú rannsókn leiði fram einhver þau ummerki sem styðji þá kenningu eða séu vísbendingar um annað.
Rannsókn
Föstudaginn 14. nóvember, um kl. 13:30, skimaði undirritaður litarflöt málverksins í VSC (Video Spectral Comparator) tæki, með útfjólubláu ljósi. Tækið er búið breytilegum ljóssíum og er ætlað til að fá fram sjáanlegan mismun þegar ýmis efni, sem annars kunna að vera eins að sjá, gefa frá sér mismunandi ljómageislun. Með skjásíu stillta á 780 nm og ljósgjafasíu á 750 nm ljósbylgjulengdir, kom fram skýr áletrun í neðra, vinstra horn myndarinnar. Ekki er annað að sjá en að áletrunin sé „Wils 12“ en það mun koma heim og saman við höfundarmerkingu danska málarans Vilhelms Wils, þar sem tölustafirnir munu vísa til ártalsins 1912. Á hinn bóginn hefur undirritaður ekki samanburðargögn til að staðfesta að form þessarar áritunar sé í samræmi við þekktar höfundarmerkingar Vilhelms Wils.
Þar sem áletrun þessi kom fram var yfirborðslitur myndarinnar dökkrauður og má þar sjá örla fyrir tölustafnum „2“ með berum augum. Áletrunin kemur fram vegna þess að litarefni í henni gefur sterka ljómageislun við útfjólublátt ljós en yfirborðsliturinn ekki og kemur áletrunin fram sem ljósir, eða lýsandi stafir. Eru þessir þættir sýndir á ljósmynd nr. 3 í viðfestri myndamöppu þar sem áletrunin er sýnd í um það bil x2 stækkun.
Áletrunin er um það bil 1,3 sm á hæð, 6 sm á lengd og er gerð með um það bil 4 mm breiðum strikum og með skriffæri sem gæti auðveldlega verið pensill listmálara. Ekki sjást pensilför í áletruninni, enda er annar litur yfir henni að sjá, en í þessari rannsókn ekki hægt að ákvarða hvort ljómageislunin stafi frá efnisleyfum eftir áletrun sem búið er að má út, eða áletrun sem hulin er þunnu lagi af öðru litarefni.
Að sögn Ólafs Inga Jónssonar, forvarðar, mun hann hafa haft mynd þessa til meðhöndlunar og þá hreinsað ofan af því svæði þar sem áletrunin kom í ljós, en hætt þeirri vinnu er hann uppgötvaði að þar var áletrun undir.
Á bakhlið umræddrar myndar er annað málverk af sömu stærð, málað á bakflöt þykkpappans. Sú mynd er af nakinni konu í rauðum sófa og er myndin án höfundarmerkingar. Þessi mynd var ekki tekin til sérstakrar rannsóknar.
Á þeirri mynd, svo og á bakhlið rammans voru merkingar sem gætu komið til álita við að rekja uppruna verksins. Þessar merkingar voru sem hér greinir:
1.Í efra hægra horni er talan „422“ skrifuð með svörtu tússi.
2.Við vinstri jaðar á handlegg stúlkunnar er talan „27“ skrifuð með rauðum lit.
3.Í efra horni vinstra megin eru tölurnar „422“ og „489“ skrifaðar með blýanti.
Í viðfestri myndamöppu eru ljósmyndir í tengslum við rannsókn þessa og á þeim viðeigandi merkingar.
Niðurstaða
Það er niðurstaða undirritaðs, að niðurstöður VSC skimunar gefi til kynna, að höfundarnafnið „Wils 12“ hafi annað hvort verið máð út eða að málað hafi verið yfir það, á framangreindu málverki sem sýnilega er höfundarmerkt Jóni Stefánssyni og lýst er hér að framan.“
Ríkislögreglustjóri fór þess á leit með bréfi 5. febrúar 1998 við Ólaf Kvaran forstöðumann Listasafns Íslands, að fram færi á vegum safnsins sérfræðirannsókn á málverkinu. Var þess meðal annars beiðst að teknar yrðu ljósmyndir af verkinu við venjulegar aðstæður og undir útfjólubláu ljósi, svo og hvort hluti verksins væri yfirmálaður og hvort undir yfirmálningu væri að finna eldri undirritun. Þá væru teknar ljósmyndir af vefengdum undirritunum og teknar til samanburðar ljósmyndir 10-15 óvefengdra málverka með undirritunum Jóns Stefánssonar sem til eru í eigu Listasafns Íslands. Þá var þess óskað að aflað yrði upplýsinga hjá erlendum sérfræðingum um efnagreiningu sýna af málningu verksins, en síðan færu fram, í samvinnu við rannsóknara og tæknirannsóknardeild ríkislögreglustjóra, sýnatökur og sendingar sýna, auk greiningar niðurstaðna efnagreininganna.
Forstöðumaðurinn fól verkið Viktori Smára Sæmundssyni forverði og starfsmanni safnsins. Efnagreining sýnanna var hins vegar framkvæmd hér á landi, sbr. það sem rakið verður hér síðar.
Í skýrslu Viktors Smára segir svo um verkefnið, sem hann merkir RLS-3, framkvæmd rannsóknar, samantekt hennar og niðurstöðu:
„Verkefni:
Málverk á þykkpappa í gylltum ramma.
Höfundur:Merkt „Jón Stefánsson“.
Myndefni: Uppstilling, blóm í potti.
Áritun:„Jón Stefánsson“ ( málað með pensli og svörtum lit í h. horn að neðan.)
Ártal:
Tækni:Olíulitir.
Burðarlag:Þykkpappi.
Stærð:78 x 57.6 cm...
Rannsóknarþættir
Óskað er eftir að teknar verði ljósmyndir af verkinu við venjulegar aðstæður og undir útfjólubláu ljósi. Einnig að rannsakað verði hvort hluti verksins sé yfirmálaður og hvort undir yfirmálningu sé eldri undirritun finnanleg.
Framkvæmd rannsóknar
Framhlið verksins var ljósmynduð á 35 mm myndavél í rafljósi (tungsten, 3200 °K) og undir útfjólubláu ljósi á litskyggnur og á „negatíva“ litfilmu. Ljósgjafar við ljósmyndun í útfjólubláu ljósi voru fjögur flúrrör (litur 73) sem gefa frá sér ljósbylgjulengdir við u.þ.b. 360 nm. Þar sem rörin gefa einnig frá sér sýnilegt ljós (þ.e. ljós sem mannsaugað nemur) var notuð ljóssía á myndavél nr. 420E (B+W) til að koma í veg fyrir að sýnilegt ljós næði inn á filmuna og minnkaði litaandstæður (kontrast) á filmunni. Einnig var notuð litaleiðréttingarsía nr. 85B (Kodak) til að vega á móti breytingum í litum vegna langs lýsingartíma filmunnar.
Við ljósmyndun í útfjólubláu ljósi kom fram sterk ljómageislun (gul) í fernislagi (-lögum?) sem liggur yfir málningaryfirborði verksins. Bendir það til að fernislagið sé gamalt. Einnig komu fram vísbendingar um yfirmálanir sem sjást sem fjólubláir flekkir víðs vegar um yfirborð myndarinnar mest í vinstra horni að neðan og meðfram vinstri hlið og brún að ofan. *1). (Sjá ljósmyndir nr. 3 og 3a).
Við skoðun í smásjá kom í ljós að um yfirmálanir er að ræða sem liggja ofan á „gamla“ fernislaginu og er yfirmálunarliturinn nokkuð ljósari en sá upprunalegi. Á það sérstaklega við um þær yfirmálanir sem eru yfir rauða lit verksins og er ekki að sjá að málverkið hafi þarfnast viðgerða í þeim lit. (Sjá ljósmyndir nr. 5 og 5a). Á svæði þar sem fram kom, undir útfjólubláu ljósi, mjög dökkur fjólublár flekkur var yfirborð málningarlags slípað og rispað. Miðja þessa svæðis er u.þ.b. 9 cm frá neðri brún og 9 cm frá vinstri hlið og um 70 fersentímetrar á stærð. Svæðið er yfirmálað með rauðbrúnum litum í tveimur blæbrigðum, dekkri og ljósari gerð. Greina má í smásjá að undir yfirmáluninni er rauðgulur (orange) litur sem búið er að slípa og má brott að mestu. (Sjá ljósmyndir nr. 6, 6a, 7, 7a, 8 og 8a). Lengst til hægri á því svæði sem rauðguli liturinn er má greina, jafnvel með berum augum, töluna „12“. (Sjá ljósmyndir nr. 6 og 6a). Framan við hana (til vinstri) má sjá samskonar litaleifar sem virðast eiga að forma orð. Gerð var tilraun til að hreinsa brott yfirmálunarlitinn á þessu svæði. Það reyndist ekki gerlegt nema að litlu leyti því hætta var á að gulbrúni undirliturinn leystist upp.
Með því að leggja þunna glæru (Melinex) yfir niðurslípaða litasvæðið og merkja rauðgulu litaleifarnar inn á glæruna með aðstoð smásjár (stækkun 10-40x) og glærupenna kom fram höfundarmerkingin „Wils“. *2) og *3). (Sjá glæru nr. 1).
Við skoðun í smásjá á árituninni „Jón Stefánsson“ í hægra horni að neðan virðist sem yfirmálunarlitur liggi undir árituninni að hluta. Þetta sést þar sem neðsti hluti fyrra „s“ -ins í „...sson“ liggur yfir yfirmálunarlit og e.t.v. seinna „s“ -ið einnig. Ennfremur virðist „o“ -ið í sama orðhluta liggja ofaná yfirmálun. (Sjá ljósmyndir nr. 9, 9a, 10 og 10a). Áritunin virðist því vera gerð eftir að málað var í myndina.
Samkvæmt flúrljómun fernislagsins lítur það út fyrir að vera gamalt en yfirmáluðu fletirnir á málverkinu geta ekki verið ýkja gamlir ef mið er tekið af fjólubláum lit þeirra í útfjólubláu ljósi. Hversu langt er síðan yfirmálunin átti sér stað, er ekki hægt að fullyrða en samkvæmt reynslu rannsakanda af skoðun viðgerðra málverka og rannsóknum á hegðun litarefnis og bindiefna við lýsingu í útfjólubláu ljósi *4) má ætla að yfirmálunin hafi verið framkvæmd innan síðasta áratugar.
Samantekt
Ofan á „gamalt“ fernislag, sem lykur yfirborð litalags, er víða búið að mála í verkið án sýnilegs tilgangs nema e.t.v. til að dreifa athygli frá yfirmálun á höfundarmerkingu. Reynt hefur verið að eyða höfundarmerkingunni „Wils 12“ af yfirborði málverksins. Höfundarmerkingin „Jón Stefánsson“ virðist að hluta hafa verið máluð ofan á yfirmálunarlit, sem samkvæmt flúrljómun í útfjólubláu ljósi, er ekki ýkja gamall.
Niðurstaða
Af því sem hér hefur verið rakið og stutt meðfylgjandi gögnum eru yfirgnæfandi líkur á að málverk þetta, sem sýnilega er höfundarmerkt „Jón Stefánsson“, sé ekki eftir hann. Höfundur verksins er að öllum líkindum Vilhelm Wils, sem var danskur málari fæddur í Danmörku árið 1880.“
Ríkislögreglustjóri fór þess einnig á leit við forstöðumann Listasafns Íslands með bréfum 5. og 13. febrúar sl. að fram færi á vegum safnsins listfræðileg greining og listfræðilegt mat á málverkinu. Var Júlíönu Gottskálsdóttur, forstöðumanni safnssviðs safnsins, falið verkið.
Í áliti hennar segir þetta um málverkið:
„Myndin sýnir pelargóníu í potti á borði, ögn til hægri við miðju, ásamt dimmblárri krús fyrir framan. Á borðinu til vinstri sést ferhyrnt spjald með handfangi sem hallast upp á við til hægri. Flöturinn í bakgrunni er brotinn upp af ferhyrndum litaflötum ofan til. Horft er frá sama sjónarhorni niður á borðplötuna og hlutina sem þar eru. Birtan kemur frá vinstri og leggur daufan skugga frá hlutunum á borðið. Borðplatan er máluð rauðum lit og flöturinn ýfður upp með dökkum strokum. Skuggar eru sömuleiðis dökkir, en til vinstri eru strokur blandaðar hvítum lit, m.a. í skugganum frá spjaldinu. Flöturinn í bakgrunni er mógulur og hafa gleið og breið lóðrétt strik verið dregin á flötinn, ýmist með grænum eða rauðleitum lit. Litafletirnir í bakgrunni eru sömuleiðis dregnir breiðum lóðréttum pensilstrokum, en formmótun þeirra er óskýr. Mynd blómsins og blómapottsins er ekki heldur mótuð með litnum. Renna blöðin saman í óljósa eintóna litafleti og rúmtaki pottsins eru gerð lítil skil.
Myndefnið, þ.e. uppstilling með blómi og hversdagslegum hlutum, ber með sér að höfundur verksins hefur haft kynni af franskri málaralist frá ofanverðri 19. öld. Einn róttækasti fulltrúi hennar og helsti áhrifavaldur í norrænni myndlist á fyrstu áratugum 20. aldar var málarinn Paul Cézanne. Meðal þess sem norrænir listamenn tóku sér til fyrirmyndar í list hans var framsetning sem braut í bága við hefðbundna miðjufjarvídd með því að sýna hluti á sama fleti frá mismunandi sjónarhornum. Annað atriði var óakademísk litameðferð þar sem leitast var við að móta form og rými eða dýpt með litnum og samspili andstæðulita.
Jón Stefánsson tilheyrir þeim hópi norrænna listmálara sem varð fyrir áhrifum af list Cézannes og tamdi sér vinnubrögð hans í framsetningu og litameðferð. Frávik frá miðjufjarvídd og mótun forma og rýmis með mörgum litatónum, þar sem neðri litalög rifa í gegnum þau efri, ásamt stuttum og þéttum pensilstrikum, eru helstu einkenni málverka Jóns og meðul hans til persónulegrar túlkunar. Áhrif þeirrar litameðferðar eru m.a. þau að blæbrigðaríkir fletir virðast virkir, formin mótuð með litnum og þétt í sér og ljósstyrkur litarins efldur.
Umrætt málverk ber ekki þau einkenni sem hér hafa verið nefnd sem höfuðeinkenni verka Jóns Stefánssonar. Framsetning og túlkun er með öðrum hætti en gerist í verkum hans, bæði í myndskipan og litameðferð. Sú aðferð Jóns að mála lagskift og móta form með samspili lita, er heldur ekki viðhöfð í þessu verki. Þar eru litafletirnir eintóna sem reynt hefur verið að lífga með pensildráttum án þess að tekist hafi að skapa samspil litanna. Því verður ekki séð að höfundur verksins hafi ásett sér eða honum hafi tekist að nota litina á þann veg sem lýst hefur verið og telja má til höfuðeinkenna listar Jóns Stefánssonar.
Er fátt í þessu verki sem ber höfundareinkenni Jóns Stefánssonar.“
Með bréfi ríkislögreglustjóra 13. maí sl. til Raunvísindastofu Háskóla Íslands var þess farið á leit að fram færi litrófsgreining (FTIR) á 24 sýnum, þar á meðal sýnum af málverkinu, sem hér er fjallað um, rannsóknartilvik 23 og þeim málverkum, sem getið er í 1. og 2. lið ákæru. Viktor Smári Sæmundsson og Haraldur Árnason afhentu sýnin daginn eftir. Fram kemur í rannsóknargögnum ríkislögreglustjóra um sýnatöku úr þessum málverkum að Viktor Smári tók sýnin að Haraldi viðstöddum. Með sýnunum fylgdi ljósmyndamappa með myndum af ljósmyndum af málverkunum, en þær voru teknar í útfjólubláu ljósi og merkt er á þeim við þá staði, sem sýnin voru tekin úr. Sýnin voru tekin úr myndinni sem hér segir og lýst er þannig í skýrslu Haraldar og Viktors um sýnatökuna: A) Svartur litur úr áritun. Grunur um að í litnum væri alkýd efni. B) Brúnn litur við ofanverðan vinstri jaðar. Grunur um yfirmálun. C) Bleikur litur úr blómi. Útfj.bl.ljós gefur vísbendingu um olíulit. D) Ljósbrúnn litur. Grunur um yfirmálun.
Dr. Sigurði Jakobssyni, sérfræðingi á jarðfræðistofu Háskólans, var falið verkið. Í áliti hans 8. júní sl. kemur fram að í ljós hafi komið með litrófsgreiningu með FTIR aðferð (Transform inform infrared) að efnin í sýnunum úr þessu málverki voru þessi: A) Alkýð, B) Olía C) Bæði olía og fernis, sl. Dammar og D) Alkýð.
Sérfræðingnum var einnig falið með sama hætti með bréfi 14. maí sl. að rannsaka 37 litasýni úr málverkum, þar með talin litasýni úr 10 málverkum í eigu Listasafns Íslands sem talin eru óvefengd verk Jóns Stefánssonar. Sýnin, sem öll eru merkt með mismunandi tölum, voru tekin og afhent á sama veg og framangreind 24 sýni. Samkvæmt niðurstöðu sams konar litrófsgreiningar dr. Sigurðar sýndu þau öll að í þeim var hreinn olíulitur. Ljósrit skrásetningarspjalda sjö málverkanna sýna, að þrjú eru merkt með ártali, 1921, 1923 og 1944 og samkvæmt upplýsingum listasafnsins eru önnur fjögur málverkanna frá árunum 1918, 1924 og tvö frá 1929.
Ákærði var handtekinn 10. desember 1997, þar sem hann hafði ekki sinnt ítrekaðri áskorun lögreglu um að leggja fram umbeðin gögn í þágu rannsóknar málsins þrátt fyrir langan frest. Í nóvember sama ár var jafnframt gerð leit á heimili hans og starfsstöð annars vegar í þeim tilgangi að leita að bókhaldsgögnum og skjölum, sem gætu varðað viðskipti með málverk og myndir seldar á vegum Gallerís Borgar, en hins vegar í þeim tilgangi að leggja hald á gögn er gætu tengst ætluðum brotum og að rannsaka myndir, liti, pappír og annað er tengjast kynni málun og innrömmun mynda. Fór leit fram í kjölfar húsleitarúrskurðar. Fram kemur í skýrslu Arnars Jenssonar 7. febrúar 1998 að hald hafi verið lagt á allt bókhald félagsins og það fært í húsnæði efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, svo sem síðar verður rakið, er fjallað verður um II. kafla ákæru. Viðstaddur húsleitina á starfsstöð ákærða voru fulltrúi skattrannsóknarstjóra, sem yfirfór haldlögð bókhaldsgögn ásamt Arnari að leit lokinni, en í framhaldi þess var rætt við Júlíönu Gísladóttur viðskiptafræðing sem annaðist bókhaldið.
Ákærði var yfirheyrður hjá rannsóknarlögreglu um málverk það sem hér er fjallað um, rannsóknartilvik 23, í yfirheyrslu 11. desember 1997 í kjölfar handtöku og jafnframt voru honum kynnt rannsóknargögn þá og í síðari yfirheyrslum. Í fyrstu yfirheyrslu 11. nóvember kvaðst hann ráma í það að hann hefði keypt myndina í Kaupmannahöfn en ekki í Vejle. Hann kvaðst engar skýringar hafa á því að myndin virðist hafa verið merkt öðrum höfundi. Vísaði hann í því efni til skýringa og svara, sem fram koma í ofangreindu bréfi lögmanns hans 29. október 1997, við fyrirspurnum um eigendasögu ýmissa málverka, meðal annars þessa verks. Er jafnframt eftir honum haft að honum detti helst í hug að hann hafi keypt ódýra mynd í stórum góðum ramma á uppboðinu í Vejle árið 1994, en síðan sett mynd eftir Jón Stefánsson í rammann. Við skýrlsugjöf 24. sama mánaðar var ákærða kynnt niðurstaða tæknirannsóknastofu ríkislögreglustjóra og jafnframt að rannsókn hafi leitt í ljós að myndin „Uppstilling“, sem seld var á uppboðinu í Sjallanum á Akureyri árið 1995, væri sú sama og keypt hafi verið á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994. Skýrði hann þá svo frá að hann hafi hvorki vitað að undirskriftin væri fölsuð né hefði hann falsað hana sjáflur. Kvaðst hann minnast þess að hafa keypt nokkrar myndir í Vejle á uppboði 1994, en mundi ekki sérstaklega eftir mynd nr. 1125 eða hvernig sú mynd leit út. Hann hafi hins vegar keypt þrjár myndir á þessu uppboði eftir Júlíönu Sveinsdóttur, ómerktar landslagsmyndir, sem síðar voru seldar á á uppboði í Gallerí Borg. Síðar í yfirheyrlsunni er haft eftir ákærða að hann hafi tekið myndina eftir Wilhelm Wils nr. 1125 úr rammanum, ásamt annarri mynd eftir sama höfund (sjá síðar um 1.lið ákæru), en skilið sjálf málverkin eftir hjá Jónasi Freydal Þorsteinssyni í Kaupmannahöfn. Hann kvaðst ekki muna hvar þeir hittust, en minnti að hann hafi látið hann hafa myndirnar tvær á hótelherbergi sínu í Kaupmannahöfn. Síðan hafi hann farið með rammana heim til Íslands í þeim tilgangi að nota þá utan um aðrar myndir hér heima og taldi að rammarnir hafi verið notaðir utan um einhverjar myndir sem Gallerí Borg eða hann sjálfur átti. Kvaðst ákærði einnig hafa keypt myndir í Kaupmannahöfn í september 1994 og fundið í gærkvöldi ljósrit af kvittunum, sem hann hafi gefið seljendum fimm mynda, sem hann keypti í þeirri ferð. Meðal þeirra greiðslukvittana væri kvittun fyrir sölu myndar eftir Jón Stefánsson, sem hann taldi vera mynd þá sem rannsóknartilvik 23 snýst um. Ákærði kvaðst engar skýringar geta gefið á árituninni 422, sem væri á ramma myndarinnar. Hann kvaðst hafa keypt myndina af óþekktum kaupanda, einhverjum S. Hansen á 4.500 danskar krónur, eins og ljósrit framangreindrar kvittunar, sem hann lagði fram, bæri með sér.
Framangreind kvittun, er handrituð og dagsett í sept. Í henni segir: „I dag har betalt for maleri af: Jón Stefánsson Blomster og model 4-500. modtt. S. Hansen.“
Í skýrslu 29. nóvember 1997 var ákærða kynnt efni ofangreinds svarbréfs þáverandi verjanda hans, 29. október 1997, um rannsókanrtilvik 23. Kvað hann Jón Ragnarsson hafa sagt að starfsmaður Morkinsskinu hafi haft eftir dóttur Jóns Stefánssonar, sem kom þangað og skoðaði myndina, að hún kannaðist við fyrirsætuna aftan á myndinni. Kvaðst hann nú hafa keypt mynd á uppboði í ágúst 1994 í Vejle, mynd á sýningarskránni nr. 1125, og fullyrti að hann hefði undir höndum ljósmynd af málverkinu, sem hann hafi skilið eftir hjá Jónasi Freydal. Þetta málverk væri því ekki það sama og málverkið, sem hann keypti í Vejle.Þar skýrði hann svo frá að viðstöddum verjanda sínum, Björgvini Þorsteinssyni hæstaréttarlögmanni, að þetta málverk, rannsókartilvik 23, hafi hann keypt í Vejle á margnefndu uppboði, sem þar hafi verið merkt 1125, en skilið myndina eftir hjá Jónasi Freydal Þorsteinssyni. Myndina, sem seld var á uppboð félagsins á Akureyri 21. maí 1995, hafi hann hins vegar keypt af óþekktum seljanda í Kaupmannahöfn í september 1994 og því væri ekki um sömu mynd að ræða. Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvort hann tók rammann af þessari mynd sem hann keypti í Vejle eða hvort hann skildi hann eftir á myndinni sem hann lét Jónas hafa. Afhenti ákærði við yfirheyrsluna litljósrit af fjórum ljósmyndum af málverkum, sem hann kvað hafa verið teknar í íbúð Jónasar í Kaupmannahöfn, og fullyrti ákærði að tvær þeirra sýndu þessa tilteknu mynd. Jónas hefði nýlega fundið myndirnar. Samkvæmt skýrslu lögreglu, 1. desember 1997, lagði ákærði þá fram gögn þau, er hann minntist á í síðastgreindri yfirheyrslu. Var hér um að ræða litljósrit fjögurra ljósmynda, en á tveimur þeirra, myndum nr. 2 og 4, má sjá málverk, sem líkjast mjög málverkinu „Uppstilling“. Sagði ákærði að litljósmyndir þessar væru frá Jónasi Freydal, sem hafi tekið þær á árinu 1994 í íbúð sem hann leigir í Kaupmannahöfn. Jónas hafi sagt sér að hann hafi sett málverkið upp á vegg í þessari íbúð. Framburður ákærða var á sama veg í yfirheyrslu 11. desember og við yfirheyrslu 1. sama mánaðar að öðru leyti en því, að hann sagðist ekki muna nákvæmlega hvort hann tók rammann af myndinni, sem hann keypti í Vejle (nr. 1125) eða hvort hann skildi hana eftir á myndinni sem hann lét Jónas Freydal hafa. Við þessa sömu yfirheyrslu voru ákærða sýnd ljósrt 5 reikninga frá Bruun Rasmussen í Vejle, sem lögregla aflaði, varðandi kaup hans á 9 málverkum á uppboðinu 18. ágúst 1994. Hann kvaðst ekki muna eftir þessum myndum, en taldi þó líklegt að 3 þeirra væru myndir sem hann keypti eftir Júlíönu Sveinsdóttur. Þá vísaði hann til fyrri framburðar um myndir nr. 1125 og 1126. Er ákærða voru kynntar við rannsókn málsins niðurstöður rannsókna tæknideildar ríkislögreglustjóra, Viktors Smára Sæmundssonar, og skýrsla Júlíönu Gísladóttur kvaðst hann ekkert vilja tjá sig um þær.
Við meðferð málsins sagði ákærði að hann hefði aldrei selt málverk sem hann hefði haft grun um að væri falsað, hvað þá að hann hefði tekið þátt í að falsa það sjálfur. Hann kvaðst vera menntaður sem myndlistarmaður frá Fjónsku Listakademíunni Óðinsvéum, í Danmörku, en þar hafi hann stundað nám í 5 ár á málarasviði.
Er ákærða var sýnd í dóminum mynd, sem fjallað er um í 3.lið, rannsóknartilvik nr. 23, kvaðst hann kannast við myndina. Hana hafi hann keypt í Kaupmannahöfn á 4.500 D.kr. í september ´94 og seljandi samkvæmt framangreindri kvittun væri S. Hansen.
Ákærði kvaðst ekki vilja tjá sig um þá fullyrðingu í kæru að grunur léki á því að myndin væri eftir Vilhelm Wils, meðal annars á þeim forsendum að sjá megi það af áritun hennar svo og því að númerið á rammanum 422 sé frá uppboði Bruun Rasmussen eða geti verið frá uppboði Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn 10. desember 1986. Kvaðst ákærði minna að það væri rétt að myndin hafi verið nr. 69 samkvæmt uppboðsskrá Gallerí Borgar fyrir uppboð á Akureyri 21. maí 1995.
Ákærði kvaðst vefengja rannsóknarniðurstöðu Haraldar Árnasonar rannsóknarlögreglumanns í ljósi þess að hann hafi fundið við skimunina merkingu á ómerktri mynd, en ákærði kvaðst hins vegar ekki þekkja tæknina sem notuð væri við þessa skimun. Er ákærða var bent á að efst í rammanum til hægri á myndinni standi 422 og efst í rammanum til vinstri stendur 422/489, sem er samkvæmt lýsingu Hans Jensen uppboðsnúmer og númer myndarinnar þegar hann keypti hana í Kaupmannahöfn 1986 og samkvæmt upplýsingum hans væri þetta myndin sem seld var fyrir hann á uppboði í Vejle 18. ágúst 1994, benti ákærði á það að venja væri að merkja myndirnar líka með númeri því sem þær hefðu á viðkomandi uppboði. Svo væri hér ekki, því númerið 1125 væri ekki að finna á þessari mynd.
Er ákærða var sýndur ofangreindur reikningur stílaður á hann frá Bruun Rasmussen um kaup á mynd 1125 benti hann á að þetta væri vegna kaupanna á myndinni sem hann keypti á uppboðinu í Vejle og hefði afhent Jónasi Freydal í Kaupmannahöfn og skilið þar eftir. Litljósmyndir þær sem hann hefði afhent við rannsókn málsins og fengið hjá Jónasi af þeirri mynd sem hann keypti í Vejle væri greinilega ekki sama myndin og myndin sem fjallað er um í 3. lið ákæru, rannsóknartilvik 23. Ákærði sagði, er honum var á það bent að rannsóknartilvik 23 væri einnig með mynd á bakhliðinni af nakinni konu, að hann kannaðist við það. Báðar þessar myndir hafi farið um hans hendur, og ítrekaði hann að aðra hafi hann keypt í Kaupmannahöfn af S. Hansen, en hina á umræddu uppboði 18. ágúst í Vejle. Er ákærði var nánar að þessu spurður af verjanda sínum sagði hann að hann myndi ekki eftir þessari mynd á bakhliðinni. Hann myndi ekki eftir þessum myndum, sem hann keypti þarna í Vejle, enda hafi hann aðallega verið að horfa í rammana.
Ákærði kvaðst hafa greitt virðisaukaskatt af myndinni, svo sem reikningur frá Bruun Rasmussen bæri með sér, enda hafi hann ekki ætlað að flytja þá mynd inn í landið og skilið hana eftir hjá Jónasi Freydal. Í rauninni hafi hann verið að sækjast eftir og kaupa rammann af mynd nr. 1125 á uppboðinu í Vejle, en ekki myndina. Hann hafi aldrei ætlað að flytja myndina sjálfa til Íslands. Aðrir reikningar sem liggi frammi í málinu frá sama uppboði, vegna kaupa hans á myndunum þremur eftir Júlíönu Sveinsdóttur, sýni hins vegar að hann hafi ekki greitt virðisaukaskatt af þeim, enda ekki þurft þess þar sem hann hafi tekið þær með sér til Íslands. Taldi ákærði að andvirði rammans, sem hann kvað vera með blaðgyllingu, væri um 30-40.000 krónur. Ákærði taldi að ef myndin, sem fjallað er um í 3. lið ákæru væri óumdeilanlega eftir Jón Stefánsson væri andvirði hennar e.t.v. um 250.000 krónur, enda væri hún ekki „týpisk“mynd eftir Jón Stefánsson og ekki eins góð og þær sem um er fjallað í hinum liðum ákæru.
Ákærði kvaðst hafa kynnst Jónasi Freydal er þeir voru í samkeppni um kaup listaverka í Danmörku. Þeir hafi boðið í upphafi á móti hvor öðrum á uppboðum og Jónas selt þau verk sem hann keypti fyrir milligöngu Gallerís Borgar. Síðar hafi hann kynnst honum betur og þeir þá farið að vinna saman og hætt að bjóða á móti hvor öðrum. Þeir hafi þá keypt sameiginlega verk eða ákveðið að Jónas keypti þetta verk eða ákærði hittt. Að öðru leyti hafi hann haft lítil afskipti af Jónasi.
Viktor Smári Sæmundsson kom fyrir dóminn og staðfesti rannsókn sína á verkinu. Hann kvaðst hafa stundað nám og tekið próf í málverkaforvörslu frá Konunglegu Dönsku Listakademíunni, Konservatorskólanum í Kaupmannahöfn, sem væri þriggja ára samfellt nám og samsvari BS gráðu. Hann kvað starfs sitt felast í því að vinna að fyrirbyggjandi starfi listaverka safnsins þannig að varðveisla verkanna væri sem best. Í starfinu felist einnig viðgerðir á verkum, bæði fyrirbyggjandi forvarsla og viðgerðir á skemmdum verkum svo og rannsóknir á listaverkum og greiningar. Hann sagði að aðdragandi þess að hann hafi tekið að sér að rannsaka þetta málverk, og málverkin í 1. og 2. lið ákæru, hafi verið með þeim hætti að haldinn var fundur í safninu og þar hafi ríkislögregla spurst fyrir um það hvort listasafnið eða starfsmenn þess gætu tekið að sér vinnu við rannsóknir á málverkum sem hefðu verið kærð til embættisins. Á fundinum hafi verið auk hans, Arnar Jensson, Haraldur Árnason, og Ólafur Kvaran. Síðar hafi formleg beiðni borist um að hann sinnti ákveðnum rannsóknum á tilteknum málverkum og hafi Ólafur Kvaran falið honum verkið.
Viktor Smári gerði í dóminum nánari grein fyrir rannsóknum sínum og þeim rannsóknaraðferðum, sem lýst er í þremur skýrslum hans, með sýningu litskyggna í dóminum.
Viktor Smári staðfesti að 4 sýni hafi verið tekin úr myndinni, meðal annars úr árituninni „Jón Stefánsson“ svo og á þeim stöðum sem sýndust vera yfirmálaðir þegar myndin væri skoðuð undir útfjólubláu ljósi og einnig úr öðrum stöðum. Eins og fram hafi komið í litrófsgreiningu Dr. Sigurðar Jakobssonar á öllum þremur myndunum, sem fjallað er um í málinu, hafi komið fram að alls staðar í yfirmáluninni hafi komið fram alkíð. Mjög sterk fylgni hafi verið á milli þess sem útfjólubláu ljósin gáfu til kynna og þeirra niðurstaðna sem komu frá greiningunni á bindiefninu.
Alkýð væri í tveimur sýnanna og mjög sterk fylgni hafi verið á milli þess, sem útfjólubláu ljósin gáfu til kynna og þeirra niðurstaðna sem komu frá greiningunni á bindiefnin. Flúrljómunin hafi fyrst og fremst ráðið því hvar sýnin voru tekin úr myndinni og hinum tveimur myndanna. Sagði vitnið að það væri viðurkennt að því eldra sem efni væri því meiri yrði flúrljómun þess ef það flúrljómaði á annað borð. Tiltölulega fá ný efni flúrljómuðu hins vegar. Í útfljólubláu ljósunum sæist hins vegar mikið misræmi í aldri á olíunni eða á litnum. Það sem væri fjólublátt, dökkblátt, væri yfirleitt ungt. Það væri ekki gamalt. Til dæmis skæri 200 ára gömul viðgerð sig úr á 300 ára málverki og viðgerðarefnið þá farið að flúrljóma. Ljómunin yrði að hans mati aldrei eins á verkinu og viðgerðinni.
Vitnið kvaðst erfitt að segja til um það hversu gömul yfirmálunin í verkinu gæti verið Hann taldi ekki að hún gæti verið frá árunum 1930-40, þar sem svo gömul málning ætti að vera ljósari á litinn og meiri flúrljómi að koma fram, en hér hafi við flúrljómun komið fram dökkfjólublár litur. Hann kvað mjög erfitt að segja hve gamlir yfirmálunarlitir í verkinu gætu verið, en hann hafi skoðað þau verk sem hann hafi gert við undanfarin 10 ár undir útfjólubláu ljósi og samanborið við þær gætu þeir verið innan við 20 ára, en ekki sé hægt að aldursgreina verk með þessum hætti.
Vitnið sagði að eftir því sem hann kæmist næst væru elstu dæmi þess að alkýð fyndist í listmálaravörum, hvort sem það væru litir, litbindiefni eða þurrkefni, frá því um 1968. Alkýðlitir hafi fyrst verið settir á markað sem litir í túpum í kringum 1978. Litbindir til þess að setja út í olíuliti hafi verið til á Íslandi frá 1973. Alkýð væri hins vegar þekkt sem efni í málningu og hafi það komið fyrst á markað um 1930 sem iðnaðarmálning á vinnuvélar, tæki og þess háttar. Vitnið kvað alkýðefni einnig hafa verið í svokölluðum hobbílitum, sem notaðir hafi verið við að mála, t.d. í litum við að mála „módel.“ Þessir litir væru aftur á móti afskaplega þunnir, þeir væru eins og húsamálning og lökk. Taldi vitnið það afar ólíklegt að Jón Stefánsson hefði notað slíka iðnaðarliti í undirritun málverks Byggði vitnið þá skoðun sína á því að gamlir málarar, sem voru uppi á sama tíma og Jón, hefðu sagt að hann hafi haft mikinn áhuga á olíu og alltaf verið að breyta til að þróa nýjar aðferðir, sérstaklega með tilliti til olíunnar. Þetta hafi verið hans sérstaka áhugamál.
Aðspurður hvort hann teldi að einhver samkenni megi sjá á málun Jóns Stefánssonar, annað hvort með efni eða aðferð, sagði vitnið að það gæti ekki farið út í listfræðilegar greiningar í þessu sambandi, en í sínu starfi fengi hann mjög nákvæma tilfinningu fyrir efni. Hann hafi gert við mörg verka Jóns, en efnið í þessum myndum og efnismeðferðin minnti hann ekki á verk Jóns. Vitnið sagði að þornunartími olíu og alkíðs með alkíðbindiefni væri mjög ólíkur. Þornunartími olíu væri mjög langur og benti vitnið því til áréttingar á það að hann hefði til meðferðar málverk frá 1960 sem nánast væri blautt ennþá. Alkýð eða alkýðblandaður litur þornaði aftur á móti á einum degi eða innan við einum degi.
Um það álitaefni hvort forvörður hefði getað farið, við viðgerð á myndinni og myndunum í 1. og 2. lið, yfir áritunina með slíkum alkíð efnum, t.d. til þess að skerpa hana, sagði vitnið að svo gæti ekki verið. Hann hefði séð það í smásjánni ef um fleiri en eitt lag hefði verið að ræða. Hann hefði farið ofan í þessar áritanir með hníf til þess að taka sýni og það væri eitt af einkennum alkýðlita, að þegar farið sé með beittan hníf í þau rúllist sýnið upp. Þetta væri áþekkt því þegar nær frosið smjör er skrapað. Þegar aftur á móti sé um gamlan olíulit að ræða sé sýnið yfirleitt stökkt. Vitnið sagði að þessa vinnu væri verið að endurtaka, m.a. kannað hvort undirritanir lægju undir málningu.
Þá sagði vitnið að mörg atriði gætu haft áhrif á flúrljómageislun, einkum efnið sjálft, bindiefni og svo lýsing á hlutinn. Vegna margra óvissuþátta við flúrljómun hafi þótt rétt að fá frekari greiningu með litrófsgreiningu. Vitnið benti á það að fylgnin á milli þess hluta málverkanna, í 1.-3. lið ákæru, sem flúrljómaði ekki og þess sem reyndist vera alkíðefni og plastefni væri ótrúlega mikil. Sagði vitnið að það krefist þjálfaðs auga að geta séð hvað svona flúrljómun þýddi. Ljósmyndir þær sem sýndar hafi verið í málinu gefi um það góða vísbendingum en ekki komi allt fram á ljósmyndum, sem sjáist með berum augum. Vitnið sagði að ef farið væri með hreinsiefni yfir hluta málverks hefði það hverfandi áhrif á flúrljómun, sem fram kæmi fyrir og eftir hreinsunina.
Vitnið sagði að farið hafi verið fram á það af hálfu ríkislögreglustjóra að sjá hvað kæmi út úr rannsókn vitnisins og hvort ástæða væri til að fara í yfirgripsmiklar rannsóknir, t.d. greiningu litarefna, leit að framleiðanda, nánari greiningarljósmyndun, t.d. með infrarauðu- vidikontæki, röntgengreiningu eða gegnumlýsingu. Ekki hafi verið talin þörf á þessu.
Vitnið Júlíana Guðrún Gottskálksdóttir, forstöðumaður safnsviðs Listasafns Íslands, kvaðst hafa lokið phil.cand prófi frá Lundarháskóla í listfræði, bókmenntum, leikhús- og kvikmyndafræðum árið 1973 og prófi frá Arkitektaskóla Listakademíunnar í Kaupmannahöfn árið 1986. Hún kvaðst hafa stunda doktorsnám í listfræði við Lundarháskóla og tæki það nám meðal annars til verka frumherjanna í íslenskri byggingalist. Hún kvaðst hafa unnið við safnið undanfarin 11 ár sem deildarstjóri og haft þar umsjón með safni Ásgríms Jónssonar og eldri deild listasafnsins, þ.e.a.s verkum manna sem voru starfandi á fyrri hluta þessarar aldar. Starf hennar felist í yfirumsjón og stjórnun fimm fagdeilda og mótun sýninga í samvinnu við forstöðumann, fjármálaábyrgð og áætlunargerð. Hún sagðist hafa kynnt sér verk Jóns Stefánssonar sem myndlistarmanns í starfi, þar sem hann væri frumherji íslenskrar myndlistar. Hún hafi komið að yfirlitssýningu á verkum hans í Listasafni Íslands 1989 og skrifaði þar stuttar greinar um valin verk sem birt voru í sýningarskrá. Auk þess hafi hún skrifað stutta grein um Jón í danskt listamannatal, sem verið sé að gefa út nú í nýrri útgáfu. Þá hafi hún skrifað um listamanninn í stærra samhengi í greinum, sérstaklega í ritum Listasafns Íslands. Hún sagði að kynni sín af listaverkum Jóns í eigu Listasafnsin Íslands væru grundvöllurinn að kynnum hennar af verkum Jóns en safnið ætti um 110-115 verk eftir hann. Hún hafi auk þess komið beint og óbeint að yfirlitssýningunni að verkum hans sem haldin hafi verið fyrir tæpum 10 árum. Á þeirri sýningu hafi verið 118 verk úr Listasafni Íslands, en einnig mikið úr einkaeign og bæði frá Íslandi og annars staðar að. Hún sagðist hins vegar ekki hafa kynnt sér verk hans í stærri söfnum einkaaðila.
Vitnið sagði um feril og starf Jóns Stefánssonar að hann væri fæddur á Sauðárkróki 1881. Hann hafi lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík aldamótaárið og þá haldið til Kaupmannahafnar í verkfræðinám og stundaði það nám um tveggja ára skeið. Hann hafi horfið frá því námi og hafið nám í myndlist, fyrst árið 1903, sótt undirbúningsnámskeið í Teknisk Selskabs Skole. Hann hafi sótt einkaskóla danska málarans Christians Zartmanns frá 1905 til 1908. Haustið 1908 hafi hann farið til Parísar og verið þar í þrjú ár fram til 1911 og sótti þar skóla franska málarans Matisse. Vitnið sagði að sér væri ekki kunnugt um það að til væru myndir eftir Jón frá námsárum hans og benti á það að í bók Poul Uttenreitter, sem út var gefin árið 1936 og unnin í samvinnu við Jón Stefánsson, kæmi fram að ekki sé kunnugt um verk hans sem eru eldri en frá 1916. Hann hafi fyrst tekið þátt í sýningu árið 1919, sem var samsýning myndlistarmanna, á haustsýningu listamanna í Kaupmannahöfn, sem haldin var á Den Frie Udstillingsbygning í Kaupmannahöfn. En fyrstu einkasýningu sína hafi hann haldið í Reykjavík árið 1920 í húsi KFUM.
Vitnið sagði að það sem helst einkenndi verk Jóns Stefánssonar væri ákaflega markviss og meðvituð vinnubrögð, mjög skýr myndbygging þar sem leitast sé við að skapa ákveðið samræmi með samstillingu. Það sé mjög formræn hugsun í verkum Jóns, hann stilli saman andstæðum formum, þ.e. láréttum, lóðréttum línum sem í huga áhorfandans vekja upp hugmyndir um kyrrstöðu. Á móti þeim stilli hann gjarnan skáhallandi línum sem myndi ákveðna spennu. Margar landslagsmyndir hans séu einkennandi fyrir það að þær séu ákaflega miðlægar, hann leitist við að samræma andstæður. Þessu hafi hann vel gert grein fyrir bæði í riti og í viðtölum. Hann leitist við að skapa ákveðið samræmi á milli bakgrunns og forgrunns, bæði í formi og í litum, þannig að bakgrunnur sé jafn virkur og forgrunnurinn.
Vitnið sýndi í dóminum nokkrar litskyggnur til áréttingar framburði sínum um sérkenni Jóns Stefánssonar sem málara. Myndirnar sýna ámóta viðfangsefni og þau málverk sem ákæran lítur að, uppstillingar á borði, m.a ávexti, könnur og borð í bakgrunni.
Með eftirfarandi lýsingu í mati sínu um rannsóknartilvik 23 kvaðst vitnið vera að lýsa stíl Jóns Stefánssonar sem málara: „Frávik miðju, fjarvídd og mótun forma og rýmis með mörgum litatónum þar sem neðri litalög rifa í gegn um þau efri ásamt stuttum og þéttum pensilstrikum eru helstu einkenni málverka Jóns og meðul hans til persónulegrar túlkunar. Áhrif þeirrar litameðferðar eru meðal annars þau að blæbrigðaríkir fletir virðast virkir, formin mótuð litunum og þéttir í sér og ljóstyrkur litarins efldur.“ Í umræddri mynd í 3. tl. ákæru komi ekki fram þessi einkenni. Sagði vitnið að heildaráhrif við áhorf myndarinnar væru þau að myndin væri ákaflega flöt. Efri hluti myndarinnar, sem væri mógulur flötur, og neðri hlutinn, sá rauði, virtust vera „í sama plani“. Ekki væri hægt að átta sig á því hvort ljósið félli frekar á þann flöt sem er í lóðréttri stöðu eða þann flöt sem hugsanlega á að vera í láréttri stöðu. Mótunina, birtu litarins, þar sem birtan er hluti af formmótuninni, vantaði. Hún taldi einnig að blómið á myndinni væri mjög ólíkt því sem Jón hafi málað. Þarna vanti líf, safa og ákveðna munaðartilfinningu í blómið. Það ætti samkvæmt hans stíl að virðast angandi af lífi og hreyfanlegt. Þá vanti alla formmótun í blómið. Liturinn á því væri eintóna, útlínurnar væru mjög óljósar og þetta væri litaflötur sem hafi mjög óljóst form, sem að mati vitnisins væri mjög frábrugðið aðferð Jóns við að mála liti. Jafnvel í síðari myndum hans, þar sem liturinn fái meira tjáningagildi, sé alltaf fyrir hendi þessi litstyrkur. Það sé liturinn sem mótar formið, en ekki einhverjar útlínur.
Vitnið sagði að sú lýsing í mati þess að ekki sé fyrir hendi í myndinni að málað sé lagskipt og form mótuð með samspili, heldur séu litafletirnir eintóna sem reynt hafi verið að lífga með pensildráttum, án þess að takist, eigi t.d. við um forgrunninn. Þar sé þessi dimmrauði litur. Það rofi aðeins í ljósari fleti en það sé ekki samspil lita. Svo komi dökk strik og að mati vitnisins gráir tónar, sem blandaðir hafi verið hvítu. Svo virðist sem það hafi verið sett nokkuð jafnt yfir allan flötinn en ekki einstök atriði til þess að draga fram tiltekið rúmtak. Þetta sé ekki málað lagskipt þótt málað sé yfir ákveðið lag. Meðvitaða lagskipta málningu, þar sem hvert atriði sé svona mótað þannig að það rifi á milli laganna, skorti.
Vitnið sagði að erfitt væri að svara því hvort hér gæti ekki verið um að ræða verk Jóns málað á slæmum degi, en taldi þó hæpið að svo væri, því þar kæmi hvergi fram hin markvissa litameðferð sem iðulega megi finna í verkum Jóns. Menn væru mistækir, en þótt verk góðs málara geti verið misjöfn að gæðum sé alltaf í þeim ákveðið höfundareinkenni. Gæðaflokkarnir geti verið mismunandi, en það væru viss höfundareinkenni sem vitnið taldi að væri að finna í verkum Jóns. Þar sé unnið með litinn. Hreinir litir vinni saman og margir litir móti ákveðin form, litatóna. Þessi þéttleiki sem Jón skapi með litnum gefi forminu þennan þéttleika. Þessi einkenni séu nokkuð gegnum gangandi í myndum Jóns burtséð frá því hvort þau séu máluð á slæmum degi eða ekki.
Vitnið Ólafur Kvaran forstöðumaður kvaðst vera með doktorspróf í listasögu frá Háskólanum í Lundi. Hann sagði að kynni sín af list Jóns Stefánssonar tengdust fyrst og fremst því að hann hafi haft umsjón með yfirlitssýningu sem var á verkum Jóns í Listasafni Íslands árið 1989 og valið verkin og skrifað texta um Jón í bók sem gefin var út á vegum safnsins í tilefni sýningarinnar. Þá hafi hann skipulagt minni yfirlitssýningu í Norræna húsinu um svipað leyti. Markmið slíkra yfirlitssýninga sé fyrst og fremst að gefa greinargott yfirlit yfir feril viðkomandi listamanns og lyfta fram sterkustu hliðum listamannsins og það leiði að sjálfu sér að þá fari fram ákveðin rannsókn á ferli hans og aðstæðum og því kvaðst vitnið hafa kynnt sér þau mál. Hann hafi falið Júlíönu Gottskálksdóttur að gera listfræðilegt mat hinna þriggja umdeildu mynda er beiðnin barst um listfræðilega greiningu. Hún hafi sérsaklega lagt sig eftir list frumherjanna, það er að segja þessara aldamótalistamanna. Hún hafi um langt bil verið deildarstjóri fyrir safni Ásgríms Jónssonar og einnig tengst beint sýningunni á verkum Jóns árið 1989 þar sem hún skrifaði um og gerði greiningar á nokkrum höfuðverkum Jóns í safninu. Sagði vitnið að hún væri ákaflega hæf hvað varðar gott yfirlit og þekkingu á myndlistarmönnum þessa tíma. Þess vegna hafi hann falið Júlíönu þessa listfræðilegu greiningu. Kvaðst vitnið vera sammála þeim niðurstöðum sem Júlíana komst að að því er varðar þau málverk sem mál þetta snýst um og tók undir þá fullyrðingu Júlíönu að höfundareinkenni Jóns Stefánssonar séu mjög sterk. Benti vintið á að Jón hafi verið boðberi nýrra hugmynda í íslenskri myndlist á sínum tíma og komið heim með viðhorf sem fyrst og fremst séu kennd við franska frumkvöðulinn og listamanninn Cézanne. Hann hafi bryddað upp á ýmsum nýjungum í myndlist sem lúti að andstæðuríkri litanotkun á myndfleti, dýpt og formmótun og hafi Jóni Stefánssyni tekist að skapa sér mjög persónuleg höfundareinkenni. Það komi t.d. inn á alla formmótun, mjög blæbrigðaríka formmótun sem sé í hans myndum. Þetta sé ákaflega sterkt einkenni í myndum hans. Væru þessi höfundareinkenni Jóns, sem gangi eins og rauður þráður í verkum hans, annars vegar höfð í huga og hins vegar litið á hin umdeildu verk í málinu, sé það alveg ljóst, að listrænt markmið í þessum þremur verkum sé annað heldur en fram komi í megineinkennum verka Jóns Stefánssonar. Ekki verði séð að tekist sé á við grundvallareinkenni í list hans í þessum myndum, bæði að því er varðar litrænar endurtekningar eða tengingar og formótun, sem tengist andstæðuríkri litanotkun Jóns. Það sama væri að segja um málverkið aftan á myndinni í 3.tl. ákæru.
Vitnið sagði að myndirnar þrjár væru mjög á skjön við það sem sé rauður þráður í allri myndlist Jóns Stefánssonar og taldi að þegar litið væri til þeirra sterku höfundareinkenna gæti Jón ekki hafa ekki hafa málað þessar myndir eða tekist illa upp með eigin stíl. Þetta væri augljóst þegar litið væri á myndirnar.
Ólafur kvaðst hafa falið Viktori Smára tæknilega greiningu verkanna þriggja, enda heyrði það verk undir forvörslu og hann væri deildarstjóri þeirrar deildar í forvörsludeild safnsins. Viktor Smári væri mjög fær starfsmaður og hefði bæði hæfni, menntun og mikla reynslu, sem gerði það að verkum að hann gæti leyst verkefni af þessu tagi. Hann hafi verið starfsmaður safnsins um 10-11 ára skeið.
Vitnið staðfesti að þær 10 myndir sem Listasafnið sendi í tilefni rannsóknar þessa máls til sýnatöku til Dr. Sigurðar Jakobssonar væru óvefengdar myndir eftir Jón Stefánsson, enda væri hér um meginverk hans að ræða. Vitnið kvaðst hafa kynnt sér elstu myndir Jóns, sem málaðar voru skömmu fyrir 1920. Framangreind höfuðeikenni í myndlist hans komi strax fram í fyrstu verkum hans.
Vitnið benti á, að fram kæmi mjög skýrt í framangreindri bók um Jón Stefánsson, sem Poul Uttenreitter gaf út 1936, að elstu myndir hans séu frá árunum 1916 til 1917. Bókin hafi verið skrifuð í mjög nánu samstarfi við Jón og fullyrða megi að Jón hafi lesið texta bókarinnar yfir fyrir útgáfuna, enda hafi þeir Uttenreitter verið nánir vinir. Vísaði vitnið í því efni til bréfaskifta á milli þeirra. Vitnið sagði að ekkert benti til þess að Jón hafi málað umdeild þrjú verk á einhverju byrjunarskeiði í hans málaralist og kvaðst ekki vita hvort hann málaði eitthvað á námsárunum fyrir 1916. Vitnið kvaðst ekki þekkja dæmi þess að frumkvöðlarnir, eldri listmálararnir, t.d. faðir hans, Karl Kvaran, hafi málað yfir léreft annarra málara.
Sigurður Jakobsson, sérfræðingur á Raunvísindstofnun Háskóla Íslands, kvaðst vera jarðfræðingur frá Háskóla Íslands, síðan verið um 5 ára skeið við Ríkisháskólann í Arizona og lokið þar doktorsprófi 1984 í efnafræði. Sérfræðinám hans hafi aðallega snúist um efnafræði á bergi og öðru slíku og tilraunum þar að lútandi. Hann staðfesti að hann hafi annast ofangreindar litrófsrannsóknir og gögn þau liggja frammi í málinu og varða greiningu hans. Sagði vitnið að um væri að ræða svokallaða innfrarauða litrófsgreiningu. Sýnin sem hann fékk hafi verið afarsmá og greind með smásjá, innrauðri smásjá. Vitnið lýsti greiningunni á þann veg að sýnið væri sett undir smásjána og síðan væri settur á það innrauður geisli. Við það örfist sýnið og sendi frá sér ákveðin merki sem séu svo numin í tækinu. Þetta væri síðan skrifað út á pappír, svo sem gögn þau sýni er fylgdu svarbréfi hans um rannsóknina 8. júní sl. Hvert efni hafi ákveðið litróf sem komi fram við greininguna. Það mætti líkja þessu við fingraför manna, þannig að hvert efni sem á annað borð væri virkt hefði sitt eigið fingurfar. Í þessu tilviki hafi hann verið beðinn um að greina málningu og um hvers konar bindiefni væri að ræða, einkum hvort alkýð eða olía væri í sýninu. Málning sé þannig að hún samanstandi yfirleitt af þrem hlutum. Í fyrsta lagi af bindiefni sem geti verið olía eða alkíð eða akríl eða eitthvað slíkt. Í öðru lagi af litarefni sem gefi málingunni lit sem geti verið ýmsar steintegundir sem notaðar voru, sérstaklega áður fyrr, eða lífræn efni, sem væru notuð nú til dags e.t.v. meira. Í þriðja lagi af fylliefni sem væru til þess að gefa málningunni fyllingu og til þess að gefa henni einhverja áferð sem sóst er eftir.
Vitnið sagði að þessi litrófsgreining með innfrarauðum geisla væri mjög áreiðanleg greining, alveg ótvíræð. Það væri ekki hægt að komast hjá því að sjá þessi efni ef þau væru þarna á annað borð. Það sem hann greindi að auki í sýni 23-C hafi verið sýni sem í var bæði olía og ólitað efni eins konar filma sem hékk utan á. Þetta hafi örugglega ekki verið alkýð, sennilega fernis. Vitnið sagði að í alkýðlitum væri einng olía. Alkýð væri bindiefni, sem sett væri í olíuna til þess að hún þornaði fyrr. Olía væri einnig bindiefni. Olíulitir sem listamenn nota, væru lengi að þorna, jafnvel ár, en alkýðlitir þorni mjög fljótt. Kvaðst vitnið sjálfur hafa prófað hversu fljótt alkýðlitir þornuðu borið saman við olíu og þeir hafi verið sæmilega harðir á sólarhring, yfirborðið orðiðr vel hart á sólarhring, svo hart að úr því var unnt að taka sýni.
Ólafur Ingi Jónsson kvaðst hafa lokið námi sem forvörður frá Instituo per l´arte e il restoauro í Flórens á málverkasviði, málverkum á tré og striga. Námið væri 3ja ára nám, 2ja ára grunnnám í skólanum en þriðja árið sérnám. Hann kvaðst nú hafa 14 ára starfsreynslu. Vitnið kvað starfið felast í því að koma verki í sem best horf aftur, meðal annars með því að gera við skemmdar myndir og hreinsa þær.
Ólafur Ingi kvaðst hafa óskað eftir að lögð yrði fram kæra vegna myndarinnar í 3. tl. í framhaldi af öðrum kærum er hann hafði lagt fram hjá rannsóknarlögreglu. Myndina hafi hann fengið í viðgerð á vinnustað sinn, Morkinskinnu, hjá eiganda hennar, Jóni Ragnarssyni, sem hafi komið með hana til hans í beinu framhaldi af uppboðinu á Akureyri. Hann kvaðst hafa skoðað myndina vel í upphafi. Hún hafi verið öðruvísi en önnur verk sem hafi verið kærð, þar sem hún hafi verið máluð á þunnan pappa, ekki masónít, sem ekki væri einkennandi fyrir Jón Stefánsson. Öll elstu verk sem hann hafi séð eftir Jón væru máluð á striga, oftast mjög fínan striga ætlaðan til andlitsmyndagerðar. Síðar er Jón kom heim til Íslands hafi hann málað á frekar grófan striga og málað mikið þykkar. Málningin á umræddri mynd, tilvik 23, hafi verið mjög þunn, sama sem flöt. Hann hafi þá haft litla reynslu sem málverkaeltir. Dóttir Jóns og tengdasonur hafi komið í Morkinskinnu að honum fjarstöddum og skoðað verkið. Hann hafi síðar séð númerin á bakhliðinni, sem væru mjög einkennandi fyrir uppboðshús Bruun Rasmussen, númerið væri skrifað með blýanti og með sömu skrift og finnist á mörgum öðrum verkum sem vitnið kvaðst hafa haft til rannsóknar frá uppboðshúsinu. Í kjölfar þess að hafa fengið staðfestingu úr bækling í eigu Listasafs Íslands um að þetta númer væri uppboðsnúmer Bruun Rasmussen hafi hann skoðað myndina betur þar sem hann hafi séð yfirmálanir á myndinni áður. Í þessum uppboðsgögnum Bruun Rasmussen hafi komið fram að myndin væri merkt Wils 12. Hann hafi gert prufur á yfirmálningunni og athugað hvort hún hefði áhrif á málverkið sjálft. Ekki hafi margir staðir á málverkinu komið til greina að undir væri skriftin Wils 12. Hann hafi leitað á þeim stað sem var líklegastur og strax komið niður á tölustafinn 2. Þetta hafi hann gert með leysiefni úr lífrænu hreinsiefni sem hafi ákveðinn styrkleika. Hreinsiefnið sé notað við hreinsanir á þykkum gömlum fernis og dugi einnig oft til að hreinsa í burtu yfirmálanir. Hann hafi gert sér grein fyrir að yfirmálunin var ekki olía og því kannað það betur með því að hreinsa með ísóprópanól, vægu hreinsiefni, sem myndi ekki hreinsa upp olíu heldur öll annars konar efni sem væru af léttara kyni eða nýrri gerð. Við þessa vinnu hafi hann notað útfjólubláan lampa, sem stækkar 10 sinnum, og smásjá, sem stækkar 30 sinnum. Áritunin hafi komið mjög greinilega fram í útfjólubláu ljósi. Hann kvaðst ekkert annað hafa gert við myndina, einungis hreinsað hana. Hann hafi skilið eftir hluta af yfirmáluninni yfir árituninni og gert ráðstafanir til að kæra yrði lögð fram, enda hafi honum heldur ekki fundist myndin neitt lík verkum Jóns Stefánssonar, bæði af samanburði við af verk og ljósmyndir. Stílbragðið væri alls ekki Jóns, myndin væri öll mjög dökk, en þessi dökki litur væri málaður á þann veg sem finna mætti í verkum Jóns Stefánssonar. Hann kvaðst hafa kynnt sér það að stíll Wilhelms Wils, sem var samtímamaður Jóns, hefði þróast. Þetta væri eina myndin sem hann hefði séð í þessum dúr eftir Wils. Seinna hefði hann málað þykkar og formað á allt annan hátt, málningin verið með greinanlegum pensilförum. Málverkið sé málað á samanþjappaðan pappa, ekki masónít. Honum hafi heldur ekki fundist undirritun verksins nógu sannfærandi borið saman við óvefengda undirskrift Jóns. Hann hafi einnig borið saman undirskriftina á glærum og borið þær saman við sannanlegar undirskriftir Jóns. Vitnið sagði að Jón Ragnarsson hafi komið með myndina „Blómauppstillingu“ til hreinsunar og ferniseringar til Morkinskinnu. Jón hafi einnig grunað að myndin væri fölsuð, honum hafi fundist verkið slegið sér á afskaplega lágu verði. Verkið væri málað á samanþjappaðan pappa, en ekki masónít eins og sumir málarar hafi notað um síðustum aldamót. Jón Stefánsson hafi stundum málað á masónít.
Vitnið sagði að umrædd málverkið hafi ekki verið viðgert, það hafi hins vegar verið yfirmálað. Hann kvað forverði hafa strangar siðareglur og þeir vinni eingöngu á þeim svæðum sem vanti í málverk og tilteknar reglur gildi um það hvernig það sé gert. Til dæmis myndi forvörður sem væri að gera við svæði, þar sem áritun hefði sannanlega verið, ekki setja hana á málverkið.
Jón Ó. Ragnarsson kom fyrir dóm við rannsókn og meðferð málsins og staðfesti að hann hafi keypt málverkið á uppboðinu á Akureyri. Kvaðst hann hafa keypt myndina í þeim ramma sem hún nú er í. Hann hafi ekki skoðað hana áður, en slegið fram boði og orðið hissa á því að myndin hafi verið slegin á svo lágu verði, bjóst við að mynd eftir Jón Stefánsson yrði ekki slegin svo lágt. Honum hafi litist vel á myndina en forsenda kaupanna hafi þó verið að hún var sögð eftir Jón Stefánsson. Eigendasaga hafi ekki fylgt myndinni, hún hafi verið illa farin og hann farið með hana í Morkinskinnu. Myndin hafi litið illa út, m.a umgerðin. Hann hafi átt mikil viðskipti við Morkinskinnu og fari reglulega með myndir þangað til viðgerðar, eftirlits og viðhalds. Minnti vitnið að eitthvað smávægilegt hafi verið brotið upp úr því eða rispur verið á því sem hann vildi láta lagfæra. Í viðtali við Ólaf Inga og Hilmar í Morkinskinnu hafi komið fram að ólíklegt væri að myndin væri eftir Jón Stefánsson. Ólafur hafi sagt sér nokkru síðar að dóttir Jóns hafi komið þangað og litið á myndina og þá sagt að myndin væri líklega eftir föður sinn, hún hafi jafnvel talið sig þekkja módelið á bakhlið hennar. Síðar hafi Ólafur Ingi sagt honum að myndin væri fölsuð og kvaðst vitnið þá hafa snúið sér til lögmanns sem lagði fram kæru fyrir hans hönd. Vitnið sagði að það hafi viljað koma því á framfæri við lögregluna að grunur léki á því að myndin væri fölsuð, en þar sem hún hafi verið seld honum svo ódýrt hafi hann ekki talið sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni og því ekki krafist refsingar eða skaðabóta.
Hans Henrik Jensen kom fyrir dóminn og bar vitni.
Hans staðfesti að rétt væri eftir honum haft í framangreindum upplýsingaskýrslum dönsku og íslensku lögreglunnar og kannaðist við að hafa afhent lögreglu ýmis gögn, sem lýst er hér að framan, m.a uppboðsskrár. Kvaðst vitnið varðveita allar sínar uppboðsskrár.Hans benti á myndina í 3. lið ákæru í dóminum og sagði að þetta væri sama myndin og hann hafi selt á listmunauppboði nr. 33 í Vejle 1994 og merkt væri nr. 1125 í skrá þess uppboðs. Vitnið kvaðst þekkja myndina meðal annars af því að þetta væri eina myndin sem hann hafi átt sem Wils hafi málað á masonít eða krossviðarplötu og sú eina sem hann hefði átt eftir Wils þar sem mynd væri af nöktum einstaklingi á bakhliðinni. Vitnið kvaðst hafa keypt þessa mynd hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn árið 1986, en þar sé myndin á uppboðsskránni nr. 422 og sögð sig. Wils 12. Talan 12 merki ártalið sem málverkið var áritað. Vitnið kvaðst telja að myndin hafi verið höfundarmerkt, enda hafi það komið fram í báðum uppboðsskránum, en kvaðst ekki muna nánar hvar né hvernig, en rámaði í að myndin hafi verið merkt í horni. Er vitninu var kynnt niðurstaða skimunar tæknirannsóknarstofu ríkislögreglusjóra á myndinni og sýnd ljósmynd skimunar kvaðst vitnið ekki muna hvort áritunin hefði verið á þessum stað.
Er honum voru sýnd númerin á horninu aftan á myndinni, 422/489, sagði Hans að þetta væru númer frá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn.
Hans voru sýndar litljósmyndir þær, sem ákærði kvað teknar í íbúð Jónasar Freydal og kvað sýna myndir nr. 1126 og 1125 er hann keypti á uppboðinu í Vejle. Sagði vitnið að þessar myndir sýndu ekki myndir þær er hann seldi þar, meðal annars mætti sjá tvö blóm á svipaðri mynd á tveim litljósritanna, en eitt á málverkinu, rannsóknartilviki 1125. Hann sagði að eftir því sem hann vissi best hefði Vilhelm Wils áritað myndir sínar „Wils“.
Claus Poulsen, forstjóri hjá Listmunauppboði Brunn Rasmussen í Kaupmannahöfn, kom einnig fyrir dóminn. Hann sagði að í sínum höndum væri öll umsýsla og verkstjórn og framkvæmd uppboða. Kvaðst vitnið þekkja ákærða í sjón, hann væri einn viðskiptavina fyrirtæksins. Vitnið skoðaði bakhlið myndarinnar í 3. lið ákæru, rannsóknartilvik 23. Hann sagði að númerin í horni myndarinnar 422/489, sem eru með hring utan um, þýddu að málverkið hafi verið nr. 422 í uppboðsskrá á uppboði 489. Sagði vitnið að út frá þessu númeri gæti hann séð að þetta hafi líklega verið selt í lok níunda áratugarins, ´89, ´90. Vitnið sagði að við komu mynda á uppboð væru myndir skráðar á bakhlið. Efra númerið, 422, væri raðnúmer, þ.e. númer málverksins í uppboðsskránni og hitt númerið fyrir neðan, 489, væri númerið á uppboðinu sjálfu. Mynd þessi hafi því verið seld á uppboði nr. 489 og verið nr. 422 á því uppboði. Vitnið sagði að fyrirtæki hans merkti allar innkomnar myndir með þessum hætti, þ.e. hring utan um númer myndar fyrir ofan strik og og númer uppboðs fyrir neðan það strik.
Hann sagði að önnur uppboðsfyrirtæki merki innkomnar myndir annað hvort með límbandi á blindrammann eða með sams konar áritun talna með hring í kring.
Þeir noti einnig þá merkingu að setja sjálflímandi hvíta límmiða, 3 x 5 cm, á rammana.
Vitnið sagði að fyrirtæki hans reyndi að afla eigendasögu málverks ef það væri mögulegt, en gat ekki um það borið í hve mörgum prósentum tilvika það væri gert. Vitnið bar að þegar kaupandi á uppboði hjá fyrirtæki hans vildi fá slíka eigendasögu, en seljandinn vildi ekki koma fram, gæfi fyrirtækið ekki upp hver væri seljandinn. Hins vegar héldi fyrirtækið sýnar skrár um þetta.
Vitnið sagði að verk danska málarans Wils væru ódýr verk, hann hafi málað mikið af svipuðum uppstillingum og fram koma á myndunum sem mál þetta snýst um.
Vitnið Sven Juhl Jörgensen, starfsmaður Bruun Rasmussen í Vejle, staðfesti að hann hefði sent lögreglu ljósrit framangreinds reiknings fyrirtækisins útgefinn 18. ágúst 1994. Sagði vitnið að reikningurinn bæri með sér að ákærði hefði greitt fyrir tvær myndir, nr. 1125 og 1126, á uppboði nr. 33 og hafi þar haft viðskiptanúmerið 249, svo sem nánar er lýst hér að framan.
Staðfesti vitnið fyrir dóminum þau gögn er hann lagði þar fram, þ.e. afrit handritaðra skilagreina vegna móttöku mynda á uppboði nr. 33 í Vejle. Kvaðst vitnið minnast þess að Hans Jenssen hafi afhent myndirnar nr. 1125 og 1126 fyrir hönd fyrirtækisins sem seldi þær og myndirnar hafi selst á uppboðið á 2.600 og 1.600 krónur.
Vitninu var sýnt ofangreint símbréf kvittunar vegna móttöku verka á uppboðinu 18. ágúst í Vejle, þar sem meðal annars er skráð nafnið Pétur Gunnarsson og aðrar persónuupplýsingar, svo og númerið 249, og kvittað fyrir móttöku: „Peter G“. Staðfesti vitnið að númerið 249 væri viðskiptanúmer á nafn Péturs Gunnarssonar á þessu uppboði, og að móttakandi væri samkvæmt þessum gögnum Peter G. Upplýsingar þessar væru færðar inn annað hvort af starfsmanni eða móttakanda, en undirskriftin væri þess sem hefði veitt verkunum móttöku.
Vitnið sagði að útlit myndarinnar og áritunin 422 í horninu aftan á rammanum á myndinni kæmi heim og saman við lýsingu myndarinnar og númer hennar á uppboðsskránni á uppboði nr. 33 í Vejle. Þar kæmi einnig fram að málverk sé einnig á bakhlið myndarinnar, en þetta væri ein fárra mynda sem Wils hafi málað á þann hátt. Þá kvaðst vitnið enn fremur tengja þessa mynd við uppboðið í Vejle þar sem þetta væri eina málverkið sem það hafi séð eftir Wilhelm Wils þar sem hann hafi málað á tré.
Vitnið sagði, er það var innt eftir því hvers vegna engar krítarmerkingar væru á þessu verki, eins og í rannsóknartilviki 26, en þar væri krítarmerkið 1126, að merkin afmáðust auðveldlega. Svo væri hins vegar ekki í aðaldeild fyrirtækisins í Kaupmannahöfn þar sem myndir væru blíantsmerktar með númerum og hringur dreginn í kring með blýanti eða með tússlit. Vitnið sagði að „Wils 12“ í skránni merkti að listamaðurinn hefði áritað þessa mynd 1912.
Vitninu var sýnd ljósmynd af skimun Haraldar Árnasonar þar sem fram kemur að því er virðist áritunin Wils 12 og sagði vitnið að þetta væri dæmigerð áritun Wilhelms Wils.
Er vitninu voru sýndar litljósmyndir þær sem ákærði lagði fram af myndum þeim sem hann kveðst hafa keypt á nefndu uppboði, meðal annars af mynd sem líkist mjög rannsóknartilviki 23, sagði vitnið að það myndi ekki hvort það væri þetta málverk, sem selt var á uppboðinu, en margt sem fram kæmi á römmum rannsóknartilviks 23 benti til að það væri málverkið sem hafi verið selt á uppboðinu.
Vitnið sagði að greiða þyrfti virðisaukaskatt af verkum sem keypt eru í Danmörku, en ef verk væru flutt úr landi fengist hann endurgreiddur. Hann kvaðst ekki geta um það sagt hvers vegna sumir reikninga til ákærða bæru með sér að greitt hafi verið virðisaukaskattur af þeim en ekki af öðrum. Svo virtist sem tveir ritarar fyrirtækisins hefðu gert þetta á mismunandi hátt.
Vinið, Jónas Freydal Þorsteinsson, var yfirheyrður um málverk þetta 10. desember 1997 á skrifstofu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans í Danmörku. Arnar Jensson annaðist yfirheyrsluna og hana voru viðstaddir Jón H. Snorrason, saksóknari máls þessa, og danskur lögmaður vitnisins. Var Jónasi bent á að hann væri vitni, en jafnframt bent á ákvæði danskra laga um réttarstöðu sakbornings. Hann sagði að undanfarin ár hafi hann keypt nokkuð mikið af málverkum í Danmörku og selt nokkur þeirra á Íslandi. Nokkur þeirra hafi hann selt í Gallerí Borg í eign nafni. Hann hafi tekið flestar myndanna, sem hann hafi selt, með sér í farangri og ákærði hafi stundum tekið myndirnar með sér í farangri hingað til lands. Hann kvaðst ekki vita hversu mikið hann fékk greitt fyrir myndirnar, en það væri ekki rétt sem bókhaldsgögn Gallerís Borgar sýni, að hann hafi móttekið samtals um 5 milljónir króna á árunum 1994-1996 fyrir þessi verk, því í sumum tilvikum hafi hann tekið myndir upp í andvirði mynda, sem hann seldi á uppboði fyrirtækisins. Hann kvaðst hafa móttekið hjá ákærða nokkur málverk sem ákærði keypti á uppboðinu í Vejle í ágúst 1994. Meðal þeirra hafi verið málverk, sem líktist rannsóknartilviki 23, en vitninu var sýnt ljósrit af þeirri mynd við yfirheyrsluna. Ákærði hefði tekið rammana með sér heim, en skilið málverkin eftir. Hann kvaðst hafa tekið ljósmynd af þessu málverki, sem nú héngi upp á vegg í íbúð, sem hann leigði út í Kaupmannahöfn. Hann hafi ekki verið með ákærða er hann keypti myndina og fyrst séð hana er ákærði kom með hana til sín til Kaupmannahafnar eftir uppboðið í Vejle. Honum var sýnt litljósrit það er ákærði lagði fram við yfirheyrslu hjá lögreglu og kvað hann þetta ljósrit af þeim myndum sem hann eða starfsmaður hans tók af myndunum. Hann sagðist ekki vera viss hvort hann ætti þessar myndir enn.
Við meðferð málsins sagði Jónas að hann væri málarameistari að mennt, en eftir að hann kom til Kaupmannahafnar hafi hann síðan stundað nám við Frederiksberg Tekniske Skole, meðal annars í tækniteiknun og samskiptum iðnaðarmanna og arkitekta. Vitnið kvaðst reka eignarhaldsfélag sem reki fasteignir og fjárfesti í hinum ýmsu hlutum, fyrirtækjum og fasteignum. Hann kvaðst hafa töluverð umsvif í sölu og kaupum málverka. Þetta væri hans áhugamál og hann safnaði mörgum myndum. Þessi umsvif hans væru ekki eins mikil og hjá Gallerí Borg, en þar kvaðst hann kaupa um 5 eða 10 myndir á ári. Hann kvaðst kaupa erlendis um 10- 15 myndir á ári, stundum færri. Hann kvaðst hafa kynnst ákærða sem forsvarsmanni Gallerís Borgar og sem samkeppnisaðila í listaverkakaupum. Hann hafi ekki átt nein bein viðskipti við ákærða, en hins vegar hafi hann átt viðskipti við Gallerí Borg, bæði áður og eftir að ákærði var í forsvari fyrir fyrirtækið. Ekki væri um að ræða samstarf eða samvinnu. Hann hafi selt eða látið selja nokkra tugi málverka fyrir sig hjá Gallerí Borg og einnig keypt töluvert af myndum hjá fyrirtækinu. Sumum myndanna hafi hann skipt á og notað sumar upp í greiðslur. Þá sagðist vitnið hafa keypt myndir í Danmörku og selt þær hjá Gallerí Borg. Þær myndir hafi hann ýmist flutt með Flugleiðum, flutt sjálfur í farangri eða látið aðra flytja fyrir sig í farangri. Þannig hafi ákærði tekið myndir fyrir sig og vitnið fyrir Gallerí Borg.
Vitnið kvaðst ekki hafa verið á uppboði Bruun Rasmussen í Vejle 18. ágúst 1994, en hann hafi hins vegar boðið í myndir á því uppboði í gegnum síma.
Vitnið kannaðist við litljósmyndir þær er ákærði segir vera af myndum úr íbúð vitnisins í Kaupmannahöfn. Sagði vitnið að þessar ljósmyndir væru frá sér komnar. Myndirnar hafi verið teknar í tilefni af ljósmyndatöku fyrir bækling, sem prentaður var í byrjun eða lok ársins 1994 og notaður var árið eftir. Bæklingurinn hafi verið gefinn út fyrir nokkrar ferðaskrifstofur, meðal annars ferðaskrifstofu, sem vitnið kvaðst reka. Þessi ferðaskrifstofa væri með ferðamannaíbúðir. Hann kvaðst ekki muna hvenær myndirnar voru teknar, en taldi að það hafi verið á þeim tíma sem sjá megi á myndunum, þ.e. 12. júlí 1994 eða 7. desember 1994. Hann kvaðst hafa tekið litljósrit af myndunum og sent ákærða, en minnti að ákærði hafi síðan fengið frumritin hjá sér í Kaupmannahöfn. Hann sagði að þrjú málverkanna sem væru á litljósmyndunum úr íbúð sinni hafi hann fengið hjá ákærða, fyrst til geymslu og síðan hafi hann notað myndirnar í ferðamannaíbúðirnar. Hann hafi svo greitt ákærða fyrir eina myndina með gömlu korti af Íslandi. Hann hafi fengið þessar myndir hjá ákærða í framhaldi af uppboði í Vejle, en ákærði hafi sagt að hann hafi verið að kaupa þar ramma á tvær myndanna og ætlaði því ekki að taka þær myndir með til Íslands. Starfsmaður vitnisins hafi svo látið þær í ramma. Ákærði hafi spurt hvort hann mætti skilja þær eftir. Hann kvaðst minnast þess að ákærði kom með myndirnar eftir umrætt uppboð, þar sem hann hafi boðið á móti Pétri á uppboðinu í Vejle í þrjár ómerktar myndir eftir Júlíönu Sveinsdóttur. Ákærði hafi keypt þessar myndir og hann hafi hitt ákærða til að skoða þær. Vitnið kvaðst ekki muna hvenær þetta var. Hann minnti að mynd sú, sem líkist rannsóknartilviki 23, hafi verið máluð á bakspjald, masónít eða álíka, og aftan á annarri hvorri myndinni hafi verið málverk af konu, dæmigerð módelmynd. Vitnið kvaðst ekki geta lýst myndinni af henni nánar. Þegar vitninu var sýnd bakhlið rannsóknartilviks 23 bar vitnið að þetta væri ekki sama myndin.
Vitnið kvaðst hafa selt á uppboði í Kaupmannahöfn tvær myndanna sem hann fékk hjá ákærða.
Vitnið sagðist ekki hafa selt ákærða neina myndannna sem mál þetta snýst um. Hann kvaðst ekki muna hvort hann var á uppboði í Gallerí Borg 1. september 1994, en hins vegar væri ekki ólíklegt að hann hafi átt myndir á því uppboði, enda kæmi hann oft hingað til lands á uppboð. Vitnið staðfesti greiðslukvittun þar sem fram kemur að Gallerí Borg greiddi vitninu í tilefni þessa uppboðs, 300.000 krónur. Hann sagði að þessi greiðsla væri þó ekki endilega út af sölu myndar eða mynda, þar sem fyrir hafi komið að ákærði hafi verið í Kaupmannahöfn og stundum hafi hann lánað ákærða peninga Þetta gæti því verið sala á einni mynd og greiðsla upp í skuld.
Vitnið Þórhallur Arnórsson kom fyrir dóminn, en hann var ekki yfirheyrður við rannsókn málsins, enda var rannsóknurum ekki kunnugt um þetta vitið fyrr en við undirbúning aðalmeðferðar. Er vitninu var bent á myndirnar þrjár í dómsalnum, sem fjallað er um í málinu, kvaðst það kannast við myndina í 3. tl., rannsóknartilvik 26. Taldi vitnið að hann hafi séð mynd þessa hanga á vegg í Gallerí Borg í Pósthússtræti. Er vitnið var fyrst spurt um það hvenær þetta var, svaraði vitnið að það hafi trúlega verið sumarið 1994. Ákærði hafi þá verið starfsmaður í galleríinu. Hann hafi boðið ákærða litla Kjarvalsmynd í skiptum fyrir umrædda mynd, en ekkert hafi orðið af þeim skiptum. Verðhugmyndin hafi verið um 4-500.000 krónur. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa verið á uppboðinu þegar myndin var seld, taldi að hann hafi ekki komið til Reykjavíkur í ágúst og byrjun september þetta ár. Síðar í yfirheyrslunni kvaðst vitnið mjög líklegt að hann hafi verið á þessu uppboði þar sem hann sækti flest uppboð. Nánar spurður um það hvenær sumars hann hafi séð myndina sagði vitnið að það hafi „frekast verið svona í júlí ´94“. Er vitninu var bent á að grunur léki á því að þessi mynd hafi verið í Danmörku á uppboði 18. ágúst þetta ár sagði vitnið að það mundi halda að það hafi verið fyrr sem hann sá málverkið hanga uppi í Gallerí Borg. Nánar spurður hvort hann væri viss um þetta sagðist vitnið halda að það væri „pottþétt“ að þetta hafi verið í júlí. Hann hafi flutt bíla milli Akureyrar og Reykjavík og í júlímánuði hafi hann flutt bíl á milli. Sagði vitnið nú að þetta væri örugglega sama myndin. Hann kvaðst hafa átt viðskipti við Gallerí Borg frá því að það opnaði, en nefndi ekki frekar á þessu stigi yfirheyrslunnar í hverju þau viðskipti fólust.
Vitnið kvaðst telja að þetta væri sami ramminn og var á myndinni sem hann sá sumarið 1994 í Gallerí Borg. Hann kvaðst ekkert hafa vitað um þessa mynd fyrr en hann sá hana í dóminum og því ekki hafa vitað um hvað hann yrði spurður. Sagði vitnið ítrekað aðspurt, að ef þetta væri ekki sama myndin, væri hún a.m.k. mjög lík. Vitnið kvaðst hvorki hafa rætt við ákærða um tilboð sitt í myndina sumarið 1994 né myndina eftir að hann gerði í hana tilboð.
Vitnið kvaðst kannast við myndina í 3. lið ákæru, rannsóknartilvik 23, sennilega hafi hann séð hana á uppboði á Akureyri eða í Reykjavík. Vitninu var bent á það að fram kæmi að uppboðið, þar sem þessi mynd var seld, hafi verið á Akureyri og haldið með fyrirtækinu Listhúsið Þing. Kvaðst vitnið þá aðspurt vera eigandi þessa fyrirtækis og hafa verið í samstarfi við ákærða um uppboð. Hann hafi útvegað ákærða húsnæði til að halda uppboð á Akureyri. Síðasta uppboðið sem þeir stóðu að saman hafi verið 21. maí 1995. Hann kvaðst ekki hafa keypt eða selt myndir á þeim uppboðum, en keypt af ákærða nokkur verk utan uppboða. Hann sagðist síðast hafa komið á uppboð Gallerís Borgar síðastliðið haust, en engin viðskipti átt við ákærða á því uppboði og engin viðskipti væru nú milli fyrirtækja ákærða og vitnisins.
Loks verður hér rakinn framburður annarra vitna, sem komu fyrir dóminn, en framburður þeirra snertir almennt sakarefnið, einkum í I. kafla ákæru.
Vitnið Bryndís Jónsdóttir, dóttir Jóns Stefánssonar, kom fyri dóminn. Hún kvaðst hafa séð myndina í 3. tl. ákæru áður, sem henni var sýnd í dóminum. Starfsmenn Morkinskinnu hafi beðið hana að koma þangað og segja álit sitt á því hvort myndin væri eftir föður hennar. Hún hafi sagt þeim það álit sitt að myndin væri alls ekki eftir hann. Henni hafi fundist myndin illa unnin og þunnmáluð, eins og ekki hefði verið lokið við að vinna myndina. Vitnið minntist þess að hafa séð aftan á málverkinu drög að módeli. Henni hafi fundist hártoppurinn á konunni minna á hárgreiðslu Elsie, fyrri konu föður síns, og hún hafi haft orð á því við starfsmanninn, en jafnframt sagt honum að hún teldi að myndin væri ekki eftir föður sinn. Faðir hennar hafi kvænst Elsie upp úr 1910. Níni, dóttir þeirra, hafi fæðst 1913. Vitninu voru sýndar í dóminum úr listaverkabókum tvær þekktar myndir eftir föður hennar af Elsie, sem málaðar eru 1918 og 1923. Hún sagði að fyrra árið hafi faðir hennar farið til Kaupmannahafnar ásamt Elsie. Hún kvaðst ekki vita hve mikið hann málaði í kringum 1918, enda hafi hún ekki fæðst fyrr en 7 árum seinna, en faðir hennar hafi eyðilagt mörg sín verk, honum hafi aldrei fundist hann geta málað nógu vel. Hún kvaðst ekki vita hvort hann hafi málað yfir myndir, hún hafi aðeins séð hann gera það í eitt skipti eftir að hann flutti heim til Íslands. Hann hafi „málað eitthvað yfir mynd“. Vitnið sagði að eftir föður sinn lægi mjög mörg málverk. Hann hafi verið lengi með hvert verk, lengi að gefa þær frá sér. Honum hafi fundist að hann gæti alltaf bætt þær og gert betur og betur. Því hafi hann verið mjög lengi að ljúka við myndir sínar, átt erfitt með að skrifa undir myndir, jafnvel ekki fyrr en hann seldi þær.
Bryndís kvaðst eiga tvær myndir eftir föður sinn málaðar á masónít, en enga á pappa. Hún hafi aldrei heyrt að hann málaði á pappa. Hún kvaðst ekki hafa séð áður hinar tvær myndirnar í dómsalnum og kvaðst ekki treysta sér til að bera um það hvort þær væru eftir föður sinn.
Vitnið sagði að systir hennar, Níni, byggi í Ameríku og væri orðin fullorðin og hafi ekki treyst sér til að koma til landsins til að bera vitni í málinu. Níni hafi hins vegar tjáð vitninu afdráttarlaust í símtali að engin þeirra þriggja mynda, sem mál þetta snýst um, væri eftir föður þeirra, en Níní hafi fengið sendar ljósmyndir af þessum myndum. Níni hafi fylgst með ferli föður síns, keypt fyrir hann málningarvörur og annað þegar þau bjuggu saman á Bergstaðastrætinu. Hún hafi búið með föður sínum þar og í Danmörku og fylgst með vinnu hans á þessum tíma.
Vitnið Úlfar Þormóðsson, rithöfundur kvaðst hafa stofnað Gallerí Borg í maí 1984 og starfað við það til ársloka 1992. Á þeim tíma er hann rak galleríið hafi hann fært bókhald sjálfur og látið endurskoðanda færa það. Reksturinn hafi falist í umboðssölu á málverkum og listmunum frá listamönnum og endursölu þeirra. Verk sem voru keypt innanlands og utan hafi verið skráð, frá hverjum þau komu, eftir hvern þau voru, frá hvaða tíma, í hvaða efni unnin og væntingar listamanns eða eiganda um söluverð. Þetta hafi verið vinnugögn fyrir fyrirtækið, sem varðveitt voru. Almenn söluskráningarspjöld hafi hins vegar ekki verið varðveitt heldur hafi endursöluskráningarspjöld og uppboðsspjöld verið varðveitt. Vitnið kvaðst hafa haft almennt verslunarleyfi og leyfi til að halda uppboð. Hann hafi ekki haft sérstakt leyfi til sölu á notuðum lausafjármunum þar sem hann taldi að það fælist í leyfinu til að halda uppboð.
Vitnið sagði að ákærði hafi verið starfsmaður hans og gengið í öll verk, meðal annars annast viðskipti, leita eftir myndum erlendis og sjá um þau kaup eða umboðssölu eftir því hvernig verkast vildi. Hann kvaðst hafa farið með ákærða í nokkrar ferðir til Danmerkur til listaverkakaupa og þá hafi hann auglýst í dönskum blöðum eftir verkum til kaups eftir íslenska höfunda og gefið upp upplýsingar í auglýsingunum um dvalarstað á hóteli því er þeir dvöldu á. Þeir hafi einnig sótt stöku sinnum uppboð. Hann kvaðst ekki hafa haft samskipti við ákærða eftir að ákærði stofnaði Gallerí Borg, önnur en þau að hann hafði sem áhugamaður sótt uppboð og sýningar.
Þegar verk voru keypt af einstaklingum hafi verið gefnar út staðgreiðslunótur.
Hann kvaðst hafa selt allmargar myndir eftir Jón Stefánsson og séð enn fleiri. Hann sagði að þar sem myndir þær sem mál þetta snýst um hafi verið merktar hefði galleríið á sínum tíma sjálfsagt tekið við þeim sem myndum eftir Jón Stefánsson hvert svo sem framhaldið hefði orðið, en það hefði þó verið undir því komið hver hefði átt myndirnar, hvernig þær væru keyptar og hvernig fengnar. Vitnið sagði að einhvern tíma á árunum 1986 til 1989 eða 1970 til 1990 hafi verið í vörslu Gallerí Borgar allmargar myndir úr dánarbúi Jóns Stefánssonar, hálfunnar og misjafnlega mikið unnar, flestar að því er hann minnti ómerktar. Þær hafi verið frá þeim tíma sem Jón Stefánsson hafi verið að æfa sig að mála í frönskum anda.
Vitnið Bárður Halldórsson, kvaðst hafa stundað listaverkasölu af og til frá árinu 1980 bæði á Akureyri og í Reykjavík. Hann kvaðst hafa haft leyfi til listmunauppboðshalds og almennt verslunarleyfi. Sagði Bárður að hann hafi keypt verk í Danmörku, aðallega á árunum 1981 til 1989 og þá venjulega auglýst í dagblöðum. Menn á hans snærum í Danmörku hafi tekið við símanúmeri og lýsingu á verkum og öðrum slíkum upplýsingum. Síðan hafi hann boðað fólk til sín þegar hann kom til Kaupmannahafnar og látið það koma með verkin til sín. Venjulega hafi hann ekki gefið út reikninga er hann keypti málverkin.
Vitnið sagði að hann myndi ekki segja að höfundareinkenni Jóns Stefánssonar væru á umdeildum þremur málverkum, en kvaðst hafa séð svo margt eftir málara, sem ekki væru dæmigerðar myndir fyrir þá málara og tæki því öllu með fyrirvara. Þessi verk komi honum ekkert sérstaklega fyrir sjónir sem verk Jóns Stefánssonar. Þau gætu eins verið eftir hann eins og eftir einhvern annan. Hann kvaðst reyna að rekja sögu þeirra málverka sem hann annast sölu á. Hann sagði að verk Jóns væru misjöfn að gæðum en 90% af höfundarverki Jóns hafi mjög skýr einkenni hans, en alltaf væru einhverjar myndir málara sem ekki teldust dæmigerðar fyrir þá. Hann kvaðst þekkja tvö dæmi þess að málari málaði yfir verk annars málara. Í báðum tilvikum hafi verið um að ræða ódýrar myndir, og listamaðurinn verið að ásælast strigann og rammann. Hann kvaðst einnig þekkja dæmi þess að tveir listamenn hafi málað eins eða nauðalíkar myndir, aðallega verk máluð á skólaárum, uppstillingar og annað slíkt.
Vitnið sagði að hann hafi rekið gallerí og verkin hafi verið skráð sérstaklega, höfundar getið og málverks og úr hvaða efni verkin voru. Þó hafi getað orðið misbrestur á þessu. Þessa skráningu hafi hann varðveitt. Vitnið kvaðst hafa reynt að afla traustra heimilda um verk og eigendasögu, sértaklega ef myndir voru ómerktar eða grunsemdir voru um verk.
Haraldur Blöndal hæstaréttarlögmaður, kom fyrir dóminn sem vitni. Hann kvaðst hafa verið uppboðshaldari hjá Gallerí Borg frá stofnun uppboðsfyrirtækisins til áramóta 1995/1996. Hann kvaðst ekki minnast þess sértaklega að hann hafi verið uppboðshaldari er umdeildar þrjár myndir voru seldar og minntist þeirra ekki sérstaklega. Síðari árin hafi hann eingöngu komið að uppboðunum sem uppboðshaldari, en ekkert séð um undirbúning þess. Hann og ákærði hafi ekki rætt sérstaklega um myndirnar eða verð þeirra, nema einstaka myndir sem voru sérstaklega áhugaverðar. Hann hafi ekki vitað hverjir sóttu uppboðin af hálfu eigenda verkanna.
Þegar Haraldi voru sýndar umdeildar þrjár myndir í dóminum sagði hann að myndirnar gætu að hans mati „út af fyrir sig“ verið eftir Jón Stefánsson, þó síst myndin, sem lýst er í 2. lið ákæru, en hún gæti einnig hafa verið léleg mynd eftir hann. Sumar myndir, sem hafi verið seldar hingað frá Danmörku væru myndir málaðar á skólaárum og margir málarar því málað sömu fyrirmyndina og ekki víst að málararnir væru þá komnir með full höfundareinkenni. Lögmaðurinn kvaðst ekki hafa kynnt sér feril Jóns Stefánssonar.
Niðurstaða.
Ákærða er gefið að sök að hafa keypt málverkið „Opstilling med potteplante samt liggende nögen model“ eftir danska málarann Wilhelm Wils á uppboði nr. 33 í Vejle 18. ágúst 1994, afmáð höfundarmerkingu listamannsins og selt það með blekkingum sem verk Jóns Stefánssonar listmálara á uppboði nr. 6 á Akureyri 21. maí 1995, eins og nánar er lýst í ákæru.
Verkið var slegið Jóni Ó. Ragnarssyni á uppboðinu á 50.000 krónur. Þegar hann fór með verkið til viðgerðar í Morkinskinnu vöknuðu grunsemdir um að verkið væri ekki eftir Jón Stefánsson og í framhaldi kæru hófst rannsókn málsins, eins og fram er komið.
Hér að framan hefur verið lýst hvaða sérfræðingar komu að rannsókn málverksins að beiðni ríkislögreglustjóra og niðurstöðu þeirra rækilega lýst. Samkvæmt niðurstöðu Haraldar Árnasonar lögreglufulltrúa, sem skimaði litarflöt málverksins í VSC (Video Spectral Comparator) tæki, með útfjólubláu ljósi, gáfu þær rannsóknir til kynna, „að höfundarnafnið „Wils 12“ hafi annað hvort verið máð út eða að málað hafi verið yfir það, á framangreindu málverki sem sýnilega er höfundarmerkt Jóni Stefánssyni og nánar er lýst hér að framan.“ Að sambærilegri niðurstöðu komst Viktor Smári Sæmundsson, forvörður hjá Listasafni Íslands, er hann rannsakaði og tók ljósmyndir af verkinu við venjulegar aðstæður og undir útfjólubláu ljósi á litskyggnur og kannaði einnig hvort hluti verksins væri yfirmálaður og hvort undir yfirmálingu væri eldri undirritun finnanleg. Kemur þar fram að ofan á „gamalt“ fernislag, sem lykur yfirborð litalags, sé víða búið að mála í verkið án sýnilegs tilgangs nema e.t.v. til að dreifa athygli frá yfirmálun á höfundarmerkingu. Reynt hafi verið að eyða höfundarmerkingunni „Wils 12“ af yfirborði málverksins, en höfundarmerkingin „Jón Stefánsson“ virtist að hluta hafa verið máluð ofan á yfirmálunarlit, sem samkvæmt flúrljómun í útfjólubláu ljósi, sé ekki ýkja gamall. Yfirgnæfandi líkur séu á því að málverk þetta, sem sýnilega er höfundamerkt „Jón Stefánsson“, sé ekki eftir hann. Höfundur verksins sé að öllum líkindum Wilhelm Wils, sem var danskur málari fæddur í Danmörku árið 1880.“
Haraldur og Viktor Smári hafa báðir komið fyrir dóminn og staðfest verk sín og útskýrt nánar rannsóknir sínar og niðurstöður þeirra, meðal annars með VSC tækinu og myndskyggnum. Gafst dómendum og sakflytjendum færi á því að sjá með berum augum í VSC tækinu framhlið myndarinnar, einkum svæðin þar sem undirritunin „Jón Stefánsson“ er á verkunum og á önnur svæði, sem sérstaklega er vikið að í rannsóknum Haraldar og Viktors Smára. Dómendur eru sammála um það að ljóslega mátti greina með berum augum áletrunina Wils 12. Þá var framburður þeirra beggja trúverðugur og þeir sjálfum sér samkvæmir. Þeir tóku sýnishorn úr málverkinu og sendu dr. Sigurði Jakobssyni til litrófsrannsóknar, eins og lýst er hér að framan. Staðhæfði dr. Sigurður fyri dóminum að sú aðferð, sem hann notaði við rannsókn sína á bindiefnum þeim sem fundust í sýnunum, litrófsgreining með innfrarauðum geisla, væri mjög áreiðanleg og niðurstaða hennar ótvíræð. Eins og fram er komið greindi dr. Sigurður alkýð í svörtum lit sem tekinn var úr áritun neðst til hægri á myndinni og einnig neðarlega á vinstri jaðri, þar sem grunur lék á yfirmálun. Fram kom í vætti hans fyrir dóminum að olíulitir sem listamenn noti, væri lengi að þorna, jafnvel ár. Alkýð þornaði hins vegar mjög fljótt og væri það sett út í olíuna til þess að hún þorni fyrr. Við prófun vitnisins hafi komið í ljós að yfirborð, málað með alkýð, væri orðið hart á sólarhring. Viktor Smári bar á sama veg um þetta atriði, en hann sagði einnig að alkýðlitir, sem notaðir hafi verið af listamönnum, hafi fyrst komið á markað í túbum um 1978, en efnið hafi verið þekkt áður í iðnaðarmálningu og komið sem slíkt hingað lands í kringum 1930. Litabindir til að setja í olíu hafi verið til hér á landi frá árinu 1973. Alkýð hafi einni verið notað í afar þunna liti, „tómstundaliti“. Taldi vitnið ólíklegt að Jón Stefánsson hafi notað iðnaðarmálningu eða slíka liti til að undirita málverk sín, sérstaklega að svo hafi hann gert í mörgum mynda sinna.
Skimun málverksins, sem lýst hefur verið hér að framan og dómendur sáu sjálfir í dóminum, er í samræmi við rannsóknir og niðurstöður sérfræðinganna Viktors Smára Sæmundssonar og dr. Sigurðar Jakobssonar, sem lýst hefur verið rækilega í I. kafla A. Rannsóknir þeirra sýna að mjög sterk fylgni var milli ljómageislunar sem fram kom við ljósmyndun af málverkinu undir útfjólubláu ljósi og niðurstöðu litrófsrannsókna á bindiefninu.
Af þessum rannsóknum og trúverðugum framburði þeirra sem þær önnuðust þykir fyllilega í ljós leitt að höfundarmerkingin „Jón Stefánsson“ sem var á málverkinu þegar það var selt 21. maí 1995 á uppboði nr. 6 á Akureyri var ekki máluð af Jóni Stefánssyni. Sú niðurstaða styðst einnig við vitnisburð Ólafs Kvaran forstöðumanns Listasafns Íslands og greinargott álit og vætti Júlíönu Gottskálksdóttur listfræðings, sem sérstaklega hefur lagt sig efir list Jóns og annarra frumkvöðla í íslenskri myndlist, en þau hafa bæði borið að fátt í þessu verki beri höfundareinkenni Jóns Stefánssonar og verkið fari mjög á skjön við það sem sé rauður þráður í verkum hans. Þetta kemur bæði fram í ofangreindu áliti Júlíönu og trúverðugum og greinargóðum framburði hennar fyrir dóminum, sem hún meðal annars útskýrði með sýningu litskyggna af verkum höfundarins til samanburðar þessu verki.
Framburður þessara vitna kemur einnig heim og saman við gögn og vætti annarra vitna, sem renna sterkum stoðum undir það að málverk þetta sé eftir Wilhelm Wils og hafi verið selt á uppboðinu nr. 33 í Vejle 18. ágúst 1994, eins og nú verður rakið.
Stærð málverksins og lýsing á fram- og bakhlið málverksins „Opstilling med potteplante samt liggende nögen model. Dobbeltmaleri“, sem merkt er nr. 1125 á uppboðsskránni á uppboði nr. 33 í Vejle eftir Wilhelm Wils, kemur kemur heim og saman við málverkið „Uppstilling“, sem merkt var nr. 69 á uppboðsskrá uppboðs Gallerís Borgar nr. 6 á Akureyri 21. maí 1995. Aftan á málverkinu, sem málað er á þykkpappa, er mynd af nakinni konu, en það kemur einnig fram í lýsingu á verkinu í uppboðsskrá uppboðsins í Vejle. Svo sem lýst er hér að faman hefur vitnið Hans Jensen komið fyrir dóminn og staðfest að hann hafi selt þessa mynd á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994. Er sá framburður í samræmi við vitnisburð Sven Juhl Jörgensen, starfsmanns Bruun Rasmussen í Vejle, sem staðfesti og lagði fram gögn um að Hans hefði afhent mynd nr. 1125 og aðra mynd (1126, sbr. síðar) til sölu á uppboði nr. 33. Hans Jensen sýndi lögreglumönnum við rannsókn málsins uppboðsská þessa uppboðs og kvað myndina þar vera nr. 1125. Lýsti hann einnig myndinni og kom lýsingin heim og saman við málverkið „Uppstilling“. Við skoðun þessarar skrár, er engin önnur mynd, sem hér getur átt við. Hans Jensen hefur fullyrt, að myndina, sem hann sá í dómsalnum, sé eftir Wilhelm Wils, og hana hafi hann keypt fyrir fyrirtæki sitt á uppboði hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn nr. 489 árið 1986. Þessu til staðfestingar hefur hann lagt fram fylgiskjal úr skrám fyrirtækisins. Sagðist Hans meðal annars bera kennsl á myndina, þar sem þetta væri eina myndin sem hann hafi átt, er Wils hafi málað á svona plötu, og sú eina sem hann hefði átt eftir Wils þar sem mynd væri af nakinni konu á bakhliðinni. Afhenti hann auk ljósrita úr báðum uppboðsskránum, nokkrar polaroidmyndir, sem hann kvaðst eiga af málverkunum eftir Wils. Bersýnilegt er af stækkuðum litljósritunum þessara mynda að þær eru merktar „Wils“ í hæra horni að neðanverðu með rauðu. Þessar myndir eru mjög áþekkar að allri gerð myndunum sem mál þetta snýst um og ein þeirra er nauðalík myndinni í 1. lið ákæru, svo sem síðar verður vikið að.
Stærð málverksins kemur einnig heim og saman við lýsingu og stærð á málvekinu nr. 422, er selt var á uppboðinu hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn nr. 489, sem fram fór dagana 9. og 10. desember 1986, en þar er myndin sögð vera eftir Vilh. Wils, og heita „Pelargonie på et bord“. Kemur fram í uppboðsskránni að myndin sé árituð „Wils“. Þar að auki hefur vitnið Claus Poulsen forstjóri hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn staðfest við meðferð málsins að númerin í horni aftan á ytri ramma myndarinnar, sem hann skoðaði í dóminum, 422/489 með hring utan um, þýddu að þetta málverk hafi verið nr. 422 í uppboðsskrá á uppboði fyrirtækisins síns nr. 489 og staðhæfði að fyrirtæki hans merkti allar innkomnar myndir með þessum hætti, þ.e. hring utan um númer myndar fyrir ofan strik og númer uppboðsin fyrir neðan það strik. Annað þeirra ljósrita, sem Hans Jensen afhenti við rannsókn málsins, var úr uppboðsskrá þessa uppboðs og benti hann jafnframt á, að myndin sem hann keypti á uppboði nr. 489 væri merkt nr. 422 á uppboðsskránni. Vitnið sagði jafnframt að litljósmyndirnar tvær af áþekku málverki á heimili Jónasar Freydal, sem ákærði afhenti við rannsókn málsins, væru ekki af málverkinu, sem hann keypti á uppboði nr. 489 hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn og seldi á uppboðinu í Vejle.
Verður nú vikið að framburði ákærða um málverkið og þeirri staðhæfingu hans að það sé allt annað en málverkið, sem selt var nr. 1125 á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994.
Eins og rakið hefur verið var ákærða ítrekað gefinn frestur á því að svara fyrirspurnum lögreglu um þetta verk. Í svarbréfí lögmanns hans 29. október 1997 um verkið kemur fram að myndin hafi verið keypt í Kaupmannahöfn, en engin frekari gögn væru því til staðfestingar. Í fyrstu lögregluyfirheyrslu 11. nóvember sama ár kvaðst ákærða ráma í að hafa keypt myndina í Kaupmannahöfn, en ekki í Vejle. Er honum var bent á að grunur léki á því að myndin væri höfundararmerkt öðrum listmálara sagði hann, að honum dytti helst í hug að hann hafi keypt ódýra mynd í stórum góðum ramma á uppboðinu í Vejle árið 1994, en síðan sett mynd eftir Jón Stefánsson í rammann. Við skýrlsugjöf um hálfum mánuði síðar var honum kynnt niðurstaða Haraldar Árnasonar á höfundarmerkingu málsverksins. Kvaðst hann þá minnast þess að hafa keypt nokkrar myndir eftir Júlíönu Sveinsdóttur í Vejle á uppboði 1994, en mundi ekki sérstaklega eftir mynd nr. 1125 eða hvernig sú mynd leit út. Síðar í sömu yfirheyrslu er haft eftir ákærða, að hann hafi tekið myndina eftir Wilhelm Wils, nr. 1125 á uppboðinu, úr rammanum ásamt annarri mynd eftir sama höfund (sjá síðar í kafla B, um 1. lið ákæru), en skilið sjálf málverkin eftir hjá Jónasi Freydal í Kaupmannahöfn og farið síðar með rammana heim til Íslands í þeim tilgangi að nota þá utan um aðrar myndir hér heima og taldi að rammarnir hafi verið notaðir utan um einhverjar myndir sem Gallerí Borg eða hann sjálfur átti. Það var fyrst í þessu þinghaldi sem ákærði sýndi ljósrit af greiðslukvittun, sem lýst var hér að framan, sem hann taldi vera vegan sölu myndarinnar, sem hér er fjallað um. Sagðist hann hafa keypt myndina af einhverjum manni, S. Hansen, eins og kvittunin bæri með sér, sem hann ekki þekkti. Nokkrum dögum síðar fullyrti ákærða í yfirheyrslu lögreglu að verjanda sínum viðstöddum, að hann hafi keypt myndina sem númeruð er nr. 1125 á uppboðinu í Vejle og skilið hana efir hjá Jónasi Freydal, en hann sagðist ekki vera viss um hvort hann tók rammana af myndinni og tók með sér heim eða skildi myndina eftir í rammanum hjá Jónasi. Eins og lýst er hér að framan sagði ákærði í þessari yfirheyrslu að hann væri nú með undir höndum litljósmyndir af ljósmyndum sem hann kvað teknar í íbúð Jónasar í Kaupmannahöfn. Þessar ljósmyndir afhenti hann tveimur dögum síðar og ítrekaði í yfirheyrslu þann dag að hann hafi látið Jónas fá málverkið nr. 1125 sem hann keypti í Vejle. Hann vildi ekki segja hvar eða hvenær hannn fékk þessar myndir. Enn ítrekaði ákærði þennan framburð í yfirheyrslu 11. desember sama ár og hér fyrir dómi og staðfesti að famangreind kvittun Bruun Rasmussen, frá 18. ágúst 1994 stíluð á hann, væri vegna kaupa sinna á myndinni nr. 1125, sem hann afhenti Jónasi Freydal. Eins og að framan er lýst ber sú kvittun með sér að mynd nr. 1125 sé eftir Wilhelm Wils og seld á 1.600 D. kr.
Ofangreindur framburður ákærða er bæði óstöðugur og afar ótrúverðugur. Hann er einnig í andstöðu við annað, sem fram er komið í málinu um þetta málverk, sem lýst hefur verið hér að framan. Gögn þau sem hann hefur lagt fram máli sínu til stuðnings, ofangeind kvittun og litljósmyndir, eru heldur ekki traustvekjandi eða trúverðug. Tvær þeirra litljósmynda sem ákærði afhenti og sagði vera af mynd nr. 1125 á uppboðinu í Vejle, teknar á heimili Jónasar Freydal, eru í fljótu bragði eins og málverkið sem hér er fjallað um og selt var á uppboðinu á Akureyri. Við nánari skoðun sést hins vegar að svo er alls ekki. Þannig er eitt blóm á pottablóminu á málverkinu, en tvö á ljósmyndinni og blá krús er ekki á sama stað á verkunum. Ákærði framvísaði kvittunina frá einhverjum S. Hansen, sem hann vissi engin deili á, seint og síðar meir. Þessi kvittun fannst ekki í bókhaldi Gallerís Borgar eða öðrum gögnum þess, en á kvittunina er stimplað heiti gallerísins. Eins og hér er í pottinn búið og litið til annars sem fam er komið verður ekki annað séð en að þessi kvittun sé tilbúningur einn. Framburður vitnisins Jónasar Freydal um litljósmyndirnar tvær af því verki, sem hann og ákærði segja að sé af myndinni, sem keypt var á uppboðinu í Vejle í ágúst 1994, er einnig mjög ótrúverðugur og stenst ekki þegar litið er til þess, sem lýst hefur verið hér að framan. Vætti hans um sakarefnið í máli þessu var með miklum ólíkindum og frásögn hans lítt trúverðug, svo ekki sé fastara að orði kveðið. Þótt ákærði hafi greitt virðisaukaskatt af myndinni samkvæmt ofangreindri kvittun breytir það engu um þessa niðurstöðu, enda er ekki ólíklegt að það hafi hann einmitt gert til þess að svo liti út sem myndin nr. 1125, og einnig mynd nr. 1126 eins og síðar verður rakið, sem hann keypti á uppboðinu í Vejle hafi ekki farið frá Danmörku og hingað til Íslands.
Þegar allt framangreint er virt þykir fram komin lögfull sönnun þess að mynd sú sem seld var nr. 69 á uppboði Gallerí Borgar nr. 6 á Akureyri, 21. maí 1995, var sama verk og selt var nr. 1125, eftir Wilhelm Wils, á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994, svo og að myndina keypti ákærði sjálfur á sínum vegum eða vegum fyrirtækis síns, Gallerís Borgar.
Ákærði keypti myndina á 1.600 danskar krónur á uppboðinu í Vejle, en fram er komið að verk Wils eru ódýr verk, og seldi hana síðar á uppboðinu á Akureyri, höfundarmerkt Jóni Stefánssyni, á 50.000 íslenskar krónur. Kaupandi myndarinnar, Jón Ó. Ragnarsson, hefur borið að þótt honum hafi litist vel á myndina hafi forsenda kaupanna verið sú að myndin var merkt Jóni Stefánssyni. Jón Ó. Ragnarsson hefur ekki lagt fram skaðabótakröfu í málinu.
Ekki hafa verið lögð fram gögn um það af hálfu ákæruvalds sem sýna fram það, að ákærði hafi sjáflur afmáð höfundarmerkinguna af málverkinu og sett á það höfundarmerkingu Jóns Stefánssonar, eins og honum er að sök gefið í ákæru. Verður hann því ekki sakfelldur fyrir þá háttsemi. Þó má telja víst að það hafi hann getað gert, þar sem ákærði er lærður myndlistarmaður. Hins vegar þykir fullsannað af því sem rakið hefur verið hér að framan, að ákærði seldi málverkið með blekkingum og í auðgunarskyni, eftir að hann eða einhver annar sem hann fékk til þess, breytti málverkinu með ofangreindum hætti. Ónákvæmni í ákæru að því er þetta varðar kemur ekki að sök, enda var vörn ekki áfátt um þetta atriði, sbr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þótt fallast megi á það að ágóði ákærða af sölu þessarar myndar hafi ekki verið ýkja mikill, þegar tekið er tillit til greiðslu uppboðskostnaðar og virðisaukaskatts, sem greiddur var í Vejle og ýmiss kostnaðar við uppboðið hér á landi, þykir allt að einu ljóst að málverkið var selt í auðgunar- og blekkingarskyni, þar sem verkið var ranglega höfundarmerkt Jóni Stefánssyni, sem er einn virtasti málari okkar Íslendinga og frumkvöðull á sínu sviði. Myndir þessa látna málara hafa verið margfalt dýrari en verk Wilhelms Wils og hlaut það að vaka fyrir ákærða að fá hærra verð fyrir myndina af þeim sökum svo sen raunin varð.
Sú háttsemi, sem ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir, varðar við 3. mgr. 159. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. nú 75. gr. laga nr. 82/1998, og 248. fyrrgreindra laga. Af hálfu verjanda hefur því verið haldið fram að sök sé fyrnd á broti gegn 3. mgr. 159. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 81. gr. laganna, sbr. nú 1. gr. laga nr. 63/1998. Verður ekki fallist á að svo sé, þar sem háttsemi ákærða er jafnframt færð undir 248. gr. laganna og ber því að miða fyrningarfrest brotanna við það ákvæði, sbr. 3. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981. Refsimörk fjársvikaákvæðis 248. gr. eru 6 ára fangelsi og fyrnast brot gegn þeirri grein á 10 árum, sbr. 3. tl. 1. mgr. 81. gr. laganna.
B) 1. liður I. kafla.
Um upphaf rannsóknar á þessari mynd, sem nefnt er rannsóknartilvik 26, segir í upplýsingaskýrslu Arnar Jenssonar 19. nóvember 1997 að þegar gögn bárust frá Bruun Rasmussen í Vejle kom í ljós að samkvæmt reikningi keypti ákærði tvö málverk á uppboði þar 18. ágúst 1994 nr. 1125, sbr. hér að ofan, og 1126 í uppboðsskránni. Við húsleit 11. nóvember sama ár fannst ljósmynd af málverki sem svaraði nákvæmlega til lýsingar á mynd þeirri sem lýst er í uppboðsskránni. Segir í skýrslunni að greina megi á málverkinu á ljósmyndinni undirritunina Jón Stefánsson. Við nánari rannsókn hafi komið í ljós að ljósmyndin er af málverki sem seld var á uppboði Gallerí Borgar 1. september 1994. Þegar litið var til upplýsinga í ofangreindum uppboðsskrám hafi vaknað grunsemdir um að um sama málverk væri að ræða.
Í uppboðsskrá af uppboði Gallerí Borgar nr. 12, sem haldið var 1. september 1994 í Reykjavík, kemur fram að myndin „Uppstilling“, sem er númer 82, olía, stærð 50 x 66, er sögð vera eftir Jón Stefánsson, merkt, og var hún slegin á uppoðinu á 360.000 krónur. Kaupandinn var Gunnar Snorri Gunnarsson, svo sem síðar verður nánar rakið.
Samkvæmt uppboðsskrá Kunsthallen í Kaupmannahöfn, frá árinu 1988, er mynd nr. 223. Nature morte. Sign. Wils 50 x 65. Við myndina er fjárhæðin 5.000.
Í framangreindri uppboðsskrá Bruun Rasmussen í Vejle af uppboði nr. 33, sem fram fór dagana 16.-18. ágúst segir við mynd nr. 1126: Wilhelm Wils (1880-1960), Opstilling med vin, krus samt frugter. Maleri. Sign. Wils. 12, 49 x 66. Verð myndarinnar er skráð 2.500.
Einnig liggur frammi í málinu ljósrit úr uppboðsskrá frá haustsýningu í Charlottenborg árið 1914. Þar er myndin „Nature Morte“, nr. 219, sögð eftir V. Wils. Stærðarinnar er ekki getið.
Ekkert kemur fram um myndina sem hér er fjallað um, rannsóknartilvik 26, í svarbréfinu 29. október 1997 frá fyrrum lögmanni ákærða, sem rakið var í A kafla, við fyrirspurnum ríkislögreglustjóra, enda var það tilvik kært eftir að bréfið var ritað til lögmannsins.
Í ofangreindu bréfi Júlíönu Gísladóttur viðskiptafræðings kemur fram, að hún hafi fundið reikning í bókhaldi félagsins um rannsóknartilvik 26. Segir í bréfinu að ekki komi fram á reikningnum hver hafi keypt myndina, en félagið hafi greitt tvo tékka, annan dags. 2. september 1994 og hinn 15. sama mánaðar, sem gætu verið greiðslur vegna þessa málverks. Annar tékkinn, að fjárhæð 350.000, hafi verið stílaður á Steinar Kristjánsson, hinn, að fjárhæð 300.000, á Jónas Þorsteinsson.
Eins og að framan greinir var frekari gagna aflað hjá Hans Jensen seljanda myndanna nr. 1125 og 1126, sbr. skýrsu Arnar Jenssonar um fund þeirra og dansks lögreglufulltrúa 5. desember 1997. Þar er haft eftir Hans að hann hafi keypt myndirnar nr. 1125 og 1126 á uppoðinu 18. ágúst 1994. Kvaðst hann hafa tekið polaroid- ljósmynd af mynd nr. 1126 og afhenti hann myndina, sem er meðal rannsóknargagna. Staðfesti hann að hann hefði upphaflega keypt málverkið nr. 1126 hjá Kunsthallen í Kaupmannahöfn árið 1988 og myndin hafi þá haft númerið 223. Afhenti hann ljósrit úr þeirri uppboðsskrá, sem liggur einnig frammi í málinu. Þá afhenti hann lögreglu jafnframt lista yfir þau málverk, sem fyrirtæki hans, A.P. Holding Hjortsö a/s hefur keypt. Meðal þeirra mynda eru tilgreindar myndir nr. 1125 og 1126, báðar sagðar eftir Wils. Er haft eftir Hans að síðargreind mynd sé eftir Wilhelm Wils og hafi hann selt myndina á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994. Sýndi hann lögreglumönnum sýningarskrá síðarnefnds uppboðs og kvað myndina þar skráða nr. 1126. Hans kvaðst hafa tekið polaroidmyndina af málverkinu skömmu áður en hann seldi myndina á uppboðinu í Vejle. Benti Hans á það að á ljósmyndinni mætti greinilega sjá höfundarmerkinguna „ Wils“ hægra megin á verkinu. Er jafnframt haft eftir Hans að myndin hafi borið þessa höfundarmerkingu er hún fór á uppboðið og í þeim ramma sem sæist á myndinni. Hans afhenti lögreglu þessa polaroidmynd, en hún var ein þeirra fimm polaroidmynda, sem hann afhenti lögreglu 5. desember 1997, svo sem lýst var í 1. lið hér að framan.
Rannsóknari sýndi Hans Jensen ljósrit þeirra ljósmynda, sem ákærði afhenti við rannsókn málsins, og kvaðst hafa keypt sem myndir nr. 1125 og 1126 á margnefndu uppboði í Vejle. Er haft eftir Hans í upplýsingaskýrslu, eftir að hann hafði skoðað ljósmyndirnar með stækkunargleri, að hvorug þessara mynda á ljósmyndunum væru þær myndir sem hann hefði selt á uppboðinu í Vejle.
Á greiðslukvittun Bruun Rasmussen, dags. 18. ágúst 1994, sem stíluð er á Pétur Gunnarsson og lýst er í 1. lið hér að framan, var einnig skráð fyrir neðan númerið 1125 númerið 1126. Í texta kvittunarinnar er einnig vísað til „W. Wils“ og við krónudálkinn er fjárhæðin 2600. Einnig sést á henni að uppboðskostnaður og skattur (moms) er greiddur af þessari mynd, eins og af mynd nr. 1125.
Eins og lýst hefur verið hér að framan kemur fram í upplýsingaskýrslu lögreglu 27. mars 1998 að starfsmaður Bruun Rasmussen í Vejle hafi upplýst að ákærði hafi sjálfur verið á staðnum er uppboðið fór þar fram 18. ágúst 1994, boðið í verkið ásamt öðru verkinu í 1. lið hér að framan (rannsóknartilvik 23, sbr. 3. liður ákæru) og keypt þau. Hann hafi sjálfur útfyllt eyðublað er hann kom inn á uppboðið og fengið um leið úthlutað boðsnúmeri nr. 249.
Þar sem grunur lék á því að málverkið „Opstilling med vin, krus samt frugter“, sem selt var á uppboðinu í Vejle í ágúst 1994 undir númerinu 1126 væri það sama og málverkið „Uppstilling“ sem selt var á uppboðinu í Reykjavík 1. september undir númerinu 82 fóru fram sams konar rannsóknir á málverkinu og málverkinu í 1. lið hér að framan.“
Haraldi Árnasyni lögreglufulltrúa var sem fyrr falið að rannsaka höfundarmerkingu á málverkinu. Eigandinn, sem er búsettur erlendis, sendi það hingað til lands með hraðsendingarþjónustu. Segir um þá rannsókn í skýrslu hans 3. desember 1997:
Rannsóknarefni
Til rannsóknar í tæknirannsóknastofu RLS er málverk sem nánar er lýst eftirfarandi:
Málverk í gylltum ramma stærð myndflatar um það bil 49x65 sm. Myndin er máluð á striga og er af fjórum ávöxtum á diski, þremur sítrónum þar við, ölkönnu, bolla og vínflösku, á borði. Mynd þessi er höfundarmerkt Jóni Stefánssyni.
Rannsóknarþættir
Grunur mun leika á að málverkið sé ekki verk Jóns Stefánssonar, en lýsing þess mun koma heim við mynd eftir danska málarann Vilhelm Wils. Er óskað tæknirannsóknar á myndinni með það í huga að sú rannsókn leiði fram einhver þau ummerki sem styðji þá kenningu eða séu vísbendingar um annað.
Rannsókn
Föstudaginn 5. desember, um kl. 13:00, skimaði undirritaður litarflöt málverksins í VSC (Video Spectral Comparator) tæki, með útfjólubláu ljósi. Tækið er búið breytilegum ljóssíum og er ætlað til að fá fram sjáanlegan mismun þegar ýmis efni, sem annars kunna að vera eins að sjá, gefa frá sér mismunandi ljómageislun. Með skjásíu stillta á 780 nm og ljósgjafasíu á 750 nm ljósbylgjulengdir, kom fram skýr áletrun í neðra, hægra horni myndarinnar, rétt ofan við höfunarmerkingu með nafni Jóns. Ekki er annað að sjá en að áletrunin sé „Wils“ en það mun koma heim og saman við höfundarmerkingu danska málarans Vilhelms Wils. Á hinn bóginn hefur undirritaður ekki samanburðargögn til að staðfesta að form þessarar áritunar sé í samræmi við þekktar höfundarmerkingar Vilhelms Wils.
Þar sem áletrun þessi kom fram var yfirborðslitur myndarinnar grænleitur. Áletrunin kemur fram vegna þess að litarefni í henni gefur sterka ljómageislun við útfjólublátt ljós en yfirborðsliturinn ekki og kemur áletrunin fram sem ljósir, eða lýsandi stafir. Eru þessir þættir sýndir á ljósmynd nr. 3 í viðfestri myndamöppu þar sem áletrunin er sýnd í um það bil x2 stækkun.
Áletrunin er um það bil 1,3 sm á hæð, 3,5 sm á lengd og virðist gerð með skriffæri sem gæti auðveldlega verið pensill listmálara. Ekki sjást pensilför á áletruninni, enda er annar litur yfir henni að sjá, en í þessari rannsókn ekki hægt að ákvarða hvort ljómageislunin stafi frá efnisleifum eftir áletrun sem búið er að má út, eða áletrun sem hulin er þunnu lagi af öðru litarefni.
Á bakhlið ramma umræddrar myndar voru merkingar sem gætu komið til álita við að rekja uppruna verksins. Þessar merkingar voru sem hér greinir:
1.Á miðja vinstri skammhlið rammans er talan „223“ skrifuð með svörum lit.
2.Á miðja vinstri skammhlið blindrammans er talan „1126“ skrifuð með hvítum lit.
3.Í efra vinstra horni blindrammans er talan „158“ skrifuð með bláum lit.
Í viðfestri myndamöppu eru ljósmyndir í tengslum við rannsókn þessa og á þeim viðeigandi merkingar.
Niðurstaða
Það er niðurstaða undirritaðs, að niðurstöður VSC skimunar gefi til kynna, að höfundarnafnið „Wils“ hafi annað hvort verið máð út eða að málað hafi verið yfir það, á framangreindu málverki sem sýnilega er höfundarmerkt Jóni Stefánssyni og lýst er hér að framan.“
Þá var Haraldi einnig falið að rannsaka höfundarmerkingu málverks á ofangreindri Polaroidmynd, sem Arnar Jensson kveðst hafa fengið hjá Hans Jensen .
Í skýrslu hans 23. desember 1997 segir:
„Til rannsóknar í tæknirannsóknastofu RLS er „Polaroid“ ljósmynd af málverki. Málverkið er af fjórum ávöxtum á diski, þremur sítrónum þar við, ölkönnu, bolla og vínflösku, á borði. Ljósmyndina mun Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, hafa fengið hjá fyrrum eiganda málverksins, Hans Jensen.
Rannsóknarþættir
Á ljósmyndinni má sjá móta fyrir höfundamerkingu málverksins og er óskað álits á því, hvort greina megi hvort höfundarmerkingin sé „Wils“ eða eitthvert annað höfundarnafn.
Rannsókn
Ekki er hægt að greina höfundarmerkingu málverksins skýrlega með berum augum á ljósmyndinni. Ljósmyndin var því stækkuð fjórfalt á gæðapappír og með aukinni áherslu á rauðan lit og kom þá höfundarmerkingin greinilega fram. Telur undirritaður ekki leika vafa á að áletrunin sé „Wils“ enda mun form áletrunarinnar koma heim og saman við höfundarmerkingu danska málarans Vilhelms Wils.
Á viðfestu myndaspjaldi eru stækkuð ljósrit ljósmyndarinnar og á hluta ljósmyndar sem er í stækkunarhlutfallinu x4 er merkt við umrædda höfundarmerkingu. Einnig er viðfest ljósrit af bls. 184 úr „Signaturbogen“ sem mun hafa verið útgefin af „Nordisk Kunstarkiv“ í Kaupmannahfn 1962 en þar er, meðal annarra, þekkt form á höfundarmerkingu málarans Vilhelms Wils.
Niðurstaða
Það er álit undirritaðs að höfundarnafnið „Wils“ sé í hægra neðra horni málverks þess sem er á framangreindri „Polaroid“ ljósmynd.“
Viktori Smára Sæmundssyni var falið að annast sams konar rannsókn á myndinni í þessum lið, rannsóknartilviki 26, og á myndinni sem fjallað var um í 1. lið hér að framan. Verkefnið merkir hann sem RLS-1.
Í rannsóknarskýrslu hans 10. febrúar 1998 segir svo um rannsókina og niðurstöðu hennar:
„Verkefni:
Málverk á hörléreft í gylltum ramma.
Höfundur:Merkt „Jón Stefánsson“.
Myndefni: Uppstilling.
Áritun:„Jón Stefánsson“ (gerð með pensli og svörtum lit í hægra horn að neðan)
Ártal:Ekkert
Tækni:Olíulitir.
Burðarlag:Hörléreft, vefur 1:1.
Stærð:(h. x b.) 49,5 x 65.5 cm...
Málverkið er að mestu leyti málað þunnum litum, sem bundnir eru með olíu og það strengt á blindramma, er virðist upprunalegur og fest með blásaum. Yfirborð málningarlags er fernisborið með möttum fernis.
Á bakhlið blindrammans eru skrifaðar eftirfarandi tölur: 1126 (skrifað með hvítum stöfum á vinstri skammhlið) og 158 (skrifað með grænbláum lit á langhlið að ofan). Þrír límmiðar hafa verið á þeirri langhlið rammans en búið er að fjarlægja þá. Á ytri rammanum (skrautrammanum) eru þessar áritanir á bakhlið: 223 (skrifað með svörtum tússpenna á vinstri skammhlið) og undir henni er torlæsileg áritun gerð með blekpenna, sem gæti verið Tisch eða Fisch. Í hægra horni að ofan eru leifar af pappírsmiða sem festur hefur verið með tveimur heftum. Á hverja einingu á bakhlið ytri rammans koma fyrir tölurnar 62 x 49 eða 49 x 64 sem virðast vera ljósmálstölur ytri rammans. (Sjá þessum atriðum til staðfestingar ljósmyndir nr.: 2, 2a, 5, 5a, 6, 6a, 7, 7a, 10 og 10a ásamt skýringartexta við ljósmyndir).
Rannsóknarþættir
Óskað var eftir að kannaðir væru með tæknilegum rannsóknum þeir þættir er gætu gefið vísbendingar um hvort málverkið væri falsað eða ófalsað. Ekki er farið fram á yfirgripsmiklar rannsóknir en óskað eftir að bent yrði á leiðir í því efni ef í ljós kæmi að þörf væri á efnagreiningum lita eða flókinni greiningarljósmyndun.
Framkvæmd rannsóknar
Verkið var ljósmyndað með 35 mm myndavél í rafljósi (tungsten, 3200 °K) og í útfjólubláu ljósi á litskyggnur og á „negatíva“ litfilmu. Ljósgjafar við ljósmyndun í útfjólubláu ljósi voru fjögur flúrrör (litur 73) sem gefa frá sér ljósbylgjulengdir við u.þ.b. 360 nm. Þar sem rörin gefa einnig frá sér sýnilegt ljós (þ.e. sem mannsaugað nemur) var notuð ljósgul sía á myndavél nr. 420E (B+W) til að koma í veg fyrir að sýnilegt ljós næði inn á filmuna og minnkaði litaandstæður (kontrast) á filmunni. Einnig var notuð litaleiðréttingarsía nr. 85B (Kodak) til að vega upp á móti breytingum í litum vegna langs lýsingartíma filmunnar.
Á ljósmyndum sem teknar voru af málverkinu í útfjólubláu ljósi kom fram dökkblá ljómageislun *1) á svæðum sem bundin eru við neðri hluta myndarinnar, aðallega í hægra horni að neðan, undir og umhverfis áritunina Jón Stefánsson. (Sjá ljósmyndir nr.: 8. 8a, 9 og 9a). Þar sem slík ljómageislun er vísbending um yfirmálun eða viðgerð í málningarlagi vakti hún upp efasemdir um að áritunin væri gerð af listmálaranum Jóni Stefánssyni en hann lést árið 1962. *2)
Skoðun yfirborðs þessara svæða í smásjá renndi stoðum undir þann grun að um síðari tíma yfirmálanir væri að ræða og voru gerðar á þeim hreinsiprufur með blöndu af touluen og ísediki og/eða læknahníf (d. skalpel). Ofan við áritunina Jón Stefánsson þar sem stærsta yfirmálunin er að flatarmáli, gerð í tveimur lögum með grábláum og ljósgrænum litum, kom í ljós ógreinileg áritun máluð með rauðum lit. Er hún 14 mm á hæð og 35 mm að breidd. Lesa má höfundarheitið Wils af leifum þessarar áritunar. (Sjá ljósmyndir nr. 11, 11a, 12, 12a, 13 og 13a). Í og umhverfis þessa áritun má sjá í smásjá að búið er að skrapa og slípa svæðið með einhvers konar verkfæri eða sandpappír því rispur, sem liggja frá SV til NA-s, eru í grunnlagi og því sem eftir er af upprunalega litalaginu, sem er rauðbrúnt. Rispur þessar eru fylltar blágráum lit, sem eins og að framan greinir er meintur yfirmálunarlitur. Einnig eru skemmdir í sjálfu burðarlagi verksins (lérefti) þar sem ummerki eru um að slípað hafi verið í gegn um grunnlag málverksins niður í sjálft léreftið á þeim stað þar sem áletrunin er. (Sjá ljósmyndir nr. 13 og 13a).
Ummerki þessi bera vott um að reynt hafi verið að afmá höfundarheitið Wils af yfirborði málverksins og þau síðan hulin með því að mála í tveimur litalögum yfir leifar áritunarinnar og umhverfis hana. Ennfremur hefur verið málað með sömu litum víðar í neðri hluta verksins, e.t.v. til að dreifa athyglinni frá umræddri yfirmálun sem ekki hefur sömu blæbrigði og upprunalegi litur málverksins undir og umhverfis Wils áritunina. (Sjá ljósmynd nr. 8 og skýringartexta við hana). Ekki er því til að dreifa að málverkið hafi þarfnast viðgerðar á þessum yfirmáluðu svæðum.
Höfundarnafnið Wils má finna í Weilbachs kunstnerleksikon *3) undir Wils, Julien Wilhelm, fæddur 05.08.1880 og í Signaturbogen *4) er að finna sýnishorn af áritun eftir Vilhelm Wils *5), sem er mjög áþekk því sem kom fram undan yfirmáluninni í málverki því sem hér er til umfjöllunar *6).
Við skoðun í smásjá á árituninni Jón Stefánsson má sjá að litaleifar í svörtum lit eru undir og vinstra megin við fyrri hluta hennar, þ.e. Jón St. (Sjá ljósmynd nr. 4 og 4a). Álykta má sem svo að við gerð áritunarinnar hafi fyrsta gerð hennar mistekist og hún þurrkuð brott að mestu á meðan liturinn var enn blautur. Áritunin síðan endurtekin og misfellur lagaðar til með oddhvössu verkfæri sem sjá má í rispum vinstra megin við neðri hluta S-ins og ofan við e-ið í fyrri hluta eftirnafnsins. (Sjá ljósmyndir nr. 14 og 14a).
Þess ber að geta að þótt ljómageislun komi venjulegast ekki fram í þéttum svörtum lit við lýsingu í útfjólubláu ljósi kemur fram blá ljómageislun í hinu áðurnefnda hálf „afmáða“ svarta litalagi. (Sjá ljósmynd nr. 9 og 9a). Er slík ljómageislun vísbending um að áritunin er ekki mjög gömul. Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hversu gömul hún er með skoðun í útfjólubláu ljósi. Til þess að fá niðurstöðu um slíkt þarf að efnagreina svarta lit áritunarinnar og e.t.v. bera saman við efnagreiningu áritana sem sannanlega eru eftir listmálarann Jón Stefánsson.
Samantekt
Málverkið er að hluta yfirmálað og kemur yfirmálunin glögglega fram í útfjólubláu ljósi.
Svo virðist sem reynt hafi verið að má brott eldri áritun verksins og reynt að hylja ummerki um þann verknað.
Málverkið er nú sýnilega merkt höfundi sem að öllum líkindum hefur ekki málað það. Búið er að fjarlægja þrjá miða af bakhlið verksins sem e.t.v. höfðu að geyma einhverjar upplýsingar um sögu þess.
Niðurstaða
Af því sem hér hefur verið rakið og stutt meðfylgjandi gögnum eru yfirgnæfandi líkur á að málverk þetta, sem sýnilega er höfundarmerkt Jón Stefánsson, er ekki eftir hann. Höfundur verksins er að öllum líkindum Vilhelm Wils, sem var samtímamaður Jóns búsettur í Danmörku.“
Um sýnatöku úr þessu málverki, sem send voru dr. Sigurði Jakobssyni á jarðfræðistofu Háskólans, segir svo í ofangreindri skýrslu Viktors Smára og Haraldar 28. maí sl.: A) Svartur litur úr áritun. Grunur um að í litnum væri alkýd efni. B) Gráblár litur ofan við áritun. Grunur um yfirmálun. C) Gulur litur úr sítrónu. Útfj.bl.ljós gefur vísbendingu um olíulit. D) Gráblár litur. Grunur um yfirmálun.
Í áliti dr. Sigurðar 8. júní sl. kemur fram að í ljós hafi komið með litrófsgreiningu með FTIR aðferð (Transform inform infrared) að efnin úr sýnunum úr þessu málverki voru þessi: A) Alkýd, B) Olía og glært alkýd C) Olía og D) Olía og glært alkýd.
Ríkislögreglustjóri fór þess einnig á leit við forstöðumann Listasafns Íslands með bréfum 5. og 13. febrúar sl. að fram færi á vegum safnsins listfræðileg greining og listfræðilegt mat á þessu málverkinu. Sem fyrr var Júlíönu Gottskálksdóttur, forstöðumanni safnssviðs safnsins, falið verkið .
Í áliti hennar segir þetta um málverkið:
„Myndin sýnir borðplötu sem nær þvert yfir myndflötinn. Á borðinu stendur vínflaska fyrir miðju myndar og græn kanna fyrir framan hana til hægri, en þar fyrir framan eru þrjár sítrónur. Fyrir framan flöskuna til vinstri er blámynstraður diskur með fjórum eplum, en hvítur bolli lengra til vinstri og innar í myndrýminu. Bakgrunnurinn er hlutlaus nema hvað honum er deilt niður með lóðréttri línu lengst til hægri og er hægri flöturinn dekkri á lit. Í myndbyggingu er fylgt klassískum reglum um að samræma andstæð form og stefnur. Þannig má draga uppvísandi, en jafnframt skáhallandi, þríhyrning utan um flöskuna, könnuna, diskinn með eplunum og sítrónurnar, sem þannig skapar mótvægi við láréttar og lóðréttar línur borðsins og flatanna í bakgrunni. Horft er á hlutina frá sama sjónarhorni, enda þótt borðbrúnin sé dregin ögn lægra hægra megin við flöskuna en vinstra megin.
Borðplatan er máluð í ýmsum litum, svo sem fjólubláu og rauðgulu ásamt gulbrúnu, auk þess sem hvítu hefur víða verið blandað í litina sem hins vegar dregur úr litstyrk þeirra og birtu. Bakgrunnurinn er málaður bláum lit sem dreginn er snöggum strokum til þess að lífga flötinn í stað þess að stilla saman andstæðum litatónum til að skapa blæbrigðaríkan flöt. Fyrir bragðið virðist flöturinn órólegur frekar en virkur. Notkun eintóna lita einkennir einnig mynd hlutanna á borðinu sem gerir það að verkum að litirnir móta ekki formin og í sumum tilvikum er litameðferðin handahófskennd, svo sem í mynd leirmunanna.
Í umræddu málverki er að finna ýmis atriði sem oft koma fyrir í verkum Jóns Stefánssonar. Má þar nefna reglur um klassíska myndskipan þar sem leitast er við að samræma andstæður í eina heild. Sú skipan að láta flösku og ávexti á diski og borði mynda þrenningu er einnig þekkt í verkum hans. Í verkum Jóns er frávik frá hefðbundinni miðjufjarvídd hins vegar auðsærri og markvissari. Litameðferðin er mjög ólík þeirri sem einkennir verk Jóns. Í kyrralífsmyndum hans er bakgrunnurinn iðulega blæbrigðaríkur og gjarnan ýmist lýstur upp eða dekktur til að skapa rými eða dýpt að baki aðalatriðum myndarinnar. Myndir hans af blómum og ávöxtum einkennast enn fremur af afar næmu samspili lita og litatóna þar sem leitast er við að laða fram þéttleika þeirra og safa og tjá þá munúðartilfinningu sem þau vekja. Í umræddu málverki er ekki að finna slíkt litasamspil.
Þau atriði, er varða myndefnið og reglur um myndskipan sem telja má sameiginleg með umræddu málverki og verkum Jóns Stefánssonar, eru almenns eðlis og geta átt við um verk ýmissa listamanna af hans kynslóð. Það, sem greinir á milli þessa verks og verka Jóns, eru hins vegar sértæk atriði er varða túlkun listamannsins á efninu, listrænan ásetning hans og gæði verksins.“
Eins og fram kom er rakinn var framburður ákærða hér að ofan um myndina í 3. tl. ákæru, afhenti ákærði í desember 1997 litljósrit fjögurra ljósmynda af málverkum, sem hann kvað hafa verið teknar í íbúð Jónasar Freydal Þorsteinssonar í Kaupmannahöfn. Sýna tvær þeirra, mynd nr. 1 og 3 málverk, sem líkjast mjög málverkinu sem hér er til umfjöllunar.
Verður nú rakinn framburður ákærða og annarra vitna um þetta ákæruatriði.
Við yfirheyrslu 10. desember kvaðst ákærði, að viðstöddum þáverandi verjanda sínum, ekki vera viss af hverjum hann keypti myndina, en það hafi verið eftir svari við auglýsingu frá honum sjálfum í dönsku blaði. Hann hafi keypt tvær myndir af þessum sama manni. Er ákærða var bent á mynd nr. 82 á uppboðsskrá Gallerí Borgar. Kvað hann þetta sömu myndina og sæist á tveimur ljósmyndum. sem teknar eru í íbúð Jónasar Freydal. Hann kvaðst ekkert muna eftir sölu myndarinnar á uppboðinu hjá Gallerí Borg, en er honum voru sýnd greiðslugögn kaupanda, þ.e reikningur og ljósrit tékka frá uppboðinu, kannaðist hann við að þetta væru gögn úr fyrirtæki hans. Hann gat engar upplýsingar gefið um eigendasögu verksins, enda kvaðst hann hafa keypt verkið af ókunnugum manni í Kaupmannahöfn. Er honum var sýndur ofangreindur reikningur frá Bruun Rasmussen vegna uppboðsins í Vejle, þar sem tilgreindar eru tvær myndir nr. 1125 og 1126, stílaður á ákærða kvaðst hann ekki muna eftir kaupum þessara tilteknu mynda. Er honum var sýnd uppboðsskráin frá Vejle kvaðst hann heldur ekki muna eftir þessum myndum. Hann sagðist hins vegar hafa skilið eftir tvær myndir eftir WilhelmWils, sem hann keypti á uppboðinu, hjá Jónasi Freydal, svo sem lýst hefur verið áður. Er ákærða var kynnt að samkvæmt framangreindum reikningi hafi hann keypt tvær myndir, aðra merkta nr. 1126 á umræddu upboði í Vejle og lýsing hennar og að myndin, sem Gallerí Borg seldi nr. 82 á umræddu uppboði, bæri þetta sama númer á blindramma svo og niðurstaða rannsóknar Haraldar Árnasonar, sagði ákærði að hann hafi keypt mynd nr. 82 í Kaupmannahöfn. Hann kvaðst minnast þess að hafa skilið þessa mynd efir hjá Jónasi Freydal, en hann hafi skilið eftir hjá honum tvær myndir, sem hann keypti á uppboði í Vejle. Í yfirheyrslu 11. desember sagði ákærði, er honum hafði verið kynnt fram komin rannsóknargögn um þessa mynd, að hann hafi keypt myndina nr. 1126 í Vejle og látið Jónas Freydal hafa hana. Hann hafi hins vegar keypt myndina nr. 82, sem hann seldi á uppboði Gallerí Borgar, af einhverjum öðrum. Hann kvaðst ekki hafa upplýsingar um seljandann og kvaðst ekki muna hvort hann keypti myndina eða hvort hún kom í umboðssölu fyrir uppboðið.
Er ákærða var sýnd í dóminum myndin, sem fjallað er um í 1.lið ákæru, kvaðst ákærði hafa keypt af danskri konu, Patriciu Aagreen, í maí eða júní ´94 í Kaupmannahöfn Hún hafi verið með sölubás á hálfgerðum flóamarkaði og hann hitti hana þar. Þegar hún hafi komist að því að hann væri íslenskur hafi hún boðið sér myndina til sölu. Hún hafi ekki verið með myndina með sér og þau hafi hist nokkrum dögum seinna. Myndin hafi hangið uppi til sölu í Gallerí Borg um sumarið og farið svo á umrætt uppboð 1. september. Er honum var bent á gögn málsins að því er þessa mynd varðar kvaðst ákærði hafa keypt verkið á framangreindu uppboði í Vejle, nr. 1126 í uppboðsskránni þar, ásamt verkinu nr. 1125, skilið báðar myndirnar eftir í íbúð Jónasar Freydal í Kaupmannahöfn, en tekið af þeim báðum rammann og farið með rammana heim til Íslands. Rammana hafi hann svo sett um myndirnar sem fjallað er um í 1. og 3. lið ákæru og selt þær þannig á uppboðunum tveimur. Benti ákærði á það að sjá mætti myndirnar sem hann skildi eftir hjá Jónasi á litljósritunum af myndunum, sem hann fékk hjá Jónasi og lagði fram við rannsókn málsins 1. desember 1997. Ákærði sagði að vel gæti verið að krítaða talan 1126, á bakhlið rammans á myndinni í 1. lið ákæru, og talan 223 á bakhlið blindrammans væru uppboðsnúmer, sem bentu til þess að að myndin hafi verið á uppboði t. d. erlendis. Hins vegar hefði hann líka tekið þennan blindrammann af myndinni sem hann keypti í Vejle og sett á myndina sem lýst er í 1. lið ákæru, rannsóknartilvik 26.
Ákærði sagði að það væri mjög þekkt að þeir sem stunduðu málverkakaup og sölu keyptu ekta blaðgullsramma í Danmörku á uppboðum, fyrir D. kr. 1.600 - 2.000, en ámóta rammar myndu kosta hér á landi milli 60.000- 80.000 krónur.
Ákærði kvað vel mega sjá á ljósmyndum af bakhlið málverksins og málverkinu sjálfu að myndin væri nýkomin í þennan ramma og ljóst væri að á henni væru nýjar festingar, nýtt upphengi á myndinni, sem renni stoðum undir þann framburð hans að hann hafi setti málverkið í rammann af myndinni sem hann keypti í Vejle. Benti hann á að ramminn væri eitthvað stærri en ramminn sem hún hefði verið í og því væri hún kýld út, í raun stækkuð, talsverður munur væri á öllum hornum. Þetta muni e.t.v. 3-4 sentimetrum, en til að hún passi í rammann hafi myndin verið sett á gamla blindrammann og rammann frá Vejle. Málverkið sem hann keypti í Kaupmannahöfn hafi verið fest í þennan ramma og til þess að hún passi í hann hafi myndin verið kýld svona mikið út. Enginn listamaður myndi ganga frá þessu á þennan hátt, þetta væri svo knappt. Kvaðst ákærði aðspurður hafa látið innrammara gera þetta, en sagðist hvorki vita hvar né hver gerði þetta.
Ákærði kvaðst kannast við það að hafa komið heim til Íslands eftir uppboðið í Vejle 21. ágúst 1994, svo sem framlagður farmiði í málinu ber með sér. Hann sagði að það tæki nokkra daga að útbúa uppboðsskrá og dálítill tími færi í að að ljósmynda verkin, koma þeim í prentun eða búa til prentunar. Ákærði kvaðst hafa séð margar ámóta uppstillingar eftir Jón Stefánsson.
Viktor Smári staðfesti fyrir dóminum framangreinda rannsókn. Hann sýndi í dóminum ofangreinda polaroidmynd, sem Hans Jensen lagði fram í málinu af mynd 1126, með því að varpa henni á vegg með myndvarpa. Taldi Viktor að ljósmyndin sýndi rannsóknartilvik 26. Hann hafi séð við stækkun ljósmyndarinnar áritunina „Wils“. Hann kvaðst hafa borið saman hvort áritunin var á sama stað eða svipuðum stað og hann greindi hana með framangreindum rannsóknaraðferðum sínum á málverkinu og áritunin hafi verið á nákvæmlega sama stað.
Vitnið sagði að í áritununum, sem hann hafi greint á myndunum í 1. og 2. lið ákæru, hafi rauði liturinn virst vera eins. Hann hafi verið mjúkur viðkomu og grófkornaður, með holrúm á milli sem sjá mátti í smásjá og hann hafi ekki virst hafa haft mikið bindiefni í sér.
Vitnið sagði að næstum engin eða lítil naglaför hafi verið að á blindramma verksins og ekki væri svo að sjá að þessi rammi hafi verið notaður á annað verk, þótt ekki væri slíkt útilokað. Benti vitnið á tvö lítil göt í blindrammanum sem gætu verið eftir lykkju, eins og væri á rammanum, en sagði að ekki virtist um naglafar að ræða í gatinu. Ef svo hefði verið hefði naglinn átt að vera innar. Þegar rammi væri endurnýttur frá öðrum mætti yfirleitt sjá það á götum þar í kring. Hann sagði að sú tegund nagla sem væri á blindrammanum væri kallaður blásaumur, en þeir væru algengir í eldri verkum.
Þegar vitnið skoðaði málverkið nánar í dóminum sagði það að ekki væri svo að sjá á jaðri strigans að oft hefði verið neglt upp á nýjan blindramma, einungis væri sjáanlegt eitt riðgat með riðbletti í kring. Ekki væri unnt að sjá gat í blindrammanum. Tiltölulega mikil útfleygun væri á hornunum en vitnið kvaðst ekki vita hvort það var gert til að fá rammann til þess að passa, en kanturinn á léreftinu sem nær upp á kantinn á blindrammanum væri óvenju stuttur. Ekki væri málað alveg út í kant á verkinu að ofanverðu, en oft slaknaði á gömlum myndum með aldrinum og þá þyrfi oft að fleyga blindrammann meira út til þess að halda myndunum strekktum. Þá benti vitnið á það, að naglarnir væru flestir nálægt fremri brún og því virtist sem myndin væri sett á blindrammann mjög naumt og ekkert merki væri um það að kanturinn hefði verið annars staðar. Ef myndin hefði verið í öðrum blindramma ætti að sjást brot eftir það á myndinni, nema hún hefði þá verð negld eins naumt og nú væri gert. Vitnið taldi eðilegt að myndin væri fleyguð á bakhlið undir hornunum, hafi hún verið verið slök og striginn teygjanlegur. Hins vegar væri hugsanleg skýring á því að striginn væri svona naumt strekktur á blindrammann sú að fá hana til að passa í þennan ytri ramma. Vitnið kvaðst hafa tekið myndina úr rammanum við rannsókn sína á myndinni og sett nýjar skrúfur á hana, en merki væri um eina gamla skrúfu á blindrammanum, en ekki aðrar. Þá væru nýjar eða nýlegar festingar í gegnum skrúfurnar og til að hengja verkið upp.
Vitnið sagði að ytri ramminn væri tiltölulega vandaður rammi. Vönduðustu rammar af þessu tagi væru unnir samkvæmt miðalda hefð og sjá mætti á þessum ramma mörg lög af krít á viðnum. Fannst vitninu ramminn of mattur og lítið gljáandi til þess að hann gæti verið úr ekta blaðgulli. Benti vitnið á það að næst viðnum væri húðlím og ofan á hvíta grunninum væri í slíkum römmun rauðleit skil undir gull. Sýndist vitninu að sjá mætti slík skil eftir blaðgull á rammanum, en vildi ekki fullyrða það. Taldi vitnið að rammar úr blaðgulli með slíku mynstri væru tiltölulega fágætir hér á landi. Vitnið gat ekki borið um verðmæti rammans, en taldi að nýr rammi með ekta blaðgyllingu með sams konar mynstri gæti kostað um 6-8 þúsund danskar krónur.
Vitið Júlíana Gottskálksdóttir var fyrir dóminum beðin um nánari skýringu á eftirfarandi áliti hennar á þessari mynd: „Í umræddu verki er að finna ýmis atriði sem oft koma fyrir í verkum Jóns Stefánssonar, reglur um klassíska myndskipan þar sem leitast er við að samræma andstæður í eina heild.“ Sagði hún að í klassískum verkum væri verið að leita ákveðins samræmis og hér virtist höfundur þessa verks tilheyra þeirri hefð þar sem sú regla er höfð í heiðri, þ. e. hann skapi ákveðna heild og leiti ákveðins jafnvægis, annars vegar með þessum þáttum sem vekja hjá áhorfandanum tilfinningar um kyrrstöðu, þ. e. með láréttum og lóðréttum flötum, hornréttum línum. Á móti því byggi hann upp eða setji í forgrunn, flöt, flatan flöt og stilli upp formum sem bæði formrænt séð væru annars eðlis, Sjá megi að ákveðin tilraun er gerð til að samræma þessar andstæður í eina heild. Þetta sé hefð sem rekja megi til fyrri alda í evrópskri myndlist og málarar um og eftir aldamótin síðustu hafi haldið tryggð við, meðal annars menn af kynslóð Jóns Stefánssonar.
Um þann þátt álits síns sem fjallar um litameðferð í verkinu sagði vitnið að eitt aðaleinkenni Jóns væri litameðferð hans og það sem einkenndi meðal annars formmótun hans væri að hann mótaði formin. Þau hafi yfir sér ákveðinn þéttleika, ákveðna festu og væru mótuð með litnum, með penslinum og með litasamspili, afar næmu samspili. Hvíti liturinn væri í mörgum myndum, en hvítur flötur væri aldrei einlita. Hann byggi litinn upp á mörgum litatónum og þessi þéttleiki formanna sem næst fram með ákveðinni litameðferð megi telja höfuðeinkenni Jóns. Í umræddri mynd kvaðst vitnið sakna blæbrigðaríku flatanna, sem Jón vinni með. Litirnir væru fremur eintóna, formin ekki mótuð með litnum. Litbrigði eða blæbrigði litanna sem móta formin skorti.Þetta megi t.d. sjá í könnunni á myndinni.
Vitnið sagði nánar um sértæk atriði er varða túlkun listamannsins á þessari mynd á efninu, listrænan ásetningur og gæði að sjá megi að málarinn hafi kynnst ákveðinni hefð og virði hana að vissu marki. Í myndum Jóns komi fram að hann leyfi sér að víkja frá hefðbundnu sjónarhorni og sýni oft hluti á borði frá mismunandi sjónarhornum í þeim ásetningi að draga fram rúmtök hlutanna og leyfi sér þá að víkja frá því að sýna heildina frá einu sjónarhorni. Í myndum hans sé bakgrunnurinn mjög virkur. Ekki sé tilviljunarkennt hvernig hann vinni bakgrunninn vegna þess að hann sé að skapa heild. Það sé þessi heildræna hugsun sem hann ásetji sér að túlka og vinnubrögð hans séu að mati vitnisins þaulhugsuð. Með upstillingu skoði Jón heildrænt málverk, sem lýsi vitsmunalegri hugsun, andstæð frásagnarkenndri.
Vintið dr. Sigurður Jakobsson staðfesti niðurstöðu sína á litrófsgreiningu þeirri sem að framan getur og sagði að sýnið 26-D, sýndi auk olíu glært alkýð, þetta væri aukasýni, en eitthvað hvítt eða glært efni hafi hangið utan á sjálfu sýninu.
Vitnið Hans Hinrik Jensen benti á myndina í 1. lið ákæru í dóminum og sagði að þetta væri sama myndin og merkt er nr. 1126 á uppboði Bruun Rasmussen í Vejle nr. 33. Þá mynd hafi hann selt á þessu uppboði, en myndina hafi hann keypt á uppboði í Kunsthallen nr. 371 í Kaupmannahöfn árið1988. Myndin sé merkt nr. 233 á þeirri uppboðsskrá. Hans sá í dóminum númerið 1126 merkt með krít aftan á blindrammanum á myndinni og sagði að Kunsthallen merkti myndir sínar á þennan veg. Hann kvaðst einnig þekkja rammann á myndinni, en sagðist ekki vita hvort hann væri með ekta blaðgyllingu. Þá staðfesti hann að hafa tekið umrædda polaroidmynd af þessu málverki þegar það var í hans eigu, uppstillingu eftir málarann Wilhelm Wils og afhenti hann lögreglu polaroidmyndina. Hann kvaðst taka myndir af meginhluta málverka fyrirtækisins þar sem það skrái myndirnar, stundum hafi það þó gleymst. Hans ítrekaði að hann væri viss um að litljósmyndir þær, sem ákærði kvað sýna mynd nr. 1126 er hann keypti á uppboðinu í Vejle, sýndu ekki mynd þá er hann seldi þar. Benti vitnið á það að t.d. væru tvær sítrónur á litljósritinu, en þrjár á hinu raunverulega málverki, enda sæist það glöggt af polaroidmynd vitnisins. Er vitninu voru sýnd litljósrit Haraldar Árnasonar af polaroidmynd vitnisins af verkinu, en þar virðist koma fram áritun í hægra horn hennar, sagði vitnið að verkið hafi litið svona út þegar vitnið átti verkið. Hans sagði að hann hafi skilað þessari mynd á uppboðið nr. 33 í Vejle á árinu 1994, en hann hafi ekki verið á uppboðinu sjálfu, en sent myndina á uppboðið og fengið fyrir hana kvittun og upplýsingar um mynd sína sem komi fullkomlega heim og saman við mynd þá sem merkt er nr. 1126 í uppboðsskránni. Á þessu uppboði hafi hann selt tvær myndir, hin sé nr. 1125 í skránni.
Hans kvaðst vera sannfærður um að þetta væri sama mynd og seld var nr. 1126 á uppboðinu í Vejle. Hann sagði að skýringin á því að verkið hafi ekki borið sama nafn á uppboðinu í Kunsthallen og í Vejle væri sú, að uppboðsfyrirtæki gæfu oft myndum önnur nöfn eða önnur heiti. Ef ekki væru heiti á myndinni heiti sem þeir geta „afritað“ þá fari þeir eftir því sem þeir sjá á myndinni.
Vitnið Sven Juhl Jörgensen staðfesti, eins og að framan greinir, að hann hefði sent lögreglu ljósrit framangreinds reiknings fyrirtækisins, sem bæri með sér að ákærði hafi greitt fyrir. Um framburð Sven vísast að öðru leyti til framburðar hans, sem reifaður var í 1. lið hér að framan, er fjallað var um 3. lið ákæru.
Vitnið sagði að rannsóknartilvik 26, myndin í lið 1 í ákæru, og áritunin 1126 aftan á blindrammanum á myndinni kæmi heim og saman við lýsingu myndarinnar og númerið á uppboðsskránni á uppboði nr. 33 í Vejle. Vitnið kvaðst ekki muna sérstaklega eftir þessari mynd á uppboðinu í Vejle.
Vitnið Gunnar Snorri Gunnarsson kvaðst hafa keypt málverkið á uppboðinu á Akureyri í gegnum síma og greitt fyrir hana 396.000 krónur. Hann lagði fram við rannsókn málsins kröfu þess efnis að ákærði greiddi honum mismun markaðsverðs myndarinnar í Danmörku og kaupverðs hennar hérlendis, samtals 370.000 krónur. Fyrir dóminum kvað hann einnig koma til greina að skila myndinni og fá fullt kaupverð hennar endurgreitt.
Hann kvaðst hafa séð myndina til sýnis í Gallerí Borg og sýnst hún snotur, en forsenda kaupanna hafi verið sú að myndin var merkt Jóni Stefánssyni. Hann kvaðst ekki hafa óskað eftir eigandasögu hennar, hún hafi ekki legið fyrir.
Vintið Jónas Freydal var yfirheyrður við rannsókn málsins um málverkið í sömu skýrslu og um getur í kafla A hér að framan. Honum var sýnd litljósmynd af málverkinu, en kvaðst ekki þekkja málverkið og ekki muna eftir að hafa séð það. Þá var honum sýnt litljósritið sem ákærði lagði fram við rannsóknina og líkist myndinni „Uppstillingu“, „Opstilling med vin og krus“ og sagðist hann ekki muna eftir því að hafa tekið við þessu málverki, og benti jafnframt á það að ekki væri um sömu myndir að ræða á litljósmyndum lögreglu og þeirri sem frá ákærða er komin. Nánar aðspurður um þetta verk og rannsóknartilvik 23, verkið „Uppstillingu“, „Pelargonie på et bord“, sagði ákærði að hann vildi ekki blanda sér í málið of mikið, en hann geti sagt að hann hafi móttekið fjórar myndir eftir að ákærði keypti nokkrar myndir á uppboðinu í Vejle í ágúst 1994. Hvaða myndir það væru gæti hann ekki nákvæmlega sagt en hann fullyrti að myndirnar sjáist upp á vegg á ljósmyndum þeim sem hann afhenti ákærða nú fyrir nokkru síðan. Er hér var komið sögu í yfirheyrslunni tilkynnti vitnið og lögmaður hans að þeir hefðu ekki tíma til að ræða lengur við yfirheyrendur og hefði ekkert fleira að segja að svo stöddu. Kvaðst hann hvorki vilja lesa skýrsluna yfir né undirrita hana og gekk út .
Vitnið Patricia Toby Mikaelsen (áður Aagreen) kom fyrir dóminn. Hún kvaðst vera ritari á lögmannaskrifstofu. Hún kvaðst ekki hafa stundað kaup og sölu á listaverkum. Hún kvaðst hafa starfað sem lagerstjóri hjá fyrirtæki á árunum 1993 til 1995. Hún kvaðst hafa selt ákærða málverkið vorið1994, einhvern tíma á tímabilinu apríl til júní. Hún hafi hitt hann á flóamarkaði í Lyngby þar sem hún var að selja ýmsa hluti sem hún átti. Þau hafi farið að spjalla saman og borist hafi í tal að hann var Íslendingur. Hún hafi átt íslenskt málverk, merkt Jóni Stefánssyni, sem hún hafi fengið frá föður sínum og lengstum geymt það inni í skáp. Hún kvaðst muna eftir höfundarmerkingunni, en ekki hvar hún var á myndinni. Hún sagði að hún þekkti ekki önnur verk Jóns Stefánssonar. Faðir hennar heitinn hafi stofnað fornmunaverslanir í Kaupmannahöfn. Hann hafi átt verkið í 10 ár áður en hún fékk það. Hann hafi sagt að þetta málverk væri nokkuð verðmætt. Hún hafi því spurt ákærða hvort hann hefði áhuga á að sjá málverkið. Hann hafi gjarna viljað það og nokkrum dögum seinna hafi hún sýnt honum málverkið og hann tjáð henni að hún gæti fengið 18.000 danskar krónur fyrir verkið. Hún kvaðst engin greiðslugögn eiga um sölu sína á þessu málverki til ákærða.
Hún lýsti málverkinu svo að það væri uppstilling með grænni krús, flösku og ávöxtum. Hún kvaðst sérstaklega muna eftir krúsinni. Öðrum sérkennum kvaðst hún ekki muna eftir.
Hún sagðist hafa hitt ákærða tvisvar eftir að hún seldi honum málverkið, í fyrra skiptið í ágúst 1998, en þá hafi hún hitt hann af tilviljun aftur á sama flóamarkaðnum í Lyngby. Hún hafi verið þar á gangi. Þetta væri mjög stór flóamarkaður, sem haldinn væri á hverjum sunnudegi í marga mánuði. Hann hafi sagst eiga ljósrit af málverkinu og beðið hana að staðfesta að þetta væri málverkið sem hann keypt af henni. Hún hafi ekki litið nánar á það, en staðfest að hún hafi selt honum málverkið. Er vitninu voru sýndar tvær litljósmyndir, sem ákærði lagði fram og sagði vera myndir er hann keypti á uppboði í Vejle í ágúst 1994, benti vitnið á að önnur þeirra gæti lýst málverkinu, en kvaðst ekki geta séð það á þessari ljósmynd, en málverkið minnti á umrætt málverk.
Hún sagði að myndin sem ákærði sýndi vitninu til að skerpa minni þess í ágúst 1998 væri mun stærri en þessi litljósmynd. Vitnið sagði að þegar hún fékk að sjá litljósmyndina hafi sú ljósmynd líkst málverkinu, sem hún seldi honum, en hún kvaðst ekki endilega geta sagt að það hafi verið það málverk. Hún hafi ekkert litið nánar á þetta ljósrit, hún hafi viljað „staðfesta það að hafa selt honum þetta málverk vegna þess að það er það sem ég hef gert“. Hún sagðist ekki muna tilefni þess að ákærði bað hana að staðfesta að málverkið væri frá henni komið. Hún kvaðst heldur ekki muna hvort það barst í tal að lögreglurannsókn stæði yfir út af þessu málverki. Henni hafi fundist þessi bón undarleg, en hún kvaðst ekki minnast þess að hafa spurt ákærða um þetta. Hún kvað þennan atburð ekkert sérstaklega minnistæðan, og „menn leggja ekki endilega á minnið til að geta munað svona mörgum árum seinna“.
Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða í þriðja sinn um 10 dögum áður en vitnið kom í dóminn, en vitnið var yfirheyrt 22. janúar sl. Það hafi verið eftir að vitnið fékk kvaðningu um að mæta fyrir dómnum. Þau hafi hist í kjölfar þess að hún gerði lögfræðingi sínum grein fyrir því að hún hefði ekki „sérstakan áhuga á því að fara til Íslands „því hún hafi ekki séð „til hvers ætti að nýta mig hér“. Ákærði hafi spurt hana hvort hún vildi ekki vera svo væn og koma til Íslands og bera vitni hér vegna þess að framburður hennar væri mjög mikilvægur í hans máli. Hann hafi beðið hana að skýra frá því málverki sem hún seldi honum og það hafi hún að sjálfsögðu viljað gera. Hún kvaðst ekki muna hvar hún hafi hitt ákærða, en hann hafi komið til Danmerkur og haft samband við sig og síðan hafi þau hist í kjölfar þess. Þau hafi verið tvö á þessum fundi. Vitnið sagði að hún myndi ekki hvort höfundarnafnið hafi borið á góma á þessum fundi þeirra. Hann eða aðrir hafi ekki reynt að hafa áhrif á framburð hennar. Er henni var á það bent að flugfarmiðar sýni að hann hafi hann farið til Kaumannahafnar 12. janúar og komið heim næsta dag og hún ítrekað spurð hvar nánar hún hafi hitt ákærða sagði hún að þau hafi hist í húsi móður sinnar. Hún hafi ekki séð ástæðu til að lögmaður sinn yrði viðstaddur þennan fund.
Vitninu voru sýndar litljósmyndir og polaroidmyndir nokkurra málverka eftir Wils sem Hans Hinrik Jensen afhenti lögreglu, meðal annars mynd sem Hans kveðst hafa tekið af rannsóknartilviki 26. Vitnið benti fyrst á síðastgreinda mynd en síðar á mynd með grænnni krús, hvítum bolla og fimm eplum sem hún taldi líkust umræddri mynd. Hún kvaðst ekki vilja fullyrða hvort myndir þessar væru af umræddu málverki.
Er vitninu var sýnt málverkið í dóminum sagði hún að stærð þess væri svipuð og málverksins sem hún seldi ákærða. Vitnið sagðist ekki geta um það sagt hvort þetta væri myndin sem hún seldi ákærða, en sagði að þessi mynd líktist því málverki. Á því hefði verið umrædd græn krús, einhverjir ávextir og vínflaska og hvítur bolli. Hún kvaðst ekki muna eftir rammanum á myndinni
Vitnið sagðist ekki þekkja Jónas Freydal Þorsteinsson.
Vitnið sagði aðspurð að enginn hafi reynt að hafa áhrif á framburð hennar í málinu, hvorki lögregla, ákærði né aðrir. Hún kvaðst ekki hafa treyst sér til að mæta með svo stuttum fyrirvara fyrir dóminum 11. janúar sl., þar sem hún hafi þurft að gæta húss móður sinnar. Vitninu var bent á það að meðal annars kæmi fram í upplýsingaskýrslu frá ríkislögreglunni í Kaupmannahöfn, 8. janúar 1999, að vitnið hafi sagt við lögmann sinn, sem var birt vitnafyrirkallið 6. janúar sl., að hún þekkti ekki til þessa máls gegn Gunnarssyni og hefði þess vegna ekki vitað um hvað hún yrði spurð af verjandanum. Vitnið kannaðist við þetta en sagðist ekki hafa geta mætt af framangreindum orsökum. Hún hafi þekkt ákærða með nafni og gert sér grein fyrir að málið var gegn honum er hún fékk birta fyrstu vitnastefnuna.
Í lok yfirheyrslunnar var vitninu sýnt stækkað litljósrit, sem bersýnilega er af rannsóknartilviki 26, sem verjandi lagði þá fram í þinghaldinu. Staðfesti vitnið að hér væri komið það ljósrit, sem ákærði hafi sýnt sér. Vitnið kvaðst hafa skrifað það sem handritað er á þessari mynd: „ 31.8. 1998. Jeg Patricia Aagreen skal hermed bekræfte, at jeg har i enten maj eller juni 1994 har solgt det affotograferede maleri til Peter Gunnarsson. Med Venlig Hilsen. P.A,“ Þetta kvaðst vitnið hafa skrifað á litljósritið er hún hitti ákærða á flóamarkaðnum greint sinn. Hún kvaðst ekki vita hvers vegna hún skrifaði á myndina „Med venlig hilsen“ þótt hún hafi hitt ákærða augliti til auglitis. Hún kvaðst ekki vita hvort dagsetningin væri rétt.
Ákærði var yfirheyrður á ný fyrir dóminum í tilefni framburðar vitnisins Patriciu. Sagði hann að hann hafi ekki nefnt þetta vitni fyrr en skömmu fyrir aðalmeðferð málsins þar sem hann hafi ekki fundið hana fyrr en um haustið og aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð ástæðu til þess að gera rannsóknaraðilum grein fyrir því, ætlað að bíða rétts tíma. Honum hafi einnig borist til eyrna að lögregla hérlendis hafi haft í hótunum við vitnið síðustu daga þess efnis að ef hún kæmi hingað til lands og héldi fram þeirri lygi að hún hafi selt ákærða málverkið yrði hún ákærð fyrir það að hafa selt falsað málverk. Því hafi hann farið til Danmerkur á fund vitnisins 12. janúar sl. til að biðja hana að koma til landsins og gefa vitni. Honum hafi verið kunnugt um að dómurinn hafi gefið út vitnakvaðningu og dómurinn og lögregla hafi gert ráðstafanir til að fá vitnið fyrir dóminn. Ákærði kvaðst ekki hafa séð ástæðu til að ráðgast við verjanda sinn um ferð þessa.
Um breyttan framburð sinn um kaup á þessari mynd frá yfirheyrslum 10. og 11. desember 1997 sagði ákærði, að hann hafi ekki munað nákvæmlega hvernig kaupin gerðust í Kaupmannahöfn. Flestar sínar myndir hafi hann keypt eftir auglýsingu og því hafi hann talið við fyrri yfirheyrslur að svo hafi verið í þessu tilviki. Þetta hafi verið misminni. Hann kvaðst meðal annars hafa farið á flóamarkaðinn síðastliðið sumar eða haust, til þess að leita að konunni í þeim tilgangi að fá staðfesta eigendasögu málverksins, ekki að hún myndi eftir myndinni heldur að hún hefði selt honum þessa mynd. Hann kvaðst engin gögn hafa haft um sölu myndarinnar, en við nánari upprifjun hafi hann munað eftir því að hann keypti myndina af þessari konu.
Ákærði sagði að hann hafi verið samferða Jónasi Freydal til Danmerkur 12, janúar sl., en hann hafi ekki tekið þátt í fundi þeirra Patriciu.
Niðurstaða.
Ákærða er gefið að sök að hafa keypt málverkið „Opstilling med vin, krus samt frugter“ eftir danska málarann Wilhelm Wils á sama uppboði og málverkið sem getið er um í A kafla hér að framan, í Vejle 18. ágúst 1994, afmáð höfundarmerkingu listamannsins og selt það með blekkingum sem verk Jóns Stefánssonar listmálara á uppboði nr. 12 í Reykjavík 1. september 1994, eins og nánar er lýst í ákæru. Verkið var slegið Gunnari Snorra Gunnarssyni á uppboðinu á 360.000 krónur.
Hér að framan hefur verið lýst hvaða sérfræðingar komu að rannsókn málverksins að beiðni ríkislögreglustjóra og niðurstöðu þeirra rækilega lýst. Samkvæmt niðurstöðu Haraldar Árnasonar lögreglufulltrúa, sem skimaði litarflöt málverksins í VSC (Video Spectral Comparator) tæki, með útfjólubláu ljósi, gáfu þær til kynna, „að höfundarnafnið „Wils“ hafi annað hvort verið máð út eða að málað hafi verið yfir það á framangreindu málverki, sem sýnilega er höfundarmerkt Jóni Stefánssyni og lýst er hér að framan.“ Að sömu niðurstöðu komst Viktor Smári Sæmundsson forvörður hjá Listasafni Íslands, er hann rannsakaði og tók ljósmyndir af verkinu við venjulegar aðstæður og undir útfjólubláu ljósi á litskyggnur og kannaði einnig hvort hluti verksins væri yfirmálaður og hvort undir yfirmálingu væri eldri undirritun finnanleg. Í samantekt rannsóknar hans segir að málverkið sé að hluta yfirmálað og komi yfirmálunin glögglega fram í útfjólubláu ljósi. Svo virðist sem reynt hafi verið að má brott eldri áritun verksins og hylja ummerki um þann verknað. Málverkið sé nú sýnilega merkt höfundi sem að öllum líkindum hafi ekki málað það. Búið sé að fjarlægja þrjá miða af bakhlið verksins sem e.t.v. höfðu að geyma einhverjar upplýsingar um sögu þess. Þá segir í niðurstöðukafla rannsókna hans að af rannsókninni og gögnum sem hún styðst við séu yfirgnæfandi líkur á að málverk þetta, sem sýnilega er höfundarmerkt Jón Stefánsson, sé ekki eftir hann. Höfundur verksins sé að öllum líkindum Wilhelm Wils, sem var samtímamaður Jóns búsettur í Danmörku.
Haraldur og Viktor Smári staðfestu einnig fyrir dóminum verk sín og rannsóknir á þessu málverki og útskýrðu nánar rannsóknir sýnar og niðurstöður þeirra, meðal annars með með VSC tækinu og myndskyggnum. Sáu dómendur og sakflytjendur einnig með berum augum í VSC tækinu framhlið myndarinnar, einkum svæðin þar sem undirritunin „Jón Stefánsson“ er á verkinu og á önnur svæði, sem sérstaklega er vikið að í rannsóknum Haraldar og Viktors Smára. Dómendur eru sammála um það að ljóslega mátti greina með berum augum áletrunina Wils. Framburður þeirra beggja var sem fyrr trúverðugur og þeir sjálfum sér samkvæmir. Þeir tóku einnig sýnishorn úr málverkinu, eins og lýst hefur verið, og sendu dr. Sigurði Jakobssyni til litrófsrannsóknar. Er vísað til framburðar hans hér að framan um áreiðanleika þessarar rannsóknar. Eins og fram er komið greindi dr. Sigurður alkýð í svörtum lit sem tekinn var úr áritun neðst til hægri á myndinni og einnig svæði ofan við áritun og loks á bletti neðan við disk á málverkinu. Við ljósmyndum Viktors Smára í útfjólubláu ljósi vöknuðu einmitt grunsemdir um að á þessum stöðum væri yfirmálum og að alkýð væri í áritun. Vísast hér til fyrrgreinds vættis dr. Sigurðar um þornunartíma olíulita sem listamenn nota og alkýðs og vitnisburðar Viktors Smára um þessa liti. Fram er komið í málinu að alkýð var ekki notað í listamannaliti fyrr en mörgum árum eftir lát Jóns Stefánssonar.
Skimun málverksins, sem lýst hefur verið hér að framan og dómendur sáu sjálfir í dóminum, er í samræmi við rannsóknir og niðurstöður sérfræðinganna Viktors Smára Sæmundssonar og dr. Sigurðar Jakobssonar, sem lýst hefur verið rækilega í I. kafla B. Rannsóknir þeirra sýna að einnig í þessu tilviki var mjög sterk fylgni milli ljómageislunar sem fram kom við ljósmyndun af málverkinu undir útfjólubláu ljósi og niðurstöðu litrófsrannsókna á bindiefninu.
Af þessum rannsóknum og trúverðugum framburði þeirra sem þær önnuðust þykir fyllilega í ljós leitt að höfundarmerkingin „Jón Stefánsson“ sem var á málverkinu þegar það var selt 1. september 1994 á uppboði nr. 12 í Reykjavík var ekki máluð af Jóni Stefánssyni.
Sú niðurstaða styðst einnig við vætti Ólafs Kvaran forstöðumanns Listasafns Íslands og greinargott álit og vitnisburð Júlíönu Gottskálksdóttur listfræðings. Ólafur hefur borið að hann telji að ekki verði séð að tekist sé á við grundvallareinkenni í list Jóns í þessari mynd sem og hinum tveimur, sem mál þetta snýst um, bæði að því er varðar litræna endurtekningar eða tengingar og formmótun, sem tengist andstæðuríkri litanotkun Jóns. Hann sagði einnig að myndirnar þrjár væru mjög á skjön við það sem væri rauður þráður í allri myndlist Jóns Stefánssonar og taldi að þegar litið væri til þeirra sterku höfundareinkenna gæti Jón ekki hafa málað þessar myndir eða tekist svona illa upp með eigin stíl. Þetta væri augljóst þegar litið væri á myndirnar. Í áliti Júlíönu kom meðal annars fram að ýmis atriði mætti finna í myndinni sem kæmi fram í verkum Jóns, en það, sem greindi á milli þessa verks og verka Jóns, væru hins vegar sértæk atriði er varða túlkun listamannsins á efninu, listrænan ásetning hans og gæði verksins. Framburður hennar fyrir dóminum um þetta verk var trúverðugur og greinargóður. Eins og fram er komi í umfjöllun verksins í kafla A útskýrði hún með sýningu litskyggna verk höfundarins til samanburðar þessu verki.
Vitnisburður framangreindra vitna kemur einnig heim og saman við gögn og framburð annarra vitna, sem renna sterkum stoðum undir það að málverk þetta sé eftir Wilhelm Wils og hafi verið selt á uppboðinu nr. 33 í Vejle 18. ágúst 1994, eins og nú verður rakið.
Lýsing og stærð málverksins „Opstilling med vin, krus samt frugter“ sem merkt er nr. 1126, eftir Wilhelm Wils, á skrá uppboðsins nr. 33 í Vejle, kemur kemur heim og saman við málverkið „Uppstilling“, sem merkt var nr. 82 á uppboðsskrá uppboðs Gallerís Borgar í Reykjavík 1. september 1994. Vitnið Hans Jensen staðfesti einnig fyrir dóminum, að hann hafi selt þessa mynd á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994. Er sá framburður í samræmi við vætti Sven Juhl Jörgensen, starfsmanns Bruun Rasmussen í Vejle, sem staðfesti og lagði fram gögn um að Hans hefði afhent myndina ásamt myndinni nr. 1125, sem fjallað var um í I. kafla A, til sölu á uppboði nr. 33. Fram er komið að Hans afhenti lögreglu einnig ljósrit úr uppboðsská þessa uppboðs og kvað myndina þar vera nr. 1126. Lýsti hann einnig myndinni og kom lýsingin heim og saman við málverkið „Uppstilling“. Hans Jensen fullyrti að þessa mynd hafi hann keypt á uppboði nr. 371 hjá Kunsthallen í Kaupmannahöfn árið 1988, þar hafi hún verið skráð á uppboðskránni nr. 223. Við það númer á skránni stendur: „Nature morte. Sign. Wils. 50x 65. 5.000.“ Því var lýst hér að framan, að Hans hafi afhent lögreglu nokkrar polaroidmyndir, sem hann kvað vera teknar af nokkrum málverkum Wils í eigu fyrirtækis síns. Hann hefur fullyrt að ein þessar polaroidmynda sé af myndinni sem hann keypti nr. 223 í Kunsthallen árið 1988 og seldi á uppboðinu í Vejle, þar mynd nr. 1126. Jafnframt hefur hann staðhæft að þetta væri sama mynd og væri í dóminum. Hann kvaðst einnig bera kennsl á ramma hennar. Vitnið sagði jafnframt að litljósmyndirnar tvær af áþekku málverki í íbúð Jónasar Freydal, sem ákærði afhenti við rannsókn málsins, væru ekki af þessu málverki.
Þegar litið er á ofangreinda polaroidmynd og litljósrit af stækkun hennar verður ekki betur séð en hér sé um sömu mynd að ræða og myndin „Uppstilling“, enda má glöggt sjá á stækkaða litljósritinu áritunina „Wils“ með rauðum lit, þótt það sé ekki eins greinilegt að sjá á polaroidmyndinni sjálfri. Á henni má hins vegar glöggt sjá móta fyrir á sama stað rauðum flekk, en hvergi er þar áritunin „Jón Stefánsson“ Þetta er í samræmi við rannsókn Haraldar Árnasonar á höfundarmerkingu málverksins á polaroidmyndinni, en samkvæmt niðurstöðu hans er höfundarnafnið „Wils“ í hægra neðra horni málverksins, sem ljósmyndin er af.
Á ytri ramma málverksins „Uppstilling“ er talan 223 skrifuð með svörtum tússpenna og á bakhlið blindramma hennar er talan 1126, skrifað með hvítum stöfum Kemur það heim og saman við þann framburð Hans Jensen að hér sé komin myndin sem hann keypti nr. 223 á uppboðinu í Kunsthallen en seldi í Vejle, þar merkt nr. 1126. Það er einnig í samræmi við framburð vitnisins Svend Juul Jörgensen, að áritunin 1126 væri skrifuð með krít, eins og tíðkist hjá Bruun Rasmussen í Vejle, en annar háttur væri hafður á hjá fyrirtækinu í Kaupmannahöfn, en þar væru myndir merktar með blýanti. Sagði hann að þessi krítaráritun á blindrammanum væri einnig í samræmi við lýsingu myndarinnar og númerið á uppboðsskránni á uppboði nr. 33 í Vejle.
Verður nú vikið að framburði ákærða um málverkið og þeirri staðhæfingu hans að það sé allt annað en málverkið, sem selt var nr. 1126 á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994.
Ákærði var fyrst yfirheyrður um þessa mynd hjá lögreglu 10. desember 1997, en hér að framan er lýst aðdraganda þess að grunur lék á að mynd þessi væri fölsuð. Hann sagðist þá ekki vera viss um hver seldi honum myndina, en hann hafi keypt hana ásamt annarri mynd af ókunnugum manni í Kaupmannahöfn eftir svari við auglýsingu frá honum sjálfum í dönsku blaði. Mynd þessa mætti sjá af tveimur ljósmyndanna, sem teknar voru í íbúð Jónasar Freydal. Hann kvaðst ekkert muna eftir sölu myndarinnar á uppboðinu hjá Gallerí Borg og gat engar upplýsingar gefið um eigendasögu verksins, þar sem hann þekkti ekki seljandann. Er honum var sýndur ofangreindur reikningur frá Bruun Rasmussen í Vejle kvaðst hann ekki muna eftir kaupum þessarar tilteknu myndar. Hann sagðist hins vegar hafa skilið eftir tvær myndir eftir Wilhelm Wils, sem hann keypti á uppboðinu hjá Jónasi Freydal, svo sem lýst hefur verið áður, en ekki muna hvort önnur þeirra væri þessi tiltekna mynd. Daginn eftir fullyrti ákærði hins vegar í yfirheyrslu að myndina nr. 1126 í uppboðsskrá uppboðsins í Vejle hafi hann keypt og látið Jónas Freydal hafa, en myndina „Uppstilling“ nr. 82, sem hann seldi á uppboði Gallerí Borgar, hafi hann keypt af einhverjum, sem hann hafði engar upplýsingar um og sagðist hann heldur ekki muna hvort hann keypti myndina eða hvort hún kom í umboðssölu fyrir uppboðið. Fyrir dóminum sagðist ákærði muna að hann hafi keypt myndina af danskri konu, Patriciu Aagreen í maí eða júní ´94 í Kaupmannahöfn. Kvaðst hann hafa hitt hana á flóamarkaði, eins og nánar var lýst hér að framan. Hans kvaðst hins vegar hafa keypt myndina nr. 1126 á uppboðinu í Vejle og nú brá svo við að ákærði mundi eftir því að þetta var önnur þeirra mynda, sem hann tók rammana af, en skyldi svo eftir hjá Jónasi Freydal. Bætti ákærði um betur og sagðist hafa sagt þetta strax í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu. Ramma þessarar myndar hafi hann svo sett á myndina „Uppstillingu“og selt hana á uppboði Gallerí Borgar 1. sepember 1994, merkta á uppboðsskránni nr. 82. Benti hann á að sjá mætti myndina sem hann keypti í Vejle nr. 1126 og skildi eftir hjá Jónasi á margnefndum litljósritunum af myndunum, sem hann fékk hjá Jónasi.
Er ákærða var fyrir dóminum bent á uppboðsnúmerin á blindrammanum sagðist hann einnig hafa tekið myndina úr honum og sett þennan blindramma á myndina, sem hann keypti af Patriciu. Ekki hefur farið fram ítarleg rannsókn á því hvort myndin hafi verið færð úr blindrammanum, en að mati vitnisins Viktors Smára Sæmundssonar, forvarðar, kvað hann ekkert benda til þess að svo hefði verið. Dómurinn, sem einnig skoðaði nánar blindrammans, er sammála um það að fátt bendi til þessa.
Þessi framburður ákærða þykir, eins og framburður hans um myndina sem fjallað er um kafla A, bæði óstöðugur og mjög ótrúverðugur og í andstöðu við annað, sem fram er komið í málinu um þetta málverk, eins og lýst hefur verið. Gögn þau sem hann hefur lagt fram máli sínu til stuðnings, margnefndar litljósmyndir eru heldur ekki traustvekjandi eða trúverðug. Tvær þeirra litljósmynda sem ákærði afhenti og sagði vera af mynd nr. 1126 á uppboðinu í Vejle, teknar á heimili Jónasar Freydal, eru líkt og myndirnar sem hann kveður vera af myndinni nr. 1125 frá sama uppboði í Vejle, í fljótu bragði eins og málverkið, sem hér er fjallað um og selt var á uppboðinu í Reykjavík. Við nánari skoðun sést hins vegar að svo er alls ekki. Á málverkinu „Uppstilling“ eru fjórir ávextir á diski á myndinni og hvítur bolli með haldi á miðri mynd við vinstri kant, en á litljósmyndinni eru þrír ávextir og enginn bolli, en í stað bollans eru tveir óljósir hlutir annars staðar á málverkinu. Ákærði framvísaði við meðferð málsins stækkaðri litljósmynd af málverkinu sem hann sagðist hafa keypt af Patriciu Aagreen með áritun þeirri sem gert var grein fyrir hér að framan. Þessi áritun og framburður hans um kaup myndarinnar og fundi hans og Patriciu Aagreen er skáldsögu líkastur. Þá er því við að bæta að ákærði fór utan án samráðs við verjanda sinn og hitti Patriciu á heimili móður hennar efir að henni hafði verið birt fyrirkall í máli þessu öðru sinni. Hún hafði leitað til lögmanns er henni var birt kvaðningin, en hafði ekkert samráð við hann um fund sinn og ákærða. Vitnið kom fyrir dóminn og var frásögn hennar á sama veg og ákærða um kaup þessarar myndar. Þó gat hún ekki fullyrt að hér væri um sama verk að ræða, en litljósritið er augljóslega af málverkinu „Uppstilling“. Frásögn ákærða um það að hann hafi hitt Patriciu til að leggja að henni að mæta fyrir réttinum er að engu hafandi, enda var ákærða ljóst að ráðstafanir höfðu verið gerðar af hálfu dómara, svo og lögreglu hérlendis og í Kaupmannahöfn, til að fá vitnið fyrir dóminn og var aðalmeðferð frestað í viku eingöngu í því skyni að yfirheyra þetta vitni.
Framburður nefndrar Patriciu fyrir dóminum var ekki trúverðugur og verður ekki á honum byggt, enda þykir sýnt að ákærði hafi eða hafi reynt að hafa áhrif á framburð þessa vitnis með ferð sinni til Kaupmannahafnar. Ákærði hefur heldur engin greiðslugögn getað sýnt um kaup þessarar myndar og það gat vitnið Patricia ekki heldur. Framburður vitnisins Jónasar Freydal um litljósmyndirnar tvær af því verki, sem hann og ákærði segja að sé af myndinni, sem keypt var á uppboðinu í Vejle í ágúst 1994, er einnig mjög ótrúverðugur og stenst ekki þegar litið er til þess, sem lýst hefur verið hér að framan. Hefur áður verið fjallað um sannleiksgildi framburðar þessa vitnis og er vísað til þess. Eins og fjallað er um í kafla A breytir það engu um þessa niðurstöðu, þótt ákærði hafi greitt virðisaukaskatt af myndinni samkvæmt ofangreindri kvittun. Vísast til þess sem þar er fjallað um í þessu efni.
Tekið skal fram að famburður vitnisins Þórhalls Arnórssonar um það að hann hafi séð myndina í húsakynnum Gallerí Borgar í júlí1994 er að engu hafandi, enda var vætti hans ekki trúlegt og fór hann undan í flæmingi er á hann var gengið. Hann kvaðst ekki hafa vitað um það um hvað hann yrði spurður í yfirheyrslunni, en gat samt um það borið á örfáum andartökum, að einmitt þetta verk hafi hann séð í júlímánuði rúmum fjórum árum áður. Vitnið þetta kom ekki fram við rannsókn málsins en var kallað fyrir við aðalmeðferðina af hálfu ákærða. Þá upplýsti vitnið ekki fyrr en á hann var gengið að hann og ákærði hafi staðið saman að uppboðum á Akureyri, meðal annars að uppboðinu 21. maí 1995, en vitnið er eigandi fyrirtækisins Listhúsið Þings, sem útvegaði Gallerí Borg húsnæði til að halda uppboðin. Ekki getur því heldur talist að vitni þetta hafi verið óvilhallt.
Þegar allt framangreint er virt þykir fram komin lögfull sönnun þess að mynd sú sem seld var nr. 82 á uppboði Gallerí Borgar nr. 12 í Reykjavík 1. september 1994, var sama verk og selt var nr. 1126, eftir Wilhelm Wils, á uppboðinu í Vejle 18. ágúst 1994, svo og að myndina keypti ákærði sjálfur á sínum vegum eða vegum fyrirtækis síns, Gallerís Borgar.
Ákærði keypti myndina á 2.600 danskar krónur á uppboðinu í Vejle og seldi hana tæpum hálfum mánuði síðar á uppboðinu í Reykjavík, höfundarmerkt Jóni Stefánssyni, á 360.000 íslenskar krónur, en auk þess greiddi kaupandi myndarinnar, Gunnar Snorri Gunnarsson 36.000 krónur, sem renna skyldu í starfslaunasjóð myndlistarmanna. Gunnar Snorri hefur borið að forsenda kaupa málverksins hafi verið sú, að hún var merkt Jóni Stefánssyni og seld sem mynd hans. Ekki er vafi á því að málverkið var selt í auðgunar- og blekkingarskyni, þar sem verkið var selt á margföldu því verði, sem hægt var að fá fyrir myndir Wilhelms Wils, og ranglega höfundarmerkt Jóni Stefánssyni.
Það sama gildir um málverk þetta og málerkið, sem fjallað er um í kafla A, að ekki hafa verið lögð fram gögn því til sönnunar af hálfu ákæruvalds að ákærði hafi sjálfur afmáð höfundarmerkinguna af málverkinu og sett á það höfundarmerkingu Jóns Stefánssonar, eins og honum er að sök gefið. Hins vegar þykir fullsannað af því sem rakið hefur verið hér að framan, að ákærða seldi málverkið með blekkingum og í auðgunarskyni, eftir að hann eða einhver annar sem hann fékk til þess, hafði breytti því með ofangreindum hætti. Ónákvæmni í ákæru að því er þetta varðar kemur ekki að sök, enda var vörn ekki áfátt um þetta atriði, sbr. 117. gr. laga nr. 19/1991.
Sú háttsemi, sem ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir varðar við 3. mgr. 159. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. nú 75. gr. laga nr. 82/1998 og 248. fyrrgreindra laga.
C) 2. liður I. kafla.
Um upphaf rannsóknar á þessari mynd, sem nefnt er rannsóknartilvik 27, segir í upplýsingaskýrslu Arnar Jenssonar 12. desember 1997, að þegar niðurstaða rannsóknar Haraldar Árnasonar á höfundarmerkingu á málverkinu í 1. lið ákæru lá fyrir, 3. desember sama ár, sem rakin hefur verið hér að framan, hafi vaknað grunur um að sambærileg undirritun væri einnig fölsuð á mynd nr. 89, sem seld var á sama uppboði og sú fyrrnefnda, uppboði nr. 12 hjá Gallerí Borg 1. september 1994 í Reykjavík. Við lauslega skoðun sjáist áletrunin 32/601 handrituð með smáu letri á bakhlið blindramma myndarinnar. Aflað var ljósrits af uppoðsskrá uppboðs nr. 106 hjá Bruun Rasmussen í Kaupamannahöfn. Var eigandanum, Kjartani Gunnarssyni, gert viðvart og afhenti hann myndina.
Sjá má af ljósriti af uppboðsskrá af þessu uppboði Gallerí Borgar að mynd nr. 89, „Páskaliljur“, er sögð vera eftir Jón Stefánsson. Olía. 52 x 65 cm. Merkt. 400. Var hún slegin á uppoðinu á 360.000 krónur. Kaupandinn var Kjartan Gunnarsson, svo sem síðar verður nánar rakið. Þá kemur þar einnig fram, sbr. síðar, að mynd nr. 46 á þessu sama uppboði er sögð eftir Jóhannes S. Kjarval. Portrett. Rauðkrít. 33 x 27 cm. Ómerkt. Er handritað á tilheyrandi reit aftan við myndina, á sama veg og gert er við ofangreinda mynd, að hún hafi verið seld við hamarshögg á 86.000 krónur.
Í famangreindri uppboðsskrá af uppboði nr. 601 hjá Bruun Rasmussen í Kaupamannahöfn, sem haldið var dagana 7.-8. júní 1994, kemur fram, að við uppboðsnúmerið 32 eru tvær myndir taldar upp: „Nature morte með frugter og Nature morte með blomster“, 50 x 64 og 51 x 66, sagðar eftir Wilhelm Wils. Segir við myndirnar að báðar séu merktar á miða á blindramma („Begge sign. på udst. etiket på blændrammen“). Verð myndanna á skránni er 4.000. Þar kemur einnig fram að mynd nr. 178 á sama uppboði er eftir Jóhannes S. Kjarval: „Portræt, 1919. Rødkridt. 33x 27. Udstillet Islandsk Kunst, Kunstforeningen 1941, kat. nr. 48. Ásett verð 6.000-8.000 krónur.“
Samkvæmt reikningi frá 31. júlí 1994, sem rannsakari aflaði úr bókhaldi Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn keypti viðskiptavinur nr. 29631, Peter Gunnarsson, Posthusstræti 9, Reykjavík, myndirnar nr. 32 á uppboði nr. 601 svo og mynd nr. 178. Heiti mynda nr. 32 kemur heim og saman við heiti þeirra í uppboðsskránni. Fram kemur á reikningnum að mynd nr. 178 er rauðkrítarmynd eftir Jóhannes Kjarval. 1919. í reikningum kemur fram að myndir nr. 32 voru seldar við hamarshögg á 4.500 krónur. Umboðslaun eru 765 krónur og kostnaður vegna gerð nýs reiknings 500 krónur. Þá kemur fram að myndirnar séu seldar til útflutnings. Mynd 178 var seld á 5. 000 krónur auk umboðslauna, 765 krónur.
Rannsakari aflaði einnig ljósrit afhendingarseðils þessara mynda, dagsettur 18. ágúst 1994, en hann er stílaður á ákærða og þar kemur fram að um sé að ræða afhendingu ofangreindra mynda nr. 32 og 178 eftir höfundana Wilhelm Wils og Jóhannes Kjarval. Seðillinn er merktur viðskiptamannsnúmerinu 29631. Við móttökuna er dagsetningin 20. ágúst, en undirskriftin er ólæsileg handskrift. Jónas Freydal hefur borið að þetta sé hans skrift, svo sem síðar verður rakið.
Með símbréfi ríkislögreglustjóra 18. mars sl. til forstjóra Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn, Claus Poulsen, var auk framagreindra upplýsinga óskað upplýsinga um höfundarmerkinguna, sem getið er við verk 32 í uppboðsskrá fyrirtækisins og hver seljandi verksins væri.
Í svarbréfi fyrirtækisins segir að myndirnar hafi líklega ekki verið merktar á strigann, heldur á miða á blindrammann. Enginn starfsmannanna muni hvort myndin var merkt á striga og engar ljósmyndir hafi verið teknar af málverkinu. Þá segir að oftast merki Wilhelm Wils myndir sínar með „Wils“ í hægra horni, neðst. Einnig kemur fram að seljandi myndanna nr. 32 hafi verið fyrirtækið De Soto Corporation, félag sem selji myndir bæði frá Danmörku og Svíþjóð, en að því standi mjög heiðvirt fólk. Kaupandinn á uppboði 601 hafi verið Jónas Thorsteinsson, svo sem sjá megi af meðfylgjandi fylgiskjali. Eftir uppboðið hafi fyrirtækið hins vegar verið beðið um að gefa út og senda reikninginn beint til kaupandans, Peter Gunnarsson, svo sem meðfylgjandi reikningur beri með sér. Þessi háttur sé mjög algengur í viðskiptum fyrirtækisins, þ.e. þegar einhver aðili kaupi verk fyrir annan.
Á ljósriti af ofangreindu fylgiskjali frá uppboði 106 er skráð við verk nr. 32 að J. Thorsteinsson, viðskiptamannsnúmer nr. 64552, sé kaupandi myndarinnar. Þá er við orðið Tlf. handritaðir stafirnir HK.
Með bréfi ríkislögreglustjóra 26. mars 1998 til ríkislögreglustjórans í Kaupmannahöfn var þess farið á leit að tiltekinna upplýsinga yrði aflað um málverkið frá fyrirtækinu De Soto Corporatin. Fram kemur í svarbréfum ríkislögreglustjórans í Kaupmannahöfn og sænsku lögreglunnar í Stokkhólmi og Vestra Gautlandi að fyrirtæki þetta fyndist ekki á skrám í Danmörku eða Svíþjóð.
Samkvæmt skýrslu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans í Kaupmannahöfn 1. apríl sl. var haft samband við starfsmann Bruun Rasmussen í Kaupnmannahöfn, Peter Christmas Möller, og hafi hann upplýst að fyrirtækið De Soto Corporation hafi selt fyrirtækinu ofangreindar tvær myndir. Haft er einnig eftir Möller að hann teldi að þetta fyrirtæki væri skráð í Englandi og væru „skúffufyrirtæki“.
Fram kemur í upplýsingaskýrslu Arnar Jenssonar 30. júní sl. að Claus Poulsen hafi upplýst hann um það símleiðis að samkvæmt gögnum fyrirtækisins væri Pétur Gunnarsson kaupandi málverkanna tveggja nr. 32. Málverkið hefði samkvæmt reikningi verið selt til útflutnings og þar með hafi virðisuaukaskattur ekki verið settur á reikninginn verið. Reikningurinn hafi verið staðgreiddur og hver sem er gæti hafa kvittað undir móttöku verksins. Hann kvaðst ekki kannast við undirritunina á seðlinum.
Í greinargerð Ragnars Björnssonar viðskiptafræðings 30. desember sl., sem nánar verður um fjallað í II. kafla, og fylgiskjölum með henni, kemur meðal annars fram, að hann hafi að beiðni ríkislögreglustjóra kannað í bókhaldsgögnum Gallerí Borgar með hverjum hætti færslum væri háttað um sölu og kaup á listaverki nr. 46 eftir Jóhannes S. Kjarval, sem nánar er lýst í ofangreindri uppboðsskrá félagsins frá uppboði nr. 12 1. september 1994, og hvort málverkið hafi verið selt í umboðssölu eða selt félaginu sjálfu. Fram kemur í greinargerðinni að sala verksins sé færð í bókhaldið á grundvelli fylgiskjals nr. 765, sem er sölureikningur. Á honum komi fram uppboðsverðið 86.000 krónur og gjald í starfslaunasjóð myndlistarmanna, 8.600 krónur. Ekki komi fram á reikningnum, sem fylgdi greinargerðinni, hver kaupandinn er. Fram komi af fylgiskjölum að kaupandi greiðir fyrir verkið og sé kaupverðið, að frádreginni ofangreindri greiðslu í starfssjóð myndlistarmanna, fært til lækkunar á viðskiptakröfum, sem innlegg á bankareikning félagsins, daginn eftir uppboðið, 2. september. Heildargreiðslan fyrir verkið, 94.600 krónur, hafi verið lögð inn á banka ásamt fleiri greiðslum. Er þess jafnframt getið í greinargerðinni að hvorki hafi verið unnt að rekja til fylgiskjala bókhalds uppgjör við seljanda myndarinnar né hver seljandi væri.
Haraldi Árnasyni lögreglufulltrúa var sem fyrr falið að rannsaka höfundarmerkingu á málverkinu. Segir um þá rannsókn í skýrslu hans 3. desember 1997:
Rannsóknarefni
Til rannsóknar í tæknirannsóknastofu RLS er málverk sem nánar er lýst eftirfarandi:
Málverk án ramma stærð myndflatar um það bil 52,0x65,1 sm. Myndin er máluð á striga og er af gulum túlípönum í brúnleitum vasa á borði, þar við eru þrír ávextir á diski og tveir ávextir eru á borðinu. Ávextirnir gætu verið epli og appelsína. Mynd þessi er höfundarmerkt Jóni Stefánssyni.
Rannsóknarþættir
Grunur mun leika á að málverkið sé ekki verk Jóns Stefánssonar og tiltekin einkenni komið fram sem gefa vísbendingar um að verkið sé eftir danska málarann Vilhelm Wils. Er óskað tæknirannsóknar á myndinni með það í huga að sú rannsókn leiði fram einhver þau ummerki sem styðji þá kenningu eða séu vísbendingar um annað.
Rannsókn
Miðvikudaginn 14. janúar, um kl. 13:00, skimaði undirritaður afmarkaðan litarflöt málverksins í VSC (Video Spectral Comparator) tæki, með útfjólubláu ljósi. Þessi flötur er rétt ofan við höfundarmerkingu verksins, en Viktor Smári Sæmundsson, forvörður hjá Listasafni Íslands, hafði þá þegar fjarlægt litarlagið sem efst lá. VSC tækið er búið breytilegum ljóssíum og er ætlað til að fá fram sjáanlegan mismun þegar ýmis efni, sem annars kunna að vera eins að sjá, gefa frá sér mismunandi ljómageislun. Með skjásíu stillta á 780 nm og ljósgjafasíu á 750 nm ljósbylgjulengdir, kom fram óljós áletrun í neðra, hægra horni myndarinnar, rétt ofan við höfundarmerkingu með nafni Jóns Stefánssonar en áletrunin kemur fram sem lýsandi flötur. Nokkuð greinilega mátti sjá bókstafinn „W“ og síðan lýsandi fleti þar á eftir sem gætu komið heim og saman við það að aftan við „W“ hafi staðið „ils“, án þess að um það verði fullyrt.
Þar sem áletrun þessi kom fram var yfirborðslitur myndarinnar rauðleitur. Áletrunin kemur fram vegna þess að litarefni í henni gefur ljómageislun við útfjólublátt ljós en yfirborðsliturinn ekki og kemur áletrunin fram sem ljósir, eða lýsandi stafir. Eru þessir þættir sýndir á ljósmynd nr. 3 í viðfestri myndamöppu þar sem áletrunin er sýnd í um það bil x2 stækkun. Það er áréttað, að framangreind ummerki sáust skýrar með berum augum á skjá VSC tækisins en kemur fram á ljósmyndinni en það á rætur að rekja til tæknilegra þátta.
Niðurstaða
Það er niðurstaða undirritaðs, að niðurstöður VSC skimunar gefi til kynna, að bókstafurinn „W“ hafi annað hvort verið máður út að hluta eða að málað hafi verið yfir hann, á framangreindu málverki sem sýnilega er höfundarmerkt Jóni Stefánssyni og lýst er hér að framan. Það er jafnframt niðurstaða undirritaðs að vísbendingar séu um, að aftan við „W“ hafi mögulega staðið „ils“ þannig að málverkið hafi upphaflega verið merkt „Wils“.“
Viktori Smára Sæmundssyni var falið að annast sams konar rannsókn á myndinni í þessum lið, rannsóknartilviki 27, og á myndunum, sem fjallað var um hér að framan.
Í rannsóknarskýrslu hans 20. janúar 1998, sem hann merkir RLS-2, segir svo um rannsóknina og niðurstöðu hennar:
„Verkefni:
Málverk á hörléreft.
Höfundur:Merkt „Jón Stefánsson“.
Myndefni: Uppstilling.
Áritun:„Jón Stefánsson“ (gerð með pensli og svörtum lit í hægra horn að neðan)
Ártal:Ekkert
Tækni:Olíulitir.
Burðarlag:Hörléreft, vefur 1:1.
Stærð:(h. x b.) 52 cm x 65.1 cm...
Málverk það sem hér um ræðir er málað með olíubundnum litum, sem bornir eru á grunnað hörléreft. Litarefnin eru frekar þunn en þétt þ.e.a.s. magn litarefnis er hlutfallslega mikið miðað við magn bindiefnis. Yfirborð málningarlags er varið með möttum fernis.
Málverkið er strekkt á blindramma, sem er sérsmíðaður að danskri fyrirmynd, fyrir þetta tiltekna verk og fest með blásaum á blindrammann. Á jaðra burðarlagsins (léreftsins) eru álímdir kantar úr fínofnu hörlérefti. (Að mati undirritaðs er málverk þetta forvarið og viðgert af forverði (fagmanni í málverkaviðgerðum), líklega í Danmörku ef marka má gerð blindrammans sem undirritaður þekkir sem danska gerð. Á bakhlið blindrammans eru skráðar með blýanti eftirfarandi tölur: 3235 í vinstra horn að ofan, líklega „92000“ hægra megin á efri langhlið og 32/601 á vinstri skammhlið. Í hægra og vinstra horni að ofan eru leifar af hvítum límmiðum. Á fleyg í efra horni til vinstri er skrifað nafnið Bente. Hugsanlega nafn forvarðarins *1) sem gerði við verkið. (Ágiskun undirritaðs). (Sjá ljósmyndir nr.: 2, 2a, 5, 5a, 6, 6a, 7 og 7a).
Rannsóknarþættir
Óskað var eftir að kannaðir væru með tæknilegum rannsóknum þeir þættir er gætu gefið vísbendingar um hvort málverk þetta væri falsað eða ófalsað. Ekki er farið fram á yfirgripsmiklar rannsóknir en óskað eftir að bent yrði á leiðir í því efni ef í ljós kæmi að þörf væri á efnagreiningum lita eða flókinni greiningarljósmyndun.
Framkvæmd rannsóknar
Verkið var ljósmyndað með 35 mm myndavél í rafljósi (tungsten, 3200 °K) og í útfjólubláu ljósi á litskyggnur og á „negatíva“ litfilmu. Ljósgjafar við ljósmyndun í útfjólubláu ljósi voru fjögur flúrrör (litur 73) sem gefa frá sér ljósbylgjulengdir við u.þ.b. 360 nm. Þar sem rörin gefa einnig frá sér sýnilegt ljós (þ.e. sem mannsaugað nemur) var notuð ljósgul sía á myndavél nr. 420E (B+W) til að koma í veg fyrir að sýnilegt ljós næði inn á filmuna og minnkaði litaandstæður (kontrast) á filmunni. Einnig var notuð litaleiðréttingarsía nr. 85B (Kodak) til að vega upp á móti breytingum í litum vegna langs lýsingartíma filmunnar.
Við skoðun á framhlið verksins vakti sérstaka athygli undirritaðs rauður flekkur yfir áritun í hægra horni að neðan og skemmdir í lita- og grunnlagi innan þess flekks. Minna þessar skemmdir óneitanlega á það sem kom fram við skoðun á hulinni áritun á verki númerað af undirrituðum RLS-1. (Sjá ljósmyndir nr. 4 og 4a).
Á ljósmyndum sem teknar voru í útfjólubláu ljósi kom fram umfangsmikil dökkblá og fjólublá ljómageislun *2) í hægra horni að neðan. Einnig komu fram minni svæði með áþekktri ljómageislun um allan neðri hluta myndarinnar. (Sjá ljósmyndir nr.: 8, 8a, 10 og 10a). Við skoðun á yfirborði málverksins í smásjá mátti sjá að þessir „flekkir“ lágu ofan á öðrum málningalögum. (Sjá smásjárljósmyndir nr. 15 og 15a). Ennfremur að allt yfirmálaða svæðið í hægra horni myndarinnar er slípað og rispað. Liggja rispurnar frá SA til NV-s. (Sjá smásjármyndir nr. 16 og 16a). Þetta má jafnvel greina án nokkurra hjálpartækja þar sem gljái svæðisins er annar en yfirborðsins í heild. Ekki er að merkja að málverkið hafi þarfnast viðgerðar á þessum svæðum. Verður því að telja fullvíst að hér sé um seinni tíma yfirmálanir að ræða.
Áritun myndarinnar, sem merkt er Jóni Stefánssyni, er gerð ofan á meinta yfirmálun að hluta til (sjá ljósmyndir nr. 17 og 17a) sem verður að teljast óeðlileg þar sem yfirmálunin virðist ekki ýkja gömul skv. lit ljómageislunarinnar. (Sjá ljósmyndir nr. 10 og 10a). Þessi atriði og niðurstaða fyrri rannsóknar á verki númeruðu RLS-1 þar sem mjög áþekk vinnubrögð virtust viðhöfð leiddu til að gerð var hreinsiprufa á áðurnefndum rauðum flekk ofan við áritunina Jón Stefánsson. Með aðstoð smásjár og blöndu af touluen og ísediki var efsta litalag svæðisins leyst upp að hluta (rauður litur) og skrapað ofan af því næsta (rauðbrúnn litur) með læknahníf (d. skalpel). Kom í ljós undir þessum tveimur litalögum samskonar rauður litur eins og greindist í smásjá í hulinni áritun á málverki númeruðu RLS-1, nema í mun minna mæli. Nokkuð greinilegt er þó að sjá má W sem upphafsstaf í áritun. Aðrar rauðar litaleifar fundust til hægri við þennan upphafsstaf en ekki er hægt að lesa út úr þeim. Svæðið er mjög niðurslípað jafnvel í gegnum grunnlag málverksins og nokkuð ljóst að sú áritun sem þarna virðist hafa verið er nánast horfin. Þær litaleifar sem fundust til hliðar við tvöfalda vaffið eru afar rýrar en leiða má þó líkum að því að þarna hafi staðið fjögurra stafa orð. (Sjá ljósmyndir nr.: 14 og 14a). (Taka skal fram að þrír síðustu stafirnir á glærunni yfir ljósmynd nr. 14 og á gler skyggnumyndaramma nr. 14a eru tilbúningur undirritaðs og eru teiknaðir upp til að sýna fram á að það er mögulegt að þarna hafi staðið höfundarnafnið Wils). Hér er vert að geta þess að rauði yfirmálunarliturinn er mjög áþekkur litnum í tvöfalda vaffinu. Hann er þó ekki eins. (Sjá ljósmynd nr. 13). Til samanburðar við W-ið sem kom fram við skröpun á yfirmáluninni skal hér vísað til sýnishorns af áritun Vilhelm Wils í Signaturbogen *3) og þess sem sagt var um þann höfund í skýrslu undirritaðs nr. RLS-1.
Áritunin með nafni Jóns Stefánssonar er áþekk árituninni í málverki númeruðu RLS-1. Hún virðist hafa verið gerð í tveimur atrennum þar sem sjá má í smásjá að þunnur svartur litur er undir henni sem getur bent til þess að fyrsta gerð árituninnar hafi mistekist og svarti liturinn þurrkaður af meðan hann var enn blautur og áritunin endurtekin. Greinilegar rispur eru einnig umhverfis og undir fyrri hluta áritunarinnar sem sýna að umrætt svæði hefur verið slípað með einhvers konar verkfæri eða sandpappír. Svartur litur er ofan í rispunum. (Sjá smásjármyndir nr. 17 og 17a).
Samantekt
Af ummerkjum þeim sem hér hafa verið rakin má leiða að því sterkum rökum að rauðmáluð áritun hvers upphafsstafur var W hefur að mestu verið slípuð eða máð brott og hið slípaða svæði endurmálað í tveimur til þremur litalögum.
Neðri hluti málverksins er mikið yfirmálaður án sýnilegs tilgangs nema e.t.v. til að dreifa athyglinni frá yfirmáluninni í hægra horni verksins og/eða til að breyta útliti myndarinnar.
Áritunin Jón Stefánsson er máluð yfir rispað (slípað) svæði, líklega í tveimur atrennum og að hluta til yfir endurmálað svæði, sem samkvæmt lit ljómageislunnar er ekki ýkja gamalt.
Tveir límmiðar á bakhlið blindrammans hafa verið fjarlægðir en þeir gætu hafa geymt heimildir um sögu verksins.
Mörg þeirra atriða sem hér hafa verið skoðuð eru afar lík þeim sem fram komu við rannsókn á málverki númeruðu af undirrituðum með nr. RLS-1.
Frekari rannsókn á málverki þessu getur falist í efnagreiningu litaagna úr árituninni Jón Stefánsson og greiningu litarins í W-inu sem kom fram við að meint yfirmálun var fjarlægð. Einnig má gera listfræðilegan samanburð á verkinu við önnur málverk, sem sannanlega eru eftir Vilhelm Wils.
Niðurstaða
Af því sem hér hefur verið rakið og stutt meðfylgjandi gögnum eru miklar líkur til þess að málverk þetta, sem sýnilega er höfundarmerkt Jón Stefánsson, er ekki eftir hann. Höfundur verksins er líklega Vilhelm Wils, sem var samtímamaður Jóns Stefánssonar búsettur í Danmörku.“
Um sýnatöku úr þessu málverki, sem send voru dr. Sigurði Jakobssyni á jarðfræðistofu Háskólans, segir svo í ofangreindri skýrslu Viktors Smára og Haraldar 28. maí sl.: A) Svartur litur úr áritun. Grunur um að í litnum væri alkýð efni. B) Rauðbrúnn litur ofan við áritun. Grunur um yfirmálun. C: Blár litur. Útfj.bl. ljós gefur vísbendingu um olíulit. D: Gulur litur. Útfj.bl. ljós gefur vísbendingu um olíulit.
Í áliti dr. Sigurðar 8. júní sl. kemur fram að í ljós hafi komið með litrófsgreiningu með FTIR aðferð (Transform inform infrared) að í efnin úr sýnunum úr þessu málverki voru þessi: A) Alkýd, B) Alkýd C) Olía og D) Olía og glært alkyd.
Ríkislögreglustjóri fór þess einnig á leit við forstöðumann Listasafns Íslands með bréfum 5. og 13. febrúar sl. að fram færi á vegum safnsins listfræðileg greining og listfræðilegt mat á þessu málverkinu. Júlíana Gottskálksdóttir, forstöðumaður safnssviðs s annaðist verkið sem fyrr.
Í áliti hennar segir þetta um málverkið.
Myndin sýnir gula túlípana í vasa á borði ásamt diski með eplum til annarrar handar og tveim eplum til hinnar. Borðsendinn sést lengst til hægri í myndinni og er borðbrúnin dregin skáhallt niður að hægra horni. Vasinn, sem er mógulur að lit, stendur ögn til hægri við miðju myndar, en túlípanarnir teygja sig yfir í vinstri myndhelminginn. Diskurinn, sem er blámynstraður, er til vinstri í forgrunni, en eplin tvö á borðinu til hægri. Horft er niður á borðið og hlutina sem þar eru frá sama sjónarhorni.
Myndin er klassísk í uppbyggingu þar sem byggt er á andstæðum. Þannig mynda blómið, diskurinn og eplin á borðinu þrenningu sem draga má uppvísandi þríhyrning um til mótvægis við lárétta línu borðsins. Lífræn form ávaxtanna og blómsins mynda einnig andstæðu við fletina.
Litameðferð er um margt lík þeirri sem viðhöfð er í málverkinu sem auðkennt er RLS nr. 26. Bakgrunnurinn er himinblár og dreginn snöggum dráttur, en liturinn er einsleitur sem gerir það að verkum að flöturinn verður blæbrigðalaus. Borðplatan er hins vegar máluð ýmsum litum sem þó hefur verið blandað þannig að dregið hefur úr litstyrk þeirra og ferskleika. Svipað gildir um blómin, ávextina og vasann. Litirnir eru eintóna þar sem þeir hafa ekki þá fyllingu sem næst fram með samspili hreinna andstöðulita. Málunin er fremur gróf, svo sem í mynd blaðanna og blómanna þar sem ekki virðist hafa verið unnið með litinn til að ná fram blæbrigðum og fínleik jurtarinnar ásamt ferskleika hennar. Svipað er að segja um litameðferðina í mynd ávaxtanna þar sem litablandan virðist draga úr litstyrknum fremur en efla hann.
Líkt og í verki, auðkenndu RLS nr. 26, er hér að finna ýmis atriði sem þekkt eru í kyrralífsmyndum Jóns Stefánssonar og eru almenns eðlis. Á það við um grundvallarreglur um klassíska myndskipan, sem bent hefur verið á, sem og val á myndefni. Það sem greinir að umrætt verk og verk Jóns er að hér er ekki vikið frá reglum um hefðbundna fjarvídd og hlutirnir sýndir frá sama sjónarhorni. Glíma Jóns við að sætta rými eða dýpt og flöt virðist ekki hafa vakað fyrir höfundi umrædds verks. Meðferð lita er einnig mjög ólík þeirri sem einkennir verk Jóns Stefánssonar. Litirnir eru eintóna og án þeirrar fyllingar sem næst fram með lagskiptri málun og samspili hreinna andstæðulita sem telja má til helstu einkenna verka Jóns.
Enda þótt finna megi ýmis atriði sem telja megi sameiginleg með umræddu málverki og verkum Jóns Stefánssonar, eru þau öll almenns eðlis og geta átt við marga listamenn af hans kynslóð sem kynnst höfðu franskri myndlist. Frávikin frá því, sem einkennir verk Jóns og bent hefur verið á, eru hins vegar augljós og gera það að verkum að það stenst engan veginn listrænan samanburð við verk hans.“
Verður nú rakinn framburður ákærða og annarra vitna um þetta ákæruatriði.
Ákærði var fyrst yfirheyður um mynd þessa 17. mars sl. Kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir henni að öðru leyti en því að hann minnti að hana hafi hann keypt um leið og myndina nr. 82 á uppboði nr. 12 af einhverjum Dana sem svaraði auglýsingu hans í Kaupmannahöfn. Hann kvaðst engin gögn hafa fundið um kaup sín á þessari mynd. Hann kvaðst ekki muna hvort hann keypti verkin fyrir sig eða galleríið, oft væri það óljóst, en hann gerði fremur ráð fyrir að hann hafi keypt myndina fyrir sig. Hann sagðist ekki muna eftir því að Kjartan Gunnarsson hefði keypt aðra myndina á uppboði Gallerí borgar nr. 12.
Fyrir dómi sagði ákærði að hann gæti mjög lítið sagt um kaup og sölu á þessarar mynd, enda kvað hann skjöl sýna að hann væri ekki kaupandi að myndinni á uppboðinu hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn, heldur hafi Jónas Freydal Þorsteinsson keypt hana ásamt annarri mynd í gegnum síma og hann sjálfur kvittað fyrir móttöku á myndinni. Ákærði sagði að ofangreindur reikningur, sem stílaður er á hann vegna tveggja mynda eftir Vilhelm Wils og einnar myndar eftir Jóhannes Kjarval, rauðkrít nr. 33 á uppboðinu, sýndi meðal annars kostnað við gerð nýs reiknings að fjárhæð 500 krónur. Þegar leitað hafi verið skýringa á þessu hafi komið í ljós að fyrri reikningur hafði verið gefinn út á Jónas Þorsteinsson, sem síðan hafi breytt nafninu í Pétur Gunnarsson. Skjölin sýni að hann sé kaupandi verksins nr. 32. Hann kvaðst ekki hafa gögn um kaup Gallerí Borgar á mynd nr. 89 sem síðar var seld Kjartani Gunnarssyni á uppboði félagsins nr. 12. Hann hafi ekki getað fundið þetta í gögnum fyrirtækisins. Sagði ákærði að hann kynni sjálfur að hafa keypt mynd þessa í Kaupmannahöfn og hugsanlegt væri að Jónas Freydal Þorsteinsson hafi verið eigandi hennar. Ákærði sagði að viðskiptavinur á uppboði hjá Bruun Rasmussen fái móttökuseðil, þegar verk sem keypt er á uppboði hafi verið greitt. Undir þennan seðil sé kvittað fyrir móttökunni og verkið svo sótt annars staðar í fyrirtækinu eða í húsinu. Ákærði kvaðst heldur ekki kannast við mynd nr. 178 sem getið er á sama móttökuseðli og verk nr. 32, rauðkrít frá 1919 eftir Jóhannes Kjarval, portrett. Ákærði sagði aðspurður að þetta gæti varla verið sama mynd og seld var á uppboðinu nr. 12 þann 1. september 1994, sem merkt er á uppboðsskrá nr. 46, þar sem ekkert kæmi fram á uppboðsskrá Gallerís Borgar að myndin sé frá árinu 1919 og hún hafi verið á sýningunni Íslensk list, Kunstforeningen 1941 Hafi hann keypt myndina á uppboðinu í Kaupmannahöfn hefði hann sett þessar viðbótarupplýsingar sem þar fylgdu í uppboðsskrá gallerísins á uppboði nr. 12, sérstaklega þær upplýsingar að myndin væri höfundarmerkt. Fram kæmi hins vegar í síðargreindri uppboðsskrá að myndin væri ómerkt. Það atriði skipti miklu máli fyrir verð myndarinnar. Ákærði kvaðst ekki hafa skýringar á því að ekki hafi verið unnt að upplýsa í bókhaldi Gallerís Borgar hver var seljandi og hver var kaupandi þessarar Kjarvalsmyndar á uppboði nr. 12 og kvað líklegt að myndin hafi ekki selst á uppboðinu. Skráningarspjaldið fyrir þessa mynd hafi getað týnst, enda væri ekki litið á þau sem bókhaldsgögn.
Ákærði benti á það er undir hann voru bornar niðustöður Haraldar Árnasonar og Viktors Smára um þessa mynd myndina „Páskaliljur“ að samkvæmt þeim finnist merkingar Wils á striga (framhlið ) myndarinnar, þótt myndin hafi verið ómerkt þar þegar hún var seld á uppboði Bruun Rasmussen, heldur merkt með miða aftan á blindrammanum. Hann kvaðst ekki geta skýrt merkingarnar 32//601 aftan á myndinni og leifar af miða, en kvað þetta geta verið tölur frá Gallerí Borg.
Viktor Smári Sæmundsson staðfesti fyrir dómi rannsókn sína á verkinu, en verkefnið merkir hann sem RLS-2. Áréttaði vitnið að sér hafi virst rauði liturinn í áritununum, sem hann greindi á rannsóknarttilvikum 26 og 27 vera eins. Hann hafi verið mjúkur viðkomu og grófkornaður, með holrúm á milli sem sjá mátti í smásjá og hann hafi ekki virst hafa haft mikið bindiefni í sér. Þá hafi það einnig verið sammerkt með rannsóknartilvikum 26 og 27 að á svæðum í og umhverfis áritun, hafi mátt sjá í smjásjá að búið var að rispa og skrapa þar með einhvers konar oddhvössu verkfæri og hugsanlega eitthvað verið slípað líka með sandpappír.
Vitnið kveðst hafa gert við mörg verk eftir Jón Stefánsson og sagði að efnismeðferðin í myndunum minni sig ekki á Jón Stefánsson.
Vitnið taldi að fagmaður hafi strekkt málverkið á blindramma. Frágangur á kantinum benti til þessa og svo virtist sem notað hafi verið uppleysanlegt efni án þess að skemma verkið. Hins vegar fyndi hann ekki merki þess að myndin hafi verið viðgerð. Eitt af grundvallarreglum í þessu fagi væri að allt sem gert væri við málverkið, hvort sem það væri viðgerð eða rannsókn, ætti að vera hægt að rekja til baka og endurtaka án þess að skemma. Vitnið kvaðst ekkert benda til að ramminn hafi verið notaður utan um aðra mynd, þar sem hann passaði mjög nákvæmlega á málaða hluta verksins, það stæði nánast ekkert út fyrir og eyður væru nánast hvergi meðfram köntunum. Þetta bæri með sér að fagmaður hefði gert þetta, en ramma af þessu tagi þurfi að sérsmíða og ekki sé hægt að kaupa þá í verslunum.
Júlíana Gottskálksdóttir sagði fyrir dóminum að í þessu verki væri ekki vikið frá reglum um hefðbundna fjarvídd og hlutirnir væru sýndir frá sama sjónarhorni, en í verkum Jóns Stefánssonar væri meðvitaðri frávik frá hefðbundinni fjarvídd þar sem hann reyni að draga fram rúmtak hlutanna með því að sýna þá frá mismunandi sjónarhorni á sama fleti. Bakgrunnur myndarinnar væri einnig mjög flatur, hlutlaus og eintóna, andstætt myndum Jóns Stefánssonar, en einkenni mynda hans væru meðal annars að fletirnir væru fjöltóna. Hér skorti glímu Jóns við að móta þrívíð form á tvívíðum fleti, draga fram rúmtak þeirra með því ýmist að skyggja flötinn að baki eða lýsa hann, en þá komi forgrunnur betur í ljós. Vitnið sagði að viss sértæk einkenni tengdu þessa mynd og „Uppstillingu“ rannsóknartivlik 26. Sami diskurinn væri augljóslega á báðum myndunum, jafnvel sama borðplatan, áþekk myndbygging væri í myndunum, jafnvel í smáatriðum, borðplatan væri máluð á svipaðan hátt, bakgrunnurinn bláleitur, eplin væru áþekk. Dregið væri úr litstyrknum, litirnir væru hógværari, svo virtist sem hvítu væri blandað í flesta litina og það dragi úr litstyrknum. Þetta væru ekki höfundareinkenni Jóns Stefánssonar.
Dr. Sigurður Jakobsson, staðfesti niðurstöðu sína á litrófsgreiningu þeirri sem að framan getur. Hann sagði að tvö sýnanna hafi verið alkýð, tvö olía og í einu þeirra væri eitthvað glært, sennilega einhvers konar fernis.
Vitnið, Kjartan Gunnarsson, staðfesti að hann hafi keypt myndina „Páskaliljur“ á umræddu uppboði á 430.000 krónur við hamarshögg, eins og ljósrit uppboðsskrárinnar beri með sér, og greitt auk þess 43.000 króna gjald í starfslaunasjóð myndlistamanna, svo sem ljósrit greiðslugagna, sem vitninu voru sýnd í dóminum, beri með sér. Ástæða kaupanna hafi verið sú að honum fannst myndin falleg og hún var merkt Jóni Stefánssyni. Það síðarnefnda hafi verið ríkur þáttur við kaupin og forsenda þeirrar fjárhæðar sem hann greiddi fyrir myndina. Hann hafi ekki fengið upplýsingar um eigendasögu myndarinnar og ekki leitað eftir því. Hann hafi skoðað myndina er hún var til sýnis fyrir uppboðið og ákveðið á uppboðinu að bjóða í hana. Vitnið taldi að myndin hafi verið í ramma þegar hann keypti hana, en hann hafi látið setja hana í annan ramma. Hann hafi tekið myndina úr þeim ramma er hann afhenti rannsóknarlögreglu myndina. Kjartan kvaðst eiga nokkra myndir eftir Jón Stefánsson og hann hafi haft fulla trú á því að þessi mynd væri eftir hann, enda hafi hún greinilega verið merkt honum og ekkert hafi bent til þess að myndin væri ekki eftir hann. Hann hafi því haft fulla ásæðu til að ætla að myndin væri eftir Jón Stefánsson en ekki einhvern annan.
Jónas Freydal Þorsteinsson var ekki yfirheyrður um þetta málverk við rannsókn málsins, enda gekk hann út úr ofangreindri yfirheyrslu, sem fór fram á skrifstofu hjá ríkislögreglunni í Kaupmannahöfn, áður en til þess kom að yfirheyra hann um þetta málverk. Aðspurður um skýringu á því fyrir dómi sagði vitnið að það hafi fokið í sig. Hann hafi haft það á tilfinningunni að verið væri að nots sig „í að hengja út einhvern mann, það var ekki verið að spyrja um rétt eða rang“. Lögfræðingi sínum hafi fundist þessi yfirheyrsla „tómt bull“, enda enginn þýðandi við yfirheyrsluna.
Fyrir dómi kvaðst hann hafa keypt málverkin sem getið er um nr. 32 og 178 á uppboðinu nr. 601 í Kaupmannahöfn. Þetta hafi verið verk eftir Jóhannes S. Kjarval og Wilhelm Wils. Hann kvaðst enn eiga aðra myndina eftir Wils, en hin hafi verið léleg skissa og að hann hafi því selt hana. Ástæða kaupanna á myndunum eftir Wils hafi verið sú að hann hafi ætlað að nota rammana, sem báðir voru vandaðir og góðir, en önnur myndin hafi verið það góð að hann hafi ákveðið að halda henni líka. Sú mynd hafi sennilega verið sú sama og sýnd var í Carlottenborg 1914, nr. 218, á sýningarbæklingi, sem vitnið kom með ljósrit af og afhenti í dóminum. Hin Wils myndin hafi starfsmaður hans selt ásamt öðru dóti á uppboði hjá Köpenhavns Auktioner um ári eftir að hann keypti hana. Vitnið kvaðst engin gögn eiga um sölu þessarar myndar, en vísaði til afrits af reikningi er hann kom með í dóminn um sölu myndarinnar. Á þeim reikningi kemur fram að vitnið seldi húsgögn og 2 kassa af ýmsum myndum á uppboði ofangreinds fyrirtækis 25. september 1996. Engin nánari tilgreining er á reikningnum um málverkin. Vitnið kvaðst kannast við ofangreind greiðslugögn og afhendingarseðil, sem hann kvaðst hafa undirritað, frá Bruun Rasmussen. Sagði hann að hann hafi boðið í mynd nr. 32 í gegnum síma, eins og fylgiskjal, dagsett 7. júní 1994, úr bókhaldi sýni, sem honum var sýnt í dóminum. Sagði vitnið að skýringin á því að reikningurinn vegna kaupa á þessum málverkum hafi verið gefinn út á nafn ákærða væri sú, að hann hafi keypt myndirnar í nafni ákærða, sem fengi endurgreiddann söluskatt vegna útflutnings myndanna, en einstaklingar búsettir í Danmörku þurfi hins vegar að greiða söluskattinn. Þar sem vitið væri búsett í Danmörku mætti hann hins vegar fara aftur með sömu mynd til Danmerkur sem innbú og honum bæri ekki að gefa upp innflutning á innbúi. Þannig að þetta væri „svona tæknileg aðferð“, sem hann hafi viðhaft við fleiri málverk.
Vitnið kvaðst hafa móttekið málverkin 20. ágúst 1994, eins og móttökuseðillinn ber merki um, en hann hafi ekki hitt ákærða, en vel megi vera að svo hafi verið. Vitnið neitaði því að myndin „Páskaliljur“, sem honum var sýnd í dóminum, væri önnur myndanna tveggja sem hann fullyrti að hann hefði keypt handa sér. Bar vitnið að það kannaðist við þessa mynd úr úr blöðunum „eða úr gögnum“. Hann hafi séð ljósmyndir af þessari mynd. Hann neitaði því alfarið að hafa látið ákærða fá aðra myndanna, sem hann keypti á uppboðinu eftir Wils. Hann sagði að báðar myndirnar sem hann hafi keypt nr. 32 á uppboðinu nr. 60 í júní 1994 hafi verið mjög ólíkar þessari mynd. Hann kvaðst hafa tjáð Arnari Jenssyni rannsóknarlögreglumanni að þetta væri blómamynd, en hann yrði að fara í gegnum fleiri gögn til að kanna hvaða mynd hér væri um að ræða.
Vitninu var sýnt að á bakhlið myndarinnar væri skrifað með blýanti 32-601 og hringur dreginn um, og talið væri að þetta væru merkingar og númer myndar nr. 32 frá uppboðsfyrirtæki Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn frá uppboðinu nr. 601, sagði vitnið að það væru ekki „Kaupmannahafnar númer á þessari mynd“. Fyrirtækið noti iðulega þessa merkingu í Vejle, það hafi hann séð á myndum sem vitnið fór yfir heima hjá sér. Merkingar sem hann hafi séð frá fyrirtækinu í Kaupmannahöfn væru hins vegar aðallega með límmiða. Myndirnar sem hann keypti nr. 32 hafi verið merktar á sýningarmiða aftan á myndunum.
Vitnið, Claus Poulsen, sagði að merkingin á blindramma málverksins, sem honum var sýnd í dóminum, 32/601 og hringur utan um þær tölur, væri skráningarmerking fyrirtækisins síns. Efra númerið, 32, væri raðnúmer, þ.e. númer málverksins í uppboðsskránni og hitt númerið fyrir neðan, 601, væri númerið á uppboðinu sjálfu. Bruun Rasmussen merkti allar innkomnar myndir með þessum hætti. Mynd þessi hafi því verið seld á uppboði nr. 601 og verið nr. 32 á því uppboði. Vitnið sagði að við rannsókn málsins hafi rannsóknarlögregla sýnt honum ljósrit af þessu málverki og hafi hann einnig þekkt myndina af því ljósriti. Vitninu var sýnd uppboðsskrá þessa uppboðs og kvað þessi númer koma heim og saman við það uppboð. Hann kvaðst ekki muna hvort málverkinu er þar lýst sem „Nature morte med frugter“ eða „Nature morte med blomster“. Claus kvaðst sjálfur hafa verið í uppboðssalnum á þessu uppboði.
Vitnið staðfesti að ofangreindur reikningur frá 31. júlí 1994, væri reikningur fyrirtækis síns. Hann sagði að viðskiptamannanúmerið á reikningnum væri sett á hann þar sem þeir þekktu kaupandann, en á reikningnum komi fram að ákærði hafi keypt myndir nr. 32 og nr. 178 og á þessum reikningi sé viðskiptamannsúmer hans, 29631, og þrjár síðustu tölurnar í raðnúmeri reikningsins, 103950-601 vísi til númers uppboðsins sem myndin var seld á. „Gjald fyrir annan reikning“ á reikningum þýði sennilega að einhver annar hafi boðið í myndirnar, en rétt eftir hamarshögg hafi verið beðið um að reikningurinn væri sendur á annan einstakling og fyrirtækið tekið gjald fyrir að útskrifa reikning á annan einstakling. „Selt til útflutnings“ sé sett á reikninginn þar sem að í Danmörku væru reglur um að ekki megi flytja úr landi sum listaverk, en hér hafi það verið heimilt og þá sé þetta áritað á reikninginn. Vitnið sagði að virðisaukaskattur væri reiknaður inn í fjárhæðina „þóknun“ í slíkum reikningum. Sjá megi hins vegar á þessum reikningi að virðisaukaskattur hafi ekki verið reiknaður, þar sem þóknunin sé 17% á þessum tíma. Fyrirtækið noti tvær aðferðir ef munir eru seldir og fara á með þá úr landi. Önnur aðferðin sé sú að reikna 20% þóknun og virðisaukaskatt, hin aðferðin sé að reikna 25% og þá sé virðisaukaskattur innifalinn, en í síðara tilvikinu sé það á ábyrgð Bruun Rasmussen að skila virðisaukaskattinum. Ef fyrri aðferðinni væri beitt ætti kaupandinn hins vegar að sjá um að fá skattinn endurgreiddan.
Vitnið staðfesti einnig önnur gögn, er getið er um hér að framan, sem sögð eru stafa frá Bruun Rasmussen, meðal annars afhendingarseðil um afhendingu verksins. Sagði vitnið að samkvæmt þeim seðli hafi málverkin fyrst verið afhent 20. ágúst 1994 og fullyrti að samkvæmt þessu hafi málverkið verið í vörslu uppboðsfyrirtækisins frá uppboðinu í júní 1994 og fram að 20. ágúst sama ár.
Vitnið var að því spurt hvað handrituðu stafina HK við Tlf. á fylgiskjalinu, sem bæru nafn J. Thorsteinsson sem kaupanda þýddu. Sagði vitnið að þetta væru upphafsstafir eins starfsmanna þeirra, sem hafi haft „símaumboð“ og verið með J. Thorsteinsson á símalínunni meðan uppboðið fór fram. Samkvæmt þessu fylgiskjali hafi því verið boðið í verkin símleiðis í nafni Jónasar Thorsteinssonar. Ekki sé unnt að slá því föstu hvað hafi gerst frá því boðið var í verkin nr. 32 uns reikningurinn á ákærða var gefinn út, en líklega hafi einhver haft samband við fyrirtækið og beðið um að reikningur vegna þessara kaupa væri gefinn út á nafn ákærða og þeir hafi svo innheimt gjald fyrir það, svo sem fram komi á reikningnum. Samkvæmt bókhaldsgögnum fyrirtækisins hafi því J. Thorsteinsson boðið í verkin, en ákærði verið kaupandinn. Vitnið sagði að hins vegar gæti í raun hver sem er fengið gefinn út reikning á tiltekinn kaupanda. Vitnið var nánar spurt um áritun á málverkunum tveimur nr. 32 sem fram kemur í uppboðsskránni og sagði vitnið að þær gæfu til kynna að bæði málverkin hafi verið árituð á sýningarmiða á blindrammann. Hins vegar væri ekki hægt að segja á grundvelli þessarar skráningar í uppboðsskránni hvort málverkin sjálf hafi verið árituð. Sagði vitnið að þrátt fyrir að þess hafi ekki verið getið í uppboðsskránni kunni svo að hafa verið. Þetta væri alltaf tekið fram, ef um dýr verk væri að ræða, þá væri kirfilega gengið úr skugga um hvort áritun væri á málverkinu sjálfu. Hér væri hins vegar um að ræða tvö ódýr verk, samtals uppsett verð 4.000 krónur, og því hafi ef til vill verið látið nægja að rita það sem stendur á uppboðsskránni.
Niðurstaða.
Ákærða er gefið að sök að hafa keypt eitt tveggja málverka nr. 32, eftir danska málarann Wilhelm Wils á uppboði nr. 601 hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannhöfn 7. júní 1994, afmáð höfundarmerkingu listamannsins og selt það með blekkingum sem verk Jóns Stefánssonar listmálara, á uppboði nr. 12 í Reykjavík 1. september 1994, eins og nánar er lýst í ákæru. Verkið var slegið Kjartani Gunnarsyni á uppboðinu á 430.000 krónur.
Hér að framan hefur verið lýst hvaða sérfræðingar komu að rannsókn málverksins að beiðni ríkislögreglustjóra og niðurstöðu þeirra rækilega lýst. Samkvæmt niðurstöðu Haraldar Árnasonar lögreglufulltrúa, sem skimaði litarflöt málverksins í VSC (Video Spectral Comparator) tæki, með útfjólubláu ljósi, gáfu þær til kynna, „að bókstafurinn „W“ hafi annað hvort verið máður út að hluta eða að málað hafi verið yfir hann, á framangreindu málverki sem sýnilega er höfundarmerkt Jóni Stefánssyni og lýst er hér að framan. Það er jafnframt niðurstaða hans að vísbendingar séu um, að aftan við „W“ hafi mögulega staðið „ils“ þannig að málverkið hafi upphaflega verið merkt „Wils“.“ Að sömu niðurstöðu komst Viktor Smári Sæmundsson forvörður hjá Listasafni Íslands, er hann rannsakaði og tók ljósmyndir af verkinu við venjulegar aðstæður og undir útfjólubláu ljósi á litskyggnur og kannaði einnig hvort hluti verksins væri yfirmálaður og hvort undir yfirmálingu væri eldri undirritun finnanleg. Í samantekt rannsóknar hans kemur fram að leiða megi að því sterk rök að rauðmáluð áritun hvers upphafsstafur var „W“ hefur að mestu verið slípuð eða máð brott og hið slípaða svæði endurmálað í tveimur til þremur litalögum. Fram kemur einnig að neðri hluti málverksins sé mikið yfirmálaður án sýnilegs tilgangs nema e.t.v. til að dreifa athyglinni frá yfirmáluninni í hægra horni verksins og/eða til að breyta útliti myndarinnar. Áritunin „Jón Stefánsson“ sé máluð yfir rispað (slípað) svæði, líklega í tveimur atrennum og að hluta til yfir endurmálað svæði, sem samkvæmt lit ljómageislunnar er ekki ýkja gamalt. Tveir límmiðar á bakhlið blindrammans hafa verið fjarlægðir en þeir gætu hafa geymt heimildir um sögu verksins. Er það niðurstaða rannsókna Viktors Smára að miklar líkur séu til þess að málverkið, sem sýnilega er höfundarmerkt „Jón Stefánsson“, sé ekki eftir hann. Höfundur verksins sé líklega Wilhelm Wils. Þá kom fram í rannsókn Viktors Smára og vætti hans, að mörg atriði sem skoðuð voru hafi verið afar lík með mynd þessari og myndinni „Uppstilling“ í B kafla, t.d. væri rauði liturinn, sem vitnið lýsti nánar, eins í áritunun beggja myndanna. Það hafi einnig verið sammerkt myndunum að á svæðum í og umhverfis áritun, hafi mátt sjá í smjásjá að búið var að rispa og skrapa þar með einhvers konar oddhvössu verkfæri og hugsanlega eitthvað verið slípað líka með sandpappír.
Haraldur og Viktor Smári staðfestu einnig fyrir dóminum verk sín og rannsóknir á þessu málverki og útskýrðu nánar rannsóknir sýnar og niðurstöður þeirra, meðal annars með VSC tækinu og myndskyggnum. Sáu dómendur og sakflytjendur einnig með berum augum í VSC tækinu framhlið myndarinnar, einkum svæðin þar sem undirritunin „Jón Stefánsson“ er á verkinu og á önnur svæði, sem sérstaklea er vikið að í rannsóknum Haraldar og Viktors Smára. Dómendur eru sammála um það að ljóslega mátti greina með berum augum áletrunina W. Framburður þeirra beggja var sem fyrr trúverðugur og þeir sjálfum sér samkvæmir. Þeir tóku einnig sýnishorn úr málverkinu, eins og lýst hefur verið, og sendu dr. Sigurði Jakobssyni til litrófsrannsóknar. Sem fyrr vísast til framburðar hans hér að framan um áreiðanleika þessarar rannsóknar. Dr. Sigurður greindi alkýð í lit í áritun neðst til hægri á myndinni og einnig á svæði ofan við áritun og loks á blómakrónu eins túlípanans á málverkinu. Við ljósmyndum Viktors Smára í útfjólubláu ljósi vöknuðu einmitt grunsemdir um að á þessum stöðum væri grunur um yfirmálum og að alkýð væri í áritun. Vísast hér til fyrrgreinds vættis dr. Sigurðar um þornunartíma olíulita sem listamenn nota og alkýðs og vitnisburðar Viktors Smára um þessa liti.
Skimun málverksins, sem lýst hefur verið hér að framan og dómendur sáu sjálfir í dóminum, er í samræmi við rannsóknir og niðurstöður sérfræðinganna Viktors Smára Sæmundssonar og dr. Sigurðar Jakobssonar, sem lýst hefur verið rækilega í þessum kafla. Rannsóknir þeirra sýna að einnig í þessu tilviki var mjög sterk fylgni milli ljómageislunar sem fram kom við ljósmyndun af málverkinu undir útfjólubláu ljósi og niðurstöðu litrófsrannsókna á bindiefninu.
Af þessum rannsóknum og trúverðugum framburði þeirra sem þær önnuðust þykir fyllilega í ljós leitt að höfundarmerkingin „Jón Stefánsson“ sem var á málverkinu þegar það var selt 1. september 1994 á uppboði nr. 12 í Reykjavík var ekki máluð af Jóni Stefánssyni.
Þessi niðurstaða styðst einnig við vitnisburð Ólafs Kvaran forstöðumanns Listasafns Íslands og greinargott álit og framburð Júlíönu Gottskálksdóttur listfræðings. Ólafur hefur borið, eins og áður er getið, að hann telji að ekki verði séð að tekist sé á við grundvallareinkenni í list Jóns í þessari mynd sem og hinum tveimur, sem mál þetta snýst um, bæði að því er varðar litræna endurtekningar eða tengingar og formmótun, sem tengist andstæðuríkri litanotkun Jóns. Allar væru myndirnar mjög á skjön við það sem væri rauður þráður í allri myndlist Jóns Stefánssonar og taldi vitnið að þegar litið væri til þeirra sterku höfundareinkenna gæti Jón ekki hafa málað þessar myndir eða tekist illa upp með eigin stíl. Þetta væri augljóst þegar litið væri á myndirnar. Í áliti Júlíönu kom meðal annars fram, að litameðferð sé um margt lík þeirri sem viðhöfð er í málverkinu „Uppstilling“ í kafla B. Viss sértæk einkenni tengdu einnig þessar myndir, til dæmis væri sami diskurinn augljóslega á báðum myndunum. Frávikin frá höfundareinkennum Jóns, sem hún lýsti nánar, væru hins vegar augljós og gerði það að verkum að málverkið standist engan veginn listrænan samanburð við verk hans. Framburður hennar fyrir dóminum um þetta verk var sem fyrr trúverðugur og greinargóður. Eins og fram er komið í umfjöllun verkanna í A og B kafla, útskýrði hún með sýningu litskyggna verk höfundarins til samanburðar þessu verki.
Vætti framangreindra vitna er í fullu samræmi við gögn og framburð vitnisins Claus Poulsen, sem renna sterkum stoðum undir það að málverk þetta sé eftir Wilhelm Wils og hafi verið selt á uppboðinu nr. 601 í Vejle 7. júní 1994, eins og nú verður rakið.
Lýsing og stærð málverkanna tveggja sem merktar eru nr. 32: „Nature morte með frugter og Nature morte með blomster“, eftir Wilhelm Wils, á skrá uppboðsins nr. 601 í Kaupmannahöfn, kemur heim og saman við málverkið „Páskaliljur“, sem merkt var nr. 89 á uppboðsskrá uppboðs Gallerís Borgar í Reykjavík 1. september 1994. Á málverkinu „Páskaliljur“, koma bæði fram blóm og ávextir. Vitnið Claus Poulsen, forstjóri hjá Bruun Rasmussen í Kaupamannahöfn, sagði að lýsingin í uppboðsskránni gæti átt við bæði málverkin, en hann myndi ekki hvor myndanna væri sú, sem hann staðhæfði að væri myndin „Páskaliljur“. Hann sagðist einnig hafa borið kennsl á verkið þegar hann sá ljósmynd af því hjá lögreglu, enda hafi hann verið á uppboðinu þegar það var selt. Í gögnum fyrirtækis síns hafi hann séð að seljandinn var erlent fyrirtæki. Á uppboðsskránni á þessu uppboði kemur fram að báðar myndirnar voru merktar með miða á blindramma. Sagði Claus að þótt ekki hafi staðið í skránni að málverkin væru árituð, kynni svo samt að hafa verið, þar sem myndirnar hafi verið mjög ódýrar, og ekki sé leitað svo grannt eftir því í þeim tilvikum. Þetta vitni staðfesti einnig að merkingin 32/601 með hring utan um, sem er á blindramma málverksins, væri áritun fyrirtækisins í Kaupmannahöfn. Þessi áritun sýndi að málverkið hafi verið selt á uppboði nr. 601 og hafi þar verið nr. 32.
Fram er komið að á þessu sama uppboði í Kaupmannahöfn var seld mynd nr. 178 eftir Jóhannes S. Kjarval: „Portræt“ árituð 1919, rauðkrít. Lýsing þeirrar myndar kemur heim og saman við mynd nr. 46, sögð eftir Jóhannes S. Kjarval, á uppboði Gallerí Borgar nr. 12, sem haldið var 1. september 1994. Eins og að framan getur var mynd nr. 178 á sama reikningi og sama afhendingarseðli og mynd nr. 32, sem stílaður var á ákærða.
Verður nú vikið að framburði ákærða um málverkið og þeirri staðhæfingu hans að honum hafi ekki verið um það kunnugt að málverkinu „Páskaliljur“ sé sama málverk og selt var var á uppboðinu í Kaupmannahöfn 7. júní 1994 og því hafi verið breytt með þeim hætti sem lýst er í ákæru.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu um málverk þetta 17. mars sl. kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir því, en minnti þó að hann hafi keypt verkið um leið og myndina nr. 82 á uppboði nr. 12 „af einhverjum Dana“ sem svaraði auglýsingu hans í Kaupmannahöfn. Hann gat ekki lagt fram gögn þessu til staðfestingar. Við meðferð málsins sagði hann að fram kæmi í málsgögnum að Jónas Freydal hafi keypt myndina. Hann kvaðst engin gögn hafa um myndina „Páskaliljur “, sem seld var á fyrrnefndu uppboði Gallerís Borgar og kvaðst muna lítið eftir myndinni. Sagði ákærði er á hann var gengið að hann kynni sjálfur að hafa keypt myndina í Kaupmannahöfn en einnig væri hugsanlegt að Jónas Freydal hafi átt þessa mynd. Ákærði kvaðst heldur ekki kannast við rauðkrítarmyndina eftir Jóhannes S. Kjarval. Er honum var bent á það, að líkur væri á því að þetta væri sama myndin og seld var nr. 46 á sama uppboði Gallerís Borgar og myndin „Páskaliljur“, sagði hann að þetta gæti varla verið sama mynd, þar sem upplýsingar um ártal og hvar hún var sýnd áður vanti um verkið á uppboðsskrá gallerísins. Hins vegar væru þessar upplýsingar á uppboðsskránni frá uppboði nr. 601 í Kaupmannahöfn. Hann gat ekki lagt fram gögn um þessa mynd og taldi að hún hefði ekki selst. Í greinargerð Ragnars Björnssonar viðskiptafræðings, sem hann hefur staðfest fyrir dóminum, kemur hins vegar fram að sala þessa verks var færð í bókhaldið á grundvelli sölureiknings. Sýna gögn, sem Ragnar lagði fram og staðfesti, að myndin var slegin á 86.000 krónur á þesu uppboði. Verkið var staðgreitt og sú greiðsla færð á bankareikning Gallerí Borgar daginn eftir uppboðið. Hins vegar var hvorki hægt að rekja til fylgiskjala bókhalds uppgjör við seljanda myndarinnar né hver hann var.
Ofangreindur framburður ákærða er sem fyrr óstöðugur og ótrúverðugur. Hann hefur borið úr og í um það hvort hann hafi sjálfur keypt myndina „Páskaliljur“ eða Jónas Freydal. Ekki er heldur traustvekjandi frásögn hans um ofangreinda krítarmynd eftir Kjarval, en gögn um þessa mynd, sem rakin hafa verið, leiða sterkar líkur að því, að mynd nr. 178, sem seld var á framangreindu uppboði nr. 601 og mynd nr. 46, sem seld var á sama uppboði og myndin „Páskaliljur“ sé ein og hin sama. Hann hefur ekki þvertekið fyrir að hann hafi keypt myndirnar nr. 32 sjálfur. Jónas Freydal hefur staðhæft að myndirnar nr. 32 og 178 hafi hann keypt á uppboðinu nr. 601 vegna rammanna, haldið annarri eftir, sem sé enn í hans fórum, en selt hina á uppboði hjá Köbenhavns Auktioner 25. september 1996. Lagði hann fram fylgiskjal við meðferð málsins, sem hann kvað staðfesta þennan framburð sinn. Á því stendur að hann hafi selt „1 parti billeder“. Þessi framburður hans stenst ekki í ljósi þess að fram er komið að myndin „Páskaliljur“ er sú sama og önnur myndanna sem seld var nr. 32 á margnefndu uppboði í Kaumannahöfn nr. 601.
Gögn um sölu myndarinnar á uppboðinu nr. 601 í Kaupmannahöfn gefa vísbendingu um að að Jónas Freydal hafi boðið símleiðis í myndina, enda hefur hann staðfest það. Hins vegar var myndin sett á reikning ákærða og nýr reikningur gefinn út, svo sem lýst er hér að framan. Framburður Jónasar Freydal um það hvers vegna hann hafi látið færa myndirnar á reikning ákærða er út í hött, enda er það skilyrði fyrir tollfrjálsum innflutningi og undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðum D. 4.2.1. í dönskum reglum EU nr. 918/1983, að innflutningurinn hafi átt sér stað í síðasta lagi 12 mánuðum eftir búsetuflutninginn. Vitnið Claus Poulsen hefur einnig staðfest að enginn virðisaukaskattur hafi verið greiddur við söluna. Jónas Freydal kvaðst ekki muna hvort hann var á uppboðinu 1. september 1994, en samkvæmt bókhaldsgögnum Gallerís Borgar fékk hann greiddar í tilefni þess uppboðs 300.000 krónur. Engin gögn hafa verið lög fram af hálfu ákærða eða Jónasar Freydal um það fyrir hvað þessi greiðsla er, enda hefur Jónas borið að hann selji nokkrar myndir á ári í Gallerí Borg.
Afhendingarseðill sá sem getið er um hér að framan, sýnir að Jónas Freydal veitti málverkunum nr. 32 og 178 viðtöku 20. ágúst 1994, eða tveimur dögum eftir að ákærði var á uppboðinu í Vejle og degi áður en hann flaug heim heim til Íslands frá Kaupmannahöfn. Hann kvaðst hafa hitt ákærða eftir þetta uppboð í tilefni kaupa ákærða á þremur málverkum eftir Júlínu Sveinsdóttur, sem ákærði keypti á uppboðinu. Ákærði lagði fram gögn um það að hann hafi keypt þrjú málverk eftir þessa listakonu á uppboðinu í Vejle og hann hefur og staðfest að hann hafi farið heim til Íslands eftir uppboðið í Vejle frá Kaupmannahöfn 21. ágúst 1994, rúmri viku fyrir uppboðið. Bendir samkvæmt þessu margt til þess að ákærði og Jónas hafi hist í Kaupmannahöfn á þessum dögum.
Ákærði hefur í A og B kafla hér að framan verið sakfelldur fyrir að hafa keypt tvö málverk Wilhelm Wils, sem jafnframt málaði verkið „Páskaliljur“, og selt þau í auðgunar- og blekkingarskyni, eins og nánar er þar getið. Annað þessara málverka, myndin í B kafla, var seld á sama uppboði og myndin „Páskaliljur“. Því hefur verið lýst hér að framan að margt sé sameiginlegt í yfirmáluninni og árituninni „Jón Stefánsson“ í þessum tveimur málverkum, sem fjallað er um hér og í B kafla.
Ekki verður fullyrt hvort ákærði eða Jónas Freydal keypti umræddar myndir, þar á meðal myndina „Páskaliljur“, en þegar litið er til þess sem að framan er rakið, ekki síst ótrúverðugs framburðar þeirra og tengsla þeirra, sem eru meiri en þeir vilja vera láta, þykir sannað að ákærði hafi tekið þátt í kaupum þesssarar myndar.
Málverkið „Páskaliljur“ var keypt ásamt öðru málverki á 4.000 danskar krónur á uppboðinu í Kaupmannahöfn nr. 601 og seld rúmum tveimur mánuðum síðar á uppboði Gallerís Borgar í Reykjavík, höfundarmerkt Jóni Stefánssyni, á 430.000 íslenskar krónur, en auk þess greiddi kaupandi myndarinnar, Kjartan Gunnarsson, 43.000 krónur, sem renna skyldu í starfslaunasjóð myndlistarmanna. Kjartan hefur borið að forsenda kaupverðsins hafi verið sú, að hún var merkt Jóni Stefánssyni og seld sem mynd hans. Hann hefur ekki lagt fram skaðabótakröfu í málinu.
Það sama gildir um málverk þetta og málverkin, sem fjallað er um í kafla A og B, að ekki hafa verið lögð fram gögn því til sönnunar af hálfu ákæruvalds að ákærði hafi sjálfur afmáð höfundarmerkinguna af málverkinu og sett á það höfundarmerkingu Jóns Stefánssonar, eins og honum er að sök gefið.
Þegar allt framangreint er virt þykir hins vegar fyllilega sannað að ákærða var ljóst að myndinni hafði verið breytt með framangreindum hætti og tók fullan þátt í sölu hennar í blekkingarskyni á umræddu uppboði, eins og nánar er lýst í ákæru. Ónákvæmni í málavaxtalýsingu í ákæru að því er þetta varðar kemur ekki að sök, enda var vörn ekki áfátt um þetta atriði, sbr. 117. gr. laga nr. 19/1991.
Ekki er vafi á því að málverkið var selt í auðgunarskyni, þar sem verkið var selt á margföldu því verði, sem hægt var að fá fyrir myndir Wilhelms Wils, og ranglega höfundarmerkt Jóni Stefánssyni.
Sú háttsemi, sem ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir varðar við 3. mgr. 159. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. nú 75. gr. laga nr. 82/1998 og 248. fyrrgreindra laga.
II.
Í upplýsingaskýrslu ríkislögreglustjóra 7. febrúar 1998 er sagt, að ákærði hafi komið 30. október 1997 ásamt lögmanni sínum á skrifstofu efnahagsbrotadeildar til að leggja fram svör við fyrirspurnum rannsóknara um bókhald Gallerís Borgar. Farið var fram á ýmis bókhaldsgögn fyrirtækisins, meðal annars gögn er snertu sölu og kaup tiltekinna 22 málverka, sem voru í rannsókn. Þar er haft eftir ákærða að hann gæti ekki lagt fram bókhaldsgögn um kaup og sölu þessara verka. Færslu bókhalds hafi verið mjög áfátt og kaupin oft ekki skráð. Því gæti hann ekki lagt fram bókhaldsgögn um kaup og móttöku verkanna, hvort sem Gallerí Borg hefði keypt þau, selt beinni sölu á uppboðum eða tekið þau í umboðssölu.
Húsleit var gerð 11. nóvember 1997 í starfsstöð gallerísins og á heimili ákærða, svo sem lýst er í upphafi I. kafla, og hald var lagt á bókhald fyrirtækisins allt frá árinu 1993. Viðstaddur leitina var fulltrúi skattrannsóknarstjóra ríkisins. Kannaði Júlíana Gísladóttir, sem færði bókhald Gallerís Borgar fyrir árin 1994, 1995 og 1996, ýmis bókhaldsgögn, er vörðuðu 17 málverk, sem til rannsókar voru, svo sem áður er lýst í I. kafla.
Fjallað hefur verið um svarbréf hennar 26. nóvember 1997 um bókhaldsgögn í tengslum við myndirnar í 1. og 2. lið I. kafla ákæru, en þar kom fram að hún hafi ekki fundið nein gögn um myndina í 3. lið og heldur engin bókhaldsgögn um uppboðið sem haldið var á Akureyri 21 maí 1995, þar sem þessi mynd var seld. Einnig kom fram í svörum hennar að fundist hafi reikningur sem ætti við myndina í 1. lið, en ekki væri unnt að rekja hverjum galleríið hefði greitt söluandvirðið. Ljósrit þessa reiknings liggur frammi í málinu. Segir ennfremur í svarbréfinu að tveir tékkar hafi fundist í bókhaldinu, stílaðir á tvo einstaklinga, sem kynnu að vera greiðsla vegna málverksins, svo sem nánar var rakið í I. kafla.
Engin fylgiskjöl hafa fundist í bókhaldinu um kaup eða sölu myndarinnar í 2. lið ákæru.
Í útprentun hreyfingarlista fjárhagsbókhalds félagsins af reikningslykli fyrir sölu á uppboði nr. 12 koma fram færslur vegna verka nr. 82 og 89 og er söluverð þeirrar fyrrgreindu tilgreint 360.000 krónur, en þeirrar síðarnefndu 430.000 krónur auk 10% af þessari fjárhæð, eða 43.000 krónur. Ljóst er að síðargreind fjárhæð er gjald í starfslaunasjóð myndlistarmanna.
Með bréfi 29. nóvember 1997 fór ríkislögreglustjóri þess meðal annars á leit við Júlíönu Gísladóttur að hún kannaði hvaða myndir voru í eigu Gallerís Borgar á uppboðinu nr. 12 og hvaða myndir voru þar í umboðssölu. Í svarbréfi Júlíönu 29. nóvember 1997 kemur fram að ekki hafi verið hægt að greina í bókhaldi fyrirtækisins hvaða myndir voru í eigu Gallerís Borgar og hverjar þeirra hafi verið í umboðssölu, þar sem sama meðferð hafi verið í bókhaldi varðandi myndir seldar á uppboði í umboðssölu og mynda selda í eigu gallerísins. Þar kemur einnig fram að uppboð nr. 26, haldið á árinu 1996, hafi hún ekki getað fært að fullu í bókhald Gallerís Borgar rekstrarárið 1996 þar sem 46 fylgiskjöl hafi vantað vegna uppboðsins.
Vísað er til umfjöllunar hennar um reikninga í bókhaldi félagsins, að því er myndina í 1. lið ákæru varðar, til B kafla I. hér að framan, þar sem fjallað er um það málverk.
Í upplýsingaskýrslu lögreglu 26. nóvember 1997, sem varðar athugun Arnars Jenssonar og Jens Þórs Svanssonar yfirviðskiptafræðings skattrannsóknarstjóra ríkisins, á keyptum verkum frá öðrum löndum, kemur fram að Júlíana hafi bent á tvo reikningslykla í bókhaldinu sem til greina kæmu vegna kaupa á listaverkum erlendis, annars vegar nr. 411000 -vörukaup erlendis- og hins vegar nr. 411600 -keypt listaverk. Á þeim komi fram að gerðar hafi verið 3 færslur á síðari reikningslykilinn árið 1994, þrjár myndir keyptar af íslendingum hérlendis, en engin á þann fyrri. Fimm færslur hafi verið færðar á fyrri lykilinn árið 1995 vegna verka sögð keypt erlendis, en engin á þann síðari. Átta færslur hafi svo verið færðar árið 1996 á fyrri lykilinn vegna verka sem sögð voru keypt erlendis. Fylgiskjölin á bak við ofangreindar færslur eru sagðar vera yfirfærslu- og kaupanótur vegna erlends gjaldeyris, og ógjörningur væri að átta sig á fjölda málverka sem keypt voru, seljanda þeirra eða verði og ekki unnt að staðreyna af þessum fylgiskjölum að um raunveruleg kaup hafi verið að ræða. Enginn möguleiki hafi verið að sjá út úr bókhaldinu hversu mörg verk voru keypt, verð þeirra eða seljanda.
Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra fól Löggiltum Endurskoðendum hf. að fara yfir lýsingu á bókhaldskerfi Gallerí Borgar með aðstoð Júlíönu Gísladóttur.
Í áliti Árna Tómassonar viðskiptafræðings og löggilts endurskoðanda hjá fyrrnefndu félagi, 6. febrúar 1998, kemur fram að ekki hafi verið unnt að rekja listaverkakaup og sölu listaverka með tæmandi hætti úr bókum félagsins. Þar segir að farið hafi verið yfir lýsingu á bókhaldskerfi félagsins með aðstoð Júlíönu Gísladóttur viðskiptafræðings, sem annaðist bókhald og afstemmingar fyrir félagið vegna rekstraráranna 1994 til og með 1996.
Í skýrlunni er svo lýst bókhaldskerfinu og í framhaldi af því álit Löggiltra Endurskoðenda hf. á helstu annmörkum bókhaldsins, sem hér segir:
„1. Sala:
Sala var einkum með þrennum hætti; sala málverka í umboðssölu, sala málverka á uppboðum og sala málverk á sýningum.
1.1. Umboðssala.
Þegar málverk var selt í umboðssölu voru útbúnir sérstakir umboðssölureikningar og bókuðust þeir kredit til skulda rog debet á eignalið í samræmi við það andvirði sem fékkst vegna sölunnar. Umboðssölureikningarnir voru yfirleitt skráðir á nafn viðkomandi kaupanda. Í framhaldi af þessu voru gerðir umboðslaunareikningar og færðir kredit til tekna og debet á upphaflega skuldareikninginn. Þegar uppgjör fór fram til þess aðila sem komið hafði með myndina í umboðssölu var síðan bókað kredit á bankareikning og debet á upphaflega skuldareikninginn, sem við það jafnaðist út í bókhaldi. Greiðslurnar báru yfirleitt með sér nafn þess sem greiðsluna fékk, eða að vísað var til seldrar myndar. Að sögn bókara var númeraröð umboðslaunareikninga nær óslitin 1994 og 1995 en ekki árið 1996.
Við gerum ekki athugasemdir við bókhaldsfyrirkomulag umboðssöluviðskiptanna, sem eru með hefðbundnum hætti. Athugasemdir okkar varða annars vegar númeraröð sölureikninga og hins vegar hvernig staðið var að skráningu, þegar komið var með myndir í umboðssölu, sjá síðar.
1.2. Sala málverka á uppboðum.
Í tengslum við hvert uppboð var útbúin sérstök uppboðsskrá, sem innihélt yfirlit um þær myndir sem boðnar voru til sölu á uppboðinu. Uppboðshaldari færði inn á uppboðsskrána upplýsingar um hvaða myndir seldust, við hvaða verði og hver var kaupandi. Fulltrúi frá myndlistasjóði var viðstaddur uppboðin og staðfesti uppboðsskrána, sem var grundvöllur útreiknings á myndlistarsjóðsgjaldi. Eftir að uppboði lauk voru gerðir sölureikningar á grundvelli uppboðsskrárinnar, en afrit hennar var ekki látið fylgja með reikningum í bókhaldið. Reikningarnir voru færðir til tekna að frádregnu myndlistarsjóðsgjaldi sem var skuldfært og á móti var fært debet á viðkomandi eignalið. Innheimta fjármuna gekk yfirleitt fljótt fyrir sig og var þá gert upp við fyrrverandi eigendur myndanna og voru þessar greiðslur færðar á vörukaup. Að sögn bókara voru greiðslurnar ávallt stílaðar á nafn eða að uppboðsnúmer viðkomandi myndar kom fram. Ekki reyndist unnt að rekja saman uppboðsskrá og tekjufærslu vegna sölu á uppboðum. Munaði þar mismiklu og versnaði ástandið að mun á árinu 1996. Að sögn bókara var númeraröð uppboðsreikninga nær óslitin 1994 og 1995 en ekki árið 1996.
Við gerum ekki athugasemdir við uppbyggingu bókhalds eða færslutilhögun. Að okkar áliti er uppboðsskráin eða afrit hennar bókhaldsgagn og hefði átt að fylgja bókhaldsgögnum. Frávik í tekjuskráningu eða færslu á umboðssölureikning frá uppboðsskránni hefðu átt að kalla á sérstakar skýringar, t.d. ef kaupandi gat ekki staðið við tilboð sitt. Teljum við þetta alvarlegan misbrest í innra eftirlitskerfi félagsins. Aðrar athugasemdir varða númeraröð þeirra reikninga sem gerðir voru og bókun vörukaupa, sjá síðar.
Sala málverka á sýningum.
Fyrirkomulag var með sama hætti og í umboðssölu, sjá lýsingu hér að framan. Athugasemdir eru þær sömu.
Vörukaup og móttaka mynda í umboðssölu.
Vörukaup og móttaka mynda voru með eftirfarandi hætti hjá félaginu; kaup á myndum erlendis frá, kaup á myndum innanlands, kaup á myndum í tengslum við uppboð og móttaka á myndum í umboðssölu og í tengslum við sýningar.
Kaup erlendis frá.
Kaup á myndum erlendis frá voru byggð á gjaldeyrisyfirfærslum, oftast án skýringa, og kveðst bókari ekki minnast þess að reikningur hafi nokkru sinni fylgt gjaldeyriskaupunum í umrædd þrjú ár.
Vart þarf að taka fram að fyrrgreind tilhögun er ekki í samræmi við bókhaldslög. Geti forsvarsmenn félagsins ekki gert grein fyrri umræddum gjaldeyrisyfirfærslum með því að leggja fram reikninga, verður að telja að um alvarlegt brot sé að ræða.
2.2. Kaup innanlands.
Kaup á myndum innanlands voru yfirleitt án nafns og kaup á myndum sem seldust á uppboði voru bókuð eftir uppboðið, þegar andvirði var skilað til fyrrverandi eigenda.
Hafi verið gerður fullgildur reikningur vegna kaupa á málverkum innanlands á að koma þar fram nafn seljanda og hvaða myndir voru seldar til Gallerí Borgar. Virðist hafa verið misbrestur á þessu. Reynslan sýnir að oft vill verða misbrestur á formsatriðum, þegar í hlut eiga einstaklingar sem eru að selja persónulega lausafjármuni og teljum við að ef skipulega hefði verið haldið utan um skráningu á mótteknum myndum af hálfu Gallerí Borgar, með tilvísun í viðkomandi fylgiskjöl, hefði ekki verið ástæða til að gera athugasemdir við þennan þátt starfseminnar. Vísum við í þessu sambandi til laga nr. 61/1979 um sölu notaðra lausafjármuna, en þegar segir í 5. gr. að skrá skuli og verðmerkja allan varning þegar honum er veitt móttaka. Athugasemd okkar beinist að því að þessa skráningu skorti.
Þó að ekki sé hefðbundið að skrá vörukaup eftir að sölu líkur, verður í þessu tilviki að horfa til eðli starfseminnar, t.d. þess að ekki liggur ljóst fyrir hvert kaupverðið er fyrr en að afloknu uppboði. Athugasemd okkar beinist annars vegar að því að ekki er hægt að tengja uppgjör við fyrrverandi eigendur (og þar með vörukaup) við uppboðsskrána og hins vegar að ekki var haldið með kerfisbundnum hætti utan um þau málverk sem bárust félaginu til sölu á uppboðum. Teljum við þetta annars vegar brjóta í bága við meginákvæði bókhaldslaga að rekja megi viðskipti og notkun fjármuna félagsins og hins vegar að þetta brjóti í bága við lög nr. 61/1979 um sölu notaðra lausafjármuna.
2.3. Myndir teknar í umboðssölu og á sýningar.
Engin kerfisbundin skráning fór fram hjá félaginu að því er þennan þátt varðaði, a.m.k. var umrædd gögn ekki að finna í bókhaldi félagsins.
Eins og áður hefur komið fram verður í hverju tilviki að horfa til eðlis þeirrar starfsemi sem í hlut á. Verulegur þáttur í starfsemi félagsins var umsýsla með myndir sem ýmist voru í eigu félagsins eða í eigu annarra. Í lögum nr. 61/1979 sem tekur til allra þeirra er reka vilja verslun eða umboðssölu með notaða eða gamla lausafjármuni, kemur skýrt fram skylda til að skrá og verðmerkja allan varning sem rekstraraðili tekur á móti. Eitt af grundvallaratriðum bókhalds er að rekja megi viðskiptin og á forsvarsmönnum hvílir m.a. sú skylda að til staðar sé nauðsynlegt innra eftirlit til að tryggja áreiðanleika bókhaldsins. Að halda ekki skipulega skrá um þær myndir sem bárust félaginu til umsýslu verður að telja verulega brotalöm í þessu tilviki, með vísan til framangreindra laga, sem gerir það að verkum að ekki er unnt að rekja einstök viðskipti eða ráðstöfun fjármuna.
Niðurstaða.
Hér að framan hafa verið raktar helstu athugasemdir okkar sem tengjast sölu og kaupum á málverkum. Þrennt er að okkar áliti alvarlegast; ófullkomið tekjuskráningarkerfi og vantalin sala, bókun á erlendum málverkakaupum án haldbærra fylgiskjala og skortur á skráningu þeirra mynda sem teknar voru í sölumeðferð hjá félaginu.
Að öðrum atriðum hefur komið fram hjá forsvarsmanni félagsins að hann getur ekki gefið upplýsingar um kaup og sölu tiltekinna málverka. Fram kemur að hann hafi umrædd ár trassað að færa bókhaldið og að óreiða hafi verið á bókhaldsmálum félagsins. Kemur þetta fram í skorti á fylgiskjölum og færslum á viðskiptum, bókhald er ekki unnt að færa og stemma af samkvæmt viðurkenndum bókhaldsvenjum og ekki er unnt að gera ársreikning og skattframtal fyrir félagið með lögboðnum hætti. Nægir að vísa í IV. kafla laga nr. 145/1994 um bókhald að því er varðar viðurlög við framangreindum atriðum.“
Ragnar Björnsson viðskiptafræðingur, gerði sérstaka athugun á bókhaldinu með tilliti til uppgjörs á sölu uppboðs nr. 6 á Akureyri 21. maí 1995. Fram kemur í minnisblaði hans, sem hann hefur staðfest fyrir dóminum, ásamt öðrum gögnum sem hann hefur unnið að í málinu, að engin tekjufærsla hafi verið í bókhaldi vegna þessa uppboðs. Hins vegar segir í athugun hans að bókuð hafi verið greiðsla á þremur málverkum, seldum á uppboði nr. 6, málverk nr. 40, 41 og 44. Fylgiskjal þessarar greiðslu, sem fylgir minnisblaðinu er meðal ganga málsins. Þetta er eina fylgskjalið sem viðskiptafræðingurinn segist hafa fundið í bókhaldi fyrirtækisins um þetta uppboð.
Í skýrslu sinni hjá lögreglu 11. nóvember 1997 er haft eftir ákærða að bókhald fyrirtækisins hafi í raun verið í molum, en endurskoðandi Gallerís Borgar væri að færa bókhald ársins 1996. Nýlokið væri að færa bókhald 1995.“
Ákærða var sýndur reikningur vegna kaupa myndarinnar nr. 82 á uppboði Gallerís Borgar við skýrslutöku hjá lögreglu 10. desember 1997. Kvað hann innborgun þessa hafa farið inn á reikning gallerísins við Búnaðarbanka Íslands. Þá er eftir honum haft í skýrslu 24. nóvember sama ár, um skráningu mynda sem hann fékk í umboðssölu, að þær myndir hafi verið skráðar á skráningarblöð, þar sem getið hafi verið eiganda, höfundar og verðs sem eigandinn vildi fá fyrir myndina. Stundum hafi þetta þó ekki verið gert, en það hafi heyrt til undantekninga. Þegar galleríið keypti sjálft myndir hafi skráningarblöð ekki verið gerð nema í undanteknigartilvikum.
Um verk sem keypt voru í Danmörku sagði ákærði að oftast hafi nöfn kaupanda og aðrar upplýsingar ekki verið skráð á skráningarblöð, einfaldlega vegna tímaskorts, en hann hafi oft komið heim fáum dögum fyrir uppboð. Þá hafi oft ekki þótt ástæða til slíkrar skráningar þar sem flestar myndanna sem hann kom með frá Danmörku hafi verið eign gallerísins. Hann sagði að oftast hafi ekkert verið fært í bókhaldi gallerísins um kaup og sölu mynda sem Jónasar Freydal seldi á uppboðum fyrirtækisins. Að ósk Jónasar hafi þetta oftast verið „svört viðskipti“.
Ákærði sagði við meðferð málsins að á árunum 1994-1996 hafi starfsemi Gallerís Borgar falist í listaverkasölu, aðallega sölu verka, sölu listmuna á uppboðum, og uppboðshald.
Langstærsti hluti starfseminnar hafi tengst uppboðshaldi, en einnig hafi verið haldnar sýningar. Umboðssala og bein sala á verkum og ýmsum öðrum lausafjármunum, sem seld voru, hafi verið í litlum mæli. Í húsnæði fyrirtækisins hafi bæði verið rekin verslun og haldnar sölusýningar á listaverkum. Í versluninni hafi meðal annars verið til sölu málverk og ýmis önnur verk eftir núlifandi listamenn.
Hann neitaði sakargiftum í A. lið II. kafla ákæru, nema að því sem snertir greiðslur í starfslaunasjóð myndlistarmanna, er renna áttu til starfslaunasjóðs myndlistarmanna vegna uppboðs nr. 6 á Akureyri. Hann viðurkenndi að hann hafi ekki skilað greiðslum vegna þessa uppboðs til sjóðsins, tilskildu 10 % söluandvirði myndanna, en þetta hafi hann lagfært 6. janúar 1999. Lagði hann fram gögn til staðfestingar þessari lagfæringu. Hann sagði að ástæða þess að bókhald hafi ekki verið fært um kaup eða móttöku þessara þriggja listavera væri sú, að hann hafi ekki flutt verkin til landsins. Listaverkin í 1. og 3. lið hafi hann sjálfur keypt í Kaupmannahöfn, en kvaðst ekki hafa gögn um verkið í 2. lið, hann kynni sjálfur að hafa keypt það eða Jónas Freydal afhent félaginu það í umboðssölu. Verk er hann keypti í Danmörku hafi hann yfirleitt keypt í sínu nafni og á sinn reikning og því ekki fært þau kaup inn í bókhald fyrirtækisins.
Aðspurður um það hvers vegna ekkert bókhald hafi verið fært fyrir uppboðið á Akureyri sagði ákærði í fyrstu, að sennilega hafi það verið fært á kennitölu annars fyrirtækis síns, en leiðrétti það síðar í yfirheyrslunni og sagði að þetta hafi láðst vegna misskilnings milli Listhússins Þings á Akureyri og Gallerí Borgar, sem haldið hafi þessi uppboð saman. Skýring þess að ekki hafi fundist reikningur fyrir verkið í 3. lið ákærðu, sem keypt var á uppboði þar 21. maí sl., sagði ákærði þá að hann hafi sjálfur verið eigandi myndarinnar og því hafi ekki verið fært neitt uppgjör vegna hennar í bókhaldi félagsins.
Um kaup á myndum frá Danmörku sagði ákærði, eins og að framan greinir, að kaupin hafi yfirleitt ekki verið færð í bókhaldið, nema í þeim tilvikum sem Gallerí Borg var kaupandi. Í flestum tilvikum hafi hann sjálfur keypt þessi verk erlendis og selt þau í galleríinu, og það því ekki fært í bókhald þess. Myndirnar hafi hann ýmist selt á uppboðum eða á eigin vegum. Kaupin hafi stundum verið skráð á skráningarspjöld með sama hætti og önnur verk sem bárust, en ekki hafi verið litið á skráningargögn myndanna sem bókhaldsgögn heldur vinnuplögg.
Ákærði sagði að Júlíana Gísladóttir hafi fært upp bókhald gallerísins og skilað ársreikningi þess fyrir árið 1996 og skattframtali fyrir árið 1997 hafi hún skilað 20. október 1998. Nú væri því búið að leiðrétta og færa upp bókhaldið vegna uppboðsins nr. 12 á Akureyri 12.maí 1995.
Ákærði neitaði einnig sakargiftum í B-lið II. kafla ákæru. Hann sagði að hann hafi tekið við öllum leyfum félagsins, þegar hann tók við rekstri þess. Hann hafi verið með uppboðsleyfi og verslunarleyfi og taldi sig því ekki hafa þurft sérstakt leyfi til sölu lausafjármuna samkvæmt lögum nr. 61/1979.
Ákærði taldi einnig að Gallerí Borg hafi skráð öll listaverk sem bárust á sama hátt og hafði tíðkast frá stofnun þess 1984.
Hann kvað það rétt, sem eftir honum er haft í upplýsingaskýrslu lögreglu 7. febrúar sl., að þegar verk seldust hafi yfirleitt ekki verið færðar upplýsingar um kaupandann í skrár félagsins eða önnur gögn. Hins vegar hafi skráning ekki verið nákvæm og skráningargögnum ekki haldið til haga þannig að í flestum tilvikum væri því ekki hægt að svara því hver væri seljanda og hver kaupanda listaverka sem fóru „í gegnum“ Gallerí Borg. Almennt lægi eigendasaga ekki fyrir og upprunalegar athuganir hafi almennt ekki verið framkvæmdar. Hins vegar hafi hvert verk, sem kom inn í fyrirtækið, verið fært á skráningarblað sem sett var í sérstaka möppu, en þessu hafi ekki verið haldið til haga eftir að uppboði var lokið eða uppgjör farið fram við eiganda myndar og blöðin þá oft tekin úr möppunni. Samfelld skráning hafi því ekki farið fram eftir að verk komst úr vörslu félagsins.
Ákærði skýrði frá á sama veg um skráningu verka er keypt voru frá Danmörku. Þau hafi oftast ekki verið færð á skráningarblöð vegna tímaskorts og flestar myndirnar hafi verið eign gallerísins og því hafi ekki verið ástæða til að skrá þær sérstaklega.
Ákærði neitaði ennfremur sakargiftum í C-lið í II. kafla ákæru. Hann sagði að viðskipti fyrirtækisins hafi verið skráð þegar keyptir voru listmunir erlendis árin 1995 og 1996, en þetta hafi ekki verið fært þegar hann var að kaupa verk persónulega.
Ákærði sagði að vel gæti verið að reikninga hafi vantað í bókhaldið árið 1996, enda hafi fyrirtækið „staðið í flutningum tvisvar á þessu tímabili“. Hann kvaðst samt ekkert kannast við þá ágalla í bókhaldi sem lýst er í áliti Árna Tómassonar og bréfum Júlíönu Gísladóttur vegna rekstraráranna 1995 og 1996, enda væri bókhald ekki hans sterka hlið. Er honum var sérstaklega bent á það álit Júlíönu að ekki hafi verið unnt að færa að fullu bókhald Gallerís Borgar fyrir rekstrarárið 1996 þar sem fylgiskjöl vantaði kvaðst hann engar athugasemdir gera við þetta.
Um þær athugasemdir í greinargerð Árna Tómassonar og bréfum Júlíönu Gísladóttur að ekki hafi verið tiltæk gögn vegna kaupa á listaverkum í Danmörku, en einu gögnin um þessi kaup í bókhaldinu væru seðill um gjaldeyriskaup á vegum Gallerís Borgar, sagði ákærði, að honum skildist að búið væri „að kippa þessu í liðinn í dag“. Kvaðst ákærði telja að það væru komnir „reikningar á móti“, þótt hann þyrði ekki að fullyrða það. Júlíana hafi fengið einhverja reikninga, en hann sagðist ekki þora að fullyrða hvernig hún hafi fært þetta.
Ákærði sagði loks að í kjölfar kæra á hendur honum fyrir fölsun og sölu fjölmargra málverka væri fjárhagur hans og Gallerís Borgar bágborinn.
Árni Tómasson löggiltur endurskoðandi og viðskiptafræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti álitsgerð sína. Hann sagði að álit sitt væri fyrst og fremst unnið samkvæmt lýsingu Júlíönu Gísladóttur en í einstaka tilvikum hafi verið farið og blaðað í bókhaldi því, sem lögreglan lagði hald á. Hann hafi verið kallaður til aðstoðar við rannsóknina á bókhaldinu ásamt bókaranum og fyrst og fremst verið rannsóknaraðilum til halds og trausts við að meta hvort það sem bókari hefði fram að færa væri rétt og satt. Skýrsla hans bæri með sér að hann hafi farið í gegnum hvernig uppbyggingu bókhaldsins var háttað, en síðan hafi hann að lang mestu leyti byggt á upplýsingum bókara um hvað skorti, enda hafi ekki verið fyrir hendi bókhald til þess að byggja á fyrir árið 1996.
Vitnið áréttaði aðspurt þá skoðun sína að uppboðsskráin hefði átt að vera hluti bókhaldsgagna og benti á það að ekki hafi veið unnt að fá nema slitróttar upplýsingar um uppboðin. Uppboðsskráin væri frumgagn upplýsinga um uppboðin og grundvöllur að tekjuskráningu og uppgjöri til opinberra aðila, t.d. greiðslu gjalds í starfslaunasjóð myndlistarmanna.
Vitnið áréttaði einnig að ekki væri nægilegt að nota yfirlit um gjaldeyriskaup sem bókhaldsgagn, enda kæmi ekki fram á þessum gjaldeyriskaupanótum annað en kaup gjaldeyris, sem unnt hefði verið að ráðstafa með hvaða hætti sem var. Það væri skylda að reikningur, sem sýndi hvað verið er að kaupa, fylgdi vegna færslu bókhalds á vörukaupum eða aðföngum.
Vitnið sagði nánar um athugasemdir sínar um kaup verka innanlands að þegar komið væri með mynd í umboðssölu yrði forsvarsmaður rekstrarins og sá sem bæri ábyrgð á innra eftirliti þar, að hafa kerfi sem gæti tryggt að ljóst væri hverjir hafi komið með myndir og gefa þyrfti einhvers konar móttökukvittun og halda skipulega utan um þennan þátt. Ella væru skuldbindingar fyrirtækisins óljósar. Markmið bókhaldslaga væri meðal annars að unnt væri að rekja viðskiptin og haga innra eftirliti þannig að það væri visst skipulag á þessum þáttum.
Vitnið sagði að bókarinn hafi sagt að ekki hafi verið unnt að færa bókhald og ársreikning á réttum tíma, þar sem ekki hafi verið fyrir hendi nægileg mikil og skýr bókhaldsgögn til að ljúka verkinu. Meðal annars hafi vantað reikninga inn í reikningaröðina. Bókarinn hafi einnig skýrt svo frá að hún hafi reynt að fá skýringar hjá ákærða, en það hafi gengið misjafnlega og því hafi hún ekki getað lokið gerð bókhaldsins.
Júlíana Gísladóttir viðskiptafræðingur, kom fyrir dóminn og staðfesti að hún hafi séð um að færa bókhald Gallerís Borgar, gerð ársreikninga og skattskýrslur félagsins sem verktaki frá haustinu 1996. Þá hafi hún byrjaði á því að færa bókhald rekstrarársins 1994 vegna skattframtals ársins 1995 og síðan hafi hún unnið bókhald rekstrarársins 1995 fyrir skattframtal ársins 1996. Er bókhaldið var tekið í nóvember 1997 hafi hún verið að vinna að skattframtali ársins 1997 vegna rekstrarársins 1996. Hún hafi þá átt eftir að færa tveggja mánaða tímabil. Hún staðfesti svarbréf sín til ríkislögreglustjóra og kvaðst hafa unnið greinargerðir sínar sem þar er lýst á grundvelli bókhaldsgagna fyrirtækisins sem þá hafði verið lagt hald á og var í vörslum ríkislögreglustjóra. Hún staðfesti einnig það sem fram kom í ofangreindri upplýsingaskýrslu 26. nóvember 1997 um kaup fyrirtækisins á listaverkum frá útlöndum. Áður en hald var lagt á bókhaldið hafi hún beðið ákærða og konu hans um að finna fleiri gögn, sem augljóslega vantaði í bókhaldið, og þá hafi komið í ljós fleiri bókhaldsgögn er lutu að rekstrarárinu 1996. Þessi gögn hafi ákærði afhent henni eftir að hald var lagt á bókhaldið.
Vitnið sagði að greiðslur til starfslaunasjóðs myndlistarmanna, sem ákærði segist hafa skilað til sjóðsins, hafi ekki verið færðar í bókhaldið, enda hafi þessi fylgiskjöl verið að berast. Hún kannaðist ekki við viðskipti fyrirtækisins við Listhússið Þing og sagðist ekki hafa séð nein gögn um þau viðskipti í bókhaldinu. Vitnið sagði að hún hafi ekki séð skráningargögn verka sem fóru á uppboð hjá fyrirtækinu, enda talið að fyrirtækið seldi þau í umboðssölu og því hafi þau ekki komið bókhaldinu við. Við sölu verkanna hafi hins vegar þurft að vera fyrir hendi viðeigandi bókhaldsgögn. Hún kvaðst geta staðfest það sem fram kæmi í áliti Árna Tómassonar um annmarka á bókhaldi félagsins.
Hún sagði að tafir við að ljúka bókhaldi fyrir rekstrarárið 1995 hafi verið af völdum ákærða, en ekki af sínum völdum. Staðfesti hún áritun sína 19. október 1998 á skattframtal félagsins árið 1997 fyrir rekstrarárið 1996. Hún kvaðst ekki hafa getað lokið við færslu bókhalds og gerð ársreiknings fyrir 1996 fyrr en þennan dag, þar sem hald hafi verið lagt á bókhaldið í nóvember 1997, en þá hafi hún, eins og fyrr er getið, átt eftir að færa tvo mánuði ársins og ekki verið búin að fá öll gögn í hendur frá félaginu. Hún hafi ekki fengið bókhaldið frá rannsóknaraðilum fyrr en á miðju síðasta ári.
Vitnið sagði að skömmu áður en hún lauk við skattframtalið fyrir rekstrarárið 1996 í október sl. hafi hún verið búin að fá í hendur flest fylgiskjalanna sem vantaði vegna uppboðs nr. 26 á árinu 1996.
Ragnar Björnsson viðskiptafræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti framangreinda greinargerð sína og önnur gögn í málinu er hana vörðuðu. Fram kom í vætti hans að ekki hafi verið unnt að rekja af þeim gögnum sem hann kannaði hvort málverk voru í beinni sölu eða umboðssölu. Hann kvaðst hafa unnið að könnun sinni á bókhaldinu í lok september á síðasta ári, en síðan hafi ríkislögreglustjóri falið honum að gera athugun sína um miðjan desember 1998. Við þá athugun hafi hann stuðst við bókhaldsgögn þau sem voru í vörslu lögreglu, en ekki haft samband við bókara félagsins. Þegar hann kom að þessari vinnu hafi ekki verið búið að gera bókhaldið upp fyrir árið 1996 og honum hafi verið tjáð að ástæða þess hafi verið sú að ekki hafi verið hægt að koma bókhaldinu saman þar sem gögn skorti.
Niðurstaða.
A)
1.Ákærði neitar sakargiftum að öðru leyti en því að hann viðurkennir að við sölu verkanna hafi hann ekki gert upp 10% söluandvirðis til starfslaunasjóðs myndlistarmanna svo sem skylt er. Í fyrri lið þessa kafla er ákærða gefið að sök að hafa ekki fært í bókhald fyrirtækisins vegna kaupa og móttöku á myndunum þremur, sem fjallað er um í I. kafla ákæru. Þessu hefur ákærði neitað og borið því við að ástæða þess að bókhald hafi ekki verið fært um kaup eða móttöku þessara þriggja listavera væri sú, að hann hafi „ekki flutt þau til landsins“. Myndirnar í 1. og 3. lið hafi hann sjálfur keypt í Kaupmannahöfn, en hann hafi ekki gögn um verkið í 2. lið, hann kynni sjálfur að hafa keypt það eða Jónas Freydal afhent félaginu það í umboðssölu. Verk er hann keypti í Danmörku hafi hann yfirleitt keypt í sínu nafni og á sinn reikning og því ekki fært þau kaup í bókhald fyrirtækisins.
Júlíana Gísladóttir viðskiptafræðingur, sem hóf að færa upp bókhald Gallerís Borgar fyrir rekstrarárin 1994-1996 haustið 1997, hefur staðfest í dóminum að engin fylgiskjöl hafi fundist í gögnum félagsins um kaupin á þessum þremur verkum. Sannað er samkvæmt framansögðu að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem hann er hér ákærður fyrir.
Fram kemur í áliti Árna Tómassonar löggilts endurskoðanda og viðskiptafræðings, að skortur hafi verið á skráningu þeirra mynda sem teknar voru í sölumeðferð hjá félaginu. Það sama kemur fram í bréfi Júlíönu Gísladóttur og athugun Ragnars Björnssonar viðskiptafræðings, sem þau hafa staðfest fyrir dómi. Ljóst er að hvergi er að finna í bókaldi félagsins skráningu eða gögn um kaup og móttöku þessara þriggja mynda. Þá er ljóst að ekki var hægt að greina almennt í bókhaldi félagsins hvaða myndir voru í umboðssölu og hvaða myndir voru í eigu gallerísins. Þykir með vísan til framangreinds fyllilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem hann er ákærður fyrir í þessum lið ákæru.
2.Eins og rakið var hér að framan fundust engin gögn í bókhaldi Gallerís Borgar um uppboðið 21. maí 1995. Þetta hefur ákærði viðurkennt, en sagt að þetta hafi farist fyrir. Vísast nánar í þessu efni til framburðar hans hér að framan. Bókarinn leiðrétti þetta í framtali sem skilað var 20. október 1998.
Með vísan til þess sem að framan greinir þykir fyllilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gerð að sök í þessum lið ákæru.
B)
1. Í fyrri lið þessa kafla er ákærða gefið að sök að hafa rekstrarárin 1994, 1995 og 1996 rekið sölu notaðra lausafjármuna án tilskilins leyfis. Vísar ákæruvaldið í þessu efni til 2. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 61/1979 um sölu notaðra lausafjármuna. Óumdeilt er að ákærði hefur almennt verslunarleyfi samkvæmt almennum lögum um verslunaratvinnu nr. 41/1968. Í 2. gr. laga 61/1979 kemur fram að leyfi samkvæmt 1. gr. laganna skuli veita til 5 ára í senn og aðeins þeim, sem uppfylla skilyrði laga nr. 41/1968 til að mega reka verslun á Íslandi, en auk þess er það skilyrði 2. gr. til leyfisveitingar að viðkomandi fullnægi að öðru leyti þeim skilyrðum sem í lögunum eru sett. Leyfi samkvæmt lögunum eru veitt af lögreglustjórum, sbr. 1. gr. laganna, og eru ýmis ákvæði í lögunum, er taka til þessarar sérstöku verslunar, sem ekki er fjallað um í lögum nr. 41/1968. Þannig má t.d. aðeins reka verslun samkvæmt lögunum í húsnæði eða starfsstöð, sem lögreglustjóri hefur samþykkt, enda fullnægi húsnæði eða starfsstöð ákvæðum reglugerða um öryggismál og húsnæði vinnustaða. Vísast hér einnig í það sem sagt er hér síðar í C kafla um umfjöllun í greinargerð með lögunum.
Ljóst er að lög þessi eru sérlög, sem gilda um þessa tilteknu starfsemi, sem sérstakt leyfi þarf til að reka samkvæmt 2. gr. laga nr. 61/1979. Nægði ákærða því ekki að hafa almennt verslunarleyfi til rekstrar starfsemis Gallerís Borgar, heldur þurfti hann einnig að afla sér þessa sérstaka leyfis samkvæmt 2. gr. Breytir hér engu þótt fyrrum eigandi gallerísins hafi ekki talið að afla þyrfti þessa leyfis til starfseminnar. Ákærði hefur viðurkennt að hann hafi ekki haft leyfi samkvæmt 2. gr. síðargreindra laga. Þykir því sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er hér gefið að sök og varðar hún við 2. gr. laga nr. 61/1979. Brot gegn lögunum varða sektum eftir viðurlagaákvæði 9. gr. þeirra. Sektarrefsing fyrnist á 2 árum samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga, sbr. nú 1. gr. laga nr. 63/1998. Er sök ákærða því fyrnd og verður hann því sýknaður af broti gegn 2. gr. laga nr. 61/1979.
2. Þá er ákærða hér einnig gefið að sök að láta undir höfuð leggjast við móttöku og sölu notaðra lausafjármuna að halda skipulagða skrá þeirra listmuna, sem bárust Gallerí Borg rekstrarárin 1994-1996 og færa uppgjör í samræmi við það. Í þessu efni virðist ákæruvald vísa til 3. ml. 5. gr. fyrrgreindra laga nr. 61/1979. Ákærði hefur í raun viðurkennt skýlaust við rannsókn málsins og meðferð þess að engin skipuleg skráning hafi verið haldin hjá Gallerí Borg rekstrarárin 1994 til 1996 og er það í samræmi við vætti Júlíönu Gísladóttur, sem sá um bókhald fálagsins þessi rekstrarár. Þetta kemur einnig fram í greinargerð Árna Tómassonar, sem rakin er hér að faman og vætti hans. Í 6. gr. laganna segir að ráðherra sé heimilt með reglugerð að skrá skuli haldin um allan varning sem veitt er viðtaka til endursölu, hvort sem hann er keyptur eða tekinn til umboðssölu. Í ákæru er ekki vísað til reglugerðar þessa efnis og svo virðist sem hún hafi ekki verið sett. Verður hann þegar af þessari ástæðu sýknaður af þeirri háttsemi að hann hafi ekki haldið slíka skrá.
Í ákæru kemur hvorki fram við hvað er átt með færslu uppgjörs né tiltekið með skýrum hætti hvert brotið sé sem þessi háttsemi fellur undir. Nægir ekki eins og hér stendur á að vísa heildstætt til 36. gr., sbr. 1. og 2. tl 1. mgr. 37. gr. núgildandi bókhaldslaga, en þar er fjallað um færslu bókhalds í 1. tl. og varðveislu fylgiskjala í 2. tl. Var þessi ákæruháttur til þess fallinn að vörn ákærða var áfátt. Ber því að vísa þessum þætti ákæru frá dómi.
C)
1. Ákærði hefur borið í og úr um það hvort hann hafi skráð á skráningarblöð upplýsingar um kaup listmuna sem keyptir voru erlendis. Ýmist sagði hann að þetta hafi ekki verið gert vegna tímaskorts, þar sem hann hafi oft ekki komið heim fyrr en fáum dögum fyrir uppboð eða hann hélt því fram að listmunina hafi hann keypt persónulega. Einnig er eftir honum haft að ekki hafi þótt ástæða til slíkrar skráningar þar sem flestar myndanna sem hann kom með frá Danmörku hafi verið eign gallerísins. Í fyrri lið þessa kafla ákæru er ákærða gert að sök að hafa, á rekstrarárunum 1995-1996, látið undir höfuð leggjast að skrá viðskipti fyrirtækisins þegar listmunir vour keyptir erlendis. Virðist ákæruvaldið vísa í niðurlagi ákæru í þessu efni til 3. ml. 5. gr laga nr. 61/1979.
Fram kom við könnun ríkislögreglustjóra og Jens Þórs Svanssonar, yfirviðskiptafræðings skattrannsóknarstjóra ríkisins, á keyptum verkum frá öðrum löndum að átta færslur voru færðar árið 1996 í bókhald vegna verka sem sögð voru keypt erlendis. Þessi kaup voru ekki skráð eða verðmerkt.
Í 1. ml. 5. gr. laga 61/1979 um sölu notaðra lausafjármuna segir að þegar varningi er veitt móttaka til sölu skuli hann skráður og verðmerktur. Lög þessi taka eftir 1. gr. laganna til þeirra sem reka verslun eða umboðssölu með notaða eða gamla lausafjármuni. Í greinargerð með frumvarpi til laganna er rakið að verslun og umboðssala með notaða gamla hluti hafi færst mjög í vöxt, svo sem sala notaðra bifreiða, bóka, innanstokksmuna eða annars. Verslun af þessu tagi sé sérstaks eðlis og byggi í aðalatriðum á því að endurselja ýmiss konar lausafjámuni, sem áður hafi verið í einkaeign. Af þeim sökum verði sölumaður að treysta eignarheimild þess sem hlutinn afhendir til sölu. Sá sem kaupi notaðan hlut verði að treysta því að sú heimild hafi verið fyrir hendi, að hann hafi með lögmætum hætti eignast notaðan hlut.
Með því að láta undir höfuð leggjast að skrá þessi viðskipti félagsins hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 3. ml. 5. gr. laga nr. 61/1979. Hins vegar er sök ákærða fyrnd, sbr. það sem áður segir í 1. lið B kafla hér að framan og verður hann því sýknaður af broti gegn þessu lagaákvæði.
2. Eins og lýst hefur verið hér að framan hefur ákærði viðurkennt að reikninga hafi vantað í bókhald félagsins rekstrarárið 1996. Hann kvaðst ekki gera athugsemdir við þann framburð Júlíönu Gísladóttur að í október 1997, þegar hald var lagt á bókhaldið, hafi færslu þess ekki verið lokið fyrir rekstrarárið 1996, þar sem fylgiskjöl hafi vantað frá félaginu. Fram er komið að skattframtal vegna rekstrarársins 1996 var skilað 19. október 1998. Bókarinn benti meðal annars á það að hún hafi ekki getað lokið við skil framtalsins fyrr þar sem hald hafði verið lagt á bókhaldið.
Eins og rakið var í 1. lið hér að framan voru átta færslur færðar í bókhlad félagsins á verkum keyptum erlendis rekstrarárið 1996. Fylgiskjölin á bak við færslurnar voru sagðar yfirfærslu- og kaupanótur vegna erlends gjaldeyris. Þetta hefur bókari félagsins staðfest og tekið undir að ekki hafi verið hægt að að átta sig á fjölda málverka sem keypt voru, seljanda þeirra eða verði og ekki unnt að staðreyna af þessum fylgiskjölum að um raunveruleg kaup hafi verið að ræða. Enginn möguleiki hafi verið að sjá út úr bókhaldinu hversu mörg verk voru keypt, verð þeirra eða seljanda. Minntist bókarinn ekki að reikningur hafi nokkru sinni fylgt gjaldeyriskaupunum á þessu ári. Hér að framan var því lýst að reikninga hafi vantað inn í númeraröð á árinu 1996 og hefur ákærði viðurkennt þetta. Þykir fyllilega sannað þegar litið er til ganga málins og þess sem rakið hefur verið hér að framan að ákærði hefur gerst sekur um vanrækslu á því að halda til haga tekjuskráningargögnum rekstrarárið 1996 og færa bókhlad það ár á tilskildum tíma.
D)
Á þeim tíma er brot ákærða voru framin voru í gildi lög um bókhald nr. 51/1968, með áorðnum breytingum. Lög nr. 145/1994, sem tóku gildi 1. janúar 1995, leystu þau af hólmi. Ekki er ágreiningur í málinu um það að fyrirtækið Gallerí Borg er bókhaldsskylt samkvæmt ákvæðum beggja laganna, enda kemur sú skylda bæði fram í 1. gr. eldri laga um bókhald og 2. gr., sbr. 1. gr. þeirra yngri. Í ákæru er einvörðungu vísað til yngri laganna að því er varðar ætluð bókhaldsbrot ákærða, en ekki vikið að þeim eldri, svo sem rétt hefði verið.
Í I. kafla laga nr. 51/1968 eru almenn ákvæði um bókhaldsskyldu. Kemur þar meðal annars fram í 4. gr. að bókhaldsskyldir aðilar skuli haga bókhaldi sínu í samræmi við reglur laganna og góða bókhalds- og reiknigsskilavenju. Í 2. mgr. 5. gr. segir að bókhaldinu skuli hagað svo að rekja megi viðskiptin og notkun fjármunanna, og 1. mgr. sömu greinar fjallar um það grundvallaratriði bókhalds að það skuli veita svo sundurliðaðar upplýsingar um rekstur og efnahag eins og þarfir eiganda, lánardrottna og hins opinbera krefjast. Í 10. gr. eru ákvæði um skyldu til að skrá viðskipti jafnskjótt og þau fara fram, enda sé það í samræmi við góða bókhaldsvenju. Þá er í 16. gr. laganna fjallað um skyldu til vörslu ýmissa bókhaldsgagna. Með núgildandi bókhaldslögunum var skipan og uppbyggingu fyrirmæla laganna gjörbreytt. Ákvæði 1. og 2. tl. 37. gr. núgildandi bókhaldslaga nr. 145/ 1994 hafa þó að geyma sömu efnisreglur og og sömu meginreglur og fram koma í ofangreindum ákvæðum eldri bókhaldslaga. Í báðum lögunum er því fyrir hendi skýlaus skylda til færslu bókhalds, varðveislu tekjuskráningargagna og færslu þeirra gagna til þess að unnt sé meðal annars að rekja færslur og bókhaldsgögn til viðskipta og byggja bókhald á þeim gögnum. Vanræksla á þessum skyldum er refsiverð bæði eftir bókhaldslögum nr. 51/1968, með áorðnum breytingum, og núgildandi bókhaldslögum. Þykja ákvæði 2. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt þessu ekki standa því í vegi að ákærða verði dæmd refsing eftir bókhaldslögum nr. 145/1994, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, fyrir þau brot sem hann hefur framið fyrir gildistöku laganna, sem síðar verður vikið að.
Fallast má á það með verjanda ákærða að vísa hefði átt einnig til eldri bókhaldslaga, að því er þau brot ákærða varðar sem framin voru í gildistíð eldri laga og einstakra lagagreina, sem brot ákærða eru talin varða við. Þá er í niðurlagi ákæru vísað til refsiákvæða um háttsemi sem lýst er í A, B og C kafla, án þess að tilgreina nánar hvaða ákvæði eiga við í hverju tilviki. Er þessi háttur til verulegs óhagræðis. Ekki þykja þó alveg nægileg efni til að vísa frá þessum þætti ákærunnar, þegar litið til þess að ofangreind ákvæði fjalla um meginreglur bókhaldslaga og svo og að öðru leyti til þess sem að framan greinir, enda var vörn ákærða ekki áfátt að þessu leyti.
Brot ákærða, sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í A kafla hér að framan þykja varða við 10. gr. þágildandi bókhaldslaga nr. 51/1968, sbr. nú 1. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. nr. 145/1994 um bókhald. Þótt dæma skuli ákærða refsingu eftir síðargreindum lögum verður honum ekki dæmd þyngri refsing en heimilt var samkvæmt þeim lögum, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæði laga nr. 61/1979 eiga hér ekki við eins og málavaxtalýsingu er háttað.
Háttsemi ákærða, sem lýst er í B kafla telst ekki varða við tilgreind ákvæði bókhaldslaga í ákæru, eins og henni er þar lýst. Ákærði er því alfarið sýknaður af þeirri háttsemi, sem honum er að sök gefin í þessum kafla ákæru.
Sú háttsemi ákærða, sem lýst er í C kafla, að halda ekki til haga tekjuskráningargögnum árið 1996 varðar við 2. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, og sú háttsemi hans að láta undir höfuð leggjast að færa bókhald rekstrarárið 1996 varðar við 1. tl 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laganna, enda bar ákærða samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laganna að fullgera ársreikning eigi síðar en í lok júní 1997. Hald var lagt á bókhaldið í nóvember 1997. Sú viðbára ákærða að ekki hafi tekist að ljúka þessu verki þar sem lögregla hafi lagt hald á bókhaldið stenst því ekki.
Brot ákærða í A og C kafla, sem hann hefur hér verið sakfelldur fyrir varða einnig við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og henni var breytt með lögum nr. 39/1995. Síðastgreind lög öðluðust gildi 1. júlí 1995, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 136/1997. Brot ákærða í A kafla voru framin fyrir gildistöku laganna og verður því litið til þess við ákvörðun refsingar, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.
Viðurlög.
Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að brot sín í I. kafla framdi hann í ávinningsskyni og með þeim vanvirti hann minningu látins listamanns og list hans, svo og þess að brot hans í II. kafla gegn ákvæðum laga um bókhald og almennra hegningarlaga eru stórfelld. Engar refsilækkunarástæður þykja vera fyrir hendi í málinu, en litið verður til þess að ákærði hefur ekki fyrr gerst sekur um refsiverða háttsemi, sem hér skiptir máli. Þykir refsing hans með vísan til framangreinds og 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.
Skaðabætur.
Gunnar Snorri Gunnarsson hefur lagt fram skaðabótakröfu í málinu, eins og getið er í ákæru. Krefst hann þess að ákærði greiði honum mismun á verði myndarinnar, 396.000 krónur, og verðinu sem ákærði greiddi fyrir hana í Danmörku, 2.600 danskar krónur, samtals 370.000 krónur. Krafan er studd gögnum, sem fram koma í málinu og verður hún tekin til greina og ákærði dæmdur til að greiða kröfuhafanum þessa fjárhæð. Ekki er gerð krafa um vexti og verður hún því ekki dæmd.
Sakarkostnaður.
Ákærði er dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 800.000 krónur, og málsvarnarlaun verjanda síns við rannsókn og meðferð málsins, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 1.200.000 krónur.
Dómsuppsaga í málinu hefur tafist vegna umfangs þess og veikinda dómsformanns.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Pétur Þór Gunnarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði Gunnari Snorra Gunnarssyni, kt. 130753-2809, 370.000 krónur.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 800.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns við rannsókn og meðferð málsins, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 1.200.000 krónur.