Hæstiréttur íslands
Mál nr. 152/2001
Lykilorð
- Landbúnaður
- Ábúð
- Úttekt
- Framlagning skjals
|
|
Fimmtudaginn 17. janúar 2002. |
|
Nr. 152/2001. |
Stefán Gunnarsson (Hörður Felix Harðarson hrl.) gegn Mýrdalshreppi (Karl Axelsson hrl.) |
Landbúnaður. Ábúð. Úttekt. Framlagning skjala.
S fékk jörðina ED til lífstíðarábúðar frá fardögum 1980. Var húsakostur jarðarinnar og ræktun þá miðuð við almennan hefðbundinn búskap en S breytti húsum og efndi til nýframkvæmda á jörðinni svo hún hentaði til framleiðslu lífrænt ræktaðra gulróta, skv. sérstökum lögum þar um. S leitaði eftir því að fá ábýlisjörð sína keypta en þar sem hann vildi ekki fallast á að nokkur hluti jarðarinnar yrði undanskilinn kaupunum sagði hann upp ábúðarrétti sínum frá fardögum 1999. Í kjölfarið var gerð úttekt á jörðinni og síðar yfirúttekt. Yfirúttektargerð kvað á um að M skyldi leysa til sín allar metnar framkvæmdir á jörðinni að frátalinni borholu með brotnum bor. Þessu hafnaði M og með kaupsamningi aðila í júní 2000 seldi S tilteknar eignir til M. S taldi M skylt að innleysa umbætur á jörðinni í samræmi við yfirúttektargerðina og sótti M um þann mismun sem var á yfirúttektargerð og kaupverði samkvæmt kaupsamningi. Fyrir lá að S hafði gerbreytt nýtingu jarðarinnar á ábúðartímanum. Hann hafði ekki leitað eftir samþykki M fyrir framkvæmdunum né sótt um byggingarleyfi fyrir þeim, líkt og áskilið er í 3. mgr. 12. gr. ábúðarlaga. Var því ekki fallist á að M þyrfti að leysa til sín umdeildar framkvæmdir. Þótti þó rétt að gera undantekningu að því er varðaði kaldavatnsborholu ásamt dælubúnaði og leiðslum og dæma M til að leysa þær umbætur til sín, enda sæju þær þeim húsum fyrir vatni sem M hefði þegar leyst til sín og ekki hafði verið sýnt fram á annað en þær væru nauðsynlegar til áframhaldandi búrekstrar. Var M því dæmdur til að greiða S verðgildi borholunnar miðað við yfirúttektargerð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 30. apríl 2001. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 9.981.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 3.327.000 krónum frá 14. október 1999 til 1. mars 2000, af 6.654.000 krónum frá þeim degi til 13. júlí 2000 og af 9.981.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags gegn útgáfu afsals til stefnda fyrir mannvirkjum, öðrum framkvæmdum og umbótum á Eystri- og Vestri-Dyrhólum í Mýrdalshreppi, Vestur-Skaftafellssýslu. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til útgáfu skuldabréfs að fjárhæð 9.981.000 krónur, sem greiða skuli með jöfnum afborgunum á sex árum. Skuldin beri 3% ársvexti frá 14. október 1999 og sé verðtryggð með sama hætti og lán Lánasjóðs landbúnaðarins, gegn útgáfu afsals til stefnda fyrir mannvirkjum, öðrum framkvæmdum og umbótum á Eystri- og Vestri-Dyrhólum í Mýrdalshreppi, Vestur-Skaftafellssýslu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara sýknu að svo stöddu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi lagði fyrir Hæstarétt með greinargerð sinni 13. júní 2001 vottorð Veðurstofu Íslands og vottorð Hollustuverndar ríkisins um vatnsrannsóknir. Með bréfi 14. ágúst sama ár óskaði hann eftir framlagningu þriggja skjala og boðaði þess utan öflun matsgerðar. Þá óskaði hann 1. nóvember 2001 framlagningar matsgerðar Hjalta Sigmundssonar byggingatæknifræðings og húsameistara frá október 2001 ásamt fylgiskjölum um beygju- og brotþol á sökkulplönkum og jarðfestum í gróðurhúsum á Eystri- og Vestri-Dyrhólum, svo og líklegan endingartíma viðar í þessum undirstöðum. Af hálfu stefnda var þessari síðari framlagningu mótmælt 17. ágúst 2001 með vísan til 1. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 15. gr. laga nr. 38/1994. Matsgerðinni er auk þess mótmælt sem óstaðfestri. Hins vegar er matsgerð þessi í verulegu samræmi við álit yfirúttektarnefndar, sem lá fyrir héraðsdómi, og vísar stefndi auk þess til efnis hennar um það að flytja megi af jörðinni gróðurhúsin, sem um getur í málinu.
Áfrýjanda bar að huga að framlagningu matsgerðar strax eftir að áfrýjun málsins var ráðin vildi hann koma henni að fyrir Hæstarétti og hafði ekki til þess nema mánaðartíma frá framlagningu greinargerða, sbr. 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 14. gr. laga 38/1994. Fallast ber því á það með stefnda að í málinu séu ekki skilyrði til þess að hin nýju gögn fái komist að.
I.
Málsatvik eru rakin í héraðsdómi. Þar kemur fram að áfrýjandi fékk jörðina Eystri-Dyrhóla í Mýrdalshreppi til lífstíðarábúðar frá fardögum 1980. Jafnframt hafði hann nytjarétt af tilteknum jarðarhlutum Vestri-Dyrhóla. Byggingarbréf var undirritað 1. febrúar 1983. Samkvæmt því skyldi afgjald fyrir jörðina vera 15.300 krónur fardagaárið 1983-84 og breytast að krónutölu samkvæmt ákvæðum 33. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976. Ræktun og girðingar á jörðunum voru í upphafi ábúðar í eigu stefnda svo og vatnsveita með nágrannajörðum. Áfrýjandi keypti með afsali 25. janúar 1981 fjós, haughús og hlöðu af fyrri ábúanda. Var húsakostur jarðarinnar og ræktun þegar áfrýjandi fékk hana til ábúðar miðuð við almennan hefðbundinn búskap. Hann breytti hins vegar húsum og efndi til nýframkvæmda á jörðinni svo að hún hentaði til framleiðslu þeirrar sem hann stundaði, en hann framleiddi lífrænt ræktaðar gulrætur samkvæmt sérstökum lögum þar um. Er ekki um það deilt að hann hafi náð góðum árangri við þessa sértæku framleiðslu og haft mikinn afrakstur af jörðinni.
Áfrýjandi leitaði eftir því að fá ábýlisjörð sína keypta en þar sem hann vildi ekki fallast á að nokkur hluti jarðarinnar yrði undanskilinn kaupunum sagði hann upp ábúðarrétti sínum. Kom uppsögnin til framkvæmda á fardögum 1999. Í framhaldi af þessu var gerð úttekt á jörðinni 1. júlí 1999 og mátu úttektarmenn öll mannvirki og umbætur í eigu áfrýjanda á Dyrhólum samtals á 25.265.739 krónur. Aðilar sættu sig ekki við niðurstöðu úttektarmanna og fór því fram yfirúttekt á jörðinni 18. ágúst til 14. október 1999. Mátu yfirúttektarmenn að heildarverðmæti eigna áfrýjanda á jörðinni næmi 26.867.000 krónum. Afgjaldið hjá nýjum ábúanda átti þá að vera 80.000 krónur á mánuði og töldu úttektarmenn að það væri ekki óhæfilegt gjald miðað við þann arð sem hafa mætti af jörðinni. Stefndi átti að leysa til sín allar metnar framkvæmdir að frátalinni borholu með brotnum bor. Þessu hafnaði stefndi á fundi sínum 24. janúar 2000 og með kaupsamningi aðila 19. júní sama ár seldi áfrýjandi stefnda eftirfarandi eignir og framkvæmdir, sbr. 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga: Endurbætur á íbúðarhúsi fyrir 1.420.000 krónur, garðávaxtageymslu með kælikerfi og vörulyftu fyrir 3.766.000 krónur, pökkunarhús með kaffistofu fyrir 6.800.000 krónur, véla- og verkfærageymslu fyrir 4.400.000 krónur, rotþró fyrir 350.000 krónur og veg að borholu fyrir 150.000 krónur. Samtals nam kaupverðið því 16.886.000 krónum og fór að matsverði yfirúttektarnefndar.
Í samningnum kemur fram að stefndi telur sér óskylt að kaupa aðrar eignir af áfrýjanda. Er þar samkvæmt yfirúttekt um að ræða gróðurhús við íbúðarhús og við borholu á 8.300.000 krónur, úðunarkerfi í gróðurhúsum á 600.000 krónur, gróðurramma á 75.000 krónur, kaldavatnsborholu og dælubúnað á 380.000 krónur, kaldavatnslagnir á 260.000 krónur, rafstöð á 366.000 krónur og braut að borholu á 150.000 krónur eða samtals eignir fyrir 9.981.000 krónur. Í máli þessu sækir áfrýjandi stefnda um þessa fjárhæð og telur hann eiga að innleysa þessar umbætur á jörðinni í samræmi við yfirúttektargerðina. Stefndi heldur því aftur á móti fram að áfrýjandi hafi ráðist í þessar framkvæmdir án þess að afla samþykkis hans, svo sem krafist sé samkvæmt III. kafla ábúðarlaga. Auk þessa telur hann að skilyrði 16. gr. laganna um kaupskyldu landsdrottins séu ekki uppfyllt.
II.
Yfirúttektarnefnd hefur tekið afstöðu til kaupskyldu stefnda að því er varðar umdeildar eignir í ljósi 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga og gert tölulega grein fyrir mati sínu. Tilvitnuð málsgrein hljóðar svo: „Nú á fráfarandi leiguliði hús, hlut í húsum eða umbætur á jörð, og er það til frambúðar haganlega fyrirkomið og nauðsynlegt til búrekstrar á jörðinni, að dómi úttektarmanna, og skal þá landsdrottni skylt að kaupa þær eignir fráfaranda því verði, er úttektarmenn meta, enda séu þá hús jarðarinnar og önnur mannvirki ekki meiri og dýrari en svo, að jörðina megi leigja fyrir hæfilegt afgjald, að mati úttektarmanna. Séu hús ekki nauðsynleg vegna almenns búrekstrar, skal taka tillit til þess við mat þeirra og þau metin lægra verði en hin nauðsynlegu jarðarhús. Landsdrottni er einnig skylt að kaupa ræktun, sem fráfarandi hefur látið gera“.
Yfirúttektarnefndin, sem fór á vettvang og skoðaði umbætur áfrýjanda á jörðinni, féllst á að þær væru nauðsynlegar fyrir þann búrekstur sem hann stundaði og væri haganlega fyrirkomið til frambúðar, þar á meðal að umdeild gróðurhús gætu staðist án mikils viðhalds í að minnsta kosti 15 ár og væru rammlega niðurfest. Þá gerði nefndin ráð fyrir því að leigja mætti jörðina fyrir hæfilegt afgjald yrði sami búskapur stundaður á jörðinni. Hefur þessi niðurstaða nefndarinnar ekki verið hrakin. Hins vegar lækkaði hún metið endurgjald umbótanna í samræmi við 2. málslið 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga, þar sem hún taldi þær í fyrsta lagi ekki bráðnauðsynlegar til grænmetisræktunar og í öðru lagi vegna þess að fyrir lægi að öll uppbygging áfrýjanda hefði farið fram án samráðs við stefnda. Við þessa niðurstöðu nefndarinnar er það að athuga að af gögnum málsins er ljóst að umbætur þær sem hér er fjallað um eru nauðsynlegar svo að fá megi þann afrakstur af jörðinni sem áfrýjandi hafði. Þá gerir 2. málsliður 1. mgr. 16. gr. ekki ráð fyrir því að verð umbóta sé lækkað séu þær ekki gerðar í samráði við landsdrottin, sbr. það er síðar segir um afleiðingar þessa.
Í 3. mgr. 16. gr. ábúðarlaga segir að þau hús sem ekki séu nauðsynleg til búrekstrar og unnt sé að flytja þurfi jarðeigandi ekki að kaupa. Það var mat yfirúttektarnefndar að gróðurhúsin og það sem þeim fylgi væri unnt að flytja, en það væri mikil vinna og vegna umbúnaðar húsanna væri hætta á einhverjum skemmdum við upptöku og flutning þeirra. Við þetta er þó það að athuga að kaldavatnsborhola verður ekki fjarlægð en henni fylgir dælubúnaður. Vatnslagnir eru frá borholunni að íbúðarhúsi og útihúsum, en stefndi hefur þegar leyst þau til sín. Fyrir liggur að vatnsból það er fylgdi jörðinni hafði verið metið ónothæft af Hollustuvernd ríkisins þegar áfrýjandi réðst í að láta bora þar fyrir vatni og samkvæmt vottorði sömu stofnunar, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt, er frágangur núverandi vatnsbóls góður og vatnið nothæft. Rafstöð, sem yfirúttektarnefnd metur tengda gróðurhúsunum, verður hins vegar flutt á brott sé hennar ekki not við áframhaldandi gróðurhúsaræktun þar sem hennar er aðeins þörf til vara vegna þeirra húsa sem stefndi hefur leyst til sín.
III.
Fyrir liggur að áfrýjandi leitaði ekki eftir samþykki stefnda fyrir framkvæmdum sem hann stóð fyrir á ábúðartímanum. Af byggingarbréfinu og því afgjaldi sem þar er ákveðið verður ekki ráðið að jörðin hafi verið leigð til sérhæfðs búskapar sem þess er áfrýjandi stundaði. Áfrýjandi heldur því hins vegar fram að forsvarsmönnum stefnda hafi frá upphafi verið ljóst að hann hefði í hyggju að nýta jörðina og jarðarhúsin til grænmetisræktunar. Því er þó ómótmælt að hann sótti ekki um byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum og voru mannvirki þessi ekki tekin út og metin fasteignamati.
Í 3. mgr. 12. gr. ábúðarlaga er mælt fyrir um hvernig fara eigi með vilji leiguliði auka húsakost ábúðarjarðar sinnar teljist þess þörf að mati viðkomandi héraðsráðunautar og byggingafulltrúa en landsdrottinn vill ekki kosta auknar byggingaframkvæmdir. Leiguliða er þá heimilt að byggja, eftir að hafa sannanlega tilkynnt landsdrottni, enda sé gerð bygginga og fyrirkomulag samþykkt af byggingafulltrúa viðkomandi héraðs og jarðanefnd. Ekki liggur fyrir hvaða afstöðu stefndi hefði tekið til umdeildra framkvæmda hefði verið eftir henni leitað, en ljóst er að gerð umdeildra bygginga og fyrirkomulag var ekki samþykkt af byggingafulltrúa eða jarðanefnd.
Áfrýjandi gerbreytti nýtingu jarðarinnar frá því sem verið hafði áður en hún var byggð honum til lífstíðar. Breytingar þessar voru meiriháttar og ljóslega miðaðar við áframhaldandi rekstur hans sjálfs. Verður ekki fallist á að stefndi þurfi að leysa til sín slíkar framkvæmdir og hér um ræðir, eins og þeim var háttað, nema farið sé eftir ákvæðum ábúðarlaga um sannanlega fyrirfram kynningu til landsdrottins og samþykki hlutaðeigandi yfirvalda. Frá þessu er þó rétt gera undantekningu að því er varðar kaldavatnsborholu ásamt dælubúnaði og leiðslum og dæma stefnda til að leysa þær umbætur til sín, enda sjá þær þeim húsum fyrir vatni sem stefndi hefur þegar leyst til sín, og stefndi hefur ekki sýnt fram á annað en að þær séu nauðsynlegar til áframhaldandi búrekstrar hvernig sem honum yrði háttað. Verðgildi þessa búnaðar má miða við yfirúttektargerð, eða samtals 640.000 krónur, en fyrir liggur að yfirúttektarnefndin lækkaði endurgjald fyrir þessar umbætur eitthvað og verðgildið hefur ekki sætt sérstökum mótmælum stefnda. Skuldin skal með hliðsjón af 2. mgr. 16. gr. ábúðarlaga bera dráttarvexti frá 14. júlí 2000 til greiðsludags, eins og nánar greinir í dómsorði.
Samkvæmt framangreindri niðurstöðu er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af áfrýjun máls þessa.
Dómsorð:
Stefndi, Mýrdalshreppur, skal greiða áfrýjanda, Stefáni Gunnarssyni, 640.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. júlí 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2001.
I
Mál þetta sem dómtekið var þann 28. febrúar sl. að loknum munnlegum málflutningi var höfðað með stefnu birtri 27. júní sl. af Stefáni Gunnarssyni, kt. 031248-3109, Hafrafellstungu I, Öxarfjarðarhreppi, Norður-Þingeyjarsýslu, á hendur Mýrdalshreppi, kt. 461283-0399, Mýrarbraut 13, Vík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda krónur 9.981.000 með dráttarvöxtum samkvæmt 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af krónum 3.327.000 frá 14. október 1999 til l. mars 2000 og af krónum 6.654.000 frá þeim degi til 13. júlí 2000 og af krónum 9.981.000 frá þeim degi til greiðsludags, gegn útgáfu afsals til stefnda fyrir mannvirkjum, öðrum framkvæmdum og umbótum á Eystri- og Vestri-Dyrhólum í Mýrdalshreppi, Vestur-Skaftafellssýslu.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að gefa út skuldabréf til stefnanda að fjárhæð krónur 9.981.000 sem greiða skuli með jöfnum afborgunum á sex árum, ein afborgun á ári, í fyrsta sinn 14. október 2000. Skuldin beri 3% ársvexti frá 14. október 1999 að telja og sé verðtryggð með sama hætti og lán Lánasjóðs landbúnaðarins, gegn útgáfu afsals til stefnda fyrir mannvirkjum, öðrum framkvæmdum og umbótum á Eystri- og Vestri- Dyrhólum í Mýrdalshreppi, Vestur-Skaftafellssýslu.
Í báðum tilvikum gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að meðtöldum áhrifum 24,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður að svo stöddu af kröfum stefnanda.
Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
II
Málavextir eru þeir að stefnandi fékk byggða jörðina Eystri-Dyrhóla í Mýrdalshreppi til lífstíðarábúðar frá fardögum 1980. Í byggingarbréfi um jörðina dagsettu 1. febrúar 1983 er tekið fram að jörðin, ásamt íbúðarhúsi, jarðarhúsum, ræktun og girðingum og vatnslögn sé byggð ábúanda, en jafnframt hafi hann nytjarétt á tilteknum jarðarhlutum Vestri-Dyrhóla. Ræktun og girðingar á jörðunum voru við upphaf ábúðar í eigu Mýrdalshrepps, áður Dyrhólahrepps, samkvæmt sérstöku afsali þar um, svo og vatnsveita, sem er samveita með nágrannajörðum.
Stefnandi stundaði frá upphafi ábúðar framleiðslu grænmetis á Dyrhólum, en tók þó við sérhæfðum byggingum til mjólkurframleiðslu sem hann keypti af fyrri ábúanda með afsali dagsettu 25. janúar 1981, gagngert í því skyni að breyta þeim til nota við framleiðslu, geymslu og pökkun á grænmeti. Þær eignir sem hér um ræðir, voru fjós, haughús og hlaða, byggð á árunum 1978 og 1980.
Stefnandi breytti húsum þessum þannig að þau gætu hentað framleiðslu þeirri og búgrein, sem hann stundaði á Dyrhólum. Haughúsi breytti hann í garðávaxtageymslu, fjósi í pökkunaraðstöðu og aðstöðu fyrir starfsfólk. Hlöðu, sem nú er skráð vélageymsla, var breytt og hún nýtt sem þvottaaðstaða og að hluta fyrir pökkun á grænmeti.
Stefnandi stundaði framleiðslu á gulrótum á landi Dyrhóla, sem voru lífrænt vottaðar vegna þeirrar aðstöðu sem stefnandi byggði upp á jörðunum og framleiðsluhátta sem fylgt var samkvæmt sérstökum lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu.
Fyrir nokkrum árum leitaði stefnandi eftir því að fá ábýli sitt keypt og fóru fram samninga umleitanir milli aðila án þess að þeir næðu saman. Með bréfi til stefnda dags. 8. apríl 1998, sagði stefnandi upp ábúðarrétti sínum á Dyrhólum miðað við fardaga ársins 1999 þar sem hann taldi sér ekki fært að halda áfram búrekstri án eignarhalds ábýlisins. Í bréfi sínu 25. júní 1998 lýsti stefnandi því yfir að hann væri þó reiðubúinn til að draga uppsögn sína til baka, fengi hann viðunandi lausn og afgreiðslu á beiðni um kaup Dyrhóla. Af því varð ekki og kom uppsögn stefnanda á ábúðinni því til framkvæmda á fardögum árið 1999.
Í framhaldi af þessu framkvæmdu úttektarmenn Mýrdalshrepps, þeir Steingrímur Lárusson hreppstjóri og Benedikt Lárusson, húsasmíðameistari, úttekt á Dyrhólum. Skoðun jarða fór fram að viðstöddum aðilum og fulltrúum þeirra 10. júní 1999. Er úttektargerð þeirra dagsett 1. júlí 1999. Úttektarmenn Mýrdalshrepps mátu til peningaverðs öll mannvirki og umbætur í eigu stefnanda á Dyrhólum, samtals á krónur 25.265.739. Með bréfi 9. júlí 1999 óskaði lögmaður stefnanda eftir yfirmati á hluta framkvæmda stefnanda, þar sem hann taldi matsverðið hvað þær eignir varðaði óeðlilega lágt og óraunhæft.
Með bréfi 13. júlí 1999 mótmælti stefndi gildi og þýðingu matsgerðarinnar og krafðist þess aðallega að ný úttekt færi fram en til vara að fram færi yfirmat. Stefnandi mótmælti því að nýtt undirmat færi fram.
Þann 18. ágúst 1999 voru kröfur aðila teknar fyrir hjá yfirúttektarnefnd Vestur- Skaftafellssýslu og var það niðurstaða yfirúttektarnefndar að hafna bæri aðalkröfu stefnda og að yfirúttekt skyldi fara fram. Í yfirúttektarnefnd Vestur-Skaftafellssýslu við mat á framkvæmdum á Dyrhólum, áttu sæti Sigurður Gunnarsson, sýslumaður sem var formaður nefndarinnar, Bjarni Jón Matthíasson, byggingameistari, Kirkjubæjarklaustri og Kristján Bj. Jónsson, héraðsráðunautur, Selfossi. Yfirúttektarnefndin hélt matsfund með aðilum hinn 18. ágúst 1999 og efndi þá einnig til vettvangsgöngu til að skoða mannvirki og aðrar framkvæmdir á Dyrhólum.
Við meðferð matsmálsins hjá yfirúttektarnefnd Vestur-Skaftafellssýslu kom í ljós ágreiningur með aðilum, jarðeiganda og fráfarandi ábúanda fyrst og fremst vegna þess að stefndi taldi sér óskylt að kaupa tilteknar eignir og umbætur stefnanda á Dyrhólum. Í matsgerð yfirúttektarnefndar kemur fram að í ljósi málflutnings aðila verði að taka afstöðu til kaupskyldu jarðeiganda samkvæmt 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga. Þá kemur fram að yfirúttektarnefnd telji augljóst að búskapur sá sem stefnandi stundaði á ábýlisjörð sinni teljist hefðbundinn búskapur sem áskilið sé í 16. gr. ábúðarlaga. Þá sé annað skilyrði 16. gr. að mannvirkjum og jarðabótum sé haganlega til frambúðar fyrir komið. Við mat á gróðurhúsunum verði við það miðað, samkvæmt ómótmæltum upplýsingum frá stefnda, að þau geti staðið án mikils viðhalds í að minnsta kosti 15 ár og séu rammlega niðurfest, að telja húsunum komið haganlega fyrir til frambúðar, ásamt vökvunarkerfi því sem í þeim sé. Sama sé með borholur, veg vatnslögn og raflögn. Rafstöðin hins vegar verði að teljast lausafé sem og tveir gróðurrammar. Kemur fram í matinu að gróðurhúsin og það sem þeim fylgir væri unnt að flytja en það væri mikil vinna og vegna umbúnaðar húsanna væri hætta á skemmdum við upptöku og flutning þeirra. Var það því niðurstaða yfirúttektarnefndar að stefndi skyldi leysa til sín gróðurhúsin, úðunarkerfi og borholu sem og dælu, rafstöð og raflagnir, en við mat þeirra var þó tekið tillit til að þau teldust ekki bráðnauðsynleg til grænmetisræktunar sbr. 2. ml. 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga. Var niðurstaða matsmanna að heildarverðmæti eigna væri krónur 26.867.000 og að stefndi skuli leysa til sín allar eignir og endurbætur fráfarandi ábúanda, nema borholu með brotnum bor.
Með bréfi 12. nóvember 1999 óskaði stefnandi eftir því að gerður yrði skriflegur samningur um kaup stefnda á eignum og umbótum á Dyrhólum í samræmi við niðurstöðu yfirúttektarnefndar og var óskin ítrekuð með bréfi 23. nóvember 1999. Á fundi sínum þann 24. janúar 2000 tók stefndi þá ákvörðun að hafna því að kaupa tilteknar eignir stefnanda á jörðinni og var lögmanni stefnanda tilkynnt það með bréfi lögmanns stefnda 1. febrúar 2000. Þessa ákvörðun kærði stefnandi til félagsmálaráðuneytis þann 20. apríl 2000 en því erindi stefnanda var vísað frá félagsmálaráðuneytinu þann 19. maí 2000. Með kaupsamningi og afsali milli aðila dagsettum 19. júní 2000 seldi stefnandi stefnda tilteknar eignir og framkvæmdir sbr. 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976. Var kaupverðið matsverð yfirúttektarnefndar á eignunum, en þær voru eftirfarandi:
1. Endurbætur á íbúðarhúsi kr. 1.420.000
2. Garðávaxtageymsla m/kælikerfi og vörulyftu kr. 3.766.000
3. Pökkunarhús m/kaffistofu kr. 6.800.000
4. Véla og verkfærageymsla kr. 4.400.000
5. Rotþró kr. 350.000
6. Vegur að borholu kr. 150.000
Stefnandi hefur fullyrt að allan ábúðartímann, eða um 20 ára skeið, hafi hann staðið í mjög umfangsmiklum framkvæmdum á Dyrhólajörðum, auk breytinga og endurbóta á fjósi, haughúsi og hlöðu, sem einkum hafi átt sér stað á árunum 1986-1989. Hafi stefnandi endurbætt íbúðarhúsið á jörðinni verulega og byggt gróðurhús sem hafi reynst frábærlega vel til framleiðslu gulróta en geti einnig nýst til framleiðslu á flestum tegundum grænmetis. Í dag séu Dyrhólajarðir mjög vel uppbyggðar og henti vel til framleiðslu á ýmiss konar grænmeti. Miðað við núverandi stærð gróðurhúsa og gróðurramma sé unnt að framleiða árlega 130 tonn af gulrótum eða öðru grænmeti, þótt geymslurými á jörðinni sé fyrir meira magn. Með þessari aðstöðu henti slík framleiðsla og magn venjulegu fjölskyldubúi og þarfnist því ekki kaupa á vinnuafli, nema á álagstímum.
Stefndi kveður stefnanda hafa ráðist í megnið af þeim framkvæmdum sem um er deilt í málinu, án þess að afla nokkurn tíma samþykkis stefnda, svo sem fortakslaust sé krafist skv. III. kafla ábúðarlaga, og sé því ranglega haldið fram í stefnu að endurbygging og breytingar á eldri húsum hafi farið fram með vitund og samþykki stefnda. Þá mótmælir stefndi fullyrðingum stefnanda um hagkvæmni og verðmæti þeirrar aðstöðu sem stefnandi kom upp til grænmetisframleiðslu á jörðinni.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnda beri skylda til að kaupa gróðurhús og annan búnað þeim tengdum í samræmi við niðurstöðu yfirúttektarmanna, sem mátu umdeildar eignir samtals að fjárhæð krónur 9.981.000. Samkomulag var með aðilum málsins um að mál þetta yrði rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Fyrir dóminum gáfu skýrslur stefnandi Stefán Gunnarsson og af hálfu stefnda, Helga Þorbergsdóttir, oddviti, Sæmundur Hafsteinn Jóhannsson, sveitarstjóri og Sveinn Pálsson, byggingafulltrúi. Þá gáfu skýrslur fyrir dómi vitnin Sigurður Ævar Harðarson, húsasmiður, Kristján Bj. Jónsson, héraðsráðunautur, Guðmundur Elíasson, fyrrverandi oddviti, Sigurður Gunnarsson, sýslumaður, Bjarni J. Matthíasson, byggingameistari og Einar Þorsteinsson, fyrrverandi héraðsráðunautur.
III
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á matsgerð yfirúttektarnefndar varðandi þær eignir stefnanda sem stefndi hafi neitað að kaupa og séu metnar í matsgerð að verðmæti krónur 9.981.000.
Að mati stefnanda fær ákvörðun stefnda um að hafna kaupum á eignum þessum og umbótum ekki staðist og telur stefnandi að stefndi hafi með ákvörðun sinni gengið á svig við skýra og ótvíræða lagaskyldu sína sem eigandi Dyrhóla, samkvæmt ábúðarlögum og úrskurði yfirúttektarnefndar Vestur-Skaftafellssýslu. Sé sú ákvörðun stefnda að kaupa ekki tilteknar eignir ekki gild að lögum vegna skorts á nauðsynlegri lagaheimild. Verði stefndi sem opinber aðili að byggja ákvarðanir sínar á heimild í lögum. Slík heimild sé ekki fyrir hendi og því bresti hann nauðsynlega valdheimild til að taka þá ákvörðun sem bókuð hafi verið og samþykkt á fundi hreppsnefndar hinn 24. janúar 2000.
Þá er af hálfu stefnanda einnig á því byggt að úrskurður yfirúttektarnefndar frá 14. október 1999 sé endanlegur, bæði um matsfjárhæðir og umfang kaupskyldra framkvæmda á Dyrhólum. Telur stefnandi að ekki sé ágreiningur með aðilum um matsfjárhæð þeirra framkvæmda sem ágreiningur aðila lúti að og hafi stefndi að því leyti fallist á bindandi gildi úrskurðarins. Samkvæmt því varði ágreiningur aðila í máli þessu einvörðungu kaupskyldu jarðeiganda samkvæmt 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 á umdeildum eignum og umbótum stefnanda á Dyrhólum.
Samkvæmt 16. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 sé sú skylda lögð á jarðeiganda að kaupa eignir og umbætur í eigu fráfarandi leiguliða á viðkomandi jörð, enda séu nánari skilyrði greinarinnar uppfyllt, á því verði sem úttektarmenn meti. Um geti verið að ræða hús, hlut í húsum og ýmsar aðrar umbætur á jörð. Kaupskyldan sé bundin við það að húsum og umbótum sé haganlega fyrir komið og nauðsynlegar til búreksturs á jörðinni, að mati úttektarmanna. Úttektarmenn, hvort sem um sé að ræða undir- eða yfirúttektarmenn, eigi samkvæmt ábúðarlögum endanlegt mat og úrskurð um það hvaða framkvæmdir eða aðrar umbætur á jörð það séu nákvæmlega sem falli undir kaupskyldu jarðeiganda samkvæmt 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga og þá um leið hvaða framkvæmdir kunni að falla undir 3. mgr. 16. gr. laganna, þar sem segi að hús sem ekki teljist nauðsynleg til búrekstrar og unnt sé að flytja, sé jarðeigandi ekki skyldugur að kaupa. Telur stefnandi að ákvæði 3. mgr. 16. gr. komi ekki til álita í þessu tilviki þegar af þeirri ástæðu að fyrir liggi endanleg niðurstaða um umfang kaupskyldra framkvæmda og umbóta á Dyrhólajörðum.
Í málinu liggi fyrir úrskurður um að næstum allar eignir stefnanda á Dyrhólum falli undir kaupskyldu jarðeiganda samkvæmt 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga. Þar segi, „Nú á fráfarandi leiguliði hús, hlut í húsum eða umbætur á jörð, og er það til frambúðar haganlega fyrir komið og nauðsynlegt til búrekstrar á jörðinni, að dómi úttektarmanna, og skal þá landsdrottni skylt að kaupa þær eignir því verði er úttektarmenn meta, enda séu þá hús jarðarinnar og önnur mannvirki ekki meiri og dýrari en svo, að jörðina megi leigja fyrir hæfilegt afgjald, að mati úttektarmanna. Séu hús ekki nauðsynleg vegna almenns búrekstrar, skal taka tillit til þess við mat þeirra og þau metin lægra verði en hin nauðsynlegu jarðarhús. Landsdrottni er einnig skylt að kaupa ræktun, sem fráfarandi hefur látið gera.” Samkvæmt þessu sé skýrt að kaupskyldan sé háð ýmsum takmörkunum. Jafnskýrt sé að úttektarmenn eigi alfarið og endanlegt mat um það hvaða framkvæmdir og umbætur séu kaupskyldar á jörð og á hvaða verði. Þeirri niðurstöðu verði hvorki breytt af jarðeiganda sjálfum né dómstólum. Kveðst stefnandi vera þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk dómstóla að breyta ákvörðun yfirúttektarmanna um það hvaða hús, aðrar framkvæmdir og umbætur séu kaupskyldar samkvæmt ábúðarlögum.
Kveður stefnandi að um sé að ræða sérhæft mat eigna og umbóta og hafi löggjafinn gengið út frá því við lögfestingu ábúðarlaganna að slík sérhæfð matsniðurstaða væri hin endanlega, enda ráðist hún í raun af rekstrarlegum forsendum og aðstæðum á viðkomandi jörð, sem fari úr leiguábúð, en ekki af almennum matssjónarmiðum eða aðstæðum, sem alls ekki þurfi að vera sambærilegar á öllum jörðum á landinu sem fari úr leiguábúð. Stefnandi byggir á því að ákvæðum 16. gr. ábúðarlaga sé ætlað að vernda og tryggja hagsmuni fráfarandi leiguliða, þannig að þeir hafi í öllum tilvikum tryggingu fyrir því að fá fullt verð samkvæmt mati fyrir öll mannvirki og umbætur í þeirra eigu á leigujörðum enda sé þeim til frambúðar haganlega fyrir komið og nauðsynlegar til búrekstrar á viðkomandi jörð, en um það fjalli úttektarmenn. Hafi löggjafinn augljóslega ekki ætlast til að við ábúðarlok þyrftu fráfarandi ábúendur að hverfa á brott af jörðum með annað en lausamuni og bústofn, en ekki verðmæti sem skeytt hafi verið við land viðkomandi ábýlis og sé hluti af þeirri fasteign við ábúðarlok.
Að mati stefnanda er ljóst að verðmætisaukning jarða á ábúðartíma leiguliða ráðist af þeim framkvæmdum og umbótum sem leiguliðinn framkvæmi og kosti sjálfur á meðan ábúðin varir. Stefnandi lítur því svo á að lög standi ótvírætt til þess að þá verðmætisaukningu beri að greiða fullu verði. Enn fremur sé það ekki á valdi jarðeiganda að velja sér framkvæmdir til kaups, heldur verði jarðeigandi að hlíta niðurstöðu yfirúttektarmanna. Sé þetta sérstaklega skýrt í tilviki stefnanda við framkvæmdir hans og umbætur á Dyrhólajörðum, sem eftir breytingu á útihúsum hafi byggt eina samhangandi og órjúfanlega framleiðslueiningu, sem ekki sé unnt að aðskilja, eins og stefndi vilji gera með því að hafna kaupum á hluta framleiðslueiningarinnar, en samþykkja að kaupa aðrar, án athugasemda. Fái sú niðurstaða ekki staðist meðal annars vegna þess að við verðmat eigna hafi matsmenn horft til framleiðslueiningarinnar í heild. Önnur niðurstaða væri á svig við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að mati stefnanda, sem fullyrðir að við mat úttektarmanna á þegar keyptum framkvæmdum og umbótum á Dyrhólum, hafi verið tekið tillit til verðmætis þeirra gróðurhúsa, borhola, dælubúnaðar og lagna, sem voru og séu hluti af framleiðslueiningunni og því rekstrarumhverfi sem sé til staðar í umráðum stefnda á Dyrhólum í Mýrdalshreppi. Því verði ekki komist að annarri niðurstöðu um kaupskyldu eiganda Dyrhóla án þess að áhrif hafi á matsverðmæti annarra framkvæmda og umbóta á jörðinni.
Í tilviki stefnanda sé ljóst að hann hafi sem fráfarandi ábúandi á Dyrhólum, skilað til stefnda sem jarðeiganda, tilteknum mannvirkjum, öðrum framkvæmdum og umbótum á jörðunum, sem séu hluti af jörðunum fyrir viðskeytingu og séu framkvæmdir þessar og umbætur nauðsynlegar, sem órjúfanleg heild, til áframhaldandi búreksturs á Dyrhólum. Þannig spili saman með augljósum og skýrum hætti öll framleiðsluaðstaðan á jörðunum og verðmætið taki í raun mið af órjúfanleika einingarinnar, enda telji stefnandi að tekið hafi verið mið af því hvað það hefði kostað eiganda Dyrhóla að koma upp sambærilegum mannvirkjum og umbótum.
Varðandi notagildi mannvirkja á Dyrhólajörðum og verðmæti einstakra húsa bendir stefnandi á að hann hafi stundað á ábýli sínu framleiðslu tiltekinnar hágæðavöru sem hafi verið vottuð sem slík og hafi hann ekki annað þeim markaði sem var fyrir vöru hans. Þessi framleiðsluaðstaða bíði á jörðinni eftir nýjum ábúanda sem geti án mikils tilkostnaðar hafið framleiðslu grænmetis á jörðinni sem öruggur markaður bíði eftir. Ekki sé þörf á að leggja í kostnað við öflun markaðar fyrir framleiðsluna sem selji sig sjálf á mun hærra verði en þekkist varðandi sömu tegund grænmetis. Ljóst sé að mati stefnanda að sterk markaðsleg staða framleiðslunnar vegna mikilla gæða hennar hafi haft áhrif með beinum hætti á niðurstöðu úttektarmanna um kaupskyldu framkvæmda og umbóta og verðmæti, sem útiloki að síðar sé skilið á milli tiltekinna framkvæmda sem séu í dag hluti af heild.
Þá hafi stefndi haldið fram að kaupskylda jarðeiganda samkvæmt ábúðarlögum takmarkist við framkvæmdir sem tengdar séu „hefðbundnum búskap“ og sé einnig fullyrt að kaupskyldan verði ekki „....útvíkkuð yfir mannvirki og „tilfæringar“ sem tengist annars konar starfsemi, svo sem ferðaþjónustu, fiskirækt, matjurtaframleiðslu o.s.frv....“ Stefnandi sé annarrar skoðunar. Sé ljóst að stefndi kjósi að nota ýmis hugtök með áður óþekktum hætti og skýri ekki hvaða merkingu hann leggi í þau. Stefndi hafi þó sagt að fiskirækt, ferðaþjónusta og matjurtarækt sé ekki atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar eða að minnsta kosti „óhefðbundinn búskapur“ og mannvirki á jörðum sem slíkum rekstri tengjast séu aðeins mannvirki eða tilfæringar sem jarðeigandi þurfi ekki að lögum að kaupa. Þessu hafnar stefnandi alfarið sem röngu.
Verði ekki fallist á sjónarmið stefnanda að úrskurður yfirúttektarnefndar um kaupskyldu stefnda sé endanlegur, telur stefnandi að ekki verði hjá því komist að fjalla nánar um kaupskyldu jarðeiganda samkvæmt l. mgr. 16. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976. Hafi stefndi gefið í skyn að sá landbúnaður sem stundaður var af stefnanda á Dyrhólum falli ekki undir hefðbundinn landbúnað og mannvirki honum tengd á jörðinni falli því utan kaupskyldu ábúðarlaga. Framleiðsla stefnanda hin síðari ár hafi verið lífræn og sé ljóst að við breytingu yfir í lífræna framleiðslu hætti ræktunin ekki að vera garðyrkja eða landbúnaður. Sú breyting hafi einfaldlega verið þróun í takt við kröfur hluta markaðarins um hreinleika og hollustu og þeirra tíma er við lifum. Garðyrkjan sé vaxtabroddur íslensks landbúnaðar þar sem meðalneysla á mann sé sífellt að aukast. Þá sé lífræn ræktun, eins og stunduð var í vottuðu umhverfi á Dyrhólum, enn frekari vaxtabroddur þar sem eftirspurn eftir afurðum hennar sé stöðugt vaxandi í heiminum og framleiðslan anni hvergi nærri eftirspurn. Slík framleiðsla sé einnig eðlilegur vaxtabroddur með tilliti til þeirra viðhorfa sem séu að ryðja sér til rúms um allan heim í umhverfismálum. Telur stefnandi þau viðhorf stefnda að lífræn ræktun matjurta til manneldis teljist ekki til landbúnaðar á Íslandi fráleit. Þau mannvirki sem hér um ræði séu nauðsynleg og hafi verið nýtt með frábærum árangri til að framleiða eina dýrustu og eftirsóttustu vöru sem framleidd sé í grænmetisgeiranum á Íslandi í dag.
Þá kveður stefnandi að gert sé ráð fyrir því að kaupskyld framkvæmd geti verið bæði sérgreint hús eða ósérgreindur eignarhluti í húsi og að auki ýmsar umbætur á jörð, s.s. skurðir, ræsi, réttir, vegir, ræktun og ýmsar aðrar landbætur í formi gróðurs. Vart þurfi að vera deiluefni hvaða framkvæmdir á bújörðum teljist til húsa og hvaða eignir fráfarandi ábúanda teljist til lausamuna. Orð eins og „tilfæringar“ sem stefndi hafi notað til að lýsa tilteknum umbótum stefnanda á Dyrhólum, lýsi hins vegar neikvæðum og fjarstæðukenndum viðhorfum og eigi ekki við hér. Það sé ekki skilyrði fyrir virkni kaupskyldunnar að viðkomandi framkvæmdir séu sérmetnar í fasteignamati, hvað þá að viðskeytt framkvæmd sé skráð í fasteigna- eða veðmálabók fyrir viðkomandi jörð eða lögbýli, enda ekki tíðkað að skrá viðskeyttan eignarhluta ábúanda t.d. framkvæmd eins og girðingar á jörðum og margháttaðar landbætur eins og gróður, vegi og skurði eða girðingar, svo dæmi sé tekið, en engum detti þó í hug að halda því fram að jarðeiganda beri ekki að kaupa slíkar umbætur leiguliða við ábúðarlok. Slíkar framkvæmdir séu ævinlega taldar vera haganlega fyrir komið og nauðsynlegar til búrekstrar á jörðum.
Það verði ekki ráðið af tiltækum lögskýringargögnum að túlka verði skilyrði 16. gr. ábúðarlaga um „nauðsyn til búrekstrar” þröngt. Lítur stefnandi svo á að skilyrðið verði að túlka rúmt þannig að ekki skipti máli hvaða búgrein landbúnaðar sé stunduð á viðkomandi leigujörð. Þótt efni greinarinnar verði rakið marga áratugi aftur í tímann, breyti það ekki í eðli sínu þeirri staðreynd að leiguliðar hafi rétt til framkvæmda á ábýlisjörðum sínum, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, og án þess að sérstakt samþykki jarðeiganda liggi fyrir til að stunda þá atvinnustarfsemi sem uppbygging jarðar segi fyrir um. Eigi þeir samkvæmt ákvörðun löggjafans, óháð því hvaða búgrein hefur verið stunduð, lögvarða kröfu á því að jarðeigandi kaupi allar framkvæmdir, hús, hlut í húsum og umbætur því verði sem úttektarmenn meti, enda liggi fyrir mat úttektarmanna um nauðsyn þessara framkvæmda og umbóta á jörðinni fyrir áframhaldandi búrekstur þar, eins og eigi við í tilviki stefnanda.
Samkvæmt 22. gr. jarðalaga nr. 65/1976 séu nefnd og talin upp nokkrar „tegundir lögbýla“ með skírskotun í atvinnustarfsemi sem séu öll á sviði landbúnaðar. Nefnt sé sem hluti af landbúnaðarstarfsemi og búvöruframleiðslu á jörðum eða lögbýlum; ylrækt, garðrækt, fiskrækt og loðdýrarækt og auk þess þjónusta tengd landbúnaði og „smáiðnaður“. Mannvirki tengd slíkum búrekstri séu án nokkurs vafa öll kaupskyld og sé stefnandi enn fremur þeirrar skoðunar að tegund atvinnustarfsemi eða búvöruframleiðslu geti ekki skipt máli hér, heldur hvort viðskeyttum framkvæmdum sé haganlega fyrir komið til búrekstrar eða þjónustu sem rekin sé á viðkomandi jörð. Þá sé heldur enginn vafi á því að jarðeiganda beri skylda til að kaupa mannvirkin, og ýmsar umbætur sem kunna að vera á jörðum.
Að mati stefnanda eru gróðurhús og gróðurrammar á Dyrhólum ótvíræður hluti jarðanna og því nái kaupskylda ábúðarlaga til þessara húsa. Sé þessum framkvæmdum haganlega fyrir komið og nauðsynlegar til áframhaldandi búreksturs á jörðinni. Niðurstaða undir- og yfirmatsmanna staðfesti þennan skilning stefnanda svo ekki verði um villst og bendir stefnandi á að fyrir liggi afstaða matsmanna um að eiganda Dyrhóla beri að lögum skylda til að kaupa umræddar framkvæmdir. Gagnstætt því sem stefndi hafi haldið fram séu gróðurhúsin á Dyrhólum og gróðurrammar varanlega skeytt við land jarðarinnar og því óumdeilanlegur hluti fasteignarinnar. Gróðurrammarnir skipti verulegu máli og nýtist við framleiðslu grænmetis, en megintilgangur rammanna sé í fyrsta lagi að sjóða jarðveginn inni í þeim til að losna við illgresi og í öðru lagi að varna því að dúkur, sem notaður er, skemmi gulrætur í beðum sem næst eru jöðrum hans. Slíkt gerist í verulegum mæli á vindasömum stöðum eins og í Mýrdalnum, jafnvel þótt sterkari plöntur en gulrætur eigi í hlut. Rammar þessir séu því alls ekki gagnslausir, en hafi allt að segja um það að framleiðslan verði, eins og kostur sé, laus við illgresisplágu, sem oft sé erfitt að ráða við. Lögð sé áhersla á að gróðurhúsin, rammarnir og lagnir og borholur á jörðunum þeim tengdar, séu ein heild. Sé þessi framleiðslueining ekki nýtt sem heild, skerðist nýtingarmöguleikar annarra bygginga á jörðinni, sem stefndi hafi þegar leyst til sín. Eigi það við um grænmetisgeymsluna og húsakost, ásamt búnaði sem þeim fylgi. Skert notagildi þeirra mannvirkja sé til þess fallið að rýra með beinum hætti verðgildi eignanna. Við niðurrif húsanna, færi forgörðum gífurleg vinna auk þess sem efni húsanna verði ekki nýtt eftir niðurrif og brottflutning, vegna mikillar rýrnunar, að bogum frátöldum, sem hugsanlega mætti að einhverju leyti nýta aftur.
Þessi sjónarmið kveður stefnandi að séu staðfest með einkar skýrum hætti í úrskurði yfirúttektarnefndar. Í úrskurðinum sé einnig staðfestur sá skilningur stefnanda að á jörðinni sé ein samhangandi framleiðsluheild, sem sé ein allra verðmætasta framleiðslueining íslensks landbúnaðar í dag. Stefndi hafi sem jarðeigandi lagaskyldu til að kaupa alla eininguna, sem sé haganlega fyrir komið og nauðsynleg sem heild til áframhaldandi búrekstrar.
Stefnandi kveður að stefndi hafi ekki hirt um að gera stefnanda grein fyrir því að framkvæmdir hans á Dyrhólum kynnu að vera þess eðlis að þær féllu að mati stefnda utan kaupskyldu hans sem jarðeiganda. Stefnda hafi verið fullkunnugt um alla uppbyggingu stefnanda á jörðunum og hafi fulltrúar stefnda séð ástæðu til að koma að Dyrhólum í skoðunarferðir, einir eða með gesti, væntanlega til að skoða með eigin augum og sýna merkilega uppbyggingu og atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar í landbúnaðarhéraðinu Mýrdalshreppi. Þá hafi yfirsmiður við flest gróðurhúsanna verið Sigurður Ævar Harðarson, húsasmíðameistari, hreppsnefndarmaður og aðalúttektarmaður Mýrdalshrepps.
Stefnandi hafnar því alfarið að skortur á skriflegu samþykki fyrir uppbyggingu á Dyrhólum geti ráðið úrslitum um kaupskyldu af ástæðum sem um getur hér á undan. Ljóst sé að fulltrúar stefnda, sveitarstjóri og einstakir hreppsnefndarmenn höfðu kynnt sér aðstæður á jörðinni og vissu nákvæmlega hvað þar fór fram og við hvaða aðstæður og hvaða framkvæmdir hefðu átt sér stað á ábúðartíma stefnanda á Dyrhólum. Stefnandi líti svo á að öll uppbygging á jörðinni, bæði nýframkvæmdir og breytingar á húsum vegna búháttabreytinga og umbætur allar á jörðinni hafi í raun verið samþykktar af jarðeigandanum, án þess þó að slíkt sé í öllum tilvikum nauðsynlegt að lögum, sbr. 12. gr. ábúðarlaganna.
Stefnandi kveður fulltrúa stefnda hafa tekið við umráðum Dyrhólajarða og allra mannvirkja þar hinn 18. ágúst 1999. Frá þeim tíma hafi stefndi einn haft jörðina til umráða og hagnýtingar og hirt allan arð eignarinnar. Þá muni stefndi að einhverju leyti hafa ráðstafað landsnytjum og afnotum af jörðinni til annarra. Ljóst sé að stefndi beri einn alla ábyrgð á jörðunum og mannvirkjum þar sem hann hafi umráð yfir og séu þar í vörslum hans. Þá muni stefndi að einhverju leyti hafa ráðstafað landsnytjum og afnotum af jörðinni til annarra og verði ekki hjá því komist að gera athugasemdir við ráðstöfun eignarinnar sem kunna að varða umþrættar eignir stefnanda á Dyrhólum á meðan ekki sé skorið úr um deiluefnið. Meðan svo sé beri stefndi alla ábyrgð á því að eignirnar séu hinar sömu og við afhendingu þeirra til stefnda.
Fjárhæð kröfu sinnar í aðal- og varakröfu kveður stefnandi vera bindandi matsniðurstöðu samkvæmt úrskurði frá 14. október 1999, á þeim mannvirkjum og umbótum sem stefndi telur sér óskylt að kaupa af stefnanda. Byggt sé á því að við uppkvaðningu úrskurðarins hafi stofnast krafa á hendur eiganda Dyrhóla, sem nemi matsfjárhæð umþrættra mannvirkja, enda hafi þegar samist með aðilum um kaup á hluta eigna og umbóta á Dyrhólum.
Fyrir liggi samkomulag aðila um kaup á hluta af eignum og umbótum, en með því samkomulagi hafi stefndi yfirtekið áhvílandi veðskuldir á Dyrhólum, sem séu langtímaskuldbinding. Í 2. mgr. 16. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 sé gert ráð fyrir því að fyrri helmingur heildarmatsfjárhæðar sé greiddur af jarðeiganda með þremur jöfnum greiðslum innan níu mánaða frá lokum úttektar. Lok úttektar teljist við uppkvaðningu úrskurðar um matið. Aðalkrafa stefnanda geri ráð fyrir því að það sem ógreitt sé af heildarmati yfirúttektarnefndar, teljist til fyrra helmings, sbr. 2. mgr. 16. gr. ábúðarlaga, en varakrafan sé hins vegar byggð á því að yfirtekin áhvílandi veðlán á jörðinni verði metin sem hluti af útborgun stefnda og í því tilviki beri honum að gefa út skuldabréf til sex ára, frá 1. ágúst 2000 að telja, eins og rakið sé í úrskurðinum frá 14. október 1999. Ljóst sé, óháð þeim deilum sem hér um ræði, að skýra verði ákvæði 2. mgr. 16. gr. ábúðarlaga á þá lund að jarðeigendum beri að gefa út skuldabréf fyrir síðari helmingi heildarmatsverðs með vísan til niðurstöðu í úrskurði yfirúttektarnefndar. Hluti matsfjárhæðar eigna og umbóta sé þegar gjaldfallinn og skýri það kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta á hluta af matsfjárhæðinni.
Stefnandi vísar til ábúðarlaga nr. 64/1976, jarðalaga nr. 65/1976 og til meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Krafa stefnanda um dráttarvexti styðst við 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Jafnframt vísar stefnandi til laga nr. 50/1988 vegna virðisaukaskatts. Stefnandi kveðst ekki reka virðisaukaskattskylda starfsemi og því sé honum vegna skaðleysissjónarmiða nauðsynlegt að fá tildæmdan virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.
IV
Stefndi kveðst styðja sýknukröfu sína við þá afstöðu sína að hann sé ekki kaupskyldur að þeim eigum stefnanda sem stefnukröfur nái til og fái niðurstaða í yfirúttektargerð, hvað það varði, ekki staðist.
Í stefnu sýnist meðal annars byggt á því að ákvörðun hreppsnefndar stefnda á fundi sínum 24. janúar 2000, eigi að vera ógild þar sem fyrir henni skorti lagaheimild. Þessu mótmælir stefndi sérstaklega enda sæki umrædd ákvörðun heimild í ábúðarlög sem og önnur lög svo sem nánar verði rakið.
Þá vekur stefndi athygli á því að í stefnu sé niðurstaða yfirúttektarnefndar sem skipuð var á grundvelli 44. gr. ábúðarlaga, ítrekað kölluð úrskurður. Þessari hugtakanotkun stefnanda sé sérstaklega mótmælt að því leyti sem henni sé ætlað sérstakt vægi, enda engin lagaheimild til handa yfirúttektarnefnd til uppkvaðningar úrskurða, að minnsta kosti ekki neins konar hefðbundinna úrskurða að stjórnsýslurétti. Í raun sé eingöngu um að ræða sérstakt matsform. Í stefnu sýnist enn fremur á því byggt að heimildir almennra dómstóla til umfjöllunar og efnismeðferðar ágreinings aðila séu með einhverjum hætti takmarkaðar vegna fyrirliggjandi niðurstöðu yfirúttektarnefndar, sem sé endanleg um verðmat og umfang kaupskyldu og verði ekki endurskoðuð af dómstólum. Öllum sjónarmiðum í þá veru mótmælir stefndi og telur þau endurspegla löngu liðin viðhorf til endurskoðunarheimilda dómstóla. Séu dómstólar bærir til að meta frá grunni skilyrði fyrir kaupskyldu stefnda, þar með talið að endurskoða alla þætti fyrirliggjandi mats yfirúttektarnefndar. Eigi það bæði við um lagaskilyrði skv. III. kafla ábúðarlaga sem og einstaka efnisþætti, þar með talið verðmat einstakra eigna. Séu dómstólar alltaf bærir til að meta einstök lagaskilyrði fyrir kaupskyldu, og skilyrði fyrir umfangi kaupskyldunnar.
Við mat á skilyrðum og umfangi kaupskyldu stefnda vísar stefndi sérstaklega til þeirrar verndar sem eignarréttindi hans njóti samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár og á því byggt að ákvæði ábúðarlaga sem kveði á um kaupskyldu hans feli í sér íþyngjandi takmarkanir þeirra sömu eignarréttinda. Hefðbundin lögskýringarsjónarmið leiði því til þröngrar skýringar viðkomandi ákvæða ábúðarlaga, ekki rýmkandi svo sem stefnandi sýnist byggja á. Þá verði jafnframt að líta til þess að kaupskylda, samkvæmt ábúðarlögum sé gömul að stofni til og hafi tekið mið af allt öðrum hagsmunum og landbúnaðarháttum en um ræði í þessu máli. Sú kaupskylda hafi verið sniðin að hefðbundnum búskap eins og hann hafi lengst af verið stundaður á Íslandi, en ekki að sérhæfðum og afar dýrum atvinnurekstri eins og um ræði í þessu tilviki. Byggi stefndi á því að kaupskylda í því formi og þeim mæli sem byggt sé á af stefnanda hálfu fái ekki staðist áskilnað 72. gr. stjórnarskrár. Þá vísi stefndi jafnframt til meginreglna leiguréttar hvað varði heimildir leigutaka til framkvæmda á kostnað leigusala.
Hvað snertir þær einstöku efnislegu ástæður sem stefndi telur leiða til þess að hafna beri kaupskyldu hans á umdeildum eignum, kveðst stefndi í fyrsta lagi byggja á þeirri grundvallarforsendu að ábúðarlög, einkum 12., 13. og 14. gr. áskilji í öllum tilvikum að ábúandi afli formlegs samþykkis landeiganda fyrir þeim framkvæmdum sem hann ráðist í á eignarjörð hans, og sé slíkt að minnsta kosti fortakslaust ætli hann jarðeiganda að leysa þær eignir til sín við ábúðarlok. Í 12. gr. laganna sé kveðið á um það að við endurbætur og nýbyggingar á jörð eigi jarðeigandi rétt á því að ákveða að hann sjálfur kosti alla endurbyggingu á jörðinni, sbr. og sambærileg ákvæði skv. 13. gr. varðandi jarðabætur. Ef jarðeigandi fallist ekki á slíkt sé ábúanda heimilt að ráðast í fyrirhugaðar framkvæmdir, enda tilkynni hann jarðeiganda sannanlega og með formlegum hætti þar um og hafi þar að auki aflað umsagnar viðkomandi héraðsráðunauts og byggingafulltrúa, sbr. skýr fyrirmæli 3. mgr. 12. gr. ábúðarlaga. Stefnandi hafi hvorki aflað slíks samþykkis vegna hinna umdeildu eigna né leitað nokkurs samráðs við stefnda um byggingar og framkvæmdir þeirra. Þá sýnist hann hvorki hafa aflað umsagnar héraðsráðunauts né byggingafulltrúa. Beri því þegar af þessum ástæðum að sýkna stefnda alfarið af dómkröfum hans.
Kveður stefndi að á það sé fallist í forsendum yfirúttektarnefndar að hinna lögformlegu skilyrða hafi ekki verið gætt og samþykkis ekki aflað, þó svo kaupskylda stefnda sé allt að einu viðurkennd. Eigi sú niðurstaða, sem í raun upphefji tilgreind fyrirmæli ábúðarlaga, sér enga lagastoð og umrædd lagafyrirmæli, sem geri skýran formlegan áskilnað, væru þá án nokkurrar þýðingar. Þá mótmælir stefndi þeim málatilbúnaði stefnanda að möguleg vitneskja jarðeiganda um framkvæmdir ábúanda á ábúðarjörð feli í sér sjálfkrafa viðurkenningu á kaupskyldu að slíkum framkvæmdum. Sýnist stefnandi raunar leggja þveröfuga merkingu í tilvitnuð ákvæði ábúðarlaga og telja að þau feli í sér aðgerðaskyldu af hálfu landeiganda. Meint aðgerðarleysi stefnda sé án nokkurrar þýðingar í málinu enda hvíli hin formlega aðgerðaskylda á ábúanda lögum samkvæmt. Að sama skapi sé ósönnuðum fullyrðingum stefnanda um vitneskju einstakra aðila í sveitarfélaginu um framkvæmdir hans mótmælt, en þess utan bent á þá augljósu staðreynd að slík vitneskja hafi aldrei náð til þeirra hugmynda stefnanda að ætla sér síðar að láta stefnda borga fyrir umræddar eignir. Geri stefnandi engan greinarmun á slíkri vitneskju um framkvæmdir og því að menn hafi mátt ganga út frá því og raunar beinlíns samþykkt að leysa slíkar eignir til sín við ábúðarlok. Burtséð frá þessu þá hagi svo sérstaklega til um þær eignir og framkvæmdir stefnanda sem hér sé tekist á um, að af stefnda hálfu hafi aldrei verið litið á þær öðruvísi en að þær væru lausafé í eigu stefnanda, sem flutt yrði á brott að ábúð lokinni. Stefnandi hafi svo ekki aðeins hunsað fyrirmæli ábúðarlaga, heldur hafi hann aldrei gert gangskör að því að fá umrædd gróðurhús metin sem fasteignir eða fasteignaréttindi og þau aldrei skráð sem slík hvorki í fasteignamati né þinglýsingabók. Þá sé og byggt á því að viðkomandi ákvæði ábúðarlaga verði að skýra til samræmis við meginreglur þær sem gildi í leigurétti þar sem kaupskylda leigusala að eignum og umbótum leigutaka verði aldrei virk nema samkvæmt formlegu og skýru samkomulagi aðila.
Þá byggi stefndi jafnframt á því að skilyrði 16. gr. ábúðarlaga til beitingar kaupskyldu séu ekki uppfyllt. Nánar tiltekið feli 16. gr. ábúðarlaga í sér eftirfarandi áskilnað, eigi kaupskylda jarðeiganda að verða virk; a) að mannvirkjum/ræktun sé til frambúðar haganlega fyrirkomið og nauðsynleg til búrekstrar á jörðinni; b) að hús jarðarinnar og önnur mannvirki séu ekki meiri og dýrari en svo að jörðina megi leigja fyrir hæfilegt afgjald; d) mannvirki sem ekki teljist nauðsynleg, skv. framangreindu og unnt sé að flytja brott sé jarðeigandi ekki skyldugur að kaupa.
Stefndi byggir á því að umræddar eignir stefnanda, gróðurhús og gróðurrammar og það sem þeim tilheyrir sérstaklega séu í raun ekki hluti fasteignarinnar heldur lausafé, sem 16. gr. ábúðarlaga taki alls ekki til, sé kaupskylda bundin við fasteignaréttindi ásamt venjubundnu fylgifé. Á þetta fallist yfirúttektarnefnd hvað varði rafstöð og gróðurramma en telji kaupskyldu allt að einu vera fyrir hendi og fái það ekki staðist. Þá sé og ótvírætt, sbr. niðurstöðu yfirúttektarnefndar, að umþrætt gróðurhús verði flutt á brott.
Þá vísar stefndi til þess að kaupskylda samkvæmt ábúðarlögum nái ekki til annarra mannvirkja og jarðabóta en þeirra sem haganlega sé fyrir komið á jörðinni og nauðsynlegar séu til áframhaldandi búskapar, enda verði þau ekki flutt á brott. Byggi stefndi á því að nauðsyn til búrekstrar í skilningi 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga sæti þröngri túlkun og nái eingöngu til hefðbundins búskapar. Kaupskylda samkvæmt ábúðarlögum sé gömul að stofni til og hafi tekið mið af allt öðrum hagsmunum og landbúnaðarháttum en um sé að ræða í þessu máli. Sú kaupskylda hafi verið sniðin að hefðbundnum búskap eins og hann hafi lengst af verið stundaður á Íslandi, meðal annars með tilliti til skepnuhalds, stærðar á búum o.s.frv., en ekki að sérhæfðri atvinnustarfsemi, þó svo að hún geti í einhverjum skilningi talist vera á sviði búskapar. Ákvæðið í núverandi mynd hafi komið inn í ábúðarlög 1933 og þegar könnuð sé tilurð þess og tilgangur löggjafans sé ljóst að það miði að því einu að á jörð séu fyrir hendi nauðsynlegur lámarkshúsakostur til áframhaldandi búrekstrar nýs ábúanda. Sé sú túlkun kaupskyldu samkvæmt ábúðarlögum fráleit að hún geti náð til allra þeirra mannvirkja og tilfæringa sem ábúandi komi fyrir óháð því um hvaða atvinnurekstur sé að ræða og óháð því hvort samráð hafi verið haft við jarðareiganda. Án nauðsynlegra lagabreytinga verði kaupskyldan ekki útvíkkuð yfir mannvirki og framkvæmdir sem tengist annars konar atvinnustarfsemi, svo sem ferðaþjónustu, bifreiðaviðgerðum, fiskirækt, matjurtaframleiðslu o.s.frv. Ef fallast ætti á þann málatilbúnað stefnanda að unnt sé að stofna til viðamikillar mannvirkjagerðar og framkvæmda á sviði sérhæfðrar atvinnustarfsemi og gera síðan jarðeiganda að kaupa þau mannvirki fullu verði að ábúðartíma lokum, sýnist lítil eða engin takmörk vera á því yfir hvað hin lögbundna kaupskylda verði framvegis teygð. Undir slíkum kringumstæðum hljóti þá jafnframt að verða að gera þeim mun ríkari kröfur til ábúandans um það að hann tryggi sér fyrirfram samþykki jarðeiganda varðandi allar þær framkvæmdir sem ekki tengist landbúnaðarnytjum jarðar í hefðbundnum skilningi.
Stefndi byggir á því að hinar umdeildu eigur séu lausafé sem útiloki þá þegar kaupskyldu skv. 16. gr. ábúðarlaga. Sé ekki fallist á það sé á því byggt að allt að einu sé um að ræða mannvirki sem ekki teljist nauðsynleg til búrekstrar og unnt sé að flytja á brott í skilningi í 3. mgr. 16. gr. og séu því ekki kaupskyld. Hér sé um að ræða gróðurhúsin sem í niðurstöðu yfirúttektarnefndar sé sérstaklega tekið fram að mögulegt sé að flytja á brott, þó svo slíkt væri mikil vinna og einhverjar skemmdir ekki útilokaðar. Þá sé um að ræða gróðurramma og úðakerfi í gróðurhúsum, rafstöð, raflögn og fleira. Þessar tilfæringar séu eingöngu tilkomnar og nauðsynlegar vegna gróðurhúsaræktunarinnar og flytjanlegar. Þá vísist sérstaklega til þess að í niðurstöðum yfirúttektarnefndar segi að hinar umþrættu eigur stefnanda séu ekki bráðnauðsynlegar í merkingu 2. ml. 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga. Í lagartextanum sjálfum sé hins vegar eingöngu kveðið á um að „hús séu ekki nauðsynleg“ og hljóti hugtakið „nauðsynleg“ að verða notað hér í sömu merkingu og í 3. mgr. 16. gr. laganna. Það sé því hafið yfir vafa að stefndi sé ekki skyldugur til að kaupa umræddar eigur stefnanda og það með beinni vísan til röksemdafærslu yfirúttektarnefndar sjálfrar. Þá sé ótvírætt að kaldavatnsborholan hafi eingöngu verið gerð til að afla vatns til vökvunar í gróðurhúsunum en jörðin hafði aðgang að vatnsveitu á svæðinu.
Loks sé til þess að líta við mat á kaupskyldu stefnda að í 16. gr. ábúðarlaga sé gerður sá fyrirvari að hús jarðarinnar og önnur mannvirki sem kaupskyld verða metin séu ekki meiri og dýrari en svo, að jörðina megi leigja fyrir hæfilegt afgjald, að mati úttektarmanna. Ljóst sé að forsendur stefnanda í þessa veru, sem að nokkru byggist á niðurstöðum yfirúttektarnefndar, hafi alls ekki staðist. Á þeim tíma sem liðinn sé frá ábúðarlokum stefnanda hafi ekkert raunhæft kauptilboð borist í jörðina, og enginn sýnt því raunhæfan áhuga að taka jörðina í ábúð. Staðreyndin sé sú að í höndum stefnda sé alls ekki um sömu verðmæti að ræða og í höndum stefnanda. Ráðist það af því að verðmætin séu að stærstum hluta fólgin í sérþekkingu og viðskiptavild stefnanda, á afar sérhæfðri ræktun. Hverfandi líkur séu þannig á því að nýr aðili finnist sem tekið gæti upp þráðinn með sambærilega hætti og raunin hafi verið á ábúðartíma stefnanda.
Kveður stefndi að yfirlýsingar söluaðila stefnanda staðfesti í raun þetta mat stefnda, það er að verðmætin séu bundin viðkomandi persónu, ekki jörðinni sem slíkri. Þá verði enn fremur að líta til þess að stefnandi hafi tekið við jörðinni sem hefðbundinni bújörð en hafi í engu haldið henni við sem slíkri. Nú verði ekki stundaður á jörðinni hefðbundinn búskapur eða annars konar atvinnurekstur án þess að leggja út í mjög viðamikla og dýra mannvirkjagerð og breytingar, auk þess sem jörðinni tilheyri ekkert greiðslumark. Verðmæti umræddra mannvirkja og framkvæmda stefnanda sé þannig mjög umdeilanlegt og með gildum rökum megi halda því fram að í höndum stefnda eða annarra aðila sé það næsta lítið. Þessar staðreyndir hafi óneitanlega áhrif við mat á öðrum skilyrðum fyrir kaupskyldu stefnda. Þá sé því sérstaklega mótmælt sem haldið sé fram í niðurstöðum yfirúttektarnefndar að ekki hafi verið mótmælt af hálfu stefnda við yfirmat fullyrðingum stefnanda að hin umdeildu gróðurhús gætu staðið án viðhalds í allt að fimmtán ár. Stefndi hafi engri afstöðu lýst til þeirrar fullyrðingar, sem hafi komið fram við vettvangsgöngu, enda hafi hún ekki verið undir hann borin. Hann hafi talið og telji enn að gróðurhúsin séu sér óviðkomandi og hefði þess utan skort alla forsendur til mats á slíku á því stigi. Allt að einu mótmæli stefndi því sérstaklega að einhver sönnun hafi komið fram um slíkan endingartíma gróðurhúsanna og sé því raunar öfugt farið því endingartíminn sé margfalt styttri. Þá byggi stefndi jafnframt á því að brostnar séu forsendur fyrir matsniðurstöðum/ matstölum yfirúttektarnefndar.
Í málatilbúnaði stefnanda komi fram að þær eignir sem stefnandi kom upp á ábúðartímanum myndi eina órofa framleiðslueiningu sem ekki sé unnt að aðskilja með þeim hætti sem stefndi byggi á. Eignirnar séu metnar með samhangandi hætti og séu þær ekki nýttar eða keyptar sem heild hafi það innbyrðis áhrif á verðmæti annarra eigna sem tilheyri hinni meintu framleiðslueiningu. Telur stefndi þetta fjarstæðukennt.
Með tilgreindum samningi hafi stefndi leyst til sín, umfram skyldu og án nokkurrar viðurkenningar, þær eignir og umbætur stefnanda sem þar séu tilgreindar. Umfram skyldu hafi hann leyst til sín umræddar eignir meðal annars vegna þess að um sé að ræða hús og önnur þau mannvirki sem unnt verði að nýta áfram þó svo að á sumum þeirra verði að framkvæma miklar breytingar enda ljóst að engin eftirspurn sé eftir þeim til þeirra nota sem stefnandi hafi haft af þeim. Telur stefndi að dómstóllinn sé eftir sem áður bær til þess að endurmeta kaupskyldu í heild þó svo úrlausn hans taki, vegna málsforræðis eingöngu til þeirra eigna sem eftir standi ágreiningur um, auk þess sem um þær gildi þau sérsjónarmið sem rakin hafi verið.
Hvað vörslur hinna umdeildu eigna varðar vísar stefndi til þess að hann hafi frá upphafi hafnað móttöku þeirra og ítrekað krafist þess að stefnandi fjarlægði þær af jörðinni. Sé og minnt á þá staðreynd að í kjölfar bréfs lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda 20. ágúst 1999 hafi engin formleg mótmæli borist frá stefnanda, þó svo óljós andmæli í þá veru væru síðar reifuð í greinargerð hans til yfirúttektarnefndar þann 13. september 1999. Sé þannig ljóst að stefnandi hvorki gat né geti nú knúið stefnda gegn vilja sínum til vörslu umræddra eigna. Stefndi hafi þannig aldrei tekið við vörslum umræddra eigna og vísi því allri ábyrgð á þeim á stefnanda.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda af þeim ástæðum sem nú hafi verið raktar byggir stefndi á því að kröfugerð stefnanda sé með þeim hætti að ekki sé unnt að fallast á dómkröfur hans að óbreyttu og verði að sýkna stefnda að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. einkamálalaga. Samkvæmt niðurstöðu yfirúttektarnefndar hafi stefnda borið að greiða stefnanda krónur 26.867.000. Þar af hafi hann þann 19. júní 2000 greitt krónur 16.886.000. Sé stefndi því í fullum skilum samkvæmt 2. mgr. 16. gr. ábúðarlaga, sem leiði þá þegar til sýknu, að minnsta kosti að svo stöddu. Burtséð frá þeirri staðreynd sé engin gjaldfellingarheimild fyrir hendi, svo sem ráðgert sé í aðalkröfu stefnanda. Þá fái dráttarvaxtakröfur stefnanda ekki staðist. Í fyrsta lagi sé útilokað að átta á því á hverju upphafs- og viðmiðunardagar dráttarvaxtaálagningar byggi og í öðru lagi hafi, á sama tíma og krafist sé dráttarvaxta, hvílt á eigninni yfir 15 milljónir króna sem engin tilraun hafi verið gerð af hálfu stefnanda til að skýra hvernig yrði aflétt eða ráðstafað. Þá fái varakrafa stefnanda ekki staðist þar sem engin lagaskylda sé til útgáfu skuldabréfs vegna þessarar lögskipta, sbr. skýran texta 2. mgr. 16. gr. ábúðarlaga og séu fyrirmæli í yfirúttektargerð hvað þetta snerti án nokkurrar lagastoðar.
Kröfu sína um málskostnað úr hendi stefnanda styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129 og 130. gr.
V
Eins og rakið hefur verið lýtur ágreiningur milli aðila málsins fyrst og fremst að því hvort stefnda sé skylt að leysa til sín allar eignir stefnanda á jörðinni Dyrhólum í Mýrdalshreppi, en stefndi hefur hafnað kaupskyldu að gróðurhúsum og ýmsum búnaði þeim tengdum. Eignir þær sem stefndi hafnar kaupskyldu að eru; gróðurhús við íbúðarhús, gróðurhús við borholu, úðunarkerfi í gróðurhúsum, gróðurrammar, borholur, dælubúnaður, kaldavatnslagnir, rafstöð og rafstrengur, allt metið af yfirúttektarmönnum í matsgerð dagsettri 14. október 1999 á krónur 9.981.000 og kveðið á um það í matsgerðinni að stefnda sé skylt að leysa til sín þessar eignir á því verði.
Stefnandi heldur því fram að samkvæmt 16. gr. ábúðarlaga sé skýrt að úttektarmenn eigi alfarið og endanlegt mat um það hvaða framkvæmdir og umbætur séu kaupskyldar á jörð og á hvaða verði. Þeirri niðurstöðu verði ekki breytt af dómstólum. Það sé ekki hlutverk dómstóla að breyta ákvörðun yfirúttektarmanna um hvaða eignir séu kaupskyldar samkvæmt ábúðarlögum. Ekki verður fallist á það með stefnanda að niðurstaða yfirúttektarmanna í málinu bindi hendur dómara varðandi sönnunarmat og á það undir dómstóla að meta hvort niðurstaða nefndarinnar sé byggð á lögmætum grunni.
Eins og ítrekað hefur komið fram er í máli þessu fyrst og fremst tekist á um kaupskyldu stefnda á gróðurhúsum og tilheyrandi búnaði í eigu stefnanda. Þar sem ákvæði ábúðarlaga sem fjalla um skyldu landsdrottins til kaupa á eignum leiguliða er íþyngjandi fyrir landsdrottin verður við mat á skilyrðum og umfangi kaupskyldu að horfa sérstaklega til þeirrar verndar sem eignarréttindi njóta samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og þykir því verða að skýra ákvæði ábúðarlaga um kaupskyldu þröngt.
Í málinu liggur fyrir að stefnandi lét reisa umrædd hús og búnað án þess að leita eftir formlegu samþykki stefnda og jafnframt er ljóst af gögnum málsins að umræddar framkvæmdir stefnanda fóru ekki fram hjá stefnda og hann gerði ekki athugasemdir vegna þeirra. Í 3. mgr. 12. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 segir að ef leiguliði vilji auka húsakost ábúðarjarðar sinnar og hans teljist þörf að mati viðkomandi héraðsráðunautar og byggingafulltrúa en landsdrottinn vilji ekki kosta auknar byggingaframkvæmdir sé leiguliða heimilt að byggja eftir að hafa sannanlega tilkynnt landsdrottni, enda sé gerð bygginga og fyrirkomulag samþykkt af byggingafulltrúa viðkomandi héraðs og jarðarnefnd. Þá segir í 13. gr. laganna að vilji leiguliði gera meiriháttar jarðarbætur, skuli hann leita samkomulags og samþykkis landsdrottins og fara fram á að hann láti gera jarðarbæturnar á sinn kostnað en ef sá vilji það ekki sé leiguliða það heimilt ef jarðarbótin er samkvæmt skriflegu áliti hlutaðeigandi héraðsráðunautar álitleg til að gefa góðan arð.
Ef bygging umræddra gróðurhúsa telst aukning á húsakosti á jörðinni er ljóst að stefnandi gætti hvorki skýrra fyrirmæla 3. mgr. 12. gr. ábúðarlaganna um að fá mat héraðsráðunautar og byggingafulltrúa á þörfinni fyrir byggingu þeirra né gætti hann þess að tilkynna sannanlega landsdrottni um þessa fyrirætlan. Þykir þessu fortakslausa ákvæði laganna ekki fullnægt með því að einhverjir á vegum stefnda vissu eða máttu vita um hvaða framkvæmdum stefnandi stóð fyrir. Ef einhverjar þær framkvæmdir stefnanda á jörðinni sem um er deilt í málinu teljast falla undir meiriháttar jarðarbætur, hefði stefnandi þurft, samkvæmt 13. gr. ábúðarlaganna, að leita samþykkis landsdrottins eða fá skriflegt álit héraðsráðunautar á kostum þess en það gerði stefnandi ekki.
1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga hljóðar svo: “Nú á fráfarandi leiguliði hús, hlut í húsum eða umbætur á jörð, og er það til frambúðar haganlega fyrirkomið og nauðsynlegt til búrekstrar á jörðinni, að dómi úttektarmanna, og skal þá landsdrottni skylt að kaupa þær eignir fráfaranda því verði, er úttektarmenn meta, enda séu þá hús jarðarinnar og önnur mannvirki ekki meiri og dýrari en svo, að jörðina megi leigja fyrir hæfilegt afgjald, að mati úttektarmanna. Séu hús ekki nauðsynleg vegna almenns búrekstrar, skal taka tillit til þess við mat þeirra og þau metin lægra verði en hin nauðsynlegu jarðarhús. Landsdrottni er einnig skylt að kaupa ræktun, sem fráfarandi hefur látið gera.” Eftir orðanna hljóðan þessa ákvæðis skulu úttektarmenn meta hvort hús, hluti í húsi eða umbætur á jörð, sé haganlega fyrirkomið og nauðsynleg til búrekstrar. Meti úttektarmenn að þessi tvö skilyrði séu fyrir hendi er jarðareiganda skylt samkvæmt ákvæðinu að kaupa viðkomandi eignir á því verði sem úttektarmenn meta, enda séu eignir þessar ekki dýrari en svo að jörðina megi leigja fyrir hæfilegt afgjald að mati úttektarmanna.
Eins og rakið hefur verið fór fram úttekt á eignum stefnanda í tengslum við ábúðarlok hans og var fyrri matsgerð dagsett 1. júlí 1999. Í matsgerðinni kemur fram að erindi úttektarmanna, Steingríms Lárussonar og Benedikts Lárussonar sé að gera mat á mannvirkjum að Dyrhólum vegna ábúðarloka stefnanda. Matsgerð þessi ber ekki með sér að ákvæðum ábúðarlaga um framkvæmd slíks mats hafi verið framfylgt og ekki er í matsgerðinni gerð tilraun til þess að rökstyðja niðurstöðu á verðmati eigna. Þá verður heldur ekki af henni ráðið að lagt hafi verið mat á það hvort eignum þeim sem um er deilt í málinu væri haganlega fyrirkomið eða hvort þær væru nauðsynlegar til búrekstrar.
Aðilar málsins sættu sig ekki við þessa matsgerð og krafðist stefnandi yfirmats hluta þeirra eigna sem metnar voru en stefndi krafðist aðallega að fram færi ný úttekt þar sem úttektin fullnægði ekki lágmarksskilyrðum ábúðarlaga en gerði þær kröfur til vara að fram færi yfirmat. Varð það niðurstaðan að yfirmat fór fram og er yfirúttektargerðin sú matsgerð sem tekist er á um í þessu máli og verður því ekki frekar um hina fyrri fjallað.
Stefndi hefur haldið því fram að skilyrði 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga um nauðsyn til búrekstrar sæti þröngri túlkun og nái eingöngu til hefðbundins búskapar, ekki til svo sérhæfðrar atvinnustarfsemi sem matjurtaframleiðsla sé. Yfirúttektarnefndin leit svo á að við mat á stöðu umþrættra mannvirkja yrði fyrst að horfa til þess hvað teldist hefðbundinn landbúnaður. Fram yfir miðja öldina hafi í þessu efni verið átt við hefðbundinn kúa- kinda- hrossabúskap og sé reyndar svo enn í daglegu tali. Telur nefndin að við skoðun á landbúnaðarlöggjöfinni verði ekki dregin sú ályktun að löggjafinn líti eingöngu á framangreint sem hefðbundinn landbúnað og vísar því til stuðnings til 22. gr. jarðarlaga nr. 65/1976 þar sem er að finna nokkra skilgreiningu á búvöruframleiðslu sem tengd er landbúnaði og er þar upptalið ylrækt, garðrækt, loðdýrarækt og fleira. Í lögum nr. 56/1987 um jarðrækt eru ræktun og byggingar í þágu “hefðbundins búskapar” lagðar að jöfnu við garðrækt. Var það niðurstaða yfirúttektarnefndar að augljóst væri að búskapur sá sem stefnandi stundaði á ábýlisjörð sinni væri hefðbundinn búskapur. Það er mat hinna sérfróðu meðdómsmanna að það sé engum vafa undirorpið að grænmetisræktun sé hefðbundinn landbúnaður enda fær sú niðurstaða stuðning í framgreindum lögum. Það er því mat dómsins að búskapur sá sem stefnandi hafði með höndum á Dyrhólum hafi verið hefðbundinn landbúnaður, eða búrekstur í skilningi 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga.
Þá kemur til skoðunar skilyrði 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaganna um hvort umræddum eignum sé haganlega komið til frambúðar. Í títtnefndri yfirúttekt kemur fram að við mat á gróðurhúsunum verði við það miðað sem fram komi hjá stefnanda og ekki hafi verið mótmælt af stefnda, að þau geti staðið án mikils viðhalds í að minnsta kosti 15 ár og séu “rammlega niðurfest”. Því verði að telja húsunum komið haganlega fyrir til frambúðar ásamt því vökvunarkerfi sem í þeim sé. Sama eigi við um borholur, veg, vatnslögn og raflögn. Verði rafstöðin og gróðurrammarnir tveir hins vegar að teljast lausafé.
Af gögnum málsins verður ráðið að uppbygging gróðurhúsanna er þannig að lagðir eru plankar 2” x 5” á jörðina, þeir skeyttir saman og ofan á þá koma ¾” rör, og á rörin er strengdur plastdúkur. Grundunin er þannig að plankabútar eru grafnir í jörð sem jarðfestur og þau tengd við plankana með teinum. Gróðurhús þau sem um er fjallað í máli þessu eru ekki fest með varanlegum sökklum og er allur umbúnaður grundunar lítt varanlegur með tilliti til endingar þar sem jarðfestur eru ekki fúavarðar og timbur sem liggur í jörð fúnar mjög fljótt. Þá bera gögn málsins ekki með sér að grind húsanna sé varanleg, heldur þvert á móti styður vitnisburður Sveins Pálssonar byggingarfulltrúa að svo sé ekki, en hann bar fyrir dómi að húsin hafi stórskemmst undan snjó í fyrravor. Þessi fullyrðing er ekki studd frekari gögnum en hún hefur ekki verið vefengd.
Í matsgerð yfirúttektarmanna kemur fram að umrædd gróðurhús og það sem þeim fylgi væri unnt að flytja en það væri mikil vinna og vegna umbúnaðar húsanna væri hætta á skemmdum við upptöku og flutning þeirra. Þá staðfesti stefnandi það fyrir dómi að húsin væri unnt að flytja þótt líklega færu einhver verðmæti í súginn við flutningana. Þá er það mat Sveins Pálssonar byggingarfulltrúa og Sigurðar Ævars Harðarsonar húsasmiðs að unnt sé að færa þessi hús, en Sigurður Ævar tók þátt í að reisa þau. Þá liggur fyrir að það sem líklegast færi forgörðum væri plastdúkur sá sem strengdur er yfir járnbogana. Nú liggur ekki fyrir hvaða tegund af plastdúk notaður var í þessu tilviki en það er álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að ending plastdúks til þessara nota sé almennt talin vera sjö ár. Miðað við það að stærstu húsin séu reist á árunum 1994-1996 mun dúkurinn á þeim vera að nálgast endingartíma sinn. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að umræddum gróðurhúsum sé ekki til frambúðar haganlega fyrirkomið.
Hvað snertir gróðurrammana tvo þá kemur það fram í gögnum málsins að þeir eru festir niður á svipaðan hátt og gróðurhúsin auk þess sem yfirúttektarnefnd tekur það sérstaklega fram að þeir séu, ásamt rafstöðinni, lausafé. Verður því með sömu rökum og varðandi gróðurhúsin, slegið föstu að umræddum gróðurrömmum sé ekki haganlega til frambúðar fyrirkomið.
Hvort umrædd gróðurhús séu nauðsynleg til áframhaldandi búrekstrar segir í matsgerð yfirúttektarnefndar að horfa verði fyrst til þess, að miðað við núverandi búskaparhætti, lífræna grænmetisræktun, muni húsin vera nauðsynleg, og auk þess muni uppskera verða betri þeirra vegna en ella. Hins vegar liggi fyrir að grænmeti sé hægt að rækta á jörðinni án gróðurhúsanna, en þá verði uppskeran minni. Þá muni rafstöðin vera nauðsynleg til að knýja dæluna er dæli vatni úr kaldavatnsborholunni sem sjái bænum og gróðurhúsunum fyrir vatni. Það var því niðurstaða nefndarinnar að stefndi ætti að leysa til sín gróðurhúsin, úðunarkerfi, borholu, dælu, rafstöð og raflagnir. Við mat þeirra var þó tekið tillit til þess að þau væru ekki bráðnauðsynleg til grænmetisræktunar og þau því metin niður. Hvað snerti raflagnir frá rafstöð að íbúðarhúsi, sem ekki séu tengdar en niðurgrafnar og haganlega fyrir komið verði að telja að þær geti nýst nýjum ábúanda Um gróðurramma gildi sömu rök og varðandi gróðurhúsin. Var það því niðurstaða nefndarinnar að stefndi skyldi leysa til sín framangreindar eignir.
Eins og að framan er rakið kemur fram í matsgerð yfirúttektarnefndar ýmist að umrædd gróðurhús séu nauðsynleg til áframhaldandi búrekstrar eða að þau séu ekki bráðnauðsynleg til grænmetisræktunar. Er ljóst að ef umrædd gróðurhús eru ekki nauðsynleg til grænmetisræktunar verður því ekki slegið föstu að þau séu nauðsynleg til áframhaldandi búrekstrar, þótt augljóst sé að notagildi þeirra er mikið í slíkri ræktun sem stefnandi hafði með höndum. Í 2. ml. 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga er sérstaklega tekið fram að ef hús eru ekki nauðsynleg vegna almenns búrekstrar skuli taka tillit til þess við mat og þau metin lægri. Þetta ákvæði sýnist einungis varða hvernig meta skuli til verðs ákveðnar eignir, sem landsdrottni verður ekki, samkvæmt ófrávíkjanlegum skilyrðum 1.ml. ákvæðisins, gert skylt að kaupa. Með vísan til þess sem greinir í matsgerð um að umrædd hús séu ekki bráðnauðsynleg til grænmetisræktunar svo og þess sem fram kemur hjá stefnanda sjálfum þykir sannað að þau eru ekki nauðsynleg til áframhaldandi búreksturs á jörðinni. Með sömu rökum verða gróðurrammarnir ekki taldir nauðsynlegir til áframhaldandi búreksturs á jörðinni.
Í 3. mgr. 16. gr. ábúðarlaga segir: “Þau hús, sem ekki teljast nauðsynleg til búrekstrar og unnt er að flytja, er jarðareigandi ekki skyldugur að kaupa af fráfaranda. Verði ekki samkomulag um kaup á þeim, hefur fráfarandi rétt til að flytja þau af jörðinni eða selja þau öðrum til brottflutnings.....”
Af því sem nú hefur verið rakið er ljóst að skilyrðum kaupskyldu 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga ekki fullnægt í málinu hvað snertir gróðurhúsin og gróðurramma. Eru eignir þessar flytjanlegar og þykir því ekki skipta máli hér að stefnandi leitaði ekki eftir formlegu samþykki fyrir byggingu þeirra, enda leit stefndi svo á að hús þessi væru þannig úr garði gerð að ekki þyrfti samþykki fyrir byggingu þeirra og gerði ekki athugasemdir við þessar framkvæmdir. Þá voru hús þessi ekki skráð í fasteignamat eða þinglýsingarbækur sem rennir stoðum undir framangreindan skilning.
Þegar af þeirri ástæðu að stefnda verður ekki gert að skylt að leysa til sín umrædd gróðurhús verður honum ekki gert skylt að kaupa þann búnað sem fylgir umræddum gróðurhúsum óumdeilanlega. Í því sambandi er um að ræða borholur, sem eru í þessu tilliti háðar gróðurhúsunum og óþarfar ef gróðurhúsin fara og á sama hátt verða því úðunarkerfi, dælubúnaður og vatnslagnir óþörf. Hvað snertir rafstöð þá liggur fyrir í matsgerð að hún er að mati yfirúttektarnefndar lausafé og verður auðveldlega flutt á brott. Þá er ljóst að mati dómsins að rafstöðin nýtist ekki nema fyrir þá tegund búskapar sem stefnandi hafði meðhöndum. Þá verður rafstrengur einungis nýttur með rafstöðinni. Verður stefnda því ekki gert skylt að leysa til sín þessar eignir.
Stefnandi hefur haldið því fram að með þeirri ákvörðun sem stefndi tók á fundi hreppsnefndar þann 24. janúar 2000 að hafna kaupskyldu á umræddum eignum hafi stefndi gengið á svig við skýra og ótvíræða lagaskyldu sína sem eigandi Dyrhóla og vísar í því sambandi til ábúðarlaga og niðurstöðu yfirúttektarnefndar Vestur-Skaftafellssýslu. Telur hann að stefnda hafi brostið nauðsynlega valdheimild til að taka þá ákvörðun þar sem hann sem opinber aðili verði að byggja ákvarðanir sínar á heimild í lögum. Málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti verður skilinn á þann veg að hér eigi hann við, að þar sem umrædd matsgerð yfirúttektarnefndar sé bindandi um kaupskyldu, geti stefndi ekki tekið ákvörðun um að hafna kaupskyldu. Með vísan til niðurstöðu máls þessa, verður ekki fallist á það með stefnanda að með umræddri ákvörðun hafi stefndi gengið á svig við lagaskyldu sína. Þá felst það í niðurstöðu máls þessa að ekki er fallist á þá málsástæðu stefnanda að þar sem við verðmat hafi verið horft til framleiðslueiningarinnar í heild sé verið að fara á svig við eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar með því að fallast á að stefnda beri einungis að leysa til sín hluta eignanna.
Eins og nú hefur verið rakið eru umræddar eignir flytjanlegar þótt hætta kunni að vera á því að einhver rýrnun verði á verðmæti gróðurhúsanna. Ekkert liggur fyrir um það svo óyggjandi sé í hvaða ástandi eignir þessar eru. Ekki verður í máli þessu tekin afstaða til þeirra yfirlýsinga sem fram koma í stefnu um að stefndi beri ábyrgð á eignum þeim sem um er fjallað í máli þessu eða varðandi vangaveltur aðila um vörslur eignanna enda ekki umfjöllunarefni þessa máls og engar kröfur gerðar í málinu að þessu leyti.
Af öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu og kemur því ekki til umfjöllunar niðurstaða yfirúttektarnefndar um mat á umdeildum eignum.
Eftir atvikum þykir þó rétt að hvor aðili um sig beri ábyrgð á sínum málskostnaði.
Jón Höskuldsson hdl. flutti málið af hálfu stefnanda en Karl Axelsson hrl. af hálfu stefnda.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Gunnari M. Jónassyni og Gísla Guðmundssyni
D Ó M S O R Ð
Stefndi Mýrdalshreppur skal vera sýkn af kröfum stefnanda Stefáns Gunnarssonar í málinu.
Málskostnaður fellur niður.