Hæstiréttur íslands
Mál nr. 535/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 19. desember 2005. |
|
Nr. 535/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Böðvar Bragason lögreglustjóri) gegn X (Herdís Hallmarsdóttir hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 22. desember 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 22. desember 2005 kl. 16:00.
Í greinargerð rannsóknara kemur fram að Lögreglan í Reykjavík hafi nú til rannsóknar fimm kærur á hendur kærða fyrir kynferðisbrot gagnvart fimm nafngreindum unglingsstúlkum á aldrinum 14-15 ára sem nánar er lýst í greinargerðinni. Eru ætluð brot kærða talin framin á tímabilinu frá 29. september til 12. desember sl. Í greinargerðinni segir að rannsókn vegna þeirra brota kærða sem talin eru hafa verið framin í lok nóvember og 12. desember sl. sé á frumstigi og ljóst sé að lögreglan eigi mikla rannsóknarvinnu fyrir höndum í þeim málum. Taka þurfi skýrslur af brotaþolum fyrir dómi og taka skýrslur af vitnum. Talið sé að þrír vinir eða kunningjar kærða hafi verið á vettvangi í einhverjum tilvikum og eigi lögreglan enn eftir að hafa upp á þeim. Þá þurfi lögregla að nálgast gögn á neyðarmóttöku og að lokum þurfi að yfirheyra kærða á ný þegar skýrslur hafa verið teknar af stúlkunum fyrir dómi.
Rannsóknari vísar til þess að kærði liggi undir rökstuddum grun um alvarleg kynferðisbrot gagnvart fimm unglingsstúlkum á rúmum tveimur mánuðum. Ef kærði haldi frelsi sínu nú hafi hann tök á því að torvelda rannsókn málsins, t.d. með því að hafa áhrif á vitni og jafnvel skjóta undan sönnunargögnum. Að mati lögreglu beri því brýna nauðsyn til að hann sæti gæsluvarðhaldi meðan rannsókn málsins fer fram. Vísað er til XXII. kafla hegningarlaga, þar á meðal 194. gr. og 3. mgr. 202. gr., um ætluð brot kærða. Með vísan til framanritaðs og a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 er þess krafist að framangreind krafa verði tekin til greina eins og hún er fram sett.
Af hálfu kærða er einkum vísað til þess að ekki sé fyrir hendi rökstuddur grunur um brot er varðað geti fangelsi. Er vísað til framburðar kærða fyrir lögreglu í þessu sambandi. Þá telur kærði að lögreglu hefði verið í lófa lagið að yfirheyra vitni, svo sem unnustu kærða, í dag á meðan kærði var handtekinn. Telur kærði að ekki sé uppfyllt skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi samkvæmt a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 og vísar m.a. til dóms Hæstaréttar 17. desember 2003 í máli nr. 478/2003 því til stuðnings.
Í máli þessu liggur fyrir rökstuddur grunur um að kærði hafi framið fleiri brot sem varðað geta við 194. gr. og 3. mgr. 202. gr. hegningarlaga. Rannsókn lögreglunnar lýtur m.a. að ætluðum verknaði kærða 12. desember sl. sem kann að varða við 194. gr. eða 2. mgr. 202. gr. hegningarlaga, og kærður var til lögreglu fyrr í dag. Dómari fellst á það að rannsóknarhagsmunir málsins geri það nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Er því fullnægt skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds og er gæsluvarðhaldi markaður hæfilegur tími í kröfu rannsóknara. Verður hún því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 22. desember 2005 kl. 16:00.