Hæstiréttur íslands
Mál nr. 355/2004
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 3. febrúar 2005. |
|
Nr. 355/2004. |
K (Ólafur Sigurgeirsson hrl. Benedikt Ólafsson hdl.) gegn M (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) |
Börn. Forsjá. Gjafsókn.
M og K deildu um forsjá þriggja ára sonar síns, B. Voru þau bæði talin hæf til að fara með forsjá B, en ekki var annað komið fram en að þau önnuðust hann vel. Á því var byggt að B liði vel hjá foreldrum sínum, hvoru um sig, og um gagnkvæman kærleika væri að ræða. Á hinn bóginn hefði það sem minnsta röskun í för með sér ef B dveldist áfram hjá M þar sem hann hafði dvalið í nærfellt eitt ár, auk þess sem framtíðaráform M væru tryggari. Var M því falin forsjá B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. ágúst 2004. Hún krefst þess að sér verði dæmd forsjá sonar málsaðila, B. Þá krefst hún þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað að því er hana varðar, en stefndi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar hans hér fyrir dómi.
Samkvæmt málflutningi áfrýjanda fyrir Hæstarétti hafa þær breytingar orðið á högum hennar frá því, sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi, að hún er ekki lengur í sambúð og býr nú í leiguhúsnæði, sem hún deilir með vinkonu sinni. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti, en um gjafsóknarkostnað þeirra fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður málsaðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, 250.000 krónur til hvors um sig.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2004.
I
Málið var höfðað 14. júlí 2003 og upphaflega tekið til dóms 28. apríl sl. Það var endurupptekið og tekið til dóms að nýju í dag.
Stefnandi er K, [...].
Stefndi er M, [...].
Stefnandi krefst þess að hún ein fái forsjá sonar hennar og stefnda, B sem fæddur er 30. desember 2001. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst þess að honum verði dæmd forsjá drengsins. Þá krefst hann málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
II
Málavextir eru þeir að stefnandi, sem er [erlendur] ríkisborgari, kom til Íslands í maí árið 2000 [...]. Á [...] kynntist hún stefnda og leiddu þau kynni til þess að þau gengu í hjónaband 23. ágúst sama ár. Fyrstu mánuði hjónabandsins virtist allt leika í lyndi en í apríl 2001 fór stefnandi af landi brott og til [...]. Kveðst hún hafa verið að flýja undan stefnda, sem hafi beitt sig ofbeldi, en hann hefur ekki kannast við það. Áður en stefnandi fór til [...] var hún orðin þunguð af syni þeirra, sem þau deila um forræðið yfir. Stefnandi ól drenginn í [...] en kom til Íslands þegar hann var hálfs árs og tók aftur upp sambúð með stefnda.
Aðilar bjuggu svo saman fram á mitt sumar 2003 en þá kveðst stefndi hafa komist að því að stefnandi átti í ástarsambandi við annan mann. Hann kvaðst þá hafa slitið sambandinu við hana, sett eigur hennar út fyrir dyr þar sem hún hafi sótt þær, en haldið drengnum eftir hjá sér og hefur hann þaðan í frá búið hjá stefnda. Stefnandi kveðst hafa tekið upp samband við annan mann eftir að hún hætti að elska stefnda, sem hafi vísað sér á dyr en haldið drengnum eftir hjá sér. Fyrst hafi hún ekki fengið að umgangast drenginn, en 7. ágúst 2003 sömdu aðilar um umgengni til bráðabirgða. Samkvæmt samkomulaginu fer drengurinn til móður sinnar aðra hverja helgi á föstudagseftirmiðdegi og er þar fram á sunnudagskvöld og hefur svo verið síðan. Einnig annan hvern mánudag frá því að daggæslu lýkur og til kl. 20.00. Með úrskurði Héraðsdóms 19. september sl. var ákveðið að stefndi færi með forsjá drengsins til bráðabirgða.
III
[...]
Niðurstöður matsmannsins eru þessar:
"1. Hæfni foreldra til að fara með forsjá barnsins og skilningur þeirra á þörfum þess.
Matsmaður telur báða foreldra hæfa til að fara með forsjá barnsins.
Uppeldisviðhorf móður og mat á þörfum barnsins virðast ekki einkennast af þroska og taka meira mið af þörfum móðurinnar en barnsins. Það kann að skýrast af því hversu stutt hún er með barnið hverju sinni. Tengsl hennar við barnið virðast náin og góð og hún sinnir barninu af ástúð, hlýju og góðri líkamlegri nærveru. Viðhorf hennar til barnsins og umönnunar þess eru jákvæð.
Tengsl M við B eru greinilega mjög góð. Hann vill sinna drengnum vel og leggur sig fram við umönnun hans. M er þó greinilega óvanur barnauppeldi og þyrfti leiðbeiningar og fræðslu þar um. Hann hefur sýnt að hann taki ráðleggingum og vilji vera í góðu samstarfi við dagmæður.
2. Tilfinningalegt samband og tengsl á milli hvors foreldris og barnsins.
Báðir foreldrar lýsa yfir innilegri væntumþykju í garð barnsins og engar forsendur eru til að efast um jákvæðar tilfinningar þeirra.
Tengsl barnsins voru ekki metin á annan hátt en með því að horfa á samskipti barnsins og foreldranna. Í báðum tilvikum leitaði barnið til foreldranna, settist í fang þeirra og reyndi að ná athygli þeirra eða eiga við þau samskipti á eðlilegan hátt. Barnið virðist því vel tengt báðum aðilum.
3. Hverjar eru félagslegar aðstæður foreldranna með tilliti til heimilisaðstæðna, atvinnu og framtíðaráforma.
Aðstæður foreldra eru nokkuð ólíkar. Móðir er í sambúð með manni og saman leigja þau ágæta íbúð í [...] ásamt vini mannsins. Þau hafa eitt svefnherbergi til umráða en stofa, eldhús og bað eru sameiginleg. Ekki er líklegt að breyting verði á íbúðarmálum móður. Móðir er atvinnulaus og fær atvinnuleysisbætur. Henni hefur gengið illa að halda á vinnu og stundar nú íslenskunám. Framtíðarhorfur móður verða að teljast fremur óljósar.
Faðir býr í þriggja herbergja leiguíbúð í [...] og segist leigja hana þar til hann kaupir sér íbúð sem hann vonast til að geta orðið síðar á þessu ári. Hann er [...] og tekjur að hans sögn eru góðar. Þrátt fyrir að faðir eigi sögu um ístöðuleysi varðandi atvinnu og húsnæðismál hefur orðið marktæk breyting á til batnaðar. Framtíðarhorfur hans verða þó einnig að teljast óljósar.
4. Andleg og líkamleg heilsa og persónulegir hagir foreldra. Andleg og líkamleg heilsa barnsins.
[...].
Barnið hefur átt við þrálát veikindi að stríða undanfarna mánuði. Um hefur verið að ræða kvef- og umgangspestir. Slík veikindi geta átt sér eðlilegar skýringar og ekki á sviði matsmanns að úrskurða um hvort veikindin hafi verið óeðlileg. Báðir aðilar hafa ásakað hinn um að hugsa ekki nógu vel um barnið; ekki klætt það rétt, haldið því innivið eða gefið því óhollan mat. Matsmaður á erfitt með að meta hvað eða hvort eitthvað sé rétt í þeim ásökunum. Barnið er seint til máls. Á þessu getur verið eðlileg skýring en einnig gæti haft áhrif að barnið býr við ólík tungumál og málfarsleg örvun því ekki rétt.
5. Hvernig háttað er uppeldisaðstæðum hjá hvoru foreldri fyrir sig.
Móðir býr í leiguíbúð ásamt sambýlismanni og vini hans. Hún og sambýlismaður hennar hafa eitt svefnherbergi til umráða en a.ö.l. er íbúðin sameiginleg. Þegar barnið er hjá móður sefur hann í sérrúmi í svefnherbergi þeirra. Ekki er mikið um leikföng en íbúðin er þægileg og getur fullnægt þörfum fjölskyldu með barn. Að sögn móður er stutt í leikskóla og þangað vill hún að barnið fari.
Faðir býr einn í þriggja herbergja leiguíbúð. Barnið hefur sérherbergi. Þar er rúm, skápur og talsvert af leikföngum. Barnið virðist einnig leika sér í stofunni. Barnið er hjá dagmæðrum stutt frá heimili föður og fer í leikskóla í sama hverfi innan tíðar.
6. Núverandi umgengni og hvort foreldri er líklegra til að viðhalda eðlilegri umgengni við barnið til frambúðar.
Eftir að bráðabirgðaúrskurður um umgengni var gerður hefur umgengni að mestu fylgt honum. Móðir hefur þó ekki alltaf sinnt því að taka barnið á mánudögum og ekki fylgt tímamörkum hvað varðar að sækja barnið og skila. Móðir hefur borið ýmsu við m.a. því að faðir sé erfiður í samskiptum. Greinileg togstreita er á milli foreldra og reyna bæði að gera hitt tortryggilegt.
Bæði segjast ætla að virða almenna umgengnissamninga ef þau fá forsjá barnsins. Matsmaður telur að móðir hafi nokkuð til síns máls hvað varðar að faðir hafi gert henni umgengni erfiða. Úr því mætti bæta. Matsmaður telur einnig að faðir hafi nokkuð til síns máls varðandi að erfitt sé að treysta móður varðandi umgengni hans við barnið ef hún fær forsjá þess.
IV
Stefnandi byggir á því að hún sé hæfari til að fara með forsjá drengsins og honum sé fyrir bestu að henni verði falin forsjá hans. Vísar hún til þess að það sé meginreglan að móðir fái forsjá barna við skilnað, sérstaklega þegar þau séu jafnung og drengurinn sé.
Stefndi byggir á því að hann sé hæfari til að fara með forsjá drengsins. Hann hafi nú annast um hann frá miðju sumri 2003 og sýnt að hann sé fullfær um það. Stefndi byggir á því að hann búi við góðar aðstæður og sé í vinnu. Drengnum sé því fyrir bestu að hann verði áfram hjá sér, enda raskist líf hans minnst við það.
V
Hér að framan var gerð grein fyrir álitsgerð sálfræðings sem athugaði aðilana, aðstæður þeirra og viðhorf. Það var niðurstaða hans að bæði væru hæf til að fara með forsjá sonar þeirra. Af álitsgerðinni verður þó ráðið að allnokkur munur sé á aðstæðum aðila, sem ekki verður eingöngu skýrður með því að stefnandi er erlend og á því ef til vill undir högg að sækja hér á landi með ýmsa hluti, er stefnda eru auðveldari viðfangs. Þannig kemur fram að hún hefur átt erfitt með að fá vinnu og endast í henni þegar hún hefur boðist. Þá virðist hún einnig hafa lítinn áhuga á íslenskunámi en hyggst þó búa hér á landi til frambúðar. Ýmislegt er óljóst um atvinnu og tekjuöflun stefnda og hafa ekki verið lögð fram opinber gögn, er styðja fullyrðingar hans um að hann afli mikilla tekna. Hins vegar er ekkert annað komið fram í málinu en að báðir aðilar annist vel um drenginn þegar hann er hjá þeim. Fullyrðingar hvors þeirra um hið gagnstæða eru engum rökum studdar. Þá bendir álitsgerð sálfræðingsins ekki til annars en að drengnum líði vel hjá foreldrum sínum, hvoru um sig, og um gagnkvæma ástúð sé að ræða.
Við úrlausn málsins ber að beita ákvæðum barnalaga nr. 20/1992. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. þeirra skal ráða ágreiningi um forsjá til lykta eftir því sem barni er fyrir bestu. Þegar virt er í heild sinni álitsgerð sálfræðingsins er það niðurstaða dómsins að drengnum sé fyrir bestu að stefndi fari með forsjá hans. Kemur þar einkum til að hann hefur sýnt að hann er fullfær um það og hefði það minnsta röskun í för með sér fyrir drenginn, sem hefur aðallega dvalist hjá stefnda í nærfellt eitt ár. Þá er það mat dómsins að afkoma stefnda sé tryggari en stefnanda, en framtíðaráform hennar eru óljós hvað atvinnu varðar og einnig búsetu, þrátt fyrir fullyrðingar hennar um hið gagnstæða.
Málskostnaður skal falla niður en gjafsóknarkostnaður aðila, þar með talin þóknun lögmanna þeirra, Ólafs Sigurgeirssonar hrl. og Guðmundar B. Ólafssonar hrl., 450.000 krónur til hvors, að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefndi, M, skal fara með forsjá B, kt. [...].
Málskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður aðila skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Ólafs Sigurgeirssonar hrl., 450.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og lögmanns stefnda, Guðmundar B. Ólafssonar hrl., 450.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.