Hæstiréttur íslands

Mál nr. 60/2011


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Örorka


                                                                                              

Fimmtudaginn 27. október 2011.

Nr. 60/2011.

Þór Rafnsson

(Kristján B. Thorlacius hrl.)

gegn

HB Granda hf.

(Kristín Edwald hrl.)

Líkamstjón. Skaðabætur. Örorka. Gjafsókn.

Þ varð fyrir líkamstjóni í vinnuslysi við störf hjá H. Fyrir Hæstarétti laut ágreiningur aðila að því hvort tjón Þ vegna varanlegrar örorku hefði verið bætt að fullu. Taldi Þ að miða ætti við tekjur hans hjá H fyrir slysið en ekki við meðaltekjur verkamanna svo sem gert hafði verið við uppgjör bóta. Féllst Hæstiréttur á það með héraðsdómi að ekki væru efni til að miða útreikning bóta við hærri árslaun en gert hafði verið af hálfu tryggingarfélags H, jafnvel þótt fallist yrði á það með Þ að skilyrði væru til að meta árslaun hans sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þyrfti því ekki að leysa úr því hvort skilyrði ákvæðisins um að meta árslaun sérstaklega væru uppfyllt. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um sýknu H.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason dómstjóri.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. janúar 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.930.015 krónur með 4,5% ársvöxtum  frá 13. ágúst 2007 til 28. apríl 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en áfrýjandi nýtur gjafsóknar á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Fyrir munnlegan flutning málsins í Hæstarétti féll áfrýjandi frá kröfu um endurskoðun á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um tímabundið atvinnutjón sitt í kjölfar slyss 8. desember 2006. Gerir hann því nú aðeins kröfu um það sem hann telur á vanta bætur til sín vegna varanlegrar örorku.

Óumdeilt er að greiðsla á bótum fyrir varanlega örorku áfrýjanda var miðuð við meðaltekjur verkamanna en ekki atvinnutekjur hans þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þetta var gert á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laganna, en stefndi kveðst hafa gert fyrirvara um að lagaákvæðið ætti við. Áfrýjandi byggir kröfu sína á því að miða beri við tekjur þær sem hann hafði í vinnu hjá stefnda fyrir slysið þar sem leggja megi til grundvallar að hann hefði lagt sjómennsku fyrir sig sem frambúðarstarf ef slysið hefði ekki orðið. Hann hóf starf hjá stefnda sem sjómaður í ágúst 2005 og starfaði hjá honum fram á árið 2007. Telur hann sig hafa orðið að hætta því starfi vegna slyssins.

Með vísan til þess sem fram kemur í forsendum héraðsdóms verður fallist á með stefnda að ekki væru efni til að miða útreikning bóta við hærri árslaun en réttargæslustefndi miðaði við, jafnvel þótt fallist yrði á það með áfrýjanda að skilyrði væru til að meta árslaun hans sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ber því ekki nauðsyn til þess í málinu að leysa úr því hvort síðast greint lagaákvæði eigi við um hagi áfrýjanda. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður felldur niður, sbr. 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 350.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2010.

Mál þetta, sem var dómtekið 28. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þór Rafnssyni, Þrastarási 46A, Hafnarfirði á hendur HB Granda hf., Norðurgarði 1, Reykjavík og til réttargæslu, Sjóvá Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til greiðslu skaðabóta vegna líkamstjóns af völdum vinnuslyss hinn 8. desember 2006. Stefna málsins var birt 19. maí 2010.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði stefnanda 2.053.868 kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af 123.853 kr. frá 8. desember 2006 til 13. ágúst 2007, af 2.053.868 kr. frá þeim degi til 28. apríl 2008, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá er krafist málskostnaðar, auk þóknunar samsvarandi virðisaukaskatti, eins og málið sé ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. Stefndi krefst þess til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar en réttargæslustefndi styður kröfur og málflutning stefnda.

Málavextir

Stefnandi er fæddur árið 1983. Hann hætti í skóla eftir grunnskóla og vann algeng verkamannastörf í landi, svo sem í sælgætisgerð og á pizzustað. Hann hóf störf á sjó seinni hluta ársins 2005. Hann var lögskráður í 47 daga árið 2005, í 178 daga árið 2006 og í 109 daga árið 2007.

Hinn 16. maí 2006 lenti stefnandi í vinnuslysi við störf hjá stefnanda og voru afleiðingar þess metnar í matsgerð Sigurðar Thorlaciusar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. frá 25. mars 2008. Bætur vegna þessa slyss hafa verið gerðar upp.

Hinn 8. desember 2006 lenti stefnandi aftur í slysi er hann var við störf í togaranum Ásbirni RE-5. Í nefndri matsgerð frá dags. 25. mars 2008 kemur fram að stefnandi hafi verið óvinnufær frá 8. desember 2006 til 2. janúar 2007 og frá 13. maí 2007 til 13. ágúst 2007. Tímabil þjáninga án rúmlegu var talið vera það sama og tímabil óvinnufærni. Þá var talið að varanleg örorka stefnanda væri 15% og varanlegur miski 10 stig.

Hinn 28. mars 2008 krafðist stefnandi bóta. Ágreiningur varð um forsendur útreiknings á tímabundnu atvinnutjóni stefnanda og á bótum fyrir varanlega örorku vegna seinna slyssins.

Hinn 8. maí 2008 voru bætur til handa stefnanda gerðar upp og honum greiddar 10.503.686 kr. Þar af voru 277.098 kr. greiddar vegna tímabundins atvinnutjóns og 8.546.493 kr. vegna varanlegrar örorku. Stefnandi tók við bótunum með fyrirvara um ofangreinda þætti. Hinn 9. október 2008 voru stefnanda greiddar 172.659 kr.

Ágreiningur málsins lýtur að bótum vegna tímabundins atvinnutjóns og bótum vegna varanlegrar örorku og þá hvort 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi við eða ekki.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á öllu því tjóni sem stefnandi varð fyrir í vinnuslysi hinn 8. desember 2006. Því til stuðnings vísar stefnandi til ákvæða 171. gr. siglingalaga nr. 34/1985, 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna skaðabótaréttar. Óumdeilt er í málinu að stefndi hefur greitt stefnanda fullar bætur fyrir tjón vegna miska, sbr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þjáninga, skv. 3. gr. sömu laga. Stefndi og réttargæslustefndi hafa hins vegar ekki bætt stefnda að fullu tjón hans vegna tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr. laga nr. 50/1993 og varanlegrar örorku skv. 5 - 6. gr., sbr. 7. gr. sömu laga.

Dómkröfur stefnanda byggja á matsgerð Sigurðar Thorlaciusar og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl., dags. 25. mars 2008, um 15% varanlega örorku og tímabundið atvinnutjón, en forsendur hennar og niðurstöður eru óumdeildar.

Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns

Stefnandi byggir kröfur sínar um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón á 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi telur að við útreikning á tímabundnu atvinnutjóni beri að miða við meðaltekjur stefnanda fyrir tímabilið 1. janúar 2006 og fram til 1. júní 2006, en það eru þær tekjur sem stefnandi hafði í fullu starfi hjá stefnda, fyrir fyrra slys hans hinn 16. maí 2006. Nánar tiltekið voru tekjur hans á þessu tímabili (219.950+525.545+469.828+684.538+460.711) 2.360.572 kr. eða (2.360.572/5) 472.114 kr. á mánuði. Ljóst er að stefnandi hugðist fara aftur til sjós á skipi stefnda. Telur stefnandi því umræddar tekjur hans hjá stefnda fyrir slysin endurspegla þær tekjur sem hann hefði haft við störf sín um ókomna tíð og því þær tekjur sem stefnandi varð sannanlega af við slysið. Telur stefnandi því að miða beri við umræddar tekjur við ákvörðun tímabundins atvinnutjóns.

Fyrir liggur í málinu að stefnandi varð fyrir slysi hinn 16. maí 2006 og var nokkuð frá vinnu vegna þess. Verður því ekki miðað við tímabilið eftir 16. maí og fram að síðara slysi stefnanda við útreikning á tekjutapi stefnanda, þar sem það endurspeglar ekki tekjur stefnanda í starfi hans hjá stefnda undir eðlilegum kringumstæðum.

Samkvæmt matsgerð Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. og Sigurðar Thorlaciusar læknis var tímabundin óvinnufærni stefnanda vegna slyssins 8. desember 2006, frá þeim degi til 2. janúar 2007 og síðan aftur frá 13. maí 2007 til 13. ágúst 2007. Stefnandi fékk fyrra tímabilið frá 8. desember 2006 til 13. maí 2007 greitt frá vinnuveitanda sínum, en hefur ekki fengið síðara tímabilið fullbætt. Stefnandi byggir á því að tímabundið tekjutap hans beri að reikna þannig að lögð verði til grundvallar meðalmánaðarlaun hans á tímabilinu 1. janúar til 31. maí 2006 og þau margfölduð með fjölda óvinnufærnimánaða á tímabilinu 13. maí 2007 til 13. ágúst 2007. Eins og áður hefur verið rakið voru tekjur hans á umræddu tímabili 2.360.572 kr. og meðal- mánaðarlaun hans 472.114 kr. Tímabundið atvinnutjón stefnanda var því (472.114x3) 1.416.342 kr. Stefndi og réttargæslustefndi hafa hins vegar eingöngu viljað greiða 1.292.489 kr. vega tímabilsins. Er stefnukrafa stefnanda vegna tímabundins tekjutaps því 123.853 kr. (1.416.342– 1.292.489).

Bætur vegna varanlegrar örorku

Stefnandi byggir sömuleiðis á því að stefndi og réttargæslustefndi hafi ekki bætt stefnanda að fullu tjón hans vegna varanlegrar örorku, skv. ákvæðum 5. og 6. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 7. gr. laganna. Óumdeilt er að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins 8. desember 2006 er 15%. Ágreiningur er hins vegar milli aðila um viðmiðunartekjur við útreikning á varanlegri örorku. Stefnandi telur að við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku beri að miða við tekjur stefnanda hjá stefnda, HB Granda ehf., á árinu 2006, en ekki meðaltekjur verkamanna eins og stefndi og réttargæslustefndi byggja bótauppgjör sitt á.

Stefnandi telur að við útreikning á árslaunum hans beri að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem tekjur hans þrjú síðustu árin fyrir slysin gefi verulega ranga mynd af þeim tekjum sem stefnandi var með þegar að slysin áttu sér stað og hefðu haldist hefði hann ekki slasast. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 eru tvö skilyrði fyrir því að árslaun við útreikning bóta fyrir varanlega örorku verði ákveðin sérstaklega, þ.e. að aðstæður hafi verið óvenjulegar og að þessar óvenjulegu aðstæður leiði til þess að árslaun sem meginreglan miðar við séu ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur, heldur sé annar mælikvarði réttari.

Fyrir liggur í málinu að stefnandi hafði unnið hjá stefnda, HB Granda hf., við sjómennsku frá seinni hluta ársins 2005 og þar til slysin áttu sér stað í maí og desember 2006. Hugðist stefnandi, sem var fastráðinn háseti, halda áfram störfum hjá stefnda um ókomin ár. Af skattframtölum stefnanda er ljóst að tekjur stefnanda hjá stefnda voru margfaldar þær tekjur sem hann hafði haft árin áður en að hann hóf störf hjá stefnda. Sömuleiðis er ljóst, að mati stefnanda, að hann hefði haldið tekjum sínum hjá stefnda um ókomin ár hefði slys hans ekki komið til. Ljóst er hins vegar að vegna varanlegrar örorku hans getur hann ekki starfað áfram hjá stefnda og verður þar af leiðandi af umræddum tekjum. Í ljósi þessa telur stefnandi ljóst að framtíðartekjutap hans sé mun meira en ef tekið er mið af meðallaunum verkamanna, eins og stefndu vilja gera, við útreikninga á varanlegri örorku.

Þá bendir stefnandi á að stefndi hafi ekki á nokkurn hátt sýnt fram á að tekjur stefnanda hjá stefnda hefðu orðið aðrar eða minni eftir slysið en tekjur hans fyrir slysið.

Stefnandi telur að við mat á því hvort óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og skilyrði 2. mgr. 7. gr. séu uppfyllt, beri að líta til þess hvort tekjur tjónþola hafi tekið verulegum breytingum þegar stefnandi hóf störf hjá stefnda árið 2005, eins og áður hefur verið rakið. Ef litið er til tekjusögu stefnanda þá voru tekjur hans 774.088 kr. árið 2003, 749.140 kr. árið 2004 og 1.228.955 kr. árið 2005. Hins vegar eru tekjur stefnanda árið 2006 rúmlega þrefaldar árstekjur ársins áður eða 4.195.789 kr. Engu að síður lenti stefnandi í tveimur slysum þetta árið og var lengi frá vinnu.

Að öllu þessu virtu telur stefnandi ljóst að skilyrði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 séu uppfyllt og því allar forsendur til að reikna árslaun hans á grundvelli ákvæðisins og þá miða við tekjur hans á árinu 2006, uppreiknaðar fram til stöðugleikapunkts auk álags vegna lífeyrissjóðsgreiðslna. Nánar tiltekið er tekjuviðmið til útreikninga örorkutjóns (4.195.789 x 292,7/321,1) = 4.602.897 + 276.174, þ.e. 4.879.071 kr. Samtals er því krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku (4.879.071x15,408x15%) 11.276.508 kr. Frá henni dragast greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, 627.341 kr., og innborganir stefnda inn á tjón stefnanda (8.546.493 + 172.659), 8.719.152 kr. Samtals er krafa stefnanda um eftirstöðvar bóta vegna varanlegrar örorku því (11.276.508 - 627.341 - 8.719.152), þ.e. 1.930.015 kr.

Stefnukrafa stefnanda er því samtals 2.053.868 kr. (123.853+1.930.015).

Kröfu um vexti af bótafjárhæðum byggir stefnandi á 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

Um lagarök er vísað til almennra reglna skaðabótaréttar, m.a. reglu þess efnis að tjónþoli eigi rétt á að fá tjón sitt að fullu bætt. Stefnandi vísar til 1.-7. gr. og 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá vísar stefnandi til 171. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Um varnarþing er vísað til ákvæða 33. gr. laga nr. 91/1991. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Málsástæður og lagarök stefnda

Aðalkrafa stefnda um sýknu er á því byggð að með þegar greiddum bótum sé tjón stefnanda að fullu bætt og eigi stefnandi ekki lögvarinn rétt til frekari bóta. Að mati stefnda hefur stefnandi, sem ber alfarið sönnunarbyrðina fyrir umfangi tjóns síns, ekki sannað að hann hafi orðið fyrir frekara tjóni en bætt hefur verið.

Ágreiningur málsaðila lýtur annars vegar að bótum vegna tímabundins atvinnutjóns og hins vegar að bótum vegna varanlegrar örorku, en bótaskylda stefnda er óumdeild.

Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns

Stefndi byggir á því að tjón stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns, sbr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, hafi nú þegar verið að fullu bætt. Með slíku tjóni er átt við tímabundinn missi launatekna tjónþola vegna líkamstjóns og er það stefnandi sem ber sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tekjutapi og fyrir umfangi slíks tjóns.

Til að meta tímabundið atvinnutjón stefnanda tók réttargæslustefndi saman yfirlit yfir launagreiðslur til staðgengils stefnanda á meðan stefnandi var óvinnufær. Samkvæmt yfirlitinu hefðu áætlaðar rauntekjur til handa stefnanda á því tímabili sem hann var óvinnufær numið 1.418.230 kr.

Það er óumdeilt að bætur til handa stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón sæta frádrætti, sem nemur þeim forfallalaunum, sem stefnandi hefur fengið greidd frá vinnuveitanda sínum á tímabilinu. Fyrir liggur að stefnanda voru greidd slysalaun í samræmi við 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 á meðan hann var óvinnufær, svo sem staðfest er í tilkynningu stefnda til réttargæslustefnda. Í samræmi við umrætt ákvæði fékk stefnandi 1.192.230 kr. greiddar frá stefnda á meðan hann var óvinnufær.

Með hliðsjón af upplýsingum um staðgengilslaun og greiðslur stefnda til stefnanda taldi réttargæslustefndi ljóst að stefnandi hefði orðið fyrir nettó-tekjutapi sem nemur 225.687 kr. (1.418.230 kr.(áætlaðar rauntekjur á tímabili) - 1.192.230 (launagreiðslur frá stefnda)). Engu að síður voru stefnanda greiddar 277.098 kr. og var látið við það sitja af hálfu réttargæslustefnda þó að um ofgreiðslu væri að ræða.

Stefndi telur að samkvæmt þessu hafi raunverulegt tekjutap stefnanda vegna líkamstjóns hans verið að fullu bætt. Þeirri röksemd stefnanda að miða beri við meðaltekjur stefnanda fyrir tímabilið 1. janúar 2006 til 31. maí 2006 er harðlega mótmælt. Að mati stefnda eru engin rök fyrir slíkri reikniaðferð, enda ber eingöngu að greiða bætur fyrir raunverulegt tekjutap á tímabili óvinnufærni og hefur það verið reiknað eins nákvæmlega og unnt er með því að miða við staðgengilslaun að frádregnum slysalaunum frá stefnda.

Þá fær stefnandi ekki séð hvers vegna stefnandi tekur fram að ekki sé rétt að miða við tímabilið frá 16. maí 2006 og fram að síðara slysi stefnanda við útreikning á tekjutapi hans þar sem hann hafi verið allnokkuð frá vinnu vegna fyrra slyssins. Við uppgjörið var alls ekki miðað við þetta tímabil, heldur leitast við að meta hverjar rauntekjur stefnanda á tímabili óvinnufærni vegna þess slyss sem hann lenti í 8. desember 2006 hefðu verið.

Samkvæmt framangreindu telur stefndi að það beri að sýkna hann af kröfu stefnanda um frekari bætur vegna tímabundins atvinnutjóns.

Bætur vegna varanlegrar örorku

Stefndi byggir á því að tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku, sbr. 5. gr. skaðabótalaga, hafi nú þegar verið að fullu bætt. Ágreiningur aðila snýr eingöngu að því hvaða árslaunaviðmið ber að leggja til grundvallar bótum, en stefnandi telur að uppfyllt séu skilyrði fyrir beitingu undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. laganna og að miða beri við tekjur stefnanda frá stefnda á árinu 2006.

Samkvæmt síðastgreindu ákvæði skulu árslaun metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði en árslaun síðustu þriggja ára fyrir slys sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Hvort tveggja skilyrðanna þarf að vera uppfyllt til að heimilt sé að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, þ.e. hið fyrra, að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, sem og hið síðara, að annar mælikvarði en meginregla 1. mgr. 7. gr. sé réttari á líklegar framtíðartekjur.

Við bótauppgjör til handa stefnanda var miðað við meðallaun verkamanna á árinu 2007 sem námu 337.000 kr. Það liggur fyrir að launatekjur stefnanda námu 774.088 kr. árið 2003, 749.140 kr. árið 2004 og 1.228.955  kr. árið 2005. Til að reyna að ná sátt í málinu voru stefndi og réttargæslustefndi reiðubúnir til að víkja frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna. Með hliðsjón af því að stefnandi hafði áður en hann hóf störf hjá stefnda, hinn 14. febrúar 2006, sinnt ýmsum verkamannastörfum, svo sem útskýrt er í fyrirliggjandi matsgerð, var ákveðið að miða við meðallaun verkamanna árið 2007. Með þessu var ekki fallist á að skilyrði væru uppfyllt til að víkja frá 1. mgr. 7. gr. laganna, heldur var reynt að koma til móts við kröfur stefnanda til að ná sátt í málinu og voru stefnanda greiddar bætur sem voru hærri en þær greiðslur sem hann hefði fengið ef miðað hefði verið við laun síðustu þriggja ára eða lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. laganna.

Það er stefnandi sem ber sönnunarbyrði fyrir því að beita beri 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við útreikning á bótum til hans vegna varanlegrar örorku, en við mat á því ber að miða við aðstæður stefnanda á slysdegi. Þá ber stefnandi jafnframt sönnunarbyrði fyrir því hvaða árslaun það séu sem gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hans. Þannig fellur það bæði í hlut stefnanda að sýna fram á að aðstæður hafi verið óvenjulegar og að tekjur hans á árinu 2006 gefi réttari mynd af framtíðartekjum hans.

Stefndi mótmælir því að uppi hafi verið óvenjulegar aðstæður sem réttlæti beitingu 2. mgr. 7. gr. skaðbótalaga. Stefnandi var eingöngu 23 ára gamall þegar slysið átti sér stað og hafði hann unnið ýmis störf eftir að hann hætti skólagöngu við lok skólaskyldu, svo sem í sælgætisgerð og á pizzustað. Fyrir liggur að stefnandi ákvað að fara á sjóinn seinni hluta ársins 2005 og starfaði hjá stefnda þegar umrætt vinnuslys varð 8. desember 2006. Samkvæmt þessu hafði stefnandi reynt fyrir sér í ýmsum verkamannastörfum frá því að hann lauk skólagöngu og telur stefndi að sú staðreynd að stefndi skipti um starfsvettvang seinni hluta ársins 2005 dugi ekki til að aðstæður hans teljist óvenjulegar þannig að heimilt sé að beita 2. mgr. 7. gr. laganna.

Verði talið að um óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hafi verið að ræða byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að tekjur hans frá stefnanda á árinu 2006 gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hans en sá mælikvarði sem notaður var við bótauppgjör aðila. Hafa verður í huga að stefnandi hafði eingöngu starfað hjá stefnda í um ár þegar slysið varð og hafði fyrir þann tíma sinnt ýmsum öðrum verkamannastörfum. Stefndi telur þannig að ekki hafi verið sýnt fram á að stefnandi hefði starfað áfram hjá stefnda ef slysið hefði ekki átt sér stað, en það fellur í hlut stefnanda að sýna fram á líkur á slíku. Þvert á móti telur stefndi að með hliðsjón af starfssögu stefnanda sé allt eins líklegt að hann hefði aftur skipt um starfsvettvang. Samkvæmt þessu byggir stefndi á því að meðaltekjur verkamanna, sem er sá mælikvarði sem miðað var við í bótauppgjöri, sé mun réttari mælikvarði á framtíðartekjur stefnanda og að sá mælikvarði sé nákvæmastur þegar litið er til aðstæðna stefnanda á slysdegi, enda hafi stefnanda ekki tekist að sýna fram á annað.

Af framangreindu telur stefndi ljóst að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að beita beri 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku hans eða að þau árslaun sem stefnandi vill leggja til grundvallar séu réttari mælikvarði á framtíðartekjur hans en það árslaunaviðmið sem stefndi hefur lagt til grundvallar. Samkvæmt þessu telur stefndi að það verði að sýkna hann af kröfu stefnanda.

Ef ekki verður fallist á sýknukröfu stefnda er gerð krafa um verulega lækkun bóta.

Í fyrsta lagi er á því byggt að árslaun þau sem stefnandi byggir kröfu sína á gefi ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum stefnanda. Leggja beri önnur og lægri árslaun til grundvallar.

Í öðru lagi er upphafstíma vaxta mótmælt. Samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga skulu bætur fyrir varanlega örorku bera vexti frá upphafsdegi metinnar örorku, þ.e. frá 13. ágúst 2007 í tilviki stefnanda, en í stefnu er miðað við 8. desember 2006.

Í þriðja lagi er upphafstíma dráttarvaxta mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Um lagarök vísar stefndi einkum til skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna um sönnun tjóns og sönnunarbyrði. Um vexti er vísað til 16. gr. skaðabótalaga og laga nr. 38/20021um vexti og verðtryggingu.Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Óumdeilt er að stefndi er bótaskyldur vegna slyss stefnanda 8. desember 2006. Ágreiningur málsaðila lýtur annars vegar að bótum vegna tímabundins atvinnutjóns og hins vegar að bótum vegna varanlegrar örorku.

Samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 m.s.breytingum skal ákveða bætur fyrir atvinnutjón fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt. Síðan er í 2. mgr. sömu greinar kveðið á um frádrátt frá bótunum, þ.e. laun í veikinda- eða slysaforföllum, 60% af greiðslu frá lífeyrissjóði, greiðslur frá sjúkrasjóði, dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir tímabundið atvinnutjón og vátryggingabætur þegar greiðsla vátryggingafélags er raunveruleg skaðabót, svo og sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær.

Stefnandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi ekki fengið tímabundið atvinnutjón sitt bætt. Sú krafa stefnanda að byggja útreikning á tímabundnu atvinnutjóni sínu á meðaltekjum sínum fyrir tímabilið 1. janúar 2006 fram til 1. júní 2006 hefur ekki lagastoð þar sem slysið átti sér stað 8. desember 2006. Hann telur hins vegar að tekjuviðmiðunin eigi að vera 1.416.342 kr. Stefndi hefur aftur á móti lagt til grundvallar í útreikningi sínum 1.418.230 kr. eða 1.888 kr. hærri fjárhæð en krafa stefnanda hljóðar upp á. Stefnandi telur tekjur til frádráttar vera 1.292.489 kr. en stefndi 1.469.641 kr. og munar þar 177.152 kr. sem kemur heim og saman við laun stefnanda tímabilið 10. desember 2006 til 31. desember 2006, þ.e. eftir slysdag. Með vísan til þessa hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann eigi rétt til frekari bóta vegna tímabundins atvinnutjóns.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga gildir sú meginregla við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku að lagðar verði til grundvallar meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag, sem tjón varð, en þessar tekjur verði framreiknaðar samkvæmt launavísitölu fram til þess dags, sem heilsufar tjónþola telst orðið stöðugt. Með þessum mælikvarða er í senn tekið tillit til þess hvernig tjónþoli hefur í reynd nýtt getu sína til að sinna launuðum störfum um tiltekinn tíma fyrir tjónsatburð og hverra tekna hann hefur aflað á þann hátt. Til þess að vikið verði frá þessu með heimild í 2. mgr. 7. gr. laganna verður tjónþoli að sýna fram á að fyrir hendi séu óvenjulegar aðstæður og að annar mælikvarði sé réttari til að meta hverjar framtíðartekjur hans hefðu orðið.

Fyrir liggur að í uppgjöri við stefnanda var miðað við meðallaun verkamanna, en ekki lágmarkslaun 3. mgr. 7. gr. laganna. Var það gert án alls fyrirvara af hálfu réttargæslustefnda. Með því liggur fyrir viðurkenning á því að 2. mgr. 7. gr. á við í tilviki stefnanda.

Þá er að líta til þess hvort annar mælikvarði hafi verið réttari en meðaltal verkamannalauna til að meta hverjar framtíðartekjur stefnanda hefðu orðið. Fyrir liggur í málinu að stefnandi fór út á vinnumarkaðinn eftir að hafa lokið grunnskóla og hefur hann unnið ýmis verkamannastörf. Tekjusaga hans er þannig að á árinu 2003 voru tekjur hans 774.088 kr., árið 2004 voru þær 749.140 kr., árið 2005 voru þær 1.228.955 kr. og slysaárið 2006 voru þær 4.195.789 kr. Stefnandi er ungur að árum og hefur ekki lagt grunn að fagmenntun. Hann hefur oft skipt um starfsvettvang og unnið ýmiss konar verkamannavinnu. Þótt stefnandi hafi unnið hjá stefnda rúmlega eitt ár fyrir slys, og verið fastráðinn hjá honum, er ósannað að hann hefði haldið áfram sjómannsstarfi um ókomin ár.

Með vísun til þess sem að framan greinir hefur stefnandi fengið tjón sitt að fullu bætt og er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, 320.000 kr., og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, HB Grandi, er sýknaður af kröfum stefnanda, Þórs Rafnssonar. Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Sifjar Thorlacius hdl., 320.000 kr.