Hæstiréttur íslands
Mál nr. 722/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Slit
- Verðbréf
- Réttindaröð
- Lán
- Fjármálafyrirtæki
- Innstæða
- Evrópska efnahagssvæðið
|
|
Föstudaginn
22. mars 2013. |
|
Nr.
722/2012. |
BNAP S.A.R.L. (Helgi
Jóhannesson hrl. Guðmundur
Ingvi Sigurðsson hdl.) gegn Kaupþingi hf. (Andri
Árnason hrl. Þröstur
Ríkharðsson hdl.) |
Kærumál.
Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð. Lán. Innstæða. Verðbréf. Evrópska
efnahagssvæðið.
Í málinu krafðist B þess að krafa
hans við slit K yrði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr.
21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var krafa B byggð á fjórum lánssamningum sem
K hafði upphaflega gert við D og nam höfuðstóll þeirra samtals 1.300.000.000
evrum. Í málinu hélt B því fram að áðurgreindir samningar sem krafa hans
byggðist á væru í raun samningar um innstæður í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga
nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og
hún var fyrir breytingu sem varð á henni með lögum nr. 79/2012, en skv. 6. gr.
laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra
aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., hinna svokölluðu neyðarlaga, sbr. 102. gr.
laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, skyldu innstæður njóta forgangs skv.
112. gr. laga nr. 21/1991. Í dómi Hæstaréttar kom fram að lög nr. 98/1999 hefðu
verið sett til að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt
EES-samningnum og leiða hér á landi í lög efni tilskipana 94/19/EB og 97/9/EB.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 skyldi skýra lög og reglur, að svo miklu leyti
sem við ætti, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.
Af því leiddi að skýring hugtaksins innstæða í tilskipun 94/19/EB gæti skipt
máli þegar skorið væri úr um hvort fé samkvæmt lánssamningunum teldist innstæða
í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Í dómi réttarins í máli nr.
169/2011 hefði reynt á skýringu hugtaksins „innstæða“ í 3. mgr. 9. gr. laga nr.
98/1999. Af þeim dómi, svo og ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sem aflað var
undir rekstri þess máls, og með vísan til 3. mgr. laga nr. 2/1993, mátti ráða
að krafa B uppfyllti skilyrði til að teljast vera innstæða í rýmri merkingu
ákvæðisins, eins og hugtakið var skýrt í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í
því máli. Á hinn bóginn var talið að löggjafanum hefði verið heimilt að
undanþiggja tryggingarvernd, „skuldabréf, víxla og aðrar kröfur sem útgefnar
voru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa“, líkt og 2. málsliður
3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 kvað á um fyrir breytinguna. Var talið að
lánssamningarnir, sem um ræddi í málinu, væru verðbréf í skilningi ákvæðisins
og að kröfur á grundvelli þeirra væru samkvæmt því undanskildar tryggingarvernd
samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Leiddi því af 3. mgr. 102. gr. laga
nr. 161/2002 með áorðnum breytingum að rétthæð kröfu B við slit K réðist ekki af 112. gr. laga nr.
21/1991, heldur 113. gr. þeirra. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson,
Eiríkur Tómasson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur
Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29.
nóvember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. desember sama ár.
Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2012, þar sem krafa
sóknaraðila að fjárhæð 86.529.222.422 krónur var viðurkennd við slit
varnaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um
gjaldþrotaskipti o.fl. en hafnað að viðurkenna hana sem forgangskröfu samkvæmt
112. gr. sömu laga. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili krefst þess að kröfu þessari verði skipað í réttindaröð samkvæmt
112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í
héraði auk kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og
kærumálskostnaðar.
Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 1. mars
2013.
Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili fallið frá kröfulið um
innheimtukostnað að fjárhæð 2.257.761 króna sem skýrir lækkun kröfu hans frá
því sem var fyrir héraðsdómi.
I
Eins og greinir nánar í úrskurði héraðsdóms ákvað
Fjármálaeftirlitið 9. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar í
varnaraðila, víkja stjórn félagsins frá og skipa því skilanefnd í samræmi við
ákvæði 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr.
125/2008. Varnaraðila var síðan skipuð slitastjórn 25. maí 2009 samkvæmt 4.
mgr. 101. gr. nefndra laga, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis
II til bráðabirgða við þau. Innköllun til kröfuhafa var gefin út í kjölfarið.
Sóknaraðili lýsti kröfu við slitin, en hún á rætur að rekja til fjögurra samninga
Deutsche Bank AG, London Branch,
hér eftir nefndur Deutsche Bank, við varnaraðila í
febrúar, apríl og september 2007. Þremur þeirra var breytt lítillega 1. febrúar
2008. Kröfu sína mun sóknaraðili hafa eignast fyrir framsal 28. mars 2011.
Áðurnefndir samningar báru allir fyrirsögnina „Deposit Agreement“ eða
innlánssamningur og samkvæmt titilsíðu voru þeir á milli varnaraðila „as Borrower“ og Deutsche Bank „acting as Lender.“ Að öðru leyti voru
samningarnir einnig sambærilegir. Einkenni þeirra voru þau helst að þrátt fyrir
að Deutsche Bank kæmi fram sem lánveitandi var í raun
um svokallað sambankalán að ræða þar sem fleiri lánastofnanir stóðu að baki
lánveitingunni og gátu átt hlut í einum og sama samningnum. Lánstími var 10 ár
og samtals nam höfuðstóll samninganna 1.300.000.000 evrum. Lánskjör miðuðust
við fasta vexti fyrstu þrjú ár lánstímans, en ávöxtun lánanna eftir það var
afleiðutengd miðað við svokallaða FRB vísitölu. Með þessu var varnaraðila
veittur aðgangur að lánsheimild eða svonefndri lánalínu sem hann dró síðan á.
Lánsféð var lagt á innlánsreikning varnaraðila hjá Deutsche
Bank. Þá höfðu samningarnir að geyma heimild til framsals af hálfu lánveitanda
sem þó var takmörkuð með þeim hætti að væri einungis um að ræða framsal að
hluta skyldi það nema að minnsta kosti 5.000.000 evrum, en heimilt var að
framselja hverjum sem var. Sérhvert framsal þarfnaðist jafnframt samþykkis
lántakans nema framsalshafi væri hlutdeildarfélag lánveitanda samkvæmt
samningunum eða vanefnd lántakans væri viðvarandi. Hann skyldi ekki að
ástæðulausu neita að veita slíkt samþykki eða draga það á langinn.
II
Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að áðurnefndir fjórir
samningar séu um innlán hjá varnaraðila í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr.
98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og hún
var fyrir breytingu sem gerð var með lögum nr. 79/2012. Samkvæmt því njóti
krafan rétthæðar við slit varnaraðila eftir 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1.
mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, eins og þeim var breytt með 6. gr. laga nr.
125/2008, nú 3. mgr. 102. gr. fyrrnefndu laganna eftir breytingu á þeim með 6.
gr. laga nr. 44/2009. Þetta leiði þegar af heiti samninganna, en þegar þeir
voru gerðir hafi hvers kyns lán og þar með talin innlán notið sömu rétthæðar
við skipti samkvæmt lögum nr. 21/1991 og því engin ástæða verið til að nefna
samningana annað en það sem fólst í efni þeirra. Ef ekki verði fallist á að um
innlán sé að ræða hafi gerningarnir hvað sem öðru líði falið í sér millifærslur
í hefðbundinni almennri bankastarfsemi í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr.
98/1999 sem leiði til sömu niðurstöðu. Þá kveður sóknaraðili óumdeilt að við
samningsgerðina hafi varnaraðili lagt mikla áherslu á að fjármögnun Deutsche Bank yrði í formi innlána en ekki annars konar
lána. Með því hafi varnaraðili leitast við að treysta innstæðugrunn sinn, en
alþjóðleg matsfyrirtæki hafi gert athugasemdir við að hlutfall innstæðna væri
lægra hjá honum en æskilegt væri og hann því um of háður fjáröflun á
fjármagnsmörkuðum. Ennfremur vísar sóknaraðili til þess að setning laga nr.
98/1999 hafi falið í sér aðlögun íslensks réttar að tilskipunum
Evrópusambandsins 94/19/EB um innstæðutryggingar og 97/9/EB um tryggingakerfi
fyrir fjárfesta á grundvelli laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt
2. mgr. 7. gr. fyrrnefndu tilskipunarinnar hafi aðildarríkjum verið heimilt að
undanskilja ákveðnar tegundir innstæðna eða ákveðna hópa innstæðueigenda
tryggingarvernd samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, þar á meðal innstæður
fjármálafyrirtækja. Sú undanþáguheimild hafi ekki verið nýtt við setningu laga
nr. 98/1999, en undantekningar séu tæmandi taldar í 6. mgr. 9. gr. laganna og
eigi hér ekki við. Af þessu megi gagnálykta á þann veg að innlánskrafa
sóknaraðila falli undir tryggingarvernd síðastnefndu laganna og njóti þar með
forgangs við slit varnaraðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá geti
innstæðan ekki talist undanskilin tryggingarvernd á grundvelli 2. gr.
tilskipunar 94/19/EB, enda hafi sú heimild til takmörkunar sem í greininni
felist ekki verið innleidd í íslensk lög þegar atvik málsins urðu.
Innstæðusamningarnir falli ekki heldur undir undantekningu samkvæmt 2. málslið
3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, en varnaraðili haldi ekki fram að þeir séu
skuldabréf eða víxlar og þeir séu ekki heldur verðbréf að mati sóknaraðila.
Þannig uppfylli samningarnir ekki það skilyrði að vera gerningar sem unnt sé að
eiga viðskipti með á fjármagnsmarkaði, enda séu takmarkanir á heimild til að
framselja þá. Ennfremur vísar sóknaraðili til dóms Hæstaréttar 17. janúar 2013
í máli nr. 169/2011 sem hann telur styðja þá skýringu sína að um innlán sé að
ræða, sbr. einnig ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sem aflað var í því máli.
Loks telur sóknaraðili atvik eftir samningsgerðina einnig skipta máli, en
varnaraðili hafi flokkað hluta samninganna í bókhaldi sínu sem innstæður eftir
því sem viðsemjandi hans hafi framselt hlutdeild í þeim til annarra en
fjármálafyrirtækja og í þeim tilvikum einnig greitt iðgjald til Tryggingarsjóðs
innstæðueigenda og fjárfesta. Hvað varðar sérstaka samninga um breytingu á
skilmálum þriggja þessara innlánssamninga í febrúar 2008 verði að líta svo á að
mistök hafi þá orðið, en vísað hafi verið til innlánssamninganna sem „Facility Agreement“ eða samninga
um lánsheimild en ekki „Deposit Agreement“
eins og vera skyldi.
Varnaraðili mótmælir því að áðurnefndir fjórir samningar
hafi verið um innlán hjá sér. Deutsche Bank hafi átt
frumkvæðið að gerð þeirra, en þetta séu flóknir fjármálagerningar eða
„sérhönnuð lánaafurð“ í formi langtímalána með innbyggðri afleiðu.
Lánveitandinn hafi að öllu leyti ákveðið efni samninganna, en þeim er nánar
lýst í úrskurði héraðsdóms. Þá bendi orðnotkun í þeim eindregið til þess að um
lánssamninga sé að ræða en ekki innlánssamninga í skilningi laga nr. 98/1999.
Þannig sé til dæmis ávallt vísað til skuldara annars vegar og lánveitanda hins
vegar og notað orðið lán en ekki innlán eða innstæða. Hvergi sé minnst á innlán
nema á forsíðu og þegar þetta sé borið saman við efnið sé ljóst að heitið
innlánssamningur sé nafnið tómt. Skýring á heitinu sé sú að varnaraðili hafi,
þvert gegn efni samninganna, náð fram að nota heitið og með því talið sig koma
til móts við athugasemdir alþjóðlegra matsfyrirtækja um lágt hlutfall
innstæðna. Við breytingu á skilmálum þriggja þessara samninga 1. febrúar 2008
hafi réttilega verið vísað til þeirra sem samninga um lánsheimild. Varnaraðili
telur kröfu sóknaraðila þannig ekki falla undir skilgreiningu á hugtakinu
innstæðu samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og ekki heldur millifærslu í
hefðbundinni almennri bankastarfsemi samkvæmt sama ákvæði, en skýring
sóknaraðila á efni hugtaksins myndi leiða til óhóflegrar rýmkunar á því og færi
gegn markmiðum 6. gr. laga nr. 125/2008 þegar forgangsréttur innstæðna var
lögfestur, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr.
340/2011. Skýring sóknaraðila færi jafnframt í bága við ákvæði og markmið
tilskipunar 94/19/EB um vernd almennra sparifjáreigenda. Hvað varðar
áðurnefndan dóm Hæstaréttar 17. janúar 2013 í máli nr. 169/2011 telur varnaraðili
hann engu breyta að þessu leyti, en í því máli hafi verið fjallað um
lánsskuldbindingar ólíkar þeim sem hér um ræðir. Munurinn felist meðal annars í
því að í hinu eldra máli hafi lánsfjárhæðir verið mun lægri og lánstími
einungis til fárra mánaða, auk þess sem form lánssamninga hafi þar verið
einfalt. Krafa sóknaraðila geti því hvorki fallið undir innstæðuhugtakið í
rýmri eða „tæknilegri“ merkingu þess né þrengri eða „virkri“ merkingu eins og
hvort um sig hafi verið skilgreint í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sem
aflað var í umræddu máli. Þá hafi lánssamningarnir, í því máli sem hér er til
úrlausnar, öll einkenni verðbréfa sem unnt sé að framselja og eiga viðskipti
með á fjármagnsmarkaði, en ef unnt sé að fella þá undir það að vera innstæður
séu kröfur samkvæmt þeim þar með undanskildar tryggingarvernd samkvæmt 2.
málslið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Loks leiði af áliti EFTA-dómstólsins
að engu máli geti skipt hver afstaða varnaraðila til þessa hafi verið á sínum
tíma, svo sem bókhaldsleg meðferð skuldbindinganna og greiðsla iðgjalda, sbr.
einnig dóm Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 277/2011. Að þessu öllu
virtu falli lánssamningarnir ekki undir skilgreiningu 3. mgr. 9. gr. laga nr.
98/1999 og kröfum samkvæmt þeim verði ekki skipað í réttindaröð samkvæmt 112.
gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila.
III
Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 ræðir meðal annars um
skyldu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til að greiða viðskiptavini
aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu úr innstæðudeild sjóðsins þegar
aðildarfyrirtæki er að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna af hendi
greiðslu á andvirði innstæðu sem viðskiptavinur hefur krafið fyrirtækið um
endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála er gildi. Í 3. mgr. sömu
lagagreinar, eins og hún hljóðaði fyrir þá breytingu sem á henni var gerð með
5. gr. laga nr. 79/2012, sagði síðan: „Með innstæðu skv. 1. mgr. er átt við
innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri
bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt
skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nær hins vegar ekki
til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka
eða sparisjóði í formi verðbréfa.“
Lög nr. 98/1999 voru einkum sett til að fullnægja
þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum, sbr.
áðurnefndar tilskipanir 94/19/EB og 97/9/EB. Í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar
94/19/EB er hugtakið „deposit“ skilgreint sem „any credit balance
which results from funds left
in an account
or from temporary
situations deriving from normal banking
transactions and which a credit institution must repay under the
legal and contractual conditions applicable, and any debt evidenced
by a certificate issued by a credit
institution.“ Í íslenskri þýðingu tilskipunarinnar
hljóðar 1. mgr. 1. gr. hennar svo: „innlán: innstæða sem er tilkomin vegna
innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og lánastofnun
ber að endurgreiða með skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum, svo og
kröfur útgefnar af lánastofnun í formi verðbréfa.“
Í úrskurði Hæstaréttar 15. desember 2011 um að leitað skyldi
álits EFTA-dómstólsins í tengslum við mál nr. 169/2011 var vísað til þess að
samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti
sem við á, til samræmis við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þær reglur
sem á honum byggja. Af málatilbúnaði áfrýjanda í því máli leiddi að við úrlausn
þess ágreinings sem uppi var milli aðilanna reyndi á skýringu hugtaksins
innstæða í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Með vísan til þessa og að virtu
öðru því er greindi í úrskurðinum þætti rétt að leita ráðgefandi álits
EFTA-dómstólsins um skýringu á hugtakinu innstæða í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar
94/19/EB og var þeim þremur spurningum, sem álits var leitað um, hagað á þann
veg sem nánar greindi í úrskurðarorði. Í því máli, sem hér er til úrlausnar,
reynir einnig á skýringu hugtaksins innstæða í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.
Verður samkvæmt því litið til ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli nr.
169/2011 að því gættu að lánsskuldbindingar í því máli voru að ýmsu leyti
ólíkar þeim sem hér um ræðir.
Í dómi Hæstaréttar 17. janúar 2013 í máli nr. 169/2011 er
greint frá því að inntak fyrstu spurningarinnar, sem rétturinn beindi til
EFTA-dómstólsins í því máli, sé hvort fé (á ensku funds) sem ein fjármálastofnun
afhendir annarri geti talist innstæða (deposit) í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB
þótt féð hafi ekki verið fært sem innstæða í bókum viðtakandans, það hafi ekki
verið lagt inn á sérstakan reikning á nafni þess er féð afhenti, engin sérstök
skilríki hafi verið gefin út fyrir móttöku fjárins og ekki hafi verið greitt af
því iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Síðan segir að í svari
EFTA-dómstólsins við þessari spurningu komi fram að hugtakið innstæða sé
skilgreint í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB. Samkvæmt skilgreiningunni
geti innstæða verið tilkomin vegna eins af þrennu. Í fyrsta lagi vegna fjár sem
lagt sé inn á reikning og myndi þar inneign (any credit balance
which results from funds left
in an account)
sem lánastofnun beri að endurgreiða með skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða
samningum. Í öðru lagi vegna inneignar (credit balance) sem sé tilkomin vegna tímabundinna aðstæðna
sem leiði af hefðbundinni almennri bankastarfsemi (which results from temporary situations deriving from normal
banking transactions)
og lánastofnun beri að endurgreiða með skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða
samningum. Í þriðja lagi vegna skuldar sem staðfest hafi verið með
viðurkenningu lánastofnunar (any debt evidenced by a certificate issued by a credit
institution). Þá segi í svarinu að þar sem fram
komi í beiðni Hæstaréttar um ráðgefandi álit að ekki hafi verið gefin út
sérstök skilríki fyrir móttöku fjárins og að það hafi ekki verið lagt inn á
reikning á nafni þess er afhenti, þurfi að meta hvort féð verði talið inneign (credit balance) sem
sé tilkomin vegna tímabundinna aðstæðna sem leiði af hefðbundinni almennri
bankastarfsemi. Þá segi í áliti EFTA-dómstólsins að hugtakið inneign (credit blance) sé
ekki skilgreint í tilskipuninni. Hins vegar bendi orðalag 1. mgr. l. gr. hennar
til þess að hugtakið nái yfir fé sem tekið sé við í formi láns. Í því sambandi
geti engu skipt hvort féð hafi verið fært sem innstæða (deposit) í bókum viðtakandans,
enda færi slíkur áskilnaður gegn markmiðum tilskipunarinnar sem samkvæmt
skýringargögnum byggi á því að líta beri á hugtakið innstæðu frá sjónarhorni
innstæðueigenda. Þá segi að tilskipunin skilgreini heldur ekki hvað átt sé við
með tímabundnum aðstæðum sem leiði af hefðbundinni almennri bankastarfsemi (temporary situations deriving from normal
banking transactions).
Þrátt fyrir það verði að telja að fjáröflun með hefðbundnum skammtímalánum (ordinary short-term loans) sé bæði
tímabundin aðgerð og hefðbundinn þáttur í almennri bankastarfsemi. Jafnframt
segi í álitinu að þrír tilgreindir aðilar málsins fyrir EFTA-dómstólnum hafi
haldið því fram að millibankalán geti ekki talist innstæða (deposit) í skilningi 1. mgr. 1.
gr. tilskipunarinnar. Því sé til að svara að orðalag tilskipunarinnar bendi
ekki til þess að það að innstæðueigandi sé lánastofnun eigi að hafa nokkur
áhrif á hvort féð skuli teljast innstæða í skilningi ákvæðisins. Hins vegar sé
það svo að eðli innstæðueiganda geti haft áhrif á hvort innstæða fullnægi
skilyrðum tryggingarverndar samkvæmt tilskipuninni, því í 2. gr. hennar sé
skýrlega kveðið á um þá meginreglu að innstæður annarra fjármálastofnana í
eigin þágu séu undanskildar endurgreiðslu úr innstæðutryggingakerfum. Af þessu
leiði að þar sem tilskipunin takmarki berum orðum gildissvið meginreglunnar um
rétt til endurgreiðslu innstæðna og nefni í því sambandi meðal annars lán milli
lánastofnana, verði að líta svo á að viðskipti (transactions), eins og þau sem
lýst sé í spurningu Hæstaréttar, rúmist innan þeirrar skilgreiningar á
hugtakinu innstæða sem fram komi í 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Loks er
tekið fram að það sé ekki skilyrði þess að féð teljist innstæða í skilningi
tilskipunarinnar að greitt hafi verið af því iðgjald í Tryggingarsjóð
innstæðueigenda og fjárfesta. Ennfremur segi í áliti EFTA-dómstólsins að af
öllu framangreindu leiði að fé sem millifært sé frá einni lánastofnun til
annarrar á grundvelli lánssamnings teljist innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr.
tilskipunarinnar þrátt fyrir að það hafi ekki verið fært sem innstæða í bókum
lántaka, það hafi ekki verið lagt inn á sérstakan reikning á nafni lánveitanda,
engin sérstök skilríki hafi verið gefin út fyrir móttöku þess og ekki hafi verið
greitt af því iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Af 2. gr.
tilskipunarinnar leiði hins vegar að þótt fé sem fari milli lánastofnana
samkvæmt lánssamningi rúmist tæknilega séð innan innstæðuhugtaksins, þá teljist
slíkt fé ekki til innstæðna sem fullnægi skilyrðum tilskipunarinnar fyrir
endurgreiðslu. Samkvæmt þessu megi með vísan til 1. mgr. 1. gr., sbr. 2. gr.
tilskipunarinnar gera greinarmun á þrengri skilgreiningu innstæðuhugtaksins (functional definition)
sem taki til tryggðra innstæðna samkvæmt tilskipuninni og rýmri skilgreiningu
þess (technical definition)
sem taki einnig til innstæðna án tillits til tryggingarverndar. Það sé hlutverk
landsdómstólsins að taka afstöðu til þess hvorri skilgreiningunni eigi að beita
í sambandi við þær reglur landsréttar sem um ræði í málinu. Svör
EFTA-dómstólsins við annarri og þriðju spurningunni, sem leitað var álits hans
um í máli nr. 169/2011, skipta engu fyrir úrlausnarefni þessa máls.
IV
Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að fé það, sem Deutsche Bank hafi upphaflega átt hjá varnaraðila, sé
innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Varnaraðili ber á hinn
bóginn við gagnstæðum skilningi að þessu leyti. Áður var þess getið að
síðastnefnd lög voru einkum sett til að fullnægja þjóðréttarlegum
skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum og leiða hér á landi í lög efni
tilskipana 94/19/EB og 97/9/EB. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 skal skýra lög
og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær
reglur sem á honum byggja. Af því leiðir að skýring hugtaksins innstæða í
tilskipun 94/19/EB getur skipt máli þegar skorið er úr um hvort umrætt fé
teljist innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 169/2011 er vísað til þess að
í áliti EFTA-dómstólsins komi fram að færsla fjár, með þeim hætti sem var í því
máli, feli í sér lánveitingu frá einni fjármálastofnun til annarrar á
millibankamarkaði. Fé sem svo hagi til um falli undir hugtakið inneign í 1.
mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB, en í því ákvæði sé vísað til inneignar sem
til sé komin vegna tímabundinna aðstæðna sem leiði af hefðbundinni almennri
bankastarfsemi. Slík inneign teljist samkvæmt álitinu vera innstæða í rýmri
merkingu þess hugtaks í tilskipuninni og skipti í því sambandi ekki máli þótt
um millibankalán sé að ræða. Hins vegar geti eðli lánveitanda sem lánastofnunar
valdið því að innstæður hans hjá annarri lánastofnun njóti ekki
tryggingarverndar samkvæmt tryggingakerfi tilskipunarinnar. Um það vísi
EFTA-dómstóllinn til 2. gr. tilskipunarinnar en þar sé sérstaklega tekið fram
að innstæður annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning séu
sjálfkrafa og almennt undanskildar endurgreiðslu úr innlánatryggingakerfum. Í
þessu felist samkvæmt hinu ráðgefandi áliti að þótt tiltekið fé geti talist
innstæða í rýmri merkingu innstæðuhugtaks tilskipunarinnar þurfi sama fé ekki
að vera innstæða í þrengri merkingu þess.
Við úrlausn um það að hvaða marki álit EFTA-dómstólsins
vegna máls nr. 169/2011 getur haft gildi fyrir niðurstöðu þessa máls verður
fyrst að líta til þess að í báðum tilvikum var fé tilkomið vegna
millibankalána, en samkvæmt áliti EFTA-dómstólsins var það sem áður segir ekki
talið standa því í vegi að fé teldist innstæða í rýmri merkingu þess hugtaks í tilskipun
94/19/EB. Fékk engu um það breytt að féð hafi ekki verið fært sem innstæða í
bókhaldi lántakans eða að ekki var greitt af því iðgjald í tryggingarsjóð, en
það gagnstæða á að nokkru leyti við í þessu máli. Hinu sama gegndi um það að
féð var ekki lagt inn á sérstakan reikning á nafni lánveitandans og að
lántakinn gaf ekki út sérstök skilríki fyrir móttöku fjárins til lánveitandans,
en kveðið var sérstaklega á um þessi atriði sem önnur í lánssamningum Deutsche Bank og varnaraðila. Með vísan til 3. gr. laga nr.
2/1993 lagði Hæstiréttur til grundvallar í máli nr. 169/2011 að það eitt að féð
væri þannig tilkomið útilokaði ekki að það gæti talist innstæða í skilningi 3.
mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 eins og hún var fyrir breytingu sem varð á henni
með lögum nr. 79/2012.
Á hinn bóginn verður einnig að gæta að því að lánssamningar
í fyrra málinu voru um ýmis atriði ólíkir þeim sem búa að baki kröfu
sóknaraðila í þessu máli. Það sem helst skilur þá síðarnefndu frá hinum er mun
lengri lánstími, önnur aðferð við yfirfærslu fjármuna þar sem veitt var
lánsheimild og síðan dregið á hana samkvæmt ákvörðun lántakans, og loks mun
flóknari ákvæði um ávöxtum lánsfjárins, en einkennum lánssamninganna er nánar
lýst í úrskurði héraðsdóms og köflum I og II að framan. Hvað varðar fyrstnefnda
atriðið verður að líta til þess að munur er á orðalagi á annars vegar 1. mgr.
1. gr. tilskipunar 94/19/EB og hins vegar 1. málslið 3. mgr. 9. gr. laga nr.
98/1999 eins og hann var fyrir setningu laga nr. 79/2012. Um það vísast til
orðanna „or from temporary situations deriving from normal
banking transactions and which a credit
institution must repay under the
legal and contractual conditions applicable“ í tilskipuninni, en merking þeirra fellur ekki
til fulls saman við orð 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 þar sem sagði „eða
millifærsla í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og lánastofnun ber að
endurgreiða með skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum.“ Meðal annars
eiga orðin „temporary situations“
sér þannig ekki samsvörun í íslensku lögunum. Af því leiðir að skilgreining
íslensku laganna á innstæðuhugtakinu er að þessu leyti rýmri en tilskipunar
94/19/EB og verður samkvæmt því ekki fallist á með varnaraðila að máli geti
skipt að um lán til skamms tíma var að ræða í máli nr. 169/2011 en langtímalán
í þessu máli. Önnur atriði, sem eru ólík þeim sem voru í máli nr. 169/2011 og
áður voru nefnd, lúta að aðferð við yfirfærslu fjár til lántakans og ávöxtun
lánsfjárins. Í tilvitnuðum orðum tilskipunar 94/19/EB og 3. mgr. 9. gr. laga
nr. 98/1999 kemur fram að innlán skuli endurgreidd í samræmi við lög eða
samninga. Þótt þessum atriðum hafi verið hagað með öðru móti í lánssamningum í
þessu máli en var í máli nr. 169/2011 eru ekki komin fram rök sem leitt geta
til þess að þau millibankalán, sem hér um ræðir, verði af þessum sökum ekki
skilgreind sem innstæða. Samkvæmt öllu framanröktu og með vísan til 3. gr. laga
nr. 2/1993 verður fallist á með sóknaraðila að krafa hans uppfylli skilyrði til
að teljast vera innstæða í rýmri merkingu 1. málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr.
98/1999 eins og sú grein hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012.
V
Að framan var lýst aðgreiningu, sem EFTA-dómstóllinn gerði á
innstæðuhugtakinu í annars vegar rýmri og hins vegar þrengri merkingu, þar sem
einungis innstæða í síðarnefndu merkingunni njóti tryggingarverndar samkvæmt
tilskipun 94/19/EB. Um undantekningar frá tryggingarvernd var einkum vísað til
2. gr. sömu tilskipunar. Um þetta verður að gæta að því að efni 9. gr. laga nr.
98/1999, eins og hún var á þeim tíma sem hér skiptir máli, féll ekki að öllu
leyti saman við ákvæði tilskipunarinnar að því er varðar undantekningar frá
þeirri tryggingarvernd, sem mælt var fyrir um í þeim lögum. Þannig var í
niðurlagi 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar ákvæði, sem fól í sér hluta af
innstæðuhugtakinu þar sem sagði „and any debt evidenced
by a certificate issued by a credit
institution.“ Þessi hluti skilgreiningar á
innstæðuhugtakinu var ekki tekinn upp í 1. málslið 3. mgr. 9. gr. laga nr.
98/1999. Samkvæmt 2. málslið hennar, sem tilfærður var orðrétt í kafla III að
framan, náði trygging samkvæmt 1. mgr. 9. gr. ekki til skuldabréfa, víxla eða
annarra krafna sem útgefnar voru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi
verðbréfa, en 3. mgr. 9. gr. var í heild tekin óbreytt úr lögum nr. 113/1996 um
viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 2. mgr. 78. gr. þeirra laga. Að öðru leyti
var undantekningu frá tryggingarvernd að finna í 6. mgr. 9. gr. laga nr.
98/1999. Varnaraðili heldur fram að lánssamningar hans og Deutsche
Bank teljist vera verðbréf sem 2. málsliður 3. mgr. 9. gr. þeirra laga taki
til. Kemur því til úrlausnar hvort undantekningar í síðastnefndu lagaákvæði eða
eftir atvikum öðrum ákvæðum í 9. gr. fái samrýmst ákvæðum tilskipunar 94/19/EB
hvað varðar heimildir einstakra ríkja EES-samningsins til að gera í löggjöf
sinni undanþágur frá tryggingarvernd innstæðna. Séu þær innan þess svigrúms,
sem tilskipunin veitir að þessu leyti, er þá jafnframt til athugunar hvort
lánssamningarnir teljist vera verðbréf í merkingu ákvæðisins.
Í 2. gr. tilskipunar 94/19/EB segir í upphafi að
eftirfarandi teljist ekki til innlána sem megi endurgreiða í gegnum
tryggingakerfi, en síðan fylgir upptalning í þremur liðum, sem ekki skiptir hér
frekar máli. Í 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar er svohljóðandi ákvæði: „Aðildarríkin
geta ákveðið að vissir innstæðueigendur eða viss innlánsform séu undanskilin
tryggingakerfinu eða hin tryggða fjárhæð lægri. Skrá yfir þessi frávik er í I.
viðauka.“ Fyrirsögn þessa viðauka er: „Innlán sem má undanskilja samkvæmt 2.
mgr. 7. gr.“, en síðan fylgir upptalning í fjórtán töluliðum. Sá tólfti hljóðar
svo: „Skuldabréf útgefin af lánastofnuninni og skuldbindingar sem varða eigin
víxla og skuldaviðurkenningar.“ Á frummálinu hljóðar þessi liður svo: „Debt securities issued by the
same institution and liabilities arising out of own acceptances and promissory notes.“ Orðin „og skuldaviðurkenningar“ í þessum lið
viðaukans hafa hér sérstakt gildi, en í 2. málslið 3. mgr. 9. gr. laga nr.
98/1999 felst skírskotun til þeirra í orðunum „í formi verðbréfa.“ Með því
hefur löggjafinn ekki farið út fyrir svigrúm sem tilskipunin veitir, enda er
skuldaviðurkenning víðara hugtak en verðbréf.
Sóknaraðili heldur fram að innlánssamningar að baki kröfu
hans teljist ekki vera verðbréf í skilningi 2. málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga
nr. 98/1999, enda séu takmarkanir á heimild til að framselja þá eins og áður
var lýst, en það leiði til þess að ákvæðið eigi hér ekki við. Varnaraðili telur
þessar takmarkanir á hinn bóginn ekki vera þess eðlis að þær skipti máli. Hugtakið
verðbréf er skilgreint í 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, en með
þeim var skilgreiningunni að nokkru leyti breytt frá þeim lögum sem áður giltu
um sama efni. Í meginatriðum felst hún eftir sem áður í því að verðbréf sé
gerningur í bréflegu eða rafrænu formi um kröfu sem þarf að vera framseljanleg
og unnt að eiga viðskipti með á fjármagnsmarkaði. Í athugasemdum með frumvarpi
sem varð að lögum nr. 108/2007 segir að skilyrði um framseljanleika verðbréfa
felist í því að réttindi þau sem felast í eignarhaldi á þeim geti færst yfir á
annan aðila. Til þess verður að líta að lánssamningar Deutsche
Bank og varnaraðila hafa að geyma sérstakt ákvæði sem heimilar framsal á
réttindum samkvæmt þeim að fengnu samþykki varnaraðila sem ekki skuli synjað um
nema lögmætar ástæður séu fyrir hendi. Samningarnir uppfylla þannig það
skilyrði að eignarhald á þeim getur færst til annarra fyrir framsal. Það mun
jafnframt margsinnis hafa gerst í raun en sóknaraðili hefur sjálfur eignast
kröfu sína samkvæmt samningunum fyrir framsal. Þeir voru tækir til viðskipta á
fjármagnsmarkaði og þá einnig fyrir milligöngu fjármálafyrirtækja ef svo vildi
verkast. Skilyrði um viðskipti fyrir lágmarksfjárhæð hverju sinni er ekki þess
eðlis að neinu máli skipti í þessu samhengi. Í lögskýringargögnum, sem fylgdu
frumvarpi er varð að lögum nr. 108/2007, er ekki að finna stoð fyrir þeirri
skýringu sóknaraðila að heimild til framsals þurfi að vera án takmarkana af
nokkru tagi til þess að krafa geti talist styðjast við verðbréf. Breytir þá
engu þótt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 110/2007 um kauphallir áskilji að viðskipti
með verðbréf séu án takmarkana, en hugtakið verðbréf er ekki bundið við
viðskipti í kauphöll. Samkvæmt þessu verður fallist á með varnaraðila að
lánssamningarnir, sem um ræðir í málinu, teljist vera verðbréf í skilningi 2.
málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og ákvæðið var fyrir setningu
laga nr. 79/2012, og að kröfur á grundvelli þeirra séu samkvæmt því
undanskildar tryggingarvernd samkvæmt 1. mgr. sömu greinar. Leiðir samkvæmt því
af 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 með áorðnum breytingum að rétthæð kröfu
sóknaraðila við slit varnaraðila ræðst ekki af 112. gr. laga nr. 21/1991,
heldur 113. gr. þeirra. Niðurstaða hins kærða úrskurðar verður því staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila
kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, BNAP S.A.R.L., greiði varnaraðila, Kaupþingi
hf., 2.500.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16.
nóvember 2012.
Mál þetta, sem þingfest var 1. júlí
2011, var tekið til úrskurðar 23. október sl. Sóknaraðili er BNAP S.A.R.L., 74 Lothbury, EC2R 7HF, Bretlandi, en varnaraðili er Kaupþing
hf., áður Kaupþing banki hf., Borgartúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að
krafa hans að fjárhæð 86.531.480.183 krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa
skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð
varnaraðila. Til vara krefst hann þess að krafa hans að fjárhæð 86.531.480.183
krónur verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 við
slitameðferð varnaraðila. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar að
skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Varnaraðili krefst þess að öllum
kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar
varnaraðila að samþykkja kröfu sóknaraðila að fjárhæð 86.529.222.422 krónur sem
almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Einnig krefst hann málskostnaðar
samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Fjármálaeftirlitið ákvað hinn 9.
október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja
félagsstjórninni frá störfum þegar í stað og skipa bankanum skilanefnd í
samræmi við ákv. 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 128/2008.
Var varnaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og
slitastjórn var skipuð 25. maí 2009 skv. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002,
sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tl. ákvæðis II til
bráðabirgða við þau lög. Innköllun til kröfuhafa birtist fyrra sinni í
Lögbirtingablaði 30. júní 2009.
Krafa sóknaraðila byggist á
hlutdeild hans í fjórum samhljóða samningum við varnaraðila, sem bera
yfirskriftina innlánssamningur (Deposit Agreement), dags. 2. apríl, 11. apríl, 6. september og 28.
september 2007. Upphaflegur viðsemjandi varnaraðila samkvæmt samningum þessum
var Deutsche Bank AG London Branch,
hér eftir nefndur Deutsche Bank, og nam höfuðstóll
þeirra samtals 1.300.000.000 evrum. Í kjölfar undirritunar hvers samnings, og
eftir að varnaraðili hafði sent Deutsche Bank þar til
gerða ádráttarbeiðni (utilisation request),
var samningsfjárhæðin lögð inn á reikning varnaraðila hjá Deutsche Bank í Frankfurt. Deutsche Bank framseldi hluta af heildarfjárhæð kröfunnar
til annarra fjármálafyrirtækja, í samræmi við ákvæði gr. 22.5 í samningunum, en
krafa sóknaraðila í máli þessu byggist á framsali til hans frá BNAP L.L.C.,
þeim aðila sem lýsti kröfunni við slitameðferð varnaraðila. Nam fjárhæð lýstrar
kröfu vegna höfuðstóls og vaxta samkvæmt skilmálum samninganna til og með 22.
apríl 2009, samtals 511.311.366 evrum, eða 86.529.222.422 krónum miðað við
sölugengi Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009. Þá nam lýst krafa vegna
innheimtukostnaðar samtals 17.273,05 bandarískum dölum, eða 2.257.760 krónum
miðað við sama viðmiðunardag.
Slitastjórn varnaraðila samþykkti
höfuðstól kröfunnar ásamt áföllnum vöxtum, en hafnaði hins vegar kröfu um
kostnað. Jafnframt var því hafnað að krafan nyti forgangs skv. 112. gr. laga
nr. 21/1991. Kröfuhafi mótmælti þessari afstöðu slitastjórnar með bréfi dags.
3. desember 2010. Fyrir slitastjórn var eftir það reynt án árangurs að jafna
ágreininginn. Við svo búið beindi hún málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur skv. 2.
mgr. 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991.
Við aðalmeðferð málsins voru teknar
vitnaskýrslur af Davíð Stefánssyni og Eiríki Magnúsi Jenssyni, fyrrverandi
starfsmönnum varnaraðila.
Málsástæður
sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína um
rétthæð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 á því að þeir fjórir samningar sem krafa
hans byggist á séu í raun samningar um innstæður í skilningi laga nr. 98/1999
um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta en skv. 6. gr. laga nr.
125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á
fjármálamarkaði o.fl., hinna svokölluðu neyðarlaga, sbr. 102. gr. laga nr.
161/2002 um fjármálafyrirtæki, skuli innstæður njóta forgangs skv. 112. gr.
laga nr. 19/1991. Skilgreining á hugtakinu innstæða komi fram í 3. mgr. 9. gr.
laga nr. 98/1999, en þar komi fram að með innstæðu skv. 1. mgr. sé átt við
innstæðu sem tilkomin sé vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri
bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði beri að endurgreiða samkvæmt
skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nái hins vegar ekki
til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar séu af viðskiptabanka
eða sparisjóði í formi verðbréfa.
Sóknaraðili telji ljóst að krafa
hans uppfylli öll fyrrgreind skilyrði þess að vera innstæða og leiði það þegar
af því að heiti allra samninganna sé „Deposit Agreement“, en hugtakið „deposit“
sé þýtt sem innstæða í íslenskri orðabók. Sé sérstaklega vakin athygli á því að
við gerð umræddra samninga hafi innstæður notið sömu rétthæðar og almenn lán
varnaraðila og hafi því hvorugur samningsaðila á þeim tíma haft nokkurn hag af
því að kalla samning þeirra öðru nafni en efni hafi staðið til.
Varðandi einstaka þætti fyrrgreindar
skilgreiningar á hugtakinu innstæða sé óumdeilt að höfuðstóll innlánsins hafi
verið færður inn á reikning varnaraðila af upphaflegum samningsaðila hans, Deutsche Bank AG, London Branc.
Verði ekki á það fallist að um innstæðu sé að ræða í skilningi 3. mgr. 9. gr.
laga nr. 98/1999 sé á því byggt að í öllu falli hafi verið um að ræða
millifærslu í skilningi ákvæðisins.
Þrátt fyrir að hugtakið „hefðbundin
almenn bankastarfsemi“ sé ekki skilgreint í íslenskum lögum sé á það bent að í
1. mgr. 20. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki komi fram að starfsemi
banka geti meðal annars tekið til „móttöku innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna
“, en
ekki sé þar gerður greinarmunur á smásölu- og heildsölulánum.
Ekki sé um það deilt að varnaraðila
beri að endurgreiða umrædda fjárhæð ásamt vöxtum í samræmi við samning aðila.
Engu geti skipt varðandi skilgreiningu á því hvort um innstæðu sé að ræða að
samið hafi verið um skilmála samninganna með ítarlegum hætti, enda um verulegar
fjárhæðir að tefla. Beinlínis sé kveðið á um það í skilgreiningu tilvitnaðrar
3. mgr. 9. gr. að hægt sé að semja um skilmála innstæðna. Engu breyti heldur í
þessu tilliti hvort varnaraðili hafi haldið innstæðunni á skráðum reikningi á
nafni innlánshafa eða að samið hafi verið um endurgreiðslu innstæðunnar á
tilteknum gjalddaga.
Sóknaraðili bendir á að í
greinargerð með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum um innstæðutryggingar sé
tekið fram að frumvarpið hafi verið samið í tengslum við tilskipun Evrópusambandsins
um tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/9/EC, sem sett hafi verið í framhaldi
af tilskipun um innstæðutryggingar nr. 94/19/EC. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr.
tilskipunarinnar um innstæðutryggingar hafi aðildarríkjum verið heimilað að
undanskilja ákveðnar tegundir innstæðna eða ákveðna hópa innstæðueigenda frá
tryggingarvernd. Þar á meðal hafi verið heimilað að undanskilja innstæður
fjármálafyrirtækja tryggingarvernd. Óumdeilt sé hins vegar að fyrrgreind
undanþáguheimild hafi ekki verið nýtt við setningu laganna um
innstæðutryggingar og séu undantekningarnar frá tryggingarvernd tæmandi taldar
í 6. mgr. 9. gr. laganna. Þar komi fram að undanskilin tryggingu séu
„innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja, svo og móður og
dótturfyrirtækja þeirra, fyrir þeirra eigin reikning og innstæður, verðbréf og
reiðufé sem tengist málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti“. Af
þessu megi gagnálykta að krafa sóknaraðila falli óumdeilanlega undir
tryggingarvernd laganna.
Loks sé á því byggt að skýra beri 6.
gr. laga nr. 125/2008, sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002 og 3. mgr. 9. gr. laga
nr. 98/1999, samkvæmt orðanna hljóðan. Ekkert verði af ákvæðum neyðarlaganna
ráðið eða lögskýringargögnum með þeim um að ætlunin hafi verið að takmarka með
einhverjum hætti hvaða innstæður nytu forgangs skv. 6. gr.
Varðandi kröfu sóknaraðila um
kostnað sé á það bent að skv. 1. tl. 114. gr. laga
nr. 21/1991 séu kröfur um vexti, verðbætur, gengismun og kostnað af innheimtu
kröfu skv. 112. eða 113. gr., sem fallið hafi til eftir að úrskurður hafi
gengið um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta, eftirstæðar kröfur. Með
gagnályktun frá þessu ákvæði hljóti kostnaður sóknaraðila fram að upphafsdegi
slitameðferðar varnaraðila hinn 22. apríl 2009 að fá sömu rétthæð og krafan sjálf.
Njóti hann því forgangsréttar skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þessu til
viðbótar hafi varnaraðili skuldbundið sig í innstæðusamningunum til að greiða
sóknaraðila allan kostnað sem til félli við innheimtu kröfunnar, sbr. gr. 16.2.
Til stuðnings varakröfu sinni kveðst
sóknaraðili vísa til allra sömu málsástæðna og fyrir aðalkröfu sinni.
Varnaraðili hafi þegar viðurkennt kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu í
skilningi 113. gr. laga nr. 21/1991, að öðru leyti en um kostnað. Vísist hvað
það varði sérstaklega til framangreindra málsástæðna vegna þess þáttar í kröfu
sóknaraðila.
Málsástæður
varnaraðila
Varnaraðili vísar til þess að hinir
umdeildu samningar séu skriflegir lánasamningar sem gerðir hafi verið milli
varnaraðila og Deutsche Bank sem upphaflegs lánveitanda.
Hafi þeir verið gerðir til 10 ára í formi svokallaðra FRB-skuldabréfa en
ákveðið hefði verið að samningarnir yrðu og í formi „strúktúraðra“
lánasamninga (Structured Loan
Credit Facility). Samkvæmt
eðlilegri orðskýringu á ákvæðum gjaldþrotalaga og áratuga dómvenju beri að
skipa slíkum lánasamningum í réttindaröð skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Þegar
af þessari ástæðu þurfi því hvorki að deila um túlkun á innstæðuhugtakinu í 3.
mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 né tilskipun nr. 94/19/EB eða inntaki þeirrar
tilskipunar.
Við mat á eðli þessara samninga
verði að líta til aðdraganda að gerð þeirra og hvernig að því hafi verið
staðið. Ljóst sé að samkvæmt áratugalangri venju hjá íslenskum viðskiptabönkum
hafi innlánseigendur eingöngu getað lagt inn fjármuni samkvæmt þeim skilmálum,
oftast stöðluðum, sem gildi um slíkar innstæður hjá viðkomandi viðskiptabanka.
Þessu hafi verið öfugt farið með umrædda samninga. Deutsche
Bank hafi átt frumkvæðið að þeim viðskiptum og kynnt viðskiptahugmyndina fyrir
varnaraðila í nóvember 2006 sem „structured funding opportunity“. Hafi sá
banki alfarið hannað og sett upp „strúktúrana“ á samningunum, ákveðið kjörin á
þeim og samið einhliða skilmála viðskiptanna með varnaraðila í huga. Ekki hafi
því verið um það að ræða að Deutsche Bank hafi
ákveðið að leggja inn fé á reikning hjá varnaraðila til ávöxtunar eða verið að
leita sér að einfaldri og öruggri fjárfestingu. Megi ljóst vera að Deutsche Bank hafi aldrei getað haft réttmætar væntingar
til þess að litið yrði á umrædda fjármálagerninga sem innlán, sem nytu verndar
íslenska tryggingarsjóðsins, hvað þá að fjármálagerningarnir yrðu metnir sem
innlán er nytu stöðu forgangskröfu við slitameðferð varnaraðila. Ekkert bendi
heldur til að bankinn hafi í raun litið svo á og því fjarri lagi að þeir aðilar
sem keypt hafi sig inn í lánasamningana á síðari stigum geti í þessu efni notið
betri réttar hvað þetta varði. Á sama hátt verði ekki annað ráðið af gögnum en
að þáverandi stjórnendur og ytri endurskoðendur varnaraðila hafi frá upphafi
litið á samningana sem lánasamninga.
Varnaraðili vísar til þess að öll
orðnotkun í umræddum samningum bendi eindregið til þess að um hefðbundna
lánasamninga sé að ræða en ekki innstæðu í skilningi laga nr. 98/1999. Þannig
sé hvergi minnst á innstæðu í þessum samningum nema á forsíðu þeirra. Þegar
hins vegar þremur samninganna hafi verið skilmálabreytt í febrúar 2008 hafi
verið vísað til þeirra sem „Facility agreement“ en ekki sem „Deposit agreement“. Það eitt og sér að samningur feli í sér
lánsheimild (Facility) eigi að nægja til að komast að
þeirri niðurstöðu að hann geti ekki talist innstæða. Í samningunum sé ávallt
vísað til skuldara annars vegar og hins vegar lánveitanda. Ekki sé vísað til
innstæðueiganda, innstæðu eða innláns heldur notað orðið lán.
Á sama hátt verði ráðið af öðrum
gögnum tengdum samningunum, og samningsgerðinni sjálfri, að allir þeir sem
tengst hafi samningunum hafi litið á þá sem lánssamninga. Þannig sé staðfest
með bréfum, dags. 17. desember 2009, sem Deutsche
Bank hafi sent sem „agent“ af lánunum til allra
lánveitenda, að sóknaraðili hafi verið einn af mörgum lánveitendum samkvæmt
sambankaláni og aðeins átt ákveðna hlutdeild í höfuðstól lánsins, ásamt
áföllnum vöxtum sem tilheyrt hafi þeirri hlutdeild.
Á engan hátt geti staðist sú fullyrðing
sóknaraðila í greinargerð að krafa hans teljist bundið innlán þar sem um
tímabundinn samning hafi verið að ræða með fyrir fram ákveðnum gjalddaga (final maturity date). Þannig séu í samningunum fjölmörg ákvæði sem gefi
sóknaraðila tækifæri til að gjaldfella lánið fyrir umsaminn lokadag og krefjast
tafarlausrar endurgreiðslu þess. Sé í því sambandi vakin athygli á því að í
október 2008 hafi Deutsche Bank sent varnaraðila
skriflega yfirlýsingu um gjaldfellingu allra samninganna með vísan til þess að
vanefnd hefði orðið á þeim í kjölfar þess að Kaupthing
Singer & Friedlander hefði verið tekið til
skiptameðferðar og að Fjármálaeftirlitið hefði skipað skilanefnd yfir
varnaraðila. Sé ljóst að aðilar með bundin innlán hafi almennt engar heimildir
til að krefjast endurgreiðslu á innlánum sínum fyrir gjalddaga. Þá sé og bent á
að samkvæmt ákvæðum samninganna hafi varnaraðila ekki borið að greiða hverjum
og einum lánveitanda sinn hluta lánsins í kjölfar gjaldfellingar heldur hafi
varnaraðila borið að greiða lánsfjárhæðina til Deutsche
Bank í einu lagi, sem skyldi síðan í kjölfarið úthluta henni í réttum
hlutföllum til viðkomandi lánveitenda, sbr. gr. 28.1 og 28.2 í samningunum.
Slíkt fengi engan veginn staðist ef um innlán hefði verið að ræða.
Staðreyndin sé sú að FRB-samingarnir séu í raun annað og meira en einfaldir
lánasamningar því hver og einn samningur sé flókinn fjármálagerningur (structured financial product). Í samingana sé innbyggð
afleiða (embedded option value) þar sem vaxtagreiðslur samninganna séu háðar ávöxtun
(performance) ákveðinna vísitalna. Sé ljóst að slíkir
„strúktúraðir“ fjármálagerningar séu í raun eins
fjarri því að vera innstæða og mögulegt sé.
Eins og áður hafi verið vikið sé
ljóst að þótt Deutsche Bank hafi í upphafi verið eini
lánveitandinn á öllum FRB-samningunum hafi þeir verið byggðir upp með þeim
hætti að gert hafi verið ráð fyrir að sá banki myndi framselja til annarra
aðila hluta af lánveitingunni. Falli samningarnir því undir form svokallaðra
sambankalána (syndicated) frekar en tvíhliða
lánasamninga (bilateral). Hafi það enda verið raunin
að Deutsche Bank hafi framselt stóran hluta af
lánahlutdeildinni til annarra aðila á árunum 2007 til 2009 eins og
fyrirliggjandi yfirlit um framsöl sýni. Sé þetta og staðfest í kröfulýsingu Deutsche Bank þar sem segi að bankinn hafi framselt rétt
sinn til höfuðstólsgreiðslna og vaxta til annarra aðila, sem hafi þá orðið
lánveitendur samkvæmt samningunum. Virðist sem samningarnir séu að mestu
byggðir á stöðluðu formi sambankalána sem Loan Market
Association, fagfélag fyrir aðila sambankalána
markaðarins, gefi út og fyrir liggi í málinu. Helsti munurinn virðist sá að
FRB-samningarnir séu með innbyggða afleiðu sem ekki sé gert ráð fyrir í hinu
staðlaða formi.
Varnaraðili bendi og á að samkvæmt
samningunum hafi ýmsar skyldur verið lagðar á varnaraðila, sem hafi verið
algjörlega ósambærilegar við almennar skyldur viðskiptabanka gagnvart
innlánseigendum. Megi í því sambandi nefna skyldu varnaraðila, sem um sé
fjallað í kafla 18, til að afhenda „agent“ f.h. lánveitenda
endurskoðaða ársreikninga sína og hálfsárs uppgjör fyrir hvert reikningsár,
skyldu varnaraðila til að afhenda allar þær upplýsingar sem sendar séu
hluthöfum og/eða öðrum kröfuhöfum og skyldu til að tilkynna sérstaklega hafi
einhver vanefnd orðið á einhverjum öðrum samningi. Þá hafi varnaraðili þurft að
standast ákveðið fjárhagsskilyrði, m.a. varðandi eiginfjárstöðu á hverjum tíma,
sbr. kafla 19. Loks sé í kafla 20 kveðið á um sérstakar íþyngjandi skyldur
gagnvart varnaraðila á meðan lán samkvæmt samningunum séu útistandandi, eins og
t.d. bann við veðsetningu og sölu á eignum.
Sérstaklega sé mótmælt þeirri
staðhæfingu sóknaraðila að sú staðreynd að hluti umræddra lána hafi á tímabili
verið færður sem innstæður í bókhaldi varnaraðili skipti einhverju við úrlausn
máls þessa. Ljóst megi vera að það hljóti að vera eðli undirliggjandi kröfu,
þ.e. FRB-samninganna, sem ráði því hvort þeir falli undir hugtakið innstæða í
skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Bókhaldsleg meðferð varnaraðila
vegna ársreiknings 2007 skipti engu máli í þessu tilliti, enda geti sambankalán
ekki skyndilega breyst í innstæðu á grundvelli bókhaldslegrar skráningar.
Sérstök áhersla sé á það lögð að
kröfur lánveitenda á hendur varnaraðila samkvæmt umræddum samningum séu, og
hafi alltaf verið, framseljanleg kröfuréttindi. Sé í kafla 22, sbr. kafla 22.1,
sérstaklega tekið fram að lánveitandi megi framselja réttindi sín í heild eða
að hluta. Hafi enda fjölmörg framsöl átt sér stað undir samningunum allt frá
útgáfu þeirra, líkt og sjá megi á fyrirliggjandi yfirliti Deutsche
Bank yfir framsöl sem átt hafi sér stað frá útgáfudegi þeirra og þar til
kröfulýsingarfresti í bú varnaraðila lauk.
Að mati varnaraðila hafi
FRB-samningarnir öll einkenni verðbréfa en ekki innlána. Teljist samningarnir
þannig til krafna sem útgefnar séu af viðskiptabanka í formi verðbréfa í
merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og njóti því þegar af þeirri ástæðu
ekki forgangs skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Við túlkun á hugtakinu verðbréf
verði að taka mið af þeirri skilgreiningu hugtaksins sem fram kom í 3. tl. 2. gr. a í lögum nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, sem
í gildi hafi verið þegar lög nr. 98/1999 hafi verið sett, en þar segi svo:
„Hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar,
svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða
einstökum lausafjármunum.“ Í samsvarandi ákvæðum laga nr. 33/2003 um
verðbréfaviðskipti, sem leyst hafi lögin nr. 13/1996 af hólmi, og síðan laga
nr. 108/2007, hafi framangreind skilgreining haldið sér efnislega. Þá sé
framangreind skilgreining og að öllu leyti sambærileg við ákvæði tilskipun
Evrópusambandsins nr. 2004/39/EC, svokallaða MiFID-tilskipun.
Samkvæmt þessu sýnist liggja fyrir að til að fjármálagerningur geti talist
verðbréf þurfi hann að vera framseljanlegur og að unnt sé að eiga viðskipti með
hann á fjármagnsmarkaði. Í tilviki FRB-samninganna séu bæði skilyrðin uppfyllt.
Engu breyti í því sambandi, eins og á sé byggt af hálfu sóknaraðila, að í gr.
22.2 í samningunum sé áskilnaður um að samþykki lántaka þurfi til að koma svo
framsal teljist heimilt. Sé í þessu sambandi bent á að samkvæmt
lögskýringargögnum beri að skýra hugtakið framseljanlegur svo að gerningurinn
geti færst milli aðila. Þá komi og fram í gr. 22.1 að lántaki megi ekki neita
eða tefja samþykki á framsali nema fyrir því séu lögmætar ástæður. Feli ákvæðið
því ekki í sér raunverulega hindrun á framsali þar sem það leggi í raun þá kvöð
á varnaraðila að samþykkja allar framsalsbeiðnir. Liggi enda ekki annað fyrir
en allar beiðnir um framsöl hafi umsvifalaust verið samþykktar af varnaraðila.
Þá megi sjá af stöðluðu formi fyrir slík lán, sem fyrir liggi í málinu, að
ákvæði þetta sé í samræmi við það sem tíðkist í hefðbundnum sambankalánum.
Varðandi seinna skilyrðið, um að það
verði að vera hægt að eiga viðskipti með verðbréfið á fjármagnsmarkaði, virðist
ekki vera um það ágreiningur að það sé uppfyllt, enda hafi sóknaraðili sjálfur
átt viðskipti með FRB-samningana á fjármagnsmarkaði í lok árs 2008. Samkvæmt frumvarpi
til laga nr. 108/2007 teljist viðskipti fyrir milligöngu fjármálafyrirtækis með
leyfi til verðbréfaviðskipta til viðskipta á fjármagnsmarkaði.
Ljóst sé að krafa sóknaraðila geti
ekki fallið undir þá skilgreiningu á hugtakinu innstæða sem fram komi í 3. mgr.
9. gr. laga nr. 98/1999. Sé túlkun sóknaraðila á hugtakinu of rúm og ekki í
samræmi við markmið og tilgang ákvæðisins. Meginskilyrði þess að krafan njóti
forgangsréttar skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 sé að hún sé í eðli sínu innstæða
samkvæmt lögum nr. 98/1999. Krafa geti ekki talist innstæða fyrir það eitt að
fjármunir á grundvelli lánasamninganna hafi verið millifærðir til varnaraðila.
Um hafi verið að ræða andvirði lánanna sem lagt hafi verið inn á reikning
varnaraðila hjá Deutsche Bank í Frankfurt í
Þýskalandi í samræmi við ádráttarbeiðnir varnaraðila og síðan nýtt í rekstur
varnaraðila í samræmi við skilyrði lánasamninganna. Fráleitt sé að slíkt geti á
einhvern hátt túlkast sem innstæða Deutsche Bank hjá
varnaraðila. Á það sé og bent að það hugtaksskilyrði að sá sem krefjist
endurgreiðslu sé „viðskiptavinur“ aðildarfyrirtækis, þ.e. varnaraðila, sé ekki
til staðar. Þannig hafi hvorki Deutsche Bank né þeir
sem keypt hafi sig inn í FRB-samningana, þar á meðal sóknaraðili, verið
viðskiptavinir varnaraðila fyrir fall bankans í október 2008.
Að lokum taki varnaraðili fram að í
FRB-samningunum sé tekið fram að þeir lúti enskum lögum. Verði ekki annað séð,
meðal annars af fyrirliggjandi lögfræðiáliti um enskan rétt á þessu sviði, en
að íslenskur réttur og enskur séu samhljóma um hugtökin innstæða, verðbréf og
viðskiptavinur og hvernig beri að túlka þau með tilliti til viðeigandi
lagaákvæða og dómaframkvæmdar, það er að samningarnir teljist vera verðbréf en
ekki innstæða og að sóknaraðili geti ekki talist viðskiptavinur varnaraðila.
Alfarið sé hafnað kröfu sóknaraðila
um kostnað þegar af þeirri ástæðu að sóknaraðili hafi ekki með nokkrum hætti
sýnt fram á að umkrafinn kostnaður sé til kominn vegna sönnunar og/eða
innheimtu kröfunnar á tímabilinu fyrir úrskurðardag, eins og kveðið sé á um í
114. gr. laga nr. 21/1991.
Niðurstaða
Sóknaraðili krefst þess að krafa
hans að fjárhæð samtals 86.531.480.183 krónur njóti forgangsréttar við
slitameðferð varnaraðila á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti
o.fl. Hefur slitastjórn varnaraðila hafnað því að krafan njóti forgangsréttar
við slitin en samþykkt hana sem almenna kröfu skv. 113. gr. tilvitnaðra laga,
að undanskildum innheimtukostnaði, samtals að fjárhæð 86.529.222.422 krónur.
Snýr ágreiningur málsaðila að
meginstefnu til að því hvort krafa sóknaraðila teljist innstæða samkvæmt 3.
mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir
fjárfesta og njóti sem slík forgangs við slit varnaraðila skv. 3. mgr. 102. gr.
laga nr. 161/2002, svo sem henni var breytt með 6. gr. laga nr. 125/2008 og
síðar 6. gr. laga nr. 44/2009.
Samkvæmt 3.
mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda við slit fjármálafyrirtækis sömu reglur
og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi. Þó skulu kröfur um innstæður samkvæmt
lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta
jafnframt teljast til krafna sem njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr.
laga nr. 21/1991. Með innstæðu skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 er skv. 3.
mgr. ákvæðisins átt við innstæðu sem er tilkomin vegna innláns eða millifærslu
í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að
endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Þá kemur
og fram að tryggingin nái hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra
krafna sem útgefnar séu af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.
Eins
og áður hefur verið rakið byggist krafa sóknaraðila á hlutdeild hans í fjórum
samningum, dags. 2. apríl, 11. apríl, 6. september og 28. september 2007, sem
allir bera yfirskriftina „Deposit Agreement“.
Hins vegar liggur fyrir að þremur síðasttöldu
samningunum var skilmálabreytt í febrúar 2008 og var þá á forsíðum
skilmálabreytinganna, sem bera heitið „Amendment and restatement agreement“, vísað til samninganna sem „Facility
Agreement“ en ekki sem innlánssamninga (Deposit Agreeement).
Upphaflegur
viðsemjandi varnaraðila samkvæmt samningum þessum var Deutsche
Bank, en sá banki framseldi stóran hluta af lánahlutdeildinni til ýmissa
annarra aðila, fjármálafyrirtækja og sjóða, á árunum 2007 til 2009. Kemur
þannig fram í kröfulýsingu Deutsche Bank til
varnaraðila, vegna hlutdeildar bankans í einum samninganna, að samningurinn sé
sambankalán („... is in syndicated
format“) og að bankinn hafi framselt rétt sinn til höfuðstólsgreiðslna og vaxta
til annarra aðila sem hafi þá orðið lánveitendur samkvæmt samningnum.
Samningarnir hafa að geyma mjög ítarlega skilmála sem virðast hafa verið samdir
sérstaklega af upphaflega lánveitandanum, Deutsche
Bank. Kemur þar m.a. fram að lánveitendur samþykki að veita lántaka aðgang að
lánsheimild sem nemi samtals heildarfjárhæð lánsloforða („... the Lenders make
available to the Borrower a term loan in
an aggregateamount equal to the
Total Commitments ...“). Þá
er kveðið á um innbyggða afleiðu (Fair Value Make-Whole
Amount) þannig að samningarnir beri fasta vexti fram
að tilgreindri dagsetningu en eftir þann tíma skuli vextir verða skilyrtir og
bundnir við ávöxtun tiltekinna vísitalna (FRB-index)
sem Deutsche Bank hafði búið til. Skilyrtir vextir
samningsins höfðu þó ákveðið hámark og lágmark auk þess sem innra virði
afleiðunnar hafði einnig tiltekið hámark og lágmark. Voru samningarnir og „strúktúraðir“ með þeim hætti að á upphafsdegi var innra
virði afleiðunnar í hámarki en lækkaði svo í ákveðnu hlutfalli við ávöxtun
fyrrgreindra vísitalna. Heimilt var lánveitendum að aðskilja afleiðukröfuna frá
kröfu um greiðslu höfuðstóls og vaxta, þ.e. aðskilja afleiðuna frá
lánahlutdeildinni, og liggur fyrir að Deutsche Bank
nýtti sér þá heimild eftir að þeir voru gjaldfelldir í október 2008.
Enda
þótt yfirskrift eða heiti umræddra samninga sé „Deposit
Agreement“ verður ekki séð að annars staðar í
samningunum sé vísað til þess, eða kveðið á um, að lánveiting Deutsche Bank á grundvelli þeirra sé í formi innláns eða
millifærslu, eða að þar komi annað fram sem styðji þá staðhæfingu
sóknaraðila að um innstæðu sé að ræða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr.
98/1999. Þvert á móti sýnist, eins og að nokkru hefur verið áður rakið, að efni
og orðfæri í þeim samningum sem kröfur sóknaraðila byggjast á, ákvæði
samninganna er lúta að tilteknum heimildum til framsals þeirra, heimild til
gjaldfellingar, skyldum varnaraðila til upplýsingagjafar gagnvart lánveitanda
og ákvæði samninganna um innbyggða afleiðu sem hægt var skilja frá kröfu um
greiðslu höfuðstóls og vaxta o.fl., vera á þann veg að á engan hátt fái staðist
að um innstæðu sé að ræða. Liggur og fyrir, eins og áður er fram komið, að
upphaflegur lánveitandi, Deutsche Bank, hefur nýtt
sér framangreindar heimildir, meðal annars til framsals samninganna, til að
halda eftir afleiðuhluta í þremur þeirra og til gjaldfellingar lánanna. Sýnist
því verða að líta á samningana sem
sambankalán af sérstökum toga og að samningarnir hafi sérstaklega verið útbúnir
og sérsniðnir fyrir varnaraðila í tilefni lánveitingarinnar. Verður ekki á það
fallist með sóknaraðila að neinu breyti í þessu sambandi þótt vera kunni að
umræddir samningar hafi á einhverju stigi verið færðir í bókhaldi varnaraðila
sem innstæður eða að tilgreindir starfsmenn varnaraðila hafi óskað eftir að
yfirskrift samninganna yrði breytt úr því að vera skuldabréf (Bond) yfir í að vera innstæðusamningur (Deposit
agreement). Á sama hátt verður ekki fallist á að unnt
sé að telja það millifærslu í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 þótt umsamin lánsfjárhæð hafi verið
millifærð frá Deutsche Bank inn á tilgreindan reikning
varnaraðila hjá þeim banka.
Með
hliðsjón af því sem rakið hefur verið er því hafnað að krafa sóknaraðila teljist
innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1991, sem njóti forgangs skv.
112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr.
161/2002.
Sóknaraðili
gerir í máli þessu kröfu um að viðurkennd verði krafa hans um innheimtukostnað
sem nemi 17.273,05 bandarískum dölum, eða 2.257.761 krónu. Sé kostnaður þessi
til kominn vegna þriggja reikninga lögmannsstofunnar Bingham McCutchen (London) LLP, sem allir hafi verið gefnir út
fyrir upphaf slitameðferðarinnar hinn 22. apríl 2009. Reikningarnir sjálfir
liggja hins vegar ekki fyrir í málinu heldur einungis yfirlit er sýnir að
lögmannsstofan hafi gert þáverandi framsalshafa umræddra lánasamninga, BNAP
L.L.C., þrjá reikninga vegna lögfræðiþjónustu í tengslum við varnaraðila (in relation to
Kaupthing Bank hf.). Eru reikningar þessir þar sagðir
útgefnir í desember 2008 og janúar og febrúar 2009, samtals að fjárhæð
17.273,05 bandarískir dalir. Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem engra
annarra gagna nýtur við um það hvort kostnaður þessi tengist beint innheimtu
þeirrar kröfu sóknaraðila sem mál þetta snýst um, verður þegar af þeirri ástæðu
að hafna því að viðurkenna þennan hluta af kröfu sóknaraðila við slit
varnaraðila.
Í
samræmi við allt framangreint er staðfest sú afstaða slitastjórnar varnaraðila
að samþykkja kröfu sóknaraðila að fjárhæð 86.529.222.422 krónur sem almenna
kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 en hafna henni að öðru leyti.
Eftir þessum úrslitum verður
sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn
2.200.000 krónur. Hefur við ákvörðun hans verið tekið tillit til útlagðs
kostnaðar vegna þýðingar málsskjala að fjárhæð 990.384 krónur og
þingfestingargjalds að fjárhæð 150.000 krónur.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður
upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Krafa sóknaraðila, BNAP S.A.R.L., að fjárhæð 86.529.222.422
krónur, er viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um
gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, Kaupþings hf., en hafnað
er að viðurkenna hana sem forgangskröfu skv. 112. gr. sömu laga.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 2.200.000 krónur í
málskostnað.