Hæstiréttur íslands

Mál nr. 645/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


Mánudaginn 7

 

Mánudaginn 7. desember 2009.

Nr. 645/2009.

A

(Freyr Ófeigsson hrl.)

gegn

Héraðsdómi Norðurlands eystra

(enginn)

Kærumál. Greiðsluaðlögun.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. A fékk fyrst heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar 4. júlí 2009. Umsjónarmaður með framkvæmd nauðasamningsumleitana mælti gegn því að greiðsluaðlögun í samræmi við greiðsluáætlun A kæmist á þar sem hann hafi um nokkurt skeið látið hjá líða að standa í skilum við lánardrottna sína með því að greiða af skuld sem honum hafi samkvæmt gögnum málsins ekki verið skylt að greiða. Féll heimild hans niður 17. september 2009. A leitaði á ný heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar 6. október 2009. Var talið að ákvæði 1. tl. 1. mgr. 38. gr., sbr. 1. mgr. 63. gr. d, laga nr. 21/1991 stæði því í vegi þar sem mælt væri fyrir um að synja skuli um heimild til að leita nauðasamnings hafi skuldari áður haft heimild til þess og hún verið felld niður innan þriggja ára fyrir frestdag vegna framferðis hans. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.                          

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. október 2009, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 2. mgr. 63. gr. d., sbr. 179. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Sóknaraðili fékk heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar 4. júlí 2009. Lögmaður, sem skipaður var samkvæmt 2. mgr. 39. gr., sbr. 3. mgr. 63. gr. d,  laga nr. 21/1991 til að hafa umsjón með framkvæmd nauðasamningsumleitana, mælti gegn því að greiðsluaðlögun í samræmi við greiðsluáætlun sóknaraðila kæmist á. Í greinargerð umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. 63. gr. g laga nr. 21/1991 kemur fram að ástæða þess hafi einkum verið sú að sóknaraðili hafa um nokkurt skeið látið hjá líða að standa í skilum við lánardrottna sína, þótt honum hafi verið það kleift að einhverju leyti eða öllu, með því að greiða af skuld, sem honum hafi samkvæmt gögnum málsins ekki verið skylt að greiða. Tilkynnti umsjónarmaður þetta 14. september 2009 til Héraðsdóms Norðurlands eystra og var tilkynningin móttekin af dóminum 17. sama mánaðar. Tilkynning umsjónarmanns um lok nauðasamnings var auglýst í Lögbirtingarblaði 25. september 2009. Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. g laga nr. 21/1991 féll því heimild sú, sem sóknaraðila var veitt 4. júlí 2009, niður 17. september það ár.

Sóknaraðili leitaði á ný heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar 6. október 2009. Í 1. tölulið 1. mgr. 38. gr., sbr. 1. mgr. 63. gr. d, laga nr. 21/1991 er mælt fyrir um að synja skuli um heimild til að leita nauðsamnings hafi skuldari áður haft heimild til þess og hún verið felld niður innan þriggja ára fyrir frestdag vegna framferðis hans. Stendur þetta ákvæði í vegi fyrir því að fallist verði á kröfu sóknaraðila og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. október 2009.

Mál þetta barst dómnum þann 15. október sl. og var tekið til úrskurðar 26. október sl.

Skuldari, A, kt. [...],[...], fer þess á leit að verða veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðslu­aðlögunar við lánardrottna sína samkvæmt ákvæðum 3. þáttar X. kafla a laga nr. 21, 1991, sbr. lög nr. 24, 2009.

Skuldari kveðst vera í fullu starfi sem [...] og taka launakjör samkvæmt kjarasamningi. Hann býr ásamt eiginkonu sinni í eigin fasteign með tveimur börnum sínum. Hann kveðst vera um fyrirséða framtíð ófær um að standa skil á skuldbindingum sínum.

Skuldarinn leitar nú á ný heimildar til að leita nauðasamnings til greiðslu­aðlögunar, en honum voru heimilaðar slíkar umleitanir með úrskurði upp kveðnum 4. júlí 2009. Með tilkynningu til skuldarans 14. september 2009 mælti umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum gegn því að greiðsluaðlögun kæmist á. Rekur skuldarinn að meginástæða þess hafi verið að hann hefði greitt af samningi við Íslandsbanka, fjármögnunarláni sem fyrirtækið B ehf. hafi verið aðalskuldari að, tryggðu með veði í sumarbústað í eigu móður skuldarans. Kveðst skuldarinn hafa greitt af þessu láni fyrir fyrirtækið í nokkurn tíma til að koma í veg fyrir að gengið yrði að eign móður hans. Samkvæmt framlagðri yfirlýsingu frá bróður skuldarans og meðeiganda að B ehf., muni hann nú taka að sér að greiða af þessu láni og sé þar með tekinn af allur vafi um að fé skuldarans verði ráðstafað til þess.

Í greinargerð umsjónarmanns með fyrri nauðasamningsumleitunum skuldarans segir, að í greiðsluáætlun hafi komið fram að skuldarinn hafi greitt af nánar greindum fjármögnunarsamningi. Greiðandi samkvæmt samningnum sé B ehf. Greiðslu­byrði hafi verið um 28.155 krónur á mánuði. Upplýst hafi verið á fundi með skuldaranum að samningurinn væri ekki vegna bílafjármögnunar og að greiðslubyrði væri orðin hærri. Jafnframt hafi komið fram að lánið hvíldi á sumarbústað í eigu móður skuldarans. Skuldarinn hafi tekið fram að hann hefði greitt af þessu láni og hygðist gera það áfram. Lánið hafi ekki verið tilgreint sem skuld í greiðsluáætlun og sé það í samræmi við það sem hafi komið fram á fundi með skuldara að lánið væri skuld B ehf., en ekki skuldarans, svo sem vegna sjálfskuldarábyrgðar. Ekki hafi verið gerð grein fyrir afborgun á láninu í greiðsluáætlun. Með hliðsjón af þessu segir umsjónarmaður að sér virðist sú staða vera uppi að skuldara beri ekki lagaleg skylda til að greiða umrætt lán þó hann hafi gert það og lýst því yfir að hann hygðist gera það áfram. Kveðst umsjónarmaður telja að sú háttsemi skuldara að greiða u.þ.b. 30.000 krónur á mánuði vegna skuldar sem honum hafi ekki verið lagalega skylt að greiða, á sama tíma og aðrar skuldir hafi verið í vanskilum, feli í sér að skuldari hafi látið hjá líða að standa í skilum við lánardrottna að umræddri fjárhæð. Út frá meginreglum gjaldþrotaréttar virðist umræddar greiðslur vera riftanlegar. Kveðst umsjónarmaður telja að vegna þessa hefði átt að hafna skuldaranum um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, sbr. 5. tl. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21, 1991, sbr. lög nr. 24, 2009 þar sem segi að synja eigi um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, hafi skuldari svo að máli skipti látið hjá líða að standa í skilum við lánardrottna sína, þótt honum hefði verið það kleift að einhverju leyti eða öllu.

Samkvæmt greiðsluáætlun skuldara telur hann heildarsamningskröfur á hendur sér nema 11.506.843 krónum. Þar af séu í vanskilum og gjaldfallnar kröfur að fjárhæð 646.985 krónur. Aðrar kröfur nemi 11.079.647 krónum og þar af séu í vanskilum og gjaldfallnar 114.268 krónur.

Skuldarinn reiknar greiðslugetu sína, að teknu tilliti til útgjalda vegna fram­færslu og afborgana af íbúðarhúsnæði, 72.145 krónur á mánuði. Hann gerir tillögu um að nauðasamningur hljóði um greiðslu 30.000 króna á mánuði í 5 ár og að samnings­tíma loknum verði eftirstöðvar samningskrafna felldar niður. Er hér um sömu tillögu að ræða og skuldarinn hafði uppi við fyrri nauðasamningsumleitanir. Hefur hann ekki hækkað þessa tillögu þrátt fyrir að hann hyggist nú ekki greiða áfram af greindri kröfu Íslandsbanka hf. á hendur B ehf. Kveður skuldarinn tillöguna setta fram með það í huga að svigrúm verði til að greiða af vanskilum veðskulda og til að mæta óvæntum kostnaði og ófyrirséðum atvikum vegna veikinda sonar síns.

Við fyrirtöku málsins á dómþingi kynnti dómari lögmanni skuldara m.a. að ekki lægi fyrir svo séð yrði hversu lengi skuldarinn hefði greitt af skuld B ehf. við Íslandsbanka hf. og því væri ekki unnt að leggja mat á það hvort skuldarinn hefði með þessu látið hjá líða að standa í skilum við lánardrottna þannig að máli skipti. Fékk skuldarinn frest til að bregðast við þessari athugasemd ásamt fleirum. Í athugasemdum, sem skuldarinn gerði skriflega við fyrirtöku málsins í gær, segir að frá maí 2007 til dagsins í dag hafi „reglulega (af og til)“ aðeins verið greiddir vextir af láninu og upphæðin hafi þá verið um 7.000 til 9.000 krónur á mánuði. Skuldarinn eigi og hafi rekið B ehf. í félagi við bróður sinn og hafi þeir báðir greitt af umræddu láni, en núna liggi fyrir að bróðirinn hafi tekið yfir fulla afborgun lánsins. Verði ekki talið að áhrif skuldbindingar vegna B ehf. hafi staðið í vegi fyrir því að skuldari stæði í skilum við aðra lánardrottna og sé því óeðlilegt að hafna beiðni um að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar af þeim sökum. Engin gögn fylgdu þessari greinargerð um það hvaða greiðslur skuldarinn hefði raunverulega innt af hendi. Af því sem fyrir liggur verður því helst að ætla að þar geti verið um að ræða allt að 30.000 krónur mánaðarlega í einhvern tíma, jafnvel tvö ár. Er þá um svipaða fjárhæð að ræða á mánuði og skuldarinn telur sér nú unnt að greiða upp í samn­ingskröfur samkvæmt tillögu hans að nauðasamningi. Verður að fallast á það mat umsjónarmanns með fyrri nauða­samnings­umleitunum að skuldarinn hafi með því að greiða af greindum fjármögnunarsamningi, samtímis því að vanskil söfnuðust upp hjá honum, látið svo máli skipti hjá líða að standa í skilum við lánardrottna sína, þótt honum hefði verið það kleift að einhverju leyti eða öllu. Þykir af þessari ástæðu eiga að neyta heimildar í 5. tl. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21, 1991 með áorðnum breytingum til að synja skuldaranum um heimild til að leita nauðasamnings á ný.

Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

A er synjað um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.