Hæstiréttur íslands

Mál nr. 267/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ráðgefandi álit
  • EFTA-dómstóllinn


                                     

Þriðjudaginn 29. apríl 2014.

Nr. 267/2014.

 

Stapi lífeyrissjóður

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

 

Kærumál. Ráðgefandi álit. EFTA-dómstóllinn.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni S um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði er lutu að skýringu á tilskipun ráðsins 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana, vegna máls S á hendur Í. Nánar tiltekið taldi S að slitameðferð fjármálafyrirtækisins SB hf., sem tekinn var til slita með lögum nr. 44/2009, væri í andstöðu við fyrirmæli tilskipunarinnar, sem mælti fyrir um að dómstólar og stjórnvöld hefðu ávörðunarvald um upphaf slitameðferðar. Hélt S því enn fremur fram að af fyrrgreindum sökum hefði einungis verið í gildi úrskurður um endurskipulagningarráðstöfun vegna SB hf., en ekki slit fjármálafyrirtækisins. Hefði S orðið fyrir tjóni af þessum sökum er hann tapaði kröfu sinni á hendur SP hf. fyrir vanlýsingu. Í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna hans, var vísað til þess að dómur Evrópudómstólsins 24. október 2013 í máli nr. C-85/12 veitti næga leiðsögn um þær spurningar sem beiðni S lyti að og léki því ekki sá vafi á túlkun tilskipunar 2001/24/EB að leita yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2014, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði í tengslum við mál það er sóknaraðili rekur á hendur varnaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að leita ráðgefandi álits. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Stapi lífeyrissjóður, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu 250.000 krónur í  kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mas 2014.

I.

         Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 6. mars sl. um hvort leita beri ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, er höfðað 30. ágúst 2013 af Stapa lífeyrissjóði, Strandgötu 3 á Akureyri, gegn íslenska ríkinu.

         Dómkröfur stefnanda í málinu eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.131.319.075 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. III. kafla laga nr. 38/2001, frá 16. nóvember 2012 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi greiði stefnanda 4.349.394.516 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. mars 2009 til 16. nóvember 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst þess í báðum tilvikum að stefndi greiði sér málskostnað auk virðisaukaskatts.

         Stefndi krefst aðallega sýknu ásamt málskostnaði en til vara að stefnukröfurnar verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

II.

         Stefnandi mun haustið 2008 hafa verið eigandi nokkurra skuldabréfa sem Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. hafði gefið út. Í október og nóvember 2008 sömdu stefnandi og Straumur-Burðarás um að bankinn greiddi upp kröfur stefnanda samkvæmt skuldabréfunum fyrir umsaminn gjalddaga gegn því að greiðslan yrði lögð inn á bundna innlánsreikninga hjá bankanum. Í málflutningsskjölum kemur jafnframt fram að samið hafi verið um að stefnandi myndi að auki leggja inn á reikningana fjárhæð sem nam um 25% af andvirði skuldabréfakrafnanna. Þá var samið um vexti og gjalddaga innlánanna, en þau námu samtals 4.041.537.130 krónum.

         Þegar gripið var til framangreindra ráðstafana hafði nokkru áður, eða 6. október 2008, birst yfirlýsing á heimasíðu forsætisráðuneytisins sem var svohljóðandi: „Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.“ Sama dag var lagt fram frumvarp til laga um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. sem urðu að lögum nr. 125/2008 að kvöldi 6. október 2008 og tóku gildi daginn eftir. Lög þessi ganga almennt undir heitinu neyðarlögin. Með lögunum var Fjármálaeftirlitinu meðal annars veitt heimild til að taka yfir stjórn fjármálafyrirtækja, sem komin voru að fótum fram, og ráðstafa eignum þeirra og skuldbindingum. Jafnframt fengu innstæður forgangsrétt við slitameðferð fjármálafyrirtækja. Á næstu dögum beitti Fjármálaeftirlitið heimildum sínum í þessa veru og tók yfir vald hluthafafundar í þremur stærstu bönkum landsins, vék stjórnum þeirra frá og skipaði þeim skilanefndir. Þá var innlendum eignum og skuldbindingum þeirra ráðstafað með nánar tilgreindum hætti til nýrra banka sem komið var á fót.

         Hinn 9. mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun að taka einnig yfir vald hluthafafundar Straums-Burðaráss, víkja félagsstjórninni frá störfum og skipa skilanefnd yfir fjármálafyrirtækinu, allt vegna yfirvofandi og alvarlegs lausafjárskorts þess. Hinn 17. sama mánaðar tók Fjármálaeftirlitið síðan þá ákvörðun að ráðstafa nánar tilgreindum skuldbindingum Straums-Burðaráss til Íslandsbanka hf. Með þeirri ákvörðun voru skuldbindingar „vegna innlána í höfuðstöðvum [Straums-Burðaráss] á Íslandi“ yfirteknar af Íslandsbanka hf. Sérstaklega var tekið fram að ekki væri þörf á innköllun eða auglýsingu vegna þeirrar færslu innstæðna. Á þessu var þó gerð sú undantekning í ákvörðuninni að Íslandsbanki hf. yfirtók ekki innlánaskuldbindingar Straums-Burðaráss sem stofnað hafði verið til „með þeim hætti að kröfueigandi samkvæmt skuldabréfi og/eða öðru sambærilegu skuldaskjali hefur fengið kröfu sína greidda fyrir gjalddaga en á sama tíma hefur verið stofnað til innláns hjá Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf.“. Í forsendum ákvörðunarinnar kemur fram að við nánari skoðun á innlánum í Straumi-Burðarási hafi komið í ljós að talsverðan hluta þeirra mætti rekja til þess að skuldbindingum bankans, sem áður hafi verið í formi skuldabréfa og sambærilegra skuldaviðurkenninga, hafi verið breytt í innlán með þeim hætti að skuldabréfin voru greidd upp og innlán stofnuð í staðinn. Í flestum tilvikum hafi þetta átt sér stað fyrir upphaflegan gjalddaga viðkomandi skuldaskjala. Í lögfræðiáliti, sem aflað hafi verið, kæmi fram að enginn vafi léki á því að um riftanlega gerninga væri að ræða við gjaldþrot eða nauðasamninga, þar sem umræddar skuldbindingar hafi verið greiddar fyrir gjalddaga og/eða ríkari trygging veitt fyrir eldri skuld. Af þeim sökum „og með tilliti til hagsmuna annarra kröfuhafa bankans“ hafi Fjármálaeftirlitið talið að þessi innlán „verði að meðhöndlast sérstaklega“.

         Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2009 var Straumi-Burðarási veitt heimild til greiðslustöðvunar. Átti greiðslustöðvun að standa til 11. júní 2009. Áður en henni lauk, eða 22. apríl 2009, tóku lög nr. 44/2009 gildi. Þar var í ákvæði til bráðabirgða II kveðið á um að tilteknar sérreglur ættu að gilda um fjármálafyrirtæki sem nytu heimildar til greiðslustöðvunar. Voru þessar sérreglur svohljóðandi:

         1.   Heimild til greiðslustöðvunar skal haldast þrátt fyrir gildistöku laga þessara og má framlengja hana samkvæmt þeim reglum sem um ræðir í 2. mgr. 10. gr.

         2.   Við greiðslustöðvunina skal beitt ákvæðum 1. mgr. 101. gr., 102. gr., 103. gr. og 103. gr. a laganna, sbr. 1. efnismgr. 5. gr., 6. gr., 7. gr. og 8. gr. laga þessara, eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem lög þessi öðlast gildi, en slitameðferðin skal þó allt að einu kennd við heimild til greiðslustöðvunar svo lengi sem sú heimild stendur, sbr. 1. tölul. Þegar sú heimild rennur sitt skeið á enda skal fyrirtækið án sérstaks dómsúrskurðar sjálfkrafa teljast vera til slitameðferðar eftir almennum reglum, sbr. þó 3. og 4. tölul. Ákvæði IV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gilda ekki um slíka greiðslustöðvun sem hér um ræðir, en þó skal aðstoðarmaður hafa eftirlit með ráðstöfunum skilanefndar skv. 103. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga þessara.

         3.   Skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem Fjármálaeftirlitið hefur skipað fyrir gildistöku laga þessara á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, skal með óbreyttu heiti halda áfram störfum og gegna því hlutverki sem slitastjórn er ætlað í 3. mgr. 9. gr., 2. málsl. 4. mgr. 101. gr., 1. málsl. 5. mgr. 102. gr. og 1.-3. mgr. 103. gr. laganna, sbr. 1., 5., 6. og 7. gr. laga þessara. [...]

         4.   Til annarra verka slitastjórnar en um ræðir í 3. tölul. skal héraðsdómari eftir skriflegri beiðni skilanefndar skipa fyrirtækinu slíka stjórn samkvæmt fyrirmælum 1. og 3. málsl. 4. mgr. 101. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga þessara. Þar skal jafnframt sjálfkrafa taka sæti sá sem gegnir starfi aðstoðarmanns fyrirtækisins við greiðslustöðvun og skal hann halda því sæti þótt henni ljúki.

         Að beiðni skilanefndar og með vísan til 1. og 3. töluliðar 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. töluliðar ákvæðis II til bráðabirgða í sömu lögum, skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur 11. maí 2009 tvo menn í slitastjórn Straums-Burðaráss. Í samræmi við sama ákvæði tók skipaður aðstoðarmaður Straums-Burðaráss við greiðslustöðvun sjálfkrafa sæti í slitastjórninni. Innköllun var gefin út 12. maí sama ár til skuldheimtumanna félagsins, en hún var birt í fyrra sinn í Lögbirtingablaði 18. maí 2009. Í innkölluninni var tekið fram að frestur til að lýsa kröfum fyrir slitastjórn væri tveir mánuðir frá fyrri birtingu innköllunarinnar. Kröfulýsingarfrestur rann því út 18. júlí 2009. Þá sagði í innkölluninni að yrði kröfu ekki lýst innan frestsins giltu um það sömu réttaráhrif og um vanlýsingu kröfu samkvæmt 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Teldist hún þá fallin niður gagnvart Straumi-Burðarási nema undantekningar í 1.-6. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991 ættu við.

         Með bréfi slitastjórnar Straums-Burðaráss 19. júní 2009 var stefnanda gerð grein fyrir því að unnið væri að undirbúningi að nauðasamningi sem stæði til að bera undir kröfuhafa. Jafnframt var upplýst að það væri afstaða slitastjórnarinnar að uppgreiðsla skuldabréfa stefnanda og gerð nýs samnings, sem veitti kröfuhafa betri réttarstöðu en hann hefði áður haft gagnvart öðrum kröfuhöfum félagsins, væri riftanleg ráðstöfun á grundvelli 1. mgr. 134. gr. og 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991. Með bréfinu var óskað eftir því að stefnandi lýsti afstöðu sinni til þess hvort hann samþykkti riftun á þessum grunni. Bréfinu var svarað 14. júlí 2009 þar sem röksemdum slitastjórnar var hafnað og því lýst yfir að stefnandi teldi sig eiga innstæður sem njóta ættu forgangs við slit á Straumi-Burðarási.

         Stefnandi lýsti kröfu á grundvelli innstæðnanna við slit á Straumi-Burðarási og mun kröfulýsingin hafa borist 24. júlí 2009. Kröfunni var hafnað á þeim grundvelli að kröfulýsingin hefði borist eftir lok kröfulýsingarfrests.

         Með heimild í 3. mgr. 103. gr. a í lögum nr. 161/2002, sbr. 8. gr. laga nr. 44/2009, leitaði Straumur-Burðarás nauðasamnings við kröfuhafa félagsins til að ljúka slitameðferðinni. Auglýsing um nauðasamningsumleitanirnar var birt í Lögbirtingablaði 1. júlí 2010 og var boðað til kröfuhafafundar 13. sama mánaðar til að fjalla um frumvarp að nauðasamningi. Á fundinum var nauðasamningurinn samþykktur og var hann staðfestur með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2010.

         Stefnandi höfðaði mál á hendur Straumi-Burðarási 17. febrúar 2011 og krafðist greiðslu andvirðis umræddra skuldabréfa, sem hann hafði átt haustið 2008, ásamt vöxtum. Nafni Straums-Burðaráss hafði þá verið breytt í ALMC hf. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 10. maí 2012 í málinu nr. 459/2011 var ALMC hf. sýknað af kröfu stefnanda. Í dóminum var því hafnað að slitameðferð hefði aldrei hafist á Straumi-Burðarási, eins og stefnandi reisti málshöfðun sína öðrum þræði á. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að krafa stefnanda hefði fallið niður fyrir vanlýsingu.

         Með bréfi 16. október 2012 fór stefnandi fram á að Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiddi sér jafnvirði innstæðnanna sem stefnandi átti hjá Straumi-Burðarási þegar bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu. Krafa stefnanda nam samtals 4.349.394.516 krónum. Með bréfi 4. janúar 2013 var þessari kröfu hafnað af hálfu tryggingarsjóðsins. Sú niðurstaða var meðal annars rökstudd með því að krafa stefnanda væri ekki innstæða í skilningi laga, heldur krafa á grundvelli skuldabréfs sem ekki nyti tryggingarverndar samkvæmt 1. og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda sem tengjast ágreiningi um hvort leita eigi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins

         Stefnandi reisir kröfur sínar á fimm málsástæðum og telur hann að hver þeirra eigi að leiða til fébótaábyrgðar stefnda. Málsástæður þessar lúti m.a. að aðgerðum Fjármálaeftirlitsins (FME) gagnvart stefnanda, en stofnunin sé í eigu stefnda og starfi á grundvelli laga nr. 87/1998. Stofnunin lúti sérstakri stjórn og heyri undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Stefnandi kveðst byggja fébótaábyrgð FME gagnvart stefnanda á sakarreglunni sem stefndi beri ábyrgð á með vísan til reglna um húsbóndaábyrgð.

         Með tilliti til þess ágreinings sem hér er til úrlausnar er ekki þörf á að lýsa fyrstu fjórum málsástæðum stefnanda. Fimmta málsástæða stefnanda lýtur að því að stefndi, íslenska ríkið, hafi bakað sér skaðabótaábyrgð, með því að hafa heimilað að hefja slitameðferð fjármálafyrirtækja í greiðslustöðvun með lagasetningu, sbr. lög nr. 44/2009. Það stangast að mati stefnanda á við skuldbindingar stefnda samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, enda sé sú tilhögun andstæð tilskipun 2001/24/EBE (hér eftir „tilskipunin“) sem íslenska ríkið hafi skuldbundið sig til að innleiða á árinu 2002. Slitameðferð þessi hafi valdið stefnanda fjártjóni vegna þeirra vanlýsingaráhrifa sem hafi fylgt henni. Því beri stefndi skaðabótaábyrgð á fjártjóni stefnanda vegna þess að slitameðferðin hafi skert eignarréttindi hans. Þar byggir stefnandi á því að slitameðferðin hafi með ólögmætum hætti rýrt eignarréttindi stefnanda og stefndi hafi því brotið gegn stjórnarskrárvernduðum eignarréttindum stefnanda, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar sbr. og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu sem stefndi sé skuldbundinn til að virða.

         Í stefnu er gerð nánari grein fyrir þessari málsástæðu. Í stuttu máli þá byggir stefnandi á því að samkvæmt 9. gr. tilskipunarinnar verði slitameðferð í skilningi hennar að uppfylla a.m.k. tvö skilyrði. Annars vegar að hefjast fyrir úrskurð stjórnvalds eða dómstóls sem felur í sér að lánastofnun eða kröfuhafar sem þola þurfa slitameðferð eigi málskotsrétt til að láta reyna á hvort ákvörðunin sé réttlætanleg. Hins vegar þurfi slitameðferð að uppfylla efnisreglur tilskipunarinnar. 

         Stefnandi vísar síðan til þess að í lögum nr. 44/2009, sem hafi tekið gildi í apríl 2009, hafi verið lögtekið bráðabirgðaákvæði, sem hafi heimilað fjármálafyrirtækjum, sem hafi haft dómsúrskurð um greiðslustöðvun, eins og Straumi-Burðarási, að fara í slitameðferð án undangengins dómsúrskurðar. Á þessum grundvelli hafi slitameðferð Straums-Burðaráss verið reist og slitastjórn bankans gefið út innköllun til kröfuhafa bankans að viðlögðum réttindamissi. Augljóst sé að mati stefnanda að greiðslustöðvunin hafi einungis verið til málamynda, til að mynda umgjörð utan um slitameðferð á bankanum. Frá þeim degi er Straumi-Burðarási hafi verið skipuð slitastjórn í apríl 2009 og þar til nauðasamningur bankans hafi verið staðfestur hafi bankinn í raun ekki verið í endurskipulagningarferli samkvæmt íslenskum lögum heldur í slitameðferð. Það komi skýrt fram í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 459/2011.

         Stefnandi telur jafnframt að með lögtöku frumvarps til laga nr. 132/2010 hafi Alþingi viðurkennt í orði og verki að slitameðferð samkvæmt lögum nr. 44/2009, sbr. og lög nr. 125/2008 og 129/2008, væri ekki í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar um stofnun slitameðferðar og þ.a.l. óskuldbindandi fyrir alla á EES-svæðinu, þ.m.t. íslenska kröfuhafa. Í framhaldi af þessu hafi Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn verið úrskurðaðir til slitameðferðar í nóvember 2010. Þar með hafi verið fullnægt ákvæðum tilskipunarinnar um stofnun slitameðferðar þessara banka. Byggir stefnandi á því að slitameðferð íslenskra banka skv. lögum nr. 44/2009 til þess tíma er þeir fengu dómsúrskurð um slitameðferð hafi því verið „nullitet“ í skilningi tilskipunarinnar, eins og það er orðað í stefnu.

         Stefnandi bendir á að nauðasamningur Straums-Burðaráss við þá kröfuhafa sína sem lýst höfðu kröfum samkvæmt innköllun slitastjórnar bankans hafi verið gerður á grundvelli slitameðferðar skv. lögum nr. 44/2009 og staðfestur þann 18. ágúst 2010, áður en lög nr. 132/2010 voru lögtekin. Straumur-Burðarás hafi því aldrei verið tekinn til slita með dómsúrskurði eins og tilskipunin áskilji.

         Stefnandi telur því að Straumur-Burðarás hafi aldrei verið tekinn til slitameðferðar í skilningi tilskipunarinnar eða á grundvelli laga sem innleiddu tilskipunina. Lög nr. 44/2009, sem hafi heimilað bankanum að gefa út innköllun til kröfuhafa með vanlýsingaráhrifum, undir formerkjum slitameðferðar án þess að dómsúrskurður um slit lægi fyrir, hafi verið andstæð tilskipuninni og hafi lögin því brotið gegn skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Brotið hafi leitt til þess að stefnanda hafi verið gert að sæta afleiðingum slitameðferðar sem byggði á löggjöf sem samræmdist hvorki tilskipuninni né þeim ákvæðum laga nr. 161/2001 um slitameðferð sem eigi uppruna sinn í tilskipuninni og innleidd hafi verið undir eftirliti Eftirlitsstofnunar EFTA fyrir gildistöku laga nr. 44/2009. Nauðasamningur Straums-Burðaráss hafi því byggst á slitameðferð sem hafi verið andstæð skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum um hvernig stofna skyldi til slitameðferðar íslenskra lánastofnana.

         Stefnandi getur þess að þegar Straumur-Burðarás hafi gert nauðasamning við kröfuhafa sína hafi formlega aðeins verið í gildi dómsúrskurður um endurskipulagningarráðstöfun í skilningi tilskipunarinnar, en ekki um slitameðferð, enda sé ekki heimilt samkvæmt tilskipuninni að tefla saman greiðslustöðvun og slitameðferð á sama tíma. Það hafi leitt til þess að um nauðasamninginn hafi átt að fara eftir VI. kafla gjaldþrotalaga, en ekki samkvæmt lögum nr. 161/2001 með þeim réttaráhrifum að innstæðukrafa stefnanda væri undanþegin nauðsamningi ef ákvæði laga nr. 44/2009 hefði ekki komið til. Þá hefði stefnandi fengið innstæður sínar að fullu greiddar, sbr. 28. gr. sömu laga, án kröfulýsingar. Jafnvel þó að krafa stefnanda hefði verið skilgreind sem skuldabréfakrafa á bankann hefði hún fengist greidd samkvæmt nauðasamningnum þó að henni hefði ekki verið lýst. Þessi aðferð íslenska ríkisins, að heimila Straumi-Burðarási slitameðferð í lögum nr. 44/2009, hafi því falið í sér brot á skyldum Íslands samkvæmt tilskipuninni, en það brot hafi leitt til þess að Straumur-Burðarás hafi getað borið fyrir sig vanlýsingaráhrif innköllunar til kröfuhafa á grundvelli 118. gr. gjaldþrotalaga gagnvart stefnanda sem bankinn ella hefði ekki getað gert.

         Stefnandi byggir fébótaskyldu stefnda á því að íslensk stjórnvöld hafi gerst sek um alvarlega vanrækslu á skuldbindingum ríkisins við innleiðingu efnisákvæða framangreindrar tilskipunar. Telur stefnandi augljóst að orsakasamband sé á milli vanrækslu ríkisins við að innleiða efnisákvæði tilskipunarinnar um stofnun slitameðferðar og þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna vanlýsingaráhrifa slitameðferðar Straums-Burðaráss. Öll skilyrði til fébótaábyrgðar stefnda vegna brota á EES-rétti séu uppfyllt í þessu máli.

         Í þessu sambandi tekur stefnandi fram að EFTA-dómstóllinn hafi slegið því föstu að EFTA-ríki geti orðið skaðabótaskylt samkvæmt EES-samningnum, hvort sem um sé að ræða brot á skuldbindingum, sem leiði af afleiddri löggjöf, eða á skuldbindingum samkvæmt meginmáli EES-samningsins, séu tiltekin réttindi brotin. Við skýringu á því hvað teljist falla undir að vera „tiltekin réttindi“ stefnanda í þessu sambandi, beri að líta svo á að það teljist til réttinda í einkaréttarlegum skilningi að þurfa ekki að þola niðurfellingu á innstæðum eða öðrum fjárkröfum á hendur fjármálafyrirtæki undir formerkjum slitameðferðar nema því aðeins að slitameðferðin hefjist með dómsúrskurði eða stjórnsýsluákvörðun eins og tilskipunin mæli fyrir um. Að sæta missi kröfuréttinda á grundvelli slitameðferðar sem ekki sé í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar, feli í sér að fjártjónið teljist vera bein afleiðing af vanrækslu ríkisins við innleiðingu tilskipunarinnar.

         Í stefnu er síðan gerð nánari grein fyrir ætluðu fjártjóni stefnanda, en hann kveður tjón sitt nema fjárhæð þeirra innstæðna sem ekki hafi verið fluttar yfir til Íslandsbanka með ákvörðun FME 17. mars 2009 og hafi tapast á grundvelli slitameðferðar Straums-Burðaráss. Þar er jafnframt að finna sundurliðaða útlistun á aðal- og varakröfu stefnanda.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda sem tengjast ágreiningi um hvort leita eigi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins

         Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda. Vísar hann því eindregið á bug að FME hafi bakað sér skaðabótaábyrgð með ákvörðun sinni um að flytja ekki allar innstæður í Straumi til Íslandsbanka. Um fimmtu málsástæðu stefnanda tekur stefndi fram í greinargerð sinni að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB byggðist á þremur meginsjónarmiðum, þ.e. einingu, algildi og jafnræði, eins og rakið sé í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2004. Megintilgangur tilskipunarinnar væri að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á aðgerðum ríkja evrópska efnahagssvæðisins, samvinnu um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana og vissa lágmarkssamræmingu landsreglna um þessi atriði. Hafi tilskipunin gilt um lánastofnanir og útbú þeirra með staðfestu í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið öðrum en ríkjum þar sem aðalskrifstofa þeirra væri.

         Stefndi tekur fram að í tilskipuninni sé fjallað um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana. Með endurskipulagningu í tilskipuninni sé átt við ráðstafanir sem ætlað sé að viðhalda fjárhagslegri stöðu lánastofnunar eða koma henni í eðlilegt ástand aftur og geta haft áhrif á gildandi réttindi þriðja aðila, þ.m.t. ráðstafanir sem fela í sér hugsanlega greiðslustöðvun, frestun fullnusturáðstafana eða lækkun á kröfum. Slit lánastofnunar séu hins vegar skilgreind sem heildarmálsmeðferð sem stjórnvöld eða dómstólar aðildarríkja opni og hafi eftirlit með, sem hafi það að markmiði að selja eignir undir eftirliti þessara yfirvalda, þ.m.t. þegar málsmeðferðin er stöðvuð með nauðasamningum eða annarri viðlíka ráðstöfun.

         Stefndi bendir á að samkvæmt 7. gr. EES-samningsins séu EFTA-ríkin skuldbundin til að taka upp í landsrétt tilskipanir sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það sé hins vegar skýrt að stjórnvöldum hvers ríkis er falið val um efni og form innleiðingarinnar. Í því felist að ríkin séu skuldbundin til að haga löggjöf sinni þannig að markmiðum tilskipana verði náð, en ríkjunum sé fengið sjálfdæmi um val á formi og aðferð. Þeim beri því að tryggja að ekki séu í gildi ákvæði landsréttar sem fari gegn ákvæðum tilskipunar eða ákvæði sem hafa truflandi áhrif á góða framkvæmd viðkomandi markaðar. Tilskipun 2001/24/EB feli aðeins í sér lágmarkskröfur að þessu leyti.

         Stefndi tekur fram að fyrrgreindar skilgreiningar á endurskipulagningarráðstöfunum og slitameðferð fjármálafyrirtækis sé að finna í 2. gr. tilskipunarinnar. Þá vísar stefndi til þess að meginmarkmið tilskipunarinnar komi m.a. fram í inngangsákvæðum hennar og séu þau til skýringar á efni hennar. Í greinargerð stefnda er vísað til 6., 7., 8. og 14. liðar inngangsákvæðanna. Hann telur að af þeim megi ráða að markmið tilskipunarinnar sé að tryggja gagnkvæma viðurkenningu aðildarríkjanna á endurskipulagningarráðstöfunum og slitameðferð sem stjórnvöld og dómsmálayfirvöld heimaríkis hafi ein vald til þess að ákveða og framkvæma samkvæmt gildandi lögum og venjum í því aðildarríki. Þá sé það markmið tilskipunarinnar að tryggja jafnræði kröfuhafa á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og er því markmiði náð með því að láta ein lög, þ.e. lög heimaríkisins, gilda um endurskipulagningarráðstafanir og slitameðferðir. Þá megi sjá af aðfaraorðum tilskipunarinnar að henni sé ekki ætlað að samþætta löggjöf aðildarríkja um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Tilskipunin kveði hvergi á um hvaða úrræði eða aðgerðir felist beint í endurskipulagningu eða slitameðferð enda sé það heimaríkjanna að ákveða slíkt. Öðrum ríkjum beri að viðurkenna þessar aðferðir hverjar sem þær eru. Þannig sé ekki lögð áhersla á það í tilskipuninni að þessar ráðstafanir séu ákvarðaðar með einhverjum sérstökum hætti af ákveðnum stjórnvöldum og dómsyfirvöldum heimaríkisins, heldur að slíkar ákvarðanir séu ekki teknar af einstaklingum eða yfirvöldum annarra aðildarríkja.

         Stefndi hafnar þeim skilningi stefnanda að slitameðferð Straums-Burðaráss hafi stangast á við tilskipunina þar sem endurskipulagsráðstafanir og slitameðferð verði að uppfylla þau tvö skilyrði sem stefnandi vísi til. Í þessu sambandi tekur stefndi fram að endurskipulagningarferli Straums-Burðaráss, sbr. 3. mgr. 98. gr. laga nr. 161/2002, hafi hafist með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2009 um greiðslustöðvun. Félagið hafi hafið slitameðferð hinn 11. maí 2009 með ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur um skipun slitastjórnar. Sú ákvörðun hafi byggst á ákvæðum 1. og 3. töluliðar 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki., sbr. 5. gr. og 4. tölulið II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 44/2009. Af þessari lagatilvísun héraðsdóms telur stefndi augljóst að í kjölfar skipunar slitastjórnar skyldi Straumur tekinn til slitameðferðar. Þannig hafi verið uppfyllt það, sem stefnandi telji vera skilyrði tilskipunarinnar, að stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld ákveði hvenær slitameðferð skuli hefjast. Tilskipunin fjalli ekki um það með hvaða hætti slík stjórnvöld skuli ákveða að slitameðferð hefjist og eftirláti aðildarríkjum augljóslega val um aðferð. Stefndi fellst þannig ekki á þann skilning stefnanda að gera þurfi ítarlegri kröfur til þess að slitameðferð hefjist „fyrir úrskurð stjórnvalds eða dómstóls“. Því hafi upphaf endurskipulagningar og ákvörðun um slitameðferð Straums verið í fullu samræmi við tilskipun 2001/24/EB.

         Stefndi telur að framangreindur skilningur hafi verið staðfestur í dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-85/12 sem kveðinn hafi verið upp hinn 24. október 2013. Í málinu hafi franskur áfrýjunardómstóll vegna máls LBI hf. óskað eftir forúrskurði Evrópudómstólsins um tvær spurningar og hafi önnur spurningin snúið að því hvort bráðabirgðaákvæði laga nr. 44/2009 væru í samræmi við ákvæði 3. og 9. gr. tilskipunar 2001/24/EB. Það hafi orðið niðurstaða dómstólsins að ákvæði laga nr. 161/2002, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 44/2009, væru í samræmi við tilskipun 2001/24/EB (sjá málsgreinar 27-42 í dómnum). Í dóminum komi jafnframt fram að bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 44/2009 hafi einungis framlengt ákvörðun héraðsdóms um greiðslustöðvun þeirra félaga sem heimild hafi haft til greiðslustöðvunar við gildistöku laganna. Lögin hafi ekki kveðið á um formlega slitameðferð þeirra félaga heldur að ákveðnar heimildir í lögum nr. 161/2002 tækju til endurskipulagningarferlisins. Ákvæði laga nr. 161/2002, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 44/2009, hafi ekki brotið gegn 3. og 9. gr. tilskipunarinnar. Í dóminum komi einnig fram að tilskipunin kveði einungis á um gagnkvæma viðurkenningu á landsreglum ríkja á evrópska efnahagssvæðinu á endurskipulagningu og slitameðferð eins og þau séu ákveðin í heimaríki, en ekki um samræmingu á þeim aðferðum sem megi beita í þessum efnum. Þannig fái á engan hátt staðist þær staðahæfingar stefnanda að bráðabirgðaákvæði laga nr. 44/2009 fari gegn tilskipun 2001/24/EB.

         Stefndi telur heldur ekki vera hald í málsástæðu stefnanda um að endurskipulagsráðstafanir og slitameðferð geti ekki farið fram á sama tíma af þeirri ástæðu að aldrei hafi slíkt farið fram á sama tíma. Að þessu leyti vísar stefndi til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2009 um greiðslustöðvun og töku félagsins til slitameðferðar með skipun Héraðsdóms Reykjavíkur á slitastjórn 11. maí 2009.

         Stefndi hafnar því að greiðslustöðvun Straums hafi verið til málamynda eða á nokkrum hátt brotið gegn íslenskum lögum eða efni tilskipunar 2001/24/EB. Vísar stefndi um það til þess sem áður segir og dóms Evrópudómstólsins í máli nr. C-85/12. Þá vísar stefndi því á bug að með 2. gr. laga nr. 132/2010 hafi löggjafinn viðurkennt að slitameðferð íslensku bankanna samkvæmt lögum nr. 44/2009, sbr. lög nr. 125/2008 og lög nr. 129/2008, hafi ekki verið í samræmi við formskilyrði tilskipunarinnar. Um það vísar hann til athugasemda í frumvarpi til laganna þar sem fram komi að lögin hafi verið sett til að eyða vafa um aðkomu dómstóla að slitameðferðinni sem risið hafi.

         Stefndi hafnar því enn fremur að skilyrði bótaskyldu íslenska ríkisins sé fyrir hendi á þeim grundvelli sem stefnandi byggi á. Í fyrsta lagi hafi landsréttur ekki verið ranglega lagaður að ákvæðum tilskipunarinnar. Í öðru lagi sé ekki uppfyllt það skilyrði bótaskyldu að tilskipunin mæli fyrir um tiltekin réttindi til handa stefnanda. Stefnandi haldi því fram að það teljist til réttinda að þurfa ekki að þola niðurfellingu á kröfum á hendur fjármálafyrirtækjum í slitameðferð nema því aðeins að með slitameðferðinni sé farið eins og kveðið sé á um í tilskipuninni. Ekki sé unnt að fallast á þetta, enda hefði stefnandi notið sama réttar og hann hafi notið hvort sem kveðið hefði verið á um slitameðferð Straums með sérstökum úrskurði eða ekki. Í þriðja lagi sé ekki orsakasamband á milli innleiðingar á tilskipuninni og ætlaðs tjóns stefnanda. Bera verði saman þá atburðarás sem hafi orðið og þá sem hefði orðið ef tilskipunin hefði verið innleidd samkvæmt mati stefnanda fái hún á annað borð staðist. Hefði tilskipunin verið innleidd þannig að slitameðferð Straums hefði hafist með sérstökum úrskurði sé ljóst að stefnandi hefði verið eins settur, þ.e. hann hefði þurft að lýsa kröfu sinni við slitameðferð Straums til að halda rétti sínum gagnvart Straumi. Ekkert bendi til þess að stefnandi hefði frekar lýst kröfu sinni í slitameðferð Straums á réttum tíma hefði slitameðferðin hafist með úrskurði. Tjón stefnanda sé því ekki afleiðing af innleiðingu tilskipunarinnar heldur afleiðing þess að stefnandi hafi lýst kröfu sinni of seint við slitameðferð Straums. Allt tjón stefnanda sé því alfarið að rekja til þess að stefnandi hafi ekki lýst kröfu sinni í slitameðferðina innan kröfulýsingafrests.

IV.

         Stefnandi hefur óskað eftir því að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um hvernig skýra beri ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2001/24/EBE, sem hafi verið innleidd í IX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Stefnandi telur að ekki sé einhlýtt hvernig skýra beri ákvæði tilskipunarinnar, einkum 9. gr. hennar. Þar sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á umræddu ákvæði og stefndi geri ágreining um túlkun þess sé nauðsynlegt að mati stefnanda að afla ráðgefandi álits á því atriði frá EFTA-dómstólnum. Óskar stefnandi eftir því að eftirfarandi spurningar verði lagðar fyrir dómstólinn:

         1. Ber að skýra ákvæði 1. málsgr. 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2001/24/EBE frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana á þá leið að einungis sé heimilt að ákveða upphaf slitameðferðar lánastofnunar með dómsúrskurði eða stjórnvaldsákvörðun?

         2. Ber að skýra ákvæði 1. málsgr. 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2001/24/EBE frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana á þá leið að upphaf slitameðferðar megi ákveða með lagasetningu án eftirfarandi dómsúrskurðar eða stjórnvaldsákvörðunar um slitameðferð?

         3. Ef svar við framangreindum spurningum er á þá leið að aðeins sé heimilt að ákveða upphaf slitameðferðar með dómsúrskurði eða stjórnvaldsákvörðun, eða að upphaf slitameðferðar sem ákveðin er með lagasetningu skuli staðfesta með síðari dómsúrskurði eða stjórnvaldsákvörðun, varðar það ríkið skaðabótaábyrgð gagnvart þeim kröfuhafa lánastofnunar sem missir kröfurétt sinn gagnvart lánastofnun vegna þess að landslög stangast á við fyrirmæli um stofnun slitameðferðar samkvæmt 1. málsgr. 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2001/24/EBE frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana?

V.

         Stefndi telur að hafna beri beiðni stefnanda. Hann heldur því meðal annars fram að beiðnin sé reist á röngum skilningi á málsvörn stefnda. Stefndi byggi ekki á því að slitameðferð Straums-Burðaráss hafi hafist með gildistöku laga nr. 44/2009, heldur með skipun héraðsdóms á slitastjórn 11. maí 2009. Um það vísar stefndi meðal annars til dóms Hæstaréttar Íslands frá 10. maí 2012 í máli nr. 459/2011 þar sem þetta komi ótvírætt fram. Lög um gjaldþrotaskipti sem og lög um fjármálafyrirtæki, með þeirri breytingu sem gerð hafi verið með lögum nr. 44/2009, hafi því aðeins sett skilyrði og markað slitameðferðinni ákveðinn ramma, en hún hafi ekki hafist með þeirri lagasetningu.

         Stefndi byggir á því að skýring á umræddri reglu í tilskipuninni hafi hvorki raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins né að vafi leiki á um skýringu tilskipunarinnar. Þá dregur stefndi í efa að staðreyndir liggi nægilega fyrir svo tímabært sé að leita álits. Hvað fyrri atriðin varðar áréttar stefndi að tilskipunin feli ekki í sér skyldu til þess að koma á samræmdum reglum um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Þvert á móti sé þar lögð áhersla á að löggjöf hvers aðildarríkis eigi að gilda um þessi atriði nema sérstaklega standi á. Þá telur stefndi að næga leiðsögn sé að fá um það álitaefni hvort lög nr. 44/2009 samrýmist tilskipuninni í dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-85/12 frá 24. október 2013.

VI.

         Í málum þar sem taka verður afstöðu til skýringar á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið, getur dómari kveðið upp úrskurð um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því atriði áður en málið er ráðið til lykta, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1994. Í réttarframkvæmd hefur verið gengið út frá því að það skuli þó ekki gert nema ætla verði að slíkt álit geti haft raunverulega þýðingu fyrir úrlausn sakarefnisins og að réttlætanlegur vafi leiki á skýringu þeirra EES-reglna sem á reynir, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar Íslands frá 7. júní 2005 í máli nr. 212/2005. Þá verða staðreyndir málsins að liggja nægjanlega fyrir svo efni sé til þess að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

         Af aðfaraorðum tilskipunar 2001/24/EBE má ráða að hún er einkum sett með það að markmiði að tryggja að ráðstafanir sem yfirvöld samþykkja að grípa til vegna rekstrarerfiðleika fjármálafyrirtækja hafi réttaráhrif á öllu Evrópska efnahagssvæðinu auk þess sem hún á að stuðla að því að lánardrottnar þeirra njóti jafnræðis hvar sem þeir eru á svæðinu. Aftur á móti fer um endurskipulagningarráðstöfun og slitameðferð eftir löggjöf heimaríkis fjármálafyrirtækisins nema kveðið sé á um annað í tilskipuninni, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar.

         Í 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 2001/24/EBE segir orðrétt eftirfarandi um upphaf slitameðferðar: „Stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis, sem bera ábyrgð á slitum, skulu ein hafa vald til þess að ákveða að slitameðferð lánastofnunar skuli hefjast, þ.m.t. útibú með staðfestu í öðrum aðildarríkjum.“ Jafnframt kemur fram í ákvæðinu að ákvörðun um að hefja slitameðferð, „sem tekin er af stjórnvöldum eða dómsmálayfirvöldum heimaaðildarríkis“, skuli viðurkennd án frekari formsatriða á yfirráðasvæði annarra aðildarríkja. Einnig er slitameðferð skilgreind í 9. málslið 2. gr. tilskipunarinnar þannig að hún feli í sér sameiginlega „málsmeðferð sem stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld aðildarríkis hefja og hafa eftirlit með og sem hefur það markmið að selja eignir undir eftirliti þessara yfirvalda, þ.m.t. þegar málsmeðferðin er stöðvuð með nauðungarsamningum eða annarri viðlíka ráðstöfun.“

         Straumi-Burðarási var veitt greiðslustöðvun með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2009, eins og rakið hefur verið. Frá þeim tíma sætti fjármálafyrirtækið ráðstöfunum sem teljast til endurskipulagningarráðstafana í skilningi 2. gr. og II. bálks tilskipunar 2001/24/EBE. Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 10. maí 2012 hófst slitameðferð á Straumi-Burðarási með því að fyrirtækinu var skipuð skilanefnd, sbr. 4. tölulið bráðabirgðaákvæðis II með lögum nr. 44/2009, sem birti innköllun til kröfuhafa í kjölfarið. Ekki er ágreiningur um að leggja beri það til grundvallar úrlausn málsins.

         Stefnandi telur þessa slitameðferð Straums-Burðaráss stangast á við fyrrgreinda tilskipun, einkum 9. gr. hennar, þar sem hún hafi ekki verið ákveðin af dómstól eða stjórnvaldi, heldur með lögum nr. 44/2009. Lögin hafi heimilað bankanum að gefa út innköllun til kröfuhafa með vanlýsingaráhrifum, undir formerkjum slitameðferðar, án þess að dómsúrskurður um slit lægi fyrir, en það stangist á við fyrrgreint ákvæði tilskipunarinnar. Samkvæmt tilskipuninni hafi því aðeins verið í gildi dómsúrskurður um endurskipulagningarráðstöfun, en ekki um slitameðferð Straums-Burðaráss. Hafi það leitt til tjóns fyrir stefnanda sem hafi tapað kröfu sinni fyrir vanlýsingu. Virðist málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti reistur á þeirri forsendu að samkvæmt tilskipuninni sé ekki unnt að ljá kröfulýsingu við endurskipulagningarráðstöfun þau réttaráhrif að krafa falli niður sé henni ekki lýst í tæka tíð.

         Að teknu tilliti til málatilbúnaðar aðila sem og fyrrgreindrar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 459/2011 verður að ætla að við úrlausn á sakarefni málsins geti þurft að svara tveimur spurningum er tengjast skuldbindingum stefnda á grundvelli EES-samningsins.

         Í fyrsta lagi hvort tilskipun 2001/24/EBE reisi skorður við því að aðildarríki ákveði með lögum að fjármálafyrirtæki, sem sætir endurskipulagningarráðstöfunum í skilningi 2001/24/EBE á grundvelli dómsúrskurðar um greiðslustöðvun, gefi út innköllun með vanlýsingaráhrifum, eins og kveðið var á um í 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 44/2009. Séu ekki skorður reistar við því fær dómurinn ekki séð að stefndi hafi bakað sér skaðabótaábyrgð á þeim grundvelli að sú tilhögun, sem mælt var fyrir um í framangreindu lagaákvæði, hafi stangast á við tilskipun 2001/24/EBE.

         Ef tilskipunin kemur hins vegar í veg fyrir að löggjafinn veiti fjármálafyrirtæki, sem sætir endurskipulagningarráðstöfunum, slíka heimild getur í öðru lagi þurft að taka afstöðu til þess hvort að með skipun héraðsdóms á tveimur mönnum í slitastjórn á grundvelli 4. töluliðar ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 og fyrirmælum ákvæðisins að öðru leyti, hafi verið fullnægt skilyrðum 9. málsliðar 2. gr. og 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 2001/24/EBE fyrir upphafi slitameðferðar í skilningi tilskipunarinnar.

         Eftir að mál þetta var höfðað féll dómur Evrópudómstólsins frá 24. október 2013 í máli nr. C-85/12 (LBI hf. gegn Kepler Capital Markets SA og Frédéric Giraux). Í málinu hafði æðsti dómstóll Frakklands (Cour de cassation) óskað forúrskurðar um tvær spurningar. Fyrri spurningin hljóðaði svo í enskri útgáfu dómsins: „Must Articles 3 and 9 of [Directive 2001/24] be interpreted as meaning that reorganisation or winding-up measures in regard to a financial institution, such as those under [Law No 44/2009], are to be regarded as measures adopted by an administrative or judicial authority for the purposes of those articles?“

         Þetta úrlausnarefni Evrópudómstólsins hefur beina skírskotun til þess ágreinings sem er til úrlausnar í máli stefnanda og stefnda. Í svari dómstólsins kemur fram að enginn ágreiningur sé um að greiðslustöðvun LBI hf., sem fyrst hafi verið ákveðin með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008, hafi falið í sér endurskipulagningarráðstöfun í skilningi 7. hluta 2. gr. tilskipunarinnar. Evrópudómstóllinn túlkar síðan bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 44/2009 á þann veg að það hafi breytt réttaráhrifum greiðslustöðvunarinnar þannig að hún hefði framvegis tiltekin einkenni slitameðferðar, en að lögin hafi ekki mælt fyrir um upphaf formlegrar slitameðferðar (sjá málsgreinar 24, 29 og 30 í dóminum). Dómstóllinn tekur síðan fram að slitameðferð LBI sé því ekki einungis reist á bráðabirgðaákvæðum II í lögum nr. 44/2009, heldur á dómsúrskurði um greiðslustöðvun frá 5. desember 2008 og síðari dómsúrskurði um slitameðferð bankans 22. nóvember 2010 (sjá málsgreinar 32 til 35). Síðan segir í dóminum að þessar ráðstafanir „are capable of producing, in accordance with the second subparagraph of Article 3(2) and the second subparagraph of Article 9(1) of Directive 2001/24, the effects wich the Icelandic legislation confers on them, in the EU Member States“, sbr. málsgrein 36 í dóminum. Í dóminum er síðan áréttað að lög heimaríkis ákvarði með hvaða hætti staðið sé að endurskipulagningarráðstöfunum og slitameðferð og að tilskipun 2001/24/EBE sé ekki ætlað að samræma löggjöf í því efni (sjá málsgreinar 38 og 39). Að lokum er komist að þeirri niðurstöðu að svara beri ofangreindri spurningu æðsta dómstóls Frakklands með eftirfarandi hætti:

In the light of the foregoing, the answer to the first question is that Articles 3 and 9 of Directive 2001/24 must be interpreted as meaning that reorganisation or winding-up measures in regard to a financial institution, such as those based on the transitional provisions in point II of Law No 44/2009, are to regarded as measures adopted by an administrative or judicial authority for the purpose of those articles, where those transitional provisions take effect only by means of judicial decisions granting a moratorium to a credit institution.

         Samkvæmt framangreindri niðurstöðu Evrópudómstólsins ber að líta svo á að þær aðgerðir, sem mælt var fyrir um í bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 44/2009, og tóku til fjármálastofnana sem þá voru í greiðslustöðvun, hafi byggst á ráðstöfun sem stjórnvöld eða dómstóll höfðu ákveðið í skilningi tilskipunar 2001/24/EBE, enda lá dómsúrskurður um greiðslustöðvun þeim aðgerðum til grundvallar. Meðal þeirra aðgerða sem umrætt bráðabirgðaákvæði laga nr. 44/2009 kvað á um að grípa skyldi til var að gefa út innköllun til kröfuhafa með vanlýsingaráhrifum eins og um slitameðferð væri að ræða.

         Í þessu ljósi verður að fallast á það með stefnda að fyrrgreindur dómur Evrópudómstólsins veiti næga leiðsögn um það hvort tilskipun 2001/24/EBE kunni að hamla því að lögfest sé regla, sem kveði meðal annars á um að fjármálafyrirtæki, er sætir endurskipulagningarráðstöfunum í skilningi tilskipunar 2001/24/EBE á grundvelli dómsúrskurðar um greiðslustöðvun, gefi út innköllun með vanlýsingaráhrifum. Með hliðsjón af þessu og með vísan til þess sem áður er rakið um þau álitefni sem á reynir í málinu og tengjast skýringu tilskipunarinnar leikur ekki slíkur vafi á túlkun hennar að rétt sé að verða við beiðni stefnanda um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þau atriði sem óskað er eftir. Beiðninni er því hafnað.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Hafnað er beiðni stefnanda, Stapa lífeyrissjóðs, um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli þessu.