Hæstiréttur íslands
Mál nr. 521/2011
Lykilorð
- Neytendakaup
- Galli
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 24. maí 2012. |
|
Nr. 521/2011.
|
Járnsmiðja Óðins ehf. (Gestur Jónsson hrl.) gegn Sveinbirni Sveinbjörnssyni (Halldór Þ. Birgisson hrl.) og gagnsök |
Neytendakaup. Galli. Skaðabætur.
S krafði J ehf. um skaðabætur vegna glerhandriðs og tjóns af völdum glerskífu sem brotnaði í handriði á heimili hans en J ehf. hafði séð um hönnun, smíði og uppsetningu handriðsins. Með vísan til niðurstöðu matsgerðar, sem ekki hafði verið hnekkt, var í Hæstarétti talið að söluhluturinn hafi ekki haft þá eiginleika til að bera sem S hafi mátt vænta við kaup á honum sbr. b. lið 15. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Var hann því talinn gallaður samkvæmt a. lið 1. mgr. 16. gr. sömu laga og á því bæri J ehf. bótaábyrgð gagnvart S í lögskiptum þeirra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. september 2011. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 25. nóvember 2011. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 3.034.161 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2009 til 12. janúar 2011, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Til vara krefst gagnáfrýjandi að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 2.344.643 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu greinir, en að því frágengnu krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í öllum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi sá aðaláfrýjandi um hönnun, smíði og uppsetningu á stiga þeim og handriðum sem mál þetta tekur til. Af gögnum málsins verður ekki ráðið með vissu hvað olli því að glerskífa í handriði á efri hæð fasteignar gagnáfrýjanda brotnaði. Verður að miða við að það hafi gerst án utanaðkomandi álags, eins og gagnáfrýjandi heldur fram, enda hefur aðaláfrýjandi ekki sýnt fram á að önnur hafi verið raunin.
Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvadds manns þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að fyrrnefndur söluhlutur hafi ekki haft þá eiginleika til að bera sem gagnáfrýjandi mátti vænta við kaup á honum, sbr. b. lið 15. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, staðfesti þessa niðurstöðu. Aðaláfrýjandi hefur ekki lagt fyrir dóminn sönnunargögn sem fá henni hnekkt. Söluhluturinn var því gallaður samkvæmt a. lið 1. mgr. 16. gr. áðurnefndra laga, en á því ber aðaláfrýjandi bótaábyrgð gagnvart gagnáfrýjanda í lögskiptum þeirra.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um bótafjárhæð, en andmæli við einstökum bótaliðum og fjárhæð þeirra komu ekki fram af hálfu aðaláfrýjanda fyrr en við flutning málsins fyrir Hæstarétti og koma því ekki til úrlausnar í málinu, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt framansögðu er niðurstaða hins áfrýjaða dóms, þar með talið ákvæði hans um málskostnað, staðfest um annað en vexti sem ákveðnir verða eins og í dómsorði greinir, en í dómsorði hins áfrýjaða dóms er ritvilla um upphafsdag dráttarvaxta.
Eftir þessum úrslitum verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Járnsmiðja Óðins ehf., greiði gagnáfrýjanda, Sveinbirni Sveinbjörnssyni, 2.166.120 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2009 til 12. janúar 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms er óraskað.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2011.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 31. maí sl., er höfðað 20. desember 2010.
Stefnandi er Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Aðalþingi 3, Kópavogi.
Stefndi er Járnsmiðja Óðins ehf., Smiðjuvegi 4b, Kópavogi.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði stefnanda 3.034.161 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2009 til 12. janúar 2011, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi greiði stefnanda 2.344.643 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2009 til 12. janúar 2011, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Loks er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
I
Stefnandi byggði fasteignina Aðalþing 3 í Kópavogi á árinu 2008. Þegar kom að því að reisa stiga innanhúss og koma fyrir glerhandriði meðfram honum og stigaopi ákvað stefnandi að leita til stefnda vegna sérfræðiþekkingar hans og fór stefnandi þess á leit að fyrirtækið gerði honum tilboð í verkið. Í tilboði stefnda segir meðal annars: „Járnsmiðja Óðins ehf. gerir hér tilboð í smíði á stálstiga með glerhandriði og hnotu handlista að hluta. Einnig er í tilboði glerhandrið án handlista í kringum stigaop. Útlit samkvæmt ákvörðun verkkaupa og verktaka. Efni og vinna 2.167.287 m/vsk.“
Stefnandi kveðst hafa gengið að tilboði stefnda, sem hafi verið efni og vinna auk uppsetningar sem bæst hafi við og hafi heildargreiðslur vegna verksins numið alls 2.495.349 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Verkið hafi að mestu verið unnið á verkstæði stefnda og afhent uppsett í fasteign stefnanda. Stefndi hafi lokið framkvæmdum í ágúst 2008. Þann 1. desember 2009 hafi brotnað eða sprungið, án sérstaks álags, hert gler sem stefndi hafi komið fyrir á efri hæð hússins og hafi verið hluti af heildarframkvæmd verksins en glerið hafi þjónað hlutverki fallvarna. Glerið hafi hrunið niður á fyrstu hæð og valdið miklum skemmdum á eigninni en mikil mildi hafi verið að ekki hafi orðið slys á fólki. Skemmdir hafi orðið á gólfum eignarinnar og húsbúnaði, meðal annars á borði og stólum. Hafi stefnandi fjarlægt öll glerhandrið á annarri hæð enda mátti vera ljóst að handriðin gátu ekki þjónað því hlutverki sem þeim hafi verið ætlað, þ.e. að vera fallvarnir.
Stefndi, sem hefur gert athugasemd við lýsingu stefnanda á málsatvikum, kveður stefnanda hafa þann 26. mars 2008 haft samband við Daníel Óðinsson framkvæmdastjóra stefnda og greint frá því að hann þyrfti að láta smíða fyrir sig stálstiga og handrið í húseign sína að Aðalþingi 3 sem væri í byggingu. Að beiðni stefnanda hafi Daníel farið á byggingarstað og hafi stefndi þar reifað hugmyndir sínar um útlit á stiga og handriði, en stiginn hafi átt að vera frá 1. hæð upp á 2. hæð. Hafi stefnandi augljóslega frá upphafi verið ákveðinn í því hvernig handrið ætti að vera á stiganum og á skörinni á 2. hæð. Hann hafi augljóslega séð þessa útfærslu á festingum á gleri einhvers staðar. Stefnandi hafi ekki lagt fram neinar teikningar eða gögn og hafi ekki kynnt byggingarnefndarteikningar Sveins Ívarssonar arkitekts sem samþykktar hafi verið í byggingarnefnd 30. ágúst 2007 og sýndu útfærslu á stiga og handriði. Hafi stefnandi gert kröfu um að hert gler yrði í handriðum, bæði á palli og niður stiga með ryðfríum punktfestingum en hafi ekki viljað hafa neina handlista. Hafi Óðinn bent stefnanda á að nauðsynlegt væri að hafa handlista á glerinu öllu til að tengja glerið saman og hafa handlista niður stigann. Það væri mikið öryggisatriði að fólk hefði eitthvað til að halda í þegar gengið væri niður stigann. Stefnandi hafi síðan fallist á að hafa handlista á gleri öðru megin í stiganum en hafnað því að hafa handlista á glerhandriðinu á gólfbrún á 2. hæð. Þannig hafi stefnandi mælt fyrir um útlit og efni í stiga og handrið og tilboð hafi verið gert samkvæmt því. Hafi tilboð í smíði stiga og handrið samkvæmt ákvörðun stefnanda verið sent stefnanda. Hafi stefnandi samþykkt tilboðið 16. apríl 2008 og honum sendur reikningur fyrir 1/3 af tilboðsfjárhæðinni sem greiðast skyldi við samþykkt tilboðs.
Stefndi kveðst hafa teiknað stigann upp í hlutföllum 1:1 á gólfið á verkstæði sínu í samræmi við óskir stefnanda og í samræmi við þau mál sem tekin hafi verið upp í Aðalþingi 3 og hæð milli gólfa deilt upp í uppstig og framstig og væntanlegt útlit á stiganum sýnt með glerfestingum og handriðum, þ.e. tvær glerplötur með sex glerfestingum á hverri plötu. Önnur teikning hafi ekki verið gerð af stiganum. Stefnandi hafi komið á verkstæði stefnda ásamt eiginkonu sinni og Eddu Ríkharðsdóttur arkitekt sem hafi verið faglegur ráðgjafi stefnanda. Arkitekt stefnanda hafi samþykkt útfærslu stigans og handriða, en spurðist fyrir um það hvort hægt væri að hafa handlista úr gleri og samþykkti Daníel að kanna hvort slíkt væri mögulegt og hver væri kostnaður. Þá hafi arkitektinn viljað að handlisti á stigahandriði væri ryðfrír en ekki hnotuhandlisti eins og ráð hafi verið gert fyrir í tilboðinu. Arkitektinn hafi lýst því yfir að hún sæi fyrir sér festingarnar á glerinu í samræmi við handrið sem hún hafi verið að hanna fyrir hús í Kúrlandi, en smíði á því hafi einnig verið unnin af stefnda samkvæmt ákvörðun hönnuðarins, Eddu Ríkharðsdóttur arkitekts.
Uppsetning á festingum fyrir gler á stigapalli hafi farið fram 29. apríl 2008 og þá hafi byggingarstjóri getað séð fjarlægð á milli festinga hefði hann sinnt eftirlitsskyldu sinni. Hert gler hafi verið pantað hjá Glerverksmiðjunni Samverki á Hellu þann 30. apríl og smíði á stiga hafi verið lokið 16. maí 2008 og stiginn settur upp 22. maí 2008. Þann 16. júlí sama ár hafi gler og handlisti verið sett upp. Daníel Óðinsson hafi þá innt stefnanda eftir því hvort hann hefði ákveðið að hafa barnahlið uppi eða niðri í stiganum og ítrekað við hann að setja ekki upp barnahlið milli glerja nema í samráði við sig eða stefnda og að fá plastklossa sem settir yrðu milli glers í stigapalli og glers á gólfbrún næst stiga. Stefnandi hafi ekki haft samband við Daníel eða stefnda og kom fyrir barnahliði án nokkurs samráðs við stefnda þrátt fyrir aðvaranir um þá hættu sem af því gæti stafað. Þegar glerplata við barnahliðið hafi brotnað í desember 2009 hafi verið nýbúið að loka barnahliðinu. Strax þegar glerið hafi brotnað hafi stefndi boðið stefnanda án viðurkenningar á bótaskyldu að setja upp nýtt gler í stað þess sem brotnaði og setja handlista á allt glerið á annarri hæð en stefnandi hafi hafnað því. Í stað þess hafi hann óskað eftir því að stefndi tæki niður allt gler nema í stiganum sjálfum og hafi verið orðið við þeirri beiðni hans og honum boðið að það yrði gert honum að kostnaðarlausu. Þar sem stefnandi hafi ekki haft geymslurými á heimili sínu hafi stefndi fallist á að geyma glerið tímabundið, en það sé enn í geymslu hjá stefnda. Í framhaldi af þessu hafi stefnandi látið setja upp handrið úr timbri og gipsplötum á gólfbrún annarrar hæðar en stigi og handrið sé óbreytt, en allt þetta hafi verið gert án samráðs við stefnda.
Dr. Sigurður Gunnarsson verkfræðingur hjá Almennu verkfræðistofunni tók út glerhandrið á stiga og á annarri hæð að Aðalþingi 3 og lýsti því áliti sínu í óundirrituðu bréfi til föður stefnanda, dagsettu 14. desember 2009, að útfærsla glersins sé á engan hátt ásættanleg og rangt sé að nota einfalt hert gler með boruðum festingum við aðstæður þar sem glerið sjái um fallvörnina og ekkert viðhaldi henni brotni glerið undan álagi eða efnisgalla (nikkelsúlfíð). Þá sé lárétt bil á milli punktafestinga of mikið (1150 millimetrar) og við útfærslu festinga sé notað of hart plastefni. Þá kemur fram í bréfi Sigurðar að ekki séu til nein hönnunargögn frá burðarþolshönnuði með leyfisbréfi frá Umhverfisráðherra varðandi glerið í stiganum eða á handriðunum og ekki virðist heldur hafa verið kallað eftir slíkum gögnum af hálfu embættis byggingarfulltrúa sem veki vissa furðu í ljósi þess að hér sé um byggingarhluta að ræða er varði öryggi íbúa.
Stefndi óskaði eftir því við Feril verkfræðistofu að glerhandrið á stiga að Aðalþingi 3 milli fyrstu og annarrar hæðar ásamt handriði á annarri hæð yrði skoðað og metið. Í skýrslu verkfræðistofunnar, dagsettri í mars 2010, sem undirrituð er af Jóhanni T. Egilssyni tæknifræðingi, kemur meðal annars fram það álit að útfærslan á glerhandriðinu uppfylli ekki kröfur varðandi öryggisstuðla til að taka við því álagi sem staðlar segja til um. Tekið er fram að handriðið þoli uppgefið grunnálag samkvæmt staðli Eurocode FS ENV 1991-2-1:1995 (50 kg/m) en talsvert vanti upp á ef öryggisstuðlum yrði bætt við. Útfærslan á handriðinu sem notuð hafi verið sé talsvert algeng og hafi verið notuð í fjölmörgum heimahúsum, fyrirtækjum og opinberum stofnunum. Arkitektar hafi margoft teiknað þessa útfærslu, en lítið fari fyrir því að verkfræðingar með viðeigandi réttindi hafi gert á þeim viðeigandi burðarþolsútreikninga og sé ekki ósennilegt að það sé vegna þess að byggingarfulltrúar hafi almennt ekki gert kröfu um slíkt og því hafi húseigendur oft sparað sér þennan kostnað.
Með bréfi stefnanda, dagsettu 8. apríl 2010, var þess krafist að stefndi greiddi beinan útlagðan kostnað vegna tjónsins, 1.089.407 krónur, eða kostnað við nýtt handrið á annarri hæð og verkfræðiþjónustu. Var stefnda gefinn kostur á greiða umræddan kostnað, ella yrði óskað eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta beint og afleitt tjón. Með bréfi stefnda, dagsettu 19. apríl 2010, var bótaskyldu og öllum kröfum hafnað með vísan til þess að ekkert benti til þess að glerið hafi brotnað af ástæðum sem stefndi bæri ábyrgð á.
Stefnandi óskaði eftir því með matsbeiðni, dagsettri 4. maí 2010, að dómkvaddur yrði hæfur, óvilhallur og byggingarfróður matsmaður til að meta eftirtalin atriði varðandi fasteignina Aðalþing 3:
1. „Óskað er eftir að metið verði hvort stigi auk handriða í stiga og á palli, sem þjóna sem fallvarnir í eigninni Aðalþingi 3 í Kópavogi, sem matsbeiðandi keypti hjá matsþola samkvæmt tilboði hans, standist hefðbundnar gæðakröfur við gerð handriða og fallvarna við nýbyggingar þannig að ástand teljist í öllum tilvikum endanlegt, uppfylli þekkta staðla og kröfur um öryggi og teljist og ógallað.
2. Óskað er eftir að lagt verði mat á hvort staðið hafi verið með fullnægjandi hætti að hönnun glerhandriðanna og tekið tillit til lagafyrirmæla.
3. Óskað er eftir að lagt verði mat á hver er ástæða þess að glerhandrið við stigaop í eigninni að Aðalþingi 3 brotnaði.
4. Verði niðurstaða matsmanns um að verk og vinna við glerhandriðin hafi verið óforsvaranleg eða ekki uppfyllt kröfur samkvæmt framangreindu óskast metið hvað kostar að gera lagfæringar á handriðinu; þannig að það uppfylli kröfur um öryggi og fólki stafi ekki hætta af frágangi. Matið skal miða við að útlit verði í samræmi við upphaflegt útlit eftir því sem við má koma og þá annars vegar fyrir stigahandriðið og hins vegar fyrir handrið við stigaopið. Meta skal kostnað við efni og vinnu.
5. Verði niðurstaða matsmanns um að verk og vinna við glerhandriðin hafi verið óforsvaranleg eða ekki uppfyllt kröfur samkvæmt framangreindu óskast metið hvað kostar að gera lagfæringar á handriðinu; þannig að það uppfylli kröfur um öryggi og fólki stafi ekki hætta af frágangi. Matið skal miða við að útlit verði í samræmi við breytingu sem nú þegar hefur verið gerð á handriði við stigaop en handrið í stiga verði sem líkast upphaflegu útliti. Meta skal kostnað við efni og vinnu.
6. Óskað er eftir að metið verði hver sé kostnaður við viðgerðir á skemmdum á parketi, flísum og málningu sem komu þegar glerið brotnaði.
7. Óskað er eftir að annar kostnaður eigenda eignarinnar vegna tjónsins og viðgerðar verði metinn þar með talinn vegna þrifa, óhagræðis og afnotamissis.“
Enn fremur var óskað eftir því að kostnaður við matið tæki mið af því sem uppfylli kröfur um fagmennsku í nýrri eign og að verkið væri unnið samkvæmt samþykktum teikningum hússins og samningum aðila sem jafnframt standast íslenskar kröfur og aðra þekkta staðla um byggingu nýrra og sambærilegra eigna. Þá var óskað eftir að verðlag yrði miðað við dagsetningu matsbeiðni.
Þann 19. maí 2010 var Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur dómkvaddur sem matsmaður til að meta framangreinda matsliði. Í matsgerð hans, dagsettri í september 2010, segir meðal annars eftirfarandi um matslið 1:
„Samandregið má segja:
· Handriðið uppfyllir ekki álagskröfur gildandi staðla á Íslandi.
· Handriðið uppfyllir ekki kröfur norsks eða dansks staðals frá 2006 um val á gleri í handrið né þýskra reglna en hins vegar breskra.
· Engar beinar kröfur eru í byggingarreglugerð um val á gleri í handrið.
· Handrið af álíka grunngerð hafa undanfarið verið byggð víða á Íslandi einnig í opinberum byggingum með mikilli umferð gangandi fólks.
· Byggingaryfirvöld hafa samþykkt athugasemdalaust handrið af þessu tagi.
· Matsmaður telur hins vegar að handrið af þessu tagi séu ekki nægilega örugg þar sem ekkert heldur þeim saman ef þau brotna auk þess sem í þessu tilfelli er of langt á milli festinga til að handriði uppfyllir kröfur gildandi staðla um álagsþol. Álagsstaðall sem taka mun gildi á Íslandi innan skamms mun ekki breyta þessu atriði.“
Um matslið 2 segir matsmaður:
„Matsmaður telur að burðarþolshönnun handriðanna sé ábótavant án þess að þar með sé fullyrt að sú sé orsökin fyrir broti þess hluta sem féll niður. Hvað lagafyrirmælin áhrærir þá eru engin bein ákvæði um efnisval í reglugerð og engin samræmd Evróputilskipun eða Evrópustaðall er til um glerhandrið. Vafasamt má telja að breytingar á einstaka norrænum staðli skuli sjálfkrafa og samstundis öðlast fyrirskipandi gildi á Íslandi. Nýlegir norskir og danskir staðlar krefjast samlímds glers í handrið af þessu tagi.“
Um matslið 3 segir matsmaður:
„Öll handrið á annarri hæð hafa verið fjarlægð. Hvorki matsbeiðandi né matsþoli hafa lagt fram teikningar af stiganum sem sýna óumdeilanlega frágang, millibil milli skífa o.s.frv. Matsþoli hefur bent á að barnahlið efst í stiga hafi ýtt glerhandriði stigans út og það nuddast við handriðið sem brotnaði. Telur ráðgjafi matsþola að bil hafi verið of lítið frá glerhandriði stiga að glerhandriði stigapalls. Telur hann að bilið hafi verið 5-6 mm öðu megin en 11 mm hinu megin og miðar þá við fjarlægðir að skífu sem sett var í staðinn.
Matsbeiðandi hefur sagt að glerhandriðið hafi brotnað fyrirvaralaust og án álags. Þegar matsmaður kom á staðinn voru komnir gifsveggir í staðinn fyrir öll glerhandriðin á annarri hæð.
Ljóst er að fjarlægðir frá glerhandriði stiga að veggjaskífunum upp á annarri hæðinni eru núna mun meiri en þau bil sem ráðgjafi matsþola tilgreinir, mynd 1. Matsmaður mældi svignun glerhandriðsins út til hliðar þegar hliðinu var læst. Svignunin var u.þ.b. 4 mm hvoru megin en að auki var bilið uppi ca 5 mm meira í heild en niðri. Ljóst er að glerið í handriði á efri hæðinni hefði þurft að falla allþétt að gleri í handriði stigans þannig að ekki hefur mátt muna nema hámark 5 mm að ofan ef skýring ráðgjafa matsþola á að geta staðist. Matsmaður hefur ekki fengið neinar teikningar sem sýna þennan mun.
Mælingar á núverandi handriði gefa frá vegg og handriði stigans upp á 3952 mm. Til eru framleiðslumál af glerskífum en ekki nákvæmar upplýsingar um hvar setja átti hvaða skífu. Ef miðað er við að skífur 1 og 2 hafi átt að koma á þennan stað þá er samanlögð lengd þeirra 3904 mm. Hafi fjarlægð milli þeirra verið 20 mm eins og annars staðar þá er 28 mm eftir í bil við vegg og að handriði stigans. Ekki er ljóst hvernig bilið skiptist en ljóst er að fjarlægðin var ekki mikil miðað við þessa uppröðun.
Önnur hugsanleg orsök eru innskot í glerinu af nikkelsúlfíð. Í hertu gleri sem ekki er hitaprófað (Heat soak tested) geta slík innskot valdið þenslu og sprengt glerið í sundur. Þetta er raunar sjaldgæft en þó raunhæfur möguleiki. Matsmaður telur líklegt að þetta hafi gerst hér en getur þó ekki afsannað að skýring matsþola um álag frá barnahliði sé rétt þar sem sönnunargögnum hefur verið spillt. Hér er um að ræða efnisgalla sem fylgir gleri en veldur bara vandamálum í hertu gleri vegna aðferðar við að herða glerið. Hitapróf (heat soak test) minnkar mjög líkur á að nikkelsúlfíð sprengi glerið en útilokar það ekki fullkomlega. Ofnar til að framkvæma þetta próf eru ekki til á Íslandi.“
Um matslið 4 segir matsmaður:
„Um er að ræða tvö atriði. Annað er það að handriðið hefur ekki tilskilinn styrk í samræmi við gildandi staðla sem vitnað er í byggingarreglugerð og þarf að fjölga festingum. Ekki er hægt að bora fyrir nýjum festingum í hert gler og þarf því að skera nýtt gler eigi að uppfylla gildandi staðla.
Hitt atriðið er val á glergerð. Matsmaður telur persónulega að eingöngu eigi að nota samlímt öryggisgler við þessar aðstæður. Á hinn bóginn er sú lausn rétt að byrja að vinna sér sess á Íslandi og einfalt hert gler hefur tíðkast alllengi á Íslandi við þessar aðstæður án athugasemda byggingaryfirvalda enda gerir reglugerð ekki beinar kröfur hér um. Þá eru kröfur staðla í mismunandi Evrópulöndum ekki einhlítar og samræmdur Evrópustaðall hefur ekki enn verið gefinn út. Matsmaður telur því skorta lagafyrirmæli á Íslandi til að krefjast þess að notað sé samlímt öryggisgler í handriðið. Hann fer þá leið í kostnaðarmati að miða það við einfalt gler en gefa upp viðbótarverð fyrir tvöfalt samlímt öryggisgler, sjá kafla 5.“
Um matslið 5 segir matsmaður:
„Sjá útskýringu matsmanns við spurningu á undan og síðan kostnaðarmat í kafla 5.“
Um matslið 6 segir matsmaður:
„Nokkrar skemmdir eru sýnilega á gólfum uppi og niðri auk skemmda á 3 stólum og borði. Skemmdir þessar sjást á myndum 3-6. Stólar og borð eru dýrar „design“ vörur frá Epal byggðar á hönnun Arne Jacobsen. Skemmdirnar eru ekki miklar og telur matsmaður að hægt sé að gera við stólana þrjá þannig að skemmdirnar sjáist ekki. Það er hins vegar nosturverk fyrir sérhæfða iðnaðarmenn. Viðgerðin er því dýr. Matsmaður telur ekki hægt að gera við borðið þannig að viðgerðin sjáist ekki. Notagildi þess er ekki rýrt svo nokkru nemi en vörur af þessu tagi eru ekki keyptar með notagildi eitt í huga. Matsmaður verðleggur því í matinu nýtt borð. Matsmaður telur eðli málsins samkvæmt enga afstöðu til spurningar hver bera skuli kostnaðinn.“
Um matslið 7 segir matsmaður:
„Matsmaður metur í kafla 5 kostnað við hreinsun og förgun. Matsmaður telur ekki ástæðu til þess að íbúar flytji úr húsi meðan á viðgerð stendur og metur engan kostnað vegna óhagræðis eða afnotamissis. Hreinsun og förgun er inni í mati.“
Í matsgerðinni skiptir matsmaður kostnaðinum upp í tvennt í samræmi við 4. og 5. lið matsgerðarinnar. Á grundvelli 4. matsliðar metur matsmaður tjónið að fjárhæð 3.034.161 króna. Markar sú fjárhæð aðalkröfu stefnanda. Á grundvelli 5. matsliðar metur matsmaður tjónið að fjárhæð 2.344.643 krónur og markar sú fjárhæð varakröfu stefnanda.
II
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveðst byggja á því að stigi auk handriða í stiga og á palli í fasteigninni að Aðalþingi 3 séu haldin galla í skilningi kröfuréttarins. Í málinu liggi fyrir að stefndi hafi ákveðið að notast við einfalt gler með boruðum festingum við gerð handriðsins.
Samkvæmt mati matsmanns hafi val stefnda á gleri verið rangt og því sé glerið ófullnægjandi. Í því samhengi vísi matsmaður til norrænna staðla á borð við norska staðalinn „Sikkerhetsglass í bygg - krav til klasser í ulike bruksområder“ frá árinu 2006 og danska staðalinn „Retningslinier for valg og andvendelse af sikkerhedsglas - pensionsikkerhed“ frá árinu 2007, en samkvæmt stöðlunum tveimur hafi átt að vera samlímt öryggisgler í handriðinu í stað herts glers. Í þessu tilliti beri að líta til þess að staðlar þessir hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins enda liggi enn ekki fyrir íslenskir staðlar um þetta efni. Stefnandi vísi í þessu samhengi til 1. mgr. 3. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 en í ákvæðinu sé beinlínis kveðið á um það að líta beri til norrænna staðla þegar íslenskum stöðlum um sama efni sé ekki til að dreifa. Með öðrum orðum veiti staðlarnir vísbendingu um hvað sé faglega fullnægjandi hverju sinni og hvaða kröfur beri að gera til fagmanna. Þá nefni matsmaður sérstaklega í umfjöllun sinni að viðtekin venja sé að handrið séu hönnuð með samlímdu gleri og reiknuð og prófuð samkvæmt fyrirfram ákveðnum álagsflokkum. Slíkt gerði stefndi ekki við hönnun og smíði handriðsins. Megi því vera ljóst að vinnubrögð stefnda við hönnun og smíði handriðsins hafi farið í bága við gildandi staðla og venjur sem gildi á fagsviðinu. Að mati matsmanns séu handrið með hertu gleri ekki nægilega örugg þar sem ekkert haldi þeim saman ef þau brotni. Að mati stefnanda beri stefndi einn ábyrgð á þessu ranga vali á efni enda hvíldi rík skylda á honum að haga valinu með þeim hætti að ekki skapaðist hætta á að verkið yrði haldið galla með notkun þess. Um gæðakröfur sé m.a. fjallað í grein 20.2 í ÍST30 en þar segir orðrétt: „Ef ekki er kveðið á um annað í samningnum skal efni því aðeins talið fullnægjandi að það sé að öllu leyti jafngott því efni sem venja er að nota til sams konar verka.“ Ljóst sé að stefndi hafi ekki uppfyllt þessa skyldu sína.
Í matsgerð dómkvadds matsmanns sé það staðfest að festingum sé ábótavant, enda sé of langt á milli þeirra til þess að handriðið uppfylli kröfur gildandi staðla um álagsþol. Sé sú niðurstaða enn fremur í samræmi við niðurstöðu Dr. Sigurðar Gunnarssonar. Þá telji matsmaður að burðarþol handriðsins, þ.e. glerhlutans, sé reikningslega ekki nægjanlegt og verði reikningslegar spennur undir hönnunarálagi, þ.e. tilgreindu álagi samkvæmt stöðlum margfaldað með álagsstuðlum, of háar. Að mati matsmanns þoli handriðið reikningslega ekki línuálagið 0,5 kN/m með viðeigandi öryggisstuðlum. Að auki eigi að reikna jafndreift álag á handriðið. Slíkt hafi stefndi ekki gert.
Tilgangur stefnanda með uppsetningu handriða á efri hæð hafi eðli málsins samkvæmt verið að tryggja öryggi íbúa og gesta. Með öðrum orðum hafi handriðið þjónað hlutverki fallvarna. Eins og matsgerð dómkvadds matsmanns, skýrsla Dr. Sigurðar Gunnarssonar og skýrsla Ferils verkfræðistofu beri með sér hafi fallvörnum verið verulega ábótavant enda hafi ekkert verið sem viðhélt fallvörninni þegar glerið hafi sprungið. Hafi það verið mikil mildi að enginn stóð við glerið þegar það hafi sprungið skyndilega 1. desember 2009. Af þessari ástæðu einni sé handriðið haldið verulegum galla enda hafi smíði og uppsetning þess ekki verið í samræmi við upplýstan tilgang þess.
Matsmaður hafi komist að þeirri niðurstöðu að ástæða þess að glerið hafi brotnað hafi verið sú að innskot hafi átt sér stað í glerinu af nikkelsúlfíð en slíkt geti gerst þegar hert gler er ekki hitaprófað (heat soak tested). Valdi þá innskotin þenslu og sprengi glerið í sundur. Að mati matsmanns sé um að ræða efnisgalla en slíkur galli valdi bara vandamálum í hertu gleri vegna aðferðar við að herða glerið. Þá leiði matsmaður að því líkur að hitapróf hefðu minnkað mjög líkur á að nikkelsúlfíð myndi sprengja glerið. Að mati stefnanda séu engar líkur á því að glerið hafi perlusprungið með þeim hætti sem það gerði hefði stefndi hagað vali á efni, smíði og uppsetningu með öðrum og fullnægjandi hætti. Þannig séu t.a.m. engar líkur á því að glerið hafi sprungið hefði glerið verið úr samlímdu öryggisgleri. Þá hefði slíkt gler enn fremur komið í veg fyrir að glerbrot féllu á neðri hæðina og yllu þar tjóni á munum.
Eins og fram komi í málavaxtalýsingu þá hafi stefnandi leitað til stefnda á grundvelli sérfræðiþekkingar hans í hönnun og framleiðslu stiga og handriða. Á heimsíðu stefnda segi að stefndi hafi lagt mikla áherslu á gerð og hönnun á stigum á síðustu árum, hvort sem sé úr ryðfríu stáli eða járni og hvort sem stigarnir eigi að vera inni eða úti, beinir eða í hring. Einnig að stefndi hafi lagt mikla áherslu á gerð og hönnun á handriðum á síðustu árum, hvort sem sé úr ryðfríu stáli, gleri eða messing og hvort sem handriðin eigi að vera inni eða úti. Á grundvelli þessarar sérfræðiþekkingar hafi stefnandi gengið að tilboði stefnda um hönnun, útfærslu, smíði og uppsetningu á stiga og handriði. Af þeim sökum eigi lög nr. 42/2000 um þjónustukaup við enda sé í 2. tölulið 1. mgr. 1. gr. sérstaklega tekið fram að lögin gildi um vinnu við fasteignir, vinnu vegna byggingarframkvæmda eða aðrar framkvæmdir á landi. Þá sé ljóst að 1. og 2. töluliðir 2. gr. eigi ekki við enda eigi lög um lausafjárkaup ekki við um viðskipti stefnanda og stefnda. Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 42/2000 sé neytandi skilgreindur sem einstaklingur sem sé kaupandi þjónustu og kaupin séu ekki í atvinnuskyni eða í tengslum við starf hans. Stefnandi sé eigandi fasteignarinnar að Aðalþingi 3. Viðskipti stefnanda og stefnda hafi lotið að þeirri fasteign, en stefndi hafi sem fyrr segi séð um hönnun, útfærslu, smíði og uppsetningu á handriðum og stiga fasteignarinnar. Megi því vera ljóst að stefnandi sé neytandi í skilningi laga nr. 42/2000 og gildi þau lög því um viðskipti aðila.
Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 42/2000 skuli útseld þjónusta, sem veitt sé í atvinnuskyni, ávallt vera byggð á fagþekkingu og í samræmi við góða viðskiptahætti sem tíðkist hverju sinni. Þá skuli seljandi þjónustu samkvæmt 5. gr. laganna gæta þess að hún sé í samræmi við almennar reglur, staðla, reglur sem stjórnvöld setji, stjórnvaldsákvarðanir og lög sem gildi um veitta þjónustu í þeim tilgangi að vernda öryggi neytenda. Í 9. gr. framangreindra laga sé því svo lýst hvenær þjónusta teljist vera haldin galla en í 1. tölulið 1. mgr. segi að þjónusta teljist vera gölluð ef árangur af unnu verki standist ekki kröfur samkvæmt 4. gr. eða seld þjónusta víkur frá almennum öryggiskröfum, sbr. 5. gr. laganna. Ljóst megi vera að handriðið sé haldið galla í skilningi 9. gr. laganna enda hafi hönnun verksins, útfærsla, smíði og uppsetning hvorki verið í samræmi við fagþekkingu, sbr. 4. gr., né almennar reglur, staðla og stjórnvaldsfyrirmæli, sbr. 5. gr.
Samkvæmt 15. gr. laga nr. 42/2000 eigi neytandi rétt til skaðabóta vegna gallaðrar þjónustu verði hann fyrir tjóni, nema seljandi þjónustunnar sýni fram á að gallinn verði ekki rakinn til vanrækslu hans. Þá á neytandi einnig rétt til skaðabóta samkvæmt ákvæðinu ef á hina seldu þjónustu skortir eitthvað sem telja má að áskilið sé. Samkvæmt ákvæðinu ber neytandi sönnunarbyrði fyrir galla og tjóni en takist sú sönnun hvílir sönnunarbyrðin á seljanda fyrir því að gallinn tengist ekki vanrækslu hans. Skaðabótaábyrgð seljanda sé því reist á grundvelli sakarlíkindareglunnar.
Stefnandi kveðst hafa sýnt fram á að þjónusta stefnda hafi verið haldin galla enda liggi fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns sem staðreyni það að handriðinu hafi verið verulega ábótavant. Þá sé tjón hans enn fremur staðreynt í matsgerð. Við mat á því sé miðað við að bætt verði úr handriði og stiga þannig að uppfylltar séu kröfur um öryggi og fólki stafi ekki hætta af frágangi. Aðalkrafa stefnanda sé reist á því að matið skuli miða við að útlit verði í samræmi við upphaflegt útlit eftir því sem við megi koma og þá annars vegar fyrir stigahandrið og hins vegar fyrir handrið við stigaopið. Kostnaðarmat matsmanns vegna gallanna, með vinnu og efni, á þessum grundvelli nemi samtals 3.034.161 krónu en um kostnaðarmatið sjálft vísist til matsgerðar („Kostnaðarmat A“). Vilji svo ólíklega til að ekki verði fallist á að bæta eigi tjón stefnanda þannig að útlit stigans og handriða eigi að vera í samræmi við upprunalegt útlit sé varakrafa hans reist á því að matið skuli miða við að útlit verði í samræmi við breytingu sem nú þegar hefur verið gerð á handriði við stigaop en handrið í stiga verði sem líkast upphaflegu útliti. Kostnaðarmat matsmanns vegna gallanna, með vinnu og efni, á þessum grundvelli nemi samtals 2.334.643 krónum en um kostnaðarmatið sjálft vísist til matsgerðar („Kostnaðarmat B“). Þess beri þó að geta að sömu málsástæður liggi að baki aðal- og varakröfu.
Í lögum nr. 42/2000 sé ekki ákvæði um umfang skaðabóta, m.ö.o. sé ekki sérstaklega kveðið á um í lögunum að eingöngu sé bætt fyrir beint tjón, þ.e. kostnað við að bæta úr göllunum. Af þeim sökum verði að ætla að um það fari samkvæmt almennum reglum og því geti neytandi krafist bóta fyrir beint sem og afleitt tjón sem honum tekst að sanna. Sé það enn fremur í samræmi við úrskurðarframkvæmd kærunefndar lausafjárkaupa sem hafi lagt til grundvallar að afleitt tjón sé enn fremur bætt, sbr. álit nefndarinnar í málum nr. 44/2008 og nr. 18/2007. Í matsgerð dómkvadds matsmanns sé afleitt tjón stefnanda metið að fjárhæð 991.880 krónur en það felist í endurnýjun á 11 flísum, viðgerð á stólum og nýju borði. Sú fjárhæð sé hluti aðal- og varakröfu.
Verði ekki á það fallist að viðskipti stefnda og stefnanda séu þjónustukaup í skilningi laga nr. 42/2000 sé þess krafist að tjónið verði bætt á grundvelli laga nr. 48/2003 um neytendakaup enda sé um neytendakaup að ræða í skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna og stefnandi er neytandi í skilningi 3. mgr. sömu greinar. Að mati stefnanda eigi b. og d. liðir 2. mgr. 2. gr. laganna ekki við. Í 15. gr. laganna sé kveðið á um hvers konar eiginleika söluhlutur skuli bera. Í ljósi þess sem að framan greini, sé einsýnt að handriðið, sem stefndi hafi selt stefnanda, uppfylli ekki a., b., c. og f. liði 2. mgr. greinarinnar. Sé handriðið því haldið galla í skilningi a. liðar 1. mgr. 16. gr. en líkt og fyrr greini hafi stefnandi fært sönnur fyrir galla handriðsins og tjóni sem hann hafi orðið fyrir með framlagningu matsgerðar dómkvadds matsmanns.
Krafa stefnanda um skaðabætur úr hendi stefnda sé reist á 33. gr. laga nr. 48/2003 en samkvæmt ákvæðinu geti neytandi krafist skaðabóta fyrir það tjón sem verður vegna galla á söluhlut. Ákvæðið mæli fyrir um hreina hlutlæga ábyrgð á tjóni vegna galla. Neytandi eigi þannig rétt á skaðabótum fyrir sérhvert fjárhagslegt tjón sem hann verði fyrir vegna galla. Beri stefndi því alfarið ábyrgð á tjóni stefnanda. Þá verði ekki annað séð af 34. gr. laganna en að á stefnda hvíli ótvíræð ábyrgð vegna afleidds tjóns stefnanda sem vikið hafi verið að en í ákvæðinu sé kveðið á um að skaðabótaábyrgð seljanda nái til tjóns á hlutum sem söluhlutur hafi verið notaður til framleiðslu á eða hlutum sem standi í nánu og beinu sambandi við fyrirhuguð not söluhlutar. Þessu til stuðnings vísi stefnandi enn fremur til 52. gr. laganna en þar sé kveðið á um umfang skaðabóta. Ólíkt því sem gert sé í lögum um lausafjárkaup sé í ákvæðinu ekki greint milli beins og óbeins tjóns. Geti stefnandi því einnig krafist bóta fyrir óbeint tjón. Í ljósi framangreinds sé bótaskylda stefnda á beinu og afleiddu tjóni stefnda ótvíræð á grundvelli laga nr. 48/2003. Um aðal- og varakröfu vísist að öðru leyti til þess sem fram sé komið og um sundurliðun bótaliða til matsgerðar.
Verði hins vegar ekki fallist á að lög nr. 42/2000 eða lög nr. 48/2003 taki til afleidds tjóns stefnanda sé þess krafist að það verði bætt á grundvelli 2. mgr. 2. gr. laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð. Samkvæmt ákvæðinu skuli greiða bætur fyrir tjón á hlut ef hann er samkvæmt gerð sinni venjulega ætlaður til einkanota, enda hafi sá er fyrir tjóni hafi orðið aðallega haft hlutinn til einkanota. Ljóst sé að handriðið sé haldið ágalla í skilningi 5. gr. laganna enda hafi það ekki verið svo öruggt sem vænta mátti eftir öllum aðstæðum og vísist nánar um það til þess sem að framan greini. Krafan beinist að stefnda á grundvelli 6. gr. enda hafi hann verið framleiðandi handriðsins.
Vilji svo ólíklega til að ekki verði fallist á bótaskyldu stefnda á grundvelli laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, laga nr. 48/2003 um neytendakaup, eða laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð, sé þess krafist að tjón stefnanda verði bætt á grundvelli sakarreglunnar og skaðabóta utan samninga. Í málinu liggi fyrir að stefndi gefi sig út fyrir að vera sérfræðingur í hönnun og smíði stiga og handriða og vísist um það meðal annars til heimasíðu fyrirtækisins. Af þeim sökum sé hægt að gera ríkari kröfur til vinnubragða hans og beita strangari saknæmismati við mat á gáleysi en almennt tíðkist. Við sakarmat stefnda beri fyrst og fremst að taka mið af því hvað teljist vera gott og eðlilegt verklag reyndra og aðgætinna manna sem starfi á umræddu sviði. Með öðrum orðum hafi hvílt sú skylda á stefnda að haga vinnubrögðum og efnisvali við verkið með þeim hætti að það samræmdist þeim faglegu kröfum sem á fagsviðinu tíðkist og þekktist á þeim tíma sem handriðið hafi verið hannað, smíðað og sett upp. Eins og vikið sé að að framan og í matsgerð hafi val stefnda á efni við verkið, burðarþol, álagsþol og festingar verið með öllu ófullnægjandi. Með háttsemi sinni hafi stefndi sýnt af sér saknæma háttsemi og beri af þeim sökum ábyrgð á tjóni stefnanda sem metið sé í matsgerð dómkvadds matsmanns.
Af hálfu stefnda hafi því verið borið við að stefnandi hafi komið með tillögu að útliti stigans og gerð handriðsins. Að mati stefnanda breyti það þó ekki þeirri staðreynd að hönnunin, smíði og uppsetning stigans og handriðsins hafi alfarið verið í höndum stefnda enda hafi stefnandi enga fagþekkingu þegar komi að hönnun og smíði stiga og glerhandriða. Það hafi stefndi hins vegar. Hafi útlitshugmyndir stefnanda að einhverju leyti verið með þeim hætti að öryggi stigans og handriðsins hafi verið teflt í tvísýnu, hafi stefnda að sjálfsögðu borið skylda til þess, sem sérfræðingi, að upplýsa stefnanda um þá hættueiginleika enda hafi stefnandi alfarið treyst á sérfræðiþekkingu stefnda að þessu leyti. Stefndi hafi hins vegar aldrei látið stefnanda vita af hugsanlegum hættueiginleikum, hvorki á hönnunarstigi né framkvæmdarstigi. Þá geti sú staðreynd, að stigar og handrið hafi verið hönnuð með þessum hætti áður, ekki haft nokkur áhrif á sakarmatið enda geti vond framkvæmdarvenja aldrei réttlætt rangt verklag. Sé það mat dómstóla að venjubundin háttsemi tryggi ekki nægilegt öryggi séu þeir vitaskuld ekki bundnir af slíkri venju við mat á saknæmi og vísist um það meðal annars til Hrd. 1955, bls. 88. Með hliðsjón af öllu framangreindu og matsgerð dómkvadds matsmanns megi vera ljóst að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við hönnun, smíði og uppsetningu stigans og handriðsins. Af þeim sökum beri hann ótvíræða skaðabótaábyrgð á öllu tjóni stefnanda. Um aðal- og varakröfu vísist að öðru leyti til þess sem fram sé komið og um sundurliðun bótaliða til matsgerðar.
Eins og fram hafi komið hafi glerið í handriði sprungið 1. desember 2009. Af þeim sökum sé krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til þingfestingardags, 12. janúar 2011. Frá þeim degi reiknist svo dráttarvextir sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.
Hvað lagarök varðar kveður stefnandi kröfur sínar einkum styðjast við lög nr. 42/2000 um þjónustukaup, lög nr. 48/2003 um neytendakaup, lög nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð og sakarregluna. Þá sé enn fremur byggt á íslenskum og norrænum stöðlum. Um vaxtakröfuna vísar stefnandi sérstaklega til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 50/1988 og beri því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
III
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi kveður að allt gler sem hann noti sé keypt af Glerverksmiðju Samverks á Hellu og sé fyrirtækið viðurkenndur glerframleiðandi og eini aðilinn hér á landi sem herði gler. Samverk bori allt sitt gler og skeri fyrir herslu. Glerframleiðandinn hafi aldrei komið með athugasemdir varðandi bil á milli borgata fyrir festingar og slík handrið hafi verið tekin út og samþykkt af embættum byggingarfulltrúa víðsvegar á landinu, en ekki séu til íslenskir staðlar í þessu efni.
Handrið og festingar hafi verið unnin í samræmi við hönnun arkitekts stefnanda, Eddu Ríkharðsdóttur, sbr. það sem rakið hafi verið að framan varðandi handrið í Kúrlandi. Stefnandi hafi tekið ákvörðun um að hafa enga handlista á gólfbrún á efri hæð þrátt fyrir að Óðinn Gunnarsson starfsmaður stefnda hafi lagt áherslu á að hafa handlista vegna öryggis sem fallvörn.
Stefndi kveðst ekki hafa annast hönnun og í þessu tilviki hafi hann einungis tekið að sér smíði á stiga og handriðum samkvæmt óskum stefnanda og samkvæmt fyrirmælum hönnuðar á vegum stefnanda. Tilboð stefnda hafi einungis tekið til smíði á stálstiga með glerhandriði og hnotu handlista og glerhandrið án handlista í kringum stigaop og beri það með sér að stefndi annaðist ekki hönnun. Stefnandi hafi sjálfur tekið ákvörðun um að víkja frá hönnun aðalhönnuðar hússins, en á teikningu sé sýndur stigi og handrið með handlistum og einnig sé sýndur fjöldi festinga.
Byggingarstjóri beri ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga nr. 73/1997, en markmið laganna sé að byggingarstjóri væri nauðsynlegur til að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með kröfum um öryggi, endingu, útlit og hagkvæmni byggingar og annarra mannvirkja. Það liggi fyrir í þessu máli að byggingarstjóri virðist ekki hafa sinnt eftirlitsskyldu sinni og stefnandi ekki haft samráð við hann um framkvæmdir. Engar deiliteikningar eða burðarþolsteikningar hafi verið lagðar inn til byggingarfulltrúa eins og krafist sé. Uppsetning hafi verið án samráðs við aðalhönnuð hússins og hafi framkvæmdir ekki verið í samræmi við aðalteikningar, heldur hafi stefnandi leitað beint til stefnda varðandi smíði og uppsetningu á handriðinu án samráðs við aðalhönnuð hússins og byggingarstjóra. Útfærsla handriðsins hafi verið ákveðin af stefnanda í samráði við innanhússhönnuð hans, sbr. það sem fram komi í niðurstöðum í skýrslu Ferils.
Telja verði að stefnanda hafi borið að hafa fullt samráð við byggingarstjóra hússins um allar framkvæmdir og hönnun. Engin lokaúttekt hafi farið fram á húsinu og Hæstiréttur hafi skýrt ákvæði laga nr. 73/1997 um skyldur byggingarstjóra þannig að með þeim séu á byggingastjóra lagðar skyldur til að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum þeim sem hann stýri, sbr. Hrd. 267/2005, 318/2007, 37/2009 og 369/2009.
Í máli þessu liggi ekkert fyrir sem bendi til þess að glerið hafi brotnað af ástæðum sem stefndi beri ábyrgð á. Stefnandi hafi haldið því fram að glerið hafi brotnað án þess að nokkur hafi komið við það, en barnahliðinu hafði skömmu áður verið lokað. Þannig liggi fyrir að glerið geti ekki hafa brotnað af þeirri ástæðu að það hafi ekki staðist álag eða að fjöldi festinga hafi ekki verið nægur.
Í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Feril verkfræðistofu hafi verið framkvæmdar prófanir á sambærilegum festingum og gleri og sett hafi verið upp í Aðalþingi 3 og hafi stefndi og Samverk staðið að prófunum. Í skýrslu Ferils segi að í ljós hafi komið að festingarnar sem slíkar séu mun sterkari en kröfur séu gerðar um. Glerið sjálft hafi staðist það grunnálag sem mælt sé fyrir um í staðli Eurocode FS ENV 1991-2-1:1995 en ekkert umfram það miðað við stærstu skífuna í handriðinu. Í skýrslunni segi jafnframt að ástæðan fyrir því að glerskífan hafi brotnað sé væntanlega ekki sú að lárétt línuálag ofan til, hafi verið of mikið, enda hafi stefnandi staðhæft að ekkert hafi verið ýtt á glerið þegar það brotnaði.
Í úttekt verkfræðistofunnar Ferils séu tilgreindar tvær mögulegar ástæður fyrir því að glerið hafi brotnað. Í fyrsta lagi hafi barnahlið verið efst í stiganum sem spennt hafi verið út í stigahandriðaglerin sitt hvoru megin. Þeim megin sem glerskífan hafi brotnað hafi stigahandriðaglerið lagst upp að kanti á glerinu sem brotnaði og nuddast við það með þeim afleiðingum að það hafi brotnað en eins og kunnugt sé þá hafi hert gler mikinn styrk en sé viðkvæmt fyrir álagi á kanta. Stefndi hafi varað við því að sett yrði upp barnahlið nema gerðar yrðu viðeigandi ráðstafanir en þeim viðvörunum hafi ekki sinnt af hálfu stefnanda. Hinn möguleikinn sé að mati Ferils mögulegur efnisgalli í glerinu (nikkelsúlfíð) en samkvæmt upplýsingum framleiðandans Samverks sé talinn möguleiki á að ein glerskífa úr 4-12 tonnum af gleri brotni af þessum sökum. Rétt sé að halda til haga að umrætt barnahlið hafi í eitt og hálft ár nuddast við glerið sem brotnaði í hvert sinn sem hliðið hafi verið opnað eða lokað og glerið því verið undir miklu álagi af þessum völdum og það því nærtækasta skýringin á því að glerið brotnaði. Á þessu beri stefnandi ábyrgð þar sem hann hafi ekki sinnt viðvörunum stefnda um frágang við hliðið.
Varðandi ástæðu þess að glerhandrið við stigaop hafi brotnað þá bendi matsmaður í matsgerð á sömu möguleika og fram koma í skýrslu Ferils, en vísi til þess að öll handrið hafi verið fjarlægð og ekki hafi verið lagðar fram teikningar af stiganum sem sýni óumdeilanlega frágang, millibil á milli skífa o.s.frv. Byggingarstjóra hafi mátt vera ljóst, hafi hann sinnt eftirlitsskyldum sínum, að frágangur á umræddu barnahliði gat haft þær afleiðingar í för með sér sem raun bar vitni, en hann er föðurbróðir stefnanda og um það bil 1½ ár leið frá því uppsetningu lauk þar til glerið hafi brotnað. Með ólíkindum sé ef byggingarstjóri hafi ekki einhvern tíma á því tímabili komið á staðinn til að hafa eftirlit með framkvæmdum.
Í niðurstöðum úttektar Ferils segi að aðalhönnuður hússins beri ábyrgð á því að teikningar séu í samræmi við lög og reglugerðir og að þær hafi hlotið samþykki byggingaryfirvalda. Byggingarstjóri beri ábyrgð á því að allt sem byggt hafi verið eða framkvæmt sé samkvæmt samþykktum, tæknilega og faglega fullnægjandi teikningum, lögum og reglugerðum. Lokaúttekt á húsinu hafi ekki farið fram og framkvæmdir við umrætt handrið því á ábyrgð byggingarstjóra hússins.
Matsgerð sem stefnandi hafi aflað sé í ýmsum atriðum mótsagnakennd og málsatvikum lýst samkvæmt lýsingu stefnanda þó fyrir hafi legið samkvæmt gögnum málsins að ágreiningur sé um atriði í veigamiklum atriðum. Matsbeiðni sé ekki framlögð í málinu, en í matsgerðinni komi fram að óskað var meðal annars eftir því að metið yrði hvort stigi auk handriða í stiga og á palli, sem eigi að þjóna sem fallvarnir í eigninni, sem matsbeiðandi “keypti hjá matsþola” samkvæmt tilboði hans standist gæðakröfur við gerð handriða og fallvarna við nýbyggingar þannig að ástand teljist í öllum tilvikum endanlegt, uppfylli þekkta staðla og kröfur um öryggi og teljist ógallað. Þá fylgi fundargerð matsfundar ekki matsgerðinni, en þar hafi lögmaður stefnda bókað athugasemd við orðalag í matsbeiðni þar sem stefnandi hafi ekki keypt stiga og handrið samkvæmt tilboði stefnda heldur fengið tilboð í efni og vinnu við smíði samkvæmt hugmyndum sínum og útfærslu arkitekts hans. Fram komi í svari matsmanns að handrið sé hefðbundið í skilningi þess sem byggt hafi verið hér á landi alveg fram á síðustu ár og byggingarfulltrúar hafi samþykkt í nýbyggingum. Þar sé átt við að notað sé einfalt gler en einnig fjarlægðir á milli glerfestinga sem ráði spennum í glerinu líkar því sem víða finnist hérlendis.
Þá segi jafnframt í matsgerð að engin ákvæði séu í byggingarreglugerð sem segi til um efnisval í handrið af þessu tagi og engin samræmd Evróputilskipun eða Evrópustaðall um glerhandrið. Með hliðsjón af þessu sé því mótmælt sem röngu og órökstuddu sem byggt sé á í stefnu að val stefnda á gleri hafi verið rangt og glerið ófullnægjandi og nota hafi átt samlímt gler. Þessi niðurstaða stefnanda eigi sér hvorki stoð í gildandi stöðlum eða reglugerðum eða niðurstöðum matsmanns og þess utan hafi stefndi ekki hannað handriðin eins og haldið sé fram í stefnu. Þá sé því alfarið mótmælt að vinnubrögð stefnda við smíði handriðsins hafi farið í bága við gildandi staðla eða venjur sem á fagsviðinu gilda. Varðandi það að glerhandrið á efri hæð hafi verið ófullnægjandi fallvörn þá hafi stefnandi borið ábyrgð á því að ekki hafi verið handlistar þar en hann hafi alfarið lagst gegn því að hafa handlista þar þrátt fyrir ábendingar stefnda. Í matsgerð komi fram að handrið af þessari gerð með sömu gerð festinga og með álíka fjarlægðum milli bolta hafi verið byggð hérlendis undanfarið án athugasemda frá yfirvöldum, en matsmaður kvaðst ekki þekkja dæmi þess að slík handrið hafi brotnað undan álagi.
Skaðabótarétti stefnanda á grundvelli laga nr. 42/2000 um þjónustukaup sé mótmælt þar sem smíði og uppsetning stiga og handriða og sú vinna sem stefndi hafi innt af hendi hafi ekki verið haldin neinum ágöllum. Þvert á móti sé stefndi viðurkenndur fyrir gott handbragð og prófun festinga sem gerð hafi verið í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Feril verkfræðistofu á sambærilegum festingum og gleri og sett hafi verið upp í Aðalþingi 3 hafi sýnt að festingarnar sem slíkar hafi verið mun sterkari en kröfur séu gerðar um. Stefndi beri hins vegar ekki ábyrgð á hönnun eins og rakið hafi verið. Kröfum um afleitt tjón sé hafnað og standi lagarök ekki til slíks. Því sé þannig mótmælt að handriðin séu haldin galla í skilningi 9. gr. laganna sem stefndi beri ábyrgð á þar sem útfærsla festinga hafi verið samkvæmt fyrirmælum stefnanda og hafi hann við þá ákvörðun notið sérfræðiþekkingar arkitekts á sínum vegum. Þá sé því einnig mótmælt að skaðabótaréttur stefnanda geti grundvallast á lögum nr. 48/2003 um neytendakaup þar sem stefndi hafi annast umbeðna vinnu óaðfinnanlega og ekki hafi verið um það að ræða að stefndi hafi verið að selja stefnanda stiga með handriðum. Því komi skaðabótakrafa á grundvelli 33. gr. laga nr. 48/2003 ekki til greina og sé mótmælt sem rangri og órökstuddri. Því sé einnig mótmælt að bótakrafa sem reist sé á 2. mgr. 2. gr. laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð taki til afleidds tjóns stefnda.
Þá sé því alfarið mótmælt að skaðabótakrafa stefnanda geti grundvallast á sakarreglunni um skaðabætur utan samninga þar sem því fer fjarri að stefndi hafi með nokkrum hætti sýnt af sér saknæma háttsemi. Skaðabótakröfum stefnanda sé mótmælt þar sem ekki verði á því byggt að stefndi beri ábyrgð á því að endursmíða handrið á stiga og stigaop þar sem hann hafi ekki borið ábyrgð á hönnun og útfærslu stiga og handriða en vinnuframlag hans hafi verið óaðfinnanlegt. Önnur niðurstaða hefði í för með sér víðtækt fordæmisgildi.
Þá sé óskiljanlegt að þörf hafi verið á mati á gerð þess handriðs sem stefnandi hafi þegar látið setja upp við stigaop þar sem kostnaður hljóti að liggja fyrir. Skorað sé á stefnanda að leggja fram reikninga fyrir kostnaði við þá framkvæmd. Þá liggi ekkert fyrir um að stefnandi ætli sér annað en að hafa handrið á stiga óbreytt. Þá liggi fyrir eins og að framan sé rakið að þegar glerið hafi brotnað hafi stefndi boðið stefnanda án viðurkenningar á bótaskyldu að setja upp nýtt gler í stað þess sem brotnaði og setja handlista á allt glerið á annarri hæð en stefnandi hafi hafnað því. Þá sé mótmælt kröfum vegna skemmda á parketi, flísum, stólum og borði þar sem með öllu sé ósannað að tjóni megi rekja til atvika eða orsaka sem stefndi ber ábyrgð á.
Samkvæmt því sem rakið hafi verið beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda þar sem byggingarstjóri beri ábyrgð á því að allt sem byggt hafi verið eða framkvæmt sé samkvæmt samþykktum, tæknilega og faglega fullnægjandi teikningum, lögum og reglugerðum. Lokaúttekt á húsinu hafi ekki farið fram og framkvæmdir við umrætt handrið því á ábyrgð byggingarstjóra hússins, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga nr. 73/1997. Þá sé það á ábyrgð stefnanda hafi hann ekkert samráð haft við aðalhönnuð hússins eða byggingarstjóra um þessar framkvæmdir sem ekki hafi verið í samræmi við aðalteikningar hússins.
Hvað varðar lagarök kveðst stefndi vísa til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, laga nr. 48/2003 um neytendakaup, laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð og sakarreglunnar. Varðandi málskostnað vísist til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi. Af hálfu stefnda gáfu skýrslur Óðinn Gunnsteinn Gunnarsson forstjóri og Daníel Óli Óðinsson framkvæmdastjóri. Þá gáfu skýrslur Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur og dómkvaddur matsmaður, Jóhann Tómas Egilsson byggingartæknifræðingur, Ingibjörn Sigurbergsson, Edda Guðrún Ríkharðsdóttir arkitekt og Sveinbjörn Sveinbjörnsson, faðir stefnanda.
Stefnandi greindi frá því að hann hefði leitað til stefnda til að sjá um gerð stiga og handriða þar sem stefndi væri sérfræðingur í stigum. Kvaðst stefnandi hafa ákveðið með sínum arkitekt að hafa léttan stiga og gler, en ekki steyptan. Fram hafi komið hjá stefnda hugmynd um að hafa stigann beinan, en ekki með palli. Kjálki stigans hafi verið teiknaður upp hjá stefnda í þeim tilgangi að hann og kona hans gætu séð heildarlengd stigans. Stefnandi bar að hann hefði mætt á fund til stefnda með konu sinni og Eddu Ríkharðsdóttur arkitekt sem hafi verið fagurfræðilegur ráðgjafi þeirra, en hefði ekki haft með hönnun stigans eða efnisval að gera að neinu leyti. Stefnandi bar að stefndi hefði boðist til að útvega gler í handrið sem hann hefði þegið. Stefnandi greindi frá því að hann hefði spurt Daníel hvort hann gæti smíðað fyrir hann barnahlið til að setja í stigann, en Daníel hefði bent honum á að kaupa slíkt hlið í BabySam. Stefnandi kannaðist ekki við að honum hefði verið bent á að hafa plastklossa milli glerjanna tveggja. Þá vissi stefnandi ekki til að glerin hefðu nokkurn tímann nuddast saman.
Óðinn Gunnsteinn Gunnarsson forstjóri stefnda bar fyrir dómi að stefndi hefði ráðlagt stefnanda að hafa stigann beinan og draga hann inn eins og mögulegt væri. Þá hefði stefndi ráðlagt stefnanda að hafa handlista á stiganum, það væri öruggara til að binda glerið saman. Niðurstaðan hefði verið að hafa handlista öðru megin enda væri stiginn ekki nógu breiður til að handlistar gætu verið báðum megin. Hann kvaðst ekki vera sérfræðingur í gleri, en hefði unnið við stiga og handrið í nærri 50 ár. Hann kvaðst ekki muna það hvort hann hefði upplýst stefnanda um það að til væri margs konar gler; samlímt gler, hert gler, og að þau gætu valið á milli, en kvað ekki koma annað til greina en að hafa hert gler sem stigahandrið. Þá bar Óðinn að útilokað væri að nota samlímt gler því það þyldi ekki herslu á festingum. Óðinn kvaðst hafa bent stefnanda á að allt gler gæti brotnað. Hann greindi frá því að hann hefði heyrt um að hert gler hefði sprungið og að 0,02-0,05% glerja ættu það til að springa vegna nikkelsúlfíð innskots. Þrjár rúður í þeirra verkum hefðu sprungið fyrirvaralaust í heimahúsum. Þau gler hefðu verið framleidd á svipuðum tíma. Aðspurður um það hvernig burðarþol glersins væri reiknað greindi Óðinn frá því að það hefði ekki verið gert fyrir tilvikið í Aðalþingi 3. Það hafi hins vegar verið gert eftir slysið. Eftir það hafi stefndi látið reikna út burðarþol festinga og sé því öllu lýst í skýrslu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Óðinn kvað glerið í Aðalþingi hafa sprungið án álags og því skipti fjöldi festinga engu máli. Hann kvað veikustu punktana í hertu gleri vera kanta glersins. Kæmi högg á kantana gæti glerið sprungið.
Daníel Óli Óðinsson framkvæmdastjóri stefnda bar fyrir dómi að stefnandi hefði komið að máli við stefnda og óskað eftir því að stefndi tæki að sér gerð stiga og handriðs. Stefnandi hefði haft hugmyndir um gerð stigans og handriðsins og hefði stefndi teiknað stigann. Fjöldi glerja hefði verið ákveðinn af stefnanda sjálfum eftir upplýsingum frá stefnda um möguleika. Daníel Óli bar að stefnanda hefði verið boðinn handlisti á handriðið en það hafi stefnandi ekki viljað þiggja en niðurstaðan hafi þó verið að setja handlista á handrið í stiganum sjálfum öðru megin. Þá kom fram hjá Daníel að stefnandi hafi spurt sig hvort hann gæti smíðað fyrir sig barnahlið til að hafa í stiganum. Það hafi stefnandi gert eftir að búið var að panta glerin og því hafi ekki verið hægt að festa hliðið með því að bora og festa þannig við glerið. Daníel kvaðst hafa bent stefnanda á að líklega væri ódýrasta lausnin og þægilegasta að fá hlið sem hægt væri að spenna á milli glerja og festa þannig. Daníel Óli bar að hann hefði spurt stefnanda að því hvort hann ætlaði að hafa hliðið að ofan eða neðan í stiganum vegna þess að ætlaði stefnandi að hafa hliðið neðst væri ekkert vandamál að spenna hliðið milli glerjanna, en uppi væri aðstaðan önnur þar sem spenna þar gæti valdið því að gler rækist í kantinn á glerinu við hliðina og kvaðst Daníel muna það greinilega að hann hefði bent stefnanda á að láta sig vita ef hann ætlaði að hafa hliðið að ofan því þá þyrfti að setja plastklossa milli glerjanna til að koma í veg fyrir að glerin rækjust saman.
Vitnið Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur og matsmaður kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína. Hann greindi frá því að algengt væri að burðarþolshönnuðir reiknuðu ekki burðarþol glers í handriðum. Handrið væru gjarnan stöðluð þ.e. lausnir sem eru tilbúnar og hannaðar eða prófaðar af burðarþolsfræðingum í upphafi eða prófaðar og seldar sem lausnir. Þá greindi vitnið frá því að staðall væri tilgreindur í byggingarreglugerð sem segi til um álag á handrið í íbúðarhúsum og það handrið sem um ræði þoli ekki það álag sem þar er skilgreint. Aðspurður um það hvort val á gleri hefði verið forsvaranlegt sagði vitnið það skoðun sína að gler í handriði sem eigi að vera fallvörn eigi að vera samlímt gler. Hann vísaði einnig til umfjöllunar í matsgerð um hefðir á Íslandi í þessum efnum. Þá kom fram hjá vitninu að í norskum staðli og þýskum leiðbeiningum sé gerð krafa um samlímt gler í tilviki fallvarna. Ekki sé algengt að evrópskir staðlar geri sambærilegar kröfur. Vitnið bar að punktfestingar glersins í Aðalþingi hafi verið of fáar. Vitnið kvað ekki mögulegt að ef bil milli glerja hafi verið 20 millimetrar þá hafi þau nuddast saman þegar barnahlið hafi verið lokað. Vitnið kvaðst þekkja dæmi þess að gler spryngi fyrirvaralaust og kvaðst hafa heyrt af því að 0.7% tilvika það sé þó háð því hvaðan frumefnin í glerið hafi komið. Í glerinu séu þeir eiginleikar ef það er hert og ef nikkelsúlfíð er í glerinu þá geti þetta gerst. Þá bar vitnið að ef 20 millimetrar hafi verið milli glerja væri útilokað að herða barnahlið það mikið að það snerti aðliggjandi gler í handriðinu. Vitnið bar að það sem burðarþolsfræðingar reikni og hanni eigi að senda til byggingarfulltrúa til samþykktar. Hins vegar sé það svo að burðarþolshönnuðir hanni ekki alla verkþætti eins og til dæmis niðurhengd loft og þess háttar. Matsmaður bar að líklegt væri að glerið hefði sprungið af völdum nikkelsúlfíði en sagðist ekki hafa rannsakað það enda hefði verið búið að fjarlægja glerið. Hann kvaðst ekki hafa komist að þeirri niðurstöðu, en teldi það líklegt. Korn af nikkelsúlfíði séu innskot og ef brotmyndanir sæjust væri hægt að álykta út frá því og í matsgerðinni er talið líklegt að þetta hafi gerst en matsmaður gat ekki afsannað að glerið hefði brotnað af völdum barnahliðsins.
Vitnið Jóhann Tómas Egilsson greindi frá því að hann hefði unnið skýrslu fyrir stefnda á glerhandriði í Aðalþingi 3. Hann sagði að gler þyldi mikla sveigju. Hann bar að hann hefði gert athugun á þessu á staðnum með mælingum á glerinu. Vitnið sagði það líklega skýringu að barnahlið í stiganum hefði orsakað sveigju á glerhandriðið og valdið því að glerið brotnaði. Vitnið neitaði því að orsökin fyrir því að glerið hafi brotnað hafi verið að smíði handriðsins væri ábótavant. Vitnið greindi frá því að Snæbjörn Kristjánsson samstarfsmaður vitnisins á verkfræðistofunni Ferli hefði reiknað burðarþolið í þeirri rannsókn sem gerð hafi verið. Niðurstaðan hefði verið sú að burðarþoli væri ábótavant vegna þess að festingar væru of fáar og bilið milli þeirra því of mikið. Þá greindi vitnið frá því að sú rannsókn sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefði framkvæmt á gleri og festingum hefði farið fram í tengslum við úttekt Ferils á glerhandriðinu í Aðalþingi 3.
Vitnið Edda Guðrún Ríkharðsdóttir arkitekt bar fyrir dómi að hún hefði farið á fund með stefnanda og eiginkonu hans á verkstæði stefnda. Hafi stefnandi beðið vitnið að koma og skoða útlínur á stigakjálka sem var búið að teikna. Hlutverk vitnisins hafi eingöngu verið fagurfræðileg ráðgjöf í þágu stefnanda. Ekki hafi verið borið undir vitnið hugmyndir að festingum á handriði stigans. Vitnið greindi frá því að hún hefði ekki komið að hönnun á stiga fyrir stefnanda, glerhandriði eða festingum á handriðinu.
V
Dómendur fóru á vettvang við upphaf aðalmeðferðar 31. maí 2011.
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um skaðabætur á grundvelli matsgerðar dómkvadds matsmanns vegna glerhandriðs og tjóns af völdum glerskífu sem brotnaði í handriði á heimili stefnanda. Stefndi hafnar bótaskyldu á þeim grundvelli að ekkert bendi til að glerið hafi brotnað af ástæðum sem stefndi beri ábyrgð á. Útilokað sé að glerið hafi brotnað af þeirri ástæðu að það hafi ekki staðist álag eða að fjöldi festinga hafi ekki verið nægur. Að auki hafi stefnanda borið að hafa samráð við byggingarstjóra hússins um allar framkvæmdir og hönnun, en engin lokaúttekt hafi farið fram á húsinu.
Eins og fram er komið gerði stefndi stefnanda tilboð í smíði á stálstiga með glerhandriði og handlista að hluta og glerhandrið án handlista umhverfis stigaop á annarri hæð í húsinu nr. 3 við Aðalþing í Kópavogi. Þann 1. desember 2009 brotnaði ein hert glerskífa í handriðinu á annarri hæð sem þjónaði hlutverki fallvarna. Féll brotið gler niður á milli hæða. Greinir aðila málsins á um það hvers vegna glerið brotnaði.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 skulu íslenskir staðlar almennt vera leiðbeinandi við gerð bygginga og annarra mannvirkja. Á þeim sviðum sem íslenskir staðlar taki ekki til skulu ákvæði norrænna staðla og ISO-staðlar vera leiðbeinandi. Þá segir að allir evrópskir staðlar taki gildi sem íslenskir staðlar og að samhæfðir evrópskir staðlar og evrópsk tæknisamþykki hafi einnig gildi hér á landi.
Í matsgerð Ríkharðs Kristjánssonar verkfræðings, segir að handriðið í Aðalþingi 3 sé hefðbundið, borið saman við það sem byggt hafi verið hér á landi fram á síðustu ár og byggingarfulltrúar hafi samþykkt í nýbyggingum alveg fram á þennan dag. Þá sé átt við að notað sé einfalt hert gler og einnig séu fjarlægðir milli glerfestinga sem ráði spennum í glerinu líkar því sem fyrirfinnist víða hérlendis. Þá segir að framleiðendur handriða þurfi að gera grein fyrir hönnun þeirra og fá leyfi fyrir notkun þeirra lausna sem beita eigi. Á bak við slíkt leyfi séu þá burðarþolsútreikningar.
Niðurstaða matsmanns er sú að handriðið uppfylli ekki álagskröfur gildandi staðla á Íslandi. Það uppfylli ekki kröfur norsks eða dansks staðals frá 2006 um val á gleri í handrið, né þýskra reglna, en hins vegar breskra. Engar beinar kröfur séu í byggingarreglugerð um val á gleri í handrið. Þá hafi byggingaryfirvöld samþykkt athugasemdalaust handrið af þessu tagi. Það er hins vegar niðurstaða matsmanns að handrið af þessu tagi séu ekki nægilega örugg þar sem ekkert haldi þeim saman ef þau brotni auk þess sem í þessu tilfelli sé of langt á milli festinga til að handriðið uppfylli kröfur gildandi staðla um álagsþol. Muni álagsstaðall sem taka muni gildi á Íslandi innan skamms ekki breyta þessu atriði. Enn fremur telur matsmaður að burðarþolshönnun handriðsins sé ábótavant án þess að þar með sé fullyrt að sú sé orsökin fyrir broti þess hluta sem féll niður. Hvað lagafyrirmælin áhræri þá séu engin bein ákvæði um efnisval í reglugerð og engin samræmd Evróputilskipun eða Evrópustaðall sé til um glerhandrið. Vafasamt megi telja að breytingar á einstaka norrænum staðli öðlist sjálfkrafa og samstundis gildi á Íslandi, en nýlegir norskir og danskir staðlar krefjast samlímds glers í handrið af því tagi sem um ræði.
Svo sem fram er komið greinir aðila á um það af hvaða völdum glerhandrið við stigaop brotnaði. Stefnandi heldur því fram að glerið hafi brotnað fyrirvaralaust og án sérstaks álags. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að barnahlið efst í stiga hafi ýtt glerhandriði stigans út og að það hafi nuddast við glerskífuna sem brotnaði. Í úttekt Ferils verkfræðistofu á glerhandriðinu eru tilgreindar tvær mögulegar ástæður fyrir því að glerið brotnaði; annars vegar að barnahlið efst í stiganum hafi verið spennt út í stigahandriðaglerin sitt hvoru megin, en þeim megin sem glerskífan hafi brotnað hafi stigahandriðið lagst upp að kanti á glerinu sem brotnaði og nuddast við það með þeim afleiðingum að það brotnaði, og hins vegar mögulegur efnisgalli í glerinu (nikkelsúlfíð) en samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda glersins, Samverki, sé möguleiki á því að ein hert glerskífa úr hverjum 4-12 tonnum af gleri geti brotnað af þessum sökum.
Í áðurnefndri matsgerð er því lýst að gipsveggir hafi verið komnir í staðinn fyrir öll glerhandriðin á annarri hæð hússins. Hafi athugun matsmanns leitt í ljós að allar fjarlægðir frá glerhandriði stiga að veggskífum á annarri hæð hafi verið meiri en þau bil sem tilgreind séu hjá Ferli verkfræðistofu. Samkvæmt mælingu matsmanns á svignun glerhandriðsins út til hliðar þegar hliðinu hafi verið læst og hafi svignun reynst um það bil 4 millimetrar hvoru megin en að auki hafi bilið að ofan verið ca 5 millimetrar meira í heild en niðri. Að áliti matsmanns sé ljóst að glerið í handriðinu á efri hæðinni hefði þurft að falla allþétt að gleri í handriði stigans þannig að ekki hafi mátt muna nema að hámarki 5 millimetrum að ofan ef skýring Ferils eigi að geta staðist. Matsmaðurinn telur að önnur hugsanleg orsök geti verið fyrir því að glerið hafi brotnað, þ.e. innskot í glerinu af nikkelsúlfíð, en í hertu gleri sem ekki sé hitaprófað geti slík innskot valdið þenslu og sprengt glerið í sundur. Matsmaður fullyrðir að þetta sé sjaldgæft en raunhæfur möguleiki, en getur ekki afsannað að skýring stefnda um álag frá barnahliði sé rétt þar sem sönnunargögnum hafi verið spillt.
Samkvæmt þessu er ekki upplýst í málinu, svo óyggjandi sé hvað olli því að glerskífan brotnaði í umrætt sinn. Það breytir því ekki að nægilega er upplýst í málinu að útfærslan á þeirri lausn sem stefndi hannaði og seldi stefnanda var ekki forsvaranleg að því leyti að hún uppfyllir ekki kröfur um öryggisstaðal til að mæta því álagi sem mælt er fyrir um. Fram er komið að glerhandrið þolir uppgefið grunnálag samkvæmt staðli Eurocode FS ENV 1991-2-1:1995 (50kg/m) en talsvert vantar upp á ef öryggisstuðlum er bætt við. Um þetta segir í matsgerð Ríkharðs Kristjánssonar verkfræðings: „Ljóst er að í reglugerðinni sjálfri er ekki að finna bein ákvæði fyrir handrið af þessu tagi, hvorki um gerð þeirra né álag. Enginn ákvæði eru í reglugerðinni sjálfri um efnisval. Á hinn bóginn er tilvísun í álagsstaðla og í þeim eru ákvæði um álag á handrið. Aftur er um óheppilegt misræmi að ræða í reglugerðinni. Annars vegar er ákvæði um að samþykktir Evrópustaðlar hafi gildi hérlendis en síðan er í reglugerðinni beinlínis tilgreindur danskur álagsstaðall DS 410 sem tilgreinir álagið 0,5 kN/m á handriðið fyrir hús af þessu tagi. Burðarþol handriðsins, þ.e. glerhlutans er ekki nægjanlegt og verða reikningslegar spennur undir hönnunarálagi, þ.e. tilgreindu álagi skv. stöðlum margfaldað með álagsstuðlum of háar. Handriðið þolir reikningalega ekki línuálagið 0,5 kN/m á handlistann með viðeigandi öryggisstuðlum. Að auki á að reikna jafndreift álag á handriðið.“
Fyrir liggur að stefndi lét ekki gera úttekt á burðarþoli glersins áður en hann seldi stefnanda þá lausn sem um ræðir. Er það að mati dómsins óforsvaranlegt við þær aðstæður sem voru í fasteign stefnanda og stefndi kynnti sér áður en hann hófst handa við hönnun og gerð stigans og handriða á hann og stigaop. Breytir engu fyrir þessa niðurstöðu þótt stefnandi kunni að hafa haft skoðun á því hvaða vöru hann vildi kaupa af stefnda og verið að einhverju leyti ráðandi um útlit stigans og handriðs á honum og á stigaopi á annarri hæð. Það leysir stefnda ekki undan þeirri ábyrgð að framleiða og selja gallalausa vöru.
Í framburði Óðins Gunnsteins Gunnarssonar fyrir dómi kom fram að eftir atvikið í Aðalþingi léti stefndi gera burðarþolsútreikninga áður en stefndi framkvæmdi einstök verk. Að mati dómsins bar stefnda, sem gefur sig út fyrir að vera sérfræðingur í stigum og handriðum samkvæmt upplýsingum á heimasíðu stefna og samkvæmt framburði Óðins fyrir dómi, að láta kanna burðarþol og framkvæma viðhlítandi úttekt á þeirri vöru sem stefndi býr til og selur til að tryggja að hún standist gildandi kröfur. Breytir engu í þessum efnum þótt Óðinn hafi neitað því fyrir dómi að vera sérfræðingur í gleri. Rennir þetta enn frekar stoðum undir þá nauðsyn að stefndi prófaði eða léti prófa þær lausnir sem hann framleiðir og selur frá verksmiðju sinni.
Í forsendum fyrir niðurstöðu dómkvadds matsmanns vegna matsliðar fjögur segir að um tvo þætti sé að ræða: Annars vegar það að handriðið hafi ekki tilskilinn styrk í samræmi við gildandi staðla sem vitnað er til í byggingarreglugerð og því þurfi að fjölga festingum. Ekki sé hægt að bora í hert gler fyrir nýjum festingum og þurfi því að skera nýtt gler, eigi að uppfylla gildandi staðla. Hitt sé val á glergerð og þar lýsir matsmaður þeirri skoðun sinni að eingöngu eigi að nota samlímt öryggisgler við viðkomandi aðstæður, en viðurkennir einnig að lagafyrirmæli skorti til að gera kröfu um slíkt gler. Verður það ekki gert að mati dómsins án beinna lagafyrirmæla.
Að mati dómsins hefur verið nægilega sýnt fram á að handrið það sem stefndi hannaði og setti upp hjá stefnanda hafði ekki tilskilinn styrk í samræmi við gildandi staðla sem vitnað er til í byggingarreglugerð og að punktfestingar á hverri glerskífu hafi verið of fáar og því hafi ekki verið uppfylltar kröfur um öryggi samkvæmt greindum stöðlum og byggingarreglugerð nr. 441/1978. Samkvæmt þessu þykir stefndi hafa sýnt af sér saknæma háttsemi með vinnubrögðum sínum og ber samkvæmt því ábyrgð á tjóni stefnanda. Þykir stefnandi eiga rétt á skaðabótum vegna handriða sem stefndi hannaði, framleiddi og setti upp í Aðalþingi 3 en ágalla þeirra verður að telja vanefnd af hálfu stefnda. Leggja ber til grundvallar kostnaðarmat dómkvadds matsmanns, að fráteknum liðum er varða eldhúsborð og stóla, en ekki þykir sýnt fram á með óyggjandi hætti að skemmdir á þeim megi rekja til brotins glers úr handriði frá stefnda. Þá verður ekki horft fram hjá því að ekki var óskað eftir mati vegna skemmda á eldhúsborði eða stólum í matsbeiðni stefnanda. Eru eftirtaldir verkliðir kostnaðarmats, sem miðar við að útlit verði í samræmi við upphaflegt útlit eftir því sem við megi koma, annars vegar fyrir stigahandrið, og hins vegar fyrir handrið við stigaopið, teknir til greina svo sem hér greinir:
|
Verkliður Fjarlægja gler úr stiga |
krónur 55.108 |
|||
|
Nýtt gler + viðbótarfestingar |
1.664.973 |
|||
|
Uppsetning á gleri með handlista |
177.000 |
|||
|
Parket uppi, efni, lím, tæki og vinna |
145.200 |
|||
|
Endurnýjun á 11 flísum |
194.980 |
|||
|
Samtals |
2.237.261 |
|||
|
Endurgr. vsk v/vinnu á matsstað |
71.141 |
|||
|
Samtals |
2.166.120 |
|||
Fram kemur hjá matsmanni að tekið sé tillit til kostnaðar við hreinsun og förgun sem er innifalinn í fjárhæðum viðkomandi verkliða. Frá heildarkostnaði er dreginn virðisaukaskattur sem fæst endurgreiddur af vinnu á matsstað, 71.141 króna.
Af hálfu stefnda er vísað til þess, sýknukröfu stefnda til stuðnings, að byggingarstjóri beri ábyrgð á því að allt sem byggt sé eða framkvæmt sé samkvæmt samþykktum, tæknilega og faglega fullnægjandi teikningum, lögum og reglugerðum. Þá er vísað til þess að lokaúttekt hafi ekki farið fram og framkvæmdir við handriðið því á ábyrgð byggingarstjóra, sbr. 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Stefnandi hafnar þessum sjónarmiðum. Svo sem rakið er að framan er það niðurstaða dómsins, sem byggð er á matsgerð Ríkharðs Kristjánssonar verkfræðings, að burðarþol glerhandriðs sem stefndi hannaði og setti upp á heimili stefnda hafi verið ófullnægjandi og á svig við gildandi staðla. Þá hafi festingar á kjálka stigans verið of fáar. Stefnda bar sem sérfræðingi skylda til að sjá til þess að burðarþol glerhandriðsins væri forsvaranlegt og að mati dómsins breytir ábyrgð byggingarstjóra samkvæmt þágildandi lögum nr. 73/1997, sbr. nú lög nr. 160/2010 um mannvirki, engu og getur ekki leyst stefnda undan þeirri skyldu hans að selja gallalausa vöru. Það gerði stefndi ekki í umrætt sinn og verður að bera hallann af því.
Stefnandi krefst vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2009 eða þeim degi þegar glerskífan brotnaði á heimili stefnanda. Samkvæmt greindu ákvæði skulu kröfur um skaðabætur bera vexti frá og með þeim degi sem hið bótaskylda atvik átti sér stað. Ekki er deilt um það að glerskífan brotnaði 1. desember 2009. Fallist er á að bætur til stefnanda skuli bera vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, eins og krafist er, frá 1. desember 2009 til 12. janúar 2011, þegar mál þetta var þingfest, en dráttarvexti frá þeim degi, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir framangreindum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðinn er 1.250.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun og útlagðs kostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Halldór Reynir Halldórsson héraðsdómslögmaður flutti málið af hálfu stefnanda, en Þórður Clausen Þórðarson hæstaréttarlögmaður fyrir stefnda.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Birni Dagbjartssyni efnaverkfræðingi og Vífli Oddssyni byggingarverkfræðingi.
Dómsorð
Stefndi, Járnsmiðja Óðins ehf., greiði stefnanda, Sveinbirni Sveinbjörnssyni, 2.166.120 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2009 til 12. janúar 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 1.250.000 krónur í málskostnað.