Hæstiréttur íslands

Mál nr. 495/2010


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Peningaþvætti
  • Upptaka
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 2. desember 2010.

Nr. 495/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari)

gegn

Davíð Garðarssyni

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

Guðlaugi Agnari Guðmundssyni og

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Pétri Jökli Jónassyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Peningaþvætti. Upptaka. Sératkvæði.

D, G og P voru ásamt Þ og Æ sakfelldir í héraði fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 1.594,43 g af kókaíni til Íslands frá Spáni ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. G var jafnframt sakfelldur fyrir peningaþvætti. P játaði aðild sína í málinu en gerði kröfu fyrir Hæstarétti um mildun refsingar sem tekin var til greina og hann dæmdur í tveggja ára fangelsi. D neitaði sök en í málinu lágu meðal annars fyrir skýrslur um efni hljóðritaðra símtala milli hans og P og var talið að sekt hans í málinu væri sönnuð. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu D og fangelsisrefsingu í fjögur ár og sex mánuði, en í henni voru meðtaldar eftirstöðvar refsingar samkvæmt fyrri dómi, sem D hafði fengið reynslulausn af. G neitaði sök, á öllum stigum málsins. Í upphafi beindist rannsókn málsins að honum einum og var sími hans hlustaður í nokkurn tíma. Þá lá fyrir að þau fíkniefni sem um ræddi í málinu höfðu verið flutt með bifreið sem G hafði haft afnot af. Í framburði Æ hjá lögreglu  bar hann því við að G hafi beðið hann um fá mann til að flytja fíkniefnin hingað til lands sem Æ hafi gert. Fyrir dómi lýsti Æ atvikum á annan veg og bar því við að hann og P hafi staðið saman að skipulagi innflutningsins. Í dómi Hæstaréttar var talið að þó fullt tilefni væri til að draga þessa frásögn í efa yrði ekki fram hjá því horft að fyrir dómi hefði enginn borið um hlut G að innflutningnum, sem Æ hafi einn lýst í lögregluskýrslu. Samkvæmt þessu væri ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að G hafi átt þátt að innflutningi fíkniefnanna og var hann sýknaður af þeim sökum. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu hans fyrir peningaþvætti var hins vegar staðfest og refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2010 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu, Davíðs Garðarssonar, Guðlaugs Agnars Guðmundssonar og Péturs Jökuls Jónassonar, um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærðu Davíðs og Guðlaugs Agnars, sem verði þyngd.

Ákærðu Davíð og Guðlaugur Agnar krefjast aðallega ómerkingar héraðsdóms, til vara sýknu en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst ákærði Guðlaugur Agnar þess einnig að „hafnað verði kröfu ákæruvaldsins um eignaupptöku.“

Ákærði Pétur Jökull krefst þess að refsing verði milduð.

Með hinum áfrýjaða dómi voru auk ákærðu þeir Þ og Æ sakfelldir í málinu og þeim gerð fangelsisrefsing, en þeir una dómi.

I

Ákærði Davíð reisir kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms meðal annars á því að í niðurstöðu dómsins um sakfellingu hans sé lagt til grundvallar að hann hafi verið í reglulegu sambandi við ákærða Guðlaug Agnar, en skýrt hafi komið fram í gögnum málsins og undir rekstri þess að þeir hafi hvorki þekkst né talað saman. Telur ákærði Davíð héraðsdóm hafa villst á sér og M, sem nefndur hafi verið í skýrslum og ákærði Guðlaugur Agnar hafi verið í reglulegu sambandi við. Fyrir Hæstarétti hefur af hálfu ákæruvaldsins verið tekið undir þessa ábendingu og vísað í framburð lögreglumanna fyrir héraðsdómi um að ákærði Davíð hafi á þeim tíma sem rannsókn málsins stóð yfir verið í sambandi við áðurnefndan Æ og ákærða Pétur Jökul en ekki ákærða Guðlaug Agnar. Rannsóknin, sem staðið hafi yfir í langan tíma, hafi ekki beinst að ákærða Davíð fyrr en þann dag sem sakborningar voru handteknir. Samkvæmt þessu er óumdeilt að ákærði Davíð hafi ekki verið í sambandi við ákærða Guðlaug Agnar meðan á rannsókn lögreglu stóð í máli þessu. Til þessa verður að líta við mat á því hvort sakir á hendur ákærða Davíð séu sannaðar, en ekki eru efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm af þessari ástæðu.

Ákærði Guðlaugur Agnar reisir kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms á því að dómurinn hefði átt að vera fjölskipaður með vísan til 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ennfremur að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar hans og Æ sé rangt, sbr. 3. mgr. 208. gr. laganna. Um þetta er þess að gæta að í fyrrnefnda lagaákvæðinu felst heimild en ekki skylda til að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli þegar svo stendur á sem þar greinir. Eins og atvikum er hér háttað verður ekki litið svo á að niðurstaða þess geti að verulegu leyti ráðist af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar og getur skipan héraðsdóms því ekki leitt til ómerkingar dómsins. Um mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar verður fjallað í niðurstöðu um sakfellingu.

II

Samkvæmt skýrslum ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 11. ágúst og 11. og 18. september 2009 höfðu henni á þrjá vegu borist upplýsingar um að til stæði að flytja til landsins allt að 40 kg af sterku kókaíni frá Suður-Ameríku. Ákærði Guðlaugur Agnar hefði með höndum skipulag og stjórn á þessu hér á landi í samstarfi við hóp manna, en hann hefði ítrekað komið við sögu við rannsókn fíkniefnabrota og stæði í tengslum við marga, sem eins væri ástatt um. Ekki væri ljóst hvernig fíkniefnin ættu að berast til landsins, en upplýsingar bentu til að þau væru jafnvel þegar á leið hingað. Í skýrslunni 11. ágúst 2009 var ákærði Guðlaugur Agnar sagður vera staddur erlendis í tengslum við væntanlegan innflutning. Lögregla teldi því nauðsynlegt að símar í notkun hans yrðu tengdir til hlustunar, en í því skyni mun hafa verið aflað dómsúrskurðar 13. sama mánaðar. Í skýrslunni frá 18. september 2009 var greint frá því að komnar væru fram upplýsingar, meðal annars með símhlustunum, um að Æ tengdist fyrirhuguðum innflutningi og væri í miklum samskiptum við ákærða Guðlaug Agnar, en líklega ætti Æ að geyma fíkniefnin eftir að þau væru komin til landsins og dreifa þeim. Í héraðsdómi er nánar rakið hvernig lögreglu voru heimilaðar frekari hleranir, myndatökur og notkun eftirfararbúnaðar fram til vors 2010. Þar á meðal fékk hún heimild í mars til að hlera síma Þ, sem talið var að myndi flytja fíkniefnin til landsins, og í apríl til að koma fyrir búnaði til hlustunar og eftirfarar í farangri Þ, sem kom til landsins í flugi frá Alicante á Spáni 10. þess mánaðar.

Í héraðsdómi er jafnframt greint frá því að lögregla hafi fylgst með komu Þ til landsins fyrrnefndan dag, farangri hans og för að [...] í Reykjavík, svo og að hún hafi hlustað á símtal hans nokkrum mínútum eftir komuna þangað við ákærða Pétur Jökul, sem þá hafi haft samband við ákærða Davíð og þeir mælt sér mót. Lögregla hafi síðan fylgst með því þegar ákærðu Pétur Jökull og Davíð fóru á bifreið þess síðarnefnda B  að heimili Þ við [...], ákærði Pétur Jökull hafi farið inn til Þ og komið þaðan út stuttu síðar með ferðatösku, sem hann hafi sett í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Þaðan hafi ákærði Davíð ekið þessari bifreið og ákærði Pétur Jökull bifreiðinni C að [...] í Reykjavík, þar sem ferðataskan hafi verið færð yfir í síðarnefndu bifreiðina, sem ákærði Davíð hafi síðan ekið að [...] og skilið þar eftir. Þaðan hafi ákærði Davíð ekið bifreiðinni B að [...], þar sem hann hafi hitt Æ. Þeir hafi síðan farið saman á bifreiðinni A að [...], þar sem þeir hafi opnað farangursgeymslu bifreiðarinnar C, hreyft við töskunni án þess að taka hana og lokað geymslunni á ný. Við svo búið hafi þeir haldið brott á bifreiðinni A, sem lögregla hafi stöðvað skammt frá mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, þar sem þeir hafi verið handteknir. Ákærði Davíð hafi þá verið með umslag á sér, sem í hafi verið 1.000.000 krónur í seðlum, og 108.000 krónur í reiðufé í veski sínu. Í framhaldi af þessu hafi Þ og ákærði Pétur Jökull verið handteknir á heimilum sínum, en í farangursgeymslu bifreiðarinnar C, sem þá hafi enn verið við [...], hafi lögregla fundið ferðatösku, sem í voru tvær minni, og í þeim falið verulegt magn af kókaíni. Ákærði Guðlaugur Agnar mun á þessum tíma hafa verið erlendis, en var handtekinn við komu til landsins 15. apríl 2010. Í kjölfar handtöku var þeim öllum gert að sæta gæsluvarðhaldi.

III

Í skýrslu, sem Æ gaf hjá lögreglu 5. maí 2010, kom meðal annars fram að ákærði Guðlaugur Agnar hafi beðið hann um að fá mann til að flytja fíkniefni hingað til lands, en ákærði Davíð hafi þá þegar verið búinn að greina Æ frá því að Þ væri reiðubúinn til slíks. Á nánar tiltekinn hátt hafi síðan Æ haft milligöngu milli þessara tveggja ákærðu til að hrinda þessu í framkvæmd. Í skýrslum hjá lögreglu 13. og 20. apríl 2010 greindi ákærði Pétur Jökull meðal annars frá því að maður, sem hafi farið með honum að heimili Þ að kvöldi 10. sama mánaðar í því skyni að sækja fíkniefni, hafi verið sá, sem hafi beðið sig um að útvega burðardýr, afhent sér peninga ásamt miða með upplýsingum og símkorti fyrir burðardýrið og tekið svo við fíkniefnunum. Þennan mann vildi ákærði Pétur Jökull ekki nafngreina. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi skýrðu Æ og ákærði Pétur Jökull á annan veg frá að þessu leyti við aðalmeðferð málsins, þar sem hvorugur kannaðist við að ákærði Davíð hefði átt slíkan hlut að máli. Án tillits til þess verður að gæta að því að fyrir liggja í málinu skýrslur um efni hljóðritaðra símtala milli ákærðu Davíðs og Péturs Jökuls 10. apríl 2010, þar sem þeir mæltu sér mót í beinu framhaldi af samtali þess síðarnefnda við Þ, svo og af símtali, sem ákærði Pétur Jökull átti síðan við annan mann, þar sem hann ræddi greinilega um ákærða Davíð sem „gaurinn sem ég er að vinna fyrir“. Hér að framan er lýst hvernig lögregla fylgdist með því þegar þessir tveir ákærðu fóru að kvöldi 10. apríl 2010 saman í bifreið að heimili Þ, ákærði Pétur Jökull kom þaðan út með ferðatösku og setti í bifreiðina, ákærði Davíð ók henni þaðan og ákærði Pétur Jökull annarri bifreið að [...], þar sem taskan var flutt milli bifreiðanna, en þaðan hélt ákærði Davíð brott á bifreiðinni, sem taskan var þá komin í. Þá bifreið skildi ákærði Davíð eftir við [...], kom síðan á [...] einn síns liðs heim til Æ, en þaðan fóru þeir saman á enn annarri bifreið að [...], þar sem þeir gættu að töskunni og héldu síðan brott án þess að taka hana. Þegar þetta er virt er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði Davíð hafi átt þann hlut að máli, sem honum er gefinn að sök í 3. lið I. kafla ákæru. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði Davíð gengist við þeim sökum, sem hann er borinn í V. kafla ákæru. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu hans.

IV

Eins og áður kom fram beindist rannsókn lögreglu upphaflega að ákærða Guðlaugi Agnari einum, en á grundvelli þess, sem greindi í skýrslu hennar 11. ágúst 2009, mun hafa fengist úrskurður héraðsdóms um heimild til að hlusta síma hans. Þegar rannsókn hafði síðan staðið yfir í rúman mánuð til viðbótar mun grunur hafa verið kominn upp um að Æ ætti hlut að málinu, en í áðurnefndri skýrslu lögreglu 18. september 2009 var þess getið að um þetta væru komnar fram upplýsingar, meðal annars með símhlustunum. Fyrir Hæstarétti liggja ekki gögn, sem styðja þetta frekar.

Tveir lögreglumenn, sem unnu að rannsókn málsins, báru fyrir héraðsdómi að maður að nafni E hafi verið grunaður um aðild að því, meðal annars með því að hafa afhent Þ fíkniefnin, sem um ræðir, í Alicante á Spáni. Í málinu liggur fyrir skýrsla lögreglu 6. apríl 2010 um fjögur símtöl, sem Þ hafi átt við ónafngreindan íslenskan mann meðan sá fyrrnefndi var í umrætt sinn staddur á Spáni. Kemur þar fram að sex lögreglumenn, sem hafi hlýtt á þessi símtöl, hafi talið sig þekkja rödd E sem viðmælanda Þ og var þess getið að lögreglumennirnir hafi „allir unnið að eða komið að rannsóknum mála þar sem E hefur átt hlut að máli og við vinnu þeirra mála hlustað á fjölda samtala þar sem E ræðir í síma við hina ýmsu aðila.“ Endurrit af hljóðupptökum af þessum símtölum eru meðal gagna málsins, en í þeim kemur fram að Þ mælti sér mót við viðmælanda sinn. Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst Þ hafa fengið fé hjá ákærða Pétri Jökli til að afhenda manni í Alicante, sem hann hafi gert og fengið tösku frá þeim manni í staðinn, en áður hafi þeir ræðst við í síma og mælt sér mót. Þ vildi ekki tjá sig frekar um þennan mann, hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að á árinu 2009 voru samtals 3.299.900 krónur færðar af bankareikningum ákærða Guðlaugs Agnars til E, þar af tæpur helmingur á síðustu dögum ársins, en fyrir héraðsdómi kvaðst ákærði þekkja E vel og hafa gert það lengi, auk þess að hafa verið í miklum samskiptum við Æ í mars og apríl 2010. Um þetta er þess að gæta að ekkert liggur frekar fyrir um hugsanlega aðild E að innflutningi fíkniefnanna, sem um ræðir í málinu, og getur hún því ekki talist sönnuð. Samskipti ákærða Guðlaugs Agnars við hann og tengsl þeirra á milli geta því ekki staðið til þess að sanna að ákærði sé sekur um þá háttsemi, sem 1. liður I. kafla ákæru tekur til.

Við rannsókn lögreglu kom einnig fram að ákærði Guðlaugur Agnar hafi notað bifreiðina C frá 1. til 8. apríl 2010. Fíkniefnin, sem um ræðir í málinu, voru sem fyrr segir flutt í þeirri bifreið 10. sama mánaðar og fundust að endingu í henni. Til þess verður þó að líta að óumdeilt er að ákærði hafi á þeim tíma verið erlendis og virðist Æ þá hafa haft bifreiðina til afnota. Við húsleit í geymslu á heimili föður ákærða Guðlaugs Agnars fannst sams konar ferðataska og notuð var við innflutning fíkniefnanna. Innviðir þeirrar tösku höfðu verið brotnir upp og fundust þar leifar af kókaíni, en eins hafði verið búið um fíkniefnin í þessu máli. Þótt fyrir liggi að ákærði Guðlaugur Agnar hafi haft aðgang að þessari geymslu verður ekki ályktað svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að það varpi á hann sök í máli þessu.

Svo sem fyrr segir kom meðal annars fram í skýrslu sem Æ gaf hjá lögreglu 5. maí 2010 að ákærði Guðlaugur Agnar hafi beðið sig um að fá mann til að flytja fíkniefni hingað til lands og hafi sá fyrrnefndi útvegað Þ til þess fyrir milligöngu ákærða Davíðs, en viðstaddur þessa skýrslugjöf var verjandi Æ. Þá greindi ákærði Pétur Jökull frá því fyrir lögreglu 13. og 20. apríl 2010 að ónafngreindur maður, sem slegið er föstu hér að framan að hafi verið ákærði Davíð, hafi beðið sig um að útvega burðardýr, afhent sér peninga og fleira fyrir burðardýrið og tekið svo við fíkniefnunum. Eins og áður segir lýstu Æ og ákærði Pétur Jökull atvikum á annan veg við aðalmeðferð málsins, sá fyrrnefndi meðal annars með því kveða ákærða Guðlaug Agnar ekki hafa átt hlut að máli. Aðspurður um skýringar á frásögn sinni um þetta hjá lögreglu sagði Æ: „Já ég hérna, ég er 2 vikur í einangrun og hérna, síðan er ég í lausagæslu og þá er kominn framburður á mig í öðru sambærilegu máli sem er hérna bara lygi og hérna lögreglumenn koma og tala við mig án lögmanns og eru að pressa mikið á mig en hérna, ég á, ég hef ekkert meira um málið að segja. Síðan er ég settur aftur í einangrun og hérna, sem ég skil nú ekki alveg af hverju og hérna, það er bara pressað rosa á mig og hérna. Þú veist ég var bara ein taugahrúga þarna og hérna ég bara gerði mér ekki grein fyrir hvað ég var að segja í rauninni.“ Í skýrslum sínum við aðalmeðferð málsins kváðust Æ og ákærði Pétur Jökull hafa tveir saman lagt á ráðin um innflutning fíkniefnanna. Gagnstætt því höfðu þeir í skýrslum, sem þeir gáfu lögreglu meðan þeir sættu einangrun í gæsluvarðhaldsvist, sagst ekki þekkjast og mun ekkert hafa komið fram við undanfarandi rannsóknaraðgerðir lögreglu um tengsl þeirra á milli. Þótt fullt tilefni sé til að draga í efa frásögn Æ og ákærða Péturs Jökuls um að þeir hafi staðið saman að skipulagi innflutningsins verður ekki fram hjá því horft að fyrir dómi hefur enginn borið um hlut ákærða Guðlaugs Agnars að þessum innflutningi, sem Æ var einn um að lýsa í lögregluskýrslu.

Þegar allt framangreint er virt er ekki unnt að telja hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði Guðlaugur Agnar hafi átt þann hlut að máli, sem lýst er í 1. lið I. kafla ákæru. Hann verður því sýknaður af þeim sökum.

V

 Í IV. kafla ákæru er ákærða Guðlaugi Agnari gefið að sök peningaþvætti eins og þar er lýst. Gögn þau sem lágu til grundvallar greiningu á fjármálum ákærða, sem lýst er í héraðsdómi, hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Ákvæði 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997, eins og það hljóðandi fyrir breytingu með 7. gr. laga nr. 149/2009, var skýrt svo að þótt áskilið væri að um ávinning væri að ræða af broti samkvæmt almennum hegningarlögum yrði með tilliti til eðlis og tilgangs ákvæðisins ekki gerð sú krafa að nákvæmlega lægi fyrir hvert brotið væri, heldur yrði að meta í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt væri nægilega fram á að ávinningur væri ekki af lögmætum toga, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 8. nóvember 2001 í máli nr. 200/2001. Í athugasemdum með frumvarpi, sem leiddi til breytinga á 264. gr. almennra hegningarlaga með lögum nr. 149/2009, sagði að þær raski í engu þeirri skýringu á 1. mgr. 264. gr. sem fram kæmi í nefndum dómi Hæstaréttar, en með rýmkun á gildissviði ákvæðisins væri á því byggt að sömu sjónarmið skyldu lögð til grundvallar þegar metið væri hvort ávinningur stafaði af broti samkvæmt öðrum refsilögum en almennum hegningarlögum. Ákærði Guðlaugur Agnar hefur engar skýringar gefið á þeim verulega mun sem leiddur hefur verið í ljós á ráðstöfunartekjum hans og skráðum tekjum árið 2009 og fram í mars 2010. Að þessu gættu og með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um sakfellingu ákærða Guðlaugs Agnars í þessum kafla ákæru staðfest og er háttsemin þar rétt færð til refsiákvæða.

VI

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða Davíðs, en refsing ákærða Péturs Jökuls ákveðin fangelsi í tvö ár. Með dómi þessum er ákærði Guðlaugur Agnar sýknaður af sökum samkvæmt 1. lið I. kafla ákæru, en á hinn bóginn sakfelldur samkvæmt IV. kafla hennar. Refsing hans fyrir þá háttsemi, sem þar greinir, er hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.

Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um upptöku á samtals 1.629,12 g af kókaíni, 6,23 g af kannabisefni og 3 millilítrum af stungulyfi sem hefur að geyma anabólíska stera. Samkvæmt 1. mgr. og 3. mgr. 69. gr. b. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009, má gera upptæk verðmæti í eigu einstaklings, sem gerst hefur sekur um brot sem fallið er til að hafa í för með sér verulegan ávinning og varðar að minnsta kosti sex ára fangelsi, enda sýni hann ekki fram á að verðmætanna hafi verið aflað á lögmætan hátt. Með vísan til þeirra atriða, sem greinir í forsendum hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða Guðlaugs Agnars fyrir brot samkvæmt IV. kafla ákæru, telst þessum skilyrðum fullnægt fyrir upptöku á 4.675.370 krónum og skartgripum að verðmæti 2.000.000 krónur, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, og verður héraðsdómur því staðfestur að þessu leyti.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða óröskuð að því er varðar aðra en ákærða Guðlaug Agnar, en honum verður gert að greiða helming þóknunar verjenda sinna með þeim fjárhæðum, sem þar greinir. Af framlögðu yfirliti verður ekki annað ráðið en að sakarkostnaður, sem lagður var með héraðsdómi óskipt á ákærðu, tengist sakargiftum í I. kafla ákæru. Með því að ákærði Guðlaugur Agnar er sýkn af þeim sakargiftum verður honum ekki gert að greiða hlut í þeim kostnaði.

Um áfrýjunarkostnað fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir, en málsvarnarlaun verjenda ákærðu eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða Davíðs Garðarssonar, en þó þannig að til frádráttar henni kemur gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 11. apríl 2010.

Ákærði Guðlaugur Agnar Guðmundsson sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 16. apríl 2010.

Ákærði Pétur Jökull Jónasson sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 11. apríl 2010.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku eru staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð að öðru leyti en varðandi ákærða Guðlaug Agnar, sem greiði helming málsvarnarlauna verjenda sinna eins og þau voru ákveðin með hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði Davíð greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.

Ákærði Guðlaugur Agnar greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, sem alls eru ákveðin 502.000 krónur, en að öðru leyti greiðist þau úr ríkissjóði.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Péturs Jökuls fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði.

Ákærði Davíð greiði annan áfrýjunarkostnað málsins, 102.548 krónur, þar af 51.274 krónur óskipt með ákærða Guðlaugi Agnari.

Sératkvæði

Ingibjargar Benediktsdóttur

og Garðars Gíslasonar

Við erum sammála meiri hluta dómara fram að kafla IV, sem fjallar um sakir á hendur ákærða Guðlaugi Agnari Guðmundssyni í 1. lið I. kafla ákæru. Við teljum að IV. kafli dómsins ætti að vera þannig:

IV

Tveir lögreglumenn, sem unnu að rannsókn málsins og hlustuðu á símtöl þeirra sem grunaðir voru, báru fyrir héraðsdómi að maður að nafni E hafi verið grunaður um aðild að því, meðal annars með því að hafa afhent Þ fíkniefnin, sem um ræðir, í Alicante á Spáni. Í málinu liggur fyrir skýrsla lögreglu 6. apríl 2010 um fjögur símtöl, sem Þ hafi átt við ónafngreindan íslenskan mann meðan sá fyrrnefndi var í umrætt sinn staddur á Spáni, og kemur þar fram að sex lögreglumenn, sem hafi hlýtt á þessi símtöl, hafi talið sig þekkja rödd E sem viðmælanda Þ. Endurrit af hljóðupptökum af þessum símtölum eru meðal gagna málsins, en í þeim kemur fram að Þ mælti sér mót við þennan mann. Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst Þ hafa fengið fé hjá ákærða Pétri Jökli til að afhenda manni í Alicante, sem hann hafi gert og fengið tösku frá þeim manni í staðinn, en áður hafi þeir ræðst við í síma og mælt sér mót. Þ  vildi ekki tjá sig frekar um þennan mann, hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi.

Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að á árinu 2009 voru samtals 3.299.900 krónur færðar af bankareikningum ákærða Guðlaugs Agnars til E, þar af tæpur helmingur á síðustu dögum ársins, en fyrir héraðsdómi kvaðst ákærði þekkja E vel og hafa gert það lengi, auk þess að hafa verið í miklum samskiptum við Æ í mars og apríl 2010. Við rannsóknina kom einnig fram að ákærði Guðlaugur Agnar og Æ hafi notað bifreiðina C í félagi frá 1. til 8. apríl 2010, en sem fyrr segir voru fíkniefnin, sem um ræðir í málinu, flutt í þeirri bifreið og fundust í henni. Við húsleit í geymslu á heimili föður ákærða Guðlaugs Agnars fannst sams konar ferðataska og notuð var við innflutning fíkniefnanna. Innviðir þeirrar tösku höfðu verið brotnir upp og fundust þar leifar af kókaíni, en eins hafði verið búið um fíkniefnin í þessu máli. Fyrir liggur að ákærði Guðlaugur Agnar hafði aðgang að þessari geymslu.

Svo sem fyrr segir kom meðal annars fram í skýrslu sem Æ gaf hjá lögreglu 5. maí 2010 að ákærði Guðlaugur Agnar hafi beðið sig um að fá mann til að flytja fíkniefni hingað til lands og hafi sá fyrrnefndi útvegað Þ til þess fyrir milligöngu ákærða Davíðs, en viðstaddur þessa skýrslugjöf var verjandi Æ. Þá greindi ákærði Pétur Jökull frá því fyrir lögreglu 13. og 20. apríl 2010 að ónafngreindur maður, sem slegið er föstu hér að framan að hafi verið ákærði Davíð, hafi beðið sig um að útvega burðardýr, afhent sér peninga og fleira fyrir burðardýrið og tekið svo við fíkniefnunum. Eins og áður segir lýstu Æ og ákærði Pétur Jökull atvikum á annan veg við aðalmeðferð málsins, sá fyrrnefndi meðal annars með því að kveða ákærða Guðlaug Agnar ekki hafa átt hlut að máli. Aðspurður um skýringar á frásögn sinni um þetta hjá lögreglu sagði Æ: „Já ég hérna, ég er 2 vikur í einangrun og hérna, síðan er ég í lausagæslu og þá er kominn framburður á mig í öðru sambærilegu máli sem er hérna bara lygi og hérna lögreglumenn koma og tala við mig án lögmanns og eru að pressa mikið á mig en hérna, ég á, ég hef ekkert meira um málið að segja. Síðan er ég settur aftur í einangrun og hérna, sem ég skil nú ekki alveg af hverju og hérna, það er bara pressað rosa á mig og hérna. Þú veist ég var bara ein taugahrúga þarna og hérna ég bara gerði mér ekki grein fyrir hvað ég var að segja í rauninni.“ Í skýrslum sínum við aðalmeðferð málsins kváðust Æ og ákærði Pétur Jökull hafa tveir saman lagt á ráðin um innflutning fíkniefnanna. Gagnstætt því höfðu þeir í skýrslum, sem þeir gáfu hjá lögreglu meðan þeir sættu einangrun í gæsluvarðhaldsvist, sagst ekki þekkjast og mun ekkert hafa komið fram við undanfarandi rannsóknaraðgerðir lögreglu um tengsl þeirra á milli. Af þessum sökum verður ekki aðeins dregin í efa frásögn Æ og ákærða Péturs Jökuls um að þeir hafi staðið saman að skipulagi innflutningsins, heldur jafnframt útilokað að Æ hafi einn átt þar í hlut án þess að annar hefði milligöngu milli hans og þess, sem lagði fíkniefnin til erlendis.

Þegar allt framangreint er virt verður að telja hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði Guðlaugur Agnar hafi átt þann hlut að máli, sem lýst er í 1. lið I. kafla ákæru. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu hans fyrir þá háttsemi verður því staðfest og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða.

Við erum sammála meiri hluta dómara um kafla V.

Í kafla VI teljum við að staðfesta beri refsingu ákærða Guðlaugs, sem ákveðin var í héraðsdómi, með vísan til forsendna hans, en erum að öðru leyti sammála meiri hluta dómara um ákvörðun refsingar ákærðu, upptöku og sakarkostnað nema um sakarkostnað að því er varðar ákærða Guðlaug Agnar, sem hann beri eins og í héraðsdómi greinir og að fullu fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 15. júlí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 2. júlí 2010 á hendur Davíð Garðarssyni, kt. 190869-5399, [...], Reykjavík, Guðlaugi Agnari Guðmundssyni, kt. 231086-3159, Holtsgötu 12, Hafnarfirði, Þ, kt. [...], [...], Reykjavík, Pétri Jökli Jónassyni, kt. 020279-5089, Hverfisgötu 59, Reykjavík og Æ, kt. [...], [...], Reykjavík.

Fyrir hegningar- og fíkniefnalagabrot framin í Reykjavík á árinu 2010 nema annað sé tekið fram:

I.

Gegn ákærðu öllum fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa í mars og apríl, staðið saman að innflutningi á samtals 1.594,43 g af kókaíni til Íslands frá Spáni ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Fíkniefnin voru falin í þremur ferðatöskum sem ákærði Þ flutti til landsins með farþegaflugi. Allt eins og nánar er lýst í ákæruliðum I/1– I/5:  

 1. Ákærði Guðlaugur Agnar lagði á ráðin um og fjármagnaði að hluta innflutning fíkniefnanna ásamt meðákærða Æ og öðrum vitorðsmanni. Ákærði setti sig í samband við meðákærða Æ í því skyni að finna einstakling til að flytja fíkniefni til landsins, afhenti honum 5.000 evrur til að greiða fyrir fíkniefnin og lagði til bifreiðina [...] sem fíkniefnin voru síðar sett í, sbr. ákæruliði I/2-I/4. Þá fékk ákærði meðákærða Æ til að setja sig í samband við vitorðsmanninn, sem staddur var á Spáni, og gefa honum upp símanúmer meðákærða Þ.

 2. Ákærði Æ lagði á ráðin um og fjármagnaði að hluta innflutning fíkniefnanna ásamt meðákærða Guðlaugi Agnari. Ákærði setti sig í samband við meðákærða Davíð og fékk hann til að finna mann til að flytja fíkniefni til landsins. Ákærði afhenti meðákærða Davíð 269.000 krónur til greiðslu á flugmiða og uppihaldi meðákærða Þ og 17.000 evrur til að greiða fyrir fíkniefnin. Ákærði hafði samband við vitorðsmanninn á Spáni í gegnum tölvu og gaf honum upp símanúmer meðákærða Þ. Að kvöldi laugardagsins 10. apríl ók ákærði, ásamt meðákærða Davíð, á bifreiðinni A að [...] og móttók þar fíkniefnin sem falin voru í ferðatöskum í farangursrými bifreiðarinnar C, ákærði fjarlægði fíkniefnin ekki úr bifreiðinni en ók frá [...] á bifreiðinni A og afhenti þar meðákærða Davíð 1.000.000 króna sem voru greiðsla fyrir meðákærða Þen lögregla stöðvaði för þeirra stuttu síðar.

   3. Ákærði Davíð tók að sér að beiðni meðákærða Æ að finna vitorðsmann til að flytja fíkniefni til landsins og í því skyni setti hann sig í samband við meðákærða Pétur Jökul. Ákærði tók við 269.000 krónum og 17.000 evrum úr hendi meðákærða Æ, sbr. ákærulið I/2 og afhenti það meðákærða Pétri Jökli. Að kvöldi laugardagsins 10. apríl ók ákærði, ásamt meðákærða Pétri Jökli, bifreiðinni B að heimili meðákærða Þ að [...]. Meðákærði Pétur Jökull sótti fíkniefnin, sbr. ákærulið I/4 og setti þau í bifreiðina. Ákærði ók bifreiðinni B og meðákærði Pétur Jökull bifreiðinni C að [...] þar sem þeir skiptu um bifreið og fluttu fíkniefnin yfir í farangursrými bifreiðarinnar C. Ákærði ók þeirri bifreið að [...] og skildi hana þar eftir. Því næst sótti hann meðákærða Æ að [...] og saman óku þeir aftur að [...] sbr. ákærulið I/2 þar sem ákærði afhenti meðákærða Æ fíkniefnin. Loks tók ákærði við 1.000.000 úr hendi ákærða Æ sbr. ákærulið I/2.

4. Ákærði Pétur Jökull tók að sér að beiðni meðákærða Davíðs að finna vitorðsmann til að flytja fíkniefni til landsins og í mars setti hann sig í samband við meðákærða Þ í því skyni. Miðvikudaginn 31. mars afhenti ákærði meðákærða Þ104.000 krónur til kaupa á flugmiða til Alicante á Spáni og ók honum að skrifstofu Iceland Express að Efstalandi 26 í því skyni. Föstudaginn 2. apríl, að [...], afhenti ákærði meðákærða Þ 165.000 krónur til uppihalds á Spáni og 17.000 evrur til að greiða fyrir fíkniefnin en fjármunina hafið ákærði fengið frá meðákærða Davíð. Að kvöldi laugardagsins 10. apríl móttók ákærði fíkniefnin úr hendi meðákærða Þ að [...] og setti þau í bifreiðina B, hann ók því næst bifreiðinni C að [...] en þar skipti hann um bifreið við meðákærða Davíð og voru fíkniefnin flutt í bifreiðina C sbr. ákærulið I/3.

 5. Ákærði Þ tók að sér að beiðni meðákærða Péturs Jökuls miðvikudaginn 31. mars að flytja fíkniefnin til landsins og móttók þann dag 104.000 krónur frá meðákærða Pétri Jökli sem ákærði notaði til að greiða fargjaldið til Spánar. Föstudaginn 2. apríl að [...] móttók ákærði frá meðákærða Pétri Jökli 165.000 krónur til að nota til uppihalds á Spáni og 17.000 evrur til að greiða fyrir fíkniefnin. Ákærði fór með farþegaflugi til Alicante á Spáni laugardaginn 3. apríl. Miðvikudaginn 7. apríl móttók ákærði úr hendi vitorðsmannsins þrjár ferðatöskur sem fíkniefnin voru falin í og afhenti ákærði vitorðsmanninum 17.000 evrur. Ákærði hafði fíkniefnin í vörslum sínum á Alicante á Spáni þar til hann flutti ferðatöskurnar til Íslands með flugi AEU-182 laugardaginn 10. apríl. Eftir komuna til landsins fór ákærði með ferðatöskurnar að [...] þar sem hann afhenti meðákærða Pétri Jökli þær að kvöldi sama dags sbr. ákærulið I/4.  

Er þetta talið varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.

II.

Gegn ákærða Æ fyrir peningaþvætti, með því að hafa um nokkurt skeið fram til laugardagsins 10. apríl, á höfuðborgarsvæðinu aflað sér ávinnings að fjárhæð 2.880.500 krónum með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna.

Er þetta talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 149/2009, sbr. áður 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 141. gr. laga nr. 82/1998, 2. gr. laga nr. 32/2001 og 4. gr. laga nr. 10/1997.

III.

Gegn ákærða Æ fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 15. apríl, í geymslurými að [...] í Hafnarfirði, haft í vörslum sínum 34,69 g af kókaíni, ætluðu til sölu og dreifingar, sem lögreglan fann við leit.

Er þetta talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.

IV.

Gegn ákærða Guðlaugi Agnari fyrir peningaþvætti, með því að hafa um nokkurt skeið fram til fimmtudagsins 15. apríl, á höfuðborgarsvæðinu aflað sér ávinnings að fjárhæð 4.675.370 króna og skartgripa að verðmæti 2.000.000 króna með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna.

Er þetta talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 149/2009, sbr. áður 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 141. gr. laga nr. 82/1998, 2. gr. laga nr. 32/2001 og 4. gr. laga nr. 10/1997.

V.

Gegn ákærða Davíð fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 11. apríl, að [...], haft í vörslum sínum 6,23 g af hassi sem lögregla fann við leit.

Er þetta talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

VI.

Er þess krafist:

1. Að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

2. Að ákærðu verði dæmdir til greiðslu alls sakarkostnaðar.

3. Að framangreind 1.629,12 g af kókaíni og 6,23 g af kannabisefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni. Þá er þess krafist að gerðir verði upptækir 3 millilítrar af stungulyfi er innihélt anabólíska stera sem hald var lagt í húsleit hjá ákærða Davíð hinn 11. apríl 2010, samkvæmt 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963 og 3. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.

 4. Að samtals 8.555.870 krónur  og skartgripir að verðmæti 2.000.000 krónur verði gert upptækt samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009, og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 60/1980, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Ákærði Davíð Garðarsson neitar sök samkvæmt I. kafla ákæru en játar sök samkvæmt V. kafla ákæru. Ákærði Guðlaugur Agnar Guðmundsson neitar sök samkvæmt I. og IV. kafla ákæru. Ákærðu Þ og Pétur Jökull játa sök samkvæmt I. kafla ákæru. Ákærði Æ játar sök samkvæmt I. og III. kafla ákæru en neitar sök samkvæmt II. kafla ákæru.   

Verjandi ákærða Davíðs Garðarssonar krefst þess að ákærði verði sýknaður af sakargiftum samkvæmt I. kafla ákæru og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði felldur á ríkissjóð. Að öðru leyti krefst hann vægustu refsingar. Verjandi ákærða Guðlaugs Agnars Guðmundssonar krefst sýknu og þess að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verðu lagður á ríkissjóð. Verjendur ákærðu Þ, Péturs Jökuls og Æ krefjast þess að ákærðu verði dæmdir í vægustu refsingu er lög leyfa. Þá krefjast þeir greiðslu málsvarnarlauna. Verjandi ákærða Æ krefst að auki sýknu af sakarefnum samkvæmt II. kafla ákæru.

I.-II. og IV. kafli ákæru.

Samkvæmt gögnum málsins hafði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, frá því í byrjun september 2009, til rannsóknar hóp einstaklinga þar sem grunur lék á um að viðkomandi einstaklingar væru viðriðnir innflutning á ólöglegum fíkniefnum til landsins og að þeir fengju svokölluð ,,burðardýr“ til að flytja efnin til landsins. Með úrskurðum dómstóla 13. ágúst 2009 var lögreglu fyrst heimilað að hlusta og hljóðrita símtöl í og úr símanúmeri sem ákærði, Guðlaugur Agnar, var skráður fyrir. Þá var lögreglu heimilað að fá upplýsingar um símtöl við síma ákærða. Með úrskurðum 18. september 2009 voru lögreglu veittar sömu heimildir gagnvart ákærða, Æ. Fleiri aðilar komu við sögu og aflaði lögregla sambærilegra heimilda gagnvart þeim. Heimildir þessar voru framlengdar með síðari úrskurðum héraðsdóms. Þá var lögreglu heimilað með úrskurði 21. október 2009 að koma fyrir eftirfararbúnaði á eða í bifreið ákærða, Æ, og fylgjast þannig með staðsetningu hennar. Heimild þessi var framlengd nokkrum sinnum. Samskonar heimild var veitt gagnvart ákærða, Guðlaugi Agnari, í fyrsta sinn 18. nóvember 2009. Sú heimild var einnig framlengd. Þá var lögreglu heimilað að hlera íbúð er ákærði, Guðlaugur Agnar, hafði til umráða í [...]. Einnig var lögreglu heimilað í þágu rannsóknar málsins að taka myndir og setja upp hreyfimyndavélar við tiltekin heimili án þess að þeir sem myndir væru teknar af myndu vita af því. Umræddar myndatökur tengdust ákærðu, Guðlaugi Agnari og Æ. Í rökstuðningi fyrir rannsóknaraðgerðum er jafnan vísað til þess að ákærðu, Guðlaugur Agnar og Æ, væru undir rökstuddum grun um skipulagningu á innflutningi fíkniefna og að ákærði, Guðlaugur, hefði með höndum skipulagninguna. Væri ákærði, Æ, í miklum samskiptum við ákærða, Guðlaug, en grunur lék á um að ákærði, Guðlaugur, væri í samstarfi við hóp manna sem með einum eða öðrum hætti kæmu að innflutningnum. Var um nokkurn fjölda rannsóknarúrskurða að ræða á tímabilinu frá í ágúst 2009 til apríl 2010. Með úrskurði héraðsdóms 24. mars 2009 var lögreglu síðan heimilað að fá upplýsingar um símtöl í og úr síma ákærða, Þ, en talið var að ákærði myndi hugsanlega á vegum meðákærða, Guðlaugs Agnars, flytja fíkniefni til landsins. Með úrskurði héraðsdóms 9. apríl 2009 var lögreglu heimilað að koma fyrir hljóðupptökubúnaði og eftirfararbúnaði í farangri ákærða, Þ, sem hann hefði meðferðis í flugi frá Alicante á Spáni til Íslands laugardaginn 10. apríl 2010. Einnig var lögreglu heimilað að koma samskonar búnaði fyrir í bifreiðum sem ákærði hefði til umráða eða væri farþegi í. Þá var lögreglu heimilað eftir afhendingu farangurs að hlusta á og taka upp samtöl og fylgjast með staðsetningu farangursins án þess að hlutaðeigandi vissu af því.

Samkvæmt gögnum málsins kom ákærði, Þ, til landsins frá Alicante á Spáni laugardaginn 10. apríl 2010. Hafði hann í fórum sínum þrjár ferðatöskur. Fylgdist lögregla með komu hans og hefur ritað lögregluskýrslu um eftirlitið 10. apríl 2010. Er skjalið merkt 1.1, bls. 5 í rannsóknargögnum málsins. Eftir komuna til landsins fór ákærði að heimili sínu að [...] í Reykjavík og var kominn þangað kl. 19.07. Kl. 19.13 hefur ákærði samband við meðákærða, Pétur Jökul, og gerir honum grein fyrir því að hann sé kominn til landsins. Kl. 19.19 hafði ákærði, Pétur Jökull, samband við meðákærða, Davíð, og mæla þeir sér mót. Að kvöldi laugardagsins 10. apríl 2010, kl. 22.16 fóru ákærðu, Pétur Jökull og Davíð, á bifreið með skráningarnúmeri B að heimili meðákærða, Þ, að [...]. Ákærði, Pétur Jökull, fór úr bifreiðinni og inn á heimili meðákærða, Þ. Kom hann þaðan út kl. 22.21 með þrjár ferðatöskur sem hann setti í farangursrými bifreiðarinnar  B. Ákærði, Davíð, ók þeirri bifreið frá [...] en ákærði, Pétur Jökull, bifreið með skráningarnúmerið C. Óku þeir sitt hvorri bifreiðinni að [...] í Reykjavík og voru þar kl. 22.26. Við [...] voru ferðatöskurnar fluttar yfir í bifreiðina með skráningarnúmerið C. Ákærði, Davíð, ók því næst bifreiðinni með skráningarnúmerið C að [...] í Reykjavík þar sem hann skildi bifreiðina eftir kl. 22.37. Þaðan hélt ákærði, Davíð, á eigin bifreið með skráningarnúmerið B að [...] í Reykjavík þar sem ákærði náði í meðákærða, Æ. Þangað var ákærði, Davíð, kominn kl. 22.45. Saman óku þeir að [...]  á bifreið með skráningarnúmerið A. Samkvæmt skýrslu lögreglu fóru ákærðu, Davíð og Æ, að bifreiðinni C og opnuðu farangurshólf bifreiðarinnar kl. 22.55. Áttu þeir við töskur í farangurshólfinu en fjarlægðu þær ekki. Lokuðu þeir því næst hólfinu. Frá [...] óku ákærði, Æ og Davíð, kl. 22.57 á bifreið með skráningarnúmerið A og var ákærði, Æ, ökumaður bifreiðarinnar. Stöðvaði lögregla för ákærðu á Kringlumýrarbraut rétt sunnan við Miklubraut kl. 22.59, en ákærðu óku Kringlumýrarbraut til norðurs. Í lögregluskýrslu kemur fram að við handtöku hafi ákærði, Davíð, verið með umslag á sér sem í hafi verið 1.000.000 krónur í seðlum. Þá hafi hann verið með 108.000 krónur í reiðufé í veski sínu. Ákærði, Þ, var handtekinn á heimili sínu að [...] kl. 23.29 aðfaranótt sunnudagsins 11. apríl 2010.  Ákærði, Pétur Jökull, var handtekinn vegna málsins á heimili sínu að Hverfisgötu 59 í Reykjavík kl. 23.30 aðfaranótt sunnudagsins 11. apríl 2010. Ákærði, Guðlaugur Agnar, var handtekinn vegna málsins í komusal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar við komu frá útlöndum fimmtudaginn 15. apríl 2010 kl. 18.11. Ákærðu voru allir úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins. Ákærðu, Davíð, Æ, Þ og Pétur Jökull, sunnudaginn 11. apríl 2010. Ákærði, Guðlaugur Agnar, var úrskurðaður í gæsluvarðhald föstudaginn 16. apríl 2010. Ákærðu hafa allir setið óslitið í gæsluvarðhaldi vegna málsins fyrir utan ákærða, Þ, en með dómi Hæstaréttar Íslands frá þriðjudeginum 22. júní 2010 í máli nr. 397/2010 var ákærði leystur úr gæsluvarðhaldi. 

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 12. apríl 2010 á skjali merkt 2.1, bls. 5 framkvæmdi lögregla leit í bifreiðinni A þann dag. Á gólfi í bifreiðinni fundust kveikjuláslyklar að bifreið með skráningarnúmerið C en lyklarnir fundust á gólfi vinstra megin við ökumannssætið.

Að undangengnum úrskurði héraðsdóms Reykjaness framkvæmdi lögregla 15. apríl 2010 húsleit á heimili ákærða, Guðlaugs Agnars, að [...] 10 í Garðabæ. Samkvæmt skýrslu lögreglu var við húsleitina lagt hald á mikið magn skjala í eldhúsi og svefnherbergi. Minnismiðar sem fundust við húsleitina koma fram í rannsóknargögnum á skjölum merkt 2.2, bls. 49-54 og 2.2, bls. 73-105. Í eldhúsi fundust 158.000 krónur í reiðufé og 100 evrur. Í svefnherbergi fundust 150 evrur og 5.000 krónur í reiðufé. 

Með úrskurðum 12. apríl 2009 var lögreglu heimilað að fá upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um alla bankareikninga ákærða, Guðlaugs Agnars, greiðslukortaupplýsingar, gjaldeyriskaup og peningasendingar. Á skjali í rannsóknargögnum merkt 2.2, bls. 162-164 hefur lögregla tekið saman yfirlit um fjármál ákærða, Guðlaugs Agnars. Fram kemur að greiningin taki til tímabilsins janúar 2009 til og með mars 2010. Aflað hafi verið upplýsinga varðandi bankareikninga og gjaldeyriskaup. Þá hafi verið fengnar upplýsingar um tekjuskráningu, ökutækjaeign og fasteignir frá þar til bærum opinberum aðilum. Engar fasteignir hafi verið skráðar á ákærða. Á hann hafi verið skráð bifreið með skráningarnúmerið D, sem sé gömul bifreið af gerðinni [...]. Innistæður á bankareikningum hafi verið 1.125.370 krónur. Í bankahólfi skráð á föður ákærða hafi verið 3.550.000 krónur í reiðufé og skartgripir að verðmæti 2.000.000 króna. Á tímabilinu hafi skráðar tekjur ákærða verið 3.770.786 krónur, sem hafi verið í formi slysabóta. Aflað hafi verið upplýsinga um hreyfingarlista af bankareikningum, um gjaldeyriskaup og notkun greiðslukorta. Við skoðun hafi komið í ljós mikill munur á ráðstöfunartekjum ákærða og skráðum tekjum. Útgjöld ákærða fyrir tímabilið hafi numið 21.099.419 krónum á meðan skráðar tekjur hans hafi verið 3.770.786 krónur. Mismunurinn sé 17.328.633 krónur.     

Lögregla aflaði sams konar dómsúrskurða um heimild til að afla upplýsinga um fjármál ákærða, Æ. Á skjali í rannsóknargögnum málsins merkt 2.1, bls. 84-86 hefur lögregla tekið saman yfirlit um fjármál ákærða. Fram kemur að greiningin taki til tímabilsins janúar 2009 til og með mars 2010. Aflað hafi verið upplýsinga varðandi bankareikninga og gjaldeyriskaup. Þá hafi verið fengnar upplýsingar  um tekjuskráningu, ökutækjaeign og fasteignir frá þar til bærum opinberum aðilum. Íbúð að [...] í Reykjavík að fasteignamati 13.550.000 krónur hafi verið skráðar á ákærða. Á eigninni hafi hvílt 12.379.700 krónur. Ekkert ökutæki hafi verið skráð á hann. Engar bankainnistæður hafi verið skráðar á ákærða. Í bankahólfi hafi verið 2.880.550 krónur. Á tímabilinu hafi skráðar tekjur ákærða verið 1.656.724 krónur fyrir árið 2009 og 272.280 krónur fyrir janúar til mars 2010. Um hafi verið að ræða atvinnuleysisbætur. Aflað hafi verið upplýsinga um hreyfingalista af bankareikningum, um gjaldeyriskaup og notkun greiðslukorta. Við skoðun hafi komið í ljós mikill munur á ráðstöfunartekjum ákærða og skráðum tekjum. Útgjöld ákærða fyrir tímabilið hafi numið 10.525.906 krónur á meðan skráðar atvinnuleysistekjur hans hafi verið 1.929.004 krónur. Mismunurinn sé 8.596.902 krónur.

Ákærðu voru allir yfirheyrðir hjá lögreglu vegna málsins. Ákærði, Davíð, var fyrst yfirheyrður 11. apríl 2010. Næstu yfirheyrslur áttu sér stað 16., 20. og 29. apríl og 18. maí 2010. Ákærði, Guðlaugur Agnar, var fyrst yfirheyrður 16. apríl 2010. Næstu yfirheyrslur áttu sér stað 19. og 29. apríl og 11. og 14. maí 2010. Ákærði, Þ, var fyrst yfirheyrður 11. apríl 2010. Næstu yfirheyrslur áttu sér stað 13., 19. og 30. apríl og 7. maí 2010. Ákærði, Pétur Jökull, var fyrst yfirheyrður af lögreglu 11. apríl 2010. Næstu yfirheyrslur áttu sér stað 13. og 20. apríl og 18. maí 2010. Ákærði, Æ, var fyrst yfirheyrður 11. apríl 2010. Næstu yfirheyrslur áttu sér stað 15., 20. og 28. apríl og 5. og 19. maí 2010. 

Ákærði, Davíð Garðarsson, kvað meðákærða, Pétur Jökul, í einhverjum mæli hafa haft samband við sig áður en þeir atburðir gerðust sem væru sakarefni málsins. Laugardaginn 10. apríl 2010 hafi meðákærði, Æ, haft samband og þeir mælt sér mót í verslunarmiðstöðinni Kringlunni. Hafi meðákærði farið þess á leit við ákærða að hann hjálpaði sér við að flytja fyrir ákærða bifreið frá Garðabæ upp í Breiðholt að versluninni [...]. Það hafi ákærði gert og skilið bifreiðina, sem hafi verið með skráningarnúmerið C, þar eftir. Meðákærði hafi skutlað ákærða til baka til síns heima og meðákærði beðið ákærða um að geyma lyklana að bifreiðinni. Um hafi verið að ræða vinargreiða og ákærða ekki fundist neitt óeðlilegt við það. Hafi meðákærði sagt að félagi ákærða myndi síðan hafa samband við hann vegna bifreiðarinnar. Málið hafi ekki verið útskýrt neitt frekar. Síðar þennan sama dag hafi meðákærði, Pétur Jökull, hringt í ákærða nokkru sinnum og sagt að áríðandi væri að hann næði að hitta á ákærða. Hafi ákærði sagt að hann gæti hitt meðákærða að loknum knattspyrnuleik sem væri í sjónvarpinu. Það hafi gengið eftir, en ákærði hafi reiknað með að meðákærði þyrfti að láta skutla sér eitthvert. Þá hafi komið í ljós að meðákærði, Pétur Jökull, hafi verið sá sem meðákærði, Æ, hafi verið að vísa til varðandi bifreiðina. Hafi ákærði ekið meðákærða, Pétri Jökli, upp í Breiðholt á bifreið sinni, sem sé af gerðinni [...] með skráningarnúmerið B. Hafi þeir ekið að versluninni [...]. Hafi ákærði látið meðákærða hafa lykla að bifreiðinni C þar sem hann hafi verið með þá frá því fyrr um daginn. Hafi meðákærði gengið að bifreiðinni C en síðan farið inn í hús í nágrenninu. Hafi ákærði hringt í meðákærða og beðið hann um að flýta sér. Eftir nokkrar mínútur hafi meðákærði komið út og þá verið með töskur meðferðis er hann hafi sett í bifreið ákærða. Hafi meðákærði sagt að hann vissi ekki hvar meðákærði, Æ, ætti heima og ákærði því ákveðið að aka á undan honum að heimili meðákærða, Æ. Kvaðst ákærða hafa grunað að ekki væri allt með felldu er hann hafi séð meðákærða, Pétur Jökul, með töskurnar. Ekki hafi hann hins vegar vitað hvað það hafi getað verið, en grunað að um þýfi gæti verið að ræða. Eftir að þeir hafi ekið af stað á bifreiðunum hafi ákærði stöðvað bifreið sína í nærliggjandi götu sem hafi verið [...]. Þar hafi hann ætlað að spyrja meðákærða nánar út í málið. Meðákærði hafi verið ölvaður og ruglaður. Af þeim ástæðum hafi ákærði ákveðið að fara ekki með bifreiðina til meðákærða, Æ, heldur skilja hann eftir á miðri leið. Þar sem bifreið ákærða hafi verið ,,ódýrari“ en sú bifreið er meðákærði hafi ekið hafi ákærði ákveðið að láta meðákærða aka sinni bifreið en ákærði ekið hinni bifreiðinni, með skráningarnúmerið C. Bifreiðin C hafi síðan verið skilin eftir eins og ákærði hafi verið búinn að ákveða. Að því loknu hafi verið ætlun ákærða að fara heim til meðákærða, Æ, og inna hann eftir því hvað væri í gangi. Hafi það verið vegna þess að ákærða hafi grunað að eitthvað óeðlilegt hafi verið í gangi í tengslum við nefndar töskur. Hafi ákærði því næst farið á bifreiðinni B og náð í meðákærða, Æ, sem fullyrt hafi að ekkert væri í töskunum. Hafi þeir farið saman upp í [...] á bifreið meðákærða, Æ, með skráningarnúmerið A. Þar hafi meðákærði sýnt ákærða töskurnar. Komið hafi í ljós að ekkert var í töskunum. Fyrir dómi greindi ákærði frá því að frá [...] hafi þeir farið en meðákærði hafi ætlað að skutla ákærða heim til sín. Við yfirheyrslur hjá lögreglu bar ákærði að frá [...] hafi ákærðu farið aftur því bifreið ákærða hafi verið heima hjá meðákærða Æ. Á leiðinni hafi meðákærði látið ákærða fá umslag í hendi og óskað eftir því að ákærði léti meðákærða, Pétur Jökul, fá umslagið. Í því hafi lögreglu borið að og ákærðu verið handteknir. Hafi ákærði einfaldlega ákveðið að setja umslagið inn á sig frekar en að láta það frá sér á einhvern óvissan stað. Hafi hann talið að lögregla væri í reglulegu umferðareftirliti og þeir verið stöðvaðir af þeim sökum. Hafi ákærði verið grunlaus um fíkniefni sem síðar hafi fundist í þeim töskum er fluttar hafi verið í bifreiðinni og ekkert komið nálagt innflutningi á þeim fíkniefnum. Væri rangt sem fram kæmi í ákæru að ákærði hafi tekið að sér fyrir meðákærða, Æ, að finna vitorðsmann til að flytja umrædd fíkniefni til landsins. Þá hafi ákærði ekki tekið við neinum fjármunum úr hendi meðákærða, Æ, til að afhenda meðákærða, Pétri Jökli, svo sem ákæra miðar við.  Áður en þessir atburðir áttu sér stað hafi ákærði þekkt vel meðákærða, Æ, en aðeins kannast við meðákærða, Pétur Jökul. Aðra meðákærðu hafi hann ekki þekkt.   

Ákærði, Guðlaugur Agnar Guðmundsson, kvaðst hafa farið til Amsterdam í Hollandi 10. apríl 2010. Tilgangur með ferðinni hafi verið að slappa af. Hafi hann komið aftur til landsins 15. apríl 2010. Ákærði kvaðst ekkert þekkja til þeirra atvika sem væru sakarefni málsins. Kvaðst hann ekki með neinu móti hafa tengst innflutningi á fíkniefnum sem meðákærði, Þ, hafi flutt til landsins 10. apríl 2010. Ákærði kvaðst um tíma hafa haft afnot af bifreið með skráningarnúmerið C, en þeirri bifreið hafi hann hins vegar skilað af sér á sínum tíma. Ákærði kvaðst í gegnum tíðina hafa verið í góðum tengslum við meðákærða, Æ, en þeir hafi þekkst í nokkur ár. Hafi verið töluverð samskipti á milli þeirra á árunum 2008 og 2009 og allt fram til í apríl 2010. Eftir að mál þetta kom upp hafi samskipti þeirra eðli málsins samkvæmt orðið minni. Væru þeir ekki góðir vinir í dag. Ákærði kvaðst í gegnum tíðina hafa lánað meðákærða, Æ, peninga, auk þess sem ákærði hafi fengið lánaða peninga frá meðákærða. Hafi verið um vinargreiða að ræða. Þá kvaðst ákærði þekkja E. Hafi þeir verið ágætis vinir í um 4 ár. Ekki hafi ákærði velt fyrir sér hugsanlegum tengslum E við fíkniefnaviðskipti. Kvaðst ákærði kannast við að hafa lagt fjármuni inn á E, alls ríflega 3.000.000 króna. Hafi síðasta innborgunin verið í desember 2009. E hafi þá verið blankur. E hafi endurgreitt ákærða fjárhæðina í reiðufé. Ákærði kvaðst sjálfur hafa fengið peninga í gegnum slysabætur. Hafi hann af þeim sökum átt peninga til að lána E. Ákærði kvaðst ekki kannast við tösku sem lögregla hafi haft til athugunar á heimili föður ákærða að [...] í Reykjavík. Hljóti tilviljun að ráða því að um samskonar tösku væri að ræða og meðákærði, Þ, hafi notað við innflutning fíkniefna. Ákærði kvaðst ekki þekkja meðákærðu, Davíð Garðarsson og Þ.

Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa fram til 15. apríl 2010 á höfuðborgarsvæðinu aflað sér ávinnings að fjárhæð 4.675.370 krónur og skartgripa að verðmæti 2.000.000 krónur með sölu og dreifingu ávana- og fíkniefna, svo sem honum væri gefið að sök í IV. kafla ákæru. Að því er varði fjármál ákærða þá hafi hann fengið greiddar út slysabætur. Önnur greiðslan hafi verið innt af hendi á árinu 2007 og hin á árinu 2009. Fyrri greiðslan hafi verið tæpar 3.000.000 króna en sú síðari 3.800.000 krónur. Þá hafi ákærði fengið greitt fyrir málningarvinnu sem hann hafi ekki gefið upp til skatts. Þá hafi hann stundað það að kaupa og selja mótorhjól og báta og hagnast af þeim viðskiptum. Einnig hafi hann lánað einstaklingum fjármuni með háum vöxtum. Þá hafi hann unnið einhverja fjármuni í Póker. Að því er varðar málningarvinnuna þá gæti ákærði bent á verk sem hann hafi unnið fyrir móður sína. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki eiga peninga er lögregla hafi lagt hald á og fundist hafi í bankahólfi sem skráð væri á föður ákærða. Faðir ákærða ætti umrædda fjármuni. Hafi ákærði sagt við yfirheyrslur hjá lögreglu að ákærði ætti fjármunina. Það hafi hann gert til að vernda föður sinn, sem þá sat í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að málinu. Faðir ákærða hafi lánað ákærða 1.250.000 krónur og ákærði látið föður sinn fá þá skartgripi sem fundist hafi í bankahólfinu að veði fyrir láninu. Er ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 19. apríl 2010 kvaðst hann eiga verðmæti í bankahólfi sem skráð væri á föður ákærða. Í svörtum kassa merktur ,,Prada“ hafi verið 3-4.000.000 króna er ákærði ætti. Þá hafi hann fengið hring og ermahnappa með demöntum í sennilega að verðmæti 1.000.000 krónur. Umrædda muni hafi ákærið fengið í viðskiptum. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 29. apríl 2010 kvað ákærði þá fjármuni er lögregla hafði lagt hald á í peningahólfi sem skráð væri á föður ákærða vera þannig til komna að hluti væri tryggingabætur sem hann hafi fengið greiddar. Þá hafi hann fengið söluhagnað við sölu á bát, en hann hafi keypt bát af gerðinni Jet í félagi við vin sinn. Bátinn hafi þeir selt með hagnaði og skipt hagnaðinum á milli sín. Ákærði kvaðst kannast við að hafa ritað flesta þá minnismiða sem fundist hafi við húsleit á heimili ákærða. Er borið var undir ákærða þýðing einstaka miða kvaðst ákærði ekki vita hvað einstaka færslur stæðu fyrir. Við skýrslutöku hjá lögreglu 19. apríl 2010 skýrði ákærði miðana með þeim hætti að hann væri að setja saman hugsanir á miðunum. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um miðana eða þýðingu þeirra. Við yfirheyrslur hjá lögreglu 29. apríl 2010 kvaðst ákærði kannast við að hafa ritað minnismiða sem lögregla fann við leit í bifreiðinni C. 

Ákærði, Þ, kvað meðákærða, Pétur Jökul Jónasson, hafa komið að máli við sig og fengið sig til að flytja fíkniefni til landsins gegn greiðslu þóknunar. Þessi mál hafi borið á góma á milli þeirra nokkru áður en ákærði hafi farið í ferðina í apríl 2010. Þegar að ferðinni í apríl kom hafi hana borið brátt að. Meðákærði, Pétur Jökull, hafi komið til ákærða og beðið hann um að fara í ferðina. Ákvörðun hafi ákærði tekið á nokkrum klukkustundum. Meðákærði hafi látið ákærða fá fjármuni til að kaupa flugmiða til Spánar, fjármuni fyrir uppihaldi, auk þess sem hann hafi látið hann fá fjármuni til að greiða fyrir fíkniefnin. Ákærði hafi að kvöldi miðvikudagsins 31. mars 2010 fengið 104.000 krónur til greiðslu fargjalds. Þann 2. apríl 2010 hafi meðákærði, Pétur Jökull, látið ákærða fá 165.000 krónur til uppihalds og greiðslu fyrir fíkniefnin. Um hafi verið að ræða peningabúnt sem hafi verið í plastpoka. Á Spáni hafi ákærði hitt mann sem átt hafi að afhenda honum efnin. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 13. apríl 2010 bar ákærði að um hafi verið að ræða íslending, sem afhent hafi honum efnin. Efnin hafi verið falin í þrem ferðatöskum sem ákærði hafi fengið í hendur. Í staðinn hafi ákærði látið manninn fá peningana. Ákærði hafi átt að fá á bilinu 500.000 til 1.000.000 króna fyrir verkið. Hafi ákærði ekki leitt hugann að því hvort efnin væru ætluð til dreifingar á Íslandi. Þá hafi hann ekki vitað um hversu mikið magn væri að ræða né tegund efna. Hafi hann helst talið að um væri að ræða fíkniefnið hass sem hann væri að flytja til landsins. Ákærði kvaðst aldrei hafa komið nærri neinu viðlíka áður. Hafi ákæri glímt við fjárhagslegan vanda og ætlað að slá á skuldir með verkinu. Ákærði kvaðst ekki þekkja neina aðra meðákærðu heldur en meðákærða, Pétur Jökul. Ekki kvaðst ákærði hafa kannast við þann mann á Spáni er látið hafi hann hafa fíkniefnin. 

Ákærði, Pétur Jökull Jónasson, kvaðst hafa farið þess á leit við meðákærða, Þ, að hann flytti fíkniefni til landsins gegn greiðslu þóknunar. Hafi ákærði í tengslum við það 31. mars 2010 látið meðákærða, Þ, fá 104.000 krónur til að kaupa flugmiða til Spánar. Föstudaginn 2. apríl 2010 hafi ákærði látið meðákærða fá 165.000 krónur til uppihalds á Spáni og 17.000 evrur til að greiða fyrir fíkniefnin. Fyrir dómi kvað ákærði meðákærða, Æ, hafa farið þess á leit við sig að ákærði fengi einhvern til að flytja efnin. Ekki myndi ákærði dagsetningar í því sambandi en hann hafi verið í mikilli óreglu á þessum tíma. Ekki hafi verið langur aðdragandi að því að meðákærði færi út að beiðni ákærða. Hafi ákærði sennilega hitt meðákærða, Þ, í mars 2010 þar sem þetta hafi fyrst borið á góma. Meðákærði, Davíð Garðarsson, hafi aldrei komið nærri málinu. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 20. apríl 2010 greindi ákærði ítarlega frá atvikum málsins. Bar hann þá að stuttu fyrir páska 2010 hafi ákærði fengið símtal þar sem hann hafi verið beðinn um að ræða við meðákærða, Þ, um að fara til Spánar og flytja efnin heim. Atburðarásin hafi verið hröð og hafi ákærði tekið pening út af eigin reikningi til að láta meðákærða fá. Hafi ákærði lagt úr fyrir miðakaupum. Um 1 – 2 dögum síðar hafi ákærði hitt meðákærða, Þ, aftur og þá á heimili meðákærða þar sem hann hafi látið hann hafa peninga fyrir uppihaldi úti. Evrum hafi verið pakkað inn í sellofan og ákærði látið meðákærða, Þ, fá þá til að greiða fyrir efnin. Þá hafi ákærði afhent meðákærða upplýsingar um hótel og hvernig hann ætti að hafa samband úti ef hann lenti í vandræðum. Sá hinn sami aðili hafi fengið ákærða til að tala við meðákærða og látið hafi ákærða fá peninga, miða um upplýsingar úti og símakort. Ákærði kvaðst hafa heyrt í meðákærða, Þ, eftir að meðákærði kom til landsins 10. apríl 2010. Hafi ákærði látið þann sem fengið hafi ákærða til verksins vita um það. Sá maður sem fengið hafi ákærða til verksins hafi sótt ákærða niður í bæ. Hafi ákærði farið upp í Breiðholt með þeim manni, en sá maður hafi látið ákærða fá lyklana að bifreið sem staðið hafi á stæði nærri heimili meðákærða, Þ. Hafi þeir sótt töskurnar til meðákærða, Þ, og farið með þær í bifreið sem staðið hafi á bifreiðastæði nærri dvalarstað meðákærða. Hafi ákærði sett töskurnar í aftursætið. Því næst hafi ákærði ekið á eftir þeim manni sem fengið hafi hann til verksins og þeir ekið í götu rétt fyrir neðan. Þar hafi þeir skipt um bifreiðar og ákærði ekið á eftir niður í [...]. Hinn maðurinn hafi þá ekið bifreiðinni með töskunum í. Í [...] hafi viðkomandi aðili komið yfir í bifreið ákærða og ákærða verið ekið niður í bæ. Ákærði kvaðst hjá lögreglu ekki vilja nafngreina þann mann sem fengið hafi hann til verksins og ekið með ákærða í Breiðholtið til að ná í töskurnar. Er ákærði var inntur eftir því fyrir dómi af hverju hann hefði greint frá því hjá lögreglu að sá maður sem farið hafi með honum að ná í nefndar töskur hafi verið sá sem fengið hafi hann til verksins kvaðst ákærði hafa sagt lögreglu ósatt. Hafi hann ekki verið í ástandi til að segja satt og rétt frá. Hafi hann á þessum tíma verið í tómu rugli. Við aðalmeðferð málsins sá ákærði í réttinum skjal í rannsóknargögnum merkt 2.4, bls. 9 sem er útprentun á hljóðritun á samtali milli ákærða og nafngreindrar konu og ákærða og meðákærða, Davíðs. Í samtalinu við konuna biður ákærði um að fá að svara símtali við ,,gaurinn sem ég er að vinna fyrir“. Í framhaldi svarar ákærði símtali við meðákærða, Davíð. Ákærði kvaðst ekki muna eftir umræddu símtali. Hafi ákærði verið með marga síma á þessum tíma og það verið ,,bull“ sem hann hafi sagt í símann. Meðákærði, Æ, hafi verið sá sem hafi beðið ákærða um að útvega ,,burðardýrið“ og ná síðan í bifreiðina C upp í Breiðholt. Bifreiðin hafi síðan átt að fara að heimili meðákærða, Æ. Þá hafi það verið meðákærði, Æ, sem hafi afhent ákærða peninga til að láta meðákærða, Þ, fá. Ákærði kvaðst ekki geta gefið skýringar á því af hverju lögregla hafi ekki orðið þess vör við skyggingu eða símahleranir að ákærði væri í sambandi við meðákærða, Æ, þar sem þeir hafi þekkst.

Ákærði, Æ, kvaðst ásamt meðákærða, Pétri Jökli, hafa lagt á ráðin um að meðákærði, Þ, flytti fíkniefni til landsins í samræmi við ákæru. Hafi ákærði einhverju sinni hitt meðákærða, Pétur Jökul, sem greint hafi ákærða frá meðákærða, Þ. Atburðarásin hafi síðan verið hröð og meðákærði, Þ, verið sendur út. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 15. apríl 2010 bar ákærði að laugardaginn 10. apríl 2010 hafi ákærði hitt meðákærða, Davíð Garðarsson, í verslunarmiðstöðunni Kringlunni. Frá Kringlunni hafi þeir farið saman að í Garðabæ og sótt þangað bifreið sem ákærði hafi lánað meðákærða, Davíð. Um hafi verið að ræða bifreið af gerðinni [...], en ákærði kvaðst hafa verið með bifreiðina að láni. Meðákærði, Guðlaugur Agnar, hafi verið með bifreiðina. Lykla að bifreiðinni hafi ákærði fengið hjá meðákærða, Guðlaugi, á fimmtu- eða föstudeginum. Ákærði og meðákærði, Davíð, hafi farið á bifreiðinni og bifreið meðákærða upp í Breiðholt. Þar hafi bifreiðin verið skilin eftir og ákærði orðið meðákærða samferða. Síðar þetta saman kvöld hafi meðákærði, Davíð, haft samband og sótt ákærða. Þeir hafi farið saman upp í [...]. Þangað hafi þeir farið á bifreið meðákærða, Æ. Í [...] hafi [...] verið og þeir ,,tékkað“ á bifreiðinni. Hafi ákærði opnað farangursrými bifreiðarinnar til að athuga hvað þar væri. Þar hafi verið töskur sem hann hafi opnað til að aðgæta hvaða töskur þetta væru. Ekki hafi hann kannast við þær. Í framhaldi hafi ákærði farið niður í bæ þar sem hann hafi ætlað að skemmta sér. Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta sagt til um hver hafi beðið hann um að athuga með töskurnar. Hafi hann ætlað að sækja þær á sunnudeginum. Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 20. apríl 2010. Kvaðst ákærði þá vera ,,millimaður“ og væri hann að vinna fyrir aðra. Að því er varðaði minnisbók sem fundist hafi í bifreiðinni C og fram kemur í rannsóknargögnum sem skjal 2.1, bls. 45-55 þá væru á minnismiðana ritaðar fjárhæðir og kæmi fram um fíkniefni. Geti vel passað að athugasemdir hafi verið ritaðar niður sem skuldamiðar vegna fíkniefnaskulda og peningasendinga.  Við yfirheyrslu hjá lögreglu 5. maí 2010 greindi ákærði svo frá að meðákærði, Guðlaugur, hafi komið að máli við ákærða og innt hann eftir því hvort ákærði vissi um einhvern til að fara til útlanda. Hafi meðákærði, Davíð, greint frá því að hann væri með mann, meðákærða Þ, sem væri tilbúinn að koma með eitt kg. Hafi ákærði greint meðákærða, Guðlaugi, frá því. Hafi ákærði mátt kaupa í þeirri sendingu 300 g. Atburðarásin hafi farið af stað og ákærði látið meðákærða, Davíð, fá peninga handa meðákærða, Þ, til kaupa á flugmiða og gjaldeyri. Þá hafi ákærði látið meðákærða, Davíð, fá 17.000 evrur til kaupa efnin. Atburðarásin hafi verið hröð og verið ákveðin um viku áður en meðákærði, Þ, hafi farið utan. Eftir því sem ákærði vissi hafi meðákærði, Pétur Jökull, komið á tengslum við meðákærða, Þ, en meðákærði, Pétur Jökull, væri vinur meðákærða, Davíðs. Ekki kvaðst ákærði þekkja meðákærða, Pétur Jökul. Meðákærði, Þ, hafi átt að fá 1.000.000 krónur í þóknun fyrir förina. Þeir fjármunir sem meðákærði, Davíð, hafi verið með í fórum sínum við handtöku hafi verið fjármunir sem ákærði hafi látið meðákærða, Davíð, fá sem átt hafi að skila sér til meðákærða, Þ, sem þóknunin. Sendingunni sem kom að utan hafi átt að skipta í hlutföllunum að ákærði fengi ¼ hluta, meðákærði, Guðlaugur, ¼ hluta, meðákærði, Davíð, hafi átt að fá 50 g. E hafi átt að fá restina. Á meðan meðákærði, Þ, hafi verið í ferðinni hafi meðákærði, Guðlaugur, verið í útlöndum. Hafi meðákærði, Guðlaugur, beðið ákærða um að vera í sambandi við E og ákærði gefið E upp símanúmer meðákærða, Þ. Það númer er hann hafi gefið E hafi verið númer sem meðákærði, Þ, hafi notað daglega, en númerið hafi meðákærði, Davíð, gefið upplýsingar um. Fyrir dómi var ákærði inntur eftir breyttum framburði sínum í málinu. Ákærði kvað lögreglu hafa beitt sig þrýstingi og hafi hann verið settur í einangrun. Pressan hafi verið það mikil að ákærði hafi látið undan. Hafi lögregla við yfirheyrslur lagt ríka áherslu á þátt meðákærða, Guðlaugs, og gefið í skyn að tekið yrði tillit til samstarfsvilja ákærða með mildari refsidómi í væntanlegu sakamáli. Hafi ákærði verið í taugaáfalli í vistinni. Ákærða hafi nánast verið lögð orð í munn. Ákærði kvað það rétt að hann hafi látið meðákærða, Davíð, fá í hendur 1.000.000 króna í bifreiðinni á ferð þeirra félaga frá [...]. Hafi ákærði talið öruggara að gera það þó svo meðákærði hafi ekki vitað hvað væri í gangi. Hafi meðákærði einfaldlega átt að láta meðákærða, Pétur Jökul, fá peningana.

Ákærði kvaðst hafna því að hafa gerst sekur um peningaþvætti samkvæmt II. kafla ákæru. Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa selt fíkniefni en það hafi verið gert til að fjármagna eigin neyslu. Þær 2.880.500 krónur er fundist hafi í peningahólfi í Byr sparisjóði sem skráð væri á ákærða hafi verið sparifé er ákærði hafi safnað saman. Umræddir fjármunir hafi verið í hólfinu frá árinu 2008. Ákærði hafi unnið talsvert og m.a. verið hjá málarameistara á árunum 2000 til 2008. Þá hafi ákærði farið til sjós. Þeir fjármunir sem geymdir hafi verið í hólfinu hafi ákærði áður geymt heima hjá sér. Þjónustufulltrúi í banka hafi hins vegar bent ákærða á að skynsamlegra væri að geyma þá í bankahólfi. Ekkert af þessum fjármunum hafi komið til vegna sölu ólöglegra fíkniefna. Við skýrslutöku hjá lögreglu 28. apríl 2010 var ákærði inntur eftir því hvort eitthvað af tekjuöflun hans væri vegna fíkniefnasölu. Kvað hann einhvern hluta vera þannig til kominn en ákærði hefði enga yfirsýn yfir hversu mikið það væri. 

F, faðir ákærða Guðlaugs Agnars, kvaðst vera eigandi að bankahólfi í Íslandsbanka í Mjódd í Reykjavík. Hafi F tekið hólfið á leigu í júlí 2009. Öll þau verðmæti sem verið hafi í hólfinu við leit lögreglu í því hafi verið í eigu F. Um hafi verið að ræða peninga og skartgripi. Í hólfið hafi F farið 2 til 3 sinnum, síðast 29. desember 2009.

G lögreglufulltrúi og rannsóknarlögreglumennirnir H og I staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins og gerðu grein fyrir einstökum þáttum í henni. G kvaðst hafa unnið að fjármálagreiningu gagnvart ákærðu, Æ og Guðlaugi Agnari. Tilgangur með þeirri greiningu hafi verið að sýna fram á hvort ákærðu væru að eyða meiri fjármunum yfir tiltekið tímabil heldur en þeir öfluðu. Aflað hafi verið upplýsinga um allar skráðar tekjur ákærðu og upplýsinga um fjárútstreymi. Komið hafi í ljós misræmi hjá ákærðu og hafi verið leitað skýringa hjá þeim um þau atriði. Ekki hafi ákærðu tekist að skýra þann mismun, jafnvel þó svo tekið hafi verið tillit til þeirra skýringa að þeir hafi unnið ákveðna vinnu ,,svart“. Þau gögn sem stuðst hafi verið við væru til hjá lögreglu í tengslum við rannsókn málsins, þó svo þau hefðu ekki verið lögð fram við rannsókn málsins. Við rannsóknina hafi komið fram tengsl ákærða, Guðlaugs Agnars, og E. Hafi ákærði millifært á E samtals um 3.000.000 krónur. H gerði grein fyrir upphafi rannsóknarinnar haustið 2009 og hvernig símar ákærðu, Guðlaugs Agnars og Æ, hefðu verið hleraðir, auk þess sem fylgst hafi verið með ferðum þeirra. Stuðst hafi verið við skyggingar og eftirfararbúnað lögreglu. Á þessu tímabili hafi ákærði, Pétur Jökull, aldrei sett sig í samband við ákærða, Æ, og hafi lögregla aldrei séð þá tvo hittast. Samskipti ákærðu, Æ og Davíðs Garðarssonar, hafi hins vegar verið töluverð. Hafi þeir bæði rætt saman í síma og hist. E hafi verið grunaður í málinu. Hafi hann komið inn í málið þegar hann hafi haft samband við ákærða, Þ, á Spáni. Í rannsókn málsins hafi komið fram að ákærði, Æ, hafi haft samband við E og hafi hann látið E hafa símanúmer ákærða, Þ. Hafi það verið gert að ósk ákærða, Guðlaugs Agnars. Reynt hafi verið að hafa uppi á E en það ekki tekist. Væri hann nú eftirlýstur í útlöndum. H staðfesti að ákærði, Æ, hafi við upphaf rannsóknarinnar verið í einangrun. Hann hafi verið leystur úr henni síðar en settur aftur í einangrun. Hafi það tengst öðru máli sem verið hafi til rannsóknar hjá lögreglu. I staðfesti að þrátt fyrir að símar ákærða, Æ, hafi verið hleraðir og fylgst hafi verið með ferðum hans hafi leiðir hans og ákærða, Péturs Jökuls, aldrei skarast. Ákærði, Pétur Jökull, hafi fyrst komið inn í rannsókn málsins þegar hann hafi verið í símasamskiptum við ákærða, Þ, í tengslum við för hans út. E hafi komið inn í rannsókn málsins og hafi lögregla haft staðfestar upplýsingar um að hann hafi afhent ákærða, Þ, efnin ytra. Ekki hafi verið vitað um þátt ákærða, Davíðs, í þessu máli fyrr en ákærðu, Davíð og Pétur Jökull, hafi farið saman að heimili ákærða, Þ, þar sem ákærði, Pétur, hafi náð í töskur með fíkniefnum inn á heimili ákærða, Þ.     

Niðurstaða:

Í I. kafla ákæru er ákærðu öllum gefið að sök hegningar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa í mars og apríl 2010 staðið saman að innflutningi á samtals 1.594,43 g af kókaíni til Íslands frá Spáni, en efnið hafi verið ætlað til söludreifingar í ágóðaskyni.

Upphaf málsins má rekja til þess að síðla sumars 2009 bárust lögregluyfirvöldum upplýsingar um að ákærðu, Guðlaugur Agnar og Æ, væru að undirbúa innflutning á fíkniefnum til landsins og að þeir myndu nota til þess svokölluð ,,burðardýr“. Í framhaldinu aflaði lögregla heimilda dómstóla til að koma fyrir hlerunarbúnaði í símum ákærðu, auk þess sem eftirfararbúnaði var komið fyrir og svokölluðum skyggingum lögreglu beitt. Samfelld rannsókn var í gangi gagnvart ákærðu, sem leiddi til þess að lögregla komst á snoðir um að ákærði, Þ, myndi fara til Spánar til að sækja efnin. Á þeim tíma hafði nafn ákærða, Péturs Jökuls, komið við sögu, en samkvæmt upplýsingum lögreglu virtist hann vera tengiliður við ákærða, Þ. Kom lögregla fyrir eftirfarar- og hljóðupptökubúnaði í töskum sem ákærði, Þ, flutti til landsins, auk þess sem símar ákærða voru þá hleraðir. Fylgdist lögregla með komu ákærða til landsins með fíkniefnin laugardaginn 10. apríl 2010. Í kjölfarið voru ákærðu allir handteknir, fyrir utan ákærða, Guðlaug Agnar, sem var handtekinn við kom til landsins frá útlöndum 16. apríl 2010. 

Ákærði, Þ, hefur frá því í yfirheyrslum hjá lögreglu 11. og 13. apríl 2010 viðurkennt þátt sinn í málinu. Hefur hann lýst því að ákærði, Pétur Jökull, hafi fengið sig til verksins og hann átt að fá á bilinu 500.000 til 1.000.000 króna fyrir það. Hafi ákærði tekið við fíkniefnunum á Spáni úr hendi Íslendings. Eftir að hafa flutt efnin til landsins hafi ákærði sett sig í samband við meðákærða, Pétur Jökul, sem sótt hafi efnin á heimili ákærða að [...] í Reykjavík. Ákærði kveðst ekki þekkja til þátta annarra meðákærðu í málinu en ákærði hafi einungis verið í sambandi við meðákærða, Pétur Jökul, vegna málsins.

Ákærðu, Pétur Jökull og Æ, hafa einnig viðurkennt þátt sinn í málinu. Framburðir ákærðu hafa hins vegar breyst í grundvallaratriðum undir rannsókn og meðferð málsins varðandi þátt meðákærðu, Davíðs og Guðlaugs Agnars. Fyrir dómi hafa þeir lýst því að þeir tveir hafi lagt á ráðin um innflutning efnanna og ákærði, Pétur Jökull, fengið meðákærða, Þ, í innflutninginn. Meðákærðu, Davíð og Guðlaugur Agnar, hafi ekki tengst málinu með neinu móti. Ákærðu sættu einangrun á fyrstu stigum rannsóknar málsins. Á þeim tíma greindi ákærði, Æ, frá því að meðákærðu, Davíð og Guðlaugur Agnar, hafi einnig tengst málinu. Var framburður ákærða þá á þann veg að ákærði væri nokkurs konar millimaður í fíkniefnaviðskiptum. Meðákærði, Guðlaugur Agnar, hafi komið að máli við ákærða og beðið hann um að finna mann til að flytja fíkniefni til landsins. Ákærði hafi í kjölfarið sett sig í samband við meðákærða, Davíð, sem útvegað hafi mann til verksins. Við þessar yfirheyrslur greindi ákærði einnig frá því með nákvæmum hætti hvernig afhending fjármuna hafi verið af hálfu ákærðu og hvernig ákærðu hafi ætlað að skipta með sér ágóða af innflutningnum. Kom fram að meðákærði, Guðlaugur, hafi átt að fá ¼ hluta efnanna, ákærði sjálfur sama hluta og meðákærði, Davíð, 50 g. Afgang hafi E átt að fá. Við yfirheyrslur hjá lögreglu kvaðst ákærði ekki þekkja meðákærða, Pétur Jökul. Ákærði, Pétur Jökull, greindi frá því hjá lögreglu að ónafngreindur maður, sem ekki fer á milli mála að var meðákærði, Davíð, hafi fengið ákærða til að útvega mann til fararinnar. Í símtali sem ákærði á við nafngreinda konu vísar hann til meðákærða, Davíðs, sem þess manns sem hann sé ,,að vinna fyrir“. Saman fóru ákærðu síðan að heimili meðákærða, Þ, við komu hans til landsins og sóttu umrædd fíkniefni.

Við mat á  sök ákærða, Davíðs, er til þess að líta að ákærði var í reglulegu sambandi við meðákærðu, Guðlaug Agnar, Pétur Jökul og Æ, í aðdraganda innflutnings fíkniefnanna. Verður för ákærða að [...] í Reykjavík að kvöldi laugardagsins 10. apríl 2010 og framferði ákærða í kjölfarið ekki skýrð með öðrum hætti en þeim að honum hafi verið ljóst að fíkniefni voru í þeim töskum er komu til landsins. Háttsemi ákærða þetta kvöld bendir eindregið til þess að hann hafi haft það hlutverk með höndum að sjá til þess að fíkniefnin kæmust úr höndum meðákærða, Þ, með aðstoð meðákærða, Péturs Jökuls, í hendur meðákærða, Æ. Þá er til þess að líta að framburður ákærða, Æ, hjá lögreglu er afdráttarlaus um þátt meðákærða, Davíðs, í málinu, sem er í samræmi við atvikalýsingu í ákæruskjali. Eru skýringar hans á breyttum framburði ósennilegar, en ákærði naut aðstoðar verjanda við skýrslugjöfina. Einnig liggur fyrir framburður ákærða, Péturs Jökuls, hjá lögreglu um þátt meðákærða, Davíð.sama skapi eru skýringar hans á breyttum framburði ótrúverðugar, en ákærði naut aðstoðar verjanda við skýrslugjöfina. Eins og áður greinir bar ákærði, Æ, hjá lögreglu að hann þekkti ekki meðákærða, Pétur Jökul. Það sem styður þann framburð ákærða er að lögregla varð þess aldrei vör, þrátt fyrir margra mánaða samfelldar símahleranir, eftirför og skyggingar, að ákærðu, Æ og Pétur Jökull, settu sig í samband við hvorn annan. Varpar það þannig rýrð á þann framburð ákærðu fyrir dóminum að þeir tveir hafi lagt á ráðin um innflutninginn. Þegar litið er til þessara atriða telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði, Davíð, hafi tekið að sér að beiðni meðákærða, Æ, að finna vitorðsmann til að flytja fíkniefnin til landsins og í því skyni sett sig í samband við meðákærða, Pétur Jökul. Eftir að fíkniefnin voru komin til landsins afhenti hann meðákærða, Æ, efnin. Að mati dómsins er óhætt að leggja til grundvallar þann framburð meðákærða, Æ, hjá lögreglu að hann hafi afhent ákærða, Davíð, 269.000 krónur og 17.000 evrur til að afhenda meðákærða, Pétri Jökli. Þá fjármuni hafi átt að nota til að greiða fyrir fíkniefnin úti og fyrir uppihald meðákærða, Þ. Verður ákærði, Davíð, sakfelldur samkvæmt 3. tl. I. kafla ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæruskjali.  

Að því er þátt ákærða, Guðlaugs Agnars, varðar liggur fyrir að hjá lögreglu greindi meðákærði, Æ, frá þætti ákærða, Guðlaugs Agnars, með greinargóðum hætti. Lýsti hann því að meðákærði hafi sett sig í samband við sig í því skyni að finna einstakling til að flytja fíkniefni til landsins. Hafi meðákærði afhent sér 5.000 evrur til að greiða fyrir fíkniefnin. Þá lýsti hann því hvaða hlut meðákærði, Guðlaugur, hafi átt að fá sem afrakstur innflutningsins. Ákærði, Guðlaugur Agnar, var á þessum tíma í reglulegu sambandi við meðákærðu, Davíð og Æ. Einnig var ákærði í reglulegu sambandi við E, sem grunaður hefur verið um að hafa verið sá Íslendingur sem afhent hafi ákærða, Þ, efnin á Spáni. Símtöl í rannsóknargögnum málsins leiða þetta í ljós, en símar ákærða, Þ, voru á þeim tíma hleraðir. Þá leiðir rannsóknin í ljós peningalegar millifærslur af reikningum ákærða til E á árinu 2009 og nemur fjárhæðin ríflega 3.000.000 króna. Ákærði tengist bifreiðinni C sem fíkniefnin voru flutt í. Eftirfararbúnaður lögreglu leiðir þetta í ljós en lögregla hefur tekið saman yfirlit um akstur bifreiðarinnar á skjali í rannsóknargögnum merkt. 2.2, bls. 21. Hafa ákærðu, Guðlaugur Agnar og Æ, notað bifreiðina í félagi á tímabilinu 1. – 9. apríl 2010. Ýmiskonar minnismiðar fundust við leit á heimili ákærða að [...] í Garðabæ. Hefur ákærði ekki getað gefið fullnægjandi skýringar á eðli þeirra minnismiða, en þeir benda ótvírætt til þess að vera minnismiðar vegna fíkniefnaviðskipta. Fannst einn slíkur miði í bifreiðinni C sem ákærði hefur viðurkennt að stafi frá sér. Loks er til þess að líta, svo sem fyrr var rakið, að undir rannsókn málsins urðu lögreglumenn þess aldrei varir að meðákærðu, Pétur Jökull og Æ, þekktu til hvors annars. Skortir þar með tengilið milli ákærðu, sem styrkir þann framburð meðákærða, Æ, hjá lögreglu, að ákærði, Guðlaugur Agnar, hafi lagt á ráðin og fjármagnað að hluta innflutning efnanna. Verður lagt til grundvallar niðurstöðu að hann hafi afhent meðákærða, Æ, 5.000 evrur til að greiða fyrir fíkniefnin. Þá verður lagt til grundvallar að hann hafi fengið meðákærða, Æ, til að setja sig í samband við vitorðsmanninn, sem staddur var á Spáni, og gefa honum upp símanúmer meðákærða, Þ. Með vísan til þessa verður ákærði, Guðlaugur Agnar, sakfelldur samkvæmt 1. tl. I. kafla ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæruskjali.  

Svo sem áður greinir hafa ákærðu, Þ, Pétur Jökull og Æ, játað sök að því gættu að þeir hafa synjað fyrir þátt meðákærðu, Davíðs og Guðlaugs Agnars. Hér að framan hafa ákærðu, Davíð og Guðlaugur Agnar, verið sakfelldir samkvæmt ákæru. Með hliðsjón af því verða ákærðu, Þ, Pétur Jökull og Æ, einnig sakfelldir samkvæmt 2., 4. og 5. tl. I. kafla ákæru og er háttsemi ákærðu réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Í II. kafla ákæru er ákærða, Æ, gefið að sök peningaþvætti, með því að hafa um nokkurt skeið fram til laugardagsins 10. apríl 2010 á höfuðborgarsvæðinu aflað sér ávinnings að fjárhæð 2.880.500 krónur með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna. Ákærði neitar sök. Ákærði viðurkenndi hjá lögreglu að hafa um nokkurt skeið fyrir handtökuna 10. apríl 2010 selt og dreift ávana- og fíkniefnum. Hafi hann með því fjármagnað eigin neyslu. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 28. apríl 2010 kvaðst ákærði ekki hafa yfirsýn yfir hvort eitthvað af tekjuöflun hans væri vegna fíkniefnasölu en einhver hluti væri þannig til kominn. Lögregla hefur ritað greinargerð um fjármál ákærða. Samkvæmt henni er mikill munur á útgjöldum ákærða og skráðum tekjum. Nemur sá munur liðlega 8.500.000 krónum fyrir tímabilið 2009 til mars 2010. Þá liggur fyrir að lögregla lagði hald á 2.880.500 krónur sem geymdar voru í bankahólfi sem skráð var á ákærða. Ákærði hefur skýrt tilvist þessara fjármuna þannig að um sé að ræða sparifé ákærða. Samkvæmt 1. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 149/2009, varðar það fangelsi allt að 6 árum að taka við, nýta eða afla sér eða öðrum ávinnings af broti á almennum hegningarlögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreyta slíkum ávinningi, flytja hann, senda, geyma, aðstoða við afhendingu hans, leyna honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings. Ákærði viðurkenndi hjá lögreglu að hafa aflað sér tekna með sölu og dreifingu ólöglegra ávana- og fíkniefna. Hefur lögregla lagt hald á 2.880.500 krónur í peningahólfi sem ákærði var skráður fyrir. Telur dómurinn, í ljósi framburðar ákærða hjá lögreglu og greiningar lögreglu á fjármálum hans, sannað að ákærði hafi um nokkurt skeið fram til apríl 2010 aflað sér ávinnings af ólöglegri sölu og dreifingu ávana- og fíkniefna. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt II. kafla ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Í IV. kafla ákæru er ákærða, Guðlaugi Agnari, gefið að sök peningaþvætti, með því að hafa um nokkurt skeið fram til fimmtudagsins 15. apríl 2010 á höfuðborgarsvæðinu aflað sér ávinnings að fjárhæð 4.675.370 króna og skartgripa að verðmæti 2.000.000 króna með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna. Ákærði neitar sök. Við rannsókn málsins var framkvæmd leit í bankahólfi sem staðsett var í Íslandsbanka við Þarabakka í Mjódd. Skráður umráðamaður hólfsins var F, faðir ákærða. Í bankahólfinu fundust 3.550.000 krónur. Voru fjármunirnir annars vegar í kassa merktum ,,Prada“ og hins vegar í gulu plastveski. Þá lagði lögregla hald á skartgripi í hólfinu sem metnir hafa verið að verðmæti 2.000.000 krónur. Var um að ræða tvo ermahnappa með demöntum í og demantshring. Loks lagði lögregla 21. apríl 2010 hald á samtals 1.125.370 krónur, sem voru inni á tveim bankareikningum skráðum á ákærða í Byr sparisjóði. Við fyrstu yfirheyrslur lögreglu yfir F 14. apríl 2010, sem á þeim tíma hafði réttarstöðu sakbornings, kvaðst hann vera eigandi þeirra muna sem lögregla lagði hald á í bankahólfinu. Ekki kvaðst F vilja gera lögreglu grein fyrir innihaldi hólfsins fyrir utan að í því væri eitthvað smáræði af peningum. Neitaði hann að tjá sig um eignarhald á skartgripunum. Ákærði, Guðlaugur Agnar, var inntur eftir verðmætum í bankahólfi föður síns við yfirheyrslur hjá lögreglu 19. apríl 2010. Kvaðst ákærði þá eiga verðmæti í bankahólfinu. Væri hann eigandi peninga í svörtum kassa, merktum ,,Prada“. Í kassanum hafi verið á bilinu 2-3.000.000 króna. Síðan hafi hann geymt í hólfinu skartgripi, hring og ermahnappa með demöntum í. Umrædda skartgripi hafi hann fengið fyrir ,,slikk“ í viðskiptum. Við aðra yfirheyrslu hjá lögreglu 29. apríl 2010 staðhæfði ákærði að peningarnir í bankahólfinu væru eign ákærða. Væri þeir hluti af tryggingabótum er ákærði hefði fengið og hluti af söluhagnaði af bát sem ákærði hafi selt. Fyrir dómi lýsti ákærði því að hann væri ekki eigandi þeirra fjármuna sem fundist hafi í hólfinu. Hafi hann lýsti því yfir að hann væri eigandi verðmætanna hjá lögreglu í því skyni að vernda föður sinn, sem þá hafði réttarstöðu sakbornings í málinu. Þá kom faðir ákærða, F, fyrir dóminn og lýsti því yfir að hann væri eigandi fjármunanna í hólfinu. Lögregla lagði hald á fjölda minnismiða á heimili ákærða við húsleit þar. Var ákærði m.a. yfirheyrður um þessa miða hjá lögreglu 29. apríl 2010. Gat ákærði litlar skýringar gefið á efni miðanna. 

Ákærði gat lýst með nokkuð greinargóðum hætti þeim munum sem lögregla lagði hald á í bankahólfinu í Íslandsbanka. Lýsti hann því yfir í tvígang hjá lögreglu að hann væri eigandi munanna. Faðir ákærða gat á hinn bóginn ekki gert grein fyrir innihaldi í bankahólfinu. Þegar þessi atriði eru virt telur dómurinn sannað að ákærði, Guðlaugur Agnar, hafi verið eigandi þeirra muna sem fundust í hólfinu. Lögregla hefur ritað greinargerð um fjármál ákærða. Samkvæmt því yfirliti nemur munur á ráðstöfunartekjum ákærða og skráðum tekjum hans á árinu 2009 og fram til mars 2010 ríflega 17.000.000 króna. Ákærði hefur ekki getað útskýrt þennan mismun nema með þeim hætti að um hafi verið að ræða svarta atvinnustarfsemi og önnur óskráð viðskipti. Engin gögn hefur hann getað lagt fram fullyrðingum sínum til stuðnings. Í málflutningi vék verjandi ákærða að því að gögn að baki greiningu lögreglu á fjármálum ákærða lægju ekki frammi í málinu. Því var lýst yfir við aðalmeðferð málsins af hálfu lögreglu að þessi gögn væru til staðar hjá lögreglu. Hefði verjandinn því getað óskað eftir framlagningu þeirra við aðalmeðferð málsins. Hefur greinargerð lögreglu um fjármálin því fullt gildi. Ákærði hefur í þessu máli verið sakfelldur fyrir að hafa, í félagi við meðákærðu, staðið að innflutningi til landsins á umtalsvert miklu magni af kókaíni frá Spáni. Hann á að baki sakaferil frá árinu 2003 og hefur frá því ári samtals 5 sinnum verið dæmdur eða gengist undir sáttir vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hefur hann því í nokkur ár verið viðriðinn ólögleg ávana- og fíkniefni. Þegar þau atriði málsins eru virt að dómurinn telur sannað að ákærði hafi verið eigandi fjármunanna í bankahólfinu, að hann hefur haft mjög miklar ráðstöfunartekjur umfram skráðar tekjur sem hann hefur ekki getað gefið trúverðugar skýringar á, að á heimili ákærða fundust minnismiðar sem augljóslega tengjast viðskiptum með ávana- og fíkniefni og að ákærði hefur ítrekað áður gerst sekur um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi um nokkurt skeið fram til 15. apríl 2010 á höfuðborgarsvæðinu aflað sér ávinnings að fjárhæð 4.675.370 krónur og skartgripa að verðmæti 2.000.000 króna með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt IV. kafla ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

III. og V. kafli ákæru.

Ákærðu, Æ og Davíð, játa sök samkvæmt III. og V. kafla ákæru. Með vísan til þeirrar játningar ákærðu, sem samrýmist gögnum málsins, er sekt þeirra sönnuð og verða þeir sakfelldur samkvæmt þessum köflum ákæru. Er háttsemi ákærðu rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði, Davíð Garðarsson, er fæddur í ágúst 1969. Hann á að baki sakaferil allt frá árinu 1985. Eru dómarnir nú orðnir 14 alls og eru þeir vegna brota á almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði var síðast dæmdur 1. desember 2005 en þá var hann dæmdur í 2 ára og 6 mánaða fangelsi fyrir nauðgun. Var honum veitt reynslulausn 11. desember 2008 í tvö ár á eftirstöðvum refsingar 310 dögum.

Ákærði, Guðlaugur Agnar, er fæddur í október 1986. Hann á að baki sakaferil frá árinu 2003. Eru refsidómarnir orðnir 5 talsins, en sáttir og viðurlagaákvarðanir 6 talsins. Síðast gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun 2008 fyrir brot gegn umferðarlögum.

Ákærði, Þ, er fæddur í júlí 1958. Hann á að baki umferðarlagabrot frá árinu 2006.

Ákærði, Pétur Jökull, er fæddur í febrúar 1979. Hann á að baki tvo dóma, frá árunum 2007 og 2009. Fyrra brotið var gegn lögum um ávana- og fíkniefni en það síðar vegna brota gegn 1. mgr. 257. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði, Æ, er fæddur í mars 1980. Hann á að baki tvo refsidóma og 3 sáttir og eina viðurlagaákvörðun. Síðast var ákærði dæmdur á árinu 2010 en þá var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. 

Við ákvörðun refsingar ákærðu er til þess að líta að hlutur þeirra er mismikill. Þannig lögðu ákærðu, Guðlaugur Agnar og Æ, á ráðin og fjármögnuðu í sameiningu innflutning fíkniefnanna. Er þáttur þeirra alvarlegastur. Ákærði, Davíð, tók að sér að finna vitorðsmann til að flytja efnin og sá til þess að þau kæmust í hendur ákærða, Æ, eftir að þau voru komin til landsins. Ákærði, Pétur Jökull, tók að sér að finna vitorðsmann til að flytja efnin og aðstoðaði við að koma þeim í hendur ákærða, Æ, eftir að efnin komu til landsins. Loks fólst þáttur ákærða, Þ, einungis í því að flytja efnin til landsins, en ekkert er fram komið um að hann hafi átt að njóta annars afraksturs en að fá fyrir verkið 1.000.000 króna. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærðu, Þ, Pétur Jökull og Æ, játuðu sök. Refsing ákærða, Davíðs, er ákveðin fangelsi í 4 ár og 6 mánuði, en við ákvörðun refsingar er til þess litið að ákærði hefur með brotum sínum rofið skilyrði reynslulausnar sem honum var veitt 11. desember 2008 í tvö ár á eftirstöðvum refsingar 310 dögum. Verður reynslulausnin dæmd hér með. Refsing ákærða, Guðlaugs Agnars, er ákveðin fangelsi í 4 ár og 6 mánuði, en ákærða, Æ, fangelsi í 3 ár og 6 mánuði. Refsing ákærða, Péturs Jökuls, er ákveðin fangelsi í 3 ár og ákærða, Þ, 2 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist ákærðu, svo sem í dómsorði greinir.

Haldlögð fíkniefni og stungulyf eru gerð upptæk svo sem nánar greinir í dómsorði. Krafa um að 8.555.870 krónur og skartgripir að verðmæti 2.000.000 króna verði gert upptækt byggir á 1. tl. 1. mgr. 69. gr. b laga nr. 19/1940. Samkvæmt þeirri grein má gera upptæk verðmæti, að hluta eða í heild, sem tilheyra einstaklingi sem gerst hefur sekur um brot, þegar það er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og það getur varðað að minnsta kosti 6 ára fangelsi. Skilyrðum þessa ákvæðis er fullnægt í málinu og verða greindir fjármunir því gerðir upptækir svo sem nánar greinir í dómsorði. 

Sakarkostnaður samkvæmt sakakostnaðaryfirliti nemur 2.395.405 krónum. Því var lýst yfir af hálfu ákæruvalds í munnlegum málflutningi að ákærðu bæri ekki að greiða fjóra síðustu reikninga á yfirlitinu, samtals að fjárhæð 340.682 krónur. Samtals nemur sakarkostnaður því 2.054.723 krónum. Verða ákærðu dæmdir til að greiða sakarkostnaðinn óskipt.  

Ákærðu verða dæmdir til að greiða verjendum sínum málavarnarlaun svo sem nánar greinir í dómsorði. Hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Davíð Garðarsson, sæti fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða frá 11. apríl 2010 til dómsuppsögudags.

Ákærði, Guðlaugur Agnar Guðmundsson, sæti fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða frá 16. apríl 2010 til dómsuppsögudags.

Ákærði, Þ, sæti fangelsi í 2 ár. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða frá 11. apríl 2010 til 22. júní 2010.

Ákærði, Pétur Jökull Jónasson, sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða frá 11. apríl 2010 til dómsuppsögudags.

Ákærði, Æ, sæti fangelsi í 3 ár og 6 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða frá 11. apríl 2010 til dómsuppsögudags.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 1.629,12 g af kókaíni, 6,23 g af kannabisefni og 3 millilítrar af stungulyfi er inniheldur anabólíska stera, sem lagt var hald á við rannsókn málsins. Þá eru upptæk gerð til ríkissjóðs 8.555.870 krónur og skartgripir að verðmæti 2.000.000 króna, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærðu greiði óskipt 2.054.723 krónur í sakarkostnað.  

Ákærði, Davíð, greiði mál­svarnar­­laun skipaðs verjanda síns, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttar­lögmanns, 815.750 krónur.

Ákærði, Guðlaugur Agnar, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns,  313.750 krónur og þóknun verjanda á rannsóknarstigi Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 589.850 krónur.

Ákærði, Þ, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar héraðsdómslögmanns, 903.600 krónur.

Ákærði, Pétur Jökull, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur og þóknun verjanda á rannsóknarstigi Hjálmars Blöndal héraðsdómslögmanns, 514.550 krónur.

Ákærði, Æ, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhanns Hafstein héraðsdómslögmanns, 903.600 krónur.