Hæstiréttur íslands
Mál nr. 218/2004
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Riftun
|
|
Fimmtudaginn 25. nóvember 2004. |
|
Nr. 218/2004. |
Hákon Valsson(Jónas Haraldsson hrl.) gegn Þorbirni Fiskanesi hf. (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn. Riftun.
H, sem starfaði sem annar stýrimaður á fiskiskipi Þ hf., gerði samkomulag við Þ hf. um að hann færi í launalaust leyfi á tímabilinu frá 12. maí til 5. ágúst 2003. Áður en til þess kom að hann hæfi störf á ný seldi Þ hf. skipið 11. júní 2003 og sagði H upp störfum degi síðar. Skipið mun hafa verið afhent nýjum eiganda 7. júlí sama árs. Þar sem hinn nýji eigandi óskaði ekki eftir starfskröftum H var annar maður ráðinn í hans stað degi síðar. Í máli sem H höfðaði á hendur Þ hf. var deilt um hvort hann ætti rétt á bótum samkvæmt 25. gr. sjómannalaga þar sem ráðningarsamningi hans hafi verið rift við sölu skipsins, afhendingu þess eða ráðningu nýs stýrimanns á skipið. Í málinu var óumdeilt að H naut þriggja mánaða uppsagnarfrests samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Talið var að samkomulag aðila um launalaust leyfi H hafi ekki girt fyrir rétt Þ hf. til að segja H upp störfum meðan á leyfinu stóð. Aftur á móti hafi H í raun verið vikið úr skiprúmi 8. júlí 2003 með þeim hætti að nýr stýrimaður var ráðinn í hans stað áður en uppsagnarfrestur hans var á enda runninn. Ákvæði 3. mgr. 25. gr. laganna girti hins vegar fyrir bætur til H sem vikið var úr skiprúmi eftir uppsögn. Var kröfu hans um bætur vegna ólögmætrar brottvikningar úr skiprúmi því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. maí 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.543.850 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. ágúst 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi starfaði áfrýjandi sem annar stýrimaður á fiskiskipi stefnda Skarfi GK 666. Hinn 25. febrúar 2003 gerðu málsaðilar með sér samkomulag um að áfrýjandi færi í launalaust leyfi frá 12. maí til 5. ágúst þess árs, en vegna skorts á aflaheimildum var ákveðið að skipið yrði ekki gert út umrætt tímabil. Áður en til þess kom að áfrýjandi hæfi á ný störf hjá stefnda gerði stefndi samning um sölu skipsins 11. júní 2003 og sagði áfrýjanda upp störfum degi síðar. Skipið mun hafa verið afhent nýjum eiganda 7. júlí sama árs. Þar sem nýr eigandi skipsins óskaði ekki eftir störfum áfrýjanda var annar maður ráðinn í hans stað degi síðar.
Ágreiningur málsaðila snýst um hvort áfrýjanda beri bætur samkvæmt ákvæðum 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Vill áfrýjandi miða við að ráðningarsamningi hans hafi verið rift við sölu skipsins, ella við afhendingu þess eða við ráðningu nýs stýrimanns á skipið. Þá deila aðilar um útreikning bóta samkvæmt ákvæðinu.
Í 27. gr. sjómannalaga er kveðið á um laun skipverja í uppsagnarfresti, sé honum sagt upp störfum. Í 23. gr. og 24. gr. laganna eru sérstakar heimildir til handa skipstjóra að víkja skipverja úr skiprúmi meðal annars vegna veikinda eða slyss, eða ef hann hefur gerst brotlegur við tilgreindar skyldur sínar samkvæmt sjómannalögum. Fyrra ákvæðið mælir fyrir um rétt skipverja til launa samkvæmt ákvæðum 36. gr. laganna um laun vegna sjúkdóms eða meiðsla, en samkvæmt hinu síðara á hann ekki rétt á kaupi lengur en hann gegndi starfi sínu. Ákvæði 1. og 2. mgr. 25. gr. sjómannalaga hafa að geyma bótareglu vegna brottvikningar skipverja úr skiprúmi án heimildar samkvæmt 23. gr. eða 24. gr. laganna. Í 3. mgr. greinarinnar segir þó að ákvæði 1. og 2. mgr. eigi ekki við ef skipverji víkur úr skiprúmi eftir uppsögn á þeim stað sem fyrir fram hafði verið samið um eða sem leiðir af reglum 10. gr. samkvæmt ákvörðun skipstjóra áður en uppsagnarfrestur er úti þannig að skipverji haldi kaupi og öðrum fríðindum þar til fresturinn er á enda runninn. Hefur stefndi meðal annars reist málatilbúnað sinn á því að atvik hafi verið með þeim hætti að falli undir ákvæði 3. mgr. 25. gr. laganna.
Fallist er á með héraðsdómi að samkomulag málsaðila 25. febrúar 2003 um launalaust leyfi áfrýjanda hafi ekki girt fyrir rétt stefnda til að segja áfrýjanda upp störfum meðan á leyfinu stóð. Þá er óumdeilt að áfrýjandi naut þriggja mánaða uppsagnarfrests samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Samkvæmt 2. mgr. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga átti áfrýjandi þess kost að rifta ráðningarsamningi sínum við stefnda er honum barst vitneskja um sölu skipsins 11. júní 2003 og krefjast réttar til kaups um tilgreindan tíma samkvæmt ákvæðum 25. gr. laganna. Þann rétt nýtti hann ekki. Verður að telja að áfrýjanda hafi í raun verið vikið úr skiprúmi 8. júlí 2003 með þeim hætti að nýr stýrimaður var ráðinn í hans stað áður en uppsagnarfrestur hans var á enda runninn. Hins vegar er til þess að líta að framangreind ákvæði 3. mgr. 25. gr. laganna girða fyrir bætur í tilviki áfrýjanda er vikið var úr skiprúmi eftir uppsögn en hélt jafnframt tilgreindum launum og fríðindum út uppsagnarfrestinn. Verður því ekki fallist á kröfu áfrýjanda um bætur vegna ólögmætrar brottvikningar úr skiprúmi.
Eins og fram kemur í héraðsdómi er málatilbúnaður áfrýjanda eingöngu reistur á því að stefndi hafi rift ráðningarsamningi aðila og þess vegna beri áfrýjanda bætur samkvæmt 25. gr. sjómannalaga. Hafa varnir stefnda að sama skapi eingöngu lotið að því atriði. Eins og málflutningi hefur að þessu leyti verið háttað þarf ekki að fjalla um uppgjör stefnda á launum áfrýjanda í uppsagnarfresti hans. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 verður hvor aðili látinn beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. maí 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. f.m., er höfðað 11. nóvember 2003 af Hákoni Valssyni, Stekkjarholti 14, Akranesi, á hendur Þorbirni-Fiskanesi hf., Hafnargötu 12, Grindavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 1.543.850 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. ágúst 2003 til greiðsludags.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
I.
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til heimtu bóta á grundvelli 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Stefnandi gegndi stöðu 2. stýrimanns á mb. Skarfi GK-666, sem stefndi átti og gerði út. Hinn 25. febrúar 2003 undirrituðu stefnandi og Andrés Á. Guðmundsson útgerðarstjóri stefnda fyrir hönd félagsins svohljóðandi samkomlag: „Þar sem þorskveiðiheimildir skipsins verða fullnýttar þegar kemur fram á vorið hefur verið ákveðið að leggja skipinu frá 12. maí 2003 til 5. ágúst 2003. Í stað þess að Þorbjörn Fiskanes hf. segi Hákoni upp störfum í dag með lögbundnum þriggja mánaða fyrirvara og möguleika á endurráðningu þegar útgerð skipsins hefst að nýju eru aðilar sammála um að Hákon verði í launalausu leyfi frá 12. maí 2003 til 5. ágúst 2003. Á þessu tímabili hefur Þorbjörn Fiskanes hf. ekki rétt til þess að Hákon vinni við skipið og hann á ekki rétt til launa. Hákon getur þar af leiðandi stundað vinnu hjá öðrum aðilum á þessum tíma án afskipta Þorbjarnar Fiskaness hf.“ Með bréfi 12. júní 2003 sagði stefndi stefnanda upp störfum með hálfs mánaðar fyrirvara. Lengd uppsagnarfrests var síðar leiðrétt og út frá því gengið að stefnanda bæri þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Er í greinargerð stefnda vísað til þess hvað uppsögnina varðar að skipið hafi verið selt 11. júní 2003 og hafi áhöfninni ekki staðið til boða að starfa áfram á því. Afsal fyrir skipinu til nýs eiganda hafi verið gefið út 7. júlí 2003 og það afhent honum þann sama dag. Með bréfi stefnda 6. ágúst 2003 var stefnanda sent launauppgjör fyrir tímabilið 13. júní til 31. júlí 2003. Munu heildarlaun stefnanda fyrir þetta tímabili hafa numið 290.616 krónum. Kom fram í bréfinu að útreikningur launa væri miðaður við 40 stunda vinnuviku og að þeirri viðmiðun yrði haldið óbreyttri til 4. ágúst 2003. Eftir þann tíma og út uppsagnarfrestinn, það er til 12. september 2003, yrðu stefnanda greidd laun sem yrðu í samræmi við meðaltalslaun hans á síðustu 12 mánuðum fyrir uppsögn. Í greinargerð segir að með þessu hafi stefndi leitast við að tryggja að enginn ágreiningur gæti skapast um launauppgjör. Laun til stefnanda fyrir tímabilið 1. ágúst til 12. september 2003 innti stefndi síðan af hendi 25. september 2003 og námu þau 608.582 krónum. Nokkrum dögum áður hafði lögmaður stefnanda ritað stefnda bréf, þar sem því var haldið fram að vegna samkomulagsins sem aðilar gerðu í febrúar 2003 hafi stefnda ekki verið unnt að segja stefnanda upp störfum fyrr en í fyrsta lagi 5. ágúst 2003. Þá er því lýst í bréfinu að með sölu skipsins í júlí 2003 hafi ráðningu stefnanda fyrirvaralaust verið rift. Þar með hafi skapast bótaréttur honum til handa samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Var stefndi með bréfinu krafinn um greiðslu bóta með vísan til þessa lagaákvæðis og nam bótakrafan 2.206.384 krónum að teknu tilliti til launa að fjárhæð 290.616 krónur sem þá höfðu verið greidd samkvæmt framansögðu. Stefndi telur hins vegar að með framangreindri launagreiðslu sinni 25. september 2003 hafi hann að fullu gert upp við stefnanda og hafnar alfarið frekari kröfum hans.
II.
Stefnandi byggir kröfu sína í málinu aðallega á því að hann eigi rétt til bóta úr hendi stefnda vegna fyrirvaralausrar brottvikningar úr skiprúmi 8. júlí 2003. Þann dag hafi nýr 2. stýrimaður verið lögskráður í skiprúm á mb. Skarfi GK-666. Með þeirri ráðstöfun að nýr maður var ráðinn í stöðu stefnanda á skipinu hafi stefndi rift ráðningarsamningi sínum við stefnanda. Vísar stefnandi þessu til stuðnings til H.1983.1142. Með þessu hafi stofnast bótaréttur honum til handa samkvæmt 25. gr. sjómannalaga. Stefnanda hafi borið þriggja mánaða uppsagnarfrestur, sbr. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Við ákvörðun bóta beri annars vegar að taka mið af uppsagnarfresti og hins vegar af meðallaunum hans hjá stefnda á tímabilinu 1. janúar til 7. maí 2003, en þann dag hafi skipinu verið lagt tímabundið við bryggju.
Verði ekki á framangreint fallist byggir stefnandi bótakröfu sína á því að ráðningu hans hafi verið slitið 12. júní 2003 og að þann dag hafi stofnast bótaréttur honum til handa sem taki mið af þriggja mánaða meðallaunum, sbr. 25. gr. sjómannalaga. Komi hér bæði til sala á skipinu í júlí 2003 og ráðning á nýjum manni í stöðu stefnanda á því. Vísar stefnandi að því er þetta varðar til dóms Hæstaréttar 29. nóvember 2001 í máli nr. 197/2001. Af þeim dómi verði ráðið að Hæstiréttur telji að riftun á skiprúmssamningi, sem 25. gr. sjómannalaga taki til, leiði ávallt til bótaréttar sjómannsins sem miðist við fullt kaup í þrjá mánuði. Breyti engu um þá niðurstöðu hvort sjómanninum hafi áður verið sagt upp störfum og að skemmri tími sé eftir af ráðningartíma hans en þrír mánuðir.
Verði hvorki talið að bótaréttur til handa stefnanda hafi stofnast við uppsögina 12. júní 2003 né við sölu skipsins og lögskráningu annars manns í stöðu 2. stýrimanns á Skarfi Gk-666 8. júlí 2003 er á því byggt af hálfu stefnanda að sá réttur hafi í öllu falli stofnast 5. ágúst 2003, en þann dag hafi stefnandi samkvæmt samkomulagi aðila frá 25. febrúar sama árs átt að koma að nýju til starfa á skipinu. Þegar hinu launalausa leyfi stefnanda lauk hafi verið búið að ráða annan mann í stöðu stefnanda á skipinu og ekki hafi verið óskað eftir starfskröftum stefnanda. Riftun skiprúmssamnings hafi þannig í síðasta lagi átt sér stað 5. ágúst 2003.
Að því er fjárhæð bótakröfu varðar er á því byggt af hálfu stefnanda að heildarlaun hans hjá stefnda á tímabilinu 1. janúar til 7. maí 2003 hafi numið 2.722.110 krónum. Samkvæmt lögskráningarvottorði hafi stefnandi verið lögskráður á skipið í 104 daga á þessu tímabili. Meðallaun hans hvern lögskráningardag hafi þannig numið 26.174 krónum. Skaðabætur samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nemi því 2.355.660 krónum (90 x 26.174). Til frádráttar bótakröfu komi þau laun sem stefndi hefur greitt stefnanda, annars vegar 31. júlí 2003 og hins vegar 25. september sama árs, eða samtals 899.198 krónur. Eftir standi því 1.456.462 krónur. Við þá fjárhæð bætist síðan glötuð lífeyrisréttindi, 6%, að fjárhæð 87.388 krónur. Dómkrafa stefnanda nemi því 1.543.850 krónum. Útreikningi til stuðnings vísar stefnandi til framangreinds dóms Hæstaréttar í máli 197/2001 og dóms réttarins frá 12. desember 2002 í máli nr. 319/2002. Að því er varðar kröfu vegna glataðra lífeyrisréttinda vísar stefnandi til H.2000.87.
III.
Stefndi hafnar því að ákvæði 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga geti átt við í málinu, en málssókn stefnanda sé alfarið á því byggð að honum hafi verið vikið úr skiprúmi með ólögmætum hætti og eigi því rétt til skaðabóta samkvæmt ákvæðinu. Stefnanda hafi ekki verið vikið úr skiprúmi með ólögmætum hætti heldur hafi verið um hefðbundna uppsögn að ræða. Þá hafi stefnandi verið leystur undan vinnuskyldu meðan á uppsagnarfresti stóð. Í 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga sé tekið fram að ákvæði 1. mgr. eigi ekki við þegar atvik eru með þeim hætti sem í ákvæðinu greinir. Þau atvik sem 3. mgr. 25. gr. taki til séu nákvæmlega þau sömu og um sé fjallað í þessu máli. Þá stangist túlkun stefnanda á réttarstöðu skipverja við sölu skips einnig á við ákvæði 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga.
Það falli ekki undir ólögmæta uppsögn samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga þegar áhafnarskipti verða á skipum vegna sölu þeirra. Þá skapi það ekki sjálfstæðan rétt til skaðabóta að stefnanda var sagt upp þann 12. júní 2003 og það að nýr aðili var skráður í stöðu stefnanda á skipinu af nýjum útgerðarmanni stofni ekki heldur til bótaréttar. Vísar stefndi hvað þetta varðar til dóms Hæstaréttar frá 4. október 2001 í máli nr. 165/2001, en þar sé leyst úr sambærilegu máli og sjónarmiðum, líkum þeim sem stefnandi hafi nú uppi, hafnað. Uppgjör stefnda á launum í uppsagnarfresti til stefnanda byggi á þessum dómi og sé fullkomlega í samræmi við hann.
Stefndi byggir á því að H.1983.1142 geti ekki haft þýðingu í þessu máli, enda sé um gerólík tilvik að ræða. Þá hafnar stefndi því einnig að bótarétti stefnanda verði fundin stoð í dómi Hæstaréttar frá 29. nóvember 2001 í máli nr. 197/2001.
Verði talið að stefnandi eigi rétt til bóta úr hendi stefnda mótmælir stefndi útreikningi þeirra samkvæmt málatilbúnaði stefnanda. Útreikningurinn sé ekki í samræmi við framangreindan dóm í máli nr. 197/2001, sem stefnandi hafi sjálfur vísað til. Vilji stefnandi finna út meðallaun á mánuði eða meðallaun á dag verði hann að deila tekjum sínum á ráðningardaga en ekki lögskráningardaga. Samkvæmt gögnum sem stefndi hafi lagt fram hafi meðallaun stefnanda á dag tímabilið 13. júní 2002 til 12. júní 2003 numið 13.391 krónu. Þá mótmælir stefndi kröfu um greiðslu á 6% aukatillagi vegna lífeyrisréttinda. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi glatað lífeyrisréttindum. Loks mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda.
IV.
Svo sem fram er komið gegndi stefnandi starfi 2. stýrimanns á mb. Skarfi GK-666, sem þá var í eigu stefnda og gerður út af félaginu. Er ágreiningslaust að ráðning stefnanda var ekki bundin við ákveðinn tíma. Með bréfi stefnda 12. júní 2003 var stefnanda sagt upp störfum. Var upphaflega miðað við af hálfu stefnda að stefnanda bæri hálfs mánaðar uppsagnarfrestur, en síðar á því byggt að uppsagnarfrestur hans væri þrír mánuðir. Ástæða uppsagnarinnar var sala á skipinu. Er óumdeilt að nýr eigandi skipsins óskaði ekki eftir starfskröftum stefnanda og var nýr stýrimaður ráðinn á það í stað stefnanda 8. júlí 2003.
Krafa stefnanda í málinu byggist alfarið á því að stefndi hafi rift ráðningu hans með ólögmætum hætti og að um slíka riftun gildi ákvæði 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Eigi hann því rétt á bótum samkvæmt ákvæðinu, sem miðist við þriggja mánaða uppsagnarfrest og meðallaun hans á tímabilinu 1. janúar til 7. maí 2003. Er riftunardagur aðallega talinn vera 8. júlí 2003 og er sá dagur tengdur sölu skipsins og ráðningu á nýjum stýrimanni í stað stefnanda, til vara uppsagnardagur 12. júní 2003, en að því frágengnu 5. ágúst sama árs, en upphaflega var miðað við að stefnandi kæmi þá að nýju til starfa á skipinu.
Í samkomulagi málsaðila frá 25. febrúar 2003 fólst að skipið yrði ekki gert út á tímabilinu 11. maí til 5. ágúst 2003. Samkomulagið girti ekki fyrir rétt stefnda til að grípa á þessu tímabili til uppsagnar á skiprúmssamningi stefnanda með lögmæltum uppsagnarfresti og án skerðingar á lög- og samningsbundnum ráðningarkjörum hans. Stefnanda var sagt upp störfum á skipinu með þriggja mánaða uppsagnarfresti samhliða sölu þess og greiddi stefndi honum laun meðan á frestinum stóð. Kom aldrei til þess að reynt gæti á ákvæði 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga í löskiptum aðila.
Að framangreindu virtu er fallist á það með stefnda að ekki komi til álita að dæma stefnanda bætur samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga. Fær dómurinn ekki séð að þeir dómar Hæstaréttar sem stefnandi hefur vísað til, bótakröfu sinni til stuðnings, standi þessari niðurstöðu í vegi. Að þessari niðurstöðu fenginni telst stefnandi ekki hafa hreyft athugasemdum vegna þess uppgjörs á launum til hans sem þegar hefur verið fram. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga er stefndi alfarið sýknaður af kröfum stefnanda.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Mál þetta dæmir Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Þorbjörn-Fiskanes hf., á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Hákons Valssonar.
Málskostnaður fellur niður.