Hæstiréttur íslands

Mál nr. 43/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldskröfu hafnað


Miðvikudaginn 7

 

Miðvikudaginn 7. febrúar 2001.

Nr. 43/2001.

Sýslumaðurinn á Höfn

(Páll Björnsson sýslumaður)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

                                                     

Kærumál. Gæsluvarðhaldskröfu hafnað.

X var borinn sökum um að hafa í þrígang unnið spjöll á eignum á jörðinni H. Ekki var talin alveg næg ástæða til að X sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli c. eða d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Var því staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu S um að X sætti gæsluvarðhaldi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 31. janúar 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. febrúar nk. kl. 16.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er varnaraðili borinn sökum um að hafa unnið ásamt þremur nafngreindum ungmennum stórfelld spjöll á íbúðarhúsi að H í Sveitarfélaginu Y og innanstokksmunum þar aðfaranótt 30. desember 1999. Sóknaraðili kveður tjón af þessum spjöllum hafa numið 1.606.738 krónum. Í annan stað er varnaraðili grunaður um að hafa orðið valdur að því að sama íbúðarhús brann að morgni 12. janúar 2001 með því að hafa brotist inn í húsið og skilið þar eftir logandi kerti án kertastjaka á tréborði við timburvegg. Sóknaraðili kveður húsið, sem hafi verið nýtt af eigendum þess sem sumarhús, hafa brunnið til kaldra kola, en ætla megi að tjón af því sé allt að 20.000.000 krónur. Sóknaraðili segir varnaraðila jafnframt undir grun um ölvunarakstur við sama tækifæri. Í þriðja lagi er varnaraðili sakaður um að hafa ásamt tveimur nánar tilgreindum ungmennum farið enn að H aðfaranótt 28. janúar 2001, brotist þar inn í geymslu og útihús, stolið verkfærum og tekið síðan tvær gamlar bifreiðir, sem þau hafi að endingu skemmt, meðal annars með því að kveikja í annarri þeirra. Kveður sóknaraðili fjártjón af þessari háttsemi að líkindum óverulegt.

Sóknaraðili telur þessi ætluðu brot varnaraðila aðallega varða við 1. mgr. og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en kröfu um gæsluvarðhald reisir hann á ákvæðum c. og d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þegar héraðsdómari tók kröfuna fyrir á dómþingi 30. janúar 2001 gekkst varnaraðili að mestu við sakargiftum, en mótmælti að sér yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Féllst héraðsdómari á þau mótmæli með hinum kærða úrskurði. Fyrir liggur í málinu að eftir uppsögu úrskurðarins var með öðrum úrskurði lagt á varnaraðila bann samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, við því að hann komi allt til 30. maí 2001 inn fyrir landamerki H, að undanskilinni för um þjóðveg gegnum land jarðarinnar. Málsaðilar una þeim úrskurði.

Í sakavottorði varnaraðila kemur fram að hann hefur tvívegis hlotið dóm fyrir eignaspjöll, á árunum 1994 og 1997, og eitt skipti fyrir brennu, á árinu 1995. Grunur beinist nú að varnaraðila samkvæmt áðursögðu um þrjú slík brot, eitt í árslok 1999 og tvö með skömmu millibili rúmu ári síðar. Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að síðastgreindu brotin beindust af óskýrðum ástæðum öll að sömu fasteign. Varnaraðila hefur verið bönnuð koma að henni. Að þessu gættu er ekki alveg næg ástæða til að taka til greina kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði sviptur frelsi með gæsluvarðhaldi á grundvelli c. eða d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Allur kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 31. janúar 2001.

Lögreglustjórinn á Y hefur með vísan til c- og d-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 krafist þess, að X, kt. [...], verði úrskurðaður í gæsluvarðhald þar til dæmt hefur verið í þeim sakamálum, sem lögregla hefur til meðferðar á hendur honum, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 28. febrúar 2001 kl. 16.00.

Tilefni kröfu þessarar eru eftir því, sem segir í greinargerð lögreglustjórans á Y, eftirtalin þrjú lögreglumál:

1. Mál lögreglu nr. 29-2000-4. Í desember 1999 fór Snorri ásamt þremur félögum sínum að bænum H. Þeir félagar gengu berserksgang innan dyra og unnu stórfellt tjón á húsi og innanstokksmunum, meðal annars með skotvopni og bareflum. Sett hefur verið fram bótakrafa í málinu að fjárhæð kr. 1.606.738 vegna skemmdanna, sem hljóti að teljast miklar í skilningi 2. mgr. 257. gr. laga nr. 19/1940. Kærði X þverneitaði lengi vel að hafa átt nokkurn þátt í þessu broti, þar til hann loks viðurkenndi þátt sinn í verknaðinum fyrir lögreglu þann 13. janúar s.l. um leið og mál nr. 29-2001-5 upplýstist.

2. Mál lögreglu nr. 29-2001-5. Þann 12. janúar s.l. brann íbúðarhúsið á H til kaldra kola. Við rannsókn málsins beindist grunur að kærða X, en bifreið hans fannst oltin á þjóðvegi nr. 1 um 12 km frá H stuttu áður en vitni varð vart við eldinn á H. X viðurkenndi að hafa brotist inn í húsið á H og hafa farið um húsið með logandi kerti sem hann síðan skildi eftir logandi á litlu tréborði sem stóð í forstofunni við timburvegg og var kertið ekki í stjaka. Líklegt tjón af völdum brunans er á bilinu 15-20 milljónir, en endanlegu tjónmati er ekki lokið og bótakrafa ekki fyrir hendi.

3. Mál lögreglu nr. 29-2000-11. Aðfararnótt 28. janúar sl. fór kærði enn að H og nú með B, kt. [...] og E, kt. [...], sem segist vera kærasta kærða. Þau brutust inn í geymslu sem hafði verið bjargað frá brunanum þann 12. þ.m. og þar stálu þau verkfærum, en síðan fóru þau að útihúsum þar skammt frá, þar sem þau tóku tvær gamla bifreiðar traustataki, gangsettu þær, óku þeim um svæðið og stórskemmdu þær síðan, kveiktu síðan í annarri bifreiðinni og brenndust þeir B og X báðir við það. Ekki er ljóst hvað mikið eignatjón varð vegna framferðis þremenninganna í þessu máli, en það mun varla geta talist stórfellt.

Kærði var handtekinn í gær, 30. janúar kl. 8.30 og færður fyrir dóm kl. 21.50 sama dag.

Ofangreind mál snúast öll um eignaspjöll og tvö þeirra um mikil eignaspjöll í skilningi 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Í öllum málunum er um þjófnað og innbrot að ræða og að líkindum hefur verið um ölvunarakstur að ræða hjá kærða í einu tilviki. Í bréfi lögreglustjóra kemur fram, að kærði hafi lengst af verið mjög ósamvinnuþýður varðandi rannsókn á skemmdum á H í desember 1999. Það hafi ekki verið fyrr en við rannsókn á brunanum á H þann 12. þ.m.  að hann viðurkennir þátt sinn í skemmdunum í desember 1999.

Þann 19. þ.m. fór kærði á meðferðarheimilið Vog og stóð til að hann dveldi þar til 29. þ.m.  Kærði hætti í meðferðinni áður en hún var búin og framdi á þeim tíma síðasta brot sitt.

Samkvæmt sakavottorði hlaut kærði dóm í Héraðsdómi Vestfjarða 2. maí 1994, 6 mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot á 1. sbr. 2. mgr. 257. gr. alm. hgl. Hinn 28. desember 1995 hlaut hann dóm í Héraðsdómi Austurlands, fangelsi 12 mánuði fyrir brot gegn 244. og 164. gr. alm. hgl. Hinn 18. janúar 1997 hlaut hann dóm í Héraðsdómi Vesturlands, fangelsi 30 daga fyrir brot gegn vopnalögum. og 18. nóvember 1997 dóm í Héraðsdómi Reykjaness, fangelsi 13 mánuði þar af 10 mánuði skilorðsbundið í 3 ár fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 257. gr.  alm. hgl.

Eins og fram kemur í ofangreindum brotslýsingum sækir kærði hvað eftir annað í það að valda eignaspjöllum á H. Telur lögreglustjóri, að verja verði eigendur þess fyrir árásum kærða á eignir þeirra.

Af hálfu kærða er því haldið fram, að ekki hafi verið sýnt fram á, að hann hafi brotið neitt af sér á H 28. janúar sl., enda sé rannsókn þess atviks ekki lokið.

Ef skoðaður er brotaferill kærða og þar með þau brot, sem ekki hefur enn verið ákært fyrir, verður til þess að líta, að kærði hlaut síðast dóm í nóvember 1997, eða um tveimur árum áður en atvikið varð hinn 30. desember 1999. Enn leið eitt ár til atburðarins á H 12. janúar sl. Jafnframt verður að hafa í huga, að kærði var ekki einn að verki 30. desember 1999. Loks er þess að gæta, að ekki hafa verið lögð fram gögn sem sýna óyggjandi, að kærði hafi framið brot hinn 28. janúar sl. við komu sína að H. Að þessu athuguðu þykir ekki hafa verið sýnt fram á, að uppfyllt séu skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og verður því að hafna kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald kærða á þeim grunni.

Rök lögreglustjóra fyrir kröfu um gæsluvarðhald samkvæmt d-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, eru þau, að kærði hafi sótt hvað eftir annað í það að valda eignaspjöllum á H og verði því að verja eigendur þess fyrir árásum hans á eignir þeirra.

Fram hafa verð færð gögn um það, að kærði hafi komið þrisvar að H, 30. desember 1999, 12. janúar 2001 og 28. janúar 2001. Á þeim ferli, sem á undan fór, verður ekki séð, að H hafi komið við sögu. Enda þótt fyrir liggi viðurkenning kærða á þætti hans í tveimur þessara mála, verður ekki séð, að það komi að haldi, til þess að verja þá hagsmuni, sem um ræðir til frambúðar, að setja þennan kærða í gæsluvarð um eins mánaðar skeið, einkum þegar haft er í huga, að hann hefur ekki verið einn á ferð og ekki endilega forsprakki þeirra aðgerða, sem hér um ræðir.

Þykir því varhugavert að úrskurða kærða í gæsluvarðhald af þessum sökum og er kröfu um það hafnað.

Ekki er af hálfu lögreglustjóra gerð krafa um gæsluvarðhald yfir kærða á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, vegna rannsóknarhagsmuna.

Kröfu lögreglustjórans á Y um gæsluvarðhald yfir X er hafnað.

Málflutningsþóknun Hilmars Gunnlaugssonar, hdl. skipaðs verjanda kærða, 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð:

  

Kröfu lögreglustjórans á Y um að kærði X sæti gæsluvarðhaldi,  er hafnað.

 

Málflutningsþóknun skipaðs verjanda kærða, 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.