Hæstiréttur íslands

Mál nr. 85/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. febrúar 2008.

Nr. 85/2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Skorri Steingrímsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. febrúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. febrúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                    Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. febrúar 2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist þess í gær fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að X, kt. [...], [heimilisfang], Hafnarfirði, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16.00 föstudaginn 22. febrúar 2008.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess til vara að henni verði markaður skemmri tíma.

Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að lögreglan hafi um nokkurt skeið rannsakað innflutning á um 4,6 kg af amfetamíni og 600 g af kókaíni sem fannst við eftirlit lögreglu og tollgæslu í bifreið á vegum hraðflutningafyrirtækisins Z á Keflavíkurflugvelli þann 15. nóvember sl. en hin ætluðu fíkniefni komu í kassa frá Þýskalandi. Þá segir í kröfu lögreglunnar að lögreglunni hafi borist upplýsingar um að starfsmaður Z flutningaþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli hafi séð um að halda ákveðinni leið fyrir innflutning fíkniefna opinni og hafi hann verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar hafi þessi innflutningsleið verið notuð áður og til hafi staðið að nota hana áfram. Dagana 7.-11. janúar sl. hafi lögreglu borist áreiðanlegar upplýsingar um að nota ætti þessa innflutningsleið aftur, þ.e. að flytja fíkniefni til Íslands með Z flutningafyrirtækinu. Sendingar hafi verið taldar vera 3 talsins og hver þeirra átt að innihalda 3 kg af kókaíni. Þann 14. janúar hafi lögreglunni borist upplýsingar um að kærði hefði móttekið vörusendingu frá Z við Y í Hafnarfirði. Í þágu rannsóknar málsins hafi lögreglan handtekið 5 aðila þann 23. og 24. janúar sl., þ. á m. kærða og bróður hans, A Þeir hafi allir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald og renni gæsluvarðhaldsvist kærða út 11. febrúar 2008. Í skýrslu hjá lögreglu hafi kærði viðurkennt að vera viðriðinn innflutning fíkniefna og í þeim innflutningi hafi hann gegnt ákveðnu hlutverki. Mikið misræmi sé í framburði hinna handteknu aðila og lögreglan hafi við rannsókn málsins orðið þess áskynja að kærði hafi ekki gefið upp alla sína vitneskju í málinu en í skýrslu sinni 6. febrúar sl. hafi kærði borið að sendingar hafi verið fleiri en sú sem komið hafi til landsins 15. nóvember sl. Áður hafi kærði staðfastlega neitað, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi er gæsluvarðhaldskrafan var tekin fyrir, að hann hafi vitað um fleiri sendingar. Lögreglan hafi rökstuddan grun um að kærði hafi ásamt samverkamönnum sínum staðið að innflutningi á mun fleiri sendingum heldur en þeim tveimur sem að ofan greini.

Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi og enn sé nokkuð langt í land að henni ljúki. Lögregla hafi þegar sent beiðni um upplýsingar erlendis frá varðandi skipulag á innflutningi fíkniefnanna hingað til landsins. Þá sé lögreglan að rannsaka umfang þess innflutnings sem farið hafi í gegnum hraðflutningsþjónustuna Z á síðustu mánuðum og árum og hverjir séu eigendur og fjármögnunaraðilar þeirra sendinga. Rannsókn standi einnig yfir á tölvubúnaði sem haldlagður hafi verið við rannsókn málsins. Þá sé beðið eftir upplýsingum frá viðskiptabönkum kærða og viðskiptum hans við símfyrirtæki. Mikil vinna sé því fyrir höndum hjá lögreglu og telur lögreglan nauðsynlegt að hinir kærðu aðilar sæti gæsluvarðhaldi svo að þeir geti ekki rætt við samseka og önnur vitni. Þá þyki lögreglu ljóst að fleiri kunni að vera viðriðnir innflutning fíkniefnanna og sé eftir að taka skýrslu af þeim aðilum. Háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði laga nr. 65/1975 um ávana- og fíkniefni og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er viðamikil og er langt því frá lokið. Verður talið að uppfyllt sé skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Krafa lögreglustjórans verður því tekin til greina og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16.00 föstudaginn 22. febrúar 2008.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 22. febrúar 2008.