Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-61

A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lögregla
  • Handtaka
  • Líkamstjón
  • Orsakatengsl
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 18. febrúar 2020 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 31. janúar sama ár í máli nr. 113/2019: A gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslenska ríkið leggst ekki gegn beiðninni.

Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta og krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda gagnaðila vegna líkamstjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir af völdum lögreglu við handtöku árið 2010. Byggði leyfisbeiðandi á því að handtakan hefði verið ólögmæt og harkaleg.

Leyfisbeiðandi var handtekinn í sturtu á heimili annars manns og jafnframt lagður á gólfið. Samkvæmt vitnum var hann öskrandi og barði í veggi, kúgaðist og veitti lögreglumönnum ekki neina athygli. Þeir hefðu einnig talið nauðsynlegt að fjötra fætur hans því hann hefði sparkað ítrekað til þeirra. Skömmu síðar fékk leyfisbeiðandi krampa og kastaði upp. Lögreglumennirnir losuðu þá bæði hendur og fætur leyfisbeiðanda og lögðu hann í hliðarlegu. Stuttu síðar hætti leyfisbeiðandi að anda og hóf lögregla þá strax endurlífgunartilraunir og eftir um 20-25 mínútur greindist púls hjá honum og var hann þá fluttur á Landspítalann.

Með framangreindum dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Vísað var til þess að rökstuddur grunur hefði legið fyrir um að leyfisbeiðandi hefði verið valdur að eignaspjöllum og skapað hættu fyrir íbúa í húsi þar sem hann dvaldi.  Hefði því verið fullt tilefni til að handtaka hann og tryggja öryggi hans og annarra enda hefðu skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ótvírætt verið uppfyllt. Einnig var talið að lögreglu hefði verið heimilt að fara inn á heimilið þar sem leyfisbeiðandi var handtekinn enda hefði húseigandinn hvorki mótmælt því né gefið skýrt til kynna að hann væri því mótfallinn. Þá var tiltekið að ekkert hefði komið fram sem bent hefði til þess að valdbeitingu umfram það sem nauðsynlegt var hefði verið beitt við handtökuna. Að lokum taldi rétturinn að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á orsakatengsl milli aðgerða lögreglu við handtöku hans og þess heilsutjóns sem hann varð fyrir eða gert nægjanlega líklegt að slík orsakatengsl væru fyrir hendi.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína þar sem líkamstjónið sem hann hafi orðið fyrir við handtökuna hafi verið metið til 100 stiga miska og til 100% varanlegrar örorku. Þá telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem það varði frelsi manna sem varið sé af 67. gr. stjórnarskrárinnar og friðhelgi heimilis og einkalífs sem varið sé af 71. grein hennar. Þá hafi ekki áður reynt á hina hlutlægu ábyrgð í 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 með þeim hætti sem geri í þessu máli. Einnig reyni á rannsóknarskyldu lögreglu í málinu þegar afleiðingar handtöku eru verulegt líkamstjón eða dauði og þá hvaða áhrif það geti haft á sönnunarbyrði og hið frjálsa sönnunarmat dómara. Að lokum telur leyfisbeiðandi að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og dómurinn bersýnilega rangur að efni til þar sem ekki hafi verið tekið á málsástæðum hans í þeirri röð sem þær voru framsettar í stefnu. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar um yfirmatsgerð hafi ekki verið rétt og að sönnunarmat réttarins hafi verið rangt. Bendir leyfisbeiðandi einnig á að hann hafi óskað eftir því að yfirmatsmenn sem og önnur vitni kæmu aftur fyrir Landsrétt en þeirri beiðni hafi verið hafnað.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að úrslit þess varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda og að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á og þá einkum um tilhögun sönnunarbyrði. Eru umsókn leyfisbeiðanda því tekin til greina.