Hæstiréttur íslands

Mál nr. 165/2009


Lykilorð

  • Stefnubirting
  • Útivist
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. júní 2009.

Nr. 165/2009.

Rammar, hurða- og gluggasmiðja ehf.

(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)

gegn

Proventus ehf.

(enginn)

Stefnubirting. Útivist. Frávísun máls frá Hæstarétti.

R ehf. var í héraðsdómi dæmt til að greiða P ehf. skuld. R ehf. áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar, en P ehf. lét málið ekki til sín taka. Talið var að á vottorði stefnuvotts um birtingu áfrýjunarstefnu kæmi ekki skýrlega fram hvort sá staður sem stefnan hafi verið skilin eftir á hafi verið stjórnarstöð P ehf. í skilningi 4. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá hafi ekki verið tiltekið hvort eða eftir atvikum hvernig maður sá sem hittist þar fyrir tengdist P ehf. eða fyrirsvarsmanni þess. Mestu var þó talið skipta að eftir hljóðan vottorðsins yrði ekki ráðið hvort áfrýjunarstefnan hafi í raun verið birt. Af þessum sökum var málinu vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2009 og krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Meðal gagna, sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt, er vottorð stefnuvotts um birtingu áfrýjunarstefnu, en það er ritað á eyðublað, sem áfrýjandi virðist hafa fyllt út að hluta og stefnuvotturinn síðan handritað texta á. Í þeim hluta vottorðsins, sem sýnist stafa frá áfrýjanda, segir að viðtakandi stefnunnar sé „Proventus ehf., Hrísateigi 17 í Reykjavík“, fyrirsvarsmaður hans sé „Slawomir Halian Kondonikolau, lögheimili í Póllandi“, en tilgreint heimilisfang sé „lögheimili“. Í reit með yfirskriftinni „fyrir hverjum birt“ er eftirfarandi handritað: „Þórður Sigurðsson neitaði að taka við stefnunni, en ég skildi hana eftir“. Í öðrum reit, sem ætlaður er upplýsingum um tengsl viðtakandans við þann, sem birting beinist að, er handritað „á starfstöð fyrirtækisins“. Loks er tiltekið í vottorðinu að þetta hafi verið gert að Hrísateigi 17 í Reykjavík þriðjudaginn 28. apríl 2009 kl. 19.40.

Eins og framangreint vottorð stefnuvotts er gert úr garði kemur ekki skýrlega fram hvort á Hrísateigi 17 í Reykjavík sé að finna stjórnarstöð stefnda í skilningi 4. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er í engu tiltekið hvort eða eftir atvikum hvernig áðurnefndur Þórður Sigurðsson tengist stefnda eða fyrirsvarsmanni hans. Mestu skiptir þó að eftir hljóðan vottorðsins verður ekki ráðið að áfrýjunarstefnan hafi í raun verið birt. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Áfrýjanda verður ekki dæmdur málskostnaður.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2009.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. febrúar sl., er höfðað með stefnu birtri 21. maí 2008, af Proventus ehf., Ármúla 15, Reykjavík, á hendur Römmum, hurða- og gluggasmiðju ehf., Þverholti 9, Mosfellsbæ.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.464.120 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af fjárhæðinni frá 28. desember 2007 til greiðsludags. Krafist er vaxtavaxta skv. 12. gr. vaxtalaga sem leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Þá er krafist máls­kostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er krafist lækkunar á dómkröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.

II.

Aðilar málsins gerðu með sér samning, sem frammi liggur í málinu á dskj. nr. 4, um leigu starfsmanna. Samkvæmt samningi skyldi stefnandi leigja stefnanda starfsmennina Adam Jaskolski og Roman Drosti til reynslu á tímabilinu frá 23. til 30. október 2007. Yrði stefndi sáttur við reynslu sína af starfsmönnunum myndi samn­ingurinn framlengjast sjálfkrafa og gilda í sex mánuði frá 30. október 2007 til og með 29. apríl 2008. Ekki er ágreiningur með aðilum málsins að frá þessum samningi var gengið og hann undirritaður af fyrirsvarsmönnum aðila málsins.

Þá liggur frammi í málinu óundirritað eintak af samningi milli aðila málsins á dskj. nr. 12, þar sem fram kemur að stefndi leigi af stefnanda starfsmennina Gunnar Rubin og Tadeusz Groth. Leigutími starfsmanna er samkvæmt þessum samningi sagður vera á reynslu frá 6. til 9. nóvember 2007, en yrði stefndi sáttur við reynslu sína af mönnunum þann tíma myndi samningurinn framlengjast sjálfkrafa og gilda í sex mánuði frá 6. nóvember 2007 til og með 5. nóvember 2008.

Stefnandi krefur stefnda um greiðslu samkvæmt reikningi, sem hann segir vera tilkominn vegna leigu stefnda á starfsmönnum frá stefnanda. Samkvæmt reikn­ingnum, sem frammi liggur á dskj. nr. 3, krefur stefnandi um greiðslu fyrir vinnu starfsmannanna Roman Drosti, Gunnar Rubin og Tadeusz Groth.

Aðilar málsins eru sammála um að Adam Jaskolski hafi aldrei komið til starfa hjá stefnda. Þá greinir hins vegar á um að hvaða marki stefnandi hafi fullnægt skyldu sinni samkvæmt samningi á dskj. nr. 4 með því að leigja starfsmanninn Roman Drosti til stefnda, en stefndi heldur m.a. fram að starfsmaðurinn hafi aldrei starfað fyrir stefnda heldur fyrirtækið Pappi.is ehf. Þá heldur stefndi því fram að starfs­mennirnir Gunnar Rubin og Tadeusz Groth hafi aldrei komið til starfa hjá stefnda. 

Við aðalmeðferð málsins gáfu tveir fyrirsvarsmenn stefnanda skýrslu fyrir dómi, sem og fyrirsvarsmaður stefnda.

III.

Stefnandi kveðst eiga kröfu á hendur stefnda byggða á reikningi sem sé tilkominn vegna leigu á starfsmönnum frá stefnanda. Reki stefnandi starfsmanna­leigu og samkvæmt samningi aðila hafi stefndi leigt pólska starfsmenn af stefnanda. Í leigusamningi sé fjallað um starfslýsingu, samningstíma, vinnutíma, tímagjald, tíma­skráningu, greiðslur, trúnað, tryggingar o.fl. Í lið um samningstíma komi fram að starfsmennirnir séu til reynslu frá 23. til 30. október 2007, þ.e. í eina viku. Verði stefndi ánægður með mennina framlengist samningstíminn sjálfkrafa og gildi í sex mánuði. Óski stefndi ekki eftir framlengingu á samningnum þurfi að segja honum upp með 14 daga fyrirvara, ella framlengist samningurinn ótímabundið og sé þá upp­sagnarfrestur tveir mánuðir. Tímagjald sem stefndi hafi átt að greiða stefnanda hafi verið 2.200 krónur, auk virðisaukaskatts, fyrir hvern unnin tíma starfsmanns. Reikn­ingur á dskj. nr. 4 sé vegna vinnu þriggja manna á tímabilinu 23. október 2007 til og með 8. desember 2007. Alls sé krafið um greiðslu tímagjalds vegna vinnu mannanna í 560 stundir á tímabilinu. Veittur hafi verið afsláttur frá því verði sem samið hafi verið um í samningi.

Stefnandi vísar til meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, en reglan fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 51. gr. laga nr. 50/2000 og 28. gr. laga nr. 42/2000. Um gjalddaga kröfu er vísað til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefndi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

IV.

Stefndi mótmælir því að hann hafi fengið starfsmenn á leigu frá stefnanda. Atvik hafi verið með þeim hætti að til hafi staðið að stefndi fengi starfsmenn á leigu frá stefnanda vegna verkefnis sem hann hafi ætlað að taka að sér. Af þeim ástæðum hafi samningur á dskj. nr. 4 verið gerður. Skömmu eftir undirritun samningsins hafi komið í ljós að ekki yrði af því verkefni á vegum stefnda og af þeim ástæðum hafi hann hætt við að leigja starfsmennina af stefnanda. Stefndi sé ekki með neina starfsemi og því enga starfsmenn í vinnu. Hafi hann því ekki haft þörf fyrir að leigja starfsmenn í vinnu. Annað fyrirtæki sem fyrirsvarsmaður stefnda hafi starfað fyrir, Pappi.is ehf., hafi því ætlað að taka umrædda starfsmenn á leigu, en þeir lítið sem ekkert skilað sér til vinnu og ekki nýst í þau störf sem fela hafi átt þeim. Þeir starfsmenn sem sendir hafi verið Pappa.is ehf. frá stefnanda hafi því unnið lítið sem ekkert á vegum félagsins og því hafi fyrirsvarsmaður stefnda gert ráð fyrir að engar kröfur yrðu vegna málsins. Þá hafi fyrirsvarsmanni stefnda ekki borist vinnutíma­skýrslur sem reikningur stefnanda gæti verið byggður á og því síður slíkar skýrslur samþykktar af honum fyrir Pappa.is ehf. og hvað þá stefnda.

Krafa stefnda um sýknu byggist aðallega á því að kröfunni sé beint að röngum aðila. Viðkomandi starfsmenn hafi aldrei starfað fyrir stefnda heldur Pappa.is ehf. og stefnanda verið fullkunnugt um það. Framlagður samningur milli stefnanda og stefnda hafi aðeins verið gerður með þeim fyrirvara að af þeim verkefnum yrði sem nýta hafi átt starfsmennina til. Það hafi ekki gengið eftir og starfsmennirnir því aldrei komið til stefnda. Stefnandi hafi á hinn bóginn leigt Pappa.is ehf. starfsmenn í stuttan tíma án þess að störf þeirra nýttust fyrir það félag og því hafi félagið neitað greiðslu fyrir leiguna.

Krafa um sýknu byggist til vara á því að umkrafin stefnufjárhæð sé röng og þeir starfsmenn sem krafist sé leigugjalds fyrir hafi ekki innt af hendi þá vinnutíma sem reikningurinn byggist á. Auk þess hafi þeir ekki uppfyllt neinar kröfur hvað varði menntun og hæfni í starfi svo sem lofað hafi verið af stefnanda. Því eigi stefnandi ekki rétt á greiðslu í samræmi við stefnukröfur.

Af hálfu stefnda sé bent á að krafa stefnanda sé ekki studd neinum gögnum og sé byggt á því að til að fallast megi á stefnukröfur, eins og þær séu settar fram af hálfu stefnanda, þurfi stefnandi að framvísa tímaskýrslum samþykktum af stefnda. Því sé ekki til að dreifa í málinu. Þegar af þeirri ástæðu eigi að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Sé um þetta atriði m.a. vísað til samnings aðila, en stefnandi hafi ekki fylgt ákvæðum um skráningu og samþykki vinnutíma sem þar komi fram.

Stefndi vísar til meginreglna kröfuréttar. Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til laga nr. 91/1991.

IV.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi beini kröfu sinni að röngum aðila. Viðkomandi starfsmenn hafi ekki starfað fyrir stefnda heldur félagið Pappa.is ehf., sem fyrirsvarsmaður stefnda sé einnig fyrirsvarsmaður fyrir.

Í máli þessu liggur frammi samningur á dskj. nr. 4 um leigu starfsmannanna Adam Jaskolski og Roman Drosti. Er ekki ágreiningur um að samningur þessi taki til stefnanda sem leigusala og stefnda sem leigutaka. Þá er ekki ágreiningur um að samningur þessi sé undirritaður af aðilum þessa máls. Ekki er neinum sönnunar­gögnum fyrir að fara um að aðilaskipti hafi orðið að samningi þessum að því er leigutaka varðar öðrum en staðhæfingum stefnda, sem stefnandi hefur mótmælt. Hefur stefnda með þessu ekki tekist sönnun þess að aðilaskipti hafi orðið að samningnum og að stefnandi beini þar með kröfu sinni að röngum aðila. 

Varakrafa stefnda er á því reist að umkrafin fjárhæð samkvæmt reikningi sé röng og að þeir starfsmenn sem krafist sé leigugjalds fyrir hafi ekki innt þá vinnutíma af hendi sem reikningurinn er byggður á.

Samkvæmt samningi á dskj. nr. 4, undir lið um tímaskráningu, skyldi stefndi senda stefnanda útfyllt eyðublað með vinnustundum starfsmanns liðinnar vinnuviku í upphafi næstu viku á eftir. Skyldi vinnustundafjöldi staðfestur af verkstjóra stefnda eða öðrum sem staðfest gat þær fyrir hönd stefnda. Bærist skýrslan ekki á réttum tíma frá stefnda væri stefnanda heimilt að áætla tímafjölda og gera stefnda reikning í samræmi við það. Að því er starfsmanninn Roman Drosti varðar liggja á dskj. nr. 11 frammi vinnuseðlar sem skráðir eru á nafn Roman Drosti. Hefur fyrirsvarsmaður stefnda staðfest að hafa ritað undir vinnuseðla starfsmannsins og er tímafjöldi samtals 49 stundir. Að því er þennan starfsmann varðar er í starfslýsingu á dskj. nr. 4 við það miðað að starfsmaðurinn komi til starfa sem iðnverkamaður. Hefur stefnda ekki tekist að sýna fram á að hann hafi gert aðrar sérstakar hæfniskröfur varðandi þennan starfsmann. Í ljósi þessa er reikningur á dskj. nr. 3 lögmæltur að því er varðar leigu á starfsmanninum Roman Drosti.

Að því er kröfu stefnanda varðandi starfsmennina Gunnar Rubin og Tadeusz Groth varðar og sönnun þess hvort þeir hafi komið til starfa og innt samtals 511 vinnustundir af hendi í þágu stefnda á grundvelli samnings liggur fyrir að stefndi hefur í greinargerð viðurkennt að hafa fengið fleiri en einn starfsmann til starfa frá stefnanda. Þá lýsti fyrirsvarsmaður stefnda yfir í aðilaskýrslu að hann myndi eftir starfsmanninum Tadeusz og að starfsmaðurinn hafi unnið fyrir Pappa.is ehf. Loks liggja frammi á dskj. nr. 11 vinnuseðlar í nafni Tadeusz Groth og á dskj. nr. 14 yfirlit um tíma unna af Gunnar Rubin sem fram koma í skjali sem virðist vera tölvupóstur frá Gunnari til stefnanda 17. og 18. desember. Virðist sem tímar starfsmannanna hafi verið teknir saman á heildaryfirliti sem fylgir dskj. nr. 14. Þegar þessi gögn eru virt og litið er til þess að stefndi hafði sannanlega áður gert samning við stefnanda um leigu starfsmanna verður talið að stefnanda hafi tekist sönnun þess efnis að gerður hafi verið munnlegur samningur milli aðila þessa máls um leigu á starfsmönnunum Gunnari Rubin og Tadeusz Groth og að samningurinn hafi verið sama efnis og samningur á dskj. nr. 4.

Þó svo heildaryfirlit um vinnutíma starfsmanna sem fylgir dskj. nr. 14 sé ekki alls kostar í samræmi við vinnuseðla í nafni Tadeusz Groth og tilgreinda tíma í tölvupósti Gunnars Rubin til stefnda verður í niðurstöðu að líta til þess að samkvæmt ákvæði um tímaskráningu í samningi aðila gat stefnandi áætlað tímafjölda starfs­manna bærust staðfestar skýrslur um vinnustundafjölda starfsmanna ekki á réttum tíma frá stefnda. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi látið stefnda í té skýrslur um vinnustundafjölda starfsmannanna í samræmi við samning aðila. Í því ljósi verður miðað við að stefnanda hafi verið heimilt að áætla vinnustundafjölda starfs­manna og að reikningur á dskj. nr. 3 sé byggður á slíkri áætlun. Í samræmi við þetta verða dómkröfur stefnanda teknar til greina. 

Reikningur á dskj. nr. 3 er með gjalddaga 21. desember 2007 og skráðan eindaga 28. desember 2007. Í stefnu miðar stefnandi við að gjalddagi reikningsins hafi verið 28. desember 2007. Í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 reiknast dráttarvextir samkvæmt III. kafla laganna af fjárhæðinni frá 28. desember 2007.

Með vísan til þessara úrslita málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Rammar, hurða- og gluggasmiðja ehf., greiði stefnanda, Proventus ehf., 1.464.120 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38/2001 frá 28. desember 2007 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.